29.9.15

Septembermánuður alveg að verða búinn

Eins og flesta virka daga aðra en miðvikudaga notaði ég rauða strætókortið til að ferðast milli heimilis og vinnu báðar leiðir í gær. Var komin heim fyrir klukkan hálffimm, hafði matinn tilbúinn upp úr sex og dreif mig svo í sund sem var bæði hressandi og endurnærandi. Ég var líka skynsöm og komin í háttinn fyrir ellefu en að sjálfsögðu las ég um stund áður en ég fór yfir í draumalandið.

28.9.15

Mega-hraði á tímanum

Það var líkt og sundkortið mitt hafi vitað að pásunni væri lokið í gærmorgun því það var komið upp úr veskisvasanum sem ég geymi það í þegar ég er ekki að nota það. Hugurinn var örugglega líka alveg tilbúinn í daginn því ég var vöknuð amk hálftíma fyrr heldur en ég hafði hugsað mér, þ.e. vel á undan vekjaraklukkunni. Ég var byrjuð að synda í Laugardalslauginni innan við hálftíma eftir að opnaði. Synti ekki nema 300 en fór þrjár ferðir í kalda pottinn, tvær ferðir á milli í 42°C pottinn, eina í sjópottinn og smá stund í gufuna. Var komin heim aftur rétt fyrir tíu.

Tæpum þremur tímum síðar var ég mætt í kirkjuna. Mættum sjö kórfélagar og það var alveg nóg til að sinna því verkefni sem við áttum að sinna, leiða messusvörin og sálmasönginn. Þurftum reyndar ekki að syngja nema tvo sálma þegar til kom en það höfðu verið settir þrír á töflunua og við höfðum rennt yfir þá alla um klukkustund fyrir messu. Messan sjálf var mjög hátíðleg og fjölbreytt en verið var að halda upp á að þann 21. sept. sl. voru liðin hundrað ár frá fæðingu séra Emils Björnssonar, fyrsta sóknarprest safnaðarins. Gítarspil var á undan sjálfri messunni, tvö af börnum séra Emils lásu fyrri og síðari ritningalestra, spiluð var upptaka af einni predikun sr. Emils, Ómar Ragnarsson var með smá ræðustúf um kynni sín af klerkinum og svo söng Geir Ólafs tvö Frank Sinatralög því 15. des n.k. verða liðin 100 ár frá fæðingu Sinatra. Á eftir var boðið upp á snittur og fleira góðgæti í efri safnaðarsalnum. Ég hjálpaði til við að ganga frá eftir veisluna.

Næst lá leiðin beint til norsku esperanto vinkonu minnar og stoppaði ég hjá henni í á aðra klukkustund. Kom við í Krónunni við Granda á heimleiðinni en klukkan var að verða sjö þegar ég skilaði mér heim.

27.9.15

Sundpásan búin sem betur fer

Ég rumskaði fyrst á níunda tímanum í gærmorgun en var ekkert að flýta mér framúr. Um níu var ég samt búin að taka utan af sænginni, koddunum og rúmdýnunni. Fékk mér morgunhressingu, kveikti á pabbatölvu en settist samt fyrst inn í stofu með síðustu ólesnu bókina af safninu; Dóttir mæðra minna eftir Sindra Freysson. Ég var einnig með saumatöskuna með mér en reyndar opnaði ég hana aldrei í allan gærdag. Ýmist las ég, spjallaði við foreldra mína eða vafraði um og lék mér á netinu.

Seinni part dags skrapp ég reyndar aðeins á elliheimilið til að heimsækja gömlu hjónin sem voru fyrst nágrannar okkar á Hellu og bjuggu á nr. 22. Árið 1976 var það hús enda húsið í götunni þegar pabbi og mamma tóku fyrstu skóflustunguna við hliðina. Gömlu hjónin voru nágrannar okkar til ársins 2000 en eftir skjálftann þá um sumarið var húsið þeirra dæmt óíbúðarhæft og einhverjum vikum síðar fengu þau íbúð við alveg nýja götu, Bogaslóð, rétt við Lund. Fyrr á þessu ári fékk gamli maðurinn að fara í hvíldarinnlögn á Lund. Hann er fæddur árið 1920 og bara nokkuð sprækur miðað við árin sem hann hefur lifað. Konan hans er sjö árum yngri og fljótlega fékk hún að koma og vera hjá honum og ég held að þau séu komin með fast pláss á elliheimilinu. Hún er síprjónandi og eftir hana liggja margir flottir hlutir. Hún prjónaði m.a. peysuna sem ég mátaði fyrir mömmu fyrr í sumar og er nú komin norður til Helgu systur enda var peysan alltaf ætluð henni.

