27.2.19

Febrúarlok nálgast

Febrúar bráðum búinn er
brátt þá kemur vorið.
Birtustundum fjölga fer
fáum úr því skorið.

Langt síðan andinn heltist svona yfir mig. Og auðvitað rataði þessi ferskeytla á vegginn minn. Verð að muna eftir því að setja hana líka hjá ljóðasafninu mínu.

Fór í lífspekifélagið á föstudagskvöldið var. Þar var kynning á Spring forest Qi Gong og við sem vorum á kynningunni fengum að prófa að fara í gegnum æfingarnar og elimentin fimm. Það var virkilega skemmtilegt. Sú sem sá um kynninguna sagði að hún yrði með hugleiðingu og frekari kynningu í félaginu strax daginn eftir. Ég fór líka á þann viðburð og sá ekki eftir því þótt ekki væru gerðar neinar verklegar prufur í það skiptið.

Ég var boðin í útskriftar -og "fögnum lífinu"- veislu sl. laugardagskvöld. Einkabílstjórinn keyrði mig á staðinn um átta. Skemmti mér mjög vel í þessu partýi hitti nokkrar manneskjur sem ég þekki en mismunandi langt síðan ég hef hitt þær. Hitti líka eina sem ég hef heyrt mikið um en aldrei hitt áður. Tíminn leið alltof hratt enda var mjög gaman eins og áður hefur komið fram. Sendi skilaboð til einkabílstjórans upp úr miðnætti um að sækja mig um eitt. Hann sá þau klukkan eitt og kom ekki fyrr en um hálftvö. Ég var samt ekkert farinn að bíða eftir honum.

21.2.19

Þrumur og eldingar

Eftir þrjá sunddaga í röð rennur upp annar fimmtudaginn í röð sem ég sleppi sundi. Það er þó ekki endilega vegna þrumuveðursins heldur var settur á bland af frænku og vinkonu hittingi. Ein sameiginlega vinkona mín, og einnar frænku minnar og nöfnu, sem hefur unnið með okkur nöfnunum báðum ákváðum að hittast hjá nöfnu minni á nýja heimilinu hennar. Hún fluttist innan Garðabæjar í desember sl og ég var aðeins búin að kíkja einu sinni á hana, rétt fyrir jól, þegar hún var enn að koma sér fyrir og átti m.a. eftir að fá hluta af eldhúsinnréttingunni upp. Ég fékk að hætta vinnu rétt fyrir þrjú og sameiginlega vinkonan renndi við eftir mér. Ég sá þá um að leiðbeina henni heim til frænku minnar. Við þrjár höfum ekki hist allar saman síðan í nóvember 2017. Frænka mín tók vel á móti okkur en bað okkur að afsaka óreiðna hjá sér. Ég gat ekki séð neina óreiðu en hún átti líklega við þá hluti sem enn er verið að vinna að eftir flutningana.

20.2.19

Aðeins rúm vika eftir af febrúar

Þriðja daginn í röð fór ég í sund mjög fljótlega eftir að ég var búin að sinna vinnuskyldunni og sækja sunddótið og bílinn heim. Sundrútínan tekur lágmark uþb klst og í dag bættist einhver aukatími við vegna hárþvottar og þurrkunar. Ég sápuþvæ hárið á ca viku fresti. Þess á milli kemst ég upp með að setja það í hnút og troða því undir sundhettu sem ég tek ekki af fyrr en eftir sundrútínu og sturtu. Hárið er yfirleitt nánast þurrt eftir. Það er aðeins ef ég syndi nokkrar ferðir á bakinu að það virðist vætla meira inn fyrir hettuna, en ekkert þó sem orð er á hafandi.

Það var hringt í mig í dag frá blóðgjafafélaginu og ég boðuð á aðalfundinn hjá þeim sem verður fyrsta fimmtudagskvöldið í næsta mánuði. Ég var spurð að því hvort mætti senda mér sms um viðburðinn. Mér fannst það ekki spurning, þáði þetta með þökkum og má meira að segja bjóða einhverjum að koma með mér. Þetta verður eitthvað.

