28.3.17

Frænkunöfnuhittingur

Gærdaginn tók ég snemma og var mætt í Laugardalinn rétt um það bil sem verið var að opna. Uþb fimm korterum síðar var ég mætt í vinnuna. Þar leið dagurinn frekar hratt. Klukkan fjögur var ég mætt vestur í bæ til nöfnu minnar sem er systurdóttir mömmu. Anna frænka er semsagt á landinu þessa dagana og það lítur út fyrir að hún verði hérna meira og minna næsta árið, þarf að hala sér inn 20 einingum í HÍ til að ljúka ákveðnu námi þar. Það var eins og við hefðum hist síðast í gær en við höfðum samt um helling að tala og vorum hvergi nærri búnar þegar ég kvaddi á tíunda tímanum um kvöldið. Þá vorum við búnar að fá okkur kaffi, vatn, dýrindis ofnbakaðan kjúklingarétt með ofbökuðum sætum kartöflum og sallat með. Það var ekkert fyndið hversu hratt tíminn flaug frá okkur en við getum huggað okkur við það að á meðan og þegar nafna mín verður á landinu munum við hittast nokkuð reglulega og því ber að fagna.  :D

26.3.17

Í foreldrahúsum

 er strætó farinn að ganga upp og niður Hverfisgötuna í stað þess að fara Sæbrautina. Mér skilst að þetta sé tímabundið á meðan einhverjar framkvæmdir standa yfir. Ég fór semsagt úr vagninum við Þjóðleikhúsið ca tuttugu mínútum fyrir átta á föstudagsmorguninn og rölti þaðan í vinnuna. Að loknum vinnudegi tók ég svo 13 heim frá Stjórnarráðinu. Brynja vinkona sótti mig heim rétt fyrir hálfátta um kvöldið og við fórum saman að sjá farsann "Úti að aka" í Borgarleikhúsinu klukkan átta. Hláturtaugarnar voru heldur betur kitlaðar. Á eftir rúntuðum við alla leið niður í bæ, lögðum við Búlluna og settumst inn á Slippbarinn þar sem vinkona mín bauð mér upp á vínglas en fé sér sjá kaffi-latte. Tíminn var auðvitað alltof fljótur að líða og var klukkan langt gengin í eitt þegar ég kom heim.

Stillti á mig vekjaraklukku til að mæta örugglega í sund strax um átta. Vaknaði auðvitað á undan klukkunni eftir tæplega sex tíma svefn. Dreif mig í sundið og gaf mér góðan tíma í rútínuna. Hafði samt uþb hálftíma heima áður en ég fór með esperanto-bakpokann yfir til norsku vinkonu minnar. Við lásum eina og hálfa bls. í Kon-Tiki. Skrapp í Krónuna áður en ég fór aftur heim. Oddur Smári aðstoðaði mig við að ganga frá vörunum. En ég staldraði eiginlega ekkert við heima heldur tók til ýmislegt til að hafa með mér austur þar sem ég ætlaði að gista eina nótt.

Þegar ég var búin að kveðja synina, ferma bílinn og sest undir stýri tók ég upp gemsann til að láta pabba vita að ég væri að leggja í hann en ætlaði jafnframt að koma við á einum stað á Selfossi þá sá ég að Helga systir var nýbúin að reyna að ná í mig. Hringdi til baka og spjallaði stuttlega við hana. Þau mágur minn voru í borginni en á leið á árshátíð Advania um kvöldið. Var komin í Fossheiðina upp úr klukkan tvö, sennilega nær hálfþrjú, stoppaði þar í góðan klukkutíma. Ég var nýkomin austur á Hellu þegar nafna mín og hálfdönsk frænka hringdi og sagðist vera á landinu um þessar mundir. Við ákváðum að hittast strax eftir helgi. Ekkert svo löngu eftir þetta samtal hringdi æskuvinkona mín, sem býr á Egilsstöðum, í mig til að óska mér til hamingju með daginn um daginn og heyra í mér.

Kláraði dokku tvö í sjalið en á líklega eftir að prjóna úr næstum tveimur dokkum enn áður en ég felli af.

