30.3.20

Vinnuvika framundan

Stuttu fyrir klukkan þrjú í gær dreif ég mig út í göngutúr. Sá göngutúr varði í rétt tæpan klukkutíma og síminn skráði sjálfvirkt á mig 4,19km. Labbaði upp að Perlunni og hélt beint áfram og niður hinum meginn við Öskjuhlíð. Kom niður hjá HR og beygði fyrst til vinstri en svo fljótlega til hægri og gekk ég að Nauthólsvík áður en ég beygði til hægri, í áttina að HR aftur og þaðan stíginn við Öskjuhlíð til vinstri að Flugvallaveg, framhjá Valsheimilinu, göngin undir Bústaðaveg að Reykjahlíð þar strax til hægri inn Drápuhlíð þar sem hún byrjar.

Fyrr um daginn hafði ég lokið við að lesa seinni lánsbókina frá tvíburahálfsystur minni, prjónað svolítið og byrjað á síðustu bókasafnsbókinni; Mótíf X eftir Stefan Ahnheim um lögreglumanninn Fabian Risk. Horfði á fréttatímana, Landann, Fjöllin rumska og Ísalög. Háttaði upp úr klukkan tíu og las í rúman hálftíma. Sofnaði um ellefu leytið og rumskaði svo alltof alltof snemma, sennilega eitthvað vinnuspennt.

Tók strætó við Krambúðina korter yfir sjö í morgun og var mætt í vinnu um hálfátta fyrst af okkur þremur sem stöndum vinnuvaktina í þessari viku. Síðasta vika var mjög erfið fyrir þær sem stóðu vaktina þá því m.a. bilaði prentarinn og það var ekki hægt að gera við hann heldur varð að panta varahluti. Þeir varahlutir komu í hús í dag og mun viðgerðarmaðurinn koma í fyrramálið og vonandi verður prentarinn betri en nýr á eftir. Við þræluðum daglegum debetkortum í gegn, 169 stk á mjög löngum tíma. Kortin var auðvelt að framleiða alveg sér en prentarinn skilaði aðeins 7 burðarblöðum undir þau í einu og það tók amk 5 mínútur. Lukum við daglega framleiðslu, frágang og talningu um tvö og byrjuðum svo á framleiðslu kredit-endurnýjunar fyrir það kreditkortafyrirtæki sem fær kortin sín beint til sín og náðum að framleiða um 300 af rúmlega 2000 áður en við sögðum þetta gott rétt upp úr klukkan þrjú. Var komin heim um hálffjögur. Hitti Odd Smára fyrir utan heima en hann var að koma úr Sorpu og smá búðarskreppu til að fylla aðeins á brauð og ost birgðirnar. Hann fór svo á vinnuvakt rétt fyrir fimm. Davíð Steinn er líka að vinna í dag og hann var farinn úr húsi á undan mér í morgun og kemur líklega heim á næsta klukkutímanum.

29.3.20

Birtir fyrr og fyrr

Ég heyrði í Oddi fara á stjá um sjö í morgun. Hann er á helgarvaktinni þessa helgina og mætir upp í Kvikk við Öskjuhlíð um 7:30 til að undirbúa opnun klukkan átta. Nýlega voru vaktirnar hans styttar um nokkra klukkutíma. Mánudags-miðvikudags vaktirnar voru áður frá 15-20 en frá og með síðasta mánudegi eru þær frá 17-20 og helgarvaktir styttust um 1,5 klst hvor dagur. Oddur var því kominn heim fyrir klukkan þrjú í gær. Ég hafði náð að senda honum skilaboð og leggja inn á hann áður en hann var búinn að vinna svo hann kom heim með rjóma út á vöfflur. Davíð Steinn er í vaktafríi þessa helgina. Hann kom ekki framúr fyrr en um tvö í gær og tók þá að sér að skúra það sem ég átti eftir að skúra og ljúka við vöfflubaksturinn.

Annars gerði ég varla handtak fyrr en ég var búin að ljúka við að lesa bókina um kastaníumanninn, bókin var yfir 530 bls. og tók alls konar beygjur en hélt spennu mest allan lesturinn. Það tók samt nokkra daga að lesa bókina en ég kláraði síðustu 150 bls. í gærmorgun. Í gærkvöldi byrjaði ég á hinni bókinni sem tvíburahálfsystir mín lánaði mér; HORFIÐ EKKI Í LJÓSIРeftir Þórdísi Gísladóttur. Ég las fyrstu 9 kaflana og átti erfitt með að hætta og leggja hana frá mér. Bókin er innan við 160 bls og 26 kaflar svo það má alveg reikna með að ég ljúki lestri hennar í dag. Og þá á ég eftir síðustu bókasafnsbókina sem og síðustu jólabókina.

Er byrjuð að búa mig undir vinnuvikuna framundan. Ég heyrði í einni af þeim sem vann í síðustu viku og skv. henni bíður löng skýrsla um vinnuævintýri síðustu viku. Það lítur allt út fyrir að það teygist á aðgerðum vegna Covid-19 sem í mínu tilviki gæti þýtt að ég vinni ekki nema 11 daga í apríl mánuði. Hvort vinnutilhögunin, önnur hver vika, nái lengra fram á vorið verður að koma í ljós. Líklega langbest að hugsa ekki framúr sér. Auðvitað er óvissa erfið en þessar aðgerðir sem standa yfir eru lífsnauðsynlegar. Á meðan ástandið er svona á maður eiginlega að nota tækifærið og æfa sig betur í að lifa í núinu, taka því sem að höndum ber og HLÝÐA VÍÐI!

