31.3.03

- Mars á síðasta snúning -

Tíminn flýgur svo hratt áfram að mér líður eins og ég sé ýmist í rússíbana eða standi utan við hann og fylgist með honum þjóta áfram hring eftir hring. Það er betra að standa fyrir utan því þá er maður svolítið á sínum eigin hraða en sé maður innanborðs er eins og maður sé alltaf að flýta sér og drífa sig að öllu...

Ekki náðu knattspyrnustrákarnir okkar að sigra Skotana enda varla hægt að ætlast til þess á útivelli eftir tap fyrir þeim hér heima. En leikurinn var gífurlega spennandi, sérstaklega seinni hálfleikurinn. Og nú er orðið ljóst að Haukar eru deildarmeistarar í Essó-deild karla en Valsmenn, sem voru lengi vel á toppnum, enduðu í öðru sæti. Eyjastúlkur unnu essódeild kvenna með glæsibrag, unnu 24 leiki af 27.

Anna frænka kom til mín í gær og bjó til tvær pizzur með mér. Ég hringdi í hana upp úr klukkan hálfþrjú, þá voru feðgarnir úti í göngutúr en ég að sýsla eitthvað hérna heima. Anna kom að vörmu spori. Við bjuggum til tvær pizzur og eins og venjulega var önnur með rækjum, túnfiski, lauk, papriku og sveppum. Hinni pizzunni skiptum við í tvennt; öðru megin var hakk, bygggrjón, gulrætur, blómkál, spergilkál, gular baunir, laukur og sveppur en á hinn helminginn vantaði hakkið (gert spes fyrir frænku mína sem hefur valið að borða ekki kjöt). Mjög gott eins og venjulega.

Helgin var annars í alla staði mjög notaleg. Kannski svolítið fljót að líða en virku dagarnir eru svo sem ekkert lengur að líða og áður en ég veit af verður aftur kominn föstudagur...

29.3.03

- Laugardagur -

Ég ætla að nota tækifærið á meðan ég er ein inni og blogga smá pínu pons... Davíð fór á fund og strákarnir eru úti með þoturnar (í annað sinn þennan veturinn).

Frænka mín hélt upp á fertugs-afmælið sitt í gærkvöldi. Þetta var glæsileg veisla og mjög skemmtileg. Þegar við mæðgur mættum á svæðið tók eiginmaður afmælisbarnsins af okkur yfirhafnirnar, yngri sonurinn tók á móti gjöfinni og afmælisbarnið nældi hvítu hjarta í barm okkar. Þegar flestir gestir voru komnir sló frænka mín í glas og bað einn gestinn um að taka hjartað af sér, lesa nafnið sem þar stóð og næla á viðkomandi. Persónan sem í var nælt átti að kynna sig, gera grein fyrir hvernig hún tengdist og eða þekkti afmælisbarnið og lesa svo á hjartað sem fyrst var nælt í hana. Þetta var bráðsniðugt. Eftir kynningarnar var sunginn afmælissöngur og svo boðið að gjöra svo vel og fá sér að borða. Við vorum ekki fyrr búin að klára af diskunum þegar "stóra" systir afmælisbarnsins bað um hljóð og sagði nokkar sögur af "litlu" systur við góðar undirtektir. Mjög eftirminnilegt kvöld. Ég fór að vísu heim áður en frænka mín fór að taka upp gjafirnar en ég á bara eftir að heimsækja hana fljótlega...

28.3.03

- Vikan á endasprettinum -

Ég kom við í fiskbúð og keypti rauðsprettu í soðið á leiðinni heim í gær. Mágur minn ætlaði að sækja dóttur sína í leikskólann og Helga systir skutlaði strákunum heim. Þeir voru komnir heim korteri á undan mér og að sjálfsögðu komnir í tölvuna. Þegar ég fór að sýsla við matargerðina var ég auðvitað spurð að því hvað væri í matinn. Ég átti von á húrra-hrópum því þeim hefur alltaf fundist rauðsprettan góð. En það var öðru nær.
"Oooh, afhverju rauðspretta, sagði Davíð Steinn, mér finnst rauðspretta vond!"
Ég ákvað að anda rólega og sjá til... Enda kom það á daginn að þegar hann smakkaði fiskinn fannst honum hann ekkert vondur. Ég sagði líka við hann að það væri betra að smakka matinn fyrst áður en maður héldi því fram að hann væri vondur.

Stuttu eftir að strákarnir voru komnir upp í rúm þá skrapp ég út úr húsi, annað kvöldið í röð. Davíð var að vísu ekki að spila en hann þurfti að vinna og kunningjakona mín var búin að bjóða mér á snyrtivörukynningu, svo ég dreif mig bara.

27.3.03

-Eitt og annað..._

Við komum heim upp úr klukkan hálfsjö í gærkvöldi. Strákarnir lærðu á met-tíma og voru komnir í bað korter yfir sjö. Gaf þeim kleinur og mjólkurglas í hressingu stuttu fyrir átta og þeir komust í rúmið á slaginu og voru ekki lengi að komast í draumalandið.

