15.1.21

Föstudagur, laugardagur eða sunnudagur

Ég heyrði þegar pabbi fór í sund rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Ég var ekki með sunddótið með mér og ætlaði mér að kúra aðeins lengur. Það gekk samt ekki upp því ég var glaðvöknuð. Gafst upp á að reyna að sofna aftur rétt fyrir sjö og fór á fætur. Kveikti á einni tölvunni hans pabba og vafraði um á netinu í ca. klukkustund. En þegar pabbi kom heim úr upp úr hálfníu var ég búin að færa mig inn í eldhús og að leggja kapla. Fljótlega settist ég inn í stofu með bók. Er búin með bókina sem Davíð Steinn gaf mér í jólagjöf og næst síðustu bókina sem ég er með af safninu: Grafin undir gistihúsi, sláandi sönn saga af svikráðum, misnotkun og morðum eftir Ryan Green þýdd af Gísla Rúnari Jónssyni. Í gær byrjaði ég á annarri bókinni sem Oddur Smári gaf mér og er líka að lesa síðustu bókina sem ég er með af bókasafninu: Leyndarmál systranna eftir Diane Chamberlain.

Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu þar sem við fengum aspassúpu og dýrindis kjúklingarétt. Ég tók aðeins til við prjónana eftir að við komum til baka aftur en ég var líka að leggja kapla, lesa og vafra á netinu fram að kaffi. Um fjögur, strax eftir kaffi, kvaddi ég pabba tók mig saman og lagði af stað í bæinn. Tók með barnastígvél sem Magga hans Sævars hafði komið með kvöldið áður. Hitti á Kristínu dóttir hennar við Rauðavatn og afhenti henni þessi stígvél.

Upp úr hádegi í dag er ég aftur á leið út úr bænum í tvær til þrjár nætur. Verð ekki með tölvuna meðferðis svo skrifin liggja niðri á meðan. Er nýlega komin heim úr sundi og á enn eftir að hella mér upp á kaffi. Best að fara að vinna í því.

14.1.21

Morgunstund

Þrátt fyrir að ekki væri vinnudagur í gær hafði ég stillt vekjaraklukkuna á mig. Stillti hana á 7:40 en á vinnudögum er ég mætt í vinnu á þeim tíma. Vaknaði amk klukkutíma áður en vekjaraklukkan átti að vekja mig og var búin að slökkva á henni og  koma mér fram úr fletinu áður en klukkan varð hálfátta. Skipti um á rúminu en beið til klukkan átta með að fara með rúmfötin niður í þvottahús í þvottvélina. Klukkan var langt gengin í níu þegar ég mætti í laugardagslaugina, á sundleikfimitíma sem fer fram á þeim brautum sem ég nota oftast til að synda. Byrjaði á því að fara tvær ferðir í kalda og þann heitasta á milli og eftir. Eftir seinni heita potts ferðina fór ég í pottinn sem alltaf er kallaður sjópotturinn. Það hefur reyndar ekki verið sjór í honum í marga mánuði og stundum er hann lokaður. Í gær var að minnka í honum og einn sem alltaf er í sundi á þessum tíma á morgnana og var komin ofan í pottinn sagði að það væri fjara. Kannast við þennan mann og alltaf hefur konan hans mætt með honum og ég hef stundum spjallað við hana. Hún var þó ekki með í gær og óvíst hvort hún komi aftur því hún er komin með alzeimer á það stig að hún þekkir oft ekki manninn sinn og rekur hann út. Hann sagði mér að hún væri komin með pláss á Eir og komin í aðlögun þar. Synti 100 metra á braut eitt en þá var leikfimin einmitt að klárast svo ég fór þriðju ferðina í kalda pottinn áður en ég synti 400 metra á braut 6 sem er alveg við hliðina á brautunum sem ég syndi oftast á.

Kom heim um hálfellefu, hengdi upp úr þvottavélinni og hellti mér svo upp á smá kaffi. Hringdi í Lilju vinkonu áður en ég tók mig saman og lagði af stað austur upp úr klukkan tólf. Kom við í Fossheiðinni hjá tvíburahálfforeldrum mínum. Kom svo pabba á óvart með því að hringja á dyrabjöllunni hjá honum um hálfþrjú. Útidyrnar voru læsta og ég nennti ekki að grafa eftir húslyklunum verandi með farangur með mér. Við pabbi fórum strax í smá kaplakeppni. Eftir kaffi settist ég með prjónana mína inn í stofu. Fann meira af samskonar garni þannig að ég ætti að ná í eins og eitt ungbarnateppi. Í kvöldmatinn fékk ég mér kalt hangiket með rófustöppu. Þar sem pabbi borðar heitan mat í hádeginu á Kanslaranum virka daga fær hann sér aðeins snarl á kvöldin. Hann bauð mér svo að fá mér hvítvínsglas eða tvö sem ég þáði og við fórum aftur í smá kaplakeppni.

