30.1.20

54. heimsóknin í Blóðbankann

Þambaði mikið af vatni í dag og leið á tímabili eins og pissudúkku. Gátum hætt vinnu upp úr þrjú og ég tók leið 13 en í stað þess að fara alla leið heim fór ég út á Rauðarárstígnum og rölti þaðan yfir í blóðbankann. Fékk sms og mail sl. mánudag en þar sem mig langði í sjóinn og fannst þar að auki 30 flott dagsetning dreif hlýddi ég ekki kallinu fyrr en í dag. Blóðþrýstingurinn er mjög góður 126/75 og það gekk ljómandi vel að finna æð og stinga í handlegginn sem sjaldnar er stungið í en ég er að verða þekkt fyrir það að hafa þurfi fyrir því að finna æð. Vissulega fékk hjúkrunarfræðingurinn að skoða báða handleggi og var næstum búin að velja þann sem oftast er stungið í en hún skipti um skoðun og sem fyrr segir gekk það svona glimrandi vel. Eftir að hafa fengið mér kaffi og kleinu á eftir rölti ég heim og skráði síminn sjálfkrafa á mig 18 mínútna göngutúr.

Í gær var ég mætt í sundið rétt fyrir hálffimm. Synti í 20 mínútur eða 500 m, fór tvisvar í þann kalda, einu sinni í 42°C pottinn, einu sinni í sjópottinn og endaði smá stund í gufunni áður en ég fór upp úr. Var að panta hakk hjá frænku minni um daginn og hún var búin að láta mig vita að ég gæti nálgast það hjá einum af fjörum sonum hennar. Hringdi í konuna hans rétt fyrir sex í gær og hún sagði að það yrði einhver kominn heim um hálfsjö. Í millitíðinni gerði ég mér ferð á Atlantsolí við Sprengisand til að að fylla á bílinn og heimsótti einnig Odd í vinnuna til hans. Klukkan var byrjuð að ganga átta þegar ég skilaði mér heim úr sundi með 10kg. af frosnu hakki í 500gr flötum pakkningum.

Davíð Steinn gaf mér bókina Blómamánamorðin eftir David Grann, sem er sakamálasaga byggð á sönnum atburðum. Ég byrjaði að lesa þessa bók í gærkvöldi.

28.1.20

Tvist á sundrútínunni

Við erum fjórar af fimm í vinnu þessa vikuna og ekki alveg vitað hvenær sú fimmta kemur aftur en hún rak tána í steinsteypuklump seinni partinn á föstudaginn, datt, bar fyrir sig vinstri hendina og úlnliðsbrotnaði. Allri framleiðslu dagsins var lokið rétt fyrir klukkan tólf og öll endurnýjun búin. Aftur á móti komu tveir stórir kassar og þrír minni af nýrri kortasendingu í hús í gær og á milli allra korta eru gulir miðar sem þarf að fjarlæga. Það tekur tíma. Við vorum alls ekki búnar að fjarlægja alla miða þegar við ákváðum að hætta klukkan fjögur og undirbúa vöfflukaffi í vinnunni.

Ég var komin heim fyrir klukkan hálffjögur. Hellti mér upp á kaffi, hringdi í vinkonu sem er nýlega komin heim frá Tælandi, heyrði líka í pabba og gluggaði aðeins í fréttablaðið áður en ég dreif mig loksins í sund. Þurfti að sópa og skafa af bílnum. Var byrjuð að synda rétt fyrir klukkan fimm og synti aðeins 200 metra. Var búin að fara eina ferð í þann kalda og sat í heitasta pottinum þegar kaldapottsvinkona mín mætti. Fór fjórar ferðir í viðbót í þann kalda og eftir síðustu ferðina synti ég aðra 200 metra.

Byrjaði ekki á nýrri jólabók í gærkvöldi en ég er alveg að verða búin með Hans Blæ.

