31.12.22

Gamla árið kveður brátt

Var mætt í vinnu korter fyrir átta. Höfum sömu verkaskipan á. Umslagavélin er alls ekki 100% en það er hægt að koma meiru í gegn en undanfarið. Slökktum á vélinni þegar við fórum í kaffi en kveiktum á tölvunni aftur. Þegar við komum niður aftur um tíu kveiktum við á vélarpartinum og fyrirliggjandi daglegur skammtur var kláraður á hálftíma. Á meðan við biðum eftir hádegis skammtinum framleiddum við nokkrar skrár af endurnýjun. Hádegis framleiðslan var langt innan við 100 kort og við vorum búnar að slökkva og ganga frá vélinni fyrir klukkan tólf. Sú sem var á móttökuendanum þurfti að skreppa frá í hádeginu. Við hinar tvær tókum að okkur frá ganginn í kaffistofunni eftir matinn og klárðuðum svo að telja og ganga alveg frá kortadeildinni. Ég var farin út af vinnustaðnum um tvö. Ætlaði að koma við í AO við Sprengisand en þar var mikið að gera svo ég mjakaði mér eftir umferðinni á Reykjanesbraut sem var extra hæg vegna óhapps og fyllti á tankinn við Kaplakrika. Þetta tók mig í það heila um klukkustund. Var komin í Nauthólsvík rúmlega þrjú. Það var 15 stiga frost, hægur vindur og sjórinn við ströndina ísi lagður sums staðar en einnig mjög krapa kenndur. Samkvæmt mælingum var hitastigið á sjónum -2,2°C. Ég ákvað að láta vaða á þetta en varlega þó. Hafði áður farið í hann -1,8°C. Fór ekki langt út í en upp að rúmlega hné og settist þá niður í hálfa mínútu eða svo. Rölti svo yfir að lóninu sem er einhverjum örfáum gráðum heitara og buslaði þar í ca tvær mínútur áður en ég fór í heita pottinn um stund. Var komin heim um hálffimm. Um átta var sýnt beint frá Liverpool - Leicester 1:2. Gestirnir skoruðu öll mörkin.

30.12.22

Síðasti virki dagurinn

Var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Ákváðum að hafa sömu vinnustaði. Á ellefta tímanum kom annar viðgerðarmaðurinn til að fylgjast með umslagavélinni í ham og hinn viðgerðarmaðurinn bættist við rúmum klukkutíma síðar. Sá fyrri fór um eitt en hinn var alveg þar til við hættum vinnu um hálffjögur. Eftir hádegið, þegar allt daglegt var búið, framleiddum við slatta af endurnýjun en þó ekki eins mikið og ef umslagavélin væri í 100% lagi. Vonandi finnst út úr þessum bilinum fljótlega. Mætti í sund beint eftir vinnu og þá var kalda potts vinkona mín búin að fara 4 ferðir í kalda og eitthvað í gufuna. Hún fór þrjár ferðir í kalda með mér en ég var búin að fara eina áður því hún var í gufunni þegar ég mætti á svæðið. Kom heim um fimm leytið og fljótlega kom nafna mín og frænka, sú hálf danska, í heimsókn og færði mér gjöf fyrir passið á kisunni. Þau sögðu að auðvitað hefði kisan verið fúl yfir því hversu lengi þau skildu hana eftir eina en þau fundu samt að hún var í góðu jafnvægi. Frænka mín kvaddi rétt fyrir sjö. Ég horfði á fréttir og íþróttamann ársins. Kláraði tuskuna Línudans og gekk frá endum. Fitjaði svo upp á tuskunni Tíglatjútt. 

29.12.22

Mjög lítið eftir af þessu ári

Var vöknuð rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun og komin á fætur skömmu síðar. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég því tæpa klukkustund í að vafra á netinu. Mætti í vinnu rétt rúmlega hálfátta.  Það kom í ljós að vélin er ekki alveg upp á sitt best ennþá þótt hún sé miklu, miklu skárri. Ég var á ítroðsluendanum. Þegar við fórum í hádegismat áttum við aðeins eftir að framleiða það sem keyrt er til okkur um ellefu leytið. Slökktum alveg á vélinni á meðan við tókum matartímann. Sú sem var á móttökuendanum á eldhúsvaktina þessa vikuna. Hin sem er skráð með henni er á sjúkrahúsi en það var nóg um hjálparhendur í staðinn. Vorum komnar niður í kortadeild aftur um eitt. Vélin vann ágætlega fyrsta korterið en svo fór allt í sama farið hvað varðar þann part þar sem kortin eiga að koma út á formi og í umslögum. Framleiddum þó 86 kort aukalega og erum þar með formlega byrjaðar að endurnýja þau kort sem gilda frá mánaðamótum janúar febrúar. Hættum framleiðslu um tvö leytið og gengum frá. Ég var komin út af vinnustaðnum um hálfþrjú. Skrapp fyrst upp í Kringlu. Skilaði þremur bókum á safnið og skipti svo bókinni sem Bríet frænka gaf mér í jólagjöf í Eymundsson. Var búin að lesa þá bók; Tíbrá eftir Ármann Jakobsson. Skipti í eina af jólabókum þessa árs. Næst lá leiðin í Laugardalinn. Synti 200 metra, fór tvisvar í kalda, einu sinni í heitasta, einu sinni í sjópott og endaði á 15 mínútna gufubað áður en ég fór heim.

28.12.22

Dásemdar dagar

Þrátt fyrir að vera í fríi var ég komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Komst fljótlega að því að ég nennti alls ekki í sund en hafði nóg að sýsla hérna heima við. Vafraði á netinu, las, fitjaði upp á nýrri tusku með glænýju mynstri, horfði á þætti og slakaði vel á. Hellti mér á könnuna um ellefu leytið. Um tvö hjálpaði Davíð Steinn mér að sópa af bílnum. Við skruppum fyrst yfir í Kópavog til sýslumann þar sem hann lagði inn göng til samþykktar um að hann geti byrjað á æfinga akstri. Svo kom hann með mér í síðustu kisu heimsóknina í bili. Lítið þurfti að gera þar annað en að bæta á þurrmatinn og klappa og spjalla smá við kisu. Komum heim aftur skömmu fyrir klukkan hálffjögur.  Rúmum klukkutíma seinna setti ég upp kjötið sem mér var sent að norðan rétt fyrir jól. Bætti svo katröflum út í pottinn eftir þriggja kortera suðu. Bitarnir voru 6 og vel vænir. En svona kjöt er líka gott kalt.

