16.10.09

- Árleg kertapökkun framundan -

Í fyrramálið munu félagar úr DKR og aðstandendur þeirra hittast og pakka Heimaeyjar-kertum. Þetta er árviss viðburður og í kjölfarið fara drengirnir út af örkinni, ganga í hús og bjóða kerti til sölu. Þeir munu einnig bjóða kaffi (baunir og malað). Það er alltaf líf og fjör í kringum þessa kertapökkun og þeir sem mæta of seint missa jafnvel af mesta gamninu. Strákarnir þurfa að selja 50 kertapakka (eða 25 kaffipakka) að lágmarki en fimm söluhæstu strákarnir fara í óvissuferð í janúar eða febrúar og sá sem selur mest fær bikar. Það er vonandi að vel verði tekið á móti drengjunum okkar.
Um síðustu helgi mættu mörg tilvonandi fermingarbörn og séra Pétur til okkar í Drápuhlíðina. Í fræðsluhléinu bauð ég upp á vöfflur, brauðtertu, snakk og súkkulaði og gos mjólk eða kaffi til að dreypa á með. Davíð Steinn var orðinn lasinn svo hann svaf af sér þennan tíma. Um eittleytið um nóttina bankaði Oddur Smári hjá okkur og bar sig ekki vel. Hann hafði þá vaknað við það að hann þurfti að æla og náði ekki einu sinni framúr. Sænginn og koddinn sluppu en það þurfti heljar aðgerð til að hreinsa upp af gólfinu. Við hjónin mættum því í messu án drengjanna. Ég klukkustund fyrr til að hita upp með kórnum en Davíð kom svo rétt eftir að messan var byrjuð. Mamma kom alla leið frá Hellu til að vera viðstödd. Annars eru feðgarnir búnir að vera heima alla vikuna. Oddur Smári fór reyndar í skólann á mánudeginum en flensan var byrjuð að herja á hann um kvöldið og þeir feðgar hafa hóstað og hóstað síðustu dægrin.
Í gær mætti ég í mína árlegu heimsókn til tannlæknis. Venjulega sest ég í stólinn, opna munninn og eftir um fimm mínútur segir tannlæknirinn: "Þetta er fínt, sjáumst eftir ár!" En í gær brá svo við að bæði þurfti ég að bíða eftir að komast að og svo fann hann eina skemmd í tönn sem gert var við þegar ég var unglingur. Fyllingin var að mestu farin og skemmdin orðin nokkuð djúp.