27.2.20

Sundskróp

Ég var komin heim úr vinnu um fjögur og byrjaði á því að hella mér upp á kaffi, fyrstu tveir kaffibollarnir síðan á þriðjudaginn. Eftir að hafa fengið mér hressingu, hringt í pabba og spjallað einnig við strákana mína var rassinn á mér orðinn það þungur að mér hugnaðist ekki að fara út aftur og eiga eftir að sópa af bílnum. Fór frekar í þvottahúsið að setja í eina vél og ná í af snúrunum síðan í gær og hringdi svo 3 önnur símtöl. Lét samt kaldapotts vinkonu mína vita að ég ætlaði að skrópa í dag.

Við, kaldapottsvinkona mín, hittumst í sundi upp úr hálfsex í gær. Hún var komin aðeins á undan og var í sinni fjórðu ferð í þann kalda þegar ég mætti. Ég hafði ílengst í vinnunni til hálffimm og átti þá eftir að fara heim með strætó, bjalla í pabba og ná í sunddótið mitt. Þar sem ég var ekki komin heim fyrr en um fimm sleppti ég því að hella upp á.

Á þriðjudaginn var losnaði ég úr vinnunni um hálffjögur og fór beint út í landsbankaútibú í Austurstræti og sótti um rafræn skilríki í símann minn. Semsagt loksins búin að taka það skref til nútímans. Þetta gekk svo fljótt og vel fyrir sig að ég náði strætó, leið 13, frá Stjórnarráðinu ca 13 mínútum fyrir klukkan fjögur. Í gær notaði ég rafrænu skilríkin mín til að undirrita nýjan uppfærðan ráðningasamning við RB og gekk það eins og í sögu.

24.2.20

Enski boltinn, Liverpool að spila í kvöld

Gærdagurinn, konudagur, var innidagur hjá mér. Fór á fætur upp úr klukkan átta. Morguninn notaði ég m.a. í bloggskrif, prjónaskap og lestur. Hafði eitthvað verið að hugsa um að skreppa gangandi og mæta í tónlistarmessu kl.14 í óháðu kirkjunni en  rétt fyrir eitt byrjuðu sunnudagssögur og fyrri gestur dagsins var Þorbjörg Hafsteinsdóttir Ingveldardóttir og það var fróðlegt klukkutíma viðtal. Hlustaði á það og hélt áfram að prjóna. Rétt fyrir tvö fraus sjónvarpsrásin sem ég var að nota til að hlusta. Ákvað að slökkva og sökkva mér í bókina; Hefndarenglar eftir Eirík P. Jörundsson. Spennandi skáldsaga sem gerist m.a. á Súðavík og Ísafirði. Náði að klára þessa bók í gær.

Skellti mér í vöfflugerð fljótlega sem við mæðginin gæddum okkur á um fjögur. Í kvöldmatinn bjó ég til kjötbollur. Bræður voru nokkuð sáttir með það en annar þeirra benti mér þó á að það væri ekki bolludagur.

Var frekar hissa þegar vekjaraklukkan fór í gang kl. 6:42 í morgun, þá búin að sofa í einum dúr í uþb 7 tíma. Var mætt í vinnu klukkustund síðar. Öllum verkum dagsins var lokið stuttu fyrir þrjú og þá máttum við fara heim. Er heim kom byrjaði ég á því að hella mér upp á kaffi og fá mér smá hressingu áður en ég hringdi í pabba. Var komin í Nauthólsvík upp úr klukkan hálffimm og fór tvisvar í sjóinn. Hitti ekki sjósundsvinkonu mína en þegar ég var í seinni ferðinni í sjónum mætti skólasystir mín úr grunnskóla. Ég fór upp úr sjónum á undan henni en við sátum svo góða stund og spjölluðum í heita pottinum á eftir.

