30.6.14

Síðasti júnídagurinn

Ég er búin með Bókaþjófinn og byrjuð á annarri bók, ekkert mikið styttri.  Sú bók er eftir Yrsu Sigruðardóttur og heitir Horfðu á mig.  Hún kom út árið 2010 en einhvern veginn barst hún ekki upp í hendurnar á mér fyrr.  Ég fékk hana á safninu þann 21. þ.m. ásamt tveimur öðrum bókum og þarf ekki að skila fyrr en 21. júlí.  Ég er nú þegar búin að lesa um 180 bls. af 478 í heildina og verð líklega ekki lengi að klára því þetta er ein af þeim bókum sem maður leggur ekki svo glatt frá sér.

Í gær skrapp ég í heimsókn til nöfnu minnar og frænku í Garðabænum og bað strákana um að ryksuga yfir gólfin á meðan.  Þeir von á vini til að horfa með þeim á fyrri hm-leikinn og svo stóð jafnvel til að það yrði spilakvöld eða "session" eins og þeir kalla það.  Ég var komin heim rétt fyrir fjögur og tók strax eftir að strákarnir höfðu staðið við sitt.  Þeir skruppu í Sunnubúð og er þeir komu til baka var vinurinn með þeim.  Hins vegar varð ekkert af því að hópurinn hittist síðar um daginn þar sem einn af þeim var staddur fyrir norðan.

Milli leikja bauð ég upp á hakk og spakk.  Vinurinn fór reyndar strax eftir fyrri leikinn sem var alveg ótrúlegur þar sem Hollendingar virtust vera að tapa 0-1 fyrir Mexíkó en skoruðu tvö mörk á síðustu mínútunum. Þá var seinni leikurinn ekkert síðri, fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni.  Vinningsliðið, Kosta Ríka spilaði manni færri í tæpa klukkustund og voru eiginlega búnir á því en markvörður þeirra sá svo um að verja vitaspyrnu eins Grikkjans á meðan sigurvegararnir skoruðu úr öllum sínum spyrnum.  Grikkir tóku bara fjórar spyrnur þar sem úrslitin lágu fyrir fyrir síðustu spyrnu þeirra.

29.6.14

Sunnudagur

Það stenst enn að ég taki hvern dag nokkuð snemma.  Í gærmorgun las ég um stund á meðan ég beið eftir því að gelið þornaði.  Ég var samt komin á fætur um hálfníu.  Skipti tímanum á milli tölvunnar og bókarinnar á meðan ég beið eftir því að bræðurnir vöknuðu.  Klukkan var byrjuð að ganga eitt áður en þeir voru báðir búnir/hættir að sofa.  Þá spurði ég þá hvort þeir vildu koma með mér að afhenda afmælispakka.  Hringdi heim til systur minnar til að kanna hvort einhver væri heima.  Mágur minn sagðist alveg skyldu gefa mér kaffi.  Aðeins Davíð Steinn var til í að koma með.  Ingvi var einn heima er við mættum en systir mín kom nokkru síðar með blóm og þrjú kort.  Hún var frekar ánægð með að ég hefði rekið inn nefið því þá gat hún beðið mig um að skrifa á kortin, tvö á ensku og eitt á íslensku. Rétt seinna fór hún og sótti eldri dótturina og svo þá yngri nokkru síðar.  Sú yngri var ánægð með gjöfina sína.  Um þrjú fóru mæðgur af stað með blóm og kort til að kveðja skautaþjálfara stelpnanna. Þær urðu samt fyrst að snúa við eftir köku sem þær ætluðu að hafa með sér.  Á þessum eina og hálfa tíma pressaði Ingvi kaffi handa okkur tvisvar sinnum.  Við Davíð Steinn kvöddum svo stuttu eftir að mæðgurnar voru farnar.  Ég skutlaði stráknum á Njálsgötuna og kom svo við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg til að fylla á tank lánsbílsins úr því að það var 16 kr. afsláttur í gær.  Restin af deginum fór í að fylgjast með mögnuðum hm-leikjum. Þar sem fyrri leikur dagsins, sá fyrsti í 16 liða úrslitum, fór í framlengingu og vítaspyrnukepnni.  Það var rétt svo tími til að finna til kvöldmat á milli leikja. Tippaði á rétt úrslit í báðum leikjum en markatalan var ekki rétt nema í einu tilviki.  Ég endaði svo daginn nokkurn veginn eins og ég byrjaði hann, á því að lesa um stund.

28.6.14

Á ferðinni

Í dag eru sex vikur síðan ég fékk mér stuttu sumarklippinguna mína.  Nonni, klipparinn minn, er í fríi á laugardögum í sumar svo ég átti tíma hjá honum í gær.  Var mætt til hans fimm mínútur i tíu í gærmorgun og bað um samskonar meðhöndlun og síðast.  Skildi eftir helling af hári og kvaddi hársnyrtimeistarann minn tæpum hálftíma síðar.  Frá Kristu Quest lá leiðin í Hagkaup í Skeifunni. Þar keypti ég m.a. bleika strigaskó svo nú get ég aðeins sparað næstnýjasta skóparið, svörtu ecco sparilegu skóna mína.  Hitti fyrrum framkvæmdastjóra hjá RB á meðan ég beið eftir að komast að á kassanum. Davíð Steinn var kominn á fætur er ég kom heim um ellefu og tæpum klukkutíma síðar bað hann mig um að skutla sér upp í Grafarvog, í Vættarborgir, til vinar síns.  Hann var með honum fram á kvöld, fór m.a. í bíó.

Þegar ég var komin heim á ný settist ég með bókasafnsbók inn í stofu og las og las.  Þetta er ein þykkasta bókina sem ég er með u.þ.b. 600 bls.  Starfsfólk bókaverslana veiit þessar bók bókmenntaverðlaun árið 2008.  Ég er að tala um bókina Bókaþjófurinn eftir Markus Zusak. Frábær lesning.  Ég er búin með aðeins yfir 360 bls. og næ örugglega að ljúka við bókina fyrir 7. júlí n.k. og slepp þá við að framlengja láninu.  Rétt upp úr þrjú skilaði ég tveimur bókum í Kringlusafnið sem voru með sama skiladag og Bókaþjófurinn.  Nældi mér í fimm bækur í staðinn og er því með níu bækur af safninu því ég fékk þrjár lánaðar fyrir viku.  Fór með bækurnar inn í bíl og rölti svo aftur inn í Kringlu. Fékk mér kaffi á Te&Kaffi við Stjörnutorgið og var að rölta með kaffimálið að næsta lausa borði þegar exið birtist, ótrúlega stundvís, um hálffjögur.  Hann var að koma með lokapappíra til undirritunar vegna lögskilnaðar svo þetta er alveg að hafast.  Mér tókst að skrifa nafnið mitt á vitlausan stað í fyrstu og skrifaði því bæði á undan og eftir honum.  Samskiptin voru áreynslulaus og ég í því að spauga einhverja vitleysu.  En mér tókst líka að óska honum til hamingju með dótturina sem ku vera búið að nefna Elísabet Unu.  Hann má víst samt ekki vera skráður pabbi hennar fyrr en barnsmóðirn fær pappíra úr sínu heimlandi um að hún sé ekki í sambúð þar.  Þegar ég var búin úr kaffimálinu kvaddi ég. Lagði leið mína í vínbúðina og nældi mér í eina hvítvínsflösku.  Ég opnaði hana samt ekki í gærkvöldi einhverra hluta vegna.  Sennilegast þó vegna þess að mig langaði til að horfa á Wallander um "Órólega manninn" en ég er nýlega búin að lesa þá bók.

