29.4.20

Labbað í vinnu, lengri leiðina

Síminn skráði á mig tvo göngutúra á leiðinni í vinnuna í morgun. Fyrst í 17 mínútur 1,3km frá kl. 6:52 og svo í 29 mínútur 2,2km frá klukkan 7:10. Samt man ég ekki eftir að hafa stoppað neitt á leiðinni. Sinnti bókhaldinu í vinnunni, amk til hádegis. Fljótlega eftir hádegi varð ég að biðja aðra samstarfskonu mína að ganga frá sumu sem er í verkahring þess sem sinnir bókhaldinu. Það var verið að reyna að setja upp ákveðið forrit í tölvunni minni, netmaður sem vann heiman að frá sér, "yfirtók" vélina að hluta. Eftir tuttugu mínútna "fikt" bað hann mig um að endurræsa tölvuna og það tók mjög langan tíma. Þannig að allur tíminn frá klukkan eitt til klukkan þrjú fór í þetta.

Einkabílstjórinn sótti mig í vinnuna um hálffjögur og hann skutlaði mér í Krónuna við Granda. Þegar ég var búin að versla kom hann við í vinnunni sinni til að undirrita vinnusamning frá 1. júní n.k. áður en við fórum heim. Hann sá um að ganga frá vörunum. Ég hringdi í pabba sem svaraði ekki en hringdi fljótlega til baka. Hann hafði verið úti á palli.

28.4.20

Vinnuvikan hálfnuð

Í gærmorgun vaknaði ég nokkuð á undan vekjaraklukkunni. Labbaði af stað í vinnuna rétt fyrir klukkan sjö og var 36 mínútur að ganga 2,7km. Daglegri framleiðslu lauk um tólf en eftir hádegi var send til okkur endurnýjun upp á 999 kreditkort. Ein skrá með einu korti kom ekki yfir á framleiðsluvélina því um var að ræða löngu útrunna tegund. Framleiddum ca 2/3 af þessu skammti, hættum upp úr þrjú. Ein af okkur þremur gat farið heim um hálffjögur en við hinar tvær vorum að bíða eftir að hægt væri að ljúka ákveðnu verkefni. Klukkan var farin að ganga fimm þegar hægt var að vinda sér í það mál. Hin samstarfskona mín í A-hópnum skutlaði mér heim upp úr klukkan fimm.

Ég var líka vöknuð á undan vekjaraklukkunni í morgun. Gaf mér mjög góðan tíma í morgunverkin og fór svo á bílnum í vinnuna þrátt fyrir ágætis gönguveður. Ýmislegt skondið kom upp í framleiðslumálunum í dag, vélin var í lagi en mistök voru gerð bæði í plast- og formanotkun fyrir ákveðna tegund. Mistökin voru leyst farsællega þannig að ekkert fer frá okkur rangt afgreitt.

Kom heim rétt fyrir hálffjögur. Oddur Smári var með smá óþægindi v/sveppasýkingarinnar en hann fór engu að síður á vaktina sína rétt fyrir fjögur. Davíð Steinn var ekki heima og er ekki kominn heim enn. Í gær fór hann í mjög langan göngutúr en ég held að hann hafi verið kallaður á aukavakt í dag. Sjálf var ég sótt upp úr klukkan fjögur og þá var ég tilbúin í sjósundsferð. Vorum næstum korter útí. Fleiri voru í sömu erindagjörðum en ekkert svo margir.

Annars er ég að lesa aftur bókina Ég heiti Ísbjörg ég er ljón eftir Vigdísi Grímsdóttur.

26.4.20

Algert logn

Aðfaranótt laugardagsins, um þrjúleytið, rumskaði ég við það að annar sonurinn virtist vera kominn með í magann. Ég sofnaði aftur um stund en þegar nær dró morgni fór ég fram til að athuga málið betur. Oddur var inni á salerninu með kviðverki og flökurtilfinningu en þetta var samt eitthvað annað en gubbupest og þetta bráði ekki af honum. Upp úr átta hafði hann samband við heilsuveru og fékk símanúmer til að hringja í til að lýsa einkennum og fá leiðbeiningar. Úr varð að ég skutlaði honum upp að bráðamóttöku í Fossvogi og skildi hann þar eftir. Hann var þar í uþb 3 tíma. Fékk verkjastillandi, það var tekið blóð og þegar verkirnir dvínuðu og hann gat slakað á og pissað var tekið þvagsýni. Það tekur tíma að fá úr blóðprufum en við skoðun á þvagsýninu kom í ljós að hann er með sveppasýkingu. Þegar ég sótti hann upp úr klukkan tólf fórum við beint í Lyfjaver þar sem hann leysti út sveppalyf og verkjalyf. Hann var aumur frameftir gærdeginum en hann náði að sofa vel í nótt og gat mætt í vinnu í morgun.

