30.6.07

- Laugardagsmorgun -

Ég er ein vöknuð af okkur öllum. Já, strákarnir eru komnir heim í bili. Skipti um bíl við manninn minn um sjö í gær. Skildi Fíatinn og manninn eftir í vinnunni hans og skutlaðist austur eftir strákunum. Stoppaði hjá pabba og mömmu til klukkan að ganga ellefu. Tvíburarnir eru búnir að vera duglegir að hjálpa afa sínum og ömmu þessar tæpu tvær vikur sem þeir voru hjá þeim. M.a. gróðursettu þeir yfir 500 trjáplöntur á landareign pabba á Heiði. Pabbi lenti reyndar inn á sjúkrahúsi eina nótt í vikunni. Hann fór í þrekpróf vegna hjartans og var lagður inn og blásinn með það sama. Það stoppaði hann samt ekki í að klára að planta í gær því hann hafði svo góða vinnumenn með sér.

Helga, Ingvi og stelpurnar
komu austur í gærkvöld. Hulda verður eftir hjá afa sínum og ömmu og verður þar næstu tvær vikurnar ásamt jafnöldru sinni sem ég passaði á morgnana (ásamt Huldu) veturinn 2001-2002.

Þegar
við mæðgin komum í bæinn um hálftólf komum við við á skrifstofu Davíðs svo þeir feðgar gætu hist aðeins. Maðurinn minn skilaði sér svo heim einhvern tímann í nótt en hann var ekki kominn þegar ég fór að sofa um hálftvö.

29.6.07

- Furðulegur gestur -

Þegar ég kom heim eftir vinnu og tveggja tíma frænkuvakt í gær spurði nágranninn minn af neðri hæðinni hvort ég ætti hænuna í garðinu. Ég kannaðist ekki við það og fannst þetta hálf ótrúlegt. En ég sá hænuna með mínum eigin augum.

28.6.07

- Markaregn í Laugardalnum -

Já, ég fór á völlinn í gærkvöldi og skemmti mér vel. Valsstrákarnir voru einfaldlega ákveðnari heldur en gestirnir og ég var ánægð með að Gummi Ben. skuli hafa opnað markareikninginn sinn en hann skoraði fyrsta og síðasta markið í 4:1 sigri á FH. Það var ekki að sjá á leik gestanna að þeir væru ósigraðir og efstir í deildinni eftir 7 umferðir en allir eiga sína slæmu daga. Ég veit ekki hvort að hluti af þessu megi skrifa á fjarveru Arnars Gunnlaugssonar en hann var ekki með í gærkvöldi. Ég er bara ánægð með sigurinn og hananú.

23.6.07

- Bríet 3 ára -

Yngri systurdóttir mín á afmæli í dag. Mikið hvað tíminn líður eitthvað fljótt. Ég var að tala við hana í síma um daginn. Fyrst spurði hún: -"Hver ert sú?" Þegar hún vissi hver ég var þá fór hún að "sýna" mér meiddi sem hún var með. Ég spurði hvort ég ætti að kyssa á meiddið og fékk að gera það. Ég man eftir strákunum á þessum aldri. Þeir gerðu það sama, "sýndu" þeim sem var í símtólinu eitt og annað í kringum þá eða á þeim sjálfum.

