Það var ósköp lítið að gerast í gær. Fór á fætur um átta. Dagurinn fór í netvafr, prjónaskap og lestur. Setti reyndar upp slátur seinni partinn, horfði á handboltalandsleik og sótti þvottinn minn niður á snúrur í þvottahúsinu. Er búin að lesa Arnald og er langt komin með Vetrarmein eftir Ragnar Jónasson. Það var staðfest í dag að í næstu viku höldum við áfram að mæta aðeins þrjár á vinnusvæðið og er ég svo heppin að fá 4 vinnudaga af fimm.
30.4.21
29.4.21
Veðurblíða
Klukkan var átta þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég niður með fartölvuna í rúman klukkutíma eða svo. Síðan sauð ég handa mér hafragraut. Átti smá rjómalögg til að gera hann enn betri. Um ellefu tók ég til sjósundsdótið mitt og skrapp í Nauthólsvíkina. Sjórinn var sagður 6,6°C og það var dásamlegt að svamla um í honum. Það var fjara og þurfti að vaða hálfa leið til Kópavogs til að komast á eitthvað dýpi. Var líklega um tuttugu mínútur í sjónum. Áður en ég fór upp úr og í pottinn sá ég Guðna forseta skella sér í sjóinn við annan mann. Þeir syntu út að kaðli. Ég var svipað lengi í pottinum og sjónum. Var komin heim um tólf. Klukkutíma síðar kveikti ég aftur á fartölvunni og sá þá að Lilja vinkona hafði sent mér skilaboð um tíu um hvort ég vildi koma í labbitúr. Þegar ég spurði hvort hún væri búin að fara sagðist hún alveg vilja fara í annan labbitúr. Við ákváðum því að hittast á Klambratúni. Þaðan löbbuðum við niður á Sæbraut og niður á Lækjartorg. Þar bauð Lilja mér upp á kaffibolla Te&kaffi. Drukkum kaffið úti í blíðviðrinu. Síðan röltum við upp Hverfisgötu. Lilja sótti sendingu í póstbox og á horni Barónsstígs og Grettisgötu skildu leiðir. Ég hafði hugsað mér að setja upp slátur í gær en þar sem ég vissi ekki hvenær ég kæmi úr gönguferðinni tók ég út hakkrúllu og matreiddi úr henni á sjöunda tímanum.
28.4.21
Þrír þorskar
Mikið varð ég hissa rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun þegar vekjaraklukkan vakti mig. Hafði ekki farið seint að sofa, svaf vel en var að dreyma einhverja vitleysu. Ég hafði samt tíma til að kveikja aðeins á fartölvunni og vafra á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Ég var aftur að vinna á framleiðsluvélinni, núna á hinum endanum. Tók til framleiðslutegundir dagsins fyrir þá sem var að hlaða inn og troða í. Tók svo á móti framleiddum kortunum og skoðaði. Allt annað er að vinna við umslagavélina. Hún er ekki alveg hætt að flækja þó en vinnslan gengur svo miklu, miklu betur. Lukum við framleiðslu á endurnýjun debetkorta eftir daglega framleiðslu. Síðasta endurnýjun mánaðarins var keyrð til okkar um hádegið. Hún var keyrð yfir að framleiðsluvél og hlaðið inn og verður að öllum líkindum framleidd öll í dag.
Einkabílstjórinn sótti mig í vinnuna rétt fyrir hálffjögur. Hann hleypti mér út við Krónuna við Granda og skrapp svo í Sorpu áður en hann kom aftur og verslaði fyrir sjálfan sig. Við vorum komin heim um fjögur. Hann gekk frá vörunum en ég ákvað að taka því rólega, sleppa því að skreppa í sund eða sjóinn og lesa og prjóna í staðinn þar til kominn var tími til að undirbúa saumaklúbbshitting.
Ein af skammtímalánsbókunum er Þagnarmúr eftir Arnald Indriðason. Er byrjuð á henni og búin að lesa ca einn þriðja. Ég verð líklega ekki lengi að lesa allar þrjár skammtímalánsbækurnar, sérstaklega þegar ekki má mæta alla virka daga til vinnu.
Það var hundrað prósent mæting í saumaklúbbinn til mín og sem fyrr voru þrír tímar liðnir á methraða. Var að ganga frá upp úr klukkan ellefu, fór svo beint í rúmið og las til miðnættis.
