29.12.19

Rólegheit

Tíminn heldur áfram að líða á ofurhraða, sama hvort maður er slakur eða stressaður. Ég var komin austur á Hellu um hálfsex á Þorláksmessu. Síðustu ca 15 km var farið að loga merkið í mælaborðinu um að það væri ójafn þrýstingur á dekkjunum. Það merki hefur ekki komið upp í mjög langan tíma. Staldraði við hjá pumpunni við Olís en hún var eitthvað biluð eða lét amk ekki að minni stjórn.

Við pabbi vorum komin á Kanslarann um sex, hann í annað sinn þennan dag. Ég fékk mér tvisvar á diskinn af skötunni, seinna skiptið til að fá mér meira af sterkari gerðinni. Á aðfangadagsmorgun skruppum við pabbi á pósthúsið. Pabbi átti þar sendingu frá Bríeti en hún hafði bakað hálfmána handa afa sínum. Við feðginin komum líka við í búðinni því ég taldi mig þurfa að fá grænar baunir með jólamatnum. Þegar við komum úr þessum leiðangri sýndi pabbi mér hvernig maður getur notað tæki sem fylgir með bílnum til að pumpa í dekkin. Við pumpuðum í öll dekkin en reyndar ekki nógu mikið eins og seinna kom í ljós, merkið var enn í mælaborðinu þegar ég lagði af stað í bæinn upp úr hádeginu á annan í jólum.

Eldaði lambahrygg handa okkur pabba á aðfangadag sem við borðuðum með öllu tilheyrandi hlustandi á jólamessuna á RÚV. Þrátt fyrir að vera bara tvö voru nokkuð margir pakkar, flestir til mín. Ég fékk m.a. 3 bækur, vöfflujárn, einstakan bolla, flík, reykelsi og gjafabréf með icelandair. Pabbi var ánægður með krossgátubók ársins 2020, tuskurnar og sundhetturnar. Jóladagurinn einkenndist af miklum rólegheitum, lestri og smá prjónaskap. Pabbi hafði soðið hangiket stuttu fyrir jól svo það þurfti aðeins að sjóða kartöflur og útbúa jafning.

Annars fór ég á bókasafnið helgina fyrir jól, skilaði fimm bókum af átta og tók fjórar með mér heim. Er búin að lesa þessar þrjár og eina af hinum. Mæli sérstaklega með eftirfarandi bókum: Gríma eftir Benný Sif Ísleifsdóttur og Þú og ég og allt hitt eftir Catherine Isaac.

Á leiðinni í bæinn á annan í jólum kom ég við hjá Olís vestan við Ölfusá til að pumpa í dekkin á bílnum og fyrst þá losnaði ég við merkið úr mælaborðinu. Var mætt í vinnu korter fyrir átta á föstudaginn var. Kaldavatnslaust var í Seðlabankanum en við vorum fjórar sem stóðum vaktina í kortadeildinni, framleiddum dagsskammtinn og fengum svo að fara heim rétt upp úr hádegi. Þetta var minn síðasta vinnudagur á þessu ári því ég ákvað að taka mér orlofsdag á morgun 30. og er ekki ein af þeim fáu sem þarf að vinna á Gamlársdag.

22.12.19

Vetrarsólstöður

Jæja, nú fer daginn að lengja aftur smátt og smátt. Rétt rúm vika eftir af þessu herrans ári 2019 og 2020 handan við hornið. Ég er í bænum þess helgina, ætla að keyra út síðustu böggla og jólakort núna á eftir og pakka mér svo niður í kvöld þannig að ég verði tilbúinn í að bruna austur á Hellu eftir vinnu á morgun. Strákarnir eru báðir að vinna á morgun og annar þeirra til þrjú á aðfangadag en hinn á annan í jólum. Þeir tóku lokaákvörðum, rétt eftir sl. helgi, um að vera í bænum yfir jólin og fara til pabba síns á aðfangadagskvöld.

Ég fór í sund upp úr klukkan átta í gærmorgun. Fyllti svo á bílinni á Sprengisandi áður en ég fór í esperanto til norsku vinkonu minnar. Við skiptumst á pökkum og jólakortum og ég stoppaði hjá henni í um tvo tíma. Síðan lá leiðin á þvottastöðina Löður við Granda. Þar var biðröð en ég ákvað samt að bílnum veitti ekki af smá afskolun svo ég fór í röðina. Svo fór ég í Krónuna til að kaupa hráefni í jólagraut. Kom heim um hálftvö og skildi ekkert í því að það var ljós í næstum öllum herbergjum. Annar strákurinn var að vinna og hafði farið út á undan mér og það var lokað inn til hins. Sá kom fram stuttu síðar og skýringin á ljósunum var sú að hann hafði einhent sér í það að verka gólfin í holinu, eldhúsinu, stofunni og inni á baðherbergi og var búinn að ryksuga og skúra. Sá fékk nú aldeilis knúsið frá mér því þetta sparaði hellingstíma. Var búin að sjóða 2l af þykkum grjónagraut tæpum tveimur tímum síðar sem ég kólna í pottinum í köldu vatni í eldhúsvaskinum. Ég sauð einnig hangiket og kældi og var þetta allt komið inn í ísskáp í gærkvöldi.