27.12.22

Notalegheit

Var komin á fætur áður en klukkan sló tíu í gærmorgun. Vafraði um á netinu í smá tíma. Hellti upp á könnuna fljótlega og lagði kapla við eldhúsborðið um stund. Um tólf leytið hreinsaði ég af hryggnum í pott, bætti niðurskornum soðnum kartöflum við sem og afgangnum af gulrótunum og grænu baununum. Hitaði þetta í smá rjómaslettu. Bauð bræðrunum að skipta þessu á milli sín. Pabbi var búinn að fara tvisvar út að moka braut frá skúrnum átti aðeins haftið eftir út á götu. Davíð Steinn fór út að moka frá bílnum mínum og kláraði haftið út á götu frá skúrnum. Oddur mundaði einnig skófluna. Um hálfþrjú kvöddum við pabba og brunuðum í bæinn. Hleypti strákunum út heima en fór svo beinustu leið að heilsa aðeins upp á kisu. Hreinsaði sandinn hennar. Skolaði allar vatnsskálar og setti nýtt vatn. Kögglarnir voru búnir úr öðrum matardallinum. Hreinsaði hann áður en ég setti meiri kattarmatsköggla. Hreinsaði einnig dallinn þar sem blautmaturinn er settur og setti eitt bréf af blautmat í hann. Stoppaði hjá kisu í ca þrjú korter en var komin tímanlega heim áður en leikur Aston Villa og Liverpool byrjaði 1:3. 

26.12.22

Uppstúfur

Svaf heldur lengur fram á morguninn í gær heldur en í fyrradag. Var samt komin á fætur um tíu, langt á undan bræðrunum. Dagurinn leið í notalegheitum við prjóna, lestur, kapallagnir, netvafr og svo gripum við í spil og spiluðum vist. Setti upp kartöflur skömmu fyrir sex og bjó til smá jafning. Pabbi skar niður í sneiðar kalt hangigjöt sem hann keypti og sauð í síðustu viku. Þetta var mjög gott. Eftir fréttir horfðum við á heimildamyndina um Árna og svo jólagesti Björgvins frá því í fyrra á tímaflakkinu. 

25.12.22

Takk

Vaknaði um átta í gærmorgun eftir átta tíma svefn. Fór á fætur hálftíma síðar. Pabbi var komin á fætur, búinn að kveikja aftur á tölvunni en sat inn í stofu. Þannig að þegar ég var búin að bjóða góðan dag og sinna morgunverkunum á baðherberginu settist ég aðeins við tölvuna og vafraði um á netinu áður en ég settist með prjónana mína inn í stofu til pabba. Eftir birgðakönnun var ákveðið að pabbi færi í búðina að kaupa sósubréf, rósakál og laufabrauð. Það síðast nefnda var ekki til. Hann kom aftur um tíu leytið með vörurnar og datt í mjúkan snjóinn fyrir utan. Hann var því eins og snjókarl þegar hann bað mig um að ganga frá því hann ætlaði að skreppa út í sundlaug í kalda pottinn, gufu og jólabaðið/sturtuna. Hann var ekki kominn til baka þegar frændi okkar, systursonur hans, lögga kom í innlit með jólakort. Frændi stoppaði í hálftíma og þáði hjá mér kaffi. Hann mætti svo pabba þegar hann var lagður af stað á næsta áfangastað. Um tvö kryddaði ég lambahrygginn frá Árlandi setti í álpappír í ofnpott og inn í ofn á 130° hita. Um sama leyti var Oddur á kisuvaktinni í vestur bænum. Hann sótti svo bróður sinn í vinnuna. Þeir komu aðeins við heima í Hlíðunum en voru komnir austur rétt fyrir sex. Þá var ég að hræra í sósunni og pabbi að leggja á borð. Maturinn smakkaðist mjög vel en ég er sammála pabba um að best hefði verið að hafa hrygginn á háum hita fyrstu tíu mínúturnar en ekki á saman hitanum allan tímann. Davíð Steinn gekk frá í eldhúsinu með afa sínum og svo settumst við öll inn í stofu. Strákarnir fengu slatta af gjöfum frá ættingjum og vinum. Ég fékk gjöf frá pabba (gjafakort), Bríeti, Fossheiðinni og Davíð Steini, gjafakort frá vinnunni og gjöfin frá Oddi er heima, nýjar snúrur í þvottahúsið þar sem 4 af sex snúrum eru slitnar niður. Um níu fengum við okkur ís. Helga systir hringdi í mig um það leyti til að kanna hvernig maturinn hafi verið.

24.12.22

Skötuveisla

Var komin á fætur korter yfir sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu vafraði ég um á netinu  í tæpa klukkustund. Bauð Davíð Steini far í vinnuna og við þurftum að labba upp að leikskólanum við Stakkahlíð en þar var bíllinn í stæði eftir pakkaskutl bræðranna kvöldið áður. Kom við í AO við Sprengisand og fyllti á tankinn þegar ég var búin að skila syninum af mér. Svo lá leiðin í Laugardalslaugina. Fór 3 í kalda, synti 300 metra, einu sinni í heitasta, einu sinni í sjópottinn og endaði í gufunni. Eftir sundið fékk ég mér kaffi sem er í boði á staðnum á föstudögum. Svo fór ég vestur í bæ og heimsótti kisu. Hreinsaði sandinn, skipti um vatn í öllum vatnsskálum og bætti kögglum í kögglaskálina. Síðan hreinsaði ég upp hina matarskálina og setti eitt bréf að einhvers konar blautmat í þá skál. Stoppaði hjá kisu í uþb þrjú korter. Skrapp aðeins í Eymundsson í Kringlunni og keypti allra síðustu jólagjöfina áður en ég fór heim. Næstu klukkutímana var ég að lesa, prjóna, vafra um á netinu, pakka inn gjöfum, pakka niður í tösku og horfa á þætti. Pabbi skutlaði Bríeti í bæinn því bíllinn hennar var bilaður. Þau voru fyrir utan um hálffjögur. Frænka mín átti flug tveimur tímum seinna og Oddur ætlaði að skutla henni á völlinn. Ég tók mig saman og varð samferða pabba austur. Hann byrjaði á því að koma við hjá AO við Sprengisand. Á Selfossi kíktum við við í Löngumýrinni hjá Jónu Mæju og Reyni og þáðum kaffi. Afhenti þeim jólakortið í leiðinni. Komum svo rétt við í Fossheiðinni þar sem ég hafði pakka og korta skipti og lofaði að koma í heimsókn mjög fljótlega. Vorum komin á Hellu um sjö. Horfðum á fréttir, íþróttir og veður en svo bauð pabbi mér á Kanslarann í skötu þrátt fyrir að hafa fengið skötu í hádeginu. Þetta var svo skata af bestu gerð og mátti helst ekki opna munninn á meðan maður var að tyggja. Horfði á Kappsmál þegar við komum til baka.