27.4.21
Heimavið næstu tvo daga
Rumskaði um hálfsex í gærmorgun. Það gekk ekkert að reyna að sofna aftur svo ég var komin á fætur um sex. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég beint í sófann inni í stofu, kveikti á fartölvunni og vafraði um á netinu í tæpan klukkutíma. Hitti aðeins á N1 soninn en hann fór út úr húsi á undan mér enda þurfti hann að ná strætó korter í sjö. Ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Var mætt fyrst af okkur þremur sem máttum mæta í gær. Eftir hádegi kom viðgerðarmaður á svæðið að reyna að stilla betur umslagavélina en það hefur borið mjög mikið á því að allt fari í flækju, komi ekki alla leið út eða þá að það þarf að loka umslögunum handvirkt þegar þau skila sér úr vélinni. Svo virðist sem tekist hafi að koma þessu í betra lag.
Fékk far heim úr vinnunni um hálffjögur. Stoppaði heima í ca hálftíma. Skilaði öllum fjórum bókum á safnið þrátt fyrir að vera ekki búin að lesa tvær af þeim. Valdi fjórar bækur í staðinn og þrjár af þeim eru með 14 daga skilafresti svo ég veit hvað ég verð að gera næsta hálfa mánuðinn. Fór beint í sund eftir bókasafnsferðina. Synti reyndar ekkert. Fór beint í kalda pottinn í fimm mínútur og hitti svo kalda potts vinkonu mína í heitasta pottinum. Saman fórum við fimm ferðir í kalda pottinn og þann heitasta á milli en eftir síðustu ferðina endaði ég í gufunni.
Prófaði að "baka" frosnar fiskibollur úr fiskbúð Fúsa í ofni. Sauð rósakál og var einnig með hrásallat úr Krambúðinni sem og köldu piparsósuna sem ég fékk með sumarglaðningnum úr vinnunni í síðustu viku. Þetta smakkaðist bara ágætlega.
26.4.21
Bókasafnsferð
Heyrði stofuklukkuna slá átta högg í gærmorgun og svo "tíu mínútum" síðar sló hún níu högg. Dreif mig á fætur. Pabbi sat frammi í eldhúsi að leggja kapal. Ég fékk mér lýsi og egg og lagði svo nokkra kapla líka. Um hádegið steikti ég bleikjuflök handa okkur og höfðum við hrásallat og kalda rófustöppu með. Fram að kaffi var ég mest að prjóna. Eftir kaffi lagði ég nokkra kapla en um hálffimm kvaddi ég pabba og brunaði í bæinn. Var svo heppin að fá stæði fyrir bílinn beint fyrir utan.
25.4.21
Helgarstopp á Hellu
Rumskaði fyrst upp úr sex í gærmorgun. Var svo glaðvöknuð um sjö og dreif mig á fætur. Vafraði um á netinu í fartölvunni í tæpa klukkustund. Bankaði aðeins upp á hjá N1 syninum til að kveðja hann því ég vissi að hann yrði farinn í dagsferð á Akureyri með vini sínum þegar ég kæmi aftur heim úr sundi. Var akkúrat að keyra af stað í sund þegar átta fréttirnar byrjuðu í útvarpinu. Fór tvær ferðir í kalda pottinn og eina í þann heitasta áður en ég synti 200 metra. Fór svo aðrar tvær ferðir í kalda pottinn, smá stund í sjópottinn og endaði í gufbaði áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið.
Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi þegar ég kom heim. Oddur Smári var komin á fætur og fram áður en ég tók mig saman og dreif mig austur. Kom við hjá tvíburahálfforeldrum mínum. Var komin á Hellu um hálfþrjú. Og hér verð ég eitthvað fram eftir degi í dag, sunnudag.
24.4.21
Sund og hárþvottur framundan
Gat leyft mér að vafra á netinu í tæpan hálftíma í gærmorgun áður en tími var kominn til að labba í vinnuna. Í vinnunni var ég í framleiðslunni og sá um að troða í. Umslagavélin var með smá leiðindi og það tefur aðeins fyrir endurnýjun. Höfum þó nægan tíma til að klára þessi tæplega tvöþúsund debetkort sem eftir eru því fyrir nokkrum mánuðum var farið að endurnýja þau kort í mánuðinum áður en kortin sem kúnninn er með renna út eins og alltaf hefur verið gert með kreditkortin. Hættum framleiðslu í fyrra fallinu og gengum extra vel frá fyrir helgina. Ljóst er að í amk eina viku enn megum við aðeins mæta þrjár á svæðið og samkvæmt plani má ég mæta næst á mánudag og þriðjudag og svo ekki aftur fyrr en á föstudag. Fékk far heim úr vinnunni. Eftir smá flakk á netinu og pistil dagsins tók ég fram prjónana mína. Er bæði með ungbarnateppi og eldhúshandklæði á prjónunum. Davíð Steinn tók að sér að elda sumarglaðninginn sem ég fékk frá vinnunni á miðvikudaginn, lambaprime. Fengum einnig meðlæti með, m.a. kalda piparsósu og sætkartöflumús með salthnetum. Þetta var mjög gott og vel útilátið fyrir þrjá.
