30.9.06


Bræður að vaska upp. Það tókst að setja inn myndina í annarri tilraun. Þeir taka sig vel út strákarnir, Davíð Steinn með burstann og Oddur Smári með þurrkustykkið.
- Síðasti septemberdagurinn -

Ég ætlaði að smella inn mynd af bræðrunum að vaska upp en það gekk ekki upp í þetta sinn, kannski næst. Sit hér fyrir framan skjáinn í smá letikasti, nenni ekki neinu í augnablikinu en langar til að segja aðeins frá bók sem ég er að lesa núna. LITLA BLÓM eftir Margréti Hjálmtýsdóttur. Þetta er skáldsaga um stúlku sem er skilin eftir hjá eldri hjónum. Móðir stúlkunnar neitaði að feðra barnið og stakk svo af stuttu eftir fæðingu þess. Gömlu hjónin höfðu misst einkason sinn í sjóslysi. Þau tóku barnið að sér. Einhvern veginn kemst faðir barnsins að tilvist þess, sá ku vera fyrirmaður í þjóðfélaginu og giftur að auki. Hann ræður lögfræðing sem milligöngumann um að greiða með barninu. Örfáum árum seinna er kveikt í húsi hjónanna af einskærri vangá (þroskaheftur maður að leika sér með eldspýtur). Litla stúlkan er sú eina sem bjargast. Vinkona hjónanna tekur hana að sér en nokkru seinna er telpunni komið fyrir á sveitaheimili. Það er borgað áfram með henni en eftir því sem árin líða er hún líka látin vinna fyrir sér. Hún þráir að komast í skóla og læra en er neitað um það. Eftir að hún er fermd er hætt að borga með henni og þá telur hún sig lausa allra mála, yfirgefur sveitina og fer til Reykjavíkur. Hún finnur son og tengdadóttur konunnar sem tók hana að sér eftir brunann og þau hjálpa henni að finna vist á heimili. Sagan er vel skrifuð og erfitt að leggja bókina frá sér eftir að maður er byrjaður á henni. Ég á samt eftir að lesa seinni helminginn og ríflega það og hlakka til þeirra stundar.

Farið vel með ykkur og eigið góða helgi.

29.9.06



Hinn helmingurinn


Helmingurinn af jólakortunum sem ég er búin að búa til. Myndirnar eru ekki sérlega vel teknar, því miður, ég geri aðra tilraun fljótlega.

28.9.06

- Langur miðvikudagur -

Davíð var að koma upp í rúm stuttu áður en kominn var fótaferðatími hjá mér. Hann hafði verið að vinna alla nóttina. Ég ákvað því að nappa bílnum. Strax klukkan fjögur dreif ég mig á bókasafnið, skilaði bókum og náði mér í nýjar. M.a. tók ég enn og aftur esperanto-efni. Við ætlum að fara að hella okkur aftur út í slíkar pælingar, ég og norska vinkona mín.

Frá bókasafninu lá leiðin upp í Hallgrímskirkju þar sem ég sat í rúman hálftíma ef einhverjir foreldrar vildu gera upp kórgjöldin. Kom heim upp úr hálfsex. Þá dreif Davíð sig í ræktina og skildi mig eftir með hálfklárað uppvask. Reddaði því og hafði tilbúin mat er strákarnir komu heim af æfingum.

Tvíburahálfsystir mín kom við rétt fyrir hálfátta og varð ég samferða henni á kóræfingu. Hún var semsagt að máta "óþæga kórinn" og leist held ég bara vel á. Eftir tveggja tíma æfingu kom ég heim til að nappa bílnum aftur og skrapp á Friendtex fatakynningu.

Annars vorum við tvíburahálfsysturnar að byrja í jólakortaföndrinu í síðustu viku. Þá gerði ég ekkert annað en að klippa til myndir. Í fyrrakvöld var ég svo mætt hjá henni aftur upp úr átta og byrjaði á því að klippa niður litað karton í hæfilega stór kort. Andinn var yfir mér og þegar ég byrjaði á föndrinu var ég varla búin með eitt kort þegar ég var farin að sjá fyrir mér hvernig næsta kort ætti að vera. Á innan við tveimur tímum bjó ég til 20 stykki kort. Mottóið við kortagerðina mína er: Einfalt en lekkert. Ég kem til með að smella inn nokkrum myndum af afrakstrinum fljótlega.