27.1.20

Sjórinn 0,9° gráður í dag

Klukkan hálffimm síðdegis í dag var ég mætt við Nauthólsvík. Skráði mig inn í gestabókina, fór inn í kvennabúningsklefann og undirbjó mig undir það að skreppa í sjóinn. Þegar ég var komin í sundbolinn, sjósundssokkana, "strandskóna" og búin að setja hárið í teygju og setja sundhettu og ullarhúfu yfir og klæða mig í sjósundsvettlingana var sjósundsvinkona mín ekki mætt á svæðið. Ég ákvað að hinkra í nokkrar mínútur og vinkonan skilaði sér skömmu síðar. Þegar hún var búin að græja sig upp urðum við samferða beint í sjóinn. Hún passaði upp á tímann og sagðist vera á smá hraðferð því hún var að fara út að borða með vinnufélögum. Við gleymdum okkur samt aðeins í spjallinu þannig að við vorum ofan í sjónum að svamla um, fljóta og spjalla í rúmlega ellefu mínútur. Fórum því næst beint í heita pottinn og stoppuðum þar í amk 20 mínútur.

Fljótlega eftir að ég kom heim úr sjónum hafði ég samband við æskuvinkonu mína á Egilsstöðum til að tilkynna henni að ég væri búin að kaupa mér ferð í heimsókn til hennar frá því um miðjan dag þann 15. febrúar n.k. fram á þriðjudagskvöldið 18. s.m. Ég var búin að hafa samband áður og spyrja hvernig ég myndi sækja að henni á þessum tíma og hún búin að gefa grænt ljós. Ég var líka búin að fá frí þessa tvo virku daga. Nú er ég semsagt búin að fjárfesta í flugmiðum og byrjuð að telja niður dagana í þetta frí.

Rétt komst í sund í gærmorgun milli klukkan 10 og ellefu. Var með einhver ónöt í maganum sem ég losnaði ekki við fyrr en komið var fram á miðja dag. Slapp við upp og niður en ég fór ekkert út aftur og þar af leiðandi "skrópaði" ég í messu enn eina ferðina.

Er búin að ljúka við að lesa fyrstu jólabókina en ekki byrjuð á þeirri næstu. Á eitthvað um 100 bls. eftir af Hans Blæ og slatta af blaðsíðum af Níundu gröfinni. Það gæti samt alveg hugsast að ég byrji á bókinni hennar Yrsu áður en ég fer að sofa í kvöld.

25.1.20

Kyrrstaða en samt margt í gangi

Ég er ekkert að fara úr bænum þessa helgina og sagði við pabba í gær að það yrði kominn febrúar áður en ég hitti hann næst. Hann sagði að ég myndi alveg lifa það af, vill frekar vita af mér í bænum en í ævintýrum í umferðinni þar sem  veðrið setur strik í reikninginn og mikið um lokanir. Ég fer þá kannski í blúsmessu í óháða á morgun og örugglega í Lífsspekifélagið í dag. Mætti á síðarnefnda staðinn í gærkvöldi þar sem Tinna Gunnlaugdóttir var með erindið: "Með Herdísi í duftinu til Indlands" og á eftir er erindi um áhrif hugsana okkar á líkamsstarfssemina.

Annars er ég nýlega komin heim úr sundi og aldrei þessu vant er ekki esperantohittingur beint á eftir. Hitti Inger í félaginu í gærkvöldi og hún er að fara í súmbatíma núna á eftir en ætlar að reyna að komast í félagið klukkan þrjú.

Fyrri undanúrslitaleikurinn á EM í handbolta í gær var Mega spennandi og það er hætt við að Norðmenn verði eitthvað þreyttir í leiknum um þriðja sætið í dag. Vona samt innilega að þeir vinni bronsið fyrst þeir komust ekki í leikinn um gullið. Svo held ég að Spánverjar taki gullið á morgun.

