31.12.05

- Síðasti dagur ársins 2005 -

Skrýtið, mér finnst svo stutt síðan árið byrjaði. En þegar ég hugsa til alls þess sem er búið að gerast þá þarf maður ekkert að vera svo hissa. Í heildina hefur árið verið alveg ágætt. Held að ég geti ekki annað en verið sátt við flest af því sem ég hef tekið mér fyrir hendur eða hefur verið að gerast í kringum mig. Mér tókst að snúa við og breyta mataræðinu eina ferðina enn. Var orðin mjög nálægt þriggja stafa þyngdartölu þegar ég snarsteig á bremsuna og tók í handbremsuna að auki. Fyrir utan að taka út allan sykur, gerbrauð og mikið unna matvöru ákvað ég að taka út alla mjólkurvöru líka, líka lífrænu AB-mjólkina. Ekki nóg með það heldur fannst mér tími til kominn að hætta á hormónunum, hormónum sem ég hef verið að taka síðan um tvítugt. Skipti reyndar um tegund fyrir ca þremur árum síðan og sl. tvö ár hefur bjúgmyndun aukist (sem var nokkur fyrir) það mikið að ég var farin að fá svimaköst í tíma og ótíma. Ég tengdi reyndar bjúgmyndunina líka við mataræðið (þetta hjálpast allt saman að) en í sumar fékk ég alveg nóg og hætti þessu öllu. Þetta var bæði gott og slæmt. Slæmt vegna þess að ég ákvað þetta ein og sjálf án þess að ræða við kvensann minn, slæmt vegna svitakastanna og einnig grátkastanna sem stundum byrjuðu upp úr þurru og af engu sérstöku tilefni. En þrátt fyrir þetta leið mér betur en áður svo ég er viss um að ég tók rétta ákvörðun og stend með henni (þarf bara að ræða þetta aðeins við lækninn minn). Núna um jólin hef ég alveg passað mig á flestum sætindum, látið konfekt og kökur eiga sig en ég leyfði mér að fá mér möndlugraut og pínu ís. Þyngdin er komin niður fyrir 80 þrátt fyrir að ég hafi ekki verið neitt dugleg við að hreyfa mig sl. mánuði þannig að þetta er allt á réttri leið. Að lokum vona ég bara að skrif mín og hugleiðingar á árinu hafi engan meitt. Sjálfri finnst mér mjög gott að geta gluggað í skrifin stöku sinnum og skoðað aðeins hvað ég hef verið að bralla og hugsa. Vona að áramótin verði ykkur ánægjuleg og að komandi ár færi öllum gleði og góðæri á öllum sviðum!

23.12.05

Lesendum mínum nær og fjær sendi ég bestu óskir um:

Gleðilega jólahátíð og farsælt komandi ár. Ég þakka fyrir lesninguna á síðunni minni og allar góðar kveðjur undanfarin 3 ár. Farið vel með ykkur!
- Ein fyrir tvo -

Helga systir bað mig um að passa Bríeti og bauð strákunum með sér og Huldu á jólaball í Smáranum milli 5 og 7 í gær. Strákarnir voru að koma úr leiðangri með pabba sínum rétt fyrir hálffimm þegar Helga sótti þá og skildi litlu skrudduna eftir hjá okkur Davið. Bríet var pínu ósátt fyrst en bara rétt fyrst og hún veifaði alveg mömmu sinn bless. Tveir næstu tímar voru mjög fljótir að líða. Telpukornið er mikill dundari, svolítið stríðin en hún hlýddi alveg. Pabbi hennar var kominn heim úr vinnu um hálfsjö og þá skutlaðist ég með stelpuna yfir. Tvíburarnir voru með frænkum sínum til átta, held að það hafi gengið jafn vel fyrir sig og passið á Bríet.

22.12.05

- Brosandi allan hringinn -

Um það bil sem sumarfríinu mínu lauk í haust var ég komin vel á veg með að taka allt í gegn og koma hlutunum fyrir. Ég var þó ekki alveg búin en mjög bjartsýn á að það væri bara smá verk eftir. Alveg fram í miðjan nóvember hélt ég hlutunum bara í horfinu en þá fór aðeins að síga á verri hliðina aftur, bara pínu þó.

Fyrir nokkrum dögum bauð Esperanto-vinkona mín mér það að fyrra bragði að koma og hjálpa mér að þrífa fyrir jólin. Ég þurfti ekki einu sinni að hugsa mig um og í gær var komið að því. Ég sótti hana um fjögur og saman vorum við tæpa tvo tíma að "svífa eins og stormsveipir um íbúðina". Það á aðeins eftir að taka smá til í stráka-, tölvu- og hjónaherbergjunum. Ég knúsaði vinkonuna fyrir hjálpina.