21.6.07

- Fimmtudagur -

, hvert fóru dagarnir, vikan er bara alveg að verða búin??? Í gærkvöldi var síðasta kóræfing fyrir sumarfrí. Hin fræga gúllasmessa verður svo klukkan ellefu á sunnudaginn kemur. Það er greinilega hlaupinn einhver sumarfílingur í mannskapinn því þetta var fámennasta kóræfingin sem Adda kórstjóri hefur stjórnað í vetur. Sennilega mæta þó fleiri á sunnudaginn, en við vorum ekki nema sjö (3 í sópran, 1 í alt, 1 í tenór og 2 í bassa). Við munum samt klóra okkur vel fram úr messunni. Verst er að ekki verður hægt að syngja neitt í röddum en við ætlum að syngja keðjusöng undir altarisgöngunni.
Við Davíð skruppum á Skagann í fyrrakvöld til að fylgjast með ÍA - Val í blíðskaparveðri. Ég man bara ekki eftir að hafa verið á Akranesi í svona mildu og góðu veðri. En kannski er það bara af því að ég er nú ekki þar á hverjum degi, heldur ca. svona einu sinni á ári. Mér fannst Valsmenn vera miklu betri framan af en í heildina fengu þeir 18 hornspyrnur og það kom nákvæmlega ekkert út úr þeim (kannski smá hætta á ferðum einu sinni) en Skagamenn nýttu aðra af tveimur hornspyrnum sínum. Svo fengu þeir gefins vítaspyrnu en það var ekki dæmd hendi á þá (og ég sá Skagamenn setja hönd í bolta amk þrisvar sinnum og ekkert dæmt). En annars er gott að vera búin að taka út tapið eða þannig, fyrsta tap strákanna í rúmt ár.
Svo er hugsanlegt að ég bregði mér á landsleik í kvöld. Gæti samt verið áhætta ef ég yrði nú hás...

18.6.07

- Mánudagur -

Ég er að myndast við að koma heimilinu í betra horf og er allavega byrjuð og búin að gera eitthvað. Málið er að setja sér raunhæf markmið miðað við tíma og önnur störf og svo líka að byrja, "Hálfnað verk þá hafið er!"

Skruppum aðeins í bæinn í gær áður en við renndum austur með strákana en tvíburarnir verða á Hellu næstu tvær vikurnar. Þeir koma reyndar aðeins í bæinn um næstu helgi því Bríet er að verða þriggja ára á laugardaginn. Veðrið lék við landann í gær. Samt fannst mér ekki vera mjög margt um manninn í miðbænum. Það voru samt svona mannhrúgur hér og þar. Þegar við keyrðum austur mættum við alveg helling af bílum. Rétt austan við Selfoss var lögreglan að fylgjast með umferðinni, því miður fyrir Davíð því hann ók heldur greitt og á nú von á allt að 30 þúsund kr. sekt fljótlega. Pabbi sá svo um að ég þyrfti að keyra til baka því hann bað manninn minn um að grilla og bauð honum upp á bjór í leiðinni.

En svei
mér þá ef ég er ekki strax farin að telja dagana niður í aðalfríið mitt þótt ég hafi komið vel endurnærð eftir sl. viku. Fimm vikur ( 24 virkir dagar)...

16.6.07

- Megagóð sumarfrísvika -

Það var slakað á, slappað af og hvílt sig vel á eftir. Föstudaginn 8. júní fórum við fjölskyldan út úr bænum á sjöunda tímanum. Ferðinni var heitið austur í Árnessýslu, í land Efri-Reykja, stutt frá Laugarvatni. Þar hreiðruðum við okkur niður í sumarbústað. Við hreyfðum okkur ekki fyrsta sólarhringinn, höfðum verslað smávegis á leiðinni úr bænum og það dugði fram á sunnudag. Þá var skroppið í verslunarferð á Laugarvatn. Þegar búið var að ganga frá vörunum ákváðum við að skella okkur að Gullfossi. Þangað er alltaf jafn gaman að koma.

Mánudagurinn var heitasti dagurinn og fór hitinn yfir 25 gráður þegar mest var, mig minnir að mælirinn hafi meira að segja sýn rúmlega 27. Það var of heitt að dvelja of mikið í pottinum og í raun var eiginlega ekki hægt að vera of lengi úti. Ég náði nú samt að brenna.

Annars fór vikan í lestur, útsaum, krossgátuþrautir, spil, sjónvarpsgláp og svefn. Við grilluðum upp á hvern einasta dag og stundum tvisvar. Við vorum alveg tilbúin að taka á móti gestum og vorum með utan á sængur fyrir sex auka. En það komu engir gestir fyrr en seinni partinn á fimmtudag að pabbi og mamma kíktu inn og grilluðu með okkur. Þau fóru svo aftur um kvöldið þegar amman var búin að spila alveg helling við dóttursynina. Fyrr um daginn fór rafmagnið af bústaðnum í nokkurn tíma. Við vissum ekki að því fyrr en bræðurnir ætluðu að rista sér brauð og ekkert gerðist, ekki heldur eftir að brauðristinni hafði verið stungið í samband. Við þetta rafmagnsleysi tæmdist heiti potturinn.