24.9.06

- Kaflaskiptur dagur -

ÉG fékk Davíð til að smyrja nokkrar flatkökur með hangikjöti, til að taka með í kirkjuna í morgun. Skutlaði Davíð Steini á upphitun um tíu og fór síðan að redda blómvendi handa einni sem er að hætta í stjórn foreldrafélagsins. Sótti feðgana og flatkökurnar heim og við vorum komin í kirkju rétt fyrir ellefu.

Messan gekk vel fyrir sig. Ung stúlka lét skíra sig og hljómurinn í söngstrákanna var virkilega góður. Eftir messu var smá einkaathöfn fyrir drengina og aðstandendur þeirra. Formaðurinn las upp smá pistil og kallaði svo upp sjö stráka sem eru að byrja sitt þriðja starfsár í kórnum, Davíð Steinn var einn af þeim. Í þá var nælt bronsmerki. Næst voru kallaðir til þrír drengir, tveir af þeim fengu silfurmerki og einn gull. Að lokum voru kallaðir til þrír piltar sem fengu afhenta áletraða bikara fyrir fimm ára starf með Drengjakór Reykjavíkur reyndar er einn af þeim að hefja sitt sjöunda starfsár.

Fljótlega eftir þessa athöfn fékk ég Davíð til að skulta mér í mína kirkju. Klukkan var um eitt og félagar mínir voru búin að æfa og hita upp í um það bil hálftíma. Messuhald í Óháðu kirkjunni gekk mjög vel. Á eftir fékk ég mér smá kaffisopa áður en ég labbaði heim. Sem betur fer var ég með sandalana mína með mér, þeir eru góðir til gangs sérstaklega ef maður er aumur í tá.

Í dag eru 40 ár síðan foreldrum mínum fæddist frumburður sinn, stúlka sem þau skírðu Önnu. Hún lifði aðeins í tæpa fimm mánuði, dó í febrúar 1967 rúmu ári áður en ég fæddist. Ef hún hefði lifað væri ég kannski ekki til í dag, amk héti ég alls ekki Anna, heldur Helga og ef við værum þrjár systurnar héti Helga systir "eitthvað út í loftið" eins og mamma orðaði það.

Tommi mágur er 27 í dag. Til hamingju með það! Það styttist í þriðja tuginn en við Davíð verðum búin að ná þeim fjórða áður en það gerist.

23.9.06

- Nóg framundan -

Í dag eru 45 ár síðan foreldrar mínir gengu í það heilaga. Til hamingju með daginn pabbi og mamma! Þetta eru merkileg tímamót.

Var að koma heim úr smá reddingum fyrir DKR. Á morgun syngja strákarnir við messu og eftir messuna á að hafa smá samverustund og veita m.a. viðurkenningar fyrir störf með kórnum. Sjö drengir eru að hefja sitt þriðja starfsár og fá bronsmerki, tveir drengir fá silfurmerki, einn drengur fær gullmerki og þrír drengir fá áletraðan bikar. Ég þarf svo að helst að vera mætt í Óháðu kirkjuna um hálfeitt til að undirbúa messu þar með organistanum og kórfélögum mínum.

En hvernig ætli loka umferð Landsbankadeildarinnar fari í dag? Það er mikil spenna amk á botninum og Valur tekur á móti KR og verður að vinna til að tryggja annað sætið.

Semsagt nóg framundan, sem er gott.

22.9.06

- Fjölskyldumyndataka -

Merkilegt hvað ein lítil stóratá getur sett mann út af laginu. Ég er ekki vel gangfær þessa dagana. Davíð varð að skutla mér í morgun. Hann sótti mig svo snemma í dag, eða klukkan tvö, því við vorum öll á leið í myndatöku í Ljósmyndastofu Kópavogs. Hittum pabba og mömmu þar fyrir utan rétt fyrir þrjú. Helga systir og hennar fjölskylda voru að verða búin. Næst voru teknar myndir af öllum krökkunum saman. Svo var okkur öllum tíu stillt upp. Því næst var vorum það við fjögur og að lokum létu pabbi og mamma mynda sig. Þar að auki var búið að fara áður með Bríeti. Klukkan var orðin fimm þegar við komum heim aftur, með tvo stóra poka af krækiberjum frá pabba.

