28.6.04

- Stiklað á stóru -

Dagarnir fljúga og það er óhætt að segja það að hjá mér sé alveg meira en nóg að gera, eins og venjulega

Ég fór næstum beint að skoða litlu frænku mína seinni partinn sl. miðvikudag. - "Láttu litla barnið mitt vera og réttu mömmu minni það!", sagði Hulda frænka. Stóra systirin kom með ömmu sinni í bæinn til að skoða en þær fóru aftur austur um kvöldið. Helga og Ingvi voru komin heim með litlu dömuna fyrir hádegi á fimmtudag og ég kom við hjá þeim á heimleiðinni seinni partinn þann dag.

Hulda og pabbi komu svo saman í bæinn á laugardaginn. Davíð var að aðstoða við flutninga svo við mæðginin skruppum á Grettisgötuna, þeir á hjólum og ég á tveimur jafnfljótum. Svo heppilega vildi til að systurdóttir Ingva var í heimsókn líka. Hún hefur búið í Danmörku í nokkur ár en áður en hún flutti út var hún á sama leikskóla og tvíburarnir. Pabbi gat slegið tvær flugur í þessari borgarferð, séð nýjasta barnabarnið og einnig skoðað íbúðina okkar.

Á sunnudagsmorguninn hitti ég frænku mína (sem er líka að flytja) er ég var að fara i upphitun fyrir síðustu messu sumarsins. Við mættum tíu í kórnum og vorum álíka mörg og kirkjugestir, fámennt en góðmennt. Dreif mig heim að messu lokinni. Við fórum svo öll upp í íbúð eftir að hafa fengið okkur hressingu. Tvíburarnir voru mjög hjálpsamir og duglegir og það var eiginlega betra að finna verkefni handa þeim (þeir hjálpuðu pabba sínum m.a. að mála loftið í tilvonandi herbergi þeirra og svo voru þeir mjög öflugir sópara) því annars fengu þeir fremur slæmar fikthugmyndir. Tengdó kíktu við til að skoða.

Á leiðinni heim seinni partinn í gær hringdi Bidda og bauð fram aðstoð sína. Hún hitti okkur í íbúðinni um hálfsjö. Þar voru tvíburarnir að mála fyrir mig búrið. Davíð var skilinn eftir og við hin fórum heim, strákarnir í bað og við Bidda hjálpuðumst að við kvöldmatargerð. Seinna um kvöldið var sett niður í tvo kassa en það er orðið lítið um pláss núna fyrir alla þessa fullu kassa...

23.6.04

- Hulda frænka orðin stóra systir -

Klukkan hálfsjö í morgun fæddist 52 cm og 15 marka stúlka (3775gr), með mikið hár. Allt gekk vel. Ég frétti þetta á arkinu í morgun og hugsaði svo mikið um að ég yrði að labba við seinni partinn og heilsa upp á mæðgurnar, að ég byrjaði á því að reyna að stimla mig út.

21.6.04

- Sumarsólstöður -

Veðrið er magnað hér í Reykjavík á þessum lengsta degi ársins. Í dag er Anna frænka 22 ára og í dag eru liðin fjögur ár síðan móðuramma okkar Önnu og nafna (Anna Jónsdóttir) dó.

Gleymdi að geta þess í gærkvöld að þegar við mæðginin komum heim lá Gula Kisa á miðju hjónarúminu, ég hafði skilið eftir gluggann á strákaherberginu galopinn og þessi köttur virðist hafa smá flugkraft því glugginn snýr út að hallandi innkeyslunni að bílskúrnum.

20.6.04

- Helgin gerð upp -

Það er hálf ótrúlegt að helgin sé að klárast. Það er samt búið að gera alveg fullt. Svilarnir fóru saman upp í íbúð upp úr hádegi í gær. Ég var heima að reyna að láta hendur standa fram úr ermum og gerði ýmislegt annað heldur en það sem var efst á dagskránni; dótið í herbergi tvíburanna.. Maginn eða þarmarnir voru eitthvað að trufla mig og hafa verið að gera það undan farna daga. Rétt fyrir tvö ákvað ég að best væri að fá sér frískt loft og rölti yfir að Hlíðarenda þar sem Valsara tóku á móti Þrótti (2:1). Davíð tókst að draga Ingva með á leikinn þótt sá síðar nefndi hefði frekar vilja halda áfram að vinna í íbúðinni. Leikurinn var ágætur en mér fannst mínir menn virka hálfþungir á köflum. Aftur á móti var leikur Hollendinga og Tékka 2:3 hreint út sagt frábær!

