30.3.06

- Hver fór mars? -

Einn dagur eftir af marsmánuði og þá er 1/4 partur liðinn af árinu.

Sl. þriðjudag dreif ég mig með tvíburana í klippingu. Fékk tíma hálffimm og tæpum klukkutíma seinna var ég einnig búin að láta taka af þeim passamyndir. Davíð Steinn þarf nefnilega að fá vegabréf fyrir Frakklandsförina í júní. Þegar þessum erindum var lokið spurði ég þá hvort þeir vildu ekki koma með mér í heimsókn til konu sem við þekkju og er tímabundið inni á sjúkrahótelinu við Rauðarárstíg. Jú, þeir voru til og þá bað ég þá um að vera nú kurteisa og hlýðna á meðan á heimsókninni stæði. Þá sagði Oddur Smári eitthvað á þessa leið:- "Þú getur alveg beðið okkur en það er ekki víst að við hlýðum því!" síðan skellihló hann að svipnum sem kom á mig.

Hjá klipparanum hafði Davíð Steinn stolist til að spreyja úr úðabrúsanum án þess að klipparinn yrði þess var (þetta var rétt áður en við fórum) og á meðan ég borgaði fyrir passamyndirnar stalst hann til að stíga á fótstigið sem klippir út passamyndirnar (eftir að þeir voru báðir búnir að spyrja hvernig þetta virkaði), Oddur Smári bað þó um leyfi. Í heimsókninni fann Davíð Steinn út hvernig hægt var að hækka og lækka rúmið á alla kanta annars voru þeir bara góðir. Stundum verður maður einfaldlega að fá að prófa hvernig hlutirnir virka...!!!

Í gær skrapp ég í kexverslunarleiðangur fyrir Drengjakórinn. Kom með kexið rétt áður en pásan var og fékk þá að vita það að það vantaði líka djús. Það var bara boðið upp á vatn (sem er bara besta mál) en er samt búin að kaupa djús fyrir næstu æfingu. Eftir að hafa skilað af mér kexinu lá leiðin í aðal-borgarbókasafnið í Grófinni. Skilaði öllum bókum sem voru komnar á tíma nema einni. Gat herjað það út að fá að hafa Esperanto-orðabókina í einn mánuð enn, en svo verð ég víst að skila henni. Þrátt fyrir að eiga einhverjar ólesnar bækur þér heima bætti ég amk 12 bókum í safnið og ég geri ráð fyrir að gera þeim einhver skil á þessum vettvangi, að lestri loknum.

Það var löngu kominn tími til að smyrja "óselda bílinn" þrátt fyrir að það sæist ekki á kílómetramælinum. Dreif mig með hann áðan, eftir að hafa skutlað þríburunum (þ.e. Strákunum mínum og Degi vini þeirra) á fótboltaæfingu og komið við í fiskbúð og Krónunni. Næsta mál er svo að þrífa bílinn að innan og utan. Á heimleið kom ég við í Sundhöll Reykjavíkur og sótti sundpokann hans Odds. Það er nú ekki oft sem Oddur gleymir hlutunum en það kemur fyrir.

Alltaf nóg að stússa. Það er kannski þess vegna sem tíminn æðir svona frá mér?

26.3.06


Þarna stendur "tvíburahálfsystir mín" fyrir aftan manninn sinn, frænda minn. Tveir aðrir tölvugruflandi hótelgestir festust með á myndinni.

