31.8.20

Bíllinn kominn með skoðunarmiða til 2022

Ég kom í bæinn aftur rétt fyrir hádegi eftir að hafa gist tvær nætur á Hellu. Gerði mest lítið af mér fyrir austan. Steikti bleikju handa okkur pabba í hádeginu í gær og hafði hýðisgrjón með. Lauk við lestur þeirrar bókar af safninu sem ég þarf að skila inn eftir rúma viku; Tíbrá eftir Ármann Jakobsson. Fór í kaplakeppni við pabba og eyddi einnig tíma í einni af tölvunum hans.

Rétt fyrir eitt fór ég með bílinn í skoðun hjá Frumherja í Skeifunni. Komst strax að, fékk FÍB afslátt af verðinu og þurfti alls ekki að bíða lengi eftir niðurstöðu. Engar athugasemdir voru gerðar og ég þarf ekki að fara með bílinn aftur í skoðun fyrr en í ágúst eftir tvö ár.

29.8.20

Laugardagur

 

Laugardagur

Mín á leið í morgunsund.
Mögnuð verður potta-stund.
Kaffi fyrst,
dál'dið þyrst.
Seinna skrepp á föður-fund.

Þessi limra varð til á níunda tímanum í morgun. Mætti í sundið tæpum klukkutíma síðar og uppgötvaði þá að ég hafði gleymt að færa sundgleraugun úr sjósundspokanum yfir í sundpokann. Fór tvisvar í kalda pottinn og einu sinni í heitasta pottinn áður en ég fór út í laug. Áður en ég vissi af var ég búin að synda 500 metra á brautum 7 og átta á uþb tuttugu mínútum. Þá fór ég þriðju ferðina í kalda pottinn og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr. Kom við hjá Oddi í Kvikk við Öskjuhlíð. Um eitt lagði ég af stað austur lét pabba vita um tvö að ég væri komin í sýsluna en ég gerði smá stopp í Guttormshaga, fyrsta heimsóknin þangað ár.

28.8.20

Erilsöm vinnuvika

Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag lauk vinnuskyldu ekki fyrr en um fjögur. Á miðvikudaginn mætti ég í Laugardalslaugina klukkan að verða hálfsex eftir að hafa komið við í Fiskbúð Fúsa og keypt mér bleikjuflök. Fór beint í þann kalda og eftir smá stund kom kalda potts vinkona mín í sína þriðju ferð í kalda. Ég ákvað að elta hana á milli kaldasta og heitasta í nokkrar ferðir og það urðu 7 ferðir í kalda pottinn hjá henni en 5 hjá mér. Synti svo aðeins 300 metra áður en ég fór upp úr og heim. Báðir strákarnir voru að vinna, annar til hálfátta og hinn til átta. Ég eldaði samt öll þrjú bleikjuflökin og fyrir vikið átti ég afgang til að fara með í vinnuna í gær og í dag. Strákarnir fengu sér eitthvað pínulítið.

Í gærmorgun hafði sjósundsvinkona mín samband og lét vita að hún færi í sjóinn upp úr klukkan fimm og spurði hvort ég kæmi. Ég tók vel í það, sagðist líka þurfa að fá mér vetrarpassa í Nauthólsvíkina. Þegar vinnu lauk rétt fyrir fjögur var rigning og ég ekki í regnkápu. Var að spá í að hringja í einkabílstjórann sem var á frívakt en bauðst far með annarri samstarfskonu minni sem ég þáði með þökkum. Þar af leiðandi hafði ég smá tíma heima áður en ég dreif mig í sjósundið. Skilaði inn armbandinu sem ég keypti í janúar og fékk rúmlega þrjúþúsund króna afslátt af haustpassanum. Til stendur að koma upp sama kerfi og er í laugunum en þangað til er ég með smá spjald sem ég þarf að sýna. Vetrartíminn tók gildi sl. mánudag og nú er aðeins opið fimm sinnum í viku, lokað á föstudögum og sunnudögum. Þrjár aðrar mættu með okkur Helgu Rún og hún grínaðist með það að nú væri orðið vel skipað í boðsundssveit. Syntum og svömluðum í sjónum í tæpan hálftíma og sátum svo líklega annað eins í heita pottinum.

