25.2.17

Köttur inn um gluggann frammi í nótt

N1 pilturinn er á frívakt þessa dagana, hófst í gær og stendur yfir alla helgina. Ég notaði því strætókortið í gærmorgun til að koma mér í vinnuna. Seinna um morguninn hafði einkabílstjórinn samband til að athuga hvort hann mætti skreppa á lánsbílnum í skólann til að taka eitt próf. Ég gaf leyfi fyrir því. Eftir vinnu lá leiðin í kirkju óháða safnaðarins. Formaður stjórnar hafði boðað til tiltektardags sem og undirbúnings árshátíðar sem er í kvöld. Mæting var sögð klukkan fimm en ég var komin korteri fyrr. Tveir bílar voru á planinu aftan við kirkjuna en ég komst ekki inn um læstar dyr. Er ekki með lykla og ég varð ekki vör við að neinn væri inni, en þau sem inni voru voru líklega bara svona upptekin í tiltektinni. Fleiri stjórnarmeðlimir mættu á staðinn stuttu síðar. Einn af þeim með lykla en þá var opnað innan frá. Þrátt fyrir að tiltekt í geymslum væri lokið var nóg að gera svo klukkan var farin að ganga sex áður en ég labbaði heim. Ákvað að fara ekkert út aftur þrátt fyrir að það væri spennandi fyrirlestur í Lífsspekifélaginu.

24.2.17

Aftur komin helgi

Í gærmorgun ákvað ég að fá einkabílstjórann til að skutla mér í vinnunna og lána honum bílinn í skólann svo hann gæti farið beint eftir tíma að sækja tölvuna sína úr viðgerð. Oddur sendi mér svo skilaboð um hálftíu leytið að hann hefði verið beðinn um að leysa af á Skeljungsstöðinni við Smáralindina frá því um hádegið og fram til hálfátta. Gaf grænt ljós á að hann gæti farið á bílnum. Var ekki í stuði til að labba heim eftir vinnu, N1 strákurinn var á vakt og með strætókortið en ég var svo heppin að eiga smá skotsilfur í buddunni sem dugði fyrir fargjaldi heim. Heima dútlaði ég mér við ýmislegt, m.a. lestur. Las í þremur bókum, er enn að lesa um Hákon og bókina hennar Yrsu, Aflausn en ég byrjaði líka á skammtímalánsbókinni af safninu, Svarti galdur eftir Stefán Mána. Spennusaga af bestu gerð. Útbjó ofnbakaðan bleikjurétti í kvöldmatinn og sauð bygggrjón með. Var nýbúin að borða þegar bræðurnir komu saman heim. Oddur Smári hafði látið Davíð Stein vita að hann væri á bíl og þeir voru búnir að vinna á sama tíma. Um leið og þeir komu heim dreif ég mig í sund. Var ekkert að drolla of lengi en sundferðin með öllu, frá því ég fór að heiman og þar til ég kom heim aftur tók einn og hálfan tíma.

23.2.17

Síðasti fimmtudagurinn í þessum mánuði

Það verður kominn mars um miðja næstu viku og nýja árið sem byrjaði í "fyrradag"!

Byrjaði á því að skreppa í sund strax klukkan hálfsjö í gærmorgun. Synti í tuttugu mínútur, fór tvivar í kalda pottinn og heitan pott og sjópott á milli og á eftir. Þar sem ég var með nýju bleiku sundhettuna mína ákvað ég að ég gæti alveg sleppt því að skola á mér hárið. Það var reyndar aðeins rakt aftan í hnakkanum en ég gerði ekkert í því nema að greiða lubbann. Fór beint í vinnuna úr Laugardalnum. Verkefnin í vinnunni eru nóg en þar sem vaktirnar eru hættar í bili er góður tími í alls konar aukadútl sem setið hefur á hakanum. Seinni partinn kom svo í ljós að það yrði yfirferð á vélinni. Flest af okkur fengum þá að fara aðeins fyrr heim því það þarf ekki nema einn til að sitja yfir viðgerðaryfirferðarmönnunum. Klukkan var ekki orðin þrjú þegar ég dreif mig heim til þess að ganga frá sunddótinu, tók bókasafnspokann með þeim þremur bókum sem ég var með í láni og skilaði þeim í Kringlusafnið. Hafði fengið e-mail um að skiladagur væri að nálgast. Þrátt fyrir að vera að lesa nokkrar bækur hér heima tók ég sex bækur að láni af safninu, þar af eina sem þarf að skila eftir hálfan mánuð. Úr safninu lá leið mín í Kaffi Laugalæk þar sem ég við vorum búnar að mæla okkur mót, "tvíburahálfsystir" og "föðursystir" mín. Þær tvær komu aðeins á eftir mér en ég var þá búin að velja borðið þar sem við sátum næsta einn og hálfa tímann og spjölluðum vítt og breytt. Kom heim um hálf sjö og útbjó súpu úr rauðum linsubaunum, sætri kartöflu, gulrótum, brokkolí og túnfisk. Við Oddur Smári horfðum á Castle frá því kvöldið áður og ég horfði strax á eftir á "Horfinn" sem er á dagskrá á þriðjudagskvöldum eftir tíu fréttir.

