31.3.17

17 3 eða 17 17 17

Strætó var notaður milli heimilis og vinnu í gær og svo fékk N1 sonurinn kortið, reyndar til að skutlast í heimsókn í Mosfellsbæinn. Einkabílstjórinn fékk afnot af lánsbílnum til að taka vakt á Skeljungsstöðinni við Vesturlandsveg milli klukkan þrjú og hálfátta. Ég fór því ekkert í sund í gær, var bara að dunda mér hér heima að sinna skylduverkum og áhugamálum. Eitthvað hefur líklega gengið á þegar ég var að ryksuga í kringum sjónvarpið því þegar ég ætlaði að kveikja á því um hálfsjö var allt dautt og fjölmiðlamælarnir einnig. Mér sýndist rauði hnappurinn á fjöltengjunum vera á on þótt ekki væri ljós. Ég ákvað að bíða með að leysa úr þessu "vandamáli". Fann til kvöldmatinn, handa mér og einkabílstjóranum sem skilaði sér heim um átta. Las, prjónaði og vafraði um á netinu.

Oddur Smári fann það svo út að slökkt væri á einu fjöltenginu, líklega því sem hafði verið stungið í samband í innstunguna í veggnum. Hann kveikti á því stakk í samband aftur og þá var hægt að glápa á imbann aftur.

30.3.17

Sólin hækkar á lofti, meir og meir

Ég var með strætókortið í gær, og í dag. Eitt af því fyrsta sem ég gerði er ég mætti í vinnu í gærmorgun var að plasta kortið. Ég var mætt korter fyrir átta þótt það sé einhverjum metrum lengra að labba frá Þjóðleikhúsinu heldur en Hörpunni. Var komin heim aftur rétt upp úr klukkan fjögur og byrjaði á því að hringja í gemsan hans pabba. Vissi að foreldrar mínir voru eða höfðu verið í bænum þar sem mamma átti tíma hjá krabbameinslækninum. Það var mamma sem svaraði símanum og þá voru þau nýlega lögð af stað austur aftur. Allt leit ágætlega út og þetta orkuleysi er víst eðlilegt miðað við ferlið sem hún er búin að ganga í gengum síðustu misserin.

Oddur Smári var búinn að upplýsa mig um það að hann ætti að leysa af á Skeljungsstöðinni við Langholtsveg milli 18 og 19:30. Þarna um hálffimm lánaði ég bræðrunum bílinn svo þeir gætu skotist í smá heimsókn upp á kvennadeild Landsspítalans við Hringbraut. Oddur var vinnufataklæddur en geymdi þó vestið og skóna í skottinu á bílnum. Hann smessaði á mig þegar hann var að fara úr heimsókninni því ég hafði ákveðið að skreppa í sund á meðan hann væri á afleysingavaktinni. Þetta passaði líka alveg ágætlega. Var byrjuð að synda ca tuttugu mínútum yfir sex og komin að bensínstöðinni aftur á slaginu hálfátta.

Við mæðginin, öll þrjú, fengum okkur svo upphitaða kjötsúpu upp úr klukkan átta. Settist með bækur og prjóna inn í stofu og þótt ég væri aðallega að horfa á imbann, Kiljuna og Neyðarvaktina, þá prjónaði ég smávegis og lauk líka við að lesa bókina "Elsku Drauma mín". Er annars að lesa nokkrar í einu, m.a. Ósk eftir Pál Kristinn Pálsson. Það er vel hægt að mæla með þeirri bók því þótt þetta sé skáldsaga er verið að skrifa um eitthvað sem örugglega á sér hliðstæðu í raunveruleikanum.

29.3.17

Áhugamálin alltaf í forgangi

Fór á lánsbílnum í vinnuna upp úr hálfátta í gærmorgun enda N1 ungi maðurinn á vakt og að nota strætókortið. Það er nú annars alveg kominn tími á að fara að nota tvo jafnfljóta stöku sinnum á milli heimilis og vinnu. Hins vegar var ég ákveðin í að fara beint í sund eftir vinnu og þá sparar það óneytanlega mikinn tíma og nota vélknúið faratæki á milli staða, svona fyrst maður hefur aðgang að því.

