30.4.15

Engin sundferð í gær

Þar sem ég átti að byrja vinnu klukkan átta í gærmorgun ákvað ég að labba þangað. Tók m.a. aukabol með mér því ég vissi sem var að það myndi vera foss á bakinu á mér eftir gönguna. Um hálftíu var hringt í mig frá verkstæðinu í Brimborg og mér tjáð að búið væri að laga bílinn. Einhver mistök höfðu átt sér stað um daginn þegar skipt var um tímareimina þannig að þeir tóku þetta alfarið á sig. Það var mikill léttir að fá að vita að bilunin var þannig séð ekkert svo alvarleg og alls ekki mér að kenna. Þetta hefði örugglega geta farið miklu verr svo ég álít mig vera afar heppna.

Vinnudagurinn til klukkan fjögur var svolítið öðruvísi en vanalega en leið mjög hratt. Rétt rúmlega fjögur náði ég leið 6 frá Hörpu og fór út við Ártún. Fékk afhentan bíllykilinn hjá Ford-verkstæðisafgreiðslunni í Brimborg og brunaði beint heim. Heima stoppaði ég nú ekki lengi við því þrátt fyrir að kóræfingin sjálf hefði verið felld niður höfðum við kórfélagarnir ákveðið að hittast yfir kaffibolla og fara yfir ferðaáætlun saman. Það var góð ákvörðun og nauðsynleg. Gáfum okkur rúmlega einn og hálfan tíma í þessa yfirferð og kaffispjall.

Hafði tekið með mér sunddótið en þegar til kom fór ég í Krónuna við Nóatún því ég vissi að það vantaði m.a. brauð til heimilisins. Fór beint heim með vörurnar, gekk frá þeim og hélt mig heima við það sem eftir lifði kvölds. Horfði m.a. á handboltalandsleikinn og var mjög ánægð með strákana okkar. Það gekk einhvern veginn allt upp hjá þeim. Gæti það verið að tilkoma Ólafs Stefánssonar í þjálfarateymið hafi virkað eins og besta vítamínssprauta?

29.4.15

Bílamál

Þegar ég var að keyra eftir Bústaðaveginum í áttina að Tækniskólanum rétt fyrir átta í gærmorgun heyrðist allt í einu hljóð í bílnum eins og eitthvað hefði losnað. Var að skutla öðrum unga manninum í skólann því ég var sjálf á leiðinni í sund um þetta leyti. Sá ekkert "skoppa" frá bílnum og hann hélt áfram án þess að aksturseiginleikar breyttust nokkuð. Farþeginn sagðist þó skömmu síðar hafa fengið lagið "Þrjú hjól undir bílnum..." á heilann. Fljótlega eftir að ég hafði skutlað stráknum uppgötvaði ég að ég hafði gleymt bæði veski og sundkorti heima. Sótti þetta tvennt heim og dreif mig í sund. Þegar ég kom úr sundi ákvað ég að kíkja aðeins ofan í húddið á lánsbílnum og þá fannst mér grunsamlega lítið á vatnstankinum því hann var innan við hálfur.  Ég komst þó heim með viðkomu í bankanum en þá var eiginlega ekkert eftir af vatninu og hitamælirinn byrjaður að rísa. Ég labbaði upp á bensínstöðina við Öskjuhlíð og keypti mér einn brúsa af frostlegi, blandaði með vatni og fyllti tankinn. Hringdi fyrst í pabba og svo í Brimborg. Endirinn var sá að ég ákvað að freista þess að keyra bílinn á verkstæðið. Tók ýmislegt til í bakpokann, þorði varla að kíkja á vatnstankinn aftur en það var ekki eins mikið búið að "sjatna/leka" úr honum og ég óttaðist. Bílnum kom ég alla leið á verkstæðið án þess að mælirinn sýndi merki um að vera að ofhitna. Afhenti bíllyklana, sama manninum og afgreiddi bílinn út eftir viðgerðina um daginn, kvittaði fyrir samþykki um skoðun og viðgerð og tók svo strætó beint í vinnuna. Var mætt um hálfeitt en byrjaði á því að fá mér að borða.

Vinnudagurinn leið mjög hratt en ég var svolítið að velta því fyrir mér hvernig ég kæmist tímanlega á vortónleika KKR og eldri félaga í Langholtskirkju klukkan átta. Mér höfðu nefnilega áskotnast tveir miðar tveim dögum fyrr og ég var búin að fá eina vinkonu og fyrrum vinnufélaga að nýta annan miðann og við ætluðum að hittast við kirkjuna. Ákvað, rétt fyrir sjö, að athuga hvort ein vinkona mín sem býr nálægt vinnustaðnum mínum hefði tök á því að skutla mér. Þetta gekk upp og þarna fengum við tvær líka dýrmætar "hittingsmínútur" en hún er nýkomin úr nokkurra vikna ferðalagi og við vorum ekkert búnar að hittast síðan fyrri partinn í mars. Til að gera langa frásögn aðeins styttri vil ég bara lýsa yfir miklum ánægjum með þessa tónleika, þakklæti yfir að hafa fengið þessa miða frá konu sem tengist mér í gegnum kirkjuna og gleði yfir að geta notað tækifærið til að hitta vinkonur. Ég er afar heppin og þakklát kona og dugleg að lifa í núinu.

28.4.15

Falleg kveðjustund

Steingerður Bjarney Ingólfsdóttir
 1922-2015



Það er alltaf erfitt að kveðja og sjá á eftir þeim sem manni þykir svo undurvænt um.  Það togast á óskirnar um að þrautum þess þreytta og veika linni og að hittast bara einu sinni enn hérna meginn. "Sjáumst", voru síðustu orðin sem ég hvíslaði að Böddu örfáum dögum áður en hún lést.  Í gær var ég við kistulagningu og jarðaför, þakkaði fyrir samfylgdina og fylgdi henni síðasta spölinn. Fékk og gaf ófá knúsin til ættingja og aðstandenda og minnti mig stöðugt á að nú liði henni Böddu minni vel. Laus við allar sínar þrautir og þreytu.  Búin að skila góðu dagsverki og hvíldinni fegin. Ég get yljað mér við margar góðar minningar alveg frá minni barnæsku og í næstum fimm áratugi sem er ekkert svo lítið og fjársjóður útaf fyrir sig.

Vertu blessuð, Badda mín
bæn í heima nýju.
Alltaf mun ég minnast þín
með brosi´ og hlýju.

27.4.15

Um gærdaginn

Var komin á fætur fyrir klukkan átta og ofan í Laugardalslaugina og byrjuð að synda áður en klukkan var orðin níu. Mætti kórsystur minni sem er í pásu frá kórnum í fyrstu ferðinni. Synti í uþb tuttugu mínútur og fór beint í sjópottinn þar sem ég hitti aðra kórsystur mína sem er virk í kórnum. Úr sjópottinum fór ég tvisvar í gufuna og settist út á bekk í millitíðinni.  Kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim.

Það var messudagur í gær en bæði kórinn og organistinn í fríi. Ég dreif mig samt í messu sem almennur kirkjugestur og fékk Odd til að skutla mér. Bauð honum reyndar að koma með í messu en hann þurfti að vinna að verkefnum fyrir skólann. Messan var nokkuð frábrugðin og skemmtileg. Hljómsveitin sem sá um tónlistina var mjög góð og það var líka gaman að sjá brot úr leikritinu um Örlygsstaðabardaga.  Fékk mér smá maul eftir messu í neðra og svo á aðalfund safnaðarins í efra á eftir. Fyrir hálfum mánuði var komið að máli við mig og ég spurð hvort ég vildi og gæti komið í stjórnina sem meðstjórnandi og ég ákvað að gefa kost á mér. Fylla þurfti fjögur sæti og það komu víst aðeins fjögur framboð svo það þurfti ekki einu sinni að kjósa. Oddur Smári sótti mig aftur eftir messuna, maulið og fundinn.  Ég hefði reyndar alveg getað labbaði heim en ákvað að leyfa stráknum að æfa sig og kynnast lánsbílnum aðeins.

