30.4.07

- Hitt og þetta -

Á föstudagskvöldið var sóttu tengdó tvíburana og einn sonarson til og tóku þá með sér í sumarbústað upp í Húsafell. Þar verða þau alveg þar til á morgun. Ekkert mál var að fá frí í skólanum og eini gallinn við þetta var að í dag er síðasti upptökudagur Drengjakórsins fyrir geisladiskinn. En plúsarnir eru miklu fleiri. Strákarnir hringdu báðir í mig í morgun og sögðu mér að það væri bongóblíða. Þeir eru líka búnir að senda pabba sínum nokkur myndskilaboð, m.a. eina af afa þeirra að grilla.

Davíð
vann meira og minna alla helgina en fór þó ekki í vinnu fyrr en um fimm leytið í gær, eftir leikinn Arsenal - Fulham. En í staðinn var hann að vinna langt fram á nóttina.

Ég er byrjuð að sauma engilinn. Það var erfitt að byrja en þegar ég var komin af stað var þetta bara gaman. Líklega þyrfti ég að nota fingurbjörg því ég er orðin sár á góm hægri löngutangar, nálin gefur engin grið þótt ég sé bara að ýta á eftir henni. Las Valkyrjur eftir Þráinn Bertelsson um helgina. Bókin er spennandi og meinfyndin á köflum, enda var ég alls ekki lengi að lesa hana.

26.4.07

- Gráðun -

Oddur Smári tók gráðun í karate í gær og er nú komin með heilt rautt belti. Ég fékk að fara fyrr af foreldrafundi DKR til að fylgjast með gráðuninni. Tíminn átti að byrja 18:10 en hópurinn á undan var ekki búinn í gráðun fyrr en tuttugu mínútum fyrir sjö. Oddur var í fyrsta hópnum og honum gekk bara þokkalega, gleymdi sér samt aðeins með upphafsstöðuna en að öðru leyti fékk hann bara fínar athugasemdir. Hann kom svo og settist hjá mér þegar hann hafði lokið sér af. Þegar ég hvíslaði því að honum að hann gæti þurft að fara í sturtu heima sagði hann mér að hann gæti alveg labbað heim og hvatti mig til að mæta á réttum tíma á kóræfingu.
Adda kenndi okkur nýjar æfingar og lög á æfingunni, sem var mjög skemmtileg. Hún sagði að hún væri ekki búin að kenna okkur helminginn af öllu því sem hún kann fyrir sér. M.a. á hún eftir að kenna okkur að hengja upp naflann. En við sungum mikið út um eyrun í gærkvöldi.
Ég er með tvær bækur í takinu. Flóttinn eftir Sindra Freysson er á náttborðinu. Þetta var eina bókin sem ég átti eftir að lesa og gat ekki framlengt sjálf. Ætlaði að sjá til hvort ég myndi bara ekki skila henni á safnið (í síðustu ferð minni þangað) en þegar ég byrjaði að lesa hana sá ég að þessa bók yrði ég að lesa til agna. Svo ég fékk bókasafnsvörðinn, sem tók á móti bókunum sem ég skilaði af mér 20. apríl sl., til að framlengja Flóttann fyrir mig. Hin bókin er Hveitibrauðsdagar eftir James Patterson. Mögnuð spennusaga sem ég verð líklega ekki lengi að lesa. Ég hef nýlokið við að lesa bókina Gylting eftir Marie Darrieussecq. Það er bók sem ég mæli með. Hún er svolítið öðruvísi og kemur manni sífellt á óvart.

24.4.07

- Þvílíkt úthald -

Davíð Steinn hjólaði sjálfur á kóræfingu upp úr hálffimm í gær. Ég skutlaði Oddi Smára á karateæfingu, þá síðustu fyrir gráðunina, rétt fyrir sex. Sagði honum að líklega yrði hann að ganga heim því ég ætlaði að vera tilbúin með matinn þegar allir skiluðu sér heim. Strákurinn var svo heppinn að pabbi hans gat komið við og sótt hann er hann var að koma úr vinnu. Davíð var semsagt að vinna til klukkan sjö í gærkvöld. Eftir matinn hellti ég upp á smá kaffi fyrir manninn en stakk svo af. Var komin í Hafnarfjörðinn rétt fyrir hálfníu og við tvíburahálfsysturnar byrjuðum kvöldið á klukkutíma göngutúr og á eftir var saumað til klukkan hálftólf. Ég var með allt ósaumað efni með mér, bæði myndir, jólakort og jólalöber og þóttist ætla að dvelja á meðan ég lyki öllum þessum verkefnum. Það hefði nú þýtt það að ég hefði sest upp hjá vinkonu minni í nokkra mánuði. Ég náði að klára jólakortið með jólasveininum sem situr við opinn eld og þegar ég verð búin með bjöllurnar (byrjaði ekki á þeim í gærkvöldi) mun ég taka mynd af kortunum og setja á bloggið. Maðurinn minn var vakandi og að horfa á sjónvarpið þegar ég kom heim um miðnætti. Þá var hann ekki búinn að sofa síðan aðfaranótt sunnudags...

