29.11.17

Nokkrar línur fyrir svefninn

Ég kveikti á tölvunni í kvöld til þess að senda Veitum álestrartölur af rafmagns- og hitamælum íbúðarinnar. Báðir þessir mælar eru niðri í kjallara, annar í þvottahúsinu en hinn á ganginum fyrir framan.

Eftir vinnu í gær tók ég strætó á Hlemm og nr 14 þaðan í Laugardalinn. Kaldi potturinn var lokaður og tómur en ég synti í tæpan hálftíma, flatmagaði um stund í sjópottinum og endaði að gufu áður en ég fór upp úr. Var komin heim upp úr klukkan sex og byrjaði á því að hringja í pabba.

Hluta af vinnutímanum í dag notaði ég í að hreinsa til á heimasíðu óháða safnaðarins. Fór yfir allar tilkynningasíðurnar, afritaði textana yfir í word-skjal og ef í ljós komu leiðinda linkir eftir innbrot þá eyddi ég þeim textum einfaldlega út. Ég á aðeins eftir að athuga hvort svona linkir leynist í textunum sem eru bundnir við hnappana í svörtu stikunni.

Fór beint í sund eftir vinnu. Nú var kaldi potturinn opinn svo ég fór beint ofan í hann þegar ég kom út. Þar fyrir var maður sem ég veit að mælir hitastig pottsins reglulega svo ég spurði hvort hann hefði mælt í dag og hvað hitastigið væri. Jú, hann hafði mælt pottinn innan marka, 7,8°C. Við fórum aðeins að ræða um kalda potta og sjóböð og ég gleymdi tímanum, sat í pottinum í rúmar sjö mínútur. Synti svo í hálftíma og fór aðeins í sjópottinn áður en ég fór uppúr. Var komin heim á svipuðum tíma og í gær.

28.11.17

Lítið eftir af nóvember

Þar sem ég fór ekki austur um síðustu helgi var ég mætt í Laugardalslaugina rétt eftir opnun, um átta á sunnudagsmorguninn. Var komin nógu snemma heim aftur til að skutla N1-unga manninum á vakt og hleypti ég honum út við stöðina við Stórahjalla átta mínútum fyrir tíu.

Hinn ungi maðurinn fór á fætur upp úr tólf til að koma með mér og undirbúa maulið eftir messuna í óháðu kirkjunni um eitt. Allt var nokkurn veginn klárt rétt fyrir tvö og þá gaf ég honum leyfi til að skreppa frá. Sjálf settist ég inn í kirkju og naut messunnar. Jazztríó sá um tónlistina og spilaði jólalög í jazzútsetningum á milli ritningalestra og predikunnar. Seinni messuna í mánuðinum er alltaf altarisganga og eftir að ég hafði þegið brauðið og og blóðið laumaði ég mér niður í eldhús til að sækja vatn úr ísskápnum og leggja lokahönd á maulið. Korteri eftir að messu lauk kom Oddur Smári aftur. Við tókum því þó rólega þar til flestir voru farnir en þá tók það okkur klukkutíma að ganga frá og vaska upp. Ungi maðurinn sá um að koma öllu niður í eldhús og laga og þurrka af borðunum á meðan ég sá um uppvaskið og fráganginn í eldhúsinu.

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær var ég eitthvað að spá í að drífa mig annað hvort á Valsvöllinn eða í Lífsspekifélagið um kvöldið. Hafði aðeins tekið þá ákvörðun á sleppa sjósundinu þar sem ekki var mælt með því vegna mengunnar. Reyndin var svo sú að ég var heima, horfði á megnið af körfuboltalandsleiknum og bjó til ein tíu jólakort, þau fyrstu og kannski síðustu kortin á þessu ári. Allir á jólakortalistanum fá þó jólakveðju því ég á til "hinsegin" jólakort.

26.11.17

Skautað yfir nýliðna viku

Fór í sjósund, eigilega sjóbusl, í ca. 3 mínútur í 1,6°C sjónum rétt upp úr fimm á mánudaginn var. Hafði til kvöldmat, horfði á fréttir og bakaði svo uppáhalds smákökusortina hans Odds Smára.

Eftir vinnu á þriðjudaginn, tók ég stætó upp á Hlemm og annan þaðan sem stoppaði rétt við Laugardalslaugina. Um kvöldið bakaði ég uppáhlalds smákökusortina hans Davíðs Steins.

Rétt fyrir átta á miðvikudagskvöldið sótti ein nafna mín og frænka mín mig. Við vorum boðnar í heimsókn til einnar sameiginlegrar vinkonu. Þar var vel tekið á móti okkur og flaug tíminn svo hratt að áður en við vissum af var klukkan að nálgast ellefu.

Fór í sund, með strætó, beint eftir vinnu á fimmtudagskvöldið. Kom heim fyrir sex og var farin aftur með strætó niður í bæ rétt fyrir klukkan átta. Hitti vinnufélagana á K1 í Matarkjallaranum. Það kvöld leið jafn hratt og kvöldið áður. Fékk far með einni heim.

