31.5.21

Síðasti dagurinn í maí

 Var komin á fætur um klukkan átta í gærmorgun. Notaði tímann til klukkan hálftíu að vafra aðeins um á netinu og leika mér í fartölvunni. Skutlaði N1 syninum í vinnuna og var mætt í Laugardalinn rúmlega tíu. Kalda potts vinkona mín var búin með tvær ferðir í þann kalda en ég náði einni ferð áður en við fórum saman í næstu kalda potts ferð. Þegar hún var búin með sex ferðir og ég fimm synti ég 500 metra áður en ég fór í sjöttu og síðustu ferðina í kalda pottinn. Þar sat ég í fimm og hálfa mínútu áður en ég fór í gufu. Þvoði á mér hárið og fór svo beint heim. Hlustaði fyrst á hádegisfréttir en hellti mér svo upp á kaffi strax á eftir. Um hálftvö skrapp í bókasafnið í Kringlunni. Skilaði fimm bókum af átta og kom með fjórar með mér heim.

Eitt stykki eldhúshandklæði eða borðtuska í stærri kantinum "datt" af prjónunum í gærkvöldi og er ég búin að ganga frá öllum endum. Það var í raun aðeins einn endi til að ganga frá, sá síðasti, hina prjónaði ég inn í stykkið og klippti svo spottana eftir að ég var búin að fella af.

30.5.21

Rólegheit

Fór á fætur um klukkan sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna og sat með hana næsta hálftímann. N1 sonurinn kom á fætur rétt fyrir hálfátta og tíu mínútutum seinna skutlaði ég honum á vinnuvakt upp á N1 stöðina við Gagnveg í Grafarvogi. Ég fór beint heim aftur og greip í bók; Járnblóð eftir Lizu Marklund síðasta sagan um blaðakonuna Anniku Bengtzon. Um níu leytið bjó ég mér til hafragraut og rétt fyrir tíu var ég mætt í Nauthólsvík. Það er búið að fjarlægja allar keilur og ekki er lengur talið inn. Við vorum reyndar ekki mörg mætt og þann klukkutíma sem ég var á staðnum var heildarfjöldinn innan við takmörkunarviðmiðið. Sjórinn var 9,2°C og það var nýbúið að vera háflóð svo það var stutt út í. Ég svamlaði aðeins um og synti svo í rólegheitum út að kaðli. Kom svo aðeins við í lóninu áður en ég fór í pottinn. Var í sjónum í tæpan hálftíma og svo korter í heita pottinum. Þegar ég kom heim aftur hellti ég mér upp á kaffi. Restin af deginum fór m.a. í lestur, prjónaskap og svo horfði ég líka á nokkra þætti í nýjustu seríunni af Glæpahneigð.

29.5.21

Laugardagur

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun og hafði sunddótið meðferðist í skottinu. Þetta var fjórða skiptið á árinu sem ég nota einkabílinn til að fara milli heimilis og vinnu. Ég var í bókhaldsvinnu í gær og hinar tvær sáu um alla framleiðslu. Þar sem það var föstudagur voru allar tegundir á vögnum taldar eftir eftir framleiðslu, ekki bara þær sem voru í framleiðslu í gær. Þegar daglegum verkum lauk snéri ég mér að flokkun kennispjalda en hinar tvær að endurnýjun. Það var ekki mikið sem hægt var að gera í endurnýjun og þær voru innan við klukkutíma eftir hádegi að klára það sem hægt var. Þar sem það var föstudagur ákváðum við að hætta fyrr og klukkan var ekki orðin hálfþrjú þegar við yfirgáfum vinnustaðinn. Ég fór beinustu leið í Laugardalinn. Kom heim um fjögur og byrjaði á því að setja upp slátur, einn kepp af hvorri tegund beint úr frysti.

28.5.21

Soðið slátur

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna og vafraði um á netinu í uþb hálftíma. Lagði labbandi af stað í vinnuna tíu mínútum fyrir sjö og ákvað að fara lengri leiðina, meðfram flugvellinu og yfir Hljómskálagarðinn. Vorum fjórar í vinnunni til hádegis en þá fór ein í sitt helgarfrí því hún er í 70% stöðu og vinnur aðeins til hádegis á fimmudögum. Tvær af okkur hinum lukum við endurnýjun kreditkorta eftir hádegi. Sú sem var í bókhaldinu í gær var að flokka kennispjöld eftir að daglegum bókhaldsverkefnum var lokið. Hættum vinnu klukkan að verða hálffjögur. Ég fékk far heim og stoppaði þar í rúman hálftíma áður en ég dreif mig í sund. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni í sundið. Hitti kalda potts vinkonu mína í sinni þriðju ferð í kalda pottinn. Hún fór auka ferð með mér svo ég fór allt í allt fimm ferðir. Í gærkvöldi lauk ég við að lesa bókina Dimmuborgir eftir Óttar Norðfjörð.

27.5.21

Lítið eftir af maímánuði

Var búin að slökka á vekjaranum og komin á fætur amk tíu mínútum áður en hann átti að hringja í gærmorgun. Fór labbandi í vinnuna um sjö eins og oftast áður. Ég var í pökkunarundirbúningi, talningum og flokkun kennispjalda fram að kaffi en fór svo inn á vél eftir kaffi á ítroðsluendann. Eftir hádegi fór ég á hinn endann á vélinni. Vorum að vinna í kreditendurnýjun til klukkan þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði heima í hátt í klukkustund áður en ég dreif mig í sund. Ætlaði að synda smá en þegar ég kom á staðinn varð ekkert úr sundinu en ég fór í sex ferðir í kalda pottinn og fyrstu þrjár ferðirnar var ég 4-5 mínútur. Þá var kalda potts vinkona mín mætt á staðinn og passaði upp á tímann og við vorum 3 mínútur í kalda pottinum. Kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Davíð Steinn var búinn að elda um það leyti sem ég skilaði mér heim. Horfði m.a. á fréttir og stjörnuhreysti. Skrapp aðeins aftur í tölvuna þannig að klukkan var orðin hálfellefu þegar ég fór í háttinn. Las í rúman hálftíma eða til klukkan að ganga tólf. 

