31.1.21

Síðasti janúardagur nýja ársins

Ég var komin á fætur um átt í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af þorskalýsi og vatnsglas. Lét það nægja fyrst um sinn og settist inn í stofu og tók fartölvuna í fangið. Var búin að slökkva aftur á tölvunni áður en klukkan varð tíu. Þá bjó ég mér til hafragraut. Korter fyrir ellefu sótti sjósundsvinkona mín mig en þrátt fyrir að vera mætta í Nauthólsvík á slaginu ellefu þurftum við að bíða í smástund áður en okkur var hleypt inn í klefa. Ástæðan er sú að þannig er auðveldara fyrir starfsfólkið að passa upp á að ekki fleiri en 30 séu í heita pottinum í einu. Eftir ca sjö mínútna bið var þremur hleypt inn svo við komumst inn í því holli verandi númer eitt og tvö í röðinni. Sjórinn var -1,7°C og mér skilst á vinkonunni að við hefðum verið þrjár mínútur út í áður en við röltum yfir í víkina. Þar vorum við örugglega hátt í tíu mínútur áður en við fórum í heita pottinn.

Var komin heim rétt fyrir hálfeitt og fór ekkert út aftur. Kláraði bókina um Betu Reynis, kveikti aftur á tölvunni og var alltaf á leiðinni að grípa í prjónana. Ekkert varð úr prjónaskap en ég las meira, kveikti á sjónvarpinu, horfði á part úr leik í enska boltanum og eitt og annað. 

30.1.21

Skrepp á Hellu í gær

Ég rumskaði upp úr klukkan sex í gærmorgun, slökkti á vekjaraklukkunni sem ég hafði stillt á að vekja mig 6:25 og kúrði áfram til klukkan sjö. Var komin í Laugardalinn rétt rúmlega hálfátta. Byrjaði á einni ferð í kalda pottinum áður en ég synti 400 metra. Fór tvær aðrar ferðir í kalda pottinn, eina í 42°, eina í 44° og eina í "sjópottinn". Endaði á smá gufubaði og útibekkjarsetu áður en ég fór upp úr og heim. Í þessari sundferð hitti ég nokkra af morgunfólkinu mínu. Ein að þeim sem ég hitti talaði samt um að það vantaði marga. Ég veit til þess að einhverjir hafa ekki mætt í sund síðan rétt fyrir fyrir fyrstu lokun þegar staðreynd var að veiran væri búin að banka upp á. Það er mjög skiljanlegt að fólk vilji passa sig og svo eiga sumir örugglega erfitt með að byrja rútínuna á ný, kannski komnir í allt aðra rútínu.

Þegar heim kom settist ég smá stund inn í stofu, fyrst að lesa og svo að vafra aðeins um á netinu áður en ég setti inn smá færslu á þessum vettvangi. Að skrifum loknum slökkti ég á tölvunni, hellti mér upp á kaffi og fékk mér eitthvað í svanginn. Stuttu seinna kom N1 sonurinn fram. Hann átti að vera á frívakt en það var hringt í hann og hann spurður hvort hann gæti hlaupið í skarðið hjá N1 í Mosfellsbæ. Hann samþykkti það, skellti sér í sturtu og var svo rokinn.

Oddur Smári kom fram um hálfeitt. Klukkutíma síðar lögðum við mæðgin af stað og ókum sem leið lá austur yfir fjall og alla leið á Hellu til að gera óvænt innlit. Pabbi átti alls ekki von á okkur en tók okkur opnum örmum. Settumst fyrst inn í stofu fyrsta klukkutímann. Svo hafði hann til handa okkur kaffi og bauð okkur upp á vöfflur með. Hann er farinn að skella í vöfflur og pönnsur annan hvern mánudag þegar rúmensku hjónin sem þrífa hjá honum koma. Eftir kaffi spurði pabbi hvort við ætluðum að vera í kvöldmat, sagðist eiga stórt flak af laxi í frysti. Við vorum ekkert að flýta okkur svo ég tók laxinn út. Matreiddi úr honum á sjöunda tímanum og við pabbi fengum okkur hvítvínsglas með matnum þar sem ég var með einkabílstjóra með í för. Horfðum á kvöldfréttir eftir matinn og var klukkan að byrja að ganga níu þegar við kvöddum, þökkuðum fyrir okkur og héldum heim á leið. Urðum að leggja bílnum fyrir aftan heilsugæsluna. Davíð Steinn var komin heim af aukavaktinni en ég hitti ekkert á hann þrátt fyrir að fara ekki í háttinn fyrr en upp úr ellefu því hann var á kafi í tölvuleik.

29.1.21

Morgunsund

Það tók mig ákveðinn tíma að koma mér í gang í gær. Var þó komin á fætur um átta og morguninn fór að mestu í lestur og netvafr. Um hálftvö dreif ég mig loks af stað, fyrst með bílinn í gegnum þvottastöð og svo að versla. Kom heim með vörurnar  um þrjú. Oddur Smári tók að sér að ganga frá en ég fór beint út aftur og nú í sund. Var búin að synda 500 metra og var á minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Fór fjórar ferðir með henni í kalda en endaði svo á góðu gufubaði. Kom heim um sex. Las í smá stund áður en ég hafði mig í að útbúa plokkfisk úr fiskafgangi síðan fyrr í vikunni. 

28.1.21

Fullt tungl

Eftir að hafa setið við tölvuna í hátt í tvo tíma í gærmorgun slökkti ég aftur á henni og bjó til hafragraut og kaffi. Ljóst var að engin úr sjósundshópnum mínum kæmist í sjóinn en ég var ákveðin í að drífa mig um hádegið. Byrjaði þó á því að fara með lóðaleigusamninginn í þinglýsingu til sýslumanns. Það gekk ágætlega. Greiddi 2500kr. fyrir og fékk að vita að ég gæti sótt skjalið eftir hálfan mánuð gegn greiðslukvittuninni sem ég fékk í hendurnar. Man að ég skrifaði undir þrjú plögg á sínum tíma en Reykjavíkurborg hélt einu eftir hjá sér en ég fór með frumrit og afrit í þinglýsingu og annað þeirra skjala verða eftir hjá sýslumanni en hitt má ég semsagt sækja eftir tvær vikur og geyma.

Var komin í Nauthólsvík rétt rúmlega tólf. Það var háfjara, einhver ferð á logninu, lofthiti 0 en hiti sjávar var mældur -1,6°C. Fannst sem fyrr á fjörutímum ég þurfa að vaða hálfa leið til Kópavogs áður en ég gat dýft mér smástund í sjóinn. Var ekki með tímavörð með mér en held að ég hafi náð að vera í kringum mínútu. Sjórinn beit í læri og upphandleggi en ekkert svo að mér liði illa eða væri kalt. Rölti næst yfir í lónið sem var nokkrum gráðum hlýrra enda svamlaði ég þar um í nokkrar mínútur. Var svo uþb korter í heita pottinum.

