22.4.17

Smá vesen í hálsinum, en er að lagast

 morgni sumar dagsins fyrsta byrjaði ég á því að skutla Skeljungsafleysingarsyninum upp á Vesturlandsveg þannig að hann var mættur þar um hálfátta. Í bakaleiðinni var nokkuð blint vegna þéttrar snjókomu efst í Ártúnsbrekkunni. Mér fannst ekki taka því að fara heim heldur tók smá rúnt um Laugardalinn en var þó kominn á stæði við Laugardalslaugina tíu mínútum áður en opnaði klukkan átta. Sendi N1syninum smáskilaboð um að ég yrði komin heim um hálftíu og gæti því skutlaði honum á sína vakt sem var frá 10-22. Auðvitað hefði hann alveg geta tekið strætó en með þessu móti fékk hann aðeins meiri tíma heima.

Um ellefu, þennan sama dag, var ég komin til norsku esperantovinkonu minnar og við áttum saman góða tvo tíma og notuðum drjúgan hluta af þeim tíma í að halda áfram að lesa Kon-Tiki. Frá Inger lá leiðin í Krónuna en eftir að ég kom heim hélt ég mig þar það sem eftir var dagsins og kvöldsins við lestur og fleira. Er að lesa fjórar bækur í einu, allar af bókasafninu, m.a.: Þar sem fjórir vegir mætast eftir Tommi Kinnunen og Fórnarleikar eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Ég er ekki enn búin að verða mér úti um garn í enn eitt sjalið en ég held að ég verði að gera þriðju tilraun með þriðja litinn og næ þá vonandi að fylgja mynstrinu frá fyrstu til síðustu lykkju.

Í gærmorgun var ég með strætókortið. Var mætt í vinnu korter fyrir átta. Tólf mínútum fyrir fjögur náði ég leið no 13 við Stjórnarráðið. Sá vagn bilaði reyndar á Hlemmi þannig að við sem biðum þolinmóð í bilaða vagninum fluttum okkur yfir í þann sem kom korteri síðar. Rúmlega sjö fór ég aftur að heiman og hélt áfram á nýta strætókortið. Fór úr vagninum á sama stað og eins og þegar ég er að fara í vinnuna. Kíkti aðeins inn í Mál og Menningu við Laugaveg en var mætt í Lífspekifélagið nokkru fyrir átta. Þar fór svo fram síðasti föstudagsfyrirlestur vetrarins, enda komið sumar. Inger og Sigurrós komu líka. Eftir mjög skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur og smá kaffi og með því á eftir var ég nýbúin að missa af leið 13. Ákvað því að labba með Inger áleiðis vestur í bæ og tók næsta vagn til baka og heim, ofarlega á Hofsvallagötunni.

20.4.17

Gleðilegt sumar

Á þriðjudaginn var ég með strætókortið. Mætti í vinnu um hálfátta. Þar sem að náðist að ljúka öllum daglegum störfum fyrir seinna kaffi fékk ég leyfi til að fara heim í fyrra fallinu. Þar stoppaði ég í tæpan klukkutíma áður en ég settist upp í lánsbílinn, sótti norsku vinkonu mína og endaði á Yoga-nítre (djúpslökunarstund) í Fella og Hólakirkju. Magnaður klukkutími það.

Í gærmorgun var N1 sonurinn á vakt svo hann var með strætókortið. Ég ákvað að fara á bílnum, frekar en að labba í vinnuna, og byrjaði á því að mæta í Laugardalslaugina rétt um það leyti sem opnaði um hálfsjö. Var mætt í vinnu rétt rúmum klukkutíma síðar. Kom heim upp úr hálffjögur. Hafði til matinn snemma eða fyrir sex. Korter yfir sjö var ég sótt af dóttur norsku esperanto vinkonu minnar. Sem skutlaði okkur vinkonunum í Þjóleikhúskjallarann þar sem við vorum næstu rúmu tvo tímana og skemmta okkur við að fylgjast með spunahóp. Þegar því lauk sendum við SMS á dótturina. Hún kom að vörmu spori að sækja okkur og sagði okkur frá því að það væri enn dagskrá á KEX, Tómas R Einarson og fjöldinn með honum að spila og syngja, frítt inn og mega stuð. Það þurfti ekki að þrábiðja okkur um að koma við þar á heimleiðinni. Tónleikunum lauk rétt fyrir ellefu og áður en við yfirgáfum staðinn hitti ég sr. Pétur, kampakátan að venju. Synirnir voru búnir að loka að sér þegar ég kom heim enda báðir að vinna í dag.