23.4.07

- Helgin flogin -

Davíð var að vinna alla helgina. Hann var heima á laugardagskvöldið, rétt skrapp heim í mat í gærkvöld og var ekki einu sinni kominn þegar ég fór í vinnuna í morgun. Hann kom víst rétt seinna bara til að skreppa sturtu áður en hann fór aftur. Er þetta nú hægt?
Lauk við að sauma Kossinn á föstudagskvöldið. Merkti hana með hvítum, skammstöfum og ártali, neðst í vinstra hornið, eða það hélt ég. Mátti rekja það upp því sú merking lenti fyrst á hvolfi efst í hægra hornið. Nokkuð skondið. Saumaði svo næstum eitt jólakort um helgina. Myndin er af jólasveini sem situr með bolla af heitu kakói við opinn eld. Mjög flott.
Á laugardagsmorguninn mætti ég í síðasta jógatímann í bili. Við vorum bara 31/2 í þessum tíma + kennarinn og tveir kennaranemar. 1/2 segi ég vegna þess að það kom 6 ára strákur í fyrsta skipti með pabba sínum. Stráksi stóð sig vel í reipunum og fékk góða hjálp frá kennaranum.
Söng við þjóðlagamessu í gær og gekk það allt saman ágætlega. Tvíburarnir voru boðnir í bíó með bekkjarfélaga annars þeirra. Þar sem Davíð var að vinna ákvað ég að horfa á handboltaleikinn heima til að geta líka fylgst með gangi mála fyrir norðan. Strákarnir komu heim úr bíó um hálffjögur en stoppuðu ekki lengi heima. Þeir vor svolítið seinir í mat því klukkan var orðin hálfátta þegar þeir skiluðu sér. Ég leyfði þeim svo að vera úti í fótbolta til níu en þeir fóru líka beint í háttinn þegar þeir komu inn.

20.4.07

- Mánuföstudagur -



Ég er alveg á því að mér finnist ekki vera föstudagur fyrr en einhvern tímann eftir hádegi í dag. Það er svo sem allt í lagi, amk á meðan ég mæti ekki óvart til vinnu á morgun haldandi það að það sé þriðjudagur.

Gærdagurinn var bara rólegur hjá mér. Hellti upp á könnuna um níu og klukkutíma síðar fór Davíð í vinnuna og ég sá hann ekki aftur fyrr en um hálfníu um kvöldið. Ég skrapp til norsku vinkonu minnar og lásum við saman esperanto í einn og hálfan tíma. Þegar ég kom heim var Dagur, vinur strákanna kominn en Oddur Smári var farinn til einnar bekkjarsystur sinnar. Hann fór svo með henni í Fjölskyldu og húsdýragarðinn og var þar fram eftir degi. Ég spurði Davíð Stein hvort þeir félagarnir vildu ekki kíkja líka og þegar Dagur hafði fengið leyfi skutlaði ég þeim. Okkur kom saman um að ég myndi sækja þá um þrjú nema þeir myndu hringja áður. Það var einmitt það sem gerðist, Davíð Steinn hringdi um hálfþrjú og bað um að þeir yrðu sóttir. Tveim tímum seinna skutlaði ég þeim á frjálsíþróttaæfingu. Oddur Smári hafði ákveðið að sleppa æfingunni. Hann hitti frændur sína í húsdýragarðinum og slóst í för með þeim.

Ég var heima að mestu og saumaði næstum út í eitt enda er ég næstum búin með Kossinn. Ég á bara eftir að sauma það hvíta í hvora höku og svo merkja mér myndina. Hvort er það þá Blái Engillinn eða þessi næst og svo á ég fullt af ósaumuðum jólakortum líka og þar eru flest munstrin það flott að ég mun sauma þau aftur og aftur og aftur...

