31.12.15

Takk fyrir 2015 - gott ár í heildina litið



Sjálfsmynd undir gömlu tré í Hallormsstað 23. ágúst 2015

Síðasta sundferðin á árinu farin í morgun milli tíu fimmtán og hálftólf

Fróðlegt væri að vita hversu marga daga á árinu ég fór í sund. Framan af ári fór ég sennilega 3-4 sinnum í viku. Tók rétt rúmlega viku hlé í þrjú af fjórum blæðingatímabilum. Ég er að minnsta kosti viss um að ég nýtti árskortið mitt í sundlaugar Reykjavíkur mjög vel og þennan hálfa mánuð sem ég var í hringferðalaginu fór ég alla vega fimm ef ekki sex sinnum í sund, þrisvar á Akureyri, einu sinni á Egilsstöðum og einu sinni eða tvisvar á Hellu. Vel gert finnst mér.

Í gærmorgun "stalst" ég til að fara snemma af stað á lánsbílnum og var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan hálfsjö. Var búin að synda í ca korter þegar ég varð vör við að Lena var komin. Við stilltum okkur af og komumst tvær ferðir í kalda pottinn, eina í 42 gráðu pottinn og eina í sjópottinn. Við enduðum í síðasta nefnda pottinum og ég var næstum því búin að gleyma mér. Sleppti gufu- og sólbaði og náði að vera mætt í vinnu áður en klukkan varð átta.

Vinnudagurinn til fjögur leið afar hratt enda nóg að gera. Ég komst þó alveg frá á réttum tíma og rétt áður en ég ók af stað heim hringdi ég í annan soninn. Þegar ég var komin fyrir utan hringdi ég í hinn soninn og þeir komu báðir út á endanum, annar mun fyrr en hinn ætlaði varla að nenna en kom samt. Leiðin lá í Rúmfatalagerinn við Korputorg með tvær sængur og kassakvittun. Ekkert mál var að breyta sængunum í kodda, sængurver og sokka og við fengum meira að segja inneignarnótu upp á rúmar fjögur þúsund að auki.

Eftir þetta ævintýri ákvað ég að bjóða sonunum á Pítuna áður en ég skilaði öðrum þeirra heim. Hinn ungi maðurinn kom með mér í smá innkaupaleiðangur áður en við skiluðum okkur heim. Þar beið okkar nýlagað jólakaffi. Frábærir ungir menn þessir synir mínir.

30.12.15

Rétt rúmlega sólarhringur eftir af 2015

Ég var vakna rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Gaf mér þokkalega góðan tíma í morgunrútínuna og var svo rétt ófarin út að taka hálfátta vagninn við Sunnubúðina þegar bræðrunum var skilað heim eftir ævintýranæturspil. Ég fékk tíma fram að morgunkaffi til að halda áfram að telja varahlutalagerinn, en við erum tvær sem höfum hjálpast að við það. Eftir kaffi fór ég í móttöku hráefnis á framleiðsluvélinni og þar var ég þar til ég var leyst af í mat upp úr klukkan tólf. Þá fórum við tvær sem erum ekki skráðar í mötuneytismat og fengum okkur súpu- og grænmetishlaðborð á Kryddlegnum Hjörtum. Vorum báðar alsælar með allt í tengslum við staðinn og matinn og komum saddar og sælar aftur í vinnuna um eitt. Vinnudagurinn var liðinn fyrr en varði. Ég hringdi í einkabílsstjórann til að athuga hvort hann gæti og vildi sækja mig. Það kom í ljós að pilturinn átti eftir að fara í sturtu svo ég ákvað að labba heim í snjókomunni. Var hálftíma á leiðinni og leit út eins og snjókerling þegar ég kom heim en nýja úlpan sannaði gildi sitt. Þurfti að skipta um buxur en nokkru eftir að ég kom heim ákvað ég að skutla sölumanninum í vinnuna upp á Malarhöfða. Fór beint heim aftur og byrjaði á því að setja upp mjólk og grjón í "ris a la mandle graut". Sú eldamennska gekk ekki alveg eins vel og þegar ég framkvæmdi hana rétt fyrir jól en ég held að þetta hafi og muni sleppa til. Það kemur reyndar ekki í ljós fyrr en nokkru eftir kirkjuferð annaðkvöld.

29.12.15

Algert fyrirsagnarandleysi

Desember hefur verið frekar "götóttur" hvað bloggskrif varðar. Það er nú líka örugglega bara betra að vera ekkert endilega að streða við að setja inn færslu daglega, nema þá að það liggi þannig á manni, tíminn leyfi og skrifandinn svífi yfir, eða hvað? Við mæðgin gistum annars tvær nætur á Hellu og höfðum það frekar notalegt hjá foreldrum mínum. Ég hafði útbúið mig þannig til fararinnar að það var eins og ég ætlaði að vera viku. Tók með mér saumana, fjórar bækur, krossgátu-/sudokublöð, gönguskó, sundföt og eitthvað af öðrum flíkum svo eitthvað sé upptalið. Þótt ég passaði vel upp á að vera foreldrum mínum innan handar með alls konar stúss (bæði beðin og óumbeðið) þá var mjög góður tími inn á milli til að sinna hugðarefnum sínum. Fór reyndar ekki í neinn göngutúr, krossgátublöðin voru aldrei tekin upp og ekki heldur nálin en ég las tvær bækur, spilaði vist við hina, vafraði um á netinu, spjallaði og slakaði vel á.

