Ég var komin á fætur á undan N1 syninum í gærmorgun. Bjó til hafragraut fyrir tvo um níu leytið og borðaði annan skammtinn sjálf. Bauð vinnusyninum að borða hinn helminginn en hann gaf sér ekki tíma í það heldur fór í snögga sturtu áður en ég skutlaði honum á vakt upp á Gagnveg fyrir klukkan tíu. Fór beint heim aftur að undirbúa mig undir sjósundsferð. Var sótt rétt fyrir ellefu og vorum við fjórar úr hópnum okkar sem svömluðum saman í uþb sjö mínútur í Nauthólsvík í gærmorgun. Þegar ég kom heim fór ég beint í sturtu og þvoði á mér hárið. Setti svo sjósundsdótið á stutt 30°C prógram. Fór ekkert aftur út í gær og byrjaði heldur ekki að skrifa nein jólabréf. Horfði svolítið á fótbolta og einhverja þætti úr premium. Hafði lasanja í kvöldmatinn og var með forrétt og eftirrétt frá RB/SRB veislunni frá því á föstudaginn. Í forrétt var ofnbakaður gullostur með möndlumauki. Leyfði strákunum að eiga eftirréttinn sem var góður biti af súkkulaðiköku sem var hitaður uþb 10 mínútur í 180°C ofni. Ofan á þetta var sett einhverskonar eplasallatblanda og köld vanillusósa á eftir.
30.11.20
29.11.20
Sjóbað á sunnudegi
Sjósundsvinkona mín var af fagna 85 ára afmæli föður síns með nánasta fólkinu í gær svo það varð úr að við færðum sjóbuslið til sunnudags. Eftir að hafa skutlað Davíð Steini í vinnuna var ég að velta því fyrir mér að taka fram penna og blað og byrja á fyrsta jólabréfinu af þremur. Það fór nú samt svo að ég hugsaði aðeins um þetta verkefni og notaði tímann í annað. Ég ætlaði líka að skreppa út í smá göngu en það varð ekkert heldur af því. Kláraði eina afgangatusku og byrjaði á annarri, horfði á fótbolta og einnig Castle-þætti. Er á nokkrum vikum búin að horfa á alla þættina sem ég horfði einnig á á sínum tíma. Hafði steikta þorskhnakka í kvöldmatinn með soðnu blómkáli og kúlukáli. Horfði svo, aldrei þessu vant, á allan #heimameðhelga þáttinn, styrkti mæðrastyrk í leiðinni og tístaði um það einu sinni. Tístið birtist á skjánum og var það verulega skondið. Var reyndar næstum því búin að missa af því þar sem ég var eitthvað að vafra um á netinu á símanum.
28.11.20
Laugardagur
Mér fannst fyrst í morgun sem það væri sunnudagur. Var vöknuð alltof snemma og komin á fætur rúmlega sjö. Skutlaði N1 syninum í vinnuna þannig að hann var mættur rétt fyrir átta en ekki tuttugu mínútur yfir eins og hann hefði gert ef hann hefði farið með fyrstu mögulegu strætóferð.
Um tíu leytið, eða korter yfir, í gærmorgun sópaði ég af bílnum og brunaði svo upp á Gagnveg til að sækja N1 soninn og skutla honum í tannlæknatíma. Beið með hann fyrir utan Valhöll þar til hringt var í hann og honum tilkynnt að hann mætti mæta inn. Þá fór ég heim. Davíð Steinn tók strætó aftur í vinnuna þegar hann var búinn með þennan fyrsta tíma hjá tannsa. Hann fékk næsta tíma strax á mánudaginn en þá verður hann í vaktafríi og getur reddað sér sjálfur.
Um eitt vakti ég hinn soninn og bað hann um að gerast einkabílstjórinn minn að sækja matarpakka í K2 vegna jólagleði RB og SRB. Oddur beið úti í bíl á meðan ég skrapp inn. Ég var með grímu og fylgdi leiðbeiningum alveg þar til ég var að fara út aftur með vörurnar. Fólk var nefnilega helst beðið um að fara ekki út á sama stað og það kom inn en ég svindlaði þar en þar sem ég mætti ekki neinum að koma rétt á meðan verða engar afleiðingar af þessu svindli.
Klukkan hálfsjö loggaði ég mig inn á workplace á fartölvunni og smellti á link sem opnaði fyrir opið streymi á viðburð SRB sem tekið var beint upp í Gullhömrum. Dagskráin stóð í einn og hálfan tíma. Hægt var að taka þátt í net-kvizzi en ég sleppti því. Fylgdist bara með fínnri skemmtidagskrá. upp úr klukkan sjö hitaði ég ofninn og þegar hann var orðinn 160°C heitur setti ég kalkúnbita og hnetusteik saman í fati og hafði inni í rúman hálftíma. Þegar ég tók þetta út setti ég inn sætkartöflumeðlætið inn og hellti sósu úr krukku í pott og hitaði. Maturinn var akkúrat tilbúinn þegar Davíð Steinn kom heim úr vinnunni. Ákvað að geyma forrréttinn og eftirréttinn þar til síðar, forréttinn, gullost bakaðan með dölublandi í vel heitum ofni í nokkrar mínútur, handa mér og eftirréttinn, súkkulaðikökubitar, handa bræðrunum.
27.11.20
Frænkunöfnuhittingur
Gærmorguninn fór að mestu í rólegheit og tölvuleiki. Upp úr hádeginu ýtti ég við einkabílstjóranum. Hann tók saman það sem átti að fara í sorpu á meðan ég gerði innkaupalista. Hann setti mig út við Krónuna við Granda um tvö. Þegar ég kom út með vörurnar var hann búinn að fara með ruslið. Komum við á tveimur öðrum stöðum áður en við fórum aftur heim. Fengum stæði fyrir framan. Oddur gekk frá vörunum. Davíð Steinn var búinn að ryksuga fram á palli, eldhús- og baðherbergisgólf. Oddur sá um að ryksuga holið og stofuna. Ég settist með prjónana mína fyrir framan skjáinn og horfði á körfuboltalandsleikinn, amk að hluta. Um hálffimm var ég búin að hella upp á fullan brúsa af kaffi og stuttu síðar kom nafna mín og systurdóttir mömmu í heimsókn beint úr vinnunni. Hún vinnur sem leikskólakennari í leikskóla í Mosfellsbæ. Tíminn flaug. Nafna mín kvaddi á áttunda tímanum eftir mjög gott spjall og staðfestingu á að næsti hittingur yrði hjá henni eftir rúmar tvær vikur.
