18.9.20

Vikan að verða búin

Það er kominn föstudagur. Tíminn brunar áfram hvort sem maður gerir eitthvað eða ekkert.  Á miðvikudaginn hitti ég þrjár af fjórum úr sjósundshópnum mínum í Nauthólsvík um það leyti sem opnað var. Það var svo mikil fjara að ég hafði það sterklega á tilfinningunni að við gætum vaðið alveg yfir til Kópavogs. Sjórinn var 9,3°, við svömluðum um í uþb tuttugu mínútur áður en við skelltum okkur smá stund í pottinn.

Skilaði sex bókum af níu á safnið og náði að koma mér út af safninu áður en ég fór að hamstra fleiri bækur þannig að ég er aðeins með þrjár af safninu í fórum mínum. Eina af þeim, Boðorðin eftir Óskar Guðmundsson byrjaði ég að lesa þetta kvöld og ég kláraði hana í gær. Eins og bókin byrjaði örlítið furðulega að mér fannst þá náði hún mér fljótlega og ríghélt.

Í gærmorgun ætlaði ég með bílinn í árlegt alþrif hjá Bónstöðinni við Stórhöfða. Þegar ég setti bílinn í gang fékk ég strax skilaboð um að athuga með loftþrýstingin á hljólbörðunum. Sú athugasemd hefur ekki komið síðan um miðjan júní. Ákvað samt að fara fyrst upp á Stórhöfða. Var mætt tíu mínútum fyrir níu. Það var ekki búið að opna og þá þegar var kominn einn í röðina. Eftir smá umhugsun ákvað ég að bíða með þetta verkefni aðeins lengur. Fór alla leið á N1 við Skógarsel til að nota pumpu þar.

Um hádegisbilið náði ég í sendingu frá húseigendafélaginu sem ég kom svo yfir á gjaldkera sameiginlegs húsfélags síðar um daginn. Kom einnig við í Fiskbúð Fúsa og keypti nætursalataða ýsu í soðið.  Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég dreif mig loksins í sund en það var vegna þess að ég ætlaði að hitta á kalda potts vinkonu mína um fimm en ætlaði að vera búin að synda áður. Það gekk eftir og ég var meira að segja búin að fara eina ferð í þann kalda og fór svo sex ferðir í viðbót.

15.9.20

Sjórinn seinnipartinn í gær morgunsund í dag

Hluti af gærdeginum fór í að sinna málefnum fyrir heildarsameign Drápuhlíðar 19-21. Sendi fyrirspurn á direkta til að fá tilboð í eignaskiptasamningsgerð fyrir allan húskassann, skrifaði inn á sameiginlega svæðið um nokkur atriði og sendi einnig póst á þann sem ætlar að vera milliliður milli okkar og verktaka til að upplýsa hann um stöðuna.


Sjósundshópurinn minn var allur mættur í Nauthólsvík um hálfsex í gær. Þar að auki var með annar afleggjari einnar úr grúppunni piltur sem varð tvítugur á hlaupársdag í ár (eða varð hann þá bara fimm ára?) Það var flóð, sjórinn 9,7°, lofthiti um 10°, rigninig á köflum en lítil ferð á logninu. Við syntum út að kaðli á 13 mínútum og svömluðum þar um í tæpar tíu í viðbót áður en við fórum upp úr og röltum í pottinn. Kvöddumst rétt fyrir sjö, allar á því að hittast aftur við opnun á miðvikudag, eða um ellefu á morgun.


Áður en ég fór heim reyndi ég að hringja í einn frænda minn. Var að fjárfesta í hakki hjá mömmu hans og átti að nálgast það til hans. Hann var á æfingu en ég náði sambandi við konuna hans og þegar hann hringdi til baka var ég á leiðinni að sækja hakkið. Þótt ég stoppaði ekki neitt náði ég að hitta aðeins á þennan frænda minn. Þegar ég kvaddi var klukkan að verða tuttugu mínútur yfir sjö. Ákvað að hringja í N1 soninn sem var á vakt til hálfátta við Gagnveg og sagðist vera á leiðinni að sækja hann.


Í morgun var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sex. Greip aðeins í bók; Selta [apókrýfa úr ævi landlæknis] eftir Sölva Björn Sigurðsson.  Ég er nýbúin að klára Ástin Texas: sögur, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Og þá er ég einnig búin með skammtímalánsbókina sem ég á að skila á fimmtudaginn. Fór á fætur korter fyrir sjö og bauð N1 syninum að skutla honum til vinnu. Hann þáði farið og náði þá að skreppa í sturtu áður en við þurftum að leggja af stað. Hann var mættur vinnu á slaginu hálfátta og ég í sund rúmu korteri síðar. Synti 500, kaldi 3x3mín, heiti 2x4mín og gufa í líklega tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.

14.9.20

Mánudagsmorgun

Ég var komin í bæinn rétt fyrir klukka sex í gær. Fór beint í sund og byrjaði á því að synda. Eftir 300 metra ætlaði ég að dýfa mér í kalda pottinn en hann var þá lokaður. Fór smá stund í þann heitasta og ákvað svo að kalla þetta gott í bili. Var komin heim fyrir klukkan sjö. Þurfti að leggja í Blönduhlíð en ég komst í einni ferð með allt dótið mitt, því já ég pakkaði fyrir viku þótt ég væri bara rétt rúman sólarhring. Hefði getað trítlað á Valsvöllinn og athugað hvort pláss væri fyrir mig sem einn af 200 áhorfendum en ákvað að kíkja bara reglulega á stöðuna á mbl.is-beinum lýsingum.

Klukkan var alveg að detta í miðnætti þegar ég slökkti á leslampanum á náttborðinu mínu seint í gær. Engu að síður var ég vöknuð fyrir klukkan sjö. Þar sem ég má ekki mæta á vinnustað í þessari viku, kveikti ég bara á útvarpinu og lá fyrir aðeins lengur. Var samt komin á fætur áður en klukkan varð átta. Er búin að senda af stað fyrirspurn til fyrirtækis sem heitir direkta og gerir m.a. eignaskiptasamninga og biðja um tilboð í að gera  heildareignaskiptasamning fyrir húsfélag Drápuhlíð 19-21.

Næsta mál á dagskrá er að fá sér morgunmat, lýsi, vítamín og hella upp á smá kaffi áður en lengra er haldið. Seinni partinn í dag ætla ég í sjóinn og hitta þar Helgurnar og systurnar. Hvað gerist í millitíðinni mun ég kannski segja frá síðar.

13.9.20

Í heimsókn hjá pabba

 Í gærmorgun var ég komin á fætur upp úr klukkan átta. Það var samt ekki fyrr en klukkan tíu að ég bjó til matarmikinn og þykkan hafragraut og hellti í leiðinni upp á 2 bolla af kaffi. Rétt fyrir ellefu var ég mætt í Nauthólstvík með sjósundsdótið mitt. Við mættum allar fimm úr nýstofunum svokölluðum boðsundshóp sem ég vildi nú frekar kalla; Helgurnar, systurnar og Anna. Hvað um það sjórinn og lofthitinn sá sami 10°C, fjara og við syntum út að kaðli á uþb 13 mínútum og svömluðum þar um í sjö mínútur í viðbót áður en við fórum upp úr og í heita pottinn.

Næst lá leiðin í Krónuna við Granda og áður en ég fór heim með vörurnar kom ég við hjá Oddi í Kvikk og sníkti einn bolla af kaffi. Heima gekk ég frá vörunum, sótti þvott á snúrurnar, pakkaði niður í tösku og bakpoka og kvaddi Davíð Stein áður en ég lagði af stað austur. Hringdi í pabba og tvíburahálfforeldra mína áður en ég lagði af stað og kom við hjá þeim síðarnefndu á leiðinni. Stoppaði innan við klukkutíma á Selfossi þrátt fyrir að langt er síðan ég kom þar við síðast en ég var komin á Hellu um fjögur. Við pabbi skruppum í búðina eftir nokkrum nauðsynjum. Í gærkvöldi gufusauð ég blómkál, niðurskorna karföflu og einn niðurskorinn lauk saman í potti og steikti marinerað bleikjuflak sem pabbi átti í frysti. Með þessu drukkum við vatn, hvítt (ég) og rautt (pabbi).

Þrátt fyrir að framundan sé vika sem ég verð að halda mig fjarri vinnustað er ég á leiðinni í bæinn. Ætla í sund, kannski á Valsvöllinn og svo þarf ég að afhenda nágrannanum í risinu, sem er að selja íbúðina sína, gögn frá aðalfundinum sem hún vill hafa aðgengileg fyrir tilvonandi nýja íbúa. Ég er líka með nokkur önnur markmið á prjónunum (fyrir utan tuskur) fyrir komandi viku. M.a. að splæsa á bílinn alþrif innan og utan líkt og ég gerði í fyrra.

11.9.20

Fyrsta grímu-uppsetningin

 Þrátt fyrir fínasta gönguveður fór ég á bílnum í vinnuna í morgun. Ég var í bókhaldsvinnunni og þar af leiðandi aðalsmiður skýrslugerð vikunnar til að upplýsa hinn hópinn um eitt og annað. Kalla þurfti til viðgerðarmann í þriðja sinn í vikunni en það náðist að ljúka deginum. Sumt var framleitt á þá gömlu vegna vesens á nýju vélinni. Held að hópurinn minn hafi komist klakklaust frá þessari viku og leyst flest verkefnin mjög vel af hendi. Ég kvaddi korter yfir þrjú og skildi hinar tvær eftir með viðgerðarmanninum sem vonandi var ekki lengur en til fjögur.

Var mætt á Kristu Quest við Laugaveg rétt fyrir hálffjögur. Klipparinn minn og aðrir á stofunni voru með grímur og ég var spurð hvort ég væri ekki með grímu á mér og beðin um að setja upp. Ég keypti pakka af grímum hjá Oddi um daginn og var búin að þvælast með hann með mér ýmist í handtösku eða bakpoka en aldrei að opna pakkann fyrr en núna. Nonni varð að kenna mér hvernig ætti að setja þetta upp. Hann klippti svo uþb 3 cm af hárinu mínu og hafði mjög gaman af að meðhöndla hárið mitt. Pantaði næsta tíma um miðjan mars, gerði upp og kvaddi tíu mínútm fyrir fjögur. Mikið var gott að losa sig við aðskotahlutinn úr andlitinu.

10.9.20

Fimmtudagskvöld

 Vinnudagurinn í gær varð lengri en til stóð. Labbaði til vinnu, sömu leið og dagana tvo á undan, og var mætt rétt upp úr klukkan hálfátta. Framan af gekk allt ágætlega. En rétt fyrir hádegi varð óvænt og furðuleg bilun í annarri kortavélinni. Náðum að ljúka sumum verkefnum á hina vélina. Klukkan var að verða hálfsjö þegar við gátum hætt, ekki alveg búnar en það sem útaf stóð kláraðist tímanlega í morgun áður en afhenda átti þetta út úr húsi.


Önnur þeirra sem vinnur með mér var svo elskuleg að bjóða mér far heim í gærkvöldi sem ég þáði með þökkum því ég átti að vera mætt til að undirbúa fund rétt fyrir átta og það var gott að fá smá tíma heima áður, heil þrjú korter. Fundurinn stóð yfir í rúma tvo tíma, aðeins lengri en við ætluðum okkur en það er amk búið að kjósa löglega stjórn sameiginlegs húsfélags við Drápuhlíð 19-21. Ég bauð mig fram til formanns og fékk ekkert mótframboð.


 bók sem er með stysta skilatímann af þeim bókum sem ég náði mér í sl. fimmtudag er ný með 14 daga skilafresti og heitir; Dóttirin eftir Anne B. Ragde. Ég er alveg að verða búin að lesa hana en það er búið að taka mig heila viku.

8.9.20

Hlustað á landsliðsleikútsendingu

Labbaði sömu leið til vinnu og í gærmorgun, Langahlíð, Klambratún, Flókagata, Gunnarsbraut, Snorrabraut og Skúlagata. 3 km á 33 mínútum. Ég var í bókhaldinu í dag. Við þrjár vorum að allan tímann til klukkan korter í fjögur, með tveimur hléum, morgunkaffi og hádegishléi. Reyndar byrjum við alltaf vinnudaginn á að setjast smá stund niður í kaffistofunni, fáum okkur vatnsglas og spjöllum við þá vinnufélaga sem setjast niður með okkur.


