31.7.15

Flott peysa

Mamma fékk mig til að máta þessa um daginn en hún er að prjóna á systur mína! Peysan verður hneppt. :-)

Þriggja daga helgi framundan

Fór fótgangandi í vinnuna í gærmorgun og aftur heim eftir vinnu seinni partinn. Á heimleiðinni kom ég við í Eymundsson við Skólavörðustíg og varð heldur betur að passa mig að kaupa allar nýjustu spennukiljurnar. Aftur á móti fjárfesti ég í nýjustu útgáfunni af VEGA ATLASNUM áður en ég flýtti mér út til að falla ekki í freistni. Þegar heim kom beið mín ný bók úr bókaklúbbnum og ég sem er ekki einu sinni byrjuð á þeirri sem kom fyrir um tveimur mánuðum. Svo ég get ekki kvartað yfir að ég hafi ekki nóg lesefni.  Reyndar er ég ekki með neinar bækur af safninu en þegar ég sæki mér bækur þangað næst þarf ég að byrja á því að endurnýja bókasafnsskírteinið. Það verður sennilega ekki alveg strax en þó er aldrei að vita með mig og bækurnar og lesturinn. Það hljóp annars heldur betur á snærið hjá mér í gær því það hafði samband við mig kona af fyrra bragði sem vissi að ég hefði verið að rýrnar að undanförnu. Hún var að taka til í fataskápunum sínum og datt í hug að spyrja mig hvort ég vildi fara yfir flíkurnar og athuga hvort ég gæti nýtt mér eitthvað af þeim. Ég þakkaði henni fyrir að hugsa til mín og dreif mig til hennar eftir kvöldmat og fréttir til að sækja þetta. Svo nú bíður mín ærið mátunar og matsverkefni (mat á því hvort það passi eða mér líki við) en sumt af því sem ég hef þegar skoðað og mátað passar og fer mér ágætlega.

30.7.15

Sýklalyfskúrinn búinn

Í gærkvöldi lauk viku sýklalyfskúr vegna tannrótarbólgunnar og fyrstu meðferðinni við henni. Er mikið fegin að þurfa ekki lengur að "reikna" út hvenær best sé að taka inn töflu tvö og þrjú, annað hvort klukkutíma fyrir máltíð eða tveimur tímum eftir máltíð. Ætla þó að taka inn acidophilus áfram því það er svo gott fyrir þarmana.

Var annars mætt í Laugardalslaugina rétt eftir að opnaði í gærmorgun. Hefði átt að hafa tíma til að synda amk 300 metra en eftir 200 metrana sá ég að Lena var að setjast ofan í kalda pottinn og ég ákvað að fara strax og setjast niður með henni. Sat þó örlítið lengur eftir að hún fór í heita pottinn en ég jafnaði það út fyrir ferð tvö og þrjú. Eftir þriðju ferðina skyldu leiðir því ég fór þá aðeins í sjópottinn og svo í gufuna áður en ég fór upp úr en Lena fór sjö ferðir í kalda pottinn.

Fór á lánsbílnum alla leið í vinnuna eftir sundið því einkabílstjórinn er ekki heima þessa dagana. Vinnudagurinn leið þónokkuð hratt og nýttist mjög vel. Eftir vinnu skrapp ég á einn stað áður en ég fór heim. Heima var Davíð Steinn nýlega búinn að hella upp á. Heyrði aðeins í pabba og svo í  tvíburahálfsystur minni. Seinna símtalið endaði á þeirri ákvörðun að ég skyldi drífa mig í heimsókn seinna um kvöldið. Var mætt til hennar á níunda tímanum og ég get svo svarið það að tíminn fór á extra yfirsnúning því rétt seinna var klukkan allt í einu korter gengin í tólf á miðnætti.

29.7.15

Stutt eftir af mánuðinum

Það er alltaf sami flýtirinn á dögunum og tímanum. Senn nálgast sá tími sem ég valdi mér að fara í sumarfrí en ég þarf þó að vinna þessa viku og alla virku dagana í þeirri næstu fyrst. Það er hætt við því að það verði stopul skrifin mín í fríinu þar sem ég hef ákveðið að vera út og suður, út um hvippinn og hvappinn, á ferð en þó ekki á flugi mikið af frítímanum. Sjáum bara til hvernig þetta þróast allt saman.

Í gærmorgun fór ég gangandi í vinnuna og fór gangandi aftur heim úr vinnu um hálffimm. Er ég var komin á Klambratúnið datt mér í hug að hringja í systur mína og ég settist niður á einn bekkinn á meðan ég spjallaði við hana. Klukkan var því að nálgast sex þegar ég kom heim aftur. Hringdi austur en nú brá svo við að það var ekki svarað. Pabbi hringdi til baka nokkru seinna og mér skildist að hann hafi ætlað að svara símanum en þar sem hann var að hamast út í garði náði hann ekki að svara áður en ég lagði á.

Annars var kvöldið nokkuð rólegt. Eftir matinn ákvað Davíð Steinn að búa til kaffi.  Ég horfði á imbann milli sjö og níu, (sá t.d. að RÚV átti í brasi með textavélina með erlendu fréttunum), en þá slökkti ég á sjónvarpinu og vafraði aðeins um á netinu.

Ein voða glöð með alla þessa diska!


Myndin er tekin eftir útgáfutónleika Þallar, Fridu Fridriks, í Hvolnum 11. júlí sl.

28.7.15

Vinnuvikan komin á fullt skrið

Ég var örlítið seinni fyrir en ég ætlaði mér en engu að síður komin ofan í Laugardalslaug korter fyrir sjö í gærmorgun og byrjuð að synda. Synti aðeins 200m og dýfði mér svo tvisvar sinnum í kaldapottinn, 2 og hálfa mín í fyrra skiptið og rétt rúmar þrjár mínútur í seinna skiptið. Pottormaðist bæði í 42°C pottinum og sjópottinum, sat smá stund í gufu og stutta stund úti og var samt mætt í vinnuna fimm mínútum fyrir átta.

Nóg var að gera í vinnunni enda leið tíminn til fjögur mjög hratt. Þar sem ekki var allt daglegt búið um það leyti sem venjulegur vinnudagur var liðinn urðu tvær eftir til að klára og ganga frá. Ég var ekki önnur af þeim heldur fór heim, hringdi austur og talaði smá stund pabba en svo fórum við Davíð Steinn í búðina til að kaupa inn brýnustu nauðsynjar. Svo sá hann um að elda kvöldmatinn í gær. Oddur Smári er í kattapössun og býr heima hjá kisunum á meðan.

27.7.15

"Innipúki" í gær

Einhvern veginn fór nú svo að ég fór lítið sem ekkert úr húsi og brá mér alls ekkert af bæ í gær. Var þó komin á fætur um átta, rétt á undan pabba mínum sem reyndar var löngu vaknaður en var ekki búinn að fá sér neinn morgunmat. Eftir að hafa fengið okkur eitthvað settumst við inn í stofu með krossgátur og ég með handavinnutöskuna og bók að auki. Það varð heldur ekki neitt úr saumaskap. Hluti af morgninum fór í netvafr en ég var í og með að bíða eftir því að mamma kæmi á fætur því ég var búin að lofa henni að hjálpa henni við bakstur. Við feðginin vorum búin að fá okkur hádegishressingu og pabbi farinn út í skúr áður en allt fór í gang. Fyrst þurfti mamma reyndar að byrja á því að skreppa í búðina eftir vörum og ég lét hana hafa lyklana af bílnum sínum. Þegar hún kom til baka bað hún mig um að hjálpa sér í svuntu og fara sjálf í aðra. Síðan settist hún við eldhúsborðið og blaðaði í uppskriftum á meðan ég hrærði í eins og eina skúffu köku. Þegar sú kaka var komin í ofninn var kominn kaffitími en pabbi sá alveg um að taka til kaffið. Mamma hrærði svo í eina smákökuuppskrift fljótlega eftir kaffi en þær smákökur fóru ekki á plötur og í bakaraofninn fyrr en eftir fréttir og kvöldmat. Var komin í bæinn um ellefu.