Rétt upp úr níu í morgun sótti sjósundsvinkona mín mig og við skelltum okkur í Nauthólsvík. Það komu ein hjón að á sama tíma svo við vorum fjögur að svamla í spegilsléttum sjónum á flóði. Við vinkonurnar vorum út í í tæpt korter. Hún skilaði mér heim rétt fyrir tíu og við ætlum að hafa það á bak við eyrað að athuga með seinniparts sjóferð einhvern tímann í vikunni. Hún upplýsti mig annars um það að ég væri búin að þekkja foreldra hennar lengur en hana. Mamma hennar sá myndina sem póstuð var á sumardaginn fyrsta og sagðist þekkja mig. Ekki skrýtið því foreldrar hennar eru hluti af "morgunfólkinu" mínu í laugardalslauginni. Mikið sem heimurinn er lítill og vá hvað ég er heppin með samferðafólkið í kringum mig.

24.4.20

Fuglasöngur á fimmta tímanum

Já, ég rumskaði fyrst eitthvað um hálffimm í morgun við mikinn fuglasöng. Náði að snúa mér á hina hliðina, útiloka umhverfishljóðin og sofna aftur. Vissi næst af mér um sex og upp úr klukkan sjö var ég eiginlega glaðvöknuð svo tilhvers að hanga upp í rúminu. Um miðjan dag í gær skellti ég mér í vöfflubakstur. Bjó til uppskrift úr 6dl af heilhveiti, með 3 eggjum, smá kaffislettu, 1dl af olíu, ab-mjólk, smá af grískri jógúrt, 2tsk lyftiduft, 1tsk matarsóti og 2tsk vanilludropar. Gerði 6 vöfflur og geymi hinn helminginn af soppunni þar til í dag eða á morgun. Davíð Steinn tók að sér að að útbúa kvöldmatinn, alveg óumbeðið, og bjó til kjúklingasallat. Hann verður sífellt flinkari við matargerðina. Nú þarf ég endilega að fara að hvetja Odd Smára í að æfa sig svolítið í svona eldhúsverkum.

Lauk við að lesa YOSOY í gærkvöldi. Nú er spurning hvort ég finni ólesna bók í fórum mínum eða hvaða bók/bækur ég ætti að lesa aftur.

23.4.20

Sumardagurinn fyrsti

Klukkan var örugglega ekki nema hálfellefu þegar ég sofnaði í gær enda rumskaði ég rétt fyrir klukkan sex í morgun. Náði að kúra mig niður til klukkan að ganga átta áður en ég fór framúr til þess að létta á blöðrunni. Skreið upp í aftur og las í næstum klukkustund. Þá fór ég í morgunslopp og fram í eldhús til að búa mér til hafragraut. Upp úr níu var ég nánast búin að græja mig upp í sjósundsferð. Sjósundsvinkona mín sótti mig rétt fyrir hálftíu og við vorum tæpar tólf mínútur á svamli í Nauthólsvíkinni. Ætluðum eiginlega ekki að vera alveg svona lengi en við gleymdum okkur á spjallinu. Á meðan við vorum útí kom einn maður, kastaði á okkur kveðju og synti svo í burtu. Hittum hann svo aðeins aftur þegar við vorum að labba í bílinn en hann hafði farið upp úr sjónum á öðrum stað. Næsta sjóferð er áætluð á laugardagsmorguninn kemur.

22.4.20

Síðasti vetrardagur

Það eru líklega í kringum 40 dagar þar til ég kemst í laugarnar aftur. Þ.e. þær opna ekki fyrir almenning fyrr en í byrjun júní ef faraldurinn heldur áfram að dala, veiran hverfur og hægt verður að slaka á núverandi höftum. Eftir hálfan mánuð verður aðeins slakað á og þremur vikum eftir það verður komið í ljós hvort við höfum náð að haga okkur það vel að við höfum snúið á veiruna. Eftir það er nokkuð ljóst að við verðum engu að síður að halda vöku okkar og fylgjast með því hvernig gengur alls staðar annars staðar í heiminum. Það er ólíklegt að það verði nokkuð vit í því að ferðast út fyrir landsteinana og eða hleypa túristum inn í landið alveg á næstunni, því miður fyrir ferðamannaiðnaðinn. Og þegar loksins verður hægt að aflétta óvissustigi þá held ég að væri vit í að skoða það hvernig við getum umgengist jörðina okkar og hvert annað af  gagnhvæmri virðingu. 

21.4.20

Næst síðasti vetrardagur

Þegar sjósundsvinkona mín skilaði mér heim eftir svamlið í Nauthólsvík á laugardagsmorguninn var, vorum við ákveðnar í að skreppa aftur í sjóinn seinni partinn í gær. Hún var að vinna til fjögur og ætlaði að græja sig upp og kippa mér með um hálffimm leytið. Ég var eiginlega búin að græja mig upp, aðeins of snemma, um fjögur í gær þegar hún sendi mér skilaboð um að því miður yrði hún að hætta við sjóferð vegna krankleika. Í staðinn ákváðum við að taka stöðuna aftur á fimmtudagsmorguninn kemur, sumardaginn fyrsta. Það fór því svo að ég fór ekkert út úr húsi í gær. Dagurinn leið engu að síður frekar hratt. Var svo heppin að synirnir tóku að sér stóran part af "rútínu"-heimilisverkum. Það lengdi minn tíma til að sinna alls konar hugðarefnum. Ég lagði auðvitað mitt af mörkum og sá svo þar að auki um að það var kvöldmatur á borðum um klukkan sjö; "Best á fiskinn" kryddað þorskhnakkaflak, niðursneiddar kartöflur, gulrætur, rauðlaukur og rauðkál bakað allt saman í ofni.

