22.5.17

Smá lottovinningur á áskriftarmiða

Dagarnir þjóta hjá og tíminn lætur ekkert bíða eftir sér frekar en venjulega. Á föstudaginn fór ég úr vinnunni um hálfþrjú og fór beint í Kópavogskirkju til að fylgja einni náfrænku minni. Hafði ætlað mér að mæta aftur í vinnuna um fjögur og sitja yfir mönnunum sem koma og yfirfara framleiðsluvélina mánaðarlega. Hringdi í þá sem var á vaktinni og hún sagðist geta verið til klukkan sex svo ég hafði samband við norsku esperanto vinkonu mína í staðinn. Stoppaði hjá Inger í um klukkustund áður en ég fór í Krónuna við Granda til að versla inn.

Á Laugardagsmorguninn mætti ég í sund upp úr klukkan níu. Eftir sundið kom ég aðeins við í Hagkaup í Skeifunni til að athuga hvort það væru til fleiri dokkur með sama númeri í þessum fjórum litum sem ég keypti inn um daginn. Það var til og þar að auki keypti ég fimm dokkur í enn einum litnum. Þegar ég kom heim lauk ég við að taka mig til fyrir austurferð, vakti annan soninn bara til að kveðja hann. Við mamma höfðum mælt okkur mót við Selfosskirkju fyrir klukkan hálftvö til að fara saman á Queen-messu með kirkjukór Keflavíkurkirkju og Jónsa. Það var frábær klukkustund. Jóna og Reynir voru ekki heimavið og mamma fann ekki útiarinn í Húsasmiðjunni en okkur var tekið opnum örmum í Fossheiðinni. Lauk við að prjóna bleika sjalið um kvöldið, gekk frá endunum og byrjaði strax á næsta lit.

Svaf til klukkan að ganga tíu í gærmorgun þrátt fyrir að hafa farið að sofa fyrir miðnætti. Það var ekki alveg jafn mikil bongóblíða og á laugardeginum en þó var hægt að sitja úti á palli með prjónana það lengi að ég náði að roðna aðeins. Kom heim rétt upp úr klukkan tíu í gærkvöldi og fór næstum því beint í háttinn.

18.5.17

Torfi Geirmundsson kvaddur

Í gær labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Fékk Odd í lið með mér við ákveðin verk hér heima og sendi hann einnig eina ferð í Sorpu. Eftir kvöldmat fór ég loksins í sund og gaf mér góðan tíma í alla rútínu. Á tólfta tímanum komu systir mín og eldri dóttir hennar til mín. Hinn helmingurinn af fjölskyldunni og minni hundurinn gistu annars staðar í bænum og stærri hundurinn var í pössun fyrir norðan. Við systur þurftum að spjalla smá áður en við tókum á okkur náðir einhvern tímann eftir miðnætti.

Ég fór á bílnum í vinnuna í morgun og vann milli hálfátta og hálftólf. Þá fór ég heim, fékk mér smá hressingu og skipti um föt. Oddur klæddi sig líka upp og fékk að keyra okkur upp að Árbæjarkirkju. Þar var saman komið fjölmenni til að fylgja tengdapabba systur minnar. Enginn prestur var í athöfninni heldur voru uppáhalds lögin hans spiluð og minningarorð voru í höndum Rúnars bróður hans sem og Mikaels og Lilju, tveimur af fimm börnum Torfa heitins. Allt í hans anda. Blessuð sé minning um litríkan og góðan mann.

16.5.17

Jafntefli

Helgin leið afar hratt. Á föstudagskvöldið fór ég út að borða með 9 vinnufélögum úr K1 á Matstofu Garðabæjar. Það var mjög góð kvöldstund, gott að borða, góð þjónusta og skemmtilegur félagsskapur. Var mætt í sund rétt upp úr átta á laugardagsmorguninn og í klippingu klukkan tíu. Fór síðan heim, gekk frá sunddótinu og tók esperantodótið með mér til Inger. Þar stoppaði ég í einn og hálfan tíma. Fór beint heim aftur og lauk við að pakka niður fyrir austurferð. Kom við í Fossheiðinni á leiðinni austur. Þegar ég kom svo til foreldra minna frétti ég að Torfi Geirmundsson, tengdapabbi systur minnar, væri fallin frá. Blessuð sé minning hans.

