30.1.03

Það var lagið Ísland! (...og hugurinn heldur áfram að dvelja við boltann). Loksins, loksins, er ég mætt í vinnu aftur. Systurdóttir mín var orðin lasin í gærkvöldi og systir mín bauðst til þess að hafa drenginn í dag. Þetta er fyrsti dagurinn í viku sem stráksi er hitalaus og ég vona að það haldist í dag svo hann komist í skólann á morgun. Bróðir hans hefur fært honum verkefni úr skólanum og hann hefur lesið samviskusamlega á hverjum degi. Skyldi ekki allt vera að færast í daglegt form?

Ég er ein að þeim sem er búin að sækja um aðgang að Íslendingabók enda mikið búið að vera að tala um þetta í kringum mig. Vinnufélagar eru að rekja ættir sínar saman og allir hafa lúmskt gaman að. Ég er ekki búin að fá aðganginn enda stutt síðan ég sótti um en ég bíð spennt...

En eins og fyrr sagði er hugurinn hjá "STRÁKUNUM OKKAR" úti í Portúgal. Ég er alveg viss um að þeir geta strítt Spánverjunum og það fer best á því að enda líkt og síðast: "ÁFRAM ÍSLAND!!!"

29.1.03

Dagarnir renna allir saman hjá mér núna og veit ég varla hvaða dagur er... (nema auðvitað veit ég að Íslendingar eru að spila við Pólland á HM í dag). Annar drengurinn er búinn að vera heima með hita og hósta síðan á fimmtudag og ég komst bara í vinnu föstudags- og mánudagspart því mamma var svo almennileg að leysa mig af. Ég fór reyndar með báða strákana til læknis seinni partinn á mánudag, og viti menn, þeir voru báðir settir á sýklalyf. Hinn sonurinn var nefnilega kominn með svæsna eyrnabólgu í annað eyrað. Þannig að ég er búin að vera bundin heima sl. daga og notað þá til að gera þetta allt annað sem ég talaði um í fyrsta textanum (19. jan). Ég komst nú samt á kóræfingu í gærkvöldi og verð að viðurkenna það að mér líst alltaf betur og betur á að hafa slegið til og prófað. Tveir tímar eru ekki lengi að líða og röddin lætur sæmilega að stjórn. Það er best að enda þessi orð eins og síðast: "Áfram Ísland!!!"

26.1.03

Ekki náðum við að sigra Þjóðverjana. Samt áttum við góðan leik og Guðmundur Hrafnkelsson var frábær í markinu (okkur gengur bara betur næst). Þjóðverjar voru betra liðið (samt er ég ekki frá því að við hefðum vel getað unnið...) og heppnari. Framhaldið verður mjög spennandi en það verður ágætt að hvíla taugarnar næstu tvo daga. Áfram Ísland!!!

22.1.03

Mið vika...

Ég komst að því í gær að röddin virkar alveg ennþá og mér leist mjög vel á þá kórfélaga sem ég hitti. Þannig að þetta lítur út fyrir að ætla að verða nokkuð spennandi og skemmtilegt. Mér skilst að sumir hafi ekki mætt á æfingu vegna leiksins á HM. Ég var svo forsjál að taka leikinn upp líkt og ég gerði á mánudagskvöldið þegar ég fór á bekkjarkvöldið með strákunum mínum. Talandi um bekkjarkvöldið þá var það frábær kvöldstund. Það var stolt móðir sem fylgdist með öðrum tvíburanum kynna ("Nú ætlum við að syngja nokkur álfalög) og svo sungu allir krakkarnir eins og englar. Eftir sönginn og "smá" næringu fóru langflestir að spila og tveir tímar voru liðnir áður en maður vissi af. Eins var þetta með kóræfinguna í gær. Tveir tímar voru ekki lengi að fjúka í burtu.

Þótt ég sé búin að fara út tvö kvöld í röð á ekkert að slaka á í kvöld heldur skreppa aðeins með saumaklúbbs-vinkonunum á kaffihús. Aldrei þessu vant verður ekkert saumað enda varla hægt. En meira um þetta næst (kannski). Þetta er gott að sinni.

20.1.03

Upp er runninn dagur sem ég hef beðið spennt eftir í nokkrar vikur, HM 2003 í handbolta. Ég er búin að telja dagana síðustu tvær vikur og ætla mér að fylgjast eins vel með næstu daga og mögulegt er. Maðurinn minn hristir bara hausinn yfir þessum áhuga en fæst þó einstaka sinnum til að horfa með mér á landsleiki... Verð reyndar að taka upp fyrstu tvo leikina og horfa á þá í kvöld og annað kvöld. Eftir hálftíma byrjar bekkjarkvöld hjá strákunum mínum þar sem bekkurinn mun syngja fyrir foreldra og svo á að spila alls konar spil á eftir. Og á morgun ætla ég að mæta á fyrstu kóræfninguna mína í þrettán ár. Meira um það seinna (ef það verður frá einhverju að segja). En nú þarf að bretta upp ermarnar og hjálpa strákunum við heimalærdóminn svo það verði ekki allt eftir í kvöld. (Þetta blogg er bara nokkuð skemmtilegt, þ.e. mér finnst skemmtilegt að skrifa. Svo er annað mál hvað öðrum finnst um hugleiðingar mínar og skrif...).

19.1.03

Já, hvernig væri að prófa að blogga smá öðru hvoru? Þetta virðist vera nokkuð vinsælt og áreiðanlega skemmtilegt ef andinn kemur yfir mann... Svo er ekkert víst að þetta virki hjá mér en ég veit það ekki nema prófa. Þessa stundina ætti ég að vera að gera eitthvað allt annað en þetta allt annað freistar mín bara ekkert svo nú er um að gera að þykjast upptekin við að reyna eitthvað nýtt og spennandi.