Strákarnir voru heima hjá einum vini sínum. Davíð kom heim af fundi um fimm og tók að sér að sjá um kvöldmatinn. Upp úr klukkan átta dreif ég mig af stað á kóræfingu. Við vorum að æfa fyrir jólamessurnar og gekk okkur bara þokkalega. Það var góður andi yfir mannskapnum. Á eftir skrapp ég með jólakort til eldri konu. Ég var búin að hafa samband við hana áður en ég fór á æfinguna og hún sagði að það væri alveg í lagi þótt klukkan væri orðin meira en hálfellefu þegar ég kæmi.

Náði heim fyrir miðnætti. Við Davíð litum þá yfir jólagjafalistann og athuguðum hvort við værum búin með innkaupin og hver væri þá eftir. Það eru ekki margir, bara tveir svo þetta er allt að sleppa. Ég sofnaði heldur seint en skælbrosandi.

20.12.05

- Margt í gangi -

Það vantar eitthvað mikið þegar ég gef mér ekki tíma í skriftirnar. Hugurinn er allur á fleygiferð og því fleiri dagar sem líða á milli skrifta þeim mun vandasamara er að koma orðum að hlutunum án þess að skrifa of mikið.

Síðasta helgi fór öll í tónleika og smá laufabrauðsútskurð. Karlakór Reykjavíkur var með þrenna tónleika í Hallgrímskirkju og bauð strákunum að syngja með sér. Við fórum á seinni tónleikana á laugardagskvöldið, klukkan tíu, og skemmtum okkur mjög vel. Sumir strákarnir voru orðnir frekar þreyttir en það bitnaði samt ekki á sönggæðunum.

Mörg, mörg undanfarin ár höfum við mæðgur og frænkur hist á aðventunni og gert konfekt saman. Núna vorum við sammála um að þar sem fáar okkar mega í raun borða þetta góðgæti væri ekkert vit í að halda þessu áfram. En eitthvað urðum við að finna upp á til að hittast og ákváðum við að prófa að skera út tilbúin laufabrauð og steikja. Við mæðginin sóttum laufabrauðssérfræðinginn um eittleytið á sunnudag og hittum Helgu og stelpurnar hjá frænku okkar í Garðabæ. Flestir skáru alla vega eitt laufabrauð. Við vorum nú ekki með mikið magn en ég held að þetta hafi slegið í gegn. Það er nauðsynlegt að hittast og gera eitthvað saman á þessum tíma!!!

Annars gengur allt þokkalega. Nema ég er heldur sein að skrifa á jólakortin, það hlýtur samt að bjargast enda er á ég ekki mörg kort eftir. Rétt á eftir skutlast ég með Davíð Stein á æfingu vegna aðfangadagskvölds. Annað kvöld er síðasta kóræfingin á árinu hjá mér, þá verður æft fyrir 3 jólamessur. Er árið virkilega alveg að verða búið?

15.12.05

- Smá kæruleysi -

Ég bara verð að segja ykkur frá bók sem ég var að enda við að lesa: Annað líf eftir Auði Jónsdóttur. Hún fjallar um rúmlega fimmtugan austfirðing sem er fluttur til Reykjavíkur, mann sem alin var upp af ömmu sinni, hefur aldrei verið við kvenmann kenndur og er sjálfum sér nógur. Vinnufélagi hans er kvæntur thaílenskri konu sem hann hafði kynnst á ferðalagi í Bankok. Konan á vinkonu þar úti sem er illa stödd og hættir ekki fyrr en hún fær manninn sinn til að sannfæra austfirðinginn um að "taka við" vinkonu sinni. Meira vil ég ekki segja nema að sagan er leiftrandi af kímni og tilfinningaþrungin á köflum. Hún heldur manni við efnið og kemur sífellt á óvart frá fyrstu blaðsíðu. Ég mæli með þessari!

14.12.05

Sjá
stjarnan
á toppi trésins
vísar okkur veginn
ljós og kúlur tindra skært
og í hjörtum okkar finnum við friðinn
sem er
bestur

13.12.05




Smá sýnishorn af myndatöku gærdagsins. Sem betur fer tók ég nokkuð margar myndir því þótt þessar séu skemmtilegar finnst okkur ekki hægt að fjöldaframleiða þær og senda með jólakortunum í ár! He, he...

