30.3.04

- Afmæli -

Ein nafna mín og frænka, Anna Bára er árinu eldri í dag.

29.3.04

- Framhaldssagan - (af gulu kisu)

Gula kisa og Davíð Steinn horfðust í augu rétt um átta í gærmorgun þegar hann opnaði salernisdyrnar. Drengurinn tók kisu og setti hana beint út á tröppur. Síðan hallaði drengurinn glugganum aftur inni á baði. Ekki leið samt á löngu þar til kisa var farin að mjálma uppi á skúrþakinu og guða á gluggann hjá okkur Davíð.

Um hálfellefu hringdi dyrabjallan og fótboltavinur tvíburanna og jafnaldri spurði hvort þeir vildu ekki koma út í fótbolta. Það varð úr að þeir fóru allir út og enduðu svo heima hjá vininum sem bauð þeim í hádegishressingu.

Ég labbaði upp í kirkju rétt fyrir eitt. Fermdir voru sex unglingar og var bara gaman að taka þátt í því. Sungum tvo af sálmunum í röddum en hina fjóra einraddað. Næsta sunnudag er svo aftur fermingarmessa. Feðgarnir voru komnir af fótboltaæfingu áður en ég var búin og sóttu mig um þrjú. Versluðum inn og fljótlega eftir að við komum heim var aftur spurt eftir strákunum. Þeir voru úti til klukkan sjö. Þá var maturinn tilbúinn og byrjuð keppni í tímafreka leiknum.

Mamma leit inn í gærkvöldi.

Þegar ég kom fram á salerni fyrir sjö í morgun horfðist ég í augu við gulu kisu sem lá makindalega í handlauginni. Lokaði að mér til að hún kæmist ekki lengra. Davíð, klæddi sig, tók kisu og setti út á tröppur. Strákarnir sváfu. Davíð hellti upp á. Það er ekki oft sem við drekkum kaffi saman klukkan sjö á morgnana og það klædd, komin á ról og sitjandi inni í eldhúsi...

Mér skilst að von sé á fólki til að skoða seinni partinn og líka í hádeginu á morgun. Ætli við seljum svo ofan af okkur. Erum reyndar með eina íbúð í sigtinu og það urðu aðrir fyrri til að gera tilboð. En það lítur út fyrir það að það verði eitthvað um breytingar framundan. Kannski samt best að tjá sig sem minnst fyrr en hlutirnir skýrast betur.

Um helgina las ég Engin spor eftir Viktor Arnar Inólfsson og Hin hljóðu tár um Ástu Sigurbrandsdóttur, bækur sem ég gat helst ekki lagt frá mér. Þær hrifu mig báðar hvorn á sinn hátt.

27.3.04

- Enn af gulu kisu -

Þegar morgunhaninn minn, Oddur Smári, fór á salernið stuttu fyrir átta í morgun var gula kisa í vaskinum. Davíð Steinn kom fram stuttu seinna og kisan slapp framhjá þeim og fór beint undir hjónarúm. Þar fór hún strax að mala. Þeim bræðrum tókst samt einhvernveginn að lokka hana undan rúminu og fóru rakleitt með hana út. Þeir sögðu mér að hún ætti heima á númer átta svo ég er hætt að hafa samviskubit yfir því að gera ekkert fyrir kisu. Hún var nú samt komin upp á bílsskúrsþak stuttu seinna og reyndi bæði að komast inn um salernisgluggann og herbergisgluggann. Hún virðist staðráðin í að koma sér upp aukaheimili...

Annars er lítið að frétta nema hvað seinni partinn í dag kom ungt par að kíkja á íbúðina. Það var ekki alveg jafn heimilislegt og þegar matsmaðurinn kom en þó sást vel að það búa einhverjir í þessari íbúð.

26.3.04

- Úr einu í annað -

Það voru mjög þreyttir bræður sem komu heim á fimmta tímanum í gær. Ég sárvorkenndi þeim. Gaf þeim hressingu og reyndi að hressa þá við. Oddi tókst að ljúka við að reikna og lesa heimalesturinn en stuttu eftir að hann byrjaði á aukalestrinum steinsofnaði stráksi. Davíð Steinn las heimalesturinn en var í vandræðum með stærðfræðina aldrei þessu vant. Allt líklega henni frú Þreytu að kenna.

Davíð hafði annars hringt rétt eftir að ég kom heim og var alveg hissa á hvað ég var snögg. -"Hljópstu!?!?" -"He, he, nei, ég fékk far..." Maðurinn minn var að tilkynna mér að von væri á matsmanni á sjötta tímanum. -"Ji, Davíð, það er kannski einum of heimilislegt hjá okkur!" (Útleggst, það er allt í drasli...) Davíð lofaði að vera kominn heim um þetta leyti og ég snéri mér að því að finna út hvað ég ætlaði að hafa í matinn. Setti upp bygggrjón og náði mér í nokkur ýsuflök úr kistunni sem ég fæ að hafa afnot af.

Gula kisan er aftur komin á stjá. Hún sárbænir mann um að taka sig að sér og hleypa sér inn. Nú veit ég ekki hvort hún var búin að koma sér upp tveimur heimilum en ég sá hana oft hjá fólkinu sem bjó í kjallaranum þar til fyrir mjög stuttu síðan. Fólkið er flutt en kisan er þarna enn. Við höfum enga aðstöðu til að taka að okkur þennan kött. Oddur Smári fékk samt þá hugmynd að við gætum alveg gefið henni að borða, sett á disk handa henni úti. En erum við þá ekki að hæna dýrið enn meir að okkur?

Ég freistaðist auðvitað til þess að renna í könnuna og hafði ekki vit á því að búa bara til svona fjóra bolla. Nei, það var fullur brúsi, takk fyrir. Ég drakk það nú ekki allt ein en drakk samt of mikið. Datt semsagt í kaffið í gærkvöldi. Tvíburarnir sofnaðir fyrir níu. Það var keppni í tímafreka leiknum. Davíð var nú ánægður með það því hann missti af einni kvöldinu áður. Ég sinnti ýmsum skyldum en settist síðan með fæturnar upp á stól í sófann og fór aðeins yfir altröddina í þeim sálmum sem verða sungnir í röddum næstu tvo sunnudaga. Raðaði einnig upp söngtextunum fyrir tónleikana. Þeir tónleikar verða þó ekki fyrr en í maí. Kannski eins gott því það á eftir að fínpússa nokkur lög.

25.3.04

- Vel heppnað bekkjarkvöld -

Helga systir sá um að strákarnir kæmust á knattspyrnuæfingu í gær og hún sótti þá líka eftir æfinguna og skilaði þeim heim. Ég stormaði því beint heim í gær og byrjaði á því að kveikja á bakaraofninum, setti upp rækjur og smurði þessa fjóra litlu pizzabotna sem voru forbakaðir á mánudagskvöldið, með "tomatopaste". Ofan á notaði ég rækjur, skinku, sveppi, túnfisk, lauk og papriku (engin pizza var þó eins). Strákarnir lásu aukalesturinn og við vorum tibúin þegar Davíð kom heim stuttu fyrir hálfsex.

Um leið og við komum upp í skóla fóru strákarnir þangað sem bekkjarfélagar þeirra voru að klæða sig í búningana. Ég tróð pizzunum og kökunni sem Anna frænka bakaði á langborðið sem þegar svignaði af kræsingum. Fljótlega kvaddi Snjólaug kennari sér hljóðs og kynnti söngleikinn Rönkukvæði. Krakkarnir stóðu sig öll mjög vel og það var frábært að fylgjast með þeim. Tvíburarnir léku tvær af fjórum hænum en annars voru mörg dýr á bænum, tré og vinnufólk. Eftir leikritið var öllum boðið að gera svo vel og fá sér af veitingunum. Því næst voru spilaðar nokkrar umferðir af félags-ólsen-ólsen. Það var ekki spilað mjög lengi því veðrið var svo gott að það togaði í krakkana og fljótlega voru mörg komin út í snú snú eða fótbolta.

