18.3.24

Enn lífsmark í nýjasta gosinu

Vaknaði frekar snemma í gærmorgun. Var komin á fætur um hálfátta. Rétt fyrir tíu var ég komin í sund, alveg á sama tíma og kalda potts vinkona mín. Þegar við vorum í okkar þriðju ferð í kalda mætti ein systir hennar og miðjunafna mín á svæðið. Hittum hana í sjópottinum þegar við vorum búnar að fara í gufu. Þær tvær og ein til sungu afmælissönginn fyrir mig. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fórum við í steina pottinn í smá stund. Svo kvaddi systirin en við Hrafnhildur fórum fimmtu ferðina í þann kalda og aðra ferð í gufuna. Hún kvaddi svo aðeins á undan mér. Ég var komin heim um tólf. Hringdi í pabba um hálftvö. Helga systir hringdi í mig um þrjú leytið og skömmu síðar skrapp ég í smá göngutúr. Um sex leytið eldaði ég mér einfaldan bleikjurétt. Annars vorum við Oddur að horfa á alls konar þætti. Davíð Steinn kom heim úr vinnu rétt fyrir átta. Hann á frívakt í dag og á morgun og næstu helgi.

17.3.24

Afmælisdagurinn sjálfur

Það eru 20.454 dagar síðan ég fæddist eða 56 ár. En aðeins um gærdaginn. Var komin snemma á fætur eða upp úr klukkan sex. Vafraði um á netinu, prjónaði smá og hitti á N1 soninn áður en hann fór í vinnuna. Var mætt í sund um hálfníu leytið. Synti 400m, fór þrisvar í kalda pottinn, einu sinni í nuddpottinn, einu sinni í sjópottinn og endaði í gufunni. Var komin heim aftur um tíu. Klukkutíma síðar skrapp ég til esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni til klukkan að verða tvö því fljótlega eftir að við vorum búnar að lesa tilbúna tungumálið kom dóttir hennar í heimsókn með dætur sínar tvær. Ég var að hitta yngri stelpuna í fyrsta sinn. Hún var frekar hissa að sjá mig en ég fékk samt bros áður en ég fór. Hinar þrjár mæðgurnar sungu fyrir mig afmælissönginn degi fyrirfram, sú yngsta af þeim varð 4 ára í endaðan október. Og svo fór að gjósa enn og aftur á Sundhnjúkagýga svæðinu í gærkvöldi. 

16.3.24

Afmælishelgi

Var komin á fætur um sex leytið í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu og glas af sítrónuvatni settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. N1 sonurinn kom fram um sjö og dreif sig skömmu síðar í vinnuna. Eftir netvafrið og smá blogg slökkti ég á tölvunni og færði mig yfir í stólinn. Tók fram prjónana og prjónaði sennilega í uþb 500 lykkjur. Þá var loksins komið að fyrstu æfingalotu dagsins. Það er reyndar alveg ágætis æfing að prjóna. Klukkan var að verða ellefu þegar ég dreif mig loksins í sund. Synti 500 metra, þar af um 150m á bakinu. Fór aðeins tvisvar í kalda pottinn, tvisvar í sjópottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í 42°C pottinn. Gerði æfingar í gufunni og heitu pottunum. Þvoði mér um hárið eftir sundið og kom svo við með bílinn á smurstöð á leiðinni heim. Hann var síðast smurður í janúarlok í fyrra. Fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim. Var að horfa á alls konar þætti með Oddi en tók fram prjónana öðru hvoru. 

15.3.24

Morgunhæna/fiskur

Rumskaði um fimm leytið í gærmorgun en tókst að sofna aftur eftir að hafa tappað af blöðrunni. Var komin á fætur upp úr klukkan átta. Byrjaði á því að vafra um á netinu. Tók svo fram prjónana í stutta stund áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Um ellefu var ég mætt í sund. Synti 400m fór tvisvar í kalda pottinn, einu sinni í nudd pottinn, einu sinni í gufu og endaði í smá stund í sjópottinum. Gerði æfingar bæði í nudd pottinum og í gufunni. Þegar höndin er búin að mýkjast upp get ég komið þumlinum aðeins lengra en að rótum löngutangar svo þetta er allt í rétta átt. Bjúgur og bólgur eru smá vandamál, bæði fyrst á morgnana og eins þegar fer að líða á daginn. Það kemur reyndar alltaf far eftir úlnliðshlífina sem ég nota aðeins þegar ég er á ferðinni utandyra (nema að sjálfsögðu í sundinu). Kom heim um hálfeitt og skömmu síðar kom Oddur fram. Rúmum klukkutíma síðar fórum við mæðgin vestur í bæ, á Fiskislóð. Keyptum þvott á bílinn áður en við fórum í Krónuna að versla. Oddur sá um að setja í pokana og bera þá fyrir mig. Ég gekk svo sjálf frá vörunum þegar heim var komið.

14.3.24

Sund og göngutúr

Í fyrrinótt svaf ég í einum dúr í rúma átta tíma, eiginlega tæpa níu. Var sofnuð fyrir ellefu á þriðjudagskvöldið og vissi næst af mér klukkan hálfátta í gærmorgun. Sú hægri er alltaf stirð og bólgin fyrst á morgnana. Byrjaði á netvafri og tölvustund fyrstu þrjú korterin eftir að ég var komin á fætur. Prjónaði svo tvær umferðir, meira en hundrað lykkjur, áður en ég gerði fyrstu æfingalotu dagsins. Var eitthvað að gæla við það að skreppa aðeins í sjóinn og bjó mér því til hafragraut um hálfellefu. Skipti svo um skoðun og var komin í Laugardalinn um eitt. Synti 400m á tuttugu mínútum og var í minni annarri ferð í kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti óvænt á svæðið. Saman fórum við þrjár ferðir í kalda, sátum góða stund á stólum og sóluðum okkur og fórum auk þess eina ferð í sjópottinn. Ég fór ekki með henni í heitasta pottinn en fór í staðinn í nuddpottinn, 42°C pottinn og gufuna. Gerði æfingar bæði í heita pottinum og í gufunni. Klukkan var byrjuð að ganga fjögur þegar ég fór upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Heilsuhúsinu í Kringlunni á leiðinni heim. Um sex leytið skrapp ég svo í smá göngutúr og var langt komin með hringinn sem ég fór þegar ég hitti á hjón sem ég þekki skammt frá húsi blindra félagsins. Þau voru að koma af fundi þaðan. Spjölluðum í amk tíu mínútur og sjálfvirka kerfið í símanum tók saman gönguferðina þar en skráði ekki þann stutta spöl sem eftir var heim. En skrefin skráðust engu að síður og þau fóru yfir 5000 eftir gærdaginn.