26.5.21

Vikan hálfnuð

Rumskaði um miðja nótt aðfaranótt gærdagsins. Skrapp á salernið og sofnaði svo fljótlega aftur og svaf þar til vekjaraklukkan á símanum fór að hamast. Dreif mig á fætur um leið og ég áttaði mig á að það væri kominn fótaferðatími fyrir vinnandi fólk. Labbaði af stað í vinnu um sjö og var fyrst á svæðið þar sem fyriliði hópsins er í sumarfríi þessa vikuna. Það leið samt ekkert langur tími þar til sú næsta mætti á svæðið sem var eins gott því fyrsti sendill dagsins mætti klukkan 7:37 að sækja fyrstu bankatöskuna af þremur og við þurfum að vera tvær til að opna inn á lager þar sem töskurnar eru geymdar yfir nóttina. Vorum annars bara þrjár í vinnu í gær, hinar tvær voru í fríi. Ég var í bókhaldinu og flokkaði svo kennispjöld í gríð og erg þegar daglegum verkefnum var lokið. Hættum vinnu rétt upp úr þrjú og ég fékk far heim. Stoppaði heima í uþb klukkustund áður en ég fór í sund. Var í minni fyrstu ferð í kalda pottinn þegar vinkona mín mætti í sína þriðju ferð. Eftir hennar sjöttu ferð í þann kalda fórum við í sjópottinn. Ég nennti ekki að synda og var komin heim aftur um sex. 

25.5.21

Ný vinnuvika

Ég fór á fætur klukkan rétt rúmlega átta í gærmorgun. Tveimur tímum síðar var ég búin að skutla N1 syninum á vakt upp í Grafarvog og komin í Laugardalinn. Fór fyrst í kalda pottinn í fimm mínútur. Synti svo 400 metra áður en ég fór aftur í þann kalda í fjórar mínútur. Sat á bekk í nokkra stund áður en ég fór í næsta pott, 42°C en sá heitasti var lokaður. Eftir þriðju ferðina í kalda pottinn fór ég í gufubað. Kom heim um hálftólf og byrjaði á því að hella mér upp á smá kaffi. Rúmlega klukkustund síðar klæddi ég mig upp í kjól af mömmu sem hún var í í fermingaveislu Bríetar vorið 2018. Rétt fyrir klukkan eitt var ég mætt í Síðumúla í fermingaveilsu frænda míns. Upphaflega átti hann að fermast í apríl í fyrra en fermingin var í september og það var búið að fresta veislunni fjórum eða fimm sinnum. Föðurafi fermingabarnsins var næstelsti bróðir hennar mömmu. Pabbinn kennir sig reyndar við uppeldisföður sinn en hann er í góðu sambandi við stóran part föðurfjölskuldu sinnar. Stoppaði í veislunni í um tvo tíma og tók örstuttan bíltúr í Nauthólsvík á leiðinni heim. Restin af deginum fór í netvafr, leiki, lestur og sjónvarpsgláp. Ekkert var prjónað eða saumað.

24.5.21

Annar í Hvítasunnu

Ég var fyrst á fætur rúmlega átta í gærmorgun. En systir mín, mágur og hundarnir komu mjög fljótlega fram. Ég bjó til sterkt kaffi og systir mín hrærði í ketókaffi mínus olía og bauð mér með þeim. Annars gerði ég mest lítið nema lesa, prjóna, spjalla og vafra aðeins um á netinu. Þau hjónin skruppu aðeins yfir í Hvolsvöll upp úr hádegi og um miðjan dag skrapp unga parið í gönguferð um plássið. Um kaffi leytið voru Helga og Ingvi komin aftur og sögðust hafa boðið fólki í kaffi. Pabbi fór í pönnsugerð og Helga gerði ketóvöfflur. Kaffitíminn var búinn um fimm og allir vel saddir þannig að kvöldmaturinn var hafðu eftir kvöldfréttir. Helga systir sá um hann nema ég setti af stað blómkál og lauk í gufusuðupottinn. Eftir kvöldmat horfðum við á Landann en svo tók ég mig saman, kvaddi og brunaði í bæinn. 

23.5.21

Ja ja ding dong

Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Fljótlega ákvað ég að stefna að sjóferð því mér sýndist sem allur kjarninn úr hópnum mínum ætlaði að mæta. Við hittumst í röðinni stuttu fyrir tíu. Nú er komin sumaropnun, opið alla daga milli tíu og nítján og ókeypis inn. Allir í röðinni komust inn þegar opnað var og nokkrir til sem komu rétt upp úr tíu en um hálfellefu var komin biðröð og engin í þeirri biðröð komst inn fyrr en einhver kom út fullklæddur. Sjórinn var næstum níu gráður og það er alveg spurning hvort ég geti ekki farið að leggja sjósundsskónum og notað/klárað strandskóna sem ég keypti á Spáni 2016. Ásamt okkur fimm, kjarnanum mættu fjórar stúlkur úr 10. bekk Réttarholtsskóla með kennaranum sínum. Þær ætla að gera lokaritgerð um sjósund og ákváðu að skella sér í sjóinn með okkur. Kennarinn er vinkona sjósundsvinkonu minnar. Hún fór ekki út í en var að taka upp. Ein af stúlkunum fjórum var svo með myndavél í vatnsheldum umbúðum í teygju um höfuðið á sér. Eftir ferð í sjóinn, lónið og heita pottinn varð sjósundsvinkona mín samferða þeim upp úr því þær ætluðu að spyrja hana um kosti þess að stunda sjósund.