Smá tilraun

Hvað gerist ef ég prófa að blogga með því að velja titilinn sem ég bjó til síðast? Kemst að því rétt strax þegar ég prófa að birta þessi orð.

25.8.20

Vinnuvika í blússandi gangi

Á laugardagsmorguninn var hitti ég tvær Helgur í Nauthólsvík milli klukkan 10 og hálftólf. Syntum rólega í rúman hálftíma á flóði, uþb 700 metra. Um hálfeitt pakkaði ég niður í tösku og brunaði beint austur á Hellu til pabba og það fyrsta sem ég gerði þar var að setja í þvottavél. Eftir kvöldmat horfðum við pabbi á tónaflóð á RÚV. Morguninn eftir var ég frekar snemma á fótum til að geta sinnt þvottamálum frá A-Ö áður en ég færi aftur í bæinn. Náði að ljúka verkefnunum og eftir kaffi kvaddi ég pabba og dreif mig í bæinn og beinustu leið í sund. Ég ákvað svo að bjóða strákunum út að borða á Pítunni. Við Oddur sóttum Davíð Stein þegar hann var búinn í vinnunni klukkan hálfátta.

Í gærmorgun var ég mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Vinnudeginum lauk ekki fyrr en klukkan var orðin hálfníu í gærkvöldi og þá ákvað ég að við þyrftum ekki að mæta fyrr en um hálfníu í morgun. Það var samþykkt, bæði af okkur þremur í A-hópnum sem og af framkvæmdastjóranum yfir okkur. Ég vaknaði engu að síður rétt upp úr sex í morgun, nokkru á undan vekjaraklukkunni. Gaf mér góðan tíma í morgunverkin og bjó mér til kjarngóðan hafragraut. Labbaði af stað í vinnuna um hálfátta og valdi leið sem tók mig þrjú korter að ganga. Vinnudegi lauk um klukkan hálffjögur þá labbaði ég heim til að sækja bílinn, bókasafnsbækur og sunddótið. Skilaði báðum bókunum og fékk mér 6 í staðinn. Fékk smá áfall þegar ég kom í Laugardalinn, hafði nefnilega gleymt að setja niður sundbolinn sem ég nota mest þessa dagana. Til allrar hamingju þá var gamall aukabolur á botninum í sundtöskunni. Fór tvær ferðir í þann kalda, synti 300 metra á milli og endaði í gufunni. Kom aðeins við hjá Oddi í Kvikk við Öskjuhlíð áður en ég fór heim og eldaði plokkfisk úr fiskafgöngum síðan á föstudaginn var.