Í morgun var ég komin á fætur um níu, klukkutíma á undan Davíð. Hafði "brunch" um ellefu, plokkfisk, og var Davíð glaður með það. Svo var hann rokinn að sækja svila sinn. Þeir voru með kerru og bíl í láni og fóru amk fjórar ferðir með ónýtt dótt úr skúrnum. Ég hélt áfram dútli mínu hérna heima en hafði hugsað mér að renna austur eftir strákunum fljótlega upp úr hádegi. Rétt fyrir eitt hringdi norska vinkona mín og bauð fram aðstoð sína, sem ég þáði og á tveimur tímum gerðum við meira saman heldur en ég hafði gert allan laugardaginn. Þokkalega duglegar ha! M.a. tókum við myndir niður af veggjum, punt úr stofuhillum og gluggakistum og fylltum stóran kassa af dóti úr herbergi strákanna. Ekki er samt allt búið enn hvað pökkun varðar en það eru amk þrjár vikur þar til við flytjum svo flutningsundirbúningurinn gengur bara þokkalega vel!

Um þrjú skrapp ég á bókasafnið og skilaði af mér nokkrum bókum sem ég hef verið með undanfarinn mánuð (þó eru fjórar bækur sem ég hélt eftir í bili). Að því loknu brunaði ég austur. Svilarnir voru að mestu búnir með skúrinn og fóru því næst í íbúðina að smíða vegg og hillur fyrir "gatið" milli stofanna.

Fyrir austan tóku Oddur Smári og Hulda vel á móti mér. Davíð Steinn var niðursokkinn í "húsasmíði" úr legó. Systurdóttir mín hafði einhvern grun um að ég væri bara komin til að sækja strákana, hún yrði eftir. Hún og Oddur Smári komu með mér í smá innilit en sú stutta fór til baka á undan okkur og hvarf, eða þannig. Hún lokaði sig inn í bílnum mínum. Ég var ekkert að fara alveg strax en systurnar úr næsta húsi björguðu málunum þegar að brottför kom...

18.6.04

- Frændsystkynin saman á Hellu -

Tvíburarnir fengu að velja hvort þeir vildu fara austur með ömmu sinni og Huldu frænku og vera fram á sunnudag eða vera hér í bænum. Það var víst mjög létt val. En fyrst var smá grillfundur á Miklatúni, með foreldrum og piltum í 7. flokki, eftir æfingu á miðvikudag. Sá fundur tókst vel enda lék veðrið við okkur.

Um átta vorum við búin að taka strákana til og skutluðum þeim á Grettisgötuna þar sem mamma og Hulda biðu eftir að komast af stað austur. Seinna um kvöldið fóru svilarnir saman upp í íbúð og rifu teppið af stofunum. Davíð gleymdi símanum sínum þar en ákvað að láta slag standa og koma við í myndbandaleigunni. Ég gerði heiðarlega tilraun til að horfa á myndina með honum en gafst upp, gat bara ekki haldið augunum opnum lengur, og klukkan var rétt að byrja að ganga eitt.

Á 60 ára afmæli lýðveldissins tolldi ég í rúminu til klukkan að ganga ellefu og ákvað þá að leyfa Davíð að sofa lengur (hann er svona kvöldtýpa). Dagurinn fór eiginlega í dútl. Setti þó niður í fimm kassa af minni gerðinni, aðallega þungar bækur. Var að reyna að manna mig upp í að taka dót strákanna í gegn en komst ekki svo langt, ætla mér að klára það um helgina! Svilarnir fóru aftur saman upp í íbúð þar sem þeir naglhreinsuðu alla veggi og spörsluðu í göt og sprungur. (Við vorum svo ljómandi heppin að Ingvi átti til sparsl).

Þessa stundina eru svilarnir að viða að sér málningu. Við erum líka að spá í hvort ekki sé rétt að láta draga nýtt í rafmagnið. Ingvi er ánægður með að fá að hjálpa okkur. Ekkert bólar enn á nýja barninu en það kemur væntanlega á næstu dögum. Það skyldi þó aldrei vera að Helga næði að geyma þetta fram á jónsmessu og eiga barnið í krabbamerkinu?!?!