Aðstoðaði mömmu smávegis í eldhúsinu en hún sá samt að mestu um að hugsa um kvöldmatinn. Eftir kvöldmat fengum við okkur kaffibolla og sátum að spjall til klukkan að ganga tíu en þá kvaddi ég og lagði í hann heim á leið.

26.9.15

Á æskuslóðum

Síðustu tveir vinnudagar vikunnar liðu nokkuð hratt og örugglega og að sjálfsögðu notaði ég rauða kortið í ferðirnar milli heimilis og vinnu. Þegar ég var á leiðinni heim upp úr fjögur í gær var ég orðin ákveðin í að drífa mig austur til foreldra minna strax um kvöldið. Mamma hafði haft af þessu veður, líklega af því ég minntist á það við pabba kvöldið áður að þetta væri að brjótast um í mér. Hún hringdi í mig á meðan ég var enn í strætó á leið heim. Ég sagðist myndu leggja í hann eftir kvöldmat þegar ég væri búin að sinna smá verkefnum heima fyrir. Ég var því mætt á Hellu í kringum hálfníu í gærkvöldi, klyfjuð eins og ég ætlaði mér að vera lengur en aðeins þessa einu nótt.  :-)

24.9.15

Skemmtilegur hittingur

Það var afar hressandi að fara fótgangandi til vinnu í gærmorgun. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt og þegar fór að líða að hættutíma hafði ég samband við einkabílsstjórann og bað hann um að sækja mig. Við notuðum ferðina til að kíkja í sport direct og athuga hvort hann fengi á sig úlpu þar. Það kom á daginn að það var til svona þrjár í einni í hans stærð og alls ekki svo dýr, eða innan við fjórtán þúsund. Keypti úlpuna á strákinn sem notaði hana strax seinna um kvöldið. Hann fór út að hitta vini sína og ákvað að borða með þeim. Ég útbjó kjöt í karrýrétt handa mér og hinum syninum.

Það var frí á kóræfingu í gærkvöldi. Rétt um sjö sá ég mynd og skemmtilegan status hjá stúlku sem ég er búin að þekkja síðan innan við fermingu en við kynntums fyrst sem pennavinir. Við myndina hennar setti ég athugasemd sem hún tók vel í og það varð úr að ég ákvað að drífa mig í heimsókn til hennar. Það var eins og við hefðum verið að hittast síðast í síðustu viku en við þurftum mikið að spjalla og kisurnar hennar tvær vildu líka fá pínu athygli. Kvöldið leið mega hratt og klukkan var farin að ganga ellefu þegar ég kvaddi með þeim orðum að við yrðum endilega að endurtaka þetta við tækifæri.

23.9.15

Fótgangandi í vinnuna í morgun

Vinnudagarnir líða hratt og örugglega og stundum þarf maður að passa upp á að drífa sig heim eftir að hafa skilað átta tímunum. Í gær notaði ég strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu og reyndi meira að segja að veifa rauða kortinu í gærmorgun. Vagnsstjórinn leit í allt aðra átt en sagði ekkert. Seinni partinn náði ég leið 13 beint heim rétt rúmlega fjögur og þá voru enn einhverjir að frétta af því að það var ókeypis með öllum vögnum amk í Reykjavík og nágrenni.

Heima byrjaði ég á því að búa til kaffi og hringdi svo austur í foreldra mína. Pabbi svaraði en það heyrðist alveg í mömmu inn á milli líka þótt hún sæti inni í stofu með prjónanana sína. Líklega hafði pabbi einnig setið inni í stofum með krossgáturnar sínar og svarað í þann síma sem var næstur.

