Fór aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun og nú með sjósundsdótið með mér í skottinu. Var á mótökuendanum þar til við vorum leysta af rúmlega tíu. Kláruðum fyrstu daglegu framleiðsluna og vorum langt komin með aukaverkefni sem "datt" inn á vélina í fyrradag og lá svolítið á. Skiptum okkur ekki í mat en náðum engu að síður að byrja aðeins á einni af endurnýjununum. Rétt upp úr tvö þurfti ein okkar að fara og tæpum klukkutíma síðar önnur svo þá var framleiðslu sjálfhætt þar sem bara ég og bókarinn vorum eftir. Reyndar var annar kerfisfræðingurinn á svæðinu og hann telst með en við ákváðum engu að síður að ganga frá vélinni og deildinni og fara inn í helgina. Var að vaða út í sjó korter fyrir fjögur og tuttuguogfimm mínútum síðar settist ég í heita pottinn og sat þar í korter. Bríet kom í bæinn og byrjaði á því að skreppa í vinnuna til Davíðs Steins og bíða eftir að hann væri búinn. Ég var að glápa á imbann til klukkan að byrja að ganga tíu en eftirlét svo Bríeti stofuna og fór inn í rúm að lesa. Er langt komin með nýjustu Yrsubókina.
30.4.22
29.4.22
Föstudagur
Þar sem ég bauðst til að taka að mér yfirsetu vegna yfirferðar á vélinni ákvað ég að fara á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Tók sunddótið með mér og geymdi í skottinu. Flokkaði kennispjöld fram að kaffi. Vegna aukaverkefna á vél sem þurfti að klára fyrir tólf ákváðum við að skipta okkur í kaffi. Þær sem voru inn á vél héldu framleiðslu áfram þar til við tvær sem áttum vaktina eftir kaffi leystum þær af. Ég var á móttökuendanum. Vélin fór að vera með leiðindi fljótlega eftir að við tókum við og tafði okkur aðeins. Komum henni þó af stað fljótlega og kláruðum debetframleiðslu dagsins, tvö aukaverkefni og vorum byrjaðar á loka daglega verkefninu þegar við vorum leystar af. Strákarnir sem sjá um yfirferðina komu sem betur fer ekki alveg á slaginu tólf en þótt þeir hefðu gert það hefðu þeir bara þurft að bíða í uþb tuttugu mínútur eftir að fá vélina afhenta til yfirferðar. Úr eldhúsinu úr K2 voru sendir til okkar hamborgarar, einn á mann hvort sem maður er í mataráskrift eða ekki. Mestan tímann af yfirsetunni flokkaði ég kennispjöld. Stelpurnar tíndust heim ein af annarri. Ein var þó alveg til klukkan að verða hálfþrjú. Kerfisfræðingurinn var hins vegar allan tímann á svæðinu. Í yfirferðarlok hjálpaði hann mér að endurheimta aðgangsorðið mitt á vélinni og ná í kort inn á lager til að testa vélina.
Fór í sundhöll Reykjavíkur beint eftir vinnu og fékk meira að segja stæði fyrir framan. Byrjaði á að sitja rúmar fimm mínútur í kalda pottinum. Síðan fór ég í innilaugina og synti í tuttugu mínútur á innstu brautinni. Settist í heitar pottinn á svölunum og sat þar í rúmar átta mínútur. Færði mig svo niður og út og sat smástund á stól úti áður en ég fór upp úr og heim. Bjó til ommilettu úr fiskafgöngum í kvöldmatinn.
28.4.22
Stutt í helgi og mánaðamót
Á göngu minni í vinnuna í gærmorgun rakst ég ekki á neitt óvenjulegt og hitti heldur ekki enn einn köttinn. Ég var að flokka kennispjöld fram að kaffi. Eftir kaffi fékk ég kerfisfræðinginn til að aflæsa aðganginum á framleiðsluvélinni. En lykilorðið sem ég var að skipta um og skráði hjá mér á góðum stað virkaði samt ekki og ég læstist aftur úti. Bauð þeirri sem var inni með mér að skipta um enda en hún "lánaði" mér aðganginn sinn og hélt sig svo á móttökuendanum. Daglegri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Fór upp í mat með tveimur af samstarfskonum mínum sem skráðar eru í mat. Ég hef ekki verið skráð í mat í mörg ár, eða ekki síðan þetta áskriftarkerfi komst á, en einn vinnufélagi okkar sem er skráður er í fríi og skv kokkinum í Seðlabankanum er ekki verið að spá í hverjir koma bara að það eru sex skammtar skráðir fyrir RB-inga. Eftir hádegi var ég að flokka kennispjöld til klukkan þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í tæpa klukkustund áður en ég skrapp yfir í Sundhöllina. Fór beint á braut 4 í útilauginni og synti í rúmt korter. Eina ferð í kalda pottinn og endaði á gufubaði.
