24.12.07

Gleðileg jól!
Ég óska öllum ættingjum, vinum og bloggvinum nær og fjær gleðilegra jóla. Takk fyrir öll innlit og kvitt á bloggið mitt.
Farið vel með ykkur!

17.12.07


- Helgarverkin urðu útundan -

Við skruppum öll í heimsókn í Veghúsin rétt upp úr hádeginu á laugardaginn var. Tvær spenntar systur, sú yngri svo spennt að hún nötraði, og systir mín og mágur tóku á móti okkur. Krakkarnir fjögur fóru strax í leik en aðal tilgangur heimsóknarinnar var að fá Helgu systir til að smella nokkrum myndum af bræðrunum í von um að ná einni góðri til að setja með í einhver jólakort í ár. Þeir voru báðir með sparifötin sín og karatestrákurinn með karatebúninginn sinn og söngfuglinn með kórbúninginn sinn. Hér af ofan er einmitt ein myndin úr syrpunni.

Eftir hádegi í gær fórum við öll í Bæjargilið í árlegan laufabrauðsskurð. Húsbóndinn á heimilinu bauð Davíð fyrst með sér yfir til foreldra sinna til að horfa á Liverpool - Man. Utd. Halló, það er ég sem er Púllarinn á heimilinu en Davíð heldur með Arsenal. Reyndar var það ég sem gaf manninum mínum grænt ljós á að skreppa fyrst að horfa á leikinn því hans verk var aðallega að pressa laufabrauðinn beint úr feitinni. Oddur Smári skar út tvö laufabrauð og Davíð Steinn skar út fimm áður en þeir fóru í tölvuleik með einum frænda sínum. Ég skar út restina af brauðunum okkar sem voru örugglega fleiri en 40 allt í allt þótt það stæði að það væri efni í tuttugu laufabrauð utan á hvorum kassa.

En mér tókst að virkja feðgana áðan í smá af heimilisverkunum sem urðu útundan um helgina. En nú þarf ég líklega að bretta upp ermar og drífa mig í jólakortaskrif...

13.12.07

- Hvert eru dagarnir að flýta sér? -

Tíminn æðir áfram eins og honum sér borgað formúgu fyrir það. Við getum bara reynt að stíga á bremsuna og njóta augnabliksins aðeins og séð svo til hverju framvindur. Ég gerði heiðarlega tilraun til þess að reyna að leika á tímann sl þriðjudagskvöld. Við Davíð hjálpuðumst að við að pakka inn molum og festa á nokkra hringi (daga) fram í tímann á jóladagatali strákanna. Þegar Oddur Smári kom á fætur í gærmorgun stóð hann smá stund fyrir framan dagatalið en sagði svo: -"Mamma, það er ekki ellefti desember í dag!" Úbs, og það var einmitt ég sem festi molana á dagatalið.

Í gær var kórstjóri Drengjakórsins með sitt árlega jólboð heima hjá sér fyrir söngfuglana. Davíð hjálpaði mér við að koma til hans pizzum og sá svo um að sækja Davíð Stein eftir að hafa skutlað mér heim og sótt karatestrákinn á síðustu æfingu ársins. Söngfuglarnir fóru beint frá kórstjóranum niður í Vonarstræti og sungu fyrir Oddfellow. Ég mætti á kóræfingu rétt fyrir hálfátta og hélt að framundan væru bara léttir tveir tímar með smá yfirferð yfir jólasöngva og messusöngva yfir jólin. Æfingin drógst á langinn, hún var ekki beint erfið og mjög skemmtileg en klukkan var orðin tíu áður en við hættum. Fréttum það eftir kórstjóranum að margir kirkjugesta sl. aðventukvöld hefðu ekki tekið eftir neinu athugaverðu við flutninginn á Ave Mariu eftir Nyberg, héldu bara að þetta ætti að vera svona eins og við gerðum það. Skondið, en líklega var það hárrétt hjá organistanum að halda ótrauður áfram í stað þess að byrja upp á nýtt, því þá hefðu allir tekið eftir vandræðaganginum en ekki bara þeir sem til þekkja.

10.12.07

- Hálft grænt belti í höfn hjá Oddi Smára -
og ýmislegt fleira

Við vorum að koma heim úr Þórshamri þar sem Oddur Smári var í gráðun. Þótt hann þyrfti helst að laga sumar stöður og vanda sig heldur meira þá náði hann gráðunni og má fara að nota græna beltið á æfingum. Hann hefur lofað okkur að vinna betur í því sem hann fékk athugasemdir við því karatestrákurinn ætlar að halda ótrauður áfram, þar að auki nýbúinn að fá nýjan búning.

Það var aðventukvöld í Óháðu kirkjunni í gærkvöld. Við áttum að mæta á upphitun og æfingu klukkan sex. Ég var smeik um að verða pínu sein því mig langaði með Davíð að sækja tvíburana en tengdapabbi keyrði á móti okkur og við hittumst við Litlu kaffistofuna upp úr klukkan hálfsex. Ég var samt mætt í kirkjuna næstum því á réttum tíma. Upphitun og æfingar gengu vel fyrir sig en einhvernveginn náðum við að klúðra byrjuninni á aðalnúmeri kórsins, Ave Maria eftir Nyberg. Það var agalega svekkjandi. Við náðum okkur samt á strik og kláruðum þetta vel. Strengja kvartet spilaði nokkur jólalög og einnig undir hjá okkur í "Vakna Símon verðir kalla" og Ein úr sópran, Gulla, söng einsöng, Ave Maria í útsetningu Kaldalóns. Það sem stúlkan syngur vel og áreynslulaust, meira að segja þriggja ára dóttir "tvíburahálfsystur" minnar sat alveg stjörf og hlustaði heilluð á sönginn.