Nú er ég aðeins að velta því fyrir mér hvort ég eigi að skila öllum fjórum bókum á safnið þrátt fyrir að vera aðeins búin að lesa tvær af þeim. Er byrjuð á báðum hinum en er ekki viss hvort þær höfði til mín. Fékk póst frá bókasafninu um að skiladagur nálgast á einni bókinni. Þarf þó ekki að skila fyrr en í síðasta lagi á mánudaginn kemur.
23.4.21
Seinni föstudagur vikunnar
Mér tókst að sofa næstum því til klukkan níu í gærmorgun. Dreif mig á fætur en var ekki viss hvort ég ætlaði í sund eða sjóinn. Opið var í Nauthólsvík í gær milli ellefu og fjögur. Það var kalda potts vinkona mín sem valdi fyrir mig. Hún hafði samband fljótlega á facebook spjallinu, sagðist vera að fara í sund rúmlega tíu og spurði hvort hún myndi hitta mig þar. Ég var búin að fara eina ferð í kalda pottinn og sat í heitasta pottinum þegar hún kom. Saman fórum við fimm ferðir í kalda pottinn. Systir hennar kom aðeins við, fyrst í heitasta og svo settumst við stund hjá henni í sjópottinum. Þær systur ætluðu svo í Vesturbæjarlaugina eftir hádegi. Ég kom heim rétt fyrir tólf og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Setti handklæði í þvott og svo leið dagurinn við alls konar dútl. Fór ekkert út aftur.
22.4.21
Sumardagurinn fyrsti
Var búin að slökkva á vekjaranum og komin á fætur nokkru áður en hann átti að vekja mig. Varð á undan N1 syninum að sinna morgunverkunum á baðinu. Hann var hins vegar farin út á undan mér. Labbaði af stað í vinnuna um sjö. Var í framleiðslu, taka til tegundir og á móti þeim úr vélinni. Hættum framleiðslu um hálfþrjú en þá var eftir að telja hádegisframleiðsluna og að ganga frá. Fékk far heim úr vinnu um hálfjögur. Tók til sunddótið mitt en byrjaði á því að fara beint á hjólbarða- og smurverkstæðið í Fellsmúla til að fá þá til að athuga framdekkið farþega meginn. Komst að eftir næstum klukkutíma bið en þeir voru innan við hálftíma að laga dekkið sem var með nagla í sér. Þá var ég dottinn úr öllu sundstuði svo ég fór beint heim aftur.
21.4.21
Fyrri "föstudagur" vikunnar
Vaknaði á undan vekjaraklukkunni og var komin á fætur, búin að slökkva á henni og búa um mig áður en tíminn var kominn. Gaf mér því tíma til að vafra aðeins um á netinu á fartölvunni. Labbaði af stað um sjö. Ég sá um bókhaldið í vinnunni en vinnudagurinn endaði svo á því að ég þurfti að fara inn á vél síðasta klukkutímann þar sem önnur hinna þurfti að fara og smá framleiðsla var eftir sem þurfti að ljúka áður en hægt var að ganga frá. Klukkan var orðin fjögur þegar ég labbaði heim úr vinnu. Hringdi í pabba fljótlega eftir að ég kom heim. Svo skrapp í fiskbúðina eftir ýsu í soðið. Keypti einnig harðfisk. Var með sunddótið með mér en einhverra hluta vegna fór ég beint heim aftur.
20.4.21
Labbað báðar leiðir
Var því miður aðeins of löt í gang í gær. Var vöknuð upp úr sjö en sá samt enga ástæðu til að drífa mig með bílinn á dekkjaverkstæðið til að láta laga lekann á öðru framdekkinu. Klukkan var að verða tiu þegar ég dreif mig af stað í þau mál. Þá var bara svo mikið að gera þarna í Fellsmúlanum að ég fékk ekki einu sinni stæði á planinu. Fór því heim í bili. Fylgdist með almannavarnafundinum og hlustaði á hádegisfréttir á Rás 2 á meðan ég dundaði mér við að prjóna hjartateppið.
Um tvö gerði ég aðra tilraun til að láta laga dekkið en það var sama sagan. Fór í smá bíltúr og kom við á ÓB-stöðinni við Öskjuhlíð til að athuga hvað væri búið að síga úr dekkinu. Það voru 6 pund.
Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn svo ég gat dúllað mér í mínum áhugamálum. Eftir kvöldfréttir á RÚV skipti ég yfir að símann sport og horfði á Leeds Utd og Liverpool. Sá leikur fór 1:1. Var komin upp í rúm um hálftíu og las í þrjú korter í nýlegri bók eftir Mary Higgins Clark. Var líklega sofnuð um hálfellefu.
