11.12.17

Morgunstund

Áfram æðir tíminn og lætur alls ekki bíða eftir sér. Það er varla að maður geti hangið í kjölsoginu. Oftast er það nú ekki nauðsynlegt að vera að eltast neitt sérstaklega við tímann. Mér sýnist á öllu að ef ég punkta bara upp það sem verður að klárast fyrir jól og raða svo verkefnunum skynsamlega niður þá á þetta allt að hafast. Ég er amk búin að skrifa jólabréfin og annað þeirra er nú þegar á leiðinni til Englands og hitt leggur af stað til Danmerkur í dag.

Ég skrapp annars austur um helgina, hafði ekki farið tvær helgar í röð og það var alveg kominn tími til að kíkja. Ég fór klifjuð af dóti eins og vanalega en notaði svo ekkert af því þegar til kom. Mestallur tíminn fór í að prjóna með mömmu, þýða eitt jólabréf fyrir pabba og svo skrapp ég aðeins og kíkti á föðursystur mína upp úr hádeginu í gær.

Pabbi var mjög duglegur að setja upp hluta af jólunum. Fékk að hjálpa honum aðeins við að setja upp jólagardýnur á efri gardýnustangirnar í eldhúsinu og leist nú ekkert að blikuna að fylgjast með pabba príla af tröppunni og alla leið upp á innréttinguna. Hann lofaði nú að fara varlega, vildi gera þetta sjálfur og það var ekki að sjá að "prílarinn" væri orðinn 83 ára.

Hafði annars ætlað mér að vinna í jólahugvekjunni. Kollurinn er fullur af orðum og hugmyndum en ég hafði einhvern veginn enga eirð til að setjast niður yfir punktana sem þegar eru komnir í skjalið. Mér finnst samt að það sé ekki langt í að ég detti í skrifstuðið og þá vona ég svo sannarlega að ég sitji fyrir framan tölvuskjá og hafi góðan tíma.

3.12.17

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Þetta er önnur helgin í röð sem ég fer ekki út úr bænum og austur. Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt upp úr átta. Hafði smá stund aflögu heima eftir sundið áður en ég skrapp í esperanto hitting til norsku vinkonu minnar. Var komin heim aftur upp úr klukkan tólf. Tæpum tveimur tímum seinna skutlaði einkabílstjórinn minn mér út að Eiðistorgi og hann notaði ferðina til að skreppa með plast, pappír og fleira í Sorpu.  Á Eiðistorgi var verið að sýna ballett, milli klukkan tvö og þrjú, þó nokkuð margir hópar sem eru í ballettskólanum á Seltjarnarnesi en skólinn er víst til húsa þarna á Eiðistorgi. Tvíburar Brynju vinkonu voru í fyrsta hópnum. Þetta var mjög skemmtileg sýning, atriðin ekki of löng en maður fékk að sjá ýmsa ballettakta, allt frá byrjendum og upp í unglinga.

Rétt upp úr þrjú vorum við vinkonurnar sestar inn í Hannesarholt þar sem við sátum næstu tvo tímana. Áður en hún skilaði mér heim tókum við smá rúnt yfir í annan bæjarhluta.

Ég var komin ofan í kalda pottinn 12 mínútur yfir átta í morgun. Sat þar í rúmar þrjár mínútur en synti svo í næstu tuttugu mínútur áður en ég fór aftur í þann kalda. Eftir þá ferð fór ég í sjópottinn og svo enn og aftur í þann kalda. Endaði svo stutta stund í gufunni áður en ég fór upp úr. Hitti óvænt þá sem ég heimsótti í Skagafirðinum er ég var á leiðinni til Helgu systur í ágúst sl. Eftir tíu mínútna spjall dreif hún og hennar maður sig í sundið en ég kom við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim.

Ég er annars nýkomin heim úr árlegu laufabrauðshittingi með frændfólki mínu. Vorum alls sjö og skárum út 80 kökur. Var mætt fyrst rétt fyrir tvö og við vorum búin að skera og steikja tveim tímum seinna. Og næst liggur leiðin í kirkjuna mína en þar er aðventukvöld í kvöld og stjórnin ætlar að hittast á undan til að undirbúa smá góðgæti sem verður á boðstólum eftir dagskrána.

29.11.17

Nokkrar línur fyrir svefninn

Ég kveikti á tölvunni í kvöld til þess að senda Veitum álestrartölur af rafmagns- og hitamælum íbúðarinnar. Báðir þessir mælar eru niðri í kjallara, annar í þvottahúsinu en hinn á ganginum fyrir framan.

Eftir vinnu í gær tók ég strætó á Hlemm og nr 14 þaðan í Laugardalinn. Kaldi potturinn var lokaður og tómur en ég synti í tæpan hálftíma, flatmagaði um stund í sjópottinum og endaði að gufu áður en ég fór upp úr. Var komin heim upp úr klukkan sex og byrjaði á því að hringja í pabba.

Hluta af vinnutímanum í dag notaði ég í að hreinsa til á heimasíðu óháða safnaðarins. Fór yfir allar tilkynningasíðurnar, afritaði textana yfir í word-skjal og ef í ljós komu leiðinda linkir eftir innbrot þá eyddi ég þeim textum einfaldlega út. Ég á aðeins eftir að athuga hvort svona linkir leynist í textunum sem eru bundnir við hnappana í svörtu stikunni.

