30.4.14

Eini farþeginn

Fór með strætó milli heimilis og vinnu í gær.  Var mætt nokkru fyrir átta eins og venjulega.  Ein okkar var komin í eins og hálfs vikna frí svo við vorum fjórar um deildina og mikið annríki hjá okkur.  Náðum að klára eitt af hefðbundnum mánaðarverkum og byrjuðum á einu verkefni sem við fáum með órreglulegu millibili síðasta klukkutímann í gær.  Náði leið 13 rétt upp úr klukkan fjögur.  Það var kona sem keyrði vagninn.  Enginn annar var í vagninum er ég kom inn við Hörpu og það kom enginn ínn þessar sex stoppistöðvar milli Hörpu og skýlisins á Lönguhlíðinni milli Máva- og Drápuhlíðar.  Þannig að það má vel segja að ég hafi haft  einkabílstjóra úr vinnunni og vel rúmt um mig í vagninum.

Þrátt fyrir að bæði "liðin mín" væru að spila heimaleiki í gær fór ég ekki á völlinn að þessu sinni.  Horfði á útsendingu á RÚV 2 íþróttir og sá valsstelpurnar vinna ÍBV og breyta stöðunni í 2-1 en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaleikinn við Stjörnuna.  Aftur á móti töpuðu valsstrákarnir fyrir ÍBV og þar er staðan 2-2 og oddaleikurinn í Eyjum á morgun.

29.4.14

Apríl á endasprettinum

Fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun og bauð tvíburunum far í skólann í leiðinni.  Þeir voru báðir að byrja upp úr átta svo þeir þáðu farið með þökkum.  Við vorum allar fimm í vinnu og nóg að gera allan daginn.  Framleiðsluvélin hagaði sér með skásta móti amk eftir að hún byrjaði loks að líma kortin sem sett eru á form.  Við köllum þetta mánudagsveiki í vélinni og þurfum að muna eftir því að snúa vel upp á sneplalímið svo vélin lími helst frá upphafi eftir að byrjað er að framleiða kort á form.  Tvær af okkur fóru upp og borðuðum í mötuneyti seðlabankans í hádeginu.  Fengum afar góðan steiktan lax. Kom heim milli fjögur og fimm og fann mömmu og pabba bíðandi í hinum bílnum sínum til að senda afhenda mér smá skilaboð.  Þau vildu ekkert koma neitt inn og stoppa.  Mamma hafði farið í augnskoðun og brosti hringinn því hún getur farið aftur í leiser og fær tíma núna fljótlega í maí.  Var með hakk og spakk í kvöldmatinn og það var nóg eftir í afgang til að taka með mér í vinnuna í dag. Horfði á fyrri hálfleik í kvennaúrslitaleik milli Stjörnunnar og Gróttu í handknattleik. Um hálfníu skipti ég yfir á DR1 og horfði á mynd um hinn unga Morse.  Oddur kom og horfði með mér og strax á eftir skiptum við yfir á CSI á Skjá einum.  Las svo næstum fram að miðnætti áður en ég fór að sofa í hausinn á mér.

28.4.14

Aftur til vinnu

Rumskaði fyrst upp úr sex í gærmorgun og fannst upplagt að bera gelið á mig.  Eftir að gelið hafði þornað inn í húðina snéri ég mér á aðra hliðina og kúrði áfram í hátt í fjóra tíma.  Upp úr hádeginu skrapp ég í bíltúr og heimsótti eina frænku mína á Hvolsvelli.  Var komin á Hellu aftur  rúmlega fjögur. Settist þá um stund við saumana og einbeitti mér að þessu sinni að stóru myndinni sem ég byrjaði á í fyrra.  Foreldrar mínir spiluðu ólsen ólsen og var ég ánægð með að sjá að mamma var aðeins hressari.  Ekki tók hún þó í prjónana sína alla helgina.  Ég var alveg róleg og ákvað að leggja ekki af stað heim fyrr en sól var næstum sex.  Helgin var alltof fljót að líða en hún gerði mér mikið gott.  Bræðurnir voru komnir upp í er ég kom heim stuttu fyrir ellefu í gærkvöldi, en þeir kölluðu báðir hæ.  Í ljós kom að þeir höfðu aldrei farið til pabba síns en sem betur fer var til eitthvað í ísskáp og frysti og þeir bara björguðu sér að sjálfsögðu.

27.4.14

Batteríin hlaðin

Gærdagurinn leið í miklum rólegheitum en þó nokkuð hratt engu að síður.  Ég yfirtók tölvuna á köflum, las, saumaði út og fékk mér stuttan göngutúr.  Sat líka um tíma úti á palli sunnan meginn.  Spjallaði að sjálfsögðu einnig við foreldra mína.  Mamma var hálfléleg í gær, fór seint á fætur og snemma í háttinn og dormaði þess á milli.  Hún sá þó um kvöldmatinn, afar ljúffengan lifrarrétt.  Eftir kvöldmat bauð pabbi mér upp á hvítvínsglas. Glasið var reyndar í stærra lagi.  Ég horfði á alla leið og myndina um Mss Madison (kappsiglingabát).  Á eftir sat ég góða stund í tölvunni og vafraði um á netinu á meðan vínáhrifin fjöruðu út.

26.4.14

Aftur í sveitina

Þar sem strákarnir ætluðu til pabba síns seinni partinn í gær og vera yfir helgina var ég ákveðin í að drífa mig aftur austur á Hellu.  Var komin á fætur upp úr níu og náði að hitta annan tvíburann áður en hann fór í skólann.  Um hálfellefu hringdi ég í mömmu tvíburasystur minnar og spurði hvort ég mætti ekki kíkja við hjá henni á leiðinni austur.  Það var auðsótt mál.  Var næstum búin að gleyma að sækja þvottinn í þvottahúsið, en bara næstum því.  Tók mig til og lagði í hann upp úr ellefu.  Stoppaði um stund á Selfossi og var tekið vel á móti mér þar og átti ég gott spjall við mömmu vinkonu minnar.  Var komin á Hellu um tvö.  Eftir kaffi fór pabbi að sinna lánsbílsmálum.  Hann skipti um dekk á honum en var í vandræðum með að skipta um annað bremsuljósið, sagði að ég yrði að skreppa með bílinn í Brimborg sem fyrst.  Eftir kvöldmat horfði ég á skólahreysti, útsvar og fyrstu mynd kvöldsins.  Fór svo um stund í tölvuna áður en ég skreið upp í rúm og las aðeins fyrir svefninn.

