22.5.08

- Fimm dögum seinna -

Vortónleikar Drengjakórs Reykjavíkur, sem haldnir voru seinni partinn sl. sunnudag,tókust með miklum ágætum. Efnisskráin var skemmtilega uppsett hjá þeim. Þeir sungu m.a. þjóðsönginn, ýmis ættjarðarlög, kirkjulög og syrpu úr "Söngvaseið". Sumt var sungið án undirleiks en annars spilaði Lenka Mátéová undir á orgel eða píanó. Hljómurinn í strákunum er orðinn þvílíkt flottur. Nú eru þeir komnir í smá pásu en það á að vera ein æfing í vikunni áður en þeir fara út til Barcelona.

Ég varð frekar hissa þegar ég mætti á kóræfingu í gærkvöld. Var örlítið of sein fyrir og þeir sem voru mættir voru komnir inn í kirkju (var alls ekki síðust á æfinguna bara 5 mín of sein). Við píanóið sat Adda, sú sem stjórnaði okkur í fyrra, og var hún að leysa Kára af. Hún kemur líka til með að leysa hann af í messunni n.k. sunnudagsmorgun.

Á arkinu heim einn daginn í vikunni varð mér allt í einu hugsað til einnar mágkonu hennar mömmu og viti menn; fimm skrefum seinna mættumst við. Það var aldeildis óvenjulegt en mjög gaman þótt við gætum ekki stoppað lengi við.

Ætlaði að hafa fisk í kvöldmatinn og kom við í fiskbúðinni í Skipholtinu á heimleið í dag. Var ákveðin í að hamstra amk 3 tegundir af fiski til að eiga í nokkur mál og var hálft í hvoru farin að slefa af tilhugsuninni um ofnbakaða bleikju. En þegar ég kom að búðinni var hún lokuð vegna sumarleyfa og breytinga. Kosturinn við þennan krók var sá að ég gat skráð á mig rúman kílómeter aukalega á heimasíðu "hjólað í vinnuna". Leiðin í og úr vinnu í dag mældist 5,9 km.

17.5.08

- Eitt og annað, mismerkilegt -


Undanfarna daga og vikur hefur verið þokkalega "brjálað" að gera á öllum vígstöðvum og oft vildi maður helst geta verið á mörgum stöðum í einu. Flesta virka daga er ég komin á fætur fyrir hálfsjö og næ oft að komast yfir að gera ótrúlega margt áður en ég arka af stað í vinnuna. Þvottavélin okkar er með tímarofa, sem er bara snilld. Hægt að að velja um að byrja að þvo eftir þrjá tíma eða sex tíma. Set því stundum í vélina um tíu á kvöldin og stilli þannig að hún fari að þvo eftir sex tíma. Hengi upp úr vélinni að morgni og "fylli" jafnvel aftur á vélina og stilli á sama tíma. Þegar ég kem heim seinni partinn er vélin búin með þann skammt og þvotturinn á snúrunni löngu orðinn þurr.

Annars er ég nokkuð söm við mig, ég reyni alltaf að gefa mér tíma fyrir áhugamálin sama hversu brjálað er að gera í kringum mig. Það er t.d. mjög róandi að setjast niður með útsauminn í einn til tvo tíma á kvöldin. Reyndar kom smá saumapása hjá mér í vikunni en átti eina svona slökunarstund í gærkvöldi. Bækurnar eru heldur aldrei langt undan og í raun og veru eru þær of margar yfirleitt því þrátt fyrir að vera með náttborð með skúffu og skáp þá eru alltaf einhverjar bækur á gólfinu við rúmstokkinn. Það er samt ekkert sniðugt að "geyma" þær þar. Ég þarf eiginlega að fara að taka betur á þessum málum. Það er ekkert að því að vera að lesa margar bækur en það er hálf-draslaralegt að láta þær sumar liggja á gólfinu margra hluta vegna. T.d. er meiri vinna að þurfa alltaf að tína upp af gólfinu áður en það er sópað yfir það.

Gaf mér tíma til að skreppa í Sundhöll Reykjavíkur einn eftirmiðdaginn á heimleið úr vinnu. Hafði verið svo forsjál að taka sunddótið með mér um morguninn. Þegar til kom var ég ekki í neinu stuði til að taka sundtökin en ég nýtti mér heitu pottana og lét líða vel úr mér.

Á kóræfingunni á miðvikudagskvöldið rifjuðum við upp mörg af rödduðu lögunum sem við höfum æft í vetur og fengum eitt nýtt til skoðunar. Við komumst yfir helling af lögum því flest lögin sungum við bara á ú-i eða o-i til að rifja upp raddirnar. Það er bara betra og mér skildist á kórstjóranum að hann væri ánægður með hljóminn í kórnum. Raddþjálfunin í vetur hefur verið að skila sér vel en við eigum það samt til að "detta" í viðjar vanans og þá hverfur þessi ákveðni góði hljómur.

Góða helgi og farið vel með ykkur!