Á sunnudaginn var lagt á morgunverðarhádegishlaðborð um eitt leytið. Ungu mennirnir drifu sig svo í sturtu hvor á eftir öðrum og um hálffjögur vorum við búin að taka okkur saman, þakka fyrir okkur og kveðja. Fyrst lá leiðin í Fossheiðina á Selfossi til "tvíburahálfforeldra" minna. Þar stoppuðum við í á annan tíma. Síðan skutlaði ég bræðrunum á Bakkann rétt fyrir sex og fór því Þrengslin í bæinn. Fékk bílastæði rétt fyrir utan hér heima og ég fór fjórar ferðir út í bíl eftir öllu dótinu. Hringdi í pabba rétt fyrir sjö til að láta hann vita að ég væri búin að skila mér heim. Kvöldið fór svo í sjónvarpsgláp og kósíheit. Ég var ekki farin að sofa þegar ungu mennirnir komu heim á ellefta tímanum.

Ég dreif mig á fætur rétt fyrir sex í gærmorgun til að byrja á því að skreppa í sund áður en ég mætti í vinnuna. Fór þar af leiðandi á milli þessara staða á lánsbílnum. Rétt áður en ég fór heim eftir vinnu frétti ég að til stæði að tvíburarnir færu á "spilakvöld alla nóttina" og yrðu sóttir um sjö. Ég hafði því matinn til um sex. Kvöldið fór í ýmislegt dundur, m.a. sjónvarpsgláp og lestur en ég var skriðin upp í um hálfellefu og sofnuð stuttu síðar.

27.12.15

Þriðji í jólum

Eru þá ekki 363 dagar til næstu jóla?  ;-) Þegar ég kom fram um hálfátta á aðfangadag var Davíð Steinn nýkominn fram. Ég hélt fyrst að hann ætlaði aðeins á prívatið og svo aftur inn í herbergi en hann var ákveðinn í að fara á fætur. Ég var á leiðinni í sund og bauð honum að koma með. Hann vildi heldur vera heima og vera búinn að laga kaffi þegar ég kæmi aftur. Ég skilaði mér heim, endurnærð úr sundinu, upp úr klukkan hálftíu og byrjaði auðvitað á því að drekka nýtt kaffi með syninum. Við mæðgin vorum alveg slök. Hinn sonurinn var reyndar svo slakur að ég neyddist til að vekja hann um eitt til að nálgast kókið út á svalir. Ég kaupi afar sjaldan gos en auðvitað keypti ég jólaöl handa bræðrunum og hluta af kókinu ætlaði ég að prófa að nota til að sjóða hamborgarahrygginn í. Undirbúningur fyrir kvöldið var á réttu róli en upp úr fjögur var ég búin að halda smá kjóla-tískusýningu fyrir synina áður en ég ákvað að fara í ljósri dragt í kirkjuna.

Í kirkjunni var byrjað að hita upp stuttu fyrir fimm og það kom í ljós að sóprönnur voru mun fleiri en ölturnar svo ég ákvað að syngja með altinum. Kann hann enn mun betur en sópraninn. Korter fyrir sex byrjuðu tvær konur að leika á hörpu og raddbönd. Aftansöngurinn byrjaði á slaginu sex þegar séra Pétur bað nöfnu sína og meðhjálpara að kveikja á öllum fimm kertunum í aðventukransinum og alla í kirkjunni að rísa á fætur og faðma næsta mann og óska gleðilegra jóla. Stundin var afar hátíðleg, nokkuð margt í kirkju og allt gekk eins og í sögu.

Var komin heim rétt rúmlega sjö. Davíð Steinn var þá búinn að setja upp kartöflur. Ég setti upp svuntu hitaði ofninn, smurði sinnepshúð á hrygginn og bjó til sósu. Oddur Smári lagði á borð. Maturinn heppnaðist vel, líka ris a la mandle grauturinn. Við hjálpuðumst öll að við að ganga frá og svo var sest inn í stofu og kíkt í pakkana og jólakortin lesin.

Allar sundlaugar eru lokaðar á jóladag. Ég var mætt í kirkju rétt fyrir eitt. Það hafði fækkað í sópran en fjölgað í alt svo ég söng með sópran nema á einum stað í "Bjarnatóninu". Einn kórfélagi minn fór í predikunarstólinn og flutti pistil sem nú er búið að setja inn í greinasafnið á heimasíðu safnaðarins. Það tók mig rúman hálftíma að taka mig til fyrir austurferð, synirnir voru tilbúnir á undan. Lögðum af stað rétt fyrir fjögur og þegar við komum austur á sjötta tímanum var tekið á móti okkur með fleiri jólabögglum og "síðdegiskaffi" en hangiketið var svo snætt um níu. Eftir að búið var að borða var sest að spilum og spiluð vist. Oddur Smári leysti afa sinn af þegar komið var að því að taka úr uppþvottavélinni.

24.12.15

Aðfangadagur

Byrjaði fjóra síðustu morgna, þessi meðtalinn, á því að fara í sund. Mánudag til og með miðvikudag var ég mætt upp úr hálfsjö, alltaf byrjuð að synda áður en klukkan var orðin sjö. Á mánudagsmorguninn þóttist ég vera frekar tímalega í því en ég þurfti að byrja á því að leita að bílnum þar sem bræðurnir höfðu ekki skilað sér heim af spilakvöldinu fyrr en einhvern tímann um nóttina. Fann bílinn í Blönduhlíðinni. Hafði ekki eins rúman tíma í sundið og oft áður þar sem ég átti að vera mætt í vinnu um átta. Synti þó í uþb tuttugu mínútur og ákvað sem betur fer að kíkja aðeins í einn heita pottinn. Þar fann ég Lenu og ég náði að fara með henni eina ferð í kalda pottinn. Vinnudagurinn leið mjög hratt. Ég ákvað að skreppa á Kringlusafnið strax eftir vinnu og skila tveimur af fjórum bókum, framlengja hinum tveimur og tók fjórar með mér heim. Ein af þeim bókum er með 14 daga skilafrest. Ákvað svo að skutla Oddi í vinnuna sína áður en ég fór heim. Var eitthvað að spá í að drífa síðustu innkaupin af um kvöldið og þá jafnvel sækja Odd aftur en í staðinn var ég farin að sofa upp úr klukkan tíu.

