Hrökk upp við vekjaraklukkuna klukkan 6:25 í gærmorgun. Um leið og ég áttaði mig á hvað var í gangi slökkti ég á vekjaranum og dreif mig á fætur. Gaf mér tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna stuttu fyrir sjö. Tvær samstarfskonur mínar voru í fríi svo við vorum bara þrjár sem þýddi að við tvær sem tókum að okkur framleiðsluna vorum að sama vélarendanum þar til framleiðslu var lokið. Ég var að hlaða inn og setja kortaskrárnar af stað. Reyndar var vélarskömmin frekar ósamvinnuþýð og það var ekki fyrr en ég var búin að endurræsa hana þrisvar sinnum sem hún kom alveg upp og fékkst til að gera eitthvað.
Um tólf, þegar ég var í hádegispásu, fékk ég sms frá heilsuveru um að það væru til aukaskammtar af moderna-bóluefninu og ég væri velkomin í Laugardalshöll rétt fyrir tvö. Það stóð líka að ekki væri tryggt að allir sem svöruðu kallinu fengju bólusetningu og betra væri að vera mættur fyrir hálfþrjú. Af þessu tilefni ákvað fyrirliðinn, önnur hinna, að við skyldum allar hætta snemma og önnur þeirra myndi skutla mér á svæðið. Við hættum semsagt vinnu og fórum áður en klukkan varð hálftvö. Það var mikil umferð en sú sem skutlaði mér hleypti mér út við höllina ca tuttugu mínútum fyrir tvö. Það var smá röð fyrir utan en fljótlega komst hreyfing á hana, qr-kóðinn var skannaður og straumurinn lá upp á næstu hæð þar sem við fengum sæti. Það voru tuttugu sæti í hverri röð en ég veit ekki hversu margar raðirnar voru. Var stungin á slaginu 13:50 og það sveið undan stungunni. 12 mínútum síðar mátti ég fara. Labbaði heim og komst að því að vegalengdin var svipuð og sú sem ég labbaði í vinnuna um morguninn.
Vafraði aðeins um á netinu áður en ég ákvað að skreppa á bókasafnið og í fiskbúðina. Skilaði fimm bókum af sex, þar af einni sem ég var ekki að tengja við og ákvað að sleppa að lesa. Kom með sjö bækur til baka og ein af þeim er með 14 daga skilafresti. Í fiskbúðinni keypti ég ýsu í soðið og harðfisk. Ákvað að sleppa sjó- og sundferðum.
Fann aðeins fyrir öxlinni í nótt og gat ekki legið lengi á henni í einu. Nú er eins og ég hafi rekið öxlina í eða með harðsperrur í henni. Að öðru leyti er ég bara hress. Seinni sprautuna mun ég svo fá eftir 28-35 daga eða í kringum 17. júní.