Hélt mig annars heima við allt kvöldið og horfði m.a. á beina útsendingu frá landsleik Íslands og Hvíta Rússlands í fyrsta leik A-landsliðs kvenna í riðli til að keppa um sæti á EM-17. Auðvitað hefði ég átt að drífa mig á völlinn og styðja stelpurnar okkar þaðan en ég ákvað að vera nísk við sjálfa mig og þar að auki eiga kost á að sjá endursýningarnar.

22.9.15

Frítt í strætó í dag

Enn ein vinnuvikan er komin á skrið og virðist ætla að líða fljótt og vel. Að vísu var gærdagurinn heldur lengri í seinni endann en ég ætlaði mér en það var eitthvað sem ég hafði lítið val um. Var bara ánægð með að þegar ég tók strætó heim upp úr klukkan sex að vita það að vesenið var yfirstaðið, málin leyst og nokkuð víst að hægt væri að ganga til hefðbuninna skylduverka næsta vinnudag.

Heima hafði ég verið búin að taka út fiskiflök úr frysti til að steikja en ég ákvað að geyma þau áfram inni í ísskáp og setti upp kartöflur og sauð bjúgu, nokkuð sem ég hef afar sjaldan í matinn þar sem mottóið mitt er að reyna að hafa sem minnst unnin mat sem oftast á boðstólum. Annar sonurinn varð samt glaður við. Hinn var reyndar ekki komin heim úr skólanum og þegar hann kom klukkutíma síðar fékk hann sér afganginn af matnum frá því á sunnudagskvöldið, matinn sem hann hafði eldað sjálfur.

Kvöldið leið mega hratt en ég var komin í ró vel fyrir miðnætti eftir að hafa glápt smá á imbann og lesið um stund í síðustu ólesnu bókinni sem ég er með af safninu. Reyndar kom ný bókaklúbbsbók inn um lúguna í gær en hún bíður betri tíma.

Hluti afrakstur berjaferðar 6. sept. sl.


21.9.15

Eftir helgina

Enn einn mánudagurinn runninn upp og reyndar langt liðið á hann. En að venju ætla ég aðeins að punkta niður gærdaginn. Stillti ekki á mig neina klukku í fyrrakvöld og að þessu sinni svaf ég alveg til klukkan að verða níu. Þrátt fyrir að hafa ekkert ákveðið fyrir stafni framan af degi leið tíminn hratt. Um hálfþrjú hringdi norska esperanto vinkona mín til að láta mig vita að hún væri komin heim og tilbúin að fá mig yfir. Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar heldur tók saman esperantodótið og dreif mig af stað. Eftir smá krossgátur og smá esperantolestur ákváðum við að skreppa á bókamarkaðinn út á Granda. Þar voru margar freistingarnar en ég lét ekki freistast að þessu sinni en gaf mér engu að síður góðan tíma til að skoða og spá í úrvalið. Inger fann nokkrar bækur og þegar hún var búin að kaupa þær færðum við okkur yfir í Krónuna. Ég skilaði svo vinkonu minni heim um fimm leytið. Oddur Smári gekk frá vörunum og Davíð Steinn sá um kvöldmatinn.

20.9.15

Sunnudagur

Á fimmtudag og föstudag notaði ég strætókortið milli heimilis og vinnu, báðar leiðir. Hafði til kvöldmatinn upp úr klukkan sex og dreif mig svo fljótlega í sund. Fór tiltölulega snemma að sofa á fimmtudagskvöldinu en kvöldið eftir teygðist alveg til klukkan langt gengin í tvö aðfaranótt gærdagsins. Við Oddur Smári horfðum á síðasta þáttinn af "Criminal Minds" í þessari seríu og svo datt ég inn í verðlaunamyndina, Illskan. Síðan vafraði ég um á netinu í næstum klukkustund og las um stund eftir að ég var háttuð upp í rúm.