Hafði kjöt og karrýsósu í kvöldamatinn með hýðishrýsgrjónum, lauk og sætri kartöflu. Horfði á Landann og sitthvað fleira á RÚV og SkáEinum um kvöldið.

26.4.15

ASH-68

Titill pistilsins í dag vísar í bílnúmer sem ég sá á sumardaginn fyrsta og get ekki hætt að hugsa um. Afar flott númer svo ekki sé meira sagt.

Hafði annars ætlað mér að byrja gærdaginn á smá sundspretti áður en ég færi til norsku esperanto vinkonu minnar en það snérist eitthvað við. Ég las til svona hálftíu og vafraði svo um á netinu þar til kominn var tími til að drífa sig af stað. Við vinkonurnar voru ekkert duglegar að grúska og glugga í esperantóinu í þetta sinn þótt bækurnar væru allt í kringum okkur. Tíminn fór að mestu í krossgátur, spjall og hlátur og svo skruppum við út í göngutúr. Að þessu sinni beygðum við til hægri og löbbuðum út á Granda, Fiskislóð, Eyjaslóð og þar um kring. Kíktum inn í nýopnaða yoga-stöð, skó-outlet og í Steina-stein. Klukkan var að verða hálftvö þegar ég kvaddi.  Hafði það á orði að kannski ég ætti að prófa að kíkja í Vesturbæjarlaugina en það varð ekkert úr því. Einhvern veginn lá leiðin eiginlega beint í Laugardalinn. Synti í tæpan hálftíma og fór svo tvisvar í gufuna á eftir. Hitti fyrrum söngsystur mína úr KÓSÍ aðeins og hafði áður rétt hitt á eina sem byrjaði í kórnum í haust.

25.4.15

Með einkabílstjóra

Hann var nokkuð napur þegar ég beið eftir strætó fyrir utan Sunnubúðina ca 18 mín fyrir sjö í gærmorgun. Sem betur fer var vagninn á réttum tíma og hirti mig og fleiri upp örfáum mínútum seinna. Vinnudagurinn var fljótur að líða en ég var í smá stressi vegna árlegs öryggisprófs sem ég varð að klára fyrir tvö því þótt það sé opið fyrir að taka prófið til miðnættis á mánudagskvöldið þá hjálpaði það mér ekkert því ég mæti næst í vinnu klukkan eitt á þriðjudaginn. En mér tókst að svara þessu 40 spurninga prófi á uþb tveimur tímum ásamt því að sinna þeim verkefnum sem ég sá um á deildinni í gær. Til að ná prófinu varð að svara amk 75% rétt og ég náði 80%. Hugsanlega hefði ég náð aðeins betra hlutfalli ef ég hefði byrjað fyrr í vikunni og gefið mér betri tíma en ég er eiginlega bara fegin að þetta hafðist og ég náði að hætta vinnu nokkurn veginn á réttum tíma.

Oddur Smári hringdi í mig um miðjan morgun "með slæmar fréttir" að eigin sögn en hann tók verklega bílprófið í gær og náði í fyrstu tilraun eins og hann náði því bóklega í fyrstu tilraun fyrir örfáum vikum síðan. Eftir vinnu dreif ég mig í Sundhöll Reykjavíkur, synti lítið en þó örfáar ferðir, gaf mér lengri tíma í gufu og sólbað. Þegar ég kom upp úr hringdi ég í strákinn með bílprófið, sagði honum hvar bíllyklarnir af lánsbílnum voru og bað hann um að koma á móti mér og hirða mig upp við Kjarvalsstaði. Ég settist svo í fyrsta skipti upp í bíl þar sem annar sonurinn situr undir stýri. Bað hann um að keyra mig á tvo staði áður en við fórum heim. Ég viðurkenni alveg að ég gat ekki haldið aftur af mér við að leiðbeina honum en í heildina var ég samt nokkuð ánægð með þennan nýja bílprófshafa.

Rétt fyrir níu um kvöldið sótti vinkona mín, sem ég "heimsótti" út í Gróttu á sumardaginn fyrsta, mig því við vorum boðnar í hitting í heimahúsi í næsta bæjarfélagi. Kvöldið var skemmtilegt og við tvær ætluðum varla að tíma að fara en þótt við værum ekki svo mörg í upphafi var farið að fækka í hópnum um miðnætti. Á útleiðinni mættum við "síðasta partýljóninu" sem var búið að vera á leiðinni í gleðskapinn allt kvöldið.  Náðum þó að knúsa viðkomandi hæ/bæ áður en vinkonan skutlaði mér heim. Við tvær höfðum um margt að spjalla og leiðin heim var alltof stutt en það þýðir bara að við þurfum að fara að hittast sem fyrst aftur og gefa okkur tíma í að spjalla og hlægja saman.

24.4.15

Annar tvíburinn kominn með bílpróf

Þar sem ég sofnaði óvart frekar snemma að kvöldi síðasta vetrardags þá var ég auðvitað vöknuð fyrir allar aldir í gærmorgun.  Dreif mig fljótlega á fætur með það að markmiði að byrja daginn á því að skreppa í Laugardalslaugina. En ég gerði þau mistök að kveikja fyrst á tölvunni svo það fór amk klukkutími í netvafr og fleira áður en ég dreif mig út úr húsi. Gaf mér góðan tíma í Laugardalnum, 10x50m, sjópottur, tvisvar í gufu og lét sólina þurrka mig á milli. Þegar ég kom upp úr splæsti ég á mig kaffi og banana.

Upp úr klukkan tvö dreif ég mig aftur af stað eftir að hafa verið heima í ca tvo tíma, fengið mér hádegishressingu og vafrað meira um á netinu. Að þessu sinni lá leiðin út í Gróttu þar sem ein góð vinkona mín var með magnaða málverkasýningu. Margir voru á sömu leið. M.a. mæðgur og í fjörunni spurði dóttirin mömmu sína:  "Mamma, afhverju er svona mikið gærnmeti hérna út um allt?" og átti þá við allt þangið og þarann. Leitaði vinkonu mína beint uppi og sleppti því að fara upp í vitann enda nokkur röð þar. Fékk mér kaffi og vöfflu og keypti ljóðabók í leiðinni, Tilfinningar eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur (1892-1970) tekin saman af dóttur hennar Ingibjörgu Bergsveinsdóttur. Afar falleg og mögnuð ljóð í öllum sínum einfaldleika. Ljóðin eru flokkuð niður í sex kafla og í aðfaraorðum er sagt að hún sé hugsuð sem handbók fyrir þá sem vilja svo það er leyfilegt að nota ljóðin úr henni við ýmis tækifæri ef vill.

Kvöldið var að mestu notað í sjónvarpsgláp og lestur.

23.4.15

Gleðilegt sumar!

Vaknaði aðeins á undan vekjaranum í gærmorgun en beið eftir að hann hringdi, "snúsaði" og hélt áfram að kúra næstu mínúturnar. Hafði samt alveg tíma til að sinna morgunverkunum í rólegheitunum.  Ákvað að fara á lánsbílnum í vinnuna. Þegar ég fór úr vinnunni kvöldið áður veifaði ég öryggisvörðunum.  Þekkti annan af þeim en hafði ekki séð hann lengi. Þegar ég mætti til vinnu rétt fyrir sjö var þessi sami vörður að fara úr vinnunni og að sjálfsögðu veifuðumst við á.  Vinnudagurinn leið nokkuð fljótt en var heldur lengri í hinn endann en ég ætlaði mér því klukkan var að verða hálfþrjú þegar ég stimplaði mig út.

