30.7.07

- Ættarmótið -

Forsaga unnin upp úr Íslendingabók: Langafi minn einn hét Friðrik Guðmundsson (1875-1960) var frá Innri-Veðraá. Kona hans (langamma) var, Guðbjörg Guðmundsdóttir fædd í Fremri-Vatnadal (1880-1960). Þau eignuðust 13 börn og var móðurafi minn Friðgeir Marías Magnús, (1919-1974) næstyngstur. Hin voru: Stefán (1904-1922), Ólöf (1905-1905), Torfi (1906-1930), Guðmundur Einar (1908-1927), Mikaelína Sigrún Gröndal (1909-1969), Salome Una (1910-2005) Guðfinna María (1912-1937), Benedikt Össur (1913-1968), Ólöf Aðalheiður (1914-1996), Jón (1916-1981), Oddur (1917-1990) og Friðrik Björgvin (1920-1978).

Seint í október 2005 var haldið 1. ættarmótið (amk. sem ég veit um) á Loftleiðahótelinu. Fyrr í sumar fékk ég svo póst um næsta ættarmót og ég tilkynnti mjög fljótt um þátttöku. Sl. föstudag lögðum við Davíð, ég og strákarnir í hann vestur. Minnstu munaði að ég hætti við því maginn var eitthvað að stríða mér nóttina áður og á föstudagsmorguninn var ég með 39 gráðu hita sem hitastillandi töflur voru lengi að vinna á. En ég ákvað engu síður að drífa mig, sem betur fer, og mun aldrei sjá eftir því. Við keyrðum suðurfirðina vestur og vorum komin á Friðarsetrið við Önundarfjörð um átta leytið. Þar beið okkar matur og flestir af þeim sem ætluðu að vera með. Það fækkaði um örfáa í hópnum vegna óviðráðanlegra aðstæðna en hópurinn taldi alls 24 sem er miklu færra en fyrir tveimur árum. Krakkarnir voru fimm frá 5-14 og voru strax komin í leik. Flestir holuðu sér niður inni en við vorum þó örfá í tjöldum og tjaldvagni.

Rétt fyrir hádegi á laugardag var farið í rútuferð. Fyrst lá leiðin að kirkjugarðinum á Flateyri þar sem voru lögð blóm að nokkrum leiðum. Síðan var ekið um plássið og bæinn og stoppað við Unuhús og ostahúsið til að taka myndir. Í því fyrrnefnda bjó ein afasystir mín og er það kennt við hana og í því síðara bjuggu Friðrik og Guðbjörg. Því næst var farið til Súgandafjarðar ekið út með firðinum inn að bænum þar sem Karl bóndi var tekinn með í leiðangur upp að Vatnadal. Þar var borðað nesti og þeir sem treystu sér til fengu sér göngu alla leið inn að vötnunum sem dalurinn er kenndur við. Í bakaleiðinni var stoppað örstutt (pissustopp) á Suðureyri og að lokum var keyrt alveg fyrir Önundarfjörðinn. Allt í allt tók þessi ferð rúmlega sex tíma. Veðrið lék við okkur allan tímann og tíminn flaug hratt. Eftir kvöldmat var vegleg myndasýning bæði eldgamlar og dagsgamlar myndir.

Um hálfellefu
í gær fór stór hópur niður í fjöru. Þrír dómarar, 14 í fimm liðum og 1 ljósmyndari. Þarna fór fram frækileg sandkastalakeppni og fengum við klukkutíma til að athafna okkur. Aðeins mátti nota skóflur (ekki þó fullorðins), fötur, sigti og muni úr náttúrunni (s.s. skeljar, strá og þ.h.). Við Davíð lentum saman í liði ásamt 14 ára frænda mínum og Helga systir var með Huldu og Davíð Stein í sínu liði. Eitt liðið samastóð af einni frænku minni, syni hennar og 17 ára bróðurdóttur, önnur frænka mín, maður hennar og yngri sonur voru í einu liðinu og í tveggja manna liðinu voru hjón. Þetta skiptist svona alveg óvart. Í dómnefndinni var; móðursystir mín, dóttir hennar (nafna mín) og pabbi þessarar 17 ára. Oddur Smári var svo skipaður sérlegur ljósmyndari amk á meðan unnið var við kastalagerðina. Ég skemmti mér konunglega og í mínu liði var mikill hlátur, miklar pælingar, algert lýðræði og unnið allan tímann. Við nýttum tímamörkin alveg upp á sekúndu. Líkt og keppendurnir unnu dómarar allan tímann út frá skýrum reglum sem þau settu sér. Og þegar komið var að verðlaunaafhendingunni var formaður dómnefndar með smá tölu og athugasemdir um hvert lið. Það lið sem vann fékk 14 stig af 15 mögulegum, lið okkar systra deildu með sér 2-3 sætinu með 10 stig.

