30.11.23

Inn

Svaf til klukkan hálfsex í gærmorgun. Var mætt í vinnu um hálfátta. Hættum framleiðslu stuttu fyrir þrjú. Ég var komin í sjóinn tuttugu mínútum fyrir fjögur. Það var fjara, sjórinn 2,1°C og ég var út í í tæpar tíu mínútur. Fór ekkert í lónið en sat góða stund á spjalli í heita pottinum. Úr Nauthólsvík lá leiðin í Forlagðið við Fiskislóð, Löður og Krónuna. Bræðurnir voru nýlega komnir heim þegar ég kom heim um sex leytið. Föðurafi þeirra var jarðsunginn í kyrrþey í Eyrarbakkakirkju í gær. Þeir voru kistuberar ásamt pabba sínum bræðrnum hans og fóstursyni yngsta föðurbróðurins. Báru kistuna úr líkbílnum inn í kirkju fyrir athöfn og út úr kirkjunni eftir athöfn. Þá var hún sett á stall svo þeir sem ekki ætluðu í garðinn gætu signað yfir hana. Kistuberarnir þurftu líka að bera kistuna úr líkbílnum í garðinn og láta hana síga ofan í gröfina. Davíð Steinn sagði að þetta hafi gengið mun betur en hann átti von á. Oddur Smári hefur ekkert tjáð sig um þetta. Horfði á einn þátt og Kiljuna en var komin upp í rúm fyrir klukkan hálftíu.

29.11.23

Krukka með blöndu af fræjum, hnetum og möndlum

Rumskaði um fjögur leytið í gærmorgun. Fór á salernið og beint aftur upp í rúm. Gat samt ekki sofnað neitt að ráði aftur og var komin á fætur fyrir klukkan sex. Var alveg hress og kát í vinnuni. Frágangurinn í kaffistofunni eftir hádegismatinn gekk vel og í framleiðslunni framleiddum við um fimmtán hundruð gjafakort og svo tvo þriðju að rúmlega níuhundruð korta endurnýjun. Hættum rétt fyrir þrjú. Um það leyti fann ég að ég var að verða hálf syfjuð og þreytt. Það freistaði mín í smá stund að fara beint heim eftir vinnu en ég lét það ekki eftir mér. Spjallaði við pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Rútínan í sundinu tók mig einn og hálfan tíma. Synti m.a. 500 metra. Kom heim um hálfsex leytið og var það endurnærð eftir sundið að ég hékk uppi alveg til klukkan að byrja að ganga tíu. Þá fór ég upp í rúm og las í ca hálftíma áður en ég fór að sofa. 

28.11.23

Kvartanir... nenni þeim alls ekki

Sem oftast fyrr á virkum morgnum var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Fimm korterum síðar lagði ég af stað í vinnuna. Fram í miðja viku mun ég vera á ítroðsluendanum á kortaframleiðsluvélinni og eftir að hafa stimplað mig inn í vinnu og opnað seinni lásinn á ytri hurðinni á hvelfingunni uppi fór ég niður að "ná í" tölur og hlaða inn fyrirliggjandi verkefnum. Fór svo upp aftur til að fylla á vatnsbrúsann minn og fá mér heitt vatn. Fyrirliðinn var í bókhaldinu og á móttökuendanum og fyrrum fyrirliði í innlögnum. Við tvær sem erum á kortavélinni þessa vikuna erum líka skráðar á kaffistofu vaktina þessa vikuna. Sú sem var með mér áður á von á frumburði sínum á næstu dögum og er komin í leyfi. Umslagavélin var með smá uppsteit í debetframleiðslunni en við lukum við þann skammt ásamt visa og 200 gjafakortum um hálftíu. Milli tíu og hálftólf framleiddum við 1000 gjafakort og kláruðum hádegisskammtinn um tólf. Vel gekk að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn en líklega hefði verið betra að ég hefði tekið það að mér ein á meðan fyrirliðinn sinnti bókhaldsvinnunni því svo þurfti ég að bíða aðeins eftir henni áður en við framleiddum 1000 gjafakort í viðbót. Sú bið getur verið mismunandi og eiginlega ekki hægt að demba sér í önnur verkefni á meðan og ekki má vera einn á framleiðsluvélinni. Stimplaði mig út um þrjú og fór beinustu leið yfir í Laugardalslaug. Kalda potts vinkona mín kom á sama tíma og ég ákvað að elta hana á milli potta og gufu en skrópa í sundinu. Kom heim um fimm leytið. Bræðurnir voru búnir að fara saman í verslunarleiðangur. Annar þurfti að kaupa sér skyrtu og bindi en hinn nýja spariskó og báðir fóru þeir í klippingu og skeggsnyrtingu en þeir verða kistuberar á morgun. 

27.11.23

Ennþá er að dimma meir og meir

Var komin á fætur um hálfátta í gærmorgun. Var eitthvað að spá í hvort ég ætti að gera mér ferð í laugina í Grafarvogi og prófa infrarauðu gufuna en klukkan hálftíu var ég ekki enn farin af stað. Tók þá ákvörðun að setja sundlaugar og sjósundshandklæðin mín í þvottavélina og skrópa alfarið í sund. Hætti netvafri um þetta leyti og tók fram skammtímalánsbókina: Blóðmeri eftir Steindór Ívarsson. Stuttu fyrir klukkan hálftólf lagði ég frá mér bókina og fékk mér hálftíma göngutúr. Hélt lestrinum áfram eftir hádegi og kláraði bókina. Hef svo tíma til 7. desember  til að klára bókina sem ég skilaði ekki af mér í síðustu ferð. Það er bók sem er hátt í sexhundruð blaðsíður: Sjö systur eftir Lucindu Riley. Er rúmlega hálfnuð en á eitthvað um tvöhundruð blaðsíður eftir enn. Ég var líka aðeins að horfa á enska boltann, horfði á fyrri hálfleikinn í æfingalandsleika kvenna í handbolta og tvo síðustu pólsku þættina Kennari 2. Gufusauð mér grænmeti og hafði með fiskbita sem ég átti frá því um daginn og þegar ég fór upp í rúm að lesa meira áður en ég fór að sofa sleppti ég því að fá mér tyggjó.

