15.2.20

Köld sturta

Allar sturtur í innibúningsklefum laugardalslaugarinnar voru kaldar í morgun. Ég var mætt í sund rétt upp úr klukkan átta. Fannst ekkert að því að fara í kalda sturtu áður en ég fór út í rútínuna; kaldur, 500m, kaldur, sjópottur, kaldur og gufubað. Sótti svo sjampóið mitt og stalst til að þvo á mér hárið í annarri sturtunni við gufuklefann áður en ég fór inn og skrapp í kalda sturtu. Hefði reyndar getað farið í sturtu í útiklefa kvenna en ég var ekki tilbúin til að þurfa að fara aftur í sundbolinn til að labba meðfram útilauginni og inn þar sem handklæðin mín, sem og "fata-dóta-skápurinn" var.

Úr sundi fór ég beint vestur í bæ í smá esperantohitting. Annars á ég bókað flug til Egilsstaða klukkan fjögur í dag. Ég var búin að bóka þessa ferð í janúar og hafði ætlað mér að ferðast létt þrátt fyrir að ætla að vera alveg fram á þriðjudagskvöld. Guggnaði á því og bætti við tösku í bókunina í gær, bæði héðan og þaðan. Til stóð að tvíburarnir færu í þorraboð til föðurfjölskyldunnar í kvöld en því var frestað vegna veðurs. Oddur er samt tilbúinn að hætta aðeins fyrr í vinnu í dag til að skutla mér í flugið. En hann er líka tilbúinn að sækja bílinn út á flugvöll seinni partinn eða í kvöld. Hann tók með sér aukabíllykla í vinnuna og ég þarf þá að muna að skilja eftir strætókortið hérna heima. Er ekki búin að ákveða hvora leiðina ég vel.

Er búin að lesa tvær bækur af sex af safninu og í gærkvöldi byrjaði ég á þriðju jólabókinni, Mannshvörf á Íslandi. Sú bók kom út fyrir jólin en það voru eiginlega mistök hjá mér að byrja að lesa hana því ég ætlaði aldrei að geta lagt hana frá mér, var búin að lesa 100 blaðsíður og klukkan langt gengin í eitt áður en ég gat með herkjum slitið mig frá lestrinum. Ætla að geyma bókina heima en taka með mér 4. jólabókina og tvær af safninu með mér austur.

Var heima allan daginn í gær skv. ákvörðun framkvæmdastjóra, en við úr kortadeildinni hættum ekki vinnu fyrr en klukkan hálfellefu á fimmtudagskvöldið var og vorum þá búnar að vinna upp megnið af föstudagsframleiðslunni. Ein af okkur vinnur bara til hádegis á fimmtudögum, er ráðin í 70% stöðu. Hún ákvað hins vegar að koma aftur um sjö og kom með tilboð fyrir fjóra frá Nings í leiðinni sem var alveg vel útilátið fyrir okkur allar fimm. Ég mætti í vinnu klukkan hálftólf þennan dag. Önnur af hinum fjórum skrapp í klippingu upp úr fjögur en kom aftur á sjöunda tímanum en þær voru tvær, fyrirliðinn og fyrrum fyrirliði sem voru í vinnunni frá því um hálfátta um morguninn til hálfellefu um kvöldið.

13.2.20

Færsla númer 2501

Var að koma heim úr morgunsundi. Mætti í Laugardalslaugina rétt rúmlega hálfsjö. Byrjaði þar á kalda pottinum í tvær og hálfa mínútu, synti 500 metra á 20 mínútum, fór aftur í þann kalda (gleymdi að taka tímann en ég var eitthvað lengur en í fyrri ferðinni), sat í gufunni í uþb 10 mínútur og fór í örstutt "sólbað" áður en ég dreif mig upp úr og heim.