Við komum heim upp úr hálfátta. Þá hafði ég smá stund aflögu. Strákarnir voru yfirspenntir eftir kvöldið og ég lét Davíð um að sansa þá til. Þeir voru byrjaðir að lesa aukalestur þegar ég kvaddi. Á kóræfingu var mest verið að fara yfir ferminga og páska sálmana og messusvörin. Framundan er semsagt mjög annasamur tími, líklega ekki mjög lesvænn heldur. Þó er það ótrúlegt hvað hægt er að finna tíma til að sinna áhugamálum sínum.

Hugurinn er annars fyrir norðan hjá ömmusystur minni og einnig hjá kórfélaga mínum sem veiktist um áramótin. Orð eru frekar fátækleg og mér tekst engan veginn að færa hugsanir mínar í orð svo það verður ekki gert hér.

24.3.04

- Lestrarhestar -

Þeir voru mjög iðnir drengirnir í gær og ákveðnir í að lesa sem mest. Davíð Steinn hafði klárað heimaskriftina á mánudaginn og dreif sig fyrst í að ljúka af heimalestrinum. Hann var byrjaður að lesa aukalestur upp úr klukkan hálffimm. Oddur Smári var þá rétt byrjaður að skrifa en hann lauk við blaðsíðuna og heimalesturinn á rúmum hálftíma og dreif sig þá í aukalesturinn. Samtals lásu þeir bræður vel á fjórða hundrað mínútur. Ég ræddi samt við þá um að það væri ekki sniðugt að lesa allt of mikið, sérstaklega ekki þar sem þeir eru yfirleitt ekki að koma heim fyrr en um hálffimm. Þeir eru að rífa sig upp um og fyrir sjö á morgnana svo þeir eru yfirleitt alveg búnir um átta leytið á kvöldin og oftast komnir í rúmið um hálfníu. Allt í föstum skorðum yfirleitt.

Sjálf er ég með nokkrar bækur í takinu: Uppvöxtur Litla trés eftir Forrest Carter, Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og ég er enn að lesa Vetrarferðia eftir Ólaf Gunnarsson

Sennilega verður samt ekki mikill tími til að lesa í dag og kvöld, hjá engum af okkur. Það er bekkjarskemmtun klukkan hálfsex til átta og svo fer ég á kóræfingu...

23.3.04

- Þriðjudagskvöld -

Tvíburarnir hamast við að lesa til að safna mínútum fyrir bekkinn sinn. Þeirra bekkur er víst í öðru sæti af fjórum sem stendur og eru börnin í bekknum búin að lesa yfir átta þúsund mínútur fyrstu vikuna.

Helga systir safnaði okkur mæðginum og dóttur sinni saman í gær. Ég fékk þá hugmynd að við myndum kaupa okkur lax í soðið og elda hjá mér. Helgu leist ágætlega á þá hugmynd alveg þar til við vorum rétt nýkomin heim til mín. Það komu strákar að spyrja eftir bræðrunum og það var smá læti í þeim. Helga var líka eitthvað þreytt og ákvað að fara frekar heim að hvíla sig. Ég græddi lax á þessu í bili. Strákarnir fóru út, mæðgurnar kvöddu og ég setti mig í samband við dansk/íslenska frænku mína og nöfnu sem er nýkomin úr tíu daga ferð frá Grænlandi. Hún var alveg til í að koma í heimsókn.

Þegar strákarnir voru komnir í ró upp úr hálfníu fór Davíð inn í tölvuna en við frænkur skelltum okkur í bakstur. Hún bakaði súkkulaðiköku og ég setti í tvo pizzabotna sem ég svo skipti niður í fjóra. Þetta á svo að takast með á bekkjarkvöld hjá strákunum annað kvöld (og þá verð ég búin að skella einhverju gómsætu á botnana). Meðan kakan var að bakast í ofninum settumst við inn í stofusófa, spjölluðum saman og horfðum á Survivor með öðru auganu...

22.3.04

- Helgin liðin -

Tíminn flýgur áfram. Í dag eru átta ár síðan við Davíð skutumst til borgardómara, seinni part á föstudegi, og létum gefa okkur saman.

Á föstudagsmorguninn var vaknaði morgunhaninn minn, Oddur Smári, löngu fyrir sjö. Hann var engan veginn tilbúinn til að fara aftur upp í koju og kúra lengur. En strákski fékk skyndilega alveg nýja hugmynd. Hann ákvað að taka til morgunmatinn handa mömmu sinni. Hellti AB-mjólk í skál og setti musl og rúsínur út í. Um það leyti sem þetta var tilbúið var Davíð Steinn kominn fram og hann var eitthvað stúrinn. Ég hélt helst að hann hefði farið öfugu meginn fram úr. Oddur kom með skálina til mín inn í stofu þar sem ég var að reyna að ræða við Stein. Ég þakkaði kærlega fyrir mig þetta var einmitt eitthvað sem mig langaði í. En skapið í Davíð Steini batnaði ekkert og ég fattaði bara ekki hvað var í gangi. Ákvað bara að láta manninn minn leysa málið, tók mig til, kvaddi og arkaði af stað.

Ég var hálfnuð þegar ég arkaði fram hjá þremur drengjum um tvítugt (held ég). Tveir sátu á bekk og ég sá þá ekki greinilega en sá þriðji stóð við húshorn með bjór í hendi og bauð mér góðan dag. Ég ákvað að taka undir en halda samt mínu striki. -"Ertu á föstu?" spurði þá maðurinn og ég snéri mér við án þess að stoppa -"Já, ég er gift, harðgift!!!

Davíð gat svo frætt mig að því hvað gengið hefði að nafna hans um morguninn. Hann var ósáttur við að Oddur bað hann ekki um að hjálpa sér við að finn til morgunmatinn handa mér. En á meðan þeir nafnar voru að ræða þetta smurði Oddur gulrótarbrauðssamloku með smjöri og spægipylsu handa bróður sínum í morgunmat. Davíð Steinn varð ánægður með það.

Seinni partinn þennan sama dag safnaði Davíð okkur mæðginum saman. Við fórum heim til að byrja með. Strákarnir lásu heimalesturinn og ég tók til í töskur handa þeim fyrir helgina. , þegar allt var klár lá leiðin á Bakkann þar sem strákarnir voru í góðu yfirlæti alla helgina.

Það var ósköp skrýtið en mjög gott að geta sofið út á laugardagsmorguninn. Samt ætlaði ég mér að nýta tímann mjög vel. , ég nýtti hann en samt ekki í allt sem var á dagskránni. Hormónarnir voru eitthvað að stríða mér (þetta skilur nú bara fjölskyldan mín og bestu vinir en ég læt það samt flakka). Á tímabili leið mér svo illa að ég var næstum hætt við að fara á árshátíð þá um kvöldið.

Sem betur hætti ég nú ekki við. Við hjónin klæddum okkur upp á um sex og ákváðum svo að rölta þangað sem veislan átti að fara fram. Labbið gekk alveg ágætlega því þótt Davíð segði að skórnir mínir ættu ekki við kjólinn þá ákvað ég samt að vera í ecco skónum mínum. Til að gera langa sögu stutta þá skemmtum við okkur ágætlega um kvöldið. Borðin voru flest kringlótt og tóku allt að 11 manns. Samt voru engin þrengsli. Við sátum við borð númer 3 af þrettán og það voru einmitt 11 manns samtals sem sátu við það. Borðhaldið var svolítið langt en inn á milli var samt skotið inn skondnum uppákomum og skemmtiatriðum. Hljómsveitin Von lék svo fyrir dansi til klukkan tvö. Maðurinn minn fékkst út á gólfið eftir að ég var búin að dansa hópdans við nokkra vinnufélaga. Davíð entist óvanalega vel úti á dansgólfinu, enda er hann um þrjátíu kílóum léttari heldur en fyrir ári síðan, en þar kom að við ákváðum að taka smá pásu. Ég var þó ekki búin að sitja lengi þegar mér var boðið upp í dans aftur þannig að segja má að ég hafi dansað næstum allan tímann. Enda var svo sem lítið hægt að spjalla því tónarnir bárust mjög vel út um allan salinn og jafnvel fram fyrir.

