4.6.17

Hvítasunnuhelgi

Tvisvar í síðustu viku kom upp bilun í deildinni minni sem setti strik í reikninginn varðandi vinnslu á daglegum verkefnum. Í fyrra tilfellinu náðum við að klára um níu um kvöldið en í seinna tilfellinu fékk ég að skreppa í sund og koma svo aftur tilbúin í að vinna eins lengi og þörf krefði þegar allt komst í gang aftur. Það kvöldið kom ég heim rétt um miðnættið og mætti því ekki í vinnu aftur fyrr en um hádegið daginn eftir.

Á föstudaginn lánaði ég bræðrunum bílinn til að fara saman í heimsókn til pabba síns og fjölskyldu. Strákarnir voru nýfarnir þegar ég kom heim úr vinnu. Systir mín og fjölskylda (mínus Cara, annar hundurinn sem var sett í pössun fyrir norðan) voru á leiðinni suður. Þau komu um átta en fóru strax aftur í smá útréttingar. Bríet varð eftir hjá mér og við frænkur áttum góða stund saman. Hulda gisti hjá kærastanum en systir mín, mágur og minni hundurinn komu aftur um ellefu leytið og bjuggu um sig í stofunni.

Í gærmorgun dreif ég mig á fætur um átta, hellti upp á kaffi, harðsauð egg og útbjó hafragraut. Tímdi ekki að drífa mig í sundið fyrr en gestirnir drifu sig með allt sitt dót til að sækja eldri dótturina og kærastann og líta við í Costco áður en þau drifu sig austur. Ég kom heim úr sundi um ellefu og þá voru báðir synirnir vaknaðir og annar á leiðinni í sturtu. Við komumst af stað austur tæpum klukkutíma síðar. Hinir fjölskyldan var komin á Hellu á undan okkur. Um kaffileytið bættust þrír í hópinn og nokkru síðar aðrir tveir. Áttum afar skemmtilega stund saman fram eftir kvöldi. Við mæðgin komum í bæinn aftur rétt fyrir miðnætti og þá var búið að teppaleggja sameignina en gamla teppið var rifið af fyrr í vikunni. Það kom málari og lauk við að mála sameignina á tveimur dögum svo nú er sameign risíbúðar og efri hæðar orðin fín.

31.5.17

Buslað í sjónum í smá stund eftir vinnu

Gærdagurinn var ansi langur í annan endann. N1 ungi maðurinn var á aukavakt milli hálfátta og tvö í sinni vinnu svo ég eftirlét honum strætókortið. Ákvað að fara á bílnum beint í vinnuna, þ.e. ég sleppti morgunsundferð. Áður en ég fór tók ég alla skó af ganginum og inn í hol. Var tilbúin til að fara á síðastu jóga-nítre slökunarstundina í Fella og Hólakirkju seinna um daginn en um miðjan dag var ljóst að það myndi ekki ganga upp og lét ég Inger vita í tíma. Ég kom heim úr vinnu rétt upp úr klukkan hálftíu í gærkvöldi. Teppalagningarmaðurinn sem við nágranni minn í risinu réðum til að rífa af teppið og leggja nýtt í sameignina hafði komið og rifið upp og fjarlægt gamla teppið. Ég skrapp upp til nágrannans til að skoða teppaprufur. Við vorum ekki lengi að velja og vorum báðar sammála. Áður en ég komst í háttinn sendi ég messu tilkynningu í moggann og setti svipaðar fréttir á facebook vegg og heimasíðu safnaðarins. Tók á mig náðir þegar klukkan var byrjuð að ganga tólf.

30.5.17

35 ára fermingarafmæli í dag

Þann 30. maí 1982, sem var hvítasunnudagur, fermdist ég í Keldnakirkju. Síðan eru liðin 35 ár. :-)

Ég var annars með strætókortið í gær en flaskaði á því að það er komin sumartímatafla og þá gengur 13 aðeins tvisvar á klukkustund, 14 og 44 yfir heila tímann. Ég sem var að nota hálfátta vagninn þegar ég var að nota strætó í vetur. Vissi ekki af þessum breytingum í gær og fór því of fljótt út. Þegar ég áttaði mig á því að vagninn væri ekki að koma alveg strax labbaði ég upp að skýlinu sem er merkt Flókagötu þótt það standi nú reyndar við Lönguhlíð.

Um fjögur fékk ég far heim úr vinnunni og ákvað svo fljótlega að drífa mig í sund. Hringdi samt í pabba áður. Kom heim einhvern tímann á áttunda tímanum. Þá var Davíð Steinn búinn að steikja hakk sem þeir bræður notuðu svo á vefjur ásamt grænmeti. Ég ákvað að borða frekar afganga.

29.5.17

Aðeins um gærdaginn. Jazzmessa og fleira.

Ég skutlaði N1 unga manninum í vinnuna sína upp úr klukkan hálfníu og fór svo beint í sund. Kom heim um ellefu, gekk frá sunddótinu, fékk mér eitthvað að borða og prjónaði smá. Kvöldið áður hafði verið hringt í mig og ég spurð hvort ég gæti tekið að mér að sjá um maulið eftir messuna. Ég var örlítið efins í fyrstu en ég ætlaði hvort sem er að mæta í kirkjuna svo ég ákvað að vera jákvæð gangvart þessu verkefni. Um tólf leytið í gær skrapp ég því í Bónus í Kringlunni án þess að hafa hugmynd um það fyrirfram hvað ég myndi grípa með mér til að hafa með kaffinu.