26.11.20
Komin heim
Vaknaði í gærmorgun þegar klukkan var að nálgast níu. Það var ennþá mjög dimmt úti en ég heyrði að pabbi var kominn á stjá og dreif mig á fætur eftir mjög góðan nætursvefn. Fékk mér eina mandarínu, lagði nokkra kapla og sat svo góða stund með prjónana mína inni í stofu. Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu og við vorum mætt þar um það leyti sem er opnað um hálftólf. Fengum sveppasúpu, steiktan fisk með gufusoðnu grænmeti, kartöflum sallati og lauksmjöri og svo kaffi á eftir. Herramannsatur, alger veisla. Það komu tveir viðskiptavinir inn rétt eftir að við pabbi vorum byrjuð að borða. Mér fannst ég kannast við annan þeirra en var ekki viss þar sem það er grímuskylda þar til maður sest niður við borðin. Örstuttu síðar er kastað á mig kveðju og það reyndist vera þessi sem ég kannaðist við, bekkjarbróðir úr grunnskóla sem var sveitastrákur hjá föðurbróður mínum í nokkru ár frá því við vorum 10 ára.
Við pabbi vorum komin aftur í Hólavanginn rétt fyrir tólf. Tíminn flaug þrátt fyrir að ég væri ekki að gera neitt sérstakt. Jú, ég prjónaði meira, fór í kaplakeppni við pabba og var líka góða stund í einni tölvunni hans, bæði að leika mér og blogga. Strax eftir kaffitímann tók ég mig saman. Tók með mér fjögur þorskhnakkaflök og frosin krækiber. Var komin heim fyrir klukkan sex og fékk stæði fyrir framan.
Ég er mikið fegin að vera búin að búa til jólakortin þetta árið og veit að það væri skynsamlegast að fara að vinna í að skrifa á þau og einnig árlegu jólabréfin þrjú sem eru á íslensku, dönsku og ensku. Það er frívakt hjá báðum sonunum. Það þarf að fara í Sorpu- og verslunarferð í dag og seinni partinn á ég von á nöfnu minni í heimsókn.
25.11.20
Á Hellu
Það eru næstum því tveir mánuðir síðan ég skrapp í heimsókn til pabba síðast. Hef verið að fylgja fyrirmælum og einnig bíða eftir því að smitum fækki og að helst sem fæstir greindir utan sóttkví. Líklega hefði ég mátt bíða miklu lengur eftir "réttu" tölunum. Ég þurfti að koma hundabúri í geymlsu og var einnig viss um að jólakortaframleiðsluandinn kæmi betur yfir mig á Hellu svo ég notaði það sem kærkomna afsökun fyrir því að skreppa og vera yfir nótt. Vakti Odd Smára um hálftólf til þess að kveðja hann og lagði svo fljótlega í hann. Þá var orðið enn lengra síðan ég stoppaði síðast við í Fossheiðinni og ég ákvað að koma við þar og stoppa í ca einn kaffibolla eða tvo.
Var komin á Hellu upp úr klukkan tvö. Fram að kaffi vorum við pabbi í kaplakeppni en strax eftir kaffi tók ég fram jólakortaföndrið. Var búin að skera niður slatta af örkum í nokkrum litum en átti eftir að brjóta niðurskorninginn í kortastærð. Ég átt til nothæft lím frá í fyrra og hvítan pappír til að líma inn í lituðu arkirnar. Eitthvað átti ég líka af niðurklipptum myndum, gömlum jólakortum og helling af alls konar límmiðum. Það er skemmst frá því að segja að andinn kom svo sannarlega yfir mig. Pabbi ætlaði bara að fá sér snarl í kvöldmatinn og sagði að ég yrði að elda eitthvað handa mér. Ég gaf mér ekki tíma til að elda heldur fékk mér eitt harðsoðið egg og sneið af kaldri lifrarpylsu um hálfátta. Klukkan var að verða níu þegar ég tók föndrið saman og var ég þá komin með 28 kort sem er aðeins ríflega heldur en listinn segir til um.
Fitjaði upp á afgangatusku en fór svo aftur í smá kaplakeppni við pabba er þar til hann bauð góða nótt um tíu. Þá settist ég við tölvuna í einn og hálfan tíma áður en ég fór að sofa.
24.11.20
Ennþá dimmt úti
Klukkan er rétt orðin níu. Rúmir tveir tímar síðan ég vaknaði. Fór þó ekki á fætur fyrr en upp úr klukkan hálfátta. N1 sonurinn var farinn fyrir sjö líkt og í gærmorgun. Hinn sonurinn á ekki vakt fyrr en klukkan fjögur síðdegis svo það eru margir klukkutímar þar til hann rís úr rekkju. Hann hefur tekið þá ákvörðun að vinna allan uppsagnarfrestinn en það er rúmur mánuður eftir.
Gærdagurinn leið jafn hratt og allir aðrir. Það er búið að setja upp ljósaseríu á eitt tréð í garðinum eins og undanfarin ár. Yfirleitt hefur verið stungið í samband í kjallaraíbúðinni en nýjir eigendur eru á fullu að standsetja íbúðina svo ég gaf nágrannanum á hæðinni fyrir neðan að þræða snúruna inn um gluggann á hornberginu (Davíðs Steins herbergi) og stinga í samband í fjöltengi.
Rétt fyrir fimm var ég sótt af nöfnunum. Ég var tilbúin og við hittum systurnar á planinu við Nauthólsvík. Engin ferð var á logninu en sjórinn mældist innan við 2 gráður. Það var meiriháttar að svamla aðeins um í svölum sjónum og þessar mínútur sem við gáfum okkur voru alltof fljótar að líða. Ég var komin heim aftur rétt upp úr hálfsex og fór beint í sturtu.
Steikti afganginn af slátrinu, bland af báðu, og sauð kartöflur. Strákarnir fengu sér báðir að borða þegar þeir komu heim úr sínum vinnum á níunda tímanum. Einn frændi minn kom með vörur sem ég var að kaupa af honum til styrktar útskriftarsjóðs úr menntaskóla. Ég hafði pantað wc-rúllur, útikerti og fjölnota bökunarpappír.
23.11.20
Mánudagsmorgun
Það er svo sem ósköp lítið að frétta. Í gær var mikill rólegaheitadagur, þ.e. ég var mjög löt til allra verka. Fór rétt svo aðeins út til þess að færa bílinn úr stæði fyrir aftan heilsugæslustöðina og í stæði fyrir framan 19-21. Keyrði næstum heilan hring því það er einstefna í götunni. N1 sonurinn skrapp í heimsókn til félaga sem býr í Keflavík og tók hann strætó þangað. Veit ekki hvort hann fékk far heim eða tók strætó til baka því ég var komin upp í þegar hann kom heim um ellefu leytið. Heyrði í honum rétt fyrir sjö í morgun þegar hann lagði af stað til að ná í strætó upp í Grafarvog. Hann er semsagt á vinnuvakt í dag og á morgun milli 7:30-19:30. Oddur Smári var að vinna milli hálfátta og hálfþrjú í gær. Átti að vera búinn um tvö en sá sem átti að taka við af honum hafði misst af strætó og var seinn fyrir. Það datt annars ein tuska af prjónunum í gær, gekk frá endum. En líklega fór dagurinn að mestu leyti í fótboltagláp. Horfði reyndar bara á brot af sumum leikjunum en að sjálfsögðu horfði ég á allan Liverpool-leikinn.