Þessi mynd er tekin í ganginum við móttökuna á hótelinu: Best Western Normandy Inn um síðustu helgi. Myndasmiðurinn stóð við þær þrjár nettengdu tölvur sem hótelgestir hafa aðgang að.
- Leitað að "gleymdum" hlutum -

Á föstudaginn, þegar ég ætlaði að setja karatebúninginn hans Odds í þvottavélina, greip ég í tómt. Pokinn hans fannst ekki. Samt var hann viss um hvar hann lagði pokann frá sér þegar hann kom heim af æfingu. Við leituðum um alla íbúð á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum, en ekki fannst pokinn. Mig var farið að gruna ýmislegt og í gær bað ég strákinn um að rölta upp í Þórshamar. Hann "tók" bróður sinn með sér og þeir komu til baka með pokann með sér. Merkilegt hvað maður getur sannfært sjálfan sig um ákveðna hluti, við Oddur vorum svo viss um að við hefðum séð karatepokann eftir að hann kom heim af æfingu sl. miðvikudag.

25.3.06

- Eitthvað út í loftið -

þörfin fyrir að tjá sig
er til staðar

samt finnst mér
eins og
ég hafi ekkert
að segja

23.3.06

- Dagleg rútína á ný -

Já, þá er ég komin heim á ný. Við töpuðum aftur klukkutímunum sem við unnum á leið út. Þá græddum við sextíma. Fórum í loftið klukkan fimm og lentum aftur fimmtán mínútur yfir fimm að staðartíma. Í bakaleiðinni lögðum við upp rúmlega sjö að kvöldi og lentum um sjö að morgni næsta dags.

Dagarnir ytra voru fljótir að líða. Vorum allan föstudaginn í Albertville og borðuðum svo á Hard Rock um kvöldið (nokkuð sem við tvíburahálfsysturnar gerðum hér heima 17. mars fyrir átta árum). Á laugardeginum skoðuðum við okkur um í miðbænum. Fengum okkur að borða á kínverskum stað upp úr hádeginu og pöntuðum á japönskum stað um kvöldið. Á þeim síðarnefnda sátum við í hálfhring (átta í hóp) og fylgdumst með kokkinum elda handa okkur. Sá var í essinu sínu og lék sér skemmtilega að matnum. Borðhaldið tók amk einn og hálfan tíma en mér fannst það varla vera nema hálftími. Á sunnudeginum ókum við aðeins um í Saint Paul og þar prófuðum við ekta ameríska borgara. Já, ég bara varð að prófa þetta! Á eftir "kíktum" við í stóra mollið (Mall of America). Um kvöldið borðuðum við svo á steikhúsi þar sem við fengum að sjá matseðilinn í byrjun, alls konar kjöt af öllum stærðum og lifandi humar. Þjónninn okkar var extra hress og ég sagði henni að við værum tvær að halda upp á afmæli og við hjónin að halda upp á brúðkaupsafmæli. Í restina, þegar við vorum alveg að springa (gátum ekki klárað af diskunum) færði hún okkur tertusneið með þremur kertum á í sínu boði. Á mánudeginum vorum við búin að skrá okkur út af hótelinu fyrir ellefu og eyddum svo síðustu klukkutímunum í mollinu. Við Davíð skoðuðum ótrúlega stórt vatnasafn með alls konar fiskum og fleiru. Sáum ma tarantúllu, skjaldbökur af öllum stærðum og gerðum, hákarla, og fleira og fleira. Það var geggjað að ganga um í e-s konar glergöngum og sjá t.d. hákarlana synda rétt fyrir ofan okkur og til beggja handa. Þarna vorum við amk einn og hálfan tíma og hefðum geta verið lengur.

Þetta var semsagt mjög góð ferð og ég er ekki frá því að ég hefði helst viljað hafa haft fleiri daga til að keyra meira um og svona. Mamma sá um heimilið og strákana á meðan við vorum úti og útbjó handa okkur morgunmat þegar við komum heim sl þriðjudagsmorgun. Takk mamma mín fyrir þetta allt! Strákarnir voru mjög spenntir að fá okkur heim en við hittum þá ekki fyrr en þeir komu heim úr skólanum (heyrðum í þeim um morguninn rétt eftir að við vorum lent, áður en þeir fóru í skólann...)

