5.12.20

Vaknaði heldur snemma

 Var ekki með broddana undir skónum þegar ég arkaði til vinnu í gærmorgun. Það var líka alveg óþarfi en ég hafði þá meðferðist til öryggis. Við samstarfskonurnar lögðum allt kapp á að ljúka framleiðslu, frágangi á deild þar með talið sótthreinsun á sameiginlegum snertiflötum og punktum fyrir þau sem taka við í næstu viku í fyrra fallinu. (Vá, þetta var frekar löng setning.) Gáfum okkur þó góðan tíma í kaffi og hádegispásum. Sú sem átti afmæli sl. mánudag bauð upp á súkkulaðiköku frá McCain í báðum pásunum. Ég freistaðist ekki til að smakka en féll fyrir after eight súkkulaðinu og fékk mér einn með kaffinu í pásunum. Klukkan var rétt byrjuð að ganga þrjú þegar við urðum allar þrjár samferða út af vinnustaðnum. Fékk far heim. Báðar hefðu þær viljað skutla mér en ég þáði farið með þeirri sem var á undan að spyrja. Hin var búin að kippa mér með hina þrjá dagana. Þessi vinnuvika leið mjög hratt. Fljótlega eftir að ég kom heim kom umslag merkt mér inn um lúguna. Í umslaginu var þriggja laga gríma með RB-logoinu (sem má þvo á 60°C) og hvetjandi skilaboð og þökkum fyrir að hafa staðið mig frábærlega í starfi síðustu mánuði. Já, takk kærlega!

4.12.20

Vinnudegi lokið í fyrra fallinu

Setti mannbroddana undir gönguskóna í gærmorgun og labbaði á þeim alla leið í vinnuna. Eiginlega var engin hálka eftir og þar sem voru smá svell var hægt að sveigja framhjá. Aftur á móti blés Kári sterklega á móti góðan part af leiðinni og var nokkuð sterkur á köflum þegar ég var að labba Skúlagötuna. Nýja úlpan mín er mjög góð í svona kuldabola og hraðferð á logni og ég komst í vinnu heilu og höldnu, 3 km á uþb 34 mínútum. Vinnudagurinn gekk vel fyrir sig og leið jafn hratt og undan farnir dagar og ég fékk enn og aftur far heim úr vinnunni upp úr klukkan fjögur. Heima tók ég því frekar rólega. Hringdi í pabba, vafraði um á netinu og setti inn tvöhundruðustuogfertugustu bloggfærslu ársins. Horfði á fréttir, Kiljuna og fleira í sjónvarpinu. Útbjó eggjaköku með afgöngum af soðnum fiski en það varð afgangur af þessum rétti þar sem hvorugur bræðranna fékk sér af honum. Það verða þá afgangar af afgöngum í matinn í kvöld. 

3.12.20

Líður á vikuna

Ég fann mannbroddana mína fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnunni á mánudaginn var. Setti þá samviskusamlega í bakpokann og labbaði í vinnuna án þess að setja þá undir. Það voru mun færri hálkublettir heldur en á mánudaginn en þó einhverjir. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt. Nóg af verkefnum en við tókum líka tvær góðar pásur, morgunkaffi um hálftíu og hádegishlé um hálfeitt fyrir utan að við byrjum oft vinnudaginn á því að setjast niður frammi í kaffi stofu rétt fyrir átta og leyfum stóra vísinum að fara aðeins framhjá 12. Sú sem var í bókhaldsvinnunni í gær er sú sem sér um mánaðamótareikningagerðina þegar mánaðamótin lenda á okkar hóp. Fyrir utan daglegur verkin sat hún iðin við að taka saman og finna til tölur og leita uppi svör við skrýtnum færslum. Við hin framleiddum til klukkan hálffjögur en þá tókum við saman og gengum frá. Ég fékk far heim úr vinnunni. Engin var heima því strákarnir voru báðir á vakt. Restin af deginum og kvöldið fór í alls konar, bæði netvafr, prjónaskap og sjónvarpsgláp. 