Eftir ferðina í Nauthólsvík skrapp ég vestur á Granda og keypti ferð fyrir bílinn í gegnum þvottastöð. Þegar ég kom heim gekk ég frá sjósundsdótinu og pakkaði niður, kvaddi synina og lagði af stað austur. Kom við í Fossheiðinni og þáði kaffi, spjall og meðlæti. Kom á Hellu um hálfþrjú og frétti þá að von væri á Helgu systur. Þau komu sex, tveir ferfætlingar, maðurinn hennar, yngri dóttir og kærastinn hennar. Kaffið var drukkið rétt fyrir fjögur og ákveðið að hafa steinbít í matinn um kvöldið. Tók út þrjú væn flök úr kistunni eftir að búið var að ganga frá eftir kaffið.

Upp úr klukkan sex setti ég upp blómkál og lauk í pott og gufusauð. Hrærði saman tveimur eggjum krydduðum með best á allt og bætti við 3 matskeiðum af möndlumjöli. Varð að búa til aðra svona blöndu til að velta fiskbitunum upp úr áður en ég setti á pönnuna. Eftir að allur fiskur var kominn á pönnuna bætti ég smá rjómaslettu út í. Þetta þótti mjög gott. Bríet sá um uppvaskið á eftir og svo horfðu allir saman á söngvakeppnina. 

22.5.21

Sjóbað bráðum

Það hvarflaði að mér að labba sömu leið í vinnuna í gærmorgun og á fimmtudagsmorguninn. Ákvað svo að labba þá leið aftur í næstu viku einu sinni til tvisvar. Í staðinn fór ég yfir gönguljósin á Miklubraut við Klambratún, undir brúna við Snorrabraut, Eiríksgötu og Skólavörðustíg, Klapparstíg, Hverfisgötu og Ingólfsstræti. Semsagt smá krókur því það er hægt að fara næstum beint af Skólavörðustíg yfir á Ingólfsstræti. Ég var á framleiðsluvélinni bæði fyrir og eftir morgunkaffi. Fyrst að hlaða inn verkefnum og senda skrárnar/kortin af stað og svo að taka á móti og skoða. Eftir hádegi taldi ég hádegisframleiðslu dagsins sem og debetskápinn með þeirri sem var í bókhaldinu og var svo að flokka kennispjöld. Fór með 15 flokkaða kassa inn í kennispjaldageymslu og kom með 15 óflokkaða kassa með mér til baka. Það er búið að flokka eitthvað yfir 100 kassa en við erum enn með árið 1995. Reyndar var hluti af þeim kössum sem ég sótti í gær síðan 1996.

Fékk far heim úr vinnunni, sendi kalda potts vinkonu minni skilaboð um hvenær ég ætlaði í sund og hitti hana þar um hálffimm þegar ég var búin í minni fyrstu ferð í kalda pottinn. Fór svo sex ferðir með henni. Synti 200 áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Síðan sótti ég syni mína og bauð þeim út að borða á Pítuna. 

21.5.21

Löng helgi

Í gærmorgun labbaði ég af stað í vinnuna þegar klukkuna vantaði aðeins tíu mínútur í sjö. Ákvað því að labba út Eskihlíðina, undir brýrnar við Miklubraut og Bústaðaveg, meðfram flugvellinum, yfir brúna rétt hjá Háskóla Íslands, þvert yfir Hljómskálagarðinn og Lækjargötu að Kalkofnsvegi. Þetta var hálfum kílómetri lengri leið heldur en leiðin sem ég labba venjulega og var ég tíu mínútum lengur að labba þetta. Ég var í bókhaldinu í gær og kom ekkert nálægt framleiðslu. Þegar bókhaldsverkefnum var lokið flokkaði ég kennispjöld. Fékk far heim úr vinnunni með fyrirliðanum sem var líka að skutla annarri heim.

Var mætt í sund um hálffimm. Synti reyndar ekkert en fór 6 ferðir í kalda pottinn með vinkonu minni sem fór einni ferð oftar í hann því hún var mætt og byrjuð á undan mér. Endaði á góðu gufubaði áður en ég fór upp út og heim. Var með pastarétt í kvöldmat handa okkur Oddi. Hann gekk frá og vaskaði upp eftir matinn. Hafði kveikt á RÚV þegar söngvakeppnin var en var líka að vafra á netinu, lesa og prjóna. Reyndar skipti ég yfir á DR1 þegar komu auglýsingar á RÚV og sá þá skemmtiatriði í beinni.

20.5.21

Styttist í langa helgi

Ég var mætt fyrst í vinnuna í gærmorgun. Það kom líklega aðallega til af því að fyrirliðinn, sem býr í Mosfellsbæ, pikkaði upp samstarfskonu okkar sem býr í Árbænum. Það er lokað í Hörpu og það er ekki vel séð að þeir fáu RB-ingar sem hafa starfsstöð í Seðlabankanum séu að dekka öll stæðin á neðra planinu. Annars var vinnudagurinn styttri í annan endann því það átti að slökkva á loftræstikerfinu og lagfæra það eitthvað eftir klukkan tvö. Ég var fyrst út af vinnustað um tvö en snarstoppaði rétt fyrir utan dyrnar því það hellirigndi, beint niður og ég sá fyrir mér að ég þyrfti að "synda" heima. Fimm mínútum síðar stóð ég enn á sama stað þegar ein af hinum þremur kom út. Hún býr í Garðabæ en var á leiðinni vestur á Granda. Engu að síður sá hún aumur á mér og bauðst til að skutla mér heim. Ég var fljót að þyggja það boð. Fór hvorki í sund né sjóinn í gær, var bara heima að prjóna, lesa, horfa á boltann og dútlast eitthvað. 