25.4.14

Tvöfaldur Valssigur

Oddur Smári var vaknaður og kominn á stjá upp úr klukkan sjö í gærmorgun.  Ég kúrði áfram til klukkan að ganga níu.  Fljótlega fór svo Davíð Steinn á stjá en þeir bræður voru sóttir af pabba sínum um tíu leytið.  Dagurinn leið afar hratt hjá mér.  Ekki kláraði ég þó neina bók þótt ég læsi en ég byrjaði að lesa tvær.  Önnur þeirra er seinni skammtímaláns bókin,  "Það skelfur"  um og eftir Ragnar (skjálfta) Stefánsson.

Rétt fyrir tvö trítlaði ég á Valsvöllinn.  Stelpurnar voru að taka á móti ÍBV-konum í fyrsta leiknum um hvort liðið mun keppa um Íslandsmeistaratitilinn.  Í hálfleik var staðan 9-7 fyrir Valsstelpur og aðeins tvær Eyjakonur höfðu skorað þessi sjö mörk.  Sigurinn var aldrei í hættu og vannst leikurinn með fjögurra marka mun.  Ég var áfram í Vodafone-höllinni því upp úr klukkan fjögur hófst annar leikur Valsmanna og ÍBV í útsláttarkeppninni um Íslandsmeistaratitil karla.  Fyrir leik var staðan 1-0 fyrir ÍBV en þeir voru einu sæti ofar eftir deildarkeppnina svo þeir áttu heimaleikjaréttinn í fyrsta leik og unnu þann leik.  En í gær var sigur "minna manna" aldrei í hættu þrátt fyrir að ÍBV hafi verið á undan að skora og yfir fyrsta korterið eða svo.  Strákarnri lönduðu að lokum 4 marka sigri og jöfnuðu stöðuna en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslita leikinn.  Í hinum leiknum sem var seinna um kvöldið sigruðu FH Hauka aftur og þar er staðan 2-0 fyrir FH.

Kom við í Sunnubúðinni áður en ég fór heim aftur.  Strákarnir komu heim eftir kvöldmat svo ég þurfti ekki að hafa fyrir því að elda.  Kvöldið fór í útsaum, Taggart á DR1 og Criminal Minds á RÚV.

24.4.14

GLEÐILEGT SUMAR!

Varð vör við það þegar annar tvíburinn lagði af stað í skólann upp úr hálfátta í gærmorgun.  Sjálf kúrði ég eitthvað aðeins lengur en var þó búin að fara í sturtu, gela mig, þorna og klæða mig áður en klukkan varð níu.  Í gær var semsagt sumarfrísrestardagur númer tvö af þremur.  Morguninn fór í lestur og tölvumál, bæði leiki, blogg og fl.  Er strax búin að lesa þrjár bækur af ellefu en tvær af þeim eru reyndar innan við 200 bls. og í vasabókabroti.  Sú þriðja er önnur bókanna sem ég þarf að skila innan tveggja vikna, bókin um Jón Pál sem Sölvi Tryggvason tók saman með aðstoð heimilda úr bókinni sem Jón Óskar Sólnes skrifaði um tröllið og sterkasta manns heims.

Um hálftvö fór ég með lánsbílinn á snertilausu þvottastöðina við Skúlagötu til að sjá til þess að hann væri hreinn að utan.  Síðan lagði ég leið mína í Frumherja í Skeifunni til að fá skoðun á gripinn.  Það gekk mjög vel fyrir sig.  Skoðunarmaðurinn sagði að annað bremsuljósið væri farið og að ég mætti láta skipta um bremsudiska þegar ég léti skipta um bremsuklossa.  En þetta voru bara smávægilegar athugasemdir og rauðir miðar með númerinu 15 voru settir á númeraplöturnar.  Á heimleiðinni kom ég við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg til að nýta mér 12 krónu afsláttinn.  Var kominn heim löngu áður en strákarnir skiluðu sér úr skólanum. Seinni partinn skrapp ég svo í Garðabæinn að sækja asea-sendingu.  Ætla að gefa þessum drykk aðeins meiri tíma.

Hafði steikt slátur og soðnar kartöflur í matinn upp úr hálfsjö.  Mætti á raddæfingu upp í kirkju um átta.  Kórstjórinn er erlendis en hann fékk Guðbjörgu Tryggvadóttur kórstjóra Veiranna til að temja raddirnar okkar.  Við mættum reyndar ekki nema átta á æfinguna og sum af okkur voru hissa á að okkur hefði ekki verið gefið frí þar sem við eigum ekki einu sinni að syngja í næstu messu nema þá sem almennir kirkjugestir.  En raddæfingin var góð.  Á einum tímapunkti lét Guðbjörg okkur taka um nefið, hugsa tóninn fyrir ofan og slengja svo lausu hendinni fram þegar var ris á raddæfingunni.  Merkilegt nokk þá heyrðust engin nefhljóð í okkur.

23.4.14

Bókaormur

Ég var komin á fætur fyrir níu í gærmorgun.  Fann pabba minn í eldhúsinu.  Hann var nýlega kominn heim úr morgunsundi og hafði hann labbað þangað og til baka eftir "sprettinn" í fyrsta skipti í langan tíma.  Bræðurnir komust báðir á fætur fyrir tólf og fóru fljótlega í e-n tölvuleik.  Sjálf fékk ég að nota pabba tölvu en ég las líka og saumaði inn á milli.  Las bók númer fimm af sex á safninu.  Ein af bókunum greip mig ekki, Leyndardómar, eftir Knut Hamsum, og ég ákvað að eyða ekki tíma í að lesa hana.  Mamma fór á bílnum sínum í sjúkraþjálfun og kom til baka um kaffileytið.  Strax eftir kaffið tókum við mæðgin okkur saman, kvöddum og brunuðum í bæinn.  Þangað vorum við komin upp úr fimm.  Ég setti fjölmiðlamælinn í hleðslu en hann var tómur eftir rúmlega tveggja sólahringa notkun.  Síðan tók ég saman bókasafnsbækurnar og dreif mig á Kringlusafnið.  Skilaði öllum sex bókunum og náði mér í ellefu í staðinn, þar af tvær sem skila á eftir tvær vikur.  Hér heima bíða mín líka amk tvær bækur ólesnar og er önnur þeirra úr bókaklúbbnum, spennubók eftir Lee Child.  Strákarnir voru með spilakvöld í gærkvöldi.  Ég fékk stofuna út af fyrir mig og skipti á milli íþróttastöðva og saumaði út þar til Castle byrjaði.