Á föstudagskvöldið var ég mætt í Lífspekifélagið stuttu fyrir klukkan átta til að hlusta á skemmtilega kynningu/fyrirlestur um Joga Nídra. Engin af mínum vinkonum sem eru í félaginu komust en það var allt í lagi. Þar sem mér finnst svo gaman að trítla upp stigann, fór ég upp eftir fyrirlesturinn og fékk mér smá kaffi. Labbaði svo hálfa leiðina heim á eftir, eða upp á Hlemm og tók strætó þaðan. Var komin heim um tíu.

Í gærmorgun byrjaði ég á því að fara í sund stuttu eftir opnun. Komst heim að ganga frá sunddótinu áður en ég dreif mig yfir til esperanto vinkonu minnar. Frá henni lá svo leiðin í Krónuna við Granda. Það togaðist á í mér að halda mig bara heima við restina af deginum eða skreppa í Lífsspekifélagið. Það fyrrnefnda varð ofaná þótt ég hafi reyndar ekki nýtt daginn alveg jafn vel og ég hafði hugsað mér. Datt m.a. í að horfa á eina jólamynd á DR1.

14.11.17

Árskortið í sund endurnýjað

Fór á bílnum í vinnuna í morgun. Strax eftir vinnu, um fjögur, lá leiðin í Kringluna. Þar fór ég fyrst á bókasafnið og skilaði öllum sjö bókunum sem voru í mínum fórum og tók aðrar fimm í staðinn. Næst trítlaði ég alveg yfir í hinn endann, þar sem þjónustuborðið er fyrir framan Hagkaup á fyrstu hæðinni, og keypti mér þriggja mánaða kort í strætó sem gildir frá og með morgundeginum. N1 strákurinn minn getur þá nýtt hitt kortið síðasta mánuðinn en það rennur úr gildi 14. desember n.k. Eftir að það kort er runnið út ákveðum við hvort hann kaupi sér sjálfur þriggja mánaða kort eða hvort við nýtum mitt kort saman eins og við erum búin að vera að gera undan farið ár.

Eftir Kringluferðina lá leiðin í Laugardalinn þar sem ég byrjaði á því að endurnýja sundkortið mitt, sem rann út þann 12. nóvember sl. Nýja kortið gildir til 14. nóvember 2018. Það fæ ég endurgreitt sem íþróttastyrk. Að sjálfsögðu skellti ég mér í sund, 2x3 mínútur í kaldan pott, 500 metra bringusund og smástund í sjópottinum áður en ég fór upp úr og heim.

13.11.17

Sjórinn 3 komma 8 gráður um fimm í dag

Ég skrapp austur um helgina. Fór þó í sund og esperanto á laugardagsmorguninn. Kom aðeins við í Löngumýrinni en var komin á Hellu einhvern tímann á fjórða tímanum. Stoppaði til klukkan að verða tvö í gær. N1 strákurinn var að vinna um helgina, báða dagana frá 10-22. Hitti stuttlega á hinn unga manninn er ég kom heim í gær en hann var á leiðinni út úr húsi og kom ekki aftur fyrr en um níu leytið.

Fékk að hafa strætókortið í dag. Var mætt í vinnu um hálfátta og fór þaðan aftur klukkan hálffjögur. Stoppaði aðeins í um klukkustund heima áður en ég tók mig til fyrir ferð í sjóinn og dreif mig í Nauthólsvíkina um fimm. Fór tvisvar sinnum í sjóinn, heita langpottinn á milli og var komin heim aftur á slaginu sex.

Ein af bókunum sem komu með mér heim af safninu síðast er Uppskriftabók skáldverk eftir 10 höfunda sem eiga mismikið og ólík efni í bókinni. Hafði virkilega gaman að lestri þessarar bókar. Núna er ég að lesa Vegur vindsins eftir Ásu Marín og sú saga rígheldur og kallar fram margar tilfinningar á köflum. Hef bæði hlegið og tárast yfir lestrinum. Á eftir um 50 blaðsíður og ef ég þekki mig rétt þá fer ég ekki að sofa fyrr en ég hef lokið við bókina.

10.11.17

Smá föstudags

Ég ákvað að nota strætó í morgun þótt ég væri ekki með kortið. Átti nóg klink fyrir eitt fargjald, 450 kr. og var mætt í vinnu korter fyrir átta. Labbaði svo heim úr vinnunni seinni partinn, fínasta hreyfing það. N1 ungi maðurinn tekur tvær auka vaktir í næstu viku og verður með kortið fjóra af fimm virku dögunum. Ég fæ líklega aðeins að hafa kortið á mánudaginn. Kannski að það sé best að fjárfesta í nýju þriggja mánaða korti eftir vinnu á mánudaginn og leyfa piltinum að nýta hitt kortið á meðan það gildir. Örugglega skynsamlegt af mér að nota strætó í og úr vinnu flesta eða jafnvel alla daga vinnuvikunnar næstu þrjá mánuðina eða svo.

Í gærkvöldi var KÓSÍ-hittingur hjá einni úr hópnum. Ágætis mæting var þótt ekki kæmust allir. Skemmtilegt kvöld enda er sérstaklega góður andi yfir þessum fyrrum kirkjukórshóp.