Eftir sjósundsferðin skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði bókunum fjórum. Fann sex aðrar í staðinn en varð að byrja á því að endurnýja safnskírteinið áður en ég gat fengið þær að láni. Árgjaldið, kr. 2500 greiddi ég með glöðu geði. Síðan fór ég beint heim, ákvað að geyma frekari útréttingar í bili. Las einn kafla í þroskasögu Betu Reynis en svo fór mikill hluti af afganginum af deginum í að ljúka við að hámhorfa á söguna um Mörtu krónprinsessu. Það var ekki fyrr en ég fór í háttinn um hálfellefu að ég tók bókasafnsbækurnar upp úr pokanum. Ein af bókunum var þunn ljóðabók: Óstöðvandi skilaboð eftir Ásdísi Óladóttur. Las hana upp til agna og á örugglega eftir að lesa sumt aftur og aftur á meðan hún verður á náttborðinu næsta mánuðinn. Byrjaði einnig á bók eftir Lizu Marklund frá því 2007, ARFUR NÓBELS

27.1.21

Er að "teikna" upp daginn

Sjötta virka daginn í röð labbaði ég í vinnuna í gærmorgun, vel klædd og með höfuðljósið. Ég var í bókhaldi og hin tvö sáu um framleiðsluna. Framleiðslu lauk um hádegisbil því við vorum búin með öll aukaverkefni í bili. Aukamaðurinn yfirgaf því svæðið og eftirlét okkur hinum tveimur af fimm fastráðnum starfsmönnum frágangsmál. Tókum okkur langan hádegistíma. Samstarfskona mín skrapp út að borða með manninum sínum. Ég var svo heppin að aðeins þrír voru mættir í mat af fjórum svo ég fékk að borða fjórða skammtinn sem sendur var frá eldhúsi seðlabankans.

Klukkan að verða hálfþrjú ákváðum við að segja vinnudegi lokið og ég fékk far heim. Klukkutíma síðar var ég mætt í Laugardalinn og var búin að synda og fara eina ferð í kalda pottinn þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Ég fór fimm aðrar ferðir í þann kalda en endaði svo á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og heim.

Er búin að lesa allar bækurnar af safninu. Þarf ekki að skila þeim fyrr en í febrúarbyrjun en mér þykir líklegt að ég geri mér ferð á safnið mjög fljótlega. Er annars hálfnuð með bókina um Betu Reynis, Svo týnist hjartaslóð, sem Valgeir Skagfjörð skrifar. Svo á ég eftir að lesa tvær jólabækur enn, en það er alltaf pláss fyrir bók/bækur í kringum mig.

26.1.21

Seinni vinnudagurinn

Í gærmorgun var ég vöknuð hálftíma áður en vekjarinn átti að hringja. Slökkti á klukkunni ca tuttugu mínútum áður en hún átti að hringja. Rétt fyrir sjö labbaði ég af stað í vinnuna í nýju úlpunni, gönguskóm og með höfuðljósið. Ég var mætt til vinnu rétt rúmlega hálfátta smástund á undan hinum tveimur. Samtarfskona mín sá um bókhald í gær, aukamaðurinn var númer 1 á framleiðsluvélinni og ég númer 2 að taka á móti og skoða. Kláruðum allt daglegt fyrir tólf og þrjár endurnýjanir frá hádegi til þrjú. Tvær af þessum endurnýjunum voru langt komnar. Fékk far heim úr vinnunni. Sjósundshópurinn minn komst ekki í sjóinn í gær en ég lét það ekki stöðva mig. Byrjaði reyndar á því að skreppa í Fiskbúð Fúsa upp úr hálffimm að kaupa roðlausa og beinlausa ýsu, óbarinn harðfisk (líka ýsu) og 1 kg af rauðum kartöflum. Úr fiskbúðinni fór ég beint í Nauthólsvík. Geymdi vörurnar í skottinu á meðan ég skrapp í -0,7°C kaldan sjóinn ca tvær mínútur. Það var flóð en samt var hitastigið á lóninu örugglega nokkrum gráðum yfir núllinu. Eftir 5 mínútna svaml í lóninu slakaði ég á í heita pottinum í uþb 15 mínútur. Var komin heim áður en klukkan varð sex. 

25.1.21

Stutt vinnuvika framundan

Ég var komin á fætur um átta í gærmorgun. N1-sonurinn fór í sturtu klukkutíma síðar og upp úr klukkan hálftíu var planið að skutla honum í vinnuna og fara svo beint í sund. Þegar við komum út í bíl gat ég ómögulega fengið öryggisbeltið til að festast í slíðrinu. Við nánari skoðun hafði farið bútur af eldhúsrúllupappír vel ofan í raufina. Við vorum ekki með neitt handbært til að reyna að ná snifsinu svo ég stalst til að keyra með soninn í vinnuna upp á Gagnveg. Bað hann um að halda við beltið þannig að það liti út fyrir að ég væri spennt. Hann fann svo verkfæri í vinnunni sem komst ofan í raufina og náði pappírnum upp úr.

Var mætt í Laugardalslaugina rúmlega tíu. Synti í tuttugu mínútur. Kaldi potturinn var lokaður svo ég fór á milli sumra hinna heitari potta og kældi mig inn á milli með því að setjast á bekk í nokkrar mínútur. Þvoði á mér hárið þegar ég fór upp úr og var komin heim um tólf leytið. 

24.1.21

Á leiðinni í sund eftir N1-vinnuskutl

Dreif mig á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. N1-sonurinn var nýlega farinn í vinnuna. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af þorskalýsi en settist svo inn í stofu og kveikti á fartölvunni. Sjósundsvinkonan var búin að hafa samband og það var fastákveðið að hún myndi taka mig með. Nafna hennar staðfesti mætingu líka. Um tíu leytið slökkti ég á tölvunni. Fékk mér hafragraut. Var svo akkúrat tilbúin þegar ég var sótt. Vorum mættar í Nauthólsvík fyrir klukkan ellefu og það var komin smá röð fyrir framan. Einhverjir voru búnir að skella sér í sjóinn, höfðu bara verið í sundfatnaði innan klæða. Við þrjár sem mættum úr okkar hóp komust inn í fyrsta hollinu. Það er ennþá 10 manna hámark í skiptiklefunum. Sjórinn var sagður -0,5°C en það var ekki svona ískrap í honum eins og um daginn. Það var fjara en byrjað að flæða aðeins að aftur. Vorum uþb 6 mínútur í sjónum og það var ekkert mál. Fórum svo aðeins í lónið og það var nokkrum gráðum hlýrra því fjaran var enn það mikil að lónið var stúkað af frá sjónum.