26.11.23

Labbitúr í morgun en ekki sund

Vaknaði stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun og fór fljótlega á fætur. Var komin í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta. Þar var að hefjast tveggja daga sundmót í innilauginni en ég kom nægjanlega snemma til að fá stæði á planinu. Engar brautir á útilauginni voru fráteknar en þar sem ég ætlaði að þvo á mér hárið skipti mig miklu máli á fá braut sem ég gæti synt á bakinu án þess að hafa áhyggjur af því að reka hausinn í einhvern. Byrjaði því rútínuna á því að fara í kalda, heitasta, kalda, sjópottinn, kalda, gufu og svo fór ég á braut sjö og synti 400 metra, flesta á bakinu og fékk að halda mig alveg út við kaðalinn sem skilur að brautir 6 og 7. Eftir sundið fór ég eina ferð í kalda og svo smá "sólbað" áður en ég fór inn og þvoði mér um hárið. Var mætt vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar rétt fyrir klukkan hálfellefu og stoppaði í rétt rúman klukkutíma. Við byrjuðum á alltof fræðilegum kafla um úrverk en lásum bara um hálfa blaðsíðu áður en við ákváðum að skippa yfir kaflann og færa okkur yfir í þann næsta. Það gekk miklu betur. Var komin heim um tólf. Upp úr klukkan sex rúllaði ég yfir í Garðabæinn til tvíburahálfsystur minnar sem einnig var að taka á móti útskriftarbróður okkar úr FSu sem nú er m.a. að gefa út sína sjöundu hjólabók. Tilefnið var m.a. að afhenda okkur okkar eintak og fékk ég allar sjö bækurnar í einu og sú nýjasta var árituð. Sonja bauð okkur í mat og tíminn leið alveg svakalega hratt því allt í einu var klukkan orðin hálftíu. Lagði bílnum við Blönduhlíð rétt fyrir tíu. Fór beinustu leið upp í rúm og las til klukkan ellefu. Steinsofnaði fljótlega eftir það en rumskaði um hálfeittleitið en þá var hlandblaðran að heimta tæmingu og þóttist vera jafn full og eins og ég hefði sofið alla nóttina. Skrapp á salernið en var fljót að sofna aftur. 

25.11.23

Á sjó... ég meina í sjó

Það var eilítið skrýtinn dagur í vinnunni í gær. Ein af þeim sem getur "opnað" fyrir að hægt sé að byrja innlegg dagsins var í fríi, önnur lasin og hinar tvær sem hafa leyfi og getu til að gera þetta mættu rétt áður en klukkan varð átta. Þær lentu í smá veseni sem tók um korter að leysa úr. Eftir það var hægt að byrja. Yfirleitt erum við búin frekar snemma á föstudögum eða upp úr klukkan tvö en í gær vorum við til klukkan rétt rúmlega þrjú að klára allt. Ég var komin i Nauthólsvík tuttugu mínútum fyrir fjögur og í 2,1°C sjóinn tíu mínútum seinna. Svamlaði og hoppaði um í smá öldugangi í ca sjö mínútur. Fór svo í gufu í uþb fimm mínútur, þaðan í lónið og var þar í nokkrar mínútur áður en ég fór loksins í heita pottinn. Var komin heim um fimm leytið.

24.11.23

Magnað í 2,1°C sjónum áðan

Rumskaði aðeins um fimm í gærmorgun, sofnaði strax aftur og svaf í um klukkustund. Hafði ágætis tíma til að vafra um á netinu áður en ég fór í vinnuna. Var byrjuð í innleggja vinnu áður en klukkan varð átta.  Allt var búið um þrjú leytið. Hringdi og talaði við pabba á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaugina. Byrjaði á að fara í kalda pottinn en fór svo á braut átta og synti 400m Nú var sama og engin ferð á logninu þannig að skórnir mínir stukku ekki út í laug á eftir mér. Fór amk tvær aðrar ferðir í þann kalda og gufuna og sjópottinn að auki. Þessi rútína tók mig rúma klukkustund. Eftir sundið skrapp ég á Kringlusafnið og skilaði þremur bókum af fjórum og tók fjórar aðrar í staðinn, eina nýja á skammtímaláni. Næst lá leiðin í Krónuna í Skeifunni. Var komin heim um sex leytið. 

23.11.23

Titill

Það var nokkuð mikil hraðferð á logninu í gær en engin ófærð. Mætti í vinnu um hálfátta og var byrjuð í innleggjunum fyrir klukkan átta. Þrátt fyrir að það vantaði einhverjar hendur á dekk og sumar hendur væru aðeins til hádegis vorum við búin snemma í gær eða fyrir klukkan hálfþrjú. Þær í kortunum voru aðeins lengur til að klára að framleiða gjafakortaskammt. Ég var búin að stimpla mig út og farin úr húsi á undan þeim. Ég var með sjósundsdótið með mér en ég þurfti samt að skreppa heim áður og það varð til þess að ég fór ekkert út aftur. Það hefði nú verið gaman að hoppa smávegis í öldunum. Ég var nú samt fegin að vera komin inn þegar komu hagléls hryðjur og hraðferðin á logininu jókst verulega inn á milli.