Fór beint í Laugardalslaugina. Synti þó ekki nema uþb 200 m áður en ég fór í gufubað.  Á heimleiðinni kom ég aðeins við í Krónunni við Nóatún því ég vissi að það vantaði m.a. brauð til heimilisins.  Hvorugur strákanna var kominn heim þegar ég mætti og ég staldraði ekki svo lengi við.  Gekk frá vörunum og greip svo með mér bókasafnspokann.  Skilafrestur einnar af bókunum var að renna út og ég ákvað að skila henni og þeim fjórum sem ég var búin að lesa að auki.  Skildi þrjár bækur eftir heima. Þar að auki var mér að berast ný bók úr bókaklúbbnum og ég sem er ekki búin að lesa þá bók sem kom fyrir tveimur mánuðum.  Engu að síður kom ég með fjórar "nýjar" bækur með mér heim. Engin af þeim er þó með styttri skilatíma en 30 daga.  Ég held ég verði samt aðeins að fara að taka mér tak, lesa örlítið minna svo ég saumi nú aðeins meira á móti. En kannski myndi ég hvort sem er nýta tímann í eitthvað allt annað og mér finnst ágætt að sinna áhugamálunum í skorpum þótt það sé erfitt að gera upp á milli inn á milli.

Oddur Smári var kominn heim úr skólanum þegar ég kom af safninu en hann fór aftur um sex til að hitta nokkra spilafélaga.  Davíð Steinn kom aðeins seinna heim en Oddur en hann var heima allt kvöldið.  Ég útbjó kvöldmatinn upp úr klukkan sex og eftir að við mæðgin höfðum borðað tók hann að sér að hella upp á kaffi. Var að vafra um á netinu og greip svo í bók og lagðist á rúmið til að lesa, en smám saman seig á mig mikil þreyta og næst vissi ég af mér einhverju klukkutímum seinna þegar kominn var tími til að hátta sig.  Ég háttaði mig undir sæng, fór ekki einu sinni fram á baðherbergi, heldur hélt áfram að sofa.

22.4.15

Síðasti vetrardagur

En skrifin eru aðeins um gærdaginn.  Skipti um vakt í gær við einn vinnufélaga svo sá gæti komist á námskeið eftir klukkan fjögur.  Þessi aðili mun í staðinn taka eitt til sjö vaktina fyrir mig n.k. mánudag en þá ætla ég að vera alveg í fríi. Þrátt fyrir að þurfa ekki að mæta til vinnu fyrr en klukkan eitt í gær var ég komin á fætur fyrir sjö.  Rétt fyrir átta skutlaði ég strákunum í skólann og svo dreif ég mig nokkurn veginn beint í Laugardalslaugina.  Kom aðeins við í pappírsgám við Kjarvalsstaði og tók einnig smá bensín á Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg.  Var komin ofan í laug áður en klukkan varð hálfníu. Synti 500 metra, fór bæði í sjópottinn og gufuna og sat svo góða stund úti á bekk áður en ég fór aftur upp úr og áleiðis heim.

Heima sinnti ég bæði skyldu og eitthvað af áhugamálunum.  Komst þó ekki til þess að munda nál eins og ég hafði ætlað mér en það kemur að því fyrr en síðar.  Oddur Smári kom heim úr skólanum stuttu áður en ég fékk mér að borða og eftir að klukkan var byrjuð að ganga eitt labbaði ég af stað í vinnuna, aðeins aðra leið en venjulega.  Á Snorrabrautinni stutt frá Laugaveginum hitti ég leigubílstjórann, mann norsku esperanto vinkonu minnar, og spjölluðum við stuttlega saman.  Í vinnunni var ég mest megnis í framleiðslu, ásamt þeirri sem var á sömu vakt og ég, eða frá klukkan hálftvö til hálfsjö með tveimur kaffipásum inn á milli.  Vélin framleiddi fyrir okkur kort eins og enginn væri morgundagurinn og var ég afar sátt við dagsverkið okkar þegar ég labbaði af stað heim um sjö. Verð þó að viðurkenna að ég var nokkuð lúin í fótunum eftir daginn og var afar fegin því að Davíð Steinn hafði tekið að sér að útbúa kvöldmatinn.

21.4.15

Þarf að endurnýja sundbolinn minn fljótlega

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun, á undan vekjaranum. Fór með strætó í vinnuna rétt fyrir sjö. Tíminn til tvö leið nokkuð hratt. Labbaði við í Sundhöllinni á leiðinni heim. Synti í hálftíma, sat í gufunni í um tíu mínútur og settist svo út á plaststól og sat þar uns ég var nokkurn vegin þurr.

Kom heim rétt fyrir fjögur og þá var Davíð Steinn búinn að taka úr uppþvottavélinni, raða í hana aftur, setja í gang og var að undirbúa kaffigerð.  Oddur Smári kom úr skólanum nokkru seinna. Hafði lifur og rófustöppu í kvöldmatinn, horfði á fréttir, heyrði í tvíburahálfsystur minni og horfði svo á CSI-Cyber áður en ég fór í rúmið. Las um stund.

20.4.15

1968

Þessi færsla er númer nítjánhundruðsextíuogátta frá upphafi. Það er virkilega góð tala að mínu mati. Þrátt fyrir að vakna nokkuð snemma í gærmorgun var ég mjög slök. Ég var ákveðin í því að drífa mig í sund fljótlega eftir að ég vissi að væri búið að opna og ég var komin ofan í Laugardalslaugina milli hálfníu og níu. Synti í korter og var svo á leiðinni í sjópottinn þegar ég rakst á tvær af kórsystrum mínum (önnur í pásu) í nuddpottinum ásamt eitthvað af vinkonum þeirra sem ég þekki ekki. Skrapp í smástund ofan í pottinn til að spjalla. Svo var það sjópottur, gufa og "sólbað" áður en ég fór upp úr og heim til að ganga frá sunddótinu og taka til esperantobækurnar.

Á slaginu ellefu var ég mætt til Inger og rúmir tveir tímar liðu á megahraða við alls konar dútl. Enduðum á því að lesa ævintýrið um "Gömlu konuna og svínið" á esperanto.  Verslaði inn í Krónunni við Granda áður en ég fór heim.  Oddur Smári var búinn að búa til kaffi og ég notaði hluta af því til að búa til krem til að setja á milli og ofan á kökubotnana sem ég bakaði á laugardagskvöldið.  Um þrjú skutlaði ég stráknum í e-s konar kökuhitting. Davíð Steinn var ekki í stuði til að fara með í það dæmi.

Afganginn af deginum notaði ég í allt annað heldur en tiltekt og þrif en það vantaði þó aðeins upp á að ég væri að sinna öllum áhugamálum mínum því ég komst aldrei lengra heldur en að draga fram handavinnutöskuna og setja við hliðina á mér í stofusófann.

19.4.15

Svei mér þá

Sunnudagur enn á ný og bara örfáir dagar síðan síðast, virðast vera mun færri en sjö. Ég var annars búin að stilla á mig klukkuna sæmilega snemma til að "vekja" röddina amk tveimur tímum fyrir auka kóræfingu. Ég vaknaði nú mun fyrr en það og var komin á fætur áður en klukkan hefði átt að hringja. Mætti upp í kirkju rétt fyrir níu og það var ákveðið að byrja á því að fá sér hálfan bolla af kaffi áður en við byrjuðum að hita upp og æfa. Vorum í kirkjunni frá klukkan níu til klukkan langt gengin í eitt og nýttist þessi tími afar vel. Fyrir utan kórstjórann vorum við 12 mætt af 15 virkum kórmeðlimum.  Vorum að renna yfir lögin sem við ætlum að syngja hér og þar um næstu mánaðamót, mest fyrir okkur sjálf, engir skipulagðir tónleikar. Eftir æfinguna fóru allir á Jómfrúna þar sem ég var búin að panta borð fyrir kórinn og kórstjórann.  Kórsjóður borgaði matinn en hver og einn borgaði sína drykki. Ég fékk mér reyndar bara vatn með matnum en splæsti á mig kaffi á eftir.  Ein af þeim sem ekki komst á æfinguna var að spila á tónleikum í Hörpunni með lúðrasveitinni Svanur klukkan þrjú í gær. Þangað stormuðum við tvær úr kórnum eftir matinn, ég og formaður KÓSÍ sem reyndar er mamma þeirrar sem var að spila. Hún er búin að vera í lúðrasveitinni í meira en 25 ár, bæði komin með silfurmerki í barminn eftir 10 og gull fyrir 25.  Tónleikarnir voru skemmtilegir og tveir tímar flugu ógnarhratt hjá.