Kom heim upp úr klukkan tólf og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Hinn sonurinn var kominn á fætur og byrjaði fljótlega að undirbúa heimilisverk. Hann sá um að rykskuga svo ég tók að mér að skúra.

Fór ekkert út aftur en fjórum sinnum niður í þvottahús. Hellti mér aftur upp á kaffi um hálffjögur. Hringdi í systur mína, fann fyrir því að hún hafði verið að hugsa til mín. Ég hafði reyndar líka verið að hugsa til hennar. Það á að setja Vallartúnið á sölu fljótlega en þau þurfa ekki að afhenda það fyrr en 1. júní. En þau eru að undirbúa sölusýningu og myndatöku. Þetta þýðir líklega að þau verði flutt í póstnúmer 641 einhvern tímann í maí. Á sínum tíma þegar þau mágur minn keyptu sínar fyrstu fasteignir með nokkura ára millibili var systir mín oft að reyna að fá mig til að flytja í hverfið nær þeim, 101 Reykjavík. Hlíðarnar og Norðurmýrin, 105 Reykjavík, eru nú alls ekki svo langt frá 101. Ég er enn í 105 á meðan systir mín og fjölskylda eru búin að prófa 112 og 600. Reyndar bjó ég í 112 1991-95.


23.1.21

Á leiðinni í sjóinn

Fjórða daginn í röð labbaði ég í vinnuna með höfuðljósið. Annan daginn í vinnuvikunni sinnti ég bókhaldinu. Fannst í smá stund sem það væri ekki kominn föstudagur enda var ég ekki í vinnunni á mánudaginn. Vinnudagurinn gekk vel og við stöllur ákváðum að þar sem það væri búið að ganga fremur vel í vikunni að við ættum skilið að hætta í fyrra fallinu. Það var framleitt til klukkan tvö en svo gengið frá og sameiginlegir snertifletir sótthreinsaðir. Ég fékk far heim úr vinnunni og var komin heim fyrir þrjú. Var ekki nógu ákveðin að drífa mig í sund, fór ekkert aftur út og greip ekki heldur neitt í prjónana mína. Reyndar var ég með tuskuprjón með mér í vinnunni og prjónaði aðeins í morgunkaffinu. 

22.1.21

Bóndadagur

Notaði ekki mannbroddana á göngunni í vinnuna í gærmorgun. Þeir voru þó með í för en leiðin sem ég labba er að mestu laus við hálku. Sjósundsvinkona mín gaf mér höfuðljós í jólagjöf sem þolir að fara á eitthvað dýpi. Hef notað það tvisvar sinnum í Nauthólsvík en fann svo enn frekari not fyrir ljósið á göngunni í vinnuna upp úr sjö á morgnana. Datt þetta í hug á göngunni í vinnuna seinni vinnudaginn í síðustu viku. Mundi svo eftir þessari hugdettu áður en ég labbaði af stað á þriðjudagsmorguninn var og hef notað það á göngunni í vinnuna alla fjóra vinnudagana.

Vinnudagur gærdagsins leið mjög hratt. Þar sem við tókum ekki kaffipásu eftir hádegi og erum mættar í hús korter fyrir átta hættum við fyrir klukkan hálffjögur. Ég fékk far heim með samstarfskonunni sem mætti til vinnu í gær (og var áður í vinnuhóp með mér). Settist aðeins niður í stofunni, kveikti á fartölvu og vafraði um í netheimum. Um fjögur hringdi ég í pabba. Hann hafði komið í bæjarferð í gærmorgun, var í rannsókn á spítalanum. Hann á að mæta aftur í byrjun febrúar og hitta þá á lækninn en það lítur út fyrir að ekki verði hægt að laga það sem hrjáir hann en það er alltaf smá von á að þetta lagist eitthvað með lyfjainntöku.

Mætti í Laugardalslaugina rétt upp úr hálffimm og fór beint í kalda pottinn. Þar hafði ég setið í rúmar þrjár mínútur þegar kalda potts vinkona mín kom úr heitasta pottinum í sína þriðju kalda potts ferð. Ég sat með henni í þrjár mínútur. Við fórum fjórar aðrar ferðir í þann kalda og alltaf þann heitasta á milli en eftir síðustu ferðina fór ég í gufubað í uþb 10 mínútur. Kokkaði einslags útgáfu af kjöt í karrý þegar ég kom heim.

21.1.21

Líður á mánuðinn

Setti mannbroddana aftur undir gönguskóna áður en ég labbaði af stað í vinnuna í gærmorgun. Gönguferðin gekk mjög vel en Samsung-health forritið í símanum var greinilega í verkfalli því þegar ég ætlaði að athuga hversu lengi ég var að labba, en forritið á að gera það sjálfkrafa, þá var ekki einu seinni búið að skrá á mig eitt einasta skref. Veit þó að skrefin í vinnuna, þá leiðina sem ég geng vanalega, eru rúmlega þrjú þúsund.

Í gær var ég á vélinni að hlaða inn verkefnum og senda þau af stað. Aukamaðurinn var í móttökunni og Silla í bókhaldi. Þurftum að senda aftur aðra endurnýjunina og hlaða inn en sem betur fer vorum við ekkert byrjuð á þeirri endurnýjun. Hefðum klárað þá endurnýjun sem við vorum að vinna í frá því á þriðjudag í gær en það stóðu aðeins um 67 kort útaf sem við gátum ekki framleitt.

Fékk aftur far heim úr vinnunni og svo var ég sótt rétt fyrir fimm til að skreppa í sjóinn. Mættum fjórar og fórum nokkrar mínútur í 0,2°C sjóinn. Davíð Steinn var að byrja að sinna kvöldmatargerð þegar ég kom heim aftur, mjög kryddaðan hakkrétt (hann missti sig aðeins í chillíinu).

20.1.21

Mannbroddar

Setti "naglana" undir gönguskóna áður en ég labbaði í vinnuna í gærmorgun. Var mætt fyrst en hin tvö sem hafa verið í hinum hópnum komu fljótlega. Ég fékk að vinna í bókhaldinu í fyrsta skipti á nýju árin en þetta var nú líka bara þriðji vinnudagurinn minn á árinu. Tvær endurnýjanir voru komnar og þeim hlaðið inn á vél. Þau sem voru á vélarvaktinni voru mjög iðin. Ég kom inn rétt fyrir þrjú og spurði hvort þetta væri ekki komið gott í dag, við þyrftum líka smá tíma til að ganga frá og svo er nægur tími. Þau samþykktu þessa tillögu mína. Samstarfskona mín var að fá gefins stóran bolta sem hægt er að nota til að gera æfingar á eða jafnvel sem stól. Ég bauðst til að halda á boltanum yfir í bílastæðahús Hörpu ef ég fengi far heim. Það var samþykkt. Við vorum alveg að vera komnar að tröppunum að kjallaranum þegar mér fannst húfan vera að fjúka af mér við það missti ég takið á boltanum og hann fauk af stað, þurftum að elta hann smá spöl en sem betur fer fór hann ekki út á götu en hann var vel blautur þegar ég náði honum aftur.