22.4.14

Sumarfrísdagur nr. eitt

Sauma, les og slaka á
svo knúsa pabba' og mömmu.
Mæðgin öll hér ligga lá
en þeir hjá afa´ og ömmu.


Klukkan átta í gærmorgun fór ég framúr til að sinna hefðbundnum morgunverka hring.  Bar gelið á mig þegar ég lagðist aftur upp í.  Þegar gelið hafði dregið sig inn í húðina lagðist ég á hliðina undir sæng og ætlaði að kúra smá stund lengur.  Stundirnar urðu uþb þrjár eða svo.  Dreymdi alveg helling af einhverju sem ég mundi ekkert eftir þegar ég vaknaði.  Þrátt fyrir að hafa sofið til klukkan að ganga tólf var ég númer tvö á fætur í húsinu.  Pabbi var auðvitað löngu vaknaður og kominn á fætur.  Mamma kom fram rétt á eftir mér, annar tvíburinn tæpri klst seinna og hinn löngu eftir það.  Dagurinn leið í rólegheitum við saumaskap, spjall, lestur, tölvuleiki og almennu afslappelsi.

21.4.14

Í heimsókn

Ég var pínu stressuð yfir því að geta ekki vaknað þegar vekjarinn færi í gang klukkan sex í gærmorgun. Sennilega vaknaði ég nokkru fyrir sex fyrir vikið.  Fór í sturtu og sinnti hefðbundnum morgunverkum. Klæddi mig í spariföt og var komin út að skafa bílinn áður en klukkan varð korter í sjö. Kórstjórinn hitaði okkur upp í hálftíma og síðan settumst við kórfélagarnir niður, sumir með kaffi, í neðri safnaðarsalnum og reittum af okkur brandana og hlóum og hlóum.  Frekar góð auka upphitun það.  Messan gekk vel fyrir sig og áður en presturinn steig upp í predikunarstólinn dönsuðu þrjár stúlkur úr jazzballetskóla jsb ballet.  Eftir messu fengum við súkkulaði með rjóma og heitar brauðbollur.

Ég kom heim upp úr klukkan níu og var þá annar tvíburinn vaknaður.  Hann var samt ekki búinn að fara í sturtu svo ég hvatti hann til að drífa sig í það dæmi.  Strax og hann var búinn vakti ég hinn sem líka þurfti að fara í sturtu.  Klukkan hálfellefu fermdum við lánsbílinn og brunuðum austur á Hellu.  Þar voru fyrir systir mín og fjölskylda, höfðu komið daginn áður.  Fljótlega eftir að við komum sendi hún krakkana út í göngu og okkur hin inn í tvö herbergi á meðan hún faldi nokkur páskaegg hér og þar um húsið.  Þegar börnin komu til baka var strax byrjað að leita. Sumir fundu páskaegg annarra en áttu í erfiðleikum með að finna sín. Eggin fundust þó öll að lokum. Þá demdi systir mín sér í að steikja pönnukökur á tveimur pönnukökupönnum.  Höfðum kaffið um tvö. Fram eftir degi voru svo nokkur rólegheit.  Ég byrjaði t.d. á nýju saumaverkefni. Yngri systurdóttir mín átti þó svolítið erfitt með sig og bitnaði það mest á öðrum tvíburanum sem var alveg við það að missa þolinmæðina.  Kvöldmatur, læri og tilheyrandi, var borðaður upp úr klukkan átta.  Annar tvíburinn hjálpaði til við frágang eftir matinn. Fullorðna fólkið horfði á Landann og Ferðastilklur á plúsnum en svo drifu systir mín og fjölskylda sig í bæinn. Enginn nennti að horfa á meira sjónvarp en það var ýmislegt dundað annað.

20.4.14

Páskadagur

Klukkan var ekki orðin átta þegar ég rumskaði í gærmorgun.  Hins vegar fór ég aftur upp í rúm eftir að hafa smurt á mig gelinu og þegar ég var orðin þurr snéri ég mér á magann og steinsofnaði aftur.  Man ekki alveg hvenær ég dreif mig svo á fætur en það var samt alveg fyrir hádegi.  Upp úr eitt skrapp ég í Krónuna og gerði sirka hálf innkaup.  Síðan ætlaði ég að skila nokkrum bókum á safnið en kom að lokuðum dyrum, verður ekki opnað fyrr en á þriðjudag.  Þá lá leiðin í Hagkaup í Skeifunni þar sem ég keypti tvö Nóaegg númer fjögur.  Að öðru leyti fór dagurinn í sjónvarpsgláp og tölvuleiki.  Strákarnir komu heim rétt undir miðnætti þegar ég var að búa mig undir háttinn.  Þrátt fyrir að þurfa að fara á fætur um sex í morgun las ég til klukkan að verða hálfeitt.