Kom heim einhvern tímann rétt upp úr klukkan fimm. Annar strákurinn var að sinna verkefni í skólanum en hinn var heim og búinn að tæma, fylla aftur og setja uppþvottavélina í gang. Nokkru eftir að ég kom heim "henti" í tveggja laga súkkulaði köku því amk annar strákurinn er á leið í e-n kaffihitting í dag og var búinn að biðja mig um að baka e-ð. Í miðjum bakstri kom hinn bróðirinn sársvangur heim. Við slóum þessu upp í smá kæruleysi og skruppum á Pítuna um leið og seinni botninn hafði verið tekinn út og slökkt á ofninum.  Ég kveikti ekkert á sjónvarpinu í gær, vafraði bara um á netinu, las, setti í þvottavél og gleymdi mér líka í netleikjum.

18.4.15

Söngæfing og fleira framundan í dag

En ég ætla bara að segja örlítið frá gærdeginum. Fór með strætó í vinnuna rétt fyrir sjö. Þegar leið á morguninn stóð ég mig að því að bíða eftir símhringingu frá Ford-verkstæði Brimborgar um að sækja mætti lánsbílinn.  Um hádegi náði ég sjálf sambandi við verkstæðið og fékk þær fréttir að verið væri að vinna í bílnum, hann ætti að verða tilbúinn síðar um daginn og að þá yrði hringt í mig.  Þegar vinnu lauk um tvö var ekki enn búið að hringja. Rölti upp á Laugaveg og svo eftir honum í áttina að Hlemmi.  Átti tíma í klippingu um hálffjögur og það var nægur tími. Það er greinilega langt síðan ég labbaði sjálfan Laugaveginn síðast því m.a. tók ég eftir að Penninn-Eymundsson er búinn að opna á "nýjum" stað.  Leit þangað inn til að skoða og varð að halda aftur af mér með að festa kaup á nýjum bókum.  Var eitthvað að spá í að fá mér kaffi en ákvað frekar að rölta áfram. Þegar ég var komin framhjá Hlemmi sló ég aðeins á þráðinn til pabba, hann var líka í göngutúr. Um það leyti sem ég kom að Kristu Quest voru enn rúmlega tuttugu mínútur í að ég ætti að setjast í stólinn. Fékk skyndihugdettu skrapp inn í verslunina Misty og kom þaðan út fimmtán mínútum síðar einni flottri smáflík, sem heildur tveimur hlutum á efri hluta líkamans í skefjum, ríkari. Sjaldan sem ég ákveð svona nokkuð með svona stuttum (engum) fyrirvara. Ekki var enn búið að hringja í mig þegar búið var að klippa mig en á ákvað samt að taka næsta strætó upp í Ártún. Ég var nýsest inn í leið 15 þegar loksins var hringt vegna bílsins.  :-)

17.4.15

Stór leigubíll

Strætó hleypti mér út við Hörpuna þremur mínútum fyrir sjö í gærmorgun. Morguninn leið hratt og flest gekk upp.  Stuttu fyrir eitt, 15-20 mín. fyrir, hringdi ég á leigubíl og fór út með allt mitt daglega hafurtask án þess að stimpla mig út. Leigubíllinn kom um hæl og það var ekkert smá bíll, plass fyrir amk átta farþega.  En ég var á leið í árlegt starfsmannasamtal við næsta yfirmann. Viðurkenni það alveg að ég var örlítið stressuð, jafnvel nervus en það "datt" allt af mér um leið og viðtalið byrjaði.  Fannst ég vera sultuslök og nokkuð ágætlega undirbúin.  Klukkutíminn var nýttur mjög vel.  Strax klukkan tvö labbaði ég úr Katrínartúni í Laugardalslaugina. Var komin ofan í fyrir klukkan hálfþrjú. Synti 6x50 og var að hugsa um að synda sjöundu ferðina þegar ég heyri sagt kunnulegri röddu:  "Hvað, tollirðu aldrei í vinnunni?" eða eitthvað á þá leið. Þetta var nýfyrrum vinnufélagi. Dreif mig upp úr lauginni og rölti með honum, eða hann með mér, alla leið að sjópottinum og spjallaði á meðan.  Skrapp líka í gufuna áður en ég fór upp úr og labbaði til baka í Turninn við Höfðatorg. Þar var sviðsfundur klukkan fjögur.  Um fimm var ég komin yfir á stað sem heitir Bambus þar sem ég fékk mér eitt hvítvínsglas með nokkrum RB-ingum. Það var ágætlega mætt og ég labbaði ekki af stað heim fyrr en tveim tímum seinna.  Kom við í Sunnubúðinni og keypti smá nauðsynjar, m.a. grjónagraut handa syninum sem ég vissi að væri heima.

16.4.15

Sí-syngjandi

Enn á ný var ég vöknuð fyrir þann tíma sem ég ætlaði mér, semsagt á undan vekjaranum í gemsanum. Var með ýmsar áætlanir og verkefni á prjónunum í gær og fór því á lánsbílnum í vinnuna með fullan bakpoka af ýmsu ólíku dóti. Vinnudagurinn var öðruvísi og nokkuð eftirminnilegur en hef samt ekkert meira að segja um hann.  Um tíu fékk ég fréttir sem ég hafði hálft í hvoru átt von á, gamla konan, Badda mín, loksins laus frá sínum þrautum og farin yfir í enn betri heim. Það er erfitt að sleppa takinu á svona kærum ástvinum en það gengur skár þegar maður segir sjálfum sér og veit að þetta var þeim farna fyrir langbestu.

Strax um tvö dreif ég mig í Laugardalslaugina og synti í nákvæmlega hálftíma. Tapaði tölunni á ferðunum en þær voru allavega 12x50, ef ekki 14x50.  Fór tvisvar í gufuna og settist út á bekk í millitíðinni. Það var tími til að skjótast heim eftir sund, ganga frá sunddótinu og fá sér smá snarl áður en kóræfingin byrjaði. Æfingin var erfið en skemmtileg og fljót að líða.  Söng "Heyr himnasmiður" í fyrsta skipti sem sópran og varð eiginlega að hafa nóturnar til að lesa og fylgjast með svo ég ruglaðist ekki yfir í altröddina. Textann, öll erindin þrjú, kann ég utanað.

Eftir æfingu fór ég með lánsbílinn upp í Brimborg, læsti honum og setti lykilinn í merkt umslag og sérstakt hólf. Tók leið 18 til baka og þorði ekki annað en að taka skiptimiða ef ég myndi nú villast eitthvað.  Þurfti þó ekki að nota þann miða því 18 stoppar á Bústaðaveginum fyrir neðan Perluna og þaðan er alls ekki svo langt heim.

Annar strákurinn var á spilasessioni en hinn heima. Lét "heimastrákinn" vita að ég myndi verða aftur með vesen í dag. "Spilastrákinn" hitti ég ekkert því ég var farin inn að sofa fyrir hálfellefu og hann kom heim eftir það.

15.4.15

Söknuður

Var aftur vöknuð á undan vekjaranum í gemsanum í gærmorgun.  Dreif mig fljótlega á fætur og fór með strætó í vinnuna rétt fyrir sjö.  Áður en klukkan var orðin átta var orðið ljóst að vélin var búin að gera verkfall, þannig verkfall að kalla þurfti til viðgerðarmann.  Sem betur fer tók ekki svo langan tíma að gera við en þetta stopp raskaði samt framleiðsludeginum nokkuð.

Stimplaði mig út rétt rúmlega tvö og labbaði sömu leið áleiðis heim og daginn áður með viðkomu í Sundhöllinni.  Tapaði tölunni á ferðunum en þær voru amk 11 (ef ekki 13)x25. Fór tvisvar í gufuklefann og "leitaði" árangurslaust að sólinni úti við áður en ég "gufaðist" í seinna skiptið og áður en ég fór upp úr og labbaði áfram heim.