Rétt eftir að strákarnir voru sofnaðir kom dóttir vinkonu minnar. Reyndar er stúlkan sjálf orðin mjög góð vinkona mín og ég er frekar upp með mér yfir því að hún sækir í að koma til mín (endrum og sinnum). Ekkert kynslóðabil virðist vera á milli okkar og þá er ég ánægð. Davíð var byrjaður í stríðsleiknum sínum svo við Esther drifum okkur bara út úr húsi og fórum á Ara í Ögri. Þar áttum við notalega stund og spjölluðum heilmikið. Kaffið hjá "Ara" er mjög, mjög gott og mér er sagt að kakóið sé það líka.

Ég var komin heim rétt fyrir tíu. Esther átti eftir að læra en hún er að taka stúdentspróf í vor. Davíð var enn í tölvunni og reyndar þá var klukkan byrjuð að ganga tvö er hann hætti þar. Þvílík elja...

26.3.03

...og dagarnir fljúga áfram...

Undanfarið hef ég hugsað stíft upp í Hallgrímskirkju, sérstaklega á miðvikudögum. Þetta er fyrsti veturinn síðan haustið ´96 að ég fer ekki á opið hús. En viti menn í gærkvöldi hringdi hún Dagbjört (sú sem tekur á móti á opnu húsi) í mig og talaði einmitt um að hún hefði verið að hugsa svo mikið til okkar mæðginanna. Það var virkilega gott að heyra í henni og ég veit að við höldum áfram að vera í sambandi á meðan við erum báðar til.

Þegar Oddur Smári var að lesa í gærkvöldi fór hann allt í einu að slá með flötum lófa á hálsinn á sér. Þegar hann var spurður hvað hann væri að gera sagðist hann vera að gera röddina fallegri. Pabbi hans sagði að röddin yrði ekkert fallegri þótt hann gerði þetta svo sá stutti breytti upplýsingunum í ...svo röddin yrði sterkari!!!

Ég mun leika lausum hala í kvöld....

25.3.03

- Þriðjudagur -

Ég bauð nöfnu minni og frænku í heimsókn og mat í gær. Það er svo gaman að fá hana. Henni gengur mjög vel að læra íslenskuna og hún sagði mér frá því að hún hefði fengið 8,6 á málfræðiprófi. Frábær námshestur! Helga systir hafði boðið Kolfinnu, níu ára stúlku sem mamma tekur á móti heim úr skóla, heim til mín og lék hún við Huldu og hjálpaði strákunum með stærðfræðina. Ég var með þorsk í matinn og heppnaðist hann vel að vanda. Það er tvennt sem ég er óhress með þessa dagana. Annars vegar bjúgurinn, sem sest mest á hægri fótinn og belgir út og hins vegar að þá er röddin að hverfa (hálsinn hálf svona ryðgaður) svo ég kemst ekki á kóræfingu í kvöld...

24.3.03

-Árshátíðin -

Klukkan korter fyrir sex á laugardaginn vorum við Davíð komin í Perluna. Þar var okkur boðinn drykkur og við hittum vinnufélaga mína og maka þeirra sem smám saman tíndust á staðinn. Mjög fljótlega var okkur boðið að skoða sögusýninguna undir leiðsögn. Ég varð stór hrifin. Þetta var magnað. Stytturnar af fólkinu voru svo vel gerðar að ég stóð mig að því að stara á þær og bíða eftir að einhver myndi blikka augunum eða hreyfast. Reyndar hreyfðist ein styttan, hún andaði. Rétt fyrir sjö fór fólk að tínast út í rútur nema þeir sem ekki fengu sér áfengan drykk og voru á einkabílum. Við Davíð skildum bílinn bara eftir við Perluna. Leiðin lá vestur á Seltjarnarnes, nánar tiltekið í félagsheimið þar. Allar konur fengu eina rauða rós við komuna. Þegar allir voru komnir og um það bil sestir stigu tvö úr skemmtinefndinni í pontu, buðu fólk velkomið og kynntu veislustjóra kvöldsins sem var Helga Braga Jónsdóttir. Til að gera langa sögu stutta þá stóð Helga Braga sig frábærlega vel, kenndi okkur konunum m.a. undirstöðu atriðin í magadans... Forrétturinn var borinn fram rétt fyrir klukkan átta; Heitreyktur bleikjutígull með stökku sallati, Teryaki (sumir fengu frosin forrétt...) og hvítvín að drekka með. Forstjórinn var með annálinn og vöktu gömlu myndirnar sem hann sýndi almenna kátínu (sumir voru ungir einu sinni). Síðan var Jóhannes eftirherma með nokkra brandara. Hann hefur reyndar verið áður og var hann að hluta til með sömu brandarana og síðast. Aðalrétturinn var borinn fram um níu; Gljáð kjúklingabringa með villisveppum, Rösti-kartöflum og rauðvín að drekka með. Ég fékk þó að halda mig við hvítvínið. Stuttu fyrir tíu voru dregnir út fimm veglegir happdrættisvinningar og svo var eftirrétturinn, volgur "súkkulaðidraumur" með ganacefyllingu og vanillurjóma, borinn fram. Með þessu fengum við freyðivín. Selma og Hansa komu og sungu nokkur lög og um ellefu tók hljómsveitin Land og Synir við. Það var mikið stuð allan tímann og ég held að allir hafi skemmt sér hið besta. Við Davíð fengum far heim að dyrum. Okkur stóð til boða að kíkja í partý og heitan pott en þegar við vorum komin heim var úr okkur allur vindur svo við slepptum því.

