16.7.19

Þrír virkir vinnudagar eftir fram að sumarfríi

Á sunnudagskvöldið, smurðum við systur slatta af flatkökum með hangiketi og rúlluðum upp uþb 40 pönnukökum. Í gærmorgun vorum við pabbi langfyrst á fætur, nokkru fyrir klukkan sex, og höfðum meira að segja tíma til að leggja nokkra kapla áður en við fórum í sund. Fór fjórum sinnum í kalda karið, synti í tuttugu mínútur, þar af 25m skriðsund og aðra 25m baksund. Ég fór í heitan pott og gufu en ég fór ekki í rennibrautirnar með pabba, heldur horfði á hann nánast hlaupa upp tröppurnar 33 í tvígang því hann fer eina ferð í hvora rennibraut. Fengum okkur kaffi á staðnum á eftir. Vorum komin í Hólavanginn upp úr klukkan hálfníu. Fljótlega hrærði ég í eina pönnsuposjón og var nýbúin að ljúka við að steikja úr hrærunni þegar Helga systir kom fram. Við kældum kökurnar aðeins áður en við drifum í að setja sultu og rjóma og raða þeim upp.

Jóna Mæja og Reynir komu um eitt og voru með eplatertu og auka rjómasprautu með sér. Pabbi stillti duftkerinu, sem og mynd af mömmu og kertinu sem voru á gestabóksborðinu í útförinni, upp á stofuskáp. Upp úr tvö fórum við að raða upp bollum og diskum en klukkan var langt genginn í þrjú áður en fleira fólk mætti.Byrjað var að drekka kaffið upp úr þrjú. Allt í allt urðum við 19. Allir voru komnir um fjögur. Við vorum öll komin á Keldur um fimm. Pabbi, Reynir og Hjörtur (maður Önnu Báru frænku minnar) hjálpuðust að við að taka smá torfu af leiðinu hennar "litlu Önnu" og bora meters holu. Moldinni var safnað í hjólbörur. Við pabbi hjálpuðumst að við að láta duftkerið síga rétt niður í holuna og Helga systir tók helling af myndum á vélina hans pabba. Þessi gjörningur tók vel innan við klukkustund og á eftir fóru allir og fengu sér meira kaffi og með því á Hellu. Allt hafði gengið mjög vel og allir sáttir.

14.7.19

Á Hellu

Systir mín og mágur byrjuðu í sumarfríi upp úr hádegi sl. föstudag og lögðu fljótlega af stað með yngri dóttur sína og tvo hunda suður og eiginlega alla leið austur á Hellu í næstum einni lotu. Eldri dóttirin og kærastinn hennar voru nýlega komin úr reisu frá London og ætla ekki að taka sér meira frí í bili.  Ég var búin að hugsa minn gang, ákveða og segja mörgum frá áætlunum mínum um að vera í bænum um helgina en drífa mig og strákana með mér austur upp úr hádegi n.k. mánudag, 15. júlí. Mér fannst þetta plan alveg ágætt en bæði Helga systir og pabbi vildu fá mig fyrr austur því þegar ég hringdi í pabba um miðjan dag í gær fékk ég m.a. að tala við Helgu og hún spurði afhverju ég væri ekki komin austur. Endirinn varð sá að þau skutust í bæinn, hún og pabbi, á nýja bílnum hans og sóttu mig. Þar með geta strákarnir komið austur á mínum bíl á morgun.

Vorum komin austur upp úr klukkan hálfátta í gærkvöldi. Kvöldið fór í kapallagnir, grín og glens. Í morgun útbjó ég tvær kaldar brauðtertur og upp úr hádeginu hrærði ég í 3 pönnsu-posjónir, eina í einu. Bauð upp á einn skammtinn í kaffitímanum en hina tvo ætlum við að rúlla upp og/eða setja smá sultu og rjóma í fyrramálið.

Sonurinn sem fór á Eistnaflugshátíðina á Neskaupsstað var að hringja rétt áðan frá Akureyri. Samferðalangarnir fóru austurleiðina austur sl. miðvikudag en eru greinilega að koma norðurleiðina til baka í dag.

