Líkt og nokkra undanfarna morgna var ég vöknuð eldsnemma í gærmorgun. Ákvað samt að sleppa því að mæta í sund og var að bræða það með mér hvort ég ætti að labba í og úr osteostrong tíma. Ákvað samt að sleppa því líka, þ.e. er labbinu ekki tímanum. Var mætt tuttugu mínútur yfir átta og komst strax að. Var nálægt mínu besta á þremur tækjum og sló met á einu. Var komin heim aftur um níu. Fljótlega útbjó ég mér hafragraut. Um hálfellefu rölti ég af stað með harðfisk, vatnsflösku, lopapeysu og smávegis fleira í bakpoka. Hafði nægan tíma. Stoppaði aðeins hjá sölubásnum hennar Lilju og síminn skráði þar á mig hálftíma göngu. Rétt fyrir hálftólf var ég svo komin niður á gömlu höfnina og keypti mér ferð út í Viðey. Var á undan Inger og Helgu en báturinn fór heldur ekki fyrr en tíu mínútur fyrir tólf. Við þrjár príluðum upp á stýrishús, settumst þar á bekk sem snéri að stefninu. Báturinn kom við á Skarfabakka og sótti fólk þar og svo vorum við komin út í Viðey tuttugu mínútur yfir tólf. Stöldruðum stuttlega við í Viðeyjarstofu þar sem tvær af okkur nýttu salernisaðstöðuna. Svo löbbuðum við austur eftir eynni, með nokkrum smá stoppum t.d. í og við skólahúsið, og alveg að húsi Viðeyjarfélagsins þar sem við settumst niður á bekk og fengum okkur smá nesti. Þegar við komum til baka í Viðeyjarstofu vorum við ákveðnar að skilja eitthvað eftir okkur í eynni. Hinar tvær fengu sér súkkulaði-kókoskúlu og önnur kaffi með. Ég er enn í pásu frá kaffinu og það breyttist ekkert í gær. Aftur á móti leyfði ég mér eitt hvítvínsglas, en vín hef ég ekki drukkið síðan seinni partinn í maí í fyrra. Kaffi hef ég reyndar ekki drukkið síðan 14. október í hittifyrra. Það snarsveif auðvitað á mig af víninu og ég varð ennþá málglaðari en oftast. Við röltum svo vestur eftir eynni, upp á einn hól, niður aftur og að tveimur af 18 súlum sem eru þar. Ákváðum að í næstu ferð skyldum við byrja á að fara þessa leið og fara allan hringinn og skoða allar súlur. Hér áður fyrr var mikið um kríur á þessu svæði en þær hafa varla sést í eynni sl. ár. Við komum svo í Viðeyjarstofu aftur rétt fyrir fimm, nýttum okkur salernisaðstöðuna og ég keypti mér bláan kristal. Tókum svo næstsíðasta bátinn til baka um hálfsex en það er ein af þremur ferðum yfir daginn sem fer alla leið að gömlu höfninni. Flestu ferðirnar á sumartímanum eru frá Skarfabakka á klukkutíma fresti frá kl. 10:15 og síðasta ferðin úr eynni klukkan hálfsjö. Vorum komnar í land skömmu fyrir klukkan sex og ég labbaði heim líka. Settist í smá stund á bekk á Klambratúninu og þá var ég búin að ganga tæpa 3km á 38mínútum. Heildarskrefafjöldi gærdagsins fór líka yfir tuttuguogtvöþúsund skref. Það skal tekið fram að ég þurfti aldrei á lopapeysunni að halda. Var mestan tíman á stuttermabolnum.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
15.7.25
14.7.25
Ný vika
Ég var komin á braut 7 í Laugardalslauginni tuttugu mínútur yfir átta. Synti 600m á tæpum hálftíma. Var komin heim aftur á ellefta tímanum. Dagurinn var semi vel nýttur í alls konar sýsl. Á sjötta tímanum ákvað ég að bjóða strákunum út að borða. Það styttist í afmælið þeirra og það er ekki víst að þeir verði báðir á sama stað um það leyti. Fórum á bílnum hans Davíðs Steins. Vorum ekki alveg búin á ákveða hvert þegar við lögðum af stað en enduðum svo á Saffran í Faxafeni.
13.7.25
Samverustundir með systurdóttur
12.7.25
Helgi
Var komin á stjá fyrir klukkan sex í gærmorgun. Í gær var sjósundsdagur og ég var mætt í Nauthólsvík rétt upp úr klukkan tíu. Sjórinn mældist 13°C, það var að fjara út og ég svamlaði og skokkaði út að kaðli á rúmum tíu mínútum. Ég fór aftur í sjóinn eftir 10 mínútur í gufunni og sat svo smá stund í pottinum áður en ég fór upp úr. Þá var klukkan rétt að verða ellefu. Fór beint heim og ekki aftur út fyrr en um þrjú. En þá skrapp ég út í göngu, réttsælis í kringum Öskjuhlíðina með tveimur stoppum. Eftir seinna stoppið sem var þegar ég settist á bekk í Eskihlíðinni. Þaðan var svo stutt heim að það skráðist ekki nein ganga. En það skráðust niður 2,2km og 3,2km.
11.7.25
Hittingur
Ég var komin á fætur fyrir klukkan sex í gærmorgun en mætti samt ekki í Laugardalslaug fyrr en upp úr klukkan hálfátta. Synti 700m á braut 7, langflesta á bakinu. Þegar ég syndi á bakinu þýðir það að ég þvæ mér um hárið. Þetta gerist svona ca einu sinni í viku. Úr sundi brunaði ég upp á N1 við Gagnveg. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum og var svo að spjalla við N1 soninn og vinnufélaga hans sem átti 25 ára afmæli í gær. Mér skilst að Davíð Steinn hafi bæði sungið fyrir hann og fært honum afmælisköku. Það teygðist aðeins úr spjallinu og klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar ég kvaddi og hélt heim á leið. Heima var ég að dunda mér við ýmislegt þar til fyrrum samstarfskona hafði samband og bað mig um að bruna til sín í fjögurra konu hitting. Við fjórar vorum þær sem komu að kortagerðarvinnu þar til henni var hætt í desember á sl. ári. Það var virkilega gott og gaman að hittast. Spjallað um alla heima og geyma og tíminn flaug hratt hjá. Þegar ég kom heim aftur hélt ég sýslinu áfram þar til leikurinn Ísland - Noregur 3:4 á EM kvenna hófst. Ég kláraði líka þriðju bókina af fjórum sem ég sótti síðast á safnið. Aðal skúrkurinn náðist ekki en gat komið því þannig fyrir að annar var handtekinn í hans stað. Það hlýtur að þýða að það eru fleiri bækur um þessar sögur persónur.