19.5.21

Vikan hálfnuð

Labbaði af stað í vinnuna rétt fyrir sjö í gærmorgun og var mætt þangað rúmlega hálftíma síðar. Ég var í móttökunni á vélinni og tók þar af leiðandi til framleiðslu dagsins í tveimur fyrstu verkefnunum. Eftir morgunkaffi var ég frammi í pökkun og fór í talningu með þeirri sem var í bókhaldinu. Einnig vannst tími til að sortera nokkur kennispjöld. Fékk far heim úr vinnunni og var svo mætt í Laugardalslaugina um hálffimm þar sem ég hitti kalda potts vinkonu mína. Við fórum 7 ferðir í kalda pottinn, oftast í þann heitasta inn á milli en fórum líka eina langa ferð í sjópottinn. Davíð Steinn var búinn að elda þegar ég kom heim um hálfsjö. Af bólusetningastungunni er það að frétta að ég finn fyrir svæðinu ef ég kem við það og ég rumskaði stundum í nótt ef ég var  að leggjast á vinstri hliðina. Annars er ég bara góð, eiginlega langbest! 

18.5.21

Eymsli á stungustað

Hrökk upp við vekjaraklukkuna klukkan 6:25 í gærmorgun. Um leið og ég áttaði mig á hvað var í gangi slökkti ég á vekjaranum og dreif mig á fætur. Gaf mér tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna stuttu fyrir sjö. Tvær samstarfskonur mínar voru í fríi svo við vorum bara þrjár sem þýddi að við tvær sem tókum að okkur framleiðsluna vorum að sama vélarendanum þar til framleiðslu var lokið. Ég var að hlaða inn og setja kortaskrárnar af stað. Reyndar var vélarskömmin frekar ósamvinnuþýð og það var ekki fyrr en ég var búin að endurræsa hana þrisvar sinnum sem hún kom alveg upp og fékkst til að gera eitthvað.

Um tólf, þegar ég var í hádegispásu, fékk ég sms frá heilsuveru um að það væru til aukaskammtar af moderna-bóluefninu og ég væri velkomin í Laugardalshöll rétt fyrir tvö. Það stóð líka að ekki væri tryggt að allir sem svöruðu kallinu fengju bólusetningu og betra væri að vera mættur fyrir hálfþrjú. Af þessu tilefni ákvað fyrirliðinn, önnur hinna, að við skyldum allar hætta snemma og önnur þeirra myndi skutla mér á svæðið. Við hættum semsagt vinnu og fórum áður en klukkan varð hálftvö. Það var mikil umferð en sú sem skutlaði mér hleypti mér út við höllina ca tuttugu mínútum fyrir tvö. Það var smá röð fyrir utan en fljótlega komst hreyfing á hana, qr-kóðinn var skannaður og straumurinn lá upp á næstu hæð þar sem við fengum sæti. Það voru tuttugu sæti í hverri röð en ég veit ekki hversu margar raðirnar voru. Var stungin á slaginu 13:50 og það sveið undan stungunni. 12 mínútum síðar mátti ég fara. Labbaði heim og komst að því að vegalengdin var svipuð og sú sem ég labbaði í vinnuna um morguninn.

Vafraði aðeins um á netinu áður en ég ákvað að skreppa á bókasafnið og í fiskbúðina. Skilaði fimm bókum af sex, þar af einni sem ég var ekki að tengja við og ákvað að sleppa að lesa. Kom með sjö bækur til baka og ein af þeim er með 14 daga skilafresti. Í fiskbúðinni keypti ég ýsu í soðið og harðfisk. Ákvað að sleppa sjó- og sundferðum.

Fann aðeins fyrir öxlinni í nótt og gat ekki legið lengi á henni í einu. Nú er eins og ég hafi rekið öxlina í eða með harðsperrur í henni. Að öðru leyti er ég bara hress. Seinni sprautuna mun ég svo fá eftir 28-35 daga eða í kringum 17. júní.

17.5.21

Ellefuþúsund skref

Skutlaði N1-syninum á vinnuvakt upp í Grafarvog rétt fyrir klukkan tíu í gærmorgun og þaðan fór ég beint í sund. Hitti á kalda potts vinkonu mína og systur hennar. Systirin hitti okkur í flestum öðrum pottum öðrum en kalda pottinum. Endaði á að synda 400 metra og sleppti gufuferð. Skrapp í Krónuna við Granda áður en ég fór heim aftur. Fékk stæði fyrir utan rétt upp úr klukkan eitt en þar sem ég var með tvo poka, sundpoka og handtösku reyndi ég að hringja í Odd til að fá hann til að koma á móti mér. Hann vaknaði ekki við símann en hringdi til baka nokkru eftir að ég var komin inn og búin að ganga frá vörunum. 