22.11.20
Sunnudagur
Gærdagurinn var nokkuð rólegur. Fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim úr sjónum. Oddur Smári fékk bílinn lánaðan seinni partinn í gær til að sækja nýtt hundabúr í Hafnarfjörð handa Vargi fyrir Ingva og Helgu. Hann varð að setja aftursætin niður og svo verður búrið bara að fá að vera í bílnum í einhvern tíma og aðeins pláss fyrir einn farþega á meðan. Fljótlega eftir að Oddur kom heim úr þessari ferð fóru þeir bræður saman á bílnum, aðallega til að sjá til þess að setja nýjar rúðuþurrkur. Þeir voru ekkert lengi í þessu skreppi en þegar þeir komu til baka varð Oddur að leggja bílnum fyrir aftan heilsugæsluna. Hann fann ekkert stæði í næstu götum.
Ég var með soðið slátur í kvöldmatinn og það sló alveg í gegn. Nú á ég eftir einn ósoðinn kepp af hvoru tagi í frystihólfinu. Þetta er herramanns matur og ætti að vera á boðstólum einu sinni til tvisvar í mánuði, amk yfir vetrartímann. Vonandi munum við stöllur í saumaklúbbnum taka höndum saman næsta haust og taka smá slátur líkt og við gerðum fyrir alltof mörgum árum síðan. Við tvíburahálfsystir mín tókum slátur saman í nokkur ár í röð og Lilja var með okkur amk í eitt skiptið.
21.11.20
Sjórinn 2,7°C klukkan tíu í morgun
Fór í háttinn um ellefu leytið í gærkvöldi. Var nokkuð fljót að sofna og vissi næst af mér um sjö leytið í morgun er ég varð vör við að Kvikk sonurinn var að gera sig kláran í að mæta á vakt. Ég sofnaði strax aftur og var klukkan langt gengin í níu þegar ég fór framúr. Eftir morgunverkin á baðherberginu bjó ég til tvöfaldan skammt af hafragraut. Fljótlega eftir að ég var búin að borða annan skammtinn græjaði ég mig upp í sjósundsferð. Var sótt stuttu fyrir klukkan tíu. Vorum sjö sem hittumst í Nauthólsvík. Það var flóð en veður svo stillt að við athöfnuðum okkur á grjótgarðinum rétt við "landganginn" niður í sjó og fórum beint út í þar. Sjórinn náði alveg að grjótgarðinum. Vorum næstum því sjö mínútur útí, gleymdum okkur aðeins, en ég fann ekki fyrir kuldanum og varð ekkert loppin á fingrunum eins og stundum þegar ég er að klæða mig úr sjósundssokkum, þurrka mér og fara í sokka og skó. Fór beint í sturtu eftir að mér var skilað heim og notaði tækifærið og þvoði á mér hárið í leiðinni. Setti nokkur handklæði í þvottavélina og skolaði úr sjósunds-sokkum, strandskóm og vettlingum í leiðinni og hengdi á heita rörið mitt í þvottahúsinu. Þá var loksins kominn tími til að hella upp á fyrsta kaffiskammt dagsins.
20.11.20
Dularfulla gleraugnahvarfið
Nætursvefninn síðast liðna nótt var skringilega slitróttur. Það hvarflaði að mér að það að drekka einn strekan kaffibolla upp úr klukkan hálffjögur hafi sett strik í reikninginn en mér finnst það samt ótrúlegt. Vaknaði hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að hringja og ég ákvað fljótlega að drífa mig á fætur, var annars smeik um að ég myndi sofna aftur og gleyma mér. Hafði nógan tíma í morgunrútínuna því ég var búin að gefa mér leyfi til að fara á bílnum í vinnuna svona einu sinni þessa vinnuviku.
Þegar framleiðsla átti að hefjast kom í ljós að vélin var eitthvað vanstillt. Við gátum ekki byrjað fyrr en tveir sem komu úr tæknideildinni komu og fundu út úr þessu. Fyrsti daglegi skammturinn var tilbúinn rétt upp úr tíu. Þá fórum við í kaffi.Tækninmennirnir tóku yfir vélina á meðan og gott betur en það. Í kaffitímanum varð ég vör við að ég var ekki lengur með gleraugun hangandi á mér og ég fann þau hvergi þrátt fyrir að hafa farið aftur á bak á þá staði innan húss sem ég var búin að fara á eftir að ég lagði af stað í kaffi eftir fyrstu framleiðslu dagsins. Ég velti því alvarlega fyrir mér hvort ég hefði óvart stungið gleraugunum í töskuna með kortunum sem fóru frá okkur á ellefta tímanum en það er mjög langsótt. En gleraugun eru týnd og ég veit ekkert hvort ég finn þau aftur eða kemst að því hvað varð um þau.
Ég var í vinnunni til klukkan að byrja að ganga sex því við ákváðum að klára ákveðið verkefni sem kom til okkar með hádegisskammtinum. Kom heim um hálfsex og vatt mér beint í að útbúa grjónagraut í kvöldmatinn.
19.11.20
Frost
Nýja úlpan varð fyrir valinu þegar ég var að undirbúa mig undir að labba til vinnu fjórða daginn í röö. Ákvað hins vegar að sleppa gönguskónum og fara í strigaskónum. Það var allt í lagi. Fann ekki fyrir kuldanum. Hef labbað sömu leið alla fjóra morgnana og mælist á bilinu 2,9-3km á sífellt styttri tíma. Var uþb 38 mínútur á mánudaginn en ekki nema um hálftíma í morgun. Ég var í bókhaldsvinnu í dag og kom hvergi nálægt framleiðslunni. Samstarfskonur mínar sáu um alla daglega framleiðslu, önnur að troða í og hin að taka á móti og að þeim verkefnum loknum var nóg af endurnýjun svo hægt var að láta vélina ganga alveg til klukkan þrjú. Tókum pásu í morgunkaffinu og í hádeginu.
Fjórða daginn í röð fékk ég far heim úr vinnu. Var komin heim um hálffjögur og ákvað að hella mér upp á sterkan kaffibolla. Var alveg búin að fá mér tvisvar sinnum góða blöndu af espresso úr kaffivélinni í vinnunni en mig langaði í kaffi þegar ég kom heim og lét það eftir mér. Hringdi og spjallaði við eina sem vann með mér bæði sumarið sem ég var hjá eurocard og einnig í kortadeildinni frá 2007-2016 eða þar um bil.
Það eru aðeins tveir vinnudagar eftir af þessum mánuði, morgundagurinn og mánudagurinn 30. Fyrirkomulagið verður óbreytt amk fram að mánaðamótum eða næstu afléttingu. Það er nú alveg að verða spurning hvort maður hinn helminginn af vinnugenginu nokkuð á þessu ári.