Leiðin heim lá yfir Skólavörðuholtið, yfir og undir brúna á gatnamótum Snorrabrautar, Bústaðavegs og Miklubrautar, Eskihlíð og Drápuhlíð frá no 1. 3 km á 34 mínútum. Var komin heim rétt fyrir hálffimm. Stoppaði heima í uþb hálftíma, nógu lengi til að hita mér tvo bolla af kaffi. Síðan lá leiðin beint í Laugardalslaugina. Ætlaði mér að synda smávegis en hitti á kaldapotts vinkonu mína og elti hana á milli kalda og heitasta nokkrar ferðir. Fór smá stund í gufuna á eftir og var komin heim um hálfsjö. Ekkert varð semsagt úr því að ég synti nokkuð. Davíð Steinn var að elda kvöldmatinn svo ég settist bara með prjónana og horfði á fréttir á Stöð2.

7.9.20

Vinnuvika hafin

 Labbaði af stað til vinnu rétt fyrir sjö í morgun, var um 35 mínútur að labba 3 km. Vinnudagurinn stóð yfir alveg til klukkan var orðin hálffjögur.  Framleitt var á tvær vélar, eina í einu þó því við erum bara þrjár.  Ein sinnir bókhaldinu en hinar tvær sinna framleiðslu, önnur að troða í og hin að taka á móti og skoða.    Skundaði beint heim og þótt ég veld aðeins aðra leið ein ég labbaði í morgun var þetta svipað langt og svipaður tími. Ákvað að hella mér upp á smá kaffi og fá mér síðdegishressingu. Stoppaði þó ekki heima nema í tæpan klukkutíma, var komin í Nauthólsvík um fimm. Sjórinn 10,2°C. Hitti tvær nöfnur úr fimm manna hópnum sem ég er komin í. Systurnar komu aðeins seinna en þær náðu okkur í heita pottinum.


Er byrjuð á tusku nr 2 úr garninu sem ég keypti í Söstrene Grene í síðustu viku.

6.9.20

Sunnudagur

 Já, ég er heima hjá mér. Gæti verið á Valsvellinum þar sem "stelpurnar mínar" eru að spila við stelpurnar í ÍBV og staðan 3;0 fyrir Val þegar uþb fimmtán mínútur eru eftir af leiknum.

Ég var komin austur upp úr klukkan eitt í gær. Pabbi fann handa mér fötu og áður en klukkan varð hálftvö var ég byrjuð að klippa sólberjaklasa af runnunum. Entinst við þetta í einn og hálfan tíma en þá var mér orðið heitt og ég orðin kaffiþyrst. Eftir kaffi settist ég smá stund við aðra tölvuna hans pabba en fljótlega færði ég mig inn í stofu og greip í prjónana. Klukkan fimm var pabbi búinn að kveikja á sjónvarpinu og stilla á Stöð2 Sport. Leikurinn var í opinni og saman horfðum við feðginin á seinni hálfleikinn. Stoppaði á Hellu til klukkan langt gengin í níu. Fór með sólberin beint til esperantó vinkonu minnar. Stoppaði örstutt hjá henni en var komin heim um ellefu.


Var búin að lofa N1 syninum að skutla honum á sunnudagsvakt klukkan tíu. Var ekki búin að ákveða mig hvort ég færi í sund á undan eða eftir skutlinu. Vaknaði klukkan átta og ákvað þá að fara í sund eftir skutlið. Bjó til hafragraut og settist svo um stund með prjónana mína. Sonurinn var mættur á vakt rétt rúmum fimm mínútum áður en hún hófst. Kom heim úr sundi um tólf og hef verið að prjóna síðan. Spurning um að breyta yfir í lestur...

5.9.20

Laugardagur

  1. Skrýtið þetta blogumhverfi, sífellt að breytast, en alltaf finn ég út úr því hvernig ég get skrifað og komið frá mér pistlum án þess að flækja mig of mikið í hlutunum. Var að koma úr sundi fyrir ca hálftíma. Er búin að drekka fyrsta kaffibolla dagsins og er á leiðinni að ná í næsta skammt áður en ég skrepp austur á Hellu. Til stóð að esperantóvinkona mín kæmi með mér en það breyttist á síðustu stundu. Var ekki búin að láta pabba vita annað en það að annað hvort kæmi hún með og ég við stoppuðum bara dagspart eða ég kæmi ein og myndi þá gista. Þrátt fyrir að verða ein á ferð gæti farið svo að ég stoppaði einungis fram á kvöldið. Það kemur allt í ljós. Ætla að tína af sólberjarunnunum, horfa á leikinn og verð amk með prjóna og bækur með mér í för.

4.9.20

Föstudagur

Tíminn heldur áfram að hraða sér eitthvert út í buskann. Ég á ekki í vandræðum með að nýta stóran hluta af honum í áhugamálin mín. Erfiðara er að deilda honum jafnt á milli sem er kannski allt í lagi. Eina stundina sit ég og prjóna tuskur eða sjöl (reyndar ekki með neitt sjal á prjónunum núna). Svo koma tíma þar sem ég er niðursokkin í lestur og eins og ég gat um í gær er ég með nóg af lesefni í kringum mig.

Rumskaði upp úr klukkan sjö í morgun en líkt og í gær var klukkan byrjuð að ganga níu áður en ég dreif mig í sund. Þrjár ferðir í þann kalda, 400m, einu sinni í þann heitasta, gufubað og köld sturta á eftir. Kom heim upp úr klukkan tíu, hellti mér upp á fyrstu bolla dagsins og greip í prjónana.

Pabbi losaði sig um stund við þvaglegginn í gærmorgun og komst í sund í fyrsta skipti í rúman hálfan mánuð. Hitti svo lækninn á Landsspítalanum um eitt og fékk annan þvaglegg sem hann á að vera með í hálfan mánuð. Svo hann kemst ekki í sund á meðan. Erfitt þetta líf þegar aldur færist yfir og heilsu hrakar. Pabbi er samt hörkunagli og hjá honum hafa hingað til aldrei verið nein vandamál, hugsar alltaf í lausnum.

3.9.20

Líður á vikuna

Þegar ég fór á netið fljótlega eftir að ég bloggaði í gærmorgun biðu mín skilaboð frá sjósundsvinkonu minni frá því í fyrrakvöld um að hún kæmist ekki í sjóinn. Í smástund íhugaði ég að drífa mig þá frekar í sund en það varð ofan á að halda sig við ferð í Nauthólsvík klukkan ellefu um það leyti sem aðstaðan opnar. Varð að leggja við Nauthól, stæðin sem tilheyra Nauthólsvíkinni voru yfirfull af bílum námsmanna og/eða kennara við HR. Hitti á nöfnu sjósundsvinkonu minnar svo við vorum tvær mættar af fimm sem höldum hópinn. Svömluðum um í sjónum og spjölliðum saman í rétt tæpan hálftíma og fórum svo beint í sturtu og upp úr. Hún átti að mæta í vinnu um eitt. Ég fór beint heim aftur og hélt mig heima við það sem eftir lifði dags.

Var vöknuð um sjö í morgun, komin á fætur fyrir klukkan átta og lögð af stað í Laugardalslaugina upp úr klukkan átta. Fór tvær ferðir í kalda pottinn áður en ég synti 300m. Eftir þriðju ferðina í þann kalda endaði ég í góðri gufu áður en ég fór upp úr og heim. Hellti mér upp á kaffi, kveikti aðeins á tölvunni til að leggja út fyrir árgjaldi til húseigendafélagsins. Mun leggja inn þrjá greidda reikninga þegar sameiginlegt húsfélag verður kominn með sameiginlegan reikning og sjóð í hann.

Rétt fyrir ellefu lagði ég af stað í heimsókn til vinkonu vestur í bæ, ekki þeirrar sem býr á Sólvallagötunni heldur annarar sem ég var að vinna með einu sinni. Stoppaði hjá henni til klukkan að ganga tvö. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni við Granda, bókasafninu í Kringlunni, apótekinu í Kringlunni og einnig Söstrene Grene. Á safninu skilaði ég fjórum bókum af sex en tók sjö með mér heim í staðinn. Á síðastnefnda staðnum fjárfesti ég í 19 dokkum af bómullargarndi sem þvo má á 60°C, ætla að fara að prjóna fleiri tuskur og nota m.a. munstur út tuskubókinni sem tvíburahálfsystir mín lánaði mér.

2.9.20

September byrjaður

Mest allan daginn í gær, alveg frá því upp úr átti í gærmorgun, var ég á leiðinni í sund. Tilbúin með hárteygju um hægri úlnlið og skápateygju um þann vinstri. Hvort það var að ég hafði aðgang að tölvu N1-sonarins, var að lesa mjög spennandi bók (sem ég hef reyndar lesið áður), eymsli í öðru hnénu, leti eða bland af þessu öllu þá lauk deginum og gærkvöldinu án þess að ég færi út úr húsi.

N1 sonurinn var að vinna sína síðustu vakt í bili á stöðinni við Stórahjalla í Kópavogi en frá og með næsta föstudegi og fram yfir áramót verður hann í 100% stöðu á N1 við Gagnveg í Grafarvogi. Hinn sonurinn er með fastar vaktir hjá Kvikk í Öskjuhlíð, eitthvað innan við 100%. Önnur hver helgi frá hálfátta til tvö og mánudaga til miðvikudaga frá fjögur síðdegis til átta.

Seinni partinn á mánudaginn var hitti ég sjósundsvinkonu mína og þrjár til í Nauthólsvík og við ætlum að hittast aftur þegar opnar á eftir klukkan ellefu. Það er tilhlökkunarefni að hugsa til þess að fara að synda og svamla um í 12°C heitum sjónum en ég fatta ekki ennþá hvers vegna ég kom mér aldrei af stað í sund í gær.

31.8.20

Bíllinn kominn með skoðunarmiða til 2022

Ég kom í bæinn aftur rétt fyrir hádegi eftir að hafa gist tvær nætur á Hellu. Gerði mest lítið af mér fyrir austan. Steikti bleikju handa okkur pabba í hádeginu í gær og hafði hýðisgrjón með. Lauk við lestur þeirrar bókar af safninu sem ég þarf að skila inn eftir rúma viku; Tíbrá eftir Ármann Jakobsson. Fór í kaplakeppni við pabba og eyddi einnig tíma í einni af tölvunum hans.

Rétt fyrir eitt fór ég með bílinn í skoðun hjá Frumherja í Skeifunni. Komst strax að, fékk FÍB afslátt af verðinu og þurfti alls ekki að bíða lengi eftir niðurstöðu. Engar athugasemdir voru gerðar og ég þarf ekki að fara með bílinn aftur í skoðun fyrr en í ágúst eftir tvö ár.

29.8.20

Laugardagur

 

Laugardagur

Mín á leið í morgunsund.
Mögnuð verður potta-stund.
Kaffi fyrst,
dál'dið þyrst.
Seinna skrepp á föður-fund.

Þessi limra varð til á níunda tímanum í morgun. Mætti í sundið tæpum klukkutíma síðar og uppgötvaði þá að ég hafði gleymt að færa sundgleraugun úr sjósundspokanum yfir í sundpokann. Fór tvisvar í kalda pottinn og einu sinni í heitasta pottinn áður en ég fór út í laug. Áður en ég vissi af var ég búin að synda 500 metra á brautum 7 og átta á uþb tuttugu mínútum. Þá fór ég þriðju ferðina í kalda pottinn og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr. Kom við hjá Oddi í Kvikk við Öskjuhlíð. Um eitt lagði ég af stað austur lét pabba vita um tvö að ég væri komin í sýsluna en ég gerði smá stopp í Guttormshaga, fyrsta heimsóknin þangað ár.

28.8.20

Erilsöm vinnuvika

Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag lauk vinnuskyldu ekki fyrr en um fjögur. Á miðvikudaginn mætti ég í Laugardalslaugina klukkan að verða hálfsex eftir að hafa komið við í Fiskbúð Fúsa og keypt mér bleikjuflök. Fór beint í þann kalda og eftir smá stund kom kalda potts vinkona mín í sína þriðju ferð í kalda. Ég ákvað að elta hana á milli kaldasta og heitasta í nokkrar ferðir og það urðu 7 ferðir í kalda pottinn hjá henni en 5 hjá mér. Synti svo aðeins 300 metra áður en ég fór upp úr og heim. Báðir strákarnir voru að vinna, annar til hálfátta og hinn til átta. Ég eldaði samt öll þrjú bleikjuflökin og fyrir vikið átti ég afgang til að fara með í vinnuna í gær og í dag. Strákarnir fengu sér eitthvað pínulítið.