Mamma bað mig um að skreppa í búðina eftir rófu og smá söngvakeppnis snakki. Sauð rófuna og útbjó rófustöppu sem var höfð með sviðum í kvöldmatinn. Báðir foreldrar mínir entust fyrir framan skjáinn yfir söngvakeppninni. Ég var með prjónana og prjónaði helling. Við mamma sátum áfram eftir að keppninni lauk og horfðum á bíómyndina sem kom á eftir alveg þar til slökknaði á sjónvarpinu um miðnætti. Þá var amk hálftími eftir af myndinni en þar sem ekki var hægt að ná sambandi aftur við skjáinn fórum við að sofa.

Á sunnudeginum mundi ég eftir því að  pabba og mömmu hafði verið boðið í fermingarveislu. Hjálpaði mömmu að þvo sér um hárið. Þau kvöddu um þrjú en þá var ég komin á fullt að ryksuga bílinn og strjúka allt ryk af innan úr honum. Svo skrapp ég gangandi til föðursystur minnar upp að Helluvaði.

Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn en ég var skilaði mér heim í bæinn um tíu.

12.5.17

Á leiðinni út að borða með nokkrum vinnufélögum

Það var loksins haldinn saumaklúbbur í fiskamerkisfélaginu "þrír þorskar..." hér hjá mér á miðvikudagskvöldið. Það var 100% mæting, fyrri gesturinn mætti rétt fyrir átta og hinn ca hálftíma síðar. Og svo var klukkan allt í einu að verða ellefu. Mikið sem tíminn leið hratt, enda orðið það langur tími frá síðasta hittingi að það þurfti margt að spjalla. Nálar og prjónar fengu samt að vera með í klúbbnum.

Í gær var eini dagurinn í vikunni sem ég hafði aðgang að strætókortinu. Var mætt í vinnuna korter fyrir átta og var komin heim aftur um þrjú. Hafði kvöldmatinn frekar snemma og skrapp svo í sund milli klukkan hálfsjö og hálftíu, þ.e. ég fór að heiman um hálfsjö og var komin aftur heim um hálftíu. Fór í sarpinn og horfði með öðru auganu á Cikaco fire með öðru auganu en prjónaði með hinu.

10.5.17

Saumaklúbbur nýafstaðinn hjá mér í kvöld

Á mánudaginn labbaði ég báðar leiðir milli heimilis og vinnu. Kom heim upp úr klukkan fjögur. Var eiginlega búin að taka ákvörðun um að láta loksins verða af því að prófa að skreppa í sjóinn. Vissi að það opnaði í afgreiðslunni á Ylströndinni við Nauthólsvík um fimm og yrði opið til klukkan átta. Klukkan var orðin hálfsex þegar ég fór með  handklæði, sundbol, strandskó og 600 kr. út í bíl. Þegar ég hafði lagt bílnum sá ég tvær konur sem ég reiknaði út að væru vanar og á leið í sjósund. Þær voru aðeins á undan mér. Í afgreiðslunni skrifaði ég mig í gestabók, borgaði gjaldið og fékk ágætis leiðbeiningar hjá þeirri sem afgreiddi mig. Í skiptiklefanum ákvað ég að bera mig upp við konurnar tvær og önnur þeirra var meira en til í að leyfa mér að hengja mig á sig. Hún lánaði mér meira að segja sundvettling á aðra höndina og sá til þess að ég fengi lánaðan vettling á hina höndina í afgreiðslunni. Dýfingin í sjóinn gekk annars glimrandi vel. Var alls ekki lengi útí, synti ekkert og ekki með höfuðið á kaf, en þó alla leið upp að hálsi. Vá, hvað þetta var annars gott og hressandi. Það mætti segja mér að ég verði farin að stunda þetta sport á fullu á næstu misserum.

Í gærmorgun skrapp ég í sund áður en ég fór í vinnuna. Vinnudagurinn var nokkuð skrautlegur en við náðum að klára allt nokkru áður en átta tímarnir voru liðnir. Annars er ég iðin við prjónana og gef mér einnig tíma til að lesa á hverjum degi.