28.10.08

- Davíð Oddsson fertugur -

Maðurinn minn er 40 ára í dag og þar með búinn að ná mér. Við mæðginin erum í fríi en Davíð þarf að skreppa í vinnuna. Þar sem hann dreymir um að uppfæra tölvuna verður það aðal-afmælisgjöfin hans frá okkur en þegar hann kemur heim í dag mun bíða hans afmælispakki. Innihald þess pakka verður ekki gefið upp að svo stöddu.

27.10.08

- Vetrarfrí -

Sl. föstudag hófst vetrarfrí í Hlíðaskóla. Fríið var í dag líka og á morgun er skipulagsdagur kennara. Ég var löngu búin að skipuleggja það að taka mér frí þessa þrjá virku daga og bjóða fjölskyldunni með mér í bústað. Davíð var að vinna til klukkan að ganga fjögur á föstudaginn. ég nýtti tímann og tók sameignina í gegn, alveg frá stigapallinum okkar og niður í þvottahús, las, tók til flest sem varð að taka með og bað strákana um að taka til fyrir sig. Fór svo yfir það með þeim svo það myndi ekki gleymast neitt mikilvægt. Davíð tók sig til þegar hann kom og hlóð bílinn. Slökktum og læstum öllu á eftir okkur og brunuðum svo austur, með viðkomu í Bónus í Hveragerði. Þegar í bústaðinn kom var að sjálfsögðu byrjað á því að láta renna í heita pottinn.

Sváfum út á laugardagsmorguninn. Um tvöleytið fórum við mæðginin í göngutúr. Upphaflega ætluðum við bara að vera um klukkutíma en við vorum tæpa tvo. Úti var kalt en stillt, gott gönguveður og mjög fallegt að ganga meðfram Brúará. Fórum hluta af fossaleiðinni. Fórum beint í heita pottinn eftir gönguferðina. Eftir kvöldmat og Spaugstofu spiluðum við "Scrabble".

Seinni partinn í gær komu foreldrar Davíðs í heimsókn á húsbílnum sínum. Þau áttu stórt rúbíns-brúðkaupsafmæli í gær. Við buðum þeim að borða með okkur um kvöldið og buðum upp á grillaðar, léttreyktar og hunangsgljáðar grísakótelettur, með grilluðum kartöflum, kaldri piparsósu og hrásallati. Það hitti í mark hjá okkur öllum og ekki var verra að frétta það að tengdó höfðu ekki smakkað svona lengi, lengi.

Vorum komin á stjá fyrir níu í morgun. Davíð grillaði brauð með skinku, osti og ananas. Einhverjar sneiðar voru reyndar bara með osti og ananas því skinkan kláraðist. Hjálpuðumst svo öll fjögur að við að taka saman og ganga vel frá bústaðnum. Eiginlega gildir helgarúthlutun orlofshúsa til klukkan fimm síðdegis á mánudögum en Davíð Steinn átti að vera mættur í Borgarleikhúsið klukkan eitt til að taka þátt í söng- og leikprufum svo við urðum að leggja af stað í bæinn á tólfta tímanum. Strákurinn var mættur fimm mínútum fyrir eitt og var búinn korter fyrir tvö.

Um miðjan dag bjó ég til smá lummufjall sem kláraðist á innan við hálftíma í kaffitímanum. Þær eru góðar og vinsælar þessar lummur.

