28.2.15

"Akureyringar" í helgar heimsókn :-)

Í gær notaði ég lánsbílinn til að komast í vinnuna.  Var mætt nokkrum mínútum fyrir sjö, örlítið á undan hinni sjö vaktinni.  Fyrir utan kaffi og matartíma var ég að allan tímann milli sjö og rúmlega tvö.  Mest af því var bókhald, mánaðamótatalningar og undirbúningur undir samantekt vegna febrúarmánaðara.

Eftir vinnu skrapp ég að versla í Krónuna við Fiskislóð/Granda.  Aðeins öðruvísi verslunartími heldur en ég er vön en ég hitti samt Bjössa, fyrrum söngfugl úr DKR, aðeins og svo einn bekkjarbróður minn úr Kennó.  Þegar ég kom heim með vörurnar fékk ég báða strákana mína til að koma út og taka fyrir mig pokana inn.

Ætlaði mér að vera búin að ljúka aðeins meiri gestamóttöku-undirbúningi áður en systir mín og fjölskylda kæmu en bæði festist ég í að fylgjast með Val og FH keppa í undanúrslitum bikarsins og svo komu þau fyrr en ég reiknaði með.  En þetta var allt í góðu lagi og gott og gaman að fá þau í heimsókn. Kvöldið leið alltof hratt.  Yngri systurdóttir mín vildi helst sofa á bedda inni hjá pabba sínum og mömmu en þegar ég bauðst til að lesa fyrir hana áður en við færum að sofa samþykkti hún að sofa í stofunni með mér.

27.2.15

Helgarfrí

Enn og aftur fór ég með strætó til vinnu rétt fyrir sjö í gærmorgun.  Þessi vagn var örlítið seinni heldur en mánudags- og miðvikudagsvagninn en ég náði þó að stimpla mig inn nokkrar sekúndur í sjö. Vinnudagurinn til rétt rúmlega tvö leið afar hratt en ég slapp út ca tíu mínútur yfir heila tímann og fékk meðbyr á göngunni heim beint yfir Skólavörðuhæðina.  Var svo skynsöm að setjast ekki niður fyrsta kastið eftir að ég kom heim heldur fór á fullt í gestamóttöku-undirbúning.  Í miðjum klíðum kom annar tvíburinn glorsoltinn heim úr skólanum.  Hinn tvíburinn hafði komið heim rétt á eftir mér. Ég ákvað í snarhasti að "henda" í hálfa uppskrift að heilhveitivöfflum.  Það tókst nú ekki betur en svo að eftir tvær vöfflur og þrjár aðrar misheppnaðar, henti ég deiginu og byrjaði upp á nýtt og seinni uppskriftin virkaði miklu betur.  Strákarnir fóru svo til pabba síns á sjöunda tímanum en ég sinnti ýmsu dútli til klukkan tíu en þá skreið ég upp í, las í smá stund og var sofnuð löngu fyrir miðnætti.

26.2.15

Fimmtudagspistill um miðvikudaginn (gærdaginn)

Ég fór með strætó til vinnu í gærmorgun á sama tíma og á mánudagsmorguninn var og stimplaði mig inn tvær mínútur í sjö.  Einhvern tímann fyrir hádegi kom svo sviðsfundarboð með afar stuttum fyrirvara og var fólk hvatt til að mæta um þrjú.  Reyndar máttu þeir sem voru búnir klukkan tvö ráða því hvort það mætti.  Ég var ein af þeim sem var búin um tvö.  Veðrið var þannig að ég var hvort sem er ekki að fara labbandi áleiðis heim með viðkomu í sundlauginni.  Þar að auki fékk ég far yfir í K2. Fundurinn stóð reyndar frekar stutt yfir.  Ég fékk aftur far og nú alla leið heim.  Hringdi í pabba og ákvað svo að drífa mig í Laugardalslaugina og þaðan ætlaði ég beint á kóræfingu. Synti 300m og sat svo um stund í gufunni áður en ég dreif mig aftur upp úr.  Var mætt fyrir utan kirkjuna á slaginu hálfsex en það var enginn mættur og allt læst.  Stuttu seinna komu tvær kórsystur mínar, önnur akandi og hin á hjóli.  Þá var ég búin að fá þær fréttir að æfing félli niður vegna veikinda kórstjóra. Fór því aftur heim, gekk frá sunddótinu og kórdótinu og hringdi svo eitt símtal. Síðan ákvað ég að drífa mig í heimsókn á Minni-Grund til hennar Böddu minnar.  Þegar ég kom að anddyrinu hitti ég yngri tengdason hennar sem sagði mér að gamla konan væri útskrifast og á leið heim. Frænka mín og frændi voru að hjálpa mömmu sinni að taka sig saman og þegar þau komu niður spurðu þau hvort ég elti þau ekki bara.  Það fannst mér góð hugmynd.  Stoppaði þar í um rúman klukkutíma ánægð með að hitta allt þetta fólk.  Skyldi samt vel að Badda væri leið og óörugg því það stóð til að hún fengi aukaviku í hvíldarinnlögninni.

25.2.15

Aðalréttur og eftirréttur í gær!



Engin kóræfing í kvöld

Í gær var ég á átta til fjögur vakt í vinnunni, venjulegur átta tíma vinnudagur, og ég ákvað að fara á lánsbílnum og bjóða tvíburunum far í skólann.  Átta tímar liðu afar hratt en ég komst frá rétt upp úr fjögur.  Þótt það væri aðalfundur í starfsmannafélaginu skrapp ég frekar í Forlagið við Fiskislóð þar sem ég hafði ákveðið að láta það eftir mér að fjárfesta í nýjustu Jo Nesbö bókinni á sérstöku bókaklúbbstilboði. Kom einnig við í Sorpu áður en ég fór heim.