12.7.19

Óstuð í skrifum

Júlí nálgast það að vera hálfnaður. Ég á eftir að vinna í fjóra virka daga í næstu viku og þá er ég komin í fjögurra og hálfs vikna sumarfrí. Framundan er löng helgi. Annar tvíburinn fór á hina árlegu Eistnaflugshátíð á Neskaupsstað með vinum sínum sl. þriðjudag og kemur ekki heim aftur fyrr en á sunnudaginn. Hinn tvíburinn er að vinna í dag (og í gær) og um helgina.

Ég er loksins búin að lesa síðustu jólabókina; Brúðan eftir Yrsu Sigurðardóttur sem ég fékk frá Helgu systur og fjölskyldu. Lauk við hana rétt upp úr síðustu helgi. Ég fór á bókasafnið þann 2. júlí og skilaði öllum bókum sem ég var með. Kom með fjórar ólíkar bækur heim, engin af þeim með skammtíma lán þannig að ég má hafa þessar alveg til og með 1. ágúst. Er þó þegar búin með eina bók; Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra eftir Halldór Laxness Halldórsson, og langt komin með aðra: Óvelkomni maðurinn eftir Jónínu Leósdóttur.

Síðan síðasta strætókort rann úr gildi þann 2. apríl sl. hef ég aðeins tvisvar sinnum farið á bílnum í vinnunna alla hina dagana, nema nokkra sem ég fór ekki í vinnu vegna lasleika og sálfræðivitala, hef ég labbað báðar leiðir. Hef alltaf haft kling á mér til að geta "hoppað" upp í strætó ef ég þyrfti. Var einu sinni nýlega að hugsa um að nota þetta klink en fann það ekki í bakpokanum fyrr en daginn eftir. Það var allan tíman í dós undan hafkalki í bakpokanum en ég hef greinilega ekkert átt að vera að nota strætó. Enda er ég stundum alveg jafn lengi að labba heim eins og að taka strætó upp úr klukkan hálffjögur/fjögur. Síminn er búinn að hanga á mér síðan klukkan sjö í morgun og skv. SAMSUNG Healt forritinu er ég búin að ganga rétt rúmlega 13600 skref í dag.

27.6.19

Bókaormur

Fór síðast á bókasafnið rétt fyrir miðjan júní og skilaði af mér 5 bókum þar af tveimur sem átti að skila í síðasta lagi þann 18. Var með tvær bækur eftir heima sem skila á 4. júlí n.k, Sonurinn eftir Jo Nesbö og Eftirbátur eftir Rúnar Helga Vignisson. Tók aðeins 3 bækur, þar af eina stutta ljóðabók, allar með 30 daga skilafresti. Mæli mjög með bókinni Líkblómið eftir Anne Mette Hancock. Aðeins ein bók af safninu er ólesin en ég er byrjuð á henni og líst vel á þá sögu; Svartalogn eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Stefni að því að vera búin með þá bók fyrir fjórða júlí og skila þá af mér öllum bókasafnsbókunum.

26.6.19

Þyrfti helst að setja upp e-s konar blogg-rútínu

Það getur verið gott að taka sér pásur og það er sérstaklega gott að vinna markvisst að því að halda sig meira frá tölvunni. En það er líka frekar erfitt að skrá niður það sem gerist hjá mér og í kringum mig ef það eru margar vikur á milli færslna. Ætti að geta komið með einhver stikkorð/setningar um það helsta en akkúrat núna er ég með takmarkaðan tíma til að festa þetta niður. Ég get þó sagt að ég hafi ekki slegið slöku við lesturinn eða tuskuprjónaskapinn, er "útskrifuð" frá sálfræðingun eftir 4 góða samtalstíma (má þó alltaf hafa samband ef ég tel mig þurfa þess). Pabbi er búinn að sækja duftkerið sem ákveðið hefur verið að setja niður hjá "litlu Önnu" daginn sem mamma hefði orðið 75 ára og þá verður akkúrat vika þar til aðal sumarfríið mitt byrjar. Pabbi er kominn á nýjan bíl og búinn að selja þann gamla. Systir mín, mágur, hundarnir og yngri systurdóttir mín komu suður helgina fyrir 17. júní. Áttum góða helgi saman á Hellu þar sem við skruppum m.a. upp að Heiði. Þetta var svona það allra helsta. Vona að það verði ekki margar vikur þar til næst, en kannski einhverjir dagar. Sjáum til með það, ætla ekkert að lofa neinu.