Á þriðjudagsmorguninn þurfti ég að byrja á því að skafa lánsbílinn og það bauð upp á nokkuð góða líkamsrækt því það var frekar þykkt og fast á sumum rúðum. Var með bílinn í gangi á meðan svo þetta lagaðist þegar leið á. Var byrjuð að synda tíu mínútum fyrir sjö og þegar ég var að klára mínar ferðir varð ég vör við Lenu. Hún fór aðeins eina ferð en var nýkomin úr Laugum, ræktinni. Við náðum tveimur ferðum í kalda pottinn saman og einni í sjópottinn áður en ég þurfti að rjúka í vinnuna. Síðasti hluti vinnudagsins var notaður í jólapakka stemmingu kortadeildarinnar en fyrir ca sex vikum síðan voru nöfnin okkar sett í hatt og við drógum einn miða hvert. Ekki þurfti að draga nema einu sinni. Þegar allir voru komnir, biðu veglegar veitingar sem tvær úr deildinni höfðu séð um að taka saman og keyra inn á vagni. En fyrst voru pakkarnir opnaðir, einn í einu og svo giskað eða reynt að giska á hver væri sá sem hafði gefið manni. Mér tókst að giska rétt í fyrsta, fékk mjög flott, rautt höfuð handklæði sem mun nýtast mér í sundferðunum mínum framvegis. Strax eftir vinnu skrapp ég í Hagkaup í Skeifunni.

Í gær átti ég frí. Hafði ætlað mér að skreppa austur og fara í skötu með pabba. Ég komst í sundið rétt eftir að opnaði, hitti Lenu og gaf mér góðan tíma í rútínuna. En við það að slaka aðeins á þá helltist yfir mig einhver þreyta sem varð til þess að ég ákvað að taka því frekar rólega. Pabbi tók þeim fréttum bara vel sagði að þau hefðu keypt sér saltfisk ef við mæðgin myndum ekki koma. Á fjórða tímanum tók ég strætó til norsku esperanto vinkonu minnar. Sigurrós var þegar komin en við vorum bara þrjár í þessum notalega hittingi. Ég þáði meira að segja hálft rauðvínsglas, og ég sem drekk aldrei rauðvín. Við skiptumst líka á að finna lög með hinum og þessum flytjendum á YouTube og spila. Stoppaði aðeins lengur en ég ætlaði mér en var þó komin heim fyrir sjö.

21.12.15

369 dagar til jóla 2016

Ég var ákveðin í að taka gærdaginn nokkuð rólega, sérstaklega morguninn. Sleppti sundinu en var þó vöknuð fyrir átta. Tók það til bragðs að reyna að kúra aðeins lengur. Þegar það virkaði ekki nógu vel ákvað ég að grípa bók í hönd og það virkaði miklu betur. Guggnaði á því að fara gangandi í Norræna húsið. Ýtti aðeins við einkabílsstjóranum rétt til að segja honum að ég færi á lánsbílnum en þeir bræður gætu fengið afnot af honum eftir klukkan þrjú. Í Norræna húsinu hitti ég Inger og Sigurrós. Við fylgdumst með þegar gluggi númer 20 var opnaður og fylgdumst svo með viðburðinum, ungri stúlku sem lék á rafgítar og söng. Því miður tók ég ekki eftir nafninu á stúlkunni en mér fannst gjörningurinn ágætur að mestu leyti, varð amk sultuslök við að hlusta á mússík og texta.

Næst lá leiðin í Fríkirkjuna við Reykjavíkurtjörn. Sigurrós geymdi bílinn sinn við Norræna húsið og þær stöllur fengu far með mér. Við vorum mættar það snemma á næsta viðburð að það tóku nýbökuð brúðhjón á móti okkur á kirkjutröppunum um hálftvö, nema að um einhvers konar gjörning hafi verið að ræða. Klukkan tvö hófst heilunarmessa sem var í samstarfi við prest og starfsfólk kirkjunnar annars vegar og sálarrannsóknarfélagði og kærleikssetrið hins vegar. Ku þetta hafa verið tólfta árið í röð sem svona messa er haldin í Fríkirkjunni en ég var að mæta í fyrsta skipti. Þarna slakaði ég enn betur á. Um þrjú kvaddi ég Inger og Sigurrós og fór beint heim. Tvíburarnir fengu bílinn til að fara á "spilakvöld" og voru farnir upp úr hálffjögur.

Ég horfði á norsku stelpurnar vinna enn einn titilinn undir sjórn Íslendingsins (Selfyssingsins) Þóris Hergeirssonar, las og dundaði mér við ýmislegt annað en heimilisskyldurnar. Stuttu fyrir átta sótti tvíburahálfsystir mín mig til að fara með sér á tónleika með þessum í þessari kirkju. Sérlega vel heppnaðir og skemmtilegir tónleikar það.