17.3.06

- 2 x 38 -

Sma skilabod fra Best Western Normandy Inn i Minneapolis. Vid tviburahalfsysturnar erum her med mokum ad halda upp a 76 arin okkar saman (eigum badar 38 ara afmaeli i dag). Einnig erum vid David ad halda upp a 10 ara giftingarafmaeli. Framundan eru 4 dagar med fullt af skemmtilegheitum. Farid vel med ykkur!

16.3.06

- Fiðringur -
...ekki sá grái samt...

Það var kóræfing í gærkvöldi. Ég var frekar syfjuð, búin að vera á fótum frá því um hálfsex, en æfingin gekk samt mjög vel. Fórum yfir ferminga og páskamessur og æfðum svo nokkur önnur lög. Alveg í lokin á æfingunni var kórstjórinn að fara yfir tenórröddina í laginu: Hjá lygnri móðu.... Í miðju lagi stoppar hann og segið passið ykkur á þessum kafla. Einn tenórinn sagði strax: "Þetta var bara æfing!" Þetta var nóg til þess að allur hópurinn fékk nett hláturskast. Já, það er fjör á æfingum hjá okkur. Kórstjórinn bauð upp á ís og súkkulaði í kaffihléinu og einn tenórinn kom með heimabakaða tertu. Við vorum þrjú sem stóðumst þessar freistingar. Ég freistaðist til að fá mér einn kaffibolla (oftast fæ ég mér bara heitt vatn). Það merkilega við þetta allt saman var að mig langaði ekki einu sinni til að fá mér "pínu smakk", kannski vegna þess að ég veit að þá væri ég "dottin í það". Ég verð að hugsa dæmið þannig að ég er bara einfaldlega löngu búin með þennan kvóta.

En nú er best að koma einhverju í verk. Davíð er búinn að vinna nokkrar undan farnar nætur, var að leggja sig fyrir rétt um klukkutíma (um sjö), ég ætla að bretta upp ermar og þrífa ísskápinn snöggvast. Segi frá því næst hvers vegna ég er heima í fríi.

13.3.06

- Annasöm helgi að baki -

Þessa stundina ætti ég að vera að undirbúa kvöldmatinn. Ég ætla samt að skrá niður helstu viðburði helgarinnar. Laugardagurinn byrjaði snemma hjá mér. Ég varð að prófa tuskuvindingarnar aðeins og komst að því að ég var eiginlega handónýt, amk. kvað vindingar og nudd varðaði. (Ískápurinn öskraði á hreinsun og einnig var kominn tími á sameignina-en ég varð að loka augunum fyrir því). Tvíburarnir spurðu hvort þeir mættu fara og versla sér Pokemonspjöld. Ég sagði að þeir yrðu fyrst að sjá til þess að hægt yrði að ryksuga gólfið í herberginu þeirra. Þetta gerðu þeir samviskusamlega, drifu sig svo í leiðangurinn, komu heim rétt til þess að sína spjöldin og fóru svo í heimsókn til vinar síns. Þar voru þeir svo allan daginn.

Föðursystir mín hafði samband og spurði hvernig stæði á hjá mér. Ég sagðist vera heima og tæki alveg á móti gestum. Eiginlega var alveg ágætt að fá "truflun á heimilisverkunum", ég mátti hvort sem er ekki reyna of mikið á hendina. Við áttum notalega stund saman.

Um fjögur var ég svo kominn yfir í Norðurmýrina, með esperanto-námsbækurnar. Við vorum smá stund að komast í gang en svo var klukkan allt í einu farin að ganga sex.

