29.6.20

Veðurblíða

Mikið er nú gott að geta ráðstafað sér og tímanum að vild. Er með ýmsar áætlanir á bak við eyrað en veit ekki hvort ég tek eitthvað af þeim fram núna eða seinna. Ég var vöknuð upp úr klukkan sex í morgun. Fór á fætur klukkutíma síðar og var að dýfa mér fyrstu ferð í kalda pottinn rétt fyrir klukkan átta áður en ég synti 500m. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu og þvoði mér um hárið á eftir. Klukkan var ekki orðin tíu þegar ég fór upp úr en ég lagði leið mína í Síðumúla og beið fyrir framan pósthúsið þar til það opnaði. Í gær missti ég af ferð fyrir ævintýra-ferðaþyrstan iPad á Ísafjörð. Gripurinn er búinn að vera í mínum fórum í rétt rúma viku og ég ákvað að best væri að senda hann bara vestur með póstinum. Svo kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið áður en ég fór heim. Heima fékk ég mér kaldan afgang af hafragraut síðan í gærmorgun og hellti mér upp á kaffi. Nú er bara spurning hvernig ég nýti framhaldið af þessum dýrðardegi.

28.6.20

Ævintýrin út um allt

Ég var að koma heim úr mjög skemmtilegri dagsferð með sjósundsvinkonu minni og annarri til. Ég var sótt um hálftíu í morgun og við brunuðum beint á Akranes þar sem við skelltum okkur í tæplega hálftíma sjósund og svo í Guðlaugu sem er heitur pottur sem var opnaður í desember 2018. Á eftir fórum við á Cavé Bístró í golfskálann. Þar fékk ég mér kjúklingasallat, hvítvínsglas, vatn og einn kaffibolla. Hinar fengu sér gúllassúpu og sú sem ekki var að keyra fékk sér rauðvínsglas. Sátum úti á meðan við gerðum þessu skil. Næst ákváðum við að keyra í áttina að Borgarnesi en fara Hvalfjörðinn og inn að Kaffi Kjós. Þar fékk ég mér annan kaffibolla, flatkökur með hangiketi og eina vöfflu. Það var hitaskúr að ganga yfir svo við ákváðum að gera þessum veitingum skil inni við. Vorum komnar á þjóðveginn um hálffjögur en þar var allt stopp vegna alvarlegs umferðarslys svo við snérum við inn í Hvalfjörð, í áttina að Þingvöllum en beygðum til hægri og fórum Mosfellsleiðina í bæinn. Stoppuðum á einum stað að kaupa okkur jarðaber. Mega góður dagur og mikil blíða.

Í gærmorgun var ég mætt í sund um hálfníu. Byrjaði á því að kæla mig niður í uþb 2 mínútur áður en ég synti 500m. Fór fjórar aðrar ferðir í þann kalda og endaði á smá sólbaði. Kom heim rétt fyrir hálfellefu og stoppaði aðeins í um klukkustund áður en ég fékk mér göngu niður í bæ á Katta kaffihúsið við Bergstaðastræti 10a þar sem ég hitti nöfnu mína og frænku. Við fengum okkur létta hádegishressingu og kaffi á eftir. Fjórar kisur voru á staðnum. Ein þeirra, Vigdís, lá allan tímann á stól við næsta borð og lét fara vel um sig. Við nöfnum röltum aðeins saman lengra niður í bæ og komum m.a. við á sölubásnum hjá Lilju vinkonu. Þegar við frænkur kvöddumst labbaði ég lengri leiðina heim, gegnum Hljómskálagarðinn, gömlu Hringbraut og framhjá Valsheimilinu.

Er að lesa; Eldraunin eftir Jörn Lier Holst. Mjög spennandi bók. Þegar ég hef gert þeirri bók skil á ég aðeins tvær ólesnar bækur af safninu, nema ég byrji á annarri hvorri áður en ég er búin með eldraunina, Syndaflóð eftir Kristinu Ohlsson og Ósk: skáldsaga eftir Pál Kristinn Pálsson.

26.6.20

Busl

Í gær byrjaði ég á bókinni Korngult hár, grá augu eftir Sjón sem er ein af þeim sex bókum sem ég náði í af safninu sl. mánudag. Sagan og textinn höfðuðu til mín. Kláraði að lesa þessa bók áður en ég fór að sofa í gærkvöldi.

Á fjórða tímanum í gær varð mér ljóst að um stórt útkall slökkviliðs var í gangi. Hugsaði ekki meir um það fyrr en ég heyrði fréttir klukkan fjögur þegar ég var á leiðinni í Nauthólsvík að hitta sjósundsvinkonu mína. Við vorum næstum því hálftíma í 11,2°C heitum sjónum og fundum ekki fyrir því. Verið var að undirbúa e-s konar mót sem átti að fara fram síðar um daginn.

Kom heim um sex og fór fljótlega að huga að matargerð. Setti upp bankabygg. Skar eitt þorskhnakkaflak í fjóra parta og steikti upp úr eggi og blöndu af byggmjöli og byggflögum kryddað með best á fiskin og smá sítrónupipar. Skar niður rauðlauk og mýkti í bræddu smjöri. Mjög gott.