Eftir velheppnaða og skemmtilega keppni drifum við Davíð í að taka niður tjaldið. Búið var að ganga frá öllu og fá sér að borða rétt fyrir eitt og þá lá leiðin að kirkjunni í Holti. Presturinn tók á móti okkur, sagði okkur aðeins frá sögu staðarins, var með örstutta helgistund og svo söng Davíð Steinn tvö lög í lokin. Í miðri helgistund komu nokkrir ferðamenn inn og strákurinn var svolítið stressaður í söngnum en skilaði samt vel frá sér. Svo var kvaðst fyrir utan kirkjuna og samkoman leystist upp.

Við Davíð
ákváðum að keyra aðra leið heim og byrjðum á því að renna á Ísafjörð og rúnta smá hring um bæinn. Síðan ókum við sem leið lá í gegnum Súðavík og alveg alla leið á Hólmavík þar sem við stoppuðum til að rétta úr okkur og fá okkur eitthvað í svanginn. Næsta stopp var við Brú í Hrútafirði. Þá var klukkan um sjö. Í bæinn vorum við komin um hálfníu þannig að þetta var nokkuð stíf keyrsla á okkur. Við erum alveg ákveðin í að fara á vestfirðina aftur og gefa okkur þá miklu betri tíma. Svo er stefnt á annað ættarmót 2010 en þá verða liðin 50 ár frá því langforeldrar mínir féllu frá, 135 ár frá því Friðrik fæddist og 130 ár frá því Guðbjörg fæddist.

24.7.07

- Nóg að gerast -

Í gær urðu tvíburarnir ellefu ára, ótrúlegt en satt. Tíminn lætur ekki hæðast að sér. Í tilefni dagsins tók Davíð sér frí. Við vorum komin á fætur um átta og rétt fyrir níu lögðum við af stað áleiðis í Hólminn. Er við höfðum beygt af hringtorginu við Borgarnes, tókum við fljótlega fram úr rútu. Vorum komin í Stykkishólm tólf mínútum fyrir ellefu en svo kölluð Suðureyjasigling fer daglega klukkan ellefu og aftur kl. hálfþrjú, amk á sumartímanum. Þegar Davíð keypti miðana var honum sagt að seinkun yrði á ferðinni því beðið væri eftir hóp sem væri á leiðinni. Hálftíma síðar, tæpum þó, ók rútan, sem við tókum fram úr á leiðinni, að bryggju. Siglingin var frábær. Davíð Steinn var að fara í annað skipti á árinu en hann fór með drengjakórnum í júníbyrjun. Honum fannst samt mjög gaman. Siglt var að nokkrum eyjum og á einni þeirra býr hafarnarfjölskylda og sáum við annan fullorðna fuglinn og aðeins af ungunum sem eru tveir. Svo var botninn skrapaður og boðið upp á hörpudisks og ígulkerjasmakk. Strákarnir fengu að hjálpa til við að finna og opna skeljar og það var víst ekki leiðinlegt. Er við komum til baka fengum við okkur að borða í Narfeyrarstofu áður en við brunuðum aftur í bæinn. Ég skipti fljótlega við Davíð og tók við bílstjórastöðunni. Ákvað að keyra fyrir Hvalfjörðinn og stoppaði við Ferstiklu. Þar fengum við okkur ís og kaffi, en ég var komin í mikla koffínþörf og var þar að auki í spreng. Davíð tók svo aftur við bílstjórninni.