21.1.20

Skrópa líklega í sund í dag/kvöld

Um það bil klukkutími síðan ég kom heim úr vinnu. Fékk far með Sillu og er búin að hella mér upp á kaffi og drekka 2 bolla og fá mér afgang af vöfflum með. Upp úr hádegi tók ég strætó áleiðis heim en leiðin lá reyndar ekki þangað. Tók sexuna, fór út á Miklubraut við Klambratún og Hlíðar og rölti að húsi númer átta við Skógarhlíð. Venjubundin skoðun, leghálsstrok, og svo fór ég beint í vinnuna aftur.

Í gær fékk ég áminningu frá Borgarbókasafninu um að skiladagur á þremur bókum væri að nálgast. Hefði átt að skila þeim bókum í dag en ákvað í gær að framlengja útlánsfrestinum á öllum fjórum bókunum sem ég er með í láni af safninu um 30 daga í viðbót við þá sem ég var búin að hafa bækurnar. Skrapp í sjóinn rétt fyrir fimm og um hálfátta sótti ég Lilju vinkonu og við urðum samferða í saumaklúbb í Hafnarfjörðinn til tvíburahálfsystur minnar. Áttum saman mjög skemmtilegt kvöld til klukkan að byrja að ganga ellefu. Við vorum með ólík verkefni vinkonurnar og höfðum þar að auki um mjög margt að spjalla því við vorum ekki búnar að hittast allar saman síðan í nóvember.

En nú styttist í næsta handboltalandsleik sem verður örugglega bæði skemmtilegur og spennandi. Og vonandi náum við hagstæðum úrslitum á móti sterku liði Noregs.

19.1.20

Í Reykjavík

Ég var vöknuð upp úr klukkan sjöí morgun en ákvað samt að snúa mér á hina hliðan og reyna að kúra aðeins lengur. Fór fyrst framúr upp um hálftíu en ákvað að skríða upp í aftur fljótlega og fara að lesa. Já, ég er að lesa þrjár bækur í einu því mér tókst að komast inn í Hans Blæ þannig að forvitnin var vakin. Búin á lesa  vel yfir 100 blaðsíður og nálgast það að vera hálfnuð með bókina.

Gærdagurinn fór í sund, esperantóhitting, lestur, smá spjall við pabba, þáttaáhorf og hand- og smá fótboltaáhorf. Annar sonurinn var að vinna til klukkan fjögur en hinn var inni í herberginu sínu meira og minna allan daginn. Hann kom þó fram í kvöldmat, plokkfisk, og gekk að mestu leiti frá í eldhúsinu á eftir.

Dagurinn í dag mun líklega fara í að fylgjast með EM í handbolta og horfa á Livperpool - Man. Utd. Ætla samt að búa til vöfflur á eftir. Vöfflujárnið sem ég fékk í jólagjöf frá öðrum syninum er að reynast mér vel og er alveg tekið við að því gamla. Svo mun ég líklega lesa eitthvað meira í dag, skilafresturinn á þremur af fjórum bókum rennur út fljótlega eftir helgi. Það er reyndar hægt að framlengja frestinn en ég er búin að lesa tvær af bókunum. Þá er það bara spurning hvort ég geti staðist þá freistingu að bíða með að koma með fleiri bækur heim í bili. Það kemur í ljós í vikunni.

15.1.20

Gullregn

Hugurinn er hjá fólkinu á Vestfjörðunum þessa stundina, sérstaklega á Flateyri og Suðureyri. Ég heyrði fyrst fréttir af hvað gekk á seint í gær í fréttayfirliti um hálfníu í morgun. Er semsagt ennþá heima, "skrópaði" í sund í morgun en mun mæta til vinnu um hálftólf og standa vaktina til fimm vegna yfirferðar á framleiðsluvélinni.

Hitti nöfnu mína og frænku, sem ég heimsótti sl. laugardag, í Háskólabíó rétt fyrir hálfsjö í gær. Ég var að koma beint úr sundi (600m og fimm ferðir í þann kalda) og var mætt fyrir utan bíóið korter yfir sex. Sá inngangur sem ég er vön að nota var lokaður en sem betur fer var nafna mín með símann og tengingu á og gat leiðbeint mér að réttum inngangi. Hún bauð mér í bíó og ég keypti meðlætið. Vorum að koma okkur fyrir inni í bíósalnum upp úr klukkan hálfsex en myndin, Gullregn, byrjaði ekki fyrr en ca korteri seinna vegna alls kyns auglýsinga. Ekkert hlé er gert á meðan á sýningu stendur og það fannst okkur nöfnum alveg frábært. Myndin stendur fyrir sínu, mjög brosleg og skondin á köflum en alvarlegur undirtónn sem fær mann til að hugsa um uppeldisaðstæður og fordóma.