16.6.04

- Boltinn og kvöldgöngutúr -

Fékk aftur far seinni seinni partinn í gær og kippti með mér nokkrum tómum kössum. Davíð hafði sagst sjá um að sækja strákana, en þyrfti á fund með hinum í foreldraráði 7. flokks. Ég horfði því róleg á leik Lettlands og Tékklands 1:2 og skrapp í fiskbúðina í leikhléinu. Lettar eru með markvörð á heimsmælikvarða og ég held að Tékkar hafi verið að verða svolítið pirraðir að koma ekki í tuðrunni í netið. Lettar voru á undan að skora og í lokin var ég einlega farin að vona að þeir myndu ná að halda jafnteflinu (þá hefði ég líka fengið 5 stig fyrir rétta ágiskun í stað eins fyrir aðra markatöluna rétta). En það er allavega ljóst að það má alls ekki vanmeta Lettana.

Milli leikja setti ég upp kartöflur, sauð upp á ýsuflökum og bræddi hamsa. Fljótlegt, einfalt og mjög, mjög gott. Feðgarnir komu ekki heim fyrr en rétt fyrir sjö. Þá var ég búin að fá mér að borða, búa til kaffi og sest aftur fyrir framan skjáinn. (Það er hálfgerð fötlun að hafa þennan brennandi áhuga, sérstaklega þegar í nógu er að snúast aukalega!)

Holland - Þýskaland 1:1. Ég var svo að vona að Þjóðverjar næðu að sigra 1:0 en Hollendingar áttu þetta jafntefli skilið því þeir voru búnir að vinna mjög vel. Er farin að hallast að því að Tékkar og Hollendingar eigi mestu möguleikana á að komast í átta liða úrslitin en það má ekki afskrifa hin liðin. Lettar eiga eftir að stríða Þjóðverjum og Hollendingum og Þjóðverjar búa yfir mikilli seiglu.

Strax að leik loknum sá ég til þess að tvíburarnir fengju kvöldhressingu áður en ég kvaddi feðgana og rölti yfir til norsku vinkonu minnar. Saman fórum við í kvöldgöngu með viðkomu á "nýja" staðnum. Henni leist mjög vel á íbúðina og alla aðstöðu. Í bakaleiðinni hitti ég einn frænda minn sem býr norðurmýrinni og spjallaði góða stund við hann. Eftir göngutúrinn stoppaði ég hjá vinkonunni yfir tesopa og spjalli.

15.6.04

- Gott bland -

Í dag er Sigrún Bjarnadóttir árinu eldri og fagnar stórafmæli! Sigrún þessi kenndi mér handavinnu í grunnskóla. Dóttir hennar var bekkjarsystir mín og mikil vinkona (og við útskrifuðumst saman úr F.Su. og byrjuðum samtímis í KHÍ. Ég mun hugsa mikið austur í dag!

En í dag er líka dagurinn sem við áttum á fá afhenta íbúðina sem við vorum að festa kaup á. Það breyttist aðeins því það var haft samband við Davíð í gær stuttu fyrir hádegi. Hann hringdi strax í mig og bað mig um að fá frí í klukkutíma upp úr hádeginu, sagðist ætla að sýna mér svolítið. Mig grunaði nú hvað var í gangi en var þó ekki viss fyrr en Davíð stoppaði fyrir utan "nýja staðinn"! Framundan er því mjög skemmtilegur tími (sem var nú viðbúið), sem nota þarf til að undirbúa komu okkar á nýja staðinn, áframhaldandi pökkun og öllu tilheyrandi.

Seinni partinn í gær var ég svo heppin að fá far heim þannig að ég náði leik Dana og Ítala 0:0 frá byrjun. Ég hafði spáð jafntefli í þeim leik en hélt þó að það yrðu skoruð einhver mörk. Markverðir beggja liða stóðu sig með sóma og mér fannst Danir standa sig mjög vel í leiknum, þeir lögðu sig greinilega 100% fram ef ekki meir.

Davíð sótti strákana og sýndi þeim nýju íbúðina á heimleiðinni. Mér skilst að Oddur hafi komið með þá tillögu að skipta stofunum í sitthvort herbergið handa þeim bræðrum. Þeir feðgar komu heim rétt eftir leikinn og milli leikja fór ég með Helgu systur og Ingva mági og sýndi þeim herlegheitin. Þeim leist mjög vel á.

Svíðþjóð - Búlagaría 5:0. Frábær leikur. Ég spáði rétt fyrir um úrslitin og aðra markatöluna (og er komin með 12 stig í spáleiknum) en átti ekki alveg vona á svona miklu markaregni. Það verður spennandi að fylgjast með næstu tveimur umferðum í C riðlinum...