22.11.23

Gæðastundir

Vaknaði um sex í gærmorgun og var frekar hissa á því að nóttin væri liðin. Hefði alveg getað hugsað mér að kúra aðeins lengur. Lét það þó ekki eftir mér og var komin á fætur skömmu síðar. Mætti í vinnu um hálfátta og var byrjuð í innleggjum fyrir klukkan átta. Það að fá að vera í innleggjunum í heila viku hjálpar til við að komast hraðar inn í málin. Sumt af því sem ég var mjög óörugg með í byrjun er orðið mun auðveldara. Fæ þó enn ábendingar um hvað má betur fara og eins geri í villur sem sem betur fer eru ekki of alvarlegar en læri mikið af þeim. Vorum búin klukkan að verða hálffjögur. Kalda potts vinkona mín var búin að láta mig vita að hún kæmist ekki í sund en ég dreif mig í Laugardalslaugina beint eftir vinnu. Fór  fyrst í kalda pottinn og synti svo 400m bringusund. Strax eftir fyrstu 100 metrana fann ég annan skóinn á svamli í lauginni en hinn var týndur. Eftir aðra ferð í þann kalda hitti ég á eina sem ég er farin að kannast vel við. Urðum samferða í heitasta pottinn og sagði ég henni af skóveseninu. Á leiðinni úr heitasta pottinum í sjópottinn sá hún eitthvað á svamli á braut sex. Og það reyndist við nánari skoðun vera hinn skórinn. Ég var að synda á brautum 7 og 8. Þar á milli er enginn kaðall en það er kaðall á milli brauta 6 og 7. Úr sjópottinum fór ég aftur í kalda og endaði svo á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og heim. Þessi rútína tók um fimm korter með tímanum í sturtu og skiptiklefanum.

21.11.23

Ekki er betra veðrið í dag

Vaknaði útsofin stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Var mætt í vinnu rétt fyrir hálfátta. Þessa vikuna er ég í innleggjum og var ég byrjuð á fyrsta skammtinum áður en klukkan varð átta. Stimpilklukkan telur frá því ég stimpla mig inn sem ég geri um leið og ég er komin að skrifborðinu mínu eftir að ég mæti. Það var þokkalega mikið að gera en það náðist að klára allt um þrjú leytið. Þá stimplaði ég mig út og fór beit í sund. Synti 400m á bakinu og hitti svo kalda potts vinkonu mína í kalda pottinum í hennar annarri ferð. Eftir mína aðra ferð í kalda fórum við í gufu og svo aðeins í sjópottinn. Þá var kominn klukkutími frá því ég mætti og þar sem ég ætlaði að þvo á mér hárið kallaði ég þetta gott svo hárið myndi nú ná að þorna. Fannst voða skrýtið að handklæðin mín voru mjög blaut þegar ég var búin að þvo mér. Það kom í ljós að sturtan sem ég notaði var biluð og sprautaði vatni yfir vegginn og á handklæðin sem voru efst í rekkanum. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni til að kaupa mér harðfisk. Var komin heim fyrir klukkan hálfsex. 

20.11.23

Leiðinda veður

Svaf sennilega í um níu tíma í fyrrinótt. Fór nefnilega tiltölulega snemma í háttinn og vaknaði svo um hálfátta leytið. Var bara þokkalega hress en alveg einstaklega löt. Nennti ekki út fyrir hússins dyr en var að dútla við alls konar hérna inni við. Er samt ekki enn farin að taka fram jólakorta föndurdótið. Stefni þó að því að taka það með mér austur um næstu helgi ef veður og færð leyfir. Ég dreifði aðeins úr tuskum og handklæðum sem ég hef verið að prjóna undafarin misseri, þ.e. þeim stykkjum sem ekki hafa verið gefin eða tekin í notkun ennþá. Það væri sennilega hægt að búa til amk tvö rúmteppi úr þeim öllum. Svo var ég að horfa á hina ýmsu þætti. Kíkti líka aðeins á landsleikinn; Portúgal - Ísland í knattspyrnu karla þar sem hann var sýndur í opinni dagskrá á Stöð2 Sport. Dagurinn leið ógnar hratt og var ég komin upp í rúm um hálftíu í gærkvöldi og las í hálftíma áður en ég fór að sofa. 

19.11.23

Rúm

Rumskaði um eitt leytið í fyrrinótt til að fara og létta á blöðrunni. Sofnaði strax aftur og svaf til klukkan að verða sjö. Þurfti þá aftur að tæma. Var ekki tilbúin að fara strax á fætur en fann það fljótlega að ég var útsofin og vel hvíld svo það var ekki lengi sem ég lá í bælinu. Ákvað að taka utan af sængurfötunum, lakið og einnig stykkið sem er undir dýnunni og nær næstum niður í gólf á þremur hliðum af fjórum (pífa til að "fela" gólfið undir rúminu). Lyfti svo dýnunni upp á rönd og lagði upp að fataskápnum. Skyldi við herbergið mitt svona og settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu þar til klukkan var byrjuð að ganga tíu. Þá fyrst fór ég með sængurfötin og "pífuna" í þvottahúsið. Um þetta leyti var ég búin að ákveða að taka því rólega heimavið allan daginn. Fann engin eymsli í hálsinum og frekar lítið fór fyrir maga/ristil skruðningum svo það er vonandi að hverfa alveg á næstunni. Ég horfði á nokkra þætti, körfuboltaleiki, prjónaði, gerði smá af því sem ekki skal skrifa um og dagurinn leið mjög hratt. Davíð Steinn fór til pabba síns og fjölskyldu hans. Oddur mátti ekki vera að því en hann hjálpaði mér svo að snúa dýnunni við í gærkvöldi þegar pífan var þornuð og komin aftur á. Var komin upp í rúm um hálftíu og las í um hálftíma áður en ég fór að sofa.