27.6.14

Heima á ný í bili a.m.k.

Klukkan að verða níu í gærmorgun voru allir komnir á fætur í húsinu við Hólavang 24.  Pabbi var auðvitað löngu komin á fætur en það er ekki oft sem mamma er vöknuð á þessum tíma.  Nú þurftu foreldrar mínir að vera komnir í bæinn stuttu fyrir hádegi.  Þau kvöddu mig um tíu og létu mig vita hvar aukalykillinn að húsinu væri.  Ég settist reyndar strax við tölvuna sem pabbi var búinn að kveikja á.  Rétt eftir að þau fóru hringdi síminn.  Það var kona sem er búin að taka að sér að þjala neglurnar á mömmu, kona sem ég þekki mjög vel því ég var mikið hjá henni á unglingsárunum og kíki enn nokkuð reglulega til hennar.  Hún bauð mér yfir til sín þar sem hún náði ekki í mömmu og ég skrapp í smá kaffi og spjall.  Eftir hádegi var ég að hugsa um að trítla upp að Helluvaði og heimsækja föðursystur mín.  Áður en ég var farin að hugsa mér til hreyfings hringdi dyrabjallan.  Og viti menn, fyrir utan stóð Árný föðursystir mín.  Hún var að koma frá því að sinna nokkrum erindum úr þorpinu.  Hún stoppaði nokkra stund og fékk kaffi og kanelsnúða og við áttum gott spjall í eldhúsinu.  Um það leyti sem hún var að fara var aftur hringt á dyrabjöllunni.  Það var nágrannakonan að koma með einn poka af nýsteiktum kleinum sem þakklæti til foreldra minna fyrir lán á garðsláttuvél.  Klukkan var um þrjú er ég var aftur orðin ein.  Þá fór ég aftur í tölvu þar til hm-leikurinn sem sýndur var beint á RÚV byrjaði. Var svo að horfa á seinni beinu útsendinguna þegar pabbi og mamma skiluðu sér heim.  Horfði á allan þann leik áður en ég kvaddi og brunaði í bæinn.

26.6.14

Smá skrepp

 sjálfsögðu var ég komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun.  Sinnti ýmsu smálegu og beið svo eftir þvottavél, uppþvottavél og að bræður vöknuðu.  Davíð Steinn vaknaði miklu fyrr enda er hann búin að setja sér skýr markmið varðandi svefn, fótaferð og hreyfingu.  Þegar þvottamálin voru komin á hreint var klukkan langt gengin í eitt.  Þá bankaði ég upp á hjá Oddi.  Hann var enn ákveðinn í að koma ekki með sem svo leiddi til þess að hinn nennti ekki heldur.  Ég var ekkert að þrýsta á þá, skyldi bara eftir pening fyrir brauði og smá nauðsynjum, kvaddi og lagði í hann.  Fyrst fór ég á atlantsolíustöðina við Flugvallarveg og fyllti á lánsbílinn.  Síðan brunaði ég áleiðis austur.  Rétt austan við Selfoss tók ég tvo puttaferðalanga upp í, tvær þýskar stúlkur sem spurðu hvort þær kæmust með mér austur á Hellu.  Önnur er búin að vera hér í tæpt ár. Það kom svo í ljós þegar ég sleppti þeim út við olísstöðina að þær ætluðu að fara að Seljalandsfossi og eitthvað lengra austur.  Var komin til foreldra minna rétt fyrir hálfþrjú.  Eftir kaffi, um fjögur, fékk ég leyfi til að horfa á hm ef ég stillti það lágt.  Mamma horfði á fyrri hálfleikinn með mér og sagðist þá vera búin að horfa á hm.  Ég horfði líka á seinni leikinn sem sýndur var beint um átta.  Í millitíðinni komu þrjár frænkur okkar pabba og var ein að þeim með systradætur sínar að skila upphlutnum mínum sem hún var í við háskólaútskrift sína um síðustu helgi.

25.6.14

Bitvargur

Eins og fram kom í skrifum gærdagsins var ég komin á fætur fyrir klukkan átta.  Þá var ég samt búin að lesa í góða stund.  Ætlunin var að skipta um á rúminu og setja strax í þvottavél en ég frestaði því um einn dag eða svo þegar til kom.  Kveikti á tölvunni og "gleymdi" mér aðeins þar.  Þegar synirnir voru báðir vaknaðir bað ég þá um að koma með mér í Kringluna, ætlaði aðeins að "buxa" þá upp. Oddur Smári kláraði einar buxur úti í körfubolta fyrr í vikunni, hugsaði ekki út í að fara í íþróttabuxur í svoleiðis.  Hann átti svo einar heilar og  tvennar eða þrennar sem búið er að staga í.  Buxur Davíðs Steins eru ekki götóttar en ég ákvað engu að síður að kaupa einar nýjar á hann.  Við fórum í Dressmann og dæmið snérist aðeins við.  Aðeins voru til einar buxur í Odds stærð í þeim lit sem hann vildi en hinn fékk á sig tvennar gallabuxur því það var afsláttur af seinni buxunum.  Hann gat líka fengið buxur í sitt hvorum litnum.  Eftir þessi viðskipti fórum við og keyptum afmælisgjöf handa frænku okkar sem varð tíu ára á mánudaginn var.  Síðan fórum við í Lyf og heilsu og keyptum plástra og nefsprey til að losna við stíflu úr nefi.  Að lokum bauð ég þeim upp á kaffi og súkkulaðikrossant á staðnum fyrir framan Hagkaup niðri.  Davíð Steinn fékk sér cappucino, Oddur Smári swiss-mokka og ég einn venjulegan.

Um fjögur var ég sest fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með leik Ítala og Úrugvæa.  Ég hélt með þeim fyrrnefndu en hafði víst tippað á hitt liðið.  En ég var ekki par hrifin þegar ég sá atvikið með Suarez.  Sá maður ætti að vera settu í æfilangt knattspyrnubann.  Ég fékk strákana til að skipta þrifum á ganginum með sér og þeir gerðu það bara nokkuð vel.  Rölti á Valsvöllinn um sjö og sá mínar stelpur tapa 0-2 fyrir Fylki þrátt fyrir að vera mun meira með boltann.  En maður vinnur víst ekki nema að koma tuðrunni oftar í net andstæðinganna.