Er byrjuð að lesa fyrstu jólabókina og varð Óstýriláta móðir mín...og ég eftir Sæunni Kjartansdóttur fyrir valinu. Ég er rétt búin að lesa innganginn og blábyrjunina og sé strax að þetta er vel skrifuð bók sem mun skilja margt eftir sig. Það er líklegt að þegar ég gef mér tíma og kemst á lestrarskrið að ég "rífi" bókina í mig einn tveir og tíu en kannski væri best að lesa hana í rólegheitum stig af stigi og gefa sér tíma til að hugsa og láta hugann reika. Svo er allt eins víst að ef ég les bókina í einum grænum að ég eigi eftir að lesa hana aftur, hægar. Ég er ekki búin að opna Hans Blær aftur en er að lesa bók eftir Stefan Ahnhem Níunda gröfin.

12.1.20

Sigur á Dönum í fyrsta leik á EM

Nú eru tvær og hálf vika síðan ég var síðast fyrir austan. Hef semsagt ekkert farið út úr bænum á þessu ári. Þetta er önnur helgin á árinu sem veðrið hagar sér þannig að ástæða þykir til að loka heiðum heilu og hálfu dagana til að koma í veg fyrir meiri háttar vandræði og jafnvel stórslys því það er alltaf einhver þarna úti sem leggur út í hvaða veður sem er á misjafnlega vel/illa útbúnum farartækjum. Ég finn það hjá pabba að hann er rólegri ef ég ákveð að halda mig heima í veðurrysjóttum aðstæðum en svei mér ef ég muni ekki krossleggja fingur og tær og biðja um gott ferðaveður næstu helgi.

Í gærmorgun fór ég í sund, fyrsta esperantóhitting á árinu og verslaði inn áður en ég skilaði mér heim upp úr hádeginu. Á þriðja tímanum tók ég strætó vestur í bæ til að sækja heim nöfnu mína og frændu (við erum systradætur og hún er dönsk í föðurættina) sem hefur fest kaup á íbúð við Seljaveg ásamt breskum kærasta sínum. Ég var semsagt að heimsækja hana í fyrsta skiptið. Færði þeim heimaprjónaðar tuskur í innflutningsgjöf frá mér. Oddur Smári sótti mig upp úr klukkan fjögur en þá var hann á leiðinni í Sorpu við Ánanaust svo þetta var alveg í leiðinni. Var komin heim áður en leikirnir byrjuðu; Danmörk-Ísland og Tottenham-Liverpool. Spenna í báðum leikjum og þegar ég átti í erfiðleikum með að horfa á landsliðið vegna spennings skipti ég yfir smá stund og smá stund.

Á fimmtudaginn var hitti ég kalda potts vinkonu mína í fyrsta sinn á árinu upp úr klukkan fimm. Þá var ég búin að synda og að koma upp úr þeim kalda í fyrsta sinn af fjórum. Á þriðjudaginn fylgdi ég frænda mínum, Helga Skúlasyni frá Hróarslæk en hann var fæddur á Heiði í febrúar 1945, elsta barn Ingu föðursystur minnar. Hann er sá sjötti af 23 systkynabörnum til að falla frá. Síðustu misseri var hann að glíma við erfið veikindi og var síðasta rúma árið kominn inn á ellihjúkrunarheimili á Akranesi.