23.2.20

Síðasti sunnudagur febrúar hafinn

Ég skrapp í Lífsspekifélagið á erindi milli átta og níu á föstudagskvöldið. Tók þristinn frá Miklubraut við Klambratúnið um hálfátta. Stuttu áður en strætó kom vatt sér að mér spænsk kona sem byrjaði á því að spyrja hvort ég talaði ensku og hvort hún myndi komast að Hörpu ef hún tæki næsta strætó frá þessu skýli. Einnig spurði hún mig hvort hægt væri að borga fargjaldið með kreditkorti. Ég játaði fyrri tveimur spurningunum en neitaði þeirri þriðju. Fékk hana til að þiggja af mér 500kr. sem var rétt rúmlega fyrir fargjaldinu og svo urðum við samferða í þristinum alveg að MR þar sem ég fór út. Erindið í félaginu var um Martínus og var nokkuð áhugavert. Hátt í 40 manns mættu. Ég gaf mér ekki tíma til að fara upp í kaffi og spjall á eftir heldur dreif mig heim til að horfa á dr. Martin. Davíð Steinn var að vinna langt fram á kvöld og Oddur var í starfsmannateiti sem byrjaði á RoadHouse við Snorrabraut og færðist svo í heimahús í Breiðholti. Ég lánaði honum bílinn.

Þegar ég kom fram stuttu fyrir klukkan átta í gærmorgun beið mín miði á borðinu frá Oddi um að bíllinn væri í næstu götu, að hann væri smá tjónaður og Oddur væri miður sín. Hliðarspegillinn farþegameginn var horfinn, aðeins smá tætlur og svo hangandi pera stefnuljóssins sem virkaði reyndar ennþá. Mér fannst pínu kjánalegt að keyra bílinn svona en fór samt á honum í sund og esperantó og lánaði bræðrunum hann seinni partinn til að þeir kæmust á smá þorrablót til föðurforeldra sinna. Ég setti Oddi fyrir það verkefni að komast að því hvort til væri spegill á bílinn í umboðinu, hvort hægt væri að fá hann settann á sem fyrst og hvað það kostaði. Slys gerast, það eina sem ég var ekki alveg nógu hress með varðandi atvikið á bílnum að ungi maðurinn stoppaði ekki þegar hann varð var við dynk eða skell þegar hann var að sækja einn félaga sinn í þröngri einstefnugötu vestur í bæ svo við vitum ekki hvort hann og þá hversu mikið hann tjónaði aðra eign. Ég tók þristinn aftur um hálfþrjú og hitti tvær vinkonur mínar á öðru erindi um kenningar Martiníusar í félaginu í gærdag. Var komin heim aftur stuttu áður en bræðurnir lögðu af stað austur.

Hefði getað verið á árshátíð RB á Hótel Örk í Hveragerði frá klukkan fjögur í gær en það var nákvæmlega ekki neitt sem togaði í mig þangað. Skráði mig ekki á viðburðinn og er nokkuð viss um að ég muni ekkert sjá eftir því.

Hulda systurdóttir mín varð tvítug í gær 22.02.2020.

21.2.20

Helgarfríið byrjað

Á miðvikudaginn kom ég heim úr vinnu um hálffjögur. Byrjaði á því að hella mér upp á kaffi og var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að skreppa í sund eða sjóinn. Pabbi átti svar við þessum vangaveltum og spurði mig, þegar ég hringdi í hann og velti þessu upp, hvort þetta væri sjósundsdagurinn minn? Hann veit sem er að ég fer aðeins einu sinni í viku í sjóinn og þá alltaf á mánudögum. Það var líka alveg kominn tími á sund, ekki farið í sund síðan sl. sunnudag. Var mætt í Laugardalinn um hálffimm. Byrjaði á kalda pottinum og fór svo á braut 2. Hugsaði um það að prófa skriðsund síðustu 50metrana af 500 metrum. Geri þetta stundum en hef aðeins einu sinni náð alla leið yfir, ekki mjög dugleg við að æfa mig og satt best að segja svindlaði ég á mér þarna með því að synda aðeins 400 metra.