- formúlan -

Þótt ég færi seint að sofa var eitthvað sem dreif mig á fætur rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun til að fylgjast með formúlunni. Líkt og síðast var þetta mjög spennandi keppni þótt línurnar um efstu sætin lægju fyrir er keppnin var rúmlega hálfnuð. Schumacher er greinilega orðinn óvanur að ræsa með einhvern fyrir framan sig því hann gerði afdrifarík ökumannsmistök er hann ók á Trulli í annarri beyjunni eftir startið. Þetta kostaði það að heimsmeistarinn þurfti að koma inn og láta skipta um framvæng hjá sér auk þess sem hann fékk víti og þurfti að aka í gegnum þjónustusvæðið. Alls fór hann því fjórum sinnum inn. Raikkoinen vann sinn fyrsta kappakstur og þrátt fyrir flensu náði Alonso þriðja sætinu. Og nú er fullt af köppum með átta stig...

...helgin

var semsagt þrælfín. Ég lagði mig aftur eftir formúluna og klukkan var byrjuð að ganga tvö áður en við fórum á fætur. Fengum okkur afgang af sallati sem Davíð útbjó á föstudagskvöldið. Svo fórum við í göngutúr upp í Perlu. Þar fengum við okkur ís og kakó (Davíð) og ég skyrtertusneið og kaffibolla áður en við sóttum bílinn. Það voru greinilega fleiri sem höfðu geymt bílinn sinn við Perluna frá því kvöldinu áður því er við vorum sest niður með kaffið og það var kastað á okkur kveðju... Fórum í smá bíltúr áður en við fórum heim aftur en til stóð að Davíð og tölvufélagar hans tækju leik. Það varð ekkert úr því þannig að við spiluðum Yatsý með sex teningum. Um sex fórum við á American Style. Er við komum þaðan bjó ég til kaffi. Davíð lagði af stað austur upp úr klukkan hálfátta að sækja strákana en ég fór í videóleiguna og leigði The Bourne Identity...

22.3.03

- Laugardagur -

Það er margt í gangi í dag;

Davíð var að leggja af stað með strákana austur til Tomma með viðkomu í Grafarvoginum til að kippa vinkonu bróður síns með. Við erum semsagt að leysa út afganginn af jólagjöfinni frá honum. Hann gaf okkur m.a. þetta fína gjafabréf þar sem hann bauðst til að hafa strákana frá rúmlega hádegi á laugardegi fram yfir kvöldmat á sunnudegi. Og það kemur sér aldeilis vel að geta leyst þetta út einmitt þessa helgi. Ég var að vísu á báðum áttum því Davíð Steinn er búinn að vera slappur, en hann er hitalaus og vonandi slær honum ekki niður.

Dreif mig á lappir klukkan sex í morgun til að fylgjast með seinni tímatökunni fyrir formúlukeppnina á morgun. Það var virkilega spennandi að fylgjast með framvindu mála en engan veginn hægt að spá í keppnisáætlun liðanna. Nú er bara spurningin hvort ég hafi heilsu í að horfa á beina útsendingu í fyrramálið eða endursýninguna upp úr hádegi. Sem betur fer ætlar systir mín taka upp keppnina fyrir manninn sinn.

Klukkan korter fyrir sex eigum við Davíð að vera mætt upp í Perlu ásamt flestum vinnufélögum mínum og mökum þeirra. Þar er sögusýning í gangi og auk þess verður boðið upp á fordrykk og jafnvel ræðu. Rútur munu svo flytja mannskapinn vestur á Seltjarnanes þar sem aðalhátíðin mun fara fram í félagsheimilinu. Skrifa meira um þetta eftir helgi, þegar ég er búin að upplifa þetta allt saman.

Við Davíð getum líka haldið upp á sjö ára brúðkaupsafmæli í dag!!!

21.3.03

Vinnuvikan að klárast...

...og hún verður í styttra lagi hjá mér. Davíð Steinn vaknaði skælandi um fimm í morgun með sáran verk í öðru eyranu. Ég fékk Davíð til að taka fyrriparts-vaktina því ég er ein í kortadeildinni á morgnana og þar fyrir utan átti ég von á kortaflóði í morgun. Flóðið reyndist í minna lagi og alveg viðráðanlegt.

...en HÚN á afmæli í dag. Til hamingju með daginn Bidda mín!!!

20.3.03

- Dimmur fimmtudagur -

...og þá eru ósköpin hafin og hver veit hvar þetta mun enda...

Hann var svalur um hálfátta er ég labbaði í vinnuna. Var frekar sein að öllu þannig að ég náði ekki að fá mér neitt að borða áður en ég dreif mig af stað. Hluti af því var örugglega það að ég var ekki dugleg að koma mér á fætur. Ég lék nefnilega lausum hala í gærkvöldi. Davíð var að æfa sig fyrir keppnina í kvöld svo ég dreif mig í Hafnarfjörðinn í heimsókn til samstarfs- og vinkonu minnar. Ég kom heim alltof seint eða um hálftólf og þá tók það mig um klukkutíma að fá manninn til að hætta í tölvunni...

