Ég fór á bílnum út á flugvöll, lagði á góðum stað og sendi Oddi snapp um það. Ég var mætt í flugstöðina ca tíu mínútutum áður en byrjað var að bóka inn í vél eða tæpri klukkustund áður en hún fór í loftið. Tíminn leið hratt og flugið gekk vel, var þó heldur lengra en áætlað var eða klukkustund og sex mínútur, í stað 55 mínútna. Ella og Aðalsteinn biðu eftir mér og við þurftum ekki að bíða lengi eftir töskunni minni því hún var fyrst á færibandið. Aðalsteinn hafði skroppið í ríkið fyrr um daginn og keypti m.a. heila hvítvínsbelju sem mér var tjáð að ég mætti ganga í að vild. Hann sótti í fyrstu glösin handa okkur vinkonum en fékk sér sjálfur bjór. Í kvöldmat buðu þér mér upp á dýrindis afgang af hreindýrasteik með grænmeti og sveppasósu. Seint um kvöldið kíktu kunningjahjón þeirra frá Höfn í smá heimsókn. Voru á einhverju skralli og komu með leigubíl á svæðið en þurftu svo að labba til baka á hótelið í frekar erfiðu göngufæri.
Meðferðis í ferðalagið tók ég tvær bækur af safninu og eina af jólabókunum. Ég fékk svo einnig lánað smásögusafnið Tími til að tengja eftir Bjarna Hafþór Helgason sem kom út fyrir síðustu jól. Náði að ljúka við að lesa allar sögurnar á mánudaginn. Lauk einnig við Hvítadauða eftir Ragnar Jónasson og skildi þá bók eftir fyrir austan. Svo er ég langt komin með aðra af bókasafnsbókunum sem ég tók með mér Konan í klefa 10 eftir Ruth Ware. Ég tók líka með mér afganga af kambgarni og hringprjón og byrjaði á enn einu sjalinu, afgangasjali.
Á sunnudaginn fórum við þrjú í sund um hádegisbil í afskaplega fallegu veðri. Veðrið var svo gott að við sátum góða stund í sólbaði í vaðlauginni eftir hvert sína sund- og pottaiðkun. Ella var sú eina sem ekki fór í neinn pott, synti sína 300 m og fór svo beint í vaðlaugina. Ég byrjaði á kalda pottinum, synti í 15 mínútur, fór aftur í þann kalda og endaði svo í vaðlauginni. Aðalsteinn byrjaði í heita pottinum, synti í nokkrar mínútur, sat góða stund í vaðlauginni en þegar hann fór sína aðra ferð í heita pottinn og það var merki um að við stöllur ættum að "drífa" okkur upp úr. Valdís kom í stutt innlit á sjötta tímanum, með Hermann son sinn. Einnig var hún með þríltan kettling sem hún var að fara að senda með flugi til nýrra eiganda. Mæðginin og kisan stoppuðu ekki nema stutta stund. Eftir kvöldfréttir á Stöð2 bauð ég vinum mínum út að borða á Salt. Aðalsteinn var bílstjórinn en við Ella fengum okkur hvítvínsglas með matnum.
Starfsdagur var í grunnskólanum á mánudaginn og Ella kom heim um tólf, þurfti aðeins að skila af sér sínum 50%. Við spiluðum 2 umferðir af scrabble, aðra um miðjan dag og hina eftir kvöldmat og vann ég báða leikina, þann fyrri með miklum mun. Kennsludagur var í gær. Ella var svo komin heim um hálfeitt eftir að hafa borðað hádegismat í skólanum. Um tvö skrapp hún í ræktina í ca hálftíma og þegar hún var búin að fara í sturtu og jafna sig skruppum við í búðina. Fljótlega eftir búðarferðina spiluðum við eina umferð í scrabble og að þessu sinni vann Ella. Mér var svo skutlað á flugvöllinn rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi og kvödd með virktum. Vélin fór í loftið 19:25 og lenti í Reykjavík 20:15. Þangað sótti Oddur mig.