Í gær var klukkan að slá fjögur þegar ég kom heim. Hitaði mér kaffi, spjallaði við þann soninn sem var heima og hringdi í pabba áður en ég fór að huga að sundferð. Kom við á bókasafninu og skilaði þremur af sex bókum. Freistaðist í að taka eina bók í staðinn. Klukkan var orðin fimm þegar ég mætti til leiks og kalda pottsvinkona mín var í annarri ferðinni í þeim kalda. Ég fór með henni næstu fjögur skipti í kalt og heitt og ákvað svo að sleppa sundinu og enda í gufunni. Ég er semsagt oft að svindla á sjálfri mér.

Um tíu í morgun mætti framkvæmdastjóri rekstrarlausna RB í K1 "höfuðstöðvarnar" með köku ársins og Ragnhildur forstjóri kom skömmu síðar með omnom-súkkulaði handa okkur stelpunum, sérmerkt hverri og einni, í tilefni konudagsins n.k. sunnudag.

19.2.20

Austurferðin var yndisleg

Ég fór á bílnum út á flugvöll, lagði á góðum stað og sendi Oddi snapp um það. Ég var mætt í flugstöðina ca tíu mínútutum áður en byrjað var að bóka inn í vél eða tæpri klukkustund áður en hún fór í loftið. Tíminn leið hratt og flugið gekk vel, var þó heldur lengra en áætlað var eða klukkustund og sex mínútur, í stað 55 mínútna. Ella og Aðalsteinn biðu eftir mér og við þurftum ekki að bíða lengi eftir töskunni minni því hún var fyrst á færibandið. Aðalsteinn hafði skroppið í ríkið fyrr um daginn og keypti m.a. heila hvítvínsbelju sem mér var tjáð að ég mætti ganga í að vild. Hann sótti í fyrstu glösin handa okkur vinkonum en fékk sér sjálfur bjór. Í kvöldmat buðu þér mér upp á dýrindis afgang af hreindýrasteik með grænmeti og sveppasósu. Seint um kvöldið kíktu kunningjahjón þeirra frá Höfn í smá heimsókn. Voru á einhverju skralli og komu með leigubíl á svæðið en þurftu svo að labba til baka á hótelið í frekar erfiðu göngufæri.

Meðferðis í ferðalagið tók ég tvær bækur af safninu og eina af jólabókunum. Ég fékk svo einnig lánað smásögusafnið Tími til að tengja eftir Bjarna Hafþór Helgason sem kom út fyrir síðustu jól. Náði að ljúka við að lesa allar sögurnar á mánudaginn. Lauk einnig við Hvítadauða eftir Ragnar Jónasson og skildi þá bók eftir fyrir austan. Svo er ég langt komin með aðra af bókasafnsbókunum sem ég tók með mér Konan í klefa 10 eftir Ruth Ware. Ég tók líka með mér afganga af kambgarni og hringprjón og byrjaði á enn einu sjalinu, afgangasjali.

Á sunnudaginn fórum við þrjú í sund um hádegisbil í afskaplega fallegu veðri. Veðrið var svo gott að við sátum góða stund í sólbaði í vaðlauginni eftir hvert sína sund- og pottaiðkun. Ella var sú eina sem ekki fór í neinn pott, synti sína 300 m og fór svo beint í vaðlaugina. Ég byrjaði á kalda pottinum, synti í 15 mínútur, fór aftur í þann kalda og endaði svo í vaðlauginni. Aðalsteinn byrjaði í heita pottinum, synti í nokkrar mínútur, sat góða stund í vaðlauginni en þegar hann fór sína aðra ferð í heita pottinn og það var merki um að við stöllur ættum að "drífa" okkur upp úr. Valdís kom í stutt innlit á sjötta tímanum, með Hermann son sinn.  Einnig var hún með þríltan kettling sem hún var að fara að senda með flugi til nýrra eiganda. Mæðginin og kisan stoppuðu ekki nema stutta stund. Eftir kvöldfréttir á Stöð2 bauð ég vinum mínum út að borða á Salt. Aðalsteinn var bílstjórinn en við Ella fengum okkur hvítvínsglas með matnum.