19.2.19

Meira um bækur

Ég er byrjuð að lesa tvær af þeim sjö bókum sem komu með mér heim af safninu á föstudaginn var; Ævintýri og sögur frá nýja Íslandi tekið saman af Wwilliam D. Valgardson þýdd af Böðvari Guðmundssyni og Þitt annað líf hefst þegar þú uppgötvar að þú átt bara eitt eftir Rahaëlle Gio. Verð líklega ekki lengi að klára þessar tvær. Sú síðarnefnda er eiginlega þannig að maður vill helst ekki hætta að lesa. Er búin með uþb einn fjórða af þeirri bók og ég mun klára hana í síðasta lagi annað kvöld.

Annars fékk ég að hætta vinnu upp úr tvö. Fór beint heim en stoppaði ekki mjög lengi þar. Var komin í Laugardalslaug um hálffjögur. Eftir sund- og pottarútínuna kom ég aðeins við í Krónunni við Nóatún til að versla það sem upp á vantaði til að hafa vefjur með hakki og grænmeti.  Davíð Steinn sá svo um að útbúa kvöldmatinn.

18.2.19

Aðeins um bækur

Í síðustu viku fékk ég lánaða bókina Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Á föstudaginn rann út skilafrestur á þeim fjórum bókum sem ég var með á safninu. Hefði getað framlengt frestinum um 30 daga en ég var búin að lesa þessar bækur að mestu og það sem ég var ekki búin með hafði ég ekki áhuga á eyða lengri tíma í að glugga í. Og þrátt fyrir að vera með eina bók í láni og þar að auki eina ólesna jólabók þá komu sjö bækur með mér heim af safninu. Um síðustu helgi tók ég lánsbókina og tvær af safninu með mér austur. Ég tek venjulega ýmislegt með mér og pakka niður fyrir nokkra daga þótt ég ætli bara að vera yfir nótt. En að þessu sinni eltu lesgleraugun, +1, mig ekki. Sem betur fer þarf ég ekki alltaf að nota þau, sleppur alveg í góðri birtu og með vel hvíld augu. Lánsbókin greip mig strax á fyrstu blaðsíðu, skemmtilega sett upp, spennandi og áhugaverðar pælingar. Tók þá bók með mér í vinnuna í morgun og var svo þrælheppinn að geta nýtt, kaffi, matar og smá af vinnutímanum í lestur þannig að ég náði að klára bókina og skila henni.

17.2.19

Hellublót 2019

Þegar pabbi spurði mig, fyrir uþb 10 dögum síðan, hvort hann mætti bjóða mér á þorrablót á Hellu sagði ég strax; "Já takk!", þrátt fyrir að það væri árshátíð hjá RB sama kvöld. Árshátíðin hjá vinnunni minni hefur oftast verið haldin í mars og einhverra hluta vegna var ég alls ekki stemmd fyrir því að fara núna. Ég hef hins vegar aldrei farið á þorrablót hér fyrir austan öll þessi 20 ár síðan það var haldið fyrst. Þetta var semsagt tuttugu ára afmælisblót, uppselt og húsfyllir eða vel yfir 500 manns. Pabbi hefur heldur ekki farið á blót áður en að þessu sinni ákvað hann að slá til. Það var líka vel tekið á móti honum og honum heilsað hlýlega af mjög mörgum. Hann fékk úthlutað á sæti á besta stað. Dekkuð voru yfir 50 10 manna borð og tveir að hinum borðsgestunum voru pabbi æskuvinkonu minnar og með honum var skólasystir mömmu frá því í húsmæðraskólanum á Blöndósi fyrir uþb 60 árum síðan. Var að hitta þá konu í fyrsta skipti og líkaði vel við. Hún spurði mig hvort ég hefði ekki verið heimagangur hjá Sigrúnu heitinni og Val hér árum áður og kannaðist vel við það og sagði hann ætti alveg stóran part í mér. Blótið var annars verulega vel heppnað, súrmaturinn frá Múlakaffi, heimatilbúin skemmtiatriði, smá harmonikkuball á eftir og svo lék Stuðlabandið fyrir dansi eitthvað fram eftir. Við pabbi vorum mætt á staðinn upp úr klukkan sjö og létum svo gott heita þegar ég hélt að það væri uþb miðnætti en þá var klukkan að byrja að ganga tvö. Pabbi keyrði en við vorum hvorugt í víni og ég fór ekkert á dansgólfið að þessu sinni. Var ekkert í svoleiðis stuði (kannski næst) en hitta marga en þó ekki alla. Í morgun fékk ég mér svo göngutúr upp að Helluvaði og var systir hans pabbi mjög hissa en mikið ánægð með að litli bróðir hennar hafi drifið sig á blót.