18.11.23

Aftur komin helgi

Í gær framleiddum við 3000 gjafakort í heildina ásamt daglegu framleiðslunni. Það er nokkuð vel af sér vikið því á föstudögum hættum við frekar snemma og vorum við búnar að ganga frá kortadeildinni um tvö leytið. Þegar við komum upp sneri ég mér að því að fara yfir skjöl í smá stund. Stimplaði mig út fyrir klukkan þrjú og ákvað að fara beinustu leið heim. Skruðningarnir á maga og ristilsvæðinu sem og hálssærindin voru að einhverju leyti enn til staðar og ekki á það hættandi að skella sér í sjóinn. Annars hefur mér liði alveg þokkalega alla vikuna og held að þessi óþægindi séu á undanhaldi. Það flögraði að mér að þetta tengdist breyttu mataræði en ég er samt viss um að svo er ekki, þá hefði þetta ástand átt að poppa upp fyrir tæpum mánuði. Held svo reyndar að ég sé búin að "pissa" amk 5 kílóum af bjúgsöfnun sem segir mér að ég sé á réttri leið. En það hvort þetta breytta mataræði sé komið til með að vera alveg 100% þori ég ekki að fullyrða neitt um. Vona helst að þegar ég hef náð tökum á blessaðri vökvasöfnuninni í líkamanum að ég geti að einhverju leyti snúið mér að flest sé best í hófi stíl. Það verður að koma í ljós. Kaffibindindið heldur áfram amk enn um sinn. Og ég mun einnig halda áfram að forðast sykurinn og glútenið. 

17.11.23

Vissa

Það er helling að gera í framleiðslu gjafakorta þessa dagana. Skammtarnir eru misstórir en þegar vel gengur erum við að framleiða um þúsund kort á uþb fimmtíu mínútum. Í gær var allt að verða búið uppi um hálfþrjú leytið svo við ákváðum að ganga frá niðri um svipað leyti. Sendum eina tösku upp í lyftunni í skúr eitt með 2500 gjafakortum fyrir eitt útibú. Þar sem ég var í bókhaldinu þessa vikuna fór ég beint í að ganga frá tölum og skjölum. En klukkan var rétt að verða þrjú þegar ég yfirgaf vinnustaðinn eftir ágætis dagsverk. Var með sunddótið með mér í bílnum en byrjaði á því að fara í heilsuhúsið til að kaupa mér C vítamín og fleira. Ákvað m.a. að prófa safa úr djúsvélinni. Það var búinn til fyrir mig úr hveitigrasi, engifer, epli og gúrku. Það átti að vera paprika í þessu líka en ég bað um að henni yrði sleppt. Þessi drykkur reif vel í hálsinn og var alveg ágætur en ég náði þó ekki að klára skammtinn. Tók hann með mér úr í bíl og keyrði í Laugardalinn. Á planinu við sundlaugina ákvað ég hins vegar að það væri ekki sniðugt að fara í sund verandi aum í hálsinum svo ég dreif mig bara heim. Kláraði þá bók sem ég tók síðast af safninu; Gættu þinna handa eftir Yrsu Sigurðardóttur, fitjaði upp á nýju smá-handklæði, vafraði á netinu, horfði á þætti en fór inn í rúm fyrir hálftíu og var sofnuð um tíu leytið eftir að hafa lesið smá stund.

16.11.23

Laukrétt

Þrátt fyrir að þurfa að afhenda framleiðsluvélina til yfirferðar um tólf í gær gátum við framleitt 1000 gjafakort ásamt daglegur framleiðslunni. Pöntunin fyrir útibúið hljóðaði upp á 1500 en við höfðum framleitt fyrstu fimmhundruð á þriðjudaginn svo hægt var að senda þetta frá okkur. Ég sendi fyrrum fyrirliða upp í mat um tólf en beið sjálf niðri eftir yfirferðarmönnunum. Klukkan var að verða hálfeitt þegar sá fyrri mætti og skömmu síðar var ég leyst af í mat. Eftir mat lauk ég við bókhaldsvinnuna og þurfti svo að vera til taks fyrir tæknimanninn okkar. Hann þurfti að setja inn nokkrar nýjar skrár í kerfi sem tveir þurfa að skrá sig inn fyrst. Rétt fyrir hálfþrjú komst ég svo niður til að leysa fyrrum fyrirliða af í yfirsetunni. Þá voru báðir viðgerðarmennirnir á svæðinu. Þeir vildu fljótlega fara upp í kaffi. Uppi var allt að verða búið og fáir eftir í vinnu, í raun bara tveir. Annar var að skúra á neðri hæðinni. Sá sem vinnur í afgreiðslunni kenndi mér á hvernig ég gæti hleypt yfirferðarviðgerðarmönnunum út ef til þess kæmi áður en hann fór. Klukkan var að verða hálffimm þegar allt var búið niðri. Sá sem er í skúringunum var að skúra uppi og tæknimaðurinn tók að sér að hleypa út. Ég fór beinustu leið heim eftir vinnu, hringdi í pabba og spjallaði við hann á leiðinni. Ég var semsagt ekki í neinu líkamlega formi til að skreppa aðeins í sjóinn. Enn með særindi í hálsinum en hvorki verri né betri heldur en daginn áður. Held að það hafi verið skynsamlegt af mér að fara bara heim og dunda mér þar. 

15.11.23

Akkúrat

Í vinnunni í gær framleiddum við yfir 3000 gjafakort. Hættum framleiðslu um hálfþrjú en svo notaði ég síðasta hálftímann til að ljúka við bókhaldsverkefni. Var með sunddótið með mér í bílnum en ég var einhvern veginn ekki stemmd og farin að finna fyrir hálsbólgu svo ég fór beint heim. Ég hvorki versnaði né lagaðist í hálsinum. Dundaði mér við ýmislegt að var komin upp í rúm um níu og lagði frá mér bókina áður en klukkan varð hálftíu. Var fljót að sofna en því miður rumskaði ég aftur stuttu eftir miðnætti og þurfti að pissa. Ekkert gekk að sofna aftur svo ég ákvað að lesa aðeins meira. Held að klukkan hafi verið að nálgast þrjú þegar ég hætti lestri og kúrði mig niður. Sofnaði sem betur fer en var svo vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja í morgun. 