14.6.04

- Afmæli -

Í dag er Árný Lára frænka mín að fagna fæðingardegi sínum og mun ég hugsa til hennar í allan dag. Vonandi fær hún góða strauma frá mér!

13.6.04

-Boltinn rúllar -

Helgin er að klárast, var ekki lengi að líða. Sl. föstudag arkaði ég beint heim seinni partinn því Davíð hafði lofað að sækja strákana í sumarbúðirnar. Þeir feðgar komu hálfsex. Þá skutlaði ég manninum í vinnupartí til þess að hafa bílinn heimavið. Við strákarnir borðuðum snemma en þeir fóru svo út að leika við Birtu þangað til Disney-mynd kvöldsins Lási lögga byrjaði. (Davíð Steinn hjálpaði mér við að pakka niður myndbandsspólunum þeirra bræðra, einn fullur kassi þar.)

Á laugardagsmorguninn fór ég á fætur um hálfátta og tæpum klukkutíma síðar var ég mætt í kirkjuna. Hituðum upp fyrir göngumessu. Upphituninn gekk vel og megnið af messunni en strax eftir predikun sungum við "Smávinir fagrir" og ég eiginlega ekki hvað gerðist hjá mér. Það hafði allt gengið svo vel þegar við sungum lagið yfir rétt fyrir messu en mér varð svei mér þá á í messunni og söng einhversstaðar neðan úr maga, samt kann ég textann og alt-laglínuna. Æ, ég er að hugsa um að velta mér ekkert meir upp úr þessu...

Fór beint heim meðan margir aðrir voru á leið í göngutúr einhvers staðar stutt frá Borgarnesi. Tvíburarnir voru vaknaðir og búnir að koma sér fyrir fyrir framan sjónvarpið. Lokaði inn til Davíðs, sá um að strákarnir fengju morgunhressingu og lét svo hendur standa fram úr ermum við að undirbúa meira pakk.
Stuttu seinna komu Bollagötu-bræðurnir og spurðu eftir strákunum. Þeir fengu að koma inn á meðan mínir klæddu sig en svo sendi ég þá alla út, sagði þeim að Davíð ætti að fá að sofa til hádegis og þar að auki væri eiginlega lítið leikpláss inni núna.

Hafði heitan mat í hádeginu. Strákarnir fóru beint út aftur. Birta kom en þeir bræður sögðust vera búnir að lofast til að leika við Bollagötubræðurna og þeir voru með þeim, bæði úti og inni, til klukkan sex. Á meðan lét ég hendur standa fram úr ermum með góðri aðstoð frá noskri vinkonu minni. Við fórum m.a. í gegnum öll föt strákanna og eitthvað af fullorðinsfötunum. Fylltum einn svartan poka af fötum til að gefa og hálfan að auki til að senda Tedda frænda. Rétt fyrir fjögur sagði ég stopp, hitaði handa okkur te og kveikti á sjónvarpinu til að fylgjast með fyrsta leiknum á EM Portúgal - Grikkland 0:2. Grikkir komu verulega á óvart. Held að enginn hafi reiknað með þessum sigri nema þá kannski Grikkir sjálfir. Mér fannst þeir duglegir að vera fyrir í vörninni og verð eiginlega að segja það að þetta var verðskuldaður sigur. Portugalir voru helst til stressaðir enda mikil pressa á þeim.

Milli leikja hitaði ég linsusúpu úr heilsuhúsinu sem mældist vel fyrir hjá flestum úr fjölskyldunni. Seinni leikurinn Spánn - Rússland 1:0 var mjög skemmtilegur en ég held að Rússarnir hafi verið heppnir að tapa ekki stærra.

Í dag kom norska vinkona mín yfir aftur og á tveimur tímum pökkuðum við í sex kassa og fórum í gegnum ýmislegt dót. Feðgarnir og Birta fóru á Valsleikinn í Landsbankadeild kvenna: Valur - Þór/KA/KS 4:0. Hefði vilja vera þar líka en það er víst ekki hægt að gera allt í einu.

Um hálffimm byrjaði formúlan og endaði hún líkt og flestar fyrri keppnirnar á árinu, með sigri Michaels Schumachers.