Var komin heim rétt upp úr hálffjögur. Hringdi í pabba, skrapp svo aðeins í netheima en var mætt í Laugardalslaugina rétt fyrir fimm. Eftir sundið kom ég við í Krónunni við Nóatún, eitt og annað sem vantaði sem passaði í tvo margnota poka. Oddur Smári gekk frá vörunum þegar ég kom heim aftur.

19.1.21

Þriðji vinnudagurinn á árinu í dag

Við Lilja kvöddum gestgjafa okkar rétt rúmlega eitt í gær eftir að hafa þegið smá hádegishressingu áður. Þurfti að skafa af bílnum áður en við lögðum í hann. Heimferðin gekk alveg ágætlega fyrir utan að stuttu áður en við komum að Hvalfjarðargöngunum var tekið fram úr okkur. Hefði verið allt í lagi nema bílstjórinn var ekkert að keyra mikið hraðar heldur en við, mjög ójafn hraði og þar að auki stundum að keyra á miðjum veginum. Óþægilegt að hafa svona bílstjóra fyrir framan sig og fúlt að geta ekki notað krús-kontrólinn. Aðstæður voru þannig að ekki var hægt að taka framúr aftur enda leyfði aksturslag bílstjórans það ekki, hann hægði á þegar umferð var á móti en gaf annars í og fór þá upp í næstum því 90.

Skilaði Lilju heim til sín stuttu fyrir klukkan þrjú og fór beint heim. Fékk stæði fyrir framan svo ég þurfti ekki að bera farangurinn langa leið. N1 sonurinn var í vinnu en hinn var heima en hann hélt sig í herberginu sínu að mestu. Ég byrjaði á því að kveikja á tölvunni þegar ég var búin að ganga frá ferðadótinu og sat við hana í rúmlega klukkustund. Rétt fyrir fimm skrapp ég í sjóinn í Nauthólsvík. Var komin heim aftur um sex. Oddur Smári var búinn að fá sér núðlur þannig að ég harðsauð egg og fékk mér eitthvað snarl. Horfði í landsleikinn og var, líkt og landsliðsþjálfarinn, ánægð með að strákarnir okkur slösuðust ekki og létu fantana í hinu liðinu ekki slá sig út af laginu. Góður sigur, meira svona!

18.1.21

Komin heim eftir frábæra daga í góðum félagsskap

Rétt upp úr eitt á föstudaginn var ég búin að pakka niður og komin af stað til að sækja Lilju vinkonu. Saman brunuðum við út úr bænum, undir Hvalfjörðinn, framhjá Borgarnesi og vorum í áttina að Stykkishólmi. Þegar við komum að hliðinu við Selborgir í Borgarfirði hringdum við í Sonju sem opnaði fyrir okkur. Þá áttum við eftir að keyra smá spöl, og við vorum ekkert að keyra of hratt því það voru margir pollar á vegslóðanum. Það var samt ekki rigning þegar við fluttum dótið okkar úr bílnum í bústaðinn til Sonju rétt fyrir hálffjögur. Sonja var að vinna en hún stimplaði sig út og bauð okkur kaffi. Það fór að rigna fljótlega og það hellirigndi langt fram á nótt. Við settumst í sófann með handavinnuna okkar eftir kaffið og tíminn fram að kvöldmatartíma leið ógnarhratt. Sonja sá um að hafa til kvöldmatinn og það var ekki fyrr en eftir mat sem hún þáði aðstoð og þá aðeins við uppvaskið. Við sátum svo frameftir kvöldi að spjalla og sýsla við handavinnuna okkar.

Þegar ég kom fram klukkan hálfátta morguninn eftir var Lilja vöknuð og komin fram fyrir löngu. Skellt var í morgunverðarhlaðborð þegar Sonja kom fram. Um hádegi skruppum við út í göngutúr og gengum flestar götur í kring nema ekki þá götu sem við komum akandi daginn áður. Eftir rigninguna daginn áður var betra að halda sig á veginum og helst í hjólförunum því undirlagið var mýkra í miðjunni. Þetta voru langt innan við 4000 skref. Þetta var sannkölluð saumaklúbbs ferð því við vorum oftast vinna við hannyrðirnar inni við þegar ekki voru matar, kaffi og svefntímar.

Lilja var aftur fyrst á fætur í gærmorgun. Ég kom fram á svipuðum tíma og morguninn áður og hafði með mér bók. Lilju fannst það góð hugmynd og sótti lestölvuna sína. Lásum til klukkan átta en þá höfðum við til kaffið og það var akkúrat tilbúið þegar Sonja kom fram. Eftir kaffið var gripið í handavinnuna en um hádegisbilið fórum við út í heldur svalara veður en daginn áður og löbbuðum þá leið sem við Lilja höfðum ekið á föstudaginn, næstum alla leið upp á veg og svo til baka. Það vantaði tæp þúsund skref upp á 6000. Þessi dagur leið jafn hratt og hinir og við stöllur fengum iðulega hlátursköst, vorum komnar með harðsperrur í magann en sammála um að þetta væri bara af hinu góða. Sonja bauð okkur að vera til mánudags og við Lilja þáðum það með þökkum.

Í morgun brá svo við að ég var fyrst á fætur. Vaknaði á svipuðum tíma og dagana á undan. Ég var búin að prjóna smávegis og lesa einn stuttan kafla þegar Lilja kom fram korter fyrir átta. Um átta leytið hjálpuðumst við að við að útbúa morgunverðarhlaðborð og það stóð heima, Sonja kom fram akkúrat þegar allt var klárt. Eftir kaffið stimplaði hún sig inn í vinnuna. Við Lilja sinntum handavinnunni okkar en skruppum svo út á pall þegar fór að birta til að fanga augnablikin og fegurðina.