19.4.21
Ekki mæta á vinnustað í dag
Ég var komin á fætur um átta í gærmorgun. Eyddi fyrsta klukkutímanum í fartölvunni. Um hálftíu bankaði ég á herbergisdyr N1 sonarins. Hann var við það að stökkva á fætur og gaf sér meira að segja tíma til að taka snögga sturtu. Ég skutlaði honum upp í Grafarvog og var hann mættur fyrir tíu. Notaði tækifærið og athugaði þrýstinginn á dekkinu farþega meginn að framan. Það vantaði ellefu pund en mælaborðið var ekkert farið að kvarta. Líklegast var það þó alveg að fara að gerast.
Úr Grafarvoginum lá leiðin í Laugardalinn líkt og á laugardagsmorguninn. Fór fyrstu ferðina í kalda pottinn korter yfir tíu. Hitti kalda potts vinkonu mína í heitasta pottinum en hún var þá þegar búin að fara tvær ferðir í kalda. Fórum fjórar ferðir saman milli heita og kalda. Hittum reyndar systir hennar og fórum sjá stund í sjópottinn um hálfellefu. Synti ekkert í gær en endaði á góðu gufubaði eftir síðustu ferðina í kalda pottinn.
Kom við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim og fjárfesti meðal annars í nýjum brúsa undir kaffið. Prófaði hann strax og ég kom heim.
Fitjaði upp á nýju ungbarnateppi en prjónaði líka nokkrar umferðir af handklæða stykkinu. Vantaði bara að ég hefði aðeins gripið í nál.
18.4.21
Kaldapottsvinkonudagur í dag
Ég var komin á fætur um sjö í gærmorgun. Bauð N1 syninum far í vinnuna. Hann átti að vera mættur um átta og það passaði vel að taka sunddótið með í skutlið og fara beint í Laugardalinn. Byrjaði á tveimur sinnum 4 mínútum í kalda pottinn og þann heitasta á milli. Synti 400 metra og fór aðrar tvær ferðir í þann kalda og þann heitasta á milli. Endaði svo á góðu gufubaði.
Kom heim rétt upp úr tíu og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Ég er ekki búin að ákveða hvaða uppskirft af barnateppi ég prjóna næst en ég fitjaði aftur upp á eldhúshandklæðastykki og gekk mun betur að prjóna það. Það gæti farið svo að ég verði að útvega mér aðra dokku í þessum lit eða jafnvel tvær. Er með eina dokku í öðrum lit sem tónar alveg við þennan sem er á prjónunum svo kannski verður þetta stykki tvílitt.
Annars gerði ég fátt annað merkilegt af mér í gær. Oddur Smári skrapp í Sorpuferð og það er ekki enn farið að kvarta undan hjólbarðaþrýstingnum. Ætla þó að fylgjast áfram með þessu.
Fylgdist með "Alla leið" og tónlistarverðlaununum á RÚV í gærkvöldi.
17.4.21
Löng helgi framundan
Að sjálfsögðu var ég vöknuð og búin að slökkva á vekjaraklukkunni áður en hún hringdi. Var komin á fætur um hálfsjö en hafði nægan tíma. Ákvað nefnilega að fara í vinnuna á bílnum í annað skiptið á þessu ári og hafa sunddótið tilbúið í skottinu. Mér leist samt ekki á blikuna þegar ég kom að bílnum og sá að það var lint í öðru framdekkinu. Eftir smá umhugsun ákvað ég að leggja samt í hann. Var komin upp á Bústaðaveg þegar mælaborðið tilkynnti að ég þyrfti að athuga þrýstinginn á hjólbörðunum. Dældi lofti í framdekkið við olísstöð, sem reyndar er búið að loka, á Skúlagötunni skammt frá vinnunni. Veit ekki hversu miklu lofti ég dældi en það var amk ekki nóg til að hætti að "væla" yfir þrýstingnum. Mætti í vinnuna rétt fyrir hálfátta. Ég var að taka til framleiðslutegundir og taka á móti og skoða fram að hádegi. Eftir hádegið flokkuðum við kennispjöld til klukkan að verða hálfþrjú. Ákváðum að það væri í lagi að hætta í fyrra fallinu á föstudegi.
Í stað þess að fara á dekkjaverkstæðið fór ég á Orkustöðina við Öskjuhlíð. Þar er lofttæki með mæli. Þrjú af fjórum dekkjum voru nánast á sömu stillingu og eftir dekkjaskiptin en vandræðadekkið mældist 22" og bætti ég 11" á það. Þá loksins hætti að kvarta. Svo fór ég beinustu leið í Laugardalinn. Var ekki stemmd í að synda enda var "umferð" á öllum brautum þótt ekki væri mjög margt um manninn. Fór nokkrar ferðir í kalda pottinn sem var tæplega 6°C, í heitasta pottinn á milli og ég sat einnig góða stund í sjópottinum. Endaði svo á góðri gufuferð. Var komin heim um hálfsex.
