Ég var komin á fætur um átt í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af þorskalýsi og vatnsglas. Lét það nægja fyrst um sinn og settist inn í stofu og tók fartölvuna í fangið. Var búin að slökkva aftur á tölvunni áður en klukkan varð tíu. Þá bjó ég mér til hafragraut. Korter fyrir ellefu sótti sjósundsvinkona mín mig en þrátt fyrir að vera mætta í Nauthólsvík á slaginu ellefu þurftum við að bíða í smástund áður en okkur var hleypt inn í klefa. Ástæðan er sú að þannig er auðveldara fyrir starfsfólkið að passa upp á að ekki fleiri en 30 séu í heita pottinum í einu. Eftir ca sjö mínútna bið var þremur hleypt inn svo við komumst inn í því holli verandi númer eitt og tvö í röðinni. Sjórinn var -1,7°C og mér skilst á vinkonunni að við hefðum verið þrjár mínútur út í áður en við röltum yfir í víkina. Þar vorum við örugglega hátt í tíu mínútur áður en við fórum í heita pottinn.
Var komin heim rétt fyrir hálfeitt og fór ekkert út aftur. Kláraði bókina um Betu Reynis, kveikti aftur á tölvunni og var alltaf á leiðinni að grípa í prjónana. Ekkert varð úr prjónaskap en ég las meira, kveikti á sjónvarpinu, horfði á part úr leik í enska boltanum og eitt og annað.