Fór ekkert í sund í gærmorgun en um ellefu leytið lögðum við mæðginin öll þrjú af stað austur á leið. Einkabílstjórinn stjórnaði bifreiðinni afar vel, ég sat við hliðina á honum og hinn bróðirinn aftur í. Foreldrar mínir tók afar vel á móti okkur og mamma fékk annan strákinn strax til að hjálpa sér við að setja hljóð á beina útsendingu úr Skautahöll Akureyrar þar sem fór fram keppni í listhlaupi á skautum og átti yngri systurdóttir mína að keppa um eitt leytið.

Ég stoppaði hins vegar stutt við í bili og var mætt í Odda stuttu fyrir hálftvö til að fylgja stúlku frá Hellu sem var örfáum árum yngri en ég. Hún var yngst af fimm systkynum sem ég þekki einnig ágætlega til. Athöfninni var útvarpað og ég ákvað að eiga stundina ein í bílnum. Hálftíma fyrir sjálfa athöfnina byrjaði organistinn og spilaði hugljúf lög. Sönghópurinn öðlingarnir sáu að mestu um sönginn og gerðu það svo vel. Maríanna Másdóttir frá Kirkjulækjarkoti söng einsöng í einu laginu og það var magnað á að hlýða. Presturinn sem sá um athöfnina, Guðbjörg Arnardóttir, er nýhætt að þjóna þessu prestakalli en hún bjó um árabil í Odda en var sett inn í embætti í Selfosskirkju fyrir örfáum vikum. Hún er frábær prestur og gerir allt svo látlaus og vel. Um það bil sem sem athöfnin var að klárast flyktist fólk úr bílum og safnaðarsalnum sem ekki hafði komist inn í kirkjuna og stillti sér upp í hálfboga skammt frá kirkjudyrunum. Eftir að hafa gert krossmark yfir kistunni, sem var stillt upp framan við safnaðarsalinn, og faðmað séra Guðbjörgu og tvíburabræður hinnar látnu keyrði ég til baka á Hellu og ákvað að þiggja veitingar í Íþróttahúsinu á Hellu í boði kvenfélagsins Unnar. Þá fékk ég tækifæri til að faðma börn, systur, foreldra og eitthvað af nánum aðstandendum hinnar látnu. Settist fyrst við borð hjá einni ungri stúlku, nýlega orðin 15 ára, og átti mjög gott og skemmtilegt spjall við hana um ýmislegt.

Skilaði mér í Hólavanginn upp úr klukkan hálffimm. Tveimur tímum seinna aðstoðaði ég mömmu við að undirbúa kvöldmatinn. Oddur Smári tók þátt í þeim undirbúningi. Kvöldmatur var borðaður eftir fréttatímann á RÚV. Nokkru eftir að búið var að ganga frá og vaska upp bauð pabbi upp á íspinna. Klukkan var orðin hálftíu áður en við mæðginin kvöddum. Einkabílstjórinn fékk að keyra, hinn sonurinn sat í framsætinu og ég "elti" bílstjórann.

17.9.15

Greinilega enn í frígírnum

Já, sæll, fimmtudagur er langt kominn og afar stutt í næstu helgi. Vikan hingað til hefur verið nokkuð góð bara. Á mánudagsmorguninn notaði ég strætókortið í fyrsta sinn þegar ég tók vagninn við Sunnubúð um hálfátta. Var mætt í vinnu tæpu korteri síðar, eiginlega of snemma því klukkuna vantaði enn meira en fimmtán mínútur í átta. Skilaði mér heim úr vinnu aftur um hálffimm. Hafði matinn rúmum klukkutíma seinna, bað strákana að ganga frá á eftir og dreif mig sjálf í kvöldsundferð. Það var nokkuð notalegt en mér fannst samt ég vera heldur þyngri á sundtökunum heldur en ég er snemma á morgnana.

Ég notaði strætókortið aftur milli heimilis og vinnu, báðar leiðir, á þriðjudaginn. Ég slapp við að hugsa fyrir eða taka til mat nema fyrir sjálfa mig því hér var haldið spilakvöld milli klukkan sex og hálfellefu og bræðurnir og vinirnir þrír sáu alveg um sig sjálfir.