26.3.20

Alls konar dundur

Í gærmorgun var ég klædd og komin á ról um klukkan hálfátta. Ég ákvað að skipta um á rúminu mínu og setja í þvottavél. Annars notaði ég fyrstu tvo tímana í smá eldhússnurfus en aðallega lestur.. Er komin vel áleiðis með næstsíðustu bókasafnsbókina; Kastaníumaðurinn sem er eftir höfund sjónvarspþáttanna Forbrydelsen. Á ellefta tímanum hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér aðeins meiri hressingu heldur en eina matskeið af lýsi sem ég hafði tekið inn fljótlega eftir að ég kom á fætur. Svo greip ég í prjónana mína alveg fram yfir hádegisfréttir. Rétt fyrir klukkan eitt skrapp ég út í göngutúr. Var með símann á mér og eftir að ég kom heim lét hann mig vita að skráð var á mig hálftíma 2,2 km göngutúr, sjálfvirkt. Seinni hluti dagsins fór í prjón, lestur og þáttahámhorf. Slökkti á sjónvarpinu áður en klukkan varð tíu. Háttaði upp í rúm og las í rúman hálftíma áður en ég fór að sofa.

Vaknaði fyrir klukkan sjö. Nennti samt ekki strax á fætur og af því að fljótlega greip ég símann og fór "online" þá var klukkan langt gengin í níu áður en ég klæddi mig og bjó um. Dagurinn hefur liðið frekar hratt og hef ég næstum eingöngu verið að sinna áhugamálum mínum. Oddur Smári er í vaktafríi í dag og á morgun. Davíð Steinn var að vinna frá 7:30-18 í gær og í dag en á vaktafrí næstu þrjá daga. Ég hafði fiskibollur úr Fiskbúð Fúsa í kvöldmatinn. Og nú er ég að sötra smá hvítvín á meðan ég er að skrá niður það helsta.

En mikið svakalega langar mig í sund.  :-/

24.3.20

Innidagur enn sem komið er

Ég var vöknuð það snemma að ég heyrði morgunfréttirnar klukkan sjö í útvarpinu. Sofnaði ekki aftur en það tók mig þrjú korter að koma mér á fætur. Eftir að hafa burstað tennurnar, fengið mér eina matskeið af lýsi og tekið út 500gr. af hakki úr frysti settist ég með eina af bókasafnsbókunum, Olnbogavík, inn í stofu og las þar til klukkan var langt gengin í tíu. Þá ákvað ég að hita mér kaffi og fá mér einhverja morgunhressingu. Um hálfellefu hringdi ég í Lilju vinkonu og spjallaði stuttlega við hana. Svo hélt ég áfram að lesa fram að hádegisfréttum. Hafði til heitan mat um eitt leytið handa okkur mæðginunum. Það var ekki ætlunin að hanga inni í allan dag en það er ekkert sérstakt sem togar mig út. Hef verið að prjóna og horfa á allskonar þætti úr sjónvarpi símans Premium. Um þrjúleytið slökkti ég þó aftur á sjónvarpinu og lauk við að lesa bókina. Það var rétt hjá mér að ég hef lesið þá bók áður. Hafði engu að síður gaman að bókinni.

23.3.20

Síðasta sundferðin í amk 3 vikur

Ég fór ekki á fætur fyrr en um hálfníu í gærmorgun. Um níu var ég búin að búa til hafragraut. Ýtti fljótlega við N1 syninum og bauðst til að skutla honum á vinnuvakt fyrir klukkan tíu. Hann þáði boðið og fékk sér smá grautarslettu í morgunmat. Setti hann út við N1 við Stórahjalla rétt fyrir tíu. Við sammæltumst um að ég kæmi við hjá honum í baka leiðinni úr sundi því önnur rúðuþurrkan sem hann setti í fyrir mig um daginn virtist vera eitthvað gölluð. Það var mjög rólegt í sundi. Hafði braut 6 alveg útaf fyrir mig, synti mínar tuttugu mínútur, 500m þar af rúma 150 á bakinu, ca 40m skriðsund og 300m bringusund. Fór nokkrar ferðir í þann kalda og skipti milliferðunum á milli sjópotts, heitasta potts og 42°C potts. Þvoði mér um hárið og var mætt fyrir utan Stórahjalla um hálftólf. Fékk kaffi í boði Davíðs Steins á meðan hann skipti fyrir mig um aðra framrúðuþurrkuna á kostnað fyrirtækisins. Það er svo stutt síðan ég keypti þessar þurrkur að önnur þeirra hlýtur að hafa verið gölluð. Ég kom heim um tólf og fór ekkert meira út.

Stillti ekki á mig neina klukku þegar ég fór að sofa upp úr ellefu í gærkvöldi. Ég á að halda mig fjarri vinnu þessa vikuna og þá skiptir ekki öllu máli hvort maður vaknar klukkan sex, sjö eða átta. Var smá stund að ákveða mig í morgun hvenær dagsins ég ætti að skella mér í sund. Fannst þó best að fara fljótlega eftir að ég kom á fætur. Klukkan níu var ég komin út í þann kalda. Eftir þriggja mínútna stopp þar fór ég á braut 5 og synti í tæpar 25 mínútur, 600 metrar, þar af 150 metrar á bakinu en allt hitt á bringunni. Fór þrjár aðrar ferðir í þann kalda. Mjög fáir voru í sundi og aldrei biðröð í þá potta sem ekki mega fara nema 2 ofan í í einu. Oddur Smári var vaknaður og kominn fram þegar ég kom heim rétt fyrir ellefu. Rúmum klukkutíma seinna vöktum við bróður hans og þeir fóru eina ferð saman í Sorpu. Eftir að hafa skutlað bróður sínum heim aftur fór Oddur í Dressmann XL og fataði sig upp, keypti þrennar buxur og tvær hettupeysur. Hann kom líka við í matvörubúð og keypti brauð og lítinn pela af rjóma en ég var einmitt að taka síðustu vöffluna úr járninu þegar hann kom heim.

21.3.20

Innipúki í dag

Aðeins einn á þessu heimili fór út í dag og er hann reyndar enn að vinna, N1 sonurinn. Ég var vöknuð fyrir klukkan átta en nennti ómögulega á fætur. Heyrði í syninum fara á stjá og svo út úr húsi upp úr klukkan hálftíu. Ég reif mig ekki upp úr rúminu fyrr en klukkan var byrjuð að ganga ellefu.