27.4.22
Sumardekkin undir
Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Hitti aðeins rófulausan kött rétt áður en ég fór yfir á gangbrautarljósunum yfir Miklubraut. Staldraði ekkert við og kötturinn elti mig ekki, sem betur fer. Framleiðsluvélin var með stæla. Þær sem höfðu verið aðeins lengur í gær, alveg til hálfsjö, höfðu ekki klárað það verkefni sem þær ætluðu sér. Ég átti að vera á ítroðsluendanum. Sló nýbreytt aðgangsorðið mitt rangt inn of mörgum sinnum og læstist því úti. Sú sem var í bókhaldinu í gær loggaði sig inn í staðinn og ég gat amk hlaðið inn daglegum verkefnum. Viðgerðarmaður kom á svæðið upp úr klukkan níu. Hluti af vandamálinu var að endurræsa þurfti ákveðinn hugbúnað og sem betur fer voru báðir kerfisfræðingarnir á svæðinu. Framleiðslan komst svo fljótlega í gang. Við sem vorum á vélinni vorum leystar af í kaffi um hálfellefu. Við fórum svo á undan í mat, en ekki fyrr en um tólf þó. Þegar við tókum við aftur var öllum daglegum verkefnum lokið svo við fórum beint í það verkefni sem kláraðist ekki í gær. Að ljúka því tók óvenju langan tíma og mín tilfinning var sú að þetta var bæði vélin og hráefnið sem voru með vesen. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar þessari framleiðslu var lokið. Verkefnunum sem lá á var samt ekki lokið en ég varð að drífa mig heim þar sem einkabílstjórinn svaraði ekki símanum. Kom heim rétt rúmlega fimm og hafði smá stund til að skipta um bol og fá mér smá hressingu áður en ég fór með bílinn á N1 við Fellsmúla til að sækja sumardekkin, láta setja undir og skilja nagladekkin eftir á dekkjahótelinu. Átti pantaðan tíma klukkan hálfsex og sá tími stóðst. Beið í tæpan hálftíma á meðan verið var að skipta um dekk og gat svo notað mér N1 afslátt Davíðs Steins með því að þylja upp kennitöluna hans. Dekkjaskiptin og dekkjahótelið kostaði mig rúmlega tólf þúsund með afslættinum, hefði annars farið yfir fjórtán þúsund. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Hagkaup í Skeifunni. Keypti súsíbakka handa brærunum og nokkrar dokkur af bómullargarni sem þvo má á 60°C, á tilboði.
26.4.22
Vinkonuhittingur
Labbaði í vinnuna í gærmorgun, þvert yfir Klambratún og þá leiðina. Rétt áður en ég beygði inn á Gunnarsbraut af Flókagötunni heilsaði köttur upp á mig sem elti mig svo næstum alla Gunnarsbrautina. Ég var í bókhaldinu í gær. Þegar ég var búin að prenta út og undirbúa fyrstu talningar fór ég með 16 flokkaða kassa af kennispjöldum í kennispjaldageymsluna og kom til baka með 15 óflokkaða kassa. Erum að flokka árin 2010-2011 og eigum því um fimm ár eftir þar til við komum að þeim stað þar sem við byrjuðum að flokka spjöldin eftir bönkum. Fékk skilaboð frá Ellu vinkonu um að hún væri í bænum og ef ég vildi og gæti gætum við hist á Grandhótel seinni partinn. Þegar ég sá skilaboðin sendi ég þumal og sagðist mæta. Tvær af okkur fjórum sem voru að vinna ákváðu að vera í vinnu þar til endurnýjun plasta sem renna út næstu mánaðamót væri lokið. Veit ekki hversu lengi þær þurftu að vera en kannski til klukkan að verða sex. Ég labbaði heim yfir Skólavörðuholtið og var komin rúmlega fjögur. Tæpum klukkutíma seinna skutlaði Oddur mér í vinkonuhittingin. Ella var stödd með nokkrum kennurum úr Egilsstaðaskóla í skólaheimsókn í bænum. Fóru í einn skóla á Suðurnesjunum í gær og fara í Langholtsskóla í dag. Hitti vinkonu mína og þrjá af átta öðrum kennurum í lobbýi hótelsins. Við skruppum á barinn þar sem var "Happy hour" milli fimm og sjö. Ella bauð mér upp á hvítvínsglas og ég bauð henni næsta umgang. Oddur sótti mig svo aftur um hálfsjö.
25.4.22
Mánudagur
Þrátt fyrir að hafa farið upp í rúm eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags og lesið í smá stund áður en ég fór að sofa svaf ég bara til klukkan átta í gærmorgun. Fór á fætur mjög fljótlega og eyddi deginum í netvafr, prjón, fótbolta og þáttaáhorf. Kláraði eina tusku og fitjaði upp á annarri. Var með bók við höndina en las svo ekkert fyrr en ég fór í háttinn um tíu.
24.4.22
Smá lottovinningur annan laugardaginn í röð
Klukkan var rétt að byrja að ganga átta þegar ég var komin á fætur í gærmorgun. Klukkutíma síðar var ég mætt í sundhöll Reykjavíkur. Byrjaði á því að setjast í kalda pottinn í um sjö mínútur. Svo fór ég upp í inni laugina og hafði innstu brautina alveg fyrir mig. Synti í hálftíma. Aðra hverja ferð á bakinu og fjórar ferðir skriðsund og amk 14 ferðir á bringunni. Settist smá stund í heitari pottinn upp á svölunum áður en ég fór aftur í kalda. Eftir stund í gufunni, þriðju ferðina í kalda og smá bekkjarsetu þvoði ég mér hárið áður en ég fór aftur heim og hellti mér upp á kaffi. Var lengi vel á báðum áttum hvort ég ætti að drífa mig austur en það sem hélt helst aftur af mér eru nagladekkin en ég festist líka yfir boltanum.