20.12.15

Fimm dögum síðar

Ritletin og smá tölvuvesen tóku af mér völdin síðustu daga og það eru klárlega bæði kostir og gallar við það.  Alla virku dagana í síðustu viku var ég mætt til vinnu rétt fyrir klukkan sex á morgnana. Þar af leiðandi notaði ég lánsbílinn til að ferja mig á milli þar sem strætó er ekki byrjaður að ganga svona snemma. Eftir vinnu á þriðjudaginn gerði ég aðra tilraun til að fara í pósthúsið við Síðumúla en leist ekkert betur á aðstæður fremur en daginn áður. Ákvað því að fara í Kringluna og hefði líklega átt að fara þangað strax því þar er komið upp árlegt jólapósthús þar sem bæði er hægt að kaupa frímerki og senda af stað kort og pakka ef e-r eru.

Þriggja daga strætókortið gilti frá og með þessum þriðjudegi en ég eftirlét Oddi Smára að nýta það til að komast í og úr sinni vinnu. Hann lagði af stað upp úr klukkan fimm. Rétt fyrir sex ákvað ég að fara labbandi á matstaðinn Kryddlegin Hjörtu þar sem ég átti stefnumót við tvær vinkonur mínar, "föðursystur"  og "tvíburahálfsystur". Sú fyrrnefnda hringdi rétt áður en ég lagði af stað og bauðst til þess að kippa mér með. Ég bað frekar um að fá far heim eftir hittinginn. Það var reyndar örlítið erfitt að labba fyrsta hlutann af leiðinni þar sem ég ákvað að skilja negldu skóna eftir heima. Að vísu var ekki hálkt, búið að sand og/eða saltbera helstu gangstéttir og stíga sem ekki voru. Ég komst heil alla leið og var fyrst á staðinn. Var að prófa þennan stað í fyrsta skipti og varð alveg heilluð. Notalegt andrúmsloft, góður matur, góð þjónusta og alls ekkert svo dýrt. Kvöldið var auðvitað alltof fljótt að líða.

Fór sund strax eftir vinnu á miðvikudaginn og líka á fimmtudaginn. Mætti á síðustu kóræfinguna fyrir jól á miðvikudeginum. Kláraði öll jólakortaskrif á fimmtudagskvöldið. Á föstudaginn fékk ég að hætta stuttu fyrir klukkan eitt og fór fyrst með gjöf frá KÓSÍ til einnar úr kórnum sem er nýlega bökuð móðir og gifti sig í sumar. Gat ekki stoppað neitt (ætlaði þó ekki að stoppa lengi) því um það leyti sem ég kom til hennar var hringt frá tannlækninum og ég spurð hvort ég gæti komið hálftíma fyrr, þ.e. um hálftvö í stað tvö. Gaf mér smá tíma til að fá að lyfta mánaðargömlum ungum dreng og spjalla stuttlega við mömmuna áður en ég kvaddi og rauk í burtu. Í tannlæknastólnum var ég í fimm korter þar sem verið var að rótfylla tönnina sem var athuguð betur fyrir ca tveimur vikum. Það sást nefnilega ekki alveg á myndum sem teknar voru í eftirliti hjá tanna í síðasta mánuði að skemmdin var mun dýpri svo það borgaði sig að rótfylla.

Í gærmorgun var ég mætt fyrir utan Laugardalslaugina rétt í þann mund sem opnaði klukkan átta. Tvær-þrjár brautir af átta voru fráteknar og í notkun vegna sundæfinga. Ég synti uþb tuttugu mínútur, áður en ég fór í sjópottinn og gufu. Svo virtist sem sá kaldi væri lokaður en þar sem ég sá til einhverra nota hann engu að síður ákvað ég að fara í sturtu eftir gufuna og dýfa mér smástund í þann kalda á leiðinni upp úr. Var komin í Kristu Quest um hálftíu. Afhenti klipparanum mínum jólakort til hans, starfsfólksins og fjölskyldna þeirra og fékk svo jólaklippinguna, fimm vikum eftir að ég var síðast í stólnum. Áður en ég fór heim kom ég við á annarri hárgreiðslustofu og afhenti eigandanum jólakort um leið og ég óskaði honum til hamingju með daginn. Skrapp að lokum í Krónuna við Nóatún og þegar ég kom heim hellti ég upp á könnuna og ákvað að vekja syni mína til að drekka kaffi mér til samlætis og setjast niður í smá mæðginaspjall. Þeir tóku þessu uppátæki mínu bara vel.

15.12.15

Morgunhani

Vekjaraklukkan lét mig vita þegar hún var tíu mínútur gengin í sex í gærmorgun. Ég var frekar fljót að átta mig og fyrr en varði var ég klædd og komin á ról til að sinna morgunrútinunni. Þar sem strætó er ekki byrjaður að ganga svona árla morguns fór ég í vinnuna á lánsbílnum. Öryggisvörðinn, sem veifaði mér úr "búrinu", þekkti ég en hann var einu sinni í kirkjukórnum. Klukkan eitt var haldinn örfundur á deildinni sem var reyndar aðeins lengri en til stóð. Ég og sú sem mætti um leið og ég máttum svo fara strax eftir fundinn.

Keyrði framhjá pósthúsinu við Síðumúla en ákvað að sleppa því að leita að stæði og fara í röðina. Þess í stað fór ég alla leið upp í Mjódd. Keypti reikningabók í Eymundsson fyrir soninn sem er í verktakasímasöluvinnunni, keypti níu miða strætókort til að skipta milli brætranna og einnig þriggja daga kort sem gildir frá og með deginum í dag og til og með fimmtudagsins handa sama syni og fékk reikningabókina en ég lagði ekki í að fara í biðröðina á pósthúsinu í Mjóddinni.