Lauk við að lesa bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson sem ég er með í láni frá tvíburahálfsystur minni. Er ekki byrjuð á síðustu jólabókinni en ég er aðeins byrjuð á einni af þremur ólesnum bókasafnsbókum Olnbogavík eftir Hermann Jóhannesson. Þessi bók kom út árið 2013 og mig rámar í að hafa lesið hana áður. Ætla samt að halda lestri áfram. Annars hef ég líka verið að prjóna í dag og horfa á þætti úr sjónvarpi símans premium.

20.3.20

Vorjafndægur

Ég var komin upp í rúm um hálftíu í gærkvöldi. Las tvær síðustu smásögurnar í Átta sár á samviskunni eftir Karl Ágúst Úlfson. Slökkti ljósið klukkan tíu og var sofnuð stuttu síðar. Svaf í einum dúr til klukkan sex. Vaknaði rúmum hálftíma á undan klukkunni. Var mætt í vinnu um hálfátta og var mjög fegin að hafa tíma til að undirbúa sum af verkefnum dagsins. Þegar samstarfskona mín mætti suttu síðar tókum við fram framleiðsluvagnana, kveiktum á framleiðsluvélinni, fórum fram með bankatöskur og settumst svo stund frammi í kaffistofu eftir að hafa þvegið okkur og sprittað. Eftir að daglegum verkefnum lauk var klukkan byrjuð að ganga þrjú. Þá settumst við niður og skrifuðum smá "skýrslu" sem við sendum með rafrænum pósti á samtarfskonurnar okkar þrjár. Tvær af þeim grípa boltann eftir helgina ásamt sumarstelpunni frá í fyrra og sú þriðja kemur vonandi á vakt með okkur tveimur annan mánudag n.k. Kom heim um hálffjögur. Ákvað að sleppa sundferð í dag en um fimm skrapp ég í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið, nokkrar fiskibollur og harðfisk.

19.3.20

Stutt í laaaaanga "helgi"

Svefninn sl. nótt var svolítið órólegur. Var sofnuð fyrir klukkan ellefu og mig rámar í að mig hafi dreymt svolítið furðulegan draum. Rumskaði á öðrum tímanum í nótt og skrapp á salernið. Eftir það fannst mér ég vita af mér fram eftir nóttu. Man eftir að klukkan var byrjuð að ganga sex en svo hef ég líklega sofnað fastar því næst vissi ég af mér korter fyrir sjö þegar vekjaraklukkan fór í gang.

Var mætt í vinnu klukkan hálfátta í morgun eins og alla aðra virka morgna í vikunni. Notaði fyrsta korterið, þar til samstarfsmanneskja mín mætti, til að undirbúa m.a. bókhald og fleira til að flýta fyrir. Daglegri framleiðslu lauk rétt fyrir klukkan tólf. Keyrði mánaðarlega kreditendurnýjun og eitt af því síðasta sem við gerðum var að framleiða þau kort sem fara beint í kortafyrirtækið, rétt rúmlega 60 kort. Hins vegar byrjuðum við ekki á endurnýjun plasta sem send verða í pósti heim til kúnnanna, um tólfhundruð kort. Kannski byrjum við á þeirri framleiðslu á morgun en þau kort þurfa ekki að fara í póst fyrr en um mánaðamótin í síðasta lagi svo stelpurnar sem standa munu framleiðsluvaktina í næstu viku fara örugglega létt með að vinna þetta verkefni.

Kom heim um hálffjögur. Fór beint í að hella upp á uþb tvo bolla af kaffi. Fékk mér hressingu og hringdi svo í pabba. Var komin í sund um hálffimm. Þegar ég var að klára 400m bringusund sá ég kaldapotts vinkonu mína vera að fara í þann kalda svo ég dreif mig upp úr lauginni og náði 3 ferðum með henni. Hún hafði mætt fyrr en venjulega og var byrjuð á að pottast stuttu áður en ég byrjaði að synda.

18.3.20

Vikan hálfnuð

Betur gekk að sofna í gærkvöldi heldur en í fyrrakvöld. Var sofnuð fyrir klukkan ellefu og vaknaði upp úr klukkan sex, áður en vekjaraklukkan átti að vekja mig. Mætti til vinnu klukkan hálfátta og notaði fyrsta korterið til að skoða, prenta út og undirbúa ákveðna A-lyklasmíð. Það voru komnar 16 slíkar beiðnir. Það vill til að kortaframleiðslutölur hafa lækkað. Upp úr klukkan átta hófum við fyrstu framleiðslu dagsins við tvær sem stöndum vaktina þessa vikuna, ég að troða í og hún að taka á móti. Fyrsta framleiðsluskammtinum lauk rétt fyrir níu. Þá fór hún að vinna að bókhaldinu en ég að búa til fyrstu 6 lyklana. Eftir talningu skruppum við í kaffi og hófum svo næstu framleiðslu á ellefta tímanum. Þriðji framleiðsluskammtur kom rétt fyrir hálftólf, ekki mörg kort og framleiðslu var eiginlega lokið fyrir tólf fyrir utan tvö kort sem við þurftum smá aðstoð við að koma í gegnum vélina. Sú aðstoð var veitt eftir hádegi. Ég bjó til 5 lykla í viðbót eftir hádegi og okkur tókst að ljúka öllum frágangi rétt fyrir klukkan þrjú.

Ég var komin heim klukkan hálffjögur. Hellti upp á þrjá bolla af kaffi og fékk mér smá hressingu. Hringdi í Ellu vinkonu, pabba og esperanto vinkonu mína sem hafði reynt að ná í mig í gær. Pabbi hafði átt að fara í segulómskoðun vegna blöðruhálskirtils hér í bænum rétt fyrir hádegi en það var haft samband við hann og honum gefinn annar tími, 13. maí n.k.