23.4.22
Laugardagur
Vaknaði tæpum hálftíma á undan vekjaraklukkunni. Slökkti á henni og dreif mig á fætur. Fór á bílnum í vinnuna. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og þurfti að byrja á því að skipta um lykilorð. Ekki var alveg jafnmikil framleiðsla í daglegu skránum og síðasta vetrardag. En þó var smá slatti í einni tegund þar sem plastbirgðir bárust þá og tappi var tekinn úr svo hægt væri að hleypa framleiðslu í gang. Þetta voru þó ekki nema rúmlega níutíu kort sem safnast höfðu upp á rúmum tveimur vikum. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Eftir hádegi var allt talið og unnið í endurnýjun á plasti sem búið er að geyma vegna birgðarstöðunnar. Við fengum semsagt smávegis af birgðum á miðvikudaginn var. Ekki nóg til að klára allt sem bíður en sumt af því þó og svo er von á meira plasti á næstu dögum. Sú sem var í bókhaldinu þurfti að fara um hálfþrjú en af því að það var kerfisfræðingur staddur hjá okkur, m.a. til að stilla af nýtt plast, gátum við framleitt til rúmlega þrjú áður en við gengum frá. Vorum samt ekki alveg búnar þá því þá þurftum við að aðstoða kerfisfræðinginn við breytingarnar. Eftir vinnu fór ég svo beinustu leið í sjóinn. Klukkan var að verða hálffimm þegar ég óð út í næstum hálfa leið til Kópavogs því það var háfjara. Sjórinn sagður 7°C og ég entist rúmar tuttugu mínútur í buslinu. Var bara helminginn af þeim tíma í heita pottinum á eftir. Áður en ég fór heim ætlaði ég að skreppa á Atlantsolíustöðina við Sprengisand en ég kom Bústaðameginn frá og þeim meginn er búið að loka vegna framkvæmda. Ég sá amk ekki í fljótu bragði að hægt væri að beygja til vinstri. Ég fór því alla leið í Hafnafjörð á stöðina við Kaplakrika til að fylla á tankinn.
22.4.22
Einn virkur dagur
Ég rumskaði upp úr klukkan fimm í gærmorgun. Rétt rúmlega klukkustund síðar ákvað ég að drífa mig bara á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég svo í stofusófann með fartölvuna í fanginu. Davíð Steinn kom á fætur rétt fyrir hálftíu. Hann átti ekki að vera mættur í vinnu fyrr en klukkan tíu. Ég skutlaði honum upp í Grafarvog og hleypti honum út við vinnustaðinn á slaginu tíu. Svo ákvað ég að prófa að fara í Grafarvogslaug. Þrátt fyrir að það séu rúmlega tuttugu ár síðan þessi laug var opnuð hef ég aldrei farið í hana áður. Aðstaðan alveg til fyrirmyndar. Kaldi potturinn kaldur og ágætur og ég byrjaði á því að fara í hann. Síðan synti ég í rétt rúmar tuttugu mínútur áður en ég fór aftur í kalda pottinn. Eftir þá ferð fór ég í pott sem merktur var 42-44°C. Svo fór ég aftur í kalda áður en ég fór í gufu. Á svæðinu eru bæði eimbað og gufubað og einnig smáhýsi með infrarauðum hitaljósum. Prófaði að setjast þar inn áður en ég fór upp úr og heim. Þegar heim kom skellti ég handklæðum í þvottavél og tók með mér þvott af Oddi af snúrunum með mér upp. Svo hellti ég mér upp á kaffi. Annars var gærdagurinn bara rólegur og góður. Heyrði aðeins í pabba seinni partinn og horfði á nokkra þætti.
21.4.22
Sumardagurinn fyrsti
Vaknaði á undan vekjaraklukkunni. Fór aftur á bíl í vinnuna. Ég var á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Dagleg framleiðsla fór yfir þúsund kort. Svo er að hellast yfir endurnýjun. Það er líka að koma hráefni til að klára þær endurnýjunarskrár sem hafa þurft að bíða. Það er bara spurning hvort það er nóg til að dekka líka daglegt. Var í vinnu til klukkan að ganga fimm. Ákvað þá að fara bara beint heim þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis í skottinu. Var að vafra á netinu og horfa á beinar útsendingar. Sendi Odd Smára að sækja bróður sinn í vinnuna. N1 sonurinn var mjög glaður að verða sóttur án þess að biðja um það.
20.4.22
Tannlæknaheimsókn
Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun með ýmislegt með mér í skottinu. Þar sem að ég þurfti að skreppa frá um tíu var ákveðið að ég væri í bókhaldinu frekar en framleiðslunni. Við vorum þrjár í vinnu og um níu kom svo sá kerfisfræðingur sem mun flytja með kortadeildinni þegar við förum yfir í seðlaverið við Sundaborg seinna á árinu. Þar með máttu hinar tvær halda framleiðslu áfram þegar ég fór til tannlæknisins. Það tók um klukkustund að gera við brotnu framtönnina og fylla aftur rótina á jaxlinum. Þegar ég kom til baka var ekkert stæði á neðra planinu laust svo ég lagði í gjaldstæði á Skúlagötunni móts við bakaríið. Debetframleiðslunni var lokið og stelpurnar voru að pakka. Ég kom mátulega til að prenta út listann fyrir hádegisframleiðsluna. Skrapp upp í mat með þeirri sem er komin í mataráskrift. Borgað er fyrir 6 frá RB í mötuneyti Seðlabankans en amk tveir eru í fríi og þá má nýta sér það. Hættum vinnu um hálfþrjú. Þá skrapp ég á bókasafnið og skilaði öllum fimm bókunum. Fékk mér fimm bækur í staðin og ein af þeim er skammtímalánsbók; Lok lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur. Af safninu ákvað ég að skreppa í Vesturbæjarlaugina. Synti ekki nema í tíu mínútur og fór aðeins einu sinni í kalda pottinn. Áður en ég fór heim kom ég svo við í Fiskbúð Fúsa.
