29.7.13

Helgin liðin en ný ævintýri framundan

ÉG tek flesta daga frekar snemma til að nýta þá sem allra best í alls konar, hitt og þetta/eitt og annað.  Á laugardagsmorguninn var ég mætt til Nonna í Kristu Quest alveg hissa á því að það voru liðna sex vikur síðan ég var klippt síðast.  Reyndar var ég alveg farin að finna fyrir því að hárið hafði þykknað og vaxið alveg helling.  Þetta var síðasti tímasetti tíminn í dagskránni svo Nonni festi fyrir mig allmarga næstu tíma á sex vikna fresti hátt í tvö ár fram í tímann.

Um hádegið skutlaði ég öðrum tvíbbanum í "passvinnu".  Hann er að passa tvær systur tveggja og fjögra alla virka daga og tók svo að sér að passa þær hluta úr helginni líka.  Ég fór beint heim aftur því ég átti eftir að græja smá þvottahúsmál.

Tveim tímum seinna hringdi ég í frænku mína og nöfnu í Garðabænum og fékk það staðfest að hún væri heima að sóla sig og að ég var velkomin í heimsókn að sóla mig með henni.  Dreif mig því þangað í einum grænum.  Byrjaði á því að skilja það sem ég hafði tekið með mér eftir út í bíl en frænka mín var ekki fyrr búin að heilsa mér er hún spurði hvort ég væri ekki með saumana með mér.  Ó, jú, ég var að sjálfsögðu með handavinnuna og sótti hana strax út í bíl.  Við sátum svo í sólinni til klukkan að ganga sex.  Frá frænku minni fór ég í Nettó fyrir hana til að kaupa smávegis fyrir mömmu hennar og færa henni.  Gamla konan, nýlega orðin 91 árs, var að jafna sig eftir veikindi og vantaði m.a. fisk í soðið og dóttirin var á leið í matarboð.  Ég tók þetta verkefni að mér með glöðu geði og var boðið í mat fyrir vikið.

Gærdagurinn fór allur í lestur, útsaum og sjónvarpsgláp, fylgdist með formúlunni, úrslitaleik EM kvenna og horfði svo á spennuþætti um kvöldið.  Skrif um ævintýrin framundan bíða aðeins, jafnvel í nokkra daga...

26.7.13

Föstudagur

Dagarnir þjóta áfram og ég keppist við að njóta þeirra.  Gærdagurinn leið t.d. ógnar hratt þrátt fyrir að ég færi snemma á fætur og fyndist ég þar með hafa ótal klukkustundir til stefnu þá hurfu þær fljótt.  Ég er samt ekkert að segja að ég sé að fara neitt illa með tímann.  Er að sinna einu og öðru og áhugamálin eru í fyrirrúmi svo það er kannski einmitt þess vegna sem tíminn æðir svona áfram?

Þegar  tvíburarnir voru komnir heim og búnir að fara í sturtu eftir vinnu dagsins fórum við yfir til annars bróður hennar mömmu og fjölskyldu hans.  Okkur var boðið í grill og nutum þess og félagsskaparins fram eftir kvöldi.  Það var einnig fylgst með gangi mála á EM kvenna, aðallega frá loka mínútum venjulegs leiks og þar til úrslitin eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni var ljós.

Ég vona að hugsanlegir blogglesendur mínir sakni ekki ferskeytlunnar.  Andinn kom ekki nægilega vel yfir mig og í fríinu mínu mun ég sjálfsagt blogga eitthvað öðruvísi en vanalega.  Nú ef andinn kemur einhvern anna dag en föstudag mun ég líklega pósta innblæstrinum á bloggið, sama hvað dagurinn heitir.

Hafið það sem allra best um helgina og ekki gleyma að hlúa að ykkur sjálfum!

25.7.13

Morgunstund gefur gull í mund

Mér fannst samt einum of snemmt að fara á fætur klukkan sex í morgun.  Skrapp á snyrtinguna og fór svo beint í rúmið aftur.  Fór fram úr rúmlega hálfátta og þurfti að ýta við öðrum tvíbbanum.  Í stað þess að klæða mig alveg strax las ég í bók sem ég byrjaði á í gærkvöldi, Sagan af Pí.  Lauk við fyrsta hlutann áður en ég fór á fætur.  Ákvað að setja í þvottavél og var búin að því fyrir hálfníu þannig að líklega er að verða kominn tími til að hengja upp.

