3.8.16

Ágústmánuður byrjaður

Það nóg um að vera í kringum mig en einhvern veginn hef ég ekki fengið mig til að setjast niður og skrá niður það helsta. Þetta er að verða vandræðalegt hversu léleg ég er að sinna bloggi sem og útsaumi. Að vísu tók ég saumana með austur um síðustu helgi, eins og reyndar oftast þegar ég ætla að gista, og viti menn ég saumaði bæði á sunnudeginum og á mánudagsmorguninn.

Byrjaði  á því að skreppa í sund strax um átta á laugardaginn var. Kom við heima í um klukkustund eftir sundið áður en ég fór yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Þar stoppaði ég í hátt í tvo klukkutíma. Þegar ég kom heim lauk ég við að pakka, kvaddi strákana og brunaði út úr bænum um tvö. Var komin austur klukkan hálffjögur þrátt fyrir að það væri smá flöskuháls við Selfoss.

Við pabbi vorum sest út á pall fyrir klukkan tíu á sunnudagsmorguninn. Fljótlega ákváðum við að taka út sláttuvél og klippur og snyrta grasflatirnar, bæði aftan og framan við hús. Þurftum að tæma fjórum sinnum en vorum sennilega ekki nema einn og hálfan tíma að klára þetta. Pabbi fór fyrstu hringina en ég tók svo við og var komin upp á sæmilegt lag við að elta vélina sem fór nota bene nokkuð hratt yfir. Á mánudagsmorgun uppgötvaði ég að ég hafði sennilega nota einhverja axlarvöðva sem eru sjaldan í notkun þrátt fyrir sund og e-s konar armdýfingar reglulega. En ég kvaddi foreldra mína um hálfþrjú á mánudeginum og var komin í bæinn um fjögur. Tók til sunddótið og byrjaði á því að skreppa í Laugardalslaugina. Kom við í búð á heimleiðinni þrátt fyrir að það væri frídagur verslunarmanna.

Labbaði í vinnuna í gærmorgun og var mætt vel fyrir klukkan átta. Ég og ein önnur vorum áfram frá fjögur, að sinna reikningagerð og vakta þá sem yfirfara vélina ca einu sinni í mánuði. Hin skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en um átta leitið skrapp ég aðeins í heimsókn til "föðursystur" minnar.

12.7.16

Smá lífsmark

Það stefnir allt í afar rýrt skrifsumar og ég er ekki viss um hverju ber að þakka það eða kenna um eftir því hvernig á það er litið. Ég er þokkaleg og rúmlega það. Hamast við að njóta augnablikanna og reyni líka að nýta sumt af tímanum skynsamlega í nokkuð sem ég skrifa lítið sem ekkert um enda um venjuleg heimilisverk að ræða. Viðurkenni það alveg að mér gengur betur að eyða tímanum í allt annað en heimilisverkin en þau verða samt aldrei alveg útúndan.

 eru rétt rúmlega fimm virkir dagar eftir af aðalsumarfríinu mínu. Ég er ekkert orðin þreytt á því að vera í fríi og sé fram á að ná ekki að komast yfir að gera alveg allt sem var á listanum. En ég er búin að gera alveg helling og ég er ekkert með samviskubit yfir einu eða neinu, til hvers væri það svo sem?

Einkabílstjórinn er búinn að taka fullnaðarprófið eftir að hafa haft ökuréttindi í rúmt ár eða frá því seinni partinn í apríl í fyrra. Hann var að skila inn akstursmatinu til sýslumannsins í Kópavogi og ætlar svo að sækja skírteinið þegar það er tilbúið. Annars hefði hann þurft að skila inn því skírteini sem hann hefur haft sl. ár og fá bráðabirgða skírteini í millitíðinni.

Snemma á þessu ári sagði ég upp áralangri áskrift af kiljuklúbbnum Hrafninum. Síðasta bókin sem kom áður en áskrift var hætt var Fyrirvari eftir Renée Knight. Ég tók þá bók loksins úr blastinu um síðustu helgi og kláraði hana daginn eftir að ég byrjaði á henni. Mjög spennandi og kemur stöðugt á óvart. Spennan hélst út bókina.

2.7.16

Sumarfríið hálfnað

Tíminn æðir áfram, dagar verða að vikum og vikur að mánuðum. Það er hálfur mánuður síðan ég skrifaði eitthvað inn hér síðast. Ég fékk óvænt "heimboð" í viku til Spánar sem ég þáði. Var búin að bóka flug til og frá Alecante og aðra leiðina með flugrútunni upp úr klukkan níu að kvöldi 17. júní sl. Hafði fyrst þurft að hugsa mig aðeins um og hringdi bæði í foreldra mína og systur. Þau og synir mínir hvöttu mig frekar en löttu og ég sem þarf yfirleitt að hafa nokkurn fyrirvara á hlutunum ákvað að fljúga út strax daginn eftir og vera með tvíburahálfsystur minni og hennar fjölskyldu í heila viku. Fékk pláss með sama heimflugi og þau áttu. Þetta kostaði mig ekki nema tæpar 31þúsund. Og til að kóróna heppnina yfir mér þá átti pabbi leið í bæinn þetta kvöld til að sækja tengdasoninn úr flugi frá Akureyri (og Cöru sem fékk far á samferða.is) og kom hann við hjá mér í leiðinni og gaf mér afgangs evrur síðan þau mamma voru á Tenerífe í okt-nóv 2014.