Starfsdagur var í grunnskólanum á mánudaginn og Ella kom heim um tólf, þurfti aðeins að skila af sér sínum 50%. Við spiluðum 2 umferðir af scrabble, aðra um miðjan dag og hina eftir kvöldmat og vann ég báða leikina, þann fyrri með miklum mun. Kennsludagur var í gær. Ella var svo komin heim um hálfeitt eftir að hafa borðað hádegismat í skólanum. Um tvö skrapp hún í ræktina í ca hálftíma og þegar hún var búin að fara í sturtu og jafna sig skruppum við í búðina. Fljótlega eftir búðarferðina spiluðum við eina umferð í scrabble og að þessu sinni vann Ella. Mér var svo skutlað á flugvöllinn rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi og kvödd með virktum. Vélin fór í loftið 19:25 og lenti í Reykjavík 20:15. Þangað sótti Oddur mig.

15.2.20

Köld sturta

Allar sturtur í innibúningsklefum laugardalslaugarinnar voru kaldar í morgun. Ég var mætt í sund rétt upp úr klukkan átta. Fannst ekkert að því að fara í kalda sturtu áður en ég fór út í rútínuna; kaldur, 500m, kaldur, sjópottur, kaldur og gufubað. Sótti svo sjampóið mitt og stalst til að þvo á mér hárið í annarri sturtunni við gufuklefann áður en ég fór inn og skrapp í kalda sturtu. Hefði reyndar getað farið í sturtu í útiklefa kvenna en ég var ekki tilbúin til að þurfa að fara aftur í sundbolinn til að labba meðfram útilauginni og inn þar sem handklæðin mín, sem og "fata-dóta-skápurinn" var.

Úr sundi fór ég beint vestur í bæ í smá esperantohitting. Annars á ég bókað flug til Egilsstaða klukkan fjögur í dag. Ég var búin að bóka þessa ferð í janúar og hafði ætlað mér að ferðast létt þrátt fyrir að ætla að vera alveg fram á þriðjudagskvöld. Guggnaði á því og bætti við tösku í bókunina í gær, bæði héðan og þaðan. Til stóð að tvíburarnir færu í þorraboð til föðurfjölskyldunnar í kvöld en því var frestað vegna veðurs. Oddur er samt tilbúinn að hætta aðeins fyrr í vinnu í dag til að skutla mér í flugið. En hann er líka tilbúinn að sækja bílinn út á flugvöll seinni partinn eða í kvöld. Hann tók með sér aukabíllykla í vinnuna og ég þarf þá að muna að skilja eftir strætókortið hérna heima. Er ekki búin að ákveða hvora leiðina ég vel.

Er búin að lesa tvær bækur af sex af safninu og í gærkvöldi byrjaði ég á þriðju jólabókinni, Mannshvörf á Íslandi. Sú bók kom út fyrir jólin en það voru eiginlega mistök hjá mér að byrja að lesa hana því ég ætlaði aldrei að geta lagt hana frá mér, var búin að lesa 100 blaðsíður og klukkan langt gengin í eitt áður en ég gat með herkjum slitið mig frá lestrinum. Ætla að geyma bókina heima en taka með mér 4. jólabókina og tvær af safninu með mér austur.