Í gærmorgun
var ræs um og upp úr níu. Allir hjálpuðust að við að taka saman, og ganga frá bústaðnum eins og við vildum koma að honum. Við höfðum tekið við bústaðnum alveg þokkalegum, lítið hægt að kvarta, nema helst að heiti potturinn hafði ekki verið þrifinn. Amk ekki nógu vel. Lokuðum á eftir okkur á slaginu tólf. Fengum okkur að borða á grillstaðnum á Laugarvatni. Svo kíktum við í heimsókn til mömmu tvíburahálfsystur minnar.

Um fimm
í gær fórum við svo með strákana á Köngurlóarmanninn 3 og skemmtum okkur öll jafn vel.

8.6.07

- Veðurblíða -


Bekkurinn hans Davíðs Steins og foreldrar hittust á Miklatúni seinni partinn í gær og grilluðu saman. Oddur Smári fékk að vera með og fóru bræðurnir á hjólum og hittu pabba sinn á svæðinu. Ég var að sinna heimaverkefnum og undirbúningi. Það voru kjöraðstæður og veðrið lék við hópinn.

Fyrr um daginn fóru bræðurnir og létu klippa sig. Ég hafði skilið eftir 1900 kr. handa hvorum. Oddur Smári fékk sér sumarklippingu, brodda og skildi bara skottið eftir. Fyrir það borgaði hann 1250 kr. Davíð Steinn fékk sér bara venjulega klippingu og það var aðeins dýrara eða 1600 kr. Það er nú annars meiri munurinn að geta bara látið þá fá pening fyrir klippingu og sent þá eina.

Davíð kom og sótti mig um hálfátta. Við komum við í Hlíðablóm sem er nýflutt í Skipholt 70 og sóttum tvær gjafir úr skreytingu. Gjafirnar voru handa tveimur kórfélögum, annar varð sextugur í febrúar og hinn verður sjötugur eftir 16 daga. Inn í kortin þeirra setti ég ferskeytlur sem mér tókst að smíða en þær má líka sjá á ljóðavefnum mínum. Leiðin lá svo í heimahús við Háaleitisbraut þar sem haldið var kór-grillpartý með mökum. Kristinn las upp pistilinn að venju, húsráðandi var líka með pistil, strákarnir voru með frábær söng-skemmtiatriði og svo afhentum við formaður og gjaldkeri kórsins gjafirnar og mæltumst til þess að kortin yrðu opnuð og lesin. Á eftir var fjöldasöngur. Eitthvað átti að reyna að hafa "ædol-keppni" en hún var amk ekki byrjuð þegar við Davíð kvöddum um ellefu. Hann skutlaði mér heim en fór svo á skrifstofuna og vann til fjögur. Ég átti eiginlega að drífa mig í bælið því ég var á sexvaktinni í morgun. Klukkan var samt næstum miðnætti þegar ég fór loksins inn í rúm og þá las ég amk í hálftíma. Mér tókst nú samt að vakna þokkalega hress korter yfir fimm í morgun. Þá er bara spurningin hvernig maður verður þegar fer að líða á daginn.
Framundan er smá frí og það er mjög líklegt að ég gefi mér ekki neinn tíma í bloggskrif alveg á næstunni, verð örugglega ekki í netsambandi megnið af vikunni.
Farið vel með ykkur og njótið veðurblíðunnar.