24.6.14

Kaffi

Í þessum skrifuðum orðum er ég líka að hella mér upp á kaffi.  Búin að vera á fótum í hátt í þrjá tíma og fyrst núna að huga að kaffinu.  Ég er skrýtin skrúfa en mér finnst það í góðu lagi.  Gærdagurinn leið ógnar hratt eins og flestir dagar.  Skrapp í bankann upp úr tíu og fékk aðstoð hjá fyrirtækjaþjónustunni við að fella út íbúa sem er fluttur út og setja þann sem keypti plássið í staðinn. Hef enn ekki rekist á "nýbúann" því hann er sennilega ekki fluttur inn.  Þetta gekk fljótt og vel fyrir sig. Þá skrapp í fiskbúðina við Sundlaugarveg og keypti mér ýsu í soðið, bleikjuflök í frystinn, rúgbrauð og reyktan silung.  Fljótlega eftir hádegið hringdi ég í Böddu mína til að athuga hvort hún væri heima. Svo reyndist vera.  Hún sagðist vera frekar léleg en tæki alveg á móti gestum.  Þegar ég kom í blokkina hennar virkaði ekki dyrasíminn sem skyldi. Var svo heppin að það var að koma gömul kona sem hleypti mér inn.  Sú kona var reyndar á leiðinni á sömu hæð og ég því hún er víst nágranni Böddu.  Stoppaði í uþb eina og hálfa klukkustund og lofaði svo að kíkja fljótt aftur.  Og nú er kaffið tilbúið sterkt og gott.

23.6.14

Brosi hringinn, bara af því bara :-D

Í gærmorgun var ég mætt í kirkju óháða safnaðarins stuttu fyrir klukkan tíu, rúmri klukkustund fyrir síðustu messuna í sumar.  Þá var ég búin að vera á fótum í tvo og hálfan tíma.  Presturinn og organistinn voru mættir á staðinn og það kom einn tenór um leið og ég.  Í kórhópinn bættust svo við einn sópran, einn bassi og þrjár í altröddinni á næstu fimmtán mínútum eða svo.  Við áttum ekki að syngja í röddum, aðeins þrjá sálma og auðvitað messusvörin.  Það var líka ákveðið að við skildum sitja úti í kirkju í messunni og "stjórna" sálmasöng og svörum þaðan.  Ljósvakinn, Leifur Eiríksson, opnaði messuna en Geir Ólafs mætti einnig og tók tvö lög (í sálmastað), góða sveiflu og svo "Ó, sole mio" og fórst það vel úr hendi.  Vel rættist úr mætingunni og við vorum nokkur sem borðuðum gúllassúpuna eftir messu "í efra", þar á meðal fyrsti kórstjórinn minn í kirkjukórnum, Peter Maté.  Áður en ég kvaddi svo kórfélaga mína hitti ég á söngvarann og gerði eins og ég hef vanið mig á við alla sem koma og "framkvæma" eitthvað í messunni, þakkaði honum fyrir sönginn.  Í staðinn uppskar ég hlýlegt handtak og knús.  Kom heim rétt fyrir eitt.  Davíð Steinn var í göngu með pabba sínum en hinn bróðirinn svaf á sínu græna langt fram á dag.  Skildi þó ekki vera að hann hafi vakað og tölvast fram eftir öllu...

22.6.14

Bókum skilað

Sex af tíu bókasafnsbókum í fórum mínum voru að nálgast skiladag, samkvæmt e-mail skilaboðum frá Borgarbókasafninu.  Lokafresturinn var strax eftir helgi en ég hefði líka getað framlengt láninu um þrjátíu daga í gegnum gegnir.is.  Ég var búin að lesa fimm af þessum bókum og byrjuð á þeirri sjöttu. Sú bók var ekki að höfða til mín og ég ákvað að vera ekki að eyða meiri tíma í hana.  Um tvö í gær fór ég með þessar sex bækur og eina sem ég var búin að lesa af hinum fjórum og skilaði þeim í Kringlusafnið.  Tók þrjár bækur í staðinn og er því með sex bækur af safninu hjá mér.  Þrjár af þeim á að skila þann 7. n.m. þ.e. ef ég framlengi þá ekki frestinum.  Hef þó fulla trú á því að ég verði búin að lesa bækurnar fyrir tilskilinn tíma.  Áður en ég fór aftur heim kom ég við í hraðbanka til að ná mér í smá skotsilfur til að eiga í seðlaveskinu.

21.6.14

Örstutt um gærdaginn

Var komin á fætur fyrir klukkan hálfníu.  Ekkert sérstakt var á planinu en ég lauk við að lesa "Eða deyja ella" eftir Lee Child og kveikti auðvitað líka á tölvunni.  Um eitt setti ég á mig hjálminn, fór í úlpu án þess að renna lásnum og tók lykilinn af hjólalásnum með mér út.  Brösuglega gekk að opna lásinn því hann er orðinn svo stífur en það tókst þó á endanum.  Beygði til vinstri á Lönguhlíð og þegar ég fór stuttu seinna yfir á hinn hjólaslóðann hitt ég norsku esperanto vinkonu mína örstutt.  Hún var á leiðinni í strætóskýlið við Sunnubúð.  Við skiptumst á nokkrum orðum en svo hélt ég áfram.  Beygði til hægri á Miklubraut.  Hjólaði auðvitað eftir gangstéttinni þar.  Beygði svo aftur til hægri er ég kom að Kringlumýrarbraut.  Vegna e-s konar framkvæmda beygði ég svo enn og aftur til hægri nokkru áður en ég kom að stígnum sem liggur aftan við Öskjuhlíðina.  Komst þó fljótlega á þann stíg.  Mér var síður en svo kalt en smá vindur angraði annað eyrað.  Svo ég stoppaði við bekki fyrir neðan Fossvogskirkjugarð, slakaði á í nokkrar mínútur og naut sólarinnar áður en ég setti á mig eyrnaband undir hjálminn og kláraði hringinn.  Allt í allt tók þetta ferðalag uþb 50 mín.

20.6.14

Innipúki

Ég var sennilega svo glöð að "græða" einn dag í gær að ég notaði hann í alls konar dundur innivið.  Ég er langt komin með Lee Child bókina úr bókaklúbbnum og ég gleymdi mér í uppáhalds demantaleiknum svo dagurinn leið hjá heldur hratt.  Þar fyrir utan kláraði ég að horfa á þriðju seríuna af Scandal og horfði á tvo hm-leiki.  Það var  spilasession hjá strákunum.  Þeir ákváðu allir að panta sér pizzu svo ég slapp við að elda.  Ég greip meira að segja í saumana mína og vann aðeins að símamyndinni.  En ég hugsaði ekkert út í að fara út og viðra mig.  Það verður bætt úr því í dag.