Kom heim um hálfþrjú. Pabbi og mamma voru fyrir utan tæpum tveimur tímum seinna en mamma treysti sér ekki í tröppurnar upp í íbúð til mín svo við mæðgin skruppum öll út til að faðma þau. Þetta var afar stuttur hittingur en hefði líklega ekki orðið nema vegna þess að foreldrar mínir þurftu að koma á okkur pökkum.

Ákvað að keyra Odd Smára í vinnuna og dreif mig í sund á heimleiðinni. Fór að venju í Laugardalslaugina. Synti í þrjú korter, fór aðeins einu sinni í kalda pottinn í tæpar þrjár mínútur, nokkrar mínútur í sjópottinn og einhverjar mínútur í gufuna áður en ég fór aftur heim. Skrifaði nokkur jólakort og eitt auka bréf með smá sendingu til ungrar konu hverrar mömmu ég þekkti.

14.12.15

"Milkiwhale" í Norræna húsinu í gær

Þar sem ég fór afar seint að sofa aðfaranótt gærdagsins, eitthvað langt gengin í þrjú ákvað ég að taka mér frí frá morgunsundinu á sunnudagsmorgni. Það fór nú svo að ég fór ekkert í sund í gær. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um ellefu og hún minntist strax á að sig langaði til að plata mig með sér á jóladagatalið í Norræna húsinu kl. 12:34. Ég var alveg til í þetta og rétt fyrir tólf löbbuðum við af stað heiman frá henni og vorum tæpan hálftíma á leiðinni. Fyrirfram vissum við ekkert á hvaða viðburð við vorum að fara. Það kom ekki í ljós fyrr en gluggi númer 13 var opnaður og þar stóð Milkywhale. Um var að ræða íslenska tveggja manna hljómsveit, plötsnúð og dansandi söngkonu sem söng alveg ný og eldri lög á ensku næstu tuttugu mínúturnar eða svo. Þetta var bara gaman. Við stöllur löbbuðum sömu leið til baka, þ.e. meðfram Hringbrautinni, og þegar við komum aftur á Sólvallagötuna kvaddi ég og dreif mig í Krónuleiðangur út á Granda. Þegar ég kom heim lét ég Odd Smára vita og hann kom út og hjálpaði mér inn með vörurnar og gekk frá þeim. Seinna um daginn nýtti hann síðasta gildisdag rauða kortsins og fór til pabba síns en Davíð Steinn var búinn að ráðstafa sér í annað verkefni. Ég lauk við danska og íslenska jólabréfið sem bæði fara til Danmerkur. Með íslenska jólabréfinu laumaði ég auka jólakorti. Horfði á Landann og Downton Abby en vann svo í því að koma mér í bælið því framundan var morgunvaktarvika og þá vakna ég alltaf um fimm.

13.12.15

Hvorki forvitin né feimin

Viðkvæmir sem "slysast" inn á þessa síðu eru varaðir við að textinn sem á eftir fer gæti innihaldið "óviðeigandi" orð sem eru ekki notuð á hverjum degi. Held þó sjálf að flestir ættu að þola og þora að lesa pistil minn um gærdaginn.

Ég var mjög lengi á báðum áttum hvort ég ætti að skella mér í sund í gærmorgun. Framkallaðar blæðingar voru um það bil að hefjast og ég man ekki til þess að ég hafi farið í sund í svoleiðis ástandi. Var vöknuð á áttunda tímanum en klæddi mig ekki nærri strax. Slakaði vel á inn í morguninn en þegar ég var komin á fætur kveikti ég á tölvunni og leitaði að upplýsingum um sund og blæðingar. Vissi reyndar að það á alveg að vera hægt að stunda sundið ef notaður er þar til gerður tappi. Ég á til svoleiðis og þegar var komið undir hádegi ákvað ég að taka til sunddótið og drífa mig af stað.

Lánsbíllinn var hrímaður allan hringinn en það tók ekki langa stund að skafa allar rúður og ljós. Mikið var um bíla í Laugardalnum en ég var svo heppin að fá stæði og það á frekar góðum stað. Einn sjúkrabíll var fyrir framan aðalinnganginn og annar var að renna að um það leyti sem ég var að ganga inn. Ein af konunum sem vinna þarna og ég er nýbúin að fá að vita að er nafna mín (Önnu-nafna mín) tók á móti sjúkraflutningamönnunum sem voru að koma og sagði að þeir ættu að fara inn með börurnar. Ég sá þessar börur á ganginum fyrir framan búningsklefana en spáði hvorki í frekari staðsetningu né velti því fyrir mér hvað væri í gangi. Ég var bara ákveðin í að vera ekki fyrir og hugsaði um það eitt að finna mér skáp, afklæðast og skreppa afsíðist til að koma tappanum fyrir. Þegar ég kom fram aftur, haldandi á handklæði vöfðu utanum um sjampóbrúsa, tvískiptu sundfötunum og sundgleraugunum áttaði ég mig á að börurnar voru á gólfinu fyrir framan sturturnar og það voru fjórir sjúkraflutningamenn að sinna þessu tilfelli. Og ég nakin (og reyndar fleiri konur og stúlkur) á leið í sturtu. Ég setti handklæðið ofarlega í geymslurekkann og fór í sturturnar sem eru strax til vinstri og eru aðeins við einn vegg. Þaðan var ekki hægt að vera að glápa á hvað var að gerast við börurnar. Ég tek það fram að ég gleymdi alveg að vera feimin þessa stuttu stund sem ég valsaði inn að sturtunum. Synti stanslaust í um 50 mín, skrapp í sjópottinn (sá kaldi var lokaður vegna loftkulda), aðeins í gufuna og settist svo um stund á bekk í "sólbað" áður en ég fór upp úr og heim.

