23.6.21

Labbað báðar leiðir

Fór lengri leiðina í vinnuna í gærmorgun. Ég var á framleiðsluvélinni að hlaða inn verkefnum og ýta þeim af stað. Eftir hádegi endurnýjuðum kort til klukkan að verða tvö. Þá héldum við áfram að opna kassa og telja upp úr þeim. Töldum 10.000 kort úr einum af þeim fimm kössum sem eftir voru á brettinu. Labbaði Skúlagötu, Snorrabraut, Gunnarsbraut, Flókagötu, þvert yfir Klamratún og Lönguhlíð frá Miklubraut heim. Stoppaði heim í tæpan klukkutíma áður en ég tók sjósundsdótið með mér út í bíl og skrapp í Nauthólsvík. Sjórinn 10,2°C, flóð og ég synti út að kaðli. Hafði salthnakka og soðnar kartöflur í kvöldmatinn. Ungbarnateppi "datt" af prjónunum í gærkvöldi, prjónað með einni færri dokku en mælt var með í bókinni. Átti alveg eina dokku í viðbót en mér fannst þetta vera komið og láðist að telja spottana áður en ég prjónaði  garðaprjón 14 síðustu umferðirnar og felldi af. Held að þetta muni samt alveg vera nothæft teppi. Heildarskrefafjöldi fór yfir 12200 í gær. 

22.6.21

Á leiðinni í sjóinn

Labbaði þvert yfir Skólavörðuholtið í vinnuna í gærmorgun. Ég var í bókhaldsstörfum. Hinar tvær sáu um daglega framleiðslu og að henni lokinni framleiddu þær hluta af endurnýjun alveg til tvö. Þá fórum við allar í að skoða í einn kassa af nokkrum sem komu í hús seinni partinn á föstudaginn og stóðu á bretti inni á gólfi rétt hjá framleiðsluvélinni. Þetta voru sex kassar og samkvæmt fylgiskjölum tvær tegundir af plasti, rúmlega fimmþúsund af annarri tegundinni og rúmlega fimmtíuþúsund af hinni. Opnuðum efsta kassann og töldum úr honum. Urðum að taka hvern 500 korta kassa úr plastinu til að geta talið kortin, klæða þá svo aftur í plastið, líma fyrir og kvitta. Í þessum eina kassa voru öll kortin fyrir þá tegund sem minna var af. Hættum vinnu um þrjú. Úti var rigning og fyrirliðinn sá aumur á mér og leyfði mér að sitja í. Hafði reynt að hringja í einkabílstjórann en náði ekki sambandi við hann, síminn hans stilltur á hljóðlaust. Í stað þess að fara í sjóinn seinni partinn í gær eins og oft á mánudögum fór ég í Laugardalinn. Synti ekkert en fór 3x5 mínútur í kalda pottinn, eina ferð í sjópottinn, eina í heitasta pottinn og endaði í gufubaði. Hafði plokkfisk í kvöldmatinn.

21.6.21

Ný vinnuvika hafin

Fór á fætur í gærmorgun á svipuðum tíma og á laugardagsmorguninn. Rétt fyrir klukkan tíu var ég komin í sund og ég var í minni fyrstu ferð í kalda pottinum, búin með uþb 4 mínútur, þegar kalda potts vinkonan mætti. Ég elti hana í heitasta pottinn og svo á milli þessara tveggja potta, alls sex sinnum í viðbót í þann kalda. Rétt áður en þessum ferðum lauk mætti systir hennar á svæðið svo ég ákvað að fara með þeim aðeins í heitasta pottinn til að spjalla. Eftir þá ferð skildu leiðir. Ég fór áttundu ferðina í þann kalda, í eina og hálfa mínútu áður en ég synti 500 metra. Eftir sundð fór ég níundu og síðustu ferðina í kalda pottinn, rúmar tvær mínutur og endaði svo á góðu gufubaði áður en ég sagði þetta gott og þvoði mér um hárið áður en ég fór heim. Þessi svaka rútína tók uþb tvo tíma en mikið sem mér leið dásamlega vel um allan kroppinn á eftir. Restin af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og þáttaáhorf. Hafði ýsuna sem ég keypti í fiskbúðinni seinni partinn á föstudaginn í kvöldmat og sauð blómkál með. 

20.6.21

Sól

Var ekkert að drífa mig á fætur í gærmorgun og var klukkan orðin hálfníu þegar ég loksins drattaðist framúr, nýlega vöknuð. Hitti sjósundsvinkonu mína og aðra af systrunum í Nauthólsvík um tíu. Við syntum út að kaðli í 9,3°C sjónum og vorum svo drjúga stund í heita pottinum áður en við fórum upp úr og hver til síns heima. Það sem eftir lifði dags notaði ég m.a. í lestur prjón og netvafr. Lánaði bræðrunum bílinn til að skreppa í heimsókn í Mosfellsbæinn. Ég nennti ekki út í labbitúr en hafði það af að ryksuga yfir gólfin. 

19.6.21

Laugardagur

Labbaði lengri leiðina í vinnuna í gærmorgun. Leiðirnar sem ég labba í vinnuna eru reyndar fleiri en tvær, aðallega þrjár með smá útúrdúrum stundum. En ég fór semsagt út Eskihlíðina undir brýrnar, Hringbraut meðfram flugvellinum, Hljómskálagarðinn, Fríkirkjuveg og Lækjargötu að Kalkofnsvegi. Var númer eitt á vélinni í vinnunni þ.e. hlóð inn verkefnunum og sendi þau af stað. Tvær endurnýjanir komu til okkar í gær, eða eiginlega þrjár því önnur skiptist í beint til fyrirtækis og svo í póst sem var mun stærri hluti. Gengum frá áður en klukkan varð þrjú og svo fékk ég far heim. Vinnufélagi minn sem er komin á samgöngusamning yfir sumarið og hjólar oftast í vinnuna kom á bíl í gærmorgun. Stoppaði heima í rúma klukkustund. Hringdi í þann sem ætlar að vera milliliður í framkvæmdunum utanhúss. Hann sagðist vera búinn að fá verktaka til að taka að sér verkið eftir því plaggi sem hann var að uppfæra. Vonandi fáum við plaggið til yfirlestrar sjálf fljótlega eftir helgi og vonandi verða allir sáttir hérna megin líka svo hægt sé að fara að byrja á þessu fljótlega.

Um hálffimm kom ég við í fiskbúð Fúsa áður en ég fór í sund. Í sundi fór ég 3x5 mínútur í kalda pottinn, synti ekki nema 200 metra, fór einu sinni í heitasta pottinn og endaði á góðu gufubaði. Nú er komin Nettó verslun þar sem Krónan var við Nóatún þar sem einu sinni var reyndar Nóatúnsbúð. Ég skrapp því alla leið vestur á Granda í Krónuna þar til að versla aðeins inn áður en ég fór heim. Oddur Smári opnaði fyrir mér og gekk frá vörunum. Hann var búinn að panta sér pizzu og Davíð Steinn var að vinna svo ég ákvað að sleppa því að hafa kvöldmat í gærkvöldi.