Röltum heim aftur á þriðja tímanum. Ég var fór ekki beint að sofa heldur las stund. Var svo komin á ról rétt fyrir sjö til að horfa á formúluna. Ég er búin að stofna lið í liðstjóranum á formúluvefnum en held ekki að mér hafi gengið neitt mjög vel. Var að stofna þetta lið núna í vikunni svo ég fékk inn 1000 stig þótt ég hefði misst af fyrstu keppninni. Ég skreið svo aftur upp í um níu.

Mér var fært kaffi og með því í rúmið (ekki koníak samt) upp úr hádeginu. Dagurinn fór að mestu í tiltekt, þrif, rólegheit og lestur. Þegar strákarnir komu heim á tíunda tímanum í gærkvöldið sagði Oddur: -"Vá, er þetta herbergið okkar! og svo knúsuðu þeir mig báðir, alveg viss um að mamma hefði fundið gólfið og fleira í herberginu þeirra...

19.3.04

- Föstudagur enn á ný -

Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Hvað liggur honum svona lífið á?

Í gærkvöldi var ég með smá kaffiboð. Systir mín, mágur og systurdóttir komu á sjöunda tímanum. við ætluðum að vera búin að borða þá en strákarnir voru að keppast við að lesa og Davíð var rétt ókominn heim. Ég var samt tilbúin með kaffidrykkinn og gestirnir, sem komu færandi hendi með blómvönd og kaffipakka, settust bara inn í stofu. Mamma var búin snemma í passinu og kom rétt seinna.

Ég var búin að frétta af því að það yrðu allra síðustu sýningar á Lord of the Ring um kvöldið. Mamma fékkst til að passa fyrir okkur og Ingvi mágur kom með okkur í bíó um níu. Sýningin var í lúxussal en ég hef aldrei áður prófað svoleiðis. Það vantaði eiginlega ekkert nema teppið. En ég er fegin að við áttum þess kost að sjá myndina á breiðtjaldi. Við erum áður búin að gera eina og hálfa tilraun til að sjá myndina en það gekk ekki upp.

18.3.04

- Ánægjulegur gærdagur -

Ég þakka fyrir allar hlýjar kveðjur sem bárust mér í gær eftir ýmsum leiðum. Ég fékk sms, nokkrar kveðjur á msn, vefkort, netpóst (á bæði netföngin), handunnið afmæliskort í pósti, það var hringt í mig og svo fékk ég þónokkrar kveðjur hér á blogginu mínu. "Nýja árið" byrjar því mjög vel hjá mér. Það verður örugglega mjög gott.

Systir mín sá um að ná í tvíburana af kóræfingu og skutla þeim heim í gær þannig að ég gat arkað beint heim seinni partinn. Þeir sögðu mér frá því að samtals hefði bekkurinn lesið yfir þrettán-hundruð mínútur í aukalestri á þriðjudag en það hafði verið rúmlega helmingi færri mínútur lesnar deginum áður. Oddur Smári var enn á því að lesa 200 mínútur. Þeir voru svo rétt búnir að fá hressingu þegar vinur þeirra af "Pollagötunni" kom og spurði eftir þeim. Ég heyrði að þeir ætluðu að segja að þeir væru að fara að læra en ég sagði að þeir mættu alveg fara út til klukkan sex. Um að gera að nota góða veðrið. Þeir létu ekki segja sér það tvisvar.

Inn komu þeir aftur um sex með þennan vin og bróður hans með sér. Ég leyfði þeim að fara í Playstation tölvuna og hélt að mínir myndu leyfa hinum bræðrunum að leika sér á meðan þeir snéru sér að heimanámi. Ég var bjartsýn þar, he, he! Davíð Steinn var búinn að reikna heimareikninginn í skólanum, svo hann þurfti bara að lesa skylduna áður en hann gat svo tekið til við að safna mínútum í bekkjarkeppnina. Davíð kom heim rétt seinna og vildi bjóða okkur út að borða í tilefni dagsins. Ég fékk að velja stað. En ég fór líka út að borða í hádeginu í gær. (Veldið á mér hmm!)

Strákarnir drifu sig svo í að lesa er heim kom og náðu þeir að lesa í um klukkutíma áður en kominn var háttatími. Þeir voru enn að lesa þegar ég kvaddi og fór á kóræfingu. Fljótlega eftir kaffihlé á æfingunni var kórstjóranum tilkynnt að það yrði að syngja þrefaldan afmælissöng. Og það var sungið: "Hún á afmæli í dag...", "Hún átti afmæli í gær..." og "Hann átti afmæli í mars..."

Klukkan var langt gengin í ellefu þegar ég kom heim. Davíð tilkynnti mér að hann yrði að vinna eitthvað fram á nóttina og spurði hvort hann ætti að hella uppá. Ég þáði það. Þegar ég ætlaði að skríða undir sængina mína nokkru síðar beið mín stærðarinnar pakki þar, frá manninum mínum og sonum. Í honum var handklæði og tvær dvd "Innerspace" og "My best friend wedding". Ég held bara að ég sé ekki lengur föst við jörðina, komin alla leið upp í sjöunda himinn!

Í morgun var Oddur Smári svo duglegur að skrifa um ævintýri Tóta bekkjarbangsa alveg aleinn og sjálfur, en bangsinn kom heim með honum sl. mánudag.

17.3.04

- Kappið í strákunum -

Þegar ég hitti strákana eftir kóræfingu í gær fyrir utan kirku sögðu þeir mér að einn bekkjarbróðir þeirra hefði lesið aukalestur í 120 mínútur. -"Ég ætla sko að lesa í 200 mínútur á eftir! sagði Oddur Smári. Stöldruðum aðeins við fyrir utan kirkjukjallarann og heilsuðum upp á Dagbjörtu. Oddur hafði ekki þolinmæði í langt spjall og þegar þeir bræður voru búnir að syngja "Meistari Jakob" á fjórum tungumálum lagði hann af stað niður stíginn. Hann var hálfnaður niður þegar ég tók eftir því. Ég var ekkert óróleg en kvaddi og hélt af stað á eftir honum. Davíð Steinn hljóp á undan. Þegar ég var viss um að sá fyrr nefndi heyrði í mér bað ég hann um að bíða með að fara yfir Barónsstíginn. Rétt seinna stoppar umferðin og ungi maðurinn hafði óskir mínar að engu. Við Davíð Steinn fórum yfir á ljósunum við Eiríksgötu. Oddur beið eftir okkur og ég minnti hann að samtal okkar frá því um morguninn. -"Æ, ég réð bara ekkert við mig..."

Gaf drengjunum eplabita í hressingu er heim kom. Fékk því svo framgengt að þeir byrjuðu á því að ljúka heimaskriftinni af. Leið og henni var lokið byrjaði títtnefndur Oddur á aukalestrinum. Davíð Steinn las fyrst heima lesturinn. Hann svo var búinn að lesa aukalestur í þrjú korter þegar vinur þeirra og jafnaldri úr fótboltanum kom í heimsókn. Hann stoppaði í rúman hálftíma og Davíð Steinn tók sér pásu frá lestrinum. Oddur mátti ekki ekki vera að því. -"...ég er sko að hjálpa bekknum mínum að vinna lestrarkeppnina"! Fótboltavinurinn heitir Sturla hann kvaddi um hálfsjö og vildi endilega bjóða bræðrunum heim til sín í mat, eða þá eftir matinn. Ég sagðist vera búin að taka til matinn fyrir okkur. -"Þeir koma bara seinna til þín Sturla mín". Ég var varla búinn að loka dyrunum þegar barið var á þær. -"Þú sagðir mín!" sagði drengurinn. Ég bað hann afsökunar á því og hét því með sjálfri mér að láta þetta ekki henda mig aftur. En gott hjá drengnum að láta mig vita!