16.5.21

Sunnudagsmorgun í borginni

Eins og kom fram í titli færslu gærdagsins var ég óviss um hvað ég ætti að gera við daginn fyrst eftir að ég fór á fætur. Vafraði aðeins um á netinu, setti inn bloggfærslu og þá var klukkan byrjuð að ganga tíu. Það varð úr að ég tók saman sunddótið mitt og dreif mig í Laugardalinn. Þar var ég milli klukkan tíu og tólf að pottormast, synda og slaka á. Aldrei þessu vant fór ég ekki í gufu áður en ég fór upp úr. Þvoði á mér hárið og fór svo beint heim að henda handklæðum í þvottavél og hella mér upp á kaffi.

Fór ekkert meira út í gær, var bara að dunda mér við alls konar hérna heima við. Þegar Oddur Smári kom á fætur fékk ég hann í lið með mér að drífa heimilisþrifin af. Annars var ég að lesa, prjóna eða horfa á eitthvað í imbanum.

Gerði tilraun til að ná símasambandi við norsku esperanto vinkonu mína um miðjan dag. Hún hringdi til baka um sex, þá nýkomin frá á Þingvöllum. Við spjölluðum saman í hátt í klukkutíma.

15.5.21

Óráðin

Í þriðja skiptið á árinu fór ég á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Hafði með mér sunddótið og geymdi í skottinu. Við vorum þrjár í vinnu, hinar tvær í fríi. Ég vann á móttökuendandum á vélinni og taldi og tók til kortategundirnar sem voru í daglegri framleiðslu. Framleiðslu var lokið fyrir klukkan tólf. Önnur hinna tók þá út styttingu vinnuvikunnar, kvaddi og fór. Við tvær sem eftir vorum fórum í góða matarpásu. Eftir hádegið lukum við talningu og frágangi og sorteruðum svo kennispjöld. Vinnusíminn hringdi um hálftvö. Það var einn vinnufélagi að láta vita að búið væri að stofna nýjan hraðbankalykil og það þyrfti að útbúa A-lykil með hraði. Ég tékkaði í kerfunum og prentaði út vinnuskjal sem hin sá svo um að vinna eftir, þ.e. útbúa lykilinn.

Hættum vinnu um þrjú og fór ég beinustu leið í Laugardalinn. Gaf mér góðan tíma í sundi. Fór að sjálfsögðu nokkrar ferðir í kalda pottinn, synti 400 metra, lá nokkra stund í sjópottinum og endaði á góðri gufu. Klukkan var um sex þegar ég fór upp úr og dreif mig heim. 

14.5.21

Föstudagur

Klukkan var næstum orðin níu þegar ég vaknaði í gærmorgun. Dreif mig á fætur all óráðin að hverju ég ætti að stefna. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég inn í stofu með fartölvuna og fór að leika mér og vafra um á netinu. Fljótlega hafði sjósundsvinkonan samband. Það varð úr að við hittumst þrjár úr kjarnahópnum í röðinni við aðstöðuna í Nauthólsvík stuttu fyrir ellefu. Sjórinn var 8,2°C og við vorum út í í um það bil tuttugu mínútur og hefðum vel getað verið lengur. Vorum svo annað eins eða lengur í heita pottinum áður en við fórum upp úr. Það var frekar fámennt svo það myndaðist ekki röð, komust allir að, amk á meðan við vorum þarna.

Heima hellti ég mér upp á kaffi og hélt svo áfram að prjóna eldhúshandklæðið. Byrjaði einnig á bók af safninu; Eplamaðurinn eftir Anne Mette Hancock. Horfði á Man Utd - Liverpool og fylgdist með gangi mála í Pepsídeild karla á mbl.is Valsmenn voru að spila á útivelli. Er alveg harðákveðin í að fjárfesta ekki í fótbolta/eða árskorti á völlinn þetta árið og heldur ekki kaupa mig inn á stöku heimaleiki. Hluti af þeirri ákvörðun er byggð á því að mér líkaði ekki að Valsaranir brytu sóttvarnarreglur til að halda upp á Íslandsmeistaratitilinni í fyrrahaust. En ég mun eflaust fylgjast með gangi mála í leikjum sumarsins á netmiðlum.

13.5.21

Rauður dagur

Þegar ég var alveg að koma að vinnunni minni um hálfátta í gærmorgun hjólaði ein samstarfskona mín og maður hennar framhjá veifandi. Hann semsagt "skutlaði" konunni í vinnuna eða þannig. Ákvað alla vega að fá sér hjólatúr og fylgja henni í vinnuna. Hann staldraði aðeins við á horninu við neðra planið og spjallaði áður en við samstarfkonurnar urðum samferða inn í vinnu. Ég var í bókhaldi í gær. Það er ekki komin endurnýjun enn svo við vorum allar fimm að flokka kennispjöld eftir að daglegri framleiðslu og talningu lauk. Það fór líka svo að það var flokkað úr næstum öllum 15 kössunum sem sóttir voru í fyrradag. Við fórum tvær inn í geymslu með 13 kassa og sóttum 15 í viðbót um tvö en svo var ákveðið að hætta fyrr, hafa hálfgildings föstudag.

Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim fyrir þrjú. Var komin í sund um hálffimm og var búin að synda 400 metra og í minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kaldapottsvinkonan mætti á svæðið fór fjórar ferðir í þann kalda með henni og endaði svo í góðu gufubaði áður en ég fór aftur heim.

Hjartaungbarnateppið "datt" af prjónunum í gærkvöldi. Gekk frá endum og lagaði teppið á einum stað. Fitjaði svo upp á eldhúshandklæðastykki en mun líklega fitja fljótlega upp á öðru ungbarnateppi. Á nóg af garni í bæði verkefnin, í þónokkrar smátuskur/handklæði og líklega tvö ungbarnateppi. 