26.7.15

Í foreldrahúsum

Tók gærdaginn nokkuð snemma og var komin á fætur e-n tímann á áttunda tímanum. Ég var þó frekar róleg í tíðinni og náði þannig að hitta aðeins á Odd Smára áður en ég fór í sund en hann var að undirbúa sig fyrir kattapössun. Hann var reyndar með bíllykilinn í vasanum síðan kvöldið áður og hafði á orði að það væri gott að ég hefði ekki þurft að vekja hann til að nálgast þá.

Var í Laugardalnum frá því rúmlega níu til klukkan að verða hálfellefu, í minni nokkuð svo ákveðinni en nýlegri rútínu og endaði á því að sitja úti ögn lengur en vanalega áður en ég dreif mig upp úr. Rétt áður en ég fór inn sá ég Lenu á tali við konu eins frænda míns og kastaði ég kveðju á þær áður en ég fór að sinna öðru.

Rétt fyrir klukkan ellefu hringdi ég upp á hjá norsku esperanto vinkonu minni. Við notuðum tímann jafnvel og síðast, ef ekki betur. Kom heim upp úr eitt. Þar var Davíð Steinn að undirbúa sig undir útilegu. Það tók mig rúmlega klukkustund að taka mig til fyrir austurferð og sinna smá málum heimafyrir í leiðinni.

Á Hellu var komin um hálffjögur, næstum því beint í kaffið. Seinna um daginn aðstoðaði ég mömmu mína við kvöldmatargerð og pabbi bauð upp á hvítvín með með matnum. Notalegur dagur í alla staði.

25.7.15

Síðasti laugardagurinn í júlí

Í gærmorgun fór ég fótgangandi í vinnuna og sleppti sundinu. Tók með mér sýklalyf og acidophilus og ákvað líka að það væri best að vera með haframjöl í hádegismatinn, eitthvað mjúkt undir tönn en saðsamt. Tók það fram í upphafi vinnudags að ég ætlaði mér að hætta á slaginu en auðvitað gat ég ekki alveg staðið við það því ég átti smá verk óunnið sem tók sem betur fer ekki svo langan tíma.

Einkabílstjórinn var mættur rétt fyrir fjögur og þurfti að bíða í um tuttugu mínútur. Við ákváðum að renna við á Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg og nýta 13 krónu afsláttinn. Heima gaf ég mér tíma til að hringja og tala stuttlega við pabba áður en ég tók mig til og fékk bílsttjórann til að skutla mér heim til eins kórfélaga míns sem var búinn að standa á haus í undirbúningi undir KÓSÍ kvöld og tók á móti þeim kórfélögum sem gátu mætt.  Organistinn kíkti einnig við. Annar kórfélagi varð sjötugur sl. þriðjudag og hann þakkaði fyrir það að við vildum halda svona upp á tímamótin með honum og fyrir hann og bauð upp á freyðivín í fordrykk. Húsráðandi var búinn að undirbúa hittinginn vel og var með mjög gott í matinn, grilluð kjúklingaspjót, læri, stöppu/mús úr sætum kartöflum og rófum, tvenns konar sallat, eiginlega þrenns skonar því það sem hann hafði í fyrstu hugsað sem forrétt notuðum við sem meðlæti og svo afar góða sósu úr villiostum, með smá rjóma og sveppum í. Þetta rann allt ljúflega niður í góðum félagsskap enda leið kvöldið eiginlega fáránlega hratt. Ég þáði freyðivín en ætlaði að öðru leyti að fara varlega í drykkju verandi á sýklalyfjum.  Drakk t.d. bara vatn með límónu með matnum. Hins vegar var e-r að passa enn frekar upp á mig því það helltist tvisvar úr freyðivínsglasinu.

24.7.15

KÓSÍ-kvöld

Vaknaði nokkuð spræk og hress á undan vekjaranum rétt fyrir klukkan sex í gærmorgunm, ennþá með tannpínu en hún hafði þó ekki haldið fyrir mér vöku. Sinnti hefðbundum morgunverkum, tók mig til fyrir vinnu og sund og var mætt í Laugardalinn rétt áður en opnaði. Synti 300m og fór fjórar ferðir í kalda pottinn og jafnmargar í 42°C pottinn því ég var svo heppin að Lena var á svæðinu. Ég er ekki hálfdrættingur á við hana því hún fer allt að átta ferðir í kalda pottinn en við erum sammála um að tvær mínútur líða hraðar þegar skemmtilegur pottormur er með í dýfingunum. Eftir fjórðu ferðina í heita pottinn skrapp í aðeins í gufu.

Var mætt í vinnuna rétt fyrir átta en korter yfir níu fékk ég að stinga af til að "skreppa" til tannlæknis og láta kíkja á tannpínutönnina.  Komst að nokkurn veginn á áætluðum tíma og það var byrjað á því að taka mynd af svæðinu sem ég fann til í. Það kom í ljós að ég var með tannrótarbólgu og tveir gangar af þremur sýktir og í öðru tilvikinu náði sýkingin inn að beini. Tannlæknirinn sagði að tönninn liti vel út að öðru leyti.  Siðan var ég deyfð, tönnin einangruð, opnað og rótargöngin hreinsuð. Það tók þó nokkurn tíma.  Varð ekki mikið vör við verki, enda vel deyfð, en mikið var erfitt að vera með munninn opinn svona lengi. Eftir hreinsunina var tekin önnur mynd, hreinsað smávegis meira og svo fyllt upp í, svokölluð rótarfylling. Fékk lyfseðil upp á viku skammt af pensilíni til að koma í veg fyrir frekari sýkingu og þurfti síðan að bóka annan tíma eftir rúmlega mánuð því það þarf að opna þetta og skoða amk einu sinni enn. Eftir að hafa borgað reikningin fór ég beint í Lyfjaver til að leysa út lyfseðilinn og keypti ég stóra krukku af acidophilus til að vinna með þörmunum á meðan ég verð á sýklalyfjakúrnum.

Mætti aftur í vinnuna e-n tímann á tólfta tímanum og kláraði vinnudaginn til fjögur.  Fór beint heim. Afmælisdrengirnir voru báðir uppteknir þegar ég kom en það gerði minnst til. Gaf mér smá stund til að slaka á en um hálfsjö bauð ég þeim upp á hrefnusteik með steiktum gulrótum, steiktu spínati, mús úr sætri kartöflu og bygggrjónum. Alveg ágætur afmælisdinner það.