2.12.20

Á bíl í gær

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Eins og kom fram í pistli gærdagsins var ég í bókhaldinu í gær. Það að vera í bókhaldinu fyrsta virka dag mánaðarins er aðeins meiri vinni heldur en aðra daga. Ég var því aðeins lengur að ljúka við verkefnin. En rétt um tvö var ég búin með mitt hlutverk og þá leysti ég þá samstarfsstúlku mína af sem sér um mánaðamótareikningagerðina ef mánaðamót lenda á okkar hóp. Var á framleiðsluvélinni með hinni samstarfskonunni til klukkan var orðin rúmlega hálffjögur. Framleiddum 900 kort á þessum tíma. Það tekur smá tíma að ganga frá eftir daginn og klukkan var orðin fjögur þegar ég settist aftur upp í bíl.

Heyrði lýsingu á síðustu mínútum landsleiks kvennaliðsins í knattspyrnu sem fór 1:0 fyrir Íslandi og það var svo staðfest eftir aðra leiki að stelpurnar væru komnar beint á EM sem eitt af þremur bestu liðunum sem lentu í öðru sæti. Vel gert.

Fór með bílinn í gegnum bílaþvottastöðina Löður við Granda og fór þaðan alla leið að Atlantsolíustöðinni við Sprengisand og Bústaðaveg til að fylla á tankinn. Var komin heim um fimm og fékk stæði fyrir framan. 

1.12.20

Fullveldisdagurinn

Í gærmorgun labbaði ég af stað í vinnuna um sjö. Var á gönguskónum. Veðrið var mjög gott en færðin sumstaðar varhugaverð á leiðinni. Ég hefði eiginlega átt að setja mannbroddana undir. Ég var ekki búin að finna þá en sem betur fer komst ég alla leið í vinnuna á rúmum hálftíma án þess að detta. Skrikaði aðeins fótur tvisvar sinnum en hélt jafnvægi og passaði mig bara að taka stutt og hæg skref á stöðum þar sem ekki var búið að sanda eða salta og ekki hægt að fara út fyrir. Dágóður partur af leiðinni var auður þar sem hiti er undir svo ég var ekki í hægagangi alla leiðina.

Við í okkar hóp erum löngu komnar í rútínu sem rúllar áfram og við vitum alveg hvernig verkefni dagana skiptast þrátt fyrir viku pásur á milli. Ég endaði í "ljósmóður"-störfum á vélinni síðast þegar við vorum að vinna, í gær var ég á hinum enda framleiðsluvélarinnar að hlaða inn verkefnum og troða í og í dag var ég í bókhaldinu. Vorum að framleiða til klukkan að verða fjögur í gær. Lentum í smá veseni fyrsta klukkutímann, vélin vildi alls ekki framleiða nokkrar ákveðnar tegundir og það var ekkert sem við gátum gert í því nema hringja í "vin". Sá kannaðist við að það hafi verið að breyta e-u sl. föstudag. Hann kom fljótlega og náði að laga málin þannig að hægt var að framleiða allar tegundir. Yfirleitt höfum við tímann til klukkan tíu til að ljúka fyrsta verkefni dagsins og við náðum akkúrat að klára klukkan tíu í gærmorgun. Sá sem sækir viðkomandi tösku hafði hins vegar mætt klukkan hálftíu, kom fýluferð því við vorum nokkuð vissar um að klára innan tímamarka og töldum okkur ekki þurfa að tilkynna um hugsanlega seinkun.

Tókum kaffipásu í seinna lagi eða upp úr klukkan tíu og var veisla borin á borð þar sem önnur samstarfkvenna minna átti afmæli. Það var svo framhaldsveisla í hádeginu, um hálfeitt. Fleiri pásur tókum við ekki en eins og fyrr segir hættum við ekki framleiðslu fyrr en rétt fyrir fjögur. Það er nóg af framleiðsluverkefnum í gangi.

Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim um hálffimm. Þá var ég búin að ákveða að sleppa sjósundsferð en þrjár úr hópnum mínum hittust í Nauthólsvík um fimm og var sjórinn innan við gráðu heitur.