Vinnudagurinn til 15:45 leið nokkuð hratt og umferðin var ekkert byrjuð að þyngjast þegar ég dreif mig í Laugardalinn. Var byrjuð að synda rétt upp úr klukkan fjögur. Synti þó ekki nema í uþb tuttugu mínútur en fór þrisvar sinnum rúmlega tvær mínútur í kalda pottinn. Hitti eina konu frá Akureyri í einum heitapottinum á milli kalda potts ferða. Hún var búin að vera í sundi frá því um hálftvö. Hafði notað sér inni laugina sagðist hafa synt skriðsund í tvo tíma. Eitthvað hlýtur hún að hafa synt marga marga kílómetra.

Um leið og ég kom heim eftir vinnu og sund setti ég upp 1,4 kg af súpukjöti í stærsta pottinn minn. Eftir að suðan var komin upp settist ég niður með prjónana í smá stund áður en ég fór að skera niður grænmetið í súpuna.

28.3.17

Frænkunöfnuhittingur

Gærdaginn tók ég snemma og var mætt í Laugardalinn rétt um það bil sem verið var að opna. Uþb fimm korterum síðar var ég mætt í vinnuna. Þar leið dagurinn frekar hratt. Klukkan fjögur var ég mætt vestur í bæ til nöfnu minnar sem er systurdóttir mömmu. Anna frænka er semsagt á landinu þessa dagana og það lítur út fyrir að hún verði hérna meira og minna næsta árið, þarf að hala sér inn 20 einingum í HÍ til að ljúka ákveðnu námi þar. Það var eins og við hefðum hist síðast í gær en við höfðum samt um helling að tala og vorum hvergi nærri búnar þegar ég kvaddi á tíunda tímanum um kvöldið. Þá vorum við búnar að fá okkur kaffi, vatn, dýrindis ofnbakaðan kjúklingarétt með ofbökuðum sætum kartöflum og sallat með. Það var ekkert fyndið hversu hratt tíminn flaug frá okkur en við getum huggað okkur við það að á meðan og þegar nafna mín verður á landinu munum við hittast nokkuð reglulega og því ber að fagna.  :D

26.3.17

Í foreldrahúsum

 er strætó farinn að ganga upp og niður Hverfisgötuna í stað þess að fara Sæbrautina. Mér skilst að þetta sé tímabundið á meðan einhverjar framkvæmdir standa yfir. Ég fór semsagt úr vagninum við Þjóðleikhúsið ca tuttugu mínútum fyrir átta á föstudagsmorguninn og rölti þaðan í vinnuna. Að loknum vinnudegi tók ég svo 13 heim frá Stjórnarráðinu. Brynja vinkona sótti mig heim rétt fyrir hálfátta um kvöldið og við fórum saman að sjá farsann "Úti að aka" í Borgarleikhúsinu klukkan átta. Hláturtaugarnar voru heldur betur kitlaðar. Á eftir rúntuðum við alla leið niður í bæ, lögðum við Búlluna og settumst inn á Slippbarinn þar sem vinkona mín bauð mér upp á vínglas en fé sér sjá kaffi-latte. Tíminn var auðvitað alltof fljótur að líða og var klukkan langt gengin í eitt þegar ég kom heim.

Stillti á mig vekjaraklukku til að mæta örugglega í sund strax um átta. Vaknaði auðvitað á undan klukkunni eftir tæplega sex tíma svefn. Dreif mig í sundið og gaf mér góðan tíma í rútínuna. Hafði samt uþb hálftíma heima áður en ég fór með esperanto-bakpokann yfir til norsku vinkonu minnar. Við lásum eina og hálfa bls. í Kon-Tiki. Skrapp í Krónuna áður en ég fór aftur heim. Oddur Smári aðstoðaði mig við að ganga frá vörunum. En ég staldraði eiginlega ekkert við heima heldur tók til ýmislegt til að hafa með mér austur þar sem ég ætlaði að gista eina nótt.

