16.1.17

Helgin var ekki lengi að líða

Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að skreppa í sund á laugardagsmorguninn. Þegar heim kom kveikti ég örstutt á tölvunni til að skoða vefmyndavélar á sandskeiðinu og  alveg fram að kambabrún. Mér sýndist þetta vera í þokkalegu lagi með veður og færð og ákvað að drífa mig af stað sem fyrst. Ferðalagið gekk vel en þegar ég var komin á Selfoss var hlandblaðran farin í kvarta svo ég ákvað að banka upp á hjá "tvíburahálfforeldrum" mínum. Þar var mér tekið opnum örmum eins og alltaf þrátt fyrir að hafa ekki gert nein sérstök boð á undan mér. Mundi eftir því að ég hafði ætlað að láta pabba vita þegar ég legði í hann og hringdi í hann til að segja honum að ég væri lögð af stað og að ég hefði gert smá stopp á leiðinni.

Kom á Hellu áður en HM-hanboltalandsleikurinn hófst og horfðum við feðginin bæði á leikinn. Ég efast um að pabbi hefði kveikt á sjónvarpinu ef ég hefði ekki verið. Ég var ákveðin í að gista og var með ýmsa afþreygingu með mér, bækur, handavinnu, sudoku og krossgátur. Einnig tók ég með mér hvítvínskassann sem ég á enn síðan ég kom heim frá Spáni sl. sumar. Það er ekki svo langt síðan ég "opnaði" kassann og mér gengur hægt með innihaldið þrátt fyrir smá hjálp stöku sinnum. Pabbi var með siginn fisk í kvöldmatinn ég fékk mér eitt glas með matnum. Vel að merkja, það er frekar langt síðan ég borðaði siginn fisk síðast því ég er ekki dugleg að hafa svoleiðis í matinn þótt mér finnist hann góður.

Í gærmorgun, stuttu fyrir hádegi, skrapp ég labbandi í heimsókn til föðursystur minnar. Allur snjór og hálka hafði vikið fyrir  rigningunni. Smá hraðferð var á logninu en þetta er ekki það langt að þetta var bara hressandi að labba þenna spöl. Þegar ég kom til baka gekk ég loksins frá endunum á sjalinu sem ég fitjaði upp á sl. haust og á nú bara eftir að skola úr því. Horfði einnig á leikinn sem var í gær og eftir kaffið bað mamma mig um að hjálpa sér við að þvo á sér hárið. Að því loknu vildi hún horfa með mér á myndina sem ég gaf þeim í jólagjöf "Maður sem heitir Ove".  Pabbi horfði með okkur allan tímann. Var annars dugleg að lesa og ráða gátur en ég tók ekki fram saumana mína. Það er ekki hægt að gera alveg allt en það er orðið óþægilega langt síðan ég greip í útsaumsnál síðast og það er ekki við nálina en óunnu verkefnin að sakast. Borðuðum reykt folaldakjöt áður en kvöldfréttir byrjuðu og ég kvaddi foreldra mína áður en klukkan var búin að slá sjö. Kom við á Atlantsolíustöðinni í Öskjuhlíð en var komin inn hér heima ca.korter gengin í níu. Hlammaði mér fyrir framan imbann og sat þar og glápti alltof lengi.

13.1.17

Mjög stutt í helgina

Var mætt í Laugardalinn fljótlega eftir að laugin opnaði í gær. Kaldi potturinn var því miður lokaður og alveg galtómur en ég synti 500 metra, svamlaði um í sjópottinum í dágóða stunda á eftir, skrapp aðeins í gufuna og settist í örstutt "sólbað" á eftir áður en ég fór upp út og heim aftur. Heima hellti ég mér upp á smá kaffi. Útbjó viðburð v/næstu messu í óháðu kirkjunni til að auglýsa Blússveit Þollýjar sem mun sjá um tónlistina í tregatrúartónlistarmessunni annan sunnudag.

Tók strætó í vinnuna og var mætt rétt fyrir tólf. Nóg var að gera eins og alltaf enda leið dagurinn frekar fljótt. Mótvaktin mín bauð mér far með sér upp að Hallgrímskirkju en við vorum  sjö að hittast á veitingastaðnum ROK og fá okkur að borða saman. Mæli með þessum stað, vinalegur, spennandi smáréttir og góð þjónusta.

Móðir eins af Kúbuförunum var búin að frétta af strákunum og lét mig vita. Það voru bara góðar fréttir að sjálfsögðu. Við treystum þessu ungu mönnum fullkomlega en það er samt gott að fá fréttir við og við.

12.1.17

Fimmtudagur

Vinnutíminn í gær var frá 6-13 svo ég fór á lánsbílnum. Þessar sjö klukkustundir liðu ógnarhratt enda nóg að gera. Þegar ég kom heim var pabbi nýbúinn að heyra í mömmu en hún hafði verið kölluð inn um hálfátta, þ.e. hringt í hana þá, og var fyrst á aðgerðalistanum. Aðgerðin tók þrjá tíma og mamma lét pabba vita upp úr hádeginu að hún þyrfti að jafna sig í nokkrar klukkustundir. Klukkan var orðin hálffjögur þegar hún hringdi aftur.