12.5.21

Frídagur framundan

Ég var komin á fætur á svipuðum tíma í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Labbaði af stað í vinnuna um sjö eftir að hafa vafrað um á netinu í næstum hálftíma. Fram að kaffi var ég á framleiðsluvélinni að hlaða inn skrám og setja kortin af stað. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld og einnig eftir hádegi. Við fórum tvær með 16 flokkaða kassa inn í geymslu og komum með 15 óflokkaða til baka. Áður en við hættum vinnu vorum við búnar að flokka úr næstum sjö af þessum fimmtán kössum. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim rétt upp úr þrjú. Oddur Smári var á leiðinni út í Sorpuferð. Rétt síðar hringdi vinkona mín sem er með sölubás á Lækjargötu og spurði hvort ég væri í vinnunni. Ég sagðist vera nýkomin heim og Oddur á bílnum. Hjólinu hennar var stolið, klippt á lásinn eiginlega fyrir framan nefið á henni og farangurinn var of mikill fyrir eina manneskju að bera heim þótt í sjálfu sér sé ekki svo langt þangað sem hún býr en það er allt upp í móti. Ég sagðist geta komið um fjögur og skutlaði henni heim með dótið. Það stóðst og var ég svo heppin að hún var búin að ganga frá dótinum og stóð rétt við rútustæði við Lækjargötu. Ég lagði í stæðið rétt á meðan hún var að setja vörurnar í skottið og koma sér inn í bílinn.

Eftir þennan björgunarleiðangur kom ég við í fiskbúð Fúsa og keypti ýsu, lax og harðfisk. Síðan dreif ég mig í sund. Sleppti því reyndar að synda en fór nokkrar ferðir í þann kalda og yfirleitt 4 mínútur í hvert sinn. Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég var að fara heim. Skrapp aðeins í Krambúðina eftir að ég var búin að leggja í stæði fyrir framan hér heima. Var með ýsu í soðið með kartöflum og hrasallati og fékk ég mér smá smjör út á réttinn.

Horfði á seinni riðil Skólahreysti dagsins og sá íslandsmet sett í hreystigreip, og það ekkert smá met. Búið að standa í 12 mínútur og 40 sekúndur í fimm ár og það var bætt um rúmar tvær mínútur. 

11.5.21

Sólskin og þurrkur

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Notaði tímann áður en ég þurfti að labba af stað í vinnuna til að vafra um á netinu og setja inn færslu í bloggheima. Var komin í vinnuna um hálfátta, mætti númer tvö af okkur öllum fimm. Fyrirliðinn var mætt á undan og við náðum í bankatösku og tókum þrjá framleiðsluvagna af fjórum út úr lagergeymslunni í leiðinni. Fórum svo fram, fylltum á vatnsflöskurnar, fengum okkur morgunmat og kaffi og sátum á kaffistofunni með samstarfsfélögunum til klukkan að byrja að ganga níu. Ég var í móttökunni á framleiðsluvélinni fram að kaffipásu. Eftir kaffi sorteraði ég kennispjöld úr tveimur kössum til hádegis og svo annað eins eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni.

Rétt um fimm var ég komin í Nauthólsvík. Þurfti að bíða í röðinni eftir að komast inn í búningsaðstöðuna. Var númer fjögur í röðinni og svo  var alltaf að bætast við í röðina fyrir aftan mig. Þurfta að bíða í um tuttugu mínútur. Synti svo út að kaðli þegar ég komst loksins í sjóinn. Svamlaði einnig smá stund í lóninu áður en ég fór í pottinn. Það var enn röð þegar ég fór upp úr rúmlega sex. Aðstaðan er opin til klukkan sjö. 

10.5.21

Morgunstund

Var komin á fætur um átta í gærmorgun. Fór ekki í sund fyrr en klukkan var langt gengin í tíu því þá var meiri möguleiki á að hitta á kalda potts vinkonuna. Hitti samt ekki á hana þessa eina og hálfa klukkustund sem ég var að pottormast og synda smá. Hins vegar hitti ég aðeins á sjósundsvinkonu mína rétt áður en ég fór upp úr.

Skrapp vestur á Granda eftir sundið og keypti þvott fyrir bílinn. Allur fuglaskítur náðist af. Kom heim rétt fyrir tólf og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Synir mínir komu fram úr sínum herbergjum um eitt. Veiðisonurinn var ekki viss hvort hann væri að skreppa í annan veiðitúr, hafði komið seint heim kvöldinu áður. Einkabílstjórinn kom hins vegar með mér austur á Hellu og fékk að keyra.

Vorum komin til pabba um hálfþrjú. Ég var með prjónana með. Pabbi bauð upp á vöfflur með kaffinu og sagði svo að það væri til bleikja ef við vildum vera líka í kvöldmat. Ég tók út þrjú flök sem ég matreiddi svo upp úr klukkan sex. Með þessu var boðið upp á hrásallat og kalda rófustöppu og þar sem ég var með einkabílstjóra fékk ég mér hvítvínsglas með matnum. Horfði á fréttir og Landann áður en haldið var aftur heim á leið. 

9.5.21

Sunnudagsmorgunn

Kom mér á fætur áður en klukkan varð átta í gærmorgun. Fyrsta klukkkutímann var ég að vafra um á netinu. Svo hellti ég mér upp á kaffi og borðaði afgang af hafragraut, kaldan. Las þar til klukkan var að verða hálfellefu. Þá tók ég sjósundsdótið til og dreif mig af stað í röðina í Nauthólsvík. Hitti hinar fimm úr kjarnanum úr sjósundshópnum mínum og komumst við allar inn í fyrsta hollinu. Syntum út að kaðli og komum aðeins við í lóninu á leiðinni í pottinn. Flatmöguðum í pottinum á næstum hálftíma. Svo lá leiðin heim til sjósundsvinkonu minnar sem bauð okkur öllum í hádegissnarl. Þar vorum við í góðu yfirlæti í rétt rúma tvo tíma.