7.6.07

- Lestur er bestur -

Ég verð endilega að benda á bókina Pósthólf dauðans eftir Kristinn R Ólafsson. Hún hélt mér við efnið. Ég gat reyndar ekki lesið hana alveg í einum grænum en ég gat varla lagt hana frá mér þegar tíminn var hlaupinn og ég þurfti að sinna öðrum verkefnum eða fara að sofa í hausinn á mér. Í gærkvöldi fór ég heldur seint upp í en ákvað samt aðeins að kíkja í bókina Lífskraftur á landi og sjó eftir Braga Þórðarson. Þar er hann að segja frá athafnafólki. Ég gleymdi mér alveg við lesturinn las um Þórð Guðjónsson og svo litlu systur Steins Steinars en hún var fyrsta konan til að lesa Passíusálma Hallgríms Péturssonar í útvarpið. Allt í einu sá ég að klukkan var alveg að verða eitt svo ég lagði bókina treglega frá mér, slökkti ljósið og fór að sofa. Davíð var að vinna og hafði lofað að vinna ekki alla nóttina. Hann kom ekki heim fyrr en um sex í morgun.
Annars var kóræfing í gærkvöldi og fyrsta hálftímann voru mættir fleiri menn en konur, en það jafnaði sig svo út þegar 4. sópranröddin mætti á svæðið. Við vorum 3 í altinum og strákarnir skiptust í 3 bassa og 4 tenóra. Æft var fyrir síðustu tvær messurnar, göngumessu n.k. laugardagsmorgun og gúllasmessu sem verður klukkan 11 f.h. þann 24. júní n.k. Ég verð, aldrei þessu vant, ekki með í næstu messu en ég ætla ekki að missa af gúllasmessunni.

6.6.07

- Næsta helgi nálgast eins og óðfluga -

Það er kóræfing í kvöld, næstsíðasta æfing fyrir sumarfrí en það eru engar messur í júlí. Næsta æfing verður svo eftir hálfan mánuð en þá æfum við fyrir gúllasmessuna 24. júní.

Vinur tvíburanna "þríburinn" Dagur fékk að gista hjá þeim í nótt. Strákarnir sofnuðu frekar seint en þeir sváfu líka út í morgun og þegar ég hringdi og tékkaði á þeim um hálftólf voru þeir að fara að fá sér morgunmat. Þeir eru annars ekki heima í augnablikinu. Ég er að fara á stjórnarfund um fimm, síðasti fundur vorsins, uppgjör og aðeins horft framávið með kórstjóra.

5.6.07

- Rétt eða rangt mynsturtákn -

Ég hamast við að sauma bláa engilinn, þegar ég kem því við. Það eru margir bláir litir í kjólnum en í síðustu viku ákvað ég að sauma fæturnar á englinum. Yst á fótunum sýndist mér munstrið vera v. Mér fannst það hálfskrítið því v er fyrir ljósgrænan. Engu að síður saumaði ég þetta með græna litnum. Á sunnudaginn skruppum við Oddur Smári til Lilju vinkonu. Ég var með saumið með mér og saman grúfðum við okkur yfir munstrið. Þá kom í ljós að það sem ég hélt að væri v var þríhyrningur. Ég mátti því rekja upp græna litinn og breyta yfir í dökk-ferskju litaðan. Það gekk nú bara vel fyrir sig.

Í gærkvöldi skrapp ég til tvíburahálfsystur minnar. Til stóð að fara í smá göngutúr áður en við tækjum upp handavinnuna. Endirinn varð sá að við fórum beint að sauma. Látum bleytuna vera en rokið var ekkert upplífgandi. Ég gat því saumað alveg helling í gærkvöldið yfir kaffi og notalegu spjalli.

Það voru
skólaslit í Hlíðaskóla í dag og ég fékk að skreppa og vera viðstödd þegar 5. og 6. bekkir voru inni á sal að taka á móti vitnisburði sínum. Bræðurnir fengu virkilega flottar einkunnir og góðan vitnisburð. Báðir höfðu þeir bætt sig síðan í janúar. Davíð Steinn er með meðaleinkunnina 8,83 þrátt fyrir að vera með eina einkunn upp á 6,5 og Oddur Smári er með meðaleinkunnina 8,735 (8,74) þrátt fyrir 10 í bæði málfræði og ensku. Svo eru þeir báðir með slatta af níum og 9,5. Ég er semsagt að springa úr stolti núna. Þeir bræður eru nú komnir í sumarfrí og höfðu það notalegt heima í dag. Að vísu var "tölvulaus" dagur í dag en þeir fengu að horfa á dvd-myndir. Svo er spurning hvernig maður umbunar piltunum fyrir góða ástundun og frábærar einkunnir?