Um miðjan dag lánaði ég sonunum bílinn til að þeir kæmust báðir á "spilakvöld" í Kópavogi. Hugsaði að það væri smá tími síðan "einkabílstjórinn" hefði fengið að taka í stýrið. Ég dundaði við ýmislegt heimavið. M.a. skrifaði ég fyrsta jólabréfið af þremur (enska bréfið), jólakort með því, horfði á beina útsendingu frá því þegar dregið var í riðlanana á EM-2016 og horfði reyndar á imbann, 3 myndir, allt kvöldið og fram á nótt. Strákarnir komu heim um tíu en hurfu fljótlega inn í sín herbergi.

12.12.15

Engin sundferð í gær

Nýliðnir fimm virku dagar urðu aðeins öðruvísi en til stóð. Vaktin mín var fyrirfram ákveðin frá 13-19 með smá undantekningum. Var búin að segja frá því að á mánudaginn var vinnudagurinn frekar stuttur vegna veðurs. Á þriðjudaginn vann ég "rétta" vakt en þá var jafnframt tekin ákvörðun um að framlengja vinnu til klukkan 21:00 út vikuna, frá og með miðvikudeginum. Fjóra virka morgna af fimm fór ég í sund þar sem ég gaf mér góðan tíma í sundið (ca. 50 mín plús mínus 5), potta og gufuferðir. Frá miðvikudeginum fór ég þar að auki gangandi í vinnuna og gerði ég mér það til gamans að stilla "rekjara" á mig í nýja símanum.

Þegar ég var að ljúka vinnu um níu á miðvikudagskvöldið hringdi ein nafna mín og frænka í mig, þá stödd fyrir utan heima hjá mér (og þar var enginn heima). Hún og maðurinn hennar voru að sækja til mín pönnuna sem var notuð í að steikja laufabrauðið um daginn. Pannan var komin út í lánsbílinn en ég var nýbúin að segja við þá sem var með mér á vaktinni að ég yrði líklega að fara að drífa í að skrifa jólakortin og samnýta ferðina með jólakortið til frænku minnar til að skila pönnunni í leiðinni. Frænka mín sótti mig í vinnuna þetta kvöld og ég gat því skilað henni pönnunni í leiðinni.

Síðustu tveir vinnudagarnir voru langir og öðruvísi, fimmtudagurinn ívið lengri en minna hægt að gera. Ég komst heim til mín stuttu fyrir miðnætti en það hefði líklega ekki náðst nema vegna þess að næsti yfirmaður skutlaði mér heim. Í gær komst ég ekkert í sund því ég fann að það var ekkert skynsamlegt við það að rífa sig of snemma á fætur. Ég var samt komin á ról um níu. Skrapp aðeins út í Sunnubúð um ellefu og labbaði af stað í vinnuna hálftíma síðar. Var mætt þangað klukkan tólf og vinnubrögðin við hluta af daglegu verkefnunum voru allt öðru vísi en venjulega en hafa þó verið "notuð" áður, bara afar, afar sjaldan. Eftir allt daglegt og fljótlega eftir að hinar vaktirnar voru farnar vorum við tvær (sem báðar mættum um tólf) áfram til klukkan níu og létum vélina ganga allan tímann fyrir utan hálftíma þegar við fengum okkur kvöldmat. Sú sem var með mér á vaktinni býr í Garðabænum og hún bauðst til að skutla mér heim sem ég þáði með þökkum.

Heima hitti ég fyrir annan unga manninn, soninn sem er tilvonandi rafeindavirki. Sá ungi maður var farinn til vinar síns þegar hinn ungi maðurinn kom heim úr vinnunni um ellefu.

9.12.15

Kaldur pottur og sjópottur í gærmorgun

Var hálftíma seinna á ferðinni í laugina í gærmorgun heldur en á mánudagsmorguninn. Það kom til af því að tilvonandi rafeindavirki hafði fengið misvísandi skilaboð um prófatíma. Ein tilkynningin var sú að prófið ætti að frestast um hálftíma og byrja klukkan níu en hið rétta var að prófið frestaðist ekki neitt. Skutlaði honum upp í Tækniskóla við Hallgrímskirkju og var hann líklega tuttugu mínútum of seinn en fékk þó að taka prófið.  Ég var byrjuð að synda fimm mínútum yfir níu og það hlakkaði heldur betur í mér því ég hafði tekið eftir því að kaldi potturinn var fullur af vatni og opinn. Synti því aðeins í um þrjú korter fór tvisvar í þann kalda einu sinni í heitan pott og sá svo að það var líka búið að opna sjópottinn svo ég nýtti mér það. Endaði svo á smá gufu og útisetu áður en ég skrapp heim. Hinn sonurinn "lánaði" mér rauða kortið í hádeginu og sótti það til mín í vinnuna eftir að hann var búinn í prófi um miðjan dag. Hann var svo farinn í sína vinnu er ég skilaði mér aftur heim eftir mína vinnu.