15.1.21

Föstudagur, laugardagur eða sunnudagur

Ég heyrði þegar pabbi fór í sund rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Ég var ekki með sunddótið með mér og ætlaði mér að kúra aðeins lengur. Það gekk samt ekki upp því ég var glaðvöknuð. Gafst upp á að reyna að sofna aftur rétt fyrir sjö og fór á fætur. Kveikti á einni tölvunni hans pabba og vafraði um á netinu í ca. klukkustund. En þegar pabbi kom heim úr upp úr hálfníu var ég búin að færa mig inn í eldhús og að leggja kapla. Fljótlega settist ég inn í stofu með bók. Er búin með bókina sem Davíð Steinn gaf mér í jólagjöf og næst síðustu bókina sem ég er með af safninu: Grafin undir gistihúsi, sláandi sönn saga af svikráðum, misnotkun og morðum eftir Ryan Green þýdd af Gísla Rúnari Jónssyni. Í gær byrjaði ég á annarri bókinni sem Oddur Smári gaf mér og er líka að lesa síðustu bókina sem ég er með af bókasafninu: Leyndarmál systranna eftir Diane Chamberlain.

Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu þar sem við fengum aspassúpu og dýrindis kjúklingarétt. Ég tók aðeins til við prjónana eftir að við komum til baka aftur en ég var líka að leggja kapla, lesa og vafra á netinu fram að kaffi. Um fjögur, strax eftir kaffi, kvaddi ég pabba tók mig saman og lagði af stað í bæinn. Tók með barnastígvél sem Magga hans Sævars hafði komið með kvöldið áður. Hitti á Kristínu dóttir hennar við Rauðavatn og afhenti henni þessi stígvél.

Upp úr hádegi í dag er ég aftur á leið út úr bænum í tvær til þrjár nætur. Verð ekki með tölvuna meðferðis svo skrifin liggja niðri á meðan. Er nýlega komin heim úr sundi og á enn eftir að hella mér upp á kaffi. Best að fara að vinna í því.

14.1.21

Morgunstund

Þrátt fyrir að ekki væri vinnudagur í gær hafði ég stillt vekjaraklukkuna á mig. Stillti hana á 7:40 en á vinnudögum er ég mætt í vinnu á þeim tíma. Vaknaði amk klukkutíma áður en vekjaraklukkan átti að vekja mig og var búin að slökkva á henni og  koma mér fram úr fletinu áður en klukkan varð hálfátta. Skipti um á rúminu en beið til klukkan átta með að fara með rúmfötin niður í þvottahús í þvottvélina. Klukkan var langt gengin í níu þegar ég mætti í laugardagslaugina, á sundleikfimitíma sem fer fram á þeim brautum sem ég nota oftast til að synda. Byrjaði á því að fara tvær ferðir í kalda og þann heitasta á milli og eftir. Eftir seinni heita potts ferðina fór ég í pottinn sem alltaf er kallaður sjópotturinn. Það hefur reyndar ekki verið sjór í honum í marga mánuði og stundum er hann lokaður. Í gær var að minnka í honum og einn sem alltaf er í sundi á þessum tíma á morgnana og var komin ofan í pottinn sagði að það væri fjara. Kannast við þennan mann og alltaf hefur konan hans mætt með honum og ég hef stundum spjallað við hana. Hún var þó ekki með í gær og óvíst hvort hún komi aftur því hún er komin með alzeimer á það stig að hún þekkir oft ekki manninn sinn og rekur hann út. Hann sagði mér að hún væri komin með pláss á Eir og komin í aðlögun þar. Synti 100 metra á braut eitt en þá var leikfimin einmitt að klárast svo ég fór þriðju ferðina í kalda pottinn áður en ég synti 400 metra á braut 6 sem er alveg við hliðina á brautunum sem ég syndi oftast á.

Kom heim um hálfellefu, hengdi upp úr þvottavélinni og hellti mér svo upp á smá kaffi. Hringdi í Lilju vinkonu áður en ég tók mig saman og lagði af stað austur upp úr klukkan tólf. Kom við í Fossheiðinni hjá tvíburahálfforeldrum mínum. Kom svo pabba á óvart með því að hringja á dyrabjöllunni hjá honum um hálfþrjú. Útidyrnar voru læsta og ég nennti ekki að grafa eftir húslyklunum verandi með farangur með mér. Við pabbi fórum strax í smá kaplakeppni. Eftir kaffi settist ég með prjónana mína inn í stofu. Fann meira af samskonar garni þannig að ég ætti að ná í eins og eitt ungbarnateppi. Í kvöldmatinn fékk ég mér kalt hangiket með rófustöppu. Þar sem pabbi borðar heitan mat í hádeginu á Kanslaranum virka daga fær hann sér aðeins snarl á kvöldin. Hann bauð mér svo að fá mér hvítvínsglas eða tvö sem ég þáði og við fórum aftur í smá kaplakeppni.

13.1.21

Heimsókn á Hellu

Var búin að slökkva á vekjaraklukkunni og komin á fætur áður en hún hringdi í gærmorgun. Labbaði af stað í vinnuna nánast á sömu mínútunni og á mánudagsmorguninn. Engin auka framleiðsla var í gær en daglegu skammtarnir ívíð stærri. Engu að síður var allri framleiðslu lokið fyrir klukkan tólf. Tókum okkur góðan tíma í hádegismat en vorum eiginlega búin með öll verkefni fljótlega eftir að klukkan varð eitt. Ég stillti póstinn minn á sjálfvirkt svar um að ég væri ekki á vinnusvæðinu næstu fjóra virka daga. Svo var ég einnig búin að útbúa póst til að senda á fyrirtækið sem tekur á móti símtölum en ég gleymdi að senda hann. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim áður en klukkan varð þrjú.

Um hálffimm leytið fór ég í sund. Fór þrisvar í kalda, synti 500 og endaði í gufunni í amk tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim aftur. Bjó til grjónagraut í kvöldmatinn. Var búin að slökkva á sjónvarpinu áður en klukkan varð hálftíu og komin upp í rúm að lesa fljótlega eftir það. Sofnaði líklega áður en klukkan varð hálfellefu.

12.1.21

Seinni vinnudagurinn í þessari viku

Ég var vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja í gærmorgun. Var komin á fætur og búin að búa um á þeim tíma sem ég ráðgerði að vakna. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af lýsi, harðsoðið egg og tvö glös af vatni. Labbaði af stað í vinnu rétt áður en klukkan varð sjö. Hafði með mér m.a. vöfflusoppuna frá í fyrradag og þeyttan rjóma. Allri framleiðslu var lokið rétt fyrir tólf.  Tókum okkur rúman matartíma en vorum þó komnar inn á deild aftur fyrir eitt. Ég stoppaði þar aðeins í um tíu mínútur áður en ég fór fram aftur og hellti mér út í vöfflugerð. Vöfflujárnið í vinnunni er tvöfalt og ég gerði 10 og það var samt afgangur í fötunni sem ég tók með mér heim aftur. Rjóminn kláraðist. Við vorum fimm sem gæddum okkur á þessum veitingum. Upp úr klukkan tvö vorum við búnar að ganga frá öllu og þar sem ekkert lá fyrir ákváðum við að segja þetta gott og fara heim. Önnur af samstarfskonum mínum bauð okkur hinum tveimur far heim sem við þáðum.