19.4.22
Stutt en slitin vinnuvika
Ég var vöknuð um átta í gærmorgun. Í stað þess að klæða mig strax fór ég að lesa. Kláraði síðustu bókasafnsbókina og byrjaði svo loksins á einni af jólabókunum; Djúpið eftir Benný Sif Ísleifsdóttur. Klæddi mig ekki fyrr en um tíu leytið. Bríet var enn sofandi í stofunni og hafði talað um að sofa til ellefu. ég hélt mig því bara í herberginu mínu eftir morgunverkin á baðherberginu. Upp úr klukkan hálfellefu hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér hressingu með. Skrifaði á fermingakort og setti seðil í umslagið inn í kortinu. Stuttu fyrir eitt urðum við frænkur samferða á mínum bíl yfir í Síðumúla þar sem fermingarveislan var haldin. Fermingarbarnið hafði valið að hafa hamborgaraveislu. Það er uppáhaldsmaturinn hans og er vist orðið nokkuð algengt. Á eftir var boðið upp á kaffi, kransaköku, tertu, sörur og marglitar smákökur. Veislunni lauk um hálffjögur. Frænka mín kom heim með mér og var alveg róleg til klukkan að verða hálfátta en þá kvaddi hún og lagði af stað austur.
18.4.22
Bíl- og göngutúr með vinum
Var komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun. Bríet var búin að skila sér "heim" úr útstáelsi svo það var lokað inn í stofu. Ég vafraði aðeins um á netinu en svo hélt ég áfram að lesa síðustu ólesnu bókina sem er í fórum mínum af bókasafninu; Síðasti naglinn eftir Stefan Ahnheim. Um ellefu hringdi afmælisbarn gærdagsins en við höfðum sammælst um að ég kæmi yfir til þeirra um hálfeitt. Hún var að bjóða mér að koma aðeins fyrr eða upp úr klukkan hálftólf. Þegar þangað kom beið mín smurð flatkaka, kaffi og döðluterta með rjóma. Tæpum klukkutíma síðar lögðum við af stað í bíltúr, þau hjónin og ég. Við fórum á þeirra bíl, hann keyrði en mér var boðið að sitja í farþegasætinu fram í. Leiðin lá til Grindavíkur og þaðan yfir á vinsælustu gönguleiðina að gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Þarna er alltaf eitthvað að fólki en í gær var samt ekkert kraðak. Þúsund krónur kostar að leggja á bílastæðunum. Við löbbuðum alls ekki alla leið þangað sem gýgarnir sáust en alveg upp að hraunjaðri, rúmlega tveggja kílómetra leið frá bílastæðinu. Þegar við komum til baka fengum við okkur hressingu, kaffi og flatköku með hangiketi. Síðan lá leiðin að Reykjanesvita. Stoppuðum aðeins við Gunnuhver en þegar við komum að vitasvæðinu var einnig rukkað þúsund krónu bílastæðagjald þar. Ég var hvort sem er ekki í stuði til að labba meira og alls ekki upp hæðir þar sem var þverhnýpt niður hinum megin. Norsku vinkonu minni var líka orðið mál að pissa. Það varð því úr að ferðinni var haldið áfram til Keflavíkur. Þar komumst við vinkonur á klósett á einni bensínstöðinni. Mér fannst ég svo sem ekki vera í spreng en samt var gott að komast á salernið og tæma blöðruna. Rúntuðum svo aðeins um Keflavík áður en við brunuðum aftur í bæinn. Ég kvaddi þau fyrir utan heima hjá þeim og þegar ég kom heim var Davíð Steinn að elda kvöldmatinn. Bríet var að hitta vin og ætlaði að skutla honum til Keflavíkur. Hún hringdi og spurði hvort hún mætti bjóða honum að borða með okkur. Það var auðsótt mál.
Svo verð ég að segja frá því að þegar ég hringdi í pabba á laugardaginn var sagðist hann hafa skroppið í sund um morguninn. Starfsfólkið varð hissa að sjá hann en tók vel á móti honum.
17.4.22
Páskadagur
Var komin á fætur rúmlega hálfsjö. Tæpum klukkutíma síðar hleypti ég Davíð Steini út við N1 stöðina í Gagnveg í Grafarvogi og beið eftir því að hann færði mér kaffibolla út í bíl. Næst kom ég við í hraðbankanum í Landsbankaútibúinu við Borgartún. Þá lá leiðin upp í Sundhöll. Lagði á stæði við Austurbæjarskóla. Eins og mig grunaði var kominn tími til að endurnýja árskortið í sund. Sú sem afgreiddi mig rétt mér einnig penna til að merkja aftur kortið mitt. Korter yfir átta var ég komin ofan í kalda pottinn. Þar sat ég í rúmar fimm mínútur áður en ég ákvað að prófa gömlu innilaugina. Synti í rúmar tuttugu mínútur, helminginn af 550m á bakinu, 100m (tvær ferðir) skriðsund og afganginn bringusund. Fór svo í gamla heitar pottinn í nokkrar mínútur áður en ég fór aftur niður, út og í kalda pottinn. Endaði í gufubaði. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Næst lá leiðin á bílaþvottastöðina Löður við Fiskislóð. Var þar um það bil sem var verið að opna og var þriðji bíll dagsins í gegn. Svo kom ég við í Krónunni og gerði stórinnkaup áður en ég fór heim og gekk frá vörunum. Eftir að Bríet kom fram úr stofunni skömmu síðar fór ég þangað inn. Hlustaði á hádegisfréttir, horfði á leiki í enska og landsleikinn í handbolta. Bríet skrapp frá milli hálftvö og hálffimm að reka nokkur erindi og svo fór hún aftur á áttunda tímanum til að sækja frænda sinn úr vinnunni. Seinna um kvöldið skrapp hún út í einhverja heimsókn og var ekki komin aftur þegar ég fór inn í rúm um ellefu.