19.6.14

Fimmti virki frídagurinn

Mér fannst sem snöggast eins og það væri kominn föstudagur.  Það getur bara ekki verið, hugsaði ég og hafði þar með rétt fyrir mér.  Það getur ekki komið föstudagur á eftir miðvikudegi, eða hvað? Annars er tryggingafélagið búið að borga hjólastuldinn.  Ég varð bara nokkuð sátt þegar ég kíkti í einkabankann á þriðjudagskvöldið.  Þetta var mun meira en ég þorði að vona og ég samdi við strákana um að þar sem ég sæi um að borga af tryggingunum fengi ég að halda smá hluta eftir.  Þeir fengu samt milli 70 og 80 þúsund hvor um sig.  Davíð Steinn örlítið meira þar sem hans hjól var dýrara á sínum tíma.  Bræðurnir báðu mig svo um að koma með sér í Elkó og ég valdi að fara í Kópavoginn.  Oddur Smári keypti sér fjarstýringu fyrir playstation tölvuna en Davíð Steinn fékk sér nýjan LG síma og kom ég aðeins inn í það dæmi því hann kostaði meira en heimildin hans.  Að þessum viðskiptum fórum við Oddur í Krónuna við hliðina en Steinn beið í bílnum.

18.6.14

Gönguferð í Heiðmörk

Ég held mig við það að vera komin á fætur í síðasta lagi um níu.  Þá er ég reyndar búin að fara framúr einu sinni, m.a. til að smyrja á mig hormónagelinu.  Eitt af því fyrsta sem ég gerði eftir að ég var klædd og komin á ról var auðvitað að kveikja á tölvunni.  Sat þó ekki of lengi við hana eftir að ég var búin að vafra smá, setja inn pistil dagsins og spila örfáar umferðir í demantaleiknum.  Tók svo til við að lesa í bókinni sem ég skrifaði um í gær.  Rétt upp úr hádegi uppgötvaði ég að ég var orðin frekar kaffiþyrst. Hellti því upp á og settist með fyrsta bollan fyrir framan tölvuna.  Þá sá ég að Lilja vinkona var viðlátin og ákvað að kasta á hana kveðju.  Hvorug okkar var með neitt sérstakt á prjónunum svo við ákváðum að hittast og gera þetta "ekkert" saman.  Sótti þessa vinkonu mína og við byrjuðum á því að koma hingað og fá okkur smá kaffi.  Svo kviknaði sú hugmynd að skreppa í Heiðmörk og fá sér smá göngu.

Fór Rauðhólameginn inn í Heiðmörk og þegar við komum að þar sem voru bílastæði báðum meginn við veginn beygðum við og lögðum í stæði hægra meginn.  Ég fór í gönguskó og úlpu og svo lögðum við af stað gamlan vegslóða.  Löbbuðum hvorki hægt né hratt og spjölluðum og spjölluðum.  Við gengum líklega í þrjú korter áður en við snérum við og í bakaleiðinni tókum við eftir skilti sem á stóð "Rangæingafélagið" sem okkur fannst heldur betur við hæfi, báðar Rangæingar.  Það rigndi á okkur allan tímann en það var enginn vindur svo við fundum varla fyrir þessu.  U.þ.b. einum og hálfum tíma eftir að við löbbuðum af stað komum aftur að bílnum.  Beygðum útaf stæðinu til hægri og komum svo "út" Vífilstaðameginn.  Þaðan lá leiðin til Lilju sem bauð mér upp á gott kaffi, hafrakökur og enn meira spjall.  Kvaddi hana upp úr hálfsex og hitti fólk í anddyrinu sem ég kynntist á Veghúsatímabilinu.

17.6.14

Þjóðhátíðardagur Íslands

"Eða deyja ella", þar kom að því að ég gæti ekki hamið mig lengur og tæki mér þessa bókaklúbbsbók, eftir spennusagnahöfundinn Lee Child um Jack Reacher, í hönd.  Ég byrjaði reyndar á henni seint á sunnudagskvöldið og það var með herkjum að ég gæti lagt hana frá mér aftur.  Það tókst þó einhvern veginn og af því að ég var búin að uppgötva þriðju þáttaröðina um Oliviu Pope (Scandal) á skjá frelsi og var líka að horfa á HM sem og að vafra á netinu, þá las ég lítið meir fyrr en ég skreið upp í á tólfta tímanum í gærkvöldi.  Ég er búin að lesa um 100 blaðsíður og á tæplega 400 eftir.  Vafra minna og lesa meira verður mottóið í dag.

16.6.14

Komin heim í bili

Klukkan var eitthvað um hálfátta þegar ég rumskaði fyrst í gærmorgun.  Hefði eiginlega þurft að fara fram og tæma blöðruna en í staðinn smurði ég á mig gelinu og þegar það var þornað tókst mér að finna stellingu og sofna aðeins aftur.  Fór á fætur um hálftíu.  Fann eldri systurdóttur mína inni á baðherberginu og bauð henni að nota herbergið "mitt".  Hina systurdóttur mína fann ég svo í eldhúsinu að leika sér með leikfangagrasker en hún var líka með heyrnartól að hlusta á mússík.  Davíð Steinn kom fram skömmu síðar.  Honum leist ekkert að rigninguna en ég held að hann hafi skroppið í smá göngu á endanum.  Þeim bræðrum bauðst svo að fara með mági mínum upp úr hádegi að prófa að skjóta á dósir með riffli.  Oddur Smári var ekki nógu vel fyrir kallaður og sagði nei takk en Davíð Steinn sló til og kom afar glaður til baka.  Hann hafði hitt í um 80% tilfella sem er bara nokkuð gott miðað við að hann var að prófa í fyrsta skipti.

Eftir kaffi tókum við mæðgin okkur saman, kvöddum og héldum heim á leið.  Kveikti strax á sjónvarpinu er ég kom heim og var fyrri hálfleikur í leik Íslands og Bosníu-Hersegóvínu í handbolta karla hálfnaður.  Mér tókst samt ekki að horfa alveg á allan leikinn, gat það bara ekki.  Þess í stað labbaði ég bara af stað á Valsvöllinn í fyrra fallinu.  Þar tóku Valsstrákarnir á móti strákunum í Víkingi og tókst að klúðra því.  Voru á undan að skora en fengu á sig jöfnunarmark strax í næstu sókn gestanna og svo skoruðu gestirnir eina markið sem kom í seinni hálfleik og unnu 1-2.  Það var bara eins og "strákarnir" mínir hefðu ekki alveg nógu góða trú á verkefninu.  Vonandi gera þeir betur næst en það eru tveir útileikir framundan við sterk lið.

