30.9.03

- STÓRAFMÆLI -

Í dag er Valur Haraldsson 60 ára í dag. Ég veit að hann og konan hans eru á ferðalagi svo ég sendi honum bara hlýjar hugsanir. Þennan dag var líka einn móðurbróðir minn fæddur.
- Hrakfarir og eyrnaverkur -

Davíð Steinn er mikill hrakfallabálkur og í gær hrundi hann niður stigann inni hjá Helgu systur. Sem betur fer rakst höfuðið hvergi í en hann var rauður á jörkum og ristum og hafði líka rekið annað hnéð í. Mér brá ekkert lítið en drengurinn var fljótur að jafna sig sem betur fer. Hann datt svo aftur í tröppunum fyrir utan hjá okkur en það var bara minniháttar.

Þar sem ég vissi að strákarnir voru þreyttir eftir helgarferðina vann ég hörðum höndum að því að koma þeim í háttinn fyrir hálfníu. Ég held að Oddur Smári hafi sofnað strax en nokkru seinna fór ég að heyra í Davíð Steini. Hann grét voða sárt og kvaðst vera illt í öðru eyranu. Hann var ekki með hita en ég gaf honum eina 150gr. magnýl-töflu og hann sofnaði fljótlega eftir það. Reyndar svaf hann nú bara í rúma tvo tíma. Þá vaknaði hann aftur við verkinn og vakti til klukkan langt gengin í tvö. Hann var alveg hress í morgun svo ég sendi hann bara í skólann.

Það er kóræfing í dag og svo strax á eftir eru strákarnir (í 7. flokknum) að kveðja þjálfarann sinn og strákana sem fara upp úr flokknum núna i október.

29.9.03

- Helgarferð til Akureyrar -

Davíð safnaði okkur (strákunum, Önnu frænku og mér) saman seinni partinn á föstudaginn. Hlóðum bílinn af allskyns nauðsynlegu dóti og keyrðum svo rakleitt út úr bænum (rétt rúmlega fimm). Tókum smá bensínstopp í Borgarnesi en svo ekki fyrr en á Brú við Hrútafjörð þar sem við fengum okkur snarl. Strákarnir voru þá löngu orðnir svangir og þreyttir enda sváfu þeir svo restina af leiðinni.

Klukkan hálfellefu komum við til Akureyrar og fundum staðinn þar sem við ætluðum að gista yfir helgina. Það var þrautin þyngri að komast inn því lyklarnir sem við höfðum með okkur pössuðu engan veginn, enda var einn lykillinn merktur ruslageymsla og hinir þrír merktir fyrir tjaldvagn. Sem betur fer var þess getið í leiðbeiningunum hvar hægt væri að nálgast aukalykil. Klukkan var ekki heldur orðin það margt að það var óhætt að hringja. Davíð reddaði þessum málum. Hann var svo settur í það að koma strákunum niður á meðan við nöfnurnar skruppum til ömmusystur okkar og fengum knús og kaffi.

Oddur Smári vaknaði fyrstur á laugardagsmorguninn. Veðrið var alveg himneskt, ekki skýhnoðri á himni. Lítið var til í ísskápnum en ömmusystir okkar nöfnu var búin að bjóða okkur í morgunverð og þegar allir voru komnir á fætur fengum við okkur morgungöngu yfir til hennar. Ekkert löngu seinna kom sú dóttir hennar sem býr á Akureyri í heimsókn spes til að hitta okkur. Við spurðum þær mæðgur að því hvað það væri sem við ættum helst að skoða og gera og fengum fínar ábendingar. Áður en við lögðum í hann var okkur boðið aftur í kvöldhressingu.

Við byrjuðum á því að renna inn í Kjarnaskóg þar er frábært útivistarsvæði með skemmtilegum gönguleiðum svo og leiktækjum fyrir börn á öllum aldri og hefðum við auðveldlega getað verið þar allan daginn. Næst ætluðum við að skoða jólahúsið en keyrðum ekki alveg nógu langt og fundum það ekki í fyrstu tilraun. Þá fórum við í miðbæinn og eyddum þar góðri stund í eitt og annað. M.a. komumst við á dvd- og geisladiskamarkað (líklega sá sami og var í Perlunni seinni partinn í sumar) og töldum tröppurnar upp og niður að kirkjunni. Svo urðum við auðvitað að kíkja aðeins í Glerártorgið. Þar komust strákarnir í tölvuleik eftir slagsmál við strákana sem voru í tölvunni á undan (Davíð varð aðeins að grípa inn í þá baráttu...). Þetta gerðist allt á meðan við Anna vorum að versla nauðsynjavöru í Nettó. Það var líka á dagskránni að renna upp að skíðahótelinu í Hlíðarfjalli og kíkja þaðan yfir Akureyri og nágrenni. Strákarnir voru bara orðnir svo uppgefnir að við drifum okkur bara "heim".

Stoppuðum samt ekki lengi við þar því eins og fyrr sagði vorum við boðin í kvöldsnarl og þar að auki áttum við eftir að finna og skoða jólahúsið. Ömmusystir mín er sjálfsagt stórhneyksluð á matarsiðum okkar. Einn í atkins-kúrnum, einn borðar ekki kjöt og síðast en ekki síst einn í sykuraðhaldi.

Við fundum jólahúsið á sínum stað um kvöldið og allir voru sammála um að það var einstök upplifun og örugglega skemmtilegri fyrir það hversu dimmt var orðið.

Í gærmorgun vaknaði Oddur aftur fyrstur. Ég dreif þá í því að hella upp á kaffi og tína fram eitthvað í morgunmat. Svo smurðum við nesti til að taka með okkur í bílinn. Áður en við fórum svo í að taka okkur saman og ganga frá sáum við Davíð til þess að strákarnir læsu heimalesturinn og hjálpuðum þeim svo við að æfa sig í stafsetningu.

Um hálftólf lokuðum við á eftir okkur íbúðinni, skiluðum aukalyklinum og stoppuðum svo við hjá yngsta syni ömmusystur minnar og fjölskyldu hans eftir að hafa athugað hvort örugglega yrði tekið á móti okkur. Tíminn var fljótur að líða og var klukkan að verða tvö þegar við kvöddum Akureyri. Strákarnir lásu aukalesturinn (tuttugu mínútur hvor) í bílnum en eftir klukkutíma keyrslu áðum við til að fá okkur eitthvað af nestinu. Tókum bensín í Varmahlíð. Næsta stopp var á Hvammstanga þar sem strákarnir fengu ís og við kaffi. Ferðin sóttist vel svo við ákváðum að keyra fyrir Hvalfjörðinn. Fengum okkur snarl í Ferstiklu, stoppuðum smá stund við hvalstöðina og vorum komin í bæinn um átta. Anna var keyrð heim að Gamla garði, strákarnir settir í bað og svo sátum við hjónin eitthvað frameftir og reyndum að ráða sunnudagsgátuna í Mogganum.

25.9.03

- Á hlaupum - ...og nóg framundan
Oddur Smári var alveg orðinn hitalaus í morgun. Ég var búin að þyggja boð mömmu um að vera hjá honum milli hálfníu og tvö. Líklega setti þetta samt allt úr skorðum hjá henni því í staðinn gleymdi hún að skutlast með Davíð Stein á kóræfingu. Ég vissi ekki af því fyrr en ég var mætt upp í kirkju (um fjögur) til að sækja drenginn . Ég afsakaði þennan misskilning og "skokkaði" því næst upp í Ísaksskóla. Hringdi í Davíð til að láta hann vita, því Oddur Smári var auðvitað aleinn heima. Reyndar voru þeir feðgar að spjalla á msn-inu og Davíð lét strákinn vita hvað ég væri að gera.

Davíð Steinn sagði mér að hann hefði beðið og beðið, farið í Skaftahlíðina og hringt á bjöllunni en þegar enginn svaraði fór hann bara upp í skóla aftur (klár strákur). Við skunduðum heim. Stráksi fékk rétt tíma til að skreppa á salernið, gleypa í sig banana og klæða sig í legghlífar og fótboltaskóna og svo labbaði ég með honum yfir á Hlíðarenda. Á leiðinni talaði hann um að hann finndi kraftinn úr banananum flæða niður í fótleggina...

Oddur Smári hafði gert tilraun til að skrifa mér netbréf en gleymdi að skrifa netfangið. Þannig að ég fékk ekkert bréfið. Ég skrifaði honum bara í staðinn. Þegar pilturinn svo ætlaði að lesa póstinn frá mér varð honum að orði: - "Rosalega skrifa þú illa mamma!" Ekki furða, því pósthólfið hans tók ekki við íslensku stöfunum úr bréfinu mínu. (Veit ekki alveg hvoru pósthólfinu er um að kenna...)

Annars stendur mikið til nú um helgina. Og er óvíst að ég bloggi nokkuð aftur fyrr en í fyrsta lagi á mánudag eða þriðjudag.

24.9.03

- Tommi mágur 24 ára í dag -
Einn bróðursonur hennar mömmu er líka 21 árs í dag og frumburður foreldra minna, Anna Hjaltadóttir f. 24.09.66 d. 19.02.67, hefði orðið 37 ára ef hún hefði lifað.

Davíð kom heim rúmlega sjö í gærkvöldi. Helga, Ingvi og Hulda voru farin heim. Fljótlega dreif ég mig út úr húsi. Leiðin lá fyrst í Borgarbókasafnið í Grófinni þar sem ég skilaði nokkrum bókum og fékk lánaðar margar, margar í staðinn (11 stk. fyrir mig og 13 fyrir strákana). Sennilegt er þó að ég nái ekki að lesa allan þennan fjölda á 30 dögum því innan um eru bækur sem eru ekki fljótlesnar og þar að auki hef ég ekki ótakmarkaðan tíma. Geri samt mitt besta því mér líður ekki vel ef ég kemst ekki í að lesa í marga daga...

Næst lá leiðin í heimahús í Hafnarfirði þar sem yfir stóð Friendtex fatakynning. Það besta við svoleiðis kynningar er að maður fær tækifæri til að máta allt sem hugurinn kýs svo fremi sem flíkin er í listanum. Ég ætlaði nú aðallega að panta buxur og bol sem Davíð gæti fengið að máta en auðvitað fann ég líka eitthvað ómissandi á sjálfa mig. Það er meira hvað ég er að verða mikil fatafrík. Ég var ekki svona!

Oddur Smári er heima í dag með örfáar kommur. Mig grunar að hann hafi fengið í annað eða bæði eyrun og læt athuga það ef hann verður ekki hitalaus á morgun. Þegar við kúrðum okkur smástund niður aftur í morgun eftir að nafnarnir voru farnir að heiman sagði hann allt í einu: - "Ég hlakka ekki til að verða fullorðinn þá þarf ég að sofa allsber!" Hmmm, ég tek það fram að ég var í bol og brókum svo ég veit ekki alveg hvað barnið var að spá??? He, he, hem.


23.9.03

- Veikindi -
Á fjórða tímanum í nótt vaknaði ég við það að annar drengurinn var grátandi og hrópaði : - "Mér er svo heitt!". Þegar ég kom inn í herbergið var hann sjóðheitur, bullsveittur og að reyna að rífa sig úr sokkunum. Ég aðstoðaði hann og gaf honum vatn að drekka. (Barnið var með um 40°C hita.) Síðan heyrði ég ekki meira til hans. Mér gekk frekar illa að sofna aftur en það hafðist á endanum. Það var nokkuð ljóst að Oddur Smári var kominn með einhverja pest.

Davíð er mjög önnum kafinn þessa dagana og á erfitt með að sinna vinnunni sinni héðan að heiman v/tengingamála. Í svona barnaveikindum höfum við oft (strákarnir eru sem betur fer mjög hraustir og sjaldan veikir.) skipt deginum þannig að hann er heima til hádegis, en það var ekki hægt núna. Davíð Steinn vildi helst líka fá að vera heima, hélt kannski að það yrði skemmtilegara en hann er fullfrískur ennþá svo sú ósk hans fékk litlar undirtektir.

Þegar nafnarnir voru farnir fékk sá veiki að kúra uppí hjónarúmi. Þar svaf hann til hálfellefu. Hitinn var heldur lægri (39°C) en ekki hafði hann neina matarlyst (hafði þó borðað eina ristaða brauðsneið um morguninn) fyrr en klukkan var byrjuð að ganga tvö. Ég hef aðeins verið að lesa úr Ævintýrum H.C. Andersens fyrir hann en núna er hann steinsofnaður aftur.

Davíð Steinn er að byrja á kóræfingu um þetta leyti og ætla ég að labba á móti honum um fjögur og við systur höfum talað um það að elda bara aftur hér í kvöld.

22.9.03

- Alltaf nóg að gera -
Fjölskyldan horfði saman á Disney-myndina á föstudagskvöldið.

Á laugardagsmorguninn brunuðum við í Heiðmörk, nánar tiltekið í Furulund þar sem hitta átti kennara, skólasystkyni og foreldra. Strákarnir voru vel klæddir fyrir þetta íslenska slagveður og ég rétt slapp (hefði þó þurft að vera í pollabuxum líka) en Davíð forðaði sér fljótlega aftur inn í bíl því það var ekki einu sinni hægt að nota regnhlífina...

Eftir hádegi skildum við mæðginin Davíð eftir heima þar sem hann þurfti að vinna. Við fórum á síðasta leik Valsaranna í efstu deildinni í bili. Því miður fyrir Valsarana fundu Fylkismenn loksins "fjölina" sína aftur og voru hreint ótöðvandi í seinni hálfleik. Þetta gengur bara betur næst!

Að leiknum loknum lá leiðin til "tvíburahálfsystur" minnar og stoppuðum við þar í góðan klukkutíma...

Gærdagurinn fór að mestu í húsverk hjá mér og feðgarnir skruppu á Bakkann seinni partinn.

19.9.03

- Ýmislegt -
Jæja, það er bara kominn föstudagur. Viðburðarríkir dagar liðnir og allt útlit fyrir áframhaldandi annríki.

Gærdagurinn var þó mest ásetinn. Ég labbaði á móti strákunum um fjögur. Þeir voru að koma af kóræfingu. Við mættumst við Njálsgötuna og ákváðum að byrja á því að sækja Huldu. Ég vissi að það tók því ekki fyrir strákana að reyna að byrja á heimalestrinum. Engu að síður settist Davíð Steinn niður og las bókina Greppikló í annað sinn. Þegar Helga systir kom heim voru strákarnir búnir að gera sig klára fyrir fótboltaæfingu. Ég skutlaði þeim, (á bílnum hennar Helgu) beið eftir þeim þar og notaði tímann til að sauma út.

Systir mín var tilbúin með matinn þegar við komum til baka um sexleytið. Ég varð svo að semja við strákana um að ekki yrði kveikt á sjónvarpinu. Oddur Smári fór upp með Huldu og las fyrir hana á meðan Davíð Steinn las heimalesturinn fyrir mig og skrifaði niður tíu nafnorð úr textanum. Síðan skiptu þeir um hlutverk. Davíð kom úr vinnu á áttunda tímanum.

Ég dreif mig þá á fund upp í Hallgrímskirkju vegna kórsins sem strákarnir eru í. (Var reyndar ekki alveg með það á hreinu hvort fundurinn átti að hefjast klukkan 19:30 eða 20:00. Ákvað því að mæta annaðhvort alltof snemma eða á þessu akademíska korteri...). Ekki mættu allir boðaðir á fundinn en það var þó fundarfært og tók ég að mér ritarastöðuna. Kórstjórinn, Helga Vilborg, kynnti sig og það sem er framundan og leist öllum viðstöddum vel á.

Kom heim rétt fyrir hálftíu. Davíð var þá að byrja í æfingaskrimmi við leikfélagana í tölvunni. Ég sinnti fyrirliggjandi húsverkum og festist svo fyrir framan Skjá einn þar sem verið var að kynna nýjasta piparsveininn og þær 25 konur sem hann fær að velja úr. Ekki veit ég nú hvort ég nenni samt að fylgjast með öllu ferlinu...

18.9.03

- "Þúsund verkefni" -
Það er svo mikið að gerast í kringum mig (sem er gott) að ég er viss um að ef ég reyni að segja frá öllu þá fer allt í graut, eða þannig.

17.9.03

- Vikan hálfnuð - ...og mánuðurinn líka...
Það er ekki einleikið hvað dagarnir flýta sér mikið; "Þetta er bara allt farið áður en maður veit af!"

16.9.03

- Ég mæli með... -
þessari síðu! Ég þurfti nauðsynlega að komast á milli tveggja staða á sem skemmstum tíma í gær. Þá mundi ég eftir að strætó er kominn með heimasíðu. Þar er m.a. hægt er að skrá niður upplýsingar hvar maður er, hvert maður vill fara og hvenær maður þarf að vera kominn á staðinn... Þetta nýtti ég og er þrælánægð með þjónustuna fyrir vikið.

15.9.03

- Frábær helgi! -
Það yrði alltof langt mál að rekja upp allt það sem gerðist um helgina en ég ætla samt að reyna...

Mamma tók tvíburana með sér austur seinni partinn á föstudag. Það var hálf tómlegt heima hjá mér og gerði ég heiðarlega tilraun til að sinna húsverkunum á meðan ég beið eftir að Davíð skilaði sér heim úr vinnu (sem var rétt fyrir sjö). Eftir að hafa fengið okkur bita drifum við okkur upp í Mosó til "tvíburahálfsystur" minnar með smá farangur með okkur. Kvöldið leið mjög hratt við grín, glens og aðstoð við undirbúning.

Laugardagurinn byrjaði á rólegu nótunum. Davíð þurfti að vinna og ég fann mér ýmislegt til dundurs. Horfði t.d. á tímatökurnar á Monza. Á fjórða tímanum klæddum við okkur upp á (ekki samt í kjól og hvítt...) og byrjuðum svo á því að heimsækja útskriftarbróður Davíðs (úr FSu.). Þar fékk ég að setjast beint fyrir framan skjáinn og náði að fylgjast með fyrri hálfleik í kvennalandsleiknum Ísland-Pólland (10:0).

Um sex vorum við mætt heim til hennar og var þá hluti af hópnum nýkominn eða að koma. Húsráðendur vísuðu fólkinu inn í stofu en voru svo að sýsla við matargerðina. Síðustu gestirnir mættu stuttu áður en sagt var: - "Gjörði þið svo vel að setjast við borðið!" Við vorum 12 í allt og komumst mjög vel fyrir. Gáfum okkur góðan tíma við matarborðið. Forrétturinn var dýrindis sjávarréttasúpa með hvítlauksbrauði og hvítvíni. Súpan var svo góð að maður borðaði sig næstum því saddan. (Maður fer bara að slefa við tilhugsunina, verður hálfsvangur svo ég sný mér frá matarborðinu...).

Kvöldið var fjörugt og skemmtilegt og makarnir gátu narrað okkur "kórsystkinin" til að taka lagið nokkrum sinnum. (3 sópran, 3 í alt og einn tenór-bassi). Það er merkilegt hvað raddirnar og textarnir rifjast upp þegar maður er kominn í gang. Ég viðurkenni samt að ég treysti oftast á hana svo ég færi nú ekki of oft útaf laginu. Það er allt útlit fyrir að þessi samkoma verði endurtekin að ári og þá á þannig stað allir geti gist ef þeir vilja. Ég er strax farin að hlakka til.

En helgin var ekki búinn. Ég svaf til hádegis í gær, horfði á formúluna, vakti nöfnu mína og frænku um hálftvö og skildi svo manninn eftir heima. Við nöfnurnar keyrðum Nesjavallaleið austur. Fengum okkur hressandi göngutúr ofan við Nesjavelli og stoppuðum svo í Nesbúð og fengum okkur sinn hvorn kaffibollann. Þar sem ég er í sykuraðhaldi þá lét ég það ekki eftir mér að kaupa mér af hlaðborðinu. En mikið rosalega var það girnilegt...!

Við komum á Hellu um fimm. Ég varð alveg dolfallin yfir pallinum sem pabbi er búinn að smíða. Þetta er algert listaverk hjá honum! Strákarnir voru úti að leika sér. Mamma hafði látið þá fara í hrein föt um morguninn og þvegið af þeim. Þeir fórum svo að drullumalla með vinum sínum og varð að setja Davíð Stein í sturtu á eftir...

11.9.03

- Nóg að gera, enda flýgur tíminn á ljóshraða -
Það er bara allt í einu kominn föstudagur. Var ekki örugglega mánudagur í fyrradag? (Eða þannig...!)

Anna frænka kom til mín seinni partinn á miðvikudaginn. Ég var ekki búin að hitta hana síðan hún fór heim til sín í vor og það var ósköp gott að sjá hana. Við gerðum áætlanir aðeins fram í tímann og munu þær koma í ljós síðar...

Dagurinn í gær var þungur og fremur erfiður. Skelfilegar fréttir frá Svíþjóð settu sitt mark á allt. Og svo var veðrið ekkert að leika við mann heldur.

Mætti upp í kirkju rétt áður en kóræfingin hjá strákunum var búin. Saman trítluðum við á Grettisgötuna og náði Davíð Steinn að lesa heimalesturinn og Oddur Smári aðeins að byrja á honum áður en ég þurfti að koma þeim á fótboltaæfingu. Helga lánaði mér bílinn sem betur fer en ég var samt of sein því umferðin fram hjá BSÍ var ótrúlega þung. Þar sem Helga var með matinn ákvað ég að bíða eftir stákunum, fylgjast með æfingunni og lesa blöðin sem ég var með í töskunni minn. Maturinn var tilbúinn ( og mæðgurnar búnar að borða) þegar við mæðginin komum til baka. Davíð var líka mættur. Strákarnir þurftu svo auðvitað að horfa á sjónvarpið fram að fréttum en þá drifum við okkur heim. Þar luku þeir bræður við heimanámið, fengu hressingu og voru komnir í rúmið um hálfníu. Ég las fyrir þá í Saltkráku II og þeir vildu líka að ég syngi og spilaði með þeim nýja lagið sem þeir lærðu í kórnum í gær...

Ætlaði mér svo að slaka á og sauma en það varð ekkert úr því heldur fylgdist ég með 70 mínútum á Popptíví þar sem Þórunn Lárusdóttir var gestastjórnandi með Auðunni Blöndal...

Annars er kominn tilhlökkunarfiðringur í magann vegna "hittingsins" annað kvöld!
- 11. september - (ægilegar minningar...)
Já, tvö ár eru liðin frá því að heimurinn breyttist. Það sem gerðist þennan dag er eitthvað svo óraunverulegt og hræðilegt að það er varla að maður vilji tjá sig um það, ég hreinlega get það ekki.

10.9.03

- Undirbúningsstörf -
Í gærkvöldi hitti ég "föðursystur" mína hjá "tvíburahálfsystur" minni og vorum við að undirbúa það sem koma skal n.k. laugardag. Um er að ræða hina árlegu grillveislu "Fjölbrautaskólakórsvinaklúbbsins" eins og lesa má á blogginu hennar. Nefndarstörf gengu mjög vel en við vorum ekkert að flýta okkur heldur sátum frameftir og rifjuðum upp grillveisluna síðan í fyrra...

9.9.03

- gleraugun -
Það er nokkuð ljóst að ég ætti að drífa mig til augnlæknis, láta mæla sjónina og skoða þykkildið á augnlokinu sem hefur verið að stækka. Ég er a.m.k. löngu hætt að geta notað linsurnar mínar vegna þessa þykkildis. Kannski munu þessi skrif mín verða til þess að ég láti verkin tala...???

Tvíburarnir mættu á sína fyrstu kóræfingu í Hallgrímskirkju rúmlega þrjú í dag. Þar hittu þeir m.a. Evu Þóru sem var með þeim á Barónsborg. Þeir voru sammála um að þetta hafi verið skemmtilegt og hlakka til næstu æfingar sem verður á sama tíma á fimmtudaginn.

8.9.03

- Strákapör -
þegar strákarnir voru búnir að læra máttu þeir skreppa út að hjóla. Ég fór með þeim til að opna skúrinn og kom þá að máli við mig afskaplega kurteis maður sem er einn af frumbyggjunum í götunni. Hann vildi segja mér frá strákapörum tvíburanna sem þeir frömdu í garðinum hans og bað mig svo um að ræða þetta við þá á rólegu nótunum en ákveðið. Oddur Smári, Davíð Steinn og Birta voru úti að leika sér í gærmorgun. Þau tóku sér það bessaleyfi að fara inn í garð í hinum enda götunnar og fundu þar tré til að klifra í (og löskuðust nokkrar greinar), tættu upp rabbarbarann (sem betur fer var búið að taka a.m.k. einu sinni af uppskerunni) og kláruðu öll berin af Brómberja-runna fólksins sem á þennan garð. Maðurinn sagðist ekki vilja neins konar bætur fyrir þessi spjöll er ég innti hann eftir því hvort það væri eitthvað sem við gætum gert til að bæta fyrir raskið og ónæðið. "Við viljum vera vinir barnanna en þau verða að skilja að trén eru fyrir fuglana," sagði hann. ...og þar að auki á ekki að fara í leyfisleysi inn í garða, hvað þá skemma og fá sér að borða það sem ætt er., bætti ég við með sjálfri mér.

Strákarnir gleyptu í sig kvöldmatinn um sex og fóru beint út að hjóla aftur og voru að leika sér með ellefu ára stúlku úr hverfinu sem þeir hafa þekkt allt sitt líf. Sú hin sama var frekar smeik við mig tveim dögum áður en strákarnir fæddust. Hún var þá fjögurra ára og þar sem að henni hafði verið sagt að ég væri með tvö börn í maganum hlaut ég að borða þau...

Hulda og Helga fóru heim til sín um hálfsjö (við frænkurnar komum labbandi frá leikskólanum hennar og hluta af leiðinni bar ég hana á háhesti).
- Hreinir gluggar -
Nú sést vel út um alla glugga hjá mér (nema baðherbergisgluggann...). Ég fékk Davíð til að fara út og þvo gluggana seinni partinn í gær, eftir að við komum heim úr sundi. Maðurinn minn var nú ekki hrifinn af því að fara út eftir sundið en hann dreif sig samt og var mjög ánægður þegar þessu verki var lokið. Hann var alls ekki lengi að þessu þrátt fyrir sundþreytuna. (Hann synti reyndar ekki neitt en það fór slatti af orku í að leika við strákana, fara með þeim nokkrar ferðir í stóru rennibrautina og svo fórum við fjögur í boltaleik þar sem einn var alltaf í miðjunni)

7.9.03

- Sunnudagsmorgunn -

Haustið er að banka upp á og ég spyr mig daglega: "Hvað verður eiginlega af öllum dögunum?" Þeir þjóta áfram eins og þeim sé borgað fyrir það og maður á fullt í fangi með að púsla saman hlutunum í annríki hversdagsins og jafnframt að reyna að bremsa af stressið og hraðann sem er allt í kring.

Við mæðginin vorum nýlega vöknuð þegar Davíð kom heim um hálfníu í morgun. Hann fór út rétt fyrir miðnætti til að hitta net-spilafélaga sína augliti til auglitis á Ground Zero og þar spiluðu þeir uns klukkan var að verða átta í morgun. Þetta er nú hálfbilað finnst mér en hans áhugamál svo ég læt gott heita (sérstaklega ef ég fæ sjálf minn svefn...).

Erill gærdagsins kostaði mig bólginn ökkla (bjúg) svo nú hef ég ástæðu til að taka því mjög rólega! Hversu lengi ég man eftir því verður að koma í ljós. Húsbóndinn sefur og strákarnir eru að horfa á morgunsjónvarpið svo ég hef góðan tíma til að sinna sjálfri mér. Mig langar til að fá bræðurna með mér í messu á eftir en ætla samt ekki að ganga hart á eftir því. Það koma aðrir sunnudagar...

6.9.03

- Viðburðarríkur laugardagur -
Morgunhaninn, Oddur Smári vaknaði vel fyrir klukkan átta í morgun og skömmu síðar vaknaði bróðir hans. Ég sem hélt að þeir myndu sofa til hálfníu eftir annríka viku. Ég notaði tækifærið og hlustaði á þá lesa heimalesturinn eftir morgunmatinn.

Á tíunda tímanum klæddu bræður sig upp í Vals-dressið (hvítar stuttbuxur, legghlífar, rauða og hvíta hnésokka og takkaskóna, einnig fóru þeir í sína Valsboli en þeir fá svo alltaf númeraða treyju á keppnum). Davíð tókst að rífa sig upp þrátt fyrir að hafa verið í vinnupartýi fram á nótt og við vorum komin upp í Egilshöll á slaginu tíu. Sáum B-liðið spila sinn síðasta leik sem virtist vera þeim nokkuð erfiður.

7. flokkur Vals var þarna með A, B og C lið og voru tvíburarnir í C-liði (spiluðu reyndar í D-liði á Lottómótinu en þarna mátti það þar eð ekki voru fjögur lið...) Hvert lið spilaði þrjá leiki. Hver leikur var 12 mínútur og var svo hvílt í einn leik á milli. Þetta gekk vonum framar en við vissum að þeir myndu lenda á móti fremur stærri og leikreyndari strákum enda tapaðist fyrsti leikurinn mjög stórt. Sá leikur var spilaður við Fjölni. Næst var spilað við KR og þar voru strákarnir að standa sig mjög vel og endaði leikurinn 0:0. Loka leikurinn var gegn Fylki og sigruðu þeir "okkur" 3:0 en strákarnir voru að berjast allan tímann og áttu sín færi.

Að þessu loknu ákváðum við fjölskyldan að það væri í lagi að skreppa nú á Pítuna í tilefni dagsins. Þegar heim kom tók Davíð hjólin út fyrir strákana. Ég fór í að sinna inniverkum og þegar ljóst var að Davíð var ekki í neinu vinnustuði fékk ég hann til að fara út og hreinsa það sem málaðist í gluggarúðurnar (svo á eftir að klifra upp einu sinni enn og þvo rúðurnar almennilega). Um fjögur leytið skrapp ég í BÓNUS og verslaði inn fyrir vikuna. Fljólega eftir að ég kom heim settist ég fyrir framan skjáinn...

Ísland - Þýskaland 0:0
Ég er mjög stolt af íslensku strákunum og reyndar hálf svekkt yfir að þeim tókst ekki að knýja fram sigur. Mér fannst allir í liðinu vera sem einn maður og ég hefði helst viljað vera á vellinum og upplifa stemminguna. Nú vona ég bara að "strákarnir okkar! nái öðrum svona stjörnu-leik á heimavelli Þjóðverja 11. okt. n.k.

5.9.03

- Spilamennska, stríðni og sitthvað fleira -
Það bólaði ekkert á feðgunum þegar ég kom heim seinni partinn í dag. Hélt kannski að Davíð hefði tafist og/eða tvíburarnir ekki verið tilbúnir en þeir eiga að vera í skólaskjólinu til klukkan fjögur á föstudögum. Í ljós kom að á meðan Oddur Smári og Davíð biðu eftir Davíð Steini fóru þeir að spila smá fótbolta á skólalóðinni og þegar sá síðast nefndi var loks tilbúinn vildi hann spila smá líka.

Strákarnir biðu svo úti í bíl á meðan Davíð hafði sig til fyrir vinnupartý (fór í hawai-skyrtu og setti upp bleikan kúrekahatt...hmmm!). Við mæðginin skutluðum honum svo á skrifstofuna og kíktum inn í smá stund. Þeir bræður hefðu helst viljað fá að fylgjast lengur með en það var kominn tími á heimferð og þar að auki átti að fara að bergja á göróttum miði. "Ég lofa að fá mér ekki bjór!" sagði Davíð Steinn og hélt að það nægði til að fá að vera lengur...

Upp úr klukkan átta settumst við mæðgin að spilamennsku. Fyrst var spilaður veiðimaður. Þegar ég var komin með tvo slagi og Oddur Smári þrjá tókst mér að lauma hans slögum saman við mína án þess að hann yrði þess var...:
- "Ég er að vinna!", sagði ég þegar ég fékk minn þriðja slag og var þá komin með sex.
- "Hvar eru mínir slagir? spurði Oddur.
-"Þeir hurfu", sagði ég.
-"Hvernig þá? spurði Oddur

Hann sagði þetta svo fullorðinslega með ekta áhyggjusvip á andlitinu að ég hreinlega sprakk úr hlátri og skilaði aftur slögunum hans. Davíð Steinn vann í þjóf og Oddur Smári í síðasta spilinu Ólsen-ólsen.
- Köttur á leið í skólann -
Í morgun sá ég nokkuð skondna sjón. Grá-bröndóttur köttur trítlaði ákveðið í áttina á Iðnskólanum í Reykjavík. Ég staldraði við og fylgdist með, athugaði hvort kisan væri nokkuð með tösku í eftirdragi. Tveir piltar voru spölkorn á undan og þegar þeir hurfu inn um skóladyrnar settist kisan niður nokkrum metrum frá og virtist vera að bíða eða hugsa málið. Líklega hefur kötturinn verið að fylgja piltunum (öðrum eða báðum) í skólann.

Skyldi Lafði Hermína fylgja Erlingi í vinnuna. A.m.k. er hún dugleg við að vekja hann og son hans á morgnana og notar til þess fjölbreyttar aðferðir las ég einhverntíman á blogginu hans...

4.9.03

- Rigningin, regnhlífin og "Mary Poppins" - (...og einnig sitthvað fleira...)
Það er greinilegt að haustið er komið og rigningin sem dynur á okkur er ekki lengur útlensk því íslenska rokið þeytir henni í allar áttir. Samt gat ég alveg notað regnhlifina í morgun en varð að passa mig á að hún fyki ekki upp og ég jafnvel með henni á köflum. Mér varð því hugsað til barnfóstrunnar frægu Mary Poppins á arkinu í morgun.

Á heimleiðinni í gær skráði ég tvíburana í barnakór Hallgrímskirkju. Æfingar hefjast í næstu viku og er ég spennt að sjá hvort þeim líkar lífið í kórnum. Þeir hafa mjög gaman að því að syngja og það er mikið sungið í Ísaksskóla.

Annars voru þeir í afmæli hjá einum bekkjarbróður sínum í gær og var klukkan að verða hálfsex þegar Davíð kom þeim heim. Þá áttu þeir eftir að lesa og læra smá heima. Rétt áður en þeir komu var ég að tala við "tvíburahálfsystur mína á msn-inu. Og fengum við báðar þá frábæru hugmynd að ég fengi mér bíltúr til hennar upp úr klukkan átta. Davíð Steinn lauk við að lesa og læra fyrir mat en Oddur Smári átti smávegis eftir en hann var heldur ekki eins snöggur að koma sér að verki. Þeir voru heldur þreyttir eftir daginn þótt þeir fari að sofa um níu á kvöldin. Líklega tekur það fyrstu tvær vikurnar að komast í rútínuna...

3.9.03

- Innlegg eða illegg? -
Var mætt í Stoðtækni - GÍSLI FERDINANDSON ehf upp úr klukkan fjögur í gær. Var í nýju skónum og fékk innleggin beint í. Upphækkunin er föst við innleggin og ég athugaði ekki að kaupa aukapúða í inniskóna mína. Hefði átt að vera búin að því!

Því næst arkaði ég beint í Skaftahlíðina þar sem mamma var með fjórburagengið, Kolfinnu og köttinn. Mamma lánaði mér bílinn svo ég gæti skutlað mínum strákum á fótboltaæfingu áður en ég mætti á námsefniskynningu vetrarins í Ísaksskóla. (En hvoru tveggja átti að byrja klukkan fimm.) Kynningin stóð yfir í tæpa tvo tíma (eins gott að Davíð gat sótt strákana eftir æfingu) og leist mér mjög vel á það sem er framundan.

2.9.03

- Huldumál - (...og fleira)
Við frænkurnar löbbuðum saman frá leikskólanum hennar og heim til mín í gærdag. Helga systir er enn með lykilinn að útigeymslunni á lyklakippunni hjá sér svo við frænkurnar gátum ekki náð í kerruna. Á meðan við gengum heim sagði ég Huldu m.a. frá gulbröndóttu kisunni sem tókst að lauma sér inn til okkar á sunnudagskvöldið og faldi sig undir hjónarúmi. Við Davíð vissum ekkert af henni fyrr en hún kom fram (líklega vegna þess að hún fann harðfisklykt). Kisa náði að forða sér aftur undir rúm en eftir góða stund náði Davíð að narra hana til sín með því að bjóða henni upp á harðfiskbita. Kisa var svo send beinustu leið út en hún á heima í húsinu við hliðina á okkur.

Á einum stað á heimleiðinni benti ég Huldu svo á hvar lang-ömmu-bróðir hennar á heima. Þá barst í tal að langaamma væri dáin;
-"Ó, nei! Er langamma dáin? Ég verð að kaupa nýja!!!"

Gærdagurinn var nokkuð langur fyrir tvíburana. Kennslu lauk um tvöleytið en þeir voru í skólaskjólinu til hálffimm. Þá sótti Helga þá og keyrði beint á fótboltaæfingu sem var til klukkan sex svo klukkan var að verða hálfsjö er þeir komu heim, rennblautir og grösugir að auki. Sem betur fer var hvorki heimalestur né heimanám. Við leyfðum þeim að horfa á heimildamyndina um hellisbúana en það var rétt svo að þeir gátu haldið sér vakandi yfir henni.

1.9.03

- Nýr mánuður -
"Stóra systirin" uppi varð þriggja ára í gær!
Strákunum var skilað heim um níu í gærkvöld. Ég stóð mig að því að vera að bíða og bíða eftir þeim allan daginn. (En notaði hann þó nokkuð vel við ýmislegt dútl.)

Við Davíð fengum okkur sallat að borða rétt fyrir sex. Eftir það fór hann í tölvuna en ég var áfram inni í eldhúsi og hlustaði (og saumaði út) á lýsingu frá leik Vals og KA og einnig fyrri hálfleik í leik Fram og FH! Ég ætla ekkert að vera að tjá mig um þessa leiki...