Í gærmorgun hafði sjósundsvinkona mín samband og lét vita að hún færi í sjóinn upp úr klukkan fimm og spurði hvort ég kæmi. Ég tók vel í það, sagðist líka þurfa að fá mér vetrarpassa í Nauthólsvíkina. Þegar vinnu lauk rétt fyrir fjögur var rigning og ég ekki í regnkápu. Var að spá í að hringja í einkabílstjórann sem var á frívakt en bauðst far með annarri samstarfskonu minni sem ég þáði með þökkum. Þar af leiðandi hafði ég smá tíma heima áður en ég dreif mig í sjósundið. Skilaði inn armbandinu sem ég keypti í janúar og fékk rúmlega þrjúþúsund króna afslátt af haustpassanum. Til stendur að koma upp sama kerfi og er í laugunum en þangað til er ég með smá spjald sem ég þarf að sýna. Vetrartíminn tók gildi sl. mánudag og nú er aðeins opið fimm sinnum í viku, lokað á föstudögum og sunnudögum. Þrjár aðrar mættu með okkur Helgu Rún og hún grínaðist með það að nú væri orðið vel skipað í boðsundssveit. Syntum og svömluðum í sjónum í tæpan hálftíma og sátum svo líklega annað eins í heita pottinum.

Smá tilraun

Hvað gerist ef ég prófa að blogga með því að velja titilinn sem ég bjó til síðast? Kemst að því rétt strax þegar ég prófa að birta þessi orð.

25.8.20

Vinnuvika í blússandi gangi

Á laugardagsmorguninn var hitti ég tvær Helgur í Nauthólsvík milli klukkan 10 og hálftólf. Syntum rólega í rúman hálftíma á flóði, uþb 700 metra. Um hálfeitt pakkaði ég niður í tösku og brunaði beint austur á Hellu til pabba og það fyrsta sem ég gerði þar var að setja í þvottavél. Eftir kvöldmat horfðum við pabbi á tónaflóð á RÚV. Morguninn eftir var ég frekar snemma á fótum til að geta sinnt þvottamálum frá A-Ö áður en ég færi aftur í bæinn. Náði að ljúka verkefnunum og eftir kaffi kvaddi ég pabba og dreif mig í bæinn og beinustu leið í sund. Ég ákvað svo að bjóða strákunum út að borða á Pítunni. Við Oddur sóttum Davíð Stein þegar hann var búinn í vinnunni klukkan hálfátta.

Í gærmorgun var ég mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Vinnudeginum lauk ekki fyrr en klukkan var orðin hálfníu í gærkvöldi og þá ákvað ég að við þyrftum ekki að mæta fyrr en um hálfníu í morgun. Það var samþykkt, bæði af okkur þremur í A-hópnum sem og af framkvæmdastjóranum yfir okkur. Ég vaknaði engu að síður rétt upp úr sex í morgun, nokkru á undan vekjaraklukkunni. Gaf mér góðan tíma í morgunverkin og bjó mér til kjarngóðan hafragraut. Labbaði af stað í vinnuna um hálfátta og valdi leið sem tók mig þrjú korter að ganga. Vinnudegi lauk um klukkan hálffjögur þá labbaði ég heim til að sækja bílinn, bókasafnsbækur og sunddótið. Skilaði báðum bókunum og fékk mér 6 í staðinn. Fékk smá áfall þegar ég kom í Laugardalinn, hafði nefnilega gleymt að setja niður sundbolinn sem ég nota mest þessa dagana. Til allrar hamingju þá var gamall aukabolur á botninum í sundtöskunni. Fór tvær ferðir í þann kalda, synti 300 metra á milli og endaði í gufunni. Kom aðeins við hjá Oddi í Kvikk við Öskjuhlíð áður en ég fór heim og eldaði plokkfisk úr fiskafgöngum síðan á föstudaginn var.

Vinnuvika í blússandi gangi

22.8.20

Ný framrúða

Ákvað að sleppa því að mæta í sund í gærmorgun þrátt fyrir að hafa vaknað það snemma að ég hefði geta mætt um leið og opnaði um hálfsjö. Bjó mér þess í stað hafragraut og hellti upp á tvo bolla af kaffi. Rétt áður en klukkan sló átta var ég mætt á bílnum, TMH 88, að fyrirtækinu Orka við Stórhöfða 37. Um leið og ég "skráði" hann inn í framrúðuröðina pantaði ég minnstu einingu af lakki til að bera á ljóta skrámu. Síðan tók við fyrsti labbi túr af  5, 1,1 km að næsta strætóskýli. Þar tók ég leið 6. Fór úr strætó einni stöð fyrr en ég þurfti, við Gerði en ekki Skeifuna en það gerði nú minnst til því tíminn var nógur. Ég rölti 2,2 km upp í Síðumúla og aðeins þar um því ég átti að vera mætt á fund hjá húseigindafélaginu klukkan hálftíu en var komin á þær slóðir hálftíma fyrr. Á slaginu hálftíu kom fulltrúi Drápuhlíðar 19 og um leið var okkur boðið inn á skrifstofu lögfræðings sem ætlar að hjálpa sameiginlegu húsfélagi til að halda sinn fyrsta aðalfund og stofna löglega stjórn. Fundurinn stóð yfir í innan við þrjú korter en ég var ánægð með hann. Ég fékk það verkefni að athuga með leigu á sal í viku 37. Labbaði svo af stað heim og kom við í Fiskbúð Fúsa, 1,7 km, þar sem ég keypti m.a. ýsu í soðið og svo heim, 1,5 km. Þarna var ég komin með yfir 9000 skref áður en klukkan var orðin ellefu. Um fjögur tók ég strætó við Klambratún og frá skýlinu á Höfðabakka við Dverghöfða labbaði ég uþb 1,1 km til að sækja bílinn. 20% af framrúðu skiptum, 0,25 lítrar af lakki og lítill brúsi af glæru efni til að setja undir gerðu allt í allt rúmlega fimmtíuogeittþúsund. En ég er sátt og nokkuð viss um að ég fæ skoðun á bílinn þegar ég vind mér í það verkefni fljótlega.

20.8.20

Sjórinn í gær sund í morgun

Um hálfellefu í gærmorgun hitti ég tvær Helgur í Nauthólsvík. Við svömluðum um í sjónum í uþb hálftíma og sátum svo góða stund í heita pottinum áður en við kvöddumst. Það er greinilegt að framhalds og háskólar eru að byrja því það var ekki hlaupið að því að fá stæði þrátt fyrir að það væru ekki margir í sjónum.

Í morgun var ég vöknuð fyrir klukkan sex en dreif mig ekki af stað í stund fyrr en klukkan var byrjuð að ganga níu. Í Laugardalnum var nóg af stæðum og lítil sem engin biðröð í pottana sem aðeins mega vera tveir í í einu.

Ég taldi mig vera búin að finna leið til þess að blogga án þess að skilja eftir mig tvöfalda yfirskrift en það að geta hent út annarri var aðeins hægt í örfáa daga. Ætla ekki að láta þetta fara í taugarnar á mér heldur leyfa þessu að standa svona, amk í bili.

19.8.20

Rúm vika

Á miðvikudaginn var, yfirferð á vélinni milli klukkan tólf og fjögur. Ég tók að mér að sitja yfir. Upp úr klukkan þrjú kom framkvæmdastjórinn yfir rekstrardeildinni í heimsókn og má alveg segja að ég hafi fengið einkafund með honum því hann stoppaði í amk tuttugu mínútur og spjallaði við mig. Hann sagði mér m.a. að A og B hópar myndu gilda eitthvað áfram þannig að ég fékk það alveg á hreint að ég mætti ekki mæta til vinnu í þessari viku.
Upp úr hádegi á fimmtudeginum, þegar allt daglegt var búið og við ætluðum að fara að halda áfram með endurnýjun, bilaði prentarinn. Það varð að kalla til viðgerðarmann og hann kom um hálfþrjú. Hann bjargaði málunum á tveimur tímum þannig að öruggt var að dagleg framleiðsla á form myndi ekki tefjast frekar.

Á föstudaginn var því hægt að halda áfram með endurnýjunina og vélin var látin ganga (með kaffi og matarpásu) til klukkan að byrja að ganga fjögur. Ein af okkur þremur hafði verið búin að semja um að hætta snemma og fór um tvö leytið. Hún var búin að sótthreinsa alla sameiginlega fleti í skrifstofurýminu. Við hinar tvær sótthreinsuðum sameiginlega snertifleti í framleiðslurýminu og skrifuðum smá stöðuskýrslu til þeirra sem tóku við í þessari viku. Ætlaði að skreppa í sjóinn með sjósundsvinkonu um fimm en veðrið var það gott að það var of margt um manninn í Nauthólsvíkinni að mínu mati.

Fór í sund á laugardagsmorguninn og um hádegið tók ég mig saman og dreif mig austur á Hellu. Var komin þangað um hálftvö ca tuttugu mínútum á undan systir minni, mági og eldri systurdóttur sem höfðu fengið pössun fyrir hundana og voru að koma að sækja yngri dóttluna sem vann í SS í allt sumar og þótti mjög dugleg. Seinni partinn þennan dag skruppu feðginin, sóttu eina vinnuvinkonu Bríetar, og fóru á skotæfingasvæði að æfa sig. Á sunnudagsmorgunin fóru þau svo í smá reiðtúr með sömu stúlku. Norðlenska fjölskyldan kvaddi um hádegi því þau áttu eftir að reka einhver erindi í bænum áður en þau fóru heim.

Ég stoppaði hjá pabba alveg fram á mánudagskvöld. Eins dugleg og Bríet var að þvo af sér flíkur og sængurföt þá voru ófá handklæðin og þvottastykkin sem söfnuðust upp. Ég setti fjórum sinnum í vél og hengdi allt út á snúrur og það er enn eftir að þvo amk tvær í viðbót.

Í gærmorgun átti pabbi tíma hjá þvagfærasérfræðingi í Glæsibæ um níu. Í ljósi ástandsins mátti hann bara mæta einn á svæðið. Ég hringdi hann seinni partinn í gær því hann hafði talað um það að hann ætlaði að snúast aðeins í bænum eftir læknisheimsóknina. Hann var kominn heim um hálffjögur og sagði að það hefði verið settur upp hjá honum þvagleggur og blaðran tæmd. Þvaglegginn á hann að hafa næstu tvær vikurnar og hann kemst ekkert í sund á meðan en þarf heldur ekki að nota bleyjur.

Rúm vika

9.8.20

Sunnudagur

Dagurinn í dag verður einn af þeim rólegri. Í gærkvöldi byrjaði ég á að lesa; Dauðar sálir eftir Angelu Marsons. Það var erfitt að leggja hana frá sér eftir að ég var byrjuð að lesa en mér tókst það þó um ellefu. Var sofnuð fljótlega en viti menn, ég var vöknuð upp úr klukkan þrjú og eftir hálftíma baráttu við að "berja" mig niður aftur kveikti ég á náttborðslampanum, náði aftur í bókina, setti upp lesgleraugun og las til klukkan að verða fimm. Þá náði ég að leggja aftur frá mér bókina og sofa til klukkan að verða átta. Verkefni dagsins verður líklega að klára þessa blessuðu bók, hún er það spennandi að hún rígheldur.

Í gærmorgun var ég ekki alveg viss hvort ég væri á leiðinni í sund eða sjóinn. Bjó til hafragraut handa okkur N1 syninum og bauðst til að skutla honum til vinnu rétt fyrir tíu. Hafði bæði sund- og sjódót með mér út í bíl. Sjórinn varð ofan á, 11,5°C heitur, flóð og ég ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Var þó ekki ofan í nema uþb tuttugu mínútur og svo tíu mínútur í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim.

Sunnudagur

7.8.20

Titill dagsins

Gærdagurinn var mjög rólegur langt frameftir degi. Korter fyrir átta í gærkvöldi sótti ég Lilju og saman brunuðum við í saumaklúbb til Sonju. Allar þrjár mættar semsagt og tíminn var alltof fljótur að líða. Spjall, föndur, prjón, kaffi og allskonar og allt í einu voru liðnir þrír tímar. Skilaði Lilju og varð svo að leggja í Blönduhlíðinni um hálftólf. Fór beint upp í rúm en fór ekki að sofa fyrr en klukkan var farin að ganga eitt.

Svo var ég glaðvöknuð um sexleytið. Fór á fætur um sjö og stuttu seinna bankaði ég á herbergisdyr N1 sonarins, sem betur fer. Hann var steinsofandi og átti að vera mættur til vinnu klukkan hálfátta. Ég skutlaði honum svo hann var ekki nema fimm mínútum of seinn. Sjálf dreif ég mig beint í sund í Laugardalnum. Það var rólegt og nóg pláss í flestum pottum og lauginni. Áður en ég fór heim eftir sundið skrapp ég í Krónuna vestur á Granda. Ætlaði líka að koma við í Fiskbúð Fúsa en þar er lokað vegna sumarleyfa til 10. ágúst. Geymi mér fiskibúðarferð þangað til.