Ætlaði að skreppa með bílinn á þvottastöðina við Granda en þá var búið að loka þar vegna viðhalds. Fór í Krónuna í staðinn. Reyndar var alltaf ætlunin að skreppa að versla. Þegar heim kom varð ég að leggja í Blönduhlíð þar sem það voru smá framkvæmdir hjá Veitum fyrir utan hjá mér og ekki hægt að leggja. Hringdi í Odd og hann kom og sótti vörurnar og gekk frá þeim er við komum inn.

Lauk við að lesa skammtímalánsbókina. Las líka alla ljóðabókina Spegilsjónir eftir Guðrúnu Hannesdóttur. Byrjaði á skáldsögunni Hilduleikur eftir Hlín Agnarsdóttur. Þá bók fann ég í almennri hillu en það var líka eintak af henni í skammtímalánshillunni. 

8.5.21

Sjósundsdagur

Vaknaði á undan vekjaranum í gærmorgun. Hafði því fleiri mínútur til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Ég var á framleiðsluvélinni, móttökuendanum og einnig að telja og taka til þær tegundir sem voru í framleiðslu. Daglegri framleiðslu lauk rétt upp úr klukkan hálftólf og þar sem ekki er alveg komið að endurnýjun ennþá var ég að flokka kennispjöld eftir hádegi alveg til klukkan þrjú. Gaman líka að segja frá því að það er loksins verið að rífa niður gömlu framleiðsluvélina sem var hætt að framleiða á nokkrum vikum fyrir síðustu áramót.

Davíð Steinn er á leið í veiðiferð með félaga sínum. Þeir ætluðu að leggja af stað seinni partinn í gær en frestuðu för þar til í dag. Ætla að vera eina nótt í burtu.

Fékk far heim úr vinnunni og fór ekkert aftur út. Ein af bókunum úr síðust safnferð er með 14 daga skilafresti og ég er byrjuð að lesa hana; Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Bjó til eggjaköku úr fiskafgangi í kvöldmatinn og notaði sex egg, rjómaslettu og rifinn ost í blöndua. 

7.5.21

Föstudagur

Vekjaraklukkan ýtti við mér rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu og eina matskeið af lýsi kveikti ég á fartölvunni og vafraði um á netinu í um það bil tuttugu mínútur. Þá var akkúrat passlegt að ganga af stað í vinnuna. Ég var á framleiðsluvélinni, endanum þar sem maður hleður inn verkefnum dagsins og setur kortin af stað. Frá hálftvö til rúmlega þrjú var ég að sortera kennispjöld. Við fórum tvær með nokkra sorteraða kassa merkta bönkum aftur inn í kennispjaldageymslu og sóttum 15 kassa í staðinn.

Fékk far heim úr vinnunni. Sá þá að ég hafði fengið fyrirspurn frá kaldapotts vinkonu minni um hvort ég kæmi í sund. Þegar ég mætti í kalda pottinn upp úr hálffimm kom hún skömmu síðar í sína þriðju ferð. Hún fór fimm ferðir í kalda pottinn með mér. Hittum einnig á systur hennar í heitasta og 42°C pottinum en hún fer aldrei í kalda pottinn. Nennti ekki að synda en sat góða stund í gufunni eftir síðustu kalda potts ferðina. 

6.5.21

Þriðji vinnudagurinn í vikunni af fjórum

Rumskaði fyrir sjö en tókst að sofna aftur og svaf þá til hálfníu. Um tíu bjó ég mér til hafragraut og svo var ég mætt með sjósundsdótið í Nauthólsvík um það leyti sem aðstaðan opnaði um ellefu. Hitti sjósundsvinkonu mína og aðra systurina úr kjarnahópnum. Fljótlega eftir að við vorum komnar út í sjó var aðstaðan orðin full í bili og forsetinn þurfti frá að hverfa þegar hann mætti á svæðið um hálftólf.

Eftir sjósundið skrapp ég á Atlantsolíustöðina við Sprengisand og fyllti á tankinn og áður en ég fór heim kom ég við á Borgarbókasafninu í Kringlunni, skilaði inn fjórum bókum og tók sjö bækur í staðinn. Tvær af þeim eru ljóðabækur og kláraði ég aðra þeirra í gær; Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. 

5.5.21

Á leið í sjóinn

Í gær sinnti ég bókhaldinu í vinnunni. Þess á milli og alveg til þrjú flokkaði ég líklega á fjórða þúsund kennispjöld frá því um mitt ár 1994. Hinar tvær sinntu framleiðslu og töldu með mér en þegar daglegum verkum var lokið fóru þær í reikningagerðina, önnur til að læra og hina að leiðbeina. Önnur af þeim þurfti reyndar að skreppa frá á ellefta tímanum í gær til að fá sína seinni sprautu. Það tók aðeins lengri tíma en áætlað var því röðin var löng. Fyrirliðinn okkar þurfti því að fá lánaðan einn af "strákunum" frammi, sem reyndar hefur hoppað inn áður, til að aðstoða við hádegisframleiðsluna. Allt gekk það vel fyrir sig.