Við hjónin hjálpuðumst að við að finna til fljótlegan kvöldmat svo við gætum öll fylgst með leik Frakka og Englendinga 2:1. Fyrr í dag (þegar stund var milli stríða) fann ég spásíðu sem unnusti frænku minnar hafði linkað á og ákvað ég að vera með þótt búnir væru tveir leikir. Skaut langt yfir markið er ég spáði um úrslit í leik Króata og Svisslendinga, en bætti það upp með því að spá hárrétt fyrir um úrslitin í seinni leik dagsins. En mikið held ég að Englendingar séu svekktir, létu verja frá sér vítaspyrnu og fengu þessi tvö mörk á sig alveg undir lok leiksins...

11.6.04

- Föstudagur -

Í gær byrjuðu tvíburarnir í Sumarbúðum í borg (á Hlíðarendasvæðinu, hægt er að fylgjast með hvað er að gerast daglega, skoða myndir og fleira ef maður smellir á flipann neðst vinstra meginn á forsíðunni (valur.is/sumarbúðir í borg)). Þeir voru spenntir að byrja og vöknuðu snemma en síðan skóla lauk hafa þeir sofið til hálfníu (farið að sofa í seinna lagi á kvöldin reyndar) og ég því ekki hitt þá á morgnana, fyrr en í gær. Í morgun rétt náðu þeir að hitta mig áður en ég arkaði af stað.

Skrifandinn er ekki beint yfir mér þessa dagana, hugsa þeim mun meira og nú um helgina ætla ég að láta hendur standa fram úr ermum svo ég geti horft á EM- og formúluna með góðri samvisku!!!

8.6.04

- Lítill tími til skrifta -

Þeir strunsa áfram dagarnir, eins og venjuleg. Þarf að hafa mig alla við til að njóta þeirra. Það er nóg um að vera og miklu meira en nóg að gera. Smá yfirlit:

-Föstudagskvöld sl. Ég sótti strákana á fótboltaæfingu og við löbbuðum heim á sjötta tímanum. Davíð kom heim um svipað leyti, skellti sér í sturtu og fór með tölvuna sína með sér í HK-húsið á Skjálfta 2. Við strákarnir löbbuðum aftur yfir á Valssvæðið upp úr átta. Valur - Njarðvík 1:0. Ég hef aldrei séð jafn stuttan markvörð og stóð í marki gestanna en hann stóð fyrir sínu.

-Á Laugardaginn tóku strákarnir þátt í vinamóti Breiðabliks. Davíð tók sér frí frá Skjálfta til að vera með okkur. Tvíburarnir spiluðu með C-liði Vals, við Keflavík, Fjölni og Stjörnuna. Þetta var erfitt hjá þeim, allir leikir töpuðust en misstórt þó. Þeir voru bara sjö mættir (hafa stundum verið 10-12) svo þjálfarinn tók það til bragðs að fá einn dreng sem spilaði með D liðinu svo hægt væri að skipta einum og einum út inn á milli. Eftir keppnina skutluðum við Davíð á sitt tölvumót og litum aðeins við hjá frænku okkar í Garðabæ.

-Á hádegi á sunnudag skutluðum við mæðginin Davíð á Skjálfta tvö og brunuðum svo sem leið lá til tvíburahálfsystur minnar. Áttum góðan dag með hennar fjölskyldu. Tölvumótið átti að vera búið um fjögur en það drógst aðeins. Davíð var hættur að spila um fimm leytið. Þá tók hann við strákunum og skutlaði mér heim til Péturs kórstjóra þar sem við kórsystkynin og sumir makar komum með góðgæti á grillið til hans. Semsagt skemmtilegur dagur í alla staði!

4.6.04

- Veðurblíða -

Það er örugglega komið sumar. Hitinn kominn í tveggja stafa tölu og sólin skælbrosandi þarna úti. Arkaði léttklædd í morgun, þó ekki á stuttbuxum og bol eins og ein sem ég mætti. Uppgötvaði svo rúmum klukkutíma seinna að með mér kom laumufarþegi, og ég sem passaði mig svo á því að ganga ekki undir trjágreinarnar sem marga slúta yfir gangstéttirnar víðast hvar!

Á miðvikudagskvöldið var, var öðruvísi kóræfing. Ein úr hópnum fór í ferð til Kenýa fyrr í vetur og þar sem ekki er messa fyrr en annan laugardagsmorgun (13. júní) ákváðum við að nota kvöldið til sjá myndir og muni frá ferðinni. Alveg mögnuð sýning og skemmtilega kynnt því hún sagði nokkur orð áður en byrjað var að sýna myndirnar og svo þurfti líka oft að segja frá og skýra út myndefnið.