Um miðjan dag  í gær skrapp ég til hennar Hlíbbu minnar.  Hún er komin heim frá Landakoti en er ekki alveg nógu hress.  Hún hresstist samt eitthvað við komu mína.  Ég var með saumana mína með mér og stoppaði hátt á annan tíma.  Kom svo við í fiskbúðinni á leiðinni heim og keypti ýsu í soðið.

Fylgdist með leik Svía og Þjóðverja í fyrri undanúrslitaleik EM kvenna.  Það fór fyrir Svíum eins og Frökkum, þ.e. tölfræðin var öll Svía megin nema að einu leiti, þeim tókst ekki að skora löglegt mark og fengu þvílíkt klaufalegt mark á sig sem var markið sem skildi liðin að í lok leiks.  Þær þýsku verða svo að teljast sigurstranglegri hvort sem þær fá Dani eða Norðmenn í úrslitaleikinn.  Gleymum samt ekki að Norðmenn unnu Þjóðverja í riðlakeppninni og Danir slóu Frakka út, þannig að allt getur gerst.

24.7.13

Bongóblíða

Ég var komin á bókasafnið í Kringlunni rétt upp úr klukkan tíu í gærmorgun.  Skilaði sex bókum af þeim níu sem ég var búin að vera með sl hálfa mánuð eða svo og tók fimm "nýjar".  Ein af þessum bókum er með hálfsmánaðar skilafrest. Næst lá leiðin í Hagkaup á efri hæðinni þar sem ég keypti nokkur sokkapör til að gefa afmælisbörnum dagsins.  Var áður búin að gefa þeim smá pening.  Svo fór ég í Steinar og Waage og fann mér nýja skó.  Bað afgreiðslukonuna um að henda gömlu, lúnu/ónýtu skónum og labbaði á þeim nýju í Hagkaup á neðri hæðinni þar sem ég verlsaði m.a. rjóma.  Á leiðinni heim fyllti ég lánsbílinn af bensíni.

Strákarnir voru báðir vaknaðir er ég kom heim um hálftólf.  Dagurinn fór í ýmiss konar dundur.  Var kannski ekki alveg nógu dugleg að nýta mér veðurblíðuna en það verður bara bætt úr því í dag.  Upp úr tvö hófst ég handa við að búa til stafla af vöfflum og um svipað leyti kom einn vinur tvíburanna í heimsókn.

Rétt fyrir sex komu systir mín, mágur og eldri dóttir þeirra.  Sú yngri er í nokkurs konar skautaæfingabúðum á Akureyri.  Við hjálpuðumst að við eldamennskuna, steiktum hrefnukjöt, útbjuggum kartöflugratín, sósu, suðum rósakál, tókum af borðstofuborðinu og lögðum á það. Mágur minn losaði fyrir mig stíflu úr eldhúsvaskinum.  Þ.e. minni vaskurinn var stíflaður en ég var eiginlega búin að gleyma því þar sem ég læt svo sjaldan renna í hann. Maturinn heppnaðist annars vel og ég held að strákarnir hafi verið mjög ánægðir með bæði mat og gesti.  En strax eftir mat skutlaði ég Oddi í Smárabíó en tveir vinir hans voru búnir að bjóða honum í bíó.  Gestirnir biðu bara eftir mér og drukku kaffi í rólegheitunum.

23.7.13

Sumarfrísdagurinn fyrsti

Ég vissi það að blíðan myndi brjótast fram um leið og ég væri byrjuð í sumarfríi. Þrátt fyrir að í gær væri síðasti vinnudagur fyrir frí var dagurinn alls ekki lengi að líða.  Hjólaði heim upp úr fjögur og settist beint fyrir framan imbann til að fylgjast með leik í 8 liða úrslitum EM-kvenna.  Tók einnig fram saumana mína.  Rétt seinna hringdi ein vinkona mín og "föðursystir" (feður okkar eru nafnar sko) í mig og sagðist ætla að lána mér bíl næsta hálfa mánuðinn eða svo.  Ég varð alveg orðlaus en náði þó að þakka fyrir og þyggja gott boð.  