18.11.20
Mið vika
Ég kveikti smá stund á sjónvarpinu í gærkvöldi eða rétt rúma klukkustund. Fór upp í rúm um hálfellefu med tvö sudoku blöð. Var farin að sofa áður en klukkan var byrjuð að ganga tólf. Vaknaði tæpum hálftíma áður en klukkan átti að hringja. Nennti samt ekki að búa mér til hafragraut í morgun. Hitti aðeins á N1 soninn en hann fór á undan mér líkt og í gær. Labbaði í vinnuna þriðja morguninn í röð. Svolítið svalt en mjög gott gönguveður. Vélin var mun þægari en í gær en hún var samt með pínu vesen í hátt í hálftíma eftir að sneplalímrúllan kláraðist og skipta þurfti um í miðri framleiðslu. Það tókst þó á endanum að koma vélinni af stað aftur og engin kort eyðilögust. Þurfti að fá þá sem var í bókhaldinu í dag að leysa mig af í korter um hálftvö leytið og klukkutíma seinna var hálftíma fundum með nýjum yfirmanni. Fundi lauk rúmlega þrjú og þá héldum við áfram framleiðslu til að klára ákveðið verkefni. Klukkan var því aðeins farin að ganga fimm þegar ég fékk far heim þriðja daginn í röð. Stoppaði stutt við heima en hringdi samt fyrst og spjallaði aðeins við pabba áður en ég skrapp í smá leiðangur í Fiskbúð Fúsa.
17.11.20
Öðruvísi dagur
Ég var sótt 12 mínútum fyrir fimm í gær af sjósundsvinkonu minni. Tvær aðrar bættust í hópinn við Nauthólsvík. Það var að nálgast háflóð og við ákváðum að skilja dótið eftir við húsvegginn og fara í lónið. Sjórinn mældist 3,7°C og við vorum tæpar sex mínútur út í. Þrátt fyrir að N1 sonurinn hafi sett í þvottavél og hengt upp var alveg pláss fyrir að þvo sjósundsdótið og hengja upp. Útbjó hakkkássu í kvöldmatinn og sat fyrir framan imbann til klukkan langt gengin í tíu.
Vaknaði ekki alveg eins snemma og í gærmorgun en á undan vekjaraklukkunni þó. Fékk mér hinn helminginn af hafragrautnum frá í gær og borðaði hann kaldan. Labbaði af stað í vinnuna um sjö og var mætt rétt upp úr hálfátta. Framan af var vinnudagurinn nokkuð eðlilegur. Ég þurfti að fá bókhaldsmanneskjuna til að leysa mig af á móttökuendanum á vélinni í um klukkustund vegna annars verkefnis. Vélin var aðeins búin að vera með vesen en þegar ég tók við mínu hlutverki aftur var hún alveg stopp og vildi bara alls ekki hlýða. Það tók smá tíma að finna út úr þessu vandamáli en það tókst að laga það á endanum og ljúka framleiðslunni. Ég fékk far heim úr vinnunni um hálfátta og kom ég mátulega heim í kvöldmat sem N1 sonurinn var búinn að elda.
16.11.20
Vinnuvika
Ég var vöknuð alltof snemma í morgun, eða um klukkan hálfsex. Sennilega hef ég verið eitthvað vinnuspennt. Dreif mig á fætur fljótlega og útbjó mér til hafragraut og tók mig til fyrir labbið í vinnuna. Fór í fyrsta skipti í gönguskóna og líklega hefði ég átt að vera enn skynsamari og setja á mig mannbroddana. Datt þó ekkert á leiðinni en það voru kafla þar sem ég þurfti að fara varlega. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Bókhaldið átti að vera í minni umsjá í dag en það byrjaði ekki mjög vel. Þurfti að setja inn nýtt aðgangsorð í vinnutölvuna og klúðraði því þannig að ég varð að fá aðra af samstarfskonum mínum til að prenta út fyrstu framleiðslutölur. Hafði samband við manneskju sem m.a. getur séð um aðgangsmál. Sá nú ekki að hún svaraði mér en hún hlýtur að hafa fengið skilaboðin og gert eitthvað því ég fékk annað tækifæri til að setja inn nýtt aðgangsorð og var komin inn í vinnutölvuna um hálfníu. Ekkert annað af verkefnum mínum frestaðist. Um þrjú fékk ég far heim úr vinnunni og eftir tæpan hálftíma verð ég sótt af sjósundsvinkonu minni. Já, og svo fitjaði ég upp á nýrri tusku í gærkvöldi. Stóðst ekki mátið því það er voðalega gott að hafa eitthvað á milli handanna part af kaffi og matmálstímum í vinnunni, að ég tali nú ekki um fyrir framan sjónvarpsfréttirnar.
15.11.20
Bakstur
Rétt fyrir tíu í gærmorgun sótti sjósundsvinkona mín mig. Um það leyti sem við vorum að leggja í stæði við Nauthólsvík kom ein önnur úr hópnum. Ekki mættu fleiri en við þrjár. Sjórinn var kominn niður fyrir 4°C en það var alveg logn, fjara og himneskt að svamla um í uþb 6 mínútur. Kom heim aftur um hálfellefu. Fór beint í sturtu og þvoði á mér hárið. Eftir að hafa gengið frá sjósundsdótinu hellti ég mér upp á tvo bolla af kaffi. Útbjó deig í kókoskúlur, kúlaði upp og setti inn í frysti. Fljótlega upp úr hádeginu hrærði ég í uppáhaldssort Odds Smára, lakkrístoppa. Baksturinn stóð yfir til klukkan að ganga sex. Það eina sem ekki gekk upp var að smákökurnar urðu ekki að toppum heldur flöttust út. Mér skilst á sysninum að kökurnar séu alveg jafn góðar og venjulega og ljósi punkturinn í þessu er líka að kökurnar rúmast betur fyrir í dósunum.
N1 sonurinn er rétt ókominn á fætur. Ég var búin að lofa honum því að skutla honum á vakt þannig að hann verði mættur á réttum tíma klukkan tíu. Hugsanlega herði ég mig svo upp í að baka uppáhaldssortina hans. Framundan er heil vinnuvika og bý ég mig undir annríki hvað það varðar, bland af daglegum verkefnum, endurnýjun og aukaframleiðslu. Vonandi kemst ég samt í sjóinn með hópnum mínum seinni partinn á morgun og á miðvikudaginn.
Er búin að lesa allar bókasafnsbækurnar en það eru þó ólesnar bækur á náttborðinu mínu. Fór seint í háttinn í gær en þó fyrir miðnætti og braut heilan um stund yfir sudokuþraut. Ég gekk líka frá endanum á tuskunni sem datt af prjónunum í fyrradag. Það munaði sáralitlu að ég fitjaði upp á nýrri tusku en þar sem ég gat ekki ákveðið mig hvaða mynstur ég ætlaði að prjóna næst varð ekkert af því. Eins og ég hef fært í skrif nýlega þá þarf ég að fara að snúa mér að jólakortagerð ársins fyrir alvöru.