23.12.22

Á kisuvaktinni

Fékk sms rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun um að ég ætti sendingu hjá Icelandair cargo og að opið væri frá sjö til nítján. Ég vissi af þessu því Helga systir hafði samband við mig í fyrradag. Var mætt í vinnuna rétt upp úr klukkan hálfátta. Ég var beðin um að fara á ítroðsluendann á vélinni þar sem ég væri mest inn í málum sem þurfti að afgreiða þar. T.d. urðum við að kippa tveimur umslögum úr póstkassanum og endurgera tvö kort frá því á miðvikudaginn. Framleiðsla gekk vel til að byrja með og við náuðum að telja fyrri vagninn eftir fyrstu framleiðslu dagsins áður en við fórum upp með töskuna og í kaffi. Sem betur fer var debet dagurinn ekki stór. Sumt gekk sæmilega en þegar varahlutirnir voru komnir í hús og stuttu síðar viðgerðarmaðurinn um tvö var enn smávegis eftir af framleiðsludeginum sem hefði á venjulegum degi verið búið um hádegi. Viðgerðin tók smá tíma og við vorum að fara út úr húsi rétt fyrir hálffimm bjartsýn á að nú væri vélin komin í betra skap. Það tók mig um hálftíma að komast út á flugvöll til að sækja pakkann frá Helgu og Ingva, hangikjöt. Þegar ég var að labba með pakkann út í bíl hringdi pabbi. Bíllinn hjá Bríet er bilaður svo pabbi mun skutla henni í flug í dag, Þorláksmessu. Hann mun því taka mig með austur í staðinn. Ætla að fá hann til að koma aðeins við á tveimur stöðum á Selfossi á leiðinni austur. Af flugvellinum fór ég á Vesturgötuna og heimsótti kisu í fyrsta skipti í marga mánuði. Hún mundi eftir mér og heilsaði vel upp á mig. Lánaði bræðrunum bílinn um kvöldið í pakkaskutl.

22.12.22

Þreytandi bilun

 fjórða var með okkur í kortadeildinni megnið af gærdeginum eða frá klukkan níu. Vorum reyndar bara þrjár því ein var að taka út gjafa frídag. Ég var í bókhaldinu. Dagurinn var ekkert stór en vesenið á vélinni er alls ekki búið. Þegar við tókum saman rétt fyrir fimm átti eftir að pakka smávegis. Ég fór svo beinustu leið í Laugardalslaug. Synti 300 metra á bakinu, sat tæpar fimm mínútur í kalda pottinum, eitthvað svipað í þeim heitasta og svo næstum hálftíma í sjópottinum áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Í sjónvarpsfréttum um kvöldið sá ég viðtal við kalda potts vinkonu mína og systur hennar. Þær voru örugglega ekki í kalda pottinum því systirin fer mjög sjaldan í hann.

21.12.22

Nóttin löng, en samt stutt

Mætti í vinnuna í fyrra fallinu í gærorgun eða uþb korter yfir sjö. Gat svo ekki notað nýjan aðgang að ytri dyrum hvelfingarinnar upp þegar til kom. Hringja varð í þá sem er á sjúkrahúsi og hennar aðgangur virkaði enn svo ekki hefur tekist að setja minn aðgang í staðinn fyrir hennar. Öryggisstjórinn kom aftur í hádeginu og stofnaði á mig nýjan aðgang á nýjum stað, þ.e. sem númer 6 en ekki fjögur og aðgang númer 5 á aðra sem hefur haft aðgang áður. Þessi aðgangur er settur inn tvisvar þannig að hann virki bæði ef maður er á undan að opna eða á eftir en það þarf alltaf tvo. Þetta var prufað og eftir smá vesen með annan aðganginn minn fór þetta að virka rétt bæði fyrri og seinni aðgangur. Ég var annars aftur í bókhaldinu en fór niður um eitt að leysa Ellu af sem þurfti að fara um eitt. Vorum búnar upp úr klukkan hálffjögur, að framleiða, pakka, telja og ganga frá deildinni. Fór beint heim. Nafna mín og hálfdanska frænka mín hringdi í mig um hálffimm til að spyrja hvort ég gæti tekið að mér kattarpössun í nokkra daga. Það mun ganga upp ef ég fæ Odd til að kíkja á kisu á aðfangadag og verðum komin aftur í bæinn á annan í jólum. Þá verður kisa bara ein í einn heilan dag, tvær nætur. Um átta skrapp ég með kort og nokkrar tuskur til annarrar frænku minnar og nöfnu. Stoppaði þar í um klukkustund. Þegar ég var komin heim aftur kom Anna danska með húslykla handa mér. Hún og kærastinn verða hjá pabba hennar um jólin. 