Sendi frænku minni og nöfnu smáskilaboð og hún hringdi til baka. Töluðum saman í nokkrar mínútur. Fljótlega eftir það rabb hringdi ég örstutt í frænda minn, stóra bróður hennar.  Hafði til matinn og horfði á fréttir á báðum stöðvum. Skelfilegt þetta slys í Hafnarfirði en mér fannst fréttin vera komin heldur fljótt í fjölmiðlana.  Og þá er ég að meina veffjölmiðlana. Það getur ekki verið að allir nánustu aðstandendur hafi vitað um hvað var í gangi.  Það verður líka að leyfa þeim sem eru í björgunarhlutverkinu að sinna sínu áður en hægt er að segja frá. Vonandi fer allt vel að lokum í þessu tiltekna tilviki.  Var komin í rúmið rétt upp úr klukkan tíu en náði ekki að leggja frá mér bókina sem ég er að lesa þessa dagana fyrr en klukkan var að byrja að ganga tólf.


14.4.15

"Synt" heim

Alla þessa vinnuviku er ég á vakt milli klukkan sjö og tvö. Í gærmorgun var ég vöknuð amk hálftíma áður en klukkan átti að hringja. Gerði tilraun til að kúra aðeins lengur en þegar ég er vöknuð á annað borð og eitthvað liggur fyrir þá er ég einfaldlega glaðvöknuð og best að drífa sig bara á fætur og sinna morgunverkunum.  Tók strætó frá skýlinu við Sunnubúð þrettán mínútum fyrir sjö og stimplaði mig inn í vinnu tíu mínútum síðar.

Ég náði ekki að hætta vinnu alveg á slaginu tvö en þó fyrir hálfþrjú. Labbaði af stað áleiðis heim og kom við í Sundhöllinni, synti nokkrar ferðir (ca korter), fór í gufuklefann og sólaði mig svo aðeins áður en ég fór upp úr aftur og alla leið heim.  Hef ekki hreyft lánsbílinn síðan ég kom heim úr messu á sunnudaginn var. Hringdi nokkur símtöl út um hvippinn og hvappinn. Vafraði um á netinu, las og eldaði kvöldmat. Skrapp út í Sunnubúð eftir mjólk og brauði eftir kvöldmat og fréttir.

13.4.15

S-alt

Aðeins annar af bræðrunum hafði skilað sér heim í fyrrinótt og það var sá sem fór á árgangur ´96 úr Hlíðaskóla-hittinginn. Ég hugsaði sem svo að hinn ungi maðurinn hlyti að skila sér heim þegar strætó væri farinn að ganga. Dreif mig í Laugardalslaugina rétt fyrir níu og þegar ég kom upp úr aftur hitti ég tvær úr KÓSÍ-kórnum. Önnur af þeim er reyndar í smá kórpásu en hin spurði mig hvenær við ættum að mæta í kirkju fyrir fermingarmessuupphitun.

Var mætt í kirkjuna rétt fyrir klukkan eitt. Fljótlega kom í ljós að við vorum aðeins sex í kvenröddunum, tvær og hálf í alt og þrjár og hálf í sópran. Ég er þessi hálfa og fékk að syngja með altinum í rödduðu lögunum sem voru nokkur. Fermd voru fjögur ungmenni og gott ef það voru ekki fleiri mættir í kirkjuna heldur en þegar stúlkurnar fimm voru fermdar fyrir páska. Allt gekk vel en reyndar gleymdi presturinn að láta alla fara með trúarjátninguna en það er fastur liður þegar eru fermingar og altarisgöngur.

Drengurinn var ekki enn búinn að skila sér þegar ég kom heim úr kirkjunni og þá ákvað ég að hringja í hann og kanna málið. Í ljós kom að eftir spiladæmið kvöldinu áður hafði honum verið skutlað til pabba síns og þar var hann eitthvað fram á gærkvöldið. Ég bað hann endilega um að láta mig vita um svona breytingar eftirleiðis svo ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur ef hann væri ekki að skila sér heim.

12.4.15

Sunnudagur

Ekkert varð úr sundferð í gærmorgun og þar að auki var esperantohittingnum frestað svo ég sá mér leik á borði og las fram eftir morgni.  Fljótlega eftir hádegi dreif ég mig loksins í heimsókn til fyrrum vinnufélaga til að knúsa hana og bjóða tveggja og hálfs mánaða prinsessuna hennar velkomna í heiminn og til hamingju með foreldrana.  Labradorhundurinn, Nói, tók vel á móti mér og eiginmaður vinnufélagans hellti upp á kaffi. Þetta átti bara að vera stutt stopp en við höfðum um svo margt að spjalla að það leið næstum einn og hálfur tími áður en ég kvaddi aftur. Var frekar svekkt út í sjálfa mig að hafa ekki munað eftir því að ég var með myndavél í farteskinu en ég bæti þá vonandi úr því í næstu heimsókn.

Þar sem ég átti von á skilaboðum frá nöfnu minni og frænku tók ég upp gemsann á leiðinni heim og sá þá að ég hafði misst af símtali frá Helgu systur en þau fjölksyldan eru stödd í bænum þessa helgina og voru hjónin á leið á árshátíð í gærkvöldi. Þau höfðu ætlað að kíkja á okkur mæðginin en það gekk víst ekki upp fyrst ég missti af því þegar þau hringdu. Rétt eftir að ég kom heim fékk ég skilaboðin frá nöfnu minni og þá ákvað ég að drífa mig upp á Vífilsstaði.  Oddur Smári fór stuttu áður til pabba síns í æfingaakstur og ætlaði að hitta enn einn spilahópinn eftir það.  Davíð Steinn var að vinna að verkefni upp í skóla en var svo á leið í árgangahitting úr Hlíðaskóla um kvöldið.

Þegar ég kom aftur heim útbjó ég kvöldmatinn handa okkur Davíð Steini en hann hafði steingleymt því að það átti á fá sér pizzu í fyrirpartýinu.  Eftir kvöldmat og fréttir athugaði ég hvort móðurbróðir minn í Álftamýrinni væri heima áður en ég skrapp yfir í heimsókn.

11.4.15

Það borgar sig alltaf að lesa yfir skrifin, gerði það greinilega ekki í gær

Inn í textann frá í gær vantar orðið ekki sárlega á einum stað því ég ætlaði mér ekki og labbaði ekki beint yfir Skólavörðuholtið heldur gömlu Hringbraut meðfram holtinu. En úr því ég minnist á þetta í þessu pistli læt ég sennilega vera að laga textann frá í gær.

Strákarnir þáðu farið í skólann í gærmorgun og ég fór beint í Laugardalinn eftir skutlið. Synti aðeins sex ferðir sinnum fimmtíu.  Ekki vegna þess að ég hefði ekki nægan tíma eða pláss, heldur vegna þess að aðra leiðina "truflaði" sólin mig. Kannski hefði verið ráð að synda aðra leiðina, fara upp úr og labba til baka, en það hefði verið svolítið undarlegt vægast sagt. Skrapp um stund í sjópottinn og var á leiðinni í gufuna þegar ég rakst á einn vinnufélaga, frænda minn og kórumboðsmann, Baldur Pálsson, í næsta potti við sjópottinn.  Spjölluðum örstutta stund áður en ég dreif mig í gufuna.  Þessi umboðsmaður minn hefur reyndar ekkert haft að gera síðan haustið 2003 því ég syng enn með seinni kórnum sem hann benti mér á.  :-)

Var komin heim aftur um hálftíu.  Sinnti ýmsu áður en ég kom mér fyrir í stofunni með góða bók í hendi.  Um ellefu fékk ég sms frá frænku minni og nöfnu. Erfitt að hugsa um þau skilaboð, hvað þá færa þau í orð og ég spyr sjálfa mig að því hvaða rétt ég hafi til þess að segja meira frá þeim með þessum hætti á þessum vettvangi? Smáskeytið varð til þess að ég hringdi í foreldra mína. Pabbi var í búðarskreppu og mamma svaraði eftir nokkrar hringingar.  Við spjölluðum í dágóða stund.