23.7.15

Tvíburarnir nítján ára í dag

Í stað þess að fara í sund í gærmorgun fór ég gangandi í vinnuna stuttu fyrir hálfátta. Ég hafði nefnilega "slysast" til að horfa á heila sakamálamynd sem var eftir tíu fréttir á þriðjudagskvöldið. Myndin var ekki búin fyrr en rétt fyrir miðnætti þannig að ég fór alltof seint að sofa og ekkert vit í því að rífa sig of snemma á fætur. Það var líka afar hressandi að labba þennan spöl.

Einhvern tímann um morguninn varð ég svo að láta undan þrálátri tannpínu sem hefur verið að koma og fara undanfarið og var alltaf að versna. Man ekki til þess að ég hafi fengið tannpínu áður svo það tók mig tíma að meðtaka þennan sársauka. Ég hringdi í tannlæknastofuna og sagði mínar farir ekki sléttar.  Tannlæknirinn minn er reyndar í sumarfríi en það eru fleiri að reka stofuna með honum. Mér var sagt að fimmtudagurinn væri fullbókaður og ekki unnið á föstudögum.  Fékk úthlutaðan tíma eftir hádegi á mánudaginn en var jafnframt sagt að ég væri efst á blaði ef eitthvað losnaði fyrr.  Og viti menn áður en vinnudagurinn var búinn var hringt í mig frá tannlæknastofunni og mér tjáð að það hefði losnað tími klukkan hálftíu á fimmtudagsmorgninum. Ég þakkaði fyrir og sagðist myndu mæta stundvíslega.

Labbaði aðeins lengri heim úr vinnu og kom við á Lækjartorgi til að heilsa upp á Lilju vinkonu sem er búin að vera með sölubás þar með alls kyns handavinnudóti undanfarið. Strákarnir voru farnir til pabba síns þegar ég kom heim, höfðu verið sóttir og lánsbíllinn því heima. Ég tók því hins vegar frekar rólega, dundaði mér við ýmislegt og passaði svo upp á að vera komin í rúmið upp úr ellefu.

22.7.15

Vikan um það bil hálfnuð

Þar sem ég var vöknuð rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun spratt ég fljótlega á fætur, sinnti morgunverkunum og dreif mig svo í sund. Var mætt í Laugardalinn stuttu eftir að opnaði. Synti aðeins 200 metra en fór 3x2-3 mín. í kalda pottinn. Þar hitti ég Lene eða Lenu eins og hún kallast upp á íslenskan máta í hennar annarri dýfu og minni fyrstu. Okkur fannst kaldi potturinn í kaldara lagi en við sátum samt út okkar tíma enda leið tíminn mun hraðar yfir skemmtilegu spjalli.

Ræsti einkabílstjórann um það leyti sem ég var að setjast aftur inn í bíl og hann var tilbúinn á horninu um tíu mínútum seinna og tók við lánsbílnum eftir að ég hafði skutlað mér í vinnuna. Ég bað hann um að sækja mig aftur um þrjú því ég var ákveðin í að fara klukkutíma fyrr að reka nokkur erindi og tel mig hafa átt það fyllilega inni þar sem ég var klukkutíma lengur í vinnu á mánudeginum.

Vinnudagurinn leið afar hratt. Það var í mörg horn að líta en við vorum einni manneskju fleiri en undanfarna daga og það munaði vel um þær tvær hendur, þannig að við gátum rúllað betur "vélaryfirsetunni".  Ég slapp svo út rétt rúmlega þrjú og fékk einkabílstjórann til að keyra mig til að sinna nokkrum erindum áður en við fórum heim. Þessi erindavinna tók okkur alls um einn og hálfan tíma.  Fljótlega eftir að við komum heim komu mágkona og bróðursonur mömmu í heimsókn, færandi hendi, með smá af dóti sem móðuramma mín átti. Þau og við mæðgin settumst svo niður um stund yfir kaffibollum, kandís og vatnsglösum.

Rétt fyrir klukkan sjö komu spilavinir strákanna og ég trítlaði yfir á Valsvöllinn til að fylgjast með "mínum" stelpum taka á móti og spila við KR-stelpurnar. Leikurinn fór 3:1 fyrir VAL!  :-)

21.7.15

Engin sundferð í gær

Mikið var dagurinn eitthvað úfinn í gær.  Ég gat ekki hugsað mér að fara í sund áður en ég átti að mæta í vinnuna en ákvað frekar að taka með mér sunddótið og freista þess að fara eftir vinnu. Vinnudagurinn lengdist hins vegar óvænt og óviðráðanlega í hinn endann þannig að þegar ég var að fara út af vinnustaðnum var klukkan alveg að verða fimm. Þrátt fyrir að vera á lánsbílnum og með allt með mér fór ég beint heim og ekkert út aftur. Steikti hlýra í matinn og sauð hrísgrjón með. Bræddi smjör og brytjaði eina gulrót út í.  Það fannst öðrum syninum frekar fyndið.  Ég hef líka yfirleitt verið með lauksmjör eða sett gular baunir út í. Þetta var hins vegar alveg ágætur kostur og vel ætt.

Vafraði aðeins um á netinu þar til kominn var kvöldfréttatími í imbanum. Horfði á Dicte, las og var með saumana til hliðar. Nokkrir vinir Davíðs Steins komu og fóru að spila ALIAS spilið um átta leytið og voru að til klukkan að ganga tólf. Það var mikið gaman hjá þeim og eftir að ég var hætt að horfa á imbann og lesa og hafði fært mig aftur fyrir framan tölvuskjáinn hafði ég gaman af því hversu vel piltarnir skemmtu sér.

20.7.15

Enn ein helgin flogin burt

Ég var komin fram á undan pabba í gærmorgun en hann skilaði sér um það leiti sem ég var sest niður með morgunmatinn minn um hálfníu. Seinna settumst við inn í stofu með krossgátur og ég með saumana og bók að auki. Á ellefta tímanum skrapp ég í Hvolsvöll og stoppaði í góða tvo tíma hjá mömmu Lilju vinkonu. Hún sýndi mér það sem hún er að fást við dags daglega og það er ekkert smáræði.  Alls konar plöntur, tré og kryddjurtir og fleira og fleira. Ég fékk að smakka tvö jarðaber af plöntu sem er í gróðurhúsinu en það eru bara blóm á jarðaberjaplöntnum sem eru undir plasti í garðinum.  Tíðin er búin að vera svo undarleg og köld að það er allt miklu seinna á ferðinni.

Fljótlega eftir að ég kom aftur í foreldrahús þvoði einkabílstjórinn lánsbílinn og bónaði að utan. Ég greip í saumana mína en eftir kaffi skrapp ég aðeins út á elliheimili að heimsækja fyrrum nágrannahjón. Stoppaði ekki lengi þar sem það voru barnabörn og banabarnabörn í heimsókn.

Kvöddum ekki fyrr en klukkan að ganga tíu en ég ákvað að keyra í bæinn að þessu sinni þar sem sólin var erfið við okkur á köflum.