Er við komum í bæinn ákváðum við að fara í bíó. Strákarnir voru ekki sammála um hvaða mynd þeir vildu fara á. Annar vildi fara á Fantastic four... en hinn á Pirots of the Carabian... fórum á þá fyrrnefndu og vorum alveg tilbúin að fara á hina á eftir. Hún var ekki sýnd fyrr en tíu svo við fórum heim í millitíðinni. Dagur vinur þeirra hringdi fljótlega eftir að við komum heim og tvíburarnir ákváðu að leika frekar við hann heldur en að fara aftur í bíó. Vinurinn kom yfir og þeir fengu að vera í Playstation tölvunni. Svo fékk Dagur leyfi hjá okkur og mömmu sinni til að gista hjá strákunum. Það heyrðist enn í strákunum þegar við hjónin fórum að sofa um miðnætti og stuttu fyrir þrjú hrökk ég upp við hurðaskelli og spjall milli tveggja, sá þriðji, Oddur var sofnaður en hinir höfðu verið að hræða sig og gátu ekki sofnað...

Á sunnudaginn var skruppum við austur í sveit að heimsækja frænku mína eina sem stödd er á landinu um þessar mundir. Hún og foreldrar hennar voru með opið hús til að hún gæti hitt sem flesta í einu. Þetta var skemmtilega veisla. Bríet hélt því fram að hún ætti afmæli. Krakkarnir, sem voru þónokkur (amk 11 eða 12) voru duglega að leika sér úti. Tíminn leið bara alltof fljótt en hver veit nema að það verði ekki svo langt þangað til við heimsækjum þessa frænku mína út til Danmerkur þar sem hún býr?

19.7.07

- Harrý Potter og Fönixreglan -

Tengdapabbi skutlaði tvíburunum til móts við okkur hjónin á sjötta tímanum í gær. Við tókum við strákunum einhvers staðar í Þrengslunum. Höfðum góðan tíma því bíósýningin
átti ekki að hefjast fyrr en klukkan sjö. Vorum komin í Sambíóin við Álfabakka fyrir hálfsjö. Þar fréttum við að sýningin ætti eiginlega að byrja klukkan hálfsjö. Sem betur fer fyrir, alla hina sem héldu að hún ætti að hefjast klukkan sjö, þá var sýningunni frestað um hálftíma. Aðeins ein mynd var auglýst áður en sýningin byrjaði. Ekkert hlé var og við sátum og gleymdum tímanum í rúma tvo tíma. Ég er bara mjög sátt við þessa mynd. Hún var kannski heldur lengi að byrja en mér fannst það ekki koma neitt niður á myndinni í heild. Strákarnir voru líka mjög ánægðir en eftir á var Oddur Smári að segja okkur frá hinum og þessum mismuni milli bókar og myndar en strákurinn er búinn að lesa allar útkomnar Harrý Potter bækur fram og til baka. Eftir bíó gáfum við strákunum hressingu áður en við skutluðum þeim til baka á Bakkann.

18.7.07

- Miðvikudagur -

Ég var komin heim upp úr tvö í gær. Ætlaði mér að koma einhverju í verk en ekkert gerðist fyrstu klukkutímana. Kíkti í tölvuna í smástund og lagði mig svo. Ég ég hafði hvílt mig kom ég mér vel fyrir með bók sem ég las upp til agna. Davíð kom heim fyrir sjö og þá loksins hafði ég mig í smá "geru" amk þvottahús og uppþvottamál. Ætlaði að koma mér í rúmið eftir að Angelas Eyes var búið, en ég fór ekki beint að sofa heldur gleymdi tímanum gjörsamlega við að leysa Sudoku gátur úr Frístund - Sudoku. Klukkan var orðin eitthvað meira en miðnætti þegar ég loksins lagði frá mér blaðið eftir mikil heilabrot. Davíð kom uppí löngu seinna. Hann var að vinna og náði ekki að klára svo hann var farið áður en ég fór á fætur rétt fyrir sjö.

17.7.07

- Á vellinum -

Davíð náði að klára vinnu og ná í mig áður en klukkan sló átta og leikurinn, Fram - Valur, byrjaði. Leikurinn hófst klukkan átta og það voru tæplega 1300 (1267) áhorfendur, flestir í rauðu þótt um heimaleik Fram væri að ræða. Gummi Ben. kom okkar mönnum yfir mjög snemma leiks. Fleiri færi litu dagsins ljós en heimaliðið varðist vel og reyndi að skapa sér færi. Staðan í hálfleik var 0:1 fyrir Val. Um miðjan seinni hálfleik misstu Frammarar mann útaf með tvö gul spjöld en það var samt ekki að sjá að þeir væru einum færri. Engu að síður náðu Valsarar loks að skora annað mark og innsigla sigurinn stuttu fyrir leikslok. Það var mjög ljúft og nú munar bara tveimur stigum á FH og Val.