Titill dagsins

6.8.20

Fimmtudagur

Í gær fór ég í sund rétt fyrir klukkan tvö og var komin heim aftur um hálffjögur. Þar sem mér tókst ekki sjálfri að tengja síman við bílinn bað ég Odd um að hjálpa mér áður en hann fór í vinnuna. Hann var snöggur að bjarga þessu en ég hreyfði bílinn samt ekki aftur í gær. Upp úr klukkan hálfsex var haldinn sameiginlegur fundur 19 og 21 á lóðinni fyrir framan hús. Fulltrúar úr öllum íbúðum nr. 19 mættu. Annar af þeim sem eiga kjallaraíbúðina okkar meginn (21) býr í London en hann gat samt "verið með" á fundinum þar sem haft var samband við hann símleiðis á myndforriti. Eigandi risíbúðarinna okkar megin er stödd erlendis og hafði látið vita í fundarboðinu að hún kæmist ekki í þetta sinn. Við vorum svo sem bara að ræða næstu skref. Við vorum búin að fá munnlega staðfestingu á því að verktakinn sem gerði lægsta tilboðið í fyrra væri til í að taka verkið að sér og leggja til grundvallar sama tilboðið. Samningurinn var og er mjög góður jafnvel þótt að hugsanlega gæti kostnaðurinn farið allt að 10% fram úr áætlun ef í ljós koma meiri skemmtir. Þar að auki er 100% af vsk af vinnu endurgreiddur í stað 60%. Reyndar er þessi breyting aðeins staðfest til áramóta en ef covid-19 er enn að gera usla í samfélaginu má alltaf vona að framlenging verði gerð á því. Við ætlum semsagt að fá verktakann til að meta hvort þurfi að gera bráðabirgðaviðgerð á slæmum lekamálum sem fyrst og semja svo um hvort hefja megi framkvæmdir með vorinu.

Fimmtudagur

5.8.20

Letiblóð

Seinni partinn í gær fór ég í fjórðu og síðustu heimsóknina til Pixí. Þótt kisan væri vör um sig var hún líka mjög forvitin um það sem ég var að sýsla við og þegar ég opnaði veskið mitt og tók upp tyggjópoka til að fá mér stökk hún upp í sófa. Hélt greinilega að ég væri þarna með eitthvað sem hún ætti að fá að smakka. Hún vildi líka bæði láta strjúka sér og leika við sig en ef ég hreyfði mig of hratt þá skaust hún alltaf hratt í burtu. Frænka mín og kærasti hennar kom heim í dag. Ég þorði samt ekki að skilja eftir húslykla frænku minnar ef eitthvað yrði til þess að heimför frestaðist.
Synir mínir er báðir búnir að aðstoða mig við að taka nýja símann í notkun. Ég verð örugglega einhvern tíma að venja mig við og læra á hann. Sumt sem virkar flókið í dag verður örugglega einfaldara og léttara með tímanum.

Ég er aðeins með tvær bækur af safninu og er að lesa þær báðar; Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Jónsdóttur og Flúraða konan eftir Mads Peder Nordbo.

4.8.20

Skrýtnir tímar

Ég stillti ekki á mig klukkuna áður en ég fór að sofa um ellefu í gærkvöldi. Var vöknuð um hálfsjö en það lá svo sem ekkert á að koma sér á fætur alveg strax. Þessa vikuna á ég að halda mig frá vinnu. Klukkan var byrjuð að ganga níu áður en ég fór á fætur. Útbjó mér skotheldan hafragraut, prjónaði smávegis og um hálftíu dreif ég mig í sund. Var búin að mæla mér mót við kaldapottsvinkonu mína upp úr klukkan tíu og ég ætlaði mér að vera búin að synda áður en við færum að pottormast saman. Ég var búin að synda og í minni þriðju ferð í þeim kalda þegar vinkonan mætti. Náði næstum því þremur ferðum með henni, en þar sem eru fjöldatakmarkanir í potta og ekki mega vera nema tveir var ég á undan í þann kalda síðustu ferðina áður en ég endaði í gufunni. Er nýlega komin heim og fyrir liggur að hella uppá, færa sim-kortið úr gamla í þann nýja, lesa, fara í síðustu kisuheimsóknina og fara vel með sig.

3.8.20

Sund og kisuheimsóknir

Ég skrapp í klukkutímaheimsók til kisu um klukkan fjögur á laugardaginn. Kisa var svolítið feimin við mig og var lengst af undir sófa. Ég skipti um vatn í skálina hennar og bætti á þurrfóðrið í matardallinn. Áður en ég fór hafði kisa fengið sér að borða og þefað af mér en hún vildi ekki leika við mig.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð Steini í vinnuna rétt fyrir tíu og fór beint í sund á eftir. Kom um hádegisbil. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég fór í heimsókn til kisu. Varð að ýta fast á dyrnar inn í íbúð því dyramottan var að þvælast fyrir. Kisa horfði hissa á mig þegar ég kom inn, hafði líklega verið að leika sér þannig að mottan færðist úr stað. Vatnið hennar var búið úr skálinni og bara lítið af mat eftir í dallinum. Hreinsaði upp kattarælu af mottu inni í stofunni áður en ég fyllti vatnsskálina og bætti í matardallinn. Kisan var farin undir sófa og var þar til ég leyfði henni að þefa af annarri hendi minni og fór að klóra henni í kjölfarið. Hún vildi meira að segja leika smá við mig. Stoppaði í hátt í tvo tíma.

Í morgun mætti ég í sundið um hálftíu. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn 2x og einu sinni í þann heitasta áður en ég fór að synda. Ég var svo í minni þriðju kaldapottsferð þegar kaldapottsvinkona mín mætti á svæðið. Við voru ekki búnar að mæla okkur mót en ég fór þrisvar í þann kalda með henni. Kom svo við í Kvikk í Öskjuhlíð og sníkti kaffi af Oddi sem stendur vaktina þar til klukkan tvö í dag.

1.8.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Ágústmánuður byrjaður

Fór ekki aftur af bæ eftir að ég kom heim rétt um tvö í gær. Sunddótið mitt var í bílskottinu og fékk að vera þar í nótt. Var komin í háttinn áður en N1 sonurinn kom heim úr vinnu en sl. fimm daga, daginn í dag og morgundaginn vinnur hann frá 10-22 við Stórahjalla. Ég var vöknuð tiltölulega snemma í morgun eða upp úr klukkan sjö. Nennti samt ekki alveg strax á fætur og milli klukkan átta og níu hlustaði ég á stórskemmtilegt viðtal við konu sem er fædd í Serbíu, alin upp í Kanada frá 4 ára aldri, kynntist íslenskum eiginmanni sínum í námi erlendis og flutti hingað til lands fyrir fjórum árum. Íslenskan er hennar 5. tungumál og hún talar hana mjög vel.
Rétt fyrir tíu skutlaði ég Davíð Steini á vakt og fór beint í sund á eftir. Aðeins tveir mega vera í einu í minni pottunum en ég þurfti aldrei að bíða í röð eftir að fara í þann kalda. Kom heim um hálftólf en á eftir að skreppa aðeins af bæ aftur og gefa kisu kærasta frænku minnar en þau eru bæði að heiman næstu fjóra daga.

31.7.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Helgin verður nokkuð löng

Um leið og ég var laus úr vinnu í gær sótti mig vinafólkið sem kom með mér á Snæfellsnesið um daginn. Þetta var rétt upp úr klukkan hálftvö. Þau voru að fara með mig í smá óvissuferð út úr bænum. Keyrðum Þrengslin og stoppuðum ekki fyrr en við komum að Strandakirkju. Eftir að hafa skoðað kirkjuna, nánasta umhverfi hennar og skrifað í gestabók ókum við smáspöl áleiðis að vitanum. Vegurinn var frekar grófur og við treystum ekki að bíllinn væri nægilega hár til að dóla eftir veginum alla leið að vitanum svo við fengum okkur göngutúr. Veðrið var mjög gott og það var hressandi að rölta þessa leið. Eftir þessa göngu og skoðunarferð snérum við við og rúntuðum aðeins um Þorlákshöfn, keyrðum í gegnum Eyrarbakka og stoppuðum örstutt við Selfosskirkju áður en við tókum stefnuna á Hveragerði. Þar ætlaði vinafólkið að bjóða mér að borða með mér á NFLÍ. Þær fyrirætlanir breyttust snarlega þar sem að það voru skýr skilaboð við innganginn að v/Covid-19 væri ekki hægt að taka á móti öðrum en þeim sem væru gesti á heilsuhælinu. Í staðinn buðu þau mér á Hver, veitingastaðnum á Hótel Örk þar sem við fengum okkur öll veiði dagsins, gómsæta Löngu. Þau skiluðu mér svo heim fyrir klukkan níu.

Fór á bílnum í vinnuna í morgun. Hafði þrjár bækur af safninu og sunddótið með mér. Gat skilað bókunum um hálftvö en sundkortið hafði gleymst heima svo ég fór heim, fékk mér að borða, horfði á beina útsendingu kl. 14 og núna að skrá niður það helsta frá sl. dögum.

Vegna hertra reglna til að ná utan um Covid-19 hópsýkingar í samfélaginu fékk deildin mín fyrirmæli um að skipta okkur upp í tvo hópa. Eins og tímabilið frá 16. mars fram að 25. maí mun annar hópuinn halda sig frá vinnustað í næstu viku en hinn sjá um að mæta og ganga í dagleg störf. Ég er í fyrrnefnda hópnum og á því ekki að mæta til vinnu fyrr en vikuna 10.-14. ágúst n.k.

29.7.20

Nýr sími

Þessa þrjá vinnudaga sem liðnir eru af vinnuvikunni hef ég labbað báðar leiðir. Fór í sund seinni partinn á mánudaginn. Margt var um manninn í Laugardalnum vegna blíðviðris en það var ágætispláss til að synda sem og í kalda pottinum og gufunni. Strákarnir voru báðir að vinna, annar frá tíu til tíu og hinn frá fjögur til átta. Ég hafði samt tekið út tvö bleikjuflök úr frysti um morguninn og setti þau bæði í ofninn ásamt rauðlauk, blómkáli og rauðrófubita. Borðaði 1/4 af þessum gómsæta rétti, fór með 2x1/4 part með mér í vinnuna í gær og í dag og á enn eftir 1/4 sem ég annað hvort borða á eftir eða tek með mér í vinnuna á morgun.

Áður en ég fór í sund eftir vinnu í gær kom ég við í Elkó og fjárfesti í nýjum síma; Samsung Galaxy XCover Pro á rétt tæpar nítíuþúsund krónur. Er ekki enn búinn að opna pakkann og færa símkortið úr tæplega fimm ára gömlum gemsanum mínum. Ég er að spá í að fá annan hvorn soninn til að hjálpa mér við það að senda sem flest gögnin úr eldri símanum yfir í þann nýja.

Annars er ég nýkomin heim eftir skrepp í sjóinn við Nauthólsvík. Uppgötvaði, þegar ég var mætt í klefann, að ég var ekki með strandskóna og handskana. Lét það samt ekki stoppa mig. Dásamlegt að svamla um í sjónum. Eftir tæpan einn og hálfan tíma verð ég svo mætt á Valsvöllinn á heimaleik í Pepsídeild kvenna.

27.7.20

Ný vetrarúlpa

Ég var sótt rétt rúmlega eitt í gær og lá leiðin í heimahús á höfuðborgarsvæðinu þar sem sú fjórða var mætt úr annarri átt. "Aðkomubílarnir" voru skildir eftir en safnast saman í bílinn hjá þeirri sem við mættum hjá því hún var búin að panta það að vera bílstjórinn í ferðalaginu framundan. Fyrsta stopp, eftir að við vorum farnar úr borginni, var í Hveragerði. Þar var kíkt í tvær búðir og ég fjárfesti óvænt í nýrri vetrarúlpu sem var á mjög góðum afslætti. Næsta stopp var í Friðheimum við Reykholt. Þar vorum við heldur seint á ferðinni eða um það leyti sem átti að fara að loka. Margt var um manninn og við fengum tækifæri til að skoða okkur aðeins um. Ég hitti aðeins á annan eigandann, Knút Ármann, en hann er uppeldisbróðir mágs míns. Örstutt frá Friðheimum var staður þar sem hægt var að kaupa fersk ber. Ég keypti eina öskju af jarðaberjum og aðra af brómberjum. Næsta stopp var á hótelbarnum á hótel Geysi. Ég splæsti á mig einu hvítvínsglasi þar. Á slaginu klukkan sex komum við á eþíópíska veitingastaðinn Minilik á Flúðum þar sem við áttum pantað borð sem betur fer. Það urðu margir frá að hverfa sem "droppuðu" inn á þeim rúma klukkutíma sem við vorum á staðnum. Við pöntuðum hver sinn réttinn og fengum hann afgreiddan á stórum hringlaga snúningsdiski. Smökkuðum allar af öllum réttum og líkaði vel. Eftirréttinn fengum við okkur í ísbúð Huppu á Selfossi á leiðinni heim. Ævintýralega skemmtilegur dagur í góðum félagsskap.