13.2.19

Febrúar næstum hálfnaður

Í gærkvöldi bað ég einkabílstjórann um að gera sér ferð  í Sorpu í dag. Svo vildi svo vel til að hann var akkúrat á ferðinni um það leyti sem ég mátti fara heim úr vinnu sem var aðeins í fyrra fallinu. Hann sótti mig rétt fyrir þrjú og ég bað hann um að skutlast með mig í fyrirtækið "Eins og fætur toga" til að sækja nýju innleggin mín. Það gekk fljótt og vel fyrir sig því. Ég notaði tækifærið og keypti tvo aukapúða undir vinstri hælinn í skó sem ég set ekki eða kem ekki innleggjunum í. Ég stoppaði ekki lengi heima, bara rétt til að ná í sunddótið mitt. Var komin ofan í kalda pottinn rétt fyrir klukkan fjögur. Fékk gott pláss á brautum 7 og 8 til að synda mína 500 metra. Sundrútínan, pottaferðir og gufan tók mig rétt rúmlega klukkustund.

11.2.19

Auka heimsókn til tannlæknis

Um miðjan nóvember síðast liðinn fór ég í árlegt tanneftirlit um mánuði seinna en mörg undanfarin ár. Ástæða seinkunarinnar var sú að tannlæknirinn minn var kominn í barnsburðarleyfi og þessi tími var næsti lausi tími hjá öðrum tannlækni. Sá sem sinnti eftirlitinu tók tvær myndir og benti mér á að það borgaði sig að bóka tíma fljótlega til þess að huga að skemmd uppi hægra meginn alveg út í enda. Það eru einhver ár síðan var gert við á þessum stað en ég á greinilega mjög erfitt með að bursta þennan stað. Ég ákvað að taka mark á þessari ábendingu og bókaði tíma eftir að ég hafði gert upp heimsóknina þennan dag. Vildi þó ekki fá tíma í desember eða janúar og fyrsti tími eftir hádegi í febrúar hjá þessum tannlækni var kl. 15:45 í dag. Var svo heppin að eiga kost á því að skreppa fyrr heim úr vinnu til þess að sækja bílinn og sunddótið. Var mætt á 4. hæð í Valhöll tæpum tíu mínútum fyrr. Komst að á réttum tíma og þrátt fyrir að það þyrfti að deyfa, bora, pússa, spasla og fleira tók þetta innan við hálftíma. Næst fer ég í árlegt eftirlit í lok október til tannlæknisins míns en hún kemur til vinnu aftur úr fæðingarorlofi núna í vor. Ég var komin í Laugardalinn rétt fyrir hálffimm.