Var heima allan daginn í gær skv. ákvörðun framkvæmdastjóra, en við úr kortadeildinni hættum ekki vinnu fyrr en klukkan hálfellefu á fimmtudagskvöldið var og vorum þá búnar að vinna upp megnið af föstudagsframleiðslunni. Ein af okkur vinnur bara til hádegis á fimmtudögum, er ráðin í 70% stöðu. Hún ákvað hins vegar að koma aftur um sjö og kom með tilboð fyrir fjóra frá Nings í leiðinni sem var alveg vel útilátið fyrir okkur allar fimm. Ég mætti í vinnu klukkan hálftólf þennan dag. Önnur af hinum fjórum skrapp í klippingu upp úr fjögur en kom aftur á sjöunda tímanum en þær voru tvær, fyrirliðinn og fyrrum fyrirliði sem voru í vinnunni frá því um hálfátta um morguninn til hálfellefu um kvöldið.

13.2.20

Færsla númer 2501

Var að koma heim úr morgunsundi. Mætti í Laugardalslaugina rétt rúmlega hálfsjö. Byrjaði þar á kalda pottinum í tvær og hálfa mínútu, synti 500 metra á 20 mínútum, fór aftur í þann kalda (gleymdi að taka tímann en ég var eitthvað lengur en í fyrri ferðinni), sat í gufunni í uþb 10 mínútur og fór í örstutt "sólbað" áður en ég dreif mig upp úr og heim.

Í gær var klukkan að verða sex þegar ég fór í sund. Hafði komið heim úr vinnunni um fjögur og var eitthvað að drolla. En ég dreif mig á endanum aðallega vegna þess að ég vildi ekki skrópa tvo daga í röð. Já ég skrópaði í sundið á þriðjudaginn var. Kom ekki heim fyrr en um sex og nennti engan veginn út aftur eftir kvöldmat. Ástæðan fyrir því að ég kom þetta seint heim var að um hálffjögur fórum við þrjár af fimm úr deildinni minni á Café Aleppó að hitta fyrrum samstarfskonu okkar. Hún og ein af okkur þremur voru ekki búnar að hittast í nokkur ár. Áður en við vissum af var klukkan farin að ganga sex. Hluti af leti minni varðandi sundskrópið var líka sú að ég var svo spennt fyrir þessum hittingi að ég svaf ekki nóg um nóttina.

Ég er búin að lesa jólabók númer tvö sem og skammtímalánsbókina. Og ég er byrjuð á safnbók númer tvö, Söru eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Þetta er hennar önnur skáldsaga en ég man að ég var mjög hrifin af fyrstu skáldsögunni hennar Tapað fundið.

Er annars að taka út styttingu vinnuvikunnar, hálfan dag í þessum mánuði. Mæti til vinnu um hálftólf á eftir og er búin að lofa mér að vinna þar til aukaverkefni dagsins sem og dk endurnýjun mánaðarins verður lokið svo kannski kem ég ekki heim fyrr en um og upp úr sjö plús/mínus klukkutími. En þangað til ég þarf að mæta ætla ég að nota tímann í lestur og afslöppun.

10.2.20

Óskar

Afmælismessan í óháðu kirkjunni í gær var mjög skemmtileg. Margt var um manninn eða amk 100 kirkjugestir. Ég var komin tíu mínútum fyrir klukkan tvö og fékk sæti hjá 4 fyrrum kórfélögum mínu og tvö önnur mættu og fékk annað þeirra sæti fyrir framan okkur en hitt fór upp á svalir. Guðni forsetti heiðraði söfnuðinn með nærveru sinni (fékk reyndar á slá lokatóninn í messuna um klukkan þrjú. Sr. Baldur Kristjánsson. sem var prestur yfir söfnuðinum í tvö ár á níunda áratugnum var með stólræðuna. Talaði blaðlaust og var hnittinn og skemmtilegur. Sr. Pétur, óháðikórinn og Kristján organisti skiluðu sínum hlutverkum með sóma. Og á eftir var boðið í veislu á báðum hæðum.