Vaknaði upp í nótt um korter yfir þrjú við það að annar strákurinn var að kalla á mig (Var ekki Bush með ávarp til bandarískuþjóðarinnar um það leyti...?). Það var Davíð Steinn sem sagði að sér liði hræðilega illa. Hann var brennheitur. Ég tók hann upp í til okkar og þar var hann í rúman hálftíma en þá vildi hann fara í sitt rúm aftur. Útvarpið fór í gang um tuttugu mínútur yfir sex samkvæmt venju á virkum degi en ég var alls ekki tilbúin að fara á fætur. Það tók mig góða stund að rífa mig upp og fara í sturtu...

Davíð Steinn mældist ekki með neinn hita svo við sendum hann í skólann. Vonandi helst hann frískur pilturinn en líklega má ég eiga von á því að hann sé að fá flensuna...!!!

19.3.03

...og vikan hálfnuð...

Það er stutt í næstu helgi en mér sem finnst síðasta helgi vera nýliðin. Það er nóg að gera hjá mér hér í vinnunni og einhverra hluta vegna er eitthvað um að vera hjá mér næstu helgar svo langt sem ég sé... Ætli það sé ekki bara ágætt!

Annars er ég búin að komast að því hvar nýja vinnan hennar er. Eftir kóræfingu í gærkvöldi skrapp ég inn í Eymundsson í Austurstræti og þar var hún að afgreiða með bros á vör...

18.3.03

- Sandkassaleikur -

Það er nokkuð ljóst að Bush ætlar sér að ráðast inn í Írak. Hann setur fram skilyrði sem hann er viss um að Hussein muni ekki fara eftir og þó svo ólíklega vildi til að farið yrði að fyrirmælunum þá finnur Bush bara einhverja aðra ástæðu. Stór bilað ástand!!!

17.3.03

- Afmælisdagur -

Þar skall á mig ár í viðbót og er það vel! Hálf-fertug, en mér finnst skemmtilegar að líta svo á að ég og Sonja vinkona mín séum sjötugar saman í dag. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN, SONJA MÍN!!! Við kynntumst í Fjölbraut á Selfossi og það tók okkur næstum því allt fyrsta skólaárið (84-85 (svo feimnar vorum við);-). En kannski er vinátta okkar betri fyrir vikið og ekki skemmir að vera fæddar sama dag sama ár...

16.3.03

- Sunnudagur -

Helgin byrjaði ansi skrautlega en Oddur ældi út alla sængina sína og koddann aðfaranótt laugardags. Davíð var tillölulega nýkominn heim úr vinnupartýi og ekki sofnaður svo við hjálpuðumst að við að verka strákinn, skipta um lak, færa Davíð Stein upp í eftri koju og skola rúmfötin. Settum handklæði undir höfðalagið á stráknum, fötu við rúmstokkinn og breiddum bara teppi yfir hann. Við urðum ekki vör við frekari uppköst en Oddur sagði mér um í gær-morgun að hann hefði kyngt öllu því sem ætlaði upp úr honum, oj, oj....

Bauð Önnu frænku yfir í gær og við bjuggum til tvær pizzur saman. Mjög ljúffengar og matarmiklar. Var búin að bjóða Esther (dóttur Lilju vinkonu í London) en hún var að flytja nú um helgina svo ég hef ákveðið að hafa aftur pizzudag annan sunnudag. Sonur kunningja okkar, 13 ára gutti, fékk að vera hjá okkur milli hálfátta og ellefu á meðan foreldrarnir skruppu í leikhús. Við urðum nú lítið vör við strákinn því hann fékk að vera í tölvunni mest allan tímann og var hann ekkert óhress með það.

Annars hef ég verið iðin við að fylgjast með heimsmeistara-mótinu í frjálsum íþróttum sem var haldið í Birmingham nú um helgina. Þetta var sannkölluð veisla. Spenna í sjöþrautinni, heimsmet í stangarstökki kvenna (því miður komst Þórey Edda ekki í úrslitakeppnina en það munaði bara fimm sentimetrum og ég hef grun um að hún eigi mun meira inni...), skemmtilegar hástökkskeppnir, hlaupagreinar spennandi og fleira og fleira...

Setti á eina rjómatertu í dag og var með lambahrygg í kvöldmatinn, svona forskot á morgundaginn...

14.3.03


Green



You are a very calm and contemplative person. Others are drawn to your peaceful, nurturing nature.




Find out your color at Stvlive.com!






Ég er Kristín Kötterheinrich!
Þú ert Kristín Kötterheinrich. Þér er ekki
sama hvað aðrir kennarar segja um bekkinn og ert mikill aðdáandi þýsks aga.
Ágætis manneskja.