15.6.14

Sunnudagur

Í gærmorgun var ég komin fram úr og klædd fyrir hálfníu og þá búin að bera á mig gelið og bíða eftir að það þornaði nokkru áður. Pabbi og Davíð Steinn komu fram stuttu seinna en ég hef nú grun um að sá fyrrnefndi hafi verið löngu vaknaður.  Við fengum okkur morgunmat.  Ég var búin að kveikja á tölvunni og dreif mig í að skrifa svarbréf, til danskra hjóna sem voru hér fyrir nokkrum misserum, fyrir pabba og mömmu.  Danska konan er systir manns sem var undir ráðsmennsku pabba á Geldingalæk á sjöunda áratug síðustu aldar.  Bréfið frá dönsku hjónunum var eins konar boðsbréf til Danmerkur í tilefni afmælis mömmu í næsta mánuði.  Þau fylgjast greinilega vel með.  Verst að mamma hefur enga heilsu í að ferðast.

Rétt fyrir klukkan eitt fóru pabbi og Davíð Steinn upp að Þingskálum að ræða um örnefni á staðnum við ábúandann.  Oddur var nývaknaður en hann tók það að sér að vera hjá ömmu sinni.  Ég skrapp nefnilega austur í Hvolsvöll að hitta mömmu hennar Lilju vinkonu aðeins.  Ég fann Selmu úti í garði að reita arfa.  Við settumst inn í gróðurhús og hún bauð upp á kaffi og pönnsur og gott spjall.  Áður en ég fór gaf hún mér slatta af frosnum rabbarbara og rifsberjum.  Kom til baka um þrjú og setti kaffið af stað.  Oddur sagði að amma sín hefði bara verið mjög þæg.

Seinna um daginn kom systir mín og dætur hennar ofan úr Gunnarsholti þar sem þær höfðu skilið mág minn eftir en hann fór á tófu með frænda okkar.  Pabbi og Davíð Steinn komu rétt á eftir mæðgunum.

Og svo heldur HM-veislan áfram.  Úrslitin eru svo sannarlega ekki alltaf eftir bókinni.

14.6.14

Laugardagur í sveitinni

Ég er enn staðráðin í að nýta sumarfríið mitt sem best og lengst og var því komin á fætur fyrir níu eftir að hafa farið í sturtu um átta og smurt á mig gelinu í gærmorgun.  Rétt fyrir hálftíu bankaði ég á dyrnar hjá tvíburanum sem er að vinna í góðum markmiðum.  Í ljós kom að hann var rétt ókominn á fætur.  Eftir morgunmat fékk hann lánað hjólið mitt og hjólaði flugvallarhringinn á því með smá pásu einhvers staðar á leiðinni á tæpri klukkustund.  Ég kveikti aftur á móti á tölvunni.  Hinn tvíburinn kom fram á svipuðum tíma og "morguninn" áður.

Um hálftvö vorum við mæðgin búin að taka okkur til og sest út í lánsbílinn.  Fyrst lá leiðin að Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg og tankurinn fylltur þótt rúmlega hálfur væri.  Næst fórum við með næstum útfylltar tilkynningar um hjólastuldinn á lögreglustöðina við Grensásveg.  Við vorum hvött til að skreppa í GÁP, þar sem hjólin voru keypt fyrir fjórum árum til að fá þá til að fletta upp stellnúmerunum.  Sá sem afgreiddi okkur þar var ekki frá því að hann hafi selt drengjunum hjólin á sínum tíma.  Við fengum útprentað það sem til var um sölu hvors hjóls og fórum með það aftur á Grensásveginn.  Þar skrifaði ég stellnúmerið á tilkynningarnar, fékk ljósrit af þeim og fékk að halda blöðunum frá GÁP.  Með þetta fórum við í VÍS í Ármúlanum þar sem ég lagði þetta inn í tjónadeild.  Þá var klukkan langt gengin í þrjú.

Vorum mætt á Hellu rétt um fjögur og komum beint í kaffi til pabba og mömmu.  Ég fékk svo leyfi til að kveikja á sjónvarpinu og horfa á HM með lágt stillt á.  Leikirnir í gær voru ótrúlegir og ég var alls ekki sannspá um úrslitin nema í þeim leik sem var um tíu og sýndur í læstri dagskrá á Stöð 2 Sport 2.  Hollendingar sýndu frábær tilþrif í seinni hálfleik við Spánverja og þeir síðast nefndu vissu varla hvaðan "á þá stóð veðrið..."  Gaman að því þótt ég fyrirfram hafi ég verið viss um spánskan sigur eins og margir aðrir.

13.6.14

Dagurinn tekinn tiltölulega snemma

Fyrsta virka frídaginn minn, í gær, var ég komin á fætur um átta.  Kveikti auðvitað á tölvunni og var m.a. af vafra á netinu þar til annar strákurinn kom fram um níu.  Þá fékk ég mér loks morgunmat.  Um leið og pilturinn var búinn að borða fór hann út í göngu til að prófa nýju skóna.  Hann kom aftur um klukkustund síðar afar ánægður.  Þá var ég að ljúka við að búa til smá kaffi.  Hinn strákurinn kom ekki á fætur fyrr en á tólfta tímanum en hann hafði líka farið frekar seint að sofa skilst mér.

Um eitt dreif ég mig í að sinna nokkrum nauðsynlegum erindum.  Lagði lánsbílnum við Njálsgötu rétt við Rauðarárstíg og labbaði þaðan á lögreglustöðina við Hlemm.  Þar fékk ég tvö eyðublöð til útfyllingar vegna hjólahvarfsins.  Tók blöðin með mér.  Næst lá leiðin í Brimborg.  Fór næstum beint til manns frænku minnar sem vinnur þarna og sagðist vera að sækja pakka fyrir pabba og spurði hvort hægt væri að nota ferðina til að setja peru í hægra bremsuljósið.  Við fundum pakkann og svo sagði hann mér að koma á lánsbílnum inn um fyrstu stóru dyrnar hægra meginn þegar maður er á útleið.  Hann lét mig stoppa rétt fyrir innan og stíga á bremsuna til að vera viss um um hvort ljósið væri að ræða.  Svo setti hann pakkann í skottið og fékk mann til að skipta um peru.  Þetta tók um tíu til fimmtán mínútur og svo sagði hann að "sá gamli" (pabbi) væri örugglega búinn að borga þessa viðgerð og ég fékk að keyra í gegnum húsnæðið og út að aftan.  Á leiðinni heim ætlaði ég að kíkja heim til hennar Böddu minnar en hún virtist ekki vera inni við.

Annars leið þessi fyrsti frídagur alltof hratt en ég varð spenntari og spenntari eftir því sem nær dró kvöldinu.  HM-opnunarleikurinn bauð upp á margt og það eina sem ég var ósátt við var hversu vafasamur vítadómurinn var og hve sá brasilíski féll með miklum tilþrifum.  Ég spáði 2-1 sigri heimamanna á minni síðu á leikir.betra.is og fæ fyrir það 4 stig af fimm, 3 stig fyrir rétt úrslit og 1 fyrir að hafa aðra markatöluna rétta.

