12.5.21

Frídagur framundan

Ég var komin á fætur á svipuðum tíma í gærmorgun og á mánudagsmorguninn. Labbaði af stað í vinnuna um sjö eftir að hafa vafrað um á netinu í næstum hálftíma. Fram að kaffi var ég á framleiðsluvélinni að hlaða inn skrám og setja kortin af stað. Eftir kaffi flokkaði ég kennispjöld og einnig eftir hádegi. Við fórum tvær með 16 flokkaða kassa inn í geymslu og komum með 15 óflokkaða til baka. Áður en við hættum vinnu vorum við búnar að flokka úr næstum sjö af þessum fimmtán kössum. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim rétt upp úr þrjú. Oddur Smári var á leiðinni út í Sorpuferð. Rétt síðar hringdi vinkona mín sem er með sölubás á Lækjargötu og spurði hvort ég væri í vinnunni. Ég sagðist vera nýkomin heim og Oddur á bílnum. Hjólinu hennar var stolið, klippt á lásinn eiginlega fyrir framan nefið á henni og farangurinn var of mikill fyrir eina manneskju að bera heim þótt í sjálfu sér sé ekki svo langt þangað sem hún býr en það er allt upp í móti. Ég sagðist geta komið um fjögur og skutlaði henni heim með dótið. Það stóðst og var ég svo heppin að hún var búin að ganga frá dótinum og stóð rétt við rútustæði við Lækjargötu. Ég lagði í stæðið rétt á meðan hún var að setja vörurnar í skottið og koma sér inn í bílinn.

Eftir þennan björgunarleiðangur kom ég við í fiskbúð Fúsa og keypti ýsu, lax og harðfisk. Síðan dreif ég mig í sund. Sleppti því reyndar að synda en fór nokkrar ferðir í þann kalda og yfirleitt 4 mínútur í hvert sinn. Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég var að fara heim. Skrapp aðeins í Krambúðina eftir að ég var búin að leggja í stæði fyrir framan hér heima. Var með ýsu í soðið með kartöflum og hrasallati og fékk ég mér smá smjör út á réttinn.

Horfði á seinni riðil Skólahreysti dagsins og sá íslandsmet sett í hreystigreip, og það ekkert smá met. Búið að standa í 12 mínútur og 40 sekúndur í fimm ár og það var bætt um rúmar tvær mínútur. 

11.5.21

Sólskin og þurrkur

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Notaði tímann áður en ég þurfti að labba af stað í vinnuna til að vafra um á netinu og setja inn færslu í bloggheima. Var komin í vinnuna um hálfátta, mætti númer tvö af okkur öllum fimm. Fyrirliðinn var mætt á undan og við náðum í bankatösku og tókum þrjá framleiðsluvagna af fjórum út úr lagergeymslunni í leiðinni. Fórum svo fram, fylltum á vatnsflöskurnar, fengum okkur morgunmat og kaffi og sátum á kaffistofunni með samstarfsfélögunum til klukkan að byrja að ganga níu. Ég var í móttökunni á framleiðsluvélinni fram að kaffipásu. Eftir kaffi sorteraði ég kennispjöld úr tveimur kössum til hádegis og svo annað eins eftir hádegi. Fékk far heim úr vinnunni.

Rétt um fimm var ég komin í Nauthólsvík. Þurfti að bíða í röðinni eftir að komast inn í búningsaðstöðuna. Var númer fjögur í röðinni og svo  var alltaf að bætast við í röðina fyrir aftan mig. Þurfta að bíða í um tuttugu mínútur. Synti svo út að kaðli þegar ég komst loksins í sjóinn. Svamlaði einnig smá stund í lóninu áður en ég fór í pottinn. Það var enn röð þegar ég fór upp úr rúmlega sex. Aðstaðan er opin til klukkan sjö. 

10.5.21

Morgunstund

Var komin á fætur um átta í gærmorgun. Fór ekki í sund fyrr en klukkan var langt gengin í tíu því þá var meiri möguleiki á að hitta á kalda potts vinkonuna. Hitti samt ekki á hana þessa eina og hálfa klukkustund sem ég var að pottormast og synda smá. Hins vegar hitti ég aðeins á sjósundsvinkonu mína rétt áður en ég fór upp úr.