Þegar ég var búin að kveðja synina, ferma bílinn og sest undir stýri tók ég upp gemsann til að láta pabba vita að ég væri að leggja í hann en ætlaði jafnframt að koma við á einum stað á Selfossi þá sá ég að Helga systir var nýbúin að reyna að ná í mig. Hringdi til baka og spjallaði stuttlega við hana. Þau mágur minn voru í borginni en á leið á árshátíð Advania um kvöldið. Var komin í Fossheiðina upp úr klukkan tvö, sennilega nær hálfþrjú, stoppaði þar í góðan klukkutíma. Ég var nýkomin austur á Hellu þegar nafna mín og hálfdönsk frænka hringdi og sagðist vera á landinu um þessar mundir. Við ákváðum að hittast strax eftir helgi. Ekkert svo löngu eftir þetta samtal hringdi æskuvinkona mín, sem býr á Egilsstöðum, í mig til að óska mér til hamingju með daginn um daginn og heyra í mér.

Kláraði dokku tvö í sjalið en á líklega eftir að prjóna úr næstum tveimur dokkum enn áður en ég felli af.

24.3.17

Aftur komin helgi

Á miðvikudaginn fór ég á lánsbílnum beint í vinnuna. Hafði sunddótið með mér og geymdi það í skottinu. Strax eftir vinnu fór ég beint í Laugardalinn. Synti nú ekki nema 300 metra en fór þrisvar sinnum 2 mínútur í kalda pottinn og í heita potta á milli. Endaði á því að slaka vel á í gufunni. Kom heim rétt fyrir sex. Um sjö leytið útbjó ég kjúklinga ofnrétt og sauð bulgur til að hafa með. N1 strákurinn var ekkert svangur þegar hann kom heim úr vinnu og hinn ungi maðurinn fékk sér bara til málamynda að ég held. Hann er alls ekki matvandur en sleppti mestu af grænmetinu úr réttinum.

Í gærmorgun skutlaði einkabílstjórinn mér í vinnuna. Hann átti tíma hjá sérfræðingi í Mjóddinni aðeins seinna um morguninn og N1 sonurinn var með strætókortið því hann var á vakt. Einkabílstjórinn sótti mig svo aftur rétt fyrir fjögur. Ég skutlaði honum heim og náði í sunddótið, Að þessu sinni synti ég í uþb tuttugu mínútur, fór jafnoft og "lengi" í kaldapottinn og á miðvikudaginn, heita potta og sjópott á milli og endaði á gufuferð. Afar, afar hressandi, verð ég að segja/"skrifa".  :-)

22.3.17

Smá mánudagstilfinning í dag

Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um hálfsjö í gærmorgun og gaf mér góðan tíma í sund, pottaferðir og spjall. Ég kom heim aftur rétt fyrir níu og þá var Oddur Smári farinn í skólann en Davíð Steinn ekki vaknaður enda í vaktafríi og að jafna sig eftir flensu. Ég fór ekkert meira af bæ en brallaði ýmislegt hérna heima, þennan seinni sumarfrísdag. Aðallega var lesið og prjónað í bland við hæfileg heimilisstörf. Svo var ég svo heppin að Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn.

21.3.17

Í smá sumarfríi

Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnum, um átta, á laugardagsmorguninn. Forritunarkeppniskappinn fór labbandi í HR einhvern tímann eftir að ég var farin. Dagurinn þar hófst með morgunverði milli níu og tíu en keppnin hófst um tíu. Það voru tuttugu lið, mis-mannmörg, í keppninni. Oddur Smári stofnaði sitt lið sjálfur utan um sjálfan sig og nefndi það "The point". Rétt fyrir helgina spurði einn kennarinn hvort hann gæti/vild bæta við sig einum í liðið. Oddur samþykkti það en þetta var svo stuttu fyrir keppnina að hinn pilturinn fékk óáritaðan bol á meðan forritunarkappinn minn fékk bol með nafni liðsins.