12.6.14

Fyrsti virki dagur í fríi í dag

Framundan eru fimm vikur í sumarfrí, 35 dagar og 24 virkir þar af.  Það gæti alveg farið svo að einhverja af þessum dögum verði ég hvergi nálægt tölvu og því er hætt við að ekki komin inn pistill alveg daglega.  Það gæti líka hent sig að þótt ég væri í námunda við tölvu og net kæmi ég því samt ekki í verk að setja inn einhverja færslu.  Sjáum bara til með það allt saman.  Kannski verður einhver regla á þessu og kannski verður þetta bara óskipulagt kaos.

Ég hjólaði sömu leið til vinnu í gærmorgun og á þriðjudaginn var, raulandi einhvern lagstúf að sjálfsögðu.  Nóg var að gera í vinnunni og dagurinn leið afar hratt.  Er búin að flytja allt af gamla staðnum og úr gamla skrifborðinu, mundi eftir að stilla á sjálfvirkan svarpóst áður en ég slökkti á vinnutölvunni minni og kvaddi stelpurnar vel og vandlega.  Hjólaði svipaðaða leið heim og í vinnuna nema ég fór meðfram flugvellinum austan meginn og hjólaði framhjá Valsvellinum.

Þegar heim kom byrjaði ég á því að hringja og spjalla aðeins við pabba.  Kveikti svo á tölvunni.  Rétt rúmlega fimm skruppum við strákarnir á skór.is í Kringlunni þar sem ég keypti á þá létta "götustrigaskó" fyrir sumarið.  Verð svo að fara aðra ferð seinna til að finna skó á mig svo ég geti sparað "spariskóna" mína.  Hafði steikt slátur og steikta lifrarpylsu með soðnum kartöflum í matinn.  Oddur gekk frá á eftir og setti uppþvottavélina í gang.  Kvöldið fór svo aðallega í tölvuna.

Opnunarleikurinn á HM í knattspyrnu karla fer fram í Braselíu í kvöld, milli gestgjafanna og Króatíu.  Það er bara veisla næsta mánuðinn.  Að sjálfsögðu mun ég eitthvað fylgjast með þessu móti en ætla samt að passa mig á því að það komi ekki niður á neinu öðru spennandi sumarfrísverkefnum.

11.6.14

Fimm vikna sumarfrí frá og með morgundeginum

sjálsögðu notaði ég hjólið milli heimilis og vinnu í gær.  Fór aðeins aðra leið í vinnuna.  Hjólaði út Eskihlíðina og undir brýrnar undir Bústaðaveginn.  Hjólaði svo gangstéttina fram að brú númer tvö þar sem maður kemur að Hljómskálagarðinum.  Hjólaði í gegnum hann, meðfram tjörninni og Lækjargötuna að Kalkofnsvegi.  Lagði hjólinu í bílakjallarann undir seðlabankanum.  Þetta var afar hressandi og það er segin saga að þegar ég er komin á ferðina stend ég sjálfa mig að því að vera allt í einu farin að syngja hástöfum.  Vinnudagurinn leið annars nokkuð fljótt.  Það var hellidemba úti um fjögur leytið en ég lét það ekki á mig fá.  Hjólaði stystu leið án þess að þurfa að hjóla miklar brekkur.  Hengdi svo úlpuna upp yfir baðkarinu og fór í þurrar buxur.  Hafði hakk og spakk í matinn.  Við Oddur horfðum á Castle og ég svo á seinni hluta af sakamálaþætti eftir tíu fréttir.

10.6.14

Demba

Var komin á fætur á svipuðum tíma í gærmorgun og á hvítasunnudagsmorgunn.  "Fann"  pabba í eldhúsinu að leggja kapalinn 10,20,30.  Fékk mér asea og spjallaði svo um stund við pabba og fylgdist með kaplinum hjá honum.  Eftir rúmar tíu mínútur fór ég og tannburstaði mig og þá gat ég loksins fengið mér morgunmat, ab-mjólk með "mömmumuslí" (tvenns konar blanda sem ég kann ekki að segja frá).  Fljótlega eftir tíufréttir fór pabbi að leggja sig aftur svo ég fór í tölvuna hans.  Seinna tók ég aðeins fram saumana mína og ég lauk einnig við að lesa eina bókasafnsbók.  Um eitt hringdi frændi okkar mömmu að boða sig og konuna í heimsókn.  Þau birtust um fjögur leytið.  Þegar þau fór tveim tímum seinna var mamma alveg búin á því og bað mig um að sjá um kvöldmatinn svo pabbi gæti horft á allar kvöldfréttirnar.  Það var auðsótt mál.  Hafði hluta af kjötbollunum sem ég bjó til með henni um daginn og sauð kartöflur með.  Fékk mér einn kaffibolla eftir mat og kvaddi svo á níunda tímanum.  Strákarnir voru komnir heim nokkru á undan mér.  Við Oddur Smári horfðum saman á Leverage og CSI.

9.6.14

"Í sveitinni"

Var komin á fætur um níu leytið í gærmorgun.  Hitti nágrannann minn af neðri hæðinni þegar ég var að kom upp frá því að ná í þvottinn.  Hann sagðist hafa tilkynnt lögreglunni um horfnu hjólin og fullyrti að þau hefðu verið læst.  Þá ætti heimilistryggingin mín að ná yfir þetta.  Morguninn fór annars í lestur og tölvu.  Upp úr tólf tók ég mig til, klæddi mig í betri flíkur, varalitaði mig og fór með flugfreyjutösku, hliðartösku, handavinnutösku og sálmabók út í bíl.  Mætti fyrst í kirkjuna um eitt til að hita upp með kórstjóranum og sjö af kórsystkynum mínum fyrir hvítasunnumessuna.  Það leit út fyrir lélega mætingu þannig að ákveðið var að kórinn sæti í kirkjunni.  Það rættist nú aðeins úr mætingunni, held að með kórnum og meðhjálpara hafi setið um 17 úti í kirkju.  Eftir notalega stund fékk ég mér smá kaffisopa áður en ég lagði í hann beint austur.  Var komin á Hellu rétt fyrir hálffimm og opnaði mamma fyrir mér, fannst ég sennilega lengi að koma mér úr bílnum.  Knúsaði báða foreldra mína og fékk mér svo kaffi úr vélinni eftir smá spjall.  Hélt auðvitað áfram að spjalla.  Afgangurinn af deginum leið jafn hratt og fyrri helmingurinn en ég var komin í rúmið um hálfellefu og las í uþb klst.