20.12.22

Aðeins fyrr

Ágætlega gekk að koma sér til vinnu í gærmorgun. Að þessu sinni lagði ég fyrir neðan hús. Var fyrst úr kortadeildinni en önnur kom mjög fljótlega og það komu skilaboð frá þeirri þriðju að hún yrði aðeins sein fyrir. Ég var í bókhaldinu og nú er einnig komið að því að standa eldhúsvaktina. Sú sem er skráð með mér var í fríi í gær en ég fékk góða aðstoð. Það bættist við endurnýjunina en henni var bara hlaðið inn og áhersla lögð á að klára allt daglegt. Sú sem var á ítroðsluendanum fékk að hætta um eitt. Ég fór því niður með hinni til að klára. Þegar daglegu kortin á form voru afgreidd var sett af stað 220 korta skrá þar sem aðeins eru framleidd kort. Ég fór upp að prenta út vegna talninga. Yfirmaður minn kom til mín og spurði hvort ég væri til í að vera ein af þeim sem getur opnað ytri hurðina á hvelfingunni uppi. Ég var til í það og þurfti þar með að bíða eftir að öryggisstjóri kæmi í hús og sæi um að veita mér aðgang. Ég fór því ekki niður aftur fyrr en eftir hálftíma. Þá var hin rétt að klára að pakka. Við töldum allt og gengum frá og klukkan var ekki orðin þrjú þegar ég fór. Var næstum búin að gleyma því að bíllinn væri fyrir neðan. Skrapp með kort til móðurbróður míns og fjölskyldu en stoppaði ekkert. Sótti Odd og skipti við hann um sæti. Við skruppum í Krónuna út á Fiskislóð að versla inn.

19.12.22

Messi og Argentína

Í gærmorgun svaf ég út og var klukkan orðin níu þegar ég vaknaði. Vafraði um á netinu, réði krossgátur og las, allt inni í herberginu mínu. Fór ekki fram fyrr en klukkan var langt gengin í eitt. Skömmu síðar kom frænka mín fram úr stofunni. Hún gaf sér góðan tíma til að taka sig saman en kvaddi um tvö. Ekki var búið að opna heiðina en hún fór Þrengslin og hefur líklega gengið ágætlega því ég heyrði ekki frá henni aftur. Að sjálfsögðu horfði ég á úrslitaleikinn milli Argentínu og Frakklands, 3:3 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu þar sem Argentína komst í 2:0, voru á undan að skora. Í víta spyrnukeppninni fóru Frakkar fyrst á punktinn. Skoruðu úr fyrsta og fjórða en annað vítið var varið og það þriðja fór ekki á ramman. Argentínumenn skoruðu úr öllum fjórum vítunum og unnu þar með leikinn. Stór stund fyrir Lionel Messi sem aðeins átti eftir að vinna þennan titil á ferlinum. 

18.12.22

Ævintýri í umferðinni

Ég var vöknuð fyrir klukkan átta en fór ekki á fætur fyrr en klukkutíma síðar. Eftir morgunverkin á baðherberginu bankaði ég á stofudyrnar. Frænka mín reyndist vöknuð. Hún fór svo til föðurömmu sinnar um tíu leytið. Hafði á orði að hún myndi hringja í mig ef hún kæmist ekki út úr stæðinu. Síminn var þögull en esperanto vinkona mín hafði samband í gegnum facebook og spurði hvort ég væri föst heima. Ég taldi svo ekki vera og sagðist vera á leiðinni fljótlega. Þurfti að sópa af bílnum en þrátt fyrir slatta af snjó komst bíllinn úr stæðinu og út götuna. Það var ekki fyrr en ég var komin vestur í bæ að ég lenti í vandræðum. Var reyndar næstum komin alla leið að bílastæðunum aftan við Sólvallagötuna en þar var verið að losa bíl og ég stoppaði og ætlaði að snúa við en var þá búin að festa mig. Eftir nokkrar tilraunir hringdi ég í Inger. Hún kom út með skóflur og ég notaði einnig mottu úr bílnum. Það tók örugglega hálftíma að losa sig og bakka niður "ranann" aftur út á Sólvallagötuna. Þar festi ég mig aftur en með aðstoð þriggja sem voru á göngu sem og mottunnar komst ég af stað aftur eftir korter tuttugu mínútur. Þá var reyndar bakkgýrinn hættur að virka. Þakkaði fyrir aðstoðina og ákvað að keyra alla leið í Kringluna. Ætlaði að athuga hvort ég gæti lagt í stæði sem hægt væri að keyra út úr. Áður en ég fann stæði komst ég að því að bakkgýrinn var farinn að virka aftur. Rölti um í Kringlunni og keypti líklega síðustu jólagjafirnar. Hafði samt ekki hugsun á því að kaupa mér kaffi. Kom heim klukkan að ganga tvö og hellti mér fljótlega upp á kaffi. Bríet hafði komið í millitíðinni og sótt Davíð. Þau skiluðu sér til baka um fjögur leytið. Davíð Steinn bjó til kjötbollur handa okku í kvöldmatinn.

17.12.22

Helgi

Vaknaði um sex. Var mætt í vinnu upp úr klukkan hálfátta. Sú sem var í bókhaldinu í gær lét vita að hún yrði sein fyrir. Við tvær sem vorum á vélarvaktinni fórum niður, kveiktum á vélinni, náðum í vagna og sendum síðasta endurnýjunarskammtinn í bili upp með lyftunni. Ég útbjó fylgimiða með endurnýjuninni en hin sá um póstmiðana með daglega póstinum frá því daginn áður og prentaði einnig út framleiðslutölur dagsins. Ég fékk að vera á ítroðsluendanum fjórða daginn í röð. Vorum ný byrjaðar að framleiða þegar við vorum sóttar upp til að fá afhentar jólagjafirnar, jólakort undirritað af forstjóra og gjafakort sem við höfðum sjálfar búið til. Í boði voru einnig kaffi, lagkökur og terta. Þrátt fyrir þetta millispil vorum við búnar með fyrstu framleiðslu dagsins um hálftíu. Settum af stað gjafakortaframleiðslu og fórum með töskuna upp og aftur í kaffi. Framleiðsludagurinn var ekki mjög stór en það voru þrjár skrár yfir 30 kort og ein af þeim yfir 100. Þær skrár framleiddum við kort og form sér og handlímdum og settum sjálfar í umslög og lokuðum. Á síðustu litlu fælum dagsins fór vélina að hiksta en við kláruðum allt rétt fyrir hálfþrjú og ég var komin á pósthúsið um þrjú. Sendi 16 jólakort í póst, tvö af þeim til Danmerkur og Englands, og keypti tvö auka frímerki. Næst lá leiðin í Nauthólsvíkina. Hringdi aðeins í pabba áður en ég skellti mér í -0,6°C sjóinn. Það var að fjara út og smá spölur að vaða út í en ég var að svamla um í tæpar fimm mínútur. Afar hressandi. Sat svo í heita pottinum í tæpan hálftíma áður en ég fór upp úr og heim. Skrifaði á síðustu jólakortin í ár og pakkaði inn fyrsta pakkanum. Pakkarnir verða nú ekkert mjög margir og jólakortin urðu 23 stkykki í heildina þannig að ég á 3 óskrifuð tilbúin fyrir næsta ár. Bríet frænka var komin í bæinn og þau Davíð Steinn voru í bæjarferð. Komu heim um átta leytið. 