Heima stoppaði ég svo aðeins í tæpa tvo tíma áður en ég tók strætó alla leið á Lækjargötu, einni stoppustöð lengra en þegar ég fer með strætó í vinnu og hoppa út við Hörpuna.  Tilgangur ferðar gærkvöldsins var að hitta fimm fyrrum og núverandi samstarfskonum og borða saman á Grillmarkaðnum.  Ég var mætt fyrst á staðinn og ákvað að fá mér eitt hvítvínsglas. Smá stund leið áður en sú næsta mætti og á meðan tók ég nokkrar skrautlegar "selfí" af mér. Þegar allar boðaðar voru mættar á svæðið settumst við við pantað borðið. Ég fékk mér þrenns konar fisk (þorsk, lax og karfa) í aðalrétt og pantaði auka grænt sallat með.  Þetta var mjög flott og gott.  Hélt að ég hefði ekki pláss fyrir meira en freistaðist svo í að fá mér kaffi og þrennskonar osta í eftirrétt.  Það var mikið spjallað og mikið gaman og við vildum helst ekki að kvöldið endaði.  Klukkan var um ellefu þegar við stóðum loks upp.  Ég fékk far heim og fannst ég þvílíkt heppin.  Var ekki nógu skynsöm að fara alveg beint í háttinn en það er ekkert hægt að gera við því héðan af.

24.2.15

Fæðingardagur Hlíbbu

Ég komst að því að fyrsta morgunferð leiðar númer 13 frá Sléttuvegi er alveg nógu snemma til að ég geti notað og mætt til vinnu klukkan sjö.  Ég fór snemma með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Við vorum tvær sem mættum klukkan sjö og komum framleiðsluferlinu í gang.  Í staðinn gat ég hætt vinnu rétt upp úr klukkan tvö.  Ekki alveg á slaginu kannski en klukkan var ekki nema tíu mínútur yfir heila tímann þegar ég stimplaði mig út.

Labbaði af stað heim og kom við í Sundhöllinni.  Var komin ofan í laugina korter fyrir þrjú og synti ég í uþb fimmtán mínútur áður en ég fór í gufubað.  Kom heim rétt um fjögur og var víst bara rétt á eftir öðrum syninum sem var að koma heim úr skóla.  Hann bjór til kaffi handa okkur mæðginum.

Hafði lifur og ofnbakaðar kartöflur og gulrætur í kvöldmatinn og mæltist það mjög vel fyrir.  Þótt vel væri etið var þó afgangur fyrir mig til að taka með í vinnuna.  Eftir kvöldmat fór ég í saumaklúbb til Lilju. Mæting á meðlimum klúbbsins var 100%.  Ég náði næstum því að klára útlínurnar í saumaverkefninu "gamall sími", á einungis eftir að sauma tvo hringi til að afmarka hringiskífuna. Það var mikið spjallað að venju og auðvitað flaug tíminn alltof hratt.  Kom heim aftur um ellefu og var svo heppin að fá stæði beint fyrir utan.

23.2.15

"Strætó-göngu-sund-ganga"

Kuldinn og hreyfingin á logninu í gærmorgun fékk mig til að ákveða að skreppa frekar í Sundhöllina heldur en Laugardalslaugina.  Aðeins þurfti að sópa smávegis af bílnum en snjórinn hafði annars fokið saman í hina skrýtnustu skafla.  Smá stund tók að koma lánsbílnum í gang en í gang fór hann á endanum.  Var komin ofan í laug rétt fyrir ellefu.  Synti einungis örfáar ferðir og fór svo beint í gufuna á eftir.  Síðan sat ég stund útivið á meðan ég þornaði eftir gufuna.

Hafði rúman hálftíma til að klæða mig upp og taka mig til fyrir afmælis-"messusyngi" með KÓSÍ-kórnum í kirkju óháða safnaðarins en ég var mætt á réttum tíma fyrir upphitun eða fimm korterum áður en sjálf messan byrjaði.  Kirkjan var mjög vel sótt en kórmeðlimir fengu samt sæti í kirkjunni eftir að seinni ritningalestri lauk.  Þá söng Gissur Páll eina aríu og eftir guðspjallið söng hann þekkt Eyjalag.  Herra Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup, sá um predikunina og mér þótti ræðan hans afar góð.  Öllu verra var að þurfa svo að syngja í röddum strax á eftir því hléið var nokkuð langt þarna á milli og raddböndin svolítið þurr.  Sópraninn komst þó skammlaust frá sínu og ég held að þetta hafi sloppið svona la, la, í heildina.  Eftir messu var boðið upp á snittur, smápizzur, kaffi, vatn, gos og fleira.  Efri salurinn var bara helst til lítill fyrir alla kirkjugestina.

Áður en ég fór heim skrapp ég að versla og fór þar að auki á bókasafnið og skilaði þessari einu bók sem ég var með.  Tók fimm bækur heim í staðinn.  Davíð Steinn sá um kvöldmatinn og Oddur Smári hellti upp á kaffi.  Ég horfði svo á Landann og þáttinn um Holuhraun áður en ég fór að huga að því að koma mér í háttinn.

22.2.15

Afmælismessa

Það var ekki fyrr en um fimm sem ég kveikti á tölvu í dag og þá var nettengingin eitthvað að stríða mér.  Sá jafnvel fram á að komast alls ekkert á netið.  En það rættist úr þessu og af því tilefni ætla ég að setja inn nokkur orð um gærdaginn.

Þegar ég kom heim af árshátíðarskrallinu um miðnætti á föstudagskvöld var hvorugur bræðranna heima en mín biðu skilaboð á ísskápnum um að norska esperantovinkona mín yrði vant við látin um helgina.  Ég notaði því tækifærið og svaf aðeins fram á laugardagsmorguninn.  Ekkert svo lengi samt því ég held að ég hafi verið byrjuð að lesa eitthvað um níu.  Til stóð að skreppa eina til tvær ferðir í Sorpu og versla jafnvel í leiðinni en þar sem ég var ekki alveg búin að negla það niður hvað átti að fara á haugana eða í söfnunargáma og að það leit út fyrir að það væri frekar kalt úti þá notaði ég daginn í annað.  Sumt af því er eitthvað sem í raun er rútína, þótt ég eigi frekar erfitt með að vera í niðurnjörvaðri heimilisverkarútínu, og maður skrifar sjaldan eða aldrei um.  Ég ætla þó að geta þess að það er minn mánuður í sameignarþrifum og ég fór niður með ryksuguna og ryksugaði neðan frá þvottahúsi og alveg upp á pallinn fyrir framan íbúðina mína.

Strákarnir rumskuðu ekki fyrr en nokkru upp úr hádeginu og fljótlega fékk ég þá hugmynd að það væri sniðugt að hella upp á og búa til vöfflur þrátt fyrir rjómaleysi.  Bjó til vöfflur úr hálfri uppskrift af heilhveitivöfflum og það voru alveg 12 stykki.  Synirnir voru frekar sáttir með þetta og söknuðu ekkert rjómans.  Ég var líka dugleg að lesa og vafraði einnig svolítið um á netinu. Hringdi austur og talaði bæði við pabba og mömmu, hvort á eftir öðru og fannst vera mjög gott í þeim hljóðið.