Í gærkvöldi var mér boðið í heimahús á Míranda snyrtivörukynningu. Alltaf gaman að fara á kynningu en mér er frekar illa við að nota krem í andlitið á mér svo margt af svona vörum heillar mig ekkert. Ég er búin að prófa nokkrum sinnum að meðhöndla andlitið á mér en ef húðin er þurrskellótt virkar ólífuolían best á mig. Ég virðist þola hana ágætlega.

21.9.06

- Undarlegt óhapp og flottir tónleikar -

Það datt á aðra stóru tána mína hluti af "sturtudyrunum" í gærmorgun. Það sem að blæddi og það sem táin er ljót úúúúú. Ég skipti þrisvar um umbúðir og það var alltaf að vætla í gegn. Það hjálpaði ekki til að ég þurfti aðeins að vera á ferðinni og seinni partinn labbaði ég frá Bónus á Laugavegi í Ráðhúsblóm og þaðan upp í Hallgrímskirkju.

Aðalfundur foreldrafélags DKR var haldinn seinni partinn í gær og tókst hann með ágætum. Framundan er spennandi starfsár og hefur drengjahópurinn aldrei verið stærri og flottari. Það hættu fimm í vor en byrjuðu 12 nýjir í haust. Rétt áður en fundurinn var búinn hringdi Oddur Smári í mig. Hann var frekar lítill í sér og spurði hvort hann þyrfti nokkuð að vera lengur með góminn, því hann meiddi og hann hefði ekkert geta/viljað borðað síðan um morguninn. Drengurinn á að taka góminn út úr sér þegar hann borðar, tannar og les upphátt en þess á milli á hann alltaf að hafa hann, næstu 2-3 mánuðina eða svo.

Annars fór ég á frábæra píanótónleika með Pétri Máté í Salnum í gærkvöld. Þeir byrjuðu klukkan átta, hlé var gert þegar dagskráin var uþb hálfnuð og hann lauk við að spila aukalagið um tíu. Hann spilaði allt nótulaust nema verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson. Efniskráin var mjög spennandi og þessir tveir tímar liðu undrafljótt.

19.9.06

- Strákarnir "gómaðir" -

Davíð fór með tvíburana til tannsérfræðingsins í hádeginu. Gómarnir voru tilbúnir og fékk Oddur Smári má box undir sinn til að geyma góminn ef hann er að borða, tanna, lesa upphátt eða syngja. Gómur Davíðs Steins var hinsvegar festur upp í hann og verður þar næstu sjö mánuðina. Þriðjudagarnir eru lengstu dagarnir í skólanum hjá öðrum tvíburanum og ég bað um frí fyrir þá frá hádegi, taldi að þeir hefðu gott af því að taka því rólega fyrst eftir að vera komnir með gómana.

Pabbi er búinn að tína slatta af krækiberjum undanfarið og sendi okkur slatta. Það eru veislutímar framundan...

18.9.06

- Jólakortagerðarundirbúningur -

Ég leit við í Föndurstofuna á laugardaginn var. Búðin er í Síðumúla og komin á jarðhæð. Ég fann margt sniðugt og lét það eftir mér að verða mér út um sumt af því. Nú er komið að því að huga að jólakortagerð, kannski í seinna lagi miðað við í fyrra. Við tvíburahálfsystir mín vorum byrjaðar í júní í fyrra að klippa út þrívíddarmyndir. Ég ætla að hafa þetta allt miklu einfaldara í ár. Mottóið hjá mér er að búa til kort handa öllum á listanum okkar Davíðs, en lenda samt ekki í neinu stressi með það. Það verður spennandi að vita hvernig gengur. Suma daga er maður afkastamikill en aðra ekki. Sjáum bara til!

