6.12.16

Einmitt það já!

Ég var vöknuð á undan vekjaraklukkunni í morgun. Hafi sem betur fer verið skynsöm og farið að sofa upp úr klukkan tíu svo ég fékk nánast átta tíma svefn. Gærdagurinn var annars svolítið köflóttur, en á góðan máta samt. Sá dagur byrjaði á sundferð, kom heim um hálfníu, nýtti tímann í alls konar bæði skynsamlega og líka í smá facebook-leiki. Fékk einkabílstjórann til að skutla mér í vinnuna rétt fyrir tólf. Vann til sex og labbaði beint heim yfir Skólavörðuholtið. Hafði til kvöldmat, sem þegar til kom, var eiginlega aðeins fyrir sjálfa mig því annar strákurinn fór til pabba síns og hinn var að vinna til hálfátta. Horfði á Svikamillu frá því á sunnudagskvöldið og las svo um stund í einni bók eftir Einar Kárason.

5.12.16

Nýkomin úr sundi

Þessa vikuna verður vinnutíminn minn frá klukkan tólf. Þar sem ég er yfirleitt vöknuð fyrir sex hef ég hugsað mér að byrja alla næstu morgna á því að fara í sund. Hitti N-einn strákinn minn er ég kom fram í morgun. Hann var að undirbúa sig undir að fara á 12 tíma vakt. Ég fór út á undan og var byrjuð að synda ca korter í sjö í morgun. Synti í um tuttugu mínútur eða 500 metra. Skellti mér beint í kalda pottinn í um þrjár mínútur og á leiðinni í sjópottinn hitti ég hana Sigrúnu og við röbbuðum heilmikið og heillengi í saltinu, færðum okkur svo yfir í gufubaðið og enduðum á því að sitja smá stund á bekk, í "sólbaði" eins og ég kalla það. Ég kom heim um hálfníu.

Í gærkvöldi var aðventukvöld í kirkjunni "minni". Mjög metnaðarfull dagskrá en ég verð að segja það að það fór aðeins of mikið fyrir söngnum, flottur og góður og allt það, en dagskráin í heild með öllu, líka hugvekju Einars Kárasonar, tók einn og hálfa tíma. Strax á eftir var fólk beðið um að stíga út fyrir og taka þátt í afhjúpun á þakklætis steini til hjóna úr söfnuðinum fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu safnaðarins. Hún er fallin frá fyrir hátt í tveimur árum en hann var á staðnum, vissi ekki neitt um þetta. Eftir þessa stuttu stund var fólki boðið inn aftur og upp á smákökusmakk í efri salnum.

4.12.16

Ekki svo viss um að skriftarhléi sé alveg lokið

Jæja, um fjórir mánuðir síðan ég skrifaði eitthvað niður á þessum vettvangi. Hitti eina jafnöldru mína seinni partinn í ágúst sem spurði hvort ég væri hætt að blogga. Ég var frekar hissa á spurningunni því ég veit ekkert hversu margir voru/eru að kíkja á bloggið mitt reglulega, fyrir utan eina sem er afar tryggur aðdáandi. Hún passar sig á að vera ekkert að reka á eftir mér með skrifin en hún lætur mig líka vita hversu ánægð hún er þegar ég byrja að skrá niður þanka og daglegar athafnir reglulega. Hún veit að ég er ekki mikið fyrir að tuða eða vera með væl eða neikvæðni, hvað þá að skrá of mikið niður af venjlegum húsverkastörfum, en ég er búin að láta vita að þetta hlé er alls ekki útaf neinu svoleiðis.

Ég vil halda því fram að ég sé heppin og að ég sé sífellt að verða færari í að grípa daginn og njóta 
augnabliksins. Kannski er ég að blekkja sjálfa mig? Þetta með að reyna að nýta tímann sem best og njóta hefur einhvern veginn lítið verið nýttur í hannyrðir og lestur, þó ég sleppi því aldrei alveg, tók td upp á því að grípa í prjóna í haust til að prjóna sjal eftir ákveðnu mynstri. Gæti verið búin með það ef ég hefði ekki prjónað miðjumynstrið aðeins of oft svo ég  sá fram á að ég ætti ekki nóg garn. Er loksins búin að kaupa aukahnotu en nú er svo sannarlega að koma tími á að hespa af jólakortaframleiðslu og skrifum.