Baunasúpan frá því á þriðjudag var kláruð um kvöldmatarleytið og stuttu seinna dreif ég mig loksins út og skrapp yfir á Minni-Grund til að heimsækja hana Böddu mína.  Mér brá svolítið þegar ég sá að búið var að fjarlægja nafnið hennar af herbergi númer 406, hljóp niður á fyrstu hæð aftur og fyrsti starfsmaður sem ég mætti gat frætt mig á því að gamla konan væri flutt upp á fimmtu hæð.  Ég hljóp því aftur upp og einni hæð betur og fékk hlýjar móttökur.  Stoppaði í góðan klukkutíma sem leið afar hratt.  Þegar ég kom heim aftur var byrjuð óvænt spilasession.  Tveir nýjir spilafélagar, einn vinur bræðranna en aðeins annar strákurinn minn því hinn var á leiðinni út með öðrum vinum.  Ég kastaði kveðju á strákana en hélt mig svo til hlés.

21.2.15

Vil ekki vera löt

Gærdagurinn hófst heldur snemma hjá mér svipað og dagurinn þar á undan.  Kúrði þó áfram í einhvern tíma en ákvað svo að nota einhverjar mínútur í að bera saman biblíutexta á íslensku og esperanto, þ.e.a.s. ég las nokkrar ritningar úr Markúsarguðspjalli, fyrst á móðurmálinu og svo þær sömu á esperanto.  Þetta er reyndar ótrúlega gaman og þarna virðist ég vera búin að finna enn eitt áhugamálið sem skemmtilegt er að grúska í.

Fór með strætó í vinnuna alveg ákveðin í að gefa mér og fá leyfi til að hætta vinnu í fyrra fallinu, helst upp úr klukkan tvö.  Einhvern tímann fyrir hádegi var komið með smá sendingu í tilefni konudagsins sem er framundan.  Við stelpurnar fengum allar eina rauða rós.  Reyndar tókum við eftir því þegar við fórum fram á kaffistofu nokkru seinna að það var engin rós hjá konunni sem vinnur við þrif og kemur ekki í vinnu fyrr en um miðjan dag. Þar sem ég hafði hugsað mér að labba heim og koma við í Sundhöllinni ákvað ég að skynsamlegast væri að leggja mína rós fram í kaffistofukrók sem ég og gerði. Ákvað samt líka að senda þeim sem kom með rósirnar skilaboð um að gleymst hefði að skilja eftir rós handa 7. konunni.  Til að stytta söguna urðu skilaboðin til þess að mér var færð önnur rós rétt áður en ég hætti vinnu og ég fékk þar að auki far upp í Sundhöll.

Kom heim rétt fyrir fjögur og rósinni virtist ekkert hafa orðið meint af þótt ég hefði labbað með hana þessa leið frá Sundhöllinni enda var veðrið alveg þokkalegt.  Strákarnir voru báðir heima en skruppu svo út rétt seinna með vini sínum.  Ég hringdi í pabba og spjallaði stutta stund við hann.  Fékk mér smá hressingu, kveikti á tölvunni en ákvað svo að stilla á mig klukku og leggja mig um stund.  Ég steinsofnaði og var frekar hissa þegar vekjarinn hringdi að því er virtist frekar stuttu síðar.

Fljótlega fór ég að taka mig til fyrir kvöldið.  Strákarnir voru komnir heim en Oddur Smári fór með strætó til Hafnarfjarðar á spilakvöld nokkru áður en ég þurfti að fara.  Ég var mætt í Kornhlöðuna við Lækjarbrekku á árshátíð og 65 ára afmæli óháða safnaðarins um hálfáttaleytið.  Það var góð mæting og stemmingin frábær.  Maturinn góður, borðfélagarnir skemmtilegir og skemmtiatriðin frábær. Einn kórfélagi minn var með sinn árlega pistil þar sem hann fór á kostum eins og venjulega. Ari Eldjárn tók svo við boltanum og áfram var hlegið. Ara þótti salurinn svo góður að ég er helst á því að hann hafi lengt prógrammið sitt örlítið.  Að lokum kom svo Sigtryggur Baldursson beint úr Hörpunni og spilaði og söng nokkur lög ásamt Árna Heiðari kórstjóra og veislustjóra kvöldsins.  Þeir fengu m.a. KÓSÍ-kórfélaga til að koma upp og syngja með þeim viðlög í tveimur af þessum lögum.

20.2.15

Rauðar rósir

Hvernig sem á því stóð var ég vöknuð upp úr fímm í gærmorgun.  Reyndar kúrði ég áfram alveg í tæpa tvo tíma en hugurinn var kominn á fullt og var ekki á því að láta róa sig niður. Þrátt fyrir úðarigningu ákvða ég að strákarnir gætu alveg klætt veðrið af sér og notaði ég leið 13 til að koma mér til vinnu.  Sem fyrr leið vinnudagurinn afar hratt við margvísleg verkefni en að þessu sinni náði ég að stimpla mig út aðeins örfáar mínútur yfir fjögur.  Þegar ég kom út á neðra planinu við vinnustaðinn minn sá ég á eftir vagninum, leið 13, þeim sem stoppar einnig skammt frá  heimili mínu.  Ég var fljót að ákveða að vera ekkert að bíða eftir næsta vagni, hvað þá taka e-n vagn sem stoppar aðeins lengra frá, heldur ganga bara stystu leið heim yfir Skólavörðuholtið.  Það er fínn göngutúr, tæplega 2,8 km og ég tæpan hálftíma að labba þetta.  Var rennblaut á bakinu undan bakpokanum þegar ég kom heim svo ég varð að fara úr blauta bolnum, þurrka mér og fara í annan þurran.  Peysan sjálf slapp við að vökna innan frá.

Hringdi í pabba og spjallaði um stund en svo skruppum við Oddur Smári í skóleiðangur í Kringluna. Fundum á hann fína ecco-skó sem voru á 20% afslætti.  Þegar við komum aftur heim sótti strákurinn fyrir mig þvottinn á snúruna en ég hitaði upp hluta af baunasúpunni og hafði að þessu sinni afganginn af saltkjötinu í bitum út í.  Við mæðginin kláruðum öll skammtinn með bestu lyst. Sat við sjónvarpið, með saumana mína, frá því fyrir átta og til klukkan að ganga ellefu.  Saumana lagði ég reyndar frá mér þegar ég fór að horfa á Fortitute en útlínur saumaverkefnisins (gamaldags sími) eru óðum að skýrast og ég klára það líklega á næstu dögum.  Hafði ekki orku í að bíða eftir og horfa á þáttinn Glæpahneygð.  Vildi heldur koma mér í rúmið og lesa örstutta stund.

