21.10.20

Labbað báðar leiðir, 2x3,5 km milli heimilis og vinnu

Sennilega hef ég farið aðeins of snemma að sofa í gær, um hálfellefu, því í rumskaði upp úr klukkan fimm og sofnaði ekki aftur eftir það. Fór á fætur um sex og bjó til hafragraut, nóg handa tveimur og þáði N1 sonurinn annan skammtinn áður en hann fór af stað í vinnuna. Ég labbaði af stað í vinnuna áður en klukkan varð sjö og ákvað að fara þá leið sem liggur m.a. meðfram flugvellinum, gegnum Hljómskálagarðinn, meðfram tjörninni og Lækjargötuna að Kalkofnsvegi. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt. Öll dagleg framleiðsla var búin rétt fyrir hádegið og svo kláruðum við að framleiða mánaðarlega kreditendurnýjun og byrjuðum á sér yfirfærsluverkefni. Hefðum klárað það verefni líka ef við hefðum verið með nóg af formum. Labbaði af stað heim um hálfþrjú og fór næstum sömu leið til baka og ég fór í morgun nema ég labbaði meðfram Valsvellinum og göngustíg milli Skógarhlíðar og Eskihlíðar. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi og fékk mér hressingu því það er betra að vera búin að fá sér eitthvað skömu áður en maður skreppur í sjóinn en ég verð sótt eftir ca. hálftíma.  

20.10.20

Fimm komma sex, heilmikið högg og langur skjálfti upp úr hálftvö í dag

Var komin í bólið um hálfellefu í gærkvöldi. Las um stund en var búin að leggja frá mér bókina, slökkva á lampanum og biðja bænirnar mínar áður en klukkan varð ellefu. Einhverra hluta vegna rumskaði ég um tvö leytið. Náði ekki að sofna strax aftur svo ég ákvað að prófa að skreppa á salernið. Fannst sem mér væri ekki svo mikið mál en bunan var meiri heldur en tilfinningin. Náði að festa svefn fljótlega en rumskaði aftur um hálffjögur. Hvað var í gangi veit ég ekki en ég sofnaði alla vega aftur og svaf þar til vekjaraklukkan fór í gang um hálfsjö.

Labbaði 3km í vinnuna í morgun og var mætt upp úr hálfátta. Ég sá um bókhaldið og frágang frammi í dag. Hinar tvær framleiddu daglegu kortin og héldu svo áfram með endurnýjunina eftir hádegi. Um hálftvö leytið var ég búin að því sem lá fyrir og fór þá að vinna í að gera uppkast að skýrslu, punkta niður það helsta sem var í gangi í gær og í dag. Allt í einu heyrðust drunur og það kom einhver hreyfing og svo heilmikið högg og enn meiri hreyfing. Ég stóð upp strax eftir skjálftann og fór að athuga með samstarfskonur mínar. Þær voru á leiðinni fram þegar ég opnaði dyrnar inn til þeirra. Framleiðsluvélin stoppaði í hamaganginum og þær voru nokkuð skeknar. Róaði þær niður og mig í leiðinni. Þær héldu framleiðslu áfram en hættu  tæpum klukkutíma síðar. Það sem stendur eftir af endurnýjuninni klárast á morgun eða hinn og okkur sýndist í góðu lagi að fara heim í fyrra fallinu. Ég fékk far heim og var komin þangað um þrjú. Byrjaði á því að hella mér upp á tvo bolla af kaffi og hringdi svo fljótlega í pabba. Hann fann alveg fyrir skjálftanum. 

19.10.20

Sjósund seinni partinn

 Var vöknuð upp úr klukkan sex í morgun og komin á fætur um hálfsjö. Labbaði af stað í vinnuna rétt fyrir klukkan sjö og var mætt þangað um hálfátta. Skrefamælirinn í símanum var samt ekkert að hafa fyrir því að telja skrefin eða skrá niður göngutúrinn, allar tölur á núll þar og það virkaði ekki að "pota" eitthvað í forritið. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt, nóg að gera en við hættum vinnu um þrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Endurræsti símann eftir að ég kom heim og þá fór heilsuforritið Samsun Health loksins að virka. Hellti upp á einn bolla af kaffi og fékk mér hressingu. Las um stund í; Sjö dagar eftir Freancesku Hornak, bók sem ég byrjaði á í gær. Korter fyrir fimm var ég tilbúin í sjósundsferð og beið frammi á gangi eftir farinu en Helga Rún varð samt að hringja í mig þegar hún var komin fyrir utan því ég sá hana ekki beygja inn í götuna hvernig svo sem ég fór að því að missa af því. Helga Björk var í aftursætinu en systurnar og eina til hittum við í Nauthólsvík ásamt slatta af fleira fólki sem fékk alveg sömu hugmynd. Stilla og fallegt veður og við vorum rétt rúmar tíu mínútur út í sjónum sem við giskum á að hafi verið öðru hvoru meginn við 5°C.