Tilvonandi rafeindavirkinn minn þarf að mæta í tíma upp á Stórhöfða á miðvikudögum svo hann fær að nota strætókortið þá daga. Ég fór hins vegar af stað á lánsbílnum stuttu fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun og byrjaði á því að skreppa í Laugardalslaugina. Synti, fór í kaldan-, heitan- og sjó-pott og gufu og var síðan mætt í vinnu rétt fyrir átta. Náði að skreppa heim í um klukkustund áður en ég dreif mig á kóræfingu. Það leit í byrjun út fyrir að það yrði "messufall" en þegar við vorum mætt sjö þá var blásið í æfingu og það mjög góða æfingu. Æfðum eina Ave Maríu, tvö ný lög (þ.e. lög sem við höfum ekki sungið áður) og alla tese-sálmana í sálmabókinni. Fengum kaffipásu eftir um klukkustundaræfingu. Þegar ég skilaði mér heim aftur var spilahópurinn aftur á ferð. Þeir buðu mér að fá mér pizzu með sér og ég freistaðist í eina sneið.

14.9.15

Helgin leið hratt

Ég var vöknuð rétt upp úr klukkan sjö á laugardagsmorguninn. Kveikti á tölvunni áður en ég útbjó mér búst-drykk úr möndlumjólk og frosnum banönum, krækiberjum og spínati.  Út í þetta bætti ég nokkrum dropum af ólífuolíu. Laugarnar opna klukkan átta um helgar og um hálfníu dreif ég mig í Laugardalinn. Þar sinnti ég ákaflega hefðbundinni rútínu sem ég er búin að koma mér upp og var allt í allt um einn og hálfan tíma frá því ég mætti á svæðið og þar til ég settist aftur upp í lánsbílinn.
Síðan rúntaði ég upp í Mjódd (hefði getað farið á Hlemm) þar sem ég fjárfesti í RAUÐA-kortinu sem gildir 3 mánuði í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Ætlaði að skila inn fimm lesnum bókum af átta, var semsagt búin að gleyma því að Kringlusafnið opnar klukkan eitt um helgar. Að endingu kom ég við í Krónunni í Nóatúni og verslaði inn áður en ég skrapp heim til að ganga frá sunddótinu og vörunum og til að fá mér e-a hressingu.

Bræðurnir ætluðu að hafa "spilakvöld" heima og ég ákvað að taka saumadótið og smávegis fleira með í skreppu austur til foreldra minna. Þangað var ég komin um hálftvö og stoppaði ég til klukkan að ganga tíu um kvöldið. Mamma hjálpaði mér með að "hanna" stórt og lítið k til að sauma orðin; Kaffi og Kakó undir tvær af þremur saumamyndum á klukkustreng sem nú á bara eftir að skola úr, pressa og láta ramma inn áður en honum verður pakkað inn í jólapakka til systur minnar. Undir efstu myndinni var ég búin að sauma Espresso. Að sjálfsögðu setti ég einkennisstafina mína og ártalið undir.

Í gærmorgun vaknaði ég á svipuðum tíma og morguninn áður en var komin aðeins fyrr í Laugardalinn til að eiga nokkra tíma heima áður en ég mætti svo í upphitun fyrir tónlistarmessu í kirkju óhaða safnaðarins klukkan eitt. Við mættum aðeins sjö úr KÓSÍ og í fyrsta sinn voru karlaraddirnar í meiri hluta. Þetta kom nú ekki að sök því allt var einraddað og við kunnum þessa messu ágætlega. Í stað predikunar var leikrit sem stoppleikhópurinn var með og allt í allt tók messan um fimm korter. Ég skemmti mér ágætlega og fékk mér kaffi í "neðra" á eftir áður en ég fór heim til að undirbúa mig undir að mæta loksins aftur á "heimaleik" í knattspyrnu karla.

Strákarnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom úr kirkjunni. Ég byrjaði á því að hringja aðeins og spjalla við pabba áður en ég skipti um föt og ég hafði alveg tíma til að koma við og skila bókunum fimm á Kringlusafnið áður en ég mætti á leikinn, Valur - Keflavík, 3:2, sem spilaður var á Laugardalsvelli.