14.11.23

Ð

Svaf í einum dúr frá ca tíu til klukkan að verða sex í gærmorgun. Var mjög hissa að kominn væri morgun og hefði líklega alveg getað sofið lengur. Ég dreif mig nú samt á fætur og hafði rúman tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég fór í vinnuna. Var í bókhaldi og á móttökuendanum á vélinni. Til stóð að viðgerðarmenn kæmu um tólf í hefðbundna yfirferð á vél en það frestaðist um tvo daga. Í staðinn var tími til að ljúka við framleiðslu á gjafakortapöntun frá því í síðustu viku. Hætti vinnu um þrjú og fór beint í sund. Var búin að synda 400m og í minni þriðju ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Og ein systir hennar var líka mætt á svæðið. Sú fer aldrei í kalda en við sátum góða stund í sjópottinum. Var komin heim um hálfsex leytið. Strákarnir voru ekki heima. Þeir voru með pabba sínum á sjúkrahúsi Selfoss að kveðja föðurafa sinn.

13.11.23

Uss

Svefninn, aðfaranótt sunnudagsins var frekar skrykkjóttur. Ég fór á fætur á níunda tímanum og hafði þá í heildina sofið í um fimm klukkustundir í mis-stutt/löngum bútum. Var komin í sund upp úr klukkan hálftíu. Hitti á sjósundsvinkonu mína sem var að mæta um svipað leyti. Hún fór beint á braut átta en ég í kalda pottinn og svo á braut átta. Synti 400 metra áður en ég fór aftur í kalda og þaðan í gufu. Þegar ég var að koma úr gufunni var sjósundsvinkonan á leiðinni í þann kalda og varð ég samferða henni. Hún fór svo upp úr og heim en ég í sjópottinn. Þar var ég óvenju lengi því upp úr klukkan ellefu komu mágkona mömmu heitinnar og kalda potts vinkona mín skömmu síðar. Náði einni ferð í kalda pottinn með þeirri síðar nefndu áður en ég fór upp úr og heim. Restinni af deginum eyddi í ég alls konar dundur.

12.11.23

Kærleiksknús á alla í óvissuástandi

Var sofnuð fyrir klukkan ellefu á föstudagskvöldið. Svaf nokkuð vel, með einu pissuhléi, til klukkan að verða sjö. N1 sonurinn var því farinn í vinnuna þegar ég kom á fætur. Var mætt í sund um hálfníu. Eftir fyrstu ferðina í þann kalda fór ég á braut og synti yfir á bakinu. Færði mig svo yfir á braut tvö og í heildina synti ég 500m þar af ca 40 m. skriðsund en annars á bakinu. Fór svo beint aftur í kalda, þaðan í gufu, kalda sturtu, sjópottinn og smá dýfu í kalda áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan hálfellefu. Stoppaði hjá henni í um klukkustund. Á þeim tíma náðum við m.a. að lesa eina blaðsíðu og glósa nokkur orð. Var komin heim aftur stuttu áður en aukafréttatíminn vegna hræringanna á Reykjanesinu og í kringum Grindavík hófst. Grindavíkurbær hafði verið rýmdur um nóttina þegar í ljós kom að sprungan og kvikugangurinn náði undir bæinn og út í sjó og kvikan sennilega komin á innan við eins kílómetra dýpi á hættulegum stað hvað bæinn varðar. Úff, þetta er svo nöturlegt og það er líklegra en ekki að það komu upp gos mjög nálægt bænum. Sprungan ku vera um 15 km löng og 3km á breidd þar sem hún er breiðust. Eftir aukafréttatímann hringdi ég í pabba og sagðist ætla að taka því rólega þessa helgina, horfa á enska boltann, lesa, prjóna, horfa á þætti og skoða mataræðið betur. Ég á aðeins eftir að taka út kjötið af þeim matvörum sem eru á "taka út" listanum. Um fimm leytið gufusauð ég blómkál, belgbaunir, rósakál og fjóra bita af þorskhnökkum. Borðaði svo einn fjórða af skammtinum með sallati, súrkáli og ólífum. Mér gengur alltaf betur og betur að forðast að detta í að fá mér eitthvað nasl fram eftir kvöldi. Jafnvel þó það nasl sé tiltölulega hollt. Er að tala um möndlu, hnetur (ekki jarðhnetur) og fræ. Hef ekki farið út í að leggja þetta í bleyti yfir nótt og þurrka upp aftur en það á víst að vera ennþá betra fyrir meltinguna og ristilinn.

11.11.23

Kannski

 er hugurinn með Grindvíkingum. Það er ekki sjón að sjá skjálftaveðurkortið, allt morandi í grænum stjörnum. Ég fann fyrir nokkrum öflugum skjálftum eftir að ég kom heim úr vinnu og sjósundi síðdegis í gær.

Ég var annars mætt í vinnu á svipuðum tíma og venjulega í gærmorgun. Framleiddum rúmlega þrjúþúsund gjafakort en hættum framleiðslu frekar snemma eða um tvö. Margir voru farnir þegar við komum upp enda reynum við yfirleitt að taka út styttingu vinnuvikunnar á föstudögum. Ég tók við bókhaldinu og mun sjá um það og móttökuendann á framleiðsluvélinni í næstu viku. Stimplaði mig út um klukkan þrjú.