19.4.14

Nokkrar línur um gærdaginn

Ég stillti ekki á mig klukkuna heldur í gær morgun enda lá ekkert fyrir fyrri hluta dagsins.  Engu að síður var ég komin á fætur upp úr tíu eftir að hafa dekrað húðina með kókosolíu áður en ég fór í sturtu.  Dagurinn leið frekar hratt við ýmislegt dundur, aðallega lestur og tölvuleiki.  Klukkan hálfátta var ég mætt í öllu svörtu í kirkju óháða safnaðarins til að hita upp.  Klukkustund síðar hófst "kvöldvakan.  Kórinn söng nokkra sálma á milli þess sem Ólafur Guðmundsson (sem var leiklistarkennari strákanna þegar þeir voru í Hlíðaskóla) las úr píslasögunni.  Stundum skiptum við sálumunum upp og sungu t.d. fyrstu fjögur versin áður en var lesinn kafli og svo seinni þrjú erindin.  Eftir lestur og söng var altarisganga.  Að henni lokinni sá kórinn um að taka allt af altarinu.  Tvær fermingarstúlkur komu svo inn í hvítum kirtlum, önnur með sjö arma kertastjaka með sjö logandi kertum í og hin með verkfæri til að slökka á einu og einu kerti.  Presturinn las síðustu sjö orð eða setningar Jesú á milli.  Að lokum spiluðu tvö ungmenni á selló í rökkvaðri kirkjunni.  Mjög notaleg kvöldstund.

18.4.14

Rólegheit

Þótt ég hafi stillt á mig vekjarann í gemsanum mínum áður en ég fór að sofa á miðvikudagskvöldið var ég svo sem ekkert að plana að fara snemma á fætur eða sofa of lengi.  Vaknaði löngu á undan klukkunni, náði í fjölmiðlamælinn, fékk mér asea, fór á salernið, smurði á mig hormónageli og skreið svo aftur upp í rúm og las í tæpa klukkustund.  Fór fram úr og á fætur um hálftíu.  Kveikti á tölvunni en ég notaði gærdaginn aðallega í lestur.  Sinnti smá málum sem sjaldan eða aldrei er og verður skrifað um en annars sat ég eða lá í stofusófanum og las og las, "Danskennarinn snýr aftur" eftir Henning Mankel.  Afar þykk og mikil bók en jafnframt spennandi lesning.  Um sjö var ég mætt heim til norsku esperanto vinkonu minnar sem hafði boðið mér að borða með þeim.  Hún átti afmæli í gær og færði ég henni diskinn sem var tekin upp í Skálholti fyrir tæpu ár en Inger mætti á tónleikana sem voru í Háteigskirkju.  Eftir matinn settumst við niður með esperantodótið í um klukkustund.  Ég var komin heim aftur fyrir hálfellefu.  Settist við tölvuna um stund en skreið svo upp í rúm og las í fyrrnefndri bók til klukkan að ganga tvö.  Náði ekki að klára.

17.4.14

Skírdagur

Það var allt hvítt og snjóaði enn þegar ég trítlaði út á stoppistöð í gærmorgun mikið fegin því að þurfa ekki að skafa.  Vinnudagurinn leið ógnarhratt við verkefni sem entust allan daginn en aukaverkefnin kláruðust ekki enda þónokkur endurnýjun í gangi.  Um leið og ég kom heim burstaði ég upp spariskóna hans Odds.  Þeir eru orðnir nokkuð sjúskaðir en það sést varla þegar nýbúið er að bera á þá og bursta.  Strákarnir tóku sig til og mér skyldist að þeir yrðu sóttir milli sjö og átta.  Fengum okkur vorrúllur í matinn og ég kvaddi þá extra vel áður en ég fór á kóræfingu.  Á æfingunni var æft bæði fyrir föstudaginn langa og páskadagsmorgun.  Bjarnatónið verður ekki sungið um páskana en við syngjum nokkra sálma í röddum.  Kom heim upp úr hálftíu og voru þá bræður enn ósóttir.  Þegar pabbi þeirra lét þá vita á ellefta tímanum að hann væri fyrir utan heyrði ég annan strákinn tauta: "Það var mikið".

16.4.14

Páskasumarfrí framundar

Sólin við mér brosir blítt
birtan mjúk og hlý.
Allt svo notalegt og nýtt
nú sjást engin ský.

Þessi varð til í gærmorgun.  Sendi mér hana í sms skilaboðum og póstaði henni svo á FB-vegginn seinni partinn í gær.  Annars varð ég að fara á lánsbílnum í vinnuna í gær.  Ég þurfti nefnilega að skreppa heim í hádeginu og taka á móti matsmanni vegna breytinga og endurnýjun á tryggingum.  Matsmaðurinn var stundvís og fljótur en stuttu eftir að hann kom var hringt í mig frá landsbankanum og mér tilkynnt að skjölin vegna afléttingu veðs á skúrnum væru tilbúin til undirritunar.  Ég fór því beint í bankann eftir að hinu málinu var lokið.  Þjónustufulltrúinn bauð mér að bankinn sæi um að fara með skjölin í þingýsingu og þáði ég það þrátt fyrir smá auka kostnað.  Var mætt í vinnuna aftur um hálftvö.  Seinni helmignur vinnudagsins leið alveg jafn fljótt og sá fyrri.
Þegar ég var komin fyrir utan hér heima upp úr fjögur hringdi ég í Davíð Stein sem kom út í bíl stuttu seinna.  Við vorum að nálgast Kringluna þegar hann mundi skyndilega að hann hafði gleymt að taka úrið sitt með.  Ég snéri við svo hann gæti náð í úrið.  Í Kringlunni byrjuðum við á því að fara í Hagkaup uppi og finna spariskó á strákinn.  Það tók ekki langan tíma.  Næst lá leiðin í Meba þar sem hann skyldi úrið eftir, eftir að hafa beðið um nýtt batterí og einn aukahlekk í keðjuna.  Síðan fórum við í Dressmann þar sem hann fann á sig sparibuxur og þar að auki bindi sem hann sá að myndi passa vel við nýju skyrtuna sem við keyptum um daginn.  Að þessum viðskiptum loknum var kominn tími til að sækja úrið.  Á leiðinni heim komum við við hjá Atlantsolíu við Flugvallaveg þar sem það var 12 kr. afláttur af lítranum.

Heima festi ég tölu á frakkann hans Odds, straujaði nýþvegnar nýju skyrturnar sem og saumaverkefnið með gamaldags grammófóninum.  Já, ég er búin með þá mynd og á bara eftir að festa hana í rammann.  En það var glaður strákur sem knúsaði mömmu sína fyrir snúningana og nýju flíkurnar.  Hann ákvað svo að búa til kaffi handa mér í staðinn.  Reyndar drukku báðir bræðurnir kaffið með mér.  Horfði á Castle og lokaþáttinn um Thorne og las svo til miðnættis.