16.12.22

Morgunstund

Annan daginn í röð byrjuðum við á því að senda nokkra póstbakka fulla af kortum með lyftunni upp í afgreiðslu. Sú sem var í bókhaldinu sá um að útbúa fylgiskjöl. Reyndar eru svo útbúin fylgiskjöl af þeim sem eru afgreiðslunni fyrir öryggismennina á bílunum með farminu sem hver og einn bíll tekur með sér. Við vorum á sömu vinnustöðum og tvo dagana á undan. Vorum þrjár til klukkan að ganga fjögur en þá bættist ein við. Klukkan var næstum orðin sex þegar búið var að framleiða allan daginn sem og það sem eftir var af endurnýjun þeirra korta sem eiga að taka við um áramótin. Það þurfti að búa til kort og form á stærstu skránum þannig að handtökin við þá vinnu voru mun fleiri heldur en þegar vélin gerir þetta sjálf alla leið. Eftir vinnu skrapp ég aðeins í sund. Synti 200 metra, settist í kalda í tæpar 4 mínútur, 5 mínútur í þann heitasta og svo tíu mínútur í sjópottinn áður en ég fór upp úr og heim.

15.12.22

Langir vinnudagar

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Sem fyrr hafði ég því góðan tíma til að vafra smá um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu. Var mætt í vinnuna tuttugu mínútur í átta og byrjaði á því að fara niður með einni úr teyminu til að kveikja á vélinni, opna geymsluna og senda nokkra kassa upp með lyftunni. Lyftan þurfti reyndar að fara tvær ferðir. Var aftur á ítroðsluendanum. Fram að kaffi framleiddum við þau kort sem ekki fara á form og fá að fara samdægurs út úr húsi. Í kaffitímanum létum við vélina framleiða gjafakort. Hún hefði átt að framleiða hátt í fimmhundruð, eða fylla sleðann sem tekur á móti. En framleiddi aðeins tæp hundrað því þótt þessi kort séu ekki að fara á form þóttist hún vera að flækja í umslaga partinum og þá þarf að opna þar og loka áður en maður smellir á "resume" til að vélin haldi áfram. Geymdum því aðeins gjafakortaframleiðsluna og fórum að framleiða form fyrir 500 kort sem við framleiddum kvöldið áður. Fengum aftur mannskap í að hjálpa okkur við að líma hátt í 2000 kort á form, setja í umslög og loka. Vorum þrjú eftir um fjögur en vorum búin heldur fyrr en á þriðjudagskvöldið eða um hálfsjö. Þá vorum m.a. búið að framleiða 400 kort sem eiga eftir að límast á form. Svo mikið var að gera við AO við Sprengisand að ég ákvað að koma við á stöðinni við Kaplakrika til að fylla á tankinn. Var samt komin heim rétt áður en seinni undanúrslitaleikurinn hófst; Frakkland - Marokkó 2:0.

14.12.22

Mánuðurinn næstum hálfnaður

Ég var komin í vinnuna rétt upp úr klukkan hálfátta, um svipað leyti og hinar tvær. Byrjuðum á því að sækja "dót" niður áður en við settumst um stund inn í kaffistofu, fengum okkur fyrsta kaffibolla dagsins og gripum aðeins í prjónið eða heklið. Ég var á ítroðsluendanum. Það var samt búið að hlaða inn verkefnum að hluta vegna smá misskilnings um vinnustöður. Tveir strákar niðri í myntinni tóku að sér að líma 500 kort á form og setja í umslög. Þeir tóku við fleiri svoleiðis verkefnum. Verklagið var líka svona hluta af daglegu framleiðslunni og þegar upp var staðið held ég að handlímd hafi verið yfir 2000 kort. Stór partur af þessu er endurnýjun. Umslaga parturinn er semsagt ennþá með vesen en nú er engin elsku mamma því það eru nokkur þúsund korthafar sem eru með kort sem renna út um áramótin. Sú sem á að koma til okkar í kortadeildina var einnig með okkur í gær. Sjálfsagt ekki gaman að kynnast starfsseminni þegar hún er svona löskuð. Við vorum fjögur sem unnum til klukkan hálfátta, svo lengi að kerfið var komið á og það þurfti að hleypa okkur kortakonunum út um slússuna niðri með fjarstýringu og einni slússuna út. Kom heim þegar fyrri hálfleik fyrri undanúrslitaleiksins í HM í Katar var að klárast. Horfði á allan seinni hálfleikinn og HM stofuna. Skrifaði líka á 7 jólakort í viðbót. 

13.12.22

Nýr jaxl

Aldrei þessu vant svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan fór að hamast. Hafði samt nægan tíma til að vafra aðeins um á netinu. Mætti í vinnuna rétt upp úr klukkan hálfátta. Blessuð umslagavélin er enn að haga sér frekar leiðinlega. Ég var á móttökuendanum. Byrjuðum á dk framleiðslunni upp úr klukkan níu og til að byrja með gekk allt sæmilega. Eftir því sem leið á daginn gekk verr og verr. Lukum ekki daglegri framleiðslu fyrr en um hálftvö. Þá dembdum við okkur í endurnýjun. Ég skrapp til tannlæknis um þrjú og fékk krónu yfir jaxlinn sem var slípaður niður um daginn, jaxlinn sem undan farin ár hefur verið rótarfylltur. Þessi aðgerð tók ekki nema tæpan hálftíma. Hringdi í vinnunna og þær vildu fá mig aftur. Ég var að spá í að koma fyrst við á pósthúsinu en ákvað að sleppa því að þessu sinni. Þegar ég mætti á staðinn var búið að ákveða af framleiða kort og form sér, handlíma kortin í formin, setja í umslög og loka. Framleiddum og límdum nokkur hundruð kort. Þegar við hættum rétt fyrir hálfsjö áttum við framleidd 480 kort og form sem eftir er að líma og setja í umslög. Óframleidd kort í heildina eru þrátt fyrir það á þriðja þúsund. Fór beinustu leið heim eftir vinnu. Hafði verið með sjósunds dótið í skottinu en það lokar í Nauthólsvík klukkan sjö og ég nennti ekki út aftur til að skreppa í sund. Fitjaði upp á nýrri tusku og skrifaði á fimm jólakort.