23.10.08

- Spilakvöld hjá 7.-HLE -

Við vorum að koma heim úr skólanum, öll fjögur. Hittum flesta bekkjarfélaga Davíðs Steins, einhver systkyni og marga foreldra á spilakvöldi sem bekkjarfulltrúar skipulögðu. Afar vel heppnuð og skemmtileg stund, verð ég að segja. Við fórum með teiknispilið og þar sem við komum í seinna lagi, og allir aðrir voru byrjaði að spila alls konar önnur spil, skiptum við okkur í tvö tveggja manna lið og hófum spennandi leik. Liðin skiptust á um að hafa forystu til að byrja með en svo seig annað liðið framúr. Þegar fór að líða á leikinn bættust fleiri keppendur í liðin og loka mínúturnar voru æsilegar. Liðið sem virtist vera að tapa, dró á, jafnaði og náði að sigra (...og þetta sem leit svo vel út fyrir mitt lið lengi vel). Þar sem ég er ein af bekkjarfulltrúum 7. BH bað ég um leyfi til að fá að nota þessa skemmtilegu hugmynd og hlakka til að bera hana undir hina bekkjarfulltrúana...

22.10.08

-"Fló á skinni" -

Ég fór í leikhús í gærkvöldi ásamt eitthvað af vinnufélögum og þeirra fylgifiskum. Ég bauð Davíð, Helgu, Ingva og Önnu frænku með mér og við skemmtum okkur konunglega. Tvíbbarnir pössuðu frænkur sínar á meðan og gistu uppi í Grafarvogi í nótt. Það var mikið hlegið í leikhúsinu í gær og mesta furða að maður skuli ekki vera með hláturverki í maganum. Mæli með þessari skemmtun. Veit um eina sem er búin að fara tvisvar, sá verkið fyrir norðan fyrr á árinu og er nýlega búin að fara aftur.

20.10.08

- Kertapökkun, kumitekeppni og keiluferð -

Helgin er liðin og var ekki lengi að því. Samt vorum við að fara tiltölulega snemma á fætur og stundum frekar seint að sofa, til að nýta klukkutímana sem best. Vorum mætt í kórkjallara Hallgrímskirku um tíu á laugardagsmorguninn, öll fjögur. Þar var sett upp verksmiðja og einu bretti af heimaeyjarkertum pakkað á klukkutíma. Þeir sem mættu upp úr ellefu fengu ekkert að gera nema að taka til sín kerti til að selja. Skutlaði karatestráknum á æfingu rétt fyrir tólf en nafnarnir hjálpuðu til við að ganga frá eftir pökkunina.

Á sunnudagsmorguninn vorum við öll fjögur mætt upp í Fylkisheimili að fylgjast með karatestráknum í sinni fyrstu kumite-keppni. Það var bara gaman. Um eitt leytið mættum við svo upp í keiluhöllina og ákváðum að taka þátt í keilu með hinum "óperu"-strákunum og foreldrum eins af þeim. Karatestrákurinn fékk að vera með í liði strákanna en við fullorðna fólkið fengum okkur sér braut. Spiluðum í tæpan klukkutíma og náðum einni og hálfri umferð. Það var að sjálfsögðu mikið fjör og mikið gaman.

Um kvöldið var aukasýning og sú allra síðasta af óperunum: CAVALLERIA RUSTICANA OG PAGLIACCI. Allir fjórir óperudrengirnir tóku þátt og á eftir þurfti og vildi minn söngfugl kveðja alla sem tóku þátt í þessu ævintýri. Þeir feðgar komu ekki heim fyrr en rétt fyrir miðnætti.