19.7.15

Lögbrjótur :-/

Gærdagurinn var langur og skemmtilegur. Var komin á fætur fyrir klukkan átta og kveikti á tölvunni eftir að hafa fengið mér morgunhressingu. Náði að slíta mig frá netvafrinu e-n tímann á níunda tímanum og dreif mig í sund í Laugardalinn. 400m, þrjár ferðir (2-4 mín) í kalda pottinn, heitur pottur og sjópottur inn á milli og gufubað og útiseta í lokin. Tók alls um fimm korter eða svo. Þegar ég var að klæða mig á eftir tók ég upp gemsann í hugsunarleysi og sá að norska esperanto vinkona mín hafði verið að reyna að hringja. Án þess að spá í það sló ég strax á þráðinn við lítinn fögnuð tveggja kvenna sem voru með skáp stutt frá mér. Það er nefnilega stranglega bannað að vera með síma inn í búningsklefa, jafnvel þótt um gamlan samlokusíma sem ekki er hægt að taka neitt upp á, sé að ræða. Ég slapp með skrekkinn í þetta sinn en mun í framtíðinni passa upp á að taka ekki símann upp fyrr en ég er komin út úr klefanum.

Inger hafði hringt til að vara mig við að hún væri að veikjast. Ég spurði bara hvort hún treysti sér til að fá mig í heimsókn og þar sem svarið var jákvætt var ég hvergi banginn og dreif mig til hennar beint eftir sundið. Hittingurinn var vel nýttur m.a. til að tala um heimatónleikana, ljúka við að leysa tvær krossgátur og lesa og tala smá esperanto. Okkur gekk bara vel í gær. Skrapp í Krónuna strax á eftir og var komin heim klukkan að ganga tvö.

Annar tvíburinn var á leið í útlilegu en hinn vildi frekar koma með mér. Við tókum okkur til og lögðum af stað út úr bænum rúmlega tvö. Vorum komin upp í Ártúnsbrekku þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að taka hlut með mér sem er alveg nauðsynlegur ef ég ætlaði að gista á lokaáfangastaðnum. Við snerum því við og sóttum þetta. Næsta stopp var í Fossheiðinni hjá afmælisbarni gærdagsins sem við færðum nýútkominn og áritaðan disk í tilefni dagsins. Þarna áttum við gott spjall og stopp líkt og fyrir tveimur vikum.

Vorum komin til foreldra minna um hálfsex og ég færði þeim eins disk áritaðan til þeirra (var áritaður í Hvolnum fyrir viku en fór með mér í bæinn í millitíðinni).  Eftir fréttir og kvöldmat var diskurinn settur á og pabbi hlustaði á hann þrisvar sinnum og var mjög hrifinn.  Mamma var líka hrifin en hún fór inn og lagði sig eftir fyrstu umferð en ég er nokkuð viss um að hún hlustaði áfram.

18.7.15

Vííí, helgi og það er gott veður

Bankaði og opnaði svo hjá Oddi Smára rétt upp úr sex í gærmorgun til að athuga hvort hann væri enn ákveðinn í að koma með mér í morgunsund. Ungi maðurinn var frekar þreyttur og ég dreif mig ein í Laugardalinn milli hálfsjö og sjö. Synti aðeins 200 en fór tvisvar í kalda pottinn, fyrst í 2 mínútur og svo í 3 mínútur og á milli ferða í 42°C pottinn, á eftir seinna skiptinu í sjópottinn og svo endaði ég smástund í gufunni og 3 mín. í útisetur áður en ég þurfti að fara upp úr. Hringdi í einkabílstjórann þegar ég var að ljúka við að klæða mig og hann var tilbúinn á horninu og fór á lánsbílnum heim eftir að ég hafði skutlað mér í vinnuna.

Eftir vinnu rölti ég upp á Laugaveg, hringdi nokkur símtöl, naut veðursins og var svo mætt í Smekkleysu nokkru fyrir fimm en Þöll og börnin hennar voru með smá gigg þar í tilefni af útgáfu disksins hennar Lend Me Your Shoulder. Brynja vinkona mætti líka þangað og tók fullt af myndum eins og kvöldið áður á einkatónleikunum. Eftir að hafa, spjallað, hlustað, spjallað meira og faðmað mússíkantana gengum við Brynja aftur út í veðurblíðuna.  Settumst um stund inn á Kaffi Tár og spjölluðum margt og mikið yfir kaffibollunum um stund. Á eftir röltum við í rólegheitunum þangað sem hún hafði lagt bílnum sínum.  Meira spjall á röltinu og í bílnum.  Alltaf jafn yndislegt að eiga stund og gott spjall með henni og við ætlum að vinna í að fjölga þessum stundum.  Við kvöddumst fyrir utan heima á áttunda tímanum. Strákarnir voru á spilakvöldi og ég notaði tímann til að setja inn minningar í máli og myndum.

17.7.15

Tónleikar

Allt að verða tilbúið. Þöll kynnir Emil son sinn sem tók tvö eigin lög til að hita upp. Elísa situr "baksviðs" og Ofur Baldur frammi í eldhúsi alveg tilbúinn að spila undir á hljómborð fyrir Þöll.


Dóttirin/systirin, Elísa, syngur með í laginu um fuglinn.







                         Jóhanna Rut, dóttir æskuvinkonu Þallar spilar á fiðlu í einu laginu.


                               Síðasta myndin er tekin í Smekkleysu seinni partinn í dag!



Myndir

Þöll og ég eftir útgáfutónleikana hennar í Hvolnum sl. laugardagskvöld.



Þrjár seinni myndirnar eru fyrir og eftir gigg!


Engin sundferð í gær

Labbaði í vinnuna í gærmorgun og fór mun hefðbundnari leið heldur en morguninn áður. Það var í mörg horn að líta í vinnunni enda var klukkan orðin fjögur áður en ég vissi af. Reyndar varð mér litið á klukkuna tíu mínútum áður og ákvað þá að slá á þráðinn og biðja "einkabílstjórann" um að sækja mig. Bað hann um að skutla mér beint á bókasafnið í Kringlunni þar sem ég skilaði einu bókinni sem ég var með eftir í láni, hafði ekki getað framlengt skilafrestinn því bókin var í pöntun eins og ég gat um í gær. Í þetta sinn ákvað ég að fara alveg tómhent heim.

Heima fór ég fljótlega að hugsa fyrir kvöldamatnum. Við mæðginin borðuðum um hálfsex og þá hafði ég smá tíma til að slaka á áður en ég fór að undirbúa mig undir kvöldið. Skipti svo um föt og tók til það sem ég hafði lofað að koma með til að bjóða upp á með og á eftir gigginu sem var framundan. Einkabílstjórinn skutlaði mér vestur í bæ um hálfsjö. Norska vinkona mín var á fullu að undirbúa móttöku gesta og tónlistafólks. Dóttir hjónanna sem stofnuðu Tónlistaskóla Rangæinga er að gefa út geisladisk með eigin efni um þessar mundir. Útgáfan var styrkt úr sjóði á vegum Karolina Fund en áður en verkefninu var hrint í framkvæmd þurfti hún að safna styrkjum upp í helmings áætlaðs kostnaðar við útgáfuna á ákveðnum tíma. Þetta tókst hjá henni, sem betur fer. Ég játa það hér og nú að ég var ein af fjölmörgum sem lögðum lóð á vogarskálarnar og fyrir það framlag mitt fékk ég m.a. að halda einkaútgáfutónleika. Ég var reyndar efins um að svona heimatónleikar væru framkvæmanlegir í minni íbúð og datt í hug að spyrja norsku esperanto vinkonu mína hvort hún og þá þau fjölskyldan gætu hugsað sér að halda svona heima hjá sér.  Og viti menn, tveim dögum eftir að ég spurði hafði hún samband við mig og gaf jákvætt svar.  Það var fyrir ca tveimur mánuðum eða svo. Við settum dæmið þannig upp að við mættum báðar bjóða gestum á giggið. Þegar ég mætti til hennar í gærkvöldi var hún langt komin með undirbúninginn og bæði maður hennar og dóttir þeirra hjálpuðu til. Vinkona mín var m.a. búin að baka fimm mismunandi tertur, skera niður vatnsmelónur, raða upp stólum í stofunni og fleira og fleira.

