18.9.19

Sjórinn

Það var eins gott að ég á góða regnkápu, rigndi frekar mikið á mig á labbinu í vinnuna á áttunda tímanum í morgun. Þyfrti svo annað hvort að fjárfesta í regnbuxum eða taka með mér aukabuxur sem ég gerði ekki í morgun. Buxurnar blotnuðu nokkuð frá hné og niður úr. En þetta var svo sem fljótt að þorna. Eftir hádegi græjuðum við vöfflukaffi í vinnunni og svo tók ég að mér að bíða eftir að mánaðarleg endurnýjun skilaði sér yfir á framleiðsluvélina. Var búin að hlaða henni inn rétt fyrir hálffjögur. Ekki rigndi neitt að ráði á mig á heimleiðinni, aðeins smávegis síðasta hálfa kílómetrann eða svo. Hellti mér upp á tvo bolla af kaffi, fékk mér hressingu, las smávegis, hringdi í pabba og var svo komin í sjóinn við Nauthólsvík upp úr klukkan fimm. Svamlaði um í sjónum í tæpar tíu mínútur og sat svo í heita pottinum í uþb korter áður en ég fór upp úr og heim aftur.

17.9.19

Tíminn

Í gærmorgun labbaði ég af stað í vinnuna með gamlan sundpoka með nokkrum nauðsynjahlutum á bakinu innan undir regnkápunni. Vinnudagurinn varð nokkuð óvenjulegur. Það varð smá óhapp sem varð til þess að framleiðsla tafðist og fyrstu skil voru hálftíma á eftir áætlun. Náðum að vinna þetta upp og klára vinnudaginn innan átta tíma. Labbaði af stað úr vinnunni korter í fjögur og fór beint upp í Perlu til að hitta fyrrum kórfélaga mína í KÓSÍ. Mættum átta af 15. Flestir komu um fjögur, ég kom korter yfir en var alls ekki seinust en þau sem lögðu til þennan hitting komust ekki.

Um sex skrapp ég heim, skipti um föt og slakaði á um stund áður en ég rölti yfir á Valsvöllinn og sá KR tryggja sér titilinn með einu marki geng engu minna manna. Það var svolítið erfitt að horfa upp á þetta en ég sat þó allan leikinn en fór heim mjög fljótlega eftir að leikurinn var flautaður af.

Það var svo sannarlega ekkert regnkápuveður í dag. Það slapp að klæða sig í flíspeysu. Kom heim rétt upp úr klukkan þrjú. Hellti upp á 3 bolla af kaffi, fékk mér smá hressingu með, las smávegis og hringdi svo í pabba stuttu áður en ég skellti mér í sund á fimmta tímanum.

15.9.19

100 dagar til jóla

Var komin í sund rétt upp úr klukkan átta í morgun og gaf mér góðan tíma í rútínuna. Kom heim rétt upp úr klukkan tíu, eldaði mér hafragraut og hellti upp á kaffi. Nú er ég nýbúin að klára úr þriðja og sennilega síðasta kaffibolla dagsins og síðasta hálftímann hef ég verið að lesa; Saga af nýju ættarnafni eftir Elenu Ferrante, aðra bókina af fjórum í svokölluðum Napólísögum.

Í gærmorgun var ég líka komin í sund fljótlega eftir opnun og gaf mér jafnvel betri tíma í rútínuna heldur en ég gerði svo í morgun og endaði á því að þvo á mér hárið. Kom við í Krónunni við Nóatún, Atlantsolíu við Flugvallarveg og Kvikk í Öskjuhlíð á heimleiðinni. Oddur Smári hafði skilið fjölmiðlamælinn sinn eftir í gluggakistunni inni á baði og hann var að vinna til fjögur í gær. Ég færði honum mælinn og þáði hjá honum hálfan kaffibolla áður en ég fór heim og gekk frá vörunum. Klukkan að verða eitt sótti ég eina fyrrum samstarfskonum mína vestur í bæ og á leiðinni út úr bænum komum við við í austurbænum í Kópavogi og sóttum aðra sem var að vinna með okkur. Leiðin lá fyrst austur í Þorlákshöf þar sem við fengum okkur kaffi á Hendur í höfn. Stoppuðum stuttlega á tveimur stöðum á Selfossi og keyrðum einn rúnt um Þykkvabæinn áður en við heimsóttum pabba um hálffimm. Stoppuðum hjá honum til klukkan langt gengin í átta og um hálfsjö var ég búin að gufusjóða blöndu af blómkáli, lauk, papriku, kartöflu og epli og steikja bleikju. Virkilega vel heppnaður kvöldmatur. Kom heim aftur um hálftíu í gærkvöldi eftir að hafa skilað stelpunum heim.