13.5.08

- Danssýning 6BH og "vinnutengd keiluferð" -


Kom við í Sunnubúð á leið heim og keypti Kappadrykki og kristal til að taka með upp í skóla. Davíð Steinn tók sér frí frá frjálsum til að horfa á danssýningu sem Odds bekkur var með um hálfsex. Sýndir voru nokkrir línudansar, diskódansar, dansar ársins 2005-2007, körfuboltadansinn og dansinn sem 6. bekkirnir æfðu sérstaklega til að sýna á jólaskemmtun fyrir yngri árgangana í desember sl. Sýningin tók um hálftíma og stóðu krakkarnir sig öll mjög vel, dönsuðu af innlifun og sungu stundum með grípandi textum. Danssýning 6HLE, (Davíðs Steins bekkur) var á mánudaginn var. Þau dönsuðu heldur fleiri dansa en ég get samt ekki gert upp á milli þessara tveggja sýninga. Oddur Smári komst ekki á þá sýningu því var í síðasta karatetímanum fyrir gráðun. (Hann telst nú, eftir gráðunina, vera kominn með heilt grænt belti)

Strax eftir danssýninguna skundaði ég upp í Keiluhöll þar sem ég hitti slatta af vinnufélögum og fleira bankafólki og spilaði tvo leiki, annars vegar á móti "blindum ósýnilegum konum" og hins vegar á móti stúlkum úr Glitni. Ég var ekki að standa mig eins vel og hinar í liðinu en skoraði þó hærra heldur en í keilukeppni sem ég tók við bekkjarsystur Odds Smára fyrir nokkru síðan. Hafði samt virkilega gaman að þessu og nú er bara spurning hvort maður ætti ekki að fara að kíkja reglulega í keilu aftur, eins og maður gerði hér á árum áður? Vorum fjórar sem sem kepptum en fimmta manneskjan tók að sér að vera í klappliðinu og meðhöndla meiðsli m.a.

Læt það fljóta með að n.k. sunnudag verða vortónleikar Drengjakórs Reykjavíkur haldnir í Hallgrímskirkju klukkan 17:00!

12.5.08

- Bíókvöld og skroppið í "sveitina" dagur -

Við fjölskyldan skruppum á níu-bíó í Kringluna í gærkvöldi og sáum Ironman með Robert Downey Jr. í aðalhlutverki. Ágætis afþreying, alls ekki of gróf fyrir strákana og góður húmör. Mér skilst svo að það komi önnur mynd um járnmanninn á næsta ári.

Helmingurinn af fjölskyldunni svaf út í morgun en upp úr tólf söfnuðumst við saman út í bíl og skruppum í heimsókn til pabba og mömmu á Hellu. Helga systir og fjölskylda voru búin að vera þar síðan á föstudagskvöld. Pabbi bauð upp á stærðarinnar læri um miðjan dag en svo fóru krakkarnir út í hól að leika sér, Helga og Ingvi "drógu" Davíð með sér að skjóta leirdúfur og ég sló margar flugur í einu höggi er ég kíkti í heimsókn á elliheimilið. Systkyni pabba voru að spila vist við tvær aðrar. Önnur þeirra er góð vinkona mín til margra ára en hún er móðir konunnar sem ég var hjá í sveit eitt sumar og part úr tveimur öðrum sem unglingur. Móðir mannsins úr sömu sveit er líka á elliheimilinu og hitti ég líka á hana.

11.5.08

- Hvítasunnudagur og mæðradagurinn -

Til hamingju allar mæður!

Söng við messu klukkan tvö í dag. Vorum ellefu í kórnum en að auki fékk kórstjórinn sópran söngkonu sem söng fyrsta sálminn og byrjaði fyrstu tvö versin af stólversinu (fyrsta sálmi eftir predikun); nr. 724 Leiftra þú sól. Kórinn hummaði undir í öðru erindi (í röddum að sjálfsögðu), söng það þriðja sér og fjórða erindið söng sópransöngkonan með okkur. Pétur Máté fyrrum organisti mætti í messu og sat svo með kórnum til borðs í viðarmiklum viðurgjörningi eftir athöfnina. Þrátt fyrir að ég sé búin að færa nammidagana yfir á sunnudaga lét ég mér nægja að fá mér smá kaffisopa. Annars hef ég dregið verulega úr kaffidrykkjunni og ég er ekki frá því að líkamsbjúgurinn haldist í betri skefjum þannig.

En Landsbankadeild karla byrjaði að rúlla í gær. Við gerðum okkur ferð til Keflavíkur, mættum fimm mínútum of seint og þá var staðan 2:0 fyrir heimamenn. Sáum hin sex mörkin en vorum reyndar alls ekki sammála vítaspyrnudómnum. Vonum bara að tap í fyrsta leik sé fyrir góðu en það er ljóst að Valsstrákarnir verða að passa vörnina betur og nýta þau færi sem gefast. Ég varð vitni að leiðinlegri framkomu tveggja Valsáhangenda eftir að Keflavík skoraði úr skyndisókn þar sem flestum stuðningsmönnum Vals sýndist markaskorarinn vera kolrangstæður þegar hann fékk boltann (hugsanlega var hann samt ekki alveg "sloppinn" í gegn þegar boltinn var sendur af stað til hans). Hvað um það, tveir áhangendur grýttu gosdós og gosflösku inn á völlinn. Sem betur fer tók formaður "Stuðaranna" strangt á málinu og tók það skýrt fram að svona ætti ekki að haga sér. Menn verða að kunna að taka mótlæti líka! Hvað um það, heimavöllur Valsara er ekki enn tilbúinn svo næsti leikur verður á Laugardalsvelli n.k. miðvikudagskvöld þegar þeir taka á móti Grindavík. Ég verð á kóræfingu og missi af leiknum.