Í gær var klukkan að verða sex þegar ég fór í sund. Hafði komið heim úr vinnunni um fjögur og var eitthvað að drolla. En ég dreif mig á endanum aðallega vegna þess að ég vildi ekki skrópa tvo daga í röð. Já ég skrópaði í sundið á þriðjudaginn var. Kom ekki heim fyrr en um sex og nennti engan veginn út aftur eftir kvöldmat. Ástæðan fyrir því að ég kom þetta seint heim var að um hálffjögur fórum við þrjár af fimm úr deildinni minni á Café Aleppó að hitta fyrrum samstarfskonu okkar. Hún og ein af okkur þremur voru ekki búnar að hittast í nokkur ár. Áður en við vissum af var klukkan farin að ganga sex. Hluti af leti minni varðandi sundskrópið var líka sú að ég var svo spennt fyrir þessum hittingi að ég svaf ekki nóg um nóttina.

Ég er búin að lesa jólabók númer tvö sem og skammtímalánsbókina. Og ég er byrjuð á safnbók númer tvö, Söru eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Þetta er hennar önnur skáldsaga en ég man að ég var mjög hrifin af fyrstu skáldsögunni hennar Tapað fundið.

Er annars að taka út styttingu vinnuvikunnar, hálfan dag í þessum mánuði. Mæti til vinnu um hálftólf á eftir og er búin að lofa mér að vinna þar til aukaverkefni dagsins sem og dk endurnýjun mánaðarins verður lokið svo kannski kem ég ekki heim fyrr en um og upp úr sjö plús/mínus klukkutími. En þangað til ég þarf að mæta ætla ég að nota tímann í lestur og afslöppun.

10.2.20

Óskar

Afmælismessan í óháðu kirkjunni í gær var mjög skemmtileg. Margt var um manninn eða amk 100 kirkjugestir. Ég var komin tíu mínútum fyrir klukkan tvö og fékk sæti hjá 4 fyrrum kórfélögum mínu og tvö önnur mættu og fékk annað þeirra sæti fyrir framan okkur en hitt fór upp á svalir. Guðni forsetti heiðraði söfnuðinn með nærveru sinni (fékk reyndar á slá lokatóninn í messuna um klukkan þrjú. Sr. Baldur Kristjánsson. sem var prestur yfir söfnuðinum í tvö ár á níunda áratugnum var með stólræðuna. Talaði blaðlaust og var hnittinn og skemmtilegur. Sr. Pétur, óháðikórinn og Kristján organisti skiluðu sínum hlutverkum með sóma. Og á eftir var boðið í veislu á báðum hæðum.

Klukkan var langt gengin í fjögur þegar ég lagði leið mína á bókasafnið í Kringlunni til að skila 4 bókum. Ekki tókst mér að passa upp á að taka ekki fleiri bækur heim heldur en ég skilaði og er ein af bókunum þar að auki með14 daga skilafrest. En tölvupóstur um útlán frá safninu, sendur kl. 16:07 í gær gefur upp 6 stk í útlán:Dag einn í desember eftir Josie Silver, Ritgerð mín um sársaukann efitr Eirík Guðmundsson, Sara eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, Hefndarenglar eftir Eirík P. Jörundsson, Konan í klefa 10 eftir Ruth Ware og skammtímalánsbókin Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur. Eftir að ég kom heim byrjaði ég að lesa síðastnefndu bókina. Náði að slíta mig frá lestrinum eftir 50 bls. en það var ekki létt. Ég ákvað hins vegar að klára jólabók 2 áður en ég myndi halda áfram þessum spennulestri. Blómamánamorðin er ekkert síður spennandi bók og náði ég að ljúka við að lesa hana eftir að ég kom heim úr vinnu og sjóferð í dag.

Splæsti saffranbökum á okkur mæðgin í gærkvöldi. Oddur Smári pantaði og sótti heim og ég sendi hann með 3000 kr. og fékk 30 kr. til baka þegar hann kom með fenginn heim um sjö í gærkvöldi.