4.6.07

- Allir út og suður um nýliðna helgi -

Ég tók þátt í sjálfboðavinnu á laugardaginn. Davíð skutlaði mér að brottfarastað rúmlega átta um morguninn. 17 höfðu skráð sig í ferðina en einn komst svo ekki með. Við vorum komin á "vinnustaðinn" rétt upp úr klukkan tíu. Byrjað var á að fá sér kaffi áður en skipt var liði. Það voru tvö innilið og tvö útilið. Inniliðin tóku til, viðruðu og þrifu, annað útiliðið skipti um nokkrar rúður en hitt útiliðið fór í skógarhögg og gróðursettu líka nokkrar trjáplöntur í sár eftir e-r framkvæmdir. Við vorum það mörg að við þurftum ekki að vinna alveg á hundarðinu. Ég hætti reyndar vinnu fyrir fjögur (var búin með mitt verk) og horfði á landsleikinn. Um hálfsex var svo sest að borðum og snætt grilluð lambalæri með meðlæti og drukkið hvítt, rautt, bjór eða gos með.

Klukkan tíu á laugardagsmorguninn skutlaði Davíð nafna sínum upp að Hallgrímskirkju þaðan sem drengjakórinn lagði upp í ferð á Snæfellsnes. Strákarnir og fylgifiskar fóru í Stykkishólm og fengu aðgang og aðstöðu við grunnskólann. Klukkan fjögur voru þeir svo með sameiginlega tónleika með tónlistaskólanum þarna. Davíð Steinn hitti fyrrum bekkjarfélaga sinn úr Ísaksskóla á tónleikunum. Um kvöldið borðaði hópurinn í Narfeyrarstofu. Morguninn eftir fóru þeir í tveggja tíma siglingu um Breiðafjörð, sáu margt og mikið og höfðu virkilega gaman af. Eftir siglinguna kvöddu þeir Hólminn og fóru til Ólafsvíkur þar sem þeir sungu fyrir eldri borgara á elliheimilinu. Davíð sótti strákinn um sjö í gærkvöld á sama stað og hann fór með hann morguninn áður.

Bekkurinn hans Odds Smára og foreldrar höfðu mælt sér mót við Hlíðaskóla um ellefu og ætluðu að hjóla upp í Árbær og fara í sund þar. Oddur hjólaði af stað og var með í uþb klukkutíma en þá gafst minn upp og hringdi í pabba sinn. Tel strákinn reyndar góðan að hafa þó farið af stað en hann hefur ekki hjólað mjög mikið í vor og er því ekki í neinu sérstöku formi. Davíð sótti strákinn, stakk hjólinu í skottið og svo héldu þeir feðgar förinni áfram upp í Árbæ.

1.6.07

- Nýr mánuður -

fer að styttast í sumarfrí. Að vísu ætla ég bara að taka eina viku til að byrja með en hinar fjórar ekki fyrr en seinni partinn í júlí og fram í ágúst. Skólaslitin hjá strákunum eru n.k. þriðjudag og þá verða þeir hálfnaðir með grunnskólann, búnir með fimm bekki og eiga eftir aðra fimm bekki.

Í gær var aukaæfing hjá drengjakórnum og til stóð að taka upp þrjú síðustu lögin sem fara á diskinn. Tæpum tíu mínútum eftir að ég skutlaði Davíð Steini sendi hann mér sms; Komdu að sækja mig get ekki verið með:-(:-(. Strákurinn var með þrálátan hósta sem hann réði ekkert við svo því fór sem fór.

Ég mældi
drenginn í morgun og var hann með örfáar kommur. Vondandi verður hann ekki veikur því drengjakórinn er að fara í ferðalag um helgina. Hann fór amk í skólann í morgunn en skólinn er bara til hádegis þessa dagana. Ég hringdi svo í kappann um hádegisbil og hvatti hann til að leggja sig. Eftir vinnu í dag fór ég fyrst að láta snoða mig og þegar ég kom heim tók ég eftir því að söngfuglinn minn var í náttfötunum. Hann sagði að sér þætti betra að sofa í náttfötunum og svo hefur hann líklega ekki nennt að klæða sig aftur.

Framundan er enn ein helgin en það er svo stutt síðan síðasta helgi var og hét. Farið vel með ykkur og njótið lífsins.