14.11.20
Verslunarferð
N1 sonurinn er á vakt þessa helgina, var farinn út fyrir klukkan sjö í gær og svo hefur hann líklega samið um að fá að mæta í seinna lagi í dag því strætó byrjar að ganga seinna um helgar. Laugardagsvaktin er frá klukkan átta til hálfátta. Það gæti líka verið að hann hafi fengið leyfi til að taka leigubíl á kostnað vinnuveitanda. Hann á að eiga rétt á því þá daga sem almenningssamgöngur eru þannig að þótt þú takir fyrstu strætóferðina ertu mættur of seint í vinnuna.
Við Oddur Smári skruppum í Sorpu, Elkó, Krónuna og Fiskbúð Fúsa í gær. Hann á fyrstu tvo staðina, ég á hina tvo en við fórum saman og hann var einkabílstjórinn minn. Keypti m.a. vörur í uppáhaldssortir bræðranna og í fiskbúðinni keypti ég nætursaltaða ýsu í soðið.
Það datt tuska af prjónunum í gær. Á aðeins eftir að ganga frá einum enda, upphafsendann prjónaði ég saman við í fyrstu umferðinni. Er ekki búin að fitja upp á nýrri tusku og ég veit ekki nema ég láti það aðeins bíða svo ég fari frekar að snúa mér betur að jólakortagerðinni.
13.11.20
Píparamál
Einn daginn um daginn uppgötvaði ég það að allir ofnar í íbúðinni voru orðnir kaldir. Davíð Steinn var reyndar búinn að segja mér stuttu áður að ofninn inni í herbergi hjá honum væri búinn að vera kaldur lengi. Hann tók sig til um daginn og liðkaði til pinnanna á flestum ofnum. Rennslið við inntakið í þvottahúsinu sýndi að það var að koma inn heitt vatn þangað. Reyndar var þrýstilokinn eitthvað laskaður en nágranninn niðri sagði að það ætti ekki að skipta svo miklu máli. Það kom reyndar velgja á ofninn í mínu herbergi, sem er tveimur hæðum fyrir ofan þvottahúsið en mér fannst það mjög grunsamlegt að handklæðaofninn á baðinu, sem settur var upp fyrir sex árum var líka kaldur. Í fyrradag gúglaði ég því pípara og komst á síðu þar sem ég gat fyllt út form. Þetta voru nokkrar spurningar til að greina vandamálið og fleira svo hægt væri að mæla með fagmanni eða senda mér tilboð. Reyndar virkaði ekki lokahnappurinn að því leyti að ég átti að fá fjögurra stafa pin-númer í gemsann til að fylla inn í síðasta reitinn. Reyndir tvisvar sinnum en það virkaði ekki. Engu að síður fékk ég rafrænan póst skömmu síðar. Umsóknin hafði gengið í gegn og ég fékk þrjá valmöguleika til að smella á til að komast í samband. Ég smellti á rafrænt handaband og það leið ekki á löngu áður en var hringt og viðkomandi sagðist geta komið daginn eftir (í gær) eða á föstudagsmorguninn. Um hálftíu í gærmorgun hringdi maðurinn aftur og sagðist vera á leiðinni. Hann var kominn rétt fyrir tíu. Ég sýndi honum fyrst niður í þvottahús og hann sá það strax að það þyrfti að skipta um þennan þrýstiloka, hann væri líklega orðinn yfir 30 ára. Hann leit á tvo ofna í íbúðinni áður en hann skrapp frá til að útvega það sem til þurfti. Þegar hann kom aftur fékk hann leyfi til að leggja í innkeyrslunni og hann kom inn um kjallaradyrnar með allar græjur. Ekki tók langa stund að skipta um þennan loka, held að það hafi tekið lengri tíma fyrir kerfið að dreifa heitu vatni á allt ofnakerfið hjá mér en um tólfleytið sagðist píparinn vera viss um að allt væri að komast í lag. Ofninn í mínu herbergi var orðinn funheitur, enda var skrúfað upp í botn á öllum ofnum. Ég mátti skrúfa niður í mínum ofni en ofnarnir þeim megin í íbúðinni sem snýr út að götu voru hafðir á fullu amk hálftíma lengur áður en þeir voru svo settir á milli 2-3. Ég þurfti svo aðeins að senda g-mailið mitt og kennitölu í sms-i í gemsa píparans og nú bíð ég bara eftir reikningi til að gera upp við hann.
12.11.20
Fimmtudagur
11.11.20
Næturbrölt
Það vantaði aðeins 200 metra upp á að göngutúr gærdagsins næði 5 kílómetrum. Klukkan var að verða hálftólf þegar ég dreif mig af stað. Fór hálfan hring, rangsælis, um Öskjuhlíð og þegar ég kom niður að hringtorginu þar sem m.a. Eskihlíðin og Langahlíðin enda beygði ég inn Eskihlíðina. Það var reyndar alveg óvart. Yfirleytt labba ég Lönguhlíðina að Drápuhlíð en þetta lengdi gönguferðina amk um fimm mínútur og 3-400 metra. Kom heim um það leyti sem hádegisfréttir í útvarpinu voru að byrja.
Fór ekki aftur út í gær, og aðeins eina ferð niður í þvottahús að sækja það sem ég hengdi upp í fyrrakvöld. Tuska datt af prjónunum og ég fitjaði upp á enn einni. Fyrir utan dokkuna sem ég er að prjóna úr á ég þrjár aðrar heilar eftir og svo afganga í líklega 3-4 tuskur.
N1 sonurinn fór í sína vinnu snemma í gærmorgun. Hans vaktir eru frá 7:30-19:30 á virkum dögum og hann þarf að ná strætó fyrir klukkan sjö. Hinn sonurinn kom fram milli eitt og tvö í gær og sat með mér inni í stofu þar til hann labbaði á sína vakt rétt fyrir fjögur. Þeir bræður komu svo heim á svipuðum tíma stuttu fyrir klukkan hálfníu í gærkvöldi.
Ég fór upp í rúm á ellefta tímanum og las til klukkan að verða ellefu. Sofnaði fljótlega eftir að ég lagði frá mér bókina og slökkti á lampanum. Rumskaði um eitt leytið og hugurinn var ekkert á þeim buxunum að fara í nein rólegheit strax aftur. Hvað það var sem var að velkjast um í kollinum á mér virtist samt ekki vera neitt merkilegt en að tók mig amk þrjár klukkustundir að gleyma mér alveg aftur. Þegar ég rumskaði aftur á áttunda tímanum í morgun átti ég í engum vandræðum með að snúa mér á hina hliðina og sofna. Klukkan var því að verða níu þegar ég dreif mig loksins á fætur.