12.12.05

-Stolin stund -

Þegar ég kom heim um fjögur í dag tók ég strax eftir því hversu snyrtilegt var frammi á gangi. Davíð Steinn hafði tekið sig til og raða upp öllu skótauinu. Þessa dagana er hjálpsemi hluti af heimanáminu og strákarnir hafa báðir verið hjálpsamir af fyrra bragði. Reyndar hafa þeir líka verið að prakkarast óvenju mikið undanfarið en þó ekki sl 2-3 daga... (segi hugsanlega frá prakkarastrikum þeirra seinna, en bara kannski....)

Oddur Smári náði gráðunni með sóma og getur nú borið beltið þótt hann sé bara hálfnaður með áfangann. Eftir að við Davíð Steinn komum heim af kóræfingu og fundi í kvöld, og við vorum búin að fá okkur að borða, bað ég strákana um að klæða sig upp fyrir mig (í kór- og karatebúning). Síðan myndaði ég þá í bak og fyrir, saman og sér og er að vona að ég geti notað eitthvað af þeim myndum í jólakortin í ár.

Síðast liðin helgi var hálf furðuleg á köflum. Davíð skutlaði nafna sínum á klukkutíma æfingu í Salnum upp úr hádegi á laugardag og beið eftir honum á meðan. Seinni partinn fórum við svo öll saman á sjá Harrý Potter.

Oddur Smári bauð bróður sínum með sér í Þórshamar milli eitt og þrjú í gær. Þar var boðið upp á videógláp, pizzu og gos. Klukkan fjögur var Davíð Steinn aftur mættur í Salinn til að syngja með Drengjakórnum og félögum úr Karlakór Reykjavíkur.

Sjálf mætti ég svo í "kirkjuna mína" klukkan hálfátta í gærkvöld til að hita upp fyrir aðventukvöld. Mjög svo notaleg stund og kirkjan næstum full.

Framundan er smá annríki en frekar skemmtilegt stúss.

9.12.05

- Sex dögum síðar -
...næstum því vika...

Jólatónleikarnir tókust bara nokkuð vel. Hálsinn minn var eitthvað að kvarta rétt fyrir síðustu helgi en ég meðhöndlaði hann sérstaklega vel dagana fyrir tónleika og tókst að hafa stjórn á raddböndunum. Tvíburarnir og tvö önnur börn voru fengin til að færa einsöngvurum, undirleikara og kórstjóra blómvendi eftir að dagskráin var tæmd og svo var gestum boðið upp á kaffi og smákökur í safnaðarheimilinu.

Á mánudagskvöldið var ég að vinna í því sem ég er dugleg að biðja aðra um að gera fyrir sig: Að fara vel með mig! Slakaði vel á.

Það var bingó á vegum foreldrafélags Odds bekkjar milli sex og átta á þriðjudagskvöldið. Systkyni voru boðin velkomin með. Tekist hafði að útvega hinu glæsilegustu vinninga, bækur, spil, kerti og fleira. Davíð var bingóstjóri og voru spilaðar nokkrar umferðir. Um sjö var gert smá hlé til að næra sig og svo haldið áfram. Ég varð að fara með Davíð Stein nauðuguna rétt fyrir lokaumferðina en hann átti að vera mættur á aukaæfingu í Ýmishúsinu á slaginu átta. Á leiðinni þangað yfir tókst mér að finna góða skapið hans.

"Minn kór" æfði fyrir fjórar messur á miðvikudagskvöldið og tókst bara vel upp. Við í altinum fengum liðsstyrk, eina þaulvana konu en stúlkurnar tvær sem sungu með okkur á jólatónleikunum eru hættar amk í bili.

En ég er hrædd um að nú verði ég að fara að bretta upp ermar og skrifa á öll jólakortin sem ég er búin að búa til. Sum þeirra eiga að skila sér með smá bréfkornum til Englands, Danmerkur og Noregs og það er stuttur tími eftir.

Oddur Smári er svo að fara í gráðun í dag og verður kominn með 1/2 appelsínugult belti í kvöld.

Farið vel með ykkur!

3.12.05

- Smá bakstur -

Það háttaði þannig til að ég var komin heim fyrir tvö í gær. Strákarnir voru nýkomnir og hafði Davíð Steinn boðið með sér tveimur bekkjarfélögum, beint úr skólanum þrátt fyrir að heimilsreglurnar séu þær að þeir bræður eigi að læra og fá sér hressingu áður en þeir bjóði vinum með sér inn (og þá bara einn vinur á hvorn). Það er líklega "erfiðast" að fara eftir þessu á föstudögum þar sem ekkert er að læra og "langt" í hressingartímann.