16.4.22
Á skutlvaktinni
Var komin á fætur um níu, fyrst af öllum í húsinu. Eftir morgunverkin á baðherberginu kveikti ég á einni tölvunni hans pabba og sat þar næsta klukkutímann. Þá fékk ég mér lýsi og harðsoðið egg. Settist svo aftur við tölvuna. Davíð Steinn og pabbi komu næst á fætur, um hálfellefu og Oddur Smári fljótlega eftir það. Lagði nokkra kapla áður en ég hellti mér upp á smá kaffi. Settist svo með kaffibollann, prjónana og bók inn í stofu. Bríet kom á fætur um hádegið. Þau Davíð Steinn fóru í langan göngutúr milli hálftvö og hálffjögur, komu til baka mátulega í kaffitímann. Oddur Smári gekk frá eftir kaffitímann. Ég var búin að taka þrjú frosin bleikjuflök úr frysti. Um sex setti ég upp hrísgrjón, kryddaði flökin og léttsteikti á pönnu. Davíð Steinn og Bríet gengu frá eftir kvöldmatinn og settu uppþvottavélina í gang. Ég horfði á fréttir, íþróttir og veður áður en við mæðginin þökkuðum fyrir okkur, kvöddum og héldum af stað heim á leið. Oddur sá um aksturinn og ég sat í aftursætinu. Hálftíma á eftir okkur kom Bríet en hún ætlar að fá að gista hérna fram á mánudag.
15.4.22
Föstudagurinn langi
Var komin á fætur um klukkan hálfníu í gærmorgun. Fór fljótlega niður í þvottahús að sækja þvott á snúruna. Annars var ég að vafra um á netinu til klukkan að verða ellefu. Davíð Steinn kom fram um hálftólf og Oddur rúmum klukkutíma síðar. Þá var ég farin að lesa og kláraði næstsíðustu bókina sem ég er með af safninu. Um hálftvö lögðum við mæðgin af stað austur. Pabbi var að leggja kapal og Bríet nývöknuð þegar við mættum þangað rétt fyrir þrjú. Pabbi skrapp fljótlega út í búð og ég hellti upp á kaffi. Frændsystkynin skruppu labbandi út í búð eftir kaffi. Þá var búið að loka þar. Þau keyptu sér eitthvað hjá Olís en Bríet og Davíð Steinn skruppu svo á hennar bíl austur í Hvolsvöll og keyptu þar páskaegg og malt.
Setti upp blómkál og lauk í gufupottinn um sex. Pabbi kveikti fljótlega upp í grillinu og ég bjó til piparsósu úr tveimur pökkum frá Toro. Maturinn var borðaður um sjö og það var einnig boðið upp á sætkartöflumús, hrásallat og gular baunir með. Pabbi var búinn að kaupa hvítvínsbelju og ég fékk mér í glas eftir matinn.
14.4.22
Annar landsleikur í annarri hópíþróttagrein
Varð mjög hissa þegar ég vaknaði við það að vekjarinn í gemsanum var að hringja. Hafði rumskað aðeins á sjötta tímanum en svo steinsofnað aftur. Ég fór á bílnum í vinnuna. Vorum bara þrjár svo við héldum okkur á sömum svæðum þar til daglegri framleiðslu lauk um hálftólf. Ég var á ítroðsluendanum. Ákvað svo að skreppa upp í mat með annarri hinni. Ég hef ekki verið í mataráskrift í nokkur ár eða eiginlega síðan þetta áskriftarkerfi var sett á. En það eru 6 skráðir í mat frá RB í mötuneyti Seðlabankans og amk tveir af þeim voru í fríi í gær svo mér var frjást að notfæra mér það. Það var mjög góður þorskur í matinn og ýmislegt girnilegt meðlæti sem hægt var að fá sér með. Hættum vinnu um hálfþrjú. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík og svamlaði í sjónum í uþb 15 mínútur. Kom heim um hálffjögur og kveikti fljótlega á sjónvarpinu til að fylgjast með umspili karlalandsliðsins í handbolta við Austuríki á útivelli.
Skólasystir strákanna úr Hlíðaskóla kom í heimsókn til að fá Odd til að hjálpa sér með smá skólaverkefni. Við Davíð Steinn fengum líka að taka þátt. En við áttum að spila BINGO í tölvunni hennar og segja svo hvað okkur fannst um forritið.