10.11.20
Rólegheit
Labbitúr gærdagsins var 4,1 km á rétt rúmlega þremur korterum á þriðja tímanum í gær. Tveimur tímum eftir að ég var komun úr göngunni var ég búin að græja mig fyrir sjósund og mætt á eigin bíl í Nauthólsvík. Sú sem lánaði mér yfirtökuflíkina og hefur kippt mér með hingað til var með allt aðra farþega að þessu sinni. Ein vinkona hennar er gift Íra. Hann er vanur að fara í sjóinn á sínum heimaslóðum og saknaði þess að komast ekki í sund. Hann langaði að prófa að koma með okkur. Konan hans var einnig með í för en bara sem andlegur stuðningur, hún kom ekki út í sjóinn. Svo voru þrjár aðrar úr hópnum mættar líka. Sjórinn mældist yfir 5°C. Ég var með þeim fyrstu útí og svamlaði um í næstum átta mínútur. Dýrðlegt. Var svo örugglega hátt í tíu mínútur að þurrka mér og klæða mig úr sjósundssokkum og strandskóm og í sokka, skó og yfirtökuflík. Vafði handklæðinu utan um mig miðja, yfir sundbolinn og undir flíkinni. Síðan fór ég beint heim í sturtu.
Á aðeins eftir að fella tuskuna, sem ég byrjaði á í fyrradag, af prjónunum og ganga frá endum. Það gerist líklega bara rétt á eftir. Hitti aðeins á nágranna minn í risinu í gær. Hún er reyndar að ganga frá sölu á risíbúðinni sinni og pakka niður og þar sem hún er nýkomin frá Porúgal er hún í sóttkví fram á fimmtudag og fær að vera í risinu á meðan. Hún hafði aðeins skroppið út í smá gönguferð þegar ég hitti á hana.
9.11.20
Grábleikur himinn
Það er að birta smátt og smátt en þessa dagana styttist dagurinn um sex mínútur á dag eða þar um bil. Ég er búin að vera á fótum í tvo klukkutíma en lítið gert af mér annað en að vafra aðeins um á netinu, svara og taka saman upplýsingar fyrir gjaldkera sameiginlegs húsfélags og leika mér í leik sem ég held að hverfi um áramótin amk í núverandi útliti. Er löngu búin að klæða mig og tanna en á eftir að fá mér lýsi, morgunmat og kaffi. Spurning hvort það verði ekki bara einhvers konar bröns í hádeginu.
Ég hafði mig af stað í labbitúr upp úr hádegi í gær og labbaði 3,5 km á tæpum fjörutíu mínútum. Labbaði rangsælis um hálfa Öskjuhlíð að HR en þar fór ég upp að Perlu og kom niður hjá ljósunum við Bústaðaveg þar sem hægt er að beygja niður í þær hlíðar, svæðið sem ég bý á.
Fitjaði upp á nýrri tusku í gær og prjónaði uþb einn þriðja af henni. Horfði einnig brot af leikjum gærdagsins í enska, allan Liverpool leikinn þó. Hafði soðið slátur í kvöldmatinn og það þótti herramanns matur. Oddur Smári var búinn að biðja mig um þetta og þegar ég sagði Davíð Steini frá því í síðustu viku að þetta stæði til bað hann mig um að hafa þetta á sunnudegi svo hann yrði örugglega heima. Hann var á frívakt frá því á sl. þrjá daga en búinn að ráðstafa sér fyrri tvo dagana og vissi ekki hvort hann myndi vera heima á matmálstíma þá.
Held að það sé að styttast í að reikningur á sameiginlega kennitölu 19-21 verði stofnaður og þá ættu mál í kringum húsið og tilvonandi framkvæmdir að fara að verða ljósari. Kannski erum við því miður að verða of sein í lagfæringar fyrir veturinn en aðal framkvæmdir ættu að komast í gang þegar veður leyfir með vorinu. Það er nú ekkert hlaupið að því að stofna svona reikning í þessu veiruástandi og flestar af þessum töfum eiga sér eðlilegar skýringar.
8.11.20
Tíminn staldrar stutt við
Gærdagurinn var ósköp rólegur en kláraðist samt furðu fljótt. Fór ekkert út aftur eftir sjóferðina, aðeins tvær ferðir í þvottahúsið til að þvo og hengja upp sjósundsdótir. Tuskan sem ég byrjaði á í fyrrakvöld mun líklega detta af prjónunum í dag. Ég var með síðustu bókina af safninu nálægt mér en ég las ekki í henni fyrr en ég fór með hana með mér upp í rúm á ellefta tímanum í gærkvöldi. Oddur Smári er á helgarvakt á Kvikk í Öskjuhlíðinni. Hann ætlar sér að vinna uppsagnarfrestinn sem rennur út um áramótin. Davíð Steinn skrapp út að hitta vini um hádegisbilið í gær og fram eftir degi. Það voru strákarnir sem hann fór með í veiðiferðirnar í sumar. Hann var löngu kominn heim þegar ég græjaði bleikju í kvöldmatinn upp úr klukkan sex. Eins og mér finnst bleikja góð þá er ekki sama hægt að segja um annan soninn en hann var samt svo elskulegur að ganga frá eftir matinn.
7.11.20
Sjórinn 4°C kl. 9:30
Rumskaði upp úr sex en tókst að kúra mig niður aftur og gleyma mér aðeins. Var glaðvöknuð áður en klukkan varð hálfátta en ég var ekkert að drífa mig framúr fyrr en eftir að hafa hlustað á morgunfréttir klukkan átta og vafrað aðeins um á netmiðlum í símanum. Um hálfníu setti ég upp hafragraut. Gerði helmingnum góð skil en gekk frá hinum helmingnum í dall og inn í ísskáp. Tíu mínútum yfir níu var ég klár í sjósundsferð og var ég sótt uþb tíu mínútum síðar. Hittum tvær aðrar á bílastæðinu, aðra sem er búin að koma nokkrum sinnum með og nýkomin inn í hópinn og hún var með frænku sína með. Ef frænkan kemur inn í hópinn verða þrjár af níu sem heita Helga. Það var að flæða að og um það bil klukkutími í háflóð svo við tókum af okkur fyrir ofan brautina sem liggur niður í fjöru. Á háflóði þegar er stórstreymt nær sjórinn vel upp á miðja braut. Þarna var sjórinn aðeins byrjaður að "narta" í neðsta hluta brautarinnar. Svömluðum um í tæpar átta mínútur og ætluðum varla að tíma að fara upp úr. Var komin heim aftur rétt fyrir tíu. Fór beint í sturtu og líkt og síðustu tvo laugardagsmorgna þvoði ég mér um hárið og setti svo sjósundsdótið í þvottavélina þegar ég var búin að klæða mig. Hellti mér svo upp á tvo bolla af sterku kaffi.