Stoppaði heima í rúma tvo tíma áður en ég fór í Nauthólsvík og -0,3°C sjóinn. Það var háflóð og ískrapi þeim megin sem ég er vön að fara út í. Ég lét ekki krapið stoppa mig en fór samt varlega. Var ekki með tímavörð með mér en er nokkuð viss um að hafa verið útí þarna megin í uþb eina og hálfa mínútu. Þar sem það var flóð þurfti ég ekki að fara mjög langt en engu að síður varð ég einnig að passa mig þessa stuttu leið til baka. Fór svo aðeins í lónið áður en ég kom mér fyrir í heita pottinum um stund. Var komin heim aftur um sex. Þá setti ég upp kartöflur og steikti eitt flak af þorskhnökkum í fjórum bitum.

11.1.21

Vöfflukaffi í vinnunni

Í gærmorgun skutlaði ég N1 syninum á vakt rétt fyrir tíu og fór svo beint í sund. Fór fjórar ferðir í kalda pottinn, synti 500 metra þar af 150 á bakinu og sápuþvoði á mér hárið áður en ég fór heim. Oddur Smári kom fram um eitt leytið og ég spurði hvot það væri ekki upplagt að búa til nokkrar vöfflur. Hann tók vel í þá hugmynd og ákvað að hjálpa mér. Ég hrærði í heila uppskrift og hann bjó til 5 vöfflur á meðan ég  þeytti rjóma og hellti á könnuna. Setti afganginn, sem var efni í amk 8-10 vöfflur í viðbót í litla fötu undan súrmat. Oddi fannst það frekar spes.

Leist ekki meir en svo á landsleikinn í handbolta að ég hætti að horfa þegar strákarnir okkar voru komnir fimm mörkum undir. Var svo gapandi hissa þegar ég ákvað að horfa á síðasta korterið af leiknum og sá að það hafði orðið alger viðsnúningur og leikurinn vannst með níu marka mun.

Hafði ofnbökuð kjúklingalæri með blómkáli, rauðkáli og sveppum í matinn og bauð ég einnig upp á soðin bygggrjón. Mjög gott að sjálfsögðu. 

10.1.21

Tuttuguogeinsárs starfsafmæli

Með þessari færslu jafna ég bloggskrif í janúar í fyrra, þe þetta er tíunda færsla ársins. En það eru ennþá 21 dagur eftir af þessum mánuði svo þótt það sé ekki öruggt að ég muni setja inn færslu daglega þá er næsta víst að þetta er ekki síðasta færslan í þessum mánuði. Staðan á sund- og sjóferðum á þessu nýja ári er líka jöfn, 5:5.

Í gærmorgun drattaðist ég á fætur rétt áður en klukkan varð níu. Um klukkustund síðar bjó ég mér til hafragraut og rétt fyrir ellefu var ég sótt af sjósundsvinkonu minni. Hittum hinar þrjár af kjarnanum í hópnum í Nauthólsvík. Sjórinn var sagður 0,5°C og lofthiti -3. Vorum út í sjó í uþb fimm mínútur og svo rúmar tíu mínútur í heita pottinum á eftir.

Var komin heim aftur áður en klukkan varð tólf. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi. Og dagurinn leið við alls konar dundur. Upp úr klukkan hálfsjö fór ég á bílnum niður í bæ og lagði honum á stæði á Skúlagötu rétt við Ingólfsstræti og Kalkofnsveg. Móðursystir mín og guðmóðir á afmæli í dag og hún bauð mér, dóttur sinni, kærasta hennar og tvíburabróðursyni sýnum út að borða á Grillmarkaðnum. Ég átti að mæta klukkan sjö og taldi mig hafa nægan tíma en það fór nú svo að ég mætti síðust korter yfir sjö. Mig misminnti nafnið og staðsetning á staðnum og fór langt yfir skammt og fór fyrst í Matarkjallarann. Mér voru fyrirgefin þessi mistök. Borðhaldið tók þrjá tíma enda var ætlunin að njóta matarins og félagsskaparins. 

9.1.21

Komin á fætur en ekki í gírinn

Í gærmorgun dreif ég mig á fætur rétt upp úr sjö. Fékk mér lýsi, harðsoðið egg og vatnsglas áður en ég fór í sund. Byrjaði á ferð í kalda pottinn áður en ég synti 500 metra fór svo beint í kalda aftur. Fór eina ferð í heitasta pottinn og svo aftur í þann kalda áður en ég fór í gufu. Endaði svo á kaldri sturtu áður en ég fór upp úr og heim.

Heima setti ég handklæði og brækur í þvottavélina og bjó ég mér til hafragraut og kaffi. Fór ekkert út úr húsi aftur en sinnti bæði áhugamálum og nokkrum skylduverkum. Oddur Smári tók hluta af skyldunum að sér.

Uppgötvaði að ég hef ekki alveg farið rétt eftir teppaprjónamynstrinu en þar sem ég er handviss um að ef þetta verður í þeirri lengd sem mælt er með þá dugar garnið ekki. Hef því ákveðið að rekja ekki upp heldur breyta eftir eigin höfði. Get alltaf útvegað það garn sem bent er á í uppskriftabókinni og prjónað eftir uppskriftinni aftur og þá fylgt henni betur.

8.1.21

Jafnoft í sjóinn og sund

Kom mér á fætur rétt áður en klukkan varð níu í gærmorgun. Sá morgun var að mörgu leyti keimlíkur morgninum á undan en ekki alveg að öllu leyti. Ég hafði með mér nokkrar bækur fram í stofu og byrjaði aðeins á einni af jólabókunum, Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Sú bók er góð. Kaflarnir stuttir en ég ætla samt ekki að hámlesa hana, þ.e. ég ætla að gefa mér nokkra daga, lesa aðeins örfáa kafla í einu. Í staðinn er ég með fleiri bækur á kantinum. Hef lokið lestrinum á þeirri bók sem varð eftir heima af safninu, Gilead og ég mæli mjög með henni. Þá bók er heldur ekki hægt að hraðlesa yfir nema þá að maður ætli að lesa hana aftur.