8.12.15

Stuttur vinnudagur í gær vegna veðurs

Var pínu löt af stað í gærmorgun en það kom öðrum syninum til góða. Í stað þess að mæta í Laugardalslaugina strax klukkan hálfsjö mætti ég tæpum tveimur tímum síðar eftir að hafa skutlað Davíð Steini upp í Tækniskóla við Hallgrímskirkju þar sem hann átti að mæta í próf klukkan hálfníu. Ég var byrjuð að synda þegar klukkan var 08:35 og hætti ekki fyrr en 55 mínútum síðar. Þá fór ég í smástund í gufu og sat svo aðeins úti áður en ég dreif mig aftur upp úr og heim. Um ellefu leytið vakti ég hinn soninn til að athuga hvort hann væri skráður í vinnu. Þá hafði hann nýlega haft spurnir af því að kvöldvaktin yrði felld niður vegna slæmrara veðurspár. Ég fékk því rauða kortið og var mætt í mína vinnu um hálfeitt. Fyrsta sem ég frétti er ég mætti á staðinn var að það voru fyrirmæli um að hætta framleiðslu um þrjú og koma sér heim. Eftir stuttan fund fór ég og sú sem var á síðdegisvakt með mér inn í framleiðslurýmið og þar vorum við til klukkan langt gengin í þrjú. Vorum búnar að ganga frá deildinni um þrjú og þau okkar sem voru ekki þegar farin heim af deildinni yfirgáfu svæðið skömmu síðar. Ég rétt missti af leið 13 þar sem ég fann svipað lykilkort og við notum í vinnunni minni rétt við strætóskýlið og ákvað að afhenda þeim sem sér um hýsingar og móttökuna fyrir RB á K1 þetta spjald til að finna út úr því hver ætti það. Kom heim fyrir klukkan fjögur og notaði tímann fyrst til að horfa á Landann og Downton Abbey frá því kvöldið áður. Útbjó kvöldmat á sjöunda tímanum, horfði á fréttir en var löt að öðru leyti, nennti ekki einu sinni að lesa og skreið upp í rúm löngu fyrir miðnætti.

7.12.15

Magnað aðventukvöld í kirkju óháða safnaðarins í gærkvöldi

Það hurfu nokkrir dagar eitthvað út í buskann án þess að ég fengi rönd við reist enda afar ósennilegt að nokkur mannelgur máttur hafi vald á að stoppa tímann í að æða svona hratt áfram. Á fimmtudaginn átti ég ekki að mæta í vinnu fyrr en um hálfeitt svo ég skellti mér í sund strax upp úr klukkan hálfsjö. Þar sem ég hafði ekki farið í sund síðan á mánudagsmorgun ætlaði ég eiginlega ekki að geta hætt að synda. Tapaði tölunum á ferðunum en ég synti stanslaust í tæpar sextíu mínútur. Eftir sundið skrapp ég heim með sunddótið, hellti upp á smá kaffi en staldraði svo sem ekki lengi við því ég hafði hug á því að kíkja aðeins í Kringluna áður en ég átti að mæta til vinnu og lét ég verða af því. Oddur Smári var með rauða kortið og ég ákvað að vera á lánsbílnum. Fékk ekkert stæði á neðra plani Seðlabankans en það var líka viðbúið. Hafði gott af því að ganga smá spöl frá planinu rétt við bensínstöðina. Sex og hálfum tíma seinna þurfti ég að sópa aðeins af lánsbílnum en komst klakklaust heim og fékk ágætis stæði í götunni. Oddur var farinn í vinnuna en hinn ungi maðurinn var búin að hafa til kvöldmatinn og beið með að borða þar til ég skilaði mér heim um hálfátta.

Föstudagurinn var eilítið stermbinn, vinnulega séð (kannski vegna þess að þetta var síðasti vinnudagur afar viðburðarríkrar vinnuviku), en ég kláraði vinnutímann milli 7:45 og 15:55. Fékk leyfi til að rjúka út rétt fyrir fjögur til að komast heim sem fyrst og afhenda Oddi strætókortið. Á laugardagsmorguninn var ég mætt í Laugardalinn um hálfníu og synti jafnlengi og tveim morgnum fyrr. Skrapp aftur í Kringluna á leiðinni heim. Um eitt leytið skutlaði ég bræðrunum í afmælisveislu í Kópavoginn og sá til þess að sá þeirra sem ekki var með rauða kortið væri með fyrir strætófargjaldi heim. Um þrjú var ég mætt í kirkju óháða safnaðarins þar sem ég hitti fyrir eina sem er líka í stjórninni og sú er reyndar formaður KÓSÍ-kórsins. Það tók okkur tæpa klukkustund að setja upp og skreyta jólatréð í kirkjunni og raða upp borðum og stólum í neðri safnaðarsalnum. Skrapp í Krónuna við Nóatún og verslaði inn áður en ég fór aftur heim.

Ég var mætt á svipuðum tíma í laugina í gærmorgun og á laugardagsmorguninn. Synti einnig jafn lengi. Skrapp svo heim í sutta stund m.a. til að ganga frá sunddótinu og ná í esperanto-bækurnar. Var komin til esperanto vinkonu minnar um ellefu og við áttu notadrjúga esperantostund saman. Fór beint heim á eftir og slakaði á fyrir kvöldið. Stuttu fyrir fimm klæddi ég mig í sparileg föt, greip með mér nótur og aðra skó og var svo mætt í kirkjuna mína ca korter yfir. Þangað voru að tínast til fullt af öðru kórfólki bæði úr KÓSÍ (mínum kór), Kyrjunum og Stefni og ræðumaður og einsöngvari kvöldsins, Bergþór Pálsson, mætti ca klukkustund síðar til að æfa sitt prógramm. Aðventustundin sjálf byrjaði klukkan átta, full kirkja og þegar allir taldir saman náðum við tölunni 252. Stundin heppnaðist afar vel og ræðumaður kvöldsins fór á kostum. Hann hélt minni athygli allan tímann og ég er nokkuð viss um að hann talaði í uþb tuttugu mínútur (var ekki með neina tímavél á mér þó). Á eftir bauð safnaðarstjórnin, sem var öll mætt, upp á kaffi, öl og smákökusmakk á báðum hæðum. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar ég skilaði mér svo heim, afar sátt með alla helgina.