En í lokin vil ég geta þess að báðir bræðurnir lásu 120 mínútur með hléum (í aukalestri). Davíð Steinn las næstum heila bók enda las hann í hljóði eftir fyrstu tíu mínúturnar. Oddur Smári er ákveðinn ungur maður og hann vildi ekki heyra á það minnst að lesa í hljóði, las allt upphátt.
- Dagur heilags Patreks -

Björninn hennar er árinu eldri í dag og vantar aðeins eitt ár í tugina tvo. Tvíburahálfsystir mín á líka afmæli í dag (til hamingju með daginn okkar) og tuttugu mínútum fyrir tólf á hádegi eru þrjátíuogsex ár síðan ég skaust í heiminn. Mamma var víst rétt nýkomin úr sjúkrabílnum. Allt púðrið fór í höfuðið á mér sem var eins og á tuttugu marka barni þótt ég næði því varla að vera 12 merkur. Mamma hefur enn þann daginn í dag gaman að segja frá því að restina af búknum hefði mátt koma fyrir í höfðinu á mér ef það hefði verið skjóða og ég reyndi oft að sjá það fyrir mér.

16.3.04

- Spjall við morgunverðarborðið -

Oddur Smári er alveg hættur að hósta og nú bara eftir pústa sig í kvöld og á morgun og þá getur hann lagt pústinu. Hann var að lesa á það í morgun:
-"Hundrað og tuttugu skammtar. Geymist þar sem börn ná alls ekki til. Það eru svona börn eins og Hulda frænka og yngri."
-"Reyndar þú líka"
sagði Davíð Steinn
-"Ég held ég hafi nú vit!
gall þá strax við í Oddi
Ég tók undir með Davíð Steini og skýrði þetta út fyrir Oddi, að þótt hann væri kominn með vit í kollinn þá væri samt ómögulegt að segja hvort er hvenær honum dytti í hug að prakkarast eitthvað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

15.3.04

- Ég er mikill bókaormur -

Mér líður alltaf vel í kringum bækur og hef alla tíð lesið mjög mikið af alls konar bókum. Þessa dagana er ég að lesa fjórar bækur og margar aðrar bíða þolinmóðar í röðinni. Enn er ég að lesa Sólarsögu, les bara kaflabrot og kaflabrot. Þetta er svona saga sem maður þarf að gefa sér góðan tíma í og melta inn á milli. Ég er ekki komin langt með Vetrarferðina en það er bók sem erfitt er að leggja frá sér, verð hreinlega að beita mig hörðu stundum svo ég fái minn svefn.. Í gærkvöldi byrjaði ég að lesa Spor í sandinn eftir og um hana Kristínu Snæfells. Hjó eftir því að einn kaflinn í byrjun bókarinnar endaði á orðunum ...höll minninganna en það er bók með því nafni (eftir Ólaf Jóhann Ólafsson) sem bíður eftir að komast að hjá mér. Í dag byrjaði ég á enn einni, Hundrað dyr í golunni eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sú bók lofar mjög góðu. En það er ýmislegt annað sem þarf að gera og ég reyni að hafa gott jafnvægi á hlutunum.

Annars var ég hirt upp á morgunarkinu, varla hálfnuð á áfangastað. Þótt það væri yndislegt veður til að ganga þáði ég farið. Seinni partinn í dag arkaði ég svo alla leið heim. Systir mín sá um að sækja alla krakkana og var komin heim (til mín)á undan mér. Ég var búin að bjóða mæðgunum í steika ýsu.

Tvíburarnir voru úti að leika sér fyrsta kastið en voru komnir inn fyrir fimm. Í skólanum var að fara í gang lestrarkeppni milli 7 og 8 ára bekkjanna. Núna á að lesa tvær blaðsíður í heimalestri upphátt þrisvar sinnum og svo aukalestur eins lengi og börnin treysta sér til og þá þurfa þau ekki að lesa upphátt nema fyrstu tíu mínúturnar. Það má líka lesa tíu mínútur og tíu mínútur (eða lengur) nokkrum sinnum yfir daginn og telja svo saman mínúturnar á eftir. Davíð Steinn las bókina: Víst kann Lotta að hjóla og nýtti las í hljóði eftir fyrstu fimmtán mínúturnar. Hann lauk við bókina á hálftíma. Oddur Smári las í bókinni: Forsetaslagurinn æsilegi, kaupum Ísland. Hann las upphátt allan tímann en ég varð að stöðva hann eftir 50 mínútur því það var kominn tími til að fara í bað. Hann fór langt með bókina vill helst fá að ljúka við hana að baði loknu. Sennilega verður samt kominn tími til að fara í háttinn þá.

14.3.04

- Messusöngur, bókasafnsferð og matarboð - (...og sitthvað fleira...)

Í morgun ákvað ég að drífa mig upp um níu. Strákarnir voru vaknaðir góðri stundu áður, léku sér með Pokémon-spil og biðu eftir að morgunsjónvarpið byrjaði. Á ellefta tímanum vorum við Davíð að drekka saman fyrsta kaffibolla dagsins þegar dyrabjallan hringdi. Ég var viss um að Birta væri að koma en það voru bræður af "Pollagötunni sem voru að spyrja eftir tvíburunum. Eldri bróðirinn æfir fótbolta með strákunum og er jafngamall þeim. Fljótlega eftir að þeir komu inn ákváðu þeir að fara allir út í fótbolta. Birta kom svo um ellefu. Ég sagði henni hvar strákarnir væru og þegar hún fann þá fóru hún og Davíð Steinn að hjóla.

Um hádegið hringdi ég í eina úr kórnum og spurði hvort hún gæti tekið mig með á upphitun og æfingu fyrir messu. Það var sjálfsagt mál. Ég lét því Davíð um að sinna krakkaskaranum. Fótboltafélaginn ætlaði að verða samferða feðgunum á æfingu rétt fyrir tvö.

Allir kórfélagar voru mættir í krikjuna fyrir eitt. Pípuorgelið er nú komið upp aftur og það fór smá tími í að endurraða kórnum upp. Af níu sópranröddum mættu fjórar og var þeim stillt upp vinstra meginn við orgelið (séð frá kirkugestum, tenórarnir þrír fóru efst upp á palla hægra megin, þrjár af okkur úr altinum á pöllum fyrir framan þá (ég stóð fremst ekki á palli en það stóð ein (af hinum þremur) við hliðina á mér) og bassarnir tveir voru yst til hægri. Þegar staðsetningin var komin á hreint hituðum við upp og fórum aðeins yfir sálma dagsins. Síðan gafst smá tími til að fá sér kaffi og fara í vinnufötin, grænu kórkyrtlana.

Kirkjan var full og var meira að segja setið uppi á lofti. Mamma, Helga systir og Hulda frænka sátu á aftasta bekk. Eftir forspil, sungum við "Ástarfaðir himinhæða" í röddum. Eftir annan sálm ("Leið mig Guð" líka í röddum) söng einn tenórinn tvísöng Ave Maria með stúlku úr söngskólanum (held ég, hún er allavega ekki í kórnum). Í stað predikunar kallaði séra Pétur á öll börnin upp í kirkjutröppur fyrir framan altarið og spilaði á gítar og söng með þeim og kirkjugestum nokkur hreyfilög úr sunnudagaskólanum. Hulda var ein af krökkunum og stóð sig vel. Séra Pétur talaði stund við börnin, aftur var sunginn tvísöngur og svona rúllaði messan áfram. Fermingarbörn komu upp, krupu við altarið og fóru öll með bænir. Allt fór semsagt vel fram og á eftir var hægt að styrkja líknarstarf og kaupa sér alls konar kökur og brauð með kaffinu. Glæsilegt hlaðborð en því miður ekki fyrir mig og minn matarkúr. Helga skutlaði mér heim og Hulda frænka sagði: -"Anna frænka, það var gaman í þinni kikju!"