15.10.08

- Vikan hálfnuð -

Það hefur verið og er í nógu að snúast hjá mér þessa dagana. Strax eftir vinnu á mánudaginn dreif ég mig yfir á skrifstofuna til Davíðs og fékk hjá honum bíllyklana. Sótti söngfuglinn og skutlaði honum á æfingu. Karatestrákurinn kom með í sömu ferð og við vorum mætt mjög tímanlega í Þórshamar þar sem ég byrjaði á að versla handa honum góm sem hann mun nota í kumite-keppnum framtíðarinnar, en hans fyrsta keppni er næstkomandi sunnudag. Skrapp svo heim að sinna smá verkefnum þar til kominn var tími til að sækja strákana. Davíð fór í pílu strax eftir vinnu. Við strákarnir fengum okkur kvöldsnarl en svo sendi ég þá snemma í háttinn eða um hálfníu. Þeir höfðu sofnað svo seint kvöldinu áður og voru frekar þreyttir svo þeir höfðu ekkert á móti því að fara snemma að sofa. Svo fór ég á "þrefaldan fund" með "tvíburahálfsystur minni". Aðal tilgangurinn var jólakortagerð og bjó ég til 10 jólakort á tveimur tímum. En við vorum líka að funda í ferðanefndinni sem og velta þjóðmálunum fyrir okkur án þess þó að komast að neinni sérstakri niðurstöðu.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð í vinnuna til að fá að hafa bílinn. Stuttu fyrir tíu sótti ég tvíburana í skólann og fór með þá í árlegt tanneftirlit. Þeir voru hátt í einn og hálfan tíma hjá tannlækninum. Ekki vegna þessa að tennurnar þeirra væru neitt skemmdar en eftir skoðun og flúormeðferð voru þeir báðir að skemmta tannlækni sínum og klínídömu hans með bröndurum í amk tuttugu mínútur. Á meðan þeir voru í eftirlitinu skrapp ég í smá kaffi til gömlu nágrannanna minna í norðurmýrinni. Eftir vinnu dreif ég mig heim og setti mig næstum strax í kjötbollugýr. Bjó til og steikti 40 kjötbollur úr 800 grömmum af hakki. Frysti helminginn og hafði hinn helminginn í kvöldmatinn, hélt að það yrði afgangu handa mér til að taka með í vinnuna, en það kláraðist allt. Seinna um kvöldið fór ég upp í keiluhöll að æfa keilu með örfáum af vinnufélögum mínum.

Davíð kom heim rétt fyrir fimm í dag. Ég skutlaði söngfuglinum á kóræfingu og mætti sjálf á stjórnarfund FFDKR. Þar þurfti að fara yfir nokkur mál og taka ákvarðanir. Stoppaði stutt heima eftir fundinn því það var kóræfing hjá mér í kvöld.

10.10.08

- Aftur komin helgi -

Þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu og óvissu um hvort eitthvað af sparnaði manns sé glatað, þá hafa síðustu dagar liðið ótrúlega hratt. Kannski ekki furða þar sem það er alltaf eitthvað að gerast í kringum mig. Á mánudagskvöldið settumst við hjónin saman fyrir framan tölvuna og uppfærðum smá á heimasíðu drengjakórsins. Kvöldið eftir fór ég í keiluhöllina með nokkrum vinnufélögum. Á miðvikudagskvöldið var kóræfing. Ég var heima í gærkvöldi. Hafði nýtt slátur í matinn, og mikið rosalega var það gott, við vorum öll sammála um það. Í kvöld er næstsíðasta óperusýningin sem söngfuglinn tekur þátt í. Hann á frí á sunnudagskvöldið en á aukasýningunni þann 19. okt. n.k. verða allir fjórir strákarnir með. Framundan er m.a. bakstur og messa hjá mér.

Góða helgi og stórt knús á alla sem rekast hingað inn á bloggið mitt!