18.4.07

- Síðasti vetrardagur -

Seinni partinn verður örugglega föstudagsfílingur í manni þar sem það er frí á morgun. Þegar ég kom heim rúmlega fjögur í gær sá ég að Davíð hafði ekki farið í vinnuna, jeppinn var heima, en maðurinn minn veiktist í fyrrakvöld. Ég vil meina að hann hafi veikst því það er búið að vera mikið álag á honum í langan tíma. Ég notaði tækifærið, hringdi í hann og bað hann um að senda strákana út með lyklana af jeppanum. Skutlaði "þríburunum" á frjálsíþróttaæfingu og kom við í fiskbúð á heimleiðinni.

17.4.07

- 17. gjöfin -

Ég fékk bæði tölvupóst og sms frá Blóðbankanum í gær. Það furðulega var samt það að ég hafði einmitt ætlað mér að fara í bankann þennan dag og gefa. Svo ég fór um leið og ég var búin að skutla Davíð Steini á kóræfingu. Allt gekk svo fljótt og vel fyrir sig að ég var komin á réttum tíma til baka til að skutla Oddi Smára á karateæfingu.
Þegar ég kom úr hádegismat í dag hafði ég misst af hringingu en skilaboðin voru þau að Davíð Steinn á að losna við góminn á morgun en ekki n.k. föstudag. Sá held ég að verði kátur þegar hann fréttir þetta.

16.4.07

- Helgin -


Þegar ég kom heim úr jógatíma á laugardagsmorguninn var Bríet frænka komin. Hún kom hlaupandi til mín og fagnaði mér vel. Helga og Ingvi voru í smáferð með vinnufélögum hans og þeirra mökum. Hulda hafði gist hjá vinkonu og var hjá henni. Bríet var voða hress og skemmtileg. Um eittleytið hafði Davíð orð á því að hann þyrfti að drífa sig í vinnuna. Þá tók sú stutta utan um annan handlegginn á honum og sagði: -"Nei, ekki þú fara að vinna. Bara mamma". Hann fór því ekki fyrr en hún hafði verið sótt. Ég hafði orð á því hvort við ættum að spá í að fá okkur sjálf svona vinnustoppara. Davíð Steinn smellti fingrum og spurði hvort Bríet gæti gert svona. Hún reyndi eitthvað smá en sagði svo: -"Nei, ég er bara þriggja ára". (Hún verður 3 í júní)

Í gær skruppum við mæðgin til einnar vinkonu minnar sem stytti fyrir mig þrennar buxur á þá, tvennar fyrir Davíð Stein og einar fyrir Odd. Eftir heimsóknina skutlaði ég bræðrunum aftur heim en skrapp sjálf að versla. Davíð gekk frá vörunum er ég kom með þær en ég kvaddi hann fljótlega aftur og fór vestur á Nes á leikinn Valur - ÍR 35:24. Nú er bara ein umferð eftir af handboltanum. Valur og HK eru með jafnmörg stig en Valsmenn sigruðu HK menn í tveimur leikjum af þremur og vinna á því, þ.e. ef bæði lið enda með jafnmörg stig eftir lokaumferðina.

13.4.07

Nokkrar sumarvorsstökur

Þó að rigni stríðum straumi
stingur birtan sér í gegn.
Þetta er eins og í dúndur draumi
dæmalaust góð fregn.

Dagur lengist meir og meir
mikið er það flott.
Bleytan breytir mold í leir
bráðum verður gott.

Sumarið er handan við hornið
hækkar sólin daglega.
Ekki svo slæmt fyrir íslenska kornið
sem ég nota "glaðlega".

12.4.07

- Loksins, loksins - FLÆÐIÆFINGAR í jóganu -

Mætti í jógatíma rétt rúmlega sex í morgun. Við vorum heldur fleiri heldur en í síðasta tíma. Eftir að hafa gert allar tíu kviðæfingarnar á bakinu 15 sinnum og teygt vel á eftir bað kennarinn okkur að losa af okkur böndin, setjast upp og fylgjast með sér. Hann sýndi okkur allar flæðiæfingarnar og svo hjálpaði hann okkur að æfa þær á eftir. Ég kunni fyrstu fimm og fékk svo smá leiðbeiningu með eina af hinum. Þetta var frábær jógatími.