Um leið og feðgarnir komu heim af kóræfingu fóru tvíburarnir út að hjóla, enda veðrið til þess. Vor í lofti og ekki neitt gluggaveður. Skilafresturinn af bókasafnsbókunum var að renna út í dag og ég dreif mig í aðalsafnið. Skilaði flestum bókunum en framlengdi frestinn fyrir þrjár bækur, tvær sem ég er að lesa og eina sem ég ætla að lesa fyrir strákana. En ég fór samt út af safninu hálftíma seinna með tvo fulla poka.

Næst lá leiðin í Holtagarða var fljót að tína til það sem mig vanhagaði um og undan mér á kassanum var ein bekkjarsystir mín úr kennó sem ég hef ekki hitt í nokkur ár. Tvíburarnir voru enn úti að hjóla þegar ég kom heim og voru að hjóla alveg þar til kominn var tími til að fara á Grettisgötuna. Mamma var búin að bjóða okkur í mat og Helga systir sá um að elda gómsætt lambalæri, og hafði með kartöflur, sallat og sósu. Lærið var ekki tilbúið fyrr en um hálfsjö en þá tóku líka allir vel til matar síns, sérstaklega börnin sem greinilega voru orðin svöng. Í eftirrétt voru ferskir ávextir (bananar, jarðaber, appelsína, mandarínur og kínversk epli) með rjómalausum jurtarjóma. Síðan fengu börnin að horfa á spólu á meðan við hin fengum okkur flest kaffi og spjölluðum. Klukkan var byrjuð að ganga níu er við komum heim.

13.3.04

- Laugardagsleti -

Hversu gott sem það kann að vera að ljúka öllum skyldum af sem fyrst svo maður geti slakað betur á þegar tiltekt, þrif og fleira er frá þá fann ég bara enga löngun í mér til að drífa verkin af í dag. Verkin gera sig ekki sjálf en þau fara heldur ekki frá manni og ég leyfði mér að vera löt í dag. Svo mun ég líklega sjá eftir því á morgun.

Pabbi hringdi um þrjú og spurði hvort hann fengi kaffi hjá mér. Ég hélt nú það, alltaf gaman að hitta pabba hann gaf sér góðan tíma miðað við það að frá mér átti hann eftir að kíkja á Grettisgötuna. Strákarnir heilsuðu afa sínum kátir en voru annars uppteknir við að leika við Birtu vinkonu sína. Eftir að pabbi kvaddi kveikti ég á sjónvarpinu og fylgdist með ÍBV-stúlkum í handbolta rúlla yfir lið frá Króatíu. Strákarnir og Birta fóru út og um hálfsex báðu strákarnir um hjólin sín. Á sjöunda tímanum var ég sýsla í eldhúsinu. Dyrabjallan hringdi og Davíð fór til dyra. Þar var Oddur Smári með fréttirnar: -"Pabbi, við erum að kenna Birtu að hjóla á hjólið hans Davíðs Steins og það gengur bara ágætlega." Og þar með var hann rokinn aftur.

En smá um hvað ég var að gera seinni partinn í gær. Milli fimm og sjö í gær var ég stödd á Grand hóteli í boði MasterCard. Um var að ræða hinn árlega Mastercard dag og ef mig misminnir ekki þá skrifaði ég aðeins um MasterCard daginn fyrir sléttu ári. Það var gaman þá en mér fannst dagurinn í gær heppnast enn betur. Kynningin var ekki of löng og mjög hnitmiðuð og á boðstólum voru alls konar kræsingar. Reyndi samt aðeins að passa hvað ég var að láta ofan í mig. Þarna hitti ég m.a. bekkjarbróður minn úr KHÍ Sá var reyndar ekki lengi í þeim skóla en konan hans útskrifaðist um sama leyti og ég. Einnig hitti ég tvær sem voru í Landsbanka-kórnum.

Ég kom heim þreytt en ánægð. Skyldi bara alls ekkert í þessari þreytu en ég er helst á því að ég hafi fengið einhverja pest því frá miðnætti og þar til klukkan að ganga sex í morgun var ég stöðugt á ferðinni að tæma líkamann báðum megin frá. Ekki beint kræsilegt svo ég ætla ekkert að segja meir um það. Ég var orðin stálslegin um hádegi og ekki var ég þunn í dag bara einfaldlega löt.

12.3.04

- Íslenskuleikur -

Strákarnir eru búnir að læra aðeins um nafnorð, sagnorð og lýsingaorð í vetur og til að halda kunnáttunni við kasta ég stundum á þá orðum sem þeir eiga að greina. Ef um nafnorð er að ræða eiga þeir að breyta yfir í fleirtölu, setja sagnorðin í þátíð og stigbeygja lýsingaorðin. Þeir eru nokkuð flinkir við þetta en falla þó í algengar gryfjur stundum. T.d. stigbreytti Davíð Steinn orðið góður í góðari, góðastur! Ég þurfti samt ekki annað en að segja "hmm, er það nú rétt?" þá kom fljótlega -"Góður....betri, bestur!". Nokkru seinna kastaði ég fram lýsingarorðinu vondur. Davíð Steinn var fljótur að svara -"vondur, vetri, verstur"!

11.3.04

- Kóræfing og sitthvað fleira -

Fyrst ætla ég að byrja á því að segja áhugasömum frá að það eru komnar myndir úr Æskulýðsmessunni sl. sunnudag á kirkjuvefnum undir valmöguleikanum myndir. Tvíburarnir taka sig vel út með séra Jóni Dalbú Hróbjartssyni. Oddur Smári er með krosslagðar hendur og gleymdi alveg að signa sig áður en þeir bræður fóru með upphafsbænina. Hann er oft í vandræðum með hvað hann á að gera við hendurnar á sér. Stundum þegar kórinn er að syngja er hann að teygja sig, klóra sér í hausnum og fleira og fleira. Hef samt heyrt að fólki finnist þetta bara svo krúttlegt.

Kom við m.a. í Súfistanum við Laugaveg. Hitti bara aðra frænku mína sem vinnur þarna. Það var svo sem nóg og bað ég hana svo bara um að skila kveðju til systur sinnar, nöfnu minnar. Síðan sótti ég Huldu frænku og á leiðinni heim til hennar hittum við Úllu vinkonu hennar sem var að koma heim af sínum leikskóla. Við buðum henni í heimsókn til Huldu. Helga systir kom svo með tvíburana með sér af boltanum. Þetta var fyrsta æfingin í hátt í þrjár vikur hjá Oddi. Allt gekk vel, hann fékk ekki einu sinni hóstakast. Nú þarf hann bara að pústa sig einu sinni kvölds og morgna næstu 6-7 dagana og þá er hann örugglega kominn yfir þetta.

Frá og með deginum í dag er Helga systir komin í 60% vinnu samkvæmt læknisráði (það eru rétt rúmlega þrír mánuðir eftir af meðgöngunni) og var hún að bjóða mér að sækja strákana fyrr á mánudögum og skutlað þeim heim. Ég þigg það auðvitað Hún bauð okkur upp á afganginn af kjötbollunum sem ég bjó til fyrir nokkrum vikum. Davíð kom um hálfsjö. Krakkarnir voru þá að horfa á barnaefnið, alveg föst við skjáinn til sjö.

Er heim kom fór talsverð orka í að ala annan strákinn upp. Davíð sá alveg um þau mál. Ég kvaddi upp úr átta og fór á kóræfingu. Þar vorum við m.a. að undirbúa okkur undir messu n.k. sunnudag. Það er auglýst svokallað Bjargarkaffi eftir messu og mér skilst að það verði mjög góð mæting. Meira um það seinna.