16.9.06


Ein úr ferðasafninu. Á meðan strákarnir skiptust á að reyna að veiða í Breiðdalsánni þá var ég í berjamó. Fyllti tvær hálfslítra flöskur af krækiberjum með smá aðstoð frá bræðrunum.
- Aftur komin helgi -

Mánuðurinn er hálfnaður og tíminn æðir áfram á ljóshraða, eða það finnst mér. Sl. fimmtudag áttum við, öll fjölskyldan mín (pabbi, mamma, við og Helgu fjölsk.), tíma í myndatöku. Það varð að fresta þessu því Davíð læstist í bakinu og rétt að byrja að jafna sig núna. Maðurinn er nýbyrjaður í ræktinni og hefur líklega tekið aðeins of mikið á því, ef ég þekki hann rétt.

Það er nóg að gera og framundan eru spennandi tímar. Kórinn minn verður ekki með tónleika í vetur en afleysingakórstjórinn er samt með fullt að nýjum og spennandi hlutum sem hún ætlar að prófa á okkur. Það er líka gaman að segja frá því að allt í einu eru bassarnir orðnir fimm talsins, þeir sem oftast voru bara tveir. Við gætum alveg þegið fleiri raddir í alt og sópran. Ég get lofað skemmtilegum æfingum einu sinni í viku (miðvikudaga kl. 19:30-ca 21:30). Á miðvikudaginn kemur ætlum við reyndar að fjölmenna á einleikstónleikana hans Péturs Mate í Salnum í Kópavogi.

Njótið helgarinnar og farið vel með ykkur!

14.9.06

- Langur dagur -

Davíð skutlaði mér í vinnuna í gærmorgun. Við vorum örlítið sein því Oddur Smári opnaði ísskápinn svo vel að hurðin datt af. Það tók nokkra stund að festa hurðina á aftur því það þurfti ma að taka hurðina af frystinum af á meðan.

Undanfarið ár hef ég verið að draga labbirnar með að hitta kvensjúkdómalækninn minn. Í gær rann samt upp fundardagur. Til að gera langa sögu stutta þá lét ég hann telja mig á að byrja aftur að taka inn hormónana. Hann sagði að ég yrði að vera á þeim til fimmtugs og lofaði mér að við myndum í sammeiningu finna réttu tegundina handa mér. OK, aðeins uþb tólf ár eftir.

Um fimm var ég mætt upp í Hallgrímskirkju á stjórnarfund foreldrafélags DKR. Fundurinn stóð í tæpa tvo tíma svo ég labbaði beint yfir í Óháðu kirkjuna á kóræfingu. Eftir skemmtilega æfingu labbaði ég heim. Þangað var ég kominn stuttu fyrir tíu og fann ég alla feðgana steinsofandi. Ég fór bara að dæmi þeirra...

12.9.06

- Andleysi -

Ég hef ekki verið í neinu skrifstuði undan farna daga. Samt er ýmislegt að gerast í kringum mig. Í síðustu viku var á gangi á Rauðarárstígnum, hafði valið óhefðbundna gönguleið heim. Rétt við strætóskýlið stoppai bíll og ég velti því fyrir mér hversvegna bíllinn væri að leggja alveg við skýlið. Þegar ég kom nær færðist bíllinn nokkra metra áfram, stoppaði aftur, drap á sér og sú sem sat í farþegasætinu skrúfaði niður. Þarna voru mæðgur á ferð, amman, mamman og þriggja ára trítla. Amman tók á sínum tíma á móti mér og tvíburunum á mömmumorgnum í Hallgrímskirkju. Þetta voru fagnaðarfundir og við spjölluðum örugglega í um tuttugu mínútur áður en við héldum ferðum okkar áfram.

Á föstudaginn var dreif ég í að láta klippa og snyrta á mér hárið. Kollurinn var orðinn frekar loðinn og allar línur horfnar úr hárinu. Það er allt annað að sjá mig núna. Í gær lét ég klippa strákana og nú vona ég að Davíð muni eftir að láta klippa sig fyrir fimmtudaginn. Það stendur nefnilega til að fara í allsherjar fjölskyldumyndatöku. Okkar fjölskylda, fjölskylda systur minnar og svo við öll með pabba og mömmu. Mér finnst þetta hálfgert vesen en það verður gaman að eiga svona myndir.