19.2.15

Vöknuð alltof snemma

Þriðja daginn í röð fór ég á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun en strákarnir gátu báðir nýtt sér farið líkt og á þriðjudagsmorguninn svo ég var ekki að svindla neitt varðandi samgöngusamninginn.  Var laus úr vinnu um hálffimm og hafði þá klukkustund þar til ég átti að vera mætt á kóræfingu.  Það er reyndar alveg magnað hvað hægt er að komast yfir að gera á svo stuttum tíma.  Ég skrapp aðeins heim, hitaði mér smá af baunasúpunni, spjallaði við pabba um stund og tók til bæði nótnablöð og sunddót.  Tveggja tíma kóræfing leið afar hratt.  Við erum að æfa fyrir árshátíð sem og hátíðarmessu og þrátt fyrir smá erfiðleika á sumum stöðum held ég að kórstjórinn hafi verið sáttur með kórinn sinn þegar æfingu lauk.

Það er annars orðin rúm vika síðan ég fór síðast í sund en í gærkvöldi rigndi svo mikið að ég ákvað að fresta sundferð aðeins lengur og dreif mig frekar í heimsókn á Minni-Grund til hennar Böddu minnar. Það sem hún var ánægð að fá mig, svo ánægð að ég sá alls ekki eftir að hafa frestað sundferðinni. Stoppaði hjá gömlu konunni í rúman klukkutíma og við spjölluðum og göntuðumst eins og okkur tveimur er einum lagðið.

Kom heim um hálftíu.  Strákarnir voru hjá pabba sínum en ég setti inn pistil og vafraði aðeins um á netinu áður en ég horfði á Kiljuna á tímarásinni.  Var komin upp í rúm um ellefu en líkt og kvöldið áður hafði ég bara orku í að lesa í stutta stund áður en ég varð að láta undan og fara að sofa.  Annars er heilsan alveg að lagast.

18.2.15

"Eyjólfur" að hressast

Það var markmiðið að hætta vinnu rúmlega tólf í gær.  Reyndin varð sú að ég stimplaði mig út rétt fyrir hálfþrjú.  Þá brunaði ég beint í bankann til að sækja um að breyta séreignasparnaðnum aftur úr 2% í 4% eins og hann var fyrir hrun.  Síðan lá leiðin á Hlemm til að fjárfesta í nokkrum strætómiðakortum þar sem verðið hækkar all mikið um næstu mánaðamót.  Á Hlemmi urðu á vegi mínum mæðgur sem ég kannast við frá fyrri tíð og tengjast/tengdust öðrum fyrrverandi mági mínum. Spjölluðum örstutta stund en mamman var á leið í næsta strætó og ég var með lánsbílinn á staur í nokkrar mínútur.

Oddur Smári var langt kominn með að þrífa baðherbergið þegar ég kom heim og ég bauð honum að byrja á að sjóða upp á baununum.  Hann þáði það með þökkum og þeir sem eru á FB og sáu það sem ég setti þar inn um kvöldmatarleytið vita hvernig fór með sjóferð þá.  En baunasúpan heppnaðist alveg með ágætum.  Við mæðgin horfðum öll á Castle og ég náði að halda mér vakandi yfir "White chappel" en fyrsta þætti af nýrri seríu lauk rétt upp úr klukkan ellefu.  Svo náði ég að lesa í uþb tíu mínútur áður en ég bara varð að láta undan og fara að sofa í hausinn á mér.

17.2.15

Mánuður í afmælið mitt

Þar sem ég var kommulaus í gær og bíllinn þar að auki enn fyrir aftan heilsugæslustöðina síðan á föstudagskvöldið ákvað ég að ég væri búin að hvíla mig nóg og dreif mig í vinnuna í gærmorgun.  Aðeins annars strákurinn gat nýtt sér farið.  Ég var með einhver áform um að hætta vinnu í fyrra fallinu til að rétta aðeins af unna vinnutíma í mánuðinum.  Hlutirnir æxluðust samt þannig í gær að í stað þess að hætta klukka tvö var klukkan að verða fimm þegar ég gat loksins slitið mig frá afar margvíslegum verkefnum.  Þá dreif ég mig beint í Krónuna við Granda og verslaði inn það sem ekki var keypt í Sunnubúð fyrir mig um helgina.  Á listanum voru m.a. saltkjöt og baunir en Oddur Smári ætlaði að sjá um að elda þetta í kvöld sprengidagskvöld því hann langaði svo mikið í svona mat. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn í gærkvöldi og hafði litlar bollur í tómatmauki með spaghettí. Ég kveikti annars ekkert á sjónvarpinu í gær, vafraði frekar um á netinu og kom mér svo í rúmið fyrir klukkan hálfellefu og byrjaði að lesa fjórðu og síðustu bókina sem ég fékk í jólagjöf; Ljónatemjarinn eftir Camillu Läckberg.

16.2.15

Ný vinnuvika, enn á ný hraðferð á tímanum

Ég var alveg kommulaus þegar ég vaknaði í gærmorgun.  Hélt samt áfram að taka því rólega og fór ekki út fyrir dyr.  Millifærði smá aur á Odd Smára og sendi hann í Sunnubúðina fljótlega eftir hádegi og bað hann m.a. um að athuga hvort seldar væru tilbúinar vatnsdeigsbollur.  Drengurinn kom með allt af listanum til baka og með þær fréttir að það væru seldar bollur en það væru ekki til sérstakir bakkar undir þær.  Ég sendi strákinn auðvitað rakleiðis aftur í búðina með Tuppevare-kökudisk og bað hann um að kaupa eina bollu á mann fyrir okkur mæðginin.  Þegar hann kom aftur til baka með þessar þrjár sagði hann að afgreiðslumaðurinn hefði bent honum á að það væri nú pláss fyrir fleiri bollur á disknum.  Ég fékk svo Davíð Stein til að ná í þvottinn sem var búinn að hanga á snúrunum  í þvottahúsinu frá því á föstudagskvöldið var.  Hann fór fljótlega í þetta verkefni og var góða stund niðri í kjallara enda kom það í ljós þegar hann kom upp aftur að hann var búinn að brjóta saman allan þvottinn.  Annars las ég bara og las þar til ég náði að klára nýjustu Yrsu-bókina.