6.11.20
Gæti verið sami titill og í gær
Ég var að horfa á Kveikþáttinn og að prjóna í gær þegar sjónvarpið fraus. Mér fannst of snemmt að draga mig í hlé og fannst þessi þáttur áhugaverður svo ég slökkti á öllu sem hægt var að slökkva á og tók allt úr sambandi í smá stund. Það leit samt út fyrir að þessi aðgerð myndi ekki virka því það tók hátt í fimm mínútur að ná inn sendingunni þegar ég var búin að setja allt í samband og kveikja á öllu. En það virkaði að lokum og fraus ekkert eftir það. Eftir kveikþáttinn horfði ég á þátt um bakgrunn Ágústu Evu og að lokum einn gamlan Castle þátt. Ný tuska datt svo af prjónunum og ég fitjaði upp á enn einni og prjónaði nokkrar umferðir.
Fór í háttinn um hálfellefu og byrjaði aðeins á síðustu ólesnu bókasafnsbókinni: Helköld sól eftir Lilju Sigurðardóttur. Svaf svo alveg þar til vekjarinn byrjaði að hamast rétt fyrir hálfsjö. Fékk að vísu smá martröð sem man bara slitrur úr en er svolítið fyndin. Svoleiðis er að ég á enn eina litla hvítvínsflösku af fjórum sem ég keypti í sumar rétt áður en ég fór í dagsferð í Viðey. Var eitthvað að minnast á þessa flösku við vinnufélaga í gær og svo dreymdi mig að ég fékk heimsókn. Man ekki hvort ég þekkti þann sem kom né af hvoru kyninu viðkomandi var. Það eina sem situr eftir var að viðkomandi fann flöskuna og kláraði en ég hugsað eða sagði við sjálfa mig: "Þér var nær að geyma hana svona lengi!" Frekar fyndin martröð.
Klæddi mig í flíspeysu innanundir regnkápuna og fór í venjulega götuskó (en ekki strigaskóna úr Eins og fætur toga) áður en ég labbaði í vinnuna í morgun. Það var komin mánaðarleg dk-endurnýjun sem ég hlóð inn á framleiðsluvélina. Hins vegar ákváðum við að framleiða aðeins daglega skammtinn og gefa okkur góðan tíma í að þrífa, sótthreinsa og setja saman smá skýrslu fyrir hópinn sem tekur við í næstu viku. Við ákváðum líka að vegna þess að það væri föstudagur væri kjörið að vera búinn snemma og hættum klukkan tvö. Ég fékk aftur far heim.
Synir mínir höfðu skroppið saman gangandi upp í Kringlu. N1 sonurinn var ekki búinn að fá nýtt símkort og fór að athuga málið. Ég fann hins vegar póst á hann frá NOVA með nýju símkorti í í póstkassanum innan á útidyrahurðinni. Pósturinn hefur líklega komið eftir að þeir bræður fóru að heiman. Nýji ráterinn er líka kominn og búið að tengja hann og virkar hann svona glimrandi vel.
5.11.20
Labbað í vinnu, þáði svo far heim
Það kom upp netvandamál í sambandi við sjónvarpið um níu í gærkvöldi. Prófaði að endurræsa sem og að taka allt úr sambandi í smá stund en þetta lagaðist ekkert. Það var engin truflun á netsambandi strákanna í tölvunum þeirra. Ég gafst upp á að reyna að kveikja á útsendingu sjónvarpsins aftur, á nú Kilju-þáttinn til góða. Fór fljótlega upp í rúm og kláraði næstsíðustu ólesnu bókasafnsbókina á rúmlega klukkustund.
Ég var í móttökustörfum í framleiðslunni í dag. Framleidd voru hátt í nítjánhundruð kort og lauk framleiðslu stuttu fyrir eitt í dag. Tókum smá talningapásu um níu og svo góða kaffipásu en fórum ekki í mat fyrr en klukkan eitt. Öllum verkefnum var lokið rétt upp úr tvö en við vorum aðeins lengur því það kom upp netvandamál vegna eins verkfæris á tölvunum okkar. Það var þó ekki búið að laga það heldur var það í skoðun og við ákváðum að fara heim um hálfþrjú. Önnur samstarfskona mín sagði að ég yrði að fá far hjá henni því það væri nokkur hraðferð á logninu, bálhvasst og missterkir vindstrengir. Ég þáði farið með þökkum.
4.11.20
Fór á bílnum í morgun
Það var ekki byrjað að rigna neitt að ráði þegar ég vaknaði rétt upp úr klukkan sex í morgun og í smá stund gældi ég við það að fara labbandi í vinnuna. Dreif mig á fætur og setti upp hafragraut og þáði N1 sonurinn annan skammtinn áður en hann rauk út til að ná í strætó nokkru fyrir eitt en hann þurfti að vera mættur upp á Gagnveg klukkan 7:30. Um það leyti sem ég hefði átt að labba af stað í vinnuna kom hellidemba og ég ákvað að fresta för um hálftíma og fara þá á bílnum.
Ég var í bókhaldinu í dag. Það var eingöngu dagleg framleiðsla og tölur heldur lægri en í gær en ívið hærri en í fyrradag. Þegar vinnufélagar mínir voru búnir með fyrsta skammtinn og ég að setja inn tölur og prenta út bað ég þær um að telja á meðan ég sinnti tilfallandi verkefni sem getur komið hvenær sem er. Við gáfum okkur svo góðan tíma í kaffipásunni og ég bauð upp á tvenns konar osta, stollenbita og sultu. Það var til tekex fyrir þá sem vildu nota með ostinum. Framleiðslu lauk rétt upp úr hálftólf. Við fórum fljótlega í mat og sátum frammi í uþb klukkustund. Ein af okkur skrapp reyndar aðeins út og tók veðrið. Hún var samt ekki að reykja, reykir hvorki né drekkur, heldur skrapp hún í stuttan göngutúr. Eftir hádegishléið fór þessi síðast nefnda að leggja lokahönd á mánaðamótauppgjörið á meðan við hinar tvær töldum og stemmdum af síðustu framleiðslutölur dagsins. Ég fékk svo að fara yfir rg-ið áður en tölunum var skilað inn.
Öllum verkefnum var lokið um tvö. Ég var í einhverju brasi með að komast aftur inn í spjallforritið Teams en læt það bíða til morguns að láta fagmanneskju skoða það mál, þ.e. ef vandamálið verður enn til staðar. Fór beint heim eftir vinnu. Skrapp yfir í 19, heilsaði upp á 11 vikna hvolp, sem tók jafn vel á móti mér og hann gerði í gær, eftir að hafa skilað af mér ljósritum af göngun sem skila þarf inn til að stofna bankareikning á sameiginlegu kennitöluna.
Eftir klukkutíma verð ég sótt til að skreppa í smástund í sjóinn í Nauthólsvík.