Um það bil sem leikurinn kláraðist kom þessi vinkona mín.  Hún stoppaði nokkra stund en fékk mig svo til að skutla sér heim til sín.  Þannig gat hún einnig kannað aksturslagið mitt og meðferð á bílum.  Þótt það sé nokkuð síðan ég keyrði beinskiptan bíl gekk þetta bara vel og ég held að Svala hafi fengið vissu sína um að bíllinn væri í góðum höndum.  

Fór svo beint heim og horfði á seinni leik dagsins og þann síðasta í 8-liða úrslitunum.  Þar var heldur betur spenna.  Danir komust yfir og það var sama hvað Frakkar reyndu þeim tókst ekki að jafna fyrr en út vítaspyrnu í seinni hálfleik.  Sköpuðu sér miklu fleiri færi heldur en þær dönsku en nýttu þau bara ekki.  Sú danska í markinu var líka að standa sig og dönsku varnar"mennirinir" voru duglegir að flækjast fyrir frönsku sóknar"mönnunum".  Leikurinn fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni og það endaði með dönsku sigri, eitthvað sem fæstir höfðu búist við fyrir leikinn. Þar með eru þrjú af fjórum bestu liðunum lið frá norðurlöndunum, Norðmenn, Svíar og Danir.  Fjórða liðið eru svo Þjóðverjar.

Tvíburarnir eru annars 17 ára í dag og þeir tóku sér frí í tilefni dagsins og munu líklega leyfa sér að sofa út til að byrja með.  Ég er búin að lofa þeim vöfflum og ostaköku með kaffinu og hef svo hrefnukjöt í kvöldmatinn.  Svo spilum við annars daginn alveg eftir eyranu/eyrunum  ;-).

22.7.13

Vá hvað helgin leið eitthvað hratt

Helgin liðin og var ekki lengi að láta sig hverfa og nú er ný vika gengin í garð.  Oddur Smári labbaði með mér í Bónus í Kringlunni upp úr hádegi á laugardag og þar sem vörurnar komust í þrjá poka fórum við létt með að trítla með þær heim.  Annars hefði verið hægt að taka 13 sem stoppar fyrir utan Sunnubúðina.
 
Gærdagurinn fór allur í knattspyrnuáhorf og útsaum.  Horfði á tvo leiki í imbanum, fyrri tveir leikirnir á 8 liða úrslitum kvenna á EM.  Svíar völtuðu yfir stelpurnar okkar en Ítalir létu Þjóðverja hafa fyrir sigrinum.  Samdi við strákana um að þeir fengju sér bara afganga í kvöldmatinn.  Sjálf fékk ég mér haframjöl áður en ég trítlaði á völlinn.  Leikurinn endaði ekki vel fyrir mína rauðu menn, töpuðu 1:3 fyrir Fylki og þeir þurfa nú sárlega að fara að finna leiðir til að pota boltanum oftar í mark andstæðinganna, oftar heldur en þeir hirða hann úr eigin neti.

19.7.13

Upp er runninn föstudagur

Tugi telur hún í sex
tíguleg er frúin.
Með aldri nokkur virðing vex,
vinsæl barnatrúin.

Ég ákvað að deila ferskeytlunni sem ég skeytaði að mágkonu mömmu sl. þriðjudag.  :-)
 
En þvílík rigning seinni partinn í gær.  Ég var að sjálfsögðu á hjólinu og hefði annað hvort getað geymt það niðri í bílageymslu þar til í dag eða fengið að taka það með í strætó.  En ég gerði hvorugt, var með e-s konar "regnslá" sem ég fékk áður en ég fór í vatnsrennibrautirnar í skemmtigarðinum á Sevilla sl. haust.  Sláin er með hettu og það víð að ég gat verið með bakpokann minn undir henni en hún hlífði ekki buxunum eða fremst á úlpuermunum.  Var nokkuð fljót á milli vinnu og heimilis en það bætti sífellt í rigninguna svo það var ekki um annað að ræða en skipta um buxur og setja hinar á ofn þegar ég kom heim.
 
