26.4.24

Síðasti föstudagurinn í þessum mánuði

Svaf heila níu klukkutíma í fyrrinótt og rúmlega það. Klukkan var að verða átta þegar ég vaknaði í gærmorgun og ég er viss um að ég var sofnuð fyrir klukkan hálfellefu á miðvikudagskvöldið. Kannski sjóferðin hafi haft þessi áhrif, amk var húðin á mér mjög mjúk. Fyrsti hálftíminn, eftir að ég var komin á fætur, fór í smá prjón og fyrstu æfingalotu dagsins. Um hálfellefu var ég komin til esperanto vinkonu minnar. Var hjá henni í tæpan einnoghálfan tíma og amk helminginn af þeim tíma vorum við að lesa esperanto saman. Var komin heim upp úr klukkan tólf. Um hálftvö skrapp ég út í smá göngutúr. Stillti ekki forritið í símanum en þegar ég settist smá stund niður hálftíma síðar hafði ég labbað 2,6km og var stödd hinum megin við Öskjuhlíð. Þegar ég hélt för áfram skömmu síðar ákvað ég að stilla forritið á göngu. 44 mínútum og 3,2km síðar settist ég á bekk í Eskihlíðinni og átti þá aðeins innan við 300m heim. Sat þarna í um tíu mínútur og þetta gerði það að verkum að þegar ég kom heim þurfti ég ekki að draga hægri fótinn upp tröppurnar eins og ég þarf oftast að gera eftir amk tuttugu mínútna göngur.

25.4.24

Aftur í sjóinn

Gleðilegt sumar!

Aftur var ég komin á stjá um hálfsex í gærmorgun og hagaði ég fyrsta eina og hálfa tímanum mjög svipað og á þriðjudagsmorguninn. Var mætt í vinnuna upp úr klukkan hálfátta. Í gær var framleiðsludagur. Framleiddum allt daglegt uppsafnað fyrir hádegi. Tókum kaffitíma og fundarpásu um hálftíu en í gær var einn samstarfsmaður minn að vinna sinn síðasta vinnudag eftir rúmlega 43 ár í fjármálageiranum. Hann byrjaði víst hjá Iðnaðarbankanum þann 22. desember 1980. Í tilefni tímamótanna fékk hann að velja hvað væri haft með kaffinu og hann vildi brauðtertur. Það voru líka marengstertur en þær voru vegna þess að markmiðum marsmánaðar var náð og gott betur en það. Ekki hefur verið tími fyrr í þessum mánuði til að fagna því. Ég freistaðist í smá flís af einni brauðtertunni en sleppti sykurbombunum. Hefði annars mjög líklega endað all snarlega á salernisferð með pípandi...


Eftir hádegi unnum við að endurnýjun til klukkan að verða þrjú. Þá gengum við frá deildinni. Stimplaði mig út tíu mínútum áður en átta tímunum var náð. Ef við náum ekki átta tíma markinu þá eigum við að skrá það sem upp á vantar á kerfi sem kallast bónustímar. Ég skráði semsagt tíu mínútur á það kerfi í gær. Hringdi í pabba á leiðinni heim. Hann var kominn á sinn bíl aftur, hafði sótt hann í bæinn á þriðjudaginn og skilaði þar með lánsbílnum í leiðinni. Ég stoppaði heima í rúma klukkustund og fékk mér smá snarl. Svo lét ég loksins verða af því að skreppa í Nauthólsvík í sjóinn. Hafði ekki farið síðan 5. janúar sl. Sjórinn var 6°C, ég notaði strandskóna og sleppti hönskunum. Það var í lagi fótanna vegna en mér varð smá kalt á fingrunum. Kannski bara ágætt því fyrir vikið var ég ekki of lengi. Fór tvisvar sinnum 2 mínútur með 15 mínútna stoppi í heita pottinum í millitíðinni þar sem ég hitti systur sem voru í sjósundshópnum mínum. Endaði svo á fimm mínútna gufu baði áður en ég fór upp úr og heim. 