Vaknaði á áttunda tímanum í morgun. Fór ekki alveg strax á fætur en þó fyrir klukkan hálfníu. Klukkan tíu var ég komin í Laugardalslaugina. Náði að klára að synda í uþb tuttugu mínútur áður en kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Við fórum  sex sinnum í kalda pottinn, oftast 3 mínútur í senn. Potturinn er nær auglýstu hitastigi heldur en um daginn eða 9°.

Er að lesa Afhjúpun Olivers eftir Liz Nugent. Svakaleg saga sögð frá nokkrum sjónarhornum.

25.6.20

Lestur er bestur

Á leiðinni út úr bænum um átta sl. mánudagskvöld kom ég við hjá samstarfs- og vinkonu til að kaupa af henni 10 kg öskju af þorskhnökkum sem ég fæ svo að geyma í frystikistunni hjá pabba. Þáði kaffibolla og staup af bláberjasaft áður en ég brunaði beint austur á Hellu. Morguninn eftir var 16 ára afmælisdagur yngri systurdóttur minnar. Hún var að vinna til klukkan að ganga fimm en við biðum með afmæliskaffið til klukkan fimm. Þá var ég búin að búa til pönnsur og systir mín ketó-vöfflur. Afmæliskvöldverðurinn var klukkan átta, léttsteikt grafin bleikja úr Fiskás og gufusoðið grænmeti. Um hálftíu í gærmorgun lánaði pabbi Helgu bílinn sinn svo hún gæti skroppið í heimsókn til SS á Hvolsvelli. Mágur minn var að þvo og bóna bílinn þeirra Helgu. Rétt fyrir hálftólf keyrði ég pabba á Kanslarann og hann bauð mér að borða með sér. Hægt var að velja um steikta ýsu, kjötbollur, kjötsúpu og tilheyrandi meðlæti. Um hálftvö fermdi ég bílinn, tók 4 þorskflök úr öskjunni góðu, kvaddi pabba, systir mína og mág og lagði af stað í bæinn. Byrjaði á því að koma við hjá föðursystur minni, önnur heimsóknin á þessu ári. Hún sýndi mér m.a. inn í gróðurhúsið sitt þar sem eru að blómstra margar rauðar og bleikar rósir og einnig að þroskast jarðaberjauppskera. Ég stoppaði líka aðeins á Selfossi hjá tvíburahálfforeldrum mínum. Var komin í bæinn um hálfsex. Fór með megnið af dótinu inn og trítlaði svo fljótlega á Valsvöllinn þar sem ég sjá Valsstelpurnar "mínar" sigra lið Þór/KA með sex mörkum gegn engu. Ég kom heim aðeins á undan strákunum mínum sem voru að koma úr vinnu á níunda tímanum. Þeir fóru fljótlega inn í herbergin sín en ég horfði á seinni hálfleik Liverpools leiks, einn þátt úr sarpinum og tíu-fréttir áður en ég fór inn í rúm að lesa. Á sunnudaginn var byrjaði ég á bókinni Röskun eftir Írisi Ösp Ingjaldsdóttur sem er fyrsta bók höfundar gefin út í fyrra. Bókin var það spennandi að ég kláraði hana fyrri partinn á mánudaginn og skilaði henni því á safnið ásamt tveimur bókum sem voru að komast á tíma. Aðeins ein bók var eftir heima Forargata Reykjavík eftir Sólveigu Eggertz. Þá bók var ég að klára að lesa rétt í þessu. Af safninu, sl mánudag, kom ég heim með 6 bækur. Ein af þeim er með 14 daga skilafresti, nýjasta Útkallsbókin Tifandi tímasprengja eftir Óttar Sveinsson. Þá bók tók ég með mér austur, eins og þá bók sem ég var að klára í morgun sem og tvær aðrar, byrjaði að lesa hana á mánudagskvöldið og kláraði daginn eftir.

22.6.20

Smá ferðasaga

Á fimmtudagsmorguninn var, hvorki snemma né seint, pakkaði ég mér saman og fermdi bílinn. Ég bankaði á herbergisdyrnar hjá Oddi og vakti hann rétt til þess að kveðja hann. Á leiðinni út úr bænum kom ég við í N1 stöðinni við Skógarsel þar sem Davíð Steinn var á vakt. Byrjaði á því að athuga með loftþrýstinginn á dekkjunum áður en ég þáði kaffibolla til að taka með í bílinn og kvaddi. Líklega hafa þeir á dekkjaverkstæðinu stillt þrýstinginn á dekkjunum hærra en ég geri því eftir að ég varð fljótlega vör við aðvörun úr mælaborðinu um að athuga með þrýstinginn (hafði ekki heyrt neitt hljóð og merkið var ekki komið áður en ég fór í loft æfingarnar). Stoppaði við nokkrar svona "loftstöðvar" á leiðinni á Patreksfjörð en aldrei tókst mér að losna við merkið og nú var bíllinn líka farinn að láta vita með hljóði þegar ég ræsti hann. Mér datt samt aldrei í hug að hætta við ferðina eða snúa við og stoppaði á nokkrum fleiri stöðum heldur en bara loftstöðunum. Ferðin gekk að öðru leiti mjög vel og var hugurinn svo sterkur að komast á Patró, þótt ég hafi aldrei komið þar áður að ég var komin þangað á sjöunda tímanum um kvöldið. Rúntaði um plássið og gerði einnig þrjár auka tilraunir til að losna við merkið úr bílnum áður en ég hringdi í "einkabílstjórann", son minn og bar mig upp við hann. Hann kenndi mér ráð sem dugði en það var að fara í "menu" og endurstilla þrýstinginn. Um hálfátta bankaði ég upp á á prestsetrinu. Frændi minn, sr. Kristján Arason, bauð mig velkomna. Þau eru fjögur í heimili og hjá þeim var einnig stödd mamma hans. Bónus að hitta hana. Þau mæðginin spurðu mig um mín ferðaplön um svæðið og kvöttu mig m.a. til að kíkja á Rauða sand. Ég fékk afnot af herbergi á neðstu hæðinni, mátti vera eins lengi og ég vildi en ég hafði pantað gistingu í tvo daga.