Var komin í Nauthólsvík um klukkan hálffjögur og tíu mínútum fyrir fjögur óð ég út í 2,7°C sjóinn og svamlaði um í tæpar tuttugu mínútur. Hitti enga seli. Sat í heita pottinum lengur en ég var út í sjónum en var komin heim um fimm leytið.

10.11.23

Og aftur komin helgi

Vorum að framleiða til klukkan þrjú í gær, með kaffi og matarpásu að sjálfsögðu. Það er komin gjafakortaframleiðsluvertíð og pantanir þannig að þær klárast ekki innan dagsins svo við förum beinustu leið niður eftir morgunkaffi, framleiðum til klukkan að ganga eitt. Förum svo aftur niður um eitt leytið og höldum áfram. Eftir vinnu fór ég beint yfir í Laugardalinn og fór fyrstu ferðina í þann kalda um hálffjögur. Synti svo 400 metra áður en ég fór aftur í kalda. Var í sundi til klukkan fimm. Hitti ekki á kalda potts vinkonu mína því hún komst ekki fyrr en korter yfir fimm. Ég var komin heim um hálfsex og kvöldið fór í alls konar. Dreif mig í háttinn um hálftíu og las í uþb hálftíma áður en ég fór að sofa. 

9.11.23

Næstum því synt með selum

Svaf mjög vel og lengi í fyrri nótt eins og ég gat um í færslunni í gær. Var mætt í vinnu um hálfátta og var að vinna til klukkan þrjú. Á leiðinni í Nauthólsvík hringdi ég í Huldu frænku og spjallaði við hana. Hún var hjá móðurafa sínum í síðustu viku að þjálfa hvolpinn Uglu sem vann til verðlauna á hunda/hvolpa sýningu sl. helgi. Ég var komin í 3,9°C sjóinn tíu mínútum fyrir fjögur og var að svamla um í rúmar tíu mínútur. Ég var búin að vera tæpar tíu mínútur í heita pottinum þegar einhver tók eftir að nokkrir selir væru að forvitnast skammt frá þar sem ég fer alltaf út í sjó. Trítlaði út á bryggju þar sem fólk var að safnast saman og sá tvo mjög nálægt og þann þriðja lengra frá. Fór inn í sturtu og klæddi mig og þegar ég kom út aftur fékk ég alveg góðan tíma til að mynda þessa gesti og fylgast með þeim. Kom aðeins við í Heilsuhúsinu áður en ég fór heim. Var að útvega mér kókosvatn m.a. Slíkt vatn fæst reyndar í sumum stórmörkuðum.

8.11.23

Rjómablíða, eða næstum því

Aðfaranótt gærdagsins var frekar erfið upp á svefn að gera. Held að samtals hafi ég sofið í kannski fjóra tíma. Engu að síður var ég komin á fætur um sex og mætt í vinnu klukkan hálfátta. Var búin í vinnu um hálffjögur og fór þá yfir í Laugardalinn. Spjallaði við pabba á leiðinni. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn synti ég 300 metra og þá passaði akkúrat að kalda potts vinkonan var komin og tilbúin í sína fyrstu ferð í kalda en hún byrjar oftast og endar á því að fara í heitasta pottinn. Fórum í gufu eftir mína fjórðu ferð í kalda og svo þaðan í sjópottinn. Eftir korter þar varð ég að segja þetta gott því ég var komin í spreng. Kom heim um sex og fékk mér hluta af afgangnum sem ég eldaði mér sl. sunnudag. Um hálfátta kom nafna mín til að sækja húslyklana sem hún hafði látið Davíð Stein fá þegar hann var í kisupassinu stuttu fyrir síðust mánaðamót. Frænka mín stoppaði hjá mér í rúma klukkustund og við áttum gott spjall. Fljótlega eftir að hún fór ákvað ég að þótt klukkann væri ekki alveg orðin níu væri ágætt að fara bara í háttinn. Las til klukkan korter yfir níu en ég held að ég hafi verið sofnuð um hálftíu. Rumskaði um fjögur í morgun til að fara á salerni en svaf svo í tvo tíma í viðbót. Vaknaði á undan vekjaraklukkunni og mér reiknast til að heildarsvefninn sl. nótt hafi verið rúmir átta tímar.

7.11.23

Ekkert kaffi í þrjár vikur

Vegferðin mín til að "heila görnina" heldur áfram og gengur bara þokkalega. Er þó ekki búin að taka út alveg allt sem var á úttöku-listanum en líklega er það bara kjötið sem er eftir og ég er að vinna í þessu. Það að ég finn góðan mun á mér hjálpar til við þetta verkefni en alltaf langar mig samt í kaffi og stundum popp á kvöldin. Læt það ekki eftir mér ennþá, staðráðin í að halda þetta út. Hversu lengi veit ég ekki en líklega þrjá mánuði til hálft ár og þá get ég vonandi farið að taka stöðuna um hvað ég prófa að taka inn aftur.

Var á íttoðsluendanum á vélinni í gær. Fór því beint niður að "sækja" tölur og hlaða inn þegar ég mætti í vinnu. Emmurnar voru á sínum stað en í hinni möppunni voru bara debetkortaskrár en engar skrár fyrir kreditkort. Framleiddum allt debet og kláruðum afgang af gjafakortapöntun. Kerfisfræðingurinn kom um níu leytið til að skoða, sagðist hafa sér allar skrár hjá sér. Hann gat sent okkur þær og við fórum ekki upp í kaffi fyrr en að framleiðslu lokinni. Þá var klukkan að ganga tíu svo það var engin veruleg seinkun á afhedingu. Fórum ekki niður aftur fyrr en hádegisskammturinn skilaði sér á vélina. Gengum frá kortadeildinni um tólf. Ég hjálpaði til við frágang í eldhúsverkunum og fór svo í innleggin. Klukkan var fjögur þegar ég stimplaði mig út.

