Klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór loksins á fætur í gærmorgun. Sem fyrr var ég byrjuð að vafra um á netinu fljótlega eftir morgunverkin á baðherberginu. Um hálfellefu fékk ég mér loks að borða og ég var komin í Nauthólsvík rúmlega ellefu. Synti út að kaðli og kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Rúmlega tólf var ég komin upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Hefði auðvitað átt að skreppa upp í Orku hf og fá þá til að meta framrúðuskemmdina. Ég er samt nokkuð viss um að það þurfi að skipta aftur um rúðu og þá er bara spruningin hvort ég freistist til að fresta því máli alveg þar til þarf að skoða bílinn næst. Er ekki viss um að það sé skynsamlegt og líklega verður það ofan á að fara og láta meta skemmirnar. Ég get þá spurt í leiðinni hvort það liggi á að skipta um rúðu ef dómurinn verður á þá leið að ekki sé hægt að gera við. N1 sonurinn var á vinnuvakt á Gagnveginum og hinn sonurinn skrapp í sorpuferð eftir hádegið.
Er að lesa tvær af safninu; Sólar saga eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Gæðakonur eftir Barböru Pym. Þá eru þrjár aðrar af tíu bókum af safninu ólesnar; Papa eftir Jesper Stein, Heimför eftir Yaa Gyasi og Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Fjórar af bókunum eru með skilafrest til 8. september (er búin að lesa þær) og hinar sex til 13. september.