Borðaði afganginn af bleikjunni í hádeginu og labbaði í vinnuna, að þessu sinni beint yfir Skólavörðuholtið en ekki hálfa leið í kringum það. Sú sem var með mér á 13-19 vaktinni átti afmæli og vinnudagurinn hófst með kaffibolla og tertusneið.  Tíminn til sjö leið ógnarhratt en ýmsu var komið í verk. Ákvað að nota strætó í heimferðina, tók þristinn á Hlemm þar sem ég hitti einn vinnufélaga. Merkilegt hvað ég rekst oft á og mikið af skemmtilegu fólki alltaf.

Oddur Smári var sóttur af spilafélaga fljótlega eftir að ég kom heim. Ég bjó til rabbabaragraut sem við Davíð Steinn kláruðum upp til agna. Ýmislegt fleira gerðist í gær og gærkvöldi þrátt fyrir að ég færi í rúmið óvenju snemma miðað við að það er helgi framundan.

10.4.15

Morgunstund

Ég dreif mig á fætur upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun þrátt fyrir að eiga ekki að mæta í vinnu fyrr en um eitt. Var ákveðin í að bjóða bræðrunum far í skólann og drífa mig strax í sund um átta. Það féll niður tími hjá Oddi og átti hann því ekki að mæta fyrr en um eitt, en hann var nú samt vaknaður um sjö. Davíð Steinn þáði farið og ég var komin ofan í Laugardalslaug og byrjuð að synda korter yfir átta. Synti amk 12x50, ekkert svo hratt, án þess að stoppa í uþb 27 mínútur. Á eftir fór ég bæði í sjópott og gufu. Heima slakaði ég á, vafraði á netinu, las og greip aðeins í saumana mína. Ljóða- og skissubókin Krummafótur er mikil snilld að mínu mati.

Bauð Oddi að borða með mér afganginn af bleikjunni frá því kvöldið áður um hádegisbil og hann sagðist ætla að sjá til. Ég borðaði helminginn og þegar ég kom aftur heim úr vinnunni í gærkvöldi var hinn helmingurinn enn í skálinni inni í ísskáp. Var eitthvað að spá í hvort ég ætti að taka strætó eða labba í vinnuna og hið síðara varð ofan á. Tók með mér mitt framlag í "vinnufélagi 60", osta, vínber og ritzkex. Rétt við Landsspítalann við Hringbraut varð á vegi mínum túristi, kona frá York, sem var á leiðinni í Þjóðmynjasafnið og var villt þrátt fyrir að vera með kort. Ég bauðst til að labba með henni áleiðis, enda í leiðinni þar sem ég ætlaði ekki að ganga beint yfir Skólavörðuholtið. Við spjölluðum á labbinu og gleymdum okkur aðeins þannig að hún labbaði alveg með mér að brúnni yfir tjörnina áður en við kvöddumst. En það kom í ljós á spjallinu að hún ætlaði að leggja leið sína til Hellu í dag svo ég bað auðvitað fyrir kveðju til foreldra minna.

Um tvö var tilbúið veisluborð og það streymdu til okkar hluti af þeim sem boðið var úr K2. Vinnufélaginn vissi af veisluborðinu og hafði samþykkt það en okkur tókst að koma honum ánægjulega á óvart með því að fá til okkar eitthvað af "gamla genginu" og fagna með honum. Sérlega vel heppnuð veisla. Framleiðslan á vélinni gekk alveg ótrúlega vel og við sem vorum á seinni parts vaktinni kláruðum það sem var fyrirliggjandi og ég hafði meira að segja smá tíma til að fara yfir reikningagerðina sem tvær aðrar voru búnar að taka saman. Náði þó ekki að klára það alveg.

Labbaði aftur heim og það kom sér vel að strákarnir voru með spilakvöld hér því ég var ennþá alveg pakksödd eftir veisluna. Ég var ekki alveg eins ánægð með að hluti af spilafélögunum fór ekki fyrr en klukkan var að verða hálf eitt og kom ekki alveg að sjálfu sér því ég varð að hringja í annan strákinn til að biðja hann um að senda gestina heim (nennti ekki að fara fram á sloppnum). Kannski var þetta einhvers konar próf á mig sem ég féll þá á vegna þess að ég gat ekki leynt pirringi mínum á þessu tillitsleysi því ég er marg búin að tala um þetta.  :-/.  Það skal þó tekið fram að annar strákurinn var farinn inn til sín en reyndar hefði hann líka geta séð til þess að leysa upp samkvæmið áður...

9.4.15

Millibil

Vekjarinn þurfti ekki að hringja í gærmorgun því ég var vöknuð um hálfsex. Hafði stillt gemsaklukkuna á að vekja mig tíu mínútum fyrir sjö en ég var búin að slökkva á henni áður og komin á fætur. Ég var að borða morgunmatinn minn þegar hringt var í mig úr vinnunni rúmlega sjö. Gat leyst vandamálið í gegnum símann og það tók aðeins nokkrar mínútur að hjálpa þeim sem voru á morgunvaktinni að komast í gang. Báðir synir mínir þáðu far í skólann og ég var búin að stimpla mig inn í vinnuna tíu mínútum fyrir átta. Vinnudagurinn leið extra hratt enda var í nokkur horn að líta.

Á leiðinni heim kom ég við í Krónunni við Nóatún. Hellti mér beint út í matargerðina þegar ég kom heim, hringdi í pabba og setti í eina þvottavél.  Ég varð náði samt ekki að fá mér af bleikjunni áður en kominn var tími til að mæta á kóræfingu, held að það hafi munað aðeins um tíu mínútum. Strákarnir tóku að sér að klára málið bæði í eldhúsi og þvottahúsi. Kóræfingin gekk ágætlega og þar leið tíminn líka alveg extra hratt.

8.4.15

Rútína

Í gærmorgun hafði ég mína hentisemi.  Þurfti ekki að mæta í vinnuna fyrr en klukkan eitt og ég var ákveðin í að skila öllum lesnum lánsbókum á safnið þótt aðeins ein af þeim væri komin á tíma. Var mætt í Kringlusafnið rétt eftir opnun eða upp úr tíu.  Skilaði fimm bókum af sex og náði mér í sjö "nýjar" í staðinn.  Ein af þeim er ljóðabókin Krummafótur eftir Magnús Sigurðsson gefin út í fyrra og þrjár af bókunum eru eftir sama höfund og Rósablaðaströndin, Dorothy Koomson.  Þetta tók mig ekki langan tíma og af safninu fór ég beint í Laugardalslaugina, synti rétt rúmlega 600 metra og fór í gufu áður en ég fór aftur heim.

Heima hafði ég ágætan tíma til að undirbúa mig undir að mæta aftur í vinnuna eftir frí og vinna til klukkan sjö. Notaði leið 13 og hafði smá tíma til að fá mér kaffi áður en "mánudagsfundur" kortadeildarinnar hófst.  Eftir fundinn fékk ég tíma til að ræsa tölvuna mína, svara póstum og koma mér aftur í gang.  Það var ekki fyrr en eftir síðdegiskaffi sem ég fór inn á vélina með hinni síðdegisvaktinni.  Unnum í einn og hálfan tíma áður en við fórum í smá pásu, bæði til að kæla okkur niður sem og framleiðsluvélina.  Vinnan gekk alveg glimrandi og var tíminn nokkuð fljótur að líða.

Kom heim um hálfátta.  Á pallinum fyrir framan dyrnar inn í íbúðina var pakki merktur Oddi Smára. Tók hann með mér inn og vatt mér svo beint í að útbúa pottrétt úr afganginum af páskalambinu. Í pakkanum reyndist vera poppvél og það var ákveðið að prófa vélina og poppa áður en síðasti þátturinn, í bili vonandi, af Castle fór í loftið.