Um hálfátta mætti tónlistakonan með börnin sín tvö, 13 dóttur og 17 ára son.  Nokkru seinna kom æskuvinkona hennar með sína 17 ára dóttur, sem spilar á fiðlu í einu laginu og síðastur mætti Ofur Baldur með hljómborðið.  Um það leyti sem hann kom voru gestirnir einnig byrjaði að skila sér.  Því miður urðu nokkur afföll af þeim sem við buðum en það er eins og gengur gerist á þessum tíma, allir á ferð og flugi.  Það var amk sæti fyrir alla í stofunni. Sonurinn, sem spila á gítar, byrjaði á tveimur lögum með eigin efni til að hita upp fyrir mömmu sína og svo fluttu þau öll tíu lögin af disknum, dóttirin söng með í einu lagi og stemmingin var bara mögnuð allan tímann.  Ég fékk að velja aukalagið í lokin.  Á eftir var öllum boðið að gjöra svo vel og fá sér af glæsilegum veitingunum og njóta samverunnar eitthvað aðeins áfram.  Það var smellt fullt af myndum og margar voru teknar úti á sömu svölum og ég tók núverandi prófíls mynd á Facebook fyrir uþb hálfum mánuði, með Snæfellsjökul í baksýn. Mikið er ég heppin að eiga svona frábæra og yndislega vini og það voru allir sammála um að þessi viðburður hefði verið alveg magnaður.

16.7.15

Gengið í vinnuna

Fékk mér góðan hálftíma göngutúr í vinnuna í gærmorgun og reyndi að velja leið þar sem var lítil sem engin umferð amk einhvern part af leiðinni.  Vinnudagurinn flaug hratt sína leið og skiptist upp á milli daglegra venjulegar verka og svo annarra verka sem ekki þarf að vinna daglega að.  Hluti af síðar nefndu verkefnunum stóðu eingöngu upp á mig svo ég ákvað að leyfa samstarfsfólki mínu að fara aðeins fyrr út úr húsi.  Ég var til klukkan fjögur og fékk þá einkabílstjórann til að sækja mig.

Við Oddur Smári rákum nokkur erindi á leiðinni heim og þar sem þeir bræður voru á leið til pabba síns um kvöldið þurfti ég ekki að hugsa fyrir neinum sérstökum kvöldmat.  Tók mig bara til og dreif mig í sund og kaldapottsdýfingar um sex svo ég gæti lánað bræðrunum lánsbílinn upp úr klukkan sjö.

Kvöldið var svo alveg jafn fljótt að líða og allur dagurinn. Það kom í ljós að ég gat ekki framlengt skilafrestinum á síðustu bókinni af safninu þar sem búið var að panta hana.  Ég gerði samt þau mistök að lesa aðeins í henni í gærkvöldi vitandi það að ég hefði engin tök á að ljúka við að lesa hana áður en ég þyrfti að skila henni. En koma tíma og koma ráð.

15.7.15

Síðdegissund

Hugurinn og kroppurinn vöknuðu nokkru áður en vekjarinn átti hringja og voru meir en tilbúnir í að drífa morgunverkin af og skella sér í laugina og pottadýfingar.  Var mætt í Laugardalinn þegar opnaði á slaginu klukkan hálfsjö.  Byrjaði á því að synda áður en ég kom mér vel fyrir í kalda pottinum. Skemmtilega konan sem er búin að stunda þessar pottadýfingar mun lengur en ég var á svæðinu en það var ekki fyrr en í þriðju ferðinni minni sem við náðum að stilla okkur þannig af að við vorum samferða ofan í kalda pottinn og sátum þar báðar í tvær mínútur og spjölluðum.  Fram að því var  þetta meira eins og pottaeltingaleikur, hún að fara upp úr þegar ég var að koma ofan í.  Ég á enn eftir að spyrja þessa ágætu konu að nafni og þá segja henni mitt en ég komst að því í gær að hún er dönsk en hefur búið hér á landi í yfir þrjátíu ár.

Þegar ég var að klæða mig eftir sundið hringdi ég í einkabílstjórann þannig að hann var tilbúinn að setjast inn í bíl þegar ég renndi við heima og keyrði svo heim eftir að ég hafði skutlað mér í vinnuna. Vinnudagurinn leið þónokkuð hratt og skiptist í meira verklegt fyrri partinn og andlegt eða huglægt seinni partinn.

Strax upp úr fjögur, eftir vinnu, fór ég og skilaði þremur bókum af fjórum á Borgarbókasafnið í Grófinni, aðalsafnið. Ein af þessum bókum var úr því safni og komin á tíma.  Hinar tvær voru úr Kringlusafninu eins og sú sem ég var og er enn með heima og byrjaði að lesa í gærkvöldi. Labbaði heim og komst að því að hér var búið að ákveða spilakvöld og engin þörf á að hugsa um neinn kvöldmat. Klukkan var fimm og ég ákvað að fleygja mér aðeins og hlusta á fimm fréttir.  Vissi næst af mér um hálftíma seinna, alls ekki viss um hvað var að frétta.

14.7.15

Morgunsund

Var mætt í Laugardalinn rétt upp úr hálfsjö í gærmorgun. Synti 400 og stundaði svo "dýfingar" í kalda og heita potta til skiptis með ágætis félagsskap. Fór þrisvar sinnum tvær mínútur í kalda pottinn, einu sinni nokkrar mínútur í sjópottinn, tvisvar sinnum nokkrar mínútur í 42°C pottinn, smá stund í gufuna og var komin í vinnuna korter fyrir átta enda fór ég á lánsbílnum.

Eftir vinnu rak ég nokkur erindi. Bauðst til að skutla smá varahlut á einn stað, kom við í fiskbúðinni við Skipholt, skrapp örstutt til frænku minnar og nöfnu í Garðabænum og hringdi í og spjallaði aðeins við tvíburahálfsystur mína.

Kvöldið var öllu rólegra, imbagláp, netvafr og lestur.

13.7.15

Ný vinnuvika

Átti allan gærdaginn og aðeins fram á kvöld á Rangárvöllunum. Glaðvaknaði um átta og þar sem ég þóttist heyra í pabba mínum að borða morgunmatinn sinn dreif ég mig á fætur til að ná að setjast aðeins niður og borða með honum.  Það var notalega stund en hann fór reyndar fljótlega að leggja sig. Ég settist þá með bók og saumana mína inn í stofu næsta klukkutímann eða svo áður en ég kveikti á tölvunni og vafraði smá stund um á netinu.  Upp úr klukkan tíu fékk ég þá hugmynd um að fá mér göngutúr upp að Helluvaði til að heimsækja föðursystur mína og var ekki lengi að framkvæma þessa hugmynd.  Stoppaði í góða klukkustund hjá frænku minni og höfðum við um margt að spjalla.