Lauk við að fella af nýjasta sjalinu, gekk frá endum á því og afganga tusku sem "datt" af prjónunum um daginn. Var búin að fitja upp á stykki sem á að verða eldhúshandklæði og prjóna nokkrar umferðir. Þá gerði ég einhverja gloríu sem mér virtist ekki létt að laga og þar sem ég var ekki búin að prjóna meira en tíu umferðir ákvað ég að rekja þetta upp.
16.4.21
Tvær vikur eftir af apríl
Ég slökkti á vekjaranum uþb korteri áður en hann átti að hringja í gærmorgun. Það flögraði aðeins að mér að fara á bílnum í vinnuna en svo labbaði ég af stað um sjö. Það hafði rignt en var ekki að rigna akkúrat þegar ég var á ferðinni. Aftur á móti mætti mér bíll á Eiríksgötunni sem var örugglega að keyra hraðar en 30 og þótt ég væri eins innarlega á gangstéttinni og ég gat fékk ég smá gusu yfir mig. Enn erum við aðeins að mæta þrjár í vinnu og verður það svo alveg út næstu viku. Ég var að hlaða inn og troða í á framleiðsluvélinni. Eftir hádegi sorteraði ég kennispjöld úr tveimur kössum á um tveimur tímum. Labbaði af stað heim um þrjú. Í það skiptið var aðeins rakara þótt það væri ekki hellirigning blotnaði úlpan mín og á svipuðum stað og um morguninn ók bíll framhjá mér svo það gusaðist yfir mig.
Rétt rúmum klukkutíma eftir að ég kom heim sótti sjósundsvinkona mín mig. Það er búið að opna aðstöðuna í Nauthólsvík. Einungis 30 geta þó notað aðstöðuna í einu. Við þurftum samt ekki að bíða í röð eftir að komast í klefann. Fórum bæði í sjóinn og lónið og vorum svo næstum hálftíma í heita pottinum á eftir.
15.4.21
Hálfgerður mánudagur í dag
Ég var ekkert að sofa frameftir í gærmorgun þótt ég þyrfti ekki að mæta í vinnu þriðja virka daginn í röð. Tók utan af sæng og kodda og setti hreint á í staðinn. Leyfði svo klukkunni að verða níu áður en ég fór með sængurfötin í þvottavélina og sótti þvottinn frá því í fyrradag. Einu skiptin sem ég fór úr íbúðinni voru þau tvö skipti sem ég fór í þvottahúsið. Nennti ekki í göngurtúr þrátt fyrir ágætis veður. Dagurinn leið þó frekar hratt og var notaður mis skynsamlega.
14.4.21
Enn einn heimadagur
Var komin á fætur upp úr klukkan hálfátta í gærmorgun. Tók því rólega til að byrja með en setti fljótlega í þvottavél. Vafraði um á netinu, las og prjónaði. Ekkert varð úr að ég gripi í saumana. Upp úr hádeginu skrapp ég út í smá göngu. Leiðin lá til Lilju og þar gerði ég uþb klukkustundar stopp. Þáði einn kaffibolla og við áttum gott spjall áður en ég labbaði af stað aftur áleiðis heim. Kom aðeins við í Krambúðinni. Lítið annað að frétta. Er að hamast við að klára það sem er á prjónunum svo ég geti farið að fitja upp á nýju barnateppi úr eitthvað af því garni sem ég keypti í vikunni. Hef einnig verið að spá í að fitja upp á aðra prjóna úr garni sem má fara á 60°C, kannski ekki enn eina tuskuna heldur svona eldhús-handklæða stykki. Hef annars verið að horfa á þættina Systrabönd úr Premium safninu og á aðeins einn þátt eftir.
13.4.21
Ekki vinnudagur hjá mér
Hafði stillt vekjaraklukkuna á mig í fyrrakvöld og átti hún að vekja mig um hálfsjö. Ég rumskaði korteri fyrir þann tíma. Hafði mig á fætur fljótlega en samt ekki nógu snemma til að kasta kveðju á N1 soninn. Rétt fyrir klukkan átta var ég mætt með bílinn á N1 stöðina við Fellsmúla. Þeir voru tilbúnir að taka á móti bílnum, setja sumardekkin undir og taka nagladekkin á dekkjahótelið sitt. Ég var komin heim aftur um hálfníu.
Það var ekki fyrr en um tvö sem ég fór út aftur. Fór á bókasafnið, skilaði 6 bókum og tók fjórar í staðinn. Er byrjuð að lesa Næturskuggar eftir Evu Björg Ægisdóttur. Frá safninu lá leiðin í garnbúðina við Reykjavíkurveg og svo kom ég við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór aftur heim.