Mætti í Laugardalslaugina um fimm. Engin biðröð var inn í dag amk ekki á þeim tíma sem ég mætti. Einn starfsmaður upplýsti mig um að miðað væri við að 100 manns mættu vera inni í einu og inni í þeirri tölu er starfsfólkið á svæðinu. Byrjaði á einni ferð í þann kalda áður en ég synti 500m. Fór tvær aðrar ferðir í kalda pottinn áður en ég fór upp úr og heim aftur.

17.3.20

Afmælisdagur

Það gekk ekki alveg eins vel að sofna í gærkvöldi og undanfarin kvöld, sennilega var ég eitthvað afmælisspennt. Veit ekki alveg hvenær ég sofnaði loksins en ég var amk vöknuð fyrir klukkan hálfsjö og komin á fætur stuttu síðar. Tók strætó kl. 7:15 eins og í gær og meðferðis hafði ég m.a. pralín súkkulaðiköku, 3 osta, tvær tegundir af smákexi og bland af bróm- og bláberjasultu til að bjóða samstarfsfólki mínu upp á í kaffitímanum. Á vinnustöðinni minni biðu mín falleg afmælisskilaboð frá þeirri sem vinnur með mér á kortadeildinni í þessari viku. Við svissuðum verkefnum frá í gær. Öll framleiðsla var búin um tólf en við vorum til klukkan þrjú að ganga frá og þar að auki varð ég að útbúa beiðni um aðstoð vegna eins verkfærisins sem við notum daglega og er ekki að virka eins og skyldi.

Í hádeginu hringdi kaldapotts vinkona mín til að óska mér til hamingju með daginn og spyrja hvænær ég myndi komast í sund í dag, hún ætlaði að mæta á þriðja tímanum. Ég var ekki komin heim fyrr en fjögur en ég tók strax til sunddótið mitt og brunaði af stað í sund. Í laugardal var verið að hleypa fólki inn í hollum og ég var nr. 10 í biðröðinni. Það var samt ekki nema tæplega 15 mínútna bið. Og viti menn kalda potts vinkona mín var enn á svæðinu og við náðum amk 3 ferðum samn í kalda pottinn og tveimur í þann heita áður en hún kallaði þetta gott í dag. Ég synti 300m áður en ég fór heim.

Heima beið mín terta ársins, ilmkerti og 3l pottur frá Davíð Steini og Oddur Smári tók svo að sér að panta og sækja á Saffran. Af bókalestri er það að frétta að nú á ég aðeins eftir að byrja á og lesa síðustu jólabókina. Er að lesa smásögurnar hans Karls Ágúst Úlfssonar sem komu út rétt fyrir síðustu jól og í Gærkvöldi byrjaði ég á annarri bókinni sem ég er með í láni frá tvíburahálfsystur minni, Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson.

16.3.20

Inn að aftan

Vaknaði nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Var komin á fætur stuttu fyrir sjö og ákvað að taka strætó í vinnuna korteri fyrr en venjulega eða um 7:15. N1 sonurinn sagði mér frá skilaboðum strætó um helgina að eftir að samkomubann hefði tekið gildi yrði farþegum hleypt inn í vangnana að aftan og þeir sem væru með strætókort eða app þyrftu bara að veifa þessu í áttina að bílstjóranum. Ég fór inn á heimasíðu strætó áður en ég lagði af stað í morgun og fékk þetta alveg staðfest svo ég var vel undirbúin. Var mætt í vinnu um hálfátta ca korteri á undan samstarfsstúlku minni. Við verðum að standa vaktina tvær í þessari viku, höldum okkur frá vinnu í næstu viku og þá mæta hinar tvær og sumarstúlkan frá í fyrra og svo verður sú fimmta vonandi komin í starfshæft ástand vikuna 30. mars - 3. apríl þannig að hún komi sem þriðja manneskja inn með okkur tveimur. Annars gekk þetta ágætlega upp í dag. Engin aukaframleiðlsa var á döfinni í dag og framleiðsludagurinn náði ekki 500 kortum í heildina svo við vorum búnar með alla framleiðslu rétt fyrir tólf þrátt fyrir að taka tvær talningapásur og eina kaffipásu. Þegar búið var að ganga frá öllu vegna framleiðslunnar eftir hádegið tókum við upp kortasendingu sem kom í hús sl. fimmtudag og vorum einn og hálfan tíma að taka upp, skoða, telja og kvitta fyrir tvær tegundir, hátt í tíuþúsund kort. Vorum svona lengi að telja því ekki var hægt að telja kortin í gegnum plastið og það tók frekar langan tíma að "klæða" kassana aftur í. Þegar við vorum rúmlega hálfnaðar með þetta verkefni ákváðum við að nota frekar tóma kassa sem eru með loki og þá fór þetta að ganga aðeins hraðar. Var komin heim um hálffjögur, rétt á undan N1 syninum sem varð að taka enn eina auka vaktina í dag sem teygðist aðeins úr. Sá skilaboð frá sjósundsvinkonu minni sem og tilkynningu frá ylströndinni við Nauthólsvíka að í dag væri lokað í sjóinn á meðan verið væri að finna út úr því hvernig eða hvort hægt væri að hafa þjónustuna opna á meðan að samkomubann og 2m bil á milli manna væri í gildi. Vonandi verður hægt að finna leið en þetta er aðeins annar mánudagurinn á árinu sem ég fer ekki í sjóinn.