13.1.21

Heimsókn á Hellu

Var búin að slökkva á vekjaraklukkunni og komin á fætur áður en hún hringdi í gærmorgun. Labbaði af stað í vinnuna nánast á sömu mínútunni og á mánudagsmorguninn. Engin auka framleiðsla var í gær en daglegu skammtarnir ívíð stærri. Engu að síður var allri framleiðslu lokið fyrir klukkan tólf. Tókum okkur góðan tíma í hádegismat en vorum eiginlega búin með öll verkefni fljótlega eftir að klukkan varð eitt. Ég stillti póstinn minn á sjálfvirkt svar um að ég væri ekki á vinnusvæðinu næstu fjóra virka daga. Svo var ég einnig búin að útbúa póst til að senda á fyrirtækið sem tekur á móti símtölum en ég gleymdi að senda hann. Fékk far heim úr vinnunni og var komin heim áður en klukkan varð þrjú.

Um hálffimm leytið fór ég í sund. Fór þrisvar í kalda, synti 500 og endaði í gufunni í amk tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim aftur. Bjó til grjónagraut í kvöldmatinn. Var búin að slökkva á sjónvarpinu áður en klukkan varð hálftíu og komin upp í rúm að lesa fljótlega eftir það. Sofnaði líklega áður en klukkan varð hálfellefu.

12.1.21

Seinni vinnudagurinn í þessari viku

Ég var vöknuð nokkru áður en vekjaraklukkan átti að hringja í gærmorgun. Var komin á fætur og búin að búa um á þeim tíma sem ég ráðgerði að vakna. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af lýsi, harðsoðið egg og tvö glös af vatni. Labbaði af stað í vinnu rétt áður en klukkan varð sjö. Hafði með mér m.a. vöfflusoppuna frá í fyrradag og þeyttan rjóma. Allri framleiðslu var lokið rétt fyrir tólf.  Tókum okkur rúman matartíma en vorum þó komnar inn á deild aftur fyrir eitt. Ég stoppaði þar aðeins í um tíu mínútur áður en ég fór fram aftur og hellti mér út í vöfflugerð. Vöfflujárnið í vinnunni er tvöfalt og ég gerði 10 og það var samt afgangur í fötunni sem ég tók með mér heim aftur. Rjóminn kláraðist. Við vorum fimm sem gæddum okkur á þessum veitingum. Upp úr klukkan tvö vorum við búnar að ganga frá öllu og þar sem ekkert lá fyrir ákváðum við að segja þetta gott og fara heim. Önnur af samstarfskonum mínum bauð okkur hinum tveimur far heim sem við þáðum.

Stoppaði heima í rúma tvo tíma áður en ég fór í Nauthólsvík og -0,3°C sjóinn. Það var háflóð og ískrapi þeim megin sem ég er vön að fara út í. Ég lét ekki krapið stoppa mig en fór samt varlega. Var ekki með tímavörð með mér en er nokkuð viss um að hafa verið útí þarna megin í uþb eina og hálfa mínútu. Þar sem það var flóð þurfti ég ekki að fara mjög langt en engu að síður varð ég einnig að passa mig þessa stuttu leið til baka. Fór svo aðeins í lónið áður en ég kom mér fyrir í heita pottinum um stund. Var komin heim aftur um sex. Þá setti ég upp kartöflur og steikti eitt flak af þorskhnökkum í fjórum bitum.

11.1.21

Vöfflukaffi í vinnunni

Í gærmorgun skutlaði ég N1 syninum á vakt rétt fyrir tíu og fór svo beint í sund. Fór fjórar ferðir í kalda pottinn, synti 500 metra þar af 150 á bakinu og sápuþvoði á mér hárið áður en ég fór heim. Oddur Smári kom fram um eitt leytið og ég spurði hvot það væri ekki upplagt að búa til nokkrar vöfflur. Hann tók vel í þá hugmynd og ákvað að hjálpa mér. Ég hrærði í heila uppskrift og hann bjó til 5 vöfflur á meðan ég  þeytti rjóma og hellti á könnuna. Setti afganginn, sem var efni í amk 8-10 vöfflur í viðbót í litla fötu undan súrmat. Oddi fannst það frekar spes.

Leist ekki meir en svo á landsleikinn í handbolta að ég hætti að horfa þegar strákarnir okkar voru komnir fimm mörkum undir. Var svo gapandi hissa þegar ég ákvað að horfa á síðasta korterið af leiknum og sá að það hafði orðið alger viðsnúningur og leikurinn vannst með níu marka mun.

Hafði ofnbökuð kjúklingalæri með blómkáli, rauðkáli og sveppum í matinn og bauð ég einnig upp á soðin bygggrjón. Mjög gott að sjálfsögðu.