Hafði bleikju með nýjum kartöflum og gulum baunum í bræddu smjöri í matinn í gær.  Mmm, þvílíkt lostæti, ætti að hafa svona oftar í matinn og ég var svo heppin að það var smá afgangur sem ég gat tekið með mér í vinnuna fyrir hádegishressinguna í dag.
 
Auðvitað horfði ég á leikinn sem var sýndur úr riðli c á EM kvenna, Frakkland - England 3:0.  Grey ensku stelpurnar komust ekki í nein færi í fyrri hálfleik og voru lélegri á flestum sviðum heldur en andstæðingarnir.  Ég er eiginlega fegin því að okkar stelpur eiga að keppa við þær sænsku á sunnudaginn en ekki þær frönsku, en það var ekki ljóst fyrr en á tíunda tímanum í gærkvöldi.
 
Hafði það sem allra best um helgina, farið vel með ykkur og njótið þess að vera til!

18.7.13

Lítið eftir af vinnuvikunni

- Glæsilegt mark -

Vá, hvað þetta var vel útfærð sókn sem endaði með þessu líka flotta skallamarki frá stelpunni sem er alin upp á Hellu.  Ég hjólaði beint heim seinni partinn í gær og var búin að kveikja á sjónvarpinu og koma mér ágætlega fyrir stuttu áður en markið kom.  Ég verð samt að viðurkenna það að það var farið að fara svolítið um mig þegar leið á seinni hálfleikinn og hvað mér fannst síðustu mínúturnar og uppbótartíminn vera skelfilega lengi að líða.  Það sást samt á þeim hollensku að þær voru orðnar þreyttar því þrátt fyrir mörg skot að íslenska markinu voru fá af skotunum neitt hættuleg og ef þau hittu á rammann þá sá Guðbjörg um að "vera fyrir" og stóð sig alveg frábærlega, líkt og allt liðið reyndar.
 
Strákarnir voru í afmælisveislu frá því um miðjan dag í gær og langt fram á kvöld þannig að ég komst upp með að sleppa allri eldamennsku.  Notaði bara kvöldið í útsaum, sjónvarpsgláp, tölvumál og lestur og auðvitað var kvöldið ekki fyrr byrjað en það var búið.

17.7.13

Vikan hálfnuð

- Vikan hálfnuð -
 
Já, vikan er hálfnuð og mánuðurinn rétt rúmlega hálfnaður og nú á ég bara eftir að vinna í þrjá daga, fimm klst. og fimmtán mínútur áður en ég fer í sumarfrí.  Það verður komið að þessu áður en ég veit af.  :-)
 
Hjólaði milli heimilis og vinnu í gær.  Tók myndirnar af þreyttu skónum mínum og "Lost no more" og gleymdi mér svo nokkra stund í tölvunni.  Hélt að ég væri búin að missa af útsendingu af leik í A-riðli á EM kvenna.  En leikirnir voru ekki spilaðir fyrr en klukkan hálfsjö svo ég kveikti mátulega á sjónvarpinu þegar útsendingin í leik Svía og Ítala var að byrja.  Horfði á nær allan fyrri hálfleikinn, 0:0, en tók mér svo tæpan hálftíma í matarundirbúning (var með lambalifur og mesti tíminn fór eiginlega í að sjóða kartöflurnar) og kaffiuppáhelling.  Þegar ég mætti til leiks aftur var staðan 3:0 fyrir Svía og þær ítölsku voru bara búnar að skjóta einu sinni á mark mótherjans.  Þá gerði þjálfari þeirra bláklæddu tvöfalda breytingu og leikur liðsins breyttist svo mikið að maður fór að spá í hvort þetta væri örugglega sama liðið...