15.3.20

Rólegheit og vöfflur

Ég man að ég rumskaði upp úr klukkan sex, heldur of snemmt að vakna þá. Var ekki með verkjaraklukku stillta á mig, tókst að snúa mér á hina hliðina og steinsofna aftur. Glaðvaknaði svo á níunda tímanum. Var komin í sund fyrir klukkan hálftíu. Gaf mér góðan tíma í rútínuna. Eftir sundið fór ég í Krónuna út á Granda og verslaði inn. Næsta stopp var í Kvikk í Öskjuhlíð þar sem ég drakk einn kaffibolla í boði Odds. Síðan gerði ég mér ferð á Atlantsolíustöðina við Sprengisand. Eftir að hafa fyllt á tankinn lá leiðin að Kringlunni. Var komin tíu mínútum of snemma en ég beið í nokkrar mínútur úti í bíl þar til klukkan var alveg að slá eitt. Skrapp þá inn á Kringlubókasafnið eingöngu til að skila tveimur bókum. Eftr það fór ég heim. Er búin að prjóna, lesa, horfa á ýmislegt í sjónvarpinu og búa til vöfflur úr hálfri uppskrif (3dl heilhveiti). Vöfflurnar voru tilbúnar um það leiti sem strákarnir komu heim úr vinnu.

14.3.20

Ljómandi laugardagur

Ég var sofnuð um ellefu í gærkvöldi og rumskaði fyrst rétt fyrir hálfsjö. Fór ekki á fætur fyrr en rúmum klukkutíma síðar og var að skafa framrúðuna á bílnum á meðan morgunfréttir klukkan átta voru í loftinu. Var byrjuð að synda tæpum hálftíma síðar, fékk alveg heila braut fyrir mig (nr. 6), og synti 600m. Þar af uþb 200 á bakinu. Fór þrjár ferðir í þann kalda. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu og þvoði á mér hárið að auki. Skrapp í heimsókn í vinnuna til Odds um hálfellefu og viðraði það við hann hvort hann yrði nokkuð sár þótt við Davíð Steinn færum í stutta heimsókn á Hellu, þ.e. ef sá síðarnefndi væri til í það. Oddur taldi að bróðir sinn yrði alveg til því það væri stutt síðan hann nefndi það að hann langaði að fara og kíkja á móðurafa sinn.

Þegar ég kom heim, um ellefu, útbjó ég mér staðgóðan hafragraut. Rétt fyrir tólf bankaði ég á herbergisdyrnar hjá Davíð Steini og vakti hann. Þá var hann búinn að sofa samfleytt í uþb 15 tíma en hann kom úrvinda heim úr vinnu á níunda tímanum í gærkvöldi eftir 7 daga vinnutörn. Hann var alveg til í að koma með mér austur og við ákváðum að leggja í hann fljótlega eftir hádegisfréttir. Hringdi í pabba og "varaði" hann við. Vorum komin til hans upp úr klukkan tvö og stoppuðum í rúma tvo tíma. Ég skellti í pönnsur með kaffinu og Davíð Steinn gerði tilraun til að laga flakkara afa síns. Flakkarinn er sennilega eitthvað laskaður því það tókst ekki að fá hann til að varpa myndum á sjónvarpið með neinu móti. Tók með mér afganginn af þorskhnökkum sem pabbi er búinn að geyma í kistunni hjá sér í síðan í fyrra, fékk hjá honum poka af frosnum krækiberjum og svo spurði hann hvort ég vildi ekki taka smá af oststykkinu. Hann er nýbúinn að kaupa lengju af 16% brauðosti. Annars vorum við mæðgininn að skila okkur heim fyrir tæpum hálftíma síðan. Hinn sonurinn var kominn heim af vinnuvaktinni sinni en hann á vakt aftur milli 7:30 og 16 á morgun og 15 og 20 mánudag til og með miðvikudag.

13.3.20

Fallegur föstudagur

Við mættum þrjár til vinnu um korter fyrir átta í morgun. Tvær af okkur sáum um vélina og framleiðslu en sú þriðja um bókhald og pökkun. Sú skrapp í Brauð & Co með einum samstarfsmanni um níu og keypti brauð með föstudagskaffinu þar sem slíkar vikulegar sendingar úr mötuneytinu á K2 liggur niðri ótímabundið. Eftir kaffipásu, upp úr klukkan tíu, var ákveðið að vinna þar til daglegri framleiðslu og frágangi væri lokið og svo ákveðið að fara heim.

Ég var komin heim korter fyrir klukkan eitt. Var eitthvað að spá í að drífa mig strax í sund en áður en ég vissi var klukkan orðin tvö og ég fór að fylgjast með upplýsingafundingum á RÚV. Áður en þeirri útsendingu var lokið hringdi fyrirliði kortadeildar í mig til að upplýsa mig um að framkvæmdastjórinn væri nýbúinn að tala við hana og ákveða að skipta yrði upp deildinni, vinna tvær og tvær í viku í senn og halda sig fjarri vinnustaðnum hina vikuna. Sú fimmta í deildinni verður líklega amk tvær vikur í viðbót að jafna sig eftir aðgerð á úlnlið sl. föstudag en hún kemur svo inn í annað hvort teymið þegar þar að kemur.

Eftir þessar fréttir hringdi ég í pabba en dreif mig svo loksins í sund með viðkomu í Fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti allsbera ýsu í soðið.

12.3.20

Fyndinn fimmtudagur

Líkt og í fyrrakvöld var ég sofnuð fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Rumskaði aðeins á sjötta tímanum en náði að sofna aftur. Glaðvaknaði klukkutíma síðar og fór á fætur á svipuðum tíma og í gærmorgun. Var mætt í vinnuna á sama tíma og venjulega, korter fyrir átta. Við vorum aðeins þrjár en við rúlluðum upp verkefnunum. Við vorum tvær á vélinni og ein í bókhaldi og frágangi. Framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Þá skruppum við í mat. Önnur af hinum tveimur hættir yfirleitt á hádegi á fimmtudögum en hún var búin að samþykkja að vera eins lengi og þurfti í dag. Eftir hádegishlé, var klárað að telja og ganga frá og vélin ryksuguð og þegar klukkan var alveg að verða hálftvö sendi ég hinar tvær heim. Ég ákvað að vera lengur ef það kæmi vinnupóstur klukkan tvö, sem reyndin varð. Vann líka aðeins í öðru svo áður en ég vissi af var klukkan að verða hálfþrjú.