24.4.24

Soðin ýsa

Rumskaði um fimm í gærmorgun, alveg í spreng. Fór á salernið og skreið svo aftur upp í rúm. Gat ekki sofnað aftur þannig að ég var komin á stjá um hálfsex. Eftir að hafa fengið mér sítrónuvatn og tannburstað mig settist ég um stund með prjónana til að liðka aðeins upp þá hægri. Eftir tvær umferðir eða um tvöhundruð lykkjur tók ég til við æfingarnar. Notaði léttari lóðið við sumar af þeim og skiptist þá á að halda á þeim, ýmist með vinstri eða hægri. Æfingalotan stóð yfir í tæpt korter. Hugsanlega mun ég kaupa mér annað sett að 1kg og 1,5kg lóðum til að hafa möguleikann á að hafa jafnþungt í báðum höndum. Eftir æfingalotuna setti ég inn færslu dagsins og vafraði aðeins um á netinu þar til kominn var tími til að leggja af stað í vinnuna. Var á vinnustaðnum í akkúrat átta tíma og svo mætt í sundið um fjögur. Þá var kalda potts vinkona mín að fara. Ég synti 400m, fór tvisvar sinnum 4 mínútur í 9°C kalda pottinn, 15, mínútur í gufu, tíu mínútur í sjópottinn og smá "sólbað" í þrjár mínútur. Kom við í Fiskbúð Fúsa á heimleiðinni. 

23.4.24

Keypti lóð i gær

Var komin á fætur um sex í gærmorgun. Mætti í vinnu tuttugu mínútum fyrir átta. Eftir að hafa fyllt á vatnsbrúsann minn og spjallað smástund við nokkra vinnufélaga á kaffistofunni fór ég niður í kortadeild. Fyrirliðinn var komin aðeins á undan rétt til að taka stöðuna á ákveðnum formum og umslögum. Opnaði hvelfinguna með henni. Þegar hún var búin að safna sínum gögnum snéri ég mér að því að hlaða inn nýjustu skránum og útbúa skiptiblöð. Var byrjuð í innleggjunum nokkru fyrir klukkan níu. Gat ekki enn sent tímaskýrslu síðust viku til samþykktar í tempo og sú sem á að samþykkja kom til mín og sagðist ekki finna mig. Sendi aftur póst á mannauð og mannauðsstjóri framsendi á tæknimann. Það var búið að kippa þessu í liðinn fyrir klukkan ellefu. Annars kláruðust mín verkefni stuttu fyrir klukkan þrjú í gær og ég var komin í sund um hálffjögur. Kalda potts vinkona mín var komin á svæðið en hún var engu að síður að fara í sína fyrstu ferð í kalda pottinn um leið og ég. Veðrið var svo gott að það var margt um manninn og ég sleppti algerlega sundinu. Fór fjórar ferðir í þann kalda, eina í gufu, eina í sjópottinn og sat svo góða stund í sólbaði. Var að fara upp úr um hálffimm leytið. Kom við í Hreysti í Skefunni og keypti mér eitt eins kílóa lóð og annað hálfu kílói þyngra. Kostaði aðeins fjórtánhundruð krónur. Svo lá leiðin í Krónuna þar sem ég verslaði inn fyrir fjórtánþúsund krónur. Lagði í Blönduhlíðinni þegar heim var komið og fékk Odd til þess að koma og hjálpa mér inn með vörur og dót. 

22.4.24

Ný vinnuvika

Fór á fætur um hálfníu í gærmorgun. Þrátt fyrir hið fínasta veður fór ég ekki í neina göngu. Vafraði um á netinu, lagði kapla, prjónaði, las og horfði á sjónvarp. Eftir Fullham-Liverpool leikinn tók ég dótið mitt saman, kvaddi pabba og ók í bæinn á bílnum hans. Við vegamótin í Árnessýslu ákvað ég að stoppa aðeins á planinu og sinka símann minn við bílinn. Ég var svo rétt komin í gegnum Selfoss þegar systir mín hringdi í mig. Við töluðum saman alla leið í bæinn, hættum rétt áður en ég kom að Brimborg. Fékk stæði við hliðina á bílnum mínum. Færði dótið mitt yfir í hann. Læsti pabba bíl og setti svo bíllykilinn hans í umslag og lyklabox sem er við aðalinngang fyrirtækisins. Sendi manni frænku minnar sms um staðsetningu bílsins sem er að fara að fá krók á sig í vikunni svo pabbi geti notað kerruna sína. Kom heim rétt fyrir hálfátta. Báðir bræðurnir voru heima. Oddur kom fram skömmu síðar og við horfðum saman á þrjá þætti úr sarpinum. Afhenti bræðrunum veiðikort ársins. Sumargjöf til þeirra að þessu sinni. Sumardagurinn fyrsti er reyndar ekki fyrr en á fimmtudaginn en ég held að það hafi byrjaði í gær.