16.7.13

Týndi sauðurinn óðum að finnast


Þreyttir skór



Sigga sextug

- Mágkona mömmu sextug -

Önnur mágkona hennar mömmu er sextug í dag og í gærkvöldi byrjaði e-ð að gerjast í kollinum á mér.  Hrökk svo upp um fimm í morgun með tilbúna ferskeytlu sem ég sendi mér á sms-i svo ég gæti sent nöfnu minni (Sigríði Björgu Jónsd. Ström)  vískukornið í skeyti með morgninum.  Ferskeytlan verður ekki "sett á blað" hér en hugsanlega með föstudagsblogginu.
Labbaði annars heim úr vinnunni seinni partinn í gær og fann enn og aftur fyrir því að ég þarf að fara að kaupa mér nýja skó.  Ég veit ekki hvað ég er að pæla að drífa mig ekki í slíkan verslunarleiðangur því ég verð að fara fyrr eða síðar, helst í gær (eða jafnvel í síðasta mánuði).  Var búin að sjá til þess að strákarnir gætu sjálfir séð um að fá sér kvöldmat svo ég dundaði mér aðeins í tölvunni og las í einni bók þangað til kominn tími til að trítla á völlinn.
Valur - Víkingur Ólafsvík 0:0.  Bæði lið áttu sín færi og ef eitthvað er voru gestirnir heldur beittari.  En það var semsagt ekkert skorað í gær og þetta var 5. jafnteflisleikur Valsaranna á leiktíðinni og eru þeir í 6. sæti sem stendur.  Þeir eiga reyndar einn leik inni en það er í Frostaskjólinu á móti KR, frestaður leikur frá því KR-ingar voru að spila í evrópukeppninni.  Það verður ekki á vísann að róa hvað þann leik varðar en þó veit ég að mínir menn verða pottþétt ákveðnir í að ná sem hagstæðustu úrslitum þegar leikurinn verður flautaður á þann 25. n.k.

15.7.13

Mamma á afmæli í dag

- Afmælisdagur mömmu -
 
Já, mamma mín er sextíuogníu ára í dag og ein frænka okkar sextíuogþriggja.  Annars leið helgin hratt og örugglega við lestur, útsaum og sjónvarpsgláp.  Skrapp aðeins í Sunnubúðina í gær en þá var ég hvorki búin að versla neitt né elda í heila viku.  Morgunmaturinn var grísk jógúrt með krækiberjum og stundum lifrarpylsusneið með, borðaði í mötuneytinu í vinnunni í hádeginu og fékk mér svo haframjöl og rúsínur í nýsoðnu vatni á kvöldin.
 
Strákarnir komu heim í gærkvöldi eftir heila viku hjá pabba sínum.  Tveir vinir komu með þeim og þeir og annar strákurinn fór fljótlega út á rúntinn.  Stráksi kom ekki heim fyrr en á tólfta tímanum en ég var ekkert að stressa mig yfir því, var háttuð ofan í rúm og að lesa afar spennandi bók eftir Noru Roberts, Undir yfirborðinu.

12.7.13

Föstudagur

Lýsi eftir logni´ og sól
leitt að vantar sumar.
Ef það kemur kátt um jól
kannski fæ mér humar.

Jæja, nú er afleysingu minni í vinnunni brátt lokið.  Hópstjórinn minn kemur úr fríi á mánudaginn.  Við sem stöndum vaktina á deildinni náðum að vinna upp allt það sem lá fyrir og ég að ganga frá hinum ýmsu málum.  Ég er þó ekki frá því að ég mæti nokkuð fyrir átta á mánudagsmorguninn til að "taka stöðuna" á deginum og framleiðsluvélinni.
Eftir vinnu rölti ég upp á Sólvallagötu til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún bauð mér fyrst upp á kaffi og speltlummur áður en við fórum að spá í hið tilbúna tungumál.  Sagði henni frá að ég væri búin að sjá að það er alveg að koma að esperanto-þinginu sem að þessu sinni verður haldið hér á Íslandi, að mestu í Hörpu, dagana 20.-27. júlí n.k.  Gúggluðum þingið og spáðum aðeins í dagskrána áður en við lásum einn kafla í Jen via mondo og skrifuðum niður nokkur orð.  Tók svo strætó heim en það vill svo til að leið 13 stoppar við JL-húsið og svo hér á horninu, Langahlíð-Drápuhlíð.

Farið vel með ykkur um helgina og eigið hana sem allra besta!