Upp úr klukkan hálftíu í morgun hringdi einkabílstjórinn í mig þá kominn upp að Brimborg en fann ekki innganginn til að byrja með. Hann átti að mæta með bílinn á verkstæði Ford í þessu fyrirtæki til að fá nýjan hliðarspegill farþegameginn. Ég sagði syninum að finna stæði framan við fyrirtækið og hann myndi örugglega finna innganginn ef hann labbaði meðfram byggingunni. Stuttu seinna sendi hann mér sms um að viðgerð tæki amk tvo tíma og hálfspurði mig í leiðinni hvað hann ætti að gera við sig á meðan. Úr varð að hann fékk sér göngu upp í Krónu og apótek við Stórhöfða og þaðan fór hann svo að N1 í Ártúnsbrekku og beið eftir að fá sms með tilkynningu um að bíllinn væri klár. Það sms kom um hálfeitt. Hann fékk FÍB afslátt af viðgerðinni en þurfti að borga rúmlega 90þúsund. Svo fór pilturinn með bílinn í röð hjá bílaþvottastöð rétt hjá og fékk hann þrifinn eftir smá bið.

Ég var komin heim um þrjú. Hellti mér upp á kaffi og hringdi í pabba. N1 sonurinn átti að mæta á vakt upp í Stórahjalla klukkan fjögur og ég ákvað að skutla honum þangað og skreppa í Sports Direct og kaupa mér 2 sundboli áður en ég færi svo beinustu leið í sund í Laugardalslaugina. Var byrjuð að synda korter fyrir fimm. Synti í tuttugu mínútur, 500m. Fór fjórar ferðir í þann kalda, einni færri ferð en kalda potts vinkona mín. Endaði í gufunni og var kominn heim fyrir klukkan hálfsjö.

Annars er ég ennþá að lesa bókina hans Ármanns Jakobssonar, er rúmlega hálfnuð með þá bók og líkar lesturinn vel.

11.3.20

Mikilvægur miðvikudagur

Í gærkvöldi var ég komin upp í rúm rétt upp úr klukkan tíu, las í rúman hálftíma og var örugglega sofnuð fyrir klukkan ellefu. Rumskaði klukkan fimm í morgun og náði ekki að sofna aftur. Fór þó ekki á fætur fyrr en upp úr klukkan hálfsjö. Oddur Smári kom fram stuttu á eftir mér og var hann á leiðinni í vinnuna, hafði skipt um vakt til að leysa einn af og ætlaði að vera mættur í Kvikk í Öskjuhlíð um hálfátta til að undirbúa opnun á slaginu átta. Ég var þó á undan synininum út úr húsi og var að bíða eftir strætó þegar ég sá hann rölta af stað í sína vinnu 7:25.

Í minni vinnu var búið að uppfæra vinnuplanið með tilliti til þess að við værum aðeins fjórar af fimm. Ég var skráð í bókhaldsvinnu svo ég þurfti ekki að koma nálægt framleiðslunni. Ég var búin að fá það samþykkt að ég tæki út styttingu vinnuvikunnar, 1/2 dag í mars í dag. Átti þá að vera búin um hálftólf en ég vildi ekki skilja við ákveðið verkefni ólokið og var ca hálftíma lengur.

Um leið og ég labbaði frá vinnu hringdi ég eina í fyrrum samstarfskonu mína og athugaði hvernig ég sækti að henni. Hún var heima og ég ákvað að stökkva upp í næsta strætó vestur í bæ, leið 13. Sá keyrir aðeins á hálftíma fresti milli klukkan ellefu og tvö og var tiltölulega nýlega farin frá Lækjartorgi. Ég rölti alla leið að Ráðhúsi Reykjavíkur og beið þar eftir næsta vagni. Mætti í heimsóknina upp úr klukkan hálfeitt og stoppaði í rúma tvo tíma.

Kom heim um milli þrjú og hálffjögur. Stoppaði heima í uþb hálftíma og hringdi í pabba áður en ég dreif mig í sund með viðkomu í Fiskbúð Fúsa þar sem ég keypti nætursaltaðan þorsk í soðið sem og einn pakka af harðfisk.

10.3.20

Þrautseigur þriðjudagur

Það er vel hægt að finna fyrir að dagsbirtan eykst dag frá degi, aðeins 10 dagar þar til dagur og nótt verða jafnlöng. Við fjórar, af fimm, sem stöndum vaktina í kortadeildinni vorum byrjaðar að framleiða sem og undirbúa pökkun rétt upp úr klukkan átta. Ég var á framleiðsluvélinni að hlaða inn og troða í fram að morgunkaffi en að taka á móti og skoða eftir kaffið og til tólf. Þá var daglegri framleiðslu lokið en eftir hádegi sáu tvær um að klára framleiðslu á endurnýjun debetkorta marsmánaðar. Sú framleiðsla hófst á föstudaginn og allt í allt voru þetta uþb 4000 kort sem kláraðist að framleiða upp úr klukkan þrjú í dag.

Ég var komin heim korter fyrir fjögur og mitt allra fyrsta verk var að hella mér upp á tvo bolla af kaffi og fá mér smá hressingu með. Rétt rúmlega fjögur sló ég á þráðinn til pabba. Hann svaraði ekki fyrr en í níundu hringingu svo ég var farin að halda að hann hefði skroppið af bæ. Í reynd hitti ég akkúrat á að hringja þegar hann var á pisseríinu. Við feðgin spjölluðum í rúmar tíu mínútur en svo dreif ég mig af stað í Laugardalinn. Var búin að synda og fara eina ferð í þann kalda og hefði verið í þeim heitasta þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið ef ég hefði ekki hitt á eina af öllum þeim sund-Sigrúnum og farið að spjalla. Fór fimm ferðir í þann kalda allt í allt og endaði svo í gufunni í ca 15 mínútur. Ég er eiginlega nýkomin heim, strákarnir báðir að vinna svo ég þarf ekki að elda frekar en ég vil. Fæ mér líklega gríska jógúrt í kvöldmatinn.

