6.8.20

Fimmtudagur

Í gær fór ég í sund rétt fyrir klukkan tvö og var komin heim aftur um hálffjögur. Þar sem mér tókst ekki sjálfri að tengja síman við bílinn bað ég Odd um að hjálpa mér áður en hann fór í vinnuna. Hann var snöggur að bjarga þessu en ég hreyfði bílinn samt ekki aftur í gær. Upp úr klukkan hálfsex var haldinn sameiginlegur fundur 19 og 21 á lóðinni fyrir framan hús. Fulltrúar úr öllum íbúðum nr. 19 mættu. Annar af þeim sem eiga kjallaraíbúðina okkar meginn (21) býr í London en hann gat samt "verið með" á fundinum þar sem haft var samband við hann símleiðis á myndforriti. Eigandi risíbúðarinna okkar megin er stödd erlendis og hafði látið vita í fundarboðinu að hún kæmist ekki í þetta sinn. Við vorum svo sem bara að ræða næstu skref. Við vorum búin að fá munnlega staðfestingu á því að verktakinn sem gerði lægsta tilboðið í fyrra væri til í að taka verkið að sér og leggja til grundvallar sama tilboðið. Samningurinn var og er mjög góður jafnvel þótt að hugsanlega gæti kostnaðurinn farið allt að 10% fram úr áætlun ef í ljós koma meiri skemmtir. Þar að auki er 100% af vsk af vinnu endurgreiddur í stað 60%. Reyndar er þessi breyting aðeins staðfest til áramóta en ef covid-19 er enn að gera usla í samfélaginu má alltaf vona að framlenging verði gerð á því. Við ætlum semsagt að fá verktakann til að meta hvort þurfi að gera bráðabirgðaviðgerð á slæmum lekamálum sem fyrst og semja svo um hvort hefja megi framkvæmdir með vorinu.

Fimmtudagur

5.8.20

Letiblóð

Seinni partinn í gær fór ég í fjórðu og síðustu heimsóknina til Pixí. Þótt kisan væri vör um sig var hún líka mjög forvitin um það sem ég var að sýsla við og þegar ég opnaði veskið mitt og tók upp tyggjópoka til að fá mér stökk hún upp í sófa. Hélt greinilega að ég væri þarna með eitthvað sem hún ætti að fá að smakka. Hún vildi líka bæði láta strjúka sér og leika við sig en ef ég hreyfði mig of hratt þá skaust hún alltaf hratt í burtu. Frænka mín og kærasti hennar kom heim í dag. Ég þorði samt ekki að skilja eftir húslykla frænku minnar ef eitthvað yrði til þess að heimför frestaðist.
Synir mínir er báðir búnir að aðstoða mig við að taka nýja símann í notkun. Ég verð örugglega einhvern tíma að venja mig við og læra á hann. Sumt sem virkar flókið í dag verður örugglega einfaldara og léttara með tímanum.

Ég er aðeins með tvær bækur af safninu og er að lesa þær báðar; Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Jónsdóttur og Flúraða konan eftir Mads Peder Nordbo.

4.8.20

Skrýtnir tímar

Ég stillti ekki á mig klukkuna áður en ég fór að sofa um ellefu í gærkvöldi. Var vöknuð um hálfsjö en það lá svo sem ekkert á að koma sér á fætur alveg strax. Þessa vikuna á ég að halda mig frá vinnu. Klukkan var byrjuð að ganga níu áður en ég fór á fætur. Útbjó mér skotheldan hafragraut, prjónaði smávegis og um hálftíu dreif ég mig í sund. Var búin að mæla mér mót við kaldapottsvinkonu mína upp úr klukkan tíu og ég ætlaði mér að vera búin að synda áður en við færum að pottormast saman. Ég var búin að synda og í minni þriðju ferð í þeim kalda þegar vinkonan mætti. Náði næstum því þremur ferðum með henni, en þar sem eru fjöldatakmarkanir í potta og ekki mega vera nema tveir var ég á undan í þann kalda síðustu ferðina áður en ég endaði í gufunni. Er nýlega komin heim og fyrir liggur að hella uppá, færa sim-kortið úr gamla í þann nýja, lesa, fara í síðustu kisuheimsóknina og fara vel með sig.

3.8.20

Sund og kisuheimsóknir

Ég skrapp í klukkutímaheimsók til kisu um klukkan fjögur á laugardaginn. Kisa var svolítið feimin við mig og var lengst af undir sófa. Ég skipti um vatn í skálina hennar og bætti á þurrfóðrið í matardallinn. Áður en ég fór hafði kisa fengið sér að borða og þefað af mér en hún vildi ekki leika við mig.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð Steini í vinnuna rétt fyrir tíu og fór beint í sund á eftir. Kom um hádegisbil. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég fór í heimsókn til kisu. Varð að ýta fast á dyrnar inn í íbúð því dyramottan var að þvælast fyrir. Kisa horfði hissa á mig þegar ég kom inn, hafði líklega verið að leika sér þannig að mottan færðist úr stað. Vatnið hennar var búið úr skálinni og bara lítið af mat eftir í dallinum. Hreinsaði upp kattarælu af mottu inni í stofunni áður en ég fyllti vatnsskálina og bætti í matardallinn. Kisan var farin undir sófa og var þar til ég leyfði henni að þefa af annarri hendi minni og fór að klóra henni í kjölfarið. Hún vildi meira að segja leika smá við mig. Stoppaði í hátt í tvo tíma.

Í morgun mætti ég í sundið um hálftíu. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn 2x og einu sinni í þann heitasta áður en ég fór að synda. Ég var svo í minni þriðju kaldapottsferð þegar kaldapottsvinkona mín mætti á svæðið. Við voru ekki búnar að mæla okkur mót en ég fór þrisvar í þann kalda með henni. Kom svo við í Kvikk í Öskjuhlíð og sníkti kaffi af Oddi sem stendur vaktina þar til klukkan tvö í dag.

1.8.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Ágústmánuður byrjaður

Fór ekki aftur af bæ eftir að ég kom heim rétt um tvö í gær. Sunddótið mitt var í bílskottinu og fékk að vera þar í nótt. Var komin í háttinn áður en N1 sonurinn kom heim úr vinnu en sl. fimm daga, daginn í dag og morgundaginn vinnur hann frá 10-22 við Stórahjalla. Ég var vöknuð tiltölulega snemma í morgun eða upp úr klukkan sjö. Nennti samt ekki alveg strax á fætur og milli klukkan átta og níu hlustaði ég á stórskemmtilegt viðtal við konu sem er fædd í Serbíu, alin upp í Kanada frá 4 ára aldri, kynntist íslenskum eiginmanni sínum í námi erlendis og flutti hingað til lands fyrir fjórum árum. Íslenskan er hennar 5. tungumál og hún talar hana mjög vel.
Rétt fyrir tíu skutlaði ég Davíð Steini á vakt og fór beint í sund á eftir. Aðeins tveir mega vera í einu í minni pottunum en ég þurfti aldrei að bíða í röð eftir að fara í þann kalda. Kom heim um hálftólf en á eftir að skreppa aðeins af bæ aftur og gefa kisu kærasta frænku minnar en þau eru bæði að heiman næstu fjóra daga.