26.7.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Morgunstund

Þar sem örtilraun gærdagsins heppnaðist ákvað ég að gefa mér frekar tíma í að blogga og fresta eða sleppa sundferð í dag. Ég á frekar von á því að ekkert verði úr sundferð fyrst ég er ekki farin því ég er búin að ráðstafa deginum frá hádegi og fram á kvöld. Meira um það síðar.

Síðastliðinn miðvikudagsmorgun mætti ég til vinnu aftur eftir sex vikna sumarfrí. Vinnudagurinn leið frekar hratt. Við vorum búnar í fyrra fallinu. Ég var komin heim aftur um þrjú. Uþb klukkustund síðar fór ég í sund. Á fimmtudaginn var yfirferð á vélinni milli tólf og fjögur. Ég tók að mér að sitja yfir en hafði afþakkað að mæta eitthvað seinna í vinnuna. Þessi vinnudagur leið engu að síður frekar hratt. Ég gat líka notað hluta af yfirsetutímanum í prjónaskap og lestur. Einkabílstjórinn sótti mig í vinnuna um fjögur. Um hálfsex bauð ég bræðrunum á Pítuna í tilefni 24 ára afmælis þeirra. Og klukkan sjö var ég komin á Valsvöllinn þar sem "strákarnir mínir" unnu loksins sinn fyrsta heimasigur 3:0 á móti Fylki.

Vinnudagur föstudagsins byrjaði eiginlega á því að hafa þurfti samband við viðgerðarmann. Hann gat reyndar hjálpað fyrirliðanum að koma vélinni af stað í gegnum símann og við náðum að ljúka öllum verkefnum dagsins um tólf og fengum að fara heim fljótlega eftir það. Veðrið var megagott. Ég ákvað samt að skreppa í Nauthólsvíkina um fjögur til að skreppa í sjóinn áður en auglýst gong-stund milli 16:30-17 byrjaði. Það var nóg pláss í sjónum en engu að síður fullt af bílum á stæðunum og eiginlega fullt í skiptiklefanum. Var eitthvað að spá í að skipta um skoðun og fara frekar í sund en ég var ekki búin að fara í sjóinn í nokkra daga og hann kallaði meira á mig. Ég lagði bílnum við HR og gat svo notað ikea-pokann sem ég var með sjósundsdótið í undir fötin mín. Sjórinn var yndislegur en ég held ég hugsi mig mörgum sinnum um áður en ég fer aftur í Nauthólsvík á góðviðrisdegi þegar allir eru á svæðinu.

Morgunstund

25.7.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Ekki enn búin að gefa mér tíma til að tileinkamér ...

Smá tilraun í gangi. Í gær skrapp ég í sjóinn upp úr klukkan fjögur. Sjórinn var góður en það var mjög margt um manninn enda mikil blíða. Í morgun fór ég í Laugardalslaugina milli kl. 8:50 og 11:10. Mestur tíminn fór í sólbað og spjall en ég synti í tæpar tuttugu mínútur og fór þrisvar sinnum í þann kalda líka.

Ekki enn búin að gefa mér tíma til að tileinkamér nýja bloggsniðmátið.

21.7.20

Dagsferð á Snæfellsnes

Rétt fyrir helgi var ég í sambandi við norsku esperanto vinkonu mína. Við höfum reyndar lítið sinnt þessu tilbúna tungumáli síðan um miðjan mars en hist af og til síðan í maílok og brallað ýmislegt annað saman. Vinátta okkar er ekki eingöngu háð sameiginlegum áhuga á espernato. Ég spurði hana hvort hún vildi koma með mér í smá ferðalag um Snæfellsnesið strax eftir helgi. Hún var strax til í það. Nokkru síðar sama dag hringdi hún í mig og sagði að maðurinn hennar væri til í að koma með ef það væri í lagi mín vegna sem það var.

Í gærmorgun var ég fyrir utan hjá þeim um níu. Hinni kvað sér hljóðst þegar þau hjónin komu út og var með þá tillögu að hann sæi um aksturinn og þá gætum við stöllur skrafaða saman í aftursætinu. Hann er vanur leigubílstjórin. Ég tók strax vel í þessa hugmynd. Vegna skjálftans upp á 5,1 rétt fyrir miðnætti kvöldið áður hafði Inger ekki sofið mjög vel og hún hafði orð á því þegar við vorum að nálgast Kjalarnes að henni væri ekkert um það að keyra Hvalfjarðargöngin. Okkur lá ekkert á og fannst bara fínasta hugmynd að keyra frekar fyrir Hvalfjörðinn. Þannig sluppum við líka við mikla umferð, amk þar til við beygðum aftur inn á þjóðveg 1. Þegar við vorum að nálgast afleggjarann að Stykkilshólmi þurftum við að ákveða hvort við myndum beygja eða halda áfram. Ákveðið var að halda áfram. Vorum búin að gera þrjú stutt stopp, eitt í Hvalfirði, annað í Borgarnesi og það þriðja við útsýnis og nestisstað þar sem einnig voru tveir kamrar. Fjórða stoppið var við kirkjuna við Búðir. Kirkjan er aðeins opin dagspart einu sinni í viku. Sá dagur var ekki í gær. En við löbbuðum niður að hótelinu og fengum að nota salernið. Svo héldum við áfram för að Arnarstapa. Þar lögðum við bílnum rétt við höfnina og gáfum okkur góðan tíma til að labba um svæðið og alveg yfir að Hellnum sem er aðeins í 2,5 km fjarlægð. Gáfum okkur góðan tíma í þetta. Man ekki hvað klukkan var þegar við héldum áfram för. Ég tók við stýrinu fljótlega. Við stoppuðum ekki aftur fyrr en við komum í Ólafsvík en keyrðum aðeins um þorpið Rif. Í Ólafsvík fórum við á veitingastaðinn Sker. Auglýst var 15% afsláttur af matseðli ef ferðagjöfin var notuð. Ég pantaði mér þriggja rétta máltíð kennd við skipstjóra og fékk mér kaffi með eftirréttinum. Þegar ég var að gera upp eftir matinn hugsaði ég ekki út í það að afgreiðslustúlkan gleymdi að reikna 15% afsláttinn af verðinu áður en ég borgaði með ferðagjöfinni. Borgaði 1250 kr. með korti og fór svo út og beið með Inger á meðan Hinni var að gera upp fyrir þau. Þegar hann kom lét hann mig hafa 650kr. til baka frá veitingastaðnum. Ég náði að skila ferðafélögunum af mér rétt eftir miðnætti. Þau voru alsæl með ferðina. Ég fékk að vita í ferðinni að þau tvö höfðu hist fyrst á þessum slóðum fyrir þrjátíu árum. Við hefðum ekki geta verið heppnari með veður og við vorum öll að velta því fyrir okkur að heimsækja þessar slóðir mun reglulegar.

Annars er þetta síðasti sumarfrísdagurinn minn í bili. Er búin að hafa það mjög gott í fríinu og gera alls konar. Ég á ennþá eftir að nota ferðagjöfina frá pabba sem og ferðagjöfina frá RB en það er enn tími til að nota þær.

18.7.20

Tími í alls konar og ekkert sérstakt

Í gær gat ég engan veginn ákveðið hvort ég ætti að fara í sund eða sjóinn og það endaði með því að ég gerði hvorugt. Oddur Smári fór á aukavakt í Kvikk í Öskjuhlíð rétt fyrir ellefu en hinn sonurinn er á frívakt fram á mánudag. Eftir alls konar dundur hér heimavið, bæði skylduverk og önnur mun skemmtilegri ákvað ég að skreppa á safnið og skila fimm bókum af sex. Eina af þessum fimm nennti ég ekki að lesa í þetta sinn og þótt ég gæti haft hana alveg fram að mánaðamótum og einn mánuð í viðbót ákvað ég að skila henni. Var komin með fimm bækur í hendurnar en ein af þeim var víst frátekin svo ég gat ekki fengið hana lánaða í þetta sinn; Hnífurinn eftir Jo Nesbö. Í staðinn freistaðist ég til þess að kom einnig við í Eymundsson og fjárfesta í nýjustu bókinni eftir Angelu Marsons, Blóðhefnd. Næst lagði ég leið mína í Löður vestur á Granda til að láta skrúbba burtu allan skít og dauðar flugur utan á bílnum. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Kvikk hjá Oddi.

Í morgun var ég ákveðin í að drífa mig í sund. Ég var samt ekki lögð af stað þegar gemsinn hringdi korter fyrir níu í morgun. Það var frænka mín og nafna, Anna Önfjörð, stödd í Berlín. Hún var að spyrja hvort ég gæti fóðrað inni kisuna þeirra Micaels 1.-4. ágúst n.k. í stað 26.-29. júlí. Ég taldi svo vera jafnvel þótt ég myndi hugsanlega skreppa út úr bænum yfir eina nótt.

Var mætt í Laugardalinn um hálftíu. Tveimur tímum seinna kom ég við hjá Oddi og sníkti af honum kaffibolla í þetta sinn. Fljótlega eftir að ég kom heim spurði Davíð Steinn mig hvort ég gæti skutlast með sig í Vesturröst. Hann og einn vinur hans eru að fara í veiðiferð seinni partinn og svo aftur á morgun.

17.7.20

Heima

Í gærmorgun fór ég á fætur um hálfátta. Þegar pabbi kom heim úr sundi um níu var ég að ljúka við að fella svarta sjalið handa Huldu af prjónunum. Gekk frá öllum endum, skolaði úr því, setti í þeytivinduna og breiddi og slétti úr því á stóra rúmið í stærsta herberginu. Síðan hellti ég mér upp á kaffi og lagði nokkra kapla í keppni við pabba. Um ellefu sagðist ég vera að hugsa mér til hreyfings. Pabbi spurði hvort hann mætti ekki bjóða mér upp á steik í Kanslaranum áður en ég legði í hann og ég þáði það boð. Strax eftir steikarferðina skruppum við feðgin í búðina að útrétta. Ég hlustaði svo róleg á hádegisfréttir áður en ég tók ferðadótið mitt saman og kvaddi pabba. Sagði honum að ég ætlaði alls ekki beinustu leið heim en myndi láta hann vita þegar ég væri komin þangað.

Beygði til vinstri af þjóðveginum eftir að ég kom yfir brúna yfir Þjórsá og tók smá hring. Kom inn á þjóðveginn aftur af Villingaholtsafleggjaranum nokkrum km. frá Selfossi. Ákvað að fylla á tankinn hjá Atlansolíu en stoppaði svo aðeins í Fossheiðinni, þáði kaffibolla, spjall og fékk að nota salernið áður en ég hélt bíltúrnum áfram. Keyrði Suðurstrandaveginn og gerði annað stopp í heimahúsi í Grindavík þar sem ég þáði tvo kaffibolla og meira spjall. Keyrði um Sandgerði, Garð og Hafnir. Stoppaði samt ekki aftur og var komin heim rétt fyrir sjö.

15.7.20

Ein frænka mín sjötug í dag

Í dag hefði mamma heitin orðið 76 ára. Ár er síðan við settum duftkerið niður í leiðið hjá "litlu"-Önnu. Frænkan sem fagnar sjö tugum í dag og mamma voru systkynadætur og mamma hélt því alltaf fram að hún hefði fengið þessa frænku sína í sex ára afmælisgjöf.

Annars lagði ég af stað úr bænum rétt upp úr klukkan tvö í gær, beygði inn afleggjarann við Ingólfsfjall og var komin í heimsókn til Ellu vinkonu um fjögur þar sem hún og Aðalsteinn voru og eru í sumarhúsi kennarasambandsins í landi Syðra-Langholts rétt hjá Flúðum. Tveir aðrir gestir voru á svæðinu. Ég stoppaði í næstum tvo tíma og var síðust af gestunum til að fara. Kláraði hring og beygði til vinstri á Skeiðavegamótum. Var komin á Hellu upp úr klukkan hálfsjö. Enginn var heima og allt læst en ég er með húslykil í fórum mínum sem ég notaði. Pabbi var að sækja Bríeti sem var að vinna í gær frá 7-19. Frænka mín bjargaði sér sjálf með kvöldhressingu á meðan við pabbi horfðum á fréttir á RÚV á tímaflakkinu. Ég fór síðust að sofa af okkur þremur, skreið upp í um hálfellefu og las í ca klukkustund í bók af safninu sem ég hef reyndar lesið áður; Þriðji engillinn eftir Alice Hoffman. Var sofnuð fyrir miðnætti en rumskaði aftur fyrir klukkan tvö. Svefninn varð eftir það svolítið slitróttur en ég steinsofnaði loksins rétt fyrir sjö í morgun. Fór á fætur um níu rétt áður en pabbi kom heim úr sundi. Hann fer aðeins á öðrum tímum í sund þegar hann er að skutla Bríeti á Hvolsvöll og hún á að mæta klukkan sjö í vinnu. Hann segir að það sé betra að skutla henni á sjö vakt og fara í sund beint á eftir en ef hún á að mæta í vinnu klukkan átta mætir hann klukkan hálfsjö og styttir rútínuna um einhverjar mínútur.