16.7.07

- Á hálendinu -



Við Davíð sóttum tvíburana á Bakkann um hádegisbil á laugardag. Gáfum okkur tíma í einn bolla af kaffi áður en við héldum af stað. Leiðin lá í gegnum Árnes og upp á fjöll með smá stoppum. Vorum komin inn í Landmannalaugar um fjögur og hittum þar Smára og Nínu sem buðu okkur hjónunum upp á kaffi með tvöfaldri ábót og strákunum kakó. Fram að því að við komum hafði verið nokkuð rólegt hjá þeim en þennan tíma sem við stoppuðum urðum við að sæta lagi við að spjalla smá. Tjaldstæðin voru full af fólki svo við ákváðum að setja ekki niður tjaldið þarna. Þegar við höfðum kvatt ókum við alla leið inn að Langasjó. Davíð var alveg í essinu sínu, akandi um á hálendinu og á leiðinni inn að Langasjó þurfti hann að fara yfir amk 17 smásprænur og svo aftur á leiðinni til baka.
Um tíu vorum við komin inn í Hólaskjól þar sem við tölduðum. Okkur fannst of seint að grilla okkur eitthvað og fengum okkur bara eitthvað létt fyrir svefninn. Morguninn eftir flúði Davíð úr tjaldinu á um níu að mestu vegna hitamollu. Aftur á móti var Davíð Steinndrepast úr kulda þegar hann vaknaði. Við tókum okkur fljótlega saman, gerðum upp nóttina og fórum svo inn í Eldgjá. Gengum inn að fossi, ég fór að vísu ekki alveg alla leið en nógu langt til að sjá Ófærufoss. Davíð Steinn var eins og fjallageit og var langt á undan okkur klæddur flíspeysu með rennt upp í háls. Pabbi hans fékk hann til að fara úr peysunni inn við foss. Það var sól og mjög hlýtt og við skildum ekkert í því hvernig stráknum gat verið kalt. Honum hafði reyndar hlýnað við gönguna inn gjána.
Eftir göngutúrinn fórum við að síga af stað niður í byggð. Keyrðum reyndar aðeins áleiðis að Gjátindi og sáum ofan í Eldgjána hinum megin frá. Úúúú, ég er alltof lofthrædd í svoleiðis. Komum á Hellu um fimm og gáfum mömmu spes afmælisknús. Sandra Ósk, stúlka sem ég passaði í heilan vetur með Huldu þegar þær voru á öðru árinu, er búin að vera í "sveitinni" sl. tvær vikur ásamt systurdóttur minni. Þegar okkur bar að garði virtist hún alveg þekkja mig og fleygði sér í fangið á mér og gaf mér STÓRT KNÚS. O, hvað það var gott. En það er allavega staðreynd að við fjölskyldan fórum í útilegu þriðju helgina í röð.

13.7.07

- Ég kann líklega ekki að telja -

Davíð hringdi í mig um sex í gær. Hann var á leiðinni heim eftir vinnutörn en ég var á bókasafninu. Ég sagðist vera að skila bókum og taka nýjar fyrir strákana og þrjár til fjórar fyrir mig. Í bókapokann og heim komu alls 20 bækur, 9 teiknimyndasögur, 4 Frank og Jóa bækur og helmingi fleiri en fjórar handa mér. Átta er víst ekki sama og þrjár til fjórar er það nokkuð. Þrír plús fjórir nær ekki einu sinni átta. En ég verð örugglega ekki í vandræðum með að lesa þessar og hinar fjórar sem biðu heima og ég hef lengt skilafrestinn á. Ó, nei, ó, nei.
Við hjónin skruppum út að borða í gærkvöldi og litum svo inn til einnar vinkonu minnar. Davíð var búinn að vera með ferðatölvu eins barna hennar í nokkrar vikur að reyna að gera við en gat ekki einu sinni kveikt á tölvunni. Stoppuðum ekki lengi því Davíð var alveg ósofinn (kom ekkert heim í fyrrinótt) og þreyttur eftir því. Vorum komin heim rúmlega tíu og minn maður var á leið í rúmið stuttu síðar þegar honum datt í hug að það gæti verið ágætt að skella eins og einum bjór í sig. Þannig að klukkan var orðin hálftólf er hann fór upp í.
Helgin er framundan og spennandi að sjá hvaða ævintýri hún færir okkur.
Farið vel með ykkur!