Oddur Smári samþykkti að fara gangandi til afleysingar á Birkimelnum á laugardagsmorgninum, með klink í strætó og aukalykil af lánsbílnum. Ég skrapp í sund og var enn að reyna átta mig á og trúa þessu láni yfir mér. Það varð svo úr að ég labbaði með eina litla flugfreyjutösku og mittistösku undir evrurnar og vegabréfið á BSÍ upp úr klukkan ellefu og tók flugrútuna klukkan hálftólf. Keypti mér smá hressingu og vínglas í fríhöfnini. Eini gallinn við að fljúga þennan dag var sá að ég missti af leik Íslands og Ungverja á EM. Lenti í Alicante um níu að staðartíma og um leið og ég kom útfyrir kölluðu Sonja og Elísa á mig. Ég var enn að reyna að trúa þessu ævintýri. Er við komum í íbúðina á hótelinu var mér boðin kvöldhressing og það var opnuð vínflaska.

Dagarnir úti liðu jafnhratt og hér heima. Á sunnudeginum skruppum við aðeins á ströndina og eftir að hafa buslað aðeins í sjónum og setið nánast í flæðamálinu fengum við okkur að borða. Þá fyrst keypti ég mér strandhandklæði og strandskó. Um kvöldið var farið út að borða í tilefni afmælis Óskars. Á mánudeginum vorum við í sólbaði við hótelið meira og minna allan daginn. Ég var dugleg að nota sundlaugina og fannst mjög gott að svamla um í henni. Næsta dag þar á eftir borgaði sig að taka sólbaðshlé. Skruppum til Murcia og röltum þar um á heitasta tímanum. Helstu söfnin voru auðvitað lokuð og við vorum með hugann við EM leikinn. Reyndar var sá leikur ekki sýndur í hótellobbýinu þegar til kom. Það var líka skroppið í verlsunarmoll. Ég var reyndar ekki mikið á þeim buxunum en fannst gaman að skreppa með. Þegar til kom keypti ég þó; sólgleraugu, handtösku, nokkur sokkapör og dásamlegan kjól ekki allt í sömu ferðinni þó. Kjólinn keypti ég síðasta daginn í C&A á Benidorm en ég hafði mátað hann nokkrum dögum áður.

17.6.16

Óvæntur ferðaspenningur

Í morgun ákvað ég að sleppa sundinu þótt það væri opið frá klukkan tíu í morgun í Laugardalnum. Ég var alveg komin á fætur og skutlaði unga vinnandi manninum á aukavakt á Shell-stöðina við Birkimel rétt fyrir tíu. Var mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um klukkustund síðar og hafði m.a. farið með slatta af glerflöskum og krukkum í þar til gerðan gám í millitíðinni. Við Inger vorum nokkuð duglegar í esperantolestrinum og erum nú að byrja að lesa Kontiki. Það á eftir að verða skemmtilegt ævintýri. Um hálfeitt hringdi sá sonurinn sem var heima. Hann vantaði að komast til eins vinar síns í Breiðholti og þar sem ég hafði óvart tekið með mér klinkbudduna ákváðum við Inger að við færum bara í göngutúr á því svæði. Náðum í Davíð Stein og skutluðum honum þangað sem hann vildi fara og lögðum svo bílnum rétt fyrir neðan Stekkjabakka og löbbuðum smá hring um Elliðaárdalinn. Svo skutlaði ég vinkonu minni aftur heim.

Ég var ekki búin að vera mjög lengi heima þegar dyrabjallan hringdi. Á tröppunum stóðu tveir spilafélagar bræðranna. Ég hleypti þeim inn með spiladótið en stuttu síðar fóru þeir og sóttu Davíð Stein svo hægt væri að byrja að spila. Ég sótti Odd um hálfátta og félagarnir fjórir eru enn að spila. Hljóta þó að verða að hætta bráðum þar sem Oddur á aukavakt aftur á Birkimelnum klukkan níu í fyrramálið. Annars var hringt í mig rétt fyrir klukkan átta og ég spurð að því hvort ég væri með gilt vegabréf. Svarið var já og þá fylgdi önnur spurning í kjölfarið sem ég þurfti að fá að melta aðeins áður en ég gaf svar við henni. Framundan er óvænt ferðalag... Meira um það, sennilega eftir rúma viku.

16.6.16

Ljúft að vera í sumarfríi

Alla fjóra virku morgnana í þessari viku hef ég mætt í sund strax klukkan hálfsjö. Oftast hef ég verið vöknuð á undan vekjaraklukkunni en í þetta eina skipti sem klukkan hringdi og vakti mig tíu mínútum fyrir sex var ég nokkuð brött og dugleg að koma mér af stað. Hluti af því sem togar mig í sundið á þessum tíma er "morgunfólkið mitt", t.d. Lene sú sem ég kynntist í kalda pottinum fyrir rúmu ári síðan. Í gær urðum við líka vinkonur á Facebook.

Ungi maðurinn sem er kominn með sumarvinnu átti vakt á mánudaginn, frí á þriðjudaginn og vakt í gær og í dag.  Allt eru þetta 12 tíma vaktir. Þegar hann kemur heim eftir vaktina í dag fær hann þriggja daga frí. Hinn ungi maðurinn hefur verið duglegur að hjálpa mér við ýmis viðvik hér heima, m.a. hefur hann séð um kvöldmatinn í tvö skipti og hann er búinn að taka að sér að sjá um matmálin í kvöld líka þar sem ég er að hugsa um að bregða mér á Valsvöllinn á heimaleik minna manna og FH. Sá leikur er reyndar ekki fyrr en klukkan átta en það vill til að sonurinn hefur gaman af að stússa í eldhúsinu svo ég fæ rýmri tíma til að sinna áhugamálunum mínum. Já, ég veit að ég er heppin og þakka fyrir það daglega.