Stuttu fyrir klukkan þrjú í gær dreif ég mig út í göngutúr. Sá göngutúr varði í rétt tæpan klukkutíma og síminn skráði sjálfvirkt á mig 4,19km. Labbaði upp að Perlunni og hélt beint áfram og niður hinum meginn við Öskjuhlíð. Kom niður hjá HR og beygði fyrst til vinstri en svo fljótlega til hægri og gekk ég að Nauthólsvík áður en ég beygði til hægri, í áttina að HR aftur og þaðan stíginn við Öskjuhlíð til vinstri að Flugvallaveg, framhjá Valsheimilinu, göngin undir Bústaðaveg að Reykjahlíð þar strax til hægri inn Drápuhlíð þar sem hún byrjar.
Fyrr um daginn hafði ég lokið við að lesa seinni lánsbókina frá tvíburahálfsystur minni, prjónað svolítið og byrjað á síðustu bókasafnsbókinni; Mótíf X eftir Stefan Ahnheim um lögreglumanninn Fabian Risk. Horfði á fréttatímana, Landann, Fjöllin rumska og Ísalög. Háttaði upp úr klukkan tíu og las í rúman hálftíma. Sofnaði um ellefu leytið og rumskaði svo alltof alltof snemma, sennilega eitthvað vinnuspennt.
Tók strætó við Krambúðina korter yfir sjö í morgun og var mætt í vinnu um hálfátta fyrst af okkur þremur sem stöndum vinnuvaktina í þessari viku. Síðasta vika var mjög erfið fyrir þær sem stóðu vaktina þá því m.a. bilaði prentarinn og það var ekki hægt að gera við hann heldur varð að panta varahluti. Þeir varahlutir komu í hús í dag og mun viðgerðarmaðurinn koma í fyrramálið og vonandi verður prentarinn betri en nýr á eftir. Við þræluðum daglegum debetkortum í gegn, 169 stk á mjög löngum tíma. Kortin var auðvelt að framleiða alveg sér en prentarinn skilaði aðeins 7 burðarblöðum undir þau í einu og það tók amk 5 mínútur. Lukum við daglega framleiðslu, frágang og talningu um tvö og byrjuðum svo á framleiðslu kredit-endurnýjunar fyrir það kreditkortafyrirtæki sem fær kortin sín beint til sín og náðum að framleiða um 300 af rúmlega 2000 áður en við sögðum þetta gott rétt upp úr klukkan þrjú. Var komin heim um hálffjögur. Hitti Odd Smára fyrir utan heima en hann var að koma úr Sorpu og smá búðarskreppu til að fylla aðeins á brauð og ost birgðirnar. Hann fór svo á vinnuvakt rétt fyrir fimm. Davíð Steinn er líka að vinna í dag og hann var farinn úr húsi á undan mér í morgun og kemur líklega heim á næsta klukkutímanum.