Á laugardagskvöldið hittum við Davíð, frændfólk mitt á maðsölustaðnum Geysir bistro bar sem er í gamla Geysishúsinum við Aðalstræti 2. Við höfðum komið að austan seinni partinn og heldur haskað okkur í bæinn því vildum aðeins ná að slaka á heima og undirbúa okkur undir kvöldið. Við vorum mætt um sjö en vissum það ekki fyrr en hálftíma síðar að ákveðið hafði verið að mæta klukkutíma síðar eða um átta. Við létum það samt ekki skemma fyrir okkur kvöldið og skemmtum okkur ágætlega. Við nenntum samt ekki að fara á neitt skrall á eftir.Um fimm á föstudaginn var skildum við strákana eftir á Bakkanum hjá tengdó og héldum för áfram austur fyrir Hellu á Hótel Rangá en þangað var vinnan hans Davíðs að bjóða okkur í jólahlaðborð með gistingu og morgunmat á hótelinu. Þetta var bara frábært allt saman, kvöldið varð mjög skemmtilegt en þeir síðustu í hópnum voru komnir í ró fyrir eitt. Hittumst svo flest við morgunverðarborðið um tíu morguninn eftir en þó voru tvö þegar farnir þar sem annað þeirra átti að syngja á tónleikum fyrri partinn á laugardaginn.

Að lokum verð ég að segja smávegis frá jólatónleikum DKR sem voru í Hallgrímskirkju á fimmtudagskvöldið var. Kirkjan var hérumbil fullsetin og strákarnir sungu eins og englar allan tímann. Gunnar Guðbjörnsson söng einsöng í fjórum lögum, strákarnir í undirbúnings deildinni komu tvisvar fram og stóðu sig eins og hetjur og síðast en ekki síst þá sungu tuttugu félagar úr
Karlakór Reykjavíkur með strákunum í síðari hluta dagsrkárinna. Verð líka að segja frá að einn kórdrengurinn lék eitt lag á selló og stóð sig frábærlega og tveir aðrir spiluðu á trompeta. Þetta var bara magnað og frábært og yndislegt!!!

4.12.07

- Skrýtin tilfinning -

Ég skilaði tveimur bókum á safnið síðdegis og fór tómhent heim. Hef verið með þessar bækur í tæpa tvo mánuði svo það var alveg kominn tími til að skila þeim. Þessar bækur voru reyndar unglingbækur og voru tvíburarnir að glugga í þær. Furðulegt að vera ekki með neinar safnbækur heima og það er svo langt síðan ástandið var svoleiðis síðast að ég man ekki einu sinni hvenær það var. Ég er samt nokkuð sátt við þetta ástand í bili því það er hreinlega enginn tími til mikils lestur þessa dagana.

2.12.07

- Fyrsti sunnudagur í aðventu -

Þetta er pistill númer 1112 og innan tveggja mánaða rennur upp 5 ára bloggafmæli. Ég er nú ekki búin að vera mjög afkastamikil í skrifunum undanfarið en það er langt því frá að ég sé hætt þessu. Tek bara mislangar pásur inn á milli.

Um klukkan hálftíu í gærmorgun setti ég mig í bakstursstellingar. Þríburinn var kominn og strákarnir þrír voru til að byrja með að skiptast á í tölvunni. Ég hrærði fyrst í jólakúlur sem á svo að kúlast upp í jafnar kúlur og velta upp úr kókosmjöli. Blandan var svo mjúk til að byrja með að ég stakk henni inn í ísskápinn. Ég hafði alveg klikkað á að kaupa smjörlíki svo næst hræði ég í eggjahvítukökur. "Þríburarnir" tóku svo við og settu deigið á plötur. Á meðan hræði í uppskrift sem ég á í fílófaxinu mínu og heita góðar smákökur. Í þeim er smjör, púðursykur og heilhveiti. Um þetta leyti var kominn tími til að taka til hádegishressingu. Þríburinn fór heim og ég skipt afgangnum af lasagnia frá kvöldinu áður á milli feðganna. Davíð skutlaði Oddi á karateæfingu og keypti á hann nýjan búning í leiðinni. Það var sko löngu kominn tími á það. Davíð Steinn skrapp fyrir mig út í Sunnubúð og keypti smjörlíki. Á meðan ég hræði í engiferkökur skipti hann hinu deiginu niður á plötur eftir því sem losnaði úr ofninum. Þetta leit mjög vel út hjá honum en við bakstur þynntust kökurnar heldur mikið út og náðu saman sums staðar. Hlutföllin í uppskriftinni eru eitthvað skrýtin, nema ég hafi ekki mælt þetta nógu nákvæmlega. Oddur var kominn til baka nógu snemma til að skipta engiferdeiginu niður á plötur en svo fóru strákarnir út. Síðasta platan kom úr ofninum um hálfþrjú. Ákváðum að kúla upp jólakúlurnar um kvöldið. Þegar strákarnir komu inn bauð ég þeim upp á mjólk og smákökur.

Ætluðum að kaupa spariskó á strákana seinni partinn í gær. Ákváðum að kíkja aðeins á Hagkaup í Holtagörðum. Strákunum leist ekkert á skóna sem þar voru í boði svo við urðum að fresta skókaupunum aðeins. Við Davíð hjálpuðumst að við að kúla upp jólakúlurnar í gærkvöldi og vorum ekki lengi að því þótt deigið væri mjög hart í byrjun. Þær urðu misstórar en mér skilst að þær bragist alveg jafnvel.

Í dag á svo m.a. að vinna í því að setja upp engilinn í herbergisgluggann, sem við notum sem aðventuljós. Það tekur svo að setja hann upp en við ætlum að nota tækifærið og þrífa gluggana í íbúðinni í leiðinni.

Góða aðventu!