Hringdi í afmælisbarn gærdagsins, besta vin minn, og spjallaði við hann á meðan ég ók yfir í Laugardalinn. Kaldapotts vinkona mín var í sinni annarri ferð í kalda pottinum þegar ég mætti í sundið. Við fórum fjórar ferðir saman í kalda, tvær í heitasta, eina í gufuna og eina í sjópottinn. En ég skrópaði í sjálft sundið. Kom við í Krónunni í Borgartúni á leiðinni heim. Fékk ekki alveg allt þar sem mig vanhagaði um en fór þó ekki í aðra búð til að útvega það sem ávantaði. Lá ekkert svo á þessu. 

6.11.23

Almannavarnafundur

Ég var vöknuð og komin á fætur fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Klukkan var ný orðin níu þegar ég var komin á braut sjö í Laugardagslauginni, þá búin að fara eina ferð í kalda pottinn. Synti 400m og fór aftur í kalda. Sjósundsvinkona mín var þá mætt á svæðið. Það eru níu vikur síðan hún fékk nýja hnjáliði. Hún er að vinna í að styrkja sig og þarf að passa sig að gera ekki of mikið en hún synti 200 metra skriðsund, fór svo í nuttpottinn og hitti mig í gufunni. Úr gufunni fórum við í sjópottinn og þar sátum við á spjalli í amk hálftíma. Skelltum okkur svo í kalda pottinn í þrjár mínútur áður en við fórum upp úr. Ég var komin heim rétt fyrir tólf. Um þrjú leytið skellti ég mér í smá göngu upp að Perlu, niður að HR og svo til hægri meðfram Öskjuhlíðinni og framhjá Valsheimilinu. Forritið í símanum byrjaði líklega ekki að skrá gönguna fyrr en ég var komin yfir Bústaðahlíð á ljósunum. Þetta voru rétt rúmir þrír kílómetrar á 37 mínútum og ég kom heim mátulega áður en Liverpool leikurinn hófst. Það munaði engu að mínir menn töpuðu. Á áttugustu mínútu skorðuðu Luton fyrsta mark leiksins en það var í uppbótatíma sem Luis Diaz jafnaði metin.

5.11.23

Trall

Titill færslunnar í dag er út í loftið. Hefði allt eins getað notað upphafsorðið í þessari færslu sem titil þar sem markmiðið var að orðið hæfist á T. Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun og notaði fyrsta rúma klukkutímann til að vafra um á netinu og setja inn færslu. Lagði af stað í sund um það leyti sem morgunfréttir klukkan átta voru að hefjast. Í sundi byrjaði ég á að fara eina ferð í þann kalda og úr þeim potti í þann heitasta. Þar hitti ég fyrir frænda minn og nafna hans pabba. Sá er kominn í fæðingarorlof en yngri sonur hans er um eins árs. Við spjölluðum í nokkra stund eða þar til ég fann að kominn var tími á að kæla sig aftur. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fór ég á braut 6 og synti 500m, flesta á bakinu en kannski 40 metra skriðsund í síðustu ferðinni. Eftir þriðju ferðina í kalda pottinn fór ég í gufu, þaðan í sjópottinn og svo endaði ég á kalda og smá "sólbaði" áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Þá var klukkan að byrja að ganga ellefu. Svo lagði ég leið mína í AO við Sprengisand áður en ég fór vestur í bæ til esperanto vinkonu minnar. Kom heim um hálfeitt leytið. Einhvern veginn fór það svo að ég fór ekkert út aftur. Bræðurnir fóru til pabba síns og fjölskyldu hans um tvö leytið. Davíð Steinn hringdi í mig upp úr klukkan sjö til að athuga hvort ég væri í bænum og ef svo væri hvort hann mætti fá lánaðan minn bíl til að sækja frænku sína austur í Hvolsvöll. Hann kom um níu leytið að sækja bíllykilinn. Bíllinn hennar Bríetar hlýtur að vera eitthvað bilaður og kærastinn vant við látinn. En þetta gaf frændsystkynunum tæki færi til að hittast. 

4.11.23

Tíminn

Það er tilgangslaust að reyna að eltast við eða stoppa tímann en það er vel hægt að staldra við í núinu og gleyma stund og stað, fortíð og framtíð. Það eru til nokkrar aðferðir og er sjósund ein af þeim. Föstudagar eru sjósundsdagar hjá mér, svona oftast nær. Engin undantekning í gær og þegar vinnu lauk um þrjú leytið fór ég beinustu leið í Nauthólsvík. C.a. tuttugu mínútum fyrir fjögur óð ég út í 4,5°C heitan sjóinn í fjöru og stillu. Var svo sem ekki mikið að synda en svamlaði um í rúmar tíu mínútur. Ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Sat svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Þar lauk ég við að hlusta á síðasta innleggið í fjögra vikna netnámskeiðinu um heilun á görninni. Mataræðið skiptir miklu máli en það gerir andlega hliðin líka. Það er hægt að borða hollt og gott en vera út á túni andlega og það er líka hægt að vera andlega sterkur en borða svo óhollt og mikið að líkaminn mótmælir. Ég hef svo sem vitað þetta í þó nokkurn tíma en þótt meltingakerfið hjá mér hafi verið viðkvæmt alveg frá fæðingu þá hef ég samt ekki haldist á réttri braut hvað varðar að passa alltaf hvað ég læt ofan í mig. Að vísu hef ég ekki drukkið litað gos í meira ein þrjá áratugi og drekk heldur ekki bjór. Hvernig mér mun ganga að vera staðföst næstu vikurnar hvað varðar t.d. kaffi, hvítvín, popp, kjöt og fleira sem ég þarf að útiloka (sumt vonandi bara um tíma) verður að koma í ljós. Er ekki frá því að ég sé að finna smá mun á mér en á meðan ég er ekki alveg laus við bjúginn held ég þetta vonandi út. Það er örugglega þess virði að reyna og sleppa því bara að hugsa um það sem ekki má heldur einblína á það sem má alveg örugglega.

