9.7.17

Tölvubindindið heima gegnur glimrandi vel

Það gengur svo vel í tölvubindindinu hérna heima að það bitnar klárlega á bloggarskrifum mínum. En stundum er líka ágætt að hvíla fingurnar, hugann og sleppa því að segja frá öllu. Á móti kemur þá getur alveg verið að hluti af því sem er að gerast gleymist. Hvort er það gott eða slæmt? Held að það fari eftir ýmsu.

Annars var ég að koma heim af Valsvellinum þar sem mínir menn urðu að sætta sig við 1 stig, jafntefli á móti Stjörnunni. Eftir að hafa farið austur nokkrar helgar í röð hélt ég mig í bænum þessa helgina. Það kom nú ekki til af því að það væri heimaleikur í deildinni því ég ætlaði mér austur. Þegar ég kom heim úr vinnu seinni partinn á föstudaginn hringdi ég í heimasímann hjá foreldrum mínum. Það svaraði mér enginn svo ég hringdi í gemsann hans pabba. Þá var hann staddur á bráðamóttökunni í Fossvogi að bíða með mömmu en hún hafði verið kölluð inn eftir að hafa farið sneiðmyndatöku vegna magaverkjanna sem hún hefur glímt við sl. mánuði. Það var beðið og beðið eftir einhverjum sem myndi úrskurða hvað ætti að gera. Um eitt leytið um nóttina kom pabbi og fékk hjá mér húslykla en hann svaf svo í lazy-boy stól á bráðamóttökunni. Einhvern tímann mjög seint hafði verið ákveðið að mál mömmu yrði að bíða yfir helgina en það tók líka tíma að ákveða hvort ætti að senda hana austur aftur eða innrita hana. Ákveðið var að innrita hana á kvennadeildinni við Hringbraut en þar var allt fullt svo hún varð að bíða "á rúmstæði" í bráðamóttökunni í Fossvogi. Eftir að hafa skroppið í sund í gærmorgun, og fengið mér eitthvað að borða fór ég í heimsókn. Þegar mamma fékk að borða fékk ég pabba til að koma heim með mér. Eftir að hafa fengið okkur að borða og slakað á um stund hringdi mamma og sagði að það væri komið pláss á G12. Pabbi  fór um leið, "millifærði" hana á milli sjúkrahúsa og sat um stund hjá henni áður en hann fór austur.

Annars tók N1 strákurinn sér nokkra daga frí og fór með vinum sínum á Eistnaflug austur á Neskaupstað. Keyrðu norðurleiðina austur en eru á suðurleiðinni núna á heimleiðinni nýlega farnir í gegnum Hvolsvöll. Strákurinn minn á vaktafrí næstu tvo daga en Skeljungsstrákurinn var að skipta um vakt og leysa hinn bensín manninn af svo synir mínir verða ekki að vinna eða á frívöktum á sama tíma næstu fimm sex vikurnar.

Á aðeins eftir að fella af, ganga frá endum og skola og teygja úr sjöunda sjalinu. Er búin að kaupa dokkur í annað föl/húðbleikt sjal en ég veit ekki hvenær ég fitja upp á því. Það á að vera jólagjöf handa yngri systurdóttur minni. Ég skrapp á bókasafnið í kringum 21. júní sl. og er með nokkrar spennandi bækur, hef samt ekki alveg gefið mér góðan tíma til að lesa mikið.

En hér ætla ég að setja punktinn í þetta sinn.

30.6.17

Með sjöunda sjalið á prjónunum

Síðasti dagur sjötta mánuðar ársins er næstum búinn, 181 dagar að verða liðnir og 184 dagar eftir. Er það ekki magnað? Og árið sem er rétt nýhafið. Ég fékk bréf í vikunni frá ensku pennavinkonu minni og jafnöldru. Hún hafði nokkur orð um margt af því sem ég skrifaði henni í jólabréfinu og með hennar bréfi sendi hún einnig tvær myndir af sér. Á annarri myndinni var hún úti að borða með manninum sínum og á hinni var hún með vinkonu sem var að fara í fallhlífarstökk.

Hitti Brynju vinkonu á miðvikudaginn. Hún sótti mig heim um fimm og við skruppum á Gló í Hæðarsmára þar sem við fengum okkur grænmetislasanja og gleymdum tímanum við spjall næstu rúmlega þrjá tímana.

Síðasta messa fyrir sumarfrí var gúllasmessa sl. sunnudagskvöld kl. sex. Ætlum að prófa að hafa hana aftur á sama tíma að ári og sjá svo til hvort við munum halda okkur við þann tíma en fram að þessu voru þessar gúllasmessur, kl.11:00 fh. fjórða sunnudag í júní mánuði. Nú á heimasíðu og útgáfunefndin eftir að taka saman efni í safnaðarfréttirnar og setja í uppsetningu og prentun þannig að blaðið komi út fyrri partinn í ágúst.

Er annars búin að skreppa austur og vera yfir eina nótt allar helgar eftir hvítasunnuhelgina. Laugardaginn 10. júní fylgdi ég fyrrum nágranna foreldra minna, konu sem varð níræð í mars. Eftirlifandi maki hennar verður 97 ára 12 júlí n.k. Þessa sömu helgi var bongóblíða á Hellu. Ég sat um stund með prjónana mína á pallinum sunnan við hús foreldra minna og allt að því brann á bringunni.

Margt annað hefur drifið á daga mína, t.d. skrapp ég í bókasafnið. Kom líklega með heldur margar bækur með mér til baka þótt þær hafi ekki verið eins margar og ég tók hér áður fyrr. Málið er að nú fer miklu, miklu meiri tími í prjónaskap en lestur. Er einnig búin að fara 4 ferðir í sjóinn  en mætti vera duglegri við það. Það fara að nálgast tvær viku síðan ég fór síðast. Mitt mottó er að fara helst þegar er dumbungur, þá er líklegar að mun færri mæti þótt það séu nú alltaf einhverjir að stunda þetta daglega.

28.6.17

Í sjálfskipuðu tölvubindindi sem kemur niður á bloggskrifum í staðinn

Nú er árið rétt að verða hálfnað, þessi mánuður klárast eftir föstudaginn og þetta er aðeins önnur færslan mín í júní. Samt hefur alveg verið nóg að gerast í kringum mig. Ég tók það upp hjá mér að vera ekki að kveikja á tölvunni dags daglega og þá fáu daga sem ég þurfti að kveikja, t.d. til að senda inn tilkynningar um messur þá  notaði ég ekki tækifærið og skráði inn eitthvað af atburðum liðinna stunda. En þetta sést þegar bloggsíðan er opnuð, engar hreyfingar frá því um hvítasunnuna.

Er ekki alveg í stuði til að taka saman það helsta akkúrat í dag en sjáum til hvort á geti mannað mig upp í smá samantekt á morgun eða föstudaginn kemur.

4.6.17

Hvítasunnuhelgi

Tvisvar í síðustu viku kom upp bilun í deildinni minni sem setti strik í reikninginn varðandi vinnslu á daglegum verkefnum. Í fyrra tilfellinu náðum við að klára um níu um kvöldið en í seinna tilfellinu fékk ég að skreppa í sund og koma svo aftur tilbúin í að vinna eins lengi og þörf krefði þegar allt komst í gang aftur. Það kvöldið kom ég heim rétt um miðnættið og mætti því ekki í vinnu aftur fyrr en um hádegið daginn eftir.

Á föstudaginn lánaði ég bræðrunum bílinn til að fara saman í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu. Strákarnir voru nýfarnir þegar ég kom heim úr vinnu. Systir mín og fjölskylda (mínus Cara, annar hundurinn sem var sett í pössun fyrir norðan) voru á leiðinni suður. Þau komu um átta en fóru strax aftur í smá útréttingar. Bríet varð eftir hjá mér og við frænkur áttum góða stund saman. Hulda gisti hjá kærastanum en systir mín, mágur og minni hundurinn komu aftur um ellefu leytið og bjuggu um sig í stofunni.

Í gærmorgun dreif ég mig á fætur um átta, hellti upp á kaffi, harðsauð egg og útbjó hafragraut. Tímdi ekki að drífa mig í sundið fyrr en gestirnir drifu sig með allt sitt dót til að sækja eldri dótturina og kærastann og líta við í Costco áður en þau drifu sig austur. Ég kom heim úr sundi um ellefu og þá voru báðir synirnir vaknaðir og annar á leiðinni í sturtu. Við komumst af stað austur tæpum klukkutíma síðar. Hinir fjölskyldan var komin á Hellu á undan okkur. Um kaffileytið bættust þrír í hópinn og nokkru síðar aðrir tveir. Áttum afar skemmtilega stund saman fram eftir kvöldi. Við mæðgin komum í bæinn aftur rétt fyrir miðnætti og þá var búið að teppaleggja sameignina en gamla teppið var rifið af fyrr í vikunni. Það kom málari og lauk við að mála sameignina á tveimur dögum svo nú er sameign risíbúðar og efri hæðar orðin fín.

31.5.17

Buslað í sjónum í smá stund eftir vinnu

Gærdagurinn var ansi langur í annan endann. N1 ungi maðurinn var á aukavakt milli hálfátta og tvö í sinni vinnu svo ég eftirlét honum strætókortið. Ákvað að fara á bílnum beint í vinnuna, þ.e. ég sleppti morgunsundferð. Áður en ég fór tók ég alla skó af ganginum og inn í hol. Var tilbúin til að fara á síðastu jóga-nítre slökunarstundina í Fella og Hólakirkju seinna um daginn en um miðjan dag var ljóst að það myndi ekki ganga upp og lét ég Inger vita í tíma. Ég kom heim úr vinnu rétt upp úr klukkan hálftíu í gærkvöldi. Teppalagningarmaðurinn sem við nágranni minn í risinu réðum til að rífa af teppið og leggja nýtt í sameignina hafði komið og rifið upp og fjarlægt gamla teppið. Ég skrapp upp til nágrannans til að skoða teppaprufur. Við vorum ekki lengi að velja og vorum báðar sammála. Áður en ég komst í háttinn sendi ég messu tilkynningu í moggann og setti svipaðar fréttir á facebook vegg og heimasíðu safnaðarins. Tók á mig náðir þegar klukkan var byrjuð að ganga tólf.