7.4.15

Síðustu frístundirnar

Það var gott að leyfa sér að sofa aðeins fram á morguninn í gær.  Man nú ekki nákvæmlega hvenær ég vaknaði en það var ekkert svo seint.  Fór ekki á fætur fyrr en upp úr klukkan tíu en þá var ég búin að nota amk klukkustund til að klára bókina sem ég hef minnst á síðustu daga. Samkvæmt facebooksíðu bókasafnsins í Kringlunni átti að vera opið í gær en líklega hefur stillingin ekki verið uppfærð nýlega og opnunartíminn miðaður við venjulegan mánudag.  Mig grunaði þetta nú svo sem en renndi þó við um eitt og kom að lokuðum dyrum.

Skrapp í sund.  Hitti aftur bekkjarsystur mína úr grunnskóla þegar ég var á leiðinni upp úr. Skilaði sunddótinu heim og hringdi í Böddu mína til að athuga hvernig ég sækti að henni.  Oddur Smári var í óða önn að snurfusa baðherbergið en hann var svo á leiðinni á spilasession í Garðabæinn og gat nýtt sér farið. Gamla konan lá fyrir er ég mætti á svæði. Hún sagði mér að ná mér í kaffibolla. Ég hafði tekið saumana mína aftur með en ekkert saumaði ekki neitt þegar til kom. Eftir nokkra stund ákvað Badda að fara aðeins framúr og labba um.  Ég hjálpaði henni í inniskóna og við náðum einni ferð eftir ganginum endilöngum.  Bætti á kaffikrúsina í leiðinni. Rétt eftir að Badda var lögst fyrir aftur komu tvö eldri börn hennar og tengdadóttir í heimsókn.  Það var gaman að hitta þau. Þessa frænku mína hitti ég sjaldan því hún býr í Noregi.

Afgangurinn af deginum fór í meira kaffiþamb, lestur, netvafr og sjónvarpsgláp.  Davíð Steinn hitaði upp fyrir okkur afgang af pastarétti, handa sér og mér.  Oddur Smári kom heim um tíu, hafði borðað með spilafélögunum.

6.4.15

Góða daginn!

Gærdagurinn byrjaði á því að vekjarinn í gemsanum hringdi klukkan tíu mínútur yfir sex, rétt rúmri klukkustund fyrir boðaðan upphitunarsöngtíma fyrir páskamessuna.  Ég hefði alveg getað þegið að kúra örlítið lengur en var jafnframt spennt því ég hlakkaði svo sannarlega til að taka þátt í messunni með öllu þessu frábæra fólki sem er í kringum mig þar.  Það var alveg nógu mikill tími að byrja upphitun þremur korterum fyrr þar sem kórstjórinn var búinn að ákveða að syngja ekki úr "Bjarnatóninu".  Röddin var merkilega vel vöknuð klukkutíma eftir að ég vaknaði.

Messan sjálf tókst með ágætum og var nokkuð vel sótt.  Örnólfur Kristjánsson, sellóleikar og Árni Heiðar organisti opnuðu stundina með fallegu samspili.  Nokkrir kórfélagar sáu um að "skrýða" altarið aftur og þrjú tilvonandi fermingarbörn kveiktu ljósin á kertunum.  Rétt fyrir predikun fór kona, Bára að nafni (held að hún stjórni balletskóla JSB), með frumsamið ljóð um upprisuna og strax á eftir sýndi tvær ungar balletstúlkur okkur balletverkið "Að vera eða ...vera?".  Örnólfur og Árni Heiðar spiluðu aftur eftir predikun sem og í enda messunnar.  Messustundin var allt í senn, ljúf, notaleg og mögnuð. Á eftir var boðið upp á heitt kakó og brauðbollur og kaffi fyrir þá sem það vildu.  Ég og önnur nafna mín í kórnum sátum og spjölluðum lengur en allir aðrir því það var eiginlega búið að hreinsa af öllum borðunum og uppvaskið langt komið þegar við stóðum upp.  Samt var ekkert stress á einu eða neinu.

Hvorugur ungu mannanna var vaknaður þegar ég kom heim rétt fyrir tíu, enda átti ég svo sem ekki von á því.  Ég fann enga þörf á því að leggja mig heldur hélt ég áfram að lesa í 600 bls. bókinni, Rósablaðaströndin.  Upp úr klukka tvö bjó ég til vöfflur úr hálfri uppskrift.  Þá var annar sonurinn vaknaður um þrjú sendi ég hinum syninum eftirfarandi sms: "Gleðilega páska, vöfflur!!?" sem honum þótti frekar fyndið.  En smáskeytið hafði tilætluð áhrif.  Það æxlaðist svo þannig að við mæðginin horfðum á eina mynd saman.

Hafði ofnbakað læri með kartöflum, grænum baunum, fersku sallati, (fetaosti og steinlausum svörtum ólífum til hliðar) og steikarsósu í kvöldmatinn.  Sá líka um að ganga frá eftir matinn en minnti jafnframt strákana á að þrjá af fjórum virkum dögum í vikunni framundan kem ég ekki heim fyrr en á áttunda tímanum. Og eina daginn sem ég vinn frá klukkan átta til fjögur fer ég á kóræfingu klukkan hálfsex.

5.4.15

Páskadagur!

Þegar  ljósleiðaraboxið "dó" um daginn var ég nýfarin að skrifa um lífið og tilveruna samdægurs í stað þess að festa niður minningarnar frá því deginum eða dögunum áður.  Kannski er ég hjátrúarfull því ég hef ekki byrjað þennan nýja sið aftur eftir að sett var upp nýtt box.  Finnst ég líka að verða að segja svolítið frá gærdeginum og reyni að vera stuttorð.

Klukkan ellefu var ég mætt til norsku espernato-vinkonu minnar með flestar esperantobækurnar en enga krossgátu.  Við höfðum sammælst um að hittast á sama stað og á sama tíma og oftast áður, áður en ég kvaddi á laugardaginn var.  Og það var laugardagur í gær, nokkuð viss um það. Hins vegar var eins og vinkona mín væri ekki alveg viss og virtist vera búin að gleyma þessu því hún spurði "Hver er þar?" þegar hún svaraði í dyrasímann.  Og ég var smástund að hugsa um hver ég væri áður en ég sagði til mín. Þegar ég kom upp til hennar fórum við báðar í hláturskast.  Þrátt fyrir nokkuð langt stopp að þessu sinni varð ekkert úr því að við töluðum esperanto og það fór aðeins örstutt stund í að klára krossgátu fréttatímans því það voru aðeins fáeinir reitir óútfylltir.  En stundin var notaleg og ég dró hana á langinn í rúma tvo tíma.

Á leiðinni heim keypti ég páskaegg handa ungu mönnunum svo þeir yrðu ekki útundan en ég fékk páskaegg númer fjögur frá vinnunni minni áður en ég fór í páskafríið. Mér datt í hug að hringja í hana Böddu mína áður en ég fór heim með páskaeggin og ákvað í kjölfarið að drífa mig í heimsókn enda liðnir nokkrir dagar síðan síðast.  Gamla konan var með nýlagt hárið og leit ágætlega út.  Ég er samt viss um að útlitið segir ekki allt. Tók með mér saumana mína en það var enginn tími til að grípa í nál því heimsóknartíminn fór í rölt, spjall, kaffidrykkju og meira spjall og rölt.

Strax eftir heimsóknina fór ég í sund.  Þegar ég var á leiðinni upp úr hitti ég eina bekkjarsystur mína úr grunnskóla. Klukkan var alveg að verða sex þegar ég kom heim.  Tók til matinn, horfði á fréttir, las og vafraði um á netinu. Passaði mig svo á að vera komin upp í rúm fyrir ellefu.

Gleðilega páska!