Annars fór ég ekkert austur um helgina. Eftir sund og esperanto á laugardaginn notaði ég restina af deginum í ýmislegt dútl hér heima. Í gær fékk ég Odd til að koma og hjálpa mér við að undirbúa maulið eftir messuna. Davíð Steinn var að vinna 12 tíma vakt (10-22) á N1 í Borgartúni. Hann fór labbandi um morguninn en gleymdi að taka með sér strætókortið. Oddur skutlaði mér í Krónuna við Nóatún og skutlaðist með kortið til bróður síns á meðan ég verslaði aðeins inn fyrir maulið sem og heimilið. Ég var komin út á plan með pokann áður en Oddur kom aftur. Hann sá svo um að undirbúa efri safnaðarsalinn undir móttöku á kirkjugestum í maulið eftir messuna. Hann fór upp með bolla, glös og fleira. Ég hellti upp á kaffi, skar niður gulrótarköku, jólaköku og setti á diska og setti einni tvær smákökusortir í skálar. Undirbúningurinn tók okkur mæðginin um þrjú korter og svo leyfði ég honum að fara en ég var sest inn í kirkju rétt áður en messan hófst. Við vorum amk 34 í kirkjunni. Sat svo róleg í maulinu á eftir og drakk amk 2 kaffibolla og spjallaði við einn kirkjugestinn. Var tæpan klukkutíma að ganga frá á eftir, m.a. vegna þess að það var aukauppvask, tvær fullar grindur af bollum, glösum og diskum voru í þurrskápnum. Sennilega var eitthvað af því hreint en það var búið að setja óhreint leirtau saman við (sem á aldrei og alls ekki að fara þangað óuppvaskað) svo ég ákvað að renna því öllu í gegnum þvottavélina. Sendi einkabílstjóranum og sérlega aðstoðarmanni mínum skilaboð um að hann mætti sækja mig rétt fyrir klukkan hálffimm.

7.2.19

Fyrsti dagur í vinnu eftir stutt frí

Það var vel tekið á móti mér á K1 þegar ég mætti rétt fyrir klukkan átta í morgun. Þar að auki reyndist þessi vinnudagur mjög svo gestkvæmur. Petra sem hætti í kortadeildinni í fyrra eftir rúmlega 12 ára starf kom til okkar um það bil sem við vorum að fara að morgunkaffi. Klukkan eitt var reglubundinn hálfsmánaðarfundur með framkvæmdastjóra og að þessu sinni var nýr forstjóri með í för að kynna sig og kynnast starfseminni hjá okkur. Og um þrjú leytið kom fyrrverandi starfsmannastjóri í heimsókn.

Annars var mjög notalegt að vera í fríi í gær. Var tiltölulega snemma á fótum en notaði morguninn í að hringja í pabba og einnig klára jólabók númer tvö af þremur sem ég byrjaði á að lesa í ferðalaginu. Þorpið eftir Ragnar Jónasson. Virkilega spennandi og góð bók. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég dreif mig loksins í sund. Gaf mér góðan tíma í Laugardalnum. Á heimleiðinni kom ég við í Krónunni í Nóatúni og Fiskbúð Fúsa í Skipholti. Restin af deginum fór í alls konar dúllerí heima, m.a. prjónaskap en ég byrjaði á enn einu sjalinu kvöldið fyrir Kanaríferðina. Er komin á þriðju dokku núna.

6.2.19

Komin heim frá Kanarí

Síðustu vikuna í september síðast liðinn gisti góð vinkona, Lilja, í stofunni hjá mér áður en hún fór út til vetrardvalar á Kanaríeyjum. Þessa viku sem hún var hjá mér spurði hún mig nokkrum sinnum hvort ég myndi ekki koma og heimasækja hana. Seinni parinn í nóvember varð það úr að ég athugaði hvort það væri í lagi að ég kláraði sumarfrídagana mína frá því í fyrra um mánaðamótin jan/feb 2019. Það gekk eftir og ég bókaði viku ferð með WOW út þann 29. janúar með eina litla handfarangurstösku og heim þann 5. febrúar með ferðatösku. Með sköttum og forfallatryggingu kostaði þetta vel innan við 50 þúsund.

