25.2.09

- Kóræfing í kvöld -

Þessa vikuna eru allir dagar ásetnir. Í gærkvöldi var keiluæfing hjá mér. Ekki gekk mér alveg eins vel og í síðustu viku en mér hefur líka gengið verr, svo þetta slapp. Nafnarnir fóru saman í Katlagil þar sem bekkur söngfuglsins var með kvöldvöku og skemmtu sér fram eftir kvöldi. Kvöldið endaði á krassandi draugasögu með hryllingsívafi sem maðurinn minn samdi sjálfur og las á staðnum. Í kvöld fer ég að kóræfingu og annað kvöld erum við búin að stefna forráðamönnum bekkjarfélaga karatestráksins á kaffifund í Perlunni. Á föstudaginn fara nafnarnir með drengjakórnum, kórstjóra, undirleikara og nokkrum foreldrum í æfingabúðir en ég fer á árlega árshátíð hjá safnaðarstjórn óháðu kirkjunnar.

24.2.09

- Alltaf nóg að gerast -

Enn á ný eru liðnir nokkrir dagar síðan ég bloggaði síðast. Ekki er alltaf um skort á tíma að ræða enda finnur maður sér yfirleitt alltaf tíma til að gera það sem manni finnst skemmtilegt að gera. Nei, heldur hefur andleysi og skriftarleti hrjáð mig. Það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig en hvenær sem færi gefst sest ég niður með góða bók eða tek upp saumana mína. Ég skilaði nokkrum bókum á safnið í síðustu viku og kom með fleiri til baka (þrátt fyrir að eiga ennþá ólesnar bækur af safninu heima). Eftir vinnu í gær arkaði ég á skrifstofuna til Davíðs til að fá hjá honum bílinn og gefa honum færi á því að vinna aðeins lengur. Í þetta skipti varð hann reyndar samferða heim. Ég skutlaði söngfuglinum á æfingu, sótti sendingu á pósthúsið og skilaði tveimur bókum á safnið. Skilafresturinn var að bresta á. Þarf varla að taka það fram að, auðvitað sá ég nokkrar bækur sem ég bara varð að taka með mér heim. Einnig náði ég mér í nokkrar bækur á esperanto. Og nú er ég með 17 bækur af safninu heima. Þegar ég kom heim var karatestrákurinn að labba af stað á æfingu. Ákvað að skutla honum. Verið var að skipta um læsingu á útidyrunum heima og fengum við einn lykil. Ég stoppaði því ekki lengi heima við heldur skrapp í Kringluna með það að markmiði að fjölfalda þennan lykil. Því miður var ekki til efni í svona lykil. Sótti strákana af æfingum og hafði svo smá tíma til að slaka á áður en Davíð bauð okkur að gera svo vel. Í gærkvöldi hittumst við svo þrjár vinkonur í saumaklúbb, heima hjá einni okkar. Tíminn flaug alltof hratt frá okkur og klukkan var allt í einu orðin ellefu. En það var mikið saumað, prjónað og spjallað...

16.2.09

- Helgin var ekki lengi að líða -

Laugardagurinn fór í esperantofund, innkaup og slökun.
Í gær mættum við öll með karatestráknum í Smárann þar sem keppt var í einstaklings- og hópkata barna og unglinga. Oddur Smári var skráður til leiks, bæði í einstaklings og hópkeppninni. Reyndar mætti einn liðsfélaginn ekki á mótið en það gat annar drengur stokkið inn í hópinn svo þeir gátu keppt. Við mættum á staðinn um hálftólf en Það liðu rúmir tveir tímar áður en komið var að Oddi. Fljótletga eftir að við mættum á svæðið fór söngfuglinn að sjá eftir að hafa komið með en við hjónin skemmtum okkur ágætlega.

13.2.09

- Það er að skella á helgi -

Það var ekki alveg eins gott að arka til vinnu í morgun eins og dagana sem stillan var. Það liggur við að ég panti frekar að hafa kalt og stillt veður heldur en blautt og hált. Seinni partinn í gær var hagl að dynja á mér hluta af leiðinni og það virtist alltaf vera beint á móti, beint í andlitið. En ég komst heim (og reyndar líka til vinnu í morgun) og gat skráð 2x30 mínútur í göngu á lífshlaupssíðuna í gær. Hef skráð hreyfingu á 305 daga á sl. 12 mánuðum og held ég megi bara vera stolt af sjálfri mér. Ég skrái mest göngur en það hefur komið fyrir að ég hef farið í sund og svo leyfi ég mér að skrá heimilisþrifin og hlaupin niður í þvottahús og upp aftur, í flokkinn: Annað, inn á milli.

12.2.09

- Fyrsta færslan í febrúar -

Mánuðurinn er rétt að verða hálfnaður og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan síðasta færsla var sett inn. Dagarnir hafa einhvern veginn þotið frá mér og/eða farið í allt annað en skriftir. Það eina sem liggur niðri líkt og skrifin er útsaumurinn minn. Ég hef ekki snert á nál í hálfan mánuð eða síðan ég fór í saumaklúbb til "tvíburahálfsystur minnar".
Þann 6. febrúar var skipulagsdagur í skólanum og á mánudaginn var, var foreldradagur. Ég átti inni tvo daga af sumarfríinu mínu síðan í fyrra og ákvað að leysa út amk einn og hálfan dag. Var svo heppin að fá bústað, sem ég sótti um, úthlutaðan þessa síðustu helgi og kennarar strákanna buðu okkur að mæta í viðtal sl. þriðjudag. Vorum komin í bústaðinn rúmlega fimm á föstudaginn. Í farteskinu voru m.a. bækur, spil, sundföt og saumadótið mitt. Las tvær og hálfa bók, spilaði póker við feðgana, fór í bæði stuttar og lengri göngur (tvær stuttar og eina lengri, laugardag, sunnudag og mánudag) en fór hvorki í heita pottinn né snerti á sauminu mínu. Potturinn var ekki notaður því það rann ekkert heitt vatn í hann (hverju svo sem um var að kenna (frosti eða bilun)) en ég skil ekkert í því afhverju ég tók ekki aðeins upp nálina. Kannski vegna þess að ég þarf einmitt að fara að drífa mig í að klára tvö af verkefnunum sem ég er með í gangi???
Annars verð ég að koma því á framfæri hvað tvíburarnir eru að standa sig með ágætum í lærdómnum þeir eru með meðaleinkunn upp á tæp 9 (8,89 og 8,96) og ég er mjög stolt af þeim.