Úr Bónus lá leiðin beint upp í kirkju og var ég svo heppin að sr. Pétur var að koma þar að um sama leyti, 12:40, svo ég komst strax inn. Er nefnilega ekki með lykla. Maulið er borið fram í efri safnaðarsal kirkjunna sem er mjög gott fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með stiga. Í neðri salnum hefði þurft að raða upp öllum borðum þar sem þau eru flest sett saman í eitt langborð. Svona vilja þeir sem eru með fundi í þessum sal, tveir hópar einu sinni í viku (annar hópurinn á mánudögum og hinn á fimmtudögum) hafa það. Uppi tók ég stóla frá tveimur borðum og ýtti borðunum þversum alveg upp að vegg. Á þessi borð setti ég maulið, glös, vatns- og djúskönnur, diska, servíettur, skál með ýmsum tegundum af tei og brúsa með heitu vatni. Á hin borðin setti ég nokkra bolla, eina mjólkurkönnu og einn kaffibrúsa. Hafði enga hugmynd um hversu margir yrðu í messunni. Þar sem organistinn og kórinn hans voru í fríi hafði hann beðið Ágústu Evu að syngja við messuna. Hún forfallaðist á síðustu stundu, en sr. Pétur fékk þrjá unga stráka sem eftir messuna kölluðu sig "Háóða jazztríóið" og jazz-söngkonuna Ingibjörgu Hlíðar. Hún var mjög tímabundin og þurfti að vera mætt annars staðar um þrjú. Engu að síður náði hún að syngja fyrir okkur fjögur lög áður en hún fór. Fjórða lagið söng hún eftir þá stystu predikun sem ég man eftir að hafa verið, og hafa þær yfirleitt aldrei verið lengri en tíu til fimmtán mínútur. Predikunin tók að þessu sinni rétt um þrjár mínútur en presturinn hafði spurt söfnuðinn hvort það væri ekki í lagi að hafa þetta það stutt til að fá fjórða lagið með söngkonunni. Nokkuð margt var í kirkjunni, alls 48 manns og um leið og ég var búin að fara í altarisgönguna dreif ég mig í að gera allt klárt fyrir maulið eftir athöfnina. Þrjú af fyrrum KÓSÍ meðlimum mættu og ég gaf mér smá tíma til að setjast niður með þeim. Ekkert stress var á fólki en ég var búin að ganga frá eftir maulið áður en klukkan varð hálffimm og varð samferða prestinum út.

Heima stoppaði ég svo aðeins í tæpa tvo tíma. Hringdi í pabba, prjónaði og las smá en á sjöunda tímanum lagði ég í hann til Grindavíkur á leik heimamanna og "minna" manna sem fór ekki alveg nógu vel fyrir Valsstrákunum, 1. tapið hjá þeim staðreynd en eru samt í 2. sæti með sama stigafjölda og lið Grindavíkur en betra markahlutfall. Eftir leikinn heimsótti ég vinafólk mitt en ég athugaði það á laugardaginn hvort þau yrðu heima og hvort ég gæti sótt þau heim þótt klukkan væri byrjuð að ganga tíu. Kom svo heim upp úr hálftólf. Ævintýralega skemmtilegur dagur.

28.5.17

Alls 48 í jazzmessu í dag

Í gærmorgun var ég fyrst út úr húsi rétt upp úr klukkan átta. Var byrjuð að synda ca tuttugu mínútum yfir átta og synti í tuttugu mínútur. Fór tvisvar í kalda pottinn og endaði í sjópottinum þar sem ég dagaði næstum því uppi því það heilsaði mér kona með þeim orðum að hún kannaðist svo við mig og við fórum að spjalla saman í kjölfarið. Eftir sundið skrapp ég heim til að ganga frá sunddótinu. Stoppaði ekkert, var með esperanto-bakpokann tilbúinn í skottinu og var komin vestur í bæ rétt upp úr hálfellefu. Rúmum tveimur tímum seinna kvaddi ég og þá lá beinast við að koma við í Krónunni við Granda áður en ég færi heim. Var svo alveg róleg heima restina af deginu. Prjónaði alveg helling og er byrjuð á þriðju dokku af fimm á sjalinu sem ég byrjaði á um síðustu helgi. Eftir að Oddur Smári kom heim úr sinni vinnu fór ég fljótlega að finna til matinn, steikti lambagúllas og skar niður ýmis konar grænmeti. Það var til salsasósa og sýrður rjómi í ísskápnum og þegar Davíð Steinn kom heim úr sinni vinnu var allt tilbúið til að útbúa sér vefjur. Sátum öll saman að snæðingi og bræðurnir skiptust á vinnusögum. Davíð Steinn bauð upp á gulrótarkökusneið í eftir rétt og svo hjálpuðust þeir að við að ganga frá eftir matinn.