Enn er ég ekkert farin að huga að jólakortagerð en það eru 44 dagar til jóla svo ég þarf að fara að huga alvarlega að þessu. Það gæti endað með því að einungis fáir útvaldir úr ekkert svo löngum lista fái heimasmíðað kort. En hver veit kannski kemur andinn og löngunin yfir mig fljótlega og þá svo sterk að ég föndra 25 kort á 2-3 kvöldstundum?

7.11.17

Engar holur

Fór í árlegt tanneftirlit um þrjú í dag. Það voru teknar tvær myndir og tannsteinn hreinsaður. Var í hæsta lagi í tuttugu mínútur í stólnum og bókaði sama tíma að ári um leið og ég gerði upp. Ég er svo sannarlega heppin með tennur og tannheilbrigði og ég er ekki frá því að engin gosneysla, nema sódavatn stöku sinnum, tengist þessu eitthvað.

Hef nýlokið við að lesa vísindaskáldsöguna Kórey eftir Ólaf Halldórsson. Sagan spannar tímabilið frá 2016-3095 er er mjög spennandi á löngum köflum. Það komu fyrir kaflar sem ég botnaði lítið sem ekkert í en ég skautaði í gegnum þá líkt og maður skautar stundum hratt yfir ættarupptalningarhlutana í Íslendingasögunum. :-)

Keypti mér sjósundssokka áður en ég skrapp í sjóinn í Nauthólsvíkinni upp úr klukkan fimm í gær. Sjórinn var sagður 4,7°, kaldari en kaldi potturinn en mér var hlýtt á tánum og fann ekki fyrir kulda. Buslaði líklega þó ekki nema um 3-4 mínútur í sjónum. Eftir að ég var búin að vera rúmar fimm mínútur í heita pottinum og farin að huga að því að fara aftur heim, kom ein bekkjarsystir mín úr grunnskóla og ég skellti mér í 3 mínútur í víkina með henni. Þar sem það var flóð var svipa hitastig á sjónum í víkinni. Ég kom heim hress og endurnærð á sjöunda tímanum.

5.11.17

Helginni eytt í bænum

Á föstudaginn vantaði mig aðeins rétt rúmlega 1000 skref til að jafna skrefametið skv. S-Healt í símanum.  Metið er yfir 18000 skref. Ég labbaði báðar leiðir milli heimilis og vinnu og um kvöldið dobblaði ein vinkona mín mig með sér í Öskjuhlíðina í tvo tíma, vorum ekki að labba mjög mikið, bara til og frá staðnum þar sem hittist hópur af fólki í eldathöfn.

Í gærmorgun var ekkert sem togaði mig strax á fætur þannig að ég var ekki komin í sundið fyrr en um hálfellefu. Kom heim aftur upp úr tólf og bjó mér til hafragraut. Um tvö heyrði ég í strákunum mínum en þeir voru ekkert að koma fram úr herbergjunum sínum. Ég var mætt í Lífspekifélagið rétt fyrir þrjú þar sem okkur var sagt frá og sýndar myndir úr japönsku Zen-búdda klaustri. Mjög flottar myndir og áhugaverð frásögn. Klukkan var nýorðin fimm þegar þetta var búið og þá lá leið mín í Smáralindina í búðina "Skórnir þínir" þar sem ég verslaði mér góða vetrar-gönguskó sem eru vatnsheldir, með góða, grófa sóla og eiga að endast mér næstu árin.

Í morgun var ég komin í Laugardalinn upp úr klukkan átta, ekkert löngu eftir opnun. Fór fyrst í kalda pottinn og svo í 42° heita pottinn að spjalla við eina pottormsvinkonu mína áður en ég fór aftur í þann kalda og synti svo í hálftíma. Endaði svo í gufunni áður en ég fór upp úr og heim.

1.11.17

Labbað milli heimilis og vinnu

Skref dagsins eru komin yfir 13000 samkvæmt talningu S-health í símanum mínum. En ég ætlaði svo sem ekkert að vera að monta mig of mikið af þessu. Það er kominn 1. nóvember og ég er ekki enn farin að huga að jólakortagerð. Ég er reyndar búin að vera að hugsa um að byrja í rúman mánuð en það er ekki nóg. Ég þykist nefnilega nokkuð viss um að þótt fyrstu tíu mánuðir ársins hafi liðið nokkuð hratt þá munu næstu átta vikur þjóta áfram á ljóshraða, eða eitthvað nálægt því.

Fyrir um hálfum mánuði síðan endurnýjaði ég bókasafnsskírteinið mitt um leið og ég skilaði sjö bókum af átta, framlengdi einni og nældi mér í 6 í viðbót til að taka með mér heim. Er ekki nógu dugleg að lesa þessa sem ég þarf að skila eftir rúmar tvær vikur. Búin að lesa tvær af hinum og er önnur þeirra alveg dásamleg; Britt-Marie var hér eftir Fredrik Olson, sama höfund og Maður sem heitir Ove og Amma biður að heilsa. Á eftir að lesa þá síðast nefndu en hingað til hefur hún ekki ratað í bókasafnspokann til mín.