Af seinni hluta nýliðinnar vinnuviku ber hæst að nefna að um fjögur á fimmtudaginn fóru tvær rútur (og reyndar fjölmargir á einkabílum) út úr bænum í Félagsgarð í Kjós; starfsmannafundum undir yfirskriftinni " Frábær saman". Fram að kvöldmat voru tveir fyrirlestrar og hópmyndataka. Eftir kvöldmat var hópsöngur áður en var alveg frjáls tími. Seinni rútan lagði af stað í bæinn rétt rúmlega tíu.

10.9.19

Ferð á bókasafnið

Vekjarakukkan hringdi upp úr klukkan hálfsjö í morgun. Ég var eiginlega hálfhissa á því að það væri kominn tími til að fara á fætur fyrir utan að ég er undanfarið vaknað amk tíu mínútum á undan vekjaranum. Tíminn í morgunrútínuna var alveg nægur og  ca hálftíma eftir að klukkan hringdi labbaði ég af stað í vinnuna og var mætt þar á slaginu 7:45. Strax eftir hádegið mættu tveir viðgerðarmenn til að sinna mánaðarlegri yfirferð á vélinni. Aðeins einn þarf að sitja yfir alveg til klukkan fimm. Í þetta sinn var það fyrirliðinn sem tók það að sér (hafði samt þurft að mæta í vinnu um leið og við hinar tvær en það er ein í fríi og sú fimmta hefur ekki störf fyrr en eftir næstu helgi). Ég fékk því það frelsi að geta hætt í vinnunni um hálftvö og labbað heim.

Eftir að hafa fengið mér hressingu, tvo bolla af kaffi og hringt í pabba tók ég til sunddótið og ákvað í leiðinni að taka bókasafnspokann og koma við á Kringlusafninu. Reyndi m.a. að skila bók sem var ekki af safninu. Skilaði átta bókum af tíu og tók fimm bækur í staðinn. Var komin fyrstu ferðina af fjórum í kalda pottinn fyrir klukkan hálffimm. Þegar ég var í gufunni eftir síðustu ferðina í þann kalda var ég spurð að því hvort ég væri ekki mamma Odds og Davíðs. Það reyndist vera fyrrum "þríburinn" minn og frændi (langafi hans og föðurafi minn voru hálfbræður, samfeðra).

9.9.19

Svamlað í sjónum

Í gærmorgun var ég vöknuð stuttu fyrir átta en tók þá ákvörðun að taka lífinu með ró. Sleppti því að fara í sund til að leyfa sprungnu blöðrunni á slæma staðnum jafna sig aðeins. Var komin á fætur fyrir klukkan níu og fékk mér morgunhressingu og hellti upp á tvo bolla af kaffi. Var mætt á heimavöllinn klukkan tvö, sleppti kirkjuferð, og horfði á Valsstelpurnar vinna ÍBV 4:0.

Labbaði af stað í vinnuna upp úr klukkan sjö í morgun, fann varla fyrir blöðrunni enda með plástur á henni. Um hálftvöleytið labbaði ég úr K1 yfir í K2 þar sem ég fór á örkynningu. Sú kynning var búin um hálfþrjú og þá labbaði ég heim. Hellti upp á smá kaffi og fékk mér síðdegishressingu. Var komin í sjóinn tíu mínútum fyrir fimm og svamlaði þar um í uþb tuttugu mínútur áður en ég fór í pottinn. Stuttu seinna mætti bekkjarsystir mín úr grunnskóla og ég ákvað að skella mér smá stund í sjóinn með henni eða í rúmlega tíu mínútur. Mjög hressandi. Klukkan var byrjuð að ganga sjö þegar ég lagði af stað frá Nauthólsvík. Umferðarteppan var ekki eins mikil frá HR og milli klukkan fjögur og sex en það var samt smá sulta á hluta af leiðinni.

Sauð nokkrar rauðar kartöflur og steikti eitt flak af þorskhnökkum í fjórum bitum upp úr krydduðu eggi og blöndu af byggmjöli og byggflögum. Báðir synirnir voru í mat. N1 sonurinn tilkynnti sig veikan þegar hann kom úr skólanum, var með höfuðverk, og hinn sonurinn var beðinn um að taka 10-18 vakt vegna forfalla hjá Kvikk í Öskjuhlíðinni. Venjulega á hann að vera á 15-20 vakt mánudaga til miðvikudaga en mér skilst að hann verði aftur á 10-18 vakt á morgun.