3.12.15

Smávegis um gærdaginn

Ég vaknaði af sjálfsdáðum fyrir klukkan hálfsex í gærmorgun amk hálftíma áður en ég hafði stillt klukkuna. Hugurinn stefndi í Laugardalinn og ég klæddi mig, fékk mér að borða og tók til sunddótið, vinnudótið og kórdótið, greip bíllyklana og dreif mig út. Ég var ekki lengi að ákveða að það borgaði sig ekkert að reyna að "finna" lánsbílinn, leyfa honum að kúra áfram undir þykku snjóteppi í stæðinu fyrir framan innkeyrsluna og fara aftur inn og kúra aðeins lengur sjálf.

Fór svo með hálfátta strætisvagninum í vinnuna. Þrátt fyrir krefjandi verkefni og eril í vinnunni fékk ég leyfi til að fara aðeins fyrr svo ég náði vagninum heim rétt fyrir fjögur. Ungi sölumaðurinn fékk hjá mér strætókortið og rétti mér kúst í staðinn. Vel gekk að sópa af bílnum og að því loknu keyrði ég einn hring og lagði í annað stæði. Hafði ágætis tíma til að slaka á heima um stund áður en ég bílaðist á kóræfingu þar sem æft var fyrir komandi aðventukvöld sem og jólamessurnar. Fékk svo gott stæði stutt frá nr. 21 þegar ég kom heim aftur.

2.12.15

Vikan hálfnuð

Ég tók strætó, leið 13, fyrir utan Sunnubúðina um hálfátta í gærmorgun. Vinnudagurinn var erilsamur og fullt af "auka"-verkefnum sem þurfti að leysa. Dagurinn leið líka frekar hratt. Um hálffimm tók ég leið 11 frá Hörpu og fór í skýlinu á horninu á Háteigsvegi við Stakkahlíð. Var því mætt á réttum tíma á reglubundinn safnaðarstjórnarfund. Þrátt fyrir fannfergi var ekki mikið um forföll á fundinn, aðeins organistinn og varaformaðurinn komust ekki. Eftir góðan fund fékk ég far heim með formanni stjórnarinnar sem líka skutlaði ritaranum heim enda var þetta nokkurn veginn á hans leið heim til sín. Davíð Steinn var að sinna verkefnavinnu upp í skóla en við Oddur Smári fengum okkur afganginn af kvöldmatnum frá því á mánudagskvöldið, ofnbakaðar kjúklingabringur á grænmeti. Seinna horfðum við á Castle en ég var komin í háttinn um hálfellefu.

1.12.15

Fullveldisdagurinn

Þá er síðasti mánuður ársins hafinn og mér segir svo hugur um að hann verði horfinn í aldanna skaut með þessu herrans ári eftir ótrúlega stuttan tíma. En aðeins um síðustu tvo daga.

Þrátt fyrir að fara nokkuð seint að sofa aðfaranótt sunnudagsins var ég komin á fætur um sjö. Eldri systurdóttir mín hafði fengið að gista hjá vinkonu sinni. Systir mín, mágur og yngri systurdóttir voru komin á fætur og þau fóru fljótlega í Skautahöll Reykjavíkur. Ég fékk mér morgunhressingu, tók til sunddótið mitt og var að sópa af lánsbílnum ca tuttugu mínútum fyrir átta. Fyrsti viðkomustaður var áðurnefnd skautahöll. Mætti þangað um það bil sem fyrri hópurinn úr keppnishóp 12-B byrjaði að hita upp. Systurdóttir mín var númer tvö í keppnisröðinni í þeim hóp. Ég horfði á allara 12 stúlkurnar, báða hópana, og skráði niður stigaskorið hjá hverri og einni. Bríet sem er ein af yngstu keppendunum í hópnum skoraði 22,15 þrátt fyrir að detta en hún varð í 4. sæti.

Var mætt í Laugardalslaugina um hálftíu. Nú var búið að loka kalda pottinum en ég synti þá bara þeim mun lengur. Ekki var heldur hægt að fara í sjópottinn sem er í viðgerð. Afgangurinn af sunnudeginum fór í ýmis konar dútl. Norðan fjölskyldan fór í heimsókn austur á Hellu og gisti þar. Til stóð að þau yrðu svo aftur eina nótt í viðbót hér hjá mér en þar sem spáin var slæm flýttu þau plönunum og voru víst komin aftur norður um miðnættið í gærkvöldi.

Ég náði því ekkert að hitta þau aftur. Fór í morgunsund strax upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun. Hafði nægan tíma. Lena mætti líka en þar sem kaldi potturinn var lokaður vorum við næstum því farnar að velta okkur upp úr snjónum. Hafði tíma til að skutla sunddótinu heim áður en ég mætti í tíma til tannlæknis sem skoðaði skemmd á einum stað. Nánari skoðun á skemmdinni sem sást í myndatöku í síðasta eftirliti leiddi í ljós að hún var það dúp að það borgar sig að rótarfylla tönnina. Skrýtið að ég skuli ekki hafa verið farin að finna fyrir neinni tannpínu. En ég fékk bráðabirgðafyllingu og tíma aftur eftir uþb tvær vikur. Skrapp heim, fékk mér að borða og hringdi austur. Hafði lánað öðrum syninum rauða kortið í strætó svo ég fór á bílnum í vinnuna og var mætt þangað um hálfeitt og kom heim aftur um átta um kvöldið. Þá var sá sem fékk strætókortið farin í vinnuna sína en hinn ungi maðurinn var steinsofnaður og svaf hann víst til klukkan sjö í morgun.