18.4.17

Fáir vinnudagar í þessari viku

Ég mætti í Laugardalslaugina klukkutíma eftir að opnaði í gærmorgun, eða um níu. Smá "sjógangur" var í lauginni en ég sinnti rútínunni minni út í gegn nema ég synti á brautum 1 og 2 en ekki 7 og 8 eins og oftast. Kom heim aftur um ellefu og byrjaði á því að hella upp á smá kaffi. Las, saumaði og vafraði um á netinu en stuttu fyrir þrjú tók ég strætó yfir á Sólvallagötuna með esperantopokann á bakinu. Norska esperanto vinkona mín átti afmæli. Við byrjuðum á því að lesa smá því von var á einum afmælisgesti í viðbót ca klst. eftir að ég mætti á svæðið. Þegar hún kom settumst við fimm, einnig maður og dóttir norsku vinkonu minnar, að glæsilegu kaffiborði. Eftir kaffið færðum við okkur inn í stofu og horfðum á myndina Kon-Tiki saman.

Kom heim aftur upp úr sjö. Hafði lánað bræðrum bílinn og voru þeir hjá pabba sínum eitthvað fram á kvöldið. Ég horfði m.a. á annan þáttinn af Dicte en fór í háttinn í fyrra fallinu. Þó ekki fyrr en synir mínir höfðu skilað sér heim og einkabílstjórinn sagt mér hvar hann hafði lagt bílnum.

17.4.17

Annar í páskum að kveldi kominn

Hafði stillt á mig klukku í gærmorgun til að vera viss um að ég svæfi ekki af mér páskamessuna klukkan átta. Reyndin varð sú að ég var vöknuð vel á undan klukkunni og lagði af stað labbandi tuttugu mínútum yfir sjö til að vera mætt nokkru fyrr og bjóða fram aðstoð við undirbúning á heitum brauðbollum og kakói með þeyttum rjóma sem var í boði safnaðarstjórnar strax á eftir messu. Fjórir af níu stjórnarmeðlimum voru mætt og langt komin með undirbúninginn. Ég settist því fljótlega inn í kirkju og tók virkan þátt í messunni þegar hún byrjaði. Að venju var ballettjáning rétt á undan predikuninni og voru tvær stúlkur sem dönsuðu verkið "Lífshvörf". Afar magnað verð ég að segja. Eftir messu gaf fólk sér góðan tíma til að spjalla yfir kakóinu (eða kaffinu) og brauðbollunum í efri safnaðarsal kirkjunnar. Yfir 40 höfðu tekið þátt í þessari stund. Á eftir aðstoðaði ég við frágang og fékk með mér smá af kakóinu og brauðbollunum sem varð afgangs. Einkabílstjórinn var að skutla N1 á 12 tíma vakt í Hafnarfirði frá klukkan tíu. Það passaði fínt fyrir hann að koma og hirða mig upp strax á eftir því mér hugnaðist ekki að labba heim, með kakóbrúsa í annarri hendinni þótt leiðin væri ekki löng. Restina af deginum notaði ég í lestur, imbagláp og útsaum.

16.4.17

Páskadagur

Síðasta virka dag fyrir páska enduðum við flest í deildinni minni vinnudaginn á Kryddlegnum hjörtum. Já, við höfðum fengið leyfi til að hætta vinnu þegar daglegum verkum var lokið og þeim var flestum lokið um hálfeitt. Fengum okkur súpu og sallat og ég splæsti þar að auki á mig hvítvínsglasi. Um hálftvö leytið leysist samkoman upp enda orðnar mettar og tilbúnar í að halda heim á leið. Ég hafði komið gangandi í vinnuna og rölti ásamt einni úr hópnum áleiðis að Hlemmi. Rétt við Lindargötu ákvað ég að athuga hvort fyrrum kórsystir mín væri heima. Heppnin var með mér, Lilja var heima. Hringdi í einkabílstjórann og bað hann um að koma og sækja mig um þrjú. Hafði því ágætis tíma fyrir smá spjall og kaffisopa.

Þegar Oddur Smári sótti mig fórum við eina ferð í Sorpu og skruppum einnig í Krónuna. Norska esperanto vinkona mín hafði haft samband og við ákváðum að hittast hjá henni um fjögur leytið. N1 ungi maðurinn var kominn heim svo ég fékk strætókortið um leið og ég sótti esperantogögnin. Einkabílstjórinn skutlaði mér til Inger en ég kom svo heim með strætó upp úr klukkan sex.

Á fimmtudagsmorguninn var ég mætt í Laugardalinn rétt eftir opnun, um átta. Þegar ég kom heim aftur sinnti ég smá heimilisverkefnum áður en ég græjaði mig fyrir tveggja daga heimsókn austur á Hellu. Ýtti aðeins við ungu mönnunum til að kveðja og brunaði svo austur upp úr hádeginu. Stoppaði um stund í Fossheiðinni, til að sækja mér faðmlög, spjall, kaffi og einnig til að fá að skreppa á salerni. Næstu tveir dagar liðu svo í rólegheitum, við alls konar dundur. Kom aftur í bæinn um tíu í gærkvöldi.