Taktu "Hvaða kennari 4.B ert þú?" prófið





- Föstudagur á ný -

Helga systir var forsjál, að koma við í Nóatúni á leiðinni heim í gær, og taka með sér tilbúinn kjúkling í matinn. Hulda var orðin lasin og um leið og mamma hennar kom heim vildi hún alla hennar athygli. Maturinn var því borðaður óvenjulega snemma eða rétt fyrir fimm. Strákarnir fóru svo að heimsækja ein vin sinn. Davíð kom um hálfsjö og komu strákarnir inn með honum og festust fyrir framan sjónvarpið. ...(Fyndið annars þetta snjókross) Klukkan var sjö er við kvöddum mæðgurnar. Davíð Steinn fékk allt í einu þá hugmynd að labba heim, sagðist verða að hreyfa á sér fæturnar. Davíð labbaði með honum en við Oddur keyrðum heim og var hann byrjaður að læra þegar nafnarnir komu. Næsti klukkutími fór í að hjálpa drengjunum við heimalesturinn, fá þá til að klára skriftina og hátta sig, gefa þeim hressingu, biðja þá að tanna sig og fylgja þeim í rúmið...

- Um sprautumálin -
Þegar ég hitti Odd í gær spurði ég hann hvernig hefði gengið í sprautunni. Hann sagði að það hefði gengið vel. "Varstu að plata mig?", sagðist hann hafa sagt við þann sem sprautaði því sá (eða sú) hafði sagt að þetta væri pínu vont... Svo kom reyndar í ljós að Oddur hafði ekki verið svo samvinnuþýður í byrjun. Neitað að láta sprauta sig og skælt mikið...

Ég fæ að hætta fyrr í dag og fara að jarðarförinni!

13.3.03

Sitt lítið af einu og öðru.

Oddur Smári hafði orð á því í gærkvöldi að hann vildi ekki fara í skólann í dag. Ég vissi vel afhverju. Í dag á að sprauta krakkana við menigokokkum-c (heilahimnubólgu-tegund). Strákarnir komu heim með tilkynningu þar sem hægt var að afþakka slíka sprautu með því að skrifa niður nafn barnsins og kvitta undir. Oddur var búinn að skrifa niður nafnið sitt og bróður síns á blaðið sem hann fékk. Ég ræddi aðeins um þessi sprautumál við hann og held að mér hafi tekist að róa hann og undirbúa undir sprautuna.

Davíð Steinn kom heim með tvær skriftarbækur og líklega er sessunautur hans og bekkjarsystir svekkt yfir að hafa ekki getað skrifað neitt í gær. Krakkarnir fá skriftarbókina heim með sér á miðvikudögum og eiga þá að skrifa fyrri þrjár línurnar af sex. Hinar þrjár línurnar skrifa þau á fimmtudögum og skila svo bókunum til kennara á föstudögum.

Ég var tilbúin með áætlun þegar Davíð kom heim með strákana úr fótboltanum í gær. Það yrði ekkert kveikt á tölvunni, ekki horft á sjónvarpið en það væri möguleiki að leigja spólu ef við værum búin að fara aðeins yfir gólfin fyrst. Davíð leist auðvitað ekkert á þetta (skiljanlega). Þó varð endirinn sá að hann ryksugaði á meðan ég skrapp út í leigu (voru það ekki alveg jöfn skipti?). Reyndar sá ég um matinn og frágang í eldhúsinu, setti í eina þvottavél og skúraði svo inni á baði og eldhúsgólfið er ég kom úr leigunni...

...Leigði annars K-19 The widowmaker. Hún er alveg ágæt.

12.3.03

- Miðvikudagur -

Vikan er komin á skrið og áður en maður veit af verður komin helgi. Það er víst ekki hægt að stöðva tímann og það borgar sig alls ekki að reyna að elta hann uppi. Best er bara að reyna að njóta augnabliksins...

Ég mun sennilega ekki leika lausum hala í kvöld. Allavega ekki undir sömu formerkjum og tvö síðustu miðvikudagskvöld. Davíð snéri laglega á mig núna. Æfði og eða spilaði sunnudags-, mánudags- og þriðjudagskvöld en svo verður engin keppni í kvöld. En það er að fæðast hjá mér frábær hugmynd (vonandi) (Svona nokkurs konar krókur á móti bragði, eða þannig). Ef þetta heppnast hjá mér mun ég örugglega skrifa um það á morgun og kannski hvort sem er...

11.3.03

- Eftirfarandi samræður milli systur minnar og Odds Smára áttu sér stað í gærkvöldi:

- Oddur, afhverju ertu strákur?
- Af því ég fæddist strákur.
- En afhverju er Hulda stelpa?
- Nú af því að hún fæddist stelpa.
- Hvernig veistu að þú ert strákur en ekki stelpa?
- Það er munur á strákum og stelpum.
- Hver er munurinn?
- Strákar geta ekki farið í kjóla!!!
(Hmmm, hugsaði ég með mér. Hvernig fékk hann þetta út og hvað með grímubúninga, leikbúninga og dragdrottningar?)

10.3.03

- Formúlan -

Ef að komandi tímabil verður eitthvað í líkingu við fyrstu keppnina þá vil ég helst ekki missa af neinni keppni í ár. Keppnin um helgina var einhver sú mest spennandi í þrjú fjögur ár!!! Fyrir keppnina rigndi og veðjuðu sum liðin á regndekk, þar á meðal Ferrari. Þetta reyndist kolröng ákvörðun því brautin var fljót að þorna og þá tættust regndekkin upp. Barrichello var fyrstur til að falla úr keppni og þurfti að kalla út öryggisbíl. Þeir sem voru á regndekkjum notuðu tækifærið og komu inn í þjónustuhlé. Schumacher, Montoya, Räkkionen og reyndar fleiri voru allir líklegir til að vinna og var keppnin milli Þjóðverjans og Finnans mjög spennandi. Aftur þurfti að kalla út öryggisbíl og eins og alltaf áður græddu margir á því en sumir ekki. Það fór í raun lítið fyrir Coulthard mestan hlutann af keppninni en hann nýtti sér mistök margra og kom sá og sigraði! Nú get ég varla beðið eftir næstu keppni...