Á mánudaginn í síðustu viku fékk ég að hætta í vinnu um hálftvö. Tók strætó heim til að sækja bílinn og byrjaði á því að skreppa í "Eins og fætur toga" til að leggja inn pöntun fyrir nýjum innleggjum og kaupa mér nýja strigaskó. Ætlaði líka að kaupa mér auka 7mm púða undir vinstri hælinn en það gleymdist. Kom reyndar ekki að sök því ég átti til innlegg með upphækkun sem ég gat notað. Áður en þessi dagur var úti var ég líka búin að skreppa í sund og pakka mig saman. Tvíburahálfsystir mín kom við hjá mér upp úr klukkan fimm til að hjálpa mér að setja upp bókunarapp í símann og ég var búin að skrá mig inn í flugið með því appi og pósti frá wow áður en hún fór.

Morguninn eftir keyrði einkabílstjórinn minn á BSÍ rétt upp úr klukkan sex þaðan sem ég tók rútu upp á flugvöll. Vel gekk að koma sér í gegn en þótt ég hefði rúman tíma þá notaði ég hann einungis til að taka út 300 evrur úr hraðabanka en settist svo niður og beið þar til kominn var tími til að ganga um borð. Fékk mér hvorki vott né þurrt þessi tvö harðsoðnu egg og vatnsglas stóðu með mér alveg þar til boðið var upp á að kaupa sér hressingu um borð. Flugið út tók styttri tíma en reiknað var með og vorum við lent amk tuttugu mínútum á undan áætlun, það snemma að Lilja vinkona var ennþá í strætó á leiðinni að sækja mig og þurfti ég að bíða smástund eftir henni. Það urðu fagnaðarfundir þegar hún fann mig. Við byrjuðum á því að skreppa með dótið mitt "heim" til hennar í þorp sem heitir Vecendario sem er ekkert mjög langt frá flugvellinum. Lilja bauð mér upp á súpu og kaffi. Svo skruppum við aðeins út í búð til að kaupa helstu nauðsynjar fyrir næstu daga, m.a. BACH-hvítvínsflösku. Sambýlingur Lilju síðustu mánaða skrapp til Íslands með vélinni sem ég kom með. Hún var búin að vera rúmum mánuði lengur á Kanarí og þurfti að koma heim áður en liðnir væru 6 mánuðir frá því hún fór út til að halda ákveðnum réttindum hér heima. En í stað þeirrar konu var von á annarri með öðru flugfélagi sama kvöld og ég kom. Sú lánaði hinni íbúðina sína í viku og fékk herbergið hennar í staðinn. Við Lilja fórum saman út á flugvöll að sækja viðkomandi. Lögðum tímanlega af stað en nú brá svo við að það var seinkun í gangi og við biðum í hátt í tvo og hálfan tíma á vellinum. Það var svo sem í góðu lagi því það var hægt að setjast niður og fá sér smá hressingu. Það var svo ákveðið að taka leigubíl heim. Fórum ekki að sofa fyrr en fór að halla í miðnætti.

Við vorum vaknaðar og komnar á stjá rétt upp úr klukkan átta á miðvikudagsmorguninn. Gáfum okkur góðan tíma í fá okkur kaffi og staðgóðan morgunverð, gríska jógúrt með múslí og epli. Síðan fórum við allar þrjár út í göngutúr um Vecendario. Fórum m.a. upp á göngugötu sem Lilja sagðist kalla Laugaveginn, tæplega km löng. Við skoðuðum inn í margar búðir og ég keypti mér bakpoka, buxur og stuttbuxur. Við fórum líka á markað þarna í grenndinni sem er alltaf á miðvikudögum og margt að sjá og finna þar. Ég keypti ekkert þar en hinar tvær fjárfestu m.a. í allskonar hollustu nammeríi eins og möndlum, fíkjum, döðlum og fleiru.

Á fimmtudeginum fengum við okkur 45 mínútna göngutúr að öðru þorpi, Paya de Pozo izquario, sem er alveg við sjóinn. Þar stoppuðum við í góða stund og tvær af okkur skelltu sér í smá sjóbað. Héldum göngunni svo áfram, fundum aðra leið heim og vorum þá búnar að ganga í stóran hring. Seinni partinn skruppum við svo í Mollið í Vecendario.