Í morgun dreif ég mig á fætur stuttu áður en klukkan sló átta. Gaf mér góðan tíma í að glugga í blað dagsins og las einnig í Yosoy. Um tíu þreif ég ísskápinn að utan og innan en geymi mér frystihólfið þar til síðar. Um hálftólf skrapp ég í Krónuna við Granda og verslaði. Hitti fyrrum djákna við Hallgrímskirkju sem tók á móti okkur mæðginum í mömmumorgnum á árunum 1998-2002. Kom heim upp úr klukkan tólf og var svo heppin að annar sonurinn var kominn fram og hann tók við pokunum og gekk frá vörunum.

20.4.20

Ekki vinnudagur

A-hópurinn í K1 á að halda sig fjarri vinnustað þessa vikuna. Sjötta vikan að hefjast síðan okkur var skipt upp. Það sér ekki alveg fyrir endann á þessu ástandi og skilaboðin eru þau að þetta muni vara langt fram í mai, jafnvel lengur. Ég ætla að halda minni rútínu og reyna að sinna eitthvað að því sem ég hef skilið eftir útundan alltof lengi. Ég rumskaði fyrst um sex í morgun en þótt ég steinsofnaði ekki aftur náði ég að kúra mig niður alveg þar til klukkan var að verða átta. Klæddi mig, bjó um, burstaði tennur, náði í blaðið niður og settist með það inn í stofu. Gluggaði í blaðið í smá stund en snéri mér svo að bókinni sem ég gat um í gær. Um níu fékk ég mér mína daglegu matskeið af lýsi og lét það nægja í bili. Þarf að huga að því að láta skipta yfir í sumardekkin á bílnum í vikunni og leggja vetrardekkinn inn á dekkjahótel N1 í staðinn.

19.4.20

Sofið út á sunnudegi

Fann aðra bók eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, YOSOY í fórum mínum í gær og er að sjálfsögðu byrjuð að glugga í hana. Markmiðið er að geta skráð lágmark 30 mínútur lestur á dag á svæðið mitt hjá allirlesa.is. Reyndar les ég sjaldnast styttra en þrjú korter eða klukkutíma í einu þegar ég tek mig til og gríp bók í hönd en svo skrái ég líka tíma sem ég er að glugga í blöðin og ég er fljótari að afgreiða þau.

Hringdi í Ellu vinkonu upp úr hádegi í gær. Hún heyrði ekki í símanum akkúrat þá en hringdi til baka seinni partinn og við spjölluðum í dágóða stund. Spurði hana m.a. út í soninn sem er í verkfræðinámi úti í Hollandi. Sonur sjósundsvinkonu minnar er í sama námi, ári á undan Einari Bjarna. Sá ungi maður og kærasta hans komu heim rétt fyrir miðjan mars og stunda fjarnám héðan. Unga manninum úti líður ágætlega. Þau eru örfá á vistinni, skólinn sjálfur er lokaður. Hann hafði hugsað sér að vera úti í sumar, skrapp heim um jólin, á eftir allan næsta vetur til að ljúka þessu námi. Nú er verkfræðistofan, sem hann hefur unnið hjá sl. sumur og allt árið þar til hann hóf þetta nám, búin að hafa samband við hann nokkrum sinnum og athugað hvort hann vilji ekki koma í vinnu hjá þeim í sumar.

18.4.20

Morgunbusl í sjónum

Í gærmorgun notaði ég bílinn til að koma mér í vinnuna og hafði í leiðinni með mér tómt box svo ég gæti komið við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Hætti vinnu upp úr tvö og kom með rúmt kíló af ýsu og einn poka af harðfisk, óbarinni ýsu með mér heim. Vatt mér beint í að hella upp á könnuna og hrærði í vöffludeig í leiðinni. N1 sonurinn var að vinna svo ég bjó aðeins til 5 vöfflur og geymi svo afganginn af vöfflusoppunni til helgarinnar.

Var vöknuð klukkan sex í morgun. Gerði heiðarlega tilraun til að sofna aftur en það endaði með því að ég dreif mig á fætur, þó tveimur tímum seinna. Útbjó mér hafragraut um níu og þremur korterum síðar gerði ég mig klára fyrir sjósund. Var sótt á slaginu 10. Það var fjara og smá öldugangur í Nauthólsvík og við ætluðum aðeins að vera útí í 3-5 mínútur. Það var hins vegar svo gott og skemmtilegt buslið í sjónum að við gleymdum næstum því að fylgjast með tímanum. Vorum aðeins lengur en til stóð en ekkert svo mörgum mínútum lengur. Rétt áður en við fórum upp úr komu tveir hlauparar á svæðið, vippuðu sér úr hlaupafötunum, gerður nokkrar armbeygjur í fjörunni og skelltu sér smá stund út í sjó.