Hélt áfram að prjóna teppið og það gengur mjög vel, eiginlega of vel þannig séð, er búin að klára tvær dokkur, byrjuð á þeirri þriðju og er stödd í mundsturkafla 2 af fimm. Nýjasti yfirmaður minn hafði samband í gær til að láta mig vita að það væri verið að breyta vinnuvaktaplaninu frá og með næstu viku og amk út mánuðinn með fyrirvara um hvaða reglugerðabreytingar taka í gildi eftir 12. janúar. Tvær af okkur fimm eiga eftir að taka megnið af sumarfríinu sínu síðan í fyrra og þær ætla að taka eitthvað af því í þessum mánuði. Verktakinn verður í vinnu fram að mánaðamótum og við eigum aðeins að mæta 3 til vinnu hverju sinni. Samkvæmt plani á ég að mæta í vinnu tvo fyrstu dagana í næstu viku og svo ekki fyrr en 19. og þá vinn ég 6 virka daga í röð. Ef þetta gengur eftir þá er ég að vinna átta daga í þessum mánuði og næ að vinna eitthvað með öllum nema fyrirliðanum, sem er önnur þeirra sem er að fara í orlof.

Mætti í Laugardalslaugina um hálffjögur í gær og byrjaði á því að synda 500 metra. Hitti svo kalda potts vinkonu mína í hennar fyrstu ferð í kalda pottinn. Fór með henni fimm sinnum í viðbót og oftast þann heitasta á milli. Eftir sjöttu ferðina skildu leiðir og ég fór í gufu.

Áður en ég fór að sofa í gærkvöldi byrjaði ég að lesa; Kópavogskrónika: til dóttur minnar með ást og steiktum eftir Kamillu Einarsdóttur. Bókin lætur ekki mikið yfir sér, er þunn og stuttir kaflar en lesturinn vekur upp ýmsar hugsanir um lífið og tilveruna, uppvöxt og mannlega hegðun, hugsanir, gerðir og líkt og ólíkt fólk.

7.1.21

Dagurinn lengist smátt og smátt

Í gær fór ég í fjórða skiptið í sjóinn á árinu og hef því farið oftar þangað heldur en í sund. Fór í Laugardalslaugina um miðjan dag í fyrradag. Hitti ekki á kaldapotts vinkonu mína en ég fór fjórar ferðir í kalda pottinn og í synti einnig 400 metra.

Klukkan var annars um níu í gærmorgun þegar ég reif mig loksins á fætur. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég beint inn í stofu og kveikti á fartölvunni. Ætli ég hafi ekki setið við hana í hátt í tvo tíma eða svo að leika mér, vafra og endaði á því að blogga. Um ellefu hringdi ég í föðursystur mína til að óska henni til hamingju með daginn. Talaði stutt því dóttur-dóttir hennar og dóttur-dóttur-sonur voru í heimsókn. Hún sagði mér að hún hefði svarað langömmubarni sínu því að hún væri þriggja ára þegar hann spurði. Þannig að hún klippti fremri töluna alveg af.

Þegar ég var að koma að austan síðast tók ég með mér 6 hnotur af rauðu Artic hreinu ullargarni sem er hluti af því garni úr fórum mömmu heitinnar sem eftir á að koma út eða gera eitthvað við. Þetta er öðruvísi garn heldur en mælt er með í barnateppauppskriftarprjónabókinni en ég ákvað samt að prófa að nota þetta. Hugsanlega dugar þetta garn ekki í uppskriftina en ég fitjaði upp á hringprjón í gær, er langt komin með fyrstu hnotuna og rétt að byrja á neðsta munsturkaflanum af þremur. Þetta verður eitthvað.

Um tvö leytið í gær skutluðum við Oddur Davíð Steini á aukavakt á N1 í Borgartúni. Oddur fór í Sorpu á meðan ég verslaði í Krónunni við Granda. Ég fór líka í Elko að kaupa hleðslubatterí í heimasímann og í Byko að kaupa stíflueyði.

Klukkan fimm sóttu nöfnurnar mig í sjósundsferð. Við hittum systurnar á bílaplaninu við Nauthólsvík. Vorum uþb fimm mínútur í 1,3°C sjónum og svo tuttugu mínútur í heita pottinum áður en við fórum upp úr og vorum í samfloti heim til annarrar systurinnar. Þar var okkur boðið upp á heimabakaðar kanelbollur og ýmislegt fleira. Það var mikið spjallað og tíminn leið alltof hratt. Sjósundsvinkona mín skutlaði mér og nöfnu sinni aftur heim um níu. 

6.1.21

Þrettándinn

Föðursystir mín, Árný Oddbjörg Oddsdóttir er 93 ára í dag. Hún býr í eigin húsnæði og sér um sig og heimili sitt sjálf. Fyrir nokkrum misserum fékk hún sér neyðarhnapp til að bera til öryggis en ég veit ekki til þess að hún hafi þurft að nota hann. Fólkið hennar er duglegt að líta til með henni og bjóða aðstoð, t.d. við búðarferðir. Einn sonur hennar og tengdadóttir búa í hinum enda hússins. Samt held ég að hún líti alveg jafn til með þeim og þau henni. Mér þykir afskaplega vænt um þetta frændfólk mitt allt, bæði föðusystur mína og alla hennar afleggjara og fylgifiska.

En aðeins að gærdeginum. Ég komst á fætur um hálfníu en maður minn hvað mér fannst mikið dimmt úti og langt fram á morguninn. Klukkan var ellefu þegar ég hafði mig loksins af stað að reka nokkur nauðsynleg erindi. Byrjaði á því að fara í bókasafnið og skila öllum bókum nema einni, þá bók framlengdi ég skilafrestinn á um einn mánuð. Þrátt fyrir að eiga jólabækurnar enn ólesnar, aðeins búin að glukka í teppaprjónabókina, þá tók ég þrjár bækur af safninu.

Frá bókasafninu lá leiðin að N1 við Fellsmúla. Skynjarinn fyrir þrýstinginn á dekkjunum hefur ekki verið í lagi síðan ég lét setja naglana undir. Bíllinn komst strax að og við nánari skoðun þurfti að skipta um einn skynjara. Fékk að gefa upp kennitölu N1-sonarins og borgaði innan við fimmþúsund fyrir skynjarann.

Næst lagði ég bílnum við Krónuna við Nóatún, aftarlega á planinu. Þaðan labbaði ég niður í Borgartún 12-14 þar sem Reykjavíkurborg er með margvíslega starfsemi. Í þjónustuverinu fékk ég að skrifa á þrjú plögg undir nýjan lóðaleigusamning við borgina. Fleiri íbúðareigendur við Drápuhlíð 21 eiga eftir að skrifa undir áður en hægt verður að þinglýsa þessum nýja samning.

Fór ekkert í Krónuna en kom við í Fiskbúð Fúsa áður en ég fór heim.