Vinnuvika í blússandi gangi

22.8.20

Ný framrúða

Ákvað að sleppa því að mæta í sund í gærmorgun þrátt fyrir að hafa vaknað það snemma að ég hefði geta mætt um leið og opnaði um hálfsjö. Bjó mér þess í stað hafragraut og hellti upp á tvo bolla af kaffi. Rétt áður en klukkan sló átta var ég mætt á bílnum, TMH 88, að fyrirtækinu Orka við Stórhöfða 37. Um leið og ég "skráði" hann inn í framrúðuröðina pantaði ég minnstu einingu af lakki til að bera á ljóta skrámu. Síðan tók við fyrsti labbi túr af  5, 1,1 km að næsta strætóskýli. Þar tók ég leið 6. Fór úr strætó einni stöð fyrr en ég þurfti, við Gerði en ekki Skeifuna en það gerði nú minnst til því tíminn var nógur. Ég rölti 2,2 km upp í Síðumúla og aðeins þar um því ég átti að vera mætt á fund hjá húseigindafélaginu klukkan hálftíu en var komin á þær slóðir hálftíma fyrr. Á slaginu hálftíu kom fulltrúi Drápuhlíðar 19 og um leið var okkur boðið inn á skrifstofu lögfræðings sem ætlar að hjálpa sameiginlegu húsfélagi til að halda sinn fyrsta aðalfund og stofna löglega stjórn. Fundurinn stóð yfir í innan við þrjú korter en ég var ánægð með hann. Ég fékk það verkefni að athuga með leigu á sal í viku 37. Labbaði svo af stað heim og kom við í Fiskbúð Fúsa, 1,7 km, þar sem ég keypti m.a. ýsu í soðið og svo heim, 1,5 km. Þarna var ég komin með yfir 9000 skref áður en klukkan var orðin ellefu. Um fjögur tók ég strætó við Klambratún og frá skýlinu á Höfðabakka við Dverghöfða labbaði ég uþb 1,1 km til að sækja bílinn. 20% af framrúðu skiptum, 0,25 lítrar af lakki og lítill brúsi af glæru efni til að setja undir gerðu allt í allt rúmlega fimmtíuogeittþúsund. En ég er sátt og nokkuð viss um að ég fæ skoðun á bílinn þegar ég vind mér í það verkefni fljótlega.

20.8.20

Sjórinn í gær sund í morgun

Um hálfellefu í gærmorgun hitti ég tvær Helgur í Nauthólsvík. Við svömluðum um í sjónum í uþb hálftíma og sátum svo góða stund í heita pottinum áður en við kvöddumst. Það er greinilegt að framhalds og háskólar eru að byrja því það var ekki hlaupið að því að fá stæði þrátt fyrir að það væru ekki margir í sjónum.

Í morgun var ég vöknuð fyrir klukkan sex en dreif mig ekki af stað í stund fyrr en klukkan var byrjuð að ganga níu. Í Laugardalnum var nóg af stæðum og lítil sem engin biðröð í pottana sem aðeins mega vera tveir í í einu.

Ég taldi mig vera búin að finna leið til þess að blogga án þess að skilja eftir mig tvöfalda yfirskrift en það að geta hent út annarri var aðeins hægt í örfáa daga. Ætla ekki að láta þetta fara í taugarnar á mér heldur leyfa þessu að standa svona, amk í bili.

19.8.20

Rúm vika

Á miðvikudaginn var, yfirferð á vélinni milli klukkan tólf og fjögur. Ég tók að mér að sitja yfir. Upp úr klukkan þrjú kom framkvæmdastjórinn yfir rekstrardeildinni í heimsókn og má alveg segja að ég hafi fengið einkafund með honum því hann stoppaði í amk tuttugu mínútur og spjallaði við mig. Hann sagði mér m.a. að A og B hópar myndu gilda eitthvað áfram þannig að ég fékk það alveg á hreint að ég mætti ekki mæta til vinnu í þessari viku.
Upp úr hádegi á fimmtudeginum, þegar allt daglegt var búið og við ætluðum að fara að halda áfram með endurnýjun, bilaði prentarinn. Það varð að kalla til viðgerðarmann og hann kom um hálfþrjú. Hann bjargaði málunum á tveimur tímum þannig að öruggt var að dagleg framleiðsla á form myndi ekki tefjast frekar.

Á föstudaginn var því hægt að halda áfram með endurnýjunina og vélin var látin ganga (með kaffi og matarpásu) til klukkan að byrja að ganga fjögur. Ein af okkur þremur hafði verið búin að semja um að hætta snemma og fór um tvö leytið. Hún var búin að sótthreinsa alla sameiginlega fleti í skrifstofurýminu. Við hinar tvær sótthreinsuðum sameiginlega snertifleti í framleiðslurýminu og skrifuðum smá stöðuskýrslu til þeirra sem tóku við í þessari viku. Ætlaði að skreppa í sjóinn með sjósundsvinkonu um fimm en veðrið var það gott að það var of margt um manninn í Nauthólsvíkinni að mínu mati.

Fór í sund á laugardagsmorguninn og um hádegið tók ég mig saman og dreif mig austur á Hellu. Var komin þangað um hálftvö ca tuttugu mínútum á undan systir minni, mági og eldri systurdóttur sem höfðu fengið pössun fyrir hundana og voru að koma að sækja yngri dóttluna sem vann í SS í allt sumar og þótti mjög dugleg. Seinni partinn þennan dag skruppu feðginin, sóttu eina vinnuvinkonu Bríetar, og fóru á skotæfingasvæði að æfa sig. Á sunnudagsmorgunin fóru þau svo í smá reiðtúr með sömu stúlku. Norðlenska fjölskyldan kvaddi um hádegi því þau áttu eftir að reka einhver erindi í bænum áður en þau fóru heim.

Ég stoppaði hjá pabba alveg fram á mánudagskvöld. Eins dugleg og Bríet var að þvo af sér flíkur og sængurföt þá voru ófá handklæðin og þvottastykkin sem söfnuðust upp. Ég setti fjórum sinnum í vél og hengdi allt út á snúrur og það er enn eftir að þvo amk tvær í viðbót.

Í gærmorgun átti pabbi tíma hjá þvagfærasérfræðingi í Glæsibæ um níu. Í ljósi ástandsins mátti hann bara mæta einn á svæðið. Ég hringdi hann seinni partinn í gær því hann hafði talað um það að hann ætlaði að snúast aðeins í bænum eftir læknisheimsóknina. Hann var kominn heim um hálffjögur og sagði að það hefði verið settur upp hjá honum þvagleggur og blaðran tæmd. Þvaglegginn á hann að hafa næstu tvær vikurnar og hann kemst ekkert í sund á meðan en þarf heldur ekki að nota bleyjur.

Rúm vika

9.8.20

Sunnudagur

Dagurinn í dag verður einn af þeim rólegri. Í gærkvöldi byrjaði ég á að lesa; Dauðar sálir eftir Angelu Marsons. Það var erfitt að leggja hana frá sér eftir að ég var byrjuð að lesa en mér tókst það þó um ellefu. Var sofnuð fljótlega en viti menn, ég var vöknuð upp úr klukkan þrjú og eftir hálftíma baráttu við að "berja" mig niður aftur kveikti ég á náttborðslampanum, náði aftur í bókina, setti upp lesgleraugun og las til klukkan að verða fimm. Þá náði ég að leggja aftur frá mér bókina og sofa til klukkan að verða átta. Verkefni dagsins verður líklega að klára þessa blessuðu bók, hún er það spennandi að hún rígheldur.

Í gærmorgun var ég ekki alveg viss hvort ég væri á leiðinni í sund eða sjóinn. Bjó til hafragraut handa okkur N1 syninum og bauðst til að skutla honum til vinnu rétt fyrir tíu. Hafði bæði sund- og sjódót með mér út í bíl. Sjórinn varð ofan á, 11,5°C heitur, flóð og ég ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Var þó ekki ofan í nema uþb tuttugu mínútur og svo tíu mínútur í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.

Sunnudagur

7.8.20

Titill dagsins

Gærdagurinn var mjög rólegur langt frameftir degi. Korter fyrir átta í gærkvöldi sótti ég Lilju og saman brunuðum við í saumaklúbb til Sonju. Allar þrjár mættar semsagt og tíminn var alltof fljótur að líða. Spjall, föndur, prjón, kaffi og allskonar og allt í einu voru liðnir þrír tímar. Skilaði Lilju og varð svo að leggja í Blönduhlíðinni um hálftólf. Fór beint upp í rúm en fór ekki að sofa fyrr en klukkan var farin að ganga eitt.