12.7.07

- Göngusaumaklúbbur tvíburahálfsystra -

Var mætt til tvíburahálfsystur minnar upp úr klukkan átta í gærkvöldi. Við drifum okkur beint út í langan göngutúr enda ekta gönguveður, komum ekki til baka aftur fyrr en um hálftíu. Settumst reyndar smá stund niður í notalegum garði. Er við komum til baka fengum við okkur kaffi og hún greip í prjónana sína og í nál og það var prjónað og talið út til klukkan að verða ellefu.

11.7.07

- VISABIKAR karla -

Ég er hálf svekkt yfir að hafa ekki farið á leikinn í gær. Hefði farið ef Davíð hefði komist með, en hann var að vinna til rúmlega átta. Í staðinn hlustaði ég á fótboltarásina og hafði það framyfir, með því að vera ekki á einum stað, að vita stöðuna í hinum leikjum kvöldsins. Á lýsingunni að dæma voru Valsmenn sterkari aðilinn í leiknum í gær og hefðu í raun átt að gera út um leikinn á venjulegum tíma. Það hlýtur að hafa verð eins og blaut tuska í fésið að fá á sig jöfnunarmarki þegar næstum voru komnar 4 mín. fram yfir venjulegan leiktíma. En strákarnir jöfnuðu sig fjótlega á því. Ekkert mark var skorað í framlengingu og þegar um vítaspyrnukeppni er að ræða getur farið á hvorn veginn sem var, hvort sem liðið var betra í heildina eða átti í vök að verjast í leiktímanum. Kjartan Sturluson var sterkur á milli stanganna og fékk bara þetta eina mark, jöfnunarmark á sig, varði tvö vítaskotanna frá KR og eitt skotið fór yfir og meira þurfti ekki, Valsmenn eru því komnir í 8-liða úrslit, óle, óle, óle, óle...

10.7.07

- Bíóferð -

Við hjónin skruppum í Smárabíó klukkan átta í gærkvöldi og sáum Die Hard 4.0. Myndin féll alveg í kramið og gaman að sjá mörg atriðin á stóru tjaldi. Þetta er fjórða myndin sem Bruce Willis leikur John Mcclane en það kemur ekkert niður á gæðunum. Myndin er hröð, spennandi og með góðan húmor. Ég var hins vegar mjög ósátt við fjölda auglýsinga fyrir myndina. Fannst alveg nóg um. Við vorum komin stuttu fyrir átta. Á tjaldinu voru skjáauglýsingar en klukkan átta byrjuðu "lifandi/leiknar" auglýsingar og fóru amk 15 mín í þær áður en sýnd voru tvö eða þrjú bíóbrot úr væntanlegum myndum. Myndin sjálf byrjaði ekki fyrr en undir hálfníu þótt auglýstur tími hafi verið átta.