Var mætt í sundið stuttu fyrir klukkan níu í morgun. Synti 600m á 25 mínútum þar af 150m á bakinu. Fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í þann heitasta og endaði í gufunni áður en ég fór inn að þvo mér um hárið. Á heimleiðinni kom ég við í Kvikk í Öskjuhlíðinni og fékk mér einn kaffibolla hjá Oddi. Kaffið er reyndar frítt í desember en Oddur hefur alltaf boðið mér upp á kaffi ef ég hef verið á ferðinni þegar hann er á vakt. Oftast er ég líka að "heimsækja" hann gagngert til þess að fá mér kaffi en þó ekki alveg alltaf.

12.12.19

Loksins var sá kaldi opinn

Á eftir að skrifa á 14 jólakort, kaupa 3 jólagjafir og pakka öllum gjöfum inn. En það eru enn 12 dagar til jóla. Þarf aðeins að ljúka við að pakka inn gjöfunum til fjölskyldunnar á Akureyri. Þau koma suður nú um helgina en verða, aldrei þessu vant, heima hjá sér um jólin.

Annar sonurinn er á aukavakt upp í Öskjuhlíð. Hinn er á frívakt í dag og hann fékk far með mér upp í Kringlu þegar ég var á leiðinni í sund seinni partinn. Í sundi synti ég 600 metra, allt á bringunni. Svo var kallað á mig frá potti sem er oftast kallaður ásinn eða númer 1 og var 38°C áður en er nú orðinn kaldi potturinn í Laugardalnum. Hann var semsagt opinn og vel kaldur í dag. Fór þrisvar sinnum 3 mínútur í þann kalda, alveg súper ánægð með að geta kælt mig niður. Endaði reyndar á því að taka snögga kalda sturtu áður en ég fór upp úr og heim.

Kringlufarinn var kominn heim löngu á undan mér og byrjaður að elda.

11.12.19

Lukkugrís

Rétt fyrir klukkan hálfátta í kvöld fékk ég sms frá HHÍ, í annað skiptið á árinu. Fyrir tveimur mánuðum fékk ég skilaboð um 12000kr vinning og í kvöld vann ég 20.000kr. Miðinn kostar 1600kr. á mánuði svo ég er að græða 12.800kr. þetta árið. Ekki slæmt og verður þetta lagt beint inn á viðhalds- og sparireikninginn minn upp úr miðjum mánuðinum.

Þar sem veðurspá gærdagsins var óvenju slæm en ekki alveg vitað hversu mikið yrði úr veðrinu hér á Reykjavíkursvæðinu fengum við þau skilaboð frá framlkvæmdastjóra um að fara heim strax eftir daglega framleiðslu. Ég var komin heim um hálfeitt í gær en stoppaði ekki lengi. Fékk mér að borða og hlustaði á afganginn af hádegisfréttunum áður en ég dreif mig út með sundtöskuna mína. Kom við á tveimur stöðum á leiðinni í Laugardalinn. Fór með buxur af Oddi í viðgerð í Saumsprettuna við Síðumúla og póstlagði eitt bréf og keypti 11 frímerki, 10 innanlands og eitt til evrópu, í leiðinni. Var komin á planið við Laugardalslaug og ákvað að heyra aðeins í pabba áður en ég drifi mig í sundið. Við pabbi spjölluðum í tæpar tíu mínútur. Þegar ég hins vegar kom að inngangi laugarinnar var miði sem á stóð að það yrði lokað klukkan 14 vegna veðurs. Það gaf auga leið að 20 mínútur eru ekki langur tími svo ég frestaði sundför og fór beinustu leið heim.

Heima byrjaði ég á því að hella mér upp á kaffi. Oddur Smári fór í vinnu rétt fyrir þrjú og kom heim aftur rétt fyrir klukkan níu. Davíð Steinn átti að vinna á N1 við gangveg frá 10-22 en það var ákveðið að loka stöðinni um klukkan sjö og fékk hann far heim.

Þegar ég fór á safnið fyrir tæpum hálfum mánuði fór það alveg framhjá mér að ein bókin var á skammtímaláni. Ég fékk skilaboð frá safninu að skiladagur á; Mínus átján gráður eftir Stefan Ahnhem, uþb 500bls. bók sem ég er ekki byrjuð á. Ákvað að athuga hvort ég gæti framlengt skilafrestinum og það gekk eftir. Þarf ekki að skila bókinni fyrr en 27. desember n.k.