Pakkið gengur eitthvað illa þessa dagana. Það er í svo mörgu að snúast eitthvað. Ég ákvað svo seinni partinn í gær að viðra sængurnar okkar Davíðs og að það væri kominn tími til að þrífa hjónaherbergið rækilega. Að þessu loknu hafði ég hugsað mér að taka saman allt handavinnudótið mitt, saumað og ósaumað (nema það sem ég er með í svartholinu mínu) og pakka því niður. Það vannst nú ekki tími í það en þetta blessast nú allt saman er ég viss um.

Ég hef alla vega gefið mér tíma til að lesa og hef nýlokið við að lesa Eins og ég er klædd um Guðrúnu Á. Símonar. Skemmti-lesning! Ein síðustu jólin sem við áttum á Heiði (fyrir 1980) kom út plata með Guðrúnu. Við systur gáfum enn gjafir með foreldrum okkar. Það var svolítið pínlegt þessi jól að bæði völdu þau plötuna hennar Guðrúnar til að gefa hvort öðru og eina leiðin sem við systur sáum út úr þessu var að passa upp á að þau opnuðu gjafirnar frá hvort öðru og okkur á sama tíma.

3.6.04

- Orð -

Ég loka augunum
og sé orðin svífa
allt í kring

sum eins og svartar klessur
orð sem aldrei hefðu átt
að vera sögð

önnur björt og skínandi
hrós, fallegar kveðjur
og ástarorð

enn önnur grá og óljós
sem kannski verða
svarta klessur
eða skínandi björt
í framtíðinni

1.6.04

- Dagarnir þjóta -

Fyrsti dagur júnímánaðar að kveldi komin og Hvítasunnuhelgin rétt nýliðin. Dreif mig snemma á fætur (með strákunum) á laugardagsmorguninn var. Sinnti ýmsum inniverkum en meiningin var að sækja Önnu frænku um ellefu og bruna austur fyrir fjall, alla leið á Hellu. Um tíu fékk ég sms-spurningu hvort ég gæti sótt nöfnu mín klukkutíma síðar. Það kom sér einkar vel fyrir mig því inniverkin tóku lengri tíma en ég áætlaði.

Um hálftólf kvöddum við mæðgin heimilisföðurinn (sem þurfti að nota daginn til vinnu). Fyrst lá leiðin á Grettisgötuna að sækja nokkuð sem átti að fara austur. Lentum í miðri skrúðgöngu á leiðinni, en Austurbæjarskóli var með e-s konar karnival hátíð. Gaman að því! Við nöfnur og strákar komum austur um tvö. Fengum kaffi og með því (ekki koníak samt, he he) og svo bauð pabbi okkur í bíltúr upp að Heiði. Hann notaði tækifærið og gróðursetti nokkrar hríslur á öðrum jarðarblettinum sem hann á. Við buðum okkur líka fram í smá smalamennsku, þar sem núverandi eigendur voru að reyna að losna við nokkrar rolluskjátur af landareigninni. Skjáturnar sáu samt við okkur og ég get svarið það að þær stoppuðu og gáfu sér tíma til að glotta að okkur þegar ljóst var að við vorum búnar að missa þær frá okkur. Klettasvæðið þar sem við systur lékum okkur er bara orðið svipur hjá sjón. Bæði er ég orðin stærri og svo sást greinilega að það hefur hrunið mikið úr því í skjálftunum sumarið fyrir fjórum árum. Komum til baka úr þessari ævintýraför um sex. Þá var mamma tilbúin með dýrindis sjávarréttasúpu og sallat. Við mæðgin komum heim rétt rúmlega tíu um kvöldið eftir að hafa skutlað nöfnu minni á stefnumót við vini sína.

Mætti í upphitun fyrir hvítasunnumessu rúmlega tíu á sunnudagsmorguninn. Í messunni söng m.a. barnakór frá Svalbarða og setti það skemmtilega svip á messuhaldið. Að öðru leyti var dagurinn bara rólegur. Náði meira að segja að horfa á næstum alla formúluna.

Gærdagurinn byrjaði rólega en við skruppum á Bakkann eftir hádegið og okkur dvaldist þar vel fram á kvöldið.

Og laust upp úr hádeginu var skólanum svo slitið. Og var sýnt frá því í lok fréttatímans í kvöld á rúv í kvöld.

Næstu daga mun mamma bjarga mér með strákana en hún byrjaði strax í dag svo ég kæmist að versla og í klippingu...