Þegar ég var búin í sundi hafði ég rétt smá tíma til að skreppa heim, ganga frá sunddótinu og taka m.a. til esperantodótið mitt. Norska esperanto vinkona mín bauð upp á döðlutertu skreytta með rjóma og tölunum 49 í tilefni afmælis míns deginum áður. Eftir esperanto hittinginn verslaði ég í Krónunni. Eftir að hafa farið heim með þær vörur og gengið frá þeim fór ég á Kringlusafnið og skilaði þremur bókum. Held að það hafi elt mig 5 bækur heim í staðinn (er ekki búin að kíkja betur í bókapokann síðan). Um fimm leytið sótti ég Odd og tölvuna hans í HR. Þeir höfðu lent í 8. sæti. Fljótlega eftir að við komum heim fór ég að hafa mig til fyrir árshátíð RB. Þemað var "The great Gatsby" tímabilið. Sviðið sem ég vinn á gat hist á 101 hótel milli hálfsex og sjö. Ég mætti þangað korter fyrir sjö og náði að fá mér eitt hvítvínsglas áður en við löbbuðum yfir í Gamla bíó þar sem árshátíðin var haldi. Fínasta árshátíð en ég ákvað samt að fara heim fljótlega eftir miðnætti.

Tók því rólega frameftir sunnudagsmorgninum en svo setti ég í töskur og kvaddi synina áður en ég hélt austur yfir fjall. Stoppaði góða stund hjá Jónu og Reyni en var komin á Hellu um fimm. Svaf alveg til níu í gærmorgun, og svaf þar með af mér sundferð með pabba mínum. Ég var reyndar búin að ákveða, þegar ég fór að sofa, að vera ekkert að rífa mig upp og ekki stilla neina klukku á mig. Eftir hádegi fór ég labbandi til föðursystur minnar með prjónana mína og stoppaði hjá henni á annan tíma. Seinna um daginn hjálpaði ég mömmu við að þvo á sér hárið. Var komin í bæinn fyrir klukkan tíu í gærkvöldi.

17.3.17

Ný sundgleraugu með mínus 1,5 í styrk

Ég fór með strætó í vinnuna um hálfátta í gærmorgun og vann til klukkan hálffjögur. Kom heim í smá stund. Hringdi í pabba og tók svo til sunddótið. Það fyrsta sem ég þurfti að gera þegar ég mætti í Laugardalinn var að fjárfesta í nýjum sundgleraugum. Gúmmíið var farið af öðrum megin á gömlu gleraugunum. Synti í um tuttugu mínútur og fór svo þrisvar sinnum í kalda pottinn og alltaf í þann 42°C á milli. Úr Laugardalnum lá leiðin í Hagkaup í Skeifunni þar sem ég vinsaði að mér ýmsu til að undirbúa smá vinnustaðaafmælisveislu. Áður en ég fór heim aftur ákvað ég að koma við á KFC sonunum til mikillar gleði. Bakaði eina tvískipta köku seinna um kvöldið en kremið sem ég útbjó og átti að fara á milli botna og ofan á varð aðeins of þunnt svo það fór aðeins á milli. Dagurinn í dag er búinn að vera ævintýralega skemmtilegur og hann er ekki búinn enn, ætla að skreppa á fyrirlestur í Lífsspekifélaginu. Búin að lána einkabílstjóranum bílinn en þar sem N1 strákurinn er lasinn hef ég strætókortið.

16.3.17

Nokkrar línur um síðustu tvo daga.

Fór á lánsbílnum í vinnuna á þriðjudagsmorguninn án þess að koma við í Laugardalslauginni fyrst. Eftir vinnu skrapp ég í heimsókn til fyrrum kórsystur minnar sem býr við Lindargötuna. Stoppaði hjá henni vel á annan tíma enda langt síðan ég hef kíkt til hennar. Eftir heimsóknina fór ég heim og náði í sunddótið mitt.