5.1.21

Frænkuheimsókn

Stuttu fyrir hádegi í gær hafði nafna mín og frænka samband við mig til að athuga hvenær hún gæti nálgast húslyklana sína. Við sammæltumst um að hún kæmi um eitt. Korter fyrir eitt hringdi hún aftur og sagðist sennilega verða eitthvað seinni þar sem mamma hennar er á landinu og þurfti að nota bílinn. Hálftíma síðar voru mæðgurnar mættar. Sú eldri er móðursystir mín og guðmóðir. Hún er með lögheimili í Noregi en á íbúð hér í Reykjavík (og reyndar eina í Kaupmannahöfn og aðra í Berlín) og er búin að vera hér síðan rétt fyrir áramót í jólafríi. Þær mæðgur gerðu gott stopp áður en þær fóru í frekari snúninga. Nafna mín færði mér jólakort og böggul frá þeim Mikael og kisu, mjög flotta vínrauða húfu og keramikkrús sem ég hallast að því að sé hugsað sem drykkjarílát frekar en ílát undir sprittkerti því það eru för í krúsinni sem passa við fjögurra fingra grip, þumal og þrjá fingur.

Rétt fyrir fimm, rúmri klukkustund eftir að frænkur mínar kvöddu, sóttu nöfnurnar mig í sjósundsferð. Hittum systurnar á planinu við Nauthólsvík og ellefu mínútum yfir fimm vorum við að vaða í átt til Kópavogs í 1,3°C heitan sjóinn. Vorum þrjár mínútur í sjónum en meira en hálftíma í heita pottinum á eftir. Þannig að ég er búin að fara oftar í sjóinn á þessu ári heldur en í sund. 

4.1.21

Er að leita að "gerugírnum"

 Í gærmorgun fór ég á fætur  um níu, var vöknuð nokkuð fyrr. Fljótlega sendi ég kalda potts vinkonu minni fyrirspurn um hvort og þá hvenær hún ætlaði í sund. Fyrsta svar var á þá leið að hún væri ekki viss, var eitthvað þreytt. En ekkert löngu síðar sagðist hún geta verið mætt um hálftíu. Þessi skilaboð hjálpuðu mér að koma mér af stað í sund. Klukkan var akkúrat hálftíu þegar ég mætti í laugardalinn og þá þegar var vinkona mín búin að fara eina ferð í kalda pottinn. Ég náði fimm ferðum með henni. Synti ekkert en endaði í smá gufubaði áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið áður en ég fór beint heim aftur.

3.1.21

Kaldapottspottormur

Ég var sótt aftur rétt fyrir ellefu í gærmorgun til að fara í sjóinn. Það var meiri dumbungur í veðrinu en það voru fleiri að mæta í Nauthólsvíkina heldur en á nýjársdag. Mættum fimm úr hópnum. Þurftum að bíða í uþb 5 mínútur áður en við komumst að í búningsklefanum. Ég tók sjósundsskó og hanska með mér framfyrir klefann. Sjórinn var 0,3°C heitari heldur en í fyrradag eða ein gráða. Svömluðum um í þrjár mínútur og skruppum svo aðeins í lónið áður en við fórum í pottinn. Vorum ca 15 mínútur í pottinum en höfðum ekki samvisku í að vera lengur til að hleypa fleirum að. Engin biðröð var í klefann þegar við fórum uppúr.

Eftir að ég kom heim aftur þvoði ég eina þvottavél af handklæðum, kláraði loksins tuskuna sem ég fitjaði upp á rétt fyrir jól en svo fór stór partur af deginum í að klára að horfa á DNA, danska seríu sem finna má á RÚV í spilaranum. Eitthvað fleira gerði ég mér til dundurs og dagurinn leið mjög hratt. Var komin upp í rúm með bók um hálfellefu og sofnuð löngu áður en klukkan varð tólf.

2.1.21

Aftur í sjóinn

Rétt fyrir tíu í gærmorgun, uþb hálfri klukkustund eftir að ég kom mér á fætur, bjó ég mér til hafragraut. Sjósunds vinkona mín setti fyrirspurn á hópinn nokkru síðar en ég var sú eins sem var tilbúin að drífa mig með henni. Hef aldrei áður farið í sjóinn á nýjársdag og það var líka komin meira en vika síðan ég var síðast að busla í sjónum. Veðrið var mjög bjart og fallegt. Helga Rún kippti mér með rétt fyrir ellefu. Einhverjir voru þegar mættir en samt bara hæfilega margir. Nóg pláss var í klefanum, hitastig sjávar 0,7°C og í tilefni dagsins var íslenska fánanum flaggað. Við vorum eitthvað um þrjár mínútur í sjónum en skruppum svo í lónið strax á eftir. Þar var hitastigið aðeins hærra amk í kringum uppsprettuna. Svo vorum við næstum hálftíma í heita pottinum. Ég var komin heim um hálfeitt og fór ekkert út aftur.

Síðasta bókin af safninu; Gilead eftir Marilynne Robinson er um gamlan prest í samnefndum bæ í Iowa og skrif hans til ungs sonar af reynslu sinni sem og sögu bæjarins og fjölskyldunnar. Skáldsaga sem ég er rétt byrjuð á en finnst lofa mjög góðu. 

1.1.21

Glænýtt ár!

Um miðjan dag í gær setti ég loksins upp grautinn sem breyttist í hátíðargraut nokkru eftir kvöldmat eftir að hafa verið kældur. Blandaði þeyttum rjóma saman við. Dagana milli jóla og nýjárs var ég mikið að velta fyrir mér hvað skyldi hafa í matinn á gamlársdag. Þegar ég kom við í Krónunni við Nóatún eftir sund þann 30. fann ég akkúrat eitthvað sem ég hef mjög sjaldan á boðstólum en tekur ekki langan tíma að matreiða, nauta-piparsteik, 4 sneiðar. Létt steikti sneiðarnar upp úr smjöri en það var það allra síðasta sem ég gerði áður en sest var að borðum. Með þessu bauð ég upp á kartöflur, kúlukál (lesist rósakál), grænar baunir, waldorfssallat og rauðvínssósu. Nammi gott en við mæðgin vorum svo södd eftir borðhaldið að við geymdum okkur eftirréttinn aðeins fram á kvöld. Skaupið þótti mér alveg ágætt og varð strax hugsað til systur minnar og mágs þegar atriðið með "Sindra" í heimsókn hjá parinu sem flutti í sveitina til að prófa nýjan lífsstíl. Úthaldið var ekkert  en þó aðeins fram yfir miðnætti. Það gæti alveg verið vegna þess að ég svaf ekkert sérstaklega vel nóttina á undan einhverra hluta vegna. En framundan er glænýtt ár og þessi dagur byrjaði alveg einstaklega vel. Kannski meira um hann á morgun.