11.7.13

Fimmtudagur

- Fimmtudagur -

Ég viðurkenni hér með að ég nennti hvorki að hjóla né labba í vinnuna í morgun.  Heldur tók ég strætó og vagninn stoppar við Hörpuna og vinnan mín er hinum meginn við götuna.
 
Hugurinn er annars  hjá EM-stelpunum okkar en hvort sem ég labba heim eða tek strætó á eftir þá verður búinn uþb hálftími af leiknum þegar ég kveiki á sjónvarpinu.  Annað hvort stilli ég þá á plúsinn og bíð til fimm eða horfi á afganginn á fyrri hálfleik og allan síðari hálfleik í beinni.
 
Aldrei þessu vant greið ég ekki í saumana mína í gærkvöldi.  Ég var búin að "stilla" mér upp í stofunni og kveikja á lampanum góða en svo gerðist ekkert meir.

10.7.13

Miðvikudagur

- Miðvikudagur -

Nýkomin heim úr vinnu, eldrauð, heit og sveitt eftir smá mótvind á hjólinu.  Ég var eiginlega stöðugt að í allan dag frá því fyrir átta og þar til klukkan var orðin fjögur, gleymdi meira að segja að taka mér síðdegiskaffipásu.  Stelpurnar þrjár (þar af ein sumarstúlka) slógu heldur ekki af og kvörtuðu ekki þótt þær kæmust ekki heim fyrr en fimm mínútur yfir fjögur. Ein af þeim var reyndar að vinna til tvö.

En svei mér þá ef ég þarf ekki að drífa mig í að fjárfesta í nýjum skóm og svo helst setja áminningu í simann um að láta ekki árið klárast áður en ég kaupi mér aðra.  Það er engan veginn sniðugt að eiga bara eitt og hálft par.  Þetta hálfa par eru skórnir sem ég nota í messum, tónleikum og árshátíðum en það er eiginlega ekki hægt að ganga mikið á þeim.

Ég þarf annars endilega að fara að setja inn aðra mynd af  "Lost no more" saumaverkefninu mínu, til samanburðar við þá mynd sem ég setti inn í síðasta mánuði.  Ég sat amk tvo og hálfan tíma við saumana í gærkvöldi enda leið kvöldið afar hratt.  Náði svo að lesa nokkra kafla í einni af bókasafnsbókunum áður en ég fór að sofa.

9.7.13

Þriðjudagur

- Þriðjudagur -

Í gærmorgun tók ég strætó í vinnuna og labbaði svo heim seinni partinn.  Strákarnir eru ekki heima þessa vikuna svo ég get hagað til eins og mér sýnist.  Seinni parturinn og kvöldið til ellefu leið ógnarhratt við tölvuleiki, útsaum, sjónvarpsgláp og lestur.

Notaði hjólið í morgun.  Það er annríki í vinnunni þessa dagana og nóg að gera allan daginn.  Sem betur fer er ég með vanar og góðar stelpur með mér og það gengur undan okkur ef framleiðsluvélin leyfir (sem hún gerir ekki alveg alltaf).  Nú fer senn að líða að því að sú sem hefur yfirleitt umsjón með deildinni komi úr fríi og þá fer bæði mínum byrgðum að létta og styttast í fríið mitt.

Var aðeins að fletta í gegnum bækurnar af safninu, þ.e. þær sem ég er ekki búin að lesa og það er ákveðið munstur í titlunum:  Hægur dauði, Firring, Óminni, Undir yfirborðinu, Leyndarmál, Skindauði. Ég veit ekki alveg hvort þetta er tilviljun eða ekki en þessar bækur "hrópuðu" á mig að taka sig með heim sl. laugardag og ég held að ég verði ekki svikin af þeim.

8.7.13

Mánudagur

- Mánudagur -

Helgin var ljúf og skemmtileg og alltof fljót að líða.  Seinni partinn á föstudaginn skrapp í ég heimsókn á Landakot. og stoppaði í uþb klst.  Eftir kvöldmat settist ég með saumana mína fyrir framan sjónvarpið.  Sat þar til klukkan var langt gengin í tíu en þá hleypti ég unglingunum að og settist við tölvuna.

