Á miðvikudaginn var, yfirferð á vélinni milli klukkan tólf og fjögur. Ég tók að mér að sitja yfir. Upp úr klukkan þrjú kom framkvæmdastjórinn yfir rekstrardeildinni í heimsókn og má alveg segja að ég hafi fengið einkafund með honum því hann stoppaði í amk tuttugu mínútur og spjallaði við mig. Hann sagði mér m.a. að A og B hópar myndu gilda eitthvað áfram þannig að ég fékk það alveg á hreint að ég mætti ekki mæta til vinnu í þessari viku.
Upp úr hádegi á fimmtudeginum, þegar allt daglegt var búið og við ætluðum að fara að halda áfram með endurnýjun, bilaði prentarinn. Það varð að kalla til viðgerðarmann og hann kom um hálfþrjú. Hann bjargaði málunum á tveimur tímum þannig að öruggt var að dagleg framleiðsla á form myndi ekki tefjast frekar.
Á föstudaginn var því hægt að halda áfram með endurnýjunina og vélin var látin ganga (með kaffi og matarpásu) til klukkan að byrja að ganga fjögur. Ein af okkur þremur hafði verið búin að semja um að hætta snemma og fór um tvö leytið. Hún var búin að sótthreinsa alla sameiginlega fleti í skrifstofurýminu. Við hinar tvær sótthreinsuðum sameiginlega snertifleti í framleiðslurýminu og skrifuðum smá stöðuskýrslu til þeirra sem tóku við í þessari viku. Ætlaði að skreppa í sjóinn með sjósundsvinkonu um fimm en veðrið var það gott að það var of margt um manninn í Nauthólsvíkinni að mínu mati.
Fór í sund á laugardagsmorguninn og um hádegið tók ég mig saman og dreif mig austur á Hellu. Var komin þangað um hálftvö ca tuttugu mínútum á undan systir minni, mági og eldri systurdóttur sem höfðu fengið pössun fyrir hundana og voru að koma að sækja yngri dóttluna sem vann í SS í allt sumar og þótti mjög dugleg. Seinni partinn þennan dag skruppu feðginin, sóttu eina vinnuvinkonu Bríetar, og fóru á skotæfingasvæði að æfa sig. Á sunnudagsmorgunin fóru þau svo í smá reiðtúr með sömu stúlku. Norðlenska fjölskyldan kvaddi um hádegi því þau áttu eftir að reka einhver erindi í bænum áður en þau fóru heim.
Ég stoppaði hjá pabba alveg fram á mánudagskvöld. Eins dugleg og Bríet var að þvo af sér flíkur og sængurföt þá voru ófá handklæðin og þvottastykkin sem söfnuðust upp. Ég setti fjórum sinnum í vél og hengdi allt út á snúrur og það er enn eftir að þvo amk tvær í viðbót.
Í gærmorgun átti pabbi tíma hjá þvagfærasérfræðingi í Glæsibæ um níu. Í ljósi ástandsins mátti hann bara mæta einn á svæðið. Ég hringdi hann seinni partinn í gær því hann hafði talað um það að hann ætlaði að snúast aðeins í bænum eftir læknisheimsóknina. Hann var kominn heim um hálffjögur og sagði að það hefði verið settur upp hjá honum þvagleggur og blaðran tæmd. Þvaglegginn á hann að hafa næstu tvær vikurnar og hann kemst ekkert í sund á meðan en þarf heldur ekki að nota bleyjur.