Tvíburarnir voru ekki komnir heim þegar ég kom til baka. Davíð var í vinnunni. Ég var ósköp róleg yfir þessu. Settist niður með saumana og fór að íhuga hvernig ég ætlaði að hafa kvöldið. Sá líka brot úr leiknum milli Valsstúlkna og LC Bruhl frá því fyrr um daginn (frábært að Valssteplurnar séu komnar í undanúrslit). Korter yfir sex hringdi síminn. Það var Helga systir og um leið mundi ég eftir því að ég ætlaði að vera komin til hennar um hálfsjö og passa stelpurnar fyrir hana um kvöldið. Ég tók mig til á mettíma, lét Davíð vita og mætti á slaginu hálfsjö til Helgu. Passið gekk vel. Við byrjuðum á því að borða. Hulda fékk að leika sér stutta stund í tölvunni og Bríet var góðum gýr. Sú yngri var kominn í rúmið um átta en Hulda fékk að horfa með mér á Spaugstofuna. Hún var kominn upp í rúm fyrir níu og sofnuð stuttu seinna. Eftir að systurnar voru komnar í ró tók ég fram saumana mína og saumaði fyrir framan skjáinn. Foreldrarnir komu heim fyrir klukkan eitt.

Fékk Davíð Stein til að ryksuga yfir herbergisgólfið í þeirra herbergi og Odd Smára til að ryksuga yfir stofugólfið í gær. Það var æskulýðsmessa í Óháðu kirkjunni og svo kallað Bjargar-kaffi eftir messu. Kirkjan var troðfull. Messuhaldið fór vel fram en ég dreif mig beint heim á eftir og var búin að þrífa sameignina áður en leikur Arsenal og Liverpool 2:1, byrjaði. Sat með saumana mína fyrir framan skjáinn bæði á meðan leiknum stóð og svo aftur þegar Krónikan var sýnd.

Þetta var svona það helsta sem ég var að bauka um helgina.

10.3.06

- Vika -

Það er varla að ég viti hvað ég heiti lengur. Vikan er alveg að verða búin, leið á methraða. Varð að fara vel með þá hægri og er næstum því orðin vön á nota vinstri til að skrúfa. En nú er þetta allt að koma. Verst er að hafa ekki komist til að skrifa neitt, var of þreytt (eða að gera eitthvað annað) á kvöldin. Horfði á enska boltann á mánudagskvöldið, skrapp til vinkonu á þriðjudagskvöldið, fór á kóræfingu á miðvikudagskvöldið, sat heima að sauma í gærkvöldi en rétt í þessu var ég að koma heim af leik Vals og LC Bruhl 25:21. Staðan var 13:7 í hálfleik og þá var Berglind búin að verja 15 skot, þar af tvö víti. Seinni leikurinn er á morgun og er það heimaleikur LC Bruhl.

Skrapp annars á bókasafnið að skila af mér 16 bókum og tók bara 10 í staðinn. Spennandi lestur framundan og hver veit nema ég skrifi eitthvað að lestri loknum.

Framundan er helgin og þar sem sú hægri er orðin liðtæk ætti ég að geta undið nokkrar tuskur, saumað út og fleira og fleira.

Góða helgi og farið vel með ykkur!

3.3.06

- Allt í áttina -

Ég er búin að vera dugleg að passa hægri þumalinn (enda er hann oftast í spelku og vafinn inn). Það kom ekkert út úr rannskóknunum sem getur skýrt út þessi eymsli. Andlitspirringurinn (roðinn og bólgan) var greinilega bara ofnæmisviðbrögð við volterin töflunum. Ég á að hvíla hendina vel yfir helgina og þarf svo greinilega bara að fylgjast með og passa mig. Mér finnst ég hafa misst úr eina viku en Davíð segir mér að horfa á þetta sem um óvænt húsmæðraorlof væri að ræða. Hann hefur staðið sig vel í eldhúsverkunum þrátt fyrir að vera að vinna mjög mikið og tvíburarnir hafa líka verið duglegir að hjálpa mér en ég þarf greinilega að kenna fleirum á heimilinu á þvottavélina (hætta að einoka hana svona...)!

Takk fyrir allar kveðjurnar og að hugsa til mín. Farið vel með ykkur og góða helgi!!! :)