9.3.03

-Grímuball - 75 (40+35) ára afmæli og fleira

   Seinni partinn í gær fór ég á fullt að hanna grímubúninga á okkur Davíð. Tók fram gamalt sængurverasett, klippti fyrir hálsmáli og armgötum og svo vel neðan af verunum. Fékk Davíð til að rétta fyrir mig úr tveimur vírherðatrjám sem ég saumaði fast eftst í verin. Á koddaverin klipptum við smá göt fyrir augu og nef en gáfum okkur ekki tíma til að setja víra á þau.
   Davíð sótti barnapíurnar okkar um átta leytið og um hálfníu skelltum við búningunum aftur í bílinn. Klæddum okkur í múnderinguna fyrir utan þar sem veislan fór fram og birtumst svo með stæl. Vel var tekið á móti okkur. Sumir föttuðu strax að við vorum "hjónasængur" en aðrir vildu meina að við værum konur frá Afganistan og einn hélt því fram að við værum Osama bin Laden. Í afmælisveislunni voru allskonar verur á sveimi t.d. Karíus og Baktus, Eiríkur Fjalar, einn strumpur, Pokahontas, norn, prinsessa og fleiri og fleiri.
   Reyndar var þetta brúðkaupsveisla í leiðinni því yngra afmælisbarnið tilkynnti það að hún og kærastinn hefðu verið gefin saman deginum áður (mér fannst þau líka vera í frekar flottum grímubúningum, búin sem brúðarpar, og svo var þetta ekta...) Öllum gafst kostur á að taka þátt í karaoke og konan sem stjórnaði því var iðin við að taka myndir sem má finna á þessari síðu Karaoke. Þetta var mjög skemmtileg veisla og áður en maður vissi af var klukkan orðin eitt og söngdótinu var pakkað saman. Við Davíð fórum upp úr því.
   Ég keyrði barnapíurnar heim og svo setti ég mig í formúlustellingar en um það skrifa ég á morgun eða mjög fljótlega því það var hreint mögnuð keppni sem ég verð að tjá mig um óþreytt og í betra stuði.

8.3.03

- Formúla 1 tímatökur -

Ó, já, þetta er allt að komast í gang. Ég stillti útvarpsklukkuna á 02:30 og fór að sofa um hálfellefu (bara rétt á eftir strákunum sem fengu að horfa á Disney-mynd kvöldsins). Davíð notaði tækifærið og var að leika sér allan þennan tíma (milli 22:30 og 03:15 þvílíkt úthald enda endist hann ekki alveg út tímatökurnar;-). "Fjörið" byrjaði um 03:00 að íslenskum tíma. Tímatökur daginn áður ráða því í hvaða röð ökumenn fara út. Heimsmeistarinn Schumacher var reyndar óhress með að þurfa að byrja tímatökurnar á föstudag en mér fannst hann bara setja nokkuð góðan tíma. Barrichello, Räkkionen og Villenauve náðu samt betri tíma og sá fyrstnefndi alveg ótrúlega góðum tíma. Minardi-maður, Wilson (einn af nýju köppunum) var með lakasta tímann og því fyrstur út í gær. Ég hélt að hann væri að gera mistök þegar hann kláraði ekki tímatökuhringinn en þegar liðsmaður hans, Verstappen gerði slíkt hið sama var ljóst að Minardi ætlaði ekki að setja neina tíma og þar af leiðandi ekki að taka þátt í aðalkeppninni... Tímatökurnar runnu nokkuð vel áfram. Gott var að geta einbeitt sér í að fylgjast bara með einum í einu. Titilhafinn var semsagt fjórði síðastur í röðinni og náði besta tímanum. Ég tók samt eftir því að það var bara svipaður tími og daginn áður. Villenauve náði ekki að bæta þennan tíma og Finninn ungi hafði verið svo óheppinn að eyðileggja aðal-bílinn á æfingum fyrir seinni tímatökur og var á varabílnum. Eitthvað var að hjá honum því hann flæktist fyrir Barrichello. Barrichello náði öðrum besta tímanum en ég er viss um að hann hefði náð ráspól ef hann hefði ekki verið truflaður.... Það er samt spennandi keppni framundan og nú veit enginn hvenær hver þarf að fara inn í þjónustuhlé!