Rétt fyrir fimm var ég búin að græja mig upp í sjósundsflíkurnar mínar þegar sjósundsvinkona mín sótti mig. Við hittum aðra systurina við Nauthólsvík. Svömluðum um í sjónum í fimm mínútur og var það afar hressandi.
12.4.21
Sumardekkin komin undir
Gærdagurinn var allur með allra rólegasta móti. Stillti ekki á mig vekjaraklukku á laugardagskvöldið en átti ekki von á því að sofa alveg til klukkan hálfníu í gærmorgun þar sem ég var farin að sofa rétt upp úr tíu. Ég var svo hissa á þessum svefni mínum að það tók mig næstum fimmtán mínútur að drífa mig framúr. Megnið af deginum fór svo í fótboltagláp. Millifærði smá summu á einkabílstjórann seinni part dags og sendi hann eftir fjölskyldupakka á kfc. Þetta hef ég ekki gert lengi og reyndar er þetta í fyrsta skipti á þessu ári sem ég læt þetta eftir okkur. Hinn sonurinn var að spila einhvern leik þannig að hann missti af því að borða með okkur en það var nóg til handa honum.
11.4.21
Einn þriðji búinn af apríl
Vekjaraklukkan var stillt á uþb hálfátta. Ég vaknaði hins vegar rétt upp úr sjö, slökkti á klukkunni, klæddi mig og bjó um. Vafraði um á netinu í klukkustund en slökkti svo á fartölvunni og bjó mér til hafragraut. Rétt fyrir tíu sóttu nöfnurnar mig og við hittum systurnar á bílastæðinu við Nauthólsvík. Sjórinn mældist 2,5°C og það var langt komið að fjara út þannig að maður var hálfnaður út í Kópavog loksins þegar maður komst á smá dýpi. Vorum að svamla um og spjalla í rúmar fimm mínútur. Ég var komin heim aftur upp úr hálfellefu. Þvoði mér um hárið. Eftir sturtuna hellti ég mér upp á kaffi.
Horfði á Liverpool-leikinn en svo skruppum við einkabílstjórinn í Krónuna við Granda. Bræðurnir sáu um heimilisþrifin en ég var að lesa og prjóna. Greip ekki í nálina annan daginn í röð. Hafði kindabjúgu í matinn. Reyndar vorum við aðeins tvö í mat því Davíð Steinn fór eitthvað út um sex. Var búin að slökkva á imbanum um níu og fór fljótlega upp í rúm og las til klukkan tíu.
10.4.21
Tíminn líður
Í gær labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Lagði af stað um sjö. Verkefnin fram að hádegi voru bókhaldstengd og eftir hádegi flokkaði ég kennispjöld til klukkan hálfþrjú. Í fyrradag tók ég mig til og taldi öll kennispjöldin úr einum heilum kassa sem ég flokkaði og voru þau 1115 stykki. Maður er líka næstum einn og hálfan tíma að flokka úr einum kassa, aðeins lengur ef maður rekst á myndir af fólki sem maður þekkir. Við erum búnar að flokka úr rúmlega 30 kössum og eigum að minnsta kosti efitr 600 kassa. Labbaði heim yfir Skólavörðuholtið og var komin um hálffjögur. Greip ekkert í nál en aðeins í prjóna og bækur. Bjó svo vel að eiga til afganga svo ég var ekkert að hafa neitt fyrir kvöldmatnum.
9.4.21
Löng helgi framundan
Aftur var ég vöknuð á undan vekjaraklukkunni. Gærmorguninn var ósköp svipaður og aðrir vinnumorgnar. Gaf mér smá tíma í tölvunni eftir að ég var komin á fætur og búin að ljúka morgunverkunum. Labbaði af stað í vinnu um sjö. Fyrirliðinn var mætt til vinnu og hún fékk mig til að skipta við sig um stöðu, þ.e. bað um að fá að taka bókhaldið í gær þar sem hún þurfti að mæta á fjarfund um níu. Ég samþykkti það og fór á móttökuendann á framleiðsluvélinni. Daglegri framleiðslu lauk um hádegið og eftir hádegið flokkuðum við gömul kennispjöld til klukkan að verða þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Sjósundsvinkona mín var búin að spyrja hver vildi koma með í sjóinn um fimm en þegar til kom komst hún ekki sjálf og engin af hinum heldur svo ég var ekkert að æða ein af stað. Saumaði út, las, vafraði á netinu og glápti á imbann. Um níu fór ég í snögga sturtu og svo upp í rúm. Las til klukkan tíu og er nú langt komin með bókina Urðarköttur.