Svo var ég glaðvöknuð um sexleytið. Fór á fætur um sjö og stuttu seinna bankaði ég á herbergisdyr N1 sonarins, sem betur fer. Hann var steinsofandi og átti að vera mættur til vinnu klukkan hálfátta. Ég skutlaði honum svo hann var ekki nema fimm mínútum of seinn. Sjálf dreif ég mig beint í sund í Laugardalnum. Það var rólegt og nóg pláss í flestum pottum og lauginni. Áður en ég fór heim eftir sundið skrapp ég í Krónuna vestur á Granda. Ætlaði líka að koma við í Fiskbúð Fúsa en þar er lokað vegna sumarleyfa til 10. ágúst. Geymi mér fiskibúðarferð þangað til.

Titill dagsins

6.8.20

Fimmtudagur

Í gær fór ég í sund rétt fyrir klukkan tvö og var komin heim aftur um hálffjögur. Þar sem mér tókst ekki sjálfri að tengja síman við bílinn bað ég Odd um að hjálpa mér áður en hann fór í vinnuna. Hann var snöggur að bjarga þessu en ég hreyfði bílinn samt ekki aftur í gær. Upp úr klukkan hálfsex var haldinn sameiginlegur fundur 19 og 21 á lóðinni fyrir framan hús. Fulltrúar úr öllum íbúðum nr. 19 mættu. Annar af þeim sem eiga kjallaraíbúðina okkar meginn (21) býr í London en hann gat samt "verið með" á fundinum þar sem haft var samband við hann símleiðis á myndforriti. Eigandi risíbúðarinna okkar megin er stödd erlendis og hafði látið vita í fundarboðinu að hún kæmist ekki í þetta sinn. Við vorum svo sem bara að ræða næstu skref. Við vorum búin að fá munnlega staðfestingu á því að verktakinn sem gerði lægsta tilboðið í fyrra væri til í að taka verkið að sér og leggja til grundvallar sama tilboðið. Samningurinn var og er mjög góður jafnvel þótt að hugsanlega gæti kostnaðurinn farið allt að 10% fram úr áætlun ef í ljós koma meiri skemmtir. Þar að auki er 100% af vsk af vinnu endurgreiddur í stað 60%. Reyndar er þessi breyting aðeins staðfest til áramóta en ef covid-19 er enn að gera usla í samfélaginu má alltaf vona að framlenging verði gerð á því. Við ætlum semsagt að fá verktakann til að meta hvort þurfi að gera bráðabirgðaviðgerð á slæmum lekamálum sem fyrst og semja svo um hvort hefja megi framkvæmdir með vorinu.

Fimmtudagur

5.8.20

Letiblóð

Seinni partinn í gær fór ég í fjórðu og síðustu heimsóknina til Pixí. Þótt kisan væri vör um sig var hún líka mjög forvitin um það sem ég var að sýsla við og þegar ég opnaði veskið mitt og tók upp tyggjópoka til að fá mér stökk hún upp í sófa. Hélt greinilega að ég væri þarna með eitthvað sem hún ætti að fá að smakka. Hún vildi líka bæði láta strjúka sér og leika við sig en ef ég hreyfði mig of hratt þá skaust hún alltaf hratt í burtu. Frænka mín og kærasti hennar kom heim í dag. Ég þorði samt ekki að skilja eftir húslykla frænku minnar ef eitthvað yrði til þess að heimför frestaðist.
Synir mínir er báðir búnir að aðstoða mig við að taka nýja símann í notkun. Ég verð örugglega einhvern tíma að venja mig við og læra á hann. Sumt sem virkar flókið í dag verður örugglega einfaldara og léttara með tímanum.

Ég er aðeins með tvær bækur af safninu og er að lesa þær báðar; Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Jónsdóttur og Flúraða konan eftir Mads Peder Nordbo.