Það er búið að helluleggja fyrir framan og allt lítur ljómandi vel út núna. Ég ætti eiginlega að taka mynd af þessu núna til að geta borið saman fyrir framkvæmdir og eftir.

Ég náði myndum af strákunum í síðustu viku þar sem þeir voru að vaska upp. Þetta eru duglegir ungir menn sem ég er að ala upp. Þeir fá að vísu stundum svolítið "vondar" hugmyndir sem þeir framkvæma en hver hefur svo sem ekki gert skammarstrik?

Þetta var svona það helsta í bili. Vona að andinn hverfi ekki frá mér í aðra 10 daga.

4.9.06

- Helgin liðin -

Það var verið að helluleggja fyrir framan húsið í gær. Ekki náðist að ljúka verkinu þar sem efnið kláraðist. Davíð fór út þegar allt var komið í gang, fylgdist með um stund og sá að það var alveg pláss fyrir hann að taka þátt. Hann vatt sér því í verkefnið og taldi þetta lítið mál. Reyndar kom í ljós, rétt seinna, að hann var ekki að snúa "hellunum" rétt. Það var lagað með hraði og á klukkutíma kláruðu þrír menn það sem hægt var að gera. Það er ekkert svo mikið eftir en nú er stóra spurningin hvort það sér til akkúrat svona efni til að klára?

Þegar ég var rétt að komast heim seinni partinn í dag hringdi Oddur Smári og spurði hvenær hann ætti að leggja af stað í karate. Það var semsagt fyrsta æfing vetrarins í dag. Drengurinn var með allt klárt og ég þurfti bara að skipta um yfirhöfn og þurrka gleraugun mín áður en við gengum af stað yfir í Þórshamar. Vorum mjög tímanlega og komum á staðinn um leið og húsið opnaði. Keypti nýjan búning á strákinn, sá gamli var orðinn of lítill og þröngur. Var með bók með mér: Svartur á leik eftir Stefán Mána. Las mest allan tímann en stóð þó aðeins upp til að fylgjast um stund með æfingunni. Þau voru ekki mörg mætt, taldi bara níu en greinilegt var að þau höfðu engu gleymt þótt þau væru búin að vera í fríi í allt sumar (síðan í byrjun maí). Oddur Smári fór að sjálfsögðu í sturtu á eftir og gaf sér góðan tíma. við komum heim nokkru fyrir sjö, á undan hinum tvíburanum sem var úti að leika sér, en Davíð var kominn heim og búinn að hella sér í eldhúsverki.

2.9.06

- Nýr mánuður -

Hmm, hvað varð um ágúst? Reyndar voru fyrstu þrjár vikurnar af honum extra yndislegar þar sem ég var í sumarfríi. Engu að síður trúi ég því varla að það sé kominn september. Stend mig að því að grandskoða dagatalið. Og þegar það kemur svona veður eins og var í dag þá gæti maður haldið að það sé jafnvel hásumar ennþá, júlí eða eitthvað.

Allir voru komnir á fætur fyrir tíu. Davíð þurfti að skreppa smá stund á skrifsofuna og við mæðginin notuðum tækifæri og ryksuguðum yfir íbúðina. Davíð Steinn lenti í smá sandslag í gærkvöldi og það var sandur út um allt, en ekki lengur! :o)

Við skruppum í sund um hádegisbil. Þrátt fyrir þetta frábæra veður voru ekkert svo margir í sundi. Ég hafði amk nóg pláss í lauginni og synti 400m á bringunni og 100 á bakinu. Fylgdist um stund með feðgunum í boltaleik áður en ég skrapp í 40°C nuddpottinn.

Tvíburarnir voru boðnir í afmæli til "þríbura-"vinar síns, sem varð 10 ára í gær, seinni partinn og við hjónin skruppum í heimahús í Hafnarfirði þar sem Davíð hafði verið beðinn að kíkja á fartölvu.

Farið vel með ykkur og njótið hvers dags!