8.4.21
Gluggaveður
Ég vaknaði aftur smá stundu áður en vekjarinn átti að hringja í gærmorgun og var búin að slökkva á honum og koma mér á fætur fyrir klukkan hálfsjö. Labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Ég var í framleiðslu að troða í vélina fram að hádegi. Eftir hádegi kláruðum við að plokka frá gulu miðana og töldum allt plastið, skráðum niður upplýsingar og létum kortaeigendur vita fjöldann og tegundirnar. Yfirgáfum vinnustað rétt fyrir hálffjögur. Ég fékk far heim. Nennti ekki út aftur. Hellti mér upp á smá kaffi og kveikti svo á fartölvunni. Millifærði smá summu á Odd og fékk hann til að skreppa út í Krambúð. Hringdi í pabba og einnig jafnöldru hans, konu sem var í Óháða kórnum. Tók aðeins fram útsauminn. Horfði á imbann og FBI þátt. Var háttuð upp í rúm um hálftíu og las í rúman hálftíma. Var frekar fljót að sofna.
7.4.21
Vinnuvikan hálfnuð
Ég vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun, amk fimmtán mínútum áður en vekjarinn átti að hringja. Dreif mig á fætur, bjó um mig, sinnti morgunverkunum á baðherberginu, fékk mér lýsi og notaði svo tímann sem eftir var til að vafra aðeins um á netinu. Labbaði af stað í vinnuna um klukkan sjö. Fram að hádegi vann ég við framleiðsluna, taldi í kortategundirnar og tók á móti þeim og skoðaði. Framleiðslu lauk um hádegið en eftir hádegi voru við tvær af þremur að plokka út gula miða á milli plasta úr nýrri sendingu sem kom til okkar fyrir fáeinum dögum. Sú þriðja var að vinna í reikningagerðinni en hún plokkaði smá stund með okkur, eða úr einum 300 korta kassa af þeim 25 sem voru saman í öðrum stóra kassanum úr sendingunni.
Fékk far heim úr vinnunni. Tímann til hálfátta notaði ég í tölvumál, útsaum og sjónvarpsgláp. En um hálfátta tók ég til handavinnuna mína og labbaði í Grettisgötuna í saumaklúbb. Tvíburahálfsystir mín mætti um hálfníu. Notaleg og skemmtileg kvöldstundin til klukkan ellefu leið alltof hratt. Fékk far heim með Sonju en við tókum smá rúnt á Gróttu og Ægisíðu til að virða fyrir okkur gosbjarmann af Reykjanesinu. Var komin heim fyrir miðnætti en það munaði ekki miklu. Fór beint í rúmið en gaf mér tíma til að lesa aðeins áður en ég fór að sofa þannig að klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég slökkti ljósið.
6.4.21
Fyrsti virki dagurinn í apríl
Ég var pínu löt að fara fram úr fletinu í gærmorgun. Var þó klædd og komin á ról um hálfníu. Það lá svo sem ekkert sérstakt fyrir framan af morgni. Eyddi rúmri klukkustund í fartölvunni en um tíu bjó ég mér til hafragraut. Stuttu fyrir ellefu sótti sjósundsvinkona mín mig og var nafna hennar með í för. Þrjár saman skelltum við okkur í sjóinn við Nauthólsvík. Frost var í lofti en sjórinn mældist 3°C. Áður en við vissum af vorum við búnar að svamla um í sjö mínútur. Tíminn leið extra hratt því við vorum að spjalla svo mikið. Ég kom heim aftur rétt fyrir tólf og var búin að fara í sturtu búa mér til kaffi áður en hádegisfréttirnar á Rás 2 fóru í loftið.
Hélt mig heima við það sem eftir var af deginu. Skrapp aðeins tvær ferðir í þvottahúsið en annars var ég að prjóna, lesa, vafra um á netinu og glápa á imbann. Ekkert varð úr útsaum í gær en það stendur til bóta í dag.
5.4.21
Meiri eldar
Ég fór á fætur um hálfníu í gærmorgun. Eftir morgunverkin fór ég beint í eina tölvuna hans pabba og sat þar í uþb klukkustund. Síðan fékk ég mér AB-mjólk og lagði nokkra kapla. Hellti upp á kaffi um tíu um það leyti sem pabbi kom fram. Hann fékk sér þó ekki af kaffinu. Tók út eitt laxaflak sem ég matreiddi í hádeginu og gufusauð ég afganginn af blómkálinu, paprikunni og einn niðurskorin lauk en gleymdi að bæta epli út í. Fram að kaffi var ég að lesa, prjóna, sauma og leggja kapla. Fljótlega eftir kaffitímann tók ég mig saman, kvaddi pabbi, fermdi bílinn og brunaði í bæinn. Kom við á Sprengisandi og fyllti tankinn áður en ég fór heim. Fékk stæði beint fyrir utan og komst með dótið mitt inn í einni ferð. Afgangurinn af deginum fór í sjónvarpsgláp.