22.2.17

Önnur systurdóttir mín 17 ára í dag

Í gærmorgun tók ég vagninn sem var fyrir utan Sunnubúðina korter fyrir átta. Var mætt í vinnu sjö mínútum fyrir átta. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt. Utanviðmigheitin fólust í því að þegar ég var á leið út í skýli eftir vinnutíma byrjaði ég á því að taka til sundkortið, sem var í sama vasa og strætókortið. Var búin að skipta yfir í rétt kort áður en vagninn minn kom.

Fljótlega eftir að ég kom heim setti ég upp upp slátur, einn frosinn kepp af hvorri tegund, blóðmör og lifrarpylsu. Eftir að suðan var komin upp settist ég inn í stofu með tvær bækur sem ég er að lesa, Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur og Hákon Finnsonn frá Brekkum á Rangárvöllum að Borgum í Hornafirði sem Karl Skírinisson og Hákon Hansson bjuggu til prentunar. Er ekki búin að lesa þær en mæli mjög svo með þeim báðum, spennu- og skemmtilestur.

Eftir kvöldmat og fréttir skrapp ég upp í efri byggðir í heimsókn til einnar vinkonu og tveggja katta hennar. Þetta var fyrsti hittingurinn á þessu ári, það var einn hittingur í fyrra og einn í hitti fyrra. Tveir tímar liðu fáránlega hratt yfir góðum kaffibolla og spjalli um víðan völl. Við stefnum að því að hittast oftar á þessu ári enda umræðuefnin hvergi nærri tæmd en þau verða það nú reyndar seint.

21.2.17

Örlítið utan við mig

N1 ungi maðurinn var í vaktafríi í gær og í dag svo ég nýtti strætókortið í ferðir milli heimilis og vinnu. Í gærmorgun tók ég vagninn sem fer frá Sunnubúð og hálfátta og var þar af leiðandi mætt alltof snemma í vinnuna. Samdi um að fá að stökkva út rétt fyrir fjögur til að komast sem fyrst heim. Heima stoppaði ég nú ekki lengi. Tók til sunddótið mitt og dreif mig í Laugardalinn. Setti ekki upp sundhettu og synti aðeins 200 metra en ég fór tvær ferðir í kalda pottinn. Fyrr um daginn hafði ég bæði fengið mail og sms frá blóðbankanum sem er opinn til kl. 19:00 á mánudögum. Ég ákvað að koma við þar á heimleiðinni úr sundi. Það voru um það bil fimm mánuðir frá síðustu gjöf. Þá var blóðþrýstingurinn einhverra hluta vegna í efri kantinum miðað við oftast áður. Í gær var þrýstingurinn mjög fínn 125/81 og púlsinn 51. Sú sem setti upp nálina var ekki vissum að hafa hitt á æðina í hægri handleggnum en það kom strax í ljós að hún hafði hitt því æðin var dugleg að gefa og þetta gekk mjög fljótt fyrir sig. Fékk mér smá hressingu áður en ég dreif mig heim. Heim kom ég um hálfsjö og þá var Davíð Steinn að verða tilbúinn með kvöldmatinn. Tölvan hans Odds er í viðgerð svo hann sat góða stund með mér yfir imbanum í gærkvöldi. Heppin ég með þessa syni mína.