Það var eitthvað vesen á netinu í gærkvöldi þannig að þegar sjónvarpið fraus í annað skipti um hálftíu ákvað ég að slökkva og hátta mig upp í rúm með bók. Las í einhverja stund en ég leit ekki á klukkuna þegar ég lagði frá mér bókina og slökkti á lampanum. Held samt að klukkan hafi alls ekki verið orðin ellefu enda var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Fór fram á sloppnum um hálfátta og var á undan N1 syninum á baðherbergið en hann kom fram rétt á eftir mér og var farinn af stað í sína vinnu fljótlega. Ég bjó mér til hafragraut og borðaði í rólegheitunum. Um hálfníu fór ég að huga að því að undirbúa mig undir sjóferð. Var sótt uþb tuttugu mínútum síðar. Tvær aðrar voru mættar og biðu í bílunum sínum þar til sú síðasta sem hafði boðað komu sína mætti skömmu síðar. Sjórinn mældist 4,8°C og það var afar hressandi að taka nokkur sundtök bæði á bringu og baki. Vorum uþb sjö mínútur útí. Svo var mér skilað heim að innkeyrslu. Ég fór beint í sturtu og þvoði mér um hárið. Fór svo niður í þvottahús og setti sjósundsdótið 30° stutt prógramm í þvottavélinni. Á nú bara eftir að fara niður aftur til að hengja dótið upp.
Heyrði aðeins í Helgu systur í gærkvöldi. Hún hringdi til baka þar sem hún gat ekki svarað þegar ég hringdi um miðjan dag. Tilboðinu þeirra í jörðina var tekið en það veltur samt á því hvort seljendur fái greiðslumat hvort þetta verði að veruleika. Tilfinning mín er samt sú að norðanfólkið mitt sé að fara að flytja í sveitina á næstu misserum.
Síðasti dagurinn í þessum mánuði runninn upp og framundan er vinnuvika eftir helgi. Vegna hertra reglna til að freista þess að ná böndum um veiruna er útlit fyrir að vinnufyrirkomulag haldi áfram með sama hætti næstu vikurnar. Í næsta vinnustoppi ætla ég að huga að jólakortagerðinni í ár.