Er búin að lesa Síðasti hlekkurinn en er ekki búin að velja mér næstu bók. Hlýt að finna mér einhverja í dag. Sjáum til með það. Næsta mál á dagskrá er að hella mér upp á kaffi og fá mér fyrsta bolla dagsins.

16.4.20

Einn vinnudagur eftir í þessari viku

Labbaði af stað í vinnu kl. 6:57 í morgun og fór aðra leið heldur en í gær eða fyrradag. Eitthvað virðist ég hafa hikað á leiðinni því síminn skráði sjálfvirkt á mig tvo göngutúra. Þann fyrri frá kl. 18 mínútur og 1,36km en þann seinni frá klukkan 7:16 í 20 mínútur og 1,6km. Man ekki til að hafa stoppað neitt en ég labbaði Lönguhlíð að Miklubraut, undir göngin við ljósin, í gegnum Klambratúnið, Flókagötu að Gunnarsbraut þar sem ég beygði til hægri og labbaði að Njálsgötu. Labbaði stuttan spöl af Snorrabraut, hluta af Laugaveginum, smá hluta af Hverfisgötu og síðasta spölinn að Kalkofnsvegi labbaði ég Skúlagötu. Sá sjávarútvegsráðherra mæta í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta. Annars var ég í bókhaldinu í dag og fyrir utan að skrá niður framleiðslutölur og ónýt kort kom m.a. beiðni um að útbúa A-Hraðbankalykil og 2 PUK-bréf. Lagði af stað heim kl. 14:30 og var 37 mínútur að labba 2,87 km, beint yfir Skólavörðuholtið, undir tvær brýr og kom upp við byrjun Eskihlíðar. Skipti um bol, þvoði mér um hendur og hellti upp á kaffi og drakk einn bolla áður en ég bjallaði í pabba.

15.4.20

Frú Vigdís Finnbogadóttir níræð í dag

Fékk hláturskast þegar ég renndi yfir texta gærdagsins og sá meinlega villu sem ég er búin að laga núna. Í gærkvöldi var ég komin upp í rúm upp úr klukkan hálftíu og ca þremur korterum seinna lagði ég frá mér bókina sem ég er að lesa, slökkti ljósið, bað bænirnar mínar og svo steinsofnaði ég.

Vaknaði í morgun örstuttu áður en vekjarinn átti að fara af stað eða fyrir klukkan hálfsjö. Lagði gangandi af stað í vinnuna kl. 6:54 og 43 mínútum og 3,4 km síðar var ég komin á leiðarenda. Já, ég fór aðeins lengri leið heldur en í gær. Ætlaði eiginlega að rekja mig eftir leiðinni sem ég kom seinni partinn í gær en endaði á því að labba meðfram "nýju Hringbraut" alveg að brúnni neðan við Háskólann. Fór yfir þá brú og labbaði í gegnum Hljómskálagarðinn, meðfram tjörninni, Lækjargötu og að Kalkofnsvegi. Daglegri framleiðslu lauk fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi ryksuguðum við framleiðsluvélina, sinntum bókhaldi og talningu, tókum á móti smá plastbirgðum og merktum 2 tegundir. Nýja vélin kom í mörgum pörtum og misstórum kössum upp úr klukkan eitt. Sumir kassarnir voru það stórir að kalla þurfti manninn sem sinnir viðhaldi á vegum OBA til að hjálpa til við að taka utan af stærstu kössunum til að koma öllum hlutum inn. Vélin verður ekki sett saman alveg í bráð því það þarf líka að vera með sérfræðingur utan úr heimi þaðan sem vélin er framleidd.

Klukkan korter yfir tvö ákvað ég að ég væri búin að skila mínu vinnuframlagi í dag. Hafði hugsað mér að labba aðra leið heim, búa til nokkurs konar hring, en áður en ég vissi af var ég farin að þræða svipaða leið til baka og ég kom úr í morgun. Á leiðinni mætti ég konu sem ég hitti stundum í sundi. Síminn skráði 3,52 km á 45 mínútum. Það fyrsta sem ég gerði eftir að ég var komin heim og búin að fara í þurran bol var að hella mér upp á kaffi. Svo hringdi ég í pabba sem er að byrja að vinna í því að ganga betur frá stóru skúrhurðinni sem hann setti í sl. haust.