12.12.22

Jólabréfin afgreidd

Var komin á fætur fyrir klukkan átta. Skutlaði Davíð Steini í vinnuna rétt fyrir hálftíu og fór svo beinustu leið í Laugardalslaug. Þar byrjaði ég á því að synda 500 metra á braut 6. Hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum í sinni annarri ferð. Frekar lítið vatn var í heitasta pottinum en það var hægt að fleygja sér flötum í hann. Held samt að það hafi staðið til að loka honum. Eftir mína fimmtu ferð í kalda fórum við í sjópottinn. Þar hitti ég sjósundsvinkonu mína fyrir en hún kemur stundum í sund á sunnudagsmorgnum. Eftir sundið fór ég upp í Kringlu. Þurfti að bíða það í uþb korter eftir að opnaði (kl. 12). Byrjaði á því að skreppa í Eymundsson en svo skilaði ég fjórum bókum á safnið og tók fjórar í staðinn. Fljótlega eftir að ég kom heim tók ég fram skrifblokk, penna, merktu umslögin og jólakortin. Skrifaði aðeins tvö bréf og þau voru svona í styttri kantinum. Byrjaði á bréfi til ensku vinkonu minnar og skrifaði á jólakortið líka og lokaði saman í umslaginu áður en ég skrifaði bréf og jólakort til dönsku gömlu hjónanna á Jótlandi. Að auki skrifaði ég eitt jólakort á íslensku. Þá á ég eftir að skrifa á 18-19 kort í viðbót. Íslenska jólabréfið og jólakveðjan verður rafræn í ár.

11.12.22

Sunnudagsmorgun

Var komin á fætur stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Hafði alveg tíma til að setja inn færslu og vafra smá á netinu áður en kominn var tími til að skutla Davíð Steini upp á Gagnveg. Hleypti honum út  við vinnustaðinn sinn um hálfátta en þáði ekki kaffi að þessu sinni heldur fór beint heim aftur. Þar var ég að prjóna og lesa til skiptis þar til klukkan var langt gengin í ellefu en þá fór ég vestur í bæ í esperanto hitting. Hjá Inger byrjaði ég á því að þyggja grautarskál. Eftir að hafa gert grautnum skil settumst við í græna sófann í forstofuherberginu. Ég var með fyrsta kaffibolla dagsins meðferðis. Áður en yfir lauk var búið að hella þrisvar í hann aftur. Lásum stuttan kafla um himininn og þrumur og eldingar. Þurftu ekki að leita uppi mörg orð, en nokkur þó. Þegar við hættum bað Inger mig um að hinkra svo ég gæti hitt á dóttur hennar og barnabarn sem komu fljótlega. Mira Björk varð 3 ára í endaðan október en hún var ekkert feimin við mig bara hissa til að byrja með. En hún vildi alveg tala við mig. Áður en ég fór heim gerði ég tilraun til að skreppa á bókasafnið í Kringlunni en þar sem ég fann ekki bílastæði baka til, hvorki uppi né niðri ákvað ég að bíða með að skila bókunum. Skammtímaláns fresturinn rennur ekki út fyrr en eftir n.k. miðvikudag. Restin af deginum fór í meiri lestur, prjón og einnig horfði ég á tvo fótboltaleiki og tvo þætti. 

10.12.22

Jólahlaðborð

Mætti í vinnuna um hálfátta. Ég fór á móttökuendann á vélinni. Eftir fyrstu framleiðslu dagsins kom fljótlega í ljós að það væri eiginlega ekki hægt að vinna á hana eins og hún lét í umslagapartinum. Höfðum það þó af að ljúka við það sem stóð útaf frá því á fimmtudaginn og þótt það væru aðeins rúmlega sextíu kort tók það meira en eina og hálfa klukkustund. Von er á viðgerðarteymi um helgina og það var ákveðið að vera ekki að hjakka svona á vélinni lengur. Ein okkar fékk að fara um eitt en við vorum tvær sem biðum til þrjú eftir nýrri kortasendingu. Ég var komin í Laugardalslaugina korter yfir þrjú. Fór beinustu leið á braut  7 og synti 400 metra á bakinu. Næst lá leiðin í 9°C kalda pottinn og þar sat ég í fjórar mínútur. Endaði svo í góðu gufubaði áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Kom heim skömmu áður en seinni hálfleikur í fyrsta leik í átta liða úrslitum á HM var búinn milli Braselíu og Króatíu. 0:0 stóð eftir venjulegan leiktíma og 1:1 eftir framlengingu. Króatar unnu þetta í vítaspyrnukeppni. Um sjö skutlaði Oddur mér upp í Gullhamra þar sem ég hitta marga af vinnufélögum mínum á meiri háttar jólahlaðborði. Seðlaverið var á tveimur hringborðum. Við mættum tvær úr kortadeildinni og deildum með okkur einni hvítvínsflösku. Rétt upp úr níu hringdi ég í Odd sem kom og sótti mig um hálftíu. Við skutluðum samstarfskonu minni heim í leiðinni. Heima náði ég síðustu mínútum af framlengdum leik Argentínu og Hollands sem endaði 2:2. Argentínumenn unnu í vító.

9.12.22

Föstudagur

Ég komst að því í gær að ég get skráð mig inn á bloggerinn minn í vinnunni. Ekki það að ég ætli að nýta mér það eitthvað að ráði en ég gerði það þó í gær og bætti við textann og sagði frá umslagaskrifum mínum í fyrradag. Annars er vélin enn með vesen. Varahluturinn er kominn og voru hinar tvær í vinnu til klukkan að verða ellefu í fyrrakvöld. Ég var beðin um að vera í bókhaldinu og til að byrja með gekk allt ágætlega í framleiðslunni. Það hafði reyndar komið í ljós að það var einn vír í límarminum sem var brotinn og það var hægt að gera við hann til bráðabirgða en það þurfti að panta annan arm. Bráðabirgðaviðgerðin hélt ekki lengur en til hádegis í gær. Ég fékk að fara heim úr vinnu um fimm en ég veit ekki hversu lengi viðgerðarmaður, sem kom um tvö, eða hinar tvær voru. Ég sótti Davíð Stein heim til að skutla honum í Krónuna í Skeifunni að versla inn fyrir sig. Keyptum rúðuvökva í leiðinni og fylltum á bílinn en boxið var alveg galtómt. Vorum komin heim um hálfsjö. 