14.7.20

Valur - Stjarnan 0:0

Um hádegisbilið í gær sá ég skilaboð frá sjósundsvinkonu minni um hvort ég kæmi með í sjóinn seinni partinn. Ég var nýkomin úr sundi og sagðist sjá til, hafði það opið. Klukkan fjögur ákvað ég að drífa mig af stað í Nauthólsvíkina. Var komin þangað á undan Helgu Rún en hitti Betu, æskuvinkonu hennar, sem var með okkur í "Guðlaugar-ævintýrinu" um daginn. Við spjölluðum saman á meðan við biðum. Um hálffimm urðum við allar samferða í klefann. Veðrið var þannig að það voru margir sem fengu sömu hugmynd og við vorum eiginlega heppnar að fá körfur undir fötin okkar. Plássið í sjónum var feikinóg og við svömluðum, flutum, spjölluðum mikið og syntum rólega yfir að kaðli. Vorum í 13,5°C sjónum í tæpan hálftíma og nokkrar mínútur í lóninu, sem var heitara, áður en við enduðum um stund í heita pottinum. Um sex kom ég við hjá Oddi sem var á vaktinn hjá Kvikk. Splæsti á mig einni nauta-búrrítos og borðaði á staðnum áður en ég fór heim. Heima staldraði ég við í ca hálftíma áðut en ég rölti á völlinn. Var mætt vel tímanlega fyrir leik svo ég fengi örugglega sæti þar sem mig langaði. Markverðir liðanna héldu mörkunum hreinum svo það endaði með markalausu jafntefli.

Vaknaði um klukkan hálfsjö í morgun. kom mér fyrr á fætur en sl. daga og var mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan átta. Náði aðeins að hitta á eina af Sigrúnunum á planinu fyrir utan en hún var að fara þegar ég var að mæta. Þrjár ferðir í kalda, 500m sund þar af 50 bakskrið, ein ferð í 42° og endaði á gufubaði og kaldri sturtu áður en ég fór inn og þvoði á mér hárið. Kom heim rétt fyrir tíu. Hellti upp á 2 bolla af kaffi og fékk mér smá hressingu. Korter fyrir ellefu labbaði ég svo út á Klamratún þar sem ég hitti norsku esperanto vinkonu mína, hennar mann og svo þær tvær sem ég hitti í sjónum í gær. Milli 11 og 11:40 var blönduð vel útfærð æfing af tæ chi og qi gong. Sú sem var að leiðbeina útskýrði bæði æfingar og öndunina mjög, mjög vel. Þegar ég kom til baka vakti ég einkabílstjórann til að senda hann í eina sorpuferð. Hann er svo að fara á vakt hjá Kvikk í Öskjuhlíð milli klukkan fjögur og átta en ég fer svo í heimsóknarskreppu til æskuvinkonu minnar sem er stödd í bústað á Flúðum þessa vikuna.

13.7.20

Leti

Fram eftir degi í gær var ég á leiðinni í sund. Var að sinna prjónaskap, lestri, sudokuþrautum og spjallaði auk þess við anna soninn eftir að hann kom fram úr "helli sínum". Um fimm leytið ákvað ég að úr því að svo langt var liðið á daginn gæti ég alveg eins frestað sundferð um einn dag. Davíð Steinn skrapp til pabba síns um miðjan dag en Oddur Smári ákvað að vera heima. Nennti líklega ekki út úr húsi frekar en ég. Í gærkvöldi horfði ég á heimildamyndina um fyrstu íslensku konuna sem synti yfir Ermasund ein. Hún var búin að fara tvær boðssundsferðir áður. Þetta var mikið afrek hjá henni og frábært að það skyldi vera gerð mynd um þetta ævintýri og aðdragandann að því.

Ég var vöknuð um hálfsjö í morgun en líkt og í gær ekki alveg tilbúin að fara strax á fætur. Upp úr klukkan níu bjó ég mér til hafragraut en ákvað að bíða með að hella upp á. Klukkutíma síðar var ég komin í Laugardalslaugina. Fór tvær ferðir í þann kalda (sem var í heitara lagi eða rúmar 13°) og eina í heitasta pottinn á milli áður en ég synti 500. Tvisvar í viðbót fór ég í þann kalda, í sjópottinn á milli, góða stund í gufuna og sat svo í sólbaði á eftir.

Kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Nú er ég búin að hella upp á og drekka tvo bolla af kaffi með hádegishressingunni. Ef ég verð ennþá í bænum um sjö leytið í kvöld skrepp ég líklega á völlinn að fylgjast með "strákunum mínum" í VAL taka á móti strákunum í Stjörnunni.

12.7.20

Heima í augnablikinu

Þegar ég lagði í hann á ellefta tímanum á miðvikudagsmorguninn var ákvað ég að fara upp Mosfellsdalinn í átt að Þingvöllum og af hálsinum niður í Hvalfjörð og keyra fyrir fjörðinn. Skemmtileg og falleg leið. Mér lá ekkert á og eina markmiðið var að koma ekkert of seint á áfangastað, Akureyri. Stoppaði við Baulu um eitt, fékk að nota salernisaðstöðuna og svo splæsti ég á mig fiskrétti. Ég stoppaði hvergi annars staðar á leiðinni þannig að ég var komin á áfangastað um fimm leytið. Systurdóttir mín tók á móti mér meikuð eins og ljón í framan, systir mín og mágur sátu úti að njóta blíðunnar sem og hundarnir þeirra sem voru tjóðraðir svo þeir gætu nú ekki stungið af. Ég settist með þeim með hvítt í glasi, hafði með mér tvær litlar flöskur norður. Mágur minn gafst fljótlega upp á sólinni og hundarnir voru að rápa út og inn en við systur sátum báðar útivið þegar nokkuð stór skjálfti reið yfir.

Systir mín var farin til vinnu þegar ég kom fram um hálfátta á fimmtudagsmorguninn. Mágur minn fór í sína vinnu um átta og stuttu seinna kom Hulda fram en hún átti að mæta í sína vinnu um níu. Við frænkur fengum okkur kaffi saman og höfðum góðan tíma í að spjalla. Rétt fyrir tíu lokaði ég hundana af, læsti á eftir mér útihurðinni með lykli sem Ingvi lét mig hafa kvöldið áður og fór í sundlaug Akureyrar. Þar gaf ég mér góðan tíma í köld "böð" en ég synti líka í tæpan hálftíma og sat í gufunni í góða stund eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Fékk skyndinugdettu þegar ég var að fara með sunddótið í bílinn. Náði í kreditkortið mitt og pantaði mér Svalbarðseyring og sódavatn með sítrónubragði í pulsuvagninum fyrir utan. Svalbarðseyringur er pulsa með kartöflusallati. Einn máfur kom mjög nálægt, spenntur ef ég skyldi nú missa eitthvað niður og áður en ég var búin kom formaður óháða safnaðarins úr sundi ásamt maka sínum. Ég hefði ekki hitt þau ef ég hefði ekki ákveðið að freistast í eina pulsu. Svo fór ég í bíltúr í áttina að jólahúsinu, framhjá því og alveg þangað sem malbikið endaði. Ákvað þá að snúa við og stoppa á Smámunasafninu. Þar stoppaði ég í góða tvo tíma. Var ráðlagt að horfa fyrst á heimildamyndina sem ég og gerði og svo labbaði ég í rólegheitum og skoðaði muni og myndir misvel. Splæsti á mig kaffi og vöfflu og fékk svo lykil að Saurbæjarkirkju. Eftir að hafa skoðað hana að utan og innan skilaði ég lyklinum og hélt áfram för til baka. Stoppaði næst við jólahúsið en þar var ég einungis í ca. hálftíma. Ingvi, Helga og Hulda voru öll komin heim þegar ég "skilaði" mér. Við systur fórum skömmu síðar í Fiskás þar sem ég keypti tvö væn þorskhnakkaflök. Steikti þau upp úr möndlumjöli og gufusauð blómkál og brokkolí með. Ég vissi ekki að möndlumjöl fer ekki vel í magann á Huldu en það var sem betur fer til kjötsúpa sem hún gat borðað í staðinn.

Á föstudagsmorguninn kom ég fram um svipað leyti og morguninn áður. Þegar Hulda kom fram sá hún um að hella upp á kaffi handa okkur frænkum. Ég fór svo aftur í sund. Var komin til baka fyrir klukkan eitt. Hleypti hundunum fram og út á verönd. Þeir nenntu ekki að vera lengi úti. Helga kom heim úr vinnu skömmu síðar. Við skruppum í búð og þegar mágur minn kom úr sinni vinnu fórum við með hundana á hundasvæðið við Blómsturvelli þar sem þeir gátu m.a. "hoppað" í sjóinn og sótt prik sem fannst á staðnum. Eftir að hafa hreyft hundana keyrðu þau með mig m.a. að Hlíðarfjalli. Ég kláraði seinni litlu hvítvínsflöskuna mína þegar við komum til baka.

Kvaddi klukkan hálftólf í gær og keyrði í gegnum Dalvík og Ólafsfjörð. Stoppaði örstutt á Siglufirði þar sem ég hitti á fyrsta grunnskólakennarann minn. Hélt svo áfram för. Var eitthvað að spá í að kom við í sundlauginni á Hofsósi en þegar til kom keyrði ég framhjá. Keyrði inn afleggjarann að Óslandi en þar voru ábúendur víst í dagsferð. Ég hafði ekki boðað komu mína og lét ekki vita af ferðum mínum. Tók aðeins mynd af tveimur heimalingum sem jörmuðu mikið og vildu að ég gerði eitthvað fyrir þá. Þrátt fyrir að hlandblaðran væri aðeins farin að kvarta keyrði ég áfram á Sauðárkrók (sem er lengra heldur en að snúa við og stoppa á Hofsósi) og það sem meira er ég stoppaði ekki fyrr en ég var komin á Blöndós. Fór þar á salernið á kaffihúsinu Teni sem er rétt hjá sundlauginni og keypti mér svo kaffi og sneið af ostaköku. Svo stoppaði ég ekki meir nema ég fyllti á tankinn á Atlantsolíustöðinni við Borgarnes.


8.7.20

Norður

Seinni partinn í gær heimsótti ég fyrrum samstarfskonu og staldraði við hjá henni til klukkan að verða níu eða hátt í fimm tíma. Við höfðum um margt að spjalla og tíminn flaug hratt. Ég hafði einhvern veginn búist við þessu því ég var með prjónana mína meðferðist og tók þá fram amk tvisvar sinnum. Lítill kjölturakki á heimilinu krafðist reyndar að fá athygli, klór og kjass. Varð auðvitað við þessum kröfum og fyrir vikið öll í hundahárum sem auðvelt var að rúlla af.

Á leiðinni heim hringdi ég í systur mína og spurði hvernig það legist í hana að fá næturgest í nokkra daga. Ég er að sjálfsögðu velkomin og mun fá afnot af herbergi yngri systurdóttur minnar. Ég hafði ætlað mér að skreppa í sund í morgun og var vöknuð um hálfsjö. Ákvað svo fljótlega að ég gæti alveg farið í sund einhvers staðar á leiðinni eða þá á Akureyri í fyrramálið. Hlustaði á morgunútvarp Rás2 milli sjö og átta.

Nú er ég nýbúin að borða staðgóðan hafragraut og drekka fyrsta kaffibolla dagsins. Stefni að því að leggja í hann einhvern tímann milli tíu og tólf. Báðir strákarnir eru heima, sofandi. Annar þeirra í vaktafríi (sá sem ég bjargaði í gær) en hinn á ekki vakt fyrr en milli fjögur og átta. Mun vekja þá til að kveðja svo þeir viti að ég sé á leiðinni út úr bænum í nokkra daga.

Eins og ég gat um í færslu gærdagsins mun bloggið líklega liggja niðri á meðan ég er á ferðinni. Kannski póstast eitthvað á Facebook í staðinn.

7.7.20

Sjöundisjöundi tuttugututtugu

Ég var komin í bæinn um rétt fyrir sex í gær. Báðir synir mínir voru að vinna. Á baðherberginu varð ég vör við það að allt hafi farið á flot og mörg handklæði notuð til að þurrka upp gólfið. Handklæðin voru rennblaut á ofninum og eitt í þvottakörfunni sem væntanlega hefur blotnað þegar "lak" úr sturtunni. Ég setti öll þessi blaut handklæði í þvottavélina og lét hana sjá um að þvo þau og vinda á meðan ég fór á Valsvöllinn og horfði á "stelpurnar mínar" vinna stelpurnar í Stjörnunni 3:0 í blíðviðrinu. Gat hengt upp þvottinn þegar ég kom heim af leiknum upp úr klukkan níu. Báðir strákarnir voru komnir heim og annar þeirra fór beint að sofa.