14.4.20

Gengið í vinnuna

3 mánaða strætókortið, sem ég fjárfesti í í upphafi árs, rann úr gildi 5. apríl sl. og það stóð alltaf til að eftir þann tíma færi ég að labba í vinnuna. Eins og vinnutilhögun í minni deild er háttað væri heldur ekkert skynsamlegt að fjárfesta í nýju korti sem eiginlega nýtist aðeins aðra hverja viku. Klukkan 07:07 labbaði ég af stað í vinnuna í morgun. 37mínútum og 2,77km síðar var ég mætt og hafði sem betur fer hugsað fyrir því að hafa með mér þurran bol. B-hópurinn sem vann í dymbilvikunni kláraði það sem stóð útaf kreditendurnýjuninni og sendi af stað í póst og þær framleiddu líka mánaðarlega debetendurnýjun uþb 4000 kort á tveimur dögum. Sú af okkur í A-hópnum sem var í bókhaldinu keyrði lokakeyrsluna og sá til þess að senda megnið af þessum kort af stað í póst. Við hinar tvær sinntum því eingöngu daglegri framleiðslu og henni lauk rétt upp úr klukkan tólf. Eftir hádegi var lokið við að gera upp framleiðslu dagsins og telja þær tegundir á vagni sem voru notaðar í dag. Ég sá til þess að tæta niður uppsafnaða borða, svarta, gráa, rauða, hvíta og einn innfylliborða. Vinnudegi lauk í fyrrafallinu. Labbaði af stað heim kl. 14:34 og 41 mínútum og 2,93km síðar var ég komin heim. Þvoði mér um hendurnar, skipti um bol og hellti mér upp á 3 bolla af kaffi.

13.4.20

"Ekki leikur veröldin eins við alla"

Um það leiti sem Davíð Steinn var að byrja að undirbúa kvöldmatinn í gær, upp úr klukkan þrjú, dreif ég mig út í gönguferð. Skv. forriti í símanum mínum hóf ég gönguna kl. 15:24 og 68 mín og 5,38km síðar var ég búin að ganga réttsælis í kringum Öskjuhlíðina og komin heim aftur kl. 16:32. Þetta var 0.04km lengra en fimm mínútum hraðar heldur en þegar ég labbaði rangsælis í kringum Öskjuhlíðina sl miðvikudag. Vel gert og klapp á bakið mitt. Kvöldmaturinn var tilbúinn um hálfsex, ofnsteikt purusteik, með steiktum kartöflum, piparsósu, sallati og grænum baunum. Virkilega gott. Ég tók að mér að ganga frá á eftir og var búin að því áður en kvöldfréttir á Stöð2 hófust.

Í morgun var ég vöknuð fyrir klukkan átta og mín biðu skilaboð frá sjósundsvinkonu minni sem ég svaraði. Bjó mér til hafragraut á tíunda tímanum og stuttu fyrir ellefu var ég tilbúin, íklædd sundbol innanundir joggingfötum af mömmu, fjólubláu úlpunni, hárið í teygju undir sundhettu og ullarhúfu og í sjósundssokkum og strandskónum sem ég keypti á Spáni 2016. Var með sokka, gönguskó, sjósundsvettlinga og handklæði með mér í poka. Vinkona mín pikkaði mig upp um ellefu og við fórum beint í Nauthólsvík. Hún lánaði mér stærðar "yfirtökuflík", var sjálf í einni utan yfir sinn sjósundsklæðnað. Ég klæddi mig úr úlpu og joggingfötunum og í yfirtökuflíkina áður en við yfirgáfum bílinn og röltum með handklæðin og vettlingana í poka niður að staðnum þar sem við förum yfirleitt út í sjó við Nauthólsvík. Þar fyrir hittum við eina konu sem var að koma upp úr. Sú skrapp út í aftur í eina mínútu. Við hinar tvær svömluðum um og spjölluðum í um 9 mínútur. Vá, hvað þetta var gott. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu smeik um að vera dottin úr einhverri æfingu þar sem það er mánuður síðan ég fór síðast í sjóinn. En heldur betur ekki. Vinkona mín skutlaði mér svo beint heim aftur og við sammæltumst um að vera í bandi n.k. laugardagsmorgun og fæ ég að hafa yfirtökuflíkina lánaða amk þar til opnað verður aftur fyrir aðstöðuna eftir samkomubann, hvenær sem það verður. Þegar heim kom dreif ég mig í sturtu og skolaði svo vel úr sjósundsbúnaðinum.

Bókin sem ég er að lesa núna er Síðasti hlekkurinn eftir Fredrik T Olsson. Var byrjuð á þessari bók fyrir einhverju síðan og ákvað að byrjað aftur frá byrjun. Er búin með fyrsta hlutann af fjórum og er mest hissa á að ég hafi ekki verið búin að ljúka við að lesa þessa bók fyrir löngu síðan, hún er það spennandi.