8.12.22

Líður á vikuna

Sendi skilaboð í vinnuna, rétt fyrir átta, um að ég ætlaði að halda mig heima við. Svaf svo áfram til klukkan að ganga ellefu. Þá fyrst fór ég á fætur. Skömmu síðar kom Davíð Steinn fram en hann fór í sinn fyrsta ökutíma í gær og gekk víst nokkuð vel. Ég var með prjónið, bók og fartölvuna inni í stofu. Seinna um daginn náði ég í jólakortin, umslög og penna. Það kom í ljós að jólalistinn var aðeins styttri en ég hélt. Númerin sem náðu upp í 24 voru ekki alveg rétt, vantaði 3 tölur inn í rununa svo listinn er ekki nema 21. Vissi að ég ætti amk 2 auka kort en þau eru þá 5. Nota þó sennilega ekki nema eitt eða tvö af þeim og á þá þrjú til fjögur kort tilbúin fyrir næsta ár. Skrifaði framan á 22 umslög en engin jólakort þó í bili. Dagurinn leið frekar hratt. Hringdi í pabba, Ellu vinkonu og Lilju vinkonu. Einmitt í þessari röð. Saknaði þess ekkert að það væri engin fótbolti á HM en horfði á þætti og Kiljuna í gær og gærkvöld. Var komin upp í rúm fyrir klukkan tíu og las í tæpan hálftíma. 

7.12.22

Lasin

Ég var mætt til vinnu upp úr klukkan hálfátta. Var aftur í bókhaldinu enda erum við farnar að taka tvo daga í röð, stundum þrjá, á sömu stöðvum. Ég prentaði út framleiðslutölur og skiptiblað og fór svo inn á kaffistofu með prjónana og flöskuna til að fylla á. Fékk mér kaffi í leiðinni. Um klukkutíma síðar fór ég að finna fyrir ónotum í maganum. Það virtist ekki ætla að líða hjá. Ég lét vita af þessu og taldi rétt að drífa mig bara heim. Var komin heim um tíu. Setti smá vatn í fötu og byrjaði á því að setjast á salernið með fötuna fyrir framan mig. Ekkert kom upp úr mér en ég tók fötuna þó með mér inn í herbergi til öryggis. Næstu þrjá tímana var ég með ónot í maga og kuldahroll en kastaði aldrei upp. Mókti til að byrja með en að lokum steinsofnaði ég og svaf til klukkan að byrja að ganga fjögur. Þá var ég hætt að finna fyrir einkennum. Fékk mér hrísköku með osti og kveikti á sjónvarpinu til að horfa á næstsíðasta leikinn í 16 liða úrslitum á HM. Átti poka af stjörnupoppi sem ég maulaði með. Fann ekkert fyrir ógleði en var svo sem ekkert banhungruð heldur. Leikurinn fór í framlengingu og vító og það voru Marokkómenn sem lögðu Spánverjana. Fljótlega skipti ég svo yfir á RÚV2 til að horfa á síðasta leikinn; Portúgal - Sviss 6:1 og Ronaldo sem kom ekki inn á fyrr en korter var eftir af venjulegum leiktíma skoraði ekkert af þessum mörkum. Annars er ég byrjuð að lesa þriðju bókina af fimm sem ég sótti af safninu í síðustu viku; Horfnar eftir Stefán Mána. Er búin með skammtímalánsbókina, framlengdu bókina og smásagnasafnið Sérðu það sem ég sé eftir Þórarinn Eldjárn.

6.12.22

Sjórinn 0,2°C í gær

Var mætt í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta í gærmorgun. Það var komið að mér að sinna bókhaldinu en eftir hádegi fór ég niður að hjálpa til við öðruvísi framleiðslu. Föstudagsframleiðslan var kláruð og amk þriðjungurinn af framleiðslunni fyrir mánudaginn. Umslagavélin var með vesen í restina annars hefðum við líklega látið okkur hafa það að klára allt sem fyrir lá. Kortin og formin voru framleidd sér. Kortin handlímd á formin og sett í umslög, einnig handgert. Ef umslagavélin verður ekkert skárri í dag munum við líklega bíða eftir varahlutnum sem vonandi kemur á morgun og að allt fari þá að virka eins og á að virka þegar varahluturinn er kominn í.

Stakk mér í sjóinn stuttu fyrir hálffimm. Það var stilla og flóð, mjög stutt út í. Mér leið það vel að svamla um að áður en ég vissi af var ég búin að vera uþb tíu mínútur í hressandi köldum sjónum. Sat svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. 

5.12.22

Mánudagur

Byrjaði gærmorguninn eins og ég hóf laugardagsmorguninn. Meira að segja á svipuðum tíma. Klæddi mig og bjó um um hálftíu leytið og eftir morgunverkin á baðherberginu færði ég mig inn í stofu. Bækur, prjónar, tölva og sjónvarp voru notuð. Bræðurnir voru sóttir um fjögur sótti ég esperanto vinkonu mína en hún var að vinna í næsta hverfi. Síðan sóttum við eina vestur í bæ. Vorum komnar að Hallgrímskirkju um hálffimm. Ekkert bílastæði var alveg við kirkjuna en ég fékk stæði á Berþórugötunni. Sú fjórða í Viðeyjargenginu bættist í hópinn í röðinni við kirkjuna. Skömmu síðar var byrjað að hleypa inn. Margir voru með miða eins og við en einhverjir gengu frá miðakaupum í anddyrinu. Við fjórar fengum sæti saman í miðri kirkjunni. Framundan var rúmur klukkutími af kórsöng og einsöng, 4 kvenna og stúlknakóra og 3 einsöngvara. Þessi tími var mjög fljótur að líða. Söngurinn var dásamlegur. 18 lög voru á efnisskránni en svo sungu kórarnir eitt aukalag á leiðinni út úr kirkjunni. Þær tvær sem ég sótti vildu labba heim svo ég labbaði ein að bílnum mínum og var komin heim upp úr klukkan hálfsjö. 

