5.5.18

Lítið að gerast í skrifunum

Það er það langt síðan að ég skráði mig inn síðast að google sá ástæðu til að spyrja hvort ég ætti örugglega að vera með aðgang að þessari síðu. Fékk sent númer með sms í farsímann til að staðfesta að ég mætti fara hérna inn og nota þessa síðu eftir mínu höfði. Annars er ég stödd á Hellu þessa stundina og verð eitthvað fram á morgundaginn. Esperanto-hittingingi var frestað til næsta fimmtudags svo ég var löt að drífa mig af stað í sund í morgun. Var þó komin ofan í þann kalda upp úr klukkan hálftíu. Rúmum einum og hálfum tíma síðar var ég komin í Krónuna við Granda og fyrir utan að ég var að gera innkaup fyrir sjálfa mig var ég að leita eftir vöru fyrir pabba og mömmu sem ekki fæst á Hellu í augnablikinu. Fann þetta ekki í Krónunni. Kom við hjá Atlantsolíu við Öskjuhlíð áður en ég fór heim með vörunar, gekk frá þeim og sunddótinu, ýtti aðeins við öðrum stráknum til að láta vita að ég væri að fara austur, tók dót sem ég hafði tekið saman í morgun til að fara með. Fyrsta stopp var í Hagkaup í Skeifunni og eftir smá hringsól og nokkuð mikla leit fann ég nokkrar krukkur af súrsætri sósu frá "Benna frænda". Næsta stopp var í Fossheiðinni og svo var ég komin á áfangastað um hálffjögur.

Fyrsti stjórnarfundur nýkjörinnar safnaðarstjórnar í Óháða söfnuðinum var haldinn í Kirkjubæ milli 17 og 18:30 sl. fimmtudag. Ritari og gjaldkeri höfðu boðað forföll en það var fagnaðarefni að frétta og sjá að það hafði náðst að fullskipa stjórnina, að búið væri að fylla í öll þrjú sætin sem í höfðu setið formaður, varaformaður og einn meðstjórnandi síðustu 2-12 ár. Ég tók að mér að sjá um fundarritun. Náði að hreinskrifa þau skrif í gær og senda á nýkjörinn formann sem fór yfir, bætti við einu atriði og ætlar að senda á alla stjórnina.

Var á leiknum VALUR - Selfoss í Pepsídeild kvenna í gærkvöldi. Svolítið kalt en það voru skoruð átta mörk sem öll voru skoruð í mark gestanna. Valsstelpurnar héldu hreinu. Annars er ég bara góð. :-)

24.4.18

Árskort á Valsvöllinn 2018-19, kort no 68

Já, líkt og í fyrra gildir kortið á alla heimaleiki Vals fram á næsta vor, þ.e. alla deildarleiki. Ég vona bara að ég nýti þetta kort betur næsta vetur heldur en kortið sem var að renna úr gildi. Ég var frekar dugleg að mæta á heimaleikina fyrrasumar, í Pepsídeild bæði karla og kvenna en ég fór aðeins á einn heimaleik í vetur í Olísdeild kvenna. Pepsídeild karla byrjar að rúlla á föstudaginn kemur og það er Valur - KR strax í fyrstu umferð.

Annars var ég að koma heim úr sundi. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan fjögur og fékk gott pláss bæði í pottum og laug. Synti í um 25 mínútur eða 600 metra. Hitti eina nöfnu mína sem var með mér í KÓSÍ kórnum. Við syntum víst eitthvað á svipuðum tíma en ég tók ekki eftir henni fyrr en við vorum báðar farnar að pottormast.

19.4.18

Gleðilegt sumar!