Klukkan var langt gengin í fjögur þegar ég lagði leið mína á bókasafnið í Kringlunni til að skila 4 bókum. Ekki tókst mér að passa upp á að taka ekki fleiri bækur heim heldur en ég skilaði og er ein af bókunum þar að auki með14 daga skilafrest. En tölvupóstur um útlán frá safninu, sendur kl. 16:07 í gær gefur upp 6 stk í útlán:Dag einn í desember eftir Josie Silver, Ritgerð mín um sársaukann efitr Eirík Guðmundsson, Sara eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, Hefndarenglar eftir Eirík P. Jörundsson, Konan í klefa 10 eftir Ruth Ware og skammtímalánsbókin Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur. Eftir að ég kom heim byrjaði ég að lesa síðastnefndu bókina. Náði að slíta mig frá lestrinum eftir 50 bls. en það var ekki létt. Ég ákvað hins vegar að klára jólabók 2 áður en ég myndi halda áfram þessum spennulestri. Blómamánamorðin er ekkert síður spennandi bók og náði ég að ljúka við að lesa hana eftir að ég kom heim úr vinnu og sjóferð í dag.

Splæsti saffranbökum á okkur mæðgin í gærkvöldi. Oddur Smári pantaði og sótti heim og ég sendi hann með 3000 kr. og fékk 30 kr. til baka þegar hann kom með fenginn heim um sjö í gærkvöldi.

9.2.20

Sunnudagur

Ég var að sópa og skafa af bílnum klukkan átta í morgun, svo ég var mætt nokkuð snemma í Laugardalinn en var þó ekki alveg á hurðarhúninum. Byrjaði í kalda pottinum áður en ég synti í rúmar 15 mínútur. Þá fór ég aftur í þann kalda og dagaði svo næstum því uppi í sjópottinum, sat þar líklega lengur heldur en sundtímann. Dýfði mér svo þriðju ferðina í ca 3 mínútur í þann kalda, 10 mínútur í gufu og svo ca 1 mínútu í "sólbað" áður en ég fór upp úr. Kom heim aftur rétt fyrir klukkan tíu og var svo heppin að fá sama bílastæðið en það er ekki sjálfgefið nú til dags. Það kemur oftar fyrir að ég þurfi að leggja í öðrum götum í nágrenninu. Það er reyndar alveg í lagi því ég er oftast að safna skrefum.

Setti upp hafragraut og egg og hellti upp á kaffi og er nýbúin að ljúka við að drekka úr þriðja kaffibollanum. Stefnan er að skreppa í afmælismessu í Óháðu kirkjunni eftir hádegi og ef ég "nenni" ekki að fá mér göngutúr í kirkjuna gæti vel verið að ég notaði tækifærið og skilaði bókum á safnið. Er enn að lesa "Blómamánamorðin", aðeins hálfnuð með uþb 300bls. bókina og á enn eftir að lesa 3 jólabækur (tvær af þeim fékk ég óvænt í millijólaognýjársgjöf frá sjálfri mér). Þannig að ef ég skrepp á safnið í dag væri best ef ég væri skynsöm og tæki ekki fleiri bækur heldur en ég skila. Sjáum til með það.

8.2.20

Laugardagur

Þegar ég mætti í vinnuna í gærmorgun tjáði fyrirliði deildarinnar að það yrði mánaðarleg yfirferð á vél eftir hádegi og við yrðum aðeins þrjár í vinnu til tólf því hún hefði beðið þá fjórðu um að koma seinna til að sitja yfir til klukkan fimm. Sú úlnliðsbrotna var beðin um að sinna bókhaldsvinnu en fyrirliðinn og ég skiptum með okkur verkum á framleiðsluvélinni. Ég  hlóð inn fyrstu verkefnum dagsins og mataði vélina fram að kaffi, en í móttöku og skoðun framleiðslu eftir kaffi og til hádegis. Lukum daglegri framleiðslu rétt fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi og að hefbundnum frágangi loknum bauðst ég til að vera aðeins áfram til að ljúka við að fjarlægja gula miða og telja inn nýjar kortabirgðir ásamt þeirri sem var í yfirsetunni. Við vorum búnar að því fyrir klukkan þrjú og þá dreif ég mig heim.