Morguninn eftir rétt hitti ég á systikynin, Birki Má 5 ára og Sóldísi Klöru 2 ára áður en pabbi þeirra og amma röltu með þau í leikskólann. Um tíu leytið lagði ég af stað í ævintýraferð. Var ekkert að flýta mér, kveið fyrir, en var ákveðin í að fara alla leið á Rauða sand. Sú áætlun stóðst og sé ég alls ekki eftir henni en mikið þurfti ég stundum að halda fast í stýrið á leiðinni niður. Vá hvað er fallegt þarna. Ég tók alveg helling inn þrátt fyrir að treysta mér ekki í miklar göngur. Hitti frændfólk mitt þeim meginn sem hægt er að komast á salerni, tjalda, ganga inn að Sjöundá og fleira og fleira. Þau voru einnig að koma þarna í fyrsta skipti. Vissi reyndar ekki að við konan vorum skyldar fyrr en við fórum að spjalla saman, skyldar í þriðja og fjórða lið í gegnum Guðlaugu Jónsdóttur og Runólf Runólfsson. Eftir gott stopp, rúnt og smá labb á Rauða sandi fór ég að Hnjóti og gleymdi mér alveg við að skoða safnið. Ákvað svo að láta þetta gott heita í bili, eiga Látrabjarg og Breiðuvík inni seinna. Var komin á Patró aftur um hálfsex. Byrjaði á að skola af bílnum áður en ég fór í sund og skolaði af mér. Rétt missti af því að hitta Kristján og börn í sundi.

Um hálfníu á sunnudagsmorguninn rúntaði frændi minn með mig og börnin sín inn á Tálknafjörð og sýndi mér m.a. náttúrulaug, inn í nýrri kirkjuna og fór meira að segja með mig alveg inn að Felli þaðan sem mágkona pabba var fædd og alin upp. Fljótlega eftir að við komum til baka kvaddi ég heimilisfólkið og þakkaði kærlega fyrir mig. Fermdi bílinn og fyllti á tankinn áður en ég hélt förinni áfram. Fljótlega varð ég vör við að síminn vildi ekki hlaða sig og það tengdist símanum sjálfum. Þetta varð til þess að ég ákvað að stoppa bara stuttlega stöku sinnum á leiðinni á Ísafjörð. Var komin þangað um miðjan dag. Byrjaði á því að skola af bílnum og athuga hvort hægt væri að kaupa einhvers konar hleðslukubb (bjartsýn). Rúntaði aðeins um svæðið en það var bongóblíða og á endanum lagði ég bílnum rétt hjá Nettó, labbaði að Hrannargötu 8 og bankaði upp á. Og viti menn Smári og Nína voru heima, eiginlega alveg nýkomin heim. Ég stoppaði hjá þeim í um tvo tíma áður en ég hélt förinni áfram. Einhvern veginn endaði það ferðalag alla leið heima um hálftvö um nóttina. Á einum stoppistað við Skötufjörð fann ég æpad. Gat opnað gripinn og fann út að þessi gripur tengdist Gíslholtssystrum. Tók þennan grip í geymslu og fann það út í gær að hann á heima á Ísafirði hjá Hjalta og Boggu systur Smára.


17.6.20

Þjóðhátíðardagurinn

Fór austur á Hellu á laugardaginn var og kom aftur í bæinn á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Mágur minn er búinn að uppfæra tölvurnar hans pabba og ég ákvað að nota það sem afsökun fyrir að taka mér smá blogghlé. Bríet systurdóttir mín, pabbi og Cara labradortíkin tóku vel á móti mér. Systir mín, mágur og Vargur, hinn hundurinn þeirra voru af bæ frameftir degi og Ingvi reyndar eitthvað fram á nóttina. Systir mín "lánaði" hann í pallasmíð hjá vinafólki á Hvolsvelli.

Á sunnudaginn vorum við systur allt síðdegið að fara í gegnum stóra skápinn í stærsta herbergi hússins og það þrátt fyrir að systir mín hafi verið byrjuð að tæma skúffur og sortera. Það fylltust nokkrir pokar af fötum, efni og fleira dóti. Á mánudeginum fóru systir mín og mágur í bæinn fljótlega eftir að búið var að skutla Bríeti í vinnu. Pabbi náði þó að hitta þau aðeins þegar hann kom úr sundi um hálfníu. Um tíu skrapp ég í sund og þurfti endilega að reka vinstri fótinn harkalega í fót undir bekk við klefana þegar ég var á leiðinni í sturtu. Litla táin varð illa úti ég ég hélt þó mínu striki og synti nokkrar ferðir og fór svo í annan heita pottinn. Kalda karið hefur verið tóm undan farna daga. Hitti tvær frænkur mínar í sturtu, ég að koma upp úr og þær á leikjanámskeiði að fara í sund. Langafi þeirra var föðurbróðir minn og mæður þeirra eru systur, tvær elstu dætur Odds heitins Þorsteinssonar. Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu. Seinni partinn sótti hann Bríeti í vinnuna.