15.4.14

Sigur í heimaleik

Leið 13 hentaði mér ágætlega til og frá vinnu í gær.  Þegar ég kom heim korter yfir fjögur voru foreldrar mínir komnir, sennilega nýkomin því pabbi var akkúrat að hringja í mig þegar ég labbaði fyrir hornið.  Davíð Steinn bjó til kaffi handa okkur og þegar nágranninn af neðri hæðinni var kominn heim stuttu seinna hjálpaði hann pabba við að finna til og setja fjögur dekk í bílinn hjá honum.  Fyrst exið tók þetta ekki þá hef ég fengið tilboð í eiginlega ónotuð dekkin og græði á því.  Var með steiktan þorsk og soðnar kartöflur í kvöldmat og nýtti afgang af búlgum og gulum baunum með.  Þvottavélin var eitthvað að stríða mér en ég náði að klára þau mál rúmlega sjö og trítlaði svo beint á Valsvöllinn.  Var mætt rétt fyrir hálfátta tímanlega áður en leikurinn við Fram hófst.  Leist ekki á blikuna framan af fyrri hálfleik en á einum tímapunkti var staðað 3-8 fyrir Fram.  Valsmenn voru þó 12-11 yfir í hálfleik.  Fram byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri og seig aftur framúr en seinni helmingur seinni hálfleiks var Valsara sem og frábær markvarsla, Hlynur varð 19 skot í leiknum þar af tvö víti.  Niðurstaðan var sjö marka sigur minna manna, 26-19 og þriðja sætið í deildinni.

14.4.14

Sungið í fermingamessu og svo farið í veislu

Ég byrjaði gærdaginn næstum eins og ég endaði laugardaginn.  Þ.e. eftir að hafa farið í sturtu rétt fyrir átta í gærmorgun og smurt á mig gelið skreið ég aftur upp í rúm og fór að lesa.  Fór ekki fram úr og á fætur fyrr en ég var búin að klára bókina og þá var klukkan orðin hálfellefu.  Mætti í kirkjuna um eitt en það voru fermdir fimm drengir í messunni klukkan tvö.  Fór beint heim eftir messu.  Strákarnir voru komnir í betri leppana en voru í einhverjum leik sem ekki var hægt að hætta alveg strax í.  Lögðum af stað út úr bænum upp úr hálffjögur og vorum komin á réttum tíma í veisluna.  Hulda systurdóttir mín var að fermast og tók ég myndina hér að neðan af henni með foreldrum sínum fljótlega eftir að við mættum á svæðið.  Bríet, yngri systirin, var einhvers staðar á hlaupum svo hún festist ekki á filmu.  Systir mín er í upphlutnum mínum og tekur sig afar vel út í honum.


Aðeins mynd af saumaverkefni


13.4.14

Sunnudagur

Var tiltölulega snemma á fótum í gærmorgun.  Var komin á stjá fyrir klukkan níu en fór ekkert að stússa í neinu öðru en netvafri.  Var mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni rétt fyrir ellefu og var hjá henni í tvo tíma.  Þaðan fór ég í Krónuna að versla.  Kom heim um hálftvö.  Oddur Smári tók við pokunum og gekk frá vörunum.  Ég mannaði mig upp í að sinna smá skylduverkum.  Klukkan var að verða fjögur þegar ég hellti upp á könnuna.  Kannski ekkert að marka þar sem ég hafði fengið kaffi hjá Inger.  Ég hellti upp á fulla könnu enda kom það á daginn að Davíð Steinn vildi líka kaffi.  Hafði lasagnia í matinn, horfði á fréttir og "Alla leið" en nennti svo ekki að horfa meir.  Settist við tölvuna en var svo komin í rúmið upp úr ellefu.  Ekki þó til að fara beint að sofa heldur til að lesa, nema hvað.

12.4.14

Nokkrar línur á laugardegi

Auðvitað notaði ég strætó til og frá vinnu í gær.  Vinnudagurinn leið afar hratt og upp úr hálfþrjú var annríkið á enda.  Samt leið afgangurinn af vinnudeginum alveg jafn hratt og tímarnir á undan.  Fór beint heim eftir vinnu.  Strákarnir ætluðu að hafa vikulegt spilakvöld svo ég þurfti ekki að hugsa fyrir mat því þeir sáu sjálfir um að hita vorrúllur í ofni.  Horfði á fréttir, skólahreysti og útsvar en slökktvi svo fljótlega á sjónvarpinu eftir það.  Var að klára bók númer tvö af sex af safninu í gær, "Órólegi maðurinn" eftir Henning Mankel.  Síðasta bókin um Wallander held ég.  Þá á ég fjórar bækur ólesnar, misþykkar, og sé fram á að þurfa að framlengja láninu á sumum af þeim bókum um 30 daga því ég er þegar búin að hafa þær í þrjár vikur.  Byrjaði á bók í gærkvöldi sem heitir, "Táknmál blómanna".  Það er mjög grípandi bók og líklega verð ég ekki lengi að lesa hana.

11.4.14

Færsla nr. 101 á árinu

Bauð strákunum far í skólann í gærmorgun.  Þeir eru oftast mættir nokkuð vel fyrir fyrsta tíma sem byrjar tíu mínútur yfir átta því ég er mætt í mína vinnu og byrjuð að vinna áður en klukkan er orðin átta.  Vann til klukkan þrjú en var þá búin að fá mig lausa til að geta sinnt smá bankamálum.  Fór beint inn í landsbankann í Borgartúni og þar upp á aðra hæð.  Þar fékk ég afgreiddan nýjan auðkennislykil og sú sem afgreiddi mig var svo ánægð með hvað hinn lykillinn hafði dugað mér lengi að hún sagðist ekki ætla að rukka mig neitt fyrir þann nýja.  Svo bað ég hana um að fella út fyrir mig greiðsluseðla í fyrirtækjabanka hússjóðsins og setja mig inn í staðinn.  Einnig fékk ég hana til að endurstilla báða fyrirtækjabankana (kórinn og hússj.) og þar að auki að leyfa mér að velja mér nýtt auðkennisnúmer fyrir hússjóðsreikninginn.  Að þessu loknu leit ég aðeins við hjá þjónustufulltrúanum sem ég er í mestu sambandi við.  Hún sagði mér að verið væri að vinna í að útbúa skjal um afléttingu bankalánsins á veðinu í skúrnum.  Ég ákvað svo að þyggja það að bankinn sæi um að þinglýsa þessu skjali fyrir mig.  Næst ætlaði ég að taka bensín hjá atlantsolíu við Flugvallarveg en þar var  löng röð vegna afsláttardags að ég ákvað að bíða aðeins með þetta.