Í morgun var ég vöknuð um sex en var svolítið lengi að koma mér á fætur eða rúmlega klukkustund. Það kom Davíð Steini til góða því hann hafði sofið yfir sig og í stað þess að verða seinn á vaktina 7:30-19:30 sá ég til þess að hann var mættur á slaginu hálfátta áður en ég fór í sund. Kom heim úr sundi um hálftíu. Bjó mér til hafragraut og hellti mér upp á tvo bolla af kaffi. Var svo mætt á Klambratún um ellefu og tók þátt í Qi gong æfingu.

Hugurinn er annars farinn að leita norður á bóginn og það gæti farið svo að ég elti hann þangað mjög fljótlega og það gæti leitt til þess að ég verði ekki nálægt tölvu í nokkra daga.

6.7.20

Bongóblíða

Pabbi skutlaði dótturdóttur sinni í vinnuna, SS á Hvolsvöll, rétt fyrir átta í morgun. Þá var hann búinn að fara í sund, kalda karið, rennibrautina, gufu og fá sér smá kaffi í sundlauginni á Hellu. Bríet tók með sér hluti sem gott er að hafa ef gista á annars staðar yfir nótt en það ætlar hún einmitt að gera. Labbar til vinafólks foreldra sinna eftir vinnu. Pabbi á að mæta með bílinn í ársskoðun til Brimborgar í fyrramálið og mun leggja af stað í bæinn um það leyti sem hann væri að mæta í sund. Hann mun svo sækja Bríeti á Hvolsvöll rétt fyrir fimm á morgun. Ég er fyrir austan í augnablikinu en stefni að því að mæta á Valsvöllinn upp úr klukkan sjö á leik Vals og Stjörnunnar í Pepsí-Max deild kvenna.

Settist út á pall um tíu í morgun í rúma klukkustund með prjónana og kaffi í bolla. Var alveg að bráðna þegar pabbi bauð mér að koma með sér í Kanslarann um hálftólf. Komum við í búðinni á leiðinni til baka. Settist aftur út á pall rétt fyrir eitt og það var bara búið að hitna ef eitthvað var. Pabbi sat með mér í góða stund. Vorum semsagt bæði að safna D vítamíni.

5.7.20

Komin á Hellu

Um fimm leytið seinni partinn í gær skutlaði einkabílstjórinn mér vestur í bæ í matarboð til nöfnu minnar og frænku. Hann notaði ferðina í að fara með rusl og ónýtan/brotinn stól í sorpu. Ég færði Önnu flösku af hvítvíni og gaf henni einnig tækifæri til að velja á milli tveggja sjala. Annað sjalið var í fjólubláum litum og hitt í grænum litum með smá svörtu í báða enda. Nafna mín og breskur kærasti hennar hjálpuðust að við að undirbúa kvöldmatinn og fylgdist með og spjallaði við þau á meðan. Þau eru með eina tólf ára innikisu sem vildi alveg tala og leika við mig. Heimsóknin varði í rúma fjóra tíma og áður en ég kvaddi lét frænka mín mig hafa húslyklana sína svo ég geti heimsótt og gefið kisunni fjóra daga í lok mánaðarins þegar þau verða hvorugt heima við.

Í morgun var ég mætt í Laugardalslaugina strax klukkan átta. Fór þrisvar í þann kalda, synti og sólaði mig. Náði að fara heim og hengja upp sunddótið áður en ég fór á flugvöllinn að sækja systur dóttur mína um hálftólf. Var með dótið mitt tilbúið í skottinu en við stoppuðum við í Kvikk þar sem Oddur Smári gaf mér kaffibolla.

Við frænkur vorum komnar á Hellu um hálfeitt og við erum búnar að ná að steikja nokkrar pönnsur til að hafa með kaffinu núna rétt á eftir.

4.7.20

Kæling og sundsprettur

Ætla rétt að geta þess að rétt eftir að ég steig á land í Viðey á fimmtudaginn var hringdi gemsinn. Á línunni var eigandi iPad-sins sem var í mínum fórum frá því að kvöldi dags þann 20. júní sl. og þar til ég setti hann í póst á mánudagsmorguninn var. Eigandinn var að láta mig vita að gripurinn hafði skilað sér heim óskaddaður. Eigandinn var að vonum glaður og vildi helst fá að borga mér kostnaðinn vegna sendingarinnar til baka. Ég sagðist frekar vilja fá að kíkja í heimsókn þegar ég verð næst á ferðinni vestur.

Var vöknuð fyrir sjö í morgun. Gaf mér góðan tíma til að koma mér á fætur en var engu að síður lögð af stað í sund um átta. Í Laugardalnum dembdi ég mér beint í kalda pottinn í 2 mínútur, synti 500m og fór svo aftur í þann kalda í 3 mínútur. Allt í allt fór ég fjórum sinnum í þann kalda og endaði svo á því að sitja í gufunni í næstum því korter.

Báðir bræðurnir eru að vinna. Oddur var farinn úr húsi upp úr klukkan hálfátta og ég mætti Davíð Steini þegar ég var að koma heim úr sundi um hálfellefu.

3.7.20

Nauthólsvík

Ég var vöknuð fyrir klukkan sjö í morgun og komin á fætur nokkru áður en klukkan varð átta. Bjó mér til hafragraut fljótlega. Borðaði helminginn af skammtinum og gekk frá hinum helmingnum í dall inn í ísskáp. Setti fljótlega í þvottavél og hellti mér upp á tvo bolla af kaffi. Svo hafði ég ágæta stund sem ég notaði til að lesa. Sjósundsvinkona mín sótti mig tuttugu mínútur fyrir tíu. Ég fór með poka af sjölum með mér til að leyfa henni að skoða og velja og hún þáði eitt sjal. Hefði helst viljað fá að borga fyrir það en hún gaf mér ennisband til að nota í sjósundinu um daginn og svo mátti ég ekki borga hlut í bensínkostnaðinum þegar við fórum í ferðina á sunnudaginn var.

Sjórinn var 14,1°C í morgun 0,9 gráðum kaldari en í gær en samt næstum því of heitur eða þannig. Það var mikil fjara og það endaði með því að við stöllur svömluðum alla leið að þar sem fólk er að synda til og frá. Mikill þari var aðeins að þvælast fyrir okkur en það var allt í góðu lagi. Klifruðum upp smá klappir og skelltum okkur aðeins í lónið sem var örugglega einhverjum gráðum heitara en sjálfur sjórinn. Höfðum um margt að spjalla en pössuðum samt upp á að gleyma ekki tímanum því þrátt fyrir að hún væri í smá fríi hafði hún verið boðuð á vinnufund um hálftólf.

2.7.20

Dagsferð í Viðey

Það endaði með því að ég lauk við að lesa síðustu bókina af safninu áður en ég fór að gera nokkuð annað í gærmorgun. Rétt fyrir tólf fór á safnið og skilaði öllum bókunum sjö og fékk að láni 6 aðrar í staðinn, allt bækur sem þarf ekki að skila fyrr en 31. júlí n.k. Er þegar byrjuð að lesa bókina Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur. Annars keypti ég mér kilju eftir Vivecu Sten Ísköld augnablik: tíu sögur úr skerjagarðinu áður en ég fór í ferðalagið um daginn. Byrjaði loksins á þeirri bók í gær.

En eftir ferðina á safnið lagði ég leiðina í vöruhús Gorillas í Vatnagörðum að sækja pakka fyrir systur mína og mág. Þau komu við í gærkvöldi á leiðinni norður til að taka með sér pakkann. Frá Vatnagörðum fór ég í Laugardalslaugina til að synda, pottormast og slaka vel á í gufunni. Verslaði svo inn á leiðinni heim.

Ákvað að taka því rólega til að byrja með í morgun. Var þó komin á fætur fyrir klukkan níu. Gerði mér ferð í vínbúðina í Skeifunni um tíu og keypti mér fjórar litlar hvítvínsflöskur. Útbjó mér nesti og pakkaði ýmsu niður í rauða bakpokann. Rétt fyrir ellefu labbaði ég af stað í Hörpuna. Þar ætlaði ég að kaupa miða í Viðeyjarferjuna kl. 12 en það opnar ekki í Hörpunni fyrr en klukkan tólf. Þær tvær sem ég ætlaði að vera samferða út í eyju voru á leiðinni að Gömlu höfninni. Þar átti ferjan að fara kl. 11:50. Ég náði að komast þangað í tíma og við vorum komnar í Viðey um hálfeitt. Löbbuðum, strandleiðina áleiðis að skólanum. Settumst niður rétt við vatnstankinn, fengum okkur af nestinu og drukkum rautt og hvítt með. Fórum á snyrtinguna í skólanum og skoðuðum okkur um þar inni. Löbbuðum slóðann til baka og skoðuðum m.a. friðarsúluna áður en við keyptum okkur smá hressingu og settumst fyrir utan Viðeyjarstofu. Hinar tvær tóku einn göngutúr enn, en ég ákvað að taka frekar fram bók og lesa. Síðasta ferðin sem fór á Gömlu höfnina var klukkan hálfsex. Það fara þrjár ferðir þangað á dag en 6 eða 7 ferðir á klukkutíma fresti milli Skarfabakka og Viðey. Ég fékk að hoppa af bátnum á Norðurbakka við Hörpu. Ákvað fljótlega að hringja í einkabílstjórann og hann var til í að sækja mig. Er búin að ganga vel yfir 18000 skref í dag.

1.7.20

Árið uþb hálfnað

Í dag er hundraðáttugastiogþriðji dagur ársins og að honum liðnum eru eftir 183 dagar af þessu mjög svo öðruvísi ári (það sem af er) 2020. Það fór nú svo að ég fór ekkert aftur út í góða veðrið í fyrradag en ákvað samt að hafa ekkert samviskubit yfir því. Ég sökkti mér niður í næstsíðustu bókina af safninu, Ósk, sem ég hef reyndar lesið áður. Mæli 100% með þessari bók. Ég er að sjálsögðu búin að ljúka við hana og strax rúmlega hálfnuð með þá síðustu af safninu, spennubók eftir Kristinu Ohlsson.

Ég fór hvorki í sund né sjóinn í gær en ég skrapp á Qi gong æfingu á Miklatún um ellefu í gærmorgun. Björn Bjarnason leiddi æfinguna byggða á tækninni sem Gunnar heitinn Eyjólfsson setti saman í bók. Það voru tugir manns sem komu og tóku þátt og orkan var mjög mikil og góð. Hitti eina úr morgunhópnum í sundi sem og norsku esperanto vinkonu mína og manninn hennar.

Helga systir hringdi rétt áður en æfingin hófst. Ég hringdi til baka um tólf. Hún og pabbi voru á ferðinni í bænum á mánudaginn. Fyrsti í læknisheimsókn og svo tókst Helgu að draga pabba í heimsókn til eins frænda okkar systra sem er skyldur okkur í gegnum mömmu. Í læknisheimsókninni fékk pabbi þær fréttir að blöðruhálsinn er hreinn. Hann þarf að vera áfram á sýklalyfjum og fékk svo tíma í blöðruspeglun einhvern tímann í ágúst.

29.6.20

Veðurblíða

Mikið er nú gott að geta ráðstafað sér og tímanum að vild. Er með ýmsar áætlanir á bak við eyrað en veit ekki hvort ég tek eitthvað af þeim fram núna eða seinna. Ég var vöknuð upp úr klukkan sex í morgun. Fór á fætur klukkutíma síðar og var að dýfa mér fyrstu ferð í kalda pottinn rétt fyrir klukkan átta áður en ég synti 500m. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu og þvoði mér um hárið á eftir. Klukkan var ekki orðin tíu þegar ég fór upp úr en ég lagði leið mína í Síðumúla og beið fyrir framan pósthúsið þar til það opnaði. Í gær missti ég af ferð fyrir ævintýra-ferðaþyrstan iPad á Ísafjörð. Gripurinn er búinn að vera í mínum fórum í rétt rúma viku og ég ákvað að best væri að senda hann bara vestur með póstinum. Svo kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið áður en ég fór heim. Heima fékk ég mér kaldan afgang af hafragraut síðan í gærmorgun og hellti mér upp á kaffi. Nú er bara spurning hvernig ég nýti framhaldið af þessum dýrðardegi.

