26.9.21

Sunnudagur

Korter yfir átta var ég komin í mína fyrstu ferð af þremur í kalda pottinn í Laugardalslauginni. Fór eina ferð í þann heitasta og eina í sjópottinn áður en ég synti 300 metra á brautum 7 og 8. Synti helminginn á bakinu því ég þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var því alveg sama þótt "læki" meira inn fyrir sundhettuna en gerist þegar ég syndi bara á bringunni eða skriðsund. Rétt fyrir hálftíu lagði ég bílnum fyrir framan heima, tók með mér vegabréfið og geymdi sunddót og annað dót í skottinu á meðan ég rölti á kjörstað og nýtti kosningaréttinn. Það var engin röð svo þessi gjörningur tók enga stund. Lengsta tímann tók sennilega að labba báðar leiðir til og frá Hlíðarskóla en það er samt ekki langur spotti. Setti handklæði í þvottavél og pakkaði niður fyrir skrepp út úr bænum. Davíð Steinn var kominn á fætur áður en ég lagði af stað austur og hann tók að sér að hengja upp úr þvottavélinni. Vakti Odd um tólf til þess að kveðja hann líka og fór svo beinustu leið austur á Hellu. 

25.9.21

Kjördagur

Slökkti á vekjaraklukkunni korteri áður en hún átti að hringja. Fór á fætur og gaf mér tíma í netvafr áður en ég labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á vélinni fram að hádegi, að hlaða inn og troða í fram að kaffi og taka á móti, telja og skoða eftir kaffi. Eftir hádegi leysti ég þá sem var í bókhaldinu af þar til hún kom frá því að fara með mömmu sína í læknisheimsókn. Hættum vinnu um þrjú og þrjár af okkur fjórum fórum yfir í K2 þar sem verið var að kveðja starfsfólk sem hefur hætt sl. tæp tvö ár. Fimm aðilar alls en fjögur af þeim mættu og tóku á móti blómvendi og bókargjöf. Ég fékk svo far alla leiðina heim eftir uþb þriggja kortera stopp í kveðjuveislunni. Ég gat ómögulega ákveðið mig hvort ég ætti að skreppa í sund eða sjóinn. Það hefði reyndar átt að vera sjóferð því ég var búin að ákveða að sjá til þess að það verði opið á föstudögum á veturnar í Nauthólsvík. Til þess að það virki verð ég auðvitað að fara í Nauthólsvík á föstudögum. Nú hef ég hins vegar ekki mætt þangað tvo föstudaga í röð. 

24.9.21

Síðasti föstudagurinn í mánuðinum

Vekjaraklukkan vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Hafði samt tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna þvert yfir Klambratún, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut, Laugaveg, Hverfisgötu og Ingólfsstræti að Kalkofnsvegi. Var mætt í vinnu rúmlega hálfátta. Tók strax til við að sinna smá bókhaldsstörfum áður en við kveiktum á framleiðsluvélinni og sóttum alla vagna inn á lager. Þá var kominn tími til að fara fram með nestið og vatnsflöskuna. Skipta um bol, fá sér smá kaffi og prjóna til klukkan átta. Vinnudagurinn leið ágætlega hratt. Vorum að til klukkan að verða hálffjögur. Þá labbaði ég heim yfir Skólavörðuholtið og nennti hvorki í sund né sjóinn heldur hélt mig heima það sem eftir lifði dags. 

23.9.21

Fimmtudagur

Það var fríkeypis í strætó í gær og ég nýtt mér það og tók vagninn korter yfir sjö. Var mætt í vinnu eftir sex vikna frí um hálfátta, ekki fyrst á mitt vinnusvæði en númer tvö af fjórum. Ein samstarfskona mín er í fríi þessa vikuna. Mitt hlutverk var að fara á móttökuendann á framleiðsluvélinni en fyrst tók ég til þær tegundir sem átti að framleiða í fyrstu tveimur verkefnunum. Eftir kaffi var ég frammi í pökkun og eftir hádegi var ég á ítroðsluendanum á vélinni og þá vorum við að vinna í endurnýjun, allt daglegt var búið. Hættum vinnu upp úr tvö og ég fékk far heim. Kalda potts vinkona mín var búin að setja sig í samband og spyrja hvort ég kæmi í sund og við hittumst í Laugardalslauginni um fjögur. Syntum ekkert en fórum sex sinnum í kalda og enduðum í gufunni.

22.9.21

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí

Ég var klædd og komin á ról um hálfátta í gærmorgun. Var heimavið mest allan daginn. Lánaði Oddi bílinn um ellefu leytið svo hann kæmist í starfsviðtal. Dagurinn hjá mér notaður í svipaða hluti og marga aðra innidaga. Klukkan átta bankaði ég upp á hjá nágrannanum á neðri hæð og var fyrst til að mæta á boðaðan húsfund. Á fundinn mættu fulltrúar úr sex íbúðum af átta. Eftir rúmlega klukkutíma fund var niðurstaðan sú að bíða með allsherjar framkvæmdir, hafna báðum tilboðunum og fá frekar múrara í að fylla í sprungur þar sem lekur. Ef múrarinn mun segja okkur að betra væri að fara í almennt viðhald munum við hlýða því en fáum líklega ekki eins gott tilboð í verkið og við vorum með. Ef múrarinn gerir hins vegar engar athugasemdir, lokar bara þessum sprungum, þá tökum við stöðuna eftir 3-4 ár. Í millitíðinni myndi ég láta taka gluggana í gegn hjá mér. Ég lét það alveg í ljós að ég hefði helst viljað fara í þessar framkvæmdir og benti á að með því að fresta þeim yrði þetta bara dýrara dæmi fyrir alla. Eins var samþykkt að segja sig úr húseigendafélaginu.