Annar tvíbbinn var kominn heim og fljótlega eftir að hinn kom fórum við í Dressmann í Kringlunni þar sem þeir bræður fengu að velja sér  nýjar skyrtur.  Ég keypti líka handa þeim hvort sitt sokkaparið en aðeins annar strákurinn fann sér bindi sem honum líkað við.  Þeir eiga reyndar báðir "fermingarbindin" sín enn sem þeir geta líka notað.  Svo ákvað ég að bjóða þeim að borða á Stjörnutorginu.  Vildi sjálf fagna því að öll mál eru að ganga upp hjá mér og þar að auki ekki verra að sleppa við að elda.  Skutlaði svo bræðrunum heim og fór svo að fylla á tankinn.

10.4.14

Líður á vikuna

Notaði strætó til og frá vinnu bæði í gær og fyrradag.  Hvorugur strákanna var heima þegar ég skilaði mér heim rétt fyrir hálffimm.  Mig grunaði að þeir hefðu farið pabba síns og hafði rétt fyrir mér þar.  Þeir gleymdu hins vega að smessa á mig smá tilkynningu.  Fór með útfyllt plögg varðandi hússjóð og inneign kjallaraíbúðarinnar til stúlkunnar sem þar býr.  Hún hafði komið kvöldinu áður með þessi plögg og ég lenti í smá vandræðum því auðkennislykillinn var "dauður".  Endirinn varð sá að ég hringdi í bankann og bað um aðstoð af fyrirtækjabankasviðinu.  Þar lenti ég í smá veseni, varð að auðkenna mig á einkareikning því ég bara gat ekki munað öryggisttöluna sem ég valdi mér þegar ég tók við gjaldkeraembætti húsfélagsins.  Lét svo nágrannann á neðri hæðinni vita að öll mál varðandi afléttingu veðs á skúrnum væru að leysast.  Fékk mér haframjöl með rúsínum, kasewhnetum, smá musli og kanil í kvöldmat.  Setti sjóðandi vatn út að þetta og lét kólna og trekkja sig út.  Var mætt á kóræfingu rétt fyrir hálfátta.  Það var fullmannað í karlaröddunum og tenórarnir lánuðu sóprönunum tenórínuna þar sem þar vantaði þrjár.  Strákarnir voru komnir heim þegar ég kom aftur heim upp úr hálftíu og afsökuðu það að hafa gleymt að senda mér skilaboð um að þeir yrðu ekki í kvöldmat.

9.4.14

Stafarugl í krossgátu

Norska esperanto vinkona mín er farin að ráða krossgátuna í dagskráblaðinu Birtu sem kemur út á laugardögum.  Hún er að verða nokkuð flink við þetta en það kemur fyrir að hún hefur samband til að athuga hvort ég get fyllt upp í eyðurnar hjá henni.  Þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið var hafði hún hringt nokkru áður.  Það var ekki of seint að hringja til baka svo ég sló á þráðinn.  Lofaði henni svo að kíkja á krossgátuna daginn eftir.  Á mánudaginn tók ég Birtu með mér í vinnuna.  Ég var einmitt á þeim stað í vinnuferlinu sem ágætt er að hafa eitthvað smá auka með.  Á myndinni var mynd af kari fullu af sykri og ég taldi mig skrifa strásykur sem passaði akkúrat.  Lauk svo að mest við krossgátuna nema í horninu undir og við myndina.  Inger var búin að finna út úr þessu á undan mér því ég hefði aldrei getað leyst gátuna fyrr en ég var búinn að laga myndatextann, ég hafði nefnilega skrifað; SRTÁ- SYKUR.  Þar sem ég ætlaði að skrifa rumur fyrir risa átti til að mynda að vera tröll.

Gærdagurinn í vinnunni var annars afar annasamur og var ég að alveg frá því áður en klukkan var átta og alveg til klukkan fjögur.  Fékk þó matar og kaffihlé.  Við hættum framleiðslu rétt fyrir tvö þegar allt daglegt var búið því ein fór í orlof um hádegið, tvær á fund milli tvö og þrjú og við hinar tvær vorum að opna kassa, telja og merkja kort við þriðja mann úr innri endurskoðun.  Hættum rúmlega þrjú til að ganga frá en þá vorum við ekki einu sinni hálfnuð að skoða í kassana.  Meðfram þessu var verið að flytja lagerinn í bráðabirgðageymslu.

Annars er loksins að ganga að fá aflétt veðinu af bílskúrnum.  Það gekk strax í gegn hjá íbúðalánasjóði en ég varð að senda skjalið frá þeim og kvittun fyrir þinglýsingu til landsbankans til að þeir samþykktu.  Ég var farin að halda að ég yrði bara að klára að borga þetta "litla" lán svo ég gæti selt nágrannanum skúrinn án frekari vesens.

8.4.14

Staka, limra og smávegis meira

Orðin í feluleik fóru
flest þau eru að vinna.
Bæði smáu og þau stóru
safnast til allra hinna.

Enga sögu segja kann.
Samt ég mikið efni fann.
Ég beið og beið
illa mér leið
svo andinn mig líklega vann.