3.11.23

Enginn magnesíum pottur

Nú brá svo við að ég svaf í einum dúr frá ca tíu í fyrrakvöld til klukkan að verða sex í gærmorgun. Vinnudagurinn stóð yfir milli klukkan hálfátta og rúmlega þrjú. Var komin í sund upp úr klukkan hálffjögur. Hringdi í pabba á meðan ég var á leiðinni úr vinnunni í sundið og komst þá að því að eldri systurdóttir mín er búin að vera hjá honum síðan seint á sunnudagskvöldið var, með hvolpinn Uglu með sér. Ugla er að fara að taka þátt í hundasýningu um helgina. Synti 300 metra og það passaði akkúrat að þá var kaldapotts vinkonan mætt og tilbúin í fyrstu ferðina í þann kalda. Fórum fjórar ferðir í í þann heitasta á milli. Eftir fjórðu ferðina settumst við inn í gufu í góða stund. Í uþb tvo mánuði fyrir lokun var verið að setja magnesíum flögur út í einn pottinn á þriggja eða fjögurra tíma fresti einu sinni í viku, á fimmtudögum. Í gær var fyrsti fimmtudagurinn síðan opnaði aftur en búið var að fjarlægja skiltið. Sumir sögðu að ekki hefði verið fyllt á flögurnar en aðrir sögðu að þetta hefði alltaf átta að vera tímabundin kynning. Það er verið að selja poka af magnesíuflögum í afgreiðslunni. En eftir gufuferðina fórum við í sjópottinn. Ég dýfði mér svo smástund aftur í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim. Þá var klukkan byrjuð að ganga sex. Vinkonan ætlaði að vera svolítið lengur því mögulega var dóttir hennar að fara að mæta í sund um hálfsex leytið. 

2.11.23

Þessi tími sem hleypur svo hratt

Í "gærmorgun" var klukkan rétt orðin hálffjögur þegar hlandblaðran stuggaði við mér. Ég skreið svo aftur upp í rúm. Sofnaði ekki alveg strax aftur en held að ég hafi svo fengið klukkutíma lengri svefn því mig var að dreyma eitthvað spennandi og skrýtið þegar ég vaknaði rétt fyrir sex. Mætti í vinnu á sama tíma og venjulega og var byrjuð í innleggjunum áður en klukkan sló átta. Það var aðeins rólegra í þeirri vinnu og ég var búin með minn skammt stuttu fyrir kaffi. Á miðvikudögum er brauð og kruðerí með morgunkaffinu og oft fundir. Það var ekki fundur í gær en sú sem kemur með kruðeríið er að vinna hálfa stöðu í fyrirtækinu og sér um kaffistofuna í D30 og kemur einu sinni í viku til okkar. Ég ákvað að snúa bakinu í glæsilegt morgunverðarborðið, drekka mitt heita vatn, prjóna og spjalla við vinnufélagana. Freistaðist ekki neitt. Hélt svo áfram í innleggjunum eftir kaffi og kláraði þann skammt rétt fyrir tólf. Eftir hádegi gekk vel framan af og ég sá fyrir mér að klára um tvö en þá kom babb í bátinn og ég þurfti smá aðstoð og var síðust að klára. Var samt búin um þrjú. Fór í Nauthólsvík beint eftir vinnu. Var rétt búin að klæða mig úr skóm og sokkum þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt handklæði. Trítlaði fram í afgreiðslu og leigði mér eitt handklæði á 750 krónur. Var komin út í 4,7°C sjóinn tíu mínútum fyrir fjögur og svamlaði um í tæpar tíu mínútur. Þá settist ég smá stund inn í gufuna. Úr gufunni óð ég út í lónið sem var amk einni til tveimur gráðum heitara ef ekki meira því það var fjara. Var samt bara stutta stund út í.  

1.11.23

Nagladekkin komin undir og sumardekkin á dekkjahótelið

Aftur rumskaði ég um fimm til að skreppa á salernið. Var komin á fætur rétt fyrir klukkan sex og í vinnuna um hálfátta. Var byrjuð í innleggjavinnunni áður en klukkan var orðin átta. Klukkan að byrja að ganga fjögur fékk ég að hætta vinnu því ég átti tíma með bílinn hjá N1 í Fellsmúla klukkan hálffjögur. Bíllinn komst strax að á réttum tíma og það tók aðeins korter að svissa yfir á vetrardekkin. Ég prjónaði smávegis á meðan og horfði löngunaraugum á kaffivélina og bakkelsið sem var í boði. Mig langaði í kaffi og kleinu en þó eiginlega samt ekki. Ég er á ákveðinni vegferð og fer vonandi ekki að skemma hana alveg strax. Er aðeins farin að finna mun á mér til hins betra en reikna þó með að tilraunin þurfi að standa yfir í amk þrjá til sex mánuði og ef bjúgurinn mun hverfa þá er allt eins líklegt að ég hugsi mig tvisvar um hvort það borgi sig bara ekki að halda sig við það sem gerir manni gott og sleppi tökum á því sem er að skemma fyrir. Sjáum hvað setur.

Var mætt í sund rétt rúmlega fjögur og hitti kalda potts vinkonu mína þegar hún var á leið í sína fyrstu ferð í kalda. Fórum fjórar ferðir alls í þann pott, tvær ferðir í heitasta pottinn, eina í gufu og eina í sjópottinn. Ég synti ekki neitt en þessi rútína tók alls um einn og hálfan tíma. Kom við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim.