18.9.20

Vikan að verða búin

Það er kominn föstudagur. Tíminn brunar áfram hvort sem maður gerir eitthvað eða ekkert.  Á miðvikudaginn hitti ég þrjár af fjórum úr sjósundshópnum mínum í Nauthólsvík um það leyti sem opnað var. Það var svo mikil fjara að ég hafði það sterklega á tilfinningunni að við gætum vaðið alveg yfir til Kópavogs. Sjórinn var 9,3°, við svömluðum um í uþb tuttugu mínútur áður en við skelltum okkur smá stund í pottinn.

Skilaði sex bókum af níu á safnið og náði að koma mér út af safninu áður en ég fór að hamstra fleiri bækur þannig að ég er aðeins með þrjár af safninu í fórum mínum. Eina af þeim, Boðorðin eftir Óskar Guðmundsson byrjaði ég að lesa þetta kvöld og ég kláraði hana í gær. Eins og bókin byrjaði örlítið furðulega að mér fannst þá náði hún mér fljótlega og ríghélt.

Í gærmorgun ætlaði ég með bílinn í árlegt alþrif hjá Bónstöðinni við Stórhöfða. Þegar ég setti bílinn í gang fékk ég strax skilaboð um að athuga með loftþrýstingin á hljólbörðunum. Sú athugasemd hefur ekki komið síðan um miðjan júní. Ákvað samt að fara fyrst upp á Stórhöfða. Var mætt tíu mínútum fyrir níu. Það var ekki búið að opna og þá þegar var kominn einn í röðina. Eftir smá umhugsun ákvað ég að bíða með þetta verkefni aðeins lengur. Fór alla leið á N1 við Skógarsel til að nota pumpu þar.

Um hádegisbilið náði ég í sendingu frá húseigendafélaginu sem ég kom svo yfir á gjaldkera sameiginlegs húsfélags síðar um daginn. Kom einnig við í Fiskbúð Fúsa og keypti nætursalataða ýsu í soðið.  Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég dreif mig loksins í sund en það var vegna þess að ég ætlaði að hitta á kalda potts vinkonu mína um fimm en ætlaði að vera búin að synda áður. Það gekk eftir og ég var meira að segja búin að fara eina ferð í þann kalda og fór svo sex ferðir í viðbót.

15.9.20

Sjórinn seinnipartinn í gær morgunsund í dag

Hluti af gærdeginum fór í að sinna málefnum fyrir heildarsameign Drápuhlíðar 19-21. Sendi fyrirspurn á direkta til að fá tilboð í eignaskiptasamningsgerð fyrir allan húskassann, skrifaði inn á sameiginlega svæðið um nokkur atriði og sendi einnig póst á þann sem ætlar að vera milliliður milli okkar og verktaka til að upplýsa hann um stöðuna.


Sjósundshópurinn minn var allur mættur í Nauthólsvík um hálfsex í gær. Þar að auki var með annar afleggjari einnar úr grúppunni piltur sem varð tvítugur á hlaupársdag í ár (eða varð hann þá bara fimm ára?) Það var flóð, sjórinn 9,7°, lofthiti um 10°, rigninig á köflum en lítil ferð á logninu. Við syntum út að kaðli á 13 mínútum og svömluðum þar um í tæpar tíu í viðbót áður en við fórum upp úr og röltum í pottinn. Kvöddumst rétt fyrir sjö, allar á því að hittast aftur við opnun á miðvikudag, eða um ellefu á morgun.


Áður en ég fór heim reyndi ég að hringja í einn frænda minn. Var að fjárfesta í hakki hjá mömmu hans og átti að nálgast það til hans. Hann var á æfingu en ég náði sambandi við konuna hans og þegar hann hringdi til baka var ég á leiðinni að sækja hakkið. Þótt ég stoppaði ekki neitt náði ég að hitta aðeins á þennan frænda minn. Þegar ég kvaddi var klukkan að verða tuttugu mínútur yfir sjö. Ákvað að hringja í N1 soninn sem var á vakt til hálfátta við Gagnveg og sagðist vera á leiðinni að sækja hann.


Í morgun var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sex. Greip aðeins í bók; Selta [apókrýfa úr ævi landlæknis] eftir Sölva Björn Sigurðsson.  Ég er nýbúin að klára Ástin Texas: sögur, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Og þá er ég einnig búin með skammtímalánsbókina sem ég á að skila á fimmtudaginn. Fór á fætur korter fyrir sjö og bauð N1 syninum að skutla honum til vinnu. Hann þáði farið og náði þá að skreppa í sturtu áður en við þurftum að leggja af stað. Hann var mættur vinnu á slaginu hálfátta og ég í sund rúmu korteri síðar. Synti 500, kaldi 3x3mín, heiti 2x4mín og gufa í líklega tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.

14.9.20

Mánudagsmorgun

Ég var komin í bæinn rétt fyrir klukka sex í gær. Fór beint í sund og byrjaði á því að synda. Eftir 300 metra ætlaði ég að dýfa mér í kalda pottinn en hann var þá lokaður. Fór smá stund í þann heitasta og ákvað svo að kalla þetta gott í bili. Var komin heim fyrir klukkan sjö. Þurfti að leggja í Blönduhlíð en ég komst í einni ferð með allt dótið mitt, því já ég pakkaði fyrir viku þótt ég væri bara rétt rúman sólarhring. Hefði getað trítlað á Valsvöllinn og athugað hvort pláss væri fyrir mig sem einn af 200 áhorfendum en ákvað að kíkja bara reglulega á stöðuna á mbl.is-beinum lýsingum.

Klukkan var alveg að detta í miðnætti þegar ég slökkti á leslampanum á náttborðinu mínu seint í gær. Engu að síður var ég vöknuð fyrir klukkan sjö. Þar sem ég má ekki mæta á vinnustað í þessari viku, kveikti ég bara á útvarpinu og lá fyrir aðeins lengur. Var samt komin á fætur áður en klukkan varð átta. Er búin að senda af stað fyrirspurn til fyrirtækis sem heitir direkta og gerir m.a. eignaskiptasamninga og biðja um tilboð í að gera  heildareignaskiptasamning fyrir húsfélag Drápuhlíð 19-21.

Næsta mál á dagskrá er að fá sér morgunmat, lýsi, vítamín og hella upp á smá kaffi áður en lengra er haldið. Seinni partinn í dag ætla ég í sjóinn og hitta þar Helgurnar og systurnar. Hvað gerist í millitíðinni mun ég kannski segja frá síðar.

13.9.20

Í heimsókn hjá pabba

 Í gærmorgun var ég komin á fætur upp úr klukkan átta. Það var samt ekki fyrr en klukkan tíu að ég bjó til matarmikinn og þykkan hafragraut og hellti í leiðinni upp á 2 bolla af kaffi. Rétt fyrir ellefu var ég mætt í Nauthólstvík með sjósundsdótið mitt. Við mættum allar fimm úr nýstofunum svokölluðum boðsundshóp sem ég vildi nú frekar kalla; Helgurnar, systurnar og Anna. Hvað um það sjórinn og lofthitinn sá sami 10°C, fjara og við syntum út að kaðli á uþb 13 mínútum og svömluðum þar um í sjö mínútur í viðbót áður en við fórum upp úr og í heita pottinn.

Næst lá leiðin í Krónuna við Granda og áður en ég fór heim með vörurnar kom ég við hjá Oddi í Kvikk og sníkti einn bolla af kaffi. Heima gekk ég frá vörunum, sótti þvott á snúrurnar, pakkaði niður í tösku og bakpoka og kvaddi Davíð Stein áður en ég lagði af stað austur. Hringdi í pabba og tvíburahálfforeldra mína áður en ég lagði af stað og kom við hjá þeim síðarnefndu á leiðinni. Stoppaði innan við klukkutíma á Selfossi þrátt fyrir að langt er síðan ég kom þar við síðast en ég var komin á Hellu um fjögur. Við pabbi skruppum í búðina eftir nokkrum nauðsynjum. Í gærkvöldi gufusauð ég blómkál, niðurskorna karföflu og einn niðurskorinn lauk saman í potti og steikti marinerað bleikjuflak sem pabbi átti í frysti. Með þessu drukkum við vatn, hvítt (ég) og rautt (pabbi).

Þrátt fyrir að framundan sé vika sem ég verð að halda mig fjarri vinnustað er ég á leiðinni í bæinn. Ætla í sund, kannski á Valsvöllinn og svo þarf ég að afhenda nágrannanum í risinu, sem er að selja íbúðina sína, gögn frá aðalfundinum sem hún vill hafa aðgengileg fyrir tilvonandi nýja íbúa. Ég er líka með nokkur önnur markmið á prjónunum (fyrir utan tuskur) fyrir komandi viku. M.a. að splæsa á bílinn alþrif innan og utan líkt og ég gerði í fyrra.

11.9.20

Fyrsta grímu-uppsetningin

 Þrátt fyrir fínasta gönguveður fór ég á bílnum í vinnuna í morgun. Ég var í bókhaldsvinnunni og þar af leiðandi aðalsmiður skýrslugerð vikunnar til að upplýsa hinn hópinn um eitt og annað. Kalla þurfti til viðgerðarmann í þriðja sinn í vikunni en það náðist að ljúka deginum. Sumt var framleitt á þá gömlu vegna vesens á nýju vélinni. Held að hópurinn minn hafi komist klakklaust frá þessari viku og leyst flest verkefnin mjög vel af hendi. Ég kvaddi korter yfir þrjú og skildi hinar tvær eftir með viðgerðarmanninum sem vonandi var ekki lengur en til fjögur.

Var mætt á Kristu Quest við Laugaveg rétt fyrir hálffjögur. Klipparinn minn og aðrir á stofunni voru með grímur og ég var spurð hvort ég væri ekki með grímu á mér og beðin um að setja upp. Ég keypti pakka af grímum hjá Oddi um daginn og var búin að þvælast með hann með mér ýmist í handtösku eða bakpoka en aldrei að opna pakkann fyrr en núna. Nonni varð að kenna mér hvernig ætti að setja þetta upp. Hann klippti svo uþb 3 cm af hárinu mínu og hafði mjög gaman af að meðhöndla hárið mitt. Pantaði næsta tíma um miðjan mars, gerði upp og kvaddi tíu mínútm fyrir fjögur. Mikið var gott að losa sig við aðskotahlutinn úr andlitinu.