10.3.04

- Miðvikudagur -

Það hefði verið ósköp gott að geta kúrt áfram í rúminu í morgun. Veðurhljóðin voru ekki beint að toga mann framúr. Að þessu sinni biðlaði ég til Davíðs að skutla mér í vinnuna og var það auðsótt mál. Ég sinnti morgunmats- og nestismálum og við fórum öll að heiman stuttu fyrir átta.

Ég fauk ekki nema einu sinni seinni partinn í gær er ég var á leið upp í kirkju að sækja strákana. Mamma kom að rétt á eftir mér og skutlaði okkur heim. Þær eru ófáar ferðirnar sem hún skutlast með Skaftahlíðasystkynin og ég dáist að henni hvað hún sinnir þessum systkynum vel!

Ingvi mágur var kallaður til vinnu aftur og fór á sjóinn í gær. Hann átti frí til 22. mars en þetta gefur honum kannski tækifæri á að vera í landi og sjá balletsýninguna sem Hulda mun taka þátt í lok mánaðarins. Vonandi!

Davíð kom heim fyrir hálfsjö í gær. Strákarnir voru löngu búnir að læra og voru að horfa á Gorm. Ég var að leggja síðustu hönd á kvöldmatinn, skera niður í sallatið sem ég ætlaði að hafa með fiskibollunum. Helga systir prófaði um daginn að nota avokado út í sallat í stað sveppa og það kom svo vel út að ég tók þetta upp líka. Í gær hafði ég reyndar bæði sveppi og avókadó. Renndi líka kaffi á brúsann og við hjónin settumst með bollana inn í stofu eftir kvöldmatinn. Davíð þurfti á fund með þjálfara strákanna og hinum foreldrunum um átta. Mér skilst nú samt að það hafi verið frekar slæm mæting. En það er byrjað að skipuleggja fjáröflun til að komast á Lottómótið í sumar. Gott að hafa tímann fyrir sér með það. Strax eftir fundinn var hann búinn að lofa sér í hús til að aðstoða við ferminga-boðskortsgerð. Það tók sinn tíma, ég rumskaði er hann kom heim um eitt í nótt en var fljót að sofna aftur, náði ekki einu sinni að segja við manninn minn.

Ég notaði kvöldið til að leika mér í tölvunni og lesa smá. Ætlaði að sauma líka en það fór of mikill tími í tölvuna. Ég er annars að lesa Lífróður þessa dagana, bók sem Ingólfur Margeirsson skráði um ævi og störf Árna Tryggvasonar í samvinnu við hann sjálfan. Mjög vel skrifuð bók og erfitt að leggja hana frá sér en hún er eitthvað á fjórða hundrað blaðsíður. Samt er ég með fleiri bækur í takinu eins og Sólarsaga eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, Vetrarferðina eftir Ólaf Gunnarsson. Skilafresturinn bókanna af bókasafninu rennur út n.k. sunnudag. Ég mun örugglega þurfa að framlengja frestinn fyrir þrjár af þessum tíu bókum sem ég hef verið með undan farinn mánuðinn og það er líka jafn öruggt að ég mun finna mér nýjar bækur til að taka með heim...

9.3.04

- Aðeins um gærdaginn -

Ingvi mágur sótti fyrir mig strákana í skólann og skutlaði þeim heim. Ég sótti Huldu frænku á meðan. Hún var nú ekki á því að fara alveg strax heim og vildi fyrst fá að róla með Bellu vinkonu sinni. Ég var svo sem ekkert að stressa mig en átti von á því að mágur minn biði eftir okkur. Það reyndist hins vegar ekki alveg rétt svo ég hringdi í systur mína er ég kom á Grettisgötuna. Hún gat frætt mig á því að strákarnir væru komnir heim. Þeir bræður svöruðu hins vega ekki í símann þegar ég hringdi heim. Frétti það svo í morgun að þeir hefðu hringt í pabba sinn og spurt hvort þeir mættu fara í Playstation 2. Tvíburarnir höfðu alveg heyrt í símanum en þeir voru bara of niðursokknir í tölvuleik til að svara. Leyfði þeim að leika sér til klukkan að ganga sex en þá drifu þeir heima- og aukalesturinn af, skriftina höfðu þeir afgreitt í heimanámi í skólanum.

Um það leyti sem strákarnir voru að ljúka lestrinum kom Anna frænka (ein nafna mín úr móðurættinni) í heimsókn. Hún sagði m.a. að hún væri á leið til Grænlands. Ævintýralegt og skemmtilegt hjá henni. Ég mun bíða spennt eftir póstkortinu sem hún lofaði mér!

Eftir matinn (saltfisk) tók Anna að sér að ganga frá. Sagði mér bara að setjast niður. Ég snéri mér að því að hjálpa Davíð Steini að skrá niður ævintýri Tóta bekkjarbangsa þessa daga sem hann var hjá okkur. Davíð Steinn skrifaði þetta mest allt sjálfur en var orðinn ansi þreyttur í hendinni, hélt of fast um pennann og fékkst ekki til að lina takið. Vildi meina að þá skrifaði hann ekki eins vel.

Þegar strákarnir fóru upp í rúm var tími frænku minnar á þrotum. Hún var búin að mæla sér mót í sundlaug Vestubæjar. Veðrið var svo leiðinlegt að ég tók ekki annað í mál en að skutla henni.

Þar sem Davíð var að keppa í tímafreka leiknum notaði ég tækifærið og horfði á Stjörnu-Survivor og CSI. Það hefur ýmislegt gengið á í fyrrnefnda þættinum. Í gær sprakk einn keppandinn úr reiði og hætti því hún hafði byrgt inni atvik sem hafði gerst í síðustu keppninni og magnað það upp með sér. Viðkvæmt mál og eldfimt. Ég skildi þessa konu reyndar mjög vel. Veit af eigin reynslu að ef maður byrgir hlutina inni verður sífellt erfiðara að lifa með þeim og takast á við venjulegt daglegt líf og á endanum er maður búinn að búa til fíl úr rottu...
- Afmæli -

Í dag er ein nafna mín, Anna María og frænka úr föðurættinni árinu eldri.

8.3.04

- Komst ég yfir þetta allt? -

Kaflaskipt en mjög annasöm helgi er að baki svo það er spurning hvort ég muni komast yfir að skrá allt niður og þá líka hvort ég hafi náð að upplifa allt sem sagt verður frá hér að neðan.

Valur - KA 33-26
Mjög spennandi leikur og gaman að sjá hversu vel Valsmönnum tókst að halda bestu mönnum KA niðri. Pálmar Pétursson var líka þrusu-góður í markinu, varði 21 skot. Ég sé hann alveg fyrir mér í landsliðinu þennan efnilega markvörð, örugglega innan tíðar. Tóti bekkjarbangsi var með í för en hann kom með Davíð Steini úr skólanum sl. fimmtudag. Ég hafði svolitlar áhyggjur af því að ég væri að ofgera Oddi en hann neitaði því stöðugt að hann væri þreyttur. En þeir voru báðir fljótir að sofna þetta kvöld.

Tímatakan
Ég fór að sofa ekki löngu á eftir tvíburunum. Stillti vekjarann á gemsanum og skyldi svo ekkert í því hvað var að gerast nokkrum mínútum eftir að ég hafði lokað augunum að síminn fór að væla. Klukkan var langt gengin í þrjú, ég var búin að sofa í rúma fjóra tíma og Davíð var ekki kominn úr vinnupartýinu. Ég fór fram úr og kveikti á sjónvarpinu. Tímatakan í formúlunni var að hefjast. Núna fara kapparnir tvo hringi. Samt bara einn í einu þannig að þetta tekur mun lengri tíma en áður. Davíð kom heim í miðri tímatöku, hafði kíkt í bæinn með vinnufélögunum. Það þarf að gera það stundum. Ég var ekki alveg að halda athyglinni og meðvitundinni yfir formúlunni en þrjóskaðist þó við til að sjá hver næði ráspól.