Annars þarf ég að fara að snúa mér að því að útbúa grímubúninga á okkur Davíð fyrir kvöldið... (Meira um það á morgun eða eftir helgi)

7.3.03

-Bara smá hífuð...!!! -

Ég var að koma heim... Davíð sótti mig í vinnuna um fjögur og svo var ég svo ljónheppin að mamma bauðst til að skutla mér á Hótel Sögu þegar hún kom heim með strákana úr handboltanum. Já, ég var á hótel Sögu. Fékk boðskort frá Euro, sem nú heitir Masercard kreditkort hf. Það var boðið upp á léttar veitingar, ég tók þátt í happdrætti og svo var líka kynning á starfsemi sl. árs og því sem er framundan. Þetta var auglýst frá 17:00-19:00 og er ég kom út um sjö biðu feðgarnir eftir mér. Þeir höfðu hætt við að fara í fótboltann því þeir höfðu gleymt að taka með sér íþróttaskó og treystu sér ekki til að æfa skólausir...
- Föstudagur - (sá 10. á nýja árinu)

Ég var nýlögð af stað heim þegar Davíð hringdi og spurði hvort hann ætti að sækja mig. Hann var kominn heim og búinn að sækja strákana í skólann. Ég sagðist ætla að labba og koma við í fiskbúðinni. Strákarnir voru nefnilega að tala um það að það væri orðið langt síðan þeir hefðu fengið "kóngafisk" svo ég var ákveðin í að bæta úr því. Systir mín og hennar litla fjölskylda var búin að afboða sig því þau voru boðin annað. Ég lét því alveg duga að kaupa eitt flak. Þetta hitti í beint í mark og var borðað vel af þessu. Laxinn eldaði ég í örbylgjuofninum. Svo sauð ég hýðishrísgrjón, gufusauð grænmeti og steikti lauk, hvítkál, sveppi og papriku... (ég fæ bara vatn í munninn. Ég var svo heppin að það var afgangur fyrir mig til að taka með í vinnuna).

Það gerðust undur og stórmerki í gærkvöldi!!! Davíð tók sér frí frá tölvunni. Ég var eiginlega nokkra stund að fatta þetta og melta en þegar málið lá ljóst fyrir var sko slökkt á sjónvarpinu. Ég vildi njóta þess að hafa manninn bara fyrir mig, spjalla, fá sér smá kaffi og hafa það kósí saman.

Í morgun vöknuðu allir á svipuðum tíma þannig að við gátum borðað morgunmatinn saman. Davíð ákvað að keyra mig í vinnuna svo ég gat tekið því rólega. Þetta er í lagi stöku sinnum. Ég hef samt mjög gott af því að ganga...


... mig setur hljóða. Ég var að fá þær fréttir að einn vinnufélagi minn hafi misst konuna sína í nótt. Sl. vikur hefur verið vitað hvert stefndi en ferlið hefur samt gegnið alltof hratt fyrir sig því þau vissu það bara um síðustu áramót að hún væri veik...

6.3.03

- Venjulegur fimmtudagur -

Það voru ánægðir strákar sem komu heim úr skólanum í gær. Hátíðin hafði heppnast mjög vel og svo komu þeir heim með nokkra öskupoka með sér og voru að "lauma" á okkur fullorðna fólkið. Grey Ingvi mágur var stunginn í bakið...

Og ég lék lausum hala í gærkvöldi. Ég var komin til vinkonu minnar vel fyrir klukkan hálfníu og við spjölluðum, saumuðum og göntuðumst. Smástund síðar að mér fannst spurði ég hvað tímanum liði og þá var klukkan orðin hálfellefu. Svo tók það góðan hálftíma að koma sér af stað heim.

Í heimleiðinni renndi ég við í 10-11 í Lágmúlanum (þar sem er opið allan sólarhringinn). Það kom mér á óvart hversu mikið var að gera þarna á þessum tíma; hátt á annan tuginn var þarna í svipuðum erindagjörðum og ég...

5.3.03

Það er komið að mér að elda í kvöld. Og svo þegar strákarnir eru komnir í rúmið ætla ég að leika lausum hala. Davíð verður í tölvunni í allt kvöld, að keppa. Hann var reyndar í allt gærkvöld að æfa sig svo það er spurning hvort ég eigi þá ekki að leika lausum hala á þriðjudagkvöldum líka. Það er áhugaverður möguleiki...
- ÖSKUDAGUR -

Davíð stoppaði mig af áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Hann bauðst til að keyra mig svo ég gæti séð hvernig strákarnir fóru búnir í skólann. Það var vel þess virði. Ég var búin að sjá búningana en það var enn betra að sjá þá í þeim. Oddur eins og geimkarl og Davíð Steinn sem Ninja. Þeir voru líka ánægðir strákarnir. Samkvæmt skilaboðum frá skólanum áttu krakkarnir að mæta í búningum en þó verður hefðbundið skólastarf fram að hádegi. Hátíðin heftst upp úr hádeginu. Ég hlakka til að hitta drengina eftir vinnu og skóla og heyra um hvernig allt var...

4.3.03

SPRENGIDAGUR

...saltket og baunir.... TÚKALL! ...ég ætla upp í mat í hádeginu, það er öruggt!!!

Það var yndislegt að labba í vinnuna í morgun (og reyndar í gær líka). Alveg logn og þótt jörðin sé grá er vor í lofti. Magnað! Það er samt nokkuð víst að við megum eiga von á páskahreti... ...en því að hafa nokkrar áhyggjur af því fyrr en þar að kemur?!?!?!!!

3.3.03

- BOLLUDAGUR -

Við Davíð vorum ekki vakin með flengingum í morgun (eins og "lög" gera ráð fyrir). Við vorum bæði komin fram úr og ég var að leggja af stað í vinnuna er Oddur kom fram. Það er vetrarfrí í skólanum í dag og á morgun og ætlar mamma að redda okkur eins og oft áður.