Í gær fórum við systur yfir nokkra kassa úr geymslunni í skúrnum. Þau Ingvi fóru svo með hálfa kerru á haugana um miðjan dag. Í þessari yfirferð fundust m.a. 240 evrur sem líklega eru frá því mamma fór ein sína fyrstu ferð á Tenerife.

Er búin að skreppa í sjóinn í morgun og hitta sjósundsvinkonu mína en við höfum ekki hist síðan fyrri partinn í maí. Á morgun er planið að leggja af stað vestur á Patreksfjörð.

12.6.20

Búin að kjósa

Ég fór ekkert aftur út í gær og eyddi restinni af deginum í lestur og þáttagláp alveg til klukkan að ganga miðnætti. Fór á fætur á níunda tímanum í morgun og strax eftir morgunverkin á salerninu settist ég inn í stofu með bók í hönd til að athuga betur hvort ég ætlaði að eyða meiri tíma í; Aðþrengdi í Odessu eftir Janet Skeslien Charles, bók sem ég byrjaði að glugga í í gær eða fyrradag og á að skilast 23. n.k. Það fór svo að ég steingleymdi tímanum og skemmti mér vel við lesturinn og áður er búin að lesa yfir 120 blaðsíður af uþb 450. Í gær byrjaði ég líka á Botnfall eftir Jörn Lier Horst um yfirlögregluþjóninn í litlum bæ í Vestfold í Noregi; William Wisting. Höfundur er eða var amk sjálfur yfirmaður í rannsóknarlögreglu og hefur skrifað nokkrar bækur og það hafa verið gerðir þætti eftir bókunum um þessa sögupersónu.

Sendi kaldapotts vinkonu minni skilaboð og það kom í ljós að hún ætlaði í sund um eitt. Ég ætlaði að mæta eitthvað fyrr og vera búin að synda en það fór svo að ég komst í tölvuna hans Davíðs Steins sem skrapp frá svo ég lagði ekki af stað úr húsi fyrr en um hálfeitt. Kom fyrst við í bókasafninu og skilaði þremur bókum, m.a. nýjustu skammtíma lánsbókinni. Skoðaði eina eða tvær bækur en ákvað að gera ekkert frekar í málinu enda enn með fimm bækur af safninu heima. Dreif mig í laugardalinn og fór beint í kalda pottinn. Var að ljúka þeirri ferð þegar Hrafnhildur kom og varð samferða henni og annarri til í heitasta pottinn. Fórum nokkrar ferðir á milli þessarra potta en svo sá ég yngstu mágkonu hennar mömmu heitinnar í sjópottinum og ég fór of spjallaði góða stund við hana. Náði svo að hafa mig í að synda 300 metra á braut 1 áður en ég fór upp úr.

Úr sundi fór ég beint í Smáralind til að kjósa utan kjörfundar í forsetakosningunum. Það var rennerí og raðir á staðnum en þetta gekk samt alveg ágætlega fyrir sig. Í bakaleiðinni leit ég við í Pennanum/Eymundsson og keypti eina kilju, sudokublað og barnabókina um kardemömmubæinn. Næst ákvað ég að skreppa og versla í Krónunni upp á Höfða. Það tók smá tíma að komast frá Kópavogi og þangað yfir en allt hafðist þetta. Var komin heim rétt fyrir klukkan fimm. Fékk Odd til að koma út og sækja vörurnar. Ég hringdi og spjallaði stuttlega við pabba áður en ég fór inn með dótið mitt.

Nú er  einn og hálfur tími þar til Valur - KR, fyrsti leikur í Pepsídeild kvenna hefst. Ég á árskort á völlinn og það lítur út fyrir að ég þurfi að mæta í bleiku regnkápunni góðu.

11.6.20

Góður tími í hvað sem er

Horfði á fyrstu tvo þættina af seríunni sem byrjaði á RÚV eftir tíu fréttir á mánudagskvöldið í gærkvöldi. Klukkan var næstum því hálfellefu þegar ég fór í rúmið. Las í tæpan hálftíma áður en ég sveif mjúklega í draumalandið. Rumskaði upp úr sex í morgun en ekki nóg til að nenna strax á fætur. Fór þó ekki eins seint á stjá og í gærmorgun. Rétt fyrir níu ýtti ég aðeins við N1 syninum til að fá lánað hjá honum N1-kortið. Fór þó fyrst í sund. Synti þó ekki nema 300m en flatmagaði í hinum ýmsu pottum. Fór fjórum sinnum í þann kalda, þrisvar í heitasta pottinn og einu sinni í sjópottinn. Rétt fyrir ellefu lagði ég fyrir framan N1 hjólbarðaverkstæðið í Fellsmúla og bað um að dekkin yrðu yfirfarin, var nokkuð viss um að skipta þyrfti um ventla í tveimur tilvikum. Skildi bílinn, lykilinn og gemsanúmerið eftir og labbaði á Café Mílanó og fékk mér könnukaffi og kjúklingaböku. Var með skammtímalánsbókina með mér og tók til við smá lestur eftir að hafa gætt mér á bökunni. Rúmlega tólf lagði ég af stað til baka og fékk sms um að bíllinn væri tilbúinn til afhendingar rétt áður en ég kom aðvífandi.