Í gærmorgun varð ég að vekja N1 piltinn sem var í vakta fríi til að fá hjá honum strætókortið. Vinnudagurinn var stuttur í annan endann því allt var búið frekar snemma og við höfðum leyfi til að hætta fyrr. Ég var komin heim um hálfþrjú. Tvíburahálfsystir mín kom um hálffimm til að aðstoða mig við skattaskýrsluskil. Þá var ég búin að hella uppá og langt komin með að búa til vöfflur úr hálfri uppskrift. Vinkona mín stoppaði hjá mér til klukkan að ganga átta og á þeim tíma var margt spjallað og svo skiluðum við báðar inn skattframtölunum.

14.3.17

Fjólublátt sjal á prjónunum

Sunnudagurinn var að mestu undirlagður í galdramessu og þó. Var mætt í Laugardalinn strax upp úr átta. Synti í uþb hálftíma og gaf mér svo góðan tíma í köldum og heitum pottum. Kom heim einhvern tímann á ellefta tímanum. Útbjó mér graut a la Vallarnes (mix sem fæst í Hagkaup). Settist niður með bók í smá stund, eina af þessum sex eða sjö sem ég er að lesa. Um tólf bitaði ég niður rófu, hnúðkál, gúrku, blómkál, gulrætur og papriku. Skipti svo um föt og bað einkabílstjórann um að skutla mér í kirkjuna um eitt. Báðir bræðurnir komu svo í messu um tvö og gáfu sér smá tíma til að fá sér eitthvað af hlaðborðinu áður en þeir fóru í annan hitting. Lánaði þeim bílinn áfram. Ég labbaði heim úr kirkjunni klukkan langt gengin í fimm og dundaði mér við ýmislegt skemmtilegt fram á kvöld, aðallega lestur þó en ég fitjaði einnig upp á nýju sjali sem ég ætla að prjóna eftir sömu uppskrift og rauða svarið.

Byrjaði gærdaginn á að mæta í sund fljótlega eftir að laugin opnaði um hálfsjö. Var mætt í vinnu áður en klukkan sló átta. Eftir vinnu byrjaði ég á því að láta smyrja lánsbílinn. Hann var síðast smurður í ágústbyrjun og átti að smyrja næst þegar kílómetramælirinn sýndi 100000 en hann er víst kominn aðeins yfir þá tölu, fer að nálgast 100400. Restina af deginum eyddi ég í svipaða hluti og seinni partinum af sunnudeginu. Prjónaði m.a. líklega um tuttugu umferðir en lykkjunum fer fjölgandi með hverri umferðinni, byrjuðu með sjö lykkjum, eru komnar yfir 100 og verða líklega fleiri en 500 áður en yfir lýkur. 

12.3.17

Sunnudagssíðdegi eða rúmlega það

Ég var byrjuð að synda í Laugardalslauginni korter yfir átta í gærmorgun. synti í tæpan hálftíma og fór tvær ferðir í kalda pottinn á eftir. Endaði í sjópottinum og gufunni áður en ég fór upp úr aftur. Þegar ég kom heim biðu mín skilaboð frá norsku esperanto vinkonu minni um að hún væri vöknuð ef ég vildi kíkja á hana. Stoppaði því ekkert við heima, gekk aðeins frá sunddótinu og tók til esperantoefnið og poka ef ég færi að versla á eftir. Var mætt vestur í bæ rétt upp úr klukkan hálfellefu. Það var liðinn akkúrat mánuður síðan við höfðum esperantohitting síðast. Stoppaði í ca fimm korter og við náðum m.a. að lesa eina heila blaðsíðu í Kontiki..

Klukkan tólf var ég mætt í kirkju óháða safnaðarins ásamt þremur öðrum stallsystrum úr stjórninni og á klukkutíma undirbjuggum við 9 "verðandi" heita brauðrétti í jafnmörg föt og borðum var raðað á báðum hæðum og bollar settir á endana. Með þessu framtaki spöruðum við okkur líklega eina tvo tíma, þ.e. við þurftum ekki að mæta nema klukkutíma fyrir messuna í dag til að undirbúa kaffihlaðborðið. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni í Nóatúni, Hagkaup í Skeifunni og í Kringlunni en síðastnefnda staðinn og ástæðu þeirrar ferðar bar á góma í pistli gærdagsins.

11.3.17

Galdramessuhelgi

Enn ein helgin skollin á og jafnvel þótt aðeins hafi róast í vinnunni þeytist tíminn áfram og lætur hvorki bíða eftir sér né ná sér. Í dag er síðasti gildisdagur strætó kortsins sem ég fjárfesti í fyrri partinn í desember, fyrir þremur mánuðum síðan. N1 ungi maðurinn tók aukavakt og nýtir því kortið í dag. Næsta fasta vaktin hans er á mánudaginn svo ég kom við í Kringlunni um tvö leytið til að fjárfesta í nýju þriggja mánaða strætókorti sem gildir frá og með 13. mars n.k. Ég notaði annars kortið, sem er að renna út, fjórum sinnum í gær. Fyrst í vinnuna um hálfátta, svo heim seinni partinn. Það var sami bílstjóri og um morguninn og okkur fannst það bráðfyndið, bílstjóranum og mér. Lánaði einkabílstjóranum lánsbílinn á spilakvöld á sjöunda tímanum. Korter yfir sjö tók ég hins vegar strætó niður í bæ, einni stoppistöð lengra en Harpan. Kíkti aðeins í Eymundsson en passaði mig á freistingunum. Tíu mínútum fyrir átta var ég komin í höfuðstöðvar Lífspekifélagsins við Ingólfsstræti 22. Inger og Sigurrós komu stuttu seinna. Fyrirlestur kvöldsins var algert eyrnakonfekt og skynjun en verið var að tala um Krisnamuri og tónlist og fengum við allnokkur tóndæmi og fyrirmæli um að hlusta. Inn á milli fengum við svo ófáa fróðmolana.

Annars hamast ég við að lesa þessa dagana, eins oft en mismikið í einu og ég get. Er satt best að segja að lesa sex bækur af ýmsum toga. Hugsanlega skrifa ég eitthvað um þær síðar. Eina af þeim sem ég kom með af safninu í vikunni hef ég þegar lokið við; Óskalistinn eftir Grégoire Dalcourt. Sú bók er 152 blaðsíður, mjög grípandi og fær mann til að spá í hvað maður sjálfur myndi gera ef maður fengi stóran happdrættis eða lottóvinning og hvort eða hvað myndi breytast við það. Í sömu ferð af safninu kom líka ljóðabókin Dagsformið eftir Þorgeir Þorgeirsson. Hrífandi, smellin og virkilega góð á svo margan hátt. Ég er rúmlega hálfnuð með þá bók.

7.3.17

Bókasafn og kaldur pottur heimsótt seinni partinn í dag

Í gærmorgun tók ég strætó um hálfátta í vinnuna. Þurftum ekki að skipta okkur í mat og kaffitíma en vorum með verkefni alveg frá 7:45 til klukkan að verða hálfþrjú. Í hádeginu skrapp ég út í Bónus við Hallveigarstíg, einni samstarfskonu minni "til halds og trausts". Ég var ekki að versla sjálp en það getur verið gott að brjóta aðeins upp daginn og skreppa út í smá stund. Ég sá svo sannarlega ekki eftir þessari skreppu því ég hitti Lene, dönsku kaldapottsvinkonu mína. Hana hef ég ekki hitt síðan ég heimsótti hana í nóvember sl. nokkru eftir að hún var búin í stórri aðgerð. Hún hefur ekkert komið í sund síðan stuttu áður en hún fór í aðgerðina en bataferlið gengur afar vel og lífsgæðin hennar hafa batnað til muna. Það urðu fagnaðarfundir og hlýtt faðmlag. Spjölluðum í smá stund.

Eftir vinnu fór ég beint heim og sinnti ýmsum misáríðandi verkefnum. Hafði matinn tilbúinn einhvern tímann á sjöunda tímanum og um átta fór ég á húsfund yfir í 19, íbúðina sem er hinum meginn við stofuvegginn minn. Fundurinn stóð yfir í hátt í tvo tíma. Þegar ég kom til baka horfði ég á 24 Legasy á sjónvarpi símans. Las líka um stund eftir að ég var komin upp í svo klukkan var langt gengin í miðnætti áður en ég fór að sofa í hausinn á mér.

6.3.17

Sameiginlegur húsfundur fyrir íbúa 19 og 21

Fór ekkert í sund á laugardaginn. Byrjaði á því að skutla Skeljungsafleysingapiltinum á Birkimel rétt fyrir klukkan níu. Hann fékk að hafa með sér strætókortið til að nota eftir vinnu um kvöldið þar sem N1 pilturinn var lasinn heima. Um tíu var ég kominn upp í Egilshöll til að fylgjast aðeins með Norðurlandamóti í listhlaupi á skautum. Systir mín var þar alla helgina að taka myndir fyrir skautasambandið. Um hálftvö kom Bríet heim með mér. Við stoppuðum á einum stað á heimleiðinni, til að versla smávegis í Hagkaup í Skeifunni. Heima bjó ég til vöfflustafla og kaffi sem við Bríet og Davíð Steinn fengum okkur af um hálffjögur. Ég var reyndar ein um að drekka kaffið. Þegar Helga systir kom heim úr Egilshöll var að malla lasanja í ofninum og tíu mínútum áður en það var tilbúið skellti ég hvítlauksbrauði með neðst í ofninn, nokkuð sem ég geri afar sjaldan.

Á sunnudagsmorguninn skutlaði ég N1 stráknum í sína vinnu um hálfníu og fór beint í sund. Eftir að hafa skilað sunddótinu af mér heima dreif ég mig austur á Hellu í heimsókn til foreldra minna. Var komin þangað upp úr klukkan tólf og var alveg fram yfir kvöldmat og Landann. M.a. aðstoðaði ég pabba við að skipta um gardínur í eldhúsinu en ég saumaði smávegis út, las í einni bókasafnsbók sem ég var líka með meðferðis og leysti sudokuþrautir. Sá Anítu keppa í 800 og vinna til bronsverðlauna. Auðvitað spjallaði ég heilmikið við pabba minn. Ekki alveg eins mikið við mömmu því hún liggur mikið fyrir vegna orkuleysis. Hún gat þó horft á Landann.

4.3.17

Mæðgur í heimsókn

Allt í einu er vinnuvikan liðin og komin helgi. Ég var með strætókortið á miðvikudag og fimmtudag. Var mætt nokkru fyrir átta þann 1. mars og samdi um að fá að fara heim klukkutíma fyrr þannig að ég var komin heim fyrir hálffjögur. Dreif mig næstum beint í að ryksuga og skúra sameignina frá þvottahúsi og upp að  flísunum við útidyrnar hjá mér og risíbúðinni. Kvittaði fyrir mig og þarf lítið að hugsa um þetta næstu þrjá mánuðina eða svo. Oddur Smári kom fyrr heim úr skólanum en til stóð, þ.e. síðasti tíminn féll niður svo hann slapp við að vera í skólanum alveg til hálfsex. Við mæðgin vorum boðin yfir á Sólvallagötuna í eftirveislu vegna útskriftar Fransisku úr sálfræði úr HÍ á dögunum. Ég hefði reynda líka geta verið að fara í hitting með KÓSÍ félögum en maður getur víst ekki verið alls staðar. Ég ákvað amk að mæta vestur í bæ, gefa mér góðan tíma með góðum vinum og fékk einkabílstjórinn að keyra báðar leiðir. Svo merkilegt sem það er að þá var það ég sem ákvað að kalla þetta gott um tíu. Bræðurnir voru ekkert að reka á eftir mér og enn síður þau sem buðu okkur heim. Reyndar fór nýútskrifaður sálfræðingur í annan hitting upp úr níu. Þetta var hið skemmtilegasta og notalegasta kvöld.