11.9.15

Fyrsti dagur í vinnu eftir næstum fimm vikna sumarfrí

Í gærmorgun skutlaði ég öðrum unga manninum í skólann þar sem ég var hvort sem er á leiðinni í sund. Tíminn hjá hinum unga manninum féll niður og hann ákvað því að leggja sig aðeins lengur en vinna svo að ákveðnum verkefnum heima.

Synti 400m og fór 3x2 mínútur í kalda pottinn, heitan pott á milli dýfinga og endaði í sjópottinum áður en ég fór í gufu og "sólbað" í lokin. Afar hressandi. Svo fór ég beint heim og sinnti hinum ýmsum málum og hugðarefnum, bæði áhugamálum og skylduverkum.

Sumarfríið er búið að vera ljúft, notadrjúgt og mjög skemmtilegt. Náði nú ekki að gera allt sem ég ætlaði mér en ég er amk úthvíld og hæstánægð með hvernig spilaðist úr þessum dögum.

10.9.15

Örfáar myndir frá Egilsstöðum og nágrenni (18.-24. ágúst)

 Þessa tók ég í spássitúr um svæðið morguninn eftir að ég kom til Egilsstaða
 Þessi er tekin sama kvöld.
 Tveim kvöldum síðar settumst við aðeins út með kertaljós og rautt og hvítt í glasi.
 Laugardaginn 22. ágúst skruppum við í sumarbústað til tengdaforeldra Ellu. Sá svo margt fallegt.
 Laga þurfti skiltið fyrir utan heima hjá Ellu og Aðalsteini. Hverfið þeirra var gult á Ormsteiti.
 Þessi er tekin sama kvöld af okkur vinkonunum á hreindýraveislunni í Kornhlöðunni.
Á sunnudeginum skruppum við inn í Hallormsstað. þar var margt að sjá.

8.9.15

Fyrirsögn

Eiginlega er ég ekki í neinu skrifstuði en langar samt að tæpa á því helsta sem á dagana hefur drifið. Mánudagsmorguninn 31. ágúst sl. kvaddi ég vinkonu mína, hennar mann og Egilsstaði og lagði af stað um hálfníu suðurleiðina til Hellu. Fór yfir Öxi og stoppaði þar stuttlega á tveimur stöðum. Næsta stopp var á Höfn um hádegisbil og þar splæsti ég kjúklingasallati á mig. Næsta stopp var á Hala í Suðursveit þar sem ég fékk að nota salerni og keypti mér kaffibolla og þjóðsögur á esperanto. Á leiðinni milli Hala og Víkur stoppaði ég stöku sinnum, m.a. við Jökulsárlónið. Þar var margt um manninn. Fékk mér aftur kaffi á Vík og eitthvað nasl með en stoppaði svo ekkert fyrr en ég kom á Hellu í kringum sjö leytið. Stoppaði hjá foreldrum mínum næstu tvær nætur en lauk svo hringferðalaginu seinni partinn á miðvikudeginum. Stoppaði heima fram á föstudag, heimsótti blóðbankann, endurnýjaði bókasafnsskírteinið, fékk lánaðar nokkrar bækur í leiðinni og gerði ýmislegt fleira af mér. En á föstudagskvöldinu fór ég aftur til foreldra minna og dvaldi þar fram á þriðjudaginn var. Ég skrapp m.a. í heimsóknir, saumaði út, las og við pabbi skruppum einnig í einn heljarinna berjaskoðunarleiðangur sem skilaði okkur bara smá sýnishornum af berjum.

4.9.15

Rótarfyllt

Í gær var liðinn rúmur mánuður síðan ég varð að heimsækja tannlækni vegna tannverkja sem reyndist vera tannrótarbólga. Komst sem betur fer að daginn eftir að ég hringdi því það var víst komin sýking í tvo ganga af þremur og náði sýkingin inn að beini í öðru tilvikinu. Ég var rúman klukkutíma í stólnum og svo sagðist tannlæknirinn þurfa að skoða þetta amk einu sinni aftur, ef ekki tvisvar og sendi mig út með lyfseðil upp á vikuskammt af sýklalyfjum. Í gær þurfti ekki að deyfa en ég var engu að síður um hálftíma í stólnum. Eftir smá snurfus var jaxlinn rótarfylltur og mér tjáð að ég þyrfti ekki að koma aftur nema þá í hefðbundið tanneftirlit. Þar sem ég veit að tannlæknirinn minn síðustu fimmtán-tuttugu árin er alveg að fara að hætta ákvað ég að fara í eftirlitið til þessa sama læknis og bjargaði jaxlinum mínum og fékk tíma seinni partinn í nóvember. Vonandi held ég tannheilsunni góðri á næstunni því það er miklu hagstæðarar fyrir budduna.