Í gærkvöldi skrapp ég í Lífsspekifélagið til að hlýða á erindi um Pýþagoras. Var komin heim aftur rétt áður en þátturinn um lækninn dr. Martin byrjaði.

Var mætt í sund um átta í morgun.Fór tvisvar í þann kalda, synti 400m og endaði í gufunni. Hitti tvær sem heita Sigrún og þá eldri var ég ekki búin að hitta síðan í nóvember svo það urðu fagnaðarfundir í gufunni. Dreif mig upp úr up úr klukkan níu og sendi Davíð Steini sms rétt áður en ég lagði af stað úr Laugardalnum því ég hafði lofað honum að keyra hann á N1 við Stórahjalla og að hann yrði mættur þar um hálftíu. Á heimleiðinni kom ég við á Atlantsolíustöðinni við Sprengisand og fyllti á bílinn sem reyndar var rétt rúmlega hálffullur af bensíni. Sendi líka spurningu til esperantovinkonu minnar. Þegar ég var búin að ganga frá sunddótinu heima sá ég að hún hafði svarað með þumli upp svo ég dreif mig vestur í bæ í smá esperantohitting. Stoppaði hjá henni í tæpa tvo tíma. Áður en ég fór heim aftur keyrði ég bílinn í gegnum þvottastöð og kom svo við í Krónunni við Granda.

Í stað þess að skreppa aftur í lífsspekifélagið í dag bjó ég m.a. til vöfflur.

6.2.20

Líður á vikuna

Úlnliðsbrotna samstarfskonan mætti til vinnu í morgun, með gipsi á vinstri sem hún þarf að hafa á í 3-4 vikur í viðbót við þessar tæpu tvær sem það er búið að vera á. Hún var skráð í og sinnti bókhaldsstörfum í dag. Framleiðslu lauk um hádegið en seinni hluti vinnudagsins fór í að telja inn nýtt plast sem og taka út gula miða.
Var komin heim rétt fyrir fjögur. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi, fékk mér smá hressingu og hringdi í pabba. Um hálffimm lagði ég af stað í sund. Kom við í Fiskbúð Fúsa og keypti, hrogn, roðlaust og beinlaust ýsuflak og óbarinn harðfisk. Hitti kaldapotts vinkonu mína í sturtu svo ég ákvað að byrja á kaldapotts ferðunum. Fór fimm ferðir í þann kalda, fjórar í þann heitasta, eina í sjópottinn, synti 400m og þvoði mér svo um hárið á eftir.

Í gær lauk ég við að lesa síðustu bókasafnsbókina, Níunda gröfin, bók upp á vel yfir 500 bls.Bókunum 4 af safninu þarf ekki að skila fyrr en 19. febrúar n.k. Ætla að reyna að halda aftur af mér í nokkra daga og ráðast betur á jólabækurnar. Samt er ég viss um að ég verði búin gera mér ferð á safnið, skila bókunum og fá nýjar lánaðar áður en næsta vika verður liðin.

3.2.20

Sjósundshettan mín ónýt

Vorum fjórar af fimm í vinnunni að sinna daglegum og mánaðarlegur verkefnum til klukkan að verða hálffjögur í dag. Tókum okkur auðvitað tuttugu mínútur í kaffipásu í morgun og 40 mínútur í hádegismat, en það voru einu pásurnar. Ég var komin heim fyrir fjögur og byrjaði strax á því að hella mér upp á ca 2 bolla af kaffi og fékk mér góða síðdegishressingu. Hringdi í pabba og tvö önnur stutt símtöl.