10.6.20

Fyrsti í sumarfríi

Gleymdi alveg að minnast á hitting okkar tvíburahálfsystur minnar sl. mánudagskvöld í gær og bæti úr því hér með. Lilja vinkona hafði ætlað að vera með en hún fór út úr bænum á sunnudagskvöldið þannig að það er lengra þangað til verður 100% saumaklúbbshittingur. Annars vorum við Sonja báðar að munda prjónana, hún að prjóna tusku og ég að vinna í enn einu sjalinu. Tveir og hálfur tími liðu sem um mesta lagi tíu mínútur væru að líða, svo fljótt hljóp frá okkur tíminn.

Þrátt fyrir að sumarfríið væri byrjað fór ég í rúmið upp úr klukkan tíu í gærkvöldi. Las að vísu til klukkan að verða ellefu og sofnaði svo fljótlega eftir það. Hins vegar rumskaði ég  aftur um fjögur leytið og 4:34 gafst ég upp á að reyna að sofna aftur, kveikti á náttborðslampanum og tók fram lesgleraugun og bókina eftir Hallgrím Helgason. Það voru innan við 90 blaðsíður eftir og ég lagði ekki frá mér bókina fyrr en hún var búin. Þá var klukkan að verða sex. Í stað þess að fara að huga að því að fara á fætur og mæta í sund um það leyti sem myndi opna um hálfsjö, slökkti ég ljósið lagði frá mér bók og gleraugu og reyndi að sofna. Vissi næst af mér klukkan að ganga tíu, takk fyrir túkall, og það endaði með því að ég fór ekki á fætur fyrr en klukkan var að verða ellefu.

Fékk mér hressingu, hellti fljótlega upp á kaffi og settist svo með skammtímalánsbókina (sem ég byrjaði að lesa í gærdag) inn í stofu. Um hálftvö hringdi ég í frænda minn á Patró til að kanna hvenær hann vildi og þau gætu tekið á móti mér í heimsókn. Það gæti farið svo að ég leggi af stað í þann leiðangur um miðja næstu viku. Stuttu seinna hringdi ég í æskuvinkonu mína sem hefur verið búsett á Egilsstöðum síðasta einn og hálfa tuginn eða svo. Það gæti farið svo að þau hjónin verði búin að minnka við sig fyrir haustið.

Eftir gott spjall við Ellu dreif ég mig í Vesturbæinn til norsku esperantó vinkonu minnar. Hún átti von á mér upp úr tvö og við byrjuðum á því að labba að heitu vaðlauginni nálægt Gróttu og til baka, alls um 6,4km. Á bakaleiðinni mættum við manni hennar og frænda hans. Þeir fóru aðeins lengra en við og þegar þeir komu til baka var ég í sólbaði á svölunum og Inger að undirbúa kaffitímann. Eftir kaffið fóru þeir frændur á Miklatún í smá Folf en við vinkonurnar aftur út á svalir að spjalla og baka okkur í sólinni.

9.6.20

Dagurinn afturábak

Var að enda við að laga upplýsingar um þynnstu bókina sem ég bloggaði um í gær. Annars var ég að koma úr sundi. Synti reyndar aðeins 300m en ég fór 7 x 4-8 mínútur í kalda pottinn þar af fimm ferðir með kalda potts vinkonu minni. Á leiðinni í sundið kom ég fyrst við í Fiskbúð Fúsa og keypti mér ma ýsu í soðið. Kom labbandi heim úr vinnu rétt rúmlega þrjú, 2,8km á 36 mínútum sem síminn skipti reyndar niður í tvær göngur. Í vinnunni vorum við með vöfflukaffi um tvö leytið. Ég og Petra græjuðum það á rúmum hálftíma. Var skráð í pökkunarverkefni í dag en kom þeim verkum af mér og sinnti öðrum málum í staðinn. M.a. hjálpaði ég þeirri sem sá um bókhaldið í dag við talningar og afstemmingar á framleiðslunni. Ég var mætt fyrst í vinnu um hálfátta í morgun eftir 3,4km göngu í 40 mínútur. Vaknaði amk tíu mínútum á undan vekjaraklukkunni í morgun og dreif mig fljótlega á fætur.