Davíð Steinn vissi að við ætluðum að baka og spurði hvort bekkjarfélagar hans mættu vera með í því. Það varð úr að ég blandaði í uppskriftirnar og strákarnir fjórir skiptu þeim niður á plötur og diska. Þeir voru svo duglegir að ég hafði ekki undan (og fékk ég þó smá forskot). Hrærði í tvær smákökusortir, engiferkökur og súkkulaðismákökur og eina konfektuppskrift sem ég setti reyndar beint inn í ísskáp í bili og kom ekki meira við sögu fyrr en miklu seinna. Þetta tók rúma tvo tíma og svo bauð ég öllum strákunum upp á mjólk, hrökkbrauðssneið með osti og nýbakaðar smákökur í hressingu.

Um hálfsex sendi ég vinina heim. Eftir kvöldhressingu (um sjö) tók ég konfektdegið út úr ísskápnum og við strákarnir skiptum því niður og hnoðuðum í smákúlur upp úr kókósmjöli. Ég var ánægð með sjálfa mig eftir þessa törn, kom þessu af stað og lauk við það án þess að freistast í að smakka sjálf. Nú á ég bara eftir að baka eggjahvítukökur og svo set ég punktinn yfir baksturinn að þessu sinni.

Um átta kvaddi ég strákana þar sem annar þeirra var að ryksuga holið og eldhúsið en hinn að fara út með ruslið. Davíð var á leiðinni heim en ég varð að koma við á einum stað áður en ég mætti á kóræfingu svo ég hitti manninn minn ekki fyrr en um tíu.

2.12.05

- Hátíðleg kvöldstund -

Þrátt fyrir að kórstjórinn kæmist ekki og nokkra vantaði í kórinn sungum við á jólafundi Félags nýrnasúkra í Áskirkju í gærkvöldi. Við fengum Signý Sæmundsdóttur til að stjórna okkur og Þóra Fríða Sæmundsdóttir lék undir í tveimur af lögunum. Á undan okkur var séra Bragi Skúlason með smá hugvekju og rithöfundurinn Pétur Gunnarsson las fyrir okkur stutta en smellna jólasögu. Eftir að kórinn var búinn að troða upp sungu þrjár af nemendum Signýjar nokkur jólalög án undirleiks. Signý söng svo "Helga nótt" við undirleik Þóru Fríðu og svo sungu allir Heims um ból saman. Á eftir var gestum boðið upp á alls kyns kræsingar með kaffinu. Ég fékk mér 3 mandarínur og nokkur vínber en lét mér svo nægja að dást að hlaðborðinu. (Ein svaka stabíl, enda hefur það skilað sér, held að ég sé búin að léttast um rúmlega 15 kíló síðan í haust...)

1.12.05

- Nýr mánuður -

Ég er að æfast í að anda djúpt, slaka á og njóta augnabliksins. Til hvers líka að vera að stressa sig yfir hlutunum? Góð spurning! Önnur betri er samt sú: Hvers vegna leiðist maður oft ósjálfrátt út í hringiðuna?

Ég ætlaði mér líklega of mikið í gær. Komst yfir alveg helling en varð að fresta smákökubakstri með strákunum. Ég var miklu leiðari yfir því heldur en þeir. -"Við bökum bara á morgun eða hinn, mamma!" sögðu þeir. Við hjálpuðumst öll að við að hengja upp jóladagatalið. Að venju settum við "álpappírsslaufur" í alla 48 hringina en eftir að strákarnir voru sofnaðir "uppfærðum" við Davíð efstu röðina.

Guðrún Vala náði loksins sambandi við mig í gær og kom við og sótti kertin sín. Það er gaman að hitta bloggvini svona augliti til auglitis. Þótt um örstutt andartak væri að ræða þá var það nóg til að sannfæra mig um að hugmyndir mínar um hana voru réttar. Hún virkaði amk mjög vel á mig, kraftmikil og dugleg.

Esperanto-vinkona mín hringdi í gærkvöldi og sagði að okkur væri boðið að taka þátt í einhvers konar jólafundi hjá Esperantofélaginu n.k. föstudag. Því miður kemst ég ekki í þetta sinn. Það féll niður kóræfing í gærkvöldi og það verður æfing á föstudagskvöldið í staðinn. Enda stutt í tónleikana. Kannski kemst ég að ári og þá verð ég örugglega farin að babla eitthvað á þessu tilbúna tungumáli...