5.10.08

-Helgin komin og farin -

Seinni partinn á miðvikudaginn var dreif ég mig beint heim úr vinnu. Mætti Oddi Smára á Lönguhlíðinni en hann var á leið í Háteigskirkju. Tók til, bæði kórmöppur, sálmabók sem og reikninga DKR. Davíð sótti okkur nafna sinn rétt fyrir fimm, strákurinn fór á kóræfingu en við foreldrarnir á aðalfund Foreldrafélags Drengjakórs Reykjavíkur. Mér fannst frekar fámennt á fundinum, miðað við að það eru 37 strákar í kórnum og að helst átti að mæta einn forráðamaður fyrir hvern þeirra. Að vísu eru einir tvíburar og þrennir bræður en það voru færri en 20 foreldrar mættir. Formaður foreldrafélagsins setti fundinn og bað svo ritarann um að lesa upp skýrslu stjórnar um sl. starfsár. Henni fórst það vel úr hendi. Næst var komið að gjaldkeranum að gera grein fyrir ársreikningum félagsins. Búið var að dreifa árs- og efnahagsskýrslu, ég stóð upp og hálffraus, sagði bara ..."endilega spyrjið þið mig bara. Ég ætla ekkert að tala". Þá tók til máls fyrrverandi formaður og talaði m.a. aðeins út frá ársreikningunum. Frá því í vor og alveg þar til í síðustu viku var ég að hugsa um að draga mig út úr gjaldkerastöðunni. Aðeins einn var að hætta í stjórn og var ákveðið að reyna að fá einhvern inn sem treysti sér til að taka við af mér smátt og smátt. Það var greinilega mikil bjartsýni svo ég ákvað að demba mér 100% út í þetta fjórða árið í röð. Það er mjög líklegt að söngfuglinn eigi eftir að vera í kórnum til vorsins 2010 og það var hugsun mín að draga mig í hlé áður en hann hættir svo maður sé viðloðandi félagið og til taks fyrir þann sem mun taka við. Davíð mun sjá um heimasíðumálin áfram og mun ég aðstoða hann eftir föngum. Einnig gaf hann kost á sér í tónleika- og æfingabúðanefnd (sitthvor nefndin).
Eftir aðalfundinn skutluðu feðgarnir mér næstum beint á kóræfingu.

Í gærmorgun skutlaði Davíð mér til tvíburahálfsystur minnar, um tíu. Hún var búin að kaup allt efni í 11 slátur. Við tókum svo reyndar hvor sína lifrina frá og bjuggum til úr 9 lifrum sem urðu 23 keppir og úr 6 lítrum af blóði sem urðu 33 keppir. Settum rúsínur í um 20 keppi. Við unnum vel saman vinkonurnar og hún var svo væn að geyma fyrir mig megnið af mínu slátri. Ég fór heim, með eins og í eina soðningu, og setti beint í frystinn.

Í morgun var líka farið snemma á fætur. Ég var fyrst upp, um hálfátta, en Davíð reis úr rekkju mjög fljótlega því hann var búinn að taka að sér að smyrja flatkökufjall. Ég settist niður með heiðursmerkin og fór yfir hvort nælurnar væru í lagi. Það kom í ljós að nokkrar voru gallaðar.
Davíð skutlaði nafna sínum í kirkjuna um hálftíu, en við mættum svo klukkutíma seinna (við hjónin og Oddur Smári) í kórkjallarann. Fékk lánaðan silfurbakka í kirkjunni, Davíð fékk kórbol af einum söngfuglanna sem voru komnir niður eftir upphitun og margir þeirra söfnuðust í kringum mig þar sem ég var að raða merkjunum í kringum einn bikar. Eftir messu sátu drengirnir áfram uppi í "kórnum" við altarið, ég sótti bakkann niður í kjallara, formaðurinn sagði nokkur orð áður en hún las upp þá stráka sem var verið heiðra. Fjórir fengu brons fyrir að vera að byrja sitt 3. starfsár með kórnum, sjö strákar fengu silfur, sex fengu gull og einn drengur fékk afhentan áletraðan bikar fyrir að vera að hefja sitt sjötta starfsár með kórnum. Strákarnir voru myndaðir í bak og fyrir með merkin og kórstjóranum og svo var tekin mynd af öllum kórnum áður en farið var niður í kórkjallara þar sem boðið var upp á kaffi, djús og hlaðborð sem svignaði undan allskyns kræsingum. Myndir frá þessari stund verða settar á heimasíðuna fljótlega.

Skruppum heim og skiptum um föt áður en við fórum í skóleiðangur með strákana, en þá var farið að vanta íþróttaskó í leikfimina og frjálsar. Þetta tók smá tíma. Þeir bræður fóru svo yfir til þríburans en við Davíð að versla inn. Söngfuglinn var svo mættur í óperuna um hálfátta í kvöld.