Ég heyrði þegar pabbi fór í sund rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Ég var ekki með sunddótið með mér og ætlaði mér að kúra aðeins lengur. Það gekk samt ekki upp því ég var glaðvöknuð. Gafst upp á að reyna að sofna aftur rétt fyrir sjö og fór á fætur. Kveikti á einni tölvunni hans pabba og vafraði um á netinu í ca. klukkustund. En þegar pabbi kom heim úr upp úr hálfníu var ég búin að færa mig inn í eldhús og að leggja kapla. Fljótlega settist ég inn í stofu með bók. Er búin með bókina sem Davíð Steinn gaf mér í jólagjöf og næst síðustu bókina sem ég er með af safninu: Grafin undir gistihúsi, sláandi sönn saga af svikráðum, misnotkun og morðum eftir Ryan Green þýdd af Gísla Rúnari Jónssyni. Í gær byrjaði ég á annarri bókinni sem Oddur Smári gaf mér og er líka að lesa síðustu bókina sem ég er með af bókasafninu: Leyndarmál systranna eftir Diane Chamberlain.
Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu þar sem við fengum aspassúpu og dýrindis kjúklingarétt. Ég tók aðeins til við prjónana eftir að við komum til baka aftur en ég var líka að leggja kapla, lesa og vafra á netinu fram að kaffi. Um fjögur, strax eftir kaffi, kvaddi ég pabba tók mig saman og lagði af stað í bæinn. Tók með barnastígvél sem Magga hans Sævars hafði komið með kvöldið áður. Hitti á Kristínu dóttir hennar við Rauðavatn og afhenti henni þessi stígvél.
Upp úr hádegi í dag er ég aftur á leið út úr bænum í tvær til þrjár nætur. Verð ekki með tölvuna meðferðis svo skrifin liggja niðri á meðan. Er nýlega komin heim úr sundi og á enn eftir að hella mér upp á kaffi. Best að fara að vinna í því.