Var mætt í Nauthólsvíkina korter fyrir fimm. Sjósundshettan mín rifnaði í tætlur þegar ég var að laga hana til svo ég henti henni. Sú hetta var reyndar orðin nokkuð gömul, notaði hana áður í sundið. Var sem betur fer með ullarhúfu sem ég hef sett yfir hettuna. Veðrið var stillt og gott, og sjórinn 1° og frekar tær. Ég fór tvisvar í sjóinn en veit ekki alveg hversu lengi í hvort skipti, sennilega 3-5 mínútur. Sjósundsvinkona mín og tímavörðurinn var ekki á svæðinu í þetta sinn.

2.2.20

02022020

Dagsetninguna í dag má lesa bæði afturábak og áfram sé hún skrifuð í tölum. Áhugavert. Annars ætlaði ég rétt aðeins að tjá mig um kvöldmat gærdagsins. Pabbi átti stórt silungsflak í frysti sem ég tók út eftir kaffitímann í gær. Upp úr klukkan sex setti ég upp bygggrjón og bætti hálfum teningi af kjúklinga krafti út í. Skar niður einn lauk og grænt epli. Sauð upp á lauknum, bætti svo eplinu (afhýddu og í bitum) útí og slökkti undir. Bitaði silungsflakið í þrennt og kryddaði með karrý og steikarkryddi. Setti bitana með kryddhliðina niður í augnablik áður en ég sneri þeim við (á roðhliðina) tveim mínútum síðar tæmdi ég vatnið úr laukeplapottinum og hellti lauknum og eplunum yfir silunginn. Setti lok yfir pönnuna og slökkti undir. Þetta var algert sælgæti og verðlaunaði ég mig með því að fá mér hvítvínsglas með matnum. Pabbi var sammála um gæði matarins en fékk sér frekar rauðvínsglas. Það má!

1.2.20

Loksins helgarskrepp á Hellu

Í dag eru 37 dagar síðan annar í jólum var. Rétt upp úr hádegi þann dag kvaddi ég pabba og var ég komin heim til mín fyrir klukkan þrjú. Einhvern veginn hefur svo hist þannig á að það hefur ekki verið neitt spennandi ferðaveður og jafnvel lokað á köflum flestar helgar ársins. Janúar leið þrátt fyrir það frekar hratt og í rauninni mjög skrýtið að það sé strax kominn febrúar.

Skrapp í Lífsspekifélagið í gærkvöldi að hlusta á fyrirlestur á ensku um heilnæm áhrif á svokölluðum ZOUK-dansi. Fyrirlesarinn var áhugasöm rússnesk stúlka sem er búin að prófa þetta og stefnir að því að stofna svona danshóp hér á landi. Fyrirlesturinn hófst aðeins á eftir áætlun eða kl. 20:15 en honum lauk ekki fyrr en tuttugu mínútum fyrir tíu. Þá ákvað ég að láta gott heita, sleppti því að kíkja upp í kaffi og spjall og tók strikið eftir Ingólfsstrætinu og þurfti aðeins að bíða uþb eina mínútu eftir leið 13 heim við Þjóðleikhúsið.

Var mætt í Laugardalslaugina um klukkan níu. Byrjaði á því að kæla mig í 2 mínútur, synti svo 300 áður en ég fór aftur í þann kalda í tæpar tvær. Þá fór ég í 42°C pottinn og svo aftur í þann kalda í 3 mínútur. Þá ákvað ég að synda 200m áður en ég fór fjórðu og síðustu ferðina í þann kalda. Endaði svo í gufunni í rúmar 10 mínútur áður en ég fór í kalda sturtu og upp úr. Skrapp í Krónuna við Nóatún og gerði smá innkaup og kom einnig við í Kvikk við Öskjuhlíð og sníkti kaffi hjá Oddi áður en ég fór heim með vörurnar og sunddótið.

Um tólf lagði ég af stað austur. Gerði gott stopp í Fossheiðinni, enda ekki búin að koma þangað síðan um miðjan desember. Var komin til pabba upp úr klukkan hálfþrjú og hér verð ég næsta sólarhringinn eða svo.