8.6.20

Kvöldmatur í boði Steins

Ég var svolítið hissa þegar ég vaknaði við vekjaraklukkuna mína rétt fyrir hálfsjö í morgun. Var smá stund að átta mig en morgunrútínan tók ekki svo langan tíma. Var lögð af stað um sjö í bleiku regnkápunni og skráði síminn á mig tvo göngutúra þannig að einhvers staðar hlýt ég að hafa hikað á arkinu á leiðinni. Fyrst skráði forritið 1,34km í 16 mínútur og svo 1,49km í uþb sautjánoghálfamínútu. Ég kom rétt á undan mæðgunum sem eru nýfluttar í Mosfellsbæinn, var að prenta út fyrstu framleiðsluskammtana og þær tóku að sér að ræsa vélina og taka út skápa og töskur. Ég var annars í sama verkefni og á föstudaginn, bókhaldinu. Klukkan þrjú labbaði ég af stað heim og var í 36 mínútur að ganga 2,9km. Fékk mér hressingu en hellti ekki upp á könnuna. Las tvo kafla í Sextíu kíló af sólskini á meðan ég var að ná mér aðeins niður eftir gönguna. Rétt upp úr klukkan fjögur tók ég til lesnar bækur og sjósundsdótið mitt. Fór fyrst á safnið að skila bókunum, alls 5 af átta og ég tók jafnmargar bækur að láni. Ein af þeim er nú frekar þunn; 23 sannar sögur eftir Sophie Calle og Nínu Óskarsdóttir þýddar af Óskari Árna Óskarssyni. Svo eru tvær bækur nýjar eða nýlegar en aðeins önnur þeirra á 14 daga skilafresti. Þær þrjár bækur sem ég skilaði ekki á safnið erum með skilafresti til 14. júní, bókin sem ég er að lesa og hinar tvær til 23. júní en það er hægt að framlengja um 30 daga ef þörf krefur. Snerting hins illa eftir Max Seeck,  er bókin með stysta skilafrestinn af safninu í dag og sá nær til 22. júní. Fór beint í Nauthólsvík af safninu. Þar kom í ljós að ég hafði gleymt að taka með mér sundhettuna. Ég ákvað samt að hætta ekki við heldur festi upp hárið með teygju og prófaði svo að dýfa mér í sjóinn í sundbol og strandskóm, sleppti sjósundsvettlingum og sokkum. Sjórinn er 9°C og þetta var allt í góðu lagi. Fann aðeins fyrir smá kulda rétt fyrst en ég var að svamla í sjónum í amk 7 mínútur og heilsaði heil æðarfuglsfjölskylda upp á mig. Steggur, kolla og 3 ungar komu amk svo nálægt mér að mér fannst eins og ég gæti snert þau með því að rétta út hendi í áttina til þeirra. Prófaði það samt ekki en fylgdist heilluð með ungunum leika sér að kafa og skjótast svo "blúbb" upp úr sjónum. Á leiðinni heim kom ég aðeins við í Kvikk hjá Oddi, ekki samt til að sníkja hjá honum kaffi. Heim kom ég um sex og þá var Davíð Steinn eiginlega tilbúinn að bera fram kvöldmatinn. Heppin ég.

7.6.20

Sumaropnun á bókasöfnum

Hafði lasanja í matinn á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Oddur Smári skutlaði bróður sínum í afmælisboð í Grafarvoginn rúmum klukkutíma síðar. Ég horfði á nokkra þætti úr premium-sarpinum en var komin inn í rúm um ellefu. Kláraði bókina sem ég hef verið að lesa undanfarna daga og get nú farið að einbeita mér að bókinni eftir Hallgrím Helgason. Á þar að auki tvær aðrar ólesnar af safninu og þrjár bækur sem ég fékk hjá nöfnu minni um síðustu helgi.

Fór á fætur um hálfníu í morgun. Stuttu seinna kom Davíð Steinn fram, svolítið myglaður, hann hafði komið heim um hálftvö og átti að mæta á 10-19:30 vakt hjá N1 við Gagnveg. Hann brá sér í sturtu á meðan ég bjó til hafragraut handa okkur. Skutlaði syninum á vaktina og á leiðinni í sund kom ég við hjá Atlantsolíu við Sprengisand og fyllti tankinn. Í sundi fór ég 5 ferðir í kalda pottinn, synti 500m, fór tvisvar í 42°C heitan pott, einu sinni í sjópottinn og svo sat ég á stól og "sólaði" mig um stund áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Stoppaði smá stund í Kvikk í Öskjuhlíð og fékk kaffi hjá Oddi Smára sem var á vakt milli 7:30-14. Svo ætlaði ég að skreppa á bókasafnið í Kringlunni til að skila nokkrum bókum en bókasöfnin eru víst lokuð á sunnudögum yfir sumartímann.

6.6.20

Styttist í sumarfrí

Á miðvikudaginn kemur rennur upp fyrsti dagurinn af 29 virkum dögum í röð sem ég tek af þeim 36,4 dögurm sem ég á í sumarfrí. Það verður eitthvað. Þá þykir mér líka líklegt að það hægist aðeins á bloggfærslum að einhverju leyti, sérstaklega á þeim tíma sem ég mun bregða mér í lengri og/eða styttri ferðalög. Látum það bara hafa sinn gang og koma í ljós.

Eitthvað gekk mér illa að sofna í gærkvöldi þrátt fyrir að vera komin í rúmið um ellefu og hætt að lesa áður en klukkan sló tólf. Ég var samt vöknuð fyrir klukkan átta og hefði getað hangið á hurðarhúninum í Laugardalnum. Hins vegar klæddi ég mig ekki fyrr en klukkan var að verða hálfníu og notaði svo rúman hálftíma í að lesa í bókinni eftir Koomson. Oddur Smári hafði lagt bílnum fyrir aftan heilsugæsluna. Þegar ég ræsti bílinn lét hann strax vita að það þyrfti að athuga þrýstinginn á dekkjunum. Líklega þarf ég að fara fljótlega og fá amk tvo nýja ventla. Ég byrjaði á því að fara að loftdælunni hjá Kvikk og bjargaði þessu. Rétt leit inn til að heilsa upp á Odd sem er á helgarvakt þessa helgina þannig að ég var ekki komin í Laugardalinn fyrr en rétt fyrir tíu. Synti aðeins 200m. Fór tvær ferðir í kalda pottinn sem var 10°C, eina ferð í þann heitasta og endaði á því að sitja stund í sólbaði og spjalla við eldri konu sem kom og settist hjá mér.