3.11.20
Þrefalt meiri framleiðsla í dag heldur en í gær
Ég var sótt rétt fyrir klukkan fimm í gær og var sjósundsvinkona mín búin að ná í nöfnu sína líka. Vorum aðeins þrjár úr hópnum. Það var að flæða að og smá ferð á logninu svo við ákváðum að geyma dótið okkar við húsvegginn á byggingunni þar sem klefaaðstaðan er þegar er hægt að hafa opið. Skelltum okkur svo í sex mínútur í 4,8°C lónið. Ég var komin heim aftur um hálfsex. Fór í sturtu og á eftir fór ég með óhrein handklæði og sjósundsdótið niður í þvottahús. N1-sonurinn var með þvott í vélinni svo ég setti óhreina þvottinn inn í skáp við þvottavélina, hengdi yfirtökuflíkina á herðatré á eina snúruna og skolaði úr sjósundsdótinu og setti sokka skó og hanska á heitt rör en sundbolinn á herðatréð hjá yfirtökuflíkinni.
Í morgun var ég vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að fara í gang. Kveikti á lampanum á náttborðinu, slökkti á vekjaranum og vafraði smá stund um á netinu áður en ég dreif mig á fætur um hálfsjö. Labbaði af stað í vinnuna um sjö. Ég sá um að hlaða inn á vélina og mata hana á hráefninu. Tókum framleiðslupásu á meðan var verið að gera upp fyrsta framleiðsluskammt dagsins og í kjölfarið skruppum við í kaffipásu. Daglegri framleiðslu, sem og framleiðslu smá aukaskammta, lauk rétt rúmlega tólf. Þá tókum við matarhlé. Öllum verkefnum var lokið rétt rúmlega tvö og þá ákváðum við að segja þetta gott í dag. Ég kom við hjá Lilju á heimleiðinni og þáði hjá henni einn og hálfan kaffibolla áður en ég hélt áfram för heim á leið. Heim var ég komin um hálffjögur. Setti í þvottavél og tók upp þvott N1-sonarins ásamt sjósunddótinu mínu.
Um klukkan fjögur setti ég upp grímu og skrapp í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu, 2 bleikjuflök og harðfisk. Síðan fór ég beinustu leið í Hagkaup í Skeifunni þar sem ég fann loksins ósoðið slátur af báðum tegundum, lifrarpylsu og blóðmör, þrír keppir í hvorum umbúðum. Þegar heim var komið setti ég slátrið og bleikjuna í frysti. Ætla að hafa ýsu í matinn í kvöld. Svo skrapp ég yfir á no 19 að ná í gögn sem þarf að ljósrita v/stofnunnar á sameiginlegum reikning fyrir sameiginlegu kennitölu 19-21.
2.11.20
Afmælisdagur systur minnar
Sat fyrir framan imbann alveg til klukkan að verða hálftíu í gærkvöldi. Hefði kannski setið lengur ef annar sonurinn hefði ekki þurft að endurræsa ráterinn. Það var alveg í fínu lagi mín vegna en fyrir vikið fór ég heldur snemma að sofa. Náði að lesa til klukkan tíu en fljótlega eftir það var ég búin að slökkva á lampanum og stilla á mig vekjaraklukkuna til öryggis. Sofnaði fljótlega en einhverra hluta vegna rumskaði ég á öðrum tímanum í nótt og mér fannst sem ég væri heillengi að sofna aftur. Vaknaði svo tíu mínútum áður en klukkan átti að hringja, alls ekki útsofin en ákvað að drífa mig á fætur og undirbúa mig undir vinnudag.
Labbaði af stað rétt fyrir sjö og var hálftíma að labba leið sem smasungforritið í símanum sagði að hafi verið 2,7km. Vinnudagurinn gekk vel. Allri daglegri framleiðslu lauk um tólf og var engin aukaframleiðsla. Kannski eins gott því sú sem var í bókhaldinu þurfti líka að sinna mánaðamótauppgjöri og það er hellings vinna sem þar liggur sérstaklega fyrir þá sem eru ekki að sinna þessu nema endrum og sinnum. Ekki er svo sem hægt að klára þetta á einum degi því síðustu tölur sem þurfa að fara inn í dæmið skila sér ekki fyrr en á þriðja eða fjórða virka degi nýs mánaðar.
Ég þurfti að sinna aukaverkefni á "gamalt" verkfæri upp úr hádeginu en var búin upp úr klukkan tvö. Var búin að öllu sem ég gat gert um hálfþrjú og skráði mig þá út úr kerfum og labbaði heim. Hringdi í pabbi og eftir smá spjall við hann hellti ég upp á tvo bolla af sterku kaffi og fékk mér síðdegishressingu. Eftir ca hálftíma verð ég sótt svo ég þarf að fara að huga að því að gera mig tilbúna í sjósundsferð.
1.11.20
Nóvembermánuður hafinn
Þátturinn sem ég var að horfa á í spilaranum fraus rétt fyrir hálftíu í gærkvöldi. Líklega er um að kenna lélegur ráter. Ég ákvað að slökkva á sjónvarpinu og færa mig inn í rúm og lesa Sólkross eftir Óttar M. Norðfjörð. Er að verða hálfnuð með þá bók. Ég var farin að sofa rétt upp úr klukkan tíu. Rumskaði fyrst rétt fyrir sjö en fór ekki á fætur fyrr en amk klukkutíma síðar. Var fyrst á fætur, búin að lofa N1 syninum að skutla honum á vakt fyrir klukkan tíu. Bjó til hafragraut og var búin að borða minn skammt og prjóna þrjár umferðir í nýjustu tuskunni áður en Davíð Steinn kom fram og fór í sturtu. Hann rétt svo hafði tíma til að gleypa í sig sinn grautarskammt áður en við lögðum af stað. Að vísu var hann mættur upp á Gagnveg ca. sjö mínútum áður en vaktin hans átti að byrja. Á leiðinni þangað sagðist hann vera búinn að fjárfesta í nýjum ráter sem hann sækir á morgun eða hinn. Sá gripur er dýrari heldur en það sem hann borgar heim á mánuði svo vonandi hættir þetta netvandamál. Í bakaleiðinni ákvað ég að koma við hjá Atlantsolíustöðinni við Sprengisand og fylla á tankinn sem var þó hálfur fyrir enda er bíllinn hreyfður mikið sjaldnar þessa dagana. Hellti mér svo upp á fyrstu kaffibolla dagsins þegar ég kom heim aftur.
Var búin að hengja upp úr tveimur þvottavélum og undirbúa gólfin í eldhúsi, stofu, holi og baðherbergi undir skúrun þegar Oddur Smári kom á fætur upp úr klukkan eitt í gær. Hann tók að sér að skúra en ég fór í klukkustundar göngu um Öskjuhlíð og nágrenni, labbaði m.a. framhjá Nauthólsvík.