Laugardagurinn, þokkalega rólegur
Bræðurnir vöknuðu rétt fyrir níu og dreif ég mig upp og sá um að þeir fengju eitthvað að borða. Upp úr hádeginu fór Davíð með tölvuna út í bíl. Hann byrjaði samt á því að fara með okkur á Pítuna (nokkuð sem við höfum ekki gert lengi) en svo skilaði hann okkur heim og fór að hitta tölvuleikfélaga sína. Þeir voru búnir að leigja saman sal. Ég ákvað að vera ekkert að falast eftir bílnum og var nokkuð viss um að ég sæi manninn minn ekki næstu 12 klst. eða jafnvel meira. Þar sem forfallnir áhugamenn um hópstríðsleik hittast þar er tíminn ekki til. Bræðurnir fóru út að hjóla og fljótlega var einn vinurinn úr götunni farinn að leika við þá. Ég var eitthvað að dútla inni við og heyrði allt í einu högg og læti úr garðinum. Drengirnir sögðust vera að skafa mosa af bílskúrnum en mér fannst höggin benda til þess að þeir væru frekar að reyna að brjóta hann niður svo ég bað þá um að hætta þessu. Ekki löngu seinna er bankað á herbergisgluggann. Þá voru þeir þrír komnir upp á skúrinn. Ég sagði að þarna mættu þeir ekki leika sér (erfið mamma) og bað þá um að fara niður eins og skot. -"En mamma, ég er loft- þú veist!" sagði Oddur Smári. Reyndar kallaði hann það að vera niðurhræddur þegar hann var þriggja ára. Það endað með því að ég varð að fara út og aðstoða hann en þá var hann búinn að hætta við nokkrum sinnum og einu sinni spennti hann greipar og óskaði þess að hann væri kominn niður. Það leit reyndar út eins og hann væri að biðja og ég hefði reyndar orðið minna hissa á því heldur en hinu sem hann sagði mér frá er ég spurði hann um kvöldið.

Klukkan fjögur komu strákarnir inn, fengu síðdegishressingu og drifu heimanámið af. Þeir fóru ekkert út aftur. Ég var um þetta leyti farin að fylgjast með HM í frjálsum innanhús. Eftir kvöldmat og fréttir lofaði ég strákunum að spila í Playstation 2 tölvunni fram að Spaugstofunni. Oddur Smári var útkeyrður og steinsofnaði í sófanum. Hann vaknaði samt þegar ég færði hann í kojuna sína og vildi ekki heyra á það minnst að halda áfram að sofa, hann ætlaði að horfa á Spaugstofuna hvað sem tautaði og raulaði og það varð úr. Strákarnir fóru að sofa strax á eftir spaugstofunni. Ég var alveg í stuði til þess að halla mér líka en festist yfir fyrstu mynd kvöldsins um Marsbúann.

Kappaksturinn í Ástralíu
Aftur stillti ég vekjarann á gemsanum. Ég náði rúmlega fjögurra tíma svefni. Ég tímastillti mig þannig að stutt væri í startið þegar ég færi að horfa. Davíð kom heim um þetta leyti (með tölvuna með sér) og náði startinu en þótt hann gerði heiðarlega tilraun til þess að vaka yfir formúlunni þá gat hann það engan veginn (það þarf enginn að vera hissa á því). Ég hélt þetta út og var alltaf að bíða eftir meiri spennu en það dró frekar sundur með köppunum og þótt það væri minn maður sem ynni þá er ég ekki hress ef þetta er það sem koma skal þetta keppnisárið.

Æskulýðsmessa í kirkjunni
Klukkan átta í gærmorgun vöknuðu morgunhanarnir mínir, frekar spenntir. Gaf þeim hafragraut í morgunmat og fann á þá sparileg föt, dökkar buxur, svarta sokka, skyrtur, vesti og spariskó. Klukkan hálftíu mættum við upp í kirkju, einni og hálfri stundu fyrir messutíma. Hjálpað strákunum að finna kórkyrtlana sína en hvarf svo aftur heim í bili. Ýtti við Davíð um hálfellefu og spurði hvort hann ætlaði að koma með og hvort hann myndi þá ekki raka sig fyrst. Jú, jú, maðurinn minn reif sig upp (hetjulega gert eftir mikla vökutörn). Við mættum alveg á slaginu og var ég með Tóta með mér. Rétt seinna gekk öll hersingin inn, krakkar úr fermingastarfinu (að ég held) voru í farabroddi með kross og kerti, þá kom krakkarnir í kórnum og kórstjórinn og svo prestarnir séra Sigurður Pálsson og séra Jón Dalbú Hróbjartsson. Sá síðar nefndi ávarpaði samkomuna en bauð svo tvíburunum til sín til að aðstoða sig við að fara með upphafsbænina; "Vertu Guð, faðir, faðir minn...". Hann gat þess í leiðinni að þeir væru búnir að vera viðloðandi kirkjuna síðan þeir voru mjög ungir. (Þeir voru sjö vikna þegar ég mætti með þá fyrst á mömmumorgna fyrri partinn í september 1996 og og ég sótti í þessa fundi alveg þar til þeir byrjuðu í skóla. Einnig vorum við dugleg að mæta í sunnudagskólann frá því þeir voru þriggja ára...). Barnakórinn leiddi svo alla messuna en einnig spiluðu nokkrir ungir nemendur úr Allegro Zuzuki-tónlistarskólanum á fiðlur, sunnudagaskólabörnin sungu nokkur lög og sýnt var brúðuleikrit sem samið var af unglingsstúlku. Mjög skemmtileg dagskrá. Eftir messu fengu öll börn, sem það máttu ís. Annar presturinn hitti drengina mína að máli og þakkaði þeim fyrir upphafsbænina. -"Það var ekkert!", sögðu þeir báðir.

Við Davíð Steinn og Tóti vorum svo mætt í Valsheimilið rétt fyrir tvö á fótboltaæfingu. Oddur Smári fær enn slæm hóstaköst ef hann mæðist mikið svo hann og Davíð voru eftir heima. Verið var að æfa skæri og var gaman að fylgjast með strákunum. Þeir fengu svo að spila aðeins á eftir.

Ekki er allt búið enn. Eftir æfingu sóttum við feðgana og svo lá leiðin í Drápuhlíðina þar sem okkur var boðið til Gumma frænda og Lísu í snittur og til að sjá íbúðina. Þau eru ekki flutt inn en að leggja síðustu hönd á ýmislegt dútl sem fylgir íbúðakaupum. Oddur Smári tók eitt af sínum frægu þrjóskuköstum í heimsókninni. Drengurinn er þannig að þegar hann tekur eitthvað í sig þá er ekki svo auðvelt að fá hann ofan af því og þarna uppástóð hann að mamma sín hefði bannað honum að borða og þá ætlaði hann ekki að láta svo mikið sem smá kökubita ofan í sig og við það stóð. Minn var að haga sér eins og kjáni og var ókurteis og það eina sem ég sagði að hann fengi ekki að fá sér fyrr en hann finndi mannasiðina... (Já, ég hef margt á samviskunni)

Eftir heimsóknina var drifum við í að versla smá nauðsynjar. Davíð var svo indæll að taka að sér eldamennskuna og tókst næstum því að kveikja í hrísgrjónunum. Hann bjargaði þó málunum en maturinn var samt ekki borðaður fyrr en rétt fyrir átta. Ég hellti upp á gott kaffi strax eftir mat. Strákarnir fóru fljótlega í háttinn en þeir voru lengi að sofna að þessu sinni. Upp tjúnaðir eftir daginn og lengi að ná sér niður....

Skildi svo nokkur nenna að lesa alla þessa romsu?

5.3.04

- Vikan að klárast -

Oddur Smári fór með miða með sér í skólann í dag. Þetta er allt að koma hjá honum en ef hann hamast of mikið fær hann hóstakast.