Skrapp vestur á Granda eftir sundið og keypti þvott fyrir bílinn. Allur fuglaskítur náðist af. Kom heim rétt fyrir tólf og byrjaði á því að hella upp á könnuna. Synir mínir komu fram úr sínum herbergjum um eitt. Veiðisonurinn var ekki viss hvort hann væri að skreppa í annan veiðitúr, hafði komið seint heim kvöldinu áður. Einkabílstjórinn kom hins vegar með mér austur á Hellu og fékk að keyra.

Vorum komin til pabba um hálfþrjú. Ég var með prjónana með. Pabbi bauð upp á vöfflur með kaffinu og sagði svo að það væri til bleikja ef við vildum vera líka í kvöldmat. Ég tók út þrjú flök sem ég matreiddi svo upp úr klukkan sex. Með þessu var boðið upp á hrásallat og kalda rófustöppu og þar sem ég var með einkabílstjóra fékk ég mér hvítvínsglas með matnum. Horfði á fréttir og Landann áður en haldið var aftur heim á leið. 

9.5.21

Sunnudagsmorgunn

Kom mér á fætur áður en klukkan varð átta í gærmorgun. Fyrsta klukkkutímann var ég að vafra um á netinu. Svo hellti ég mér upp á kaffi og borðaði afgang af hafragraut, kaldan. Las þar til klukkan var að verða hálfellefu. Þá tók ég sjósundsdótið til og dreif mig af stað í röðina í Nauthólsvík. Hitti hinar fimm úr kjarnanum úr sjósundshópnum mínum og komumst við allar inn í fyrsta hollinu. Syntum út að kaðli og komum aðeins við í lóninu á leiðinni í pottinn. Flatmöguðum í pottinum á næstum hálftíma. Svo lá leiðin heim til sjósundsvinkonu minnar sem bauð okkur öllum í hádegissnarl. Þar vorum við í góðu yfirlæti í rétt rúma tvo tíma.

Ætlaði að skreppa með bílinn á þvottastöðina við Granda en þá var búið að loka þar vegna viðhalds. Fór í Krónuna í staðinn. Reyndar var alltaf ætlunin að skreppa að versla. Þegar heim kom varð ég að leggja í Blönduhlíð þar sem það voru smá framkvæmdir hjá Veitum fyrir utan hjá mér og ekki hægt að leggja. Hringdi í Odd og hann kom og sótti vörurnar og gekk frá þeim er við komum inn.

Lauk við að lesa skammtímalánsbókina. Las líka alla ljóðabókina Spegilsjónir eftir Guðrúnu Hannesdóttur. Byrjaði á skáldsögunni Hilduleikur eftir Hlín Agnarsdóttur. Þá bók fann ég í almennri hillu en það var líka eintak af henni í skammtímalánshillunni. 

8.5.21

Sjósundsdagur

Vaknaði á undan vekjaranum í gærmorgun. Hafði því fleiri mínútur til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna um sjö. Ég var á framleiðsluvélinni, móttökuendanum og einnig að telja og taka til þær tegundir sem voru í framleiðslu. Daglegri framleiðslu lauk rétt upp úr klukkan hálftólf og þar sem ekki er alveg komið að endurnýjun ennþá var ég að flokka kennispjöld eftir hádegi alveg til klukkan þrjú. Gaman líka að segja frá því að það er loksins verið að rífa niður gömlu framleiðsluvélina sem var hætt að framleiða á nokkrum vikum fyrir síðustu áramót.

Davíð Steinn er á leið í veiðiferð með félaga sínum. Þeir ætluðu að leggja af stað seinni partinn í gær en frestuðu för þar til í dag. Ætla að vera eina nótt í burtu.

Fékk far heim úr vinnunni og fór ekkert aftur út. Ein af bókunum úr síðust safnferð er með 14 daga skilafresti og ég er byrjuð að lesa hana; Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Bjó til eggjaköku úr fiskafgangi í kvöldmatinn og notaði sex egg, rjómaslettu og rifinn ost í blöndua.