9.7.07

- Útilega númer tvö -

Davíð sótti strákana á föstudagskvöldið. Þeir komu ekki í bæinn fyrr en um miðnættið. Á laugardagsmorguninn fórum við hjónin á fætur um tíu. Davíð fór beint í tölvuna að sinna verkefni. Strákarnir sváfu og sváfu. Klukkan var næstum orðin eitt þegar þeir vöknuðu. Það tók svo sinn tíma í að taka sig saman og undirbúa útilega þrátt fyrir að tjald og svefnpokar væru búnir að vera í bílnum síðan um síðustu helgi. Klukkan var því farin að halla í fjögur er við keyrðum út úr bænum. Keyrðum fyrir Hvalfjörðinn og fyrsta stopp var í Borgarfirðinum ca. 10 km. frá Borgarnesi þar sem tvíburahálfsystir mín á bústað. Við vorum búin að gera boð á undan okkur og fengum kaffi og með því er við mættum. Við grilluðum svo saman seinna um kvöldið og þáðum einn bolla til áður en ferðinni var haldið áfram. Um hálftólf komum við í Stykkishólm, tjölduðum og fórum beint í háttinn. Meiningin var að freista þess að fara í Suðureyjasiglingu morguninn eftir.
Á sunnudagsmorguninn voru allir vaknaðir um níu. Fengum okkur eitthvað að borða áður en við tókum dótið og tjaldið saman. Síðan voru tjaldsvæðaverðir leitaðir upp til að gera upp. Einhvern veginn voru þessir tveir tímar ekki nóg fyrir okkur og við sáum á eftir bátnum, hann var kominn nokkra metra frá bryggju, er við renndum að enda klukkan fimm mínútur yfir ellefu. Davíð Steinn fór í þessa siglingu með drengjakórnum í vor og hefði alveg verið til í að fara aftur. Að vísu var önnur ferð um hálfþrjú en við ákváðum að keyra frekar áfram. Við erum samt alveg ákveðin í að reyna að komast þessa ferð seinna í sumar. Strákarnir voru spenntir fyrir að komast í hvalaskoðunarferð en við keyrðum í gegnum alla staðina og fyrir nesið með tilheyrandi stoppum hér og þar. Síðasta stopp á Snæfellsnesinu var við Ölkeldu þar sem allir fengu sér vatn að smakka og Davíð Steinn fyllti á hálfs lítra flösku. Okkur fannst þetta öllum gott nema Oddi Smára.
Vorum í Borgarnesi um fjögur og fórum í sund í sól og 21 gráðu hita. Komum heim um sjö og tveim tímum seinna skutluðum við tvíburunum á Bakkann til föðurafa síns og ömmu. Þar verða þeir fram að næstu helgi en þá er líklega að við sækjum þá og leggjumst út aftur.

6.7.07

- Föstudagur -

Þótt ég sé lítið hrifin af því hversu hratt tíminn líður er ég ánægð með að það sé kominn föstudagur. Davíð hefur verið að vinna sólarhringum saman með svefntímann frá 1-5 tímum en í gærkvöld var hann þó kominn upp í rúm fyrir miðnætti og svaf heila átta tíma. Tvíburarnir
fóru með föðurbróður sínum á Bakkann seinni partinn á þriðjudaginn. Þar mega þeir vera í tvær vikur en við gerum ráð fyrir að sækja þá heim yfir helgina. Hver veit nema við leggjumst svo aðeins aftur út. Það er voðalega gott að hlaða batteríin úti á landi. En þetta kemur allt í ljós.
Við hjónin skruppum í þriggja ára afmæli seinni partinn í gær og kíktum við hjá tvíburahálfsystur minni á eftir. Stoppuðum ekki lengi því Davíð var svefnþurfi og úrvinda eftir vinnutörnina (sem vonandi er búin í bili).
Annars gengur lífið sinn vanagang. Les reyndar heldur minna, en alltaf eitthvað og tek í saumana mína nær daglega.

2.7.07

- Lagst út -

Við tókum til útilegudótið okkar um hádegið á laugardag. Tjald, svefnpokar, sængur og fleira. Fengum okkar að borða á leiðinni út úr bænum og svo fór Davíð í óvissuferð með okkur. Hann keyrði gegnum Mosfellsbæ, fór Þingvallaleið austur og keyrði svo Uxahryggjaleið að Húsafelli. Stutt frá Barnafossum voru tengdó og mágur minn og hans sonur búin að koma sér vel fyrir og voru þegar búin að gista eina nótt. Við settum upp tjaldið okkar nálægt og blönduðum svo geði við hina. Sameiginlegt grill var um kvöldið. Veðrið var yndislegt og voru allir á fótum framyfir miðnætti. Oddur Smári var kominn lang fyrstu á fætur í gærmorgun, fyrir hálfátta. Hann vildi sanna það að hann væri mesti morgun haninn. Veðrið hélt áfram að vera gott. Það komu reyndar örfáir dropar upp úr hádeginu en við tókum niður tjaldið skömmu síðar, alveg þurrt. Fórum í sund á Kleppjárnsreykjum með Tomma og Tedda og keyrðum svo Hvalfjörðinn heim.