4.8.20

Skrýtnir tímar

Ég stillti ekki á mig klukkuna áður en ég fór að sofa um ellefu í gærkvöldi. Var vöknuð um hálfsjö en það lá svo sem ekkert á að koma sér á fætur alveg strax. Þessa vikuna á ég að halda mig frá vinnu. Klukkan var byrjuð að ganga níu áður en ég fór á fætur. Útbjó mér skotheldan hafragraut, prjónaði smávegis og um hálftíu dreif ég mig í sund. Var búin að mæla mér mót við kaldapottsvinkonu mína upp úr klukkan tíu og ég ætlaði mér að vera búin að synda áður en við færum að pottormast saman. Ég var búin að synda og í minni þriðju ferð í þeim kalda þegar vinkonan mætti. Náði næstum því þremur ferðum með henni, en þar sem eru fjöldatakmarkanir í potta og ekki mega vera nema tveir var ég á undan í þann kalda síðustu ferðina áður en ég endaði í gufunni. Er nýlega komin heim og fyrir liggur að hella uppá, færa sim-kortið úr gamla í þann nýja, lesa, fara í síðustu kisuheimsóknina og fara vel með sig.

3.8.20

Sund og kisuheimsóknir

Ég skrapp í klukkutímaheimsók til kisu um klukkan fjögur á laugardaginn. Kisa var svolítið feimin við mig og var lengst af undir sófa. Ég skipti um vatn í skálina hennar og bætti á þurrfóðrið í matardallinn. Áður en ég fór hafði kisa fengið sér að borða og þefað af mér en hún vildi ekki leika við mig.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð Steini í vinnuna rétt fyrir tíu og fór beint í sund á eftir. Kom um hádegisbil. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég fór í heimsókn til kisu. Varð að ýta fast á dyrnar inn í íbúð því dyramottan var að þvælast fyrir. Kisa horfði hissa á mig þegar ég kom inn, hafði líklega verið að leika sér þannig að mottan færðist úr stað. Vatnið hennar var búið úr skálinni og bara lítið af mat eftir í dallinum. Hreinsaði upp kattarælu af mottu inni í stofunni áður en ég fyllti vatnsskálina og bætti í matardallinn. Kisan var farin undir sófa og var þar til ég leyfði henni að þefa af annarri hendi minni og fór að klóra henni í kjölfarið. Hún vildi meira að segja leika smá við mig. Stoppaði í hátt í tvo tíma.

Í morgun mætti ég í sundið um hálftíu. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn 2x og einu sinni í þann heitasta áður en ég fór að synda. Ég var svo í minni þriðju kaldapottsferð þegar kaldapottsvinkona mín mætti á svæðið. Við voru ekki búnar að mæla okkur mót en ég fór þrisvar í þann kalda með henni. Kom svo við í Kvikk í Öskjuhlíð og sníkti kaffi af Oddi sem stendur vaktina þar til klukkan tvö í dag.

1.8.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Ágústmánuður byrjaður

Fór ekki aftur af bæ eftir að ég kom heim rétt um tvö í gær. Sunddótið mitt var í bílskottinu og fékk að vera þar í nótt. Var komin í háttinn áður en N1 sonurinn kom heim úr vinnu en sl. fimm daga, daginn í dag og morgundaginn vinnur hann frá 10-22 við Stórahjalla. Ég var vöknuð tiltölulega snemma í morgun eða upp úr klukkan sjö. Nennti samt ekki alveg strax á fætur og milli klukkan átta og níu hlustaði ég á stórskemmtilegt viðtal við konu sem er fædd í Serbíu, alin upp í Kanada frá 4 ára aldri, kynntist íslenskum eiginmanni sínum í námi erlendis og flutti hingað til lands fyrir fjórum árum. Íslenskan er hennar 5. tungumál og hún talar hana mjög vel.
Rétt fyrir tíu skutlaði ég Davíð Steini á vakt og fór beint í sund á eftir. Aðeins tveir mega vera í einu í minni pottunum en ég þurfti aldrei að bíða í röð eftir að fara í þann kalda. Kom heim um hálftólf en á eftir að skreppa aðeins af bæ aftur og gefa kisu kærasta frænku minnar en þau eru bæði að heiman næstu fjóra daga.