Á föstudaginn tókum við strætó til Faro. Þar keypti ég mér sandala og strandmottu enda eyddum við góðum tíma á ströndinni þar. Lilja var sú eina sem ekki fór í sólbað og sjóinn en hún var með sessu og bók með sér og beið þolinmóð eftir okkur hinum tveimur.

Morguninn eftir vildi hinn gesturinn fara eigin leiðir og skoða aðra strönd í öðru þorpi en við Lilja tókum stærtó upp í fjöllinn og eyddum deginum í einu af efsta fjallaþorpinu sem var endastöð strætó. Það var mjög gaman að ferðast með strætó alla þessa leið og margt að sjá. Á mörgum stöðum þurfti bílstjórinn að flauta fyrir horn. Í þorpinu sjálfu var líka ýmislegt að skoða. Við prófuðum m.a. útiæfingatæki sem ætluð voru öllum eldri en 15 ára. Við vorum þau löngu búnar að skoða það helsta og einnig fá okkur hressingu áður brottfarartími vagnsins til baka (um sex) rann upp. En þatta var mjög skemmtilegur dagur sem endaði með smá Pizza-veislu heima í íbúð.

Á sunnudeginum var ætlunin að fara á markað stutt frá ensku ströndinni. Svæðið sem Lilja fór með okkur á reyndist autt og tómt en áður en við vorum búnar að ákveða framhaldið bar að þýskan mann sem er búsettur í nágrenninu helminginn af árinu. Hann vissi hvert var búið að flytja markaðinn og rölti með okkur þangað spjallandi við Lilju á sínu móðurmáli. Markaðurinn reyndist öðruvísi en við ætluðum, t.d. ekkert grænmeti til sölu bara alls konar varningur í misjöfnu ástandi. Hinn gesturinn fann reyndar afar flotta styttu af konu í flottum bláum kjól og prúttaði niður í 7 evrur. Alveg við markaðinn var kaffihús og þar bauð egypskur maður okkur að setjast hjá sér. Þegar kaffið okkar kom var svarta kaffið kalt og ódrekkandi og Abú skilaði þeim bollum og kom með heitara kaffi í staðinn. Hann krafðist þess líka að fá að borga fyrir kaffið en þegar hann bauð okkur á rúntinn með sér sögðum við hingað en ekki lengra. Þökkuðum pent fyrir og sögðumst vera ákveðnar í að fara fótgangandi á næsta áfangastað sem var Jumbó Center á ensku ströndinni. Þangað var nokkur spölur en mjög skemmtileg ganga þangað, þurftum að svindla okkur yfir götur á tveimur stöðum þar sem við sáum ekki gangbraut nálægt en þurftum yfir. Fengum okkur að borða á stað sem er stutt frá stað sem í mörg ár var kallaður Klörubar. Og þegar við héldum göngunni áfram á þann stað þar sem við tókum strætó til baka til Vecendario sá ég Europalace hótelið tilsýndar, hótelið sem ég og nokkrir af útskriftarfélögum úr FSu dvöldum á í hálfan mánuð fyrir 31 ári síðan.

Á mánudaginn löbbuðum við hinn hina leiðina að ströndinni við Pozo þar sem tvær af okkur fóru í sólbað og sjóinn áður en við löbbuðum aftur til baka. Skiluðum af okkur stranddótinu og fórum svo í stærstu Kína-búðina í Vecendario þar sem ég keypti m.a. stærri tösku sem ég gat bæði sett flugreyjutöskuna mína, mitt dót sem ég var ekki með í bakpokanum og einnig nokkuð af verkfærum sem Lilja keypti sér í London í haust á leiðinni til Kanarí. Kínabúðtaskan er fjólublá og flott og tók leikandi við þessu öllu og fór ekki yfir þyngdarmörkin 23kg vó uþb 21,5kg og ég náði þarna að bjarga Lilju svo hún þarf ekki að borga yfirvigt þegar hún tekur sig upp frá Vecendario.