15.2.15

Kommulaus

Mér fannst heldur snemmt að vakna fyrst um fimm leytið í gærmorgun þrátt fyrir óslitinn svefn frá því um hálfellefu.  Mér tókst að sofna aftur og sofa í næstum þrjá tíma í viðbót.  Þar sem ég hafði ekki farið í sund síðan á þriðjudag, og ekki heldur í sturtu, var ég farin að hafa það á tilfinningunni að ég lyktaði eins og sítrónu engifer í bland við aðra líkamslykt.  Ég ákvað því að skella mér í smá sturtu.  Ég varð ekkert vör við það að mér yrði kalt svo það kom mér á óvart að ég skyldi mælast með nokkrar kommur.  Kannski voru þetta þreytukommur?  Ég ákvað snarlega að taka því rólega og fresta öllum "gerum".

Lauk við að lesa bókina Hugsýki eftir Chelsea Cain, alveg óhugnanlega spennandi bók með góðri fléttu.  Ég gat ekki merkt það að þetta væri fyrsta bók höfundar eins og tekið er fram aftan á kápunni. Beið svo alveg til klukkan að verða hálfellefu með að setja mig í samband við norsku esperanto vinkonu mína til að boða forföll en við hittumst oftast um ellefu á laugardögum nema eitthvað annað standi til hjá annarri hvorri okkar.

Annars leið dagurinn í rólegheitum.  Ég reyndi að gera sem minnst en var auðvitað aðeins of mikið að vafra um í netheimum.  Byrjaði loksins á DNA eftir Yrsu Sigurðardóttur, bókinni sem systir mín og hennar fjölskylda gáfu mér í jólabók.  Hún lofar mjög góðu og ég er eiginlega hissa á að ég geti slitið mig frá lestrinum inn á milli.

Strákarnir vöknuðu einhvern tímann upp úr hádeginu.  Þeir héldu sig heimavið en voru mest að spila netleik/i við vin/i sín/a.  Oddur Smári sá um að hafa til kvöldmatinn og Davíð Steinn bjó til kaffi. Aldrei þessu vant horfði ég á tvær bíómyndir í röð á Skjá Einum og það var komið fram yfir miðnætti þegar ég dreif mig aftur í rúmið.  "Stalst" þá til að lesa aðeins.

14.2.15

Febrúar um það bil hálfnaður

Þriðja daginn í röð fór ég á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun.  Bræður voru ekkert óhressir með farið, síður en svo.  Annríkið í vinnunni sá til þess að dagurinn leið afar hratt.  Náði reyndar ekki að komast yfir allt það sem var á listanum hjá mér en ég náði hins vegar að laga til á skrifborðinu og slíta mig frá vinnu rétt rúmlega fjögur.

Ég fór beinustu leið heim, ákveðin í að slaka aðeins á.  Fannst þó ég verða að setja í eina þvottavél. Hafði bleikju í kvöldmat um hálfsjö og rétt fyrir átta báðu strákarnir mig um að skutla sér í Laugardalslaugina.  Það skutl tók nú ekki langan tíma, en nógu langan til þess að þegar ég kom heim aftur varð ég að leggja lánsbílnum fyrir aftan heilsugæsluna.  Það á þó að vera í lagi að geyma bílinn þar yfir helgina.

Var komin upp í rúm upp úr klukkan tíu.  Gerði tilraun til að lesa smá en ég varð að gefast upp fljótlega og var örugglega sofnuð fyrir hálfellefu.  Strákarnir voru ekki komnir heim en ég rumskaði ekki heldur við það þegar þeir skiluðu sér e-n tímann fyrir miðnætti.

13.2.15

Heilsan á grensunni, þó aðeins fyrir ofan

Ég bauð tvíburunum mínum aftur far í skólann á lánsbílnum í gærmorgun.  Vinnudagurinn teygðist aðeins í suður því klukkan var að nálgast fimm þegar ég lagði af stað heim.  Úti var þónokkuð kalt og það var næstum því meira en rafgeymir bílsins þoldi.  Kom bílnum samt í gang með smá lagni og dreif mig í Lyfjaver m.a. til að kaupa C-vítamín handa okkur mæðginunum.  Svo datt mér í hug að það væri sniðugt að fylla á tankinn þótt það væri enn ca einn fjórði eftir á honum.  Dældi á tankinn á sama stað og oftast áður eða á Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg.  Ég var að renna af stað þaðan þegar síminn hringdi og um vinnutengt mál var að ræða.  Lagði bílnum upp við Rúbín á meðan ég afgreiddi málið sem tók mig heilar tuttugu mínútur þar sem ég var eiginlega búin að aftengja allt vinnutengt þann daginn.

Klukkan var að verða sex þegar ég kom loksins heim.  Hér beið mín heitt kaffi á brúsa og notalegheit.  Ég sá um kvöldmatinn og eyddi svo kvöldinu, milli átta og tíu, fyrir framan skjáinn ásamt saumunum mínum.  Dreif mig í háttinn fljótlega eftir það.  Hafði ekki orku í að lesa nema örstutta stund og var svo steinsofnuð upp úr klukkan ellefu.  Því miður fékk annar sonurinn heimsókn uþb þremur korterum síðar sem varð til þess að ég hrökk upp og náði ekki að festa aftur svefn fyrr en góðum tveimur tímum seinna.  En þetta er sem betur fer bara undantekning.  Sonurinn hafði ekki vit á að biðja gestinn eða gestina að setja á mute og eftir að klukkan er farin að nálgast miðnætti þegar er virkur dagur daginn eftir og ákveðin ró farin að færast yfir allt þá er frekar hljóðbært.

12.2.15

Fart á tímanum

Bauð strákunum far í skólann í gærmorgun.  Það var smá ævintýri að komast inn í bílinn því bílstjórahurðin var pikkfrosin föst og haggaðist ekki.  Ég tróð mér því inn farþegameginn og bað Odd um að sópa af bílnum á meðan ég kæmi bílnum í gang og hitaði hann upp.  Þetta hafðist allt saman og ég náði að stimpla mig inn í vinnu nokkrum sekúndum fyrir klukkan átta í gærmorgun.