3.9.15

Dásamlega sumarfrí

Enn er vika eftir af sumarfríinu mínu þótt kirkju- safnaðarstjórnar- og kórstarfið sé formlega hafið. Reyndar mætti ég ekki í fyrstu messu haustsins þar sem ég var þá stödd á Egilsstöðum. Annars ætla ég aðeins að segja frá því helsta sem á daga mína hefur drifið svona rétt til að halda utan um þá fyrir sjálfa mig.

Tvíburarnir skelltu sér með mér í sundlaug Akureyrar að morgni 14. ágúst, einkabílstórinn fékk að keyra báðar leiðir. Þeir nýttu sér svo ferð móðurforeldra sinna suður seinna um daginn en ég var áfram alveg pollróleg. Við systur og yngri systurdóttir mín skruppum til Hríseyjar upp úr hádeginu á laugardag og fengum afar fallegt og gott veður. Á sunnudeginum fékkst Bríet til að koma með mér í sund á Akureyri þar sem við hittum "tvíburahálfsystur" mína og dóttur hennar sem er jafngömul frænku minni. Eftir sundið og smá næringu á eftir fékk Elísa að fara heim með Bríeti en við Sonja skruppum í jólahúsið.  Á mánudagsmorgninum skutlaði ég Bríeti á skautaæfingu um níu og sótti hana tveim tímum seinna. Helga systir kom heim úr vinnu upp úr tólf og um eitt skutluðum við Bríeti aftur á æfingu, fórum með flöskupoka í endurvinnslu og svo með Cöru, labradortíkina þeirra, á hundasvæðið við Háskóla Akureyrar. Á þriðjudagsmorgninum skutlaði ég Bríeti í skautahöllina um níu og skrapp í sund á meðan hún var í upphitun og á æfingu. Að þessu sinni "fann" ég loksins kalda karið við Sundlaug Akureyrar eftir að hafa verið bent á það í óspurðum fréttum í klefanum á leið út. Ég nýtti mér að sjálfsögðu karið nokkrum sinnum eftir að hafa synt svolítið fyrst.

Seinna þennan dag tók ég mig saman, kvaddi og hélt för minni áfram til Egilsstaða. Þangað var ég komin um sjö og tóku æskuvinkona mín og hennar maður vel á móti mér. Ella var byrjuð að vinna, undirbúa kennslu eftir sumarfrí og Aðalsteinn var að leiðsegja hreindýraveiði mönnum suma virku daga. Þau voru bæði farin þegar ég fór á fætur um hálfníu á miðvikudeginum. Veðrið var mjög gott og skrapp ég göngutúr fljótlega með viðkomu í vínbúðinni í bakaleiðinni. Dagarnir flugu hjá. Ég skrapp einu sinni í sundlaug Egilsstaða og þar var ég ekki í vandræðum með að finna kalda stampinn og nýtti ég mér hann að sjálfsögðu. Ég kíktí einnig á vinnustað einnar frænku minnar sem vinnur á minjasafni Austurlands. Við Ella brölluðum líka ýmislegt saman. Þessa sex daga sem ég dvaldi hjá þeim var hátíðin Ormsteiti í algleymingi og við drifum okkur á hreindýraveisluna á laugardagskvöldinu og þau svo áfram á ball með "Á móti sól" í Valaskjálf. Á sunnudeginum skruppum við aðeins inn í Hallormsstað fengum okkur smá göngu þar. Á mánudagsmorgninum reif ég mig það snemma upp að ég gat kvatt þau því ég lagði svo land undir hjól um hálfníu og keyrði alla leið á Hellu með smá stoppum hér og þar á leiðinni. Segi kannski stuttlega frá því ferðalagi seinna.