Það var engin kóræfing í gærkvöldi þar sem við erum búin að vera í miklum kórönnum undanfarið og það er heldur engin messa næsta sunnudag. Við tvíburahálfsysturnar ákváðum samt að nota kvöldið til að hittast og taka nokkur saumspor. Um hálfátta fékk ég SMS. Hmm, hugsaði ég með mér, það var bæði verið að draga í SIBS og HHÍ". Skilaboðin voru reyndar frá tvíburahálfsystur minni sem stakk upp á því að byrja á því að fara í smá göngutúr. Ég tók vel í það, var mætt til hennar um hálfníu og við tókum uþb 45 mín göngu. Á eftir fengum við okkur kaffi, rúsínur (óhúðaðar), hnetur og döðlur. Svo var saumað, þ.e. ég saumaði en hún var í einhverju basli með saumaverkefnið og þurfti að rekja upp til að laga. Kvöldið leið fljótt eins og alltaf þegar við hittumst. Ég passaði mig á að stoppa ekki of lengi þar sem það var jógatími í morgun. Var komin heim um ellefu.

Davíð
ákvað að fara að sofa um leið og ég en það gerist ekki oft þessa dagana og mér skilst á honum að það verði eitthvað lítið um svefn næstu vikuna þar sem hann (og fleiri) eru að setja upp nýtt kerfi fyrir einn kúnnan, kerfi sem á að fara í notkun um miðja næstu viku.

10.4.07

- Esperanto-krossgáta kláruð -

Strax eftir vinnu lagði ég leið mína til norsku esperantovinkonu minnar og var ég með allt efnið með mér. Fyrr en varði vorum við farnar að glíma við krossgátu í smáblaði sem við fengum þegar við mættum á fyrsta fundinn. Okkur vantaði aðeins fjögur orð, ögn (örlítið), róa, safi og ísskápur og þar sem við höfum eignast góðar og stórar esperanto-orðabækur, sem virka í báðar áttir þá töldum við að þetta yrði lítið mál. En sú var nú ekki raunin. Við fundum að vísu eitt orðanna en svo gáfumst við upp og fórum að lesa lítið ljóð sem var annars staðar í blaðinu. Og viti menn, þar sem við erum að leita að orðinu rem-boato, small allt saman á augabragði. Iome, remi, sako kaj kudejo (í sömu röð og þau voru skrifuð á íslensku hér á undan). Við vorum heldur betur ánægðar með okkur vinkonurnar.

Mætti eldhress í jóga í morgun, ein af fimm. Nú er að hefjast sjöunda vikan af átta og aðeins fjórir tímar eftir þar sem það er rauður dagur í almanakinu þann 19. n.k.

Tvíburarnir björguðu sér einir heima frá klukkan ellefu í morgun. Davíð var að vinna, hér heima, til klukkan að verða fimm í morgun og svaf til tíu. Það ætlar bara ekki að linna þessari törn. Hann hefði getað verið að vinna alla páskana og gerði það næstum því. Hann vann ekkert á laugardaginn var og bara til hádegis á páskadag. Hvar endar þetta eiginlega? Það fer að verða kominn tími á sumarbústaðaferð til að "vinda" ofan af sumum.

9.4.07

- Hallelúja -

Flest vorum við mætt, kórfélagar mínir og kórstjóri, í kirkjuna um sjö í gærmorgun. Gáfum kórstjóranum páskaegg númer 5. Það var byrjað að hita upp á slaginu og svo æfðum við okkur að ganga inn kirkjugólfið syngjandi sálm númer 577, fórum yfir hátíðarsöngvana og hina sálmana. Svo gafst góður tími fyrir kaffi. Rétt fyrir átta fórum við út að baka til, gengum fyrir hornið, komum inn um kirkjudyrnar og stilltum okkur upp í anddyrinu. Þeir kirkjugestir sem voru seinir fyrir horfðu undrandi á okkur. Með okkur var presturinn og safnaðarstjórnin en þau gengu svo inn á eftir okkur með altarismunina. Messan fór vel fram og létu raddirnar merkilega vel að stjórn miðað við tíma dagsins.

Þegar ég kom heim voru tvíburarnir búnir að finna eggin sín. Davíð var að vinna og ég ákvað að leggja mig um stund. Um hádegisbil dró ég manninn frá tölvunni og við brunuðum öll austur. Hittum Helgu, Ingva og stelpurnar rétt í svip áður en þau fóru í heimsókn til frændfólks. Þau komu við í bakaleiðinni og fékk Hulda að verða eftir til að geta leikið sér við frændur sína. Hún kom svo með okkur þegar við fórum aftur í bæinn um kvöldið.