Sleit mig frá vinnu nokkrum mínútum yfir fjögur, þreytt eftir daginn og aum í hálsinum.  Fór beint heim og sendi kórstjóranum skilaboð um að ég ætlaði að taka því rólega hálssins vegna.  Spilakvöld var hjá strákunum en þáðu engu að síður steikt slátur og að þessu sinni skar ég niður kartöflur í skífur og steikti líka.  Eftir kvöldmat sat ég inni í stofu og horfði á sjónvarpið og las alveg þar til Kiljan var búin.

Svo náði ég að koma mér í háttinn tiltölulega snemma eða um hálfellefu. Hafði ekki orku í að lesa nema örfáar blaðsíður og var örugglega sofnuð fyrir klukkan ellefu, áður en spilakvöldinu í holinum hinum megin við svefnherbergisdyrnar.

11.2.15

Hörmungar hálsbólga

Ég fór með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Vinnudagurinn leið undra hratt en ég náði að slíta mig frá verkefnunum þegar klukkan var rétt orðin fjögur.  Labbaði áleiðis heim í hríðinni en kom við í Sundhöllinni, fékk mér smá innisprett, fór örstutt út í heitan pott og slakaði svo vel á í gufunni áður en ég fór aftur upp úr.  Var komin heim rétt fyrir sex.  Oddur Smári sá um að útbúa kvöldmatinn, niðurskornar kartöflur og gulrætur bakaðar í ofni og bauð einnig upp á eitt soðið egg á mann með þessu.  Þetta var bara þrælgott hjá honum.  Davíð Steinn hellti upp á kaffi eftir matinn.  Einn vinur tvíburanna kom upp úr átta og þeir Davíð Steinn fóru saman í sund og fleira á meðan Oddur Smári ákvað að horfa á Castle með mér.

10.2.15

Saumaklúbbur í gær

Stóri guli bíllinn, þ.e.a.s. strætó, var nýttur í ferðina til vinnu í gærmorgun.  Líkt og undanfarið leið vinnudagurinn ótrúlega hratt við margvísleg verkefni enda í mörg horn að líta.  Að þessu sinni náði ég að hætta áður en klukkan varð mikið meira en fjögur og labbaði ég stystu leið heim, upp og niður Skólavörðuholtið.

Ekkert löngu eftir að ég kom heim útbjó ég kartöflumús úr sætri kartöflu sem ég hafði með afgangnum af súrmatnum handa okkur Oddi Smára.  Davíð Steinn fékk hins vegar afganginn af lasanjanu sem hann eldaði sjálfur á sunnudagskvöldið var.   Oddur Smári fór á spilakvöld í Breiðholtið strax eftir mat. Ég beið aðeins með að ljúka við fráganginn í eldhúsinu því ég ætlaði mér að búa fyrst til kaffi og undirbúa saumaklúbbshitting.  Byrjaði samt á því að setjast aðeins við tölvuna. 

Allt í einu heyrði ég uppþvottavélin var sett í gang og svo var hrasuðukatlinum stungið í samband í tengil í holinu.  Davíð Steinn var þarna að verki og bjó hann til kaffið sem ég bauð upp á í saumaklúbbnum um kvöldið.

Það var 100% mæting í klúbbinn.  Ég náði að vinna aðeins í línum í myndinni af gamaldags símanum og mér sýnist að þetta fari nú alveg að hafast.  Þá mun vinna við myndina af týnda sauðnum verða tekin upp að nýju því ég er búin að einsetja mér að ljúka við þessi tvö verkefni áður en ég sný mér að öðru.  Mikið var skrafað og hlegið eins og alltaf en tíminn lét því miður ekki bíða eftir sér og flaug frá okkur á hraða ljóssins.  En áður en kvöldinu lauk var ákveðið hvenær halda á næsta saumaklúbb.

9.2.15

Ný vinnuvika

Ég dreif mig í sund ca tveimur tímum áður en mæta átti í upphitun fyrir fyrri messu mánaðarins. Synti sex sinnum 50 metra og fór beint í gufuna á eftir.  Allt í allt með ferðum fram og til baka tók þetta mig rétt rúmlega fimm korter.  Hitti fyrrum vinnufélaga þegar ég var í að þurrka mér.  Við spjölluðum smá og svo fór hún að sínum skáp að klæða sig eftir sundið.  Það kom svo í ljós stuttu seinna að hún var með skáp rétt hjá þeim skáp þar sem ég geymdi mín föt svo við gátum aðeins haldið áfram að spjalla.

Hafði smá tíma til að skipta um föt og taka mig til fyrir messuna.  Upphitun gekk vel og það var ákveðið að kórinn dreifði sér um kirkjuna og sjórnaði söngnum þaðan.  Þetta gekk alveg ágætlega þar sem enginn sálmur var sunginn í röddum.  Guðni Einarsson stjórnarmaður í Biblíufélaginu sá um predikunina og fórst það vel úr hendi.  Hann talaði að vísu örlítið of lengi en fyrir mitt leyti fyrirgaf ég honum það því hann hélt amk minni athygli hér um bil allan tímann.  Á eftir var svartbaunaseyði og bráðabrauð í neðra.

Oddur Smári sá um að klára þvottahúsmál, eða hengja upp úr vélinni seinni partinn, og Davíð Steinn stóð sig með ágætum í að sjá um að kvöldmaturinn væri klár upp úr klukkan hálfátta.  Ég horfði á fréttir á meðan ég beið eftir matnum og horfði á Landann eftir að við mæðgin vorum búin að borða.  Strákarnir fengu vin í heimsókn eftir kvöldmat og þeir fóru þrír saman í sund.

8.2.15

Messudagur

Ég vaknaði óþarflega snemma í gærmorgun en var líklega búin að sofa í rúmlega sjö tíma rétt fyrir sjö. Gerði heiðarlega tilraun til að kúra aðeins lengur en það enti með því að ég kveikti á náttborðslampanum (rétt fyrir átta) og beindi athyglinni óskiptri að nýjustu íslensku bókinni eftir Mary Higgins Clark, Pabbi er farinn á veiðar, sem ég byrjaði á um og upp úr síðustu helgi.  Spennan magnaðist og langt var liðið á bókina þegar ég uppgötvaði að það var komin tími til að drífa sig á fætur til að komast yfir til norsku esperanto vinkonu minnar á "réttum" tíma.  Þá átti ég bara örfáa kafla eftir og það var frekar erfitt að slíta sig frá lestrinum, en tókst þó.

