Ég er búin með Bókaþjófinn og byrjuð á annarri bók, ekkert mikið styttri. Sú bók er eftir Yrsu Sigruðardóttur og heitir Horfðu á mig. Hún kom út árið 2010 en einhvern veginn barst hún ekki upp í hendurnar á mér fyrr. Ég fékk hana á safninu þann 21. þ.m. ásamt tveimur öðrum bókum og þarf ekki að skila fyrr en 21. júlí. Ég er nú þegar búin að lesa um 180 bls. af 478 í heildina og verð líklega ekki lengi að klára því þetta er ein af þeim bókum sem maður leggur ekki svo glatt frá sér.
Í gær skrapp ég í heimsókn til nöfnu minnar og frænku í Garðabænum og bað strákana um að ryksuga yfir gólfin á meðan. Þeir von á vini til að horfa með þeim á fyrri hm-leikinn og svo stóð jafnvel til að það yrði spilakvöld eða "session" eins og þeir kalla það. Ég var komin heim rétt fyrir fjögur og tók strax eftir að strákarnir höfðu staðið við sitt. Þeir skruppu í Sunnubúð og er þeir komu til baka var vinurinn með þeim. Hins vegar varð ekkert af því að hópurinn hittist síðar um daginn þar sem einn af þeim var staddur fyrir norðan.
Milli leikja bauð ég upp á hakk og spakk. Vinurinn fór reyndar strax eftir fyrri leikinn sem var alveg ótrúlegur þar sem Hollendingar virtust vera að tapa 0-1 fyrir Mexíkó en skoruðu tvö mörk á síðustu mínútunum. Þá var seinni leikurinn ekkert síðri, fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Vinningsliðið, Kosta Ríka spilaði manni færri í tæpa klukkustund og voru eiginlega búnir á því en markvörður þeirra sá svo um að verja vitaspyrnu eins Grikkjans á meðan sigurvegararnir skoruðu úr öllum sínum spyrnum. Grikkir tóku bara fjórar spyrnur þar sem úrslitin lágu fyrir fyrir síðustu spyrnu þeirra.