9.3.20

Magnaður mánudagur

Mikið varð ég fegin í morgun þegar ljóst var að BSRB var búið að semja og því ekki lengur hætta á að loka þyrfti sundlaugum og aðstöðunni í Nauthólsvík. N1 strákurinn minn var farinn af stað í vinnu rétt áður en ég kom fram stuttu fyrir klukkan sjö í morgun. Ég tók leið 13 frá Krambúðinni um hálfátta, fór út við Þjóleikhúsið og var mætt í vinnu korter fyrir átta. Vinnudagurinn leið hratt og örugglega. Var nokkuð erilssamur en við gátum leyft okkur að hætta um þrjú. Ég var því komin heim um hálffjögur og eitt af því fyrsta sem ég gerði var að hella upp á. Hringdi í pabba og spjallaði við hann það lengi að hann missti af fjögur fréttunum. Ég var mætt í Nauthólsvík um hálffimm og var að setja á mig hanskana þegar sjósundsvinkona mín mætti á svæðið. Ég hinkraði  eftir henni og skelltum við okkur saman út í 0,2°C kaldan sjóinn. Það var flóð svo við þurftum ekki að labba "hálfa leið" til Kópavogs til að komast á smá dýpi. Svömluðum um í tæpar átta mínútur og vorum svo í heita pottinum í amk þrjú korter, höfðum um það margt að spjalla. Þegar við vorum búnar að flatmaga í heita pottinum í einhverja stund bættist bekkjarsystir mín úr grunnskóla í hópinn.

8.3.20

Sól á sunnudegi

Vaknaði rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Gerði tilraun til að kúra aðeins lengur en gafst upp á því eftir hálftíma. Ákvað að skipta um á rúminu mínu og gerði mig svo klára í sundferð. Klukkan var byrjuð að ganga níu áður en ég rölti yfir í Blönduhlíð, þar sem bíllinn var staðsettur, og keyrði þaðan beinustu leið í Laugardalinn. Synti 500m bringusund á tuttugu mínútum, fór þrisvar í þann kalda á eftir og sjópottinn, 42°C pottinn og gufuna á milli og á eftir áður en ég kallaði þetta gott að sinni. Var komin heim rétt fyrir klukkan hálfellefu. Eftir að hafa fengið mér hafragraut settist ég með skammtímalánsbókina inn í stofu og las í góða stund. N1 sonurinn kom fljótlega fram, vinnuklæddur, og var á leiðinni á auka vinnuvakt í Kópavogi. Fljótlega eftir að hann var farinn settist ég við tölvuna hans í smá stund.

Sr. Pétur hringdi í mig í vikunni og spurði hvort ég gæti komið og hjálpað til fyrir og eftir galdramessu í dag. Ég gaf honum þau svör að ef ég yrði í bænum myndi ég mæta um hálfeitt. Ég verð að viðurkenna að ég var eiginlega ekki að nenna að fara en loforð er loforð og ég var mætt við kirkjuna um hálfeitt. Skömmu síðar mætti ein fyrrum kórsystir mín sem og fyrrum safnaðarstjórnarsystir og sjálfur sérann sem fræddi okkur á því að seint í gær hefði verið ákveðið að það yrði aðeins boðið upp á kaffi og kleinur svo þeir sem ekki voru uppteknir eða í heimasóttkví úr stjórninni myndu alveg geta ráðið við að hella upp á og ganga frá. Semsagt ekkert Bjargarkaffi eftir messu í dag. Ég fór því beint heim aftur og var eitthvað að spá í hvort ég ætti að drífa mig í messu um tvö. Ekkert varð úr því. Lauk við skammtímalánsbókina og byrjaði á bókinni eftir Ármann Jakobson. Horfði á blaðamannafundinn á RÚV2 klukkan tvö og stillti svo á enska boltann. Er byrjuð að fella af afgangasjalinu í appelsínugulu og rauðu litunum með svörtu röndinni síðustu sex umferðirnar.

7.3.20

Laugardagur

Hafði áform um að taka upp ferðatölvuna seinni partinn í gær og punkta niður það helsta. Ekkert varð úr því vegna þess að leiðin að tölvu N1 sonarins varð greið og ég laumaði mér í hana um stund og notaði þann tíma í allt annað en að blogga. Núna var ég að koma heim úr sundi og esperantoæfingu og þrátt fyrir að veðurútlið sé skárra en reiknað var með hef ég ákveðið að vera í bænum um helgina.

Synti 500m í morgun og þar af 150m á bakinu því eftir sundið, tvær ferðir í kalda, eina í sjópottinn og eina gufuferð þvoði ég á mér hárið. Syndi semsagt aldrei á bakinu nema það standi til að þvo hárið og það geri ég ca vikulega. Hina sund og sjódagana kemst ég upp með að setja hárið í tagl og troða því undir hettu og þótt ég syndi alls ekki með höfuðið upp úr og byrji kalda potts ferðirnar á því að fara á bólakaf þá blotnar hárið ekki neitt að ráði, kannski bara rétt í hnakkanum.

Í gær kom ég heim úr vinnu upp úr klukkan hálffjögur. Vorum aðeins þrjár í vinnu. Ein af okkur fimm vinnur 70% stöðu og er búin á hádegi á fimmtudögum og hin sem ekki var mætt í gær var löglega afsökuð. Hún úlnliðsbrotnaði fyrir sex vikum síðan en þegar taka átti gipsið á miðvikudaginn var kom í ljós að brotið var ekki gróið og var ákveðið að hún færi í aðgerð þar sem tekið væri flís úr annarri mjöðminni á henni til að nota í úlnliðinn. Aðgerðin var í gær og hún verður frá vinnu í það minnsta tvær vikur. Ég fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim en notaði tímann m.a. til að horfa á þáttinn um Ragga Bjarna sem var sýndur á RÚV kvöldið áður, á fimmtudagskvöldið.