Fékk far heim úr vinnunni og stoppaði heima við í hátt í klukkustund áður en ég dreif mig í sund. Nennti ekki að synda þegar til kom, alltof mikil umferð á brautunum. En ég kældi mig vel og hitaði inn á milli og endaði í góðu gufubaði. Skrapp aðeins í Krambúðina eftir að ég var búin að leggja í hornstæðið fyrir utan heima. Áttum til afganga svo ég þurfti ekki að hugsa um að matbúa eitthvað. Annar sonurinn fór reyndar að hitta vin til að borða með honum og skipuleggja veiðiferðir sumarsins. 

4.5.21

Gott gönguveður

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun, slökkti á henni og dreif mig á fætur. Hafði tíma til að vafra aðeins um á netinu á fartölvunni. Labbaði af stað í vinnu um sjö. Gátum ekki byrjað að framleiða strax því skrárnar höfðu ekki skilað sér yfir og við þurftum að fá aðstoð við að koma þeim yfir. Klukkan var byrjuð að ganga tíu þegar framleiðslan komst af stað. Ég var í móttökunni. Skammturinn sem á að vera tilbúinn klukkan tíu var tilbúinn á slaginu þá. Hins vegar var securitas maðurinn búin að koma við hálftíma fyrr til að athuga með töskuna. Oftast gengur það upp en hann veit þó að við höfum tímann til klukkan tíu til að skila af okkur. Urðum að geyma hluta af debet framleiðslunni þar til eftir hádegi en daglegri framleiðslu og frágangi var lokið um hálftvö. Þá fóru hinar tvær í mánaðamóta-reikningagerða-vinnu, önnur til að læra af hinni. Ég flokkaði kennispjöld.

Fékk far heim úr vinnunni upp úr hálffjögur. Rúmum klukkutíma seinna tók ég sjósundsdótið til. Kom við í fiskbúð Fúsa og fór beint þaðan í Nauthólsvík. Ég var komin ofan í sjóinn um fimm. Sjósundshópurinn minn kom, næstum allur, rúmlega tíu mínútum síðar. Ég var enn að busla þá en fór þó í pottinn aðeins á undan þeim.

Var búin að hátta mig upp í rúm rétt fyrir hálftíu í gærkvöldi. Braut heilann yfir sudoku í korter og las svo í hálftíma áður en ég fór að sofa.

3.5.21

Ný vinnuvika

Ég var komin á fætur fyrir klukkan átta í gærmorgun. Rétt upp úr hálftíu bankaði ég á herbergisdyrnar hjá N1 syninum og spurði hvort hann ætti ekki að mæta í vinnu fljótlega. Hann hafði þá víst slökkt á vekjaranum án þess að fatta það svo það var eins gott að ég ýtti við honum. Skutlaði honum á vinnustaðinn og var hann mættur fimm mínútum fyrir tíu. Fór beint í sund eftir skutlið. Nokkrar ferðir í kalda pottinn, synti 300 metra, endaði á góðri gufuferð og þvoði á mér hárið áður en ég fór heim aftur. Restin af deginum fór alls konar dútl. 

2.5.21

Sunnudagur

Fór á fætur um sjö í gærmorgun. Var komin fram á undan N1 syninum. Bauðst til að skutla honum í vinnuna en hann var með far svo ég gat sest niður með prjónana mína þar sem ég var búin að slökkva á fartölvunni. Rétt upp úr hálfellefu var ég komin í röðina við aðstöðuna í Nauthólsvík. Ég var númer tíu í röðinni og því örugg inn. Þrjár úr sjósundskjarnavinahópnum mínum komu í röðina tíu mínútum á eftir mér og þá var röðin orðin miklu lengri. Þær sluppu nú samt inn með fyrsta hollinu. Það var háflóð, sjórinn 6,3°C og dásamlegt að svamla um í korter. Vorum reyndar ekki allar jafn lengi en hittumst svo aftur í heita pottinum. Þær sem voru á undan upp úr sjónum fóru fyrr upp úr, höfðu ekki geð í sér að vera of lengi því það var fólk að bíða í röð eftir að komast að. Ég kom heim um tólf. Setti handklæði í þvottavél og settist svo niður með prjónana mína á meðan ég hlustaði á hádegisfréttirnar. Klukkan var byrjuð að ganga tvö áður en ég hellti mér upp á fyrsta kaffibolla dagsins. 

1.5.21

Fyrsti maí

Eins og oftast áður var ég vöknuð, búin að slökkva á vekjaraklukkunni og komin á fætur áður en innstilltur tími var runninn upp. Hafði tíma til að vafra aðeins um á netinu. Hitti aðeins á N1 soninn en hann fór út ca korteri á undan mér. Labbaði af stað í vinnuna um sjö. Hlutverk mitt á vinnustað var að sinna bókhaldinu og þar sem það var föstudagur og þar að auki mánaðamót voru ýtarlegri talningar. Undirbjó lagertölur og eftir daglega framleiðslu voru allar kortategundir á vögnum taldar hvort sem þær voru í framleiðslu eða ekki. Hættum vinnu í fyrra fallinu en þá átti aðeins eftir að telja rekstrarvörur, form og umslög á lager. Það mun gefast tími til þess eftir helgi.

Fékk far heim úr vinnunni og var komin um þrjú. Hélt mig heima við þar sem eftir lifði dags og kvölds. Er búin að lesa þriðju skammtímaláns bókina af safninu Illverk eftir Ingibjörgu Katrínu Kristjánsdóttur. Hennar fyrsta skáldsaga. Þá er aðeins eftir ein ólesin bók af safninu Hótel Aníta Ekberg eftir Helgu Sv. Helgadóttur. Líklega verð ég búin að lesa hana löngu áður en skilafresturinn á skammtímaláns bókunum rennur út 10. maí.