13.4.22
Í efsta sæti
Ég var vöknuð, klædd og komin fram korter yfir sex. Þremur korterum seinna labbaði ég af stað í vinnuna. Mætti fyrst af fjórum. Var frammi í undirbúningi undir pökkun og flokkun kennispjalda fram að kaffi. Taldi einnig með þeirri sem var í bókhaldinu eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Kláruðum dagleg verkefni um hálftólf. Bókarinn fór um hádegi, tók styttingu vinnuviku það sem eftir var af deginum. Ég fór á móttökuendann á vélinni eftir mat og af því að við skiptum um svokallaðan innfylliborða gátum við lokið við það sem hægt var af síðustu endurnýjuninni án þess að eyðileggja fleiri kort. Vorum búnar um tvö og gengum frá. Ein af okkur þremur sem eftir vorum þurfti að fara rétt fyrir tvö og við, tvær síðustu, fórum um hálfþrjú. Fékk far með henni heim. Var því komin heim rúmum hálftíma fyrir landsleikinn við Tékka. Þetta var mikill baráttuleikur og okkar stelpur unnu hann á einu marki skoruðu um miðjan fyrri hálfleik.
12.4.22
Dymbilvika
Vaknaði um klukkan sex í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur og hafði tæpa klukkustund í netvafr áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Vorum fjórar í vinnu, ein í frí næsta hálfa mánuðinn. Ég var á móttökuendanum fram að kaffi og í pökkun, talningu og fleiru fram að hádegi. Eftir hádegi fór ég á ítroðsluendann að vinna að endurnýjun. Fljótlega fór að bera á því að vélin var að henda og eyðileggja kort þegar aðeins var eftir að ljúka við að setja cvc númer, embossa og setja gyllt yfir. Prófuðum að létta á rúllunni sem tekur upp mjóa svarta borðann. Það virkaði bara um stund. Um þrjú ákváðum við að kalla þetta gott og ganga frá. Fékk far heim úr vinnunni og var ekkert að fara aftur að heiman. Restin af deginum og kvöldið var fljótt að líða.
11.4.22
Heildarfærsla no. 3211
Kom mér á fætur rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun. Dagurinn var allur hinn rólegasti fyrir utan tímann þegar "Leikurinn" milli Manchester City og Liverpool var í gangi seinni partinn. Sá leikur endaði 2:2 en mitt lið vann seinni hálfleikinn með því að skora eina löglega mark þess leikhluta og það í upphafi hálfleiksins, varla búin mínúta af leiknum. Enn munar því aðeins einu stigi á milli þessara tveggja liða og það gæti alveg farið svo að eftir síðustu sjö umferðirnar munaði þessu sama stigi. En til þess þurfa bæði liðin að vinna alla sína leiki sem eftir eru.
Ég var nokkuð mikið í tölvunni í gær en líka að prjóna og horfa á fótbolta eða þætti. Horfði t.d. á fjórða þátt hringfarans á mótorhjólinu. Magnaðir þættir þar á ferð. Framundan er stutt vinnuvika enda páskahelgin um næstu helgi.
10.4.22
Hudraðasti dagur ársins
Var komin á fætur upp úr klukkan hálfátta. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Þar sem ég fór ekki í sjóinn á föstudaginn ákvað ég að fara í hádeginu í gær þegar var flóð. Flóðið náði þó aldrei alveg upp að "landganginu/brúnni" en það voru aðeins örfá skrer út í og stutt í dýpið. Sjórinn var innan við fjórar gráður en engu að síður tolldi ég út í í um korter, ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Úr sjónum fór ég í gufuna og þegar ég fór upp úr gerði ég svolítið sem ég hef aldrei gert í aðstöðunni við Nauthólsvík áður. Ég hafði tekið með mér sjampóið og þvoði mér um hárið. Kom heim um hálfeitt. Veit svo að í næsta skipti þegar ég fer í sund þarf ég að endurnýja árskortið mitt. Aðgangurinn að Nauthólsvík endist hins vegar fram í miðjan maí. Horfði á seinni hálfleikinn í hádegisleik enska boltans sem var eini leikur dagsins sem vannst á heimavelli þar sem Everton vann 1:0 sigur á Manchester United. Hinir fjórir leikirnir unnust allir á útivöllum og sumir frekar stórt. Horfði á tvo af þessum fjórum leikjum. Um fjögur hringdi nafna mín og frænka að norðan í mig. Hún var stödd hjá mági sínum og bauð mér að koma að sækja nokkrar myndir af mömmu til hans en konan hans dó fyrir nokkrum misserum (fyrir Covid). Kláraði eina tusku í gær og fitjaði strax upp á annarri. Horfði á Alla leið og nokkra þætti áður en ég fór upp í rúm að lesa og svo sofa um miðnætti.
9.4.22
Helgarfrí
Ég fór aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Vorum fjórar í vinnu og ég var í bókhaldinu. Það hafðist að klára að taka út kort á móti korti og fjöldi fjarlægðra korta stemmdi. Fengum eitt smá aukaverkefni upp í hendurnar sem helst varð að klára þannig að það kæmist í póst samdægurs. Þetta voru ekki nema tæplega hundraðogfimmtíu kort svo þetta hafðist allt. Ein af okkur þurfti að fara um tvö við hinar vorum tæpum klukkutíma lengur áður en við gengum frá. Ég var með sjósundsdótið mitt meðferðist í skottinu en hafði gleymt að taka með mér handklæði. Vissi að það væri fjara og ákvað að fara bara heim. Hringdi í pabba en hann svaraði ekki fyrr en ég hringdi aftur upp út klukkan fimm. Þá hafði hann skroppið yfir á elliheimilið að heimsækja systur sína. Hringdi líka í norsku esperanto vinkonu mína. Hún var víst rétt ókomin heim úr vinnu en hringdi til baka þegar hún kom heim.