Um hádegi á laugardag sótti ég Lilju vinkonu.  Hellti upp á og svo föndruðum við góða stund, ég taldi út og hún vann í perlunum að búa til armbönd og hálsmen.  Síðan fékk ég hana til að hjálpa mér að pakka ofan í nokkra kassa, dót frá Davíð, aðallega bækur og dvd-diskar.  Skutlaði henni heim um fjögur og skrapp í Kringlusafnið á heimleiðinni.  Skilaði öllum sex bókunum, endurnýjaði bókasafnskortið og tók með mér 9 bækur heim.

Á sunnudagsmorguninn sótti ég Lilju aftur.  Að þessu sinni lá leiðin austur.  Fyrst á Hvolsvöll til mömmu hennar þar sem við stoppuðum í tvo tíma, fengum kaffi og nýbakað með því og svo hleypti mamma hennar okkur á smá beit í jarðaberjareitnum í garðinum.  Kíktum á sveitamarkaðinn áður en við renndum á Hellu til pabba og mömmu.  Þar komum við beint í kaffi og pönnsur.  Síðan var smá saumaklúbbur.  Ég saumaði, mamma prjónaði og Lilja perlaði með góðri aðstoð frá Bríeti, yngri systurdóttur minni.  Við Lilja sáum svo um eldamennskuna.  Fengum far með Ingva mági í bæinn en ég var að skila mömmu bílnum sínum í bili.

5.7.13

Föstudagur enn á ný!

- 5 -

Andinn góður, lundin létt
ljúft að vera til.
Þetta þykir ekki frétt
þó segja hana vil.

Já, það er enn og aftur kominn föstudagur.  Ég mætti á bíl í vinnuna því ég mun að sjálfsögðu kíkja við hjá Hlíbbu minni á Landakot eftir vinnu í dag.  Annars er fátt í fréttum.  Á eitthvað erfitt með að pakka niður dótinu hans Davíðs.  Finnst miklu skemmtilegra að eyða tímanum í útsaum, lestur og heimsóknir eða eitthvað allt annað.  Held það borgi sig samt að fara að drífa þetta af og koma þessu frá og vonandi hætti ég fljótlega að vera "misskilin".  Nenni þó alls ekki að velta þessum hlutum of mikið fyrir mér, finnst bara skrýtið hversu mikið léttist á andanum við þetta "áfall" og ég er örugg um það að það koma engir skallablettir að þessu sinni eins og gerðist þegar tveir uppáhaldsfrændur mínir féllu frá á sama sólarhringnum rétt fyrir jól 2008.
 
Hafði það sem allra best og verum góð hvert við annað!  :-)

4.7.13

Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna

- 4 -

Það endaði með því að ég fór á bílnum í morgun og það átti eftir að koma sér ágætlega.  Þurfti nefnilega að reka tvö erindi í hádeginu, annað vinnutengt og hitt tengt öðrum syninum.  Það eru sennilega hátt í þrjár vikur síðan hraðbanki gleypti debetkortið hans Davíðs Steins.  Hann var lítið búinn að gera í málunum en bróðir hans var þó búinn að hringja og spyrjast fyrir en ekkert meir.  Í gær var svo hringt í þann kortlausa beint úr útibúinu og honum tilkynnt að kortið hans væri komið þangað og að hann mætti sækja það við tækifæri.  Ég hringdi í morgun til að athuga hvort ég mætti sækja það fyrir hann sem ég mátti.  Strákurinn varð að vonum afar glaður að endurheimta kortið sitt.

Annars er ég aðeins farin að huga að sumarfríinu mínu enda bara rétt rúmur hálfur mánuður í það.  Ég er með ýmsar hugmyndir á bak við eyrað sem ég ætla samt ekki að "viðra" nema eftir að þær verða kannski að veruleika.  Þetta verður örugglega eitthvað og pottþétt líka spennandi.

Bókin á náttborðinu er síðasta ólesna bókin af sex sem ég er með í láni úr Kringlusafninu:  Rigning í nóvember eftir Auði Ólafsdóttur.  Bókin hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2004 og er mjög að mínu skapi, alveg fantagóð.  En það var einhver að benda mér á að það væri tímaskekkja að vera að lesa hana um mitt sumar.