Rétt rúmlega ellefu hringdi ég á bjölluna hjá Inger.  Hún heilsaði í dyrasímann og hleypti mér inn en í fyrsta skipti síðan þau fjölskyldan fluttu á þenna stað þá gleymdi hún að aflæsa lyftunni svo ég kæmist alla leið upp í forstofuna til hennar.  Ég dó samt ekki ráðalaus heldur fór eins langt og ég komst, á næstu hæð fyrir neðan, og labbaði svo upp stigaganginn síðustu hæðina og bankaði upp á.  Okkur vinkonunum fannst þetta frekar fyndið og næstu tveir tímar liðu ógnarhratt.  Ekkert esperanto að vísu en krossgátur, létt spjall, mikill hlátur og fleira sem gefur lífinu sterkan og góðan lit.

Næst lá leiðin í Krónuna við Granda í minn nokkurn veginn vikulega verslunarleiðangur og áður en ég fór heim kom ég við á Minni-Grund í fyrstu heimsóknina til Böddu minnar síðan hún fór þangað í hvíldarinnlögn beint af sjúkrahúsinu fyrir einni og hálfri viku síðan.  Ég byrjaði reyndar á að villast og fór á Litlu-Grund en þegar ég var orðin viss um þessa villu mína hringdi ég í gömlu konuna og hún leiðbeindi mér þannig að ég komst til hennar á endanum.  Það var annars mál til komið að drífa sig í þessa heimsókn og nú þegar ég veit hvar þetta er get ég drifið mig oftar og reglulegar.

7.2.15

Laugardagur

Fór á negldum skóm með strætó rúmlega hálfátta til vinnu í gærmorgun.  Klukkan var langt gengin í fimm þegar ég hafði að slíta mig frá vinnu og labba af stað heimleiðis inn í helgina.  Labbaði eftir Hverfisgötunni að Hárhorninu og hafði ágætis meðbyr.  Rétt náði að koma af mér nokkrum vikublöðum til tengdapabba systur minnar.  Hann var nýbúinn að læsa hjá sér, ekki farinn, sá mig og opnaði til að taka á móti sendingunni.  Kári var svo meira í hliðina afganginn af leiðinni heim en ekki svo sterkur að ég lét mig hafa það að labba alla leið.  Byrjaði á því að hringja í pabba og heyra aðeins í honum. Seinna steikti afganginn af hrognunum og kartöflunum frá kvöldinu áður og var það bara ágætis matur.  Kveikti ekki einu sinni á sjónvarpinu í gærkvöldi en fór þó ekki í háttinn fyrr en upp úr ellefu.  Las um stund í "Pabbi er farinn á veiðar" en ekki lengi því ég var víst orðin rangeygð af þreytu.  ...en ég er nú einu sinni Rangæingur.  ;-)

6.2.15

Fyrsta vinnuvika febrúar liðin

Ég fór aftur á lánsbílnum til vinnu í gærmorgun og gátu tvíburarnir nýtt sér farið.  Enn og aftur var mikill erill í vinnunni en það náðist samt að loka ákveðnum mánaðamótamálum sem er vel. Hafði eina með mér í þessari vinnu sl. daga sem ég er nokkuð vön að lesa yfir fyrir mig og nú fylgdist hún nokkurn veginn með öllu ferlinu.  Klukkan var langt gengin í fimm þegar ég gat loksins slitið mig frá vinnu.  Þá lá leiðin í Laugardalinn með viðkomu í fiskbúðinni við Sundlaugarveg.  Um það leyti sem ég var að leggja við fiskbúðina hringdi gemsinn og var það vinnutengt símtal sem reyndar var fljótafgreitt. Í búðinni var ég ákveðin í að kaupa smá ýsu og klausturbleikju og á meðan verið var að afgreiða þessa pöntun fyrir mig ákvað ég að fá líka eins og einar "hrogna-buxur".  Spaugaði aðeins við afgreiðslumanninn um hvort þetta væru stuttbuxur? Hann sagðist halda að þetta væru frekar snjó- eða regnbuxur en þá hvíslaði afgreiðslumaðurinn við hliðina að þeim sem var að afgreiða mig að þetta væri örugglega G-strengur. Ó, mig auma þetta var frekar fyndið en að sama skapi neyðarlegt því ég varð allt í einu afar feimin.  Náði þó að halda andlitinu og þakka hressilega fyrir mig þegar hafði greitt fyrir og tekið við því sem ég bað um.  Synti svo nokkrar ferðir í Laugardalslauginni og sat í gufunni í um tíu mínútur áður en ég fór heim.

5.2.15

Hrogn og ýsa

Í gærmorgun fór ég á lánsbílnum í vinnuna og bauð bræðrunum far í Tækniskólann í leiðinni. Erill var í vinnunni og það teygðist úr vinnudeginum líkt og undanfarið.  Ég hafði þó smá stund aflögu heima áður en ég fór á kóræfingu m.a. til að hringja í foreldra mína, úr varð eins konar tuttugu mínútna "þriggja manna símafundur" en það er afar sjaldgæft að pabbi og mamma tali við mig bæði í einu í símann.  Oddur Smári hafði skellt sér í ökuskóla 2 námskeið en Davíð Steinn var steinsofandi og vissi örugglega aldrei af því að ég hafði komið heim í smá stund.

Tveir tímar á kóræfingu liðu sem hálftími, alltof hratt, og ég var varla tilbúin að fara heim þegar æfingu lauk um hálfátta.  Oddur var enn á námskeiðinu en það var kominn vinur í heimsók til Davíðs Steins og voru þeir að spila í playstaition tölvunni þegar ég kom heim.  Um hálfníu drifu þeir sig svo í sund.  Ég var fegin því þá sá ég fram á að ég þyrfti ekki að "reka" þá úr stofunni þegar Kiljan byrjaði.  Í millitíðinni hringdi ég í "tvíburahálfmömmu" mína og þar fauk klukkutíma í afar þarft spjall. Ég horfði því á Kiljuna á tímarásinni en ekki á rauntíma en það var þó ekki orðið svo framorðið þegar því áhorfi lauk.  Hafði smá tíma í m.a. netvafr og bókalestur fyrir svefninn.