28.6.20

Ævintýrin út um allt

Ég var að koma heim úr mjög skemmtilegri dagsferð með sjósundsvinkonu minni og annarri til. Ég var sótt um hálftíu í morgun og við brunuðum beint á Akranes þar sem við skelltum okkur í tæplega hálftíma sjósund og svo í Guðlaugu sem er heitur pottur sem var opnaður í desember 2018. Á eftir fórum við á Cavé Bístró í golfskálann. Þar fékk ég mér kjúklingasallat, hvítvínsglas, vatn og einn kaffibolla. Hinar fengu sér gúllassúpu og sú sem ekki var að keyra fékk sér rauðvínsglas. Sátum úti á meðan við gerðum þessu skil. Næst ákváðum við að keyra í áttina að Borgarnesi en fara Hvalfjörðinn og inn að Kaffi Kjós. Þar fékk ég mér annan kaffibolla, flatkökur með hangiketi og eina vöfflu. Það var hitaskúr að ganga yfir svo við ákváðum að gera þessum veitingum skil inni við. Vorum komnar á þjóðveginn um hálffjögur en þar var allt stopp vegna alvarlegs umferðarslys svo við snérum við inn í Hvalfjörð, í áttina að Þingvöllum en beygðum til hægri og fórum Mosfellsleiðina í bæinn. Stoppuðum á einum stað að kaupa okkur jarðaber. Mega góður dagur og mikil blíða.

Í gærmorgun var ég mætt í sund um hálfníu. Byrjaði á því að kæla mig niður í uþb 2 mínútur áður en ég synti 500m. Fór fjórar aðrar ferðir í þann kalda og endaði á smá sólbaði. Kom heim rétt fyrir hálfellefu og stoppaði aðeins í um klukkustund áður en ég fékk mér göngu niður í bæ á Katta kaffihúsið við Bergstaðastræti 10a þar sem ég hitti nöfnu mína og frænku. Við fengum okkur létta hádegishressingu og kaffi á eftir. Fjórar kisur voru á staðnum. Ein þeirra, Vigdís, lá allan tímann á stól við næsta borð og lét fara vel um sig. Við nöfnum röltum aðeins saman lengra niður í bæ og komum m.a. við á sölubásnum hjá Lilju vinkonu. Þegar við frænkur kvöddumst labbaði ég lengri leiðina heim, gegnum Hljómskálagarðinn, gömlu Hringbraut og framhjá Valsheimilinu.

Er að lesa; Eldraunin eftir Jörn Lier Holst. Mjög spennandi bók. Þegar ég hef gert þeirri bók skil á ég aðeins tvær ólesnar bækur af safninu, nema ég byrji á annarri hvorri áður en ég er búin með eldraunina, Syndaflóð eftir Kristinu Ohlsson og Ósk: skáldsaga eftir Pál Kristinn Pálsson.

26.6.20

Busl

Í gær byrjaði ég á bókinni Korngult hár, grá augu eftir Sjón sem er ein af þeim sex bókum sem ég náði í af safninu sl. mánudag. Sagan og textinn höfðuðu til mín. Kláraði að lesa þessa bók áður en ég fór að sofa í gærkvöldi.

Á fjórða tímanum í gær varð mér ljóst að um stórt útkall slökkviliðs var í gangi. Hugsaði ekki meir um það fyrr en ég heyrði fréttir klukkan fjögur þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík að hitta sjósundsvinkonu mína. Við vorum næstum því hálftíma í 11,2°C heitum sjónum og fundum ekki fyrir því. Verið var að undirbúa e-s konar mót sem átti að fara fram síðar um daginn.

Kom heim um sex og fór fljótlega að huga að matargerð. Setti upp bankabygg. Skar eitt þorskhnakkaflak í fjóra parta og steikti upp úr eggi og blöndu af byggmjöli og byggflögum kryddað með best á fiskin og smá sítrónupipar. Skar niður rauðlauk og mýkti í bræddu smjöri. Mjög gott.

Vaknaði á áttunda tímanum í morgun. Fór ekki alveg strax á fætur en þó fyrir klukkan hálfníu. Klukkan tíu var ég komin í Laugardalslaugina. Náði að klára að synda í uþb tuttugu mínútur áður en kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Við fórum  sex sinnum í kalda pottinn, oftast 3 mínútur í senn. Potturinn er nær auglýstu hitastigi heldur en um daginn eða 9°.

Er að lesa Afhjúpun Olivers eftir Liz Nugent. Svakaleg saga sögð frá nokkrum sjónarhornum.

25.6.20

Lestur er bestur

Á leiðinni út úr bænum um átta sl. mánudagskvöld kom ég við hjá samstarfs- og vinkonu til að kaupa af henni 10 kg öskju af þorskhnökkum sem ég fæ svo að geyma í frystikistunni hjá pabba. Þáði kaffibolla og staup af bláberjasaft áður en ég brunaði beint austur á Hellu. Morguninn eftir var 16 ára afmælisdagur yngri systurdóttur minnar. Hún var að vinna til klukkan að ganga fimm en við biðum með afmæliskaffið til klukkan fimm. Þá var ég búin að búa til pönnsur og systir mín ketó-vöfflur. Afmæliskvöldverðurinn var klukkan átta, léttsteikt grafin bleikja úr Fiskás og gufusoðið grænmeti. Um hálftíu í gærmorgun lánaði pabbi Helgu bílinn sinn svo hún gæti skroppið í heimsókn til SS á Hvolsvelli. Mágur minn var að þvo og bóna bílinn þeirra Helgu. Rétt fyrir hálftólf keyrði ég pabba á Kanslarann og hann bauð mér að borða með sér. Hægt var að velja um steikta ýsu, kjötbollur, kjötsúpu og tilheyrandi meðlæti. Um hálftvö fermdi ég bílinn, tók 4 þorskflök úr öskjunni góðu, kvaddi pabba, systir mína og mág og lagði af stað í bæinn. Byrjaði á því að koma við hjá föðursystur minni, önnur heimsóknin á þessu ári. Hún sýndi mér m.a. inn í gróðurhúsið sitt þar sem eru að blómstra margar rauðar og bleikar rósir og einnig að þroskast jarðaberjauppskera. Ég stoppaði líka aðeins á Selfossi hjá tvíburahálfforeldrum mínum. Var komin í bæinn um hálfsex. Fór með megnið af dótinu inn og trítlaði svo fljótlega á Valsvöllinn þar sem ég sjá Valsstelpurnar "mínar" sigra lið Þór/KA með sex mörkum gegn engu. Ég kom heim aðeins á undan strákunum mínum sem voru að koma úr vinnu á níunda tímanum. Þeir fóru fljótlega inn í herbergin sín en ég horfði á seinni hálfleik Liverpools leiks, einn þátt úr sarpinum og tíu-fréttir áður en ég fór inn í rúm að lesa. Á sunnudaginn var byrjaði ég á bókinni Röskun eftir Írisi Ösp Ingjaldsdóttur sem er fyrsta bók höfundar gefin út í fyrra. Bókin var það spennandi að ég kláraði hana fyrri partinn á mánudaginn og skilaði henni því á safnið ásamt tveimur bókum sem voru að komast á tíma. Aðeins ein bók var eftir heima Forargata Reykjavík eftir Sólveigu Eggertz. Þá bók var ég að klára að lesa rétt í þessu. Af safninu, sl mánudag, kom ég heim með 6 bækur. Ein af þeim er með 14 daga skilafresti, nýjasta Útkallsbókin Tifandi tímasprengja eftir Óttar Sveinsson. Þá bók tók ég með mér austur, eins og þá bók sem ég var að klára í morgun sem og tvær aðrar, byrjaði að lesa hana á mánudagskvöldið og kláraði daginn eftir.

22.6.20

Smá ferðasaga

Á fimmtudagsmorguninn var, hvorki snemma né seint, pakkaði ég mér saman og fermdi bílinn. Ég bankaði á herbergisdyrnar hjá Oddi og vakti hann rétt til þess að kveðja hann. Á leiðinni út úr bænum kom ég við í N1 stöðinni við Skógarsel þar sem Davíð Steinn var á vakt. Byrjaði á því að athuga með loftþrýstinginn á dekkjunum áður en ég þáði kaffibolla til að taka með í bílinn og kvaddi. Líklega hafa þeir á dekkjaverkstæðinu stillt þrýstinginn á dekkjunum hærra en ég geri því eftir að ég varð fljótlega vör við aðvörun úr mælaborðinu um að athuga með þrýstinginn (hafði ekki heyrt neitt hljóð og merkið var ekki komið áður en ég fór í loft æfingarnar). Stoppaði við nokkrar svona "loftstöðvar" á leiðinni á Patreksfjörð en aldrei tókst mér að losna við merkið og nú var bíllinn líka farinn að láta vita með hljóði þegar ég ræsti hann. Mér datt samt aldrei í hug að hætta við ferðina eða snúa við og stoppaði á nokkrum fleiri stöðum heldur en bara loftstöðunum. Ferðin gekk að öðru leiti mjög vel og var hugurinn svo sterkur að komast á Patró, þótt ég hafi aldrei komið þar áður að ég var komin þangað á sjöunda tímanum um kvöldið. Rúntaði um plássið og gerði einnig þrjár auka tilraunir til að losna við merkið úr bílnum áður en ég hringdi í "einkabílstjórann", son minn og bar mig upp við hann. Hann kenndi mér ráð sem dugði en það var að fara í "menu" og endurstilla þrýstinginn. Um hálfátta bankaði ég upp á á prestsetrinu. Frændi minn, sr. Kristján Arason, bauð mig velkomna. Þau eru fjögur í heimili og hjá þeim var einnig stödd mamma hans. Bónus að hitta hana. Þau mæðginin spurðu mig um mín ferðaplön um svæðið og kvöttu mig m.a. til að kíkja á Rauða sand. Ég fékk afnot af herbergi á neðstu hæðinni, mátti vera eins lengi og ég vildi en ég hafði pantað gistingu í tvo daga.

Morguninn eftir rétt hitti ég á systikynin, Birki Má 5 ára og Sóldísi Klöru 2 ára áður en pabbi þeirra og amma röltu með þau í leikskólann. Um tíu leytið lagði ég af stað í ævintýraferð. Var ekkert að flýta mér, kveið fyrir, en var ákveðin í að fara alla leið á Rauða sand. Sú áætlun stóðst og sé ég alls ekki eftir henni en mikið þurfti ég stundum að halda fast í stýrið á leiðinni niður. Vá hvað er fallegt þarna. Ég tók alveg helling inn þrátt fyrir að treysta mér ekki í miklar göngur. Hitti frændfólk mitt þeim meginn sem hægt er að komast á salerni, tjalda, ganga inn að Sjöundá og fleira og fleira. Þau voru einnig að koma þarna í fyrsta skipti. Vissi reyndar ekki að við konan vorum skyldar fyrr en við fórum að spjalla saman, skyldar í þriðja og fjórða lið í gegnum Guðlaugu Jónsdóttur og Runólf Runólfsson. Eftir gott stopp, rúnt og smá labb á Rauða sandi fór ég að Hnjóti og gleymdi mér alveg við að skoða safnið. Ákvað svo að láta þetta gott heita í bili, eiga Látrabjarg og Breiðuvík inni seinna. Var komin á Patró aftur um hálfsex. Byrjaði á að skola af bílnum áður en ég fór í sund og skolaði af mér. Rétt missti af því að hitta Kristján og börn í sundi.

Um hálfníu á sunnudagsmorguninn rúntaði frændi minn með mig og börnin sín inn á Tálknafjörð og sýndi mér m.a. náttúrulaug, inn í nýrri kirkjuna og fór meira að segja með mig alveg inn að Felli þaðan sem mágkona pabba var fædd og alin upp. Fljótlega eftir að við komum til baka kvaddi ég heimilisfólkið og þakkaði kærlega fyrir mig. Fermdi bílinn og fyllti á tankinn áður en ég hélt förinni áfram. Fljótlega varð ég vör við að síminn vildi ekki hlaða sig og það tengdist símanum sjálfum. Þetta varð til þess að ég ákvað að stoppa bara stuttlega stöku sinnum á leiðinni á Ísafjörð. Var komin þangað um miðjan dag. Byrjaði á því að skola af bílnum og athuga hvort hægt væri að kaupa einhvers konar hleðslukubb (bjartsýn). Rúntaði aðeins um svæðið en það var bongóblíða og á endanum lagði ég bílnum rétt hjá Nettó, labbaði að Hrannargötu 8 og bankaði upp á. Og viti menn Smári og Nína voru heima, eiginlega alveg nýkomin heim. Ég stoppaði hjá þeim í um tvo tíma áður en ég hélt förinni áfram. Einhvern veginn endaði það ferðalag alla leið heima um hálftvö um nóttina. Á einum stoppistað við Skötufjörð fann ég æpad. Gat opnað gripinn og fann út að þessi gripur tengdist Gíslholtssystrum. Tók þennan grip í geymslu og fann það út í gær að hann á heima á Ísafirði hjá Hjalta og Boggu systur Smára.