9.2.20

Sunnudagur

Ég var að sópa og skafa af bílnum klukkan átta í morgun, svo ég var mætt nokkuð snemma í Laugardalinn en var þó ekki alveg á hurðarhúninum. Byrjaði í kalda pottinum áður en ég synti í rúmar 15 mínútur. Þá fór ég aftur í þann kalda og dagaði svo næstum því uppi í sjópottinum, sat þar líklega lengur heldur en sundtímann. Dýfði mér svo þriðju ferðina í ca 3 mínútur í þann kalda, 10 mínútur í gufu og svo ca 1 mínútu í "sólbað" áður en ég fór upp úr. Kom heim aftur rétt fyrir klukkan tíu og var svo heppin að fá sama bílastæðið en það er ekki sjálfgefið nú til dags. Það kemur oftar fyrir að ég þurfi að leggja í öðrum götum í nágrenninu. Það er reyndar alveg í lagi því ég er oftast að safna skrefum.

Setti upp hafragraut og egg og hellti upp á kaffi og er nýbúin að ljúka við að drekka úr þriðja kaffibollanum. Stefnan er að skreppa í afmælismessu í Óháðu kirkjunni eftir hádegi og ef ég "nenni" ekki að fá mér göngutúr í kirkjuna gæti vel verið að ég notaði tækifærið og skilaði bókum á safnið. Er enn að lesa "Blómamánamorðin", aðeins hálfnuð með uþb 300bls. bókina og á enn eftir að lesa 3 jólabækur (tvær af þeim fékk ég óvænt í millijólaognýjársgjöf frá sjálfri mér). Þannig að ef ég skrepp á safnið í dag væri best ef ég væri skynsöm og tæki ekki fleiri bækur heldur en ég skila. Sjáum til með það.

8.2.20

Laugardagur

Þegar ég mætti í vinnuna í gærmorgun tjáði fyrirliði deildarinnar að það yrði mánaðarleg yfirferð á vél eftir hádegi og við yrðum aðeins þrjár í vinnu til tólf því hún hefði beðið þá fjórðu um að koma seinna til að sitja yfir til klukkan fimm. Sú úlnliðsbrotna var beðin um að sinna bókhaldsvinnu en fyrirliðinn og ég skiptum með okkur verkum á framleiðsluvélinni. Ég  hlóð inn fyrstu verkefnum dagsins og mataði vélina fram að kaffi, en í móttöku og skoðun framleiðslu eftir kaffi og til hádegis. Lukum daglegri framleiðslu rétt fyrir klukkan tólf. Eftir hádegi og að hefbundnum frágangi loknum bauðst ég til að vera aðeins áfram til að ljúka við að fjarlægja gula miða og telja inn nýjar kortabirgðir ásamt þeirri sem var í yfirsetunni. Við vorum búnar að því fyrir klukkan þrjú og þá dreif ég mig heim.

Í gærkvöldi skrapp ég í Lífsspekifélagið til að hlýða á erindi um Pýþagoras. Var komin heim aftur rétt áður en þátturinn um lækninn dr. Martin byrjaði.

Var mætt í sund um átta í morgun.Fór tvisvar í þann kalda, synti 400m og endaði í gufunni. Hitti tvær sem heita Sigrún og þá eldri var ég ekki búin að hitta síðan í nóvember svo það urðu fagnaðarfundir í gufunni. Dreif mig upp úr up úr klukkan níu og sendi Davíð Steini sms rétt áður en ég lagði af stað úr Laugardalnum því ég hafði lofað honum að keyra hann á N1 við Stórahjalla og að hann yrði mættur þar um hálftíu. Á heimleiðinni kom ég við á Atlantsolíustöðinni við Sprengisand og fyllti á bílinn sem reyndar var rétt rúmlega hálffullur af bensíni. Sendi líka spurningu til esperantovinkonu minnar. Þegar ég var búin að ganga frá sunddótinu heima sá ég að hún hafði svarað með þumli upp svo ég dreif mig vestur í bæ í smá esperantohitting. Stoppaði hjá henni í tæpa tvo tíma. Áður en ég fór heim aftur keyrði ég bílinn í gegnum þvottastöð og kom svo við í Krónunni við Granda.

Í stað þess að skreppa aftur í lífsspekifélagið í dag bjó ég m.a. til vöfflur.