Í gærkvöldi skildi ég feðgana eftir heima um hálfátta. Bræðurnir voru háttaðir og Davíð var að fara að keppa í tímafreka leiknum. Mér var boðið á Friendtex heima fata-kynningu og fór ég með það í huga að panta buxur og jakka á manninn minn til að máta. En líkt og síðast fann ég ýmislegt sem ég kolféll fyrir. Ég hélt góða tískusýningu, mátaði hverja flíkina af annarri og átti í mestu vandræðum með að velja úr. Það hafðist á endanum. Valdi kvartbuxur, brúnt gallapils og þrenna boli (hinar flíkurnar kíki ég svo kannski aftur á þegar útsalan verður auglýst). Hulda frænka fær örugglega stjörnur í augun þegar hún sér móðursystur sína í nýja "dásamlega" bleika stuttermabolnum. Það er ég alveg handviss um!

Eftir að ég fór af kynningunni kíkti ég aðeins til "tvíburahálfsystur" minnar og var þar frameftir kvöldi. Komst samt heim fyrir miðnætti.

Davíð sótti strákana um fjögur í dag og pikkaði mig upp á leiðinni heim. Hann bauð strákunum að koma smá stund með sér í nokkurs konar vinnu partý þar sem þeir fengu að leika sér í tölvum og eru í þessum skrifuðum orðum að gæða sér á pizzum. Ég skrapp heim að sinna ýmsum verkum og fá mér eitthvað í svanginn (ma steinsofnaði ég í hálftíma, gott verk það!). Nú liggur fyrir að kíkja á Valur - KA en það er hætt við því að Oddur verði þreyttur eftir daginn...

4.3.04

- Drengurinn á batavegi - ...en hef hann heimavið í dag til öryggis...

Mamma, Ingvi mágur og Gummi "frændi" björguðu málunum í gær. Oddur Smári fékk að vera á Grettisgötunni til klukkan að ganga fjögur. Gummi "frændi" tók að sér að skutla Davíð Steini í fótboltann og okkur Oddi heim. (Fjölskyldan bara komin með einkabílstjóra amk. þegar á þarf að halda) Gaf Oddi púst og hressingu og bað hann svo um að huga að heimanáminu. Ég skundaði svo út í Valsheimili og sótti Davíð Stein úr boltanum. Hann fór beint inn en ég skrapp í Fiskbúið Einars og keypti heila bleikju, stóra og fallega (1,5 kg). Ég varð að skipta henni niður í þrjá parta áður en ég vafði henni inn í álpappírinn og gufusauð. Ég fæ bara vatn í munninn, en það er til afgangur...

Og svo var kóræfing í gærkvöldi.

3.3.04

- Heilsufar Odds -

Fór með báða strákana á Heilsugæsluna seinni partinn í gær. Við vorum komin vel fyrir hálffimm og mér fannst ekki vera svo margir að bíða að ég var alveg róleg. Var með Flateyjargátu eftir Viktor Arnar Ingólfsson með mér og sökkti mér ofan í hana. Strákarnir voru að leika sér og spjalla við mæðgur, buðust til að lesa fyrir dótturina en fengu bara að vera með og hlusta. Þeir voru spurðir í hvaða skóla þeir væru og spurðu á móti hvort mamman ætlaði að setja dóttur sína í Skóla Ísaks Jónssonar. Svarið var neikvætt, stelpan mundi fara í Hlíðaskóla þegar þar að kæmi. -"Hlíðaskóla! Til að læra að hlýða?" hrökk þá upp úr Davíð Steini.

Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar við komumst að. Það þurfti að frysta vörtu á Davíð Steini en það var skrifað upp á sýklalyf og púst fyrir Odd Smára til að hjálpa honum að hreinsa lungun og vinna á hóstanum. Þeir bræður fengu að hlusta á hvorn annan og ég held svei mér þá að þeir hafi heillað lækninn upp úr skónum...

2.3.04

- Vítt og breytt -

Var heima með veika syninum í gær. Hann vaknaði að vísu eldhress um sjö og sagði undrandi -"Er ekki virkur dagur og skóli mamma?" Venjulega er ég komin á fætur fyrir sjö á virkum dögum en í gær leyfði ég mér að kúra framyfir sjöfréttir þar sem ég vissi að ég þyrfti að vera heima hvort sem er. Nafnarnir kvöddu rúmlega átta og ég sagði Davíð Steini að ég myndi sækja hann strax eftir skóla. Oddur Smári var búinn að sinna heimalestrinum um tíu og svo leyfði ég honum að fara í PC-tölvuna og spjalla á msn-inu. Hann er nokkuð öflugur í spjallinu og fær góð viðbrögð frá þeim sem hann spjallar við. Var að reyna að passa upp á að drengurinn væri ekki of lengi í einu í tölvunni. Þegar leið á daginn var hann aftur kominn með hita. Stuttu fyrir tvö hringdi Davíð til að spyrja hvenær nafni hans væri búinn í skólanum. Hann var aðeins of snemma í því en þar sem hann var á ferðinni plataði ég hann heim í smá kaffisopa (kjörið tækifæri fyrir mig til að hella upp á...). Hann festist í símanum þannig að ég skutlaðist eftir drengnum.

Í dag er Sigga á Kaldbak árinu eldri. Kona sem ég er búin að þekkja allt mitt líf enda átti ég heima svotil á næsta bæ, Heiði til tólf ára. Það er samt orðið alltof langt síðan ég skrapp í heimsókn, nokkur ár eða svo. Kannski maður bæti úr því einn daginn, vonandi!

Davíð skipti við mig í dag og er heima með Oddi. Seinni partinn ætlum við svo að drífa okkur með hann og láta hlusta drenginn. Vonandi að hann geti nú unnið á þessum hósta sjálfur og að lungun séu hrein!

1.3.04

- Mars að byrja að rúlla -

Oddur var orðinn veikur á laugardagskvöldið. Hiti, kvef og mjög ljótur hósti. Hann vaknaði um sjö í gærmorgun og hóstaði það mikið að hann kastaði upp. Held að hann hafi ekkert sofnað eftir þetta þótt hann reyndi að kúra sig niður. Ég bauð honum að kúra hjá okkur Davíð og það gekk í smá tíma eða þar til hann fékk annað hóstakast. Ég dreif mig því bara á fætur um átta og fékk mér morgunmat með strákunum en Davíð Steinn vaknaði einmitt um sama leyti. Þeir bræður horfðu á morgunsjónvarpið en um hálfellefu skrapp fríski strákurinn út að leika við eina vinkonu sína.

Davíð rumskaði um svipað leyti og spurði hversu lengi ég væri búin að vera á fótum. Hann var hálfeyðilagður því hann var hálft í hvoru búinn að ákveða að leyfa mér að sofa út. Það kemur sunnudagur eftir þennan dag, samt ekki um næstu helgi því þá er barnakórinn að syngja í kirkjunni á æskulýðsdeginum. Og svo er formúlan að byrja Jibbí!.

Davíð var að vinna frá því um eitt, hér heima. Oddur Smári sofnaði upp úr hádeginu og ég fór með Davíð Stein á fótboltaæfingu og horfði á.

Um kvöldið urðum við hjónin sammála um að leigja eina spólu. Davíð fékk sér labbitúr út í leigu. Hann var búinn að hugsa um lítið rís allan daginn og ákvað að láta undan freistingunni og pantaði sér svoleiðis. Afgreiðslustúlkan misheyrði pöntunina og afgreiddi líter af ís. Davíð ákvað bara að kaupa hann líka. Mér fannst þetta skondin mistök en stóðst freistinguna og lét feðgana eina um að borða ísinn. Strákarnir voru reyndar nýkomnir í rúmið þegar Davíð kom með ísinn...

Myndin sem við horfðum á var Bruce Almighty með Jim Carrey. Alveg ágætis vitleysa og skondin á köflum.