24.3.17

Aftur komin helgi

Á miðvikudaginn fór ég á lánsbílnum beint í vinnuna. Hafði sunddótið með mér og geymdi það í skottinu. Strax eftir vinnu fór ég beint í Laugardalinn. Synti nú ekki nema 300 metra en fór þrisvar sinnum 2 mínútur í kalda pottinn og í heita potta á milli. Endaði á því að slaka vel á í gufunni. Kom heim rétt fyrir sex. Um sjö leytið útbjó ég kjúklinga ofnrétt og sauð bulgur til að hafa með. N1 strákurinn var ekkert svangur þegar hann kom heim úr vinnu og hinn ungi maðurinn fékk sér bara til málamynda að ég held. Hann er alls ekki matvandur en sleppti mestu af grænmetinu úr réttinum.

Í gærmorgun skutlaði einkabílstjórinn mér í vinnuna. Hann átti tíma hjá sérfræðingi í Mjóddinni aðeins seinna um morguninn og N1 sonurinn var með strætókortið því hann var á vakt. Einkabílstjórinn sótti mig svo aftur rétt fyrir fjögur. Ég skutlaði honum heim og náði í sunddótið, Að þessu sinni synti ég í uþb tuttugu mínútur, fór jafnoft og "lengi" í kaldapottinn og á miðvikudaginn, heita potta og sjópott á milli og endaði á gufuferð. Afar, afar hressandi, verð ég að segja/"skrifa".  :-)

22.3.17

Smá mánudagstilfinning í dag

Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um hálfsjö í gærmorgun og gaf mér góðan tíma í sund, pottaferðir og spjall. Ég kom heim aftur rétt fyrir níu og þá var Oddur Smári farinn í skólann en Davíð Steinn ekki vaknaður enda í vaktafríi og að jafna sig eftir flensu. Ég fór ekkert meira af bæ en brallaði ýmislegt hérna heima, þennan seinni sumarfrísdag. Aðallega var lesið og prjónað í bland við hæfileg heimilisstörf. Svo var ég svo heppin að Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn.

21.3.17

Í smá sumarfríi

Ég var mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnum, um átta, á laugardagsmorguninn. Forritunarkeppniskappinn fór labbandi í HR einhvern tímann eftir að ég var farin. Dagurinn þar hófst með morgunverði milli níu og tíu en keppnin hófst um tíu. Það voru tuttugu lið, mis-mannmörg, í keppninni. Oddur Smári stofnaði sitt lið sjálfur utan um sjálfan sig og nefndi það "The point". Rétt fyrir helgina spurði einn kennarinn hvort hann gæti/vild bæta við sig einum í liðið. Oddur samþykkti það en þetta var svo stuttu fyrir keppnina að hinn pilturinn fékk óáritaðan bol á meðan forritunarkappinn minn fékk bol með nafni liðsins.

Þegar ég var búin í sundi hafði ég rétt smá tíma til að skreppa heim, ganga frá sunddótinu og taka m.a. til esperantodótið mitt. Norska esperanto vinkona mín bauð upp á döðlutertu skreytta með rjóma og tölunum 49 í tilefni afmælis míns deginum áður. Eftir esperanto hittinginn verslaði ég í Krónunni. Eftir að hafa farið heim með þær vörur og gengið frá þeim fór ég á Kringlusafnið og skilaði þremur bókum. Held að það hafi elt mig 5 bækur heim í staðinn (er ekki búin að kíkja betur í bókapokann síðan). Um fimm leytið sótti ég Odd og tölvuna hans í HR. Þeir höfðu lent í 8. sæti. Fljótlega eftir að við komum heim fór ég að hafa mig til fyrir árshátíð RB. Þemað var "The great Gatsby" tímabilið. Sviðið sem ég vinn á gat hist á 101 hótel milli hálfsex og sjö. Ég mætti þangað korter fyrir sjö og náði að fá mér eitt hvítvínsglas áður en við löbbuðum yfir í Gamla bíó þar sem árshátíðin var haldi. Fínasta árshátíð en ég ákvað samt að fara heim fljótlega eftir miðnætti.

Tók því rólega frameftir sunnudagsmorgninum en svo setti ég í töskur og kvaddi synina áður en ég hélt austur yfir fjall. Stoppaði góða stund hjá Jónu og Reyni en var komin á Hellu um fimm. Svaf alveg til níu í gærmorgun, og svaf þar með af mér sundferð með pabba mínum. Ég var reyndar búin að ákveða, þegar ég fór að sofa, að vera ekkert að rífa mig upp og ekki stilla neina klukku á mig. Eftir hádegi fór ég labbandi til föðursystur minnar með prjónana mína og stoppaði hjá henni á annan tíma. Seinna um daginn hjálpaði ég mömmu við að þvo á sér hárið. Var komin í bæinn fyrir klukkan tíu í gærkvöldi.