Á mánudaginn fór ég í Nauthólsvík upp úr klukkan hálffimm og keypti mér armband sem gildir frá 1.1-14.5. Var að koma upp úr sjónum eftir ca 3 mínútna busl þegar ég mætti nýrri sjósundsvinkonu, snéri við og fór aftur í sjóinn í 7 mínútur. Alveg geggjuð tilfinning að fara svo í heita pottinn á eftir. Komst ekki strax með hendurnar ofan í því mér leið eins og ég væri að brenna á upphandleggjunum. En það var bara í smá stund. Við stöllurnar döguðum næstum uppi í heita pottinum því við höfðum um svo margt að spjalla um frá því við hittumst síðast, næstsíðasta mánudaginn fyrir jól.

Ég er ekki enn byrjuð að lesa jólabækurnar, hamast við að klára bækur af safninu sem þarf að skila fljótlega. Sá lestur gengur ágætlega. Var t.d. að ljúka við; Vonum það besta eftir Carolina Setterwall og mæli ég með þeirri bók. Veit svo ekki hvort ég hafi þolinmæði til að komast inn í og lesa Hans Blær eftir Eirík Örn Norðdahl, er orðin óþreygjufull að byrja á jólabókunum. Kannski ég geti skipt þessum lestri niður, hef áður lesið tvær til fleiri bækur í einu.

3.1.20

Stutt fyrsta vinnuvika nýs árs

Í gær, á fyrsta virka degi nýs árs, fór ég á bílnum í vinnuna með sunddótið tilbúið í skottinu. Vorum allar fimm mættar rétt fyrir átta. Dagleg vinnsla var ekki mikil en nokkur endurnýjun sem færð var yfir áramót og þar að auki áramótauppgjör í gangi. Hættum framleiðslu rétt upp úr klukkan þrjú, sleppti seinna kaffi og var mætt í Laugardalslaugina upp úr klukkan hálffjögur. Synti 500, fór tvisvar í þann kalda, einu sinni þann heitasta og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr um fimm. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni og keypti uþb kíló af roð- og beinlausri ýsu, einn lauk, harðfisk og 500gr smjör.

Í morgun ákvað ég að fara með strætó í vinnuna. Er ekki búin að kaupa mér kort. Ætla ekki að gera það fyrr en um helgina. Kaupa þriggja mánaða kort sem gildir frá og með n.k. mánudegi 6. janúar. Davíð Steinn var fyrstur út í morgun, átti að mæta í Kópavog um sjö. Oddur Smári labbaði af stað í sína vinnu korter yfir sjö og ég tók strætó kl 7:30 og borgaði fyrir 470kr. Vorum fjórar í vinnu frá klukkan átta, þrjár frá klukkan hálftólf og tvær síðasta klukkutímann milli tvö og þrjú. Fékk far heim úr vinnunni.

1.1.20

Nýtt ár!

Fyrsti dagur nýs árs er næstum að kvöldi kominn. Ég fór ekki að sofa fyrr en klukkan var langt gengin í tvö í nótt. Rumskaði fyrst, fyrir klukkan átta, eða frekar snemma miðað við að það er rauður frídagur.Náði að kúra mig aftur niður og næst vissi ég af mér um hálfellefu. Ákvað fljótlega að hafa þetta svona "ekki gera neitt sérstakt" dag. Oddur Smári kom fram um ellefu enda átti hann 12-20 vakt í dag. Davíð Steinn er hins vegar ekki enn kominn fram enda frídagur hjá honum. Þeir voru báðir að vinna í gær, annar til klukkan þrjú og hinn til klukkan sex. Ég aftur á móti fór í sund um níu. Fljótlega eftir að ég kom heim úr sundi ákvað ég að prófa nýja vöfflujárnið. Það virkaði alveg súpervel. Um það leyti sem Oddur kom heim úr sinni vinnu var ég tilbúinn með kvöldmatinn, afganginn af hryggnum sem við pabbi höfðum á aðfangadagskvöld. Kvöldið leið hratt. Horfðum öll saman á Skaupið og vorum bara frekar sátt, við skelltum öll upp úr á einhverjum tímapunkti, skellihlógum stundum og það voru færri atriði sem ekki vöktu amk bros.