4.2.15

Laglínan sungin af innlifun

Eins og ég sagði frá í pistli gærdagsins þá fór ég með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Hafði sunddótið tiltækt með í bakpokanum með það í huga að koma við í Sundhöllinni á heimleiðinni seinni partinn. Þrátt fyrir að aðeins hafi teygst úr vinnudeginum þá stóð ég við þessa ætlun mína.  Labbaði af stað frá vinnustaðnum klukkan langt gengin í fimm og var komin ofan í innilauginna aðeins rúmlega.  Synti þó bara sex ferðir x 25 metrar því mér fannst ég þurfa heldur meira pláss en ég fékk.  Kannski var það afsökun fyrir að skella sér sem fyrst út í heitari pottinn og gufuna á eftir.  Þegar ég kom upp úr kvennaklefanum hitti ég einn frænda minn og annan son hans örstutt.  Og þegar ég var nýlögð af stað heimleiðis flautaði á eftir mér bíll en þar reyndust mæðgur vera á ferð, "föðursystir" mín og dóttir hennar.  Ég spjallaði smá stund við þær áður en ég hélt áfram heim.  Klukkan var að verða hálfsjö þegar ég kom heim og þá fór ég beint í að útbúa kvöldmatinn.

3.2.15

Gengið heim á negldum

Síðustu fjóra virka daga, að þessum þriðjudegi meðtöldum, hef ég farið með strætó í vinnuna en labbað heim seinni partinn og í tvö skipti af þessum fjórum hef ég komið við í Sundhöllinni og fengið mér stuttan innisprett og skroppið í heitan pott og gufu á eftir.

Í gær labbaði ég stystu og beinustu leið heim eftir vinnu.  Ekkert útstáelsi var á mér en kvöldið leið engu að síður afar hratt þótt ég næði ekki að komast í að gera allt sem mig langaði til.  Rimpaði m.a. saman "tásugat" á sokkabuxum og tók fram útsaumsdótið í leiðinni alveg viss um að nú myndi ég stinga niður nál og vinna í að klára þá vinnu sem er næstum búin svo ég geti farið að snúa mér að nýjum saumaverkefnum.  Í staðinn gleymdi ég mér meðal annars í netvafri, vinkonuspjalli (og það er ekkert að því síðarnefnda) og fleiru.

Er annars að lesa nýjustu þýddu bókina eftir Mary Higgins Clark Pabbi er farinn á veiðar sem ég fékk í jólagjöf frá pabba og mömmu.  Hún er spennandi og með það stuttum köflum að það er alveg hægt að gleyma tímanum og hugsa of oft "...bara einn kafla enn..." og láta það eftir sér.  Náði samt að slökkva á lampanum á slaginu ellefu, bað bænirnar, sendi strauma í margar áttir og sofnaði örugglega áður en klukkan náði að verða hálftólf.

2.2.15

Ný vinnuvika

Í fyrsta skipti í nokkrar vikur stillti ég ekki á mig neina vekjaraklukku í gær.  Ég var samt vöknuð upp úr átta og byrjaði á því að ljúka við bókina um Götumálarann.  Þegar ég fór að huga að því að fá mér eitthvað að borða ákvað ég að blanda mér í búst en það hef ég heldur ekki gert lengi.  Dvöl mín í eldhúsínu varð þó lengri heldur en þann tíma sem tók að blanda bústið og drekka því áður en ég vissi af var ég farin að láta hendur standa fram úr ermum við verk sem ég byrjaði á um daginn og er hvergi nærri lokið.

Um fjögur dreif ég mig á safnið og skilaði af mér fimm bókum af sex.  Að þessu sinni passaði ég mig á að líta ekki í kringum mig eftir nýju lesefni heldur dreif mig beint í sund.  Áður en ég fór heim eftir sundið skrapp ég í Sunnubúðina eftir brauðosti sem ég hafði gleymt að kaupa í mínum vikulega verslunarleiðangri.  Ég kom heim með ostinn og smávegis fleira, m.a. fötu af súrmat.  Var reyndar búin að ákveða að hafa steikt slátur og þar sem ég vissi að annar strákurinn er ekki hrifinn af súrmat hélt ég mig við mataráætlunina en útbjó jafnframt kartöflumús úr sætri kartöflu sem ég hafði með súrmatnum. Mér að óvörum þá fékk hinn strákurinn sér af súrmatnum og "sætu" músinni.

1.2.15

Nýr mánuður

Vaknaði nokkuð snemma í gærmorgun miðað við að það var laugardagur.  Ég ákvað því að drífa mig í sund og var mætt í Laugardalinn um það leyti sem opnaði, eða á slaginu átta.  Tapaði tölunni á ferðunum en miðað við tímann sem ég synti voru þetta sennilega 600 metrar sem er bara nokkuð gott. Ég kom heim upp úr níu rétt til þess að ganga frá sunddótinu, skipta um föt og drífa mig þangað sem starfsdagur RB var haldinn.  Með því að vera mætt aðeins fyrir tíu hafði ég tíma til að fá mér léttan morgunverð, kaffi og heilsa eitthvað af öllu fólkinu áður en dagskráin hófst.  Raðað var niður í sæti og til að byrja með var ég á borði 5 af ég veit ekki hvað mörgum borðum.  Mér skilst að það hafi verið met mæting miðað við að hún var valkvæð (ekki skylda) eða í kringum 130 manns.  Eftir hádegi var hópnum skipt upp í sín svið og ég færðist á borð 7 þar sem við vorum mætt 6 af átta úr kortadeildinni manns úr kortadeildinni. Tíminn flaug hratt, allir voru að vinna að svipuðu verkefni, hver fyrir sína deild eða hóp og það voru nokkrir sem litu til með þessu, m.a. forstjóri RB sjálfur, boðinn og búinn til að aðstoða.

Kom heim aftur um hálfþrjú, skipti aftur um föt og skrapp í vikulegan verslunarleiðangur með það í huga að kíkja kannski á hana Böddu mína í heimleiðinni.  Ekkert varð úr þeirri heimsókn í því þegar ég var að keyra heim kom yfir mig mikil og skrýtin þreyta svo ég taldi best að drífa mig bara heim og taka því rólega.  Oddur gekk frá vörunum og ég gaf mér tíma til að slaka aðeins á, kíkja á netið, horfa á seinni hálfleikinn um fimmta sætið, lesa og svo framvegis.

Var  að klára mjög skemmtilega bók eftir Þórarinn Leifsson sem heitir Götumálarinn og byggir á atburðum sem hann upplifði þegar hann var nítján ára.  Skemmtilega skrifuð, mannleg, brosleg og spennandi.