4.12.22

Skammtímalánsbókin upplesin

Rumskaði fyrst upp úr sex í gærmorgun. Ákvað að slökkva á vekjaraklukkunni sem var stillt á tæplega hálfátta, snúa mér á hina hliðina og sofa eitthvað áfram. Vissi næst af mér rétt fyrir klukkan níu. Þá kveikti ég á lampanum á náttborðinu og hélt áfram að lesa; Morðið í Öskjuhlíð um ævintýri Stellu Blómkvist. Las í uþb hálftíma áður en ég fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Rétt fyrir ellefu var ég mætt vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar. Var með esperanto dótið mitt, eða hluta af því, í fyrsta sinn í marga, marga mánuði. Hún byrjaði á því að bjóða mér í graut og á eftir fór ég með kaffi í bolla og settist í græna sófann í forstofuganginum. Við lásum hálfan kafla um veturinn í bókinni Leskaflar. Klukkan var að verða hálfeitt þegar ég kvaddi og fór aftur heim. Hafði þá drukkið þrjá kaffibolla. Hellti aldrei upp á kaffi hér heima en var að prjóna, lesa, vafra á netinu, horfa á leikina í 16 liða úrslitum á HM og síðustu þættina í þáttunum Ummerki sem sýndir eru á RÚV. 

3.12.22

Seint að sofa - sofið út

Vinnudagur gærdagsins varð langur en ekki 100% árangursríkur. Var mætt á svipuðum tíma. Sú sem var búin að vera í bókhaldinu og mánaðamótauppgjörinu bað um að fá að vera áfram í bókhaldinu. Við hinar ákváðum þá að halda sömu vinnustöðum svo ég var á móttökuendanum. Eftir fyrstu framleiðslu dagsins kom í ljós að sá hluti sem á að líma kort á form var mjög svo ósamvinnuþýður. Það var því ákveðið að hafa samband við viðgerðarmann. Sá komst ekki til okkar fyrr en upp úr hádeginu. Ætla ekki að fara nánar út í þessi mál nema að ég kom ekki heim úr vinnu fyrr en langt gengin í átta.

2.12.22

"Jóli Hólm"

Svaf alveg þar til vekjarinn fór í gang í gærmorgun. Hafði að vísu rumskað um fimm leytið en sem betur fer sofnaði ég aftur. Tók sunddótið með mér í vinnuna og geymdi í skottinu. Vorum á sömu vinnustöðvum og á miðvikudaginn. Ágætlega gekk framan af en svo fóru bæði prentarinn og umslagavélin að vera með leiðindi. Allt daglegt var búið. Einnig vorum við búnar að afgreiða allar gjafakorta pantanir. En okkur lék hugur á að vinna á stórri endurnýjun. Framleiddum þó aðeins um 150 kort en það bíða um 3000. Að vísu eru þetta kort sem eiga að taka við af kortum sem renna út um áramótin svo það er enn ágætis tími til að klára. Var komin í kalda pottinn um fjögur. Fór þrisvar í hann, tvisvar í þann heitasta og synti svo aðeins 200 metra áður en ég fór upp úr og heim.

Í pistli gærdagsins gleymdi ég að geta þess að bráðabirgðahulsan þar sem krónan, sem verið er að smíða, á að koma, losnaði. Það er búið að skanna svæðið og krónan verður tilbúin á næstu dögum svo ég er ekkert stressuð yfir að hafa svæðið opið. Finn ekkert til og ekkert kul heldur. Hringdi samt til öryggis í tannlæknaþjónustuna. Fékk óvart samband á Selfoss en sú sem talaði við mig gat flett mér upp. Hún taldi að þetta væri allt í lagi en það væri líka mjög fljótgert að festa hulsuna ef ég vildi. Ég ákvað að bíða bara átekta. Kannski fæ ég símtal frá tannlækninum í dag um að krónan sé komin. Annars var ég búin að fá póst frá Veitum um að komið væri að hinum árlega álestri mæla. Ég fór niður á ellefta tímanum í fyrrakvöld og tók myndir af mælastöðunum sem ég sendi strax.

Í gærkvöldi hittumst við fimm sem höfðum unnið saman í kortadeildinni í mörg ár á sýningunni; Jóli Hólm, í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Það var mikil skemmtun. Magnað hvað þessi strákur getur hermt listilega eftir mörgum. Það liggur við að hann breytist í persónuna sem hann er að herma eftir. Fannst t.d. á tímabili að það væri Páll Óskar sem stæði á sviðinu. Hálftíma hlé var á sýningunni sem byrjaði um hálfátta og lauk með laglegri jólasyrpu skömmu fyrir klukkan tíu. 

1.12.22

Sá fyrsti í síðasta mánuði ársins

Var mætt í vinnu á svipuðum tíma og undan farið. Ég var á móttökuendanum á vélinni og gekk allt tiltölulega vel fyrir sig. Allar gjafakorta pantanir voru kláraðar og það náðist að framleiða 1000 kort af stórri endurnýjun. Samt hættum við framleiðslu upp úr klukkan tvö. Þá var búið að framleiða samtals yfir 2000 kort. Hinar tvær tóku að sér að klára mánaðamóta talningar á meðan þær biðu eftir að ný kortasending kæmi í hús. Ég var komin heim um þrjú. Kveikti aðeins á sjónvarpinu og horfði á hluta af fyrrhálfleikjum úr síðustu umferð í D riðli. Svo fórum við Oddur í smá leiðangur. Ekki var of mikið rusl þannig að sorpið var sett í tunnurnar hér heima við. Byrjuðum á því að Oddur keyrði mig á bókasafnið í Kringlunni og beið eftir mér út í bíl á meðan ég skilaði þremur bókum af fjórum. Tók fimm bækur í staðinn, þar af eina sem er ný og á skammtímaláni. Þegar ég kom út í bíl sá ég til þess að framlengja skilifrestinum á bókinni sem var eftir heima, annars hefði ég þurft að skila henni í dag. Á um 100 bls. ólesnar af þeirri bók. Næst lá leiðin í Krónuna í Skeifunni til að fylla á brau-, osta- og skinkubirgðir. Ýmislegt fleira rataði í pokana. Oddur sá um að ganga frá vörunum þegar við komum heim aftur.