Ég verð að geta þess að handklæðið sem Oddur gleymdi annan daginn í sundinu hefur skilað sér heim.

2.3.03

Heyrði í Oddi um hálfátta er hann fór á klósettið. Um átta vaknaði Hulda og Davíð Steinn ekkert svo löngu síðar. Plantaði börnunum fyrir framan teiknimyndarásina og leyfði mér að kúra til klukkan að verða níu. Þá bjó ég til graut handa stelpunni og fann til brauð handa strákunum. Rúmlega tíu leyfði ég Davíð Steini að hringja í Ragnar Pál (sonur bekkjarbróður míns úr grunnskólanum á áttunda ári. Þeir eru búnir að þekkjast guttarnir í rúm þrjú ár...) til að spyrja hvort þeir bræður mættu heimsækja hann upp úr hádeginu. Það var víst auðsótt mál. Ragnar Páll átti heima í Ártúninu (bara rétt hinum megin við hólinn) en í nóvember sl. flutti fjölskyldan upp í hæð. Strákarnir héldu áfram að horfa á sjónvarpið en við Hulda röltum yfir til Steina föðurbróður míns (Steina afa eins og krakkarnir kalla hann). Eftir stutt stopp héldum við frænkur gönguferðinni áfram og fórum á Lund, elliheimilið á Hellu, þar sem við kíktum til Ólu (eftirlifandi konunnar hans Steina í Gutt. sem ég minntist á um daginn).

Um leið og strákarnir voru búnir að borða hádegismatinn löbbuðu þeir af stað upp í hæð. Mikið á ég annars orðið stóra stráka... Ég hringdi í vinkonu mína á Hvolsvelli og þegar ég var búin að ganga frá fórum við Hulda austur eftir og stoppuðum við í góðan einn og hálfan tíma.
Ég hrökk upp um hálffjögur í nótt (eða eldsnemma í morgun...;-) við það að ég heyrði í barni. Það var ekki um að villast, Hulda var að kalla. "Hvað nú?", hugsaði ég með mér "ætli hún sé búin að missa eða týna dulunni?" Þegar ég opna inn sagði hún strax: "Anna frænka, hvar er litla barnið mitt?" (Lítil dúkka sem hún hafði komið með austur). Sem betur fer vissi ég nokkurn vegin hvar dúkkan var, fann hana fljótt og rétti Huldu, bauð aftur góða nótt og skreið inn í rúm. Hulda var glað-vöknuð og næstu tvo tímana heyrði ég hana spjalla við litla barnið, syngja og klappa saman lófum. Einu sinni kallaði hún aftur á mig og var það vegna þess að hún gat ekki klætt dúkkuna...
Mamma kom með Huldu til mín um ellefu-leytið á laugardaginn. Við strákarnir vorum tilbúin svo ég hringdi á Selfoss, fermdi bílinn, kvaddi manninn og ók af stað. Var komin í Fossheiðina rétt rúmlega tólf og var ekkert að flýta mér enda alltof langt síðan ég var þar síðast. Rétt fyrir þrjú héldum við samt ferðinni áfram á Hellu og var ég hálfhissa að sjá að pabbi var kominn á undan þótt ég vissi að von væri á honum heim eftir þriggja daga legu, þræðingu og fleira. Krakkarnir fóru öll út að hjóla og leika sér en við pabbi fórum í gegnum það hvort okkur vantaði eitthvað úr búðinni. Það reyndist ekki vera.

Dagurinn flaug áfram. Við vorum með matinn um sex og ég setti Huldu í rúmið um hálfátta. Hún sofnaði eiginlega á stundinni. Eins og venjulega leyfði ég strákunum að horfa á Spaugstofuna áður en þeir fóru í rúmið. Þeir voru líka fljótir að sofna. Þá laumaði ég mér út úr húsi og inn í annað (til eldri konu sem ég er búin að þekkja lengi) neðar í götunni. Stoppaði góða stund en var komin tímanlega "heim" áður en Taggart byrjaði.
(Birta er semsagt jafnaldra strákanna og voru þau saman á leikskóla en nú er hún í Háteigsskóla (þar sem þeir eiga reyndar skólasókn líka ef þeir væru ekki í Ísaksskóla)).
Það er kominn mars, mánudagur handan við hornið og skemmtileg helgi rétt að verða liðin. Fyrst verð ég að segja frá hvað ég heyrði strákana mína og Birtu vinkonu og jafnöldru vera að tala saman um seinni partinn á föstudag. (Verst bara að ég veit ekki hvort og þá hver aðdragandinn var) Ég var að leika mér í tölvunni, krakkarnir eru nýkomin inn og ég heyri allt í einu að Birta segir: "Það var gott, Oddur, að þú drukknaðir ekki í fyrra!" Ég legg eyrun við og Oddur svara sallarólegur: "Já, þá hefði þurft að jarða mig." "Og þú gætir ekki farið núna og hitt Ragnar Pál", bætir bróðir hans við, "þú værir ekki til lengur." Lengri urðu þessar pælingar ekki. Skömmu seinna var Birta sótt og strákarnir Davíð kom og fór með strákana á fótboltaæfingu.