Var komin til esperanto-vinkonu minnar þegar klukkan var byrjuð að ganga tólf. Fyrsti hittingur síðan í byrjun mars og við byrjuðum að rólegu nótunum. Hún bauð mér upp á hafragraut og kaffi og svo settumst við í græna sófann á eftir og spjölluðum um flest en bara lauslega um esperanto. Kvaddi einum og hálfumtímum síðar með loforði um að vera í sambandi vegna n.k. miðvikudags. Prófaði að versla í Nettó við Granda og skrapp einnig í Elkó að kaupa mér símahleðslusnúrur, aðra 1m og hina 3m. Ætla hafa þá styttri til að grípa til í bílnum. Davíð Steinn var nývaknaður þegar ég kom heim. Hann tók að sér að ganga frá vörunum og svo fékk ég hann til að skúra yfir tvo baðherbergis og eldhúsgólffletina.

5.6.20

Helgarfrí framundan

Vinnudagurinn í dag var í styttra lagi, þó ekki eins stuttur og í gær. Labbaði af stað rétt fyrir sjö í morgun og tæpum 3km og rúmlega 37mínútum seinna var ég mætt í vinnu, fyrst á minni deild. Ég var skráð í bókhaldið í dag sem þýðir að ég kom ekki nálægt vélinni fyrr en eftir framleiðslu og uppgjör að ég hreinsaði út allar skrár. Við vorum svo tvær sem tókum líka að okkur að ryksuga og blása "kortabrautir", skynjara, umslagavél og færiband. Vorum búnar að öllu um hálftvö. Ég hafði hugsað mér að hinkra til tvö ef kæmi beiðni sem þyrfti að afgreiða. Hinar þrjár trítluðu af stað út í helgina og þegar pósturinn var sóttur korteri fyrir tvö lá ekkert á að bíða eftir beiðni sem var hvort sem er ekki hægt að afgreiða í póst fyrr en eftir helgi. Sá skilaboð frá Lilju vinkonu um að hún væri á torginu og beiðni frá henni um hvort ég gæti komið við og knúsað hana. Hún var að missa mömmu sína í vikunni og ég veit alveg upp á hár að það tekur á. Var komin til hennar rétt rúmlega tvö, knúsaði hana vel og lengi, staldraði við og spjallaði í góðan hálftíma og knúsaði hana aftur áður en ég labbaði heim 3km á 38 mínútum. Var komin heim fyrir klukkan hálffjögur og byrjaði á því að renna í könnuna þrátt fyrir að hafa fengið mér kaffi í vinnunni í morgun og aftur í hádeginu. Bræðurnir komu heim úr Sorpu, Elkó og Krónunni rétt á eftir mér. Ég var eitthvað að spá í að drífa mig í sjóinn milli klukkan fimm og sjö en ákvað svo að lána Oddi bílinn til að komast í vinnugrillpartý í Breiðholti upp úr klukkan fimm. Las um stund í bókinni eftir Koomson og var klukkan langt gengin í fimm þegar ég hringdi í pabba. Hann sagði mér frá því að önnur þvottavélin hefði bilað í gær og vatnið sem rann frá henni komst úr þvottahúsinu og alla leið inn í gang og herbergið sem ég sef í þegar ég gisti. Pabbi hafði orðið að fá viðgerðarmann á svæðið sem lagaði þvottavélina. Sjálfur skóf hann og þurrkaði upp vatnið og varð eftir sig eftir allan þann atgang.

4.6.20

Vinnu hætt snemma í dag

Veðrið í morgun var mjög milt og nánast engin hreyfing á logninu. Ég lagði af stað til vinnu fyrir klukkan sjö og labbaði 3,5km á 43 mínútum. Þegar átti að fara að byrja að hlaða inn fyrstu framleiðsluverkefnum dagsins kom í ljós að aðgangur allra var læstur og það endaði með því að við urðum að hringja í "vin" til að opna alla aðganga. Sú sem var nr 1 á vélinni gat samt hlaðið inn skránum í gegnum administrator á meðan við biðum eftir aðstoðinni. Daglegri framleiðslu, frágangi og allri talningu var lokið um tólf og rétt seinna komu tveir viðgerðarmenn á svæðið í sína mánaðarlegu úttekt á  vélinni. Ég sat yfir þeim á meðan sú sem hafði tekið að sér að sitja yfir í dag fór í mat. Var lögð af stað heim rétt upp úr klukkan eitt, labbaði 3,2km á 39 mínútum. Hellti mér upp á kaffi, fékk mér hressingu, las og slakaði aðeins á áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Þar var ég í tæpa tvo tíma sem fóru aðallega í pottadýfingar og sólbað. Sleppti því að synda í þetta sinn en fór eina ferð í gufuna áður en ég fór upp úr og heim. N1 strákurinn var á leiðinni á aukavakt og Kvikk sonurinn var á átta tíma aukavakt til klukkan fimm.