3.7.13

Annríki

- 3 -

Það er óhætt að segja það að dagarnir þjóta áfram og þá aðallega vegna vinnuannríki.  En ég nenni ekkert að vera að skrifa og tjá mig mikið um vinnuna.  Nema kannski þetta, að þessa daga sem ég er að leysa hópstjórann minn af er ég alltaf mætt vel fyrir átta og klukkan er oftast orðinn fjögur þegar ég stimpla mig út.  Er búin að nota reiðhjólið þessa þrjá daga og er ekki frá því að nota það einnig á morgun.  Bíllinn var ekkert hreyfður í gær en um fimmleytið í dag skrapp ég í búðina.  Tvíburarnir eru loksins komnir í smá sumarvinnu og þurfa að nesta sig upp og svo er allt útlit að þeir verði með og hjá pabba sínum frá og með mánudeginum og út alla næstu viku svo ég þarf líklega ekkert að versla mikið næstu daga.

Ég lauk við að lesa Húsið eftir Stefán Mána seint í fyrrakvöld.  Mæli alveg með þessari bók en þykk og mikil er hún og í raun alveg óskiljanlegt hvað mér tókst að draga lesturinn á langinn og passa upp á að lesa ekki langt fram á nætur.

Saumaði smá  í gærkvöldi, bæði útlínur í mynd í jólakort sem í "Týnda sauðnum".  Og í lokin get ég lofað ferskeytlubyrjun á föstudagsbloggið kemur, hún er eiginlega tilbúin og aðeins 3 búnir að fá að heyra.

2.7.13

Júlí

- 2 -

Dagarnir þjóta áfram eins og þeim sé borgað fyrir það og maður gerir sitt best til að njóta þeirra.  Seinni partinn í gær hafði ég samband við tvíburahálfsystur mína og við sammæltumst um að ég kæmi til hennar upp úr átta með saumana mína.  Hún sagði mér allt um Ítalíuferðina og hafði ég gaman að.  Sá þetta hreinlega allt saman fyrir mér.  Drukkum kaffi, spjölluðum, saumuðum og hlógum og allt í einu var klukkan barasta orðin hálftólf, vó.  Ég sem passa yfirleitt upp á að kveðja ekki mikið seinna en ellefu.  Við vorum báðar mjög hissa á hve tíminn flaug hratt frá okkur.

1.7.13

Nýr mánuður

- 1 -  
Júní var ekki lengi að líða og nú fer að styttast í sumarfríið mitt.  Samt enn þrjár vikur í það en ef ég reikna dæmið rétt þá verða þessir 21 dagar alls ekki lengi að líða.  Skrapp á Landakot eftir vinnu á föstudaginn eftir stutt stopp heima fór ég á bikarleik í kvennaboltanum.  Mínar stelpur höfðu bara ekki roð í Stjörnustelpurnar og töpuðu á heimavelli 0:3.  Þurfti að skreppa í vinnuna milli níu og tólf á laugardagsmorguninn, það er nú ekki oft sem það þarf í seinni tíð.  Skrapp í Krónuna á heimleiðinni og var nýkomin úr þeim leiðangri þegar Lilja vinkona hringdi.  Hún kvaðst vera nýbúin að baka brauðbollur, var ein heima og í sameiningu ákváðum við að það værið tilvalið að ég tæki saumana mína með til hennar.  Stoppaði hjá henni í fjóra tíma og varð heilmikið úr sauma-verki.  Í gær var fótboltadagurinn mikli.  Reyndar byrjaði ég á því að fylgjast með Formúlu1 með "öðru auganu".  Um fjögur byrjaði bronsleikurinn í Álfukeppninni og hann fór í framlengingu og vítakeppni þannig að þegar ljóst var Ítalir náðu 3. sætinu var kominn tími til að trítla á völlinn á Valur - FH í Pepsídeild karla 1:1 og svo horfði ég á sjálsögðu á úrslitaleikinn í Álfukeppninni.  Það var meira hvað Braselíumenn fór illa með Spánverjana 3:0, engin framlenging og vítakeppni í þeim leik.  Fyrsta markið kom strax á annarri mínútu.