4.4.21
Laxasteik í páskamatinn
Dreif mig á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun. Fyrsti klukkutíminn fór í leiki og netvafr í einni tölvunni hans pabba. Pabbi kom fram um það leyti sem ég hellti mér upp á fyrstu kaffibolla dagsins um tíu. Dagurinn fór svo í lestur, prjón, útsaum og tölvuleiki. Pabbi hafði keypt nokkur laxastykki og matreiddi ég tvö væn stykki í hádeginu og hafði með þeim gufusoðið blómkál, papriku, lauk og epli. Á meðan ég var að græja þetta skrapp pabbi í "mjólkurbúðina" til að kaupa einn kassa af hvítvíni. Opnaði hann ekki fyrr en á áttunda tímanum í gærkvöldi. Um tvö leytið bjó pabbi til pönnukökustafla úr pönnusumixi frá Kötlu. Út í soppuna bætti hann við eggi.
Er búin með bókina um þöglu stúlkuna og er byrjuð á bókinni; Urðarköttur eftir Ármann Jakobsson.
3.4.21
Páskahelgin á Hellu
Ég var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Beið aðeins með að fá mér lýsi og morgunverð eða til níu. Þá borðaði ég afganginn af hafragrautnum frá því á miðvikudagsmorguninn, kaldan með smá rjóma útá. Sjósundsvinkona mín sótti mig rétt fyrir tíu. Þá var ég tilbúin og búin að bíða úti í uþb tíu mínútur. Hún var þá að koma frá því að bíða fyrir utan hjá nöfnu sinni sem hafði ætlað með okkur. Hún var greinilega steinsofandi því það náðist ekki í hana. Við vorum því bara tvær úr kjarnanum sem skelltum okkur nokkrar mínútur í sjóinn við Nauthólsvík. Hittum þó tvennt annað.
Var komin heim rétt upp úr hálfellefu. Skellti mér í sturtu og hellti svo upp á kaffi. Synir mínir komu fram úr herbergjum sínum á tólfta tímanum en ég kvaddi þá um tólf. Kom við hjá Atlantsolíu við Sprengisand en þar var röð af bílum svo ég ákvað að rúmlega hálfur tankur væri alveg nóg næstu daga.
Á leiðinni austur kom ég aðeins við í Fossheiðinni. Stoppaði þar í tæpa klukkustund. Var komin austur á Hellu fyrir klukkan þrjú og hér ætla ég að vera amk til morguns.
Við pabbi vorum með reykt folaldakjöt með rófustöppu í matinn og eftir kvöldréttir setti pabbi upp tjaldið og var með myndasýningu í rúma klukkustund.
2.4.21
Föstudagurinn langi
Í gærmorgun var klukkan byrjuð að ganga níu áður en ég fór fram úr fletinu og á fætur. Eftir morgunverkin á baðinu fór ég beint inn í stofu. Þar voru bæði bækur og prjónadót en líka fartölvan og ég settist niður með hana í dágóða stund. Annars var gærdagurinn nokkuð rólegur. Nennti ekki út í smá labbitúr og það eina sem ég fór út úr íbúðinni voru tvær ferðir í þvottahúsið. Drakk aðeins tvo bolla af kaffi en er ekkert að finna fyrir því núna, þ.e. höfuðið er ekki byrjað að kalla á kaffi. Er langt komin með bókina um þöglu stúlkuna og á aðeins tíu umferðir eftir af barnateppi no tvö áður en ég felli af og geng frá endum. Reyndar verða ekki svo margir endar til að ganga frá því ég prjónaði endana inn í teppið þegar ég var að klára og byrja á nýjum dokkum. Fyrir nokkrum dögum datt mér í hug að kíkja á þætti sem heita "Sáttasemjarinn", var búin að horfa á 3 þætti í gær og horfði á þrjá í einu seinni partinn og í gærkvöldi.
1.4.21
Mars búinn
Var komin á fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Fyrsta klukkutímanum eyddi ég í fartölvunni. Rétt fyrir níu skrapp ég í þvottahúsið og fór síðan beint í að búa mér til hafragraut. Sjósundsvinkona mín sótti mig rétt fyrir tíu og við hittum systurnar á bílastæðinu við Nauthólsvík. Ég var langfyrst út í sjó og fór upp úr um leið og hinar. Þær voru eitthvað um fimm mínútur og ég sennilega rúmum tveimur mínútum lengur. Kom heim um hálfellefu og nú notaði ég tækifærið og þvoði mér um hárið. Fljótlega eftir surtuferðina hellti ég upp á fyrsta kaffibolla dagsins. Þeir urðu reyndar tveir og um miðjan dag hellti ég upp á og drakk aðra tvo. Hengdi upp í þvottahúsinu og ákvað að skella yfirtökuflíkinni og hluta af sjósundsdótinu á stutt 39°C prógramm. Annars fór gærdagurinn í lestur, prjón, sjónvarpsgláp og netvafr.