Bræðurnir urðu samferða mér í skólann í gær þar sem framhaldskennarar eru ekki lengur í verkfalli. Kennt verður út þessa viku en þeir fá að vita það í dag hvaða fimm dagar bætast við til að vinna upp dagana sem töpuðust, eða eitthvað af þeim.  Vinnudagurinn minn leið hratt og örugglega í gær.  Keyrði svo beint heim.  Annar tvíbbinn var kominn heim hinn kom fljótlega. Sá hafði notað gat í töflunni til að heimsækja Torfa, tengdaföður systur minnar.  Nú er strákurinn aftur kominn með kamb.  Ekkert var saumað í gær en vafrað á netinu, lesið og glápt á imbann.

7.4.14

Málþing um meistara Þór Vigfússon heitinn

Ég dreif mig á fætur um níu í gærmorgun, aðallega til að vafra aðeins um á netinu og spila uppáhalds leikina.  Hringdi í tvíburahálfsystur mína rétt fyrir hálftólf til að athuga hvenær hún myndi leggja af stað.  Í kjölfarið skipti ég yfir í skárri leppana, varalitaði mig og beið svo bara eftir essemmessi.  Bankaði upp á hjá Oddi til að láta hann vita að ég væri á förum og kæmi ekki aftur fyrr en einhvern tímann um kvöldið.  Sonja náði í mig rúmlega tólf og vorum við komnar að Fjölbrautaskóla Suðurlands klukkan eitt.  Búið var að opna húsið og þar sem upphitun kórsins var ekki fyrr en hálftíma síðar var okkur bent á að kíkja í stofurnar á annarri hæð.  Í hverri stofu var að finna eitthvað efni með Þór heitnum Vigfússyni sem tók við skólameistarastöðu við skólans á þriðja starfsári hans.  Þarna kenndi ýmissa grasa (útvarpsviðtöl, útskrift, 25 ára útskriftar afmæli hans sjálfs og fleira og fleira) og var mjög fróðlegt að skoða þetta auk þess sem það var svo notalegt að heyra röddina hans aftur.  Um hálftvö fórum við stöllur upp í stofu 312, frönsku stofuna, þar sem kórinn hitaði upp.  Um það leyti sem við vorum að byrja birtust Vignir Stefánsson og Kristjana Skúladóttir að kanna hvenær þau kæmust að í upphitun en hún söng þrjú revíulög á þýsku, frá tímabilinu sem Þór var í námi úti, framarlega í dagskránni.  Við gripum auðvitað Vigni með í hópinn en hann var í kórnum á sínum tíma og kunni að sjálfsögðu þessi þrjú lög.  Rétt fyrir tvö stilltum við okkur upp á ganginum niðri á fyrstu hæð og þegar Móri hringdi bjöllunni gaf Jón Ingi okkur tóninn og við gengum gegnum miðjan salin og upp á svið syngjandi Cum de core.  Næst sungum við Smávinir fagrir og svo enduðum við á Kalli olle kukku lalle með undirspili bæði einraddað og í röddum.

Við Sonja og margir aðrir úr kórnum settumst svo niður í sal (þegar við vorum búin að afhenda Jóni Inga blómvönd og klappa á táknmáli) og fylgdumst áfram með dagskránni.  Ekki voru allir allan tíman en við vorum þó nokkur fyrir utan allt hitt fólkið sem mætti.  Dagskráin var afar fjölbreytt og skemmtilega og mjög svo í anda Þórs.  Ég hefði alls ekki viljað missa af þessu en finnst of langt mál að segja frá þessu öllu fyrir utan það að upplifunin var alveg einstök.

Klukkan sex vorum við tvíburahálfsysturnar komnar í Fossheiðina til foreldra hennar.  Þar beið okkar veislumatur.  Nú vorum við búnar að syngja svo það var engin afsökun að borða ekki vel.  Fengum lambalæri með alls kyns tilheyrandi meðlæti og jarðaberjabúðing með súkkulaðiflögum og þeyttum rjóma í eftirrétt.  Og svo var okkur færður kaffibolli með fréttunum.  Þetta var veisla og ég át algerlega yfir mig.  Sem betur fer vorum við ekkert að drífa okkur heim.  Horfðum fyrst á fréttir og Landann áður en við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum.

6.4.14

Sunnudagur

Ég var komin nokkuð snemma á stjá í gærmorgun.  Gaf mér góðan tíma til að veita húðinni kókosolíumeðferð áður en ég fór í sturtu.  Eftir sturtuna bar ég á mig gelið sem ég fæ ekki að losna við alveg strax og fleygði mér upp í rúm aftur á meðan það þornaði.  Notaði tímann og las í nýjustu lánsbókinni, "Maður sem heitir Ove", meiriháttar bók verð ég að skrifa.  Það er hreinlega allur tilfinningaskalinn undir og ýmist er maður að skella upp úr og eða hlægja eða þá að maður fær tár í augun og kökk í hálsinn, og eignlega allt þarna á milli.  Kveikti á tövlunni um hálftíu en bara í smá stund því ég var komin á hársnyrtistofuna Kristu rétt fyrir klukkan tíu þar sem Nonni tók á móti mér og klippti mig og þynnti hárið eftir kúnstarinnar reglum.  Skrapp aðeins aftur heim en var svo mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um ellefu eftir um þriggja vikna hlé.  Þaðan fór ég í Krónuna upp úr hálfeitt.  Oddur Smári gekk frá vörunum er ég kom heim.  Ég kveikti á sjónvarpinu og ætlaði að fylgjast með söngkeppni framhaldsskólanna en tolldi ekki við fyrir framan sjónvarpið.  Ég settist hins vegar fyrir framan skáinn þegar vináttuleikurinn byrjaði og byrjaði að sauma fjórða jólakort ársins.  Leikurinn var erfiður að horfa á.  Hafði steikt slátur (og steikta lifrarpylsu) með soðnum kartöflum í matinn.  Sat svo við sjónvarpið og saumaði og fylgdist með útsendingu frameftir kvöldi.  Ég kláraði næstum því kortið, á bara eftir smá útlínur og merkingu.