Afar gott að fá svona aukafrídag. Ég leyfði mér samt ekki að sofa út í morgun, en kannski var ég bara útsofin því ég vaknaði löngu áður en vekjarinn átta að hringja eða einhvern tímann milli klukkan hálfsjö og sjö. Var mætt í Laugardalinn um leið og verið var að opna klukkan átta. Byrjaði á því að demba mér í kalda pottinn í fjórar mínútur áður en ég fór í laugina. Reyndar varð lítið úr sundi, þ.e. ég fór aðeins tvær ferðir, 200 metra, því gúmmíið öðru megin á sundgleraugunum datt af þegar ég var að setja þau á mig í upphafi. Þrjóskaðist þessa 200 metra með annað auga lokað. Settist aftur í þann kalda áður en ég fór í heitari potta og hitta hluta af "morgunfólkinu" mínu. Hafi svo engan tíma til að blása á mér hárið því ég var búin að lofast til að skutla N1 syninum í vinnuna og hirða hann upp um hálftíu.

Skrapp í göngu núna seinni partinn, hálfan Öskjuhlíðarhring, og kom við í Valsheimilinu til að athuga með árskortið á völlinn í sumar. Þau koma ekki í sölu fyrr en á morgun. Hefði geta keypt mig inn á leik Vals og ÍBV, ríkjandi bikar og deildameistara en ákvað frekar að ljúka göngunni og fara heim til að þurrka af mér göngufossinn á bakinu.

Er annars nýlega byrjuð á Smásögum eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, AFLEIÐINGAR. Bókin inniheldur sjö smásögur. Er aðeins búin með þá fyrstu en ég gat ekki hætt að lesa fyrr en ég var búin með hana. Ég er enn með 3 bækur af safninu eftir að ég skilaði inn nokkrum bókum  sl. sunnudag án þess að ná mér í aðrar í staðinn.

17.4.18

Soðið slátur í matinn í kvöld

Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég varð fimmtug, þessi mánuður er rúmlega hálfnaður og það fer alveg að líða að því að ég fari í sumarfrí. Ekki alveg tveir mánuðir þangað til en miðað við hvernig tíminn brunar áfram þá er alls ekki langt þangað til. En á meðan ætla ég að njóta hvers dags og hverrar mínútu eins og kostur er.

Síðan ég setti inn færslu hérna síðast er ég m.a. búin að fara nokkrum sinnum í sund, í tvær fermingaveislur, eitt sextugs afmæli, skila nokkrum bókum á safnið, láta taka nagladekkin undan bílnum og eyða sólarhring með stelpunum í kortadeildinni á Hótel Selfossi.

Fór í blóðbankann strax eftir vinnu í gær, 49. heimsóknina og sleppti því sundferð. Hins vegar dreif ég mig í sund upp úr klukkan fjögur eftir að ég hafði sett upp slátur og beðið Davíð Stein um að fylgjast með suðunni sem og setja upp kartöflur um sex.

Kveikti annars á tölvunni í kvöld til þess að senda og setja inn tilkynningar um næstu messu í moggann og á vegg og heimasíðu safnaðarins.

4.4.18

Fiskbúð og sund eftir vinnu í dag

Ég er rúmlega hálfnuð með eina bókina sem ég kom með heim af safninu í gær. smáglæpir eftir Björn Halldórsson hefur að geyma 7 smásögur sem eru frá 12 bls og upp í 24 að lengd. Á aðeins eftir að lesa 3 smásögur. Ætla ekki að segja neitt um sögurnar sem ég hef þegar lesið nema það að ég mæli alveg með þessari bók.

Þegar ég var búin að heyra aðeins í pabba rétt upp úr klukkan fjögur í dag, tók ég til sunddótið, kvaddi og byrjaði á því að stoppa í fiskbúðinni Hafið við Skipholt. Þar keypti ég ýsu í soðið, lax og 1 kg af rauðum kartöflum. Var komin ofan í kalda pottinn rétt fyrir fimm og byrjuð að synda um fimm mínútum síðar. Synti aðeins í rúmt korter eða 400 metra. Þá fór ég aftur í þann kalda í 3 mínútur áður en ég skrapp í nokkrar mínútur í 38°C pott sem ég fer ekki oft í. Eftir nokkrar mínútur þar fór ég þriðju og síðustu ferðina í þann kalda áður en ég endaði í gufunni. Kom heim um hálfsjöleytið og var maturinn tilbúinn ca hálftíma seinna.