Eftir hádegi sló ég á þráðinn til eins frænda míns og konunnar hans til að athuga hvernig stæði á hjá þeim, hvort þau yrðu eitthvað heima til að taka á móti gestum einum eða fleirum. Þau hjónin voru búin að ráðstafa fyrripartinum af deginum en sögðust vera heima við seinni partinn. Nokkru seinna spurði ég foreldra mína hvort þau vildu slást í för með mér og fékk ég jákvætt svar frá báðum. Úr varð hin ágætasta ferð og skemmtilegur hittingur. Komum til baka upp úr klukkan hálfsjö. Ég stoppaði alveg til klukkan að ganga tíu en dreif mig þá í bæinn og hafði tíma og næga orku til að horfa á einn sjónvarpsþátt þegar ég kom heim áður en ég gekk til náða.

12.7.15

"Lánaðu mér öxl þína"

Dreif á fætur e-n tímann á áttunda tímanum þar sem ég var alveg glaðvöknuð. Undirbjó mig undir ferð í Laugardalslaugina en kveikti líka á tölvunni. Laugin opnar klukkan átta um helgar og ég var komin ofan í og byrjuð að synda milli klukkan hálfníu og níu. Síðan tóku við pottadýfingar og náði ég þremur ferðum í kalda pottinn og sat í honum milli 2-3 mínútur í hvert sinn. Fór í sjópottinn eftir fyrstu dýfuna og var í honum mun lengur en í kalda pottinum líklega næstum tíu mínútur. Eftir hinar tvær dýfurnar fór ég í 42°C gráðu heita pottinn og svo endaði ég í smá gufubaði og "sólbaði" áður en ég fór upp úr.

Var mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu og var hjá henni í góða tvo tíma og gerðum við ýmislegt til dundurs. Vorum meira að segja frekar duglegar í esperantoæfingum. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni og fyllti einnig á bílinn. Stoppaði smá stund heima áður en ég kvaddi bræðurnar og dreif mig í sveitina. Þeir máttu alveg koma með en voru uppteknir við annað. Kom á Hellu um fjögur, ákveðin í að gista um nóttina.

Stuttu fyrir níu um kvöldið var ég komin austur í Hvolsvöll í Hvolinn á útgáfutónleika Fridu Fridriks (Hjálmfríðar Þallar Friðriksdóttur) sem var að gefa út diskinn "Lend me your shoulder". Skemmti mér mikið vel.

11.7.15

Sund, pottadýfingar og fleira

Í gærmorgun var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sex, á undan vekjaraklukkunni. Dreif mig á fætur, sinnti morgunverkunum og tók mig til fyrir sundskreppu og vinnu. Var komin í Laugardalinn um það leyti sem opnaði. Byrjaði á því að synda. Síðan fór ég í kalda pottinn og var að fara ofan í um leið og önnur kona sem ég hef séð að tekur þessar pottadýfingar með trompi. Við tókum tal saman og áður en ég vissi af vorum við búnar að vera ofan í pottinum í tvær mínútur. Hún fór svo í 42°C heita pottinn í aðrar tvær mínútur á meðan ég fór í sjópottinn í nokkrar mínútur. Ég var komin ofan í kalda pottinn aftur stuttu áður en hún kom 4. ferðina sína þangað og ég var ákveðin í bíða í pottinum eftir að hún kæmi aftur. Sat meira að segja um stund með henni í pottinum og er nokkuð viss um að ég hafi næstum náð þremur mínútum ef ekki bara alveg.

Líklega hefði ég haft tíma til að skila bílnum heim og skunda hratt í vinnu til að vera mætt þar um átta en ég var ekki í stuði til að göngusvitna og vildi heldur ekki vekja einkabílstjórann svo ég ákvað að fara á lánsbílnum og var mætt nokkru fyrir átta. Vinnudagurinn leið hratt og það náðist að ljúka daglegum verkefnum frekar snemma. Samt var nóg að sýsla við eitt og annað og áður en ég vissi af var klukkan að verða fjögur.

Fór beint heim og gekk frá sunddótinu. Hringdi og spjallaði aðeins við mömmu, kveikti á tölvunni m.a. til að setja inn færslu gærdagsins um fyrradaginn. Um hálfsex var ég mætt í Kristu Quest þar sem Nonni hafði hendur í hári mínu. Já, það eru virkilega liðnar sex vikur síðan ég var þar síðast á ferðinni. Á eftir ákvað ég að skreppa á Saffran og fá mér að borða. Strákarnir voru með spilakvöld og voru búnir að gera aðrar ráðstafanir svo ég lét undan skyndihugdettu og löngun.

10.7.15

Föstudagur enn á ný

Vikurnar æða áfram, alltaf nóg að gera en ég passa vel upp á að eiga rólegar stundir inn á milli. Í gærmorgun fékk ég leyfi til að mæta í vinnu klukkan tíu. Byrjaði því morguninn, eins og morgnana tvo á undan, á því að skreppa í Laugardalinn og stunda sund, pottadýfingar og gufu og gefa mér góðan tíma í þetta. Fór heim með sunddótið og fór fljótlega labbandi í vinnuna. Aðeins var unnið til klukkan fjögur og þar sem við vorum búin með allt sem hægt var að framleiða og pakka rétt fyrir þrjú var tími til að skella í vöfflur og fara öll saman í kaffi. Við vissum þetta í tíma og ein úr kortadeildinni fór fram um tvö til að undirbúa þetta.

Á heimleiðinni kom ég við hjá skóaranum við Grettisgötu þar sem ég ætlaði að láta gera við vetrargönguskóna.  Skórnir voru dæmdir ónýtir nema ég vildi eyða hátt í þrjátíu þúsund í viðgerð. Átti afar skemmtilegt spjall við þá sem var að vinna þarna í gær og fékk góðar ráðleggingar varðandi gönguskóakaup áður en ég hélt áfram göngunni heim á leið.

Við krossgöturnar við Snorrabraut og Bústaðaveg ákvað ég að fara yfir brúna og í áttina að Valsheimilinu tið að fara undir brúna og koma upp við endann á Eskihlíðinni. Rétt áður en ég var komin til að fara undir brúna kastaði á mig kveðju skólabróðir minn úr grunnskóla, Baldur nokkur Þórhallsson. Hann var á leið í Krossfit í Skeifunni, hjólandi og stoppaði aðeins til að spjalla.  Ég byrjaði auðvitað á því að fá að faðma hann og tilkynna honum að mér hafi verið ætlað að hitta hann því ég fer þessa leið heim afar, afar sjaldan. Þetta var í það minnsta skemmtilega tilviljun og við spjölluðum í nokkrar mínútur áður en við héldum för okkar áfram.

9.7.15

Tíu til sextán í dag

Var örlítið seinna á ferðinni í Laugardalinn í gærmorgun heldur en á þriðjudagsmorguninn en ég var komin ofan í rúmlega hálfátta og synti 500 m á í kringum tuttugu og tveimur mínútum, semsagt rétt rúmlega rólega. Líkt og morguninn áður dýfði ég mér svo ofan í kalda pottinn þrisvar sinnum og skrapp í sjópott, gufu og sturtu á milli dýfinga. Hitti tvær úr KÓSÍ þegar ég var að koma upp úr. Gaf mér góðan tíma til að bera rakakrem á kroppinn eftir sundið en ég er ekkert að bera á mig á hverjum degi, reyni að halda mig við einu sinni í viku regluna, sérstaklega ef ég fer í sund á hverjum degi. Hafði aðeins tíma til að ganga frá sunddótinu og taka mig til fyrir vinnuna þegar ég kom heim áður en ég trítlaði af stað.