8.6.14

Hvítasunnudagur

Ég var ósköp löt á fætur í gærmorgun.  Rumskaði fyrst um átta og svo um níu og um hálftíuleytið greip ég í bók og fór frekar að lesa heldur en að klæða mig strax.  Tíminn flaug afar hratt og þegar dyrabjallan glumdi um hálftólf var ég enn óklædd og að lesa.  Þá dreif ég mig á fætur en þó ekki nógu fljótt til að opna fyrir þeim sem hringdi bjöllunni.  Það gæti reyndar verið að um nágranna minn af neðri hæðinni hafi verið að ræða því Hann hringdi svo aftur um tvöleytið til að láta mig vita af undarlegu en afar leiðinlegu máli.  Þegar ég afhenti honum skúrinn í vetur setti hann öll hjólin okkar mæðgina í geymsluna sína undir útitröppunum.  Mitt hjól var komið út og í reglulega notkun á milli þess sem það er læst við grindverkið í heimreiðinni.  Hjól strákanna voru smávegis biluð og við strákarnir vorum búin að tala um að fara með þau í viðgerð fljótlega.  Oddur Smári var samt alvarlega að spá í að selja sitt hjól þar sem hann notaði það afar lítið.  Nágranninn tók út hjólin í gær og gerði heiðarlega tilraun til að pumpa í lin dekkin en ég veit að annað dekkið á hjólin hans Davíðs Steins var sprungið.  Hjólunum var still upp við húsið rétt við þar sem maður kemst inn í kjallarann.  Þau voru ekki læst en nágranninn var á vappi og heima við.  Engu að síður voru hjólin allt í einu horfin.  Það er búið að stela hjólum strákanna sem þeir keyptu sér fyrir hluta af fermingarpeningum sínum fyrir fjórum árum.  Enginn varð var við neitt en það hefur varla verið hægt að hjóla á þeim í burtu og líklega um að ræða fleiri en einn þjóf.  Það er ósennilegt að þau komi í leitirnar og þar sem þau voru ekki læst fást þau varla tryggð.  Einhvern veginn verð ég samt að bæta strákunum mínum upp þetta tap.

Eftir að hafa kannað þá ólíklegu atburðarrás að strákarnir hefðu sjálfir náð í hjólin og þá látið þá vita hvers kyns var þá settist ég upp í lánsbílinn og keyrði heim til systur minnar án þess að hringja á undan mér.  Mágur minn var úti að þvo bílinn og sagði að systir mín og yngri dóttirin væru ekki heima.  Hann hringdi í Helgu en hún var ekki alveg á leiðinni heim svo hann geymdi sér það að bóna bílinn og bauð mér inn í smá kaffi.  Þar hitti ég eldri dóttur þeirra í smá stund.  Stoppaði í á aðra klukkustund og kom svo við í Krónunni á Höfða og Hagkaup í Skeifunni.  Á síðarnefnda staðnum hitti ég einn frænda minn sem er nýbakaður faðir.  Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að knúsa hann og spjalla smá og hver veit nema ég kíki á nýbökuðu foreldrana og litlu frænku mína við tækifæri.

7.6.14

Rólegheit

Fór hjólandi í vinnuna í gærmorgun.  Var á stuttermabol innan undir úlpunni og með peysu til öryggis í bakpokanum.  Ætla mér ekkert frekar að rekja vinnudaginn en hann gekk svo sem ekki alveg snuðrulaust fyrir sig.  Það var þó allt daglegt búið fyrir klukkan fjögur svo ég komst af stað heim á réttum tíma.  Slakaði örstutt á er heim kom og spjallaði við mömmu á meðan.  Síðan dreif ég mig á bókasafnið í Kringlunni að skila bókinn sem komin var á lokadag.  Skilaði annarri í leiðinni og að þessu sinni fór ég ekki tómhent heim þótt heima væru enn ólesnar bæði bækur af safninu sem og úr klúbbnum og önnur jólagjöfin.  Það komu fjórar bækur með með mér heim.  Var aðeins of sein að hafa til kvöldmatinn sem kom svo sem ekki að sök nema það að ég nennti ekki að bruna á bikarleik í Mosfellsbæ milli Aftureldingar og Valskvenna fyrir vikið.  Sá leikur fór 2-4 fyrir mínum stelpum en þær úr Aftureldingu komust tvisvar yfir.  Strákarnir fóru til pabba síns upp úr tíu í gærkvöldi og verða þar fram á mánudag.  Ég var komin í rúmið fyrir miðnætti og las og las.  Kláraði eina bók og byrjaði á annarri.  Fór samt ekkert svo seint að sofa.

6.6.14

Löng helgi framundan

Ég mætti hjólandi til vinnu rétt fyrir átta í gærmorgun of hjólaði svo ekki af stað heim fyrr en klukkan var byrjuð að ganga sjö um kvöldið.  Í millitíðinni gerðist margt en stór hluti af tímanum fór í bið eftir að ljúka við venjulegan dag.  Bið eftir að vélinni yrði komið í lag en hún bilaði nokkuð alvarlega upp úr miðjum morgni.  Þetta tókst svo allt á endanum en við vorum tvær sem tókium vaktina eftir fjögur og fórum ekki heim fyrr en búið að ganga frá öllum lausum endum.  Hér heima átti að vera spilakvöld og var það undirbúið.  Oddur sá um að hita vorrúllur og fékk ég tvær af þeim, slapp semsagt við að elda. Ekkert varð úr spilakvöldinu en það voru þó tveir vinir mættir. Upp úr hálfníu hringdi ég í fyrrum vinnufélaga og vinkonu og þar sem hún var heima dreif í mig til hennar, í og með, til að sækja "Skálholtsdiskinn" minn sem fór óvart með í jólapakkann til hennar.  Örstutt stopp varð að einum og hálfum tíma og ég fékk alveg helling út úr þessum hitting.

5.6.14

Styttist í sumarfrí

Ég var ákveðin í að heimsækja hana Böddu mína á Landakot eftir vinnu í gær svo ég fór á lánsbílnum í vinnuna.  Í vinnunni gekk allt á afturfótunum en sem betur fer náðist að ljúka öllu fyrir klukkan fjögur og þar að auki sendum við maítölurnar frá okkur.  Var komin á Landakot rétt rúmlega fjögur.  Greip í tómt í fyrstu en ég var viss um að gamla konan væri ekki langt undan þótt ég fyndi hana hvergi í fyrstu.  Þar sem ég dokaði við fyrir framan herbergisnúmerið hennar sá ég hana svo koma út af snyrtingunni.  Við settumst niður í hvorn sinn stólinn á ganginum og röbbuðum saman um eitt og annað.  Svo birtist sonur hennar en hann átti að vera á frívakt en hljóp í skarðið fyrir einn vörðinn.  Frændi minn stoppaði um stund hjá okkur en svo þurfti hann að fara að sinna skyldum sínum.  Ég kvaddi ekki Böddu fyrr en um hálfsex þegar kallað var í kvöldmat. Sjálf byrjaði ég strax að sinna kvöldmatargerð þegar ég kom heim.  Setti upp kartöflur og grænmeti, kryddaði fjóra laxabita með gott á fiskinn og setti í ofninn.  Þetta þótti bara mjög gott og svo var afgangur sem ég get nýtt mér til að taka með mér í vinnuna.

Ég er annars búin að fá skilaboð frá bókasafninu um að skiladagur á skammtímalánsbókinni nálgast.  Þarf að skila bókinni í síðasta lagi á morgun en það á alveg að ganga upp því ég á bara örfáa kafla eftir ólesna.  Ég er líka búin að fá nýja bókaklúbbsbók senda heim og ég sem er ekki byrjuð á þeirri sem kom í mars, hef reyndar verið að spara hana.  Veit að hún er góð og ætla mér að lesa hana í sumarfríinu sem ég byrja í eftir viku eða svo.

4.6.14

Aftur á völlinn

Hjólið var notað milli heimilis og vinnu í gær.  Vinnudagurinn verður ekki rakinn hér, hann leið fljótt við ýmis störf og svo var klukkan allt í einu orðin fjögur.  Fór aðeins lengri leið heim heldur en í vinnuna og var að koma heim um fimm.  Kastaði mæðinni um stund.  Hringdi í pabba og kveikti svo á tölvunni. Upp úr sex var ég búin að sjóða kartöflur og steikja slátur og lifrapylsusneiðar.  Um sjö trítlaði ég á Valsvöllinn.  Þar hitti ég eina sem er í stjórn óháða safnaðarins og ég gerði nokkuð sem ég geri yfirleitt aldrei, ég settist hjá henni og vinkonu hennar, gestameginn í stúkunni.  Þær styðja nefnilega Breiðablik og átti vinkonan dóttur í liðinu.  Það að sitja "öfugu" meginn kom ekki að sök hvað úrslitin varðar, Valsstelpurnar unnu leikinn 3-1.  Í hálfleik fengur stelpur í 4. og 5. flokki verðlaunapeninga og bikar fyrir að sigra í sínum flokkum á Reykjavíkurmótinu.  Gaman að því.  Þegar ég kom heim af leiknum horfðum við Oddur á Castle á tímarásinni.

3.6.14

Aðeins ein upprisa en það var nóg

Ég var vöknuð rétt upp úr sex í gærmorgun.  Skrapp fram að ná í fjölmiðlamælinn, fá mér asea, pissa og endaði svo að fara í sturtu áður en ég skreið aðeins upp í aftur.  Ætlaði að reyna að kúra fram yfir sjö en þar sem ég sofnaði ekki aftur las ég um stund í bókinni sem þarf að skila á föstudaginn.  Hlustað eftir Jón Óttar Ólafsson, fyrsta bók höfundar og fjallar um rannsókn á dauða fyrrum fíkils. Rannsakandinn rekst á marga veggi og ég er að verða spennt að fá að vita hvort maður fær að vita hver sé sekur.

Um sjö leytið dreif ég mig á fætur, fékk mér morgunmat, gríska jógúrt með krækiberjum og musli og drakk svo eitt glas af rauðrófusafa.  Fór á lánsbílnum í vinnuna.  Fram að kaffi sá ég um að tvær að samstarfskonum mínum fengju æfingu og leiðsögn í mánaðamótauppgjöri bókhaldsins.  Einnig kenndi ég þeim hvernig maður færir óframleiddar endurnýjunarskrár yfir mánaðamót ef ekki tekst að ljúka allri endurnýjun áður en þarf að loka uppgjörinu.  Eftir kaffi fór ég á vélina að "troða í" og eftir hádegi var ég að taka á móti og skoða kortin.

Strax eftir vinnu heimsótti ég Böddu mína á Landakot og stoppaði hjá henni til klukkan að verða hálfsex.  Svo kom ég við í Krónunni áður en ég fór heim til að kaupa meira af rauðrófusafa.  Stoppaði heima í svona klukkustund.  Strákarnir borðuðu afgang af kvöldmatnum frá því kvöldið áður.  Um sjö rölti ég út á Valsvöll og sá valsstrákana vinna Fylki 1-0.  Mínir menn áttu þó mun fleiri skot á rammann, held að markvörður Fylkis hafi varið fjóra bolta.  Á vellinum hitti ég fyrrum samstarfskonu mína.  Hún mætti í seinni hálfleik en sonur hennar var á öllum leiknum og ég hafði séð hann og sest hjá honum áður en leikurinn hófst.

2.6.14

Heil vinnuvika framundan

Þetta var gott hjá mér.  Póstaði titlinum áður en ég var búin að skrifa pistil dagsins.  Gærdagurinn var annars rólegheita dagur.  Fór hvorki seint né snemma á fætur.  Var vöknuð fyrir níu og byrjaði daginn eins og ég endaði laugardagskvöldið á því að lesa um stund.  Var komin á fætur löngu fyrir ellefu.  Kveikti auðvitað á tölvunni og vafraði og lék mér án þess að spá nokkuð í tímann.  Strákarnir voru sofandi.  Annar þeirra vaknaði svo um eitt.  Nokkru eftir það hellti ég loksins upp á kaffi og á meðan brúsinn var að fyllast smátt og smátt bjó ég til vöffludeig og vonaði að kaffi- og vöffluilmurinn myndi vekja hinn tvíburann.  Sá kom reyndar ekki fram fyrr en ég var uþb að taka síðustu vöffluna úr járninu.  Ég hringdi bæði í pabba og systur mína en svo fór dagurinn að mestu í lestur og netvafr- og leiki.  Hafði lasanja í kvöldmatinn og notaði afgang af grjónum og gulum baunum út í.  Sú tilraun heppnaðist bara vel.

1.6.14

Splunkunýr mánuður hafinn

Þótt ég rumskaði fyrst um sjö og færi fram til að létta á blöðrunni og fá mér asea þá skreið ég upp í aftur og komst ekki á fætur fyrr en klukkan var farin að ganga tíu.  Þá byrjaði ég auðvitað á því að kveikja á tölvunni, vafra svolítið á netinu og spila uppáhalds netleikina mína.  En rétt fyrir klukkan ellefu dreif ég mig yfir til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún bauð mér upp á hægeldaðan hafragraut, kaffi og bláberjamúffu.  Í stað þess að grúska svo í tungumálinu tilbúna grúfðum við okkur yfir krossgátu úr Birtublaðinu frá síðustu helgi.

Þegar ég fór frá Inger, stuttu fyrir hálfeitt, lá leiðin í Krónuna við Granda.  Þar hitti ég eina úr deildinni minni.  Ég var frekar hissa því hún býr í Breiðholtinu.  Hún og mamma hennar höfðu verið að leita að einhverjum stað í miðbænum og ákveðið að skella sér svo að versla.  Gaman að því.  Þegar ég lagði í stæði fyrir utan númer nítján ákvað ég að hringja í Odd og biðja hann um að sækja pokana þrjá.  Vakti víst strákinn en hann kom með glöðu geði, tók pokana og gekk frá vörunum á meðan ég rölti út í Hlíðaskóla til að nota atkvæðið mitt.  Að því loknu kom ég við í Sunnubúðinni og keypti smávegis sem ég hafði gleymt að kaupa í Krónunni.

Annars fór dagurinn í lestur og netvafr.  Davíð Steinn sá um að taka til kvöldmatin og Oddur Smári gekk frá eftir matinn.  Gott að eiga svona góða og duglega syni.