29.5.19

Maí alveg að verða búinn

Hvernig fer tíminn eiginlega að því að æða svona hratt áfram? Ég er búin að vera dugleg við lesturinn undanfarið og hef heimsótt bókasafnið á ca hálfsmánaða fresti aðallega vegna þess að ein að bókunum sem koma með mér heim í hvert skipti er með 14 daga skilafrest. Næ að klára að lesa hluta af hinum bókunum og skila í leiðinni en þótt ég skilji eftir ólesnar bækur heima kem ég alltaf með 4-6 bækur með mér heim. Á miðvikudaginn var skilaði ég nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar Stúlkan hjá brúnni og þar áður Krýsuvík eftir Stefán Mána. Var annars að ljúka við lestur á bókinni Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shaffer & Annie Barrows. Bókin gerist rétt eftir seinni heimstyrjöldina og er framvinda sögunnar sett upp í sendibréfum. Þessi bók greip mig heljartökum. Byrjaði á henni sl. sunnudag og lauk við hana aðfaranótt þriðjudags. Var ekki heima á mánudagskvöldið. Hefði geta farið á heimaleik í Pepsí-deild kvenna en milli sex og rúmlega hálfátta var ég á Bjórgarðinum að kveðja einn vinnufélaga og þaðan fór ég svo beint í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar. Var mætt hjá henni rétt fyrir átta og fimm mínútum síðar var klukkan byrjuð að ganga tólf.

Var ekki í vinnu í gær. Var að hitta sálfræðinginn í 3. sinn og líkt og í hin skiptin tók ég mér heilan veikindadag. Ég finn að þetta samtal er að gera mér gott og ég finn líka að ég geri rétt með því að taka nokkra tíma í þetta. Sálfræðingurinn var að hvetja mig til að halda einhvers konar tilfinningadagbók fyrir sjálfa mig. Það er smá áskorun því það er orðið mjög langt síðan ég skrifaði eitthvað niður á blað ef mér leið ekki mjög vel. Ég er nokkuð viss um að það mun gera mér gott að taka þessari áskorun. Svo stefnan er að finna eða útvega mér stílabók og byrja á þessu verkefni sem fyrst. Punkta niður líðan mína daglega sama hvernig mér líður og grufla þá í því hvort eða hvað sé að flækjast fyrir mér og hvernig ég geti létt á mér og skilið eftir eitthvað sem er alveg óþarfi að burðast með dags daglega út lífið.

14.5.19

Rúmur mánuður

Það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig en samt hef ég leyft tímanum að þjóta hjá án þess að setja niður staf um eitt eða neitt af því. Ég er mikið búin að lesa, prjóna, labba, synda, pottormast og fara á hina og þessa viðburðina, hitta vinkonur og fleira og fleira.. Og svo er ég búin að gera eitt tvisvar sinnum sem ég hef aldrei gert áður. Var við það að brotna saman í vinnunni um daginn, ekki alveg viss nákvæmlega út af hverju en ákvað að prófa að fá að tala við sálfræðing. Ferlið var þannig að ég lét mannauststjóra og framkvæmdastjórann minn vita að ég væri ekki alveg að fúnkera og að þegar samstarfstarfsfólki mínu væri farið að líða illa í kringum mig þá þyrfti ég að athuga minn gang. Þetta var fyrir páska. Tveim dögum eftir að ég sendi þessi skilaboð hitti ég mannauðsstjóra og talaði við hana í rúma klukkustund, beygði aðeins af fyrstu mínúturnar sem er frekar ólíkt mér. Við, mannauðsstjórinn, ákváðum í sameiningu að ég myndi fara og bera mig upp við trúnaðarlækni fyrirtækissins morguninn eftir en hún sendi mér líka rafrænt bréf á einkanetfangið mitt með alls konar tillögum. Hitti lækninn strax morguninn eftir og við ákváðum að ég skildi prófa að tala við sálfræðing. Læknirinn tók niður gsm-númerið mitt og tveim dögum seinna hafði sálfræðingurinn samband og gaf mér tíma síðasta mánudaginn í apríl. Mér skilst að vinnan mín greiði fyrir allt að 10 tíma. Ég fékk líka að ráða því að hafa það þannig að ég tæki mér heilan veikindadag fyrir þennan eina tíma. Fyrsta viðtaliið gekk bara vel, fannst gott að fá tækifæri til að velta upp og tala um ýmsa hluti. 50 mínútur voru afar fljótar að líða og okkur kom saman um að hittast aftur. Sá tími var í gær og fékk ég að hafa þetta eins, taka heilan veikindadag og ráðstafa honum að vild. Fór í sund í gærmorgun og hellti upp á kaffi þegar ég kom heim upp úr klukkan tíu. Sálfræðitíminn var klukkan eitt. Það fór á sama veg, 50 mínútur voru fljótar að líða og mér fannst ég ekki vera búin að tala út eða finna alveg afhverju mér leið svona illa og hafði allt á hornum mér í vinnunni fyrri partinn í apríl. Það getur vel verið að það sé fleira en eitt og meira en tvennt sem er að naga mig að einhverju leyti. En á meðan mér finnst það gera mér gott að tjá mig við fagmenntaðan einstakling ætla ég að þyggja það að taka nokkra tíma enn.