Ein úr hópnum gifti sig sl. laugardag og kom í vinnu aftur í gær eftir örstutt frí. Við færðum henni pakka frá K1 og nokkrum fleirum í hádeginu og skemmtum okkur vel við að fyljast með henni opna stærðarinnar kassa fullan af bóluplasti, smá grjóti sem var borðskreyting á einni árshátíðinni í denn, mynd af kitcheaid hrærivél, 2 flata pakka með sitt hvorum 1000 kr og í 10 svipuðum pökkum voru "Ragnheiðar-seðlar".  Við náðum semsagt að safna 52000 kr upp í hrærivél sem við vitum að hana langar í. Tók nokkrar myndir af þessu tilefni og setti tvær af þeim á Facebookvegginn.

Ég og önnur til sem líka mætti klukkan tíu í gærmorgun unnum til sex og urðum svo samferða smá spöl eftir Laugaveginum, næstum alla leið á Hlemm þó. Þar skildu leiðir og hélt ég áfram fótgangandi Rauðarárstíginn, Klambratúnið og Lönguhlíðina. Davíð Steinn var búinn að stinga matnum í ofninn, lasanja, þegar ég kom heim. Hann var líka búinn að sinna ýmsum öðrum heimilisverkum svo ég gat eiginlega bara haft það náðugt.

Gaf mér tíma til að sauma út seinna um kvöldið og horfði einnig eitthvað á imbann.

8.7.15

Tíu til átján tvo daga í röð

Dreif mig í Laugardalslaugina rétt upp úr sjö í gærmorgun. Synti 300, dýfði mér í kalda pottinn í nokkrar sekúndur (alveg upp að hálsi) og settist skömmu síðar í sjópottinn um stund sem virkaði mun heitari en 40°C. Tíu mínútum síðar dýfði ég mér aftur ofan í kalda pottinn og taldi upp í fimmtán áður en ég fór upp úr aftur. Skrapp svo í gufuna um stund, settist svo út á bekk og var eiginlega á leið inn nokkru síðar þegar mér snérist hugur. Fór í aðra sturtuna sem er við gufuklefann og dýfði mér svo enn einu sinni í kalda pottinn.  Mikið var þetta hressandi. Þegar ég kom heim um hálfníu uppgötvaði ég að ég hafði ekki tekið með mér húslyklana.  Hringdi í annan soninn sem skrapp rétt fram úr herberginu sínu til að hleypa mér inn.  Þremur korterum síðar lagði ég af stað gangandi í vinnuna, alveg mátulega til að mæta þar rétt fyrir tíu. Við vorum tvær af fimm sem mættum á þessum tíma og vorum að vinna alveg til sex.  Tvær af hinum höfðu mætt klukkan sjö og gátu farið heim um þrjú í staðinn og sú fimmta vann frá átta til fjögur.  Svona náðum við að láta vélina ganga miklu betur og lengur og vinna nokkuð stóru "fjalli".

Kom  heim rétt fyrir sjö og voru þá bræður og tveir vinir þeirra byrjaðir í spila-session í holinu. Ég fékk að leggja undir mig stofuna að vild og tók þar m.a. fram saumana mína og horfði einnig m.a. á Reign og Gárur á vatninu.

7.7.15

Þrisvar sinnum í kalda pottinn í morgun

Þar sem ég þurfti nauðsynlega að reka nokkur erindi strax eftir vinnu í gærmorgun notaði ég lánsbílinn til að flytja mig yfir á vinnustaðinn stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Já, ég hafði líka tekið að mér að mæta aðeins fyrr til að geta látið vélina ganga lengur og vinna þar með niður smá endurnýjunarfjall. Þessi áætlun gekk þokkalega upp. Var leyst af í kaffi um tíu og um hálfellefu ákváðum við að hafa stuttan fund þar sem allir voru mætti en tvær höfðu tekið að sér að vinna frá tíu til sex. Ég átti var svo búin að vinna um þrjú og dreif mig þá í að reka erindin mín.

Var komin heim um fjögur en stoppaði aðeins í tæpa klukkustund áður en ég trítlaði með afmælisgjöfina frá KÓSÍ til organistans í óháða sem varð fertugur í gær.  Af því tilefni buðu hann og konan hans okkur og nokkrum fleirum í veislu milli fimm og sex. Við komum mörg að á sama tíma og áttum mjög skemmtilega stund með afmælisbarninu og fjölskyldu hans.  Eldri dóttirin hafði reyndar fengið að skreppa til vinkonu en sú yngri naut þess þá bara að fá alla þessa athygli og var dugleg að sýna okkur dótið sitt.

Kom heim aftur um hálfsjö og tók til léttan kvöldverð handa okkur mæðginum. Annar tvíburinn gekk frá á eftir og fór svo í sund með nokkrum vinum. Ég sat með saumana mína í stofunni milli klukkan hálfátta og tíu og horfði m.a. á Dicte.

6.7.15

Helgin gerð upp

Ég setti inn færslu gærdagsins um laugardaginn þegar ég var í heimsókn hjá foreldrum mínum í gær. Gaf mér bara stuttan tíma í að setja inn færsluna og sleppti því að segja frá því að ég mætti í Háteigskirkju stuttu fyrir sex til að verða vitni að því þegar ein sem er búin að vinna með í bráðum tíu ár gifti sig manni sem hún er búin að vera með í amk átta ár. Mikið sem þetta var falleg athöfn og skemmtileg. Ég sé alls ekki eftir því að hafa spurt hvort ég mætti koma í kirkjuna og gefið mér tíma til þess.

Þegar ég vaknaði í gærmorgun fann ég skilaboð frá Oddi Smára um að vekja sig í tíma svo hann kæmist með í skreppuna austur. Ég skrifaði á miðann að ég ætlaði fyrst að skreppa í sund, svona ef hann skyldi nú vakna sjálfur eitthvað fyrir tíu.  Var komin ofan í laugina upp úr hálfníu. Synti 500 m og ákvað svo að prófa 5-8°C pottinn. Ég komst ofan í hann, settist í ca 3 sek þannig að ég var ofan í alveg upp að hálsi. Sjópotturinn virkaði afar heitur eftir þessa köldu dýfu.

Vakti einkabílstjórann þegar ég kom heim rétt fyrir tíu. Bankaði upp á hjá hinum syninum til að láta hann vita að hann yrði einn heima en hann var með aðrar áætlanir í gangi heldur en að skreppa austur fyrir fjall. Við hin mæðginin gerðum gott, tveggja tíma, stopp í Fossheiðinni á Selfossi áður en héldum förinni áfram austur á Hellu. Vorum á Hellu aðeins framyfir kvöldmat og náði ég að spjalla við báða foreldra mína og sauma út alveg slatta.  Oddur lagði sig eftir kaffið svo hann fékk að keyra heim í fyrsta skipti og fórst það vel úr hendi.  Hann er allur að koma til enda skapar æfingin meistarann.