Á fimmtudaginn kom ég heim úr vinnu fyrir klukkan þrjú. Hellti mér upp á kaffi og fékk mér hressingu áður en ég tók til sunddótið og allar bækurnar af safninu og lagði af stað í leiðangur. Byrjaði á safninu. Skilaði öllum fjórum bókunum, eina var ég rétt byrjuð að glugga í en ákvað að eyða ekki lengri tíma í þá bók í þetta sinn amk. Tók 6 bækur í staðinn og ein af þeim er á skammtímaláni Svanafólkið eftir Kristínu Ómarsdóttur. Er byrjuð að lesa þá bók, öðru vísi saga og stíll en ég er vön en ég hef gaman að henni. Hinar bækurnar eru: Kastaníumaðurinn eftir Sören Sveinstrup, Mótíf X eftir Stefan Ahnhem, Olndbogavík eftir Hermann Jóhannesson, Átta sár á samviskunni eftir Karl Ágúst Úlfsson og Útlagamorðin: saga um glæp eftir Ármann Jakobsson. Næst lá leiðin í laugardalslaugina þars sem ég byrjaði á því að synda í tuttugu mínútur áður en ég hitti á kalda potts vinkonu mína og fór 4 ferðir í þann kalda og þrjár í þann heitasta með henni. Eftir sundið kom ég við í Krónunni við Nóatún og verslaði inn. Áður en ég fór heim fór ég í Hagkaup í Skefunni til að ná mér í smá kambgarn til að nota í "afgangasjöl". Eftir kvöldmat heimsótti ég tvíburahálfsystur mína. Höfðum ákveðið þennan hitting daginn áður og hluti af heimsókninni átti að nota í að fá hana til að hjálpa mér við að ljúka við skattframtalið. Ég fann út úr því sjálf þegar til kom og var búin að skila því svo hittingurinn breyttist í saumaklúbb. Vorum reyndar báðar með eitthvað á prjónunum. Lánaði henni eina af jólabókunum mínum og fékk tvær bækur í láni frá henni í staðinn og þar að auki gaf hún mér tvær af borðtuskunum sem hún hefur verið að prjóna undanfarið eftir uppskriftum úr tuskubók sem hún hafði útvegað sér (ég er alltaf að græða).

4.3.20

Vikan hálfnuð

Í gær var ég komin heim úr vinnu um þrjú. Einum og hálfum tíma síðar var ég mætt í sund í Laugardalslaugina. Byrjaði á því að synda og var búin með eina ferð í kalda pottinn þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Fór fimm aðrar ferðir með henni í þann kalda og oftast í 44°C heita pottinn inn á milli. Í einni kalda potts ferðinni ávarpaði ungur maður mig með þeim orðum að ég hafi verið kennari hans í 6 ára bekk í Árbærjarskóla fyrir allmörgum árum. Kom heim aftur um hálfsjö og fór beint í matarstúss. Bjó til bollur úr kalkúnahakki sem heppnuðust bara nokkuð vel.

Í dag var ég í vinnunni til klukkan fjögur, alveg nóg að gera allan tímann. Klukkan var að verða hálffimm þegar ég kom heim og það fór svo að ég fór ekkert út aftur. Lauk m.a. við að lesa næstsíðustu bókina af safninu. Það komu skilaboð frá bókasafninu í morgun um að skiladagur nálgast á skammtímalánsbókinni.

2.3.20

Sjósundsdagur

Ég var komin í Nauthólsvík um hálffimm og fór fyrri ferðina í sjóinn um 16:40 í ca tvær mínútur. Þegar ég var á leiðinni upp úr var sjósundsvinkona mín að mæta á svæðið. Ég skrapp í heita pottinn á meðan hún gallaði sig upp og fór svo aftur í sjóinn með henni í fimm mínútur. Á eftir sátum við á spjalli í heita pottinum í uþb 50 mínútur. Við erum ekki búnar að hittast í þrjár vikur og höfðum um margt að spjalla.

Var annars í bænum þessa helgina svo enn er bið á annarri heimsókn til Hellu á árinu. Í gærmorgun skutlaði ég N1 syninum á vinnuvakt í N1 við Stóragerði rétt fyrir tíu. Fór inn á stöðina rétt upp úr tíu, strax eftir opnun, og fékk soninn til að selja mér nýjar rúðuþurrkur og skipta út þeim gömlu. Gömlu vinnukonurnar voru 75 og 65 cm en settar voru tvær 70 cm í staðinn. Fékk kaffisopa áður en ég dreif mig heim aftur.

Á laugardagsmorguninn fór ég út rétt upp úr klukkan hálfátta, sópaði vandlega af bílnum og var komin í Laugardalinn rétt áður en opnaði. Synti mína 500m, fór þrisvar í þann kalda, heitan pott, sjópottinn og gufuna áður en ég dreif mig upp úr og þvoði á mér hárið. Var mætt á Kristu Quest, til klipparans míns, rétt fyrir tíu. Hann var tæpan hálftíma að klippa endana og þurrka á mér hárið, hafði mjög gaman að því að dedúa við það. Þegar ég gerði upp við hann keypti ég auka sjampóbrúsa og festi næsta klippitíma fyrsta laugardaginn í september n.k. Áður en ég fór heim kom ég við hjá Atlantsolíu við Sprengisand en enginn esparantóhittingur var á döfinni þar sem vinkona mín var lasin. Um hálfþrjú tók ég 3 niður í bæ og var mætt í Lífspekifélagið stuttu fyrir þrjú til að hlusta á Önnu Valdimarsdóttur og hugleiðingar um hamingjuna m.a. Kalda potts vinkona mín mætti í félagið í fyrsta skipti og mjög sátt.  Kvöldinu áður mætti ég á erindi Gunnlaugs Guðmundssonar stjörnuspekings. Það var vel mætt og áhugaverður fyrirlestur um hvert við stefnum.

Næst síðasta bókasafnsbókin Dag einn í desember eftir Josie Silver er hálfnuð í lestri hjá mér. Skemmtilega sett upp og mjög áhugaverð.