4.4.15

Fjórði, fjórði, fimmtán

Eftir um það bil vikuhlé dreif ég mig aftur í sund í gærmorgun.  Fór í Laugardalslaugina um ellefu, klukkutíma eftir opnun, synti 300 og fór síðan bæði í sjópottinn og gufu, allt í þessari röð.  Eftir sundferðina laumaðist ég til að nýta mér opnunartíma Krónunnar við Nóatún, þar sem verslunin Nóatún var starfrækt þar til fyrir örskömmu síðan.  Það vantaði bæði mjólk og brauð til heimilissins og þótt þessi vöntun hefði sennilega bjargast þar til í dag þá vissi ég að strákarnir yrðu glaðir og stóðst ekki mátið.

Er annars að "spara" lánsbílinn svo ég tók því rólega fram eftir degi þótt ég hugsaði sterkt til Böddu minnar.  Hefði auðvitað átt að hringja í hana og heyra í henni hljóðið en einhvern veginn varð ekkert af því.  Las og las í bók eftir Dorothy Koomson, Rósablaðaströndin.  Bókin er rúmlega 600 blaðsíður og ég er rétt að verða hálfnuð, alveg heilluð og á erfitt með að slíta mig frá lestrinum.  Gerði samt heiðarlega tilraun til að taka fram saumana mína í gær en þegar til kom saumaði ég ekki spor.  Hluti af því er reyndar vegna þess að annar strákurinn settist hjá mér inn í stofu og við fórum að spjalla. Eftir nokkra stund kom hinn ungi maðurinn líka inn í stofu.  Mikið er ég þakklát fyrir að við mæðginin eigum svona auðvelt með að tala saman og hversu mörgu bræðurnir eru tilbúnir að deila með mömmu sinni.

Um sjö leytið skrýddist ég öllu svörtu og var mætt upp í kirkju um hálfátta.  Hituðum upp fyrir kvöldvökuna.  Píslarsagan er alltaf lesin og í gærkvöldi var hún lesin af Dögg Harðardóttur varaforseta biblíufélagsins.  Milli kaflanna eru sungnir fjórir sálmar og tveir af þeim sálmum er skipt upp og sungnir í tvennu lagi.  Eftir lesturinn er altarisganga.  Svo er "hreinsað" af altarinu, kirkjan myrkvuð og inn kemur fermingarbarn með logandi á sjö kertum í þar til gerðum stjaka. Presturinn les upp sjö síðustu setningar, Jesú og slökkt er á kerti eftir hverja setningu.  Að endingu er spiluð tónlist og kirkjugestir sitja í myrkvaðri kirkjunnni og íhuga eða biðja á meðan og njóta.  Venjulega eru reyndar tvö fermingarbörn í þessari athöfn, annað heldur á stjakanum og hitt slekkur á kertunum.  En í gærkvöldi var það ein stúlka sem sá um þetta tvennt og henni fórst það vel úr hendi.  Stundin tókst annars alveg ágætlega en það varð smá hlé á og við fengum vægt áfall þegar einn kórfélaginn fékk aðsvif í miðjum söng eina raddaða sálmsins, no 143 "Ég kveiki á kertum mínum".  Allt fór vel, kórfélaginn jafnaði sig eftir stutta stund en fékk þó að setjast út í kirkju og njóta stundarinnar þaðan.  Við hin urðum einhvernveginn mýkri og viðkvæmari og vönduðum okkur enn betur, þakklát fyrir að allt fór vel.

3.4.15

Föstudagurinn langi

Ég gerði ekki neitt óvenjulegt af mér í gær fyrir utan það að fara ekki út úr húsi.  Straujaði að vísu spariskyrtur strákanna.  Hellti mér að sjálfsögðu upp á kaffi og nutu bræðurnir báðir góðs af því. Vafraði um á netinu, las,horfði á sjónvarpið og saumaði út.

Lauk við að lesa Skólaus á öðrum fæti í gærmorgun og sú bók náði að heilla mig gersamlega upp úr skónum.  Ég átti auðvelt með að setja mig í fótspor söguhetjunnar hvort sem hún var að segja frá stöðu sinni í fjölskyldunni eða lífinu þegar hún var lítil eða þá í ævintýraheiminum sem hún bjó til.  Virkilega vel skrifuð bók og gaman að því að frumtextinn skuli vera með, vinstra meginn á opnunni. Ég kann ekkert í spænsku en það skiptir ekki öllu máli.

2.4.15

Enn einn "sunnudagurinn" :-D

Gærdagurinn var nýttur í ýmislegt.  Til dæmis dreif ég mig með lánsbílinn alla leið í Brimborg og fékk rétt litið á hann til að athuga hvort hugsast gæti að eitthvað væri að fara að gefa sig.  Og ég fékk það staðfest sem mig grunaði.  Pantaði tíma fyrir bílinn en á alveg að geta notað hann í hófi ef ég er dugleg að kíkja ofan í húddið og fylgjast með hvort bæta þurfi frostlegi á vatnskassann.  Eftir að hafa fengið tíma um og eftir miðjan mánuðinn ákvað ég að nota tækifærið og athuga hvort bíllinn stæðist skoðun. Bílnúmerið endar á fjórum og mér fannst líka skynsamlegt að fá þetta á hreint áður en ég léti gera við bílinn.  Eins og fyrirsögnin á pistli gærdagsins bar með sér þá var þetta ekkert vandamál, bíllinn "flaug" í gegnum skoðunina athugasemdalaust og ég rétt hafði tíma til að ljúka úr einum kaffibolla á meðan.

Um fimm sendi ég kórstjóranum áminningu um að ég þyrfti að komast inn í kirkju og þar inn í eldhúsið til að sjá til þess að það væri til kaffi fyrir kórinn í kaffipásunni.  Ég var á undan að kirkjunni en ég komst þó inn þar sem séra Pétur var á staðnum. Hann var í símanum og ég vildi ekki trufla hann, rétt kastaði á hann kveðju enda kom kórstjórinn örskömmu síðar.  Æfingin gekk alveg þokkalega og tíminn leið afar hratt.  Hef smá áhyggjur af hálsinum mínum því það sýður djúpt í honum líkt og ég sé búin að vera stórreykingarmanneskja í mörg, mörg ár.  En ef ég passa að beita röddinni og líkamanum rétt að við sönginn þá er hægt að syngja á réttum nótum án þessa að "skemma" neitt.  Mér finnst þetta samt svolítið undarlegt þar sem ég er ekkert lasin og hvað þá með hálsbólgu.

Kvöldið fór svo í sjónvarpsgláp og lestur.

1.4.15

Lánsbíllinn fékk athugasemdalausa skoðun

Gærdagurinn var að mörgu leyti svipaður mánudeginum.  Las reyndar minna og saumaði meira og þar að auki skrapp ég aðeins til Böddu minnar og drakk kaffið með henni.  Mikið vildi ég að ég gæti létt henni lífið enn frekar.  Veit þó ekki hvernig í augnablikinu en mér hlýtur að detta eitthvað í hug.

Var komin heim aftur rétt áður en vináttulandsleikurinn við Eista hófst.  Alveg nýtt íslenskt lið frá því í leiknum við Kazakstan sl. laugardag og fengu margir loksins að spreyta sig og sanna sig fyrir þjálfurunum að þeir ættu skilið að vera valdir í byrjunarlið í "alvöru" keppni.  Frábært hvað við eigum annars mikið af efnilegum og góðum knattspyrnumönnum en leikurinn í gær þróaðist alls ekki eins og maður vonaði eða vildi.  Á meðan á leiknum stóð greip ég loksins í "Lost nomore" saumaverkefnið mitt eftir alltof langt hlé.  Það tók mig tíma að finna út hvar væri best að stinga niður nálinni en ég hætti ekki fyrr en ég var búin að klára endann sem ég valdi loksins þannig að það sést amk smá munur.

Davíð Steinn sá um kvöldmatinn og fékk þar að auki að bjóða einum vini þeirra bræðra með.  Sonurinn bjó til fjóra hamborgara frá grunni og hinn sonurinn sá um að ryðja eldhúsborðið.  Fínasta máltíð en það gleymdist reyndar að nota smá af því sem hafði verið óskað sérstaklega eftir á síðasta innkaupalista.