Fór í sund á fimmta tímanum í dag. Kaldi potturinn var lokaður og það er búið að hreinsa allan dúk í kringum laugina og standa yfir heilmiklar framkvæmdir. Ég ákvað að nota strandskóna sem ég keypti á Kanarí í janúar til að labba á milli laugar og potta. Synti 500m og skrapp smá stund í tvo heita potta. Var komin heim aftur um sex.

Er búin að skrifa nokkur jólakort í kvöld. Eitt af þeim kortum fær far út á land með vinnufélaga sem ég er búin að þekkja síðan hann var bumbubúi sumarið 1982. Núna held ég að sé best að koma sér í háttinn og byrja á bókinni sem ég gat um áðan. Lofa þó að klára hana ekki í kvöld/nótt.  ;-)

8.12.19

Æðibunugangur á tímanum

Þessa helgina er ég í bænum. Það er aðventukvöld í óháðu kirkjunni í kvöld og ég hafði ætlað mér að mæta á þann viðburð. Nú býðst mér hins vegar að bjóða rúmlega mánaðar gamalli stúlku velkomna í heiminn og óska foreldrum hennar til hamingju í fylgd með móðurömmunni á svipuðum tíma og kirkjustundin hefst.

Það standa yfir framkvæmdir við Laugardalslaug. Lauginni er ekki lokað en það eru tilfæringar daglega svo það liggur við að maður villist á leiðinni út að laug og í pottana. Kaldi potturinn var tæmdur og lokaður á fimmtudaginn var en sá pottur sem hingað til hefur verið 38°C var breytt í þann kalda í staðinn. Byrjað var að dæla köldu vatni inn í hann e-n tímann eftir hádegi og þegar ég var á ferðinni á fimmta tímanum var hann kominn niður í 14°C og fór kólnandi í hverri ferð. Mun betra pláss í þessum potti. Ég fer sjaldan í sund á föstudögum en þegar ég mætti í gærmorgun var kominn lokunarborði á "nýja" kalda pottinn og borðinn var þar enn í morgun. Mánudagar eru sjóbusldagar en það verður fróðlegt að vita hvort sá kaldi verður opinn seinni partinn á þriðjudaginn og hvernig framvinda framkvæmdanna verður orðin.

Sl. sunnudag skrifaði ég fyrsta jólabréfið af þremur og 2 fyrstu jólakortin. Á leiðinni í bæinn kom ég við í Löngumýrinni en Jóna og Reynir verða hjá Gerði og fjölskyldu um jólin og þau ætla að taka jólakveðjurnar með sér út til Danmerkur. Ég hef ekki komist í skrifgírinn síðan um síðustu helgi en gerði heiðarlega tilraun til að byrja á enska jólabréfinu í gær, fékk andann ekki yfir mig því ég festist fyrir framan fótboltarásina frá klukkan þrjú. Og já, ég tók þá ákvörðun að taka heimilispakkann í áskrift til að byrja með þannig að ég verð áfram með aðgang að enska boltanum og sjónvarpi símans premium.

Ég langt komin með að lesa fjórðu bókina af þeim átta sem ég fékk lánaðar af safninu þann 29. nóv. sl. Þrjár bókanna voru eftir sama höfund og ég er nokkuð viss um að ég hef lesið amk tvær af þeim áður. Fjalla allar um sömu persónuna sem í fyrstu bókinni kom til Íslands eftir þriggja ára veru í Danmörku til að leita uppi týnda tvíburahálfsystur sína. Í seinni bókunum tveimur er persónan farin að vinna sem blaðamaður með nef fyrir fréttnæmum atburðum. Bókin sem ég er að lesa núna heitir Týnda systirin eftir B.A.Paris. Eiginlega alltof spennandi. Ég hef þó alveg getað lagt bókina frá mér inn á milli. Á eftir að lesa rúmlega 120 bls. af 308 og fyrst ég gat lagt frá mér bókina til að hella mér upp á kaffi og taka fram tölvuna til að blogga ætti ég að geta beðið með að halda lestri áfram amk þangað til í kvöld.

Á þriðjudagskvöldið var fór ég á dásamlega jólatónleika í Hallgrímskirkju. Fjórir kvennakórar sungu, þar af einn stúlknakór. Dagskráin var metnaðarfull og flott og í upphafi var tekið fram að slökka ætti á öllum símum, bannað að taka myndir og bannað að klappa á milli laga fyrr en dagskráin væri tæmd. Þriðja síðasta lagið var "Nóttin var sú ágæt ein" og þá voru tónleikagestir beðnir um að taka undir sönginn. Þessi einn og hálfi tími var algerlega magnaður.