Fór beint í sund eftir vinnu. Nú var kaldi potturinn opinn svo ég fór beint ofan í hann þegar ég kom út. Þar fyrir var maður sem ég veit að mælir hitastig pottsins reglulega svo ég spurði hvort hann hefði mælt í dag og hvað hitastigið væri. Jú, hann hafði mælt pottinn innan marka, 7,8°C. Við fórum aðeins að ræða um kalda potta og sjóböð og ég gleymdi tímanum, sat í pottinum í rúmar sjö mínútur. Synti svo í hálftíma og fór aðeins í sjópottinn áður en ég fór uppúr. Var komin heim á svipuðum tíma og í gær.

28.11.17

Lítið eftir af nóvember

Þar sem ég fór ekki austur um síðustu helgi var ég mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun, um átta á sunnudagsmorguninn. Var komin nógu snemma heim aftur til að skutla N1-unga manninum á vakt og hleypti ég honum út við stöðina við Stórahjalla átta mínútum fyrir tíu.

Hinn ungi maðurinn fór á fætur upp úr tólf til að koma með mér og undirbúa maulið eftir messuna í óháðu kirkjunni um eitt. Allt var nokkurn veginn klárt rétt fyrir tvö og þá gaf ég honum leyfi til að skreppa frá. Sjálf settist ég inn í kirkju og naut messunnar. Jazztríó sá um tónlistina og spilaði jólalög í jazzútsetningum á milli ritningalestra og predikunnar. Seinni messuna í mánuðinum er alltaf altarisganga og eftir að ég hafði þegið brauðið og og blóðið laumaði ég mér niður í eldhús til að sækja vatn úr ísskápnum og leggja lokahönd á maulið. Korteri eftir að messu lauk kom Oddur Smári aftur. Við tókum því þó rólega þar til flestir voru farnir en þá tók það okkur klukkutíma að ganga frá og vaska upp. Ungi maðurinn sá um að koma öllu niður í eldhús og laga og þurrka af borðunum á meðan ég sá um uppvaskið og fráganginn í eldhúsinu.

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær var ég eitthvað að spá í að drífa mig annað hvort á Valsvöllinn eða í Lífsspekifélagið um kvöldið. Hafði aðeins tekið þá ákvörðun á sleppa sjósundinu þar sem ekki var mælt með því vegna mengunnar. Reyndin var svo sú að ég var heima, horfði á megnið af körfuboltalandsleiknum og bjó til ein tíu jólakort, þau fyrstu og kannski síðustu kortin á þessu ári. Allir á jólakortalistanum fá þó jólakveðju því ég á til "hinsegin" jólakort.

26.11.17

Skautað yfir nýliðna viku

Fór í sjósund, eigilega sjóbusl, í ca. 3 mínútur í 1,6°C sjónum rétt upp úr fimm á mánudaginn var. Hafði til kvöldmat, horfði á fréttir og bakaði svo uppáhalds smákökusortina hans Odds Smára.

Eftir vinnu á þriðjudaginn, tók ég stætó upp á Hlemm og annan þaðan sem stoppaði rétt við Laugardalslaugina. Um kvöldið bakaði ég uppáhlalds smákökusortina hans Davíðs Steins.

Rétt fyrir átta á miðvikudagskvöldið sótti ein nafna mín og frænka mín mig. Við vorum boðnar í heimsókn til einnar sameiginlegrar vinkonu. Þar var vel tekið á móti okkur og flaug tíminn svo hratt að áður en við vissum af var klukkan að nálgast ellefu.

Fór í sund, með strætó, beint eftir vinnu á fimmtudagskvöldið. Kom heim fyrir sex og var farin aftur með strætó niður í bæ rétt fyrir klukkan átta. Hitti vinnufélagana á K1 í Matarkjallaranum. Það kvöld leið jafn hratt og kvöldið áður. Fékk far með einni heim.

Á föstudagskvöldið var ég mætt í Lífspekifélagið stuttu fyrir klukkan átta til að hlusta á skemmtilega kynningu/fyrirlestur um Joga Nídra. Engin af mínum vinkonum sem eru í félaginu komust en það var allt í lagi. Þar sem mér finnst svo gaman að trítla upp stigann, fór ég upp eftir fyrirlesturinn og fékk mér smá kaffi. Labbaði svo hálfa leiðina heim á eftir, eða upp á Hlemm og tók strætó þaðan. Var komin heim um tíu.

Í gærmorgun byrjaði ég á því að fara í sund stuttu eftir opnun. Komst heim að ganga frá sunddótinu áður en ég dreif mig yfir til esperanto vinkonu minnar. Frá henni lá svo leiðin í Krónuna við Granda. Það togaðist á í mér að halda mig bara heima við restina af deginum eða skreppa í Lífsspekifélagið. Það fyrrnefnda varð ofaná þótt ég hafi reyndar ekki nýtt daginn alveg jafn vel og ég hafði hugsað mér. Datt m.a. í að horfa á eina jólamynd á DR1.