Hvað er ég eiginlega þá að gera við tímann? Ja, stórt er spurt og ef ég get ekki svarað því sjálf, getur það enginn. Sjáum til hvort ég næ að vekja skrifaandann aftur og vonandi þá vísuandann í leiðinni. 

3.8.16

Ágústmánuður byrjaður

Það nóg um að vera í kringum mig en einhvern veginn hef ég ekki fengið mig til að setjast niður og skrá niður það helsta. Þetta er að verða vandræðalegt hversu léleg ég er að sinna bloggi sem og útsaumi. Að vísu tók ég saumana með austur um síðustu helgi, eins og reyndar oftast þegar ég ætla að gista, og viti menn ég saumaði bæði á sunnudeginum og á mánudagsmorguninn.

Byrjaði  á því að skreppa í sund strax um átta á laugardaginn var. Kom við heima í um klukkustund eftir sundið áður en ég fór yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Þar stoppaði ég í hátt í tvo klukkutíma. Þegar ég kom heim lauk ég við að pakka, kvaddi strákana og brunaði út úr bænum um tvö. Var komin austur klukkan hálffjögur þrátt fyrir að það væri smá flöskuháls við Selfoss.

Við pabbi vorum sest út á pall fyrir klukkan tíu á sunnudagsmorguninn. Fljótlega ákváðum við að taka út sláttuvél og klippur og snyrta grasflatirnar, bæði aftan og framan við hús. Þurftum að tæma fjórum sinnum en vorum sennilega ekki nema einn og hálfan tíma að klára þetta. Pabbi fór fyrstu hringina en ég tók svo við og var komin upp á sæmilegt lag við að elta vélina sem fór nota bene nokkuð hratt yfir. Á mánudagsmorgun uppgötvaði ég að ég hafði sennilega nota einhverja axlarvöðva sem eru sjaldan í notkun þrátt fyrir sund og e-s konar armdýfingar reglulega. En ég kvaddi foreldra mína um hálfþrjú á mánudeginum og var komin í bæinn um fjögur. Tók til sunddótið og byrjaði á því að skreppa í Laugardalslaugina. Kom við í búð á heimleiðinni þrátt fyrir að það væri frídagur verslunarmanna.

Labbaði í vinnuna í gærmorgun og var mætt vel fyrir klukkan átta. Ég og ein önnur vorum áfram frá fjögur, að sinna reikningagerð og vakta þá sem yfirfara vélina ca einu sinni í mánuði. Hin skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en um átta leitið skrapp ég aðeins í heimsókn til "föðursystur" minnar.

12.7.16

Smá lífsmark

Það stefnir allt í afar rýrt skrifsumar og ég er ekki viss um hverju ber að þakka það eða kenna um eftir því hvernig á það er litið. Ég er þokkaleg og rúmlega það. Hamast við að njóta augnablikanna og reyni líka að nýta sumt af tímanum skynsamlega í nokkuð sem ég skrifa lítið sem ekkert um enda um venjuleg heimilisverk að ræða. Viðurkenni það alveg að mér gengur betur að eyða tímanum í allt annað en heimilisverkin en þau verða samt aldrei alveg útúndan.

 eru rétt rúmlega fimm virkir dagar eftir af aðalsumarfríinu mínu. Ég er ekkert orðin þreytt á því að vera í fríi og sé fram á að ná ekki að komast yfir að gera alveg allt sem var á listanum. En ég er búin að gera alveg helling og ég er ekkert með samviskubit yfir einu eða neinu, til hvers væri það svo sem?

Einkabílstjórinn er búinn að taka fullnaðarprófið eftir að hafa haft ökuréttindi í rúmt ár eða frá því seinni partinn í apríl í fyrra. Hann var að skila inn akstursmatinu til sýslumannsins í Kópavogi og ætlar svo að sækja skírteinið þegar það er tilbúið. Annars hefði hann þurft að skila inn því skírteini sem hann hefur haft sl. ár og fá bráðabirgða skírteini í millitíðinni.

Snemma á þessu ári sagði ég upp áralangri áskrift af kiljuklúbbnum Hrafninum. Síðasta bókin sem kom áður en áskrift var hætt var Fyrirvari eftir Renée Knight. Ég tók þá bók loksins úr blastinu um síðustu helgi og kláraði hana daginn eftir að ég byrjaði á henni. Mjög spennandi og kemur stöðugt á óvart. Spennan hélst út bókina.