3.6.20

Fjárfest í Valskortinu

Þrátt fyrir gráan dumbung og úðarigningu rétt fyrir sjö í morgun labbaði ég í vinnuna í flíspeysu, nýju strigaskónum og með rauða bakpokann á bakinu. Var 38 mínútur að ganga 3km. Ég var skráð númer 1 á vélina eftir kaffi. Sú sem átti fyrstu vakt á þeim enda sló aðganginn sinn rangt inn of mörgum sinnum. Við gátum hjálpast að við að skipta um aðgangsorð með því að hringja í "vin" og fá leiðbeiningar í gegnum símann en það var ekki nóg því það var búið að læsa aðganginum. Hleypti henni því inn á mínum aðgangi því fyrir lá að framleiða yfir 230 kreditkort fyrir klukkan tíu. Heildarfjöldi allra daglegra korta fór vel yfir 700 kort en þeirri framleiðslu lauk samt rétt rúmlega 12.

Lagði af stað heim áður en klukkan varð hálfþrjú og kom við í Valsheimilinu og keypti mér kort á alla heimaleiki í knattspyrnu- handbolta og körfubolta íslandsmótadeildum. Síminn skráði á mig tvær göngur; fyrst 2,9km í 36 mínútur og svo 0,82km í 12 mínútur. Fékk mér létta hressingu og las tvo kafla í bókinni eftir Dorothty Koomson áður en ég dreif mig í sund. Eins og í gær synti ég aðeins 300m en ég fór fjórum sinnum í kalda pottinn (sem enn er of heitur eða 12°) því ég hitti kalda pottsvinkonum mína. Kom við í Kvikk við Öskjuhlíð á leiðinni heim því Oddur er á vakt í dag til klukkan átta. Þegar heim kom var Davíð Steinn búinn að útbúa kjúklingasallat í kvöldmatinn.

2.6.20

Soðin ýsa

Vissi varla hvað var að gerast þegar vekjaraklukkan hringdi rétt fyrir hálfsjö í morgun. Var þó tiltölulega fljót að átta mig og slökkva á apparatinu í símanum. Rúmum hálftíma síðar labbaði ég af stað í vinnuna og var 34 mínútur að labba 2,8km. Ég var númer 1 á vélinni fram að morgunkaffi, að hlaða inn skrám og "troða" mismunandi kortum, úr einum eða fleiri skrám, og senda af stað. Sú sem var númer 2 á vélinni tók til kortategundirnar sem voru í framleiðslu úr 3 vögnum af fjórum og tók á móti hluta af þeim kortum.  Eftir kaffi fór ég yfir varahlutalagerinn, skráði inn nýlegar sendingar og skráði út hluti sem voru teknir af lager skv. pósti frá yfirferðar/viðgerðarmanni. Allri framleiðslu lauk um tólf en eftir hádegishlé vorum við með verkefni sem entist aðeins til klukkan tvö. Ég var því lögð af stað heim úr vinnu áður en klukkan varð hálfþrjú. Labbaði 3,45km á 44 mínútum. Fékk mér smá hressingu, hringdi í pabba og las smá stund í bók sem heitir, Sykurpúðar í morgunmat eftir Dorothy Koomson. Rétt fyrir fjögur lagði ég af stað með sunddótið mitt og box undir fisk. Kom fyrst við hjá Fiskbúð Fúsa og keypti, ýsu, 2 bleikjuflök og harðfisk. Skömmu síðar var ég komin í Laugardalinn. Hafði plásturinn á hnénu fór 2x6mínútur í kalda pottinn sem var ónvenu heitur eða 12°C, synti 300m og dýfði mér um stund í heitasta pottinn áður en ég fór upp úr aftur. Tók af mér plásturinn áður en ég fór í sturtu og setti á mig nýjan áður en ég klæddi mig, annars hefðu buxurnar blotnað vegna smá vilsu.

1.6.20

Annar í Hvítasunnu

Á laugardagsmorguninn skutlaði ég Davíð Steini á vakt hjá N1 í skógarhjalla (neðra Breiðholti) rétt fyrir tíu. Skrapp í laugardalslaugina en fór reyndar ekki lengra en í sturtuklefann til að þvo á mér hárið. Taldi mig hvorki geta synt né dýpt mér í pottana vegna hruflsins á hnénu. Þannig að ég var komin heim aftur um hálfellefu. Pakkaði niður fyrir 1-2 daga. Rétt fyrir tólf skrapp ég með útfyllt skjal til kjallarabúanna vegna sölu á íbúðinni. Aðeins vantaði undirskrift formanns húsfélags en þar sem hann var ekki heimavið bað ég krakkana um að sækja þá undirskrift og láta mig vita ef eitthvað vantaði á skjalið frá mér, gjaldkera húsfélagsins. Síðan ýtti ég aðeins við Oddi Smára til að geta kvatt hann áður en ég hlóð farangrinum í bílinn. Hringdi í tvíburahálfforeldra mína til að kanna hvort þau væru heima og tækju á mót gestum. Var komin í Fossheiðina rétt fyrir klukkan eitt og var þetta einungis önnur heimsóknin á þessu ári. Aftur á móti var ég að fara í fimmta sinn á Hellu til pabba en aðeins að gista þar í annað skiptið. Það fór svo að ég ákvað að vera tvær nætur. Búin að hafa það mjög gott. Við pabbi skiptumst á að sinna helstu nauðsynjaverkum í eldhúsinu en annars hef ég verið að prjóna lesa og tölvast. Og já ég "mjólkaði" hvítvínsbeljuna í aukaísskápnum tvö kvöld í röð en það er nóg eftir enn.