12.4.20

Páskadagur

Það eru dæmalaust skrýtnir tímar í gangi og hafa verið í nokkrar vikur. Allur heimurinn er undir og enginn veit nákvæmlega hvernig málin þróast. Ástandið bitnar á öllum en eitt af því sem getur og mun hjálpa er að skilja að við erum öll í þessu saman og það borgar sig að róa í sömu áttina amk í því landi sem við búum. Faraldurinn sem geisar mun kannski ekki ná okkur öllum og þá geta þeir sem ekki veikjast eða þekkja engan í þeim hópi eða framlínunni átt bágt með að taka þátt í þessum hamlandi verkefnum lon og don. Vonandi skilja þó flestir, helst allir, alvarleika þess að hlýða ekki Víði. Mikið sem ég er ánægð með þrenninguna, hversu samstíga þau eru, þolinmóð og óþreytandi við að upplýsa okkur hin. Það er mikið öryggi í því. Ég hef alveg sloppið við að rekast á veiruna. Það munaði líklega ekki miklu að þessi vágestur næði á vinnustöðvar strákanna minna en þeir hafa amk ekki veikst og eru duglegir að virða fjarlægðarmörk og benda kúnnum á að gera slíkt hið sama. Helgina fyrir afmælið mitt, um miðjan mars, var vinnuhópnum mínum skipt upp í A og B og síðan höfum við ekki hist nema þá í netheimum. A hópurinn, minn hópur, tók fyrstu törnina vikuna 16.-20. mars. Þá viku vorum við aðeins tvær. Vikuna 30/3-3/4 vorum við orðnar þrjár eins og B hópurinn og við verðum á vaktinni 3 í næstu viku. Ekki er vitað hversu lengi þetta fyrirkomulag verður en þó reiknum við með að þetta breytist ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir 4. maí. Þannig að ég er búin að reikna það út að A hópur vinnur 11 virka daga í apríl en B hópur 9. Eitt af því sem er mjög erfitt í þessu ástandi er að geta ekki hitt fólkið sitt. Veðurtíðin fram að samkomu- og fjarlægðartakmörkunum hjálpaði samt líklega til við að venja mig við þetta ástand. Apríl er alveg að verða hálfnaður og ég er aðeins búin að hitta pabba minn tvisvar sinnum á árinu. Heyri í honum daglega. Hann er rólegur, æðrulaus og mikill dundari, finnur sér alltaf eitthvað til að gera. En ég veit að blöðruhálskirtillinn er að plaga hann og tíminn sem hann átti í ómskoðun 18. mars sl. var frestað til 13. maí.

Oddur Smári er að vinna frá 7:30-14 þessa helgina. Hann kom heim rétt fyrir þrjú í gær. Það er ekki nema fimm mínútna gangur í vinnuna hans og hann stimplaði sig út klukkan 14 en dvaldist eitthvað á staðnum og tók nokkrar afgreiðslur aukalega. Ég var búin að skrifa innkaupamiða og fékk hann til að keyra mig í Krónuna við Granda. Hann beið úti í bíl á meðan. Margt var um manninn á staðnum en þó ekki svo að það þyrfti að bíða í röð úti. Verslunarferðin tók ekki svo langan tíma.  Davíð Steinn ætlar svo að sjá um að elda hátíðarmatinn í dag/kvöld.

11.4.20

Fuglasöngur eldsnemma

Ég skrapp í örlítið lengri gönguferð um miðjan dag í gær heldur en seinni partinn í fyrradag. Það var smá rigning og ég fór í bleiku regnkápuna. Labbaði Lönguhlíð að Stakkahlíð, þar beygði ég til hægri og  labbaði að Hamrahlíð. Beygði til vinstri og labbaði næstum því út að Kringlumýrarbraut áður en ég beygði til hægri og labbaði upp að göngustíg sem liggur rétt við Bústaðaveg. Þetta endaði amk með því að ég labbaði einhvers konar hring og ég kom inn í Drápuhlíð þar sem hún byrjar. Labbaði rúmlega 2km á ca hálftíma. Annað varðandi gærdaginn er eiginlega ekki í frásögur færandi nema ég bjó til kjötbollur úr 2x500gr hakkrúllum í kvöldmatinn. Fór ekki eftir neinni sérstakri uppskrift frekar en venjulega en var mjög ánægð með útkomuna. Synir mínir voru sammála um gæðin. Fór eiginlega alltof seint að sofa en var þó búin að slökkva á náttborðslampanum fyrir miðnætti. Vaknaði við fuglasöng um klukkan fimm og náði ekki að sofna aftur.

10.4.20

Sturta og hárþvottur

Rumskaði fyrst eitthvað um sex í morgun og fannst það heldur snemmt. Náði að sofna aftur og sofa í næstum því tvo tíma. Gaf mér góðan tíma til að átta mig á að það væri að hefjast nýr dagur. Hugsaði um allt og ekkert. Það er alveg ágætt að gera einhverjar áætlanir en það er líka allt í lagi að láta þetta bara ráðast. Rétt fyrir níu steig ég inn í sturtuklefann og var með sjampó og sápu með í för. Það er rétt rúm vika síðan ég þvoði hárið á mér síðast. Ég hefði reyndar alveg geta slegið þessum hárþvotti á frest í 2-3 daga í viðbót án þess að nokkru skaði hefði hlotist af en ég var í stuði til að sinna þessu svo ég vatt mér í málið.

Gönguferðin í fyrradag var þess valdandi að ég var örlítið stirð í gær en líklega hefði ég átt að hundskast til að teygja mig vel eftir að ég kom heim, sem ég gerði ekki. Ég fór samt aftur út í gær en mun styttri hring, innan við 1,5 km. Í gær hrærði ég líka í vöfflur sem Oddur Smári tók að sér að verka og Davíð Steinn sá um kvöldmatinn og útjó dýrindis máltíð úr þorskhnökkum sem ég tók út úr frysti í gærmorgun. Las annars alveg helling í gær enda er ég búin að skrá mig á "Tími til að lesa" til að hjálpa til við heimsmet í lestri.

