Var komin á fætur um sjö í gærmorgun. Hálftíma síðar vakti ég N1 soninn og spurði hvort hann ætti ekki að mæta til vinnu um átta. Það var reyndin og bauðst ég til að skutla honum. Hann þáði það, pissaði, tannaði og klæddi sig og með minni aðstoð komst hann í vinnuna rétt áður en klukkan sló átta. Ég fór beint heim aftur. Gekk frá endum á fyrsta barnateppinu sem datt af prjónunum í fyrrakvöld. Fitjaði upp á nýju barnateppi með öðru mynstri. Byrjaði að lesa Vatnið, gríman og geltið eftir Silju Björk Björnsdóttur sem er mágkona mágs míns og er um veikindi hennar sem hún glímdi við um tvítugt. Um hálftíu bjó ég mér til hafragraut og hellti upp á könnuna. Klukkutíma síðar var ég sótt af nöfnunum. Við vorum mættar í röðina við aðstöðuna í Nauthólsvík korter fyrir ellefu, nógu framalega til að ná inn með fyrsta hollinu. Sjórinn var kominn yfir þrjár gráður og tvær af okkur nutum þess að svamla um. Sú þriðja naut þess líka til að byrja með en við vorum kannski of lengi út í fyrir hana, næstum því korter og svo smá stund í lóninu áður en við fórum í heita pottinn. Vorum í pottinum í amk tuttugu mínútur en hún náði ekki í sig hita, ekki fyrr en hún fékk sér te eftir að hún mætti til vinnu upp úr tólf.
Um eitt leytið var ég búin að taka saman farangur amk til einnar nætur, vakti Odd til að kveðja hann og brunaði beint austur á Hellu. Við pabbi fórum í smá kaplakeppni en spilin voru ekki með okkur í liði svo ég settist fljótlega inn í stofu með prjónana mína. Pabbi bauð upp á pönnsur með kaffinu og í kvöldmat fékk ég kjötsúpu. Hann sjálfur er hættur að borða heitan mat á kvöldin, fékk sér kornfleks og lifrapylsusneið. Eftir að kvöldfréttirnar voru byrjaðara fékk ég leyfi til að renna í hvítvínsbeljuna. Horfði á seinni hlutann um Daða og Gagnamagnið og skipti svo yfir á Sjónvarp símans. Ég var komin upp í rúm um ellefu og las bara í stutta stund. Var örugglega sofnuð fyrir miðnættið. Um tvö leytið í nótt var ég nýbúin að snúa mér í rúminu þegar skjálftinn upp á fimm reið yfir og fannst greinilega. Ég ætlaði að halda áfram að sofa en ég varð að byrja á því að skreppa fram á salerni og tæma hlandblöðruna fyrst og það varð líklega til þess að ég glaðvaknaði og gekk illa að sofna aftur í einhvern tíma.