7.4.07

- Skróp -

Ég rumskaði löngu áður en vekjarinn fór af stað í morgun. Fann fyrir eymslum í hægri öxl og niður í herðablaðið (ég hef samt ekkert verið að sauma í nokkra daga og aldrei fundið fyrir svona verk eða þreytu vegna saumaskapar). Líklega hafði ég legið eitthvað asnalega á hliðinni og klemmt taug, eða eitthvað. Ég ákvað semsagt að slökkva á vekjaranum og sleppa jóganu í morgun.

Gærdagurinn
gekk annars bara mjög vel fyrir sig. Stór hluti af honum fór fram í tveimur kirkjum, í Kópavogskirkju milli hálftíu og rúmlega tólf og í Kirkju Óháða safnaðarins frá hálfsjö til rúmlega hálftíu. Fyrri flutningurinn tókst alveg með ágætum. Kórstjórarnir sögðu eftir á að það hefðu verið ein tvö eða þrjú slys hjá okkur en enginn af kirkjugestum hafði tekið eftir þeim og var samt einhver þar á meðal sem er tónlistamenntaður. Okkar kór mætti á undan um kvöldið og æfði aðeins fyrir páskamessuna. Kópavogskórinn kom klukkutíma seinna og við renndum saman yfir kvöldið. Þau ákváðu að syngja með okkur sálmana á milli píslasögukaflanna. Við sungum m.a. "Ég kveiki´ á kertum mínum" í röddum og það þótti svo flott að það hríslaðist léttur hrollur um amk suma kirkjugesti. Eftir lesturinn var altarisganga og svo hreinsuðum við allt af altarinu. Flest ljós voru slökkt og Pétur, kórstjórinn sem er að hætta og Ragnar, einn af meðhjálpurunum komu inn með logandi á sjö kertum og var slökkt á einu í senn eftir hverja setningu sem Jesús sagði á krossinum. Svo var stillt upp fyrir "Litlu orgelmessuna" og "Ave verum corpus". Ljós var kveikt við orgelið og einnig þannig að við kórarnir gætum séð á nótur en það gleymdist að sjá til þess að stjórnendur hefðu ljós svo þær urðu að stjórna okkur í blindni. En það tókst samt furðanlega og mér skilst á þeim sem höfðu líka mætt í Kópavogskirkjuna að flutningurinn hefði síst verið verri. Eftir þennan seinni flutning og margra vikna æfingar komst ég að því að ég kann þetta orðið utan að að mestu, amk tvo af köflunum og mest allt úr hinum tveimur.

6.4.07

Það skein eitt ljós mjög skært í gær
svo magnað að ég vildi nær.
Ég augum lokaði og hugsaði hljótt,
hlutirnir þeir breyttust fljótt.

5.4.07

- Letikast -

Svaf út í morgun, til klukkan hálfellefu. Mun ekki geta sofið út næst fyrr en á mánudaginn. Davíð er nýfarinn á skrifstofuna og strákarnir eru úti. Ég er búinn að lesa, ráða í krossgátuþrautir (m.a. sudoku) og vafra aðeins um á netinu. Ég er bara löt og skammast mín ekki mikið fyrir það.

Fór á aukaæfingu í Kópavogskirkju í gærkvöldi. Kvöldinu áður hafði verið ákveðið að æfa í Óháðu kirkjunni en kirkjukór Kópavogs ætlaði að æfa páskamessuna eftir þessa æfingu og þar sem það gekk svona brösuglega sl. þriðjudagskvöld vildi organistinn þeirra vera aftur þar. Það var í góðu lagi. Það átti greinilega ekki að fara framhjá mér að æfingin ætti að vera í Kópavogi því seinni partinn í gær var ég búin að fá þrjá tölvupósta (tvöfalt hjá einum) og þrjú símtöl. Eftir upphitun sagði Adda svolítið við okkur sem Kristni þótti ástæða til að punkta hjá sér. Hann mun líklega segja frá í næsta annál hvernig við lærðum að hugsa tónana út um eyrun.

Ef ykkur
vantar eitthvað að gera á morgun þá flytja kórarnir litlu orgelmessu Haydens að hluta (4 kafla af sex) eftir messu í Kópavogskirkju í fyrramálið og aftur í Óháðu um kvöldið. Morgunmessan byrjar klukkan ellefu svo ég geri ráð fyrir að verkið verði flutt um tólf. Kvöldmessan hefst hálfníu og verður verkið flutt í athöfninni.

4.4.07

- Í söngönnum og fleira -

Strákarnir stækkuðu heldur betur í gær. Ég skildi eftir 4000 kr. áður en ég fór í vinnuna. Davíð hringdi í mig um tíu og spurði hvað ég ætlaði mér með þessa peninga. Ég hafði ætlað að hringja í strákana og láta þá vita að þetta væri fyrir klippingu. Um hádegi í gær hjóluðu kapparnir alla leið á Hárhornið við Hlemm til Torfa. Þar var biðin hins vegar svo löng að þeir ákváðu að prófa að spyrja á stofunni sem er á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar. Og viti menn þeir þurftu aðeins að bíða í korter og rétt rúmlega það. Fengu hvorn sinn stólinn og hvorn sinn klipparann. Klippingin kostaði 1600 en annar þeirra fékk 100kr. afslátt, heilan 500 kr til baka (líklega vegna þess að skiptimyntin var á þrotum). Oddur Smári er aftur kominn með skott, búinn að sakna þess alveg síðan hann lét klippa það.
Dagur vinur þeirra var lasinn í gær. Ég skutlaði bræðrunum á frjálsíþróttaæfingu og skrapp svo til norsku esperantovinkonu minnar þar til kominn var tími til að sækja þá. Við mæðginin komum heim um hálfsjö og þá hafði ég tæpan klukkutíma þar til ég þurfti að rjúka að heiman aftur.
Það var lokaæfing í Kópavogskirkju. En þessi æfing gekk hálf brösuglega. Það vantaði marga úr karlaröddunum, sérstaklega í bassann en þeir voru bara tveir, báðir úr Óháða. Eftir tveggjaoghálfstíma æfingu var ákveðið að setja á klukkutíma aukaæfingu í kvöld. Undirleikarinn spilaði á pípuorgelið uppi og við stóðum fyrir framan altarið niðri til að byrja með. Stjórnandinn og undirleikarinn sáu ekki hvort annað svo hún brá á það ráð að fara upp til hans og stjórna okkur þaðan. Það gekk ekki vel og við fengum hálsríg. Þá vorum við beðin um að flykkjast upp og ég komst ekki hjá því að hugsa að sem betur fer væru ekki allir mættir því það fór ekki vel um okkur þarna, hálfklemmd. Enda gekk æfingin illa eins og áður er sagt. Ég get þó ekki annað en dáðst að bössunum tveimur, þeir stóðu sig eins og hetjur þótt það gengi líka illa á köflum hjá þeim eins og okkur hinum. Sungum svo Ave verum Corpus niðri í restina og mér skilst á okkar stjórnanda að við höfum sungið það eins og englar.
Eftir æfinguna var fyrirbænastund því formaður Kópavogskórsins er að berjast við erfið veikindi og var skorin við krabbameini í morgun (eða í dag). Við vorum nokkur úr óháða sem sátum eftir og tókum þátt í athöfninni.

2.4.07

- Örstutt -

Við vorum að koma heim af Bakkanum, með strákana með okkur en þeir eru búnir að vera þar síðan seinni partinn á föstudaginn. Afi þeirra sótti þá og einn afastrákinn til um fjögurleytið þann dag. Tengdapabbi stoppaði reyndar hér til fimm en þá fóru þeir þrír saman og sóttu þann fjórða.

Mætti í rópið á laugardagsmorguninn. Eftir tímann og sturtu heima skrapp ég til norsku esperanto-vinkonu minnar og lásum við saman hálfa kínverska sögu á esperanto. Náði að sjá síðustu mínúturnar í leik Liverpool og Arsenal og svo allan seinni hálfleikinn. "Mínir menn" voru langtum betri og unnu 4-1. Munaði þar mest um Crouch sem skoraði þrennu, hvert markið öðru fallegra. Um kvöldið fórum við hjónin í fertugsafmæli og vorum þar í svo góðu yfirlæti fram eftir kvöldi og fram á nótt að við vorum síðustu gestirnir til að fara.

Í gær var ég mætt í á kóræfingu klukkan tólf og um tvo var fermingamessa þar sem fermd voru 9 börn. Allt gekk vel fyrir sig. Fljótlega eftir að ég skilaði mér heim fórum við hjónin í heimsókn til einnar vinkonu minnar. Davíð var búinn að samþykkja að hreinsa eina lapptölvu og uppfæra vírusvörnina á henni. Hann hófst handa um fimmleytið og ég varð að draga hann í burtu upp úr tíu en hann náði ekki að klára alveg og hefði líklega helst viljað vera þangað til hann var búinn.