Fljótlega eftir að pabbi kvaddi hringdi ein úr safnaðarstjórninni og bauð mér far á fyrsta fundinn á árinu sem var haldinn heima hjá formanninum. Ég þáði farið með þökkum og við vorum mættar á slaginu fimm. Nóg efni var á fundardagskránni og þar að auki bauð formaðurinn okkur í mat þannig að klukkan var langt gengin í níu þegar ég kom heim aftur.

11.1.17

Var á "skiptivakt" í dag

Það klikkaði ekkert í gær, var komin á fætur um sex og mætti í laugardalslaugina upp úr klukkan hálfsjö. Sinnti rútínunni nokkuð vel. Hitti loksins eina pottormsvinkonu mína, ekki þó kaldapottsvinkonu, en hún hafði verið með kvef og ekki geta mætt í nokkra daga. Á heimleiðinni kom ég við í Hagkaup í Skeifunni til að grípa eitthvað með mér til að halda upp á 17 ára starfsafmæli í kortadeild RB. Hitti einn einn frænda minn í þeirri búðarferð. Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi pabbi og spurði hvar ég væri. Þau mamma voru komin í bæinn og hún kominn inn á spítalann í Fossvogi til að fara í aðra aðgerð á úlnliðnum. Aðgerðin sú var sett seinna um daginn.

Ég tók strætó korter fyrir tólf og á Hlemmi kom norska esperanto vinkona mín inn í vagninn og hún sat hjá mér þar til ég fór úr við Hörpuna. Þegar ég kom í vinnuna mátti ég byrja á að undirbúa "afmælisveisluna" og vinnufélagar mínir af deildinni settust niður með mér um hálfeitt.

Kom fyrr heim úr vinnu heldur en kvöldið áður enda hafði ég passað upp á að hætta á réttum tíma. Pabbi sagði að aðgerðinni á mömmu hefði seinkað. Hafði bleikju í matinn eftir kvöldfréttir og pabbi hafði á orði að hann ætlaði ekki að hringja og athuga með mömmu fyrr en um níu. Mamma var búin að hringja á undan í pabba og biðja hann um að sækja sig. Fresta þurfti aðgerðinni til morguns vegna stórra óhappa. Mamma fékk því að lúra í rúminu hans Davíðs Steins í nótt.

10.1.17

Engin sundferð í gær

Hafði stillt vekjaraklukkuna á 02:15 í fyrrinótt til að geta skutlað tveimur af þremur Kúbuförum á BSÍ. Ég vaknaði reyndar af sjálfsdáðum um tvö og dreif mig á fætur þótt ég ætlaði ekkert að fá mér og við þyrftum ekki að leggja í hann fyrr en upp úr hálfþrjú. Davíð Steinn var kominn á stjá og góðum tuttugu mínútum síðar kom vinurinn, en hann býr e-s staðar í Hamrahlíðinni. Þeir félagar höfðu pakkað ferðafötum og dótií eina tösku á laugardagskvöldið og hún var hér. Tuttugu mínútum fyrir þrjú lagði ég fyrir utan BSÍ, drap á lánsbílnum og labbaði inn með strákunum til þess að geta faðmað þá bless og beðið þá um að passa vel upp á hvern annan og meinti þá alla þrjá en þriðji Kúbufarinn var þegar kominn til Þýskalands þangað sem fyrra flugstopp hinna tveggja var. Flugið til Kúbu var svo í nótt sem leið.

Var komin heim aftur rétt fyrir þrjú og fór ég beint í rúmið aftur. Það tók mig rúma klukkustund að ná mér niður þannig að þegar klukkan hringdi um sex ákvað ég að slökkva á vekjaranum og snúa mér á hina hliðina, sleppa sundferð semsagt. Var mætt í vinnu rétt fyrir tólf og við tóku rétt rúmlega sex annasamir en afar árangursríkir framleiðsluklukkutímar. Þegar við mótvaktin mín vorum búnar að ganga frá deildinni eins og við viljum koma að henni að morgni ákvað ég að vera um klukkustund lengur til að halda áfram hinum árlegu talningum sem var farið að sjást fyrir endann á. Náði þó ekki að klára.

Rétt missti af 13 sem var byrjaður að ganga á hálftíma fresti, þ.e. ég var u.þ.b. tíu mínútum of sein eða tuttugu mínútum of fljót. Ákvað því að fá mér göngutúr hluta af heimleiðinni og bíða eftir næsta vagni á Hlemmi. Var komin heim rétt fyrir átta. Við Oddur Smári fengum okkur afganga í matinn og svo horfði ég á Svikamillu frá sunnudagskvöldinu og Miðnætursól. Las nokkra kafla í "Mei me beibísitt" áður en ég dreif mig í háttinn því ég ætlaði að ná amk 7 tíma svefni en vera mætt í Laugardalinn upp úr hálfsjö í morgun.