Dreif í að panta tíma hjá tannlækni í gærmorgun. Þar sem ég finn ekkert til þurfti ég ekki að fá tíma með hraði. Næsti lausi tími var þriðjudagsmorguninn eftir páska. Ef ég hefði frekað viljað tíma eftir hádegi þá var ekki laust fyrr en í maí. Gemsinn minn er greinilega vel tengdur hjá tannlæknastofunni því ég þurfti ekkert að gefa upp kennitölu en sú sem afgreiddi mig gat flett upp myndum af tönnunum mínum og séð hvaða tvo staði þarf að lappa upp á, ein rót í einum jaxli og framtönnin, svo tannlæknirinn verður undirbúinn undir verkefnið þegar ég mæti.
8.4.22
Góður sigur
Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Samdi við eina samstarfskonu mína um að fá að vera frammi fyrstu törnina til að halda áfram að finna kort á móti korti. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Eftir hádegi hélt ég áfram að leita að korti á móti korti. Þær sem fóru inn á vél fóru að vinna í endurnýjun. þegar við hættum vinnu um hálffjögur átti ég aðeins eftir um þrjátiu kort, af rúmlega sexhundruðogfjörutíu. Þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér í skottinu fór ég beinustu leið heim eftir vinnu til að horfa á landsleikinn í knattspyrnu kvenna og fylgjast með stelpunum okkar vinna fimm núll sigur á Hvítrússum og komast þar með í toppsætið í riðlinum í bili.
7.4.22
Birta
Vaknaði um sex í gærmorgun. Klukkutíma síðar labbaði ég í vinnuna. Var mætt fyrst en svo sem ekkert löngu á undan hinum. Fram að kaffi var ég að finna kort á móti korti. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Sú sem var á hinum endanum var leyst af um tólf því hún var að taka út styttingu vinnuvikunnar til að komast í leikskólakaffiboð hjá einu barnabarninu. Hádegisframleiðslu lauk um hálfeitt. Eftir mat hélt ég áfram að finna kort á móti korti og þegar við hættum vinnu um hálffjögur var ég líklega tæplega hálfnuð að skipta út á sjöundahundrað kortum. Þetta tekur svolítið á. Fékk far heim úr vinnunni. Settist niður í stofu með fartölvuna í fanginu og japlaði á harðfiski. Varð ekkert vör við það sem gerðist einhvern tímann á næsta hálftímanum en svo fann ég að viðgerðarbrotið úr framtönninni var horfið. Mjög líklega kominn tími á það eitthvað rúmlega 30 ár síðan gert var við tönnina þannig að allt tolldi. Það er þá sennilegt að ég setji mig í samband við tannsa til að fá gert við þetta og að fylla upp í rót í jaxli, fyllingu sem brotnaði úr fyrir nokkrum vikum síðan. Það varð ég alveg vör við en hef svo sem ekki fundið fyrir einni einustu tannpínu. Enda var þetta ekki skemmd heldur sýking sem varð til þess að rótarfylla þurfti jaxlinn fyrir nokkrum árum.
6.4.22
Miðjan á vikunni
Var vöknuð og komin á fætur korter yfir sex í gærmorgun. Allt hvítt úti en ég fór nú samt einungis í götuskóna og "léttari" úlpuna áður en ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Fór leiðina yfir Skólavörðuholtið; upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg og Ingólfsstræti. Ég var á móttöku endanum á vélinni fram að kaffi. Vorum beðnar um að koma ekki fram í kaffi fyrr en um tíu því einn samstarfmaður okkar var með fund á kaffistofunni milli níu og tíu. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld og pakkaði daglegu debetframleiðslunni eftir því sem hún skilaði sér fram úr framleiðslunni. Eftir hádegi fór ég í ítroðsluendann á vélinni. Kláruðum eina kreditendurnýjun og endurframleiddum svo rúmlega 600 kort úr dk endurnýjun. Hættum vinnu korter í fjögur og fékk ég far heim úr vinnunni. Klukkutíma eftir að ég kom heim skrapp ég í Hagkaup í Skeifunni og varð mér úti um ýmislegt til að bjóða upp á í saumaklúbb um kvöldið. Lánaði strákunum bílinn í bíó um hálfátta. Stuttu síðar kom önnur úr klúbbnum gangandi, ísköld frá Grettisgötunni. Hin kom rúmum hálftíma síðar og hafði þurft að leggja í næstu götu. Stæðið sem bíllinn var í áður en strákarnir fóru í bíó var víst ekki lengi að fyllast. Sem fyrr leið tíminn eins og óð fluga og áður en við vissum af var klukkan langt gengin í ellefu.
5.4.22
Morgunstund
Vaknaði rúmlega sex í gærmorgun. Dreif mig á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu gaf ég mér tíma til að vafra um á netinu sem og setja inn færslu. Fékk mér lýsi og smá ostbita áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Vorum fjórar í vinnu, ein í fríi. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi og á móttökuendanum eftir kaffi. Klukkan eitt mætti núverandi næsti yfirmaður okkar á svæðið og var með stöðufund í um klukkustund. Að fundi loknum fóru tvær inn á framleiðsluvél og framleiddu til klukkan að verða hálffjögur. Ég hjálpaði þeirri sem var í bókhaldinu að telja seinni tvo vagnana og flokkaði svo kennispjöld. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim um fjögur. Klukkutíma síðar skrapp ég í Nauthólsvíkina. Svamlaði í tuttugu mínútur í 4,7°C sjónum, fór aðeins í gufu og smástund í heita pottinn á eftir. Þegar ég kom heim sló ég þessu upp í kæruleysi og bauð strákunum með mér á American Style. Þeir voru kátir með það boð.