18.10.20

Pabbi áttatíuogsex ára í dag

Íslensku stafirnir á lyklaborðinu voru ekki tiltækir þegar ég ætlaði að setja inn pistil dagsins fyrir klukkan níu í morgun. Mér skilst að það sé einfalt að laga það en ég beið engu að síður eftir að N1 sonurinn kæmi á fætur og úr sturtu til þess að laga þetta. Það tók hann aðeins nokkrar sekúndur en ég sá reyndar ekki hvað hann gerði því ég fór að undirbúa mig undir að skutlast með hann upp á Gagnveg þar sem hann er á vakt milli klukkan tíu og hálfátta í dag. Notaði tækifærið og kannaði loftþrýstinginn á dekkjunum sem var aðeins búinn að minnka um 1-2 á öllum hjólbörðum á tæpum þremur vikum.

Gulu laufblöðunum hefur fækkað töluvert en samt hefur verðin á logninu ekki verið neitt sérstaklega mikil. Er hálfnuð með enn eina tuskuna og ég lauk við að lesa Arsenikturninn í gær. Í dag myndi mig langa til að skreppa og heilsa upp á afmælisbarn dagsins og einkabílstjórinn er alveg til í að koma með. Hins vegar vil ég helst fylgja fyrirmælum og vera ekkert að ferðast að óþörfu, sérstaklega þegar enn eru að greinast yfir 60 smit daglega og höfuðborgarsvæðið skilgreint sem rautt.

Framundan er vinnuvika, sú seinni í þessum mánuði því ég reikna með því að hólfa- og hópaskipting verði áfram næstu vikurnar og er jafnvel smeik um að þetta ástand vari alveg fram á nýtt ár. Einn dagur í einu og nota tímann mis skynsamlega, amk að passa vel upp á sínar sóttvarnir, handþvott, sprittun og tveggja metra reglu eins og hægt er. Og þrátt fyrir veiruógnina er svo hægt að horfa þannig á þetta að við lifum á mjög svo sögulegum tímum. Þetta ár fer svo sannarlega í sögubækurnar og það er ekki búið enn, alveg tveir og hálfur mánuður eftir þar til 2021 rennur upp.

17.10.20

Leikur milli Liverpool-liða í enska

Enn ein tuskan "datt" af prjónunum í gærkvöldi. Tuska númer tvö úr afgöngum en þær eru að nálgast 20 stk. sem ég hef prjónað á þessu ári. Er ekki búin að fitja upp á nýrri en ég á enn sjö heilar dokkur sem eru ætlaðar í tuskuprjón og það er líklegt að ég byrji á næstu tusku strax í dag.

Lauk við að lesa bókina Sterkasta kona í heimi í gærkvöldi. Er langt komin með Arsenik turninn, las amk  100 bls í þeirri bók í gær. Ef ég skrái mig inn á leitir.is og vel útlánshnappinn kemur í ljós að allar bækurnar 10 sem ég er með af safninu erum með skilafrest til  9. nóvember n.k. Á fimm af þessum tíu alveg ólesnar, búin að klára 4 og eins og ég skrifaði áðan langt komin með Arsenik turninn fimmtu bókina af tíu.

Vaknaði upp úr klukkan sjö í morgun. Var ekkert að rjúka strax framúr heldur kúrði um stund. Fór fram á sloppnum rétt fyrir átta og setti upp hafragraut eftir að hafa sinnt morgunverkunum á baðherberginu. N1 sonurinn kom fram stuttu seinna, orðinn alltof seinn í vinnuna en í þetta sinn var ekkert sem ég gat gert við því. Tímaáætlun strætó er svo þannig um helgar að hann er hvort sem er alltof seinn hvort sem hann á að mæta klukkan átta á laugardagsmorgni eða klukkan tíu á sunnudagsmorgni. Ég get hjálpað til með mætinguna í fyrramálið ef hann vill en hann á líka rétt á því að fá leyfi til að taka leigubíl á kostnað vinnuveitanda.

Tíu mínútum fyrir níu var ég tilbúin í sundbol innan undir yfirtökuflíkinni með hárið í hnúð undir sundhettu og í sjósundssokkum og strandskóm á fótunum. Í stórum bláum IKEA poka var ég með handklæði, skó og sjósundsvettlinga. Húslyklar, sokkar og vettlingar voru í vösum yfirtökuflíkurinnar. Helga Rún sótti mig og systurnar hittu okkur í Nauthólsvík. Vorum tíu mínútur á svamli í dásamlegri morgunkyrrð og nokkrar endur voru á svamli skammt frá. Það var háflóð um hálfsjö í morgun og því aðeins byrjað að fjara út aftur þannig að við gátum notað "staðina okkar" til að geyma handklæði skó og yfirhafnir. Þegar ég kom heim aftur fór ég beint í sturtu og þvoði á mér hárið í leiðinni. Á eftir skolaði ég úr sjósundsdótinu mínu í þvottahúsinu og skildi eftir sokka og strandskó á heitu röri en hengdi sundbol og hanska upp í baðherberginu. Síðan hellti ég mér upp á fyrstu kaffibolla dagsins og er búin að drekka þrjá bolla nú þegar.