5.4.14

Nýklippt

Lánsbíllinn var notaður milli heimilis og vinnu í gær og á heimleiðinni renndi ég bílnum í gegnum snertilausu þvottastöðina hjá Olís við Skúlagötu.  Strákarnir voru með spilakvöld frá því seinni partinn í gær og til eitthvað um tíu svo þeir sáu alveg um að næra sig.  Ég fékk mér afgang frá því fyrr í vikunni.  Vafraði um á netinu og spilaði uppáhalds leikina mína tvo áður en ég settist fyrir framan skjáinn og horfði á fréttir, fyrsta skólahreysti þáttinn, seinni hálfleikinn í vináttu landsleiknum við Austurríki og útsvar og kláraði þriðja jólakortið á árinu í leiðinni.  Byrjaði aðeins að kíkja á fyrri mynd kvöldsins en nennti svo ekki að horfa meir.  Settist aftur við tölvuna í einhvern tíma áður en ég skreið upp í og las smá fyrir svefninn.

4.4.14

Líður að helgi

Þriðja daginn í röð tók ég strætó í vinnuna.  Nóg var að gera þannig að vinnudagurinn leið afar hratt við hefðbundin dagleg sem og mánaðarleg störf. Framleiðsla var í gangi alveg til klukkan að verða fjögur.  Fékk far með einni úr vinnunni heim.  Fór úr við hornið á Lönguhlíð og Drápuhlíð, rétt aðeins lengra heldur en ef ég hefði komið heim með strætó.  Einhverjir strákpattar voru búnir að stilla upp varúðarkeilu á miðri akreininni aðeins lengra og aðvífandi umferð beygði annað hvort inn götuna "mína" eða snéri við þar til einhver tók sig til og henti keilunni upp á eyjuna.  Ég fór beint í lánsbílinn og brunaði í fiskbúðina við Sundlaugarvél og keypti bæði bleikju og þorskflök.  Hafði bleikjuna í kvöldmatinn en frysti þorskinn. Var sest fyrir framan skjáinn um átta og horfði á úrslitin í "Biggest loser Ísland" og saumaði jólakortið sem ég er nýlega byrjuð á, á meðan.  Við Oddur Smári horfðum svo saman á Criminal minds eftir tíufréttir.

3.4.14

Heimsókn æskuvinkonu

Var í strætó á Lönguhlíðinni tveimur stoppistöðum að heiman þegar Ella vinkona mín til margra ára hringdi og sagðist vera stödd í bænum á fulltrúaþingi.  Dagskrá var lokið þennan daginn og ekkert planað um kvöldið.  Ég fór þess vegna beint úr strætó í lánsbílinn og sótti vinkonu mína á hótelið sem hún dvelur á þessa dagana þar sem þetta fulltrúaþing er haldið.  Lét strákana vita og var annar þeirra búinn að búa til handa okkur kaffi þegar við mættum í Drápuhlíðina.  Við settumst inn í stofu og tók Ella upp prjóna og spjaldtölvu þar sem hún var með prjónauppskriftina af flíkinni sem hún var með á prjónunum.  Ég tók ekki upp saumana fyrr en eftir mat en þá saumaði ég m.a. útlínur í grammófónmyndinni og byrjaði einnig á nýju jólakorti.  Við höfðum um svo margt að spjalla og tíminn flaug alltof, alltof hratt eins og oft þegar er gaman.  Um tíu skutlaði ég Ellu til baka og  fannst þá eiginlega orðið of seint að hringja austur í foreldra mína, sem ég geri annars nánast daglega.

2.4.14

Spilakvöld hjá bræðrunum

Það munaði engu að ég gleymdi að hringja bjöllunni til að vagninn myndi stoppa við Hörpu í gærmorgun. Hugurinn var víðsfjarri en þegar tilkynnt var að næsta stopp væri Harpa rankaði ég við mér og var ekkert of sein að ýta á stopp takkann.  Vinnudagurinn leið jafn hratt og venjulega við verkefni sem entust til fjögur, þ.e. við hættum vinnu klukkan fjögur eigum enn eftir nóg til að vinna á.  Fór beint heim eftir vinnu, með leið 13. Tveir spilavinir voru þegar mættir og fljótlega kom sá fimmti.  Sjötti  drengurinn sem oft mætir líka kom eitthvað seinna en hann er heldur ekkert að spila.  Ég eldaði matarmikinn pastarétt með hakki, sætri kartöflu, gulrótum, kúrbít, lauk, sveppum og graskersfræjum og bauð strákunum að borða.  Það var þá með þökkum. Allir fimm fengu sér en það varð þó afgangur fyrir tvo til þrjá því þetta fyllti mallana á þeim það mikið að enginn fékk sér nema einu sinni á diskinn, ekki heldur ég.  Ég notaði svo afganginn af deginum í tölvuleiki, lestur og sjónvarpsgláp.

1.4.14

Saumaklúbbur

Þar sem ég var búin að ákveða í verslunarleiðangur strax eftir vinnu í gær var alveg upplagt að fara á lánsbílnum.  Vinnudagurinn leið afar hratt þrátt fyrir alls konar vesen.  Í Krónunni við Granda hitti ég fyrrum vinnufélaga og spjallaði stuttlega við hann.  Kom heim um fimm.  Bræðurnir voru ekki komnir heim svo ég varð að sjá um að bera pokana inn og ganga sjálf frá vörunum.  Aftur á móti frétti ég að ekki væri von á strákunum fyrr en eftir kvöldmat svo ég slapp alveg við að elda í gær.  Setti í þvottavél og fór fljótlega að huga að því að það var saumaklúbbur hjá mér um kvöldið.  Vissi reyndar ekkert hvort við yrðum ein, tvær eða þrjár.  Lilja mætti upp úr hálfátta og um klukkustund síðar fékk ég sms frá Sonju þar sem hún tilkynnti að hún væri að leggja í hann.  Hún náði til mín áður en klukkan varð níu og svo varð klukkan allt í einu ellefu.  Ég bara skil ekki hvernig tíminn getur tekið svona á rás.  En það var mikið spjallað, hlegið og reynt að setja einhver spor í jafa eða munda prjónana.  Ég vann að því að reyna að klára útlínur í grammófóns myndinni og það var svo sem ekki svo mikið eftir þegar við hættum.  Hér fyrir neðan set ég mynd af verkefninu sem ég tók þegar ég var nýlega byrjuð að vinna í útlínunum.