4.4.22
Rólegheit
N1 sonurinn var með far í vinnuna sína í gærmorgun. Ég snéri mér því á hina hliðina í gærmorgun og fór ekki á fætur fyrr en um hálftíu. Þá skipti ég um á rúminu mínu og setti það óhreina strax í þvott. Að öðru leyti var dagurinn bara frekar rólegur. Mikið um netvafr, smá prjónaskapur og lestur. Fótboltaáhorf og svo horfði ég einnig á söngkeppni framhaldsskólanna og 3. þáttinn af hringfaranum.
3.4.22
Ekki á skutlvaktinni í dag
Ég var komin á fætur upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun. Rúmum hálftíma seinna hringdi ég í N1 soninn. Vekjaraklukkan hans var aðeins búin að hringja einu sinni og mig grunaði að hann hafi slökkt á henni og sofnað aftur. Það reyndist rétt. Hann var þó ekkert lengi að koma sér á fætur og ég skilaði honum af mér við vinnustaðinn hans um hálfátta og beið þar til hann kom með kaffi handa mér. Þrátt fyrir að tankurinn á bílnum væri hálfur ákvað ég að koma við hjá AO við Sprengisand og fylla tankinn. Næst lá leiðin að Sundhöll Reykjavíkur. Lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskóla enda bara spölkorn frá Sundhöllinni. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn í rúmar fimm mínútur. Synti í tæpt korter. Fór aftur í kalda, gufubað, sturtu, kalda, 39°C heitan pott, 2 mínútur í kalda og settist svo aðeins á bekk áður en ég fór upp úr. Áður en ég fór heim fékk ég þá hugmynd að skreppa í bakaríið við Suðurver og kaupa mér kaffi, smurt rúnstykki og eitt stykki sérbakað vínarbrauð. Gerði þessu skil á staðnum. Restin af gærdeginum fór svo eiginlega í fótboltagláp.
2.4.22
Laugardagur
Ég ákvað að fara aftur á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Vorum þrjár, þar sem ein var í fríi og önnur vinnur ekki á föstudögum. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Vissum af einu aukaverkefni sem þurfti að klára fyrir klukkan tvö en svo fengum við annað aukaverkefni sem þurfti að klára mun fyrr, helst þannig að hægt væri að senda það strax út í póst. Kláruðum samt að framleiða fyrsta daglega skammtinn rétt fyrir hálftíu og vorum búnar að framleiða eina tegund af þrettán úr næsta daglega verkefni þegar við fórum í kaffi. Eftir kaffi hlóðum við inn "skyndiverkefninu", tvær skrár önnur 34 kort og hin yfir 700. Vorum búnar með þessi 34 þegar okkur var tjáð að þetta verkefni ætti að fá annan texta á formin. Sá texti var kominn inn á vélina skömmu síðar og eftir smá vesen prentuðum við út 34 form sem sú sem var í bókhaldinu tók að sér að færa kortin yfir á. Í milllitíðinni, á meðan við biðum eftir rétta textanum framleiddum við tæp 200 kort úr hinu aukaverkefninu. Vorum búnar að framleiða bæði aukaverkefnin rétt fyrir tólf og hádegisframleiðslunni lauk um hálfeitt. Þá fórum við í mat. Eftir mat héldum við áfram með dagleg verkefni þar sem við áttum eftir að framleiða og pakka tæplega fjögurhundruð kortum. Það var búið um þrjú og þá var talið og gengið frá. Vorum búnar og hættum vinnu rúmlega hálffjögur og þá fór ég beinustu leið í sjóinn sem var mældur 4,5°C í gær. Lítil sem engin ferð var á loginu og það var smám saman að flæða að. Ég ætlaði ekki að tíma að fara upp úr en eftir tuttugu mínútna svaml fór ég í heita pottinn í korter. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim.
1.4.22
Nýr mánuður
Í annað skiptið í vikunni vaknaði ég við vekjaraklukkuna í gærmorgun. Hafði samt rýmri tíma því ég var ákveðin í að fara á bílnum í vinnuna. Var mætt við Bernhöftsbakarí við Skúlagötuna um hálfátta, rétt eftir opnun. Ég var semsagt í bókhaldinu í gær og þótt ég biðji stundum einhverja af hinum að sjá um bakaríisferðina sem fylgir bókhaldsstöðunni þá fer ég sjálf inn á milli. Framleitt var til hálfeitt áður en farið var í mat. Ein af fimm var búin með sína vinnuskyldu um tólf og önnur var búin að semja um að fá að fara fyrir eitt. Eftir hádegi Taldi önnur með mér síðasta vagninn, allt talið í öllum vögnum, og kortalagerinn áður en við gengum frá. Við afhentum viðgerðarmanni og kerfisfræðingi vélina um tvö vegna uppfærslu á henni. Viðgerðarmaðurinn þurfti einnig að gera smá lagfæringu á lokinu yfir límrúllunni. Hættum vinnu fyrir þrjú. Ég var með sunddótið með mér í bílnum en Sundhöllinni hafði verið lokað um eitt vegna framkvæmda og ég var ekki alveg til í að fara aftur í Vesturbæjarlaugina eða þær þrjár laugar sem eru í efri byggðum borgarinnar svo ég fór bara heim.