Um fjögur á fimmtudaginn tók ég leið 11 niður á Hlemm og labbaði þaðan í Katrínartúnið á starfsmannafund hjá RB. Sá fundur var afar fróðlegur og var m.a. farið í gegnum sl. ár og það sem af er þessu ári. Fékk far heim upp úr sex. Um ellefu leitið komu systir mín og dætur hennar og fengu þær að hreiðra um sig í stofunni eftir að hafa verið marg-faðmaðar.

Ég var fyrst á fætur í gærmorgun, um hálfsex og mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um hálfsjö. Kaldi potturinn var lokaður og tómur en ég synti í um tuttugu mínútur og fór bæði í sjópott og þann 42° heita. Mætti í vinnuna rétt fyrir klukkan átta. Vinnudagurinn leið hratt að venju en þau tíðindi gerðust að forstjóri RB mætti í heimsókn ásamt framkvæmdastjóranum okkar og höfðu þeir tvær tertur meðferðis, epla- og súkkulaðitertur.

N1 strákurinn var að vinna en við Oddur Smári fengum okkur af baunasúpunni um hálfsex áður en ég skutlaði honum á spilakvöld í Kópavogi svo ég gæti haft bílinn áfram. Ekkert löngu eftir að ég kom til baka komu Helga og Bríet við að sækja dót fyrir Huldu sem ætlaði að gista hjá vinkonu og svo voru þær fyrrnefndu á leið í aðra heimsókn. Ég var mætt í Lífsspekifélagið nokkru fyrir klukkan átta og var með bók með mér á meðan ég beið. Davíð Steinn hringdi og sagðist vera orðinn lasinn og ekki treysta sér heim með strætó, ef hann skyldi nú kasta upp á leiðinni. Ég sagði honum að ég skyldi splæsa á hann leigubíl. Það fór þó þannig að einn vinur hans var á ferðinni og gaf honum far. Sá þurfti að stoppa einu sinni á leiðinni og hleypa þeim lasna aðeins út. Esperanto vinkona mín mætti á fyrirlesturinn sem breyttist. Fyrirlesarinn sem átti að vera mætti ekki og það náðist ekki í hann en við fengum engu að síður áhugaverðar pælingar og punkta m.a. um hug, vitund og fleiri tengd orð áður en farið var í kaffi upp á efri hæðina. Ég var að fara að huga að því að fara heim þegar Oddur Smári hringdi og sagðist vera farlaus, hvort ég nennti að sækja sig. Það snérist upp í smá ævintýri. Samþykkti að skutla einum spilafélaganum en skreppa fyrst með þá í ísleiðangur. Spilafélaginn reyndist eiga heima lengst upp í Grafarvogi svo klukkan var rétt byrjuð að ganga tólf þegar við mæðgin komum heim. Þá voru allir komnir í ró sem voru hér heima.

Kílómetramælirinn náði upp í 100000 í gærkvöldi og ég þarf að fara að huga að því að láta smyrja lánsbílinn.

1.3.17

Sameigninni skilað

Þurfti smá tilfæringar við að komast inn í bílinn í gærmorgunn en ekkert sem tafði mig að ráði. Spreybrúsinn sem N1 strákurinn gaf mér í haust vann vel á ísingunni á rúðunum þannig að það þurfti ekki að hafa mjög mikið fyrir því að skafa. Frostið var 6 gráður þannig að kaldi potturinn var lokaður og galtómur. Ég brá því á það ráð að setjast aðeins í "sólbað" eftir  sundið og heita pottinn sem og að enda á ískaldri sturtu. Var mætt til vinnu tímanlega til að ná einu af stæðunum á neðra planinu. Vinnudagurinn til fjögur leið eins og hendi væri veifað. Ég var komin heim um hálffimm og fór eiginlega beint í að setja af stað það sem átti að vera í matinn að kvöldi sprengidags, saltkjöt og baunir. Við Oddur ákváðum að sleppa því að setja rauðkál út í að þessu sinni þannig að blandan var ekki eins jólaleg og í fyrra, en góð var hún og enn er nóg til.