5.7.15

Skreppitúr

Ég stillti ekki á mig neina klukku í gær en var vöknuð nokkuð snemma. Hafði tíma til að vafra aðeins um á netinu eftir að hafa sinnt morgunstörfunum. Fyrir vikið drógst það aðeins að ég drifi mig í sundið. Laugardalslauginn opnar klukkan átta um helgar en ég var komin fyrir utan um níu og byrjuð að synda ellefu mínútum yfir. Synti 500 metra á tuttuguogeinni mínútu, fór í sjópott og gufu og að sjálfsögðu sat ég úti um stund áður en ég fór upp úr aftur. Þrátt fyrir að ég gæfi mér góðan tíma í sturtu og snurfusi var ég komin til norsku esperanto-vinkonu minnar upp úr hálfellefu, nokkru fyrir áætlaðan tíma. Hún tók fagnandi á móti mér og við gátum m.a. setið úti á svölum um stund. Stoppaði í tæpa tvo tíma og fór kom svo við í Krónunni við Granda áður en ég fór heim. Afgangurinn af deginum fór í ýmislegt og náði ég m.a. að taka upp saumana mína og sauma alveg helling að mér fannst.

4.7.15

Morgunstund

Klukkan var ekki orðin sex þegar ég vaknaði í gærmorgun, aðeins á undan áætlun en þó fannst mér þetta vera góður tími. Var ekkert að drolla í rúminu heldur sinnti morgunverkunum og tók mig til fyrir sundferð og vinnu. Ætlaði mér að vera komin í Laugardalinn um það leyti sem opnaði eða hálfsjö. Það munaði ekki miklu eða ca tíu mínútum. Var komin ofan í laug korter fyrir og synti í tæpar fimmtán mínútur sem reyndust 7x50, 350m svo ekki synti ég mjög hratt. Fór bæði í sjópottinn og gufuna á eftir og gaf mér einnig tíma til að sitja úti um stund áður en ég fór upp úr. Þar sem ég hafði gleymt dálitlu mikilvægu heima fór ég og sótti það og gekk frá sunddótinu í leiðinni. Var samt mætt í vinnuna fimm mínútum fyrir átta. Það er mikið að gera þessa dagana og sjaldan laus stund. Við gáfum okkur þó tíma til að setjast örstutt niður upp úr hádeginu og funda og ákveða smá um næstu viku. Hafði verið í bréfaskriftum við yfirmanninn sem er með skrifborð í K2.  Held að það hafi orðið einhver misskilningur á milli okkar, alveg í góðu samt, því hún kom um tvö til að halda með okkur annan stuttan fund. Það var eftir á að hyggja líka alveg ágætt. Ég fékk smá tíma til að klára smávegis varðandi reikningagerðina en þar eru enn örfá mál útistandandi sem ég varð að láta bíða til mánudags.

Fékk að fara stuttu fyrir fjögur til að ná í banka til að sinna mikilvægu erindi sem varða önnur gjaldkerastörfin sem ég hef með að gera. Mikið var að gera í bankanum og klukkan var næstum orðin hálffimm þegar ég fékk afgreiðslu. En það var í góðu lagi mín vegna því ég var bara á leið heim með viðkomu hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg til að nýta mér 13 kr. afsláttinn. Kom heim rétt á undan "búðarmanninum" sem var á millivakt milli eitt og fimm í gær. Búið var að ákveða spilakvöld hérna í gær og ákváðu bræðurnir og vinirnir að gera sér smá dagamun og skreppa saman út að borða. Byrjuðu á því að setja upp spilið og spila í um klst. og skruppu svo frá í þrjú korter. Svo var spilað til klukkan að ganga tólf og var oft mikið hlegið.

Ég fékk að hafa stofuna útaf fyrir mig, bjó mér til smá kaffi, var með bók og saumana til hliðar og horfði á smávegis í imbanum.

3.7.15

Búin að lesa bókina

Fjórða daginn í röð fór ég gangandi í vinnuna. Verkin voru unninn í aðeins öðruvísi röð eftir klukkan tíu og þegar allir voru farin upp úr fjögur ákvað ég að vera aðeins lengur og sinna mánaðamótauppgjörinu aðeins betur. Hringdi í einkabílsstjórann og bað hann um að sækja mig um hálfsex og hann kom á svipuðum tíma og ég labbaði út af vinnustaðnum. Notaði kvöldið í útsaum, smá imbagláp og netvafr og var komin upp í rúm um hálfellefu með bókina sem ég gat um í færslu gærdagsins. Náði að lesa í um tuttugu mínútur en þá fannst mér skynsamlegast að láta undan þreyttum huga og líkama, biðja bænirnar mínar og svífa svo inn í draumalandið.

2.7.15

Bráðum helgi aftur

Færslan í dag verður örstutt um gærdaginn. Fór gangandi í vinnuna. Erilsamt og hálfreytandi ástand í vinnunni. Hætti vinnu rúmlega fjögur. Hringdi í Lilju vinkonu til að athuga hvort hún væri heima, sem hún var. Lét strákana vita og bað einkabílstjórann um að koma og sækja mig um hálfsex. Þessi tæpi einn og hálfur tími hjá Lilju leið afar hratt og höfðum við báðar um margt að spjalla þrátt fyrir að hafa hist í saumaklúbb tveimur kvöldum áður.  Var sótt á þeim tíma sem ég óskaði eftir og fór beint í að sinna eldamennskunni er ég kom heim. Kvöldið var rólegt, lítið glápt á imbann, ekkert saumað en vafrað á netinu.  Fór snemma í háttinn og las um stund í nýjustu lánsbókinni: Náttblinda eftir Ragnar Jónasson. Ég verð ekki lengi að lesa hana nema ég muni ekki geta fundið tíma fyrir lestur í sólarhringnum.

1.7.15

Fyrsta færslan í júlí

Og að venju er þessi pistill aðallega um gærdaginn. Fór gangandi í vinnuna í gærmorgun. Ég átti að sjá um keyrslur, bókhald og undirbúning mánaðamótauppgjörs. Sú sem er búin að vinna hvað styst í deildinni kom úr stuttu fríi í gær og þar sem hún átti ekki að fara inn á vél fyrr en um tíu ákvað ég að leyfa henni að æfa sig keyrslum og bókhaldi þangað til, það var nóg að sýsla hjá mér hvort sem var og svo var ég henni innanhandar ef spurningar vöknuðu eða eitthvað var óljóst. Rétt fyrir ellefu hringdi ég í annan soninn sem ég vissi að væri á leið í ákveðið viðtal sem ég mun ekki greina meir frá hér að svo stöddu nema ég hringdi aftur í drenginn um tvö leytið til að fá að heyra aðeins frá þessu viðtali. Drengurinn er mjög opinn og jákvæður varðandi þetta mál og tekur þessu á léttu nótunum, en ég kýs samt að vera ekki að skrifa um það svona opinberlega, amk ekki á þessum vettvangi.

Vinnudagurinn leið hratt að venju og ég var ekki búin að ganga frá fyrr en klukkan að verða hálffimm. Þá skrapp ég yfir í Borgarbókasafnið í Grófinni, aðalsafnið og skilaði af mér fjórum bókum en ein af þeim var á síðasta útlánsdegi. Auðvitað rakst ég á eina bók sem ég varð að taka með mér í staðinn og hún er líka með tveggja vikna skilafrest. Svo hélt ég áfram för minni heim gangadi og fór tjarnar og "gömlu Hringbrauts" meginn við Skólavörðuholtið.  Hafði til kvöldmat um upp úr hálfsjö og stuttu eftir það komu tveir félagar strákanna, ákveðnir í að hafa spilakvöl. Ég sat inn í stofu með saumana mína og bækur og horfði einnig á imbann.