Sjósundsvinkona mín hafði samband við mig á FB-spjallinu í gær. Hún hafði drifið sig í sjóinn við Nauthólsvík um ellefu í gærmorgun. Fór tvisvar ofan í því þegar hún kom upp úr eftir um 8 mínútur kom myndatökumaður frá Stöð2 og bað hana um leyfi til að taka mynd af henni að svamla í sjónum. Hún var útí í ca 3 mínútur og svo kom smá myndbrot á fréttunum á Stöð2 í gærkvöldi. Hún setti sjálf myndir á vegginn sinn sem maðurinn hennar tók en hann ók henni á milli. Hún sagðist búa svo vel að ég síðar útitökuúlpu sem hún klæddi sig í yfir sjósundsgallann bæði fyrir og eftir sund. Hún fór úr sjósundsskónum eftir svamlið, þurrkaði sér og klæddi sig í ullarsokka og gönguskó og svo fór hún í sturtu þegar hún kom heim til sín. Naglinn sem hún er. Hún byrjaði að stunda sjóinn í fyrrasumar og fann að þetta var að hjálpa henni með hnjá og liðerfiðleika í fótum, þ.e. hún fann mikinn mun til batnaðar. Nú er hún búin að finna leið til þess að skreppa í sjóinn þótt aðstaðan við Nauthólsvík sé lokuð vegna Covid-19.

8.4.20

Gönguferð

Einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fór ekkert út úr húsi frá því að ég kom heim úr vinnu og skreppitúr í tvær búðir á föstudagskvöldið og alveg þar til ég skrapp í rúmlega klukkutíma gönguferð rangsælis í kringum Öskjuhlíðina seinni partinn í dag, 5,3km. Ég er hins vegar búin að ljúka við að lesa allar bókasafns- og jólabækur. Þögn eftir Yrsu Sigurðardóttir, sem ég fékk frá systir minni og fjölskyldu, las ég næstum alla á mánudaginn nema síðustu 60 bls. kláraði ég í gærmorgun. Sem betur fer er ég með nokkrar aðrar ólesnar bækur í fórum mínum m.a; Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Minervudóttur. En ég hef líka verið frekar dugleg að munda prjónana síðustu daga og þar að auki leyft mér að gleyma mér alveg við hámhorf á hinum ýmsu þáttum í boði Sjónvarps Símans Premium. Synir mínir skruppu í Sorpuferð í dag, fóru báðir, því þeir voru báðir eitthvað að uppfæratölvurnar sínar rétt fyrir helgi og því fylgdi slatti af umbúðum sem var ágætt að losna við.

5.4.20

Snjór

Ég ferðaðist innanhús í gær. Davíð Steinn var sá eini af okkur sem fór út á milli hálfellefu og hálfsex en hann stóð vaktina á plani N1 við Stórahjalla frá klukkan ellefu til fimm. Oddur Smári hafði horft á marga þætti af Criminal Minds langt frameftir aðfaranótt gærdagsins. Hann rumskaði einhvern tímann eftir hádegi en var svo sem ekkert mikið á ferðinni. Ég var glaðvöknuð mjög snemma í gærmorgun og var klædd og komin á ról stundu síðar áður en klukkan náði að verða hálfátta. Eftir að hafa tannburstað mig og fengið mér matskeið af lýsi settist ég með prjónana mína inn í stofu. Er byrjuð á enn einu afgangasjalinu sem verður úr svörtu og grænum litum.  Lagði frá mér prjónana eftir uþb tíu mínútur, en ég greip til þeirra af og til í allan gærdag í 15-30 mínútur í hvert skipti. Las í síðustu ólesnu bókinni af safninu til klukkan að verða hálfníu en þá ákvað ég að gera mér ferð í þvottahúsið og stinga í eins og eina þvottavél. Þegar ég kom upp aftur skömmu síðar tók ég fram fartölvuna og sat með hana til klukkan að byrja að ganga ellefu. Ekkert löngu síðar skrapp ég aftur niður til að hengja upp þvottinn. Klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar ég hellti loksins upp á könnuna og fékk mér hressingu. Kveikti á sjónvarpinu og stillti á útvarpsrás til að byrja með, amk framyfir hádegisfréttir. Hringdi í pabba, tvíburahálfsystur mína og Helgu systur. Sú síðastnefnda gat reyndar ekki tekið símann þegar ég hringdi en hún hringdi til baka um leið og hún var komin heim úr búðinni. Var með ofnbakaða bleikju með kartöfluskífum og rauðkáli í kvöldmatinn. Horfði á fréttir og fleira en slökkti á sjónvarpinu um hálftíu og háttaði upp í rúm með bók. Las í rúman hálftíma en svei mér þá ef ég var ekki sofnuð löngu áður en klukkan varð hálfellefu. Ég rumskaði upp úr klukkan sex í morgun en náði að steinsofna aftur og það var ekki fyrr en klukkan var langt gengin í níu að ég náði að vakna almennilega. Var að dreyma eitthvað í millitíðinni en það eina sem ég man frá því að ég var með einhverri persónu á veitingastað að reyna að lesa matseðilinn og ákveða mig.

4.4.20

Strætókortið alveg að renna úr gildi

Ég var mætt í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta í gærmorgun. Þegar við vorum mættar allar þrjár fékk ég þá sem er með stystan starfsaldur af okkur þremur til að keyra ákveðið forrit til að kanna hvort það virkaði hjá henni. Það virkaði vel. Það skilaði sér ákveðin skrá á aðra tölvu sem ég náði í á usb-lykil áður en ég eyddi henni út af þeirri tölvu. Færði þessa skrá af usb-lyklinum á ákveðið drif og stað á minni tölvu. Þar með vorum við búnar að gera klárt fyrir sérfræðinginn sem bjó til þessa leið til þess að finna úr henni leið til að prenta formin með daglegu debetkortunum á prentarann í skrifstofurýminu. Við höfðum framleiðsluvélina til klukkan tólf en þá komu tveir viðgerðarmenn að gera loka tilraun til þess að fá prentarann við vélina til að vinna rétt. Á meðan þeir voru að vinna sína vinnu höfðum við nóg að gera við að para saman kort og form úr debetdeginum og hluta af mánaðarlegri kreditendurnýjun. Til að gera langa sögu stutta var prentarinn farinn að virka og starfa eðlilega upp úr klukkan þrjú. Það var hægt að testa með því að framleiða hluta af kreditendurnýjuninni sem var enn óframleidd. Mikið sem við urðum glaðar. Við vorum til klukkan fimm að ganga frá og spritta helstu snertifleti. Ein af okkur var reyndar til klukkan að verða sex en hún var að ljúka við mánaðamótauppgjörið. Ég var komin heim um hálfsex. Fór fljótlega út aftur til að ná í fiskbúð fyrir lokun. Keypti ýsu, bleikjuflök og harðfisk hjá Fúsa. Skrapp svo aðeins í Krónuna við Nóatún og verslaði aðeins inn. Hef ekki verslað í hátt í þrjár vikur. Var ekki að kaup mjög mikið, ætla að gera stærri innkaup í Krónunni við Granda einhvern tímann í næstu viku. Ég er ekki að fara í vinnu aftur fyrr en eftir páska.

2.4.20

Slapp heim úr vinnu á réttum tíma í dag

Á þriðjudagsmorguninn breyttust aðeins tímaáætlanir strætó. Hef verið að taka strætó klukkan ca 7:15 fyrir utan Krambúðina. Núna kemur hann 5-6 mínútum seinna. Ég er samt mætt í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta, aðeins á undan samstarfsstúlkum mínum sem mæta uþb 7:45. Þessa fjóra daga, sem liðnir eru af vinnuvikunni, höfum við byrjað í sömu stöðum ("Groundhoug day"). Sú úlnliðnsbrotna í bókhaldinu, sú sem vann með mér fyrstu vikuna eftir að deildinni var skipt upp nr. 1 á vélinni fram að kaffipásu og ég númer 2 og svo nr. eftir kaffipásu og líka eftir hádegi þegar það var hægt. Þegar við vorum búnar með fyrsta framleiðsluskammtinn á þriðjudaginn kom viðgerðarmaðurinn í hús og hann fór beint í að nota varahlutasendingu sem kom í hús deginum áður og reyna að laga prentarann. Fljótlega eftir kaffipásu fengum við að byrjað að prófa, fyrst voru aðeins sett fá form í einu og svo fórum við að prófa að framleiða kort og form. Þetta gekk ágætlega til að byrja með en ekki lengi. Þegar við settum yfir 20 kortafæl af stað og vorum rétt hálfnaðar að taka á móti kortunum fór allt í flækju aftur. Prentarinn hélt áfram að stríða okkur fram eftir degi og viðgerðarmaðurinn fór heim stuttu fyrir fimm. Við hinar vorum að vinna til klukkan sjö en skildum samt eftir smá hala. Í gærmorgun kom besti kortatæknimaðurinn og fann leið B fyrir okkur, þ.e. hvernig hægt væri að prenta formin fyrir kortin út á annan prentara. Viðgerðarmaðurinn kom um tíu og vann í prentaramálunum til klukkan fjögur. Prentarinn lét ekki að stjórn þannig að eftir fjögur unnum við eftir leið B og náðum að klára daginn og halann frá því á þriðjudaginn um sex. Viðgerðarmaðurinn komst ekki til okkar í dag, það var hans dagur að vera heima með börnunum sínum. Við unnum því eftir leið B og gátum einnig unnið að endurnýjun. Vorum eitthvað að grínast með það að við þyrftum að vera til klukkan fimm í dag en